Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40/2021 Ægisgata, Stykkishólmi

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 18. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 39/2020, kæra vegna dráttar á afgreiðslu erinda um meintar óleyfisframkvæmdir.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. mars 2021, er barst nefndinni 30. s.m., kæra lóðarhafi Ægisgötu 3, og agustson ehf., lóðarhafi Austurgötu 12, Stykkishólmi, drátt á afgreiðslu erinda kærenda, sem ítrekuð voru með bréfi, dags. 26. febrúar 2021, um að framkvæmdir á lóðamörkum Ægisgötu 1 og 3 verði stöðvaðar, stoðveggir fjarlægðir og lóð færð í náttúrulegt horf. Þá er þess krafist að bæjarstarfsmönnum verði veitt áminning vegna háttsemi sinna. Skilja verður málskot kæranda svo að einnig sé krafist að lagt verði fyrir byggingarfulltrúann í Stykkishólmsbæ að taka fyrrgreint erindi kæranda til efnislegrar afgreiðslu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Stykkishólmsbæ 13. apríl 2021.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar 6. maí 2019 var samþykkt byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi að Ægisgötu 1. Í lok nóvember 2019 mun kærandi, eigandi Ægisgötu 3, hafa haft samband bréflega við bæjaryfirvöld í Stykkishólmsbæ vegna framkvæmda á lóðamörkum Ægisgötu 1 og 3. Í bréfinu kom fram að kærandi teldi steypta veggi á lóðamörkum vera of háa og of nálægt lóðamörkum. Þá vakti kærandi athygli á að til stæði að breyta hæð lóðarinnar. Með tölvupósti til bæjarstjóra Stykkishólmsbæjar 8. janúar 2020 var þess krafist að allar framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Byggingarfulltrúi tók málið til skoðunar og í bréfi hans til kæranda, dags. 20. janúar 2020, kom fram að girðingar á lóðamörkum við Ægisgötu 1 væru ekki í samræmi við reglur og að framkvæmdir við þær hefðu verið stöðvaðar. Um fjórum mánuðum síðar kærði lóðarhafi Ægisgötu 3 drátt á afgreiðslu erinda um stöðvun framkvæmda og að girðing verði fjarlægð. Með úrskurði uppkveðnum 29. maí 2020 í kærumáli nr. 39/2020 var málinu vísað frá þar sem erindinu hafði verði svarað og upplýsingar frá sveitarfélaginu gáfu til kynna að málinu yrði fylgt eftir.

Í kjölfar þessa voru framkvæmdar frekari mælingar á Ægisgötu 1 og lóðarhafa veittur frestur til þess að gera grein fyrir því hvernig gengið yrði frá lóð og lóðarmörkum í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. desember 2020 var samþykkt umsókn um færslu og breytingu á staðsetningu lóðarveggja á lóðinni Ægisgötu 1, auk uppsetningu glerhandriða. Einnig var samþykkt niðurrif og færsla á lóðarveggjum sem þegar höfðu verið steyptir. Umsóknin hafði verið grenndarkynnt frá 18. september til og 16. október 2020. Kærendur kröfðust upplýsinga frá skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Stykkishólmsbæjar með bréfum, dags. 18. janúar og 1. febrúar 2021. Þeim bréfum var svarað af byggingarfulltrúa með bréfi dags. 5. febrúar s.á. Kærendur sendu byggingarfulltrúa annað bréf, dags. 17. s.m., og kröfðust þess að byggingaryfirvöld fjarlægðu stoðveggi að því marki sem þeir væru á röngum stað og of háir, svo og fjarlægðu jarðvegsfyllingu og færðu lóðina í náttúrulegt horf. Ítrekuðu kærendur bréf sitt með erindi 26. s.m. og var afrit sent á bæjarstjóra og skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins. Bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar svaraði erindi kæranda með bréfi, dags. 10. mars 2021.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda kemur fram að eftir uppkvaðningu úrskurðar 29. maí 2020 sé málið enn í nákvæmlega sömu stöðu, þ.e. byggingarfulltrúi hafi ekkert aðhafst. Kærendur hafi ítrekað sent byggingarfulltrúa bréf og krafist þess að stoðveggir yrðu fjarlægðir og lóðin færð í náttúrulegt horf. Byggingarfulltrúi vísi ítrekað til samkomulags milli lóðarhafa Ægisgötu 1 og Austurgötu 12 þess efnis að lóðarhafi Austurgötu 12 hafi samþykkt stoðvegg. Staðreyndin sé sú að lóðhafi Austurgötu 12 hafi einungis samþykkt tengingu við þróarvegg en ekki hæð veggja eða að þeir yrðu það háir að þeir yrðu leyfisskyldir.

Kæran sé byggð á 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 9. gr. laganna felist áskilnaður um að aldrei megi vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Þá sé í 4. mgr. 9. gr. heimild til að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls. Kæran lúti að athafnaleysi og óásættanlegri háttsemi bæjarstarfsmanna. Sé þess krafist að þeim verði veitt áminning vegna háttsemi þeirra ef þeir aðhafist ekki án tafar og sinni þar með skyldum sínum.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Af hálfu Stykkishólmsbæjar er tekið fram að búið sé að svara öllum erindum kærenda nema bréfum, dags. 17. og 26. febrúar 2021. Bæjarstjóri hafi raunar svarað bréfinu frá 26. febrúar 2021 með bréfi 10. mars s.á. að því leyti sem það snúi að honum. Byggingarfulltrúi telji sig hafa svarað flestum ef ekki öllum þeim atriðum sem beint sé til hans í þessum bréfum. Byggingarfulltrúi muni hins vegar svara þessum bréfum formlega svo fljótt sem verða megi.

Hvað varði kröfu um að starfsmönnum verði veitt áminning þá séu í fyrsta lagi engar efnislegar forsendur fyrir slíkri áminningu. Unnið hafi verið að málinu af heilindum og í samræmi við ákvæði laga. Bærinn hafi þar að auki reynt að leita samkomulags með aðilum en ekki haft erindi sem erfiði. Í öðru lagi yrði að beina slíkri kröfu að einstökum starfsmönnum og veita þeim tækifæri á að tjá sig um þær persónulega væri slík krafa tæk. Í þriðja lagi og síðasta lagi, og það sem geri útslagið, hafi nefndin ekki valdheimildir að lögum til að veita slíkar áminningar.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða breytir efni ákvörðunar. Þá hefur úrskurðarnefndin ekki heimild að lögum til þess að veita stjórnvöldum eða starfsfólki þeirra áminningar. Með vísan til 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er hins vegar hægt að kæra drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til og verður því tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa í Stykkishólmsbæ að taka erindi kærenda til efnislegrar afgreiðslu.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu hafa kærendur um margra mánaða skeið beint athugasemdum til stjórnvalda í Stykkishólmsbæ vegna framkvæmda á mörkum lóðar nr. 1 við Ægisgötu og nágrannalóðanna nr. 3 við sömu götu og Austurgötu 12. Framkvæmdir við stoðveggi á lóðinni nr. 3 við Ægisgötu voru stöðvaðar 20. janúar 2020. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. desember var samþykkt umsókn um tilfærslu stoðveggjar og niðurrif stoðveggjar sem þegar var reistur.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Af samþykkt byggingarfulltrúa á umsókn um tilfærslu og niðurfærslu stoðveggja verður ráðið að hann hafi ekki setið aðgerðarlaus í málinu. Það er þó álit úrskurðarnefndarinnar að frekari afgreiðsla málsins hafi dregist nokkuð, enda eru liðnir um þrír mánuðir frá því að kærendur sendu erindi sín til byggingarfulltrúans í Stykkishólmsbæ. Ekki hafa verið færð fram rök fyrir þeim töfum sem hafa orðið á svörum við erindum kærenda og er rétt að benda á að þeir sem beina skriflegu erindi til stjórnvalda eiga jafnan rétt á því að vera svarað með sama hætti. Verður því lagt fyrir byggingarfulltrúa að svara erindi kærenda frá 17. febrúar 2021 sem ítrekað var með bréfi 26. s.m.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúann í Stykkishólmsbæ að svara, án ástæðulauss dráttar, erindi kærenda frá 17. febrúar 2021 sem ítrekað var með bréfi, dags. 26. s.m.

3/2021 Dunhagi

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 18. maí kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar í Borgartúni 21 í Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverk-fræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2021, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 15. október 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir reit, sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46, og ákvörðun byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 12. janúar 2021 að samþykkja byggingaráform vegna Dunhaga 18-20.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. janúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Hjarðarhaga 27 þá ákvörðun borgarráðs Reykjavikur að samþykkja deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðar­haga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. og 17. janúar 2021, er bárust úrskurðarnefndinni samdægurs, kæra jafnframt eigandi, Hjarðarhaga 44, eigendur, Tómasarhaga 32, sömu ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur með kröfu um ógildingu hennar. Verða þau kærumál, sem eru nr. 7/2021, 8/2021 og 9/2021, sameinuð máli þessu þar sem sama ákvörðun er kærð í öllum málunum til ógildingar og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. apríl 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, persónulega og fyrir hönd allra annarra eigenda að Hjarðarhaga 27, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2021 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20 með kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis. Þá er gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt leyfinu verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. Verður það kærumál, sem er nr. 50/2021, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. febrúar og 27. apríl 2021.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu, en á afgreiðslufundi 9. janúar 2018 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20 í kjölfar grenndar­kynningar. Fól það leyfi í sér heimild til að byggja inndregna hæð ofan á núverandi hús, viðbyggingu við fyrstu hæð hússins og kjallara, minnka og fjölga íbúðum í húsinu úr 8 í 20, koma fyrir lyftu utan á húsinu og sorpgerði fyrir verslun í rými 0106. Sú afgreiðsla byggingar­fulltrúa var staðfest í borgarráði 11. janúar 2018. Það byggingarleyfi var kært til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála með kærum, dags. 4., 5. og 8. maí 2018. Með úrskurði í máli nr. 69/2018, uppkveðnum 20. júlí s.á., var byggingarleyfið fellt úr gildi þar sem það átti sér ekki stoð í deiliskipulagi og skilyrði grenndarkynningar þóttu ekki fyrir hendi.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 19. október 2018 var lögð fram umsókn um nýtt deiliskipulag fyrir Dunhaga 18-20. Fól umsóknin í sér heimild til að byggja hæð ofan á núverandi fjölbýlishús og fyrir aftan húsið, nýtt lyftuhús og viðbyggingu á einni hæð auk kjallara. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 12. desember s.á. var lögð fram tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasar­haga 32-46. Í tillögunni fólst niðurrif og uppbygging á lóð nr. 18-20 við Dunhaga auk bílskúrsheimilda á tveimur lóðum. Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og var málinu vísað til borgarráðs, sem samþykkti þá afgreiðslu á fundi sínum 20. desember 2019. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. febrúar 2019 var málið tekið fyrir að nýju og lagt fram bréf tveggja aðila sem óskuðu eftir ítarlegri gögnum um skuggavarp og framlengingu á fresti til að leggja fram athugasemdir. Samþykkt var að framlengja athugasemdafrest til 22. s.m. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 15. febrúar 2019 var umsóknin lögð fram auk leiðrétts skuggavarpsuppdráttar og fylgdu drög að húsakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur með umsókninni. Var málinu vísað til skipulags- og samgönguráðs, sem tók það fyrir á fundi sínum 20. s.m. og samþykkti að endurauglýsa framlagða tillögu að nýju deiliskipulagi með leiðréttu skuggavarpi, dags. 8. febrúar 2019, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs 6. mars s.á. Var tillagan auglýst frá 26. febrúar til 9. apríl 2019.

Að lokinni auglýsingu var umsóknin lögð fram á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 12. apríl 2019 og henni vísað til umsagnar verkefnisstjóra. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 10. maí s.á. var málið tekið fyrir að nýju og vísað til skipulags- og samgönguráðs. Á fundi þess 15. s.m. var málinu frestað. Málið var svo tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og samgönguráðs 29. maí 2019 og var þar samþykkt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. s.m. Á fundi borgarráðs 6. júní s.á. var tillaga um nýtt deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga, Hjarðarhaga og Tómasarhaga samþykkt. Auglýsing um gildistöku þess skipulags birtist í B-deild Stjórnartíðinda 23. júlí 2019. Með kærum, dags. 17. og 23. ágúst 2019, var ákvörðun borgarráðs frá 6. júní s.á um samþykki deiliskipulagsins kærð til úrskurðarnefndarinnar. Með úrskurði, uppkveðnum 20. mars 2020, í máli nr. 80/2019, var ákvörðun borgarráðs felld úr gildi þar sem skilyrði til þess að falla frá gerð lýsingar skv. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga hafi ekki verið uppfyllt.

Á fundi skipulags- og samgönguráðs hinn 15. apríl 2020 var lögð fram skipulagslýsing fyrir gerð nýs deiliskipulags fyrir umrætt svæði. Í tillögunni fólst að festa í sessi leiksvæði á borgarlandi og hverfisvernd byggðar við Hjarðarhaga og Tómasarhaga með minniháttar heimildum til breytinga þ. á m. bílskúrsheimildum á tveimur lóðum, niðurrifi bílskúra og uppbyggingu á lóð nr. 18-20 við Dunhaga. Lýsing var samþykkt til kynningar og umsagnar með vísan til 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Var hún gerð aðgengileg á vef Reykjavíkurborgar og send til umsagnar umsagnaraðila auk þess að vera auglýst í Fréttablaðinu. Í lýsingunni kom m.a. fram að markmið skipulagsins væri að efla verslun og þjónustu í hverfinu og þétta byggð. Fjallað var um skipulagssvæðið og afmörkun þess. Vísað var til húsakönnunar og fyrirhugaðar breytingar á lóðum og mannvirkjum taldar upp. Þá fylgdu skuggavarps­uppdrættir og fyrirhuguðu skipulags- og samráðsferli var lýst.

Í maí 2020 samþykkti skipulags- og samgönguráð og borgarráð að auglýsa deiliskipulagstillögu fyrir umræddan skipulagsreit. Samkvæmt tillögunni voru afmarkaðir byggingarreitir fyrir bílskúra á lóðunum Tómasarhaga 38 og 44 og Hjarðarhaga 29. Kom fram að lóð Dunhaga 18-20 myndi minnka til austurs og bílskúrar á baklóð yrðu rifnir. Skilgreindir yrðu byggingarreitir fyrir inndregna hæð ofan á núverandi byggingu, fyrir stækkuð stigahús beggja stigaganga til að koma fyrir lyftum og fyrir viðbyggingu á baklóð með kjallara. Notkun fyrstu hæðar yrði skilyrt fyrir verslunarrekstur og íbúðum í húsinu fjölgað. Tillagan var auglýst frá 17. júlí til og með 31. ágúst 2020 og bárust athugasemdir á kynningartíma. Umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir er dagsett 18. september 2020. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 7. október 2020 var deiliskipulagstillagan samþykkt og henni vísað til borgarráðs, sem samþykkti hana 14. desember s.á. með þeim breytingum og lagfæringum sem lagðar voru til í umsögn skipulagsfulltrúa.

Með bréfi, dags. 18. nóvember 2020, tilkynnti Skipulagsstofnun að hún gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda. Deili­skipulagið tók gildi með auglýsingu þess efnis 17. desember 2020 og hefur samþykkt þess nú verið borin undir úrskurðarnefndina, svo sem að framan greinir.

Hinn 12. janúar 2021 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um byggingarleyfi til að byggja inndregna 4. hæð á húsið að Dunhaga 18-20, reisa viðbyggingu við 1. hæð og kjallara, minnka og fjölga íbúðum úr 8 í 21, fyrir breytingum á húsinu að innan og utan, til að færa sorpstæði verslunar á norðvesturhlið hússins og koma fyrir tveimur bílastæðum fyrir fatlaða á norðvesturhlið lóðarinnar að Dunhaga 18-20 á grundvelli hins nýsamþykkta deiliskipulags. Var þeirri ákvörðun einnig skotið til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan er rakið.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda að Hjarðarhaga 27 er vísað til þess að Reykjavíkurborg hafi verið óheimilt að framselja deiliskipulagsgerð fyrir umræddan skipulagsreiti til D18 ehf. og THG Arkitekta ehf. Engin heimild sé í lögum til að fela þessum aðilum að vinna deiliskipulag fyrir lóð kærenda, eins og nú hafi verið gert. Undanfarandi lýsing hafi verið ófullkomin, ekki í samræmi við aðalskipulag og ekki þjónað hlutverki sínu um samráð við íbúa. Deiliskipulagið eigi sér ekki stoð í aðalskipulagi enda raski það bæði stefnu um hverfisvernd og verndun ásýndar og heildaryfirbragðs í grónum hverfum. Aðalskipulag sé deiliskipulagi rétthærra enda þurfi deiliskipulag að vera í samræmi við aðalskipulag. Íbúar og eigendur fasteigna á svæðinu verði að geta treyst gildandi aðalskipulagi. Borgaryfirvöld geti ekki tekið órökstuddar hagnaðarvonir fjárfesta og framkvæmdaraðila fram yfir lögvarða hagsmuni íbúa svæðisins. Markmið deiliskipulags í lýsingu sé sagt vera þétting byggðar, sem ekki sé í samræmi við aðalskipulag, auk þess sem efla eigi verslun að Dunhaga 18-20. Breytingar á húsinu á þeirri lóð gangi mun lengra en nauðsynlegt sé til að efla verslun í húsinu og tengsl deiliskipulags við eflingu verslunar órökrétt og þar með ómálefnalegt. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi þegar tekið af skarið um að þétting byggðar sé meiri en gangi og gerist á svæðinu og margháttaðri en íbúar megi búast við. Ekki sé skilgreindur fjöldi verslana og opnunartími í húsinu Dunhaga 18-20 í sérskilmálum til þess að tryggja að það verði raunverulegur nærþjónustukjarni, sbr. t.d. bls. 182 í aðalskipulagi, en ekki bara ein stórverslun sem ekki sé nærþjónustukjarni. Umfang skuggavarps á Hjarðarhaga 27 sé óljóst í skipulags­gögnum og einungis metið með matskenndum og huglægum þáttum. Hvorki sé gerð tilraun af hálfu skipulagshöfunda né Reykjavíkurborgar til að setja fram hlutlægt mat og bera slíkt mat saman við aðrar framkvæmdir eða deiliskipulagsáætlanir.

Kærandi að Hjarðarhaga 44 bendir á að fyrirhugaðar breytingar á húsi nr. 18-20 við Dunhaga muni skerða útsýni efstu hæða í húsinu að Hjarðarhaga 44, 46 og 48, valda auknu skuggavarpi í hverfinu og séu til þess fallnar að rýra verðgildi viðkomandi fasteigna. Hvorki sé fjallað um þessi atriði í deiliskipulaginu né vikið að skerðingu útsýnis frá fjölbýlishúsum við Hjarðarhaga í lýsingu sem gerð hafi verið fyrir auglýsingu deiliskipulagsins. Ekki hafi verið gert ráð fyrir neinu samráði við íbúa og hafi kærandi ekki haft möguleika á aðkomu að deiliskipulagsferlinu, svo sem lög geri ráð fyrir. Deiliskipulagið gangi gegn ákvæðum aðalskipulags um vernd ásýndar hverfisins, sem sé gróið og fullbyggt. Þá eigi rök um þéttingu byggðar sér ekki stoð í aðalskipulagi.

Af hálfu kærenda að Tómasarhaga 32 er á það bent að auglýsing skipulagslýsingar fyrir nýtt deiliskipulag hafi verið ófullnægjandi þar sem ekki hafi verið tekið fram hvert athugasemdir skuli sendast, en slíkt eigi að koma fram samkvæmt gr. 5.2.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá geti auglýsing í Fréttablaðinu, sem 37% landsmanna lesi daglega samkvæmt könnun Gallup, ekki talist fullnægjandi samkvæmt nefndri grein skipulagsreglugerðar. Framsetning deili­skipulagsins sé ófullnægjandi þar sem að mynd og texti rími ekki saman. Á sniðmynd sé sýnd bifreið á stað þar sem texti segi að bílastæði verði tekin út og sett gangstétt í staðinn. Þetta skapi vafa um endanlega framkvæmd. Þá sé þar að auki villandi að í texta deiliskipulagsins sé fullyrt að fjöldi hæða húsa aðliggjandi reita sé mest fjórar. Samkvæmt deiliskipulagi fyrir Fálkagötu, sem vísað sé til í þessu samhengi, komi skýrt fram að blokkir sem standi við Dunhaga nr. 19, 21 og 23 séu þrjár hæðir og kjallari en ekki fjórar, eins og lesa megi úr hinu kærða deiliskipulagi. Hvert einasta hús á Fálkagötureitnum sé lægra en fjórar hæðir.

Annar kærenda að Tómasarhaga 32 tekur fram að málsmeðferð umdeilds deiliskipulags hafi ekki verið í samræmi við lög. Þrátt fyrir forsögu málsins og ítrekuð mótmæli hafi kærendum eða öðrum hagsmunaaðilum hvorki verið gefinn kostur á að taka þátt í undirbúningi að gerð lýsingar né tilkynnt að hún hafi verið birt á heimasíðu borgarinnar í andstöðu við áskilnað gr. 5.2.4. í skipulagsreglugerð. Kærendur hafi þó gert athugasemdir við skipulagslýsinguna, sem hafi ekki verið svarað af hálfu borgarinnar, og sé ekki verði séð að tekið hafi verið tillit til þeirra nema að mjög litlu leyti. Þegar tillaga að deiliskipulagi hafi verið auglýst 17. júlí 2020 hafi kærendur auk fjölmargra annarra gert athugasemdir við tillöguna sem hafi ekki verið svarað frekar en athugasemdum við lýsinguna. Það hafi ekki verið fyrr en með bréfi, dags. 29. október 2020, sem kærendum hafi verið tilkynnt um afgreiðslu borgarráðs á deiliskipulagstillögunni og þeim sendur hlekkur á umsögn skipulagsfulltrúa  dagsettri 18. september 2020. Framangreint ferli sé ekki í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010, skipulagsreglugerð eða stjórnsýslulög nr. 37/1993. Einnig virðist sem hvorki skipulags- og samgönguráð né borgarráð hafi samþykkt endanlegt deiliskipulag og hafi því málsmeðferð, samþykkt og afgreiðsla deiliskipulagsins verið andstæð lögum. Í fundargerð skipulagsráðs frá 7. október 2020 hafi deiliskipulagstillagan verið tekin fyrir og samþykkt. Í fundargerð fundarins sé að finna skjal með fylgigögnum en hið kærða deiliskipulag sé ekki að finna þar, heldur einungis skuggavarps­uppdrætti, fornleifaskrá, húsakönnun og umsögn skipulagsfulltrúa. Þá sé hið kærða deili­skipulag ekki heldur að finna í þeim fylgigögnum sem legið hafi fyrir á fundi borgarráðs 15. október s.á. þar sem það hafi verið samþykkt. Eftir skoðun á fundargerðum borgarráðs frá september 2020 til ársloka það ár  sé ljóst að þetta sé eina tilvikið þar sem deiliskipulag hafi verið samþykkt í borgarráði án þess að deiliskipulagstillaga hafi verið meðal fundargagna. Samþykkt skipulags- og samgönguráðs sé því andstæð lögum og í raun markleysa, enda hafi hvorki skipulags- og samgönguráð né borgarráð samþykkt endanlegt deiliskipulag svæðisins.

Einnig sé vísað til þeirrar gríðarmiklu uppbyggingar sem deiliskipulagið geri ráð fyrir á Dunhaga 18-20. Gert sé ráð fyrir fjölgun íbúða í húsinu úr 8 í 23, byggingarmagn sé aukið um 950 m2, eða um 57%, nýtingarhlutfall hækki úr 0,86 í 1,38, eða um ríflega 60%, og verði þar með meira en á öllum öðrum lóðum á skipulagsreitnum. Þar sem um verulega aukningu íbúða, byggingarmagns og verulega stækkun á einu húsi sé að ræða telji kærendur nauðsynlegt að gert verði hverfisskipulag fyrir Vesturbæinn, eins og mælt sé fyrir um í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, þar sem sett verði fram heildstæð stefnumörkun um þéttingu byggðar í Vesturbænum.

Efni deiliskipulagsins sé ekki í samræmi við lagaáskilnað. Ófullnægjandi grein sé gerð fyrir fyrirhugaðri uppbyggingu á Dunhaga 18-20 og þá sérstaklega hvað varði verslunarrekstur á jarðhæð hússins. Skilgreind landnotkun svæðisins sé íbúðabyggð samkvæmt aðalskipulagi, en gert ráð fyrir nærþjónustu að Dunhaga 18-20. Í aðalskipulagi sé nærþjónustukjarni skilgreindur svo: „Nærþjónustukjarnar. Kaupmaðurinn á horninu. Minni matvöruverslanir, bakarí, fiskbúðir og annað til daglegra þarfa innan hverfa. Íbúðir geta verið á efri hæðum viðkomandi bygginga. Nærþjónustukjarnar eru að jafnaði ekki skilgreindir sérstaklega á uppdrætti aðalskipulags sem verslun og þjónustu (VÞ) og eru því skilgreindir sem íbúðarbyggð í aðalskipulagi.“ Engin iðnaður eða verslun hefur verið í húsinu um langa hríð og yrði því um verulega breytingu á notkun húsnæðisins að ræða ef þarkæmi verslun eða önnur þjónusta. Hefði þurft að fjalla ítarlegar um framangreind atriði í deiliskipulagi en gert sé. Kærendur geri til dæmis kröfu um að opnunartími verði afmarkaður. Þá sé stækkun á húsnæði við Dunhaga 18-20 ekki í neinu samræmi við byggðamynstur deiliskipulagsreitsins, hæð annarra húsa á reitnum, húsagerð eða stærð íbúða. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skuli við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið en ekki verði séð að svo hafi verið gert. Á svæðinu búi mörg börn og í nágrenninu séu margir leikvellir og göngustígar og börn séu mikið á ferli. Jafnframt gangi mörg börn fram hjá Dunhaga 18-20 á leið í og úr skóla. Þessi mikla fjölgun íbúða og tilheyrandi nærþjónusta muni auka umferð við Dunhaga 18-20. Þetta skapi verulega aukna hættu, óþægindi og hávaðamengun fyrir núverandi íbúa í grenndinni.

Kærandi umdeilds byggingarleyfis telur það leyfi haldið sömu annmörkum og það deiliskipulag sem liggi til grundvallar byggingarleyfinu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er tekið fram að í kjölfar úrskurðar í kærumáli sem varðað hafi deiliskipulagsgerð fyrir umrætt svæði hafi verið unnin skipulagslýsing fyrir Dunhaga – Hjarðarhaga – Tómasarhaga, sem hafi verið auglýst fyrir gerð deiliskipulagstillögunnar, sem einnig hafi verið auglýst samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki sé hægt að fallast á að Reykjavíkurborg hafi framselt skipulagsvaldið þótt lóðarhafar Dunhaga 18-20 hafi komið að gerð tillögunnar. Ákvörðunarvald um útfærslu skipulagsins, málsmeðferð og endanleg afgreiðslu þess sé á hendi sveitarstjórnar eftir sem áður. Öllum lóðarhöfum á reitnum hafi gefist kostur á að koma að athugasemdum við meðferð tillögunnar, en ekki hafi verið hægt að gera ráð fyrir miklum breytingum á lóðum kærenda þar sem þær séu að mestu fullbyggðar auk þess sem þær séu í verndunarflokki.

Deiliskipulagið sé unnið í fullu samræmi við stefnu og áherslur gildandi Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Gert sé ráð fyrir því að borgin þéttist á aðalskipulagstímabilinu innan núverandi byggðamarka. Allt að 90% þéttingar verði þannig innan núverandi byggðamarka og aðeins 10% utan þeirra á gildistíma aðalskipulagsins. Eigi þéttingaráformin við um öll hverfi borgarinnar, líka Vesturbæinn. Þéttingarreitir séu þeir reitir þar sem gert sé ráð fyrir fjölgun íbúða um 50 eða fleiri. Í Vesturbænum sé gert ráð fyrir að íbúðum muni fjölga um samtals 940 íbúðir á sex þéttingarreitum, en í B-hluta aðalskipulagsins komi fram að gert sé ráð fyrir því að íbúðum í Vesturbænum muni fjölga um 1.210 á aðalskipulagstímabilinu. Alls sé því gert ráð fyrir 270 íbúða fjölgun utan þéttingarreita. Á lóðinni Dunhaga 18-20 hafi mátt byggja 8 íbúðir en nú sé heimilt að byggja þar 21 íbúð. Fjölgun um 13 íbúðir rúmist því innan stefnu aðalskipulags.

Skilgreining aðalskipulags á hverfisvernd sé svohljóðandi: „Svæði og reitir sem njóta sérstakrar verndar vegna byggðamynsturs, menningarverðmæta, landslags eða náttúrufars.“ Gerð hafi verið húsakönnun fyrir svæðið þar sem lagt hafi verið til að setja Hjarðarhaga og Tómasarhaga í gulan flokk, samstæður húsa og heildir með hverfisvernd. Ekki hafi verið lagt til að Dunhagi yrði hluti af slíkri vernd þótt gatan og byggingarnar sem við hana standi séu hluti af gamla heildardeiliskipulagi Mela og Grímsstaðaholts. Ekki sé því um ósamræmi við stefnu aðal­skipulags að ræða. Um svæði ÍB3 Haga segi í aðalskipulaginu: „Byggð á svæðinu er fastmótuð og var svæðið fullbyggt um 1970. Heilsteypt byggð að stærstum hluta.“ Í sama kafla segi síðar: „Í fastmótaðri byggð má gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum eftir því sem ákveðið er í hverfis- og/eða deili­skipulagi.“  Samkvæmt aðalskipulagi megi því skilgreina fjölgun íbúða undir 50 með deiliskipulagi.

Í 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé gert ráð fyrir að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana. Skipulagslýsing fyrir hið kærða deiliskipulag hafi verið auglýst opinberlega með athugasemdafresti frá 24. apríl til 25. maí 2020, auk þess sem bréf hafi verið send til eigenda hlutaðeigandi húseigna í nágrenninu til að vekja athygli á auglýsingunni. Ekki sé skylt að svara athugasemdum við skipulagslýsingu heldur séu þær hafðar til hliðsjónar við skipulags­vinnuna. Deiliskipulagstillagan hafi verið auglýst frá 17. júlí til og með 30. ágúst 2020 og aftur hafi verið send bréf til hlutaðeigandi aðila. Íbúar Hjarðarhaga 27 hafi óskað eftir fundi með skipulagsfulltrúa, sem hafi orðið við þeirri beiðni og hafi sá fundur verið haldinn/farið fram 2. júní 2020. Þá hafi eigendur Hjarðarhaga 27 sent skipulagsfulltrúa athugasemd bæði vegna skipulagslýsingar og deiliskipulagstillögu. Ekki sé því hægt að taka undir athugasemd um að samráð hafi ekki verið viðhaft.

Skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélögum og sé málsástæðum um að ekki hafi verið viðhaft samráð við íbúa vísað á bug. Það sé ekki hlutverk lögbundins samráðs eða í samræmi við hugmyndir um íbúalýðræði að tryggja að farið verði eftir öllum hugmyndum eða skoðunum sem íbúar hafi enda væri slíkt ómögulegt. Þá skuli á það bent að Dunhagi 18-20 sé skilgreindur sem nærþjónustukjarni í aðalskipulagi og samþykktar byggingarnefndarteikningar sýni verslun á fyrstu hæð. Engin breyting verði þar á við samþykkt deiliskipulagsins. Aðalskipulag setji fram stefnu og markmið borgaryfirvalda um þéttingu byggðar og þar með sjálfbærari hverfi. Í kafla aðalskipulags um kaupmanninn á horninu séu sett fram markmið um að bakland hverfis­verslunar og þjónustu verði styrkt með fjölgun íbúða og starfa. Hlutfall íbúa sem búi í innan við 400 m göngufjarlægð (300 m radíus í loftlínu) frá dagvöruverslun hækki verulega á skipulags­tímabilinu og breytingar á hlutfallinu verði vaktaðar. Um 700 m loftlína sé í Melabúðina á horni Hagamels og Hofsvallagötu og engin dagvöruverslun sé í 300 m radíus frá Dunhaga 18-20. Í aðalskipulagi sé sömuleiðis kafli um kaupmanninn á horninu og segi m.a. að skapaðar verði forsendur til að endurbyggja og stækka verslunarhúsnæði þar sem rótgróin dagvöruverslun sé nú til staðar. Rekin hafi verið dagvöruverslun við Dunhaga um árabil þótt ekki hafi verið rekstur í húsinu undanfarið. Með betri aðstöðu sé líklegt að rekstur í húsinu verði eftirsóknar­verður. Í  aðalskipulaginu sé ekkert sem segi að verslanir geti ekki verið fleiri en ein auk þess sem engin sérstök stærðarmörk séu sett hvað varði stærð verslana. Nýtingarhlutfall Dunhaga 18-20 verði 1,3 eftir breytingu og hæð hússins verði þrjár hæðir auk inndreginnar fjórðu hæðar. Dunhaginn skeri sig úr heild húsa sem tilheyri skipulagsreitnum, bæði fyrir og eftir breytingu, en myndi heildstæða götumynd með öðrum áþekkum fjölbýlishúsum sem standi við götuna. Þannig hafi frá upphafi bæði Dunhagi 18-20 og Dunhagi 23 verið fjölbýlishús með verslun og þjónustu á fyrstu hæð. Dunhagi 19, 21 og 23 séu fjögurra hæða byggingar, séð frá götu, og nýtingarhlutfall Dunhaga 23 sé 2,18.

Ekki sé lengur gert ráð fyrir að húsið að Dunhaga 18-20 verði klætt álklæðningu heldur verði það múrhúðað að mestu. Heimilt sé þó að klæða viðbyggingar og efstu hæð hússins með álklæðningu. Húsið að Dunhaga 23 sé álíka hátt og Dunhagi 18-20 verði eftir breytingu. Blokkir Hjarðahaga séu hærri, eða fjórar hæðir á hálfniðurgröfnum kjallara. Húsið að Dunhaga 18-20 hækki um 1,5 m þegar hálfreist þak, sem nú sé 1,5 m á hæsta punkti, verði hækkað í heimilaða eina íbúðarhæð, sem sé um 3 m á hæð með tvo lyftustokka sem nái að hámarki 1,5 m upp fyrir þá hæð. Ekki sé því um mikla breytingu á hæð hússins að ræða. Bílastæðakröfur í deiliskipulaginu séu í samræmi við kröfur um bíla- og hjólastæði í aðalskipulagi. Þar með sé fjölgun nægjanleg til að þjóna fjölgun íbúða og stækkun á verslunarrými. Vegna athugasemda við skuggavarp hafi verið gerðar fleiri skuggavarpsteikningar, sem sýni aðstæður á lóðinni Hjarðarhaga 27 á klukkutímafresti frá kl. 13:00-17:00 á tímabilinu frá fjórum vikum fyrir vorjafndægur til tveggja vikna eftir vorjafndægur.

Deiliskipulagsuppdrættir hafi verið lagfærðir eftir auglýsingu vegna innkominna ábendinga um ósamræmi milli mynda og texta. Bíll sem sýndur hafi verið á sniðmynd hafi verið tekinn út. Þá sé fráleitt að halda því fram að Reykjavíkurborg sé að verðlauna lóðarhafa fyrir að sinna ekki eðlilegu viðhaldi. Þá hafi deiliskipulagsuppdrátturinn verið meðal þeirra gagna sem lögð hafi verið fram í skipulags- og samgönguráði og í borgarráði, eins og fundargerðir beri með sér, enda sé um að ræða opinbert skjal sem hafi einnig verið aðgengilegt á ytri vef Reykjavíkurborgar. Aftur á móti hafi átt sér stað þau mistök við framsetningu á rafrænum kynningargögnum til borgarráðsmanna að uppdráttinn hafi vantað í þann pakka. Hann hafi þannig legið fyrir í pappírsgögnum. Ráðsmenn hafi ekki gert athugasemdir við þennan galla enda skipulagið kynnt rækilega á báðum fundum með glærukynningu.

Hvað varði hið kærða byggingarleyfi þá séu innsendar teikningar í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Athugasemdir leyfishafa: Tekið er fram að kærur deiliskipulagsins beinist ekki að neinni eiginlegri stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. Samþykki skipulagsyfirvalda á breytingum á deiliskipulagi feli ekki í sér ákvörðun í skilningi 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 130/2011 sé sérstaklega tekið fram í skýringum við 5. gr. laganna að ákvæði þeirrar greinar byggist á „almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Sökum framangreindrar tilvísunar til stjórnsýslulaga verði að líta til reglna stjórnsýsluréttarins um hvað telja megi ákvörðun sem kæra megi í skilningi 5. gr. laga nr. 130/2011.

Af 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga verði ráðið að lögin gildi þegar stjórnvöld taki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna en gildi ekki um samningu reglugerða eða annarra almennra stjórnvalds­fyrirmæla. Af framangreindu verði því ráðið að stjórnvaldsákvörðun feli í sér ákvörðun af hálfu stjórnvalds um rétt eða skyldu manna. Þessu til viðbótar hafi fræðimenn talið að ákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga feli í sér ákvörðun sem tekin sé af stjórnvaldi sem handhafa opinbers valds, henni sé beint til ákveðins eða ákveðinna aðila og að hún kveði á um rétt eða skyldu viðkomandi í því sérstaka tilviki sem hverju sinni liggi fyrir til ákvörðunar. Ljóst sé að þetta eigi ekki við um ákvörðun skipulagsyfirvalda um deiliskipulag. Deiliskipulag sé almenns eðlis sem feli í sér tilteknar reglur um skipulag viðkomandi svæðis og taki til tiltekins landsvæðis og þar af leiðandi allra þeirra er búi innan viðkomandi svæðis. Vísist í því sambandi til álits umboðsmanns Alþingis nr. 1453/1995 þar sem komi fram a ákvarðanir sveitarfélags varðandi skipulagsmál geti ekki talist stjórnvaldsákvarðanir heldur sé um að ræða stjórnvaldsfyrirmæli og gildi stjórnsýslulögin ekki um slík fyrirmæli. Sé því einsýnt að vísa beri öllum kærum vegna deiliskipulagsins frá úrskurðarnefndinni.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur að Hjarðarhaga 27 taka fram að fráleit sé sú afstaða Reykjavíkurborgar að engu skipti hver vinni deiliskipulag. Fasteignaeigendur og rétt­hafar hafi miklu ríkari rétt gagnvart sveitarfélagi heldur en einkaaðilar sem ekki lúti stjórnsýslu­lögum nr. 37/1993 eða upplýsingalögum nr. 140/2012. Túlka beri 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga þannig að það ákvæði hafi áhrif og tilgang í samræmi við orðanna hljóðan. Fátækleg rök borgarinnar um að ekki hafi verið ástæða til þess að ráðfæra sig við aðra á deiliskipulagsreitnum vegna þess að lóðir kærenda „eru að mestu fullbyggðar auk þess sem þær eru í verndarflokki“ séu fráleit. Í fyrsta lagi sé lóðin að Dunhaga 18-20 alveg jafn mikið eða lítið fullbyggð eins og aðrar lóðir á svæðinu. Í öðru lagi kannist kærendur ekki við að húsið að Hjarðarhaga 27 sé í verndarflokki nema þá samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi. Þá virðist Reykjavíkurborg ekki hafa yfirsýn yfir eigin skipulagsáætlanir, en t.d. í deiliskipulagi fyrir húsin að Ægissíðu 56, 58, 68, 74, 84 og 94, sem séu í verndarflokki og á nálægum deiliskipulagsreit, hafi verið gefnar heimildir fyrir rishæðum og breytingum á þökum. Hafa skuli í huga að kærendur hafi í deiliskipulagsferlinu ítrekað óskað eftir heimild til þess að byggja ofan á sína eign. Engin svör hafi borist frá Reykjavíkurborg.

Enginn grundvöllur sé fyrir því að reisa megi 270 íbúðir utan þéttingarreita í Vesturbæ og að þær 13 íbúðir sem sagt sé að bætast muni við húsið að Dunhaga 18-20 rúmist innan þeirrar tölu. Slíkt sé ótækt, hvað þá á svæði sem sé í aðalskipulagi skilgreint sem fastmótað og fullbyggt. Þá sé verndargildi reitsins freklega raskað með fyrirhuguðum breytingum á Dunhaga 18-20 sem verði varla lýst öðruvísi en sem nýbyggingu í útliti eftir fyrirhugaðar framkvæmdir.

Kærendur hafi gert margháttaðar og ítrekaðar athugasemdir sem hafi ekki verið svarað. Til samanburðar megi benda á samstarf Reykjavíkurborgar við lóðarhafa Dunhaga 18-20. Kær­endur hafi fengið afhentar 152 blaðsíður af tölvupóstsamskiptum skipulagssviðs borgarinnar vegna málsins, langmest við lóðarhafa og arkitektastofu. Lengst virðist borgin hafa gengið þegar lögmenn borgarinnar hafi gert drög að endurupptökubeiðni til úrskurðarnefndarinnar og sent til lóðarhafa þar sem „öruggast [væri] að lóðarhafar sendi hana inn og skrifi undir.“ Þá hafi skipulagslýsing ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga eða gr. 5.2.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þar sem ekkert hafi verið vikið að samráði gagnvart íbúum í lýsingu. Gerð sé athugasemd við það að engin hlutlæg viðmið hafi verið sett um áhrif skugga­varps heldur eingöngu byggt á huglægu mati skipulagsfulltrúa.

Kærendur að Tómasarhaga 32 mótmæli því sem ótrúverðugu og ósönnuðu að deiliskipulags­tillaga hafi legið fyrir í pappírsformi í skipulags- og samgönguráði og borgarráði. Þá felist í málflutningi Reykjavíkurborgar að ráðsmenn hafi ekki haft tækifæri til þess að kynna sér uppdráttinn fyrir fundinn þar sem hann hafi ekki verið í rafrænum kynningargögnum. Deiliskipulagstillagan hafi enn ekki verið kynnt kærendum eða birt opinberlega á vef Reykjavíkurborgar. Í greinargerð borgarinnar sé ekki fjallað um meðferð deiliskipulags­tillögunnar frá því borgarráð eigi að hafa samþykkt hana með breytingum á grundvelli skrif­legrar umsagnar skipulagsfulltrúa þar sem m.a. sé lagt til að villur í sniðum og grunnmyndum verði leiðréttar. Þögn Reykjavíkurborgar um þetta mikilvæga atriði sé ekki hægt að túlka á annan veg en að fullnaðarafgreiðsla deiliskipulagsins hafi ekki verið í samræmi við lög eða samþykktir.

Borgaryfirvöld líti út fyrir hinn afmarkaða deiliskipulagsreit þegar vísað sé til bygginga sem séu álíka háar eða hærri en Dunhagi 18-20, sem bendi til þess að deiliskipulagsreiturinn nái ekki til reits sem myndi heildstæða einingu. Því sé einnig mótmælt að Dunhagi 19, 21 og 23 séu fjögurra hæða byggingar séð frá götu. Með þessari staðhæfingu sé ekki farið rétt með hugtakið „hæð húss“ í lagalegum skilningi. Af hálfu borgarinnar sé ekki gert ráð fyrir umferðar­aukningu vegna fjölgunar íbúða og algjörlega sé skautað framhjá umferðaraukningu sem muni koma til vegna verslunarreksturs á jarðhæð.

Hvað varði byggingarleyfið þá bendi kærendur að Hjarðarhaga 27 á að samþykktir uppdrættir séu ekki í samræmi við hið kærða deiliskipulag. Svokölluð „vinnuherbergi“ í kjallara, sem fylgi íbúðum 1. hæðar, séu ekki talin með í herbergjafjölda íbúða á 1. hæð. Herbergin séu merkt sérstaklega sem vinnuherbergi og þannig til íveru og séu auk þess órjúfanlegur hluti íbúðar enda aðgengileg um sérstiga innan íbúðar. Þau séu öll með gluggum og opnanlegum fögum. Með því að undanskilja vinnuherbergin í tölu um herbergjafjölda stangist byggingarleyfið að formi til ekki á við hið kærða deiliskipulag að þessu leyti. Með því að telja herbergin með, eins og rétt sé, þá fari tveggja og fjögurra herbergja íbúðir fram úr hámarki hlutfallslegs fjölda tveggja íbúðartegunda, sem sé 60%. Samkvæmt framangreindu sé samanlagður hlutfallslegur fjöldi tveggja og fjögurra herbergja íbúða tæp 62%. Sé það í ósamræmi við sérskilmála hins kærða deiliskipulags sem kveði á um að hámarkið sé 60%.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í skipulagslögum nr. 123/2010 er fjallað um gerð deiliskipulags og í 52. gr. þeirra laga er kveðið á um að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem tók m.a. yfir hlutverk úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 1. janúar 2012.  Fyrir gildistöku skipulagslaga voru í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, en í 1. mgr. 8. gr. þeirra var kveðið á um að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kvæði upp úrskurði í ágreinings­málum um skipulags- og byggingarmál og í 5. mgr. nefndrar greinar var tekið fram að stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga sættu kæru til nefndarinnar. Þar kom og fram í niðurlagi ákvæðisins að sætti ákvörðun opinberri birtingu væri kærufrestur miðaður við þá birtingu. Sá áskilnaður gat vart átt við aðrar ákvarðanir en þær sem vörðuðu deiliskipulag.

Um langt árabil hefur verið litið svo á að deiliskipulagsákvarðanir sveitarfélaga hafi verið kæranlegar til æðra stjórnvalds á grundvelli kæruheimilda í gildandi lögum og hafa úrskurðir um gildi deiliskipulagsákvarðana sætt endurskoðun dómstóla án athugasemda við þá framkvæmd.  Þá er ekki að finna í lögskýringargögnum með frumvarpi til skipulagslaga eða frumvarpi til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ráðagerð um að breyta kæru-heimild að þessu leyti. Verður hin kærða deiliskipulagsákvörðun því tekin til  efnismeðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deili­skipulags. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar getur landeigandi eða framkvæmdaraðili óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Sveitarstjórn getur einnig veitt landeiganda eða framkvæmdaraðila samkvæmt hans beiðni heimild til að vinna sjálfur að gerð deiliskipulags. Skal hann þá taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu, sbr. 1. mgr. 40. gr., og skal hún lögð fyrir sveitarstjórn á sama tíma og beiðni um heimild til að vinna tillögu að deiliskipulagi. Um kynningu, samráð, auglýsingu og samþykkt deiliskipulags fer skv. 40. og 41. gr. laganna. Samkvæmt framansögðu var aðkoma lóðarhafa Dunhaga 18-20 og arkitektastofu á hans vegum ekki andstæð lögum, en undirbúningur og meðferð deiliskipulagstillagna eru allt að einu í umsjá og á ábyrgð skipulagsyfirvalda sveitar­félaga, sbr. áðurnefnda 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga.

Eins og fram kemur í kafla um málavexti var lýsing deiliskipulagsins auglýst í Fréttablaðinu og á vef Reykjavíkurborgar. Þó láðist að taka fram í auglýsingu í Fréttablaðinu hvert skila ætti ábendingum, en þar kom þó fram heimilisfang umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar. Þar að auki var sent bréf til eigenda granneigna til að vekja athygli á auglýsingunni. Samkvæmt gr. 5.2.4. í skipulagsreglugerð er ekki skylt að svara ábendingum við efni lýsingar með formlegum hætti. Þá verður að telja að auglýsing í Fréttablaðinu uppfylli skilyrði sömu greinar um birtingu auglýsingar í víðlesnu dagblaði og að kynning lýsingarinnar hafi að öðru leyti verið í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga og gr. 5.2.4. í skipulagsreglugerð. Ekki er þar gerð krafa um aðkomu almennings við undirbúning lýsingar en lýsingin er auglýst og kynnt íbúum á við­komandi skipulagssvæði sem geta þá komið að athugasemdum og ábendingum, sem eftir atvikum geta nýst við fyrirhugaða skipulagsgerð. Um er að ræða forsögn um gerð skipulags-tillögu, sem sætir síðan opinberri auglýsingu til kynningar þar sem almenningi gefst færi á að koma að athugasemdum sínum. Deiliskipulagstillagan var auglýst með athugasemdafresti frá 17. júlí til 31. ágúst 2020 og einnig voru send bréf til eigenda hlutaðeigandi fasteigna. Þá gerðu allir kærendur athugasemdir við kynnta deiliskipulagstillögu innan athugasemdafrests. Verður því að telja að auglýsing deiliskipulagsins hafi verið í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og gr. 5.6.2. í skipulagsreglugerð.

Samkvæmt 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn skylt að auglýsa deiliskipulagstillögu að nýju sé henni breytt í grundvallaratriðum. Í því felst að sveitarstjórn sé heimilt að gera aðrar breytingar og lagfæringar á auglýstri tillögu án þess að hún sé auglýst að nýju. Nær sú heimild til þess að lagfæra sniðmynd sem birt er með deiliskipulagi eins og gert var í þessu máli. Einnig skal bent á að skýringarmyndir má nota til þess að sýna áhrif af og dæmi um útfærslu deiliskipulags en eru ekki bindandi, nema annað sé tekið fram, sbr. gr. 5.5.4. í skipulags­reglugerð.

Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis sam­ræmi. Svæðisskipulag er rétthærra en aðalskipulag og aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Við gerð nýrra skipulagsáætlana eða breytinga á skipulagsáætlunum skulu sveitarstjórnir taka mið af gildandi landsskipulagsstefnu. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 kemur fram að gera megi ráð fyrir því að skilgreindir verði þéttingarreitir í Vesturbænum með færri en 50 íbúðum í hverfisskipulagi. Með þessu er ekki útilokað að skilgreindir verði sambærilegir minni þéttingarreitir með deiliskipulagi enda er um samskonar skipulagsáætlanir að ræða að mestu leyti. Samkvæmt gr. 5.3.3.1. í skipulagsreglugerð er hverfisskipulag deiliskipulag í þegar byggðum hverfum þar sem ekki séu ráðgerðar verulegar breytingar á byggðamynstri og heimilt sé að víkja frá kröfum um framsetningu sem gerðar séu til deiliskipulags, svo sem hvað varði skilmála og mælikvarða uppdrátta. Þar að auki kemur fram í aðalskipulagi að Dunhagi 18-20 verði festur í sessi sem kjarni fyrir verslun og þjónustu sem sinni daglegum þörfum íbúa. Með hliðsjón af framangreindu verður því að telja að hið kærða deiliskipulag sé í samræmi við gildandi aðalskipulag.

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma og umhverfismati áætlunarinnar, sbr. lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Í gr. 5.4. í skipulagsreglugerð segir að við gerð deiliskipulags skuli meta líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði og einstaka þætti áætlunarinnar sjálfrar svo sem á vistkerfi, auðlindir, landslag, ásýnd, útsýni, hljóðvist, loftgæði, hagkvæmni, veðurfar, varðveislugildi og svipmót byggðar og einstakra bygginga o.fl. umhverfisþætti eftir því sem efni skipulagsins gefi tilefni til. Þá kom og fram í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 80/2019: „Þá athugist að samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, en ekki verður séð að svo hafi verið gert.“ Verður ekki séð að slíkt hafi heldur verið gert í hinu kærða deiliskipulagi. Í skipulagslýsingu kom þó fram að: „Deiliskipulag lóðanna kallar ekki á sérstakt umhverfismat samkvæmt 3. gr. laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Unnið verður ýtarlegt skuggavarp og umsögn fengin m.a. frá Skipulagsstofnun auk samgöngudeildar umhverfis og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar.“ Þá segir í umsögn Skipulagsstofnunar að þrátt fyrir að ekki sé gert ráð fyrir framkvæmdum sem falli undir lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana þurfi að fjalla um umhverfisáhrif skv. gr. 5.4. í skipulagsreglugerð. Telja verður það ágalla á máls­meðferð deiliskipulagsins að ekki hafi verið fjallað um áhrif áætlunarinnar á umhverfið. Í ljósi þess að fyrir lágu í málinu skuggavarpsuppdrættir og skýrsla Borgasögusafns ásamt því að finna má um­fjöllun um áhrif þéttingar byggðar í umhverfisskýrslu aðalskipulags verður sá ágalli ekki talinn leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Þrátt fyrir að deiliskipulagsuppdráttur hafi ekki fylgt með rafrænum kynningargögnum þá lá hann fyrir í pappírsformi á fundum skipulags- og samgönguráðs og borgarráðs við afgreiðslu umdeilds skipulags samkvæmt upplýsingum frá borgaryfirvöldum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar á hinu kærða deiliskipulagi sem raskað geta gildi þess.

Samkvæmt 47. tl. í gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eru íbúðarherbergi skilgreind sem herbergi innan íbúða sem notuð séu til daglegrar dvalar fyrir fólk, þ.e. svefnherbergi og stofur. Ekki er að finna neina skilgreiningu á svokölluðum vinnuherbergjum, en telja verður að þau séu íbúðarherbergi enda ætluð til daglegrar dvalar á sama hátt og stofur. Ef svokölluð vinnuherbergi eru talin til herbergja íbúða í húsinu að Dunhaga 18-20 fer hlutfall tveggja og fjögurra herbergja íbúða upp í 62% af íbúðum hússins, en hámarkshlutfall tveggja gerða íbúða í húsinu samkvæmt skilmálum gildandi deiliskipulags er 60%. Þykir þessi munur þó ekki slíkur að leiða eigi til ógildingar ákvörðunarinnar. Þá er gert ráð fyrir tveimur bíla­stæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð Dunhaga 18-20. Í húsinu verður 21 íbúð og samkvæmt töflu 6.01 í gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð er gerð krafa um að lágmarki þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða þegar fjöldi íbúða í íbúðarhúsnæði, öðrum en sérbýlishúsum, er 21. Að þessu leyti uppfyllir hið kærða byggingarleyfi ekki lágmarkskröfur um fjölda bílastæða fyrir hreyfi­hamlaða samkvæmt nefndu ákvæði byggingarreglugerðar.

Með hliðsjón af framangreindu verður ákvörðun byggingarfulltrúa um ­að samþykkja umsókn um byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20 felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá  15. október 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20.

11/2021 Lindarbraut

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 18. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar í Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverk-fræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2021, kæra á ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 11. desember 2020 um að leggja á skipulagsgjald vegna fasteignarinnar að Lindarbraut 13, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 22. janúar 2021, kæra eigendur Lindarbrautar 13, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 11. desember 2020 að leggja skipulagsgjald á fasteignina Lindarbraut 13. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Þjóðskrá Íslands 26. febrúar 2021.

Málavextir: Þjóðskrá Íslands fékk tilkynningu frá byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar hinn 23. september 2020 um að Lindarbraut 13 væri skráð á byggingarstigi 7 skv. lokaúttekt sem fram hefði farið í nóvember 2007. Þjóðskrá Íslands sendi öðrum kæranda sama dag bréf þar sem fram kom að öllum húseigendum væri skylt að brunatryggja húseignir sínar og ef ekkert svar bærist innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins myndi Þjóðskrá reikna brunabótamat húss kærenda án skoðunar á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga. Þá yrði skipulagsgjald, 0,3% af brunabótamatsfjárhæð, innheimt af embætti tollstjóra í samræmi við 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsgjald var síðan lagt á kærendur 11. desember 2020.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að húsið Þórshamar hafi staðið á lóðinni Lindarbraut 13 frá árinu 1947 og komi það m.a. fram á örnefnakorti af Seltjarnarnesi. Það hús hafi verið rifið 2005 og nýtt hús byggt í þess stað. Fyrstu stimpluðu teikningar að nýja húsinu séu frá árinu 2005 og öll gjöld hafi þá verið greidd, þ.m.t. viðbótar­gatna­gerðar­gjald. Fasteignagjöld hafi verið greidd til Seltjarnarnesbæjar frá a.m.k. árinu 2007.

Málsrök Þjóðskrár Íslands: Samkvæmt 1. gr. laga um brunatryggingar nr. 48/1994 sé hús­eiganda skylt að brunatryggja allar húseignir. Húseign skuli metin brunabótamati ekki síðar en fjórum vikum eftir að byggingu hennar lauk eða eftir að hún hafi verið tekin í notkun og beri eigandi ábyrgð á að óska eftir brunabótamati. Samkvæmt 2. gr. sömu laga annist Þjóðskrá Íslands virðingu húseignar samkvæmt matskerfi og verklagsreglum stofnunarinnar og sé heiti þeirrar gerðar brunabótamat. Markmið brunabótamatsins sé að finna vátryggingarverðmæti húseignarinnar á þeim tíma sem virðing hafi farið fram. Skuli matið taka til þeirra efnislegu verðmæta húseignarinnar sem eyðilagst geti af eldi og miðist við byggingarkostnað að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti. Nánar sé kveðið á um tilhögun brunabótamats í reglugerð um lögboðna brunatryggingu nr. 809/2000 og vísist til hennar.

Álagning skipulagsgjalds fari fram á grundvelli brunabótamats skv. 2. mgr. 17. gr. skipulags­laga nr. 123/2010 þar sem segi að greiða skuli skipulagsgjald af nýbyggingum í eitt skipti sem nemi 0,3% af brunabótamati hverrar húseignar. Nýbygging teljist hvert nýreist hús sem virt sé til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldra hús, ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemi a.m.k. 1/5 verðs eldra hússins. Umrætt skipulagsgjald verði fyrst lagt á þegar brunabóta­mat liggi fyrir.

Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar um lögboðna brunatryggingu húseigna segi að húseigandi skuli óska eftir brunabótamati eigi síðar en fjórum vikum eftir að nýtt hús sé tekið í notkun og ef húseign uppfylli ekki vátryggingarskyldu þá skuli byggingarfulltrúi synja um lokaúttekt. Byggingarfulltrúi sveitarfélags hafi eftirlit með mannvirkjagerð og beri ábyrgð á því að Þjóðskrá Íslands berist upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim svo og um öll mannvirki, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001. Í kerfum Þjóðskrár Íslands hafi byggingarstig eignar kærenda ekki verið uppfært af byggingarfulltrúa í stig 7 (fullgerð) fyrr en 23. september 2020. Þegar stofnuninni hafi borist fyrrgreind tilkynning frá byggingarfulltrúa hafi áskorun um brunabótamat verið send samdægurs til eigenda.

Samkvæmt 6. gr. reglugerðar um skipulagsgjald nr. 737/1997 skuli Fasteignamat ríkisins (Þjóðskrá Íslands) tilkynna innheimtumanni fjárhæð brunabótavirðingar húseignar, eða stofn­verðs þar sem það eigi við, þegar virðing hafi farið fram eða tilkynnt hafi verið um stofnverð og veita honum þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu vegna innheimtu gjaldsins. Samkvæmt 4. gr. falli skipulagsgjald í gjalddaga þegar brunabótavirðing hafi farið fram eða stofnverð tilkynnt og Fasteignamat ríkisins (Þjóðskrá Íslands) hafi tilkynnt innheimtumanni ríkissjóðs þær fjárhæðir. Sé þetta m.a. staðfest í álitsgerð lögmanns, dags. 12. febrúar 1996, sem Fasteignamat ríkisins hafi falast eftir vegna skipulagsgjalda. Þar segi orðrétt: „Um byggingar sem aldrei hafa verið metnar brunabótavirðingu, en hafa þó staðið um nokkurn tíma, ætti samkvæmt því að gilda sú regla að skipulagsgjald sé á fallið en ekki fallið í gjalddaga fyrr en brunabótavirðingin fer fram. Því ber að heimta skipulagsgjald af þeim byggingum þegar þær eru fyrst metnar til brunabóta.“

Þá segi einnig að „hafi brunabótavirðing byggingar aldrei farið fram hefur skipulagsgjaldið aldrei fallið í gjalddaga og krafa til þess er því ófyrnd án tillits til þess hversu langt er síðan viðkomandi bygging var reist.“ Skipulagsgjald byggingar kærenda hafi því ekki fallið í gjalddaga fyrr en við brunabótavirðingu hinn 11. desember 2020.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berist að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Hin umdeilda ákvörðun var tekin 11. desember 2020 en kæra barst nefndinn 22. janúar 2021. Í ljósi þess að engar leiðbeiningar fylgdu með hinni kærðu ákvörðun um kæruleið og kærufrest í samræmi við 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga verður að teljast afsakanlegt að kæra þessi hafi borist nefndinni að liðnum kærufresti og verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal greiða skipulagsgjald af ný­byggingum sem virtar eru til brunabóta. Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 hluta verðs eldra húss. Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins, nú Þjóðskrá Íslands, hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs.

Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands var umrætt hús að Lindarbraut 13 skráð á byggingarstigi 6 hinn 30. maí 2008 og mun húsið þá þegar hafa verið tekið í notkun. Í  gr. 3.9 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 440/1998 var tekið fram að um byggingarstig færi eftir ákvæðum ÍST 51, en þar er byggingarstig 6 skilgreint sem fullgerð bygging án lóðarfrágangs. Var því á þeim tíma unnt að meta húsið til brunabóta, en skipulagsgjald er 0,3% af brunabótamati húss skv. 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga.

Eins og háttað er reglum um álagningu skipulagsgjalds má við því búast að hún geti farið fram nokkru eftir að viðkomandi bygging hefur verið tekin í notkun og hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurðum fallist á að réttlætanlegt kunni að vera að leggja gjaldið á nokkru eftir að byggingu mannvirkis hafi lokið. Á hitt ber að líta að miðað er við að gjaldið sé lagt á nýreist hús og nýjar viðbyggingar við eldri hús samkvæmt 17. gr. skipulagslaga. Verður ekki á það fallist að umrædd bygging, sem leggja verður til grundvallar að hafi verið fullgerð ekki síðar en árið 2008, þ.e. fyrir um 13 árum, verði talin „nýreist hús“ í skilningi 17. gr. skipulagslaga þegar umdeild álagning fór fram. Engin rök leiða til þess að beitt verði svo rúmri lögskýringu við túlkun hugtaksins „nýreist hús“ í nefndu laga­ákvæði að hús sem skráð hafi verið fullgert af byggingarfulltrúa árið 2008 geti rúmast innan hugtaksins.

Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að fella úr gildi hina kærðu álagningu skipulags­gjalds vegna umræddrar fasteignar kærenda.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi hin kærða álagning skipulagsgjalds vegna húseignarinnar að Lindarbraut 13, Seltjarnarnesi.

134/2020 Tangabryggja

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 4. maí 2022, sjá hér.

Árið 2021, fimmtudaginn 6. maí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 134/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. október 2020 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélag Tangabryggju 13-15 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. október 2020 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að byggingarfulltrúa verði gert að endurtaka lokaúttekt samkvæmt skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, eftir að verktaki ljúki við bygginguna að fullu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 24. febrúar 2021.

Málavextir: Á árinu 2016 var sótt um byggingarleyfi til þess að byggja fimm hæða fjölbýlishús með 63 íbúðum á lóðinni nr. 18-24 við Tangabryggju, sem síðar var breytt í Tangabryggju 13-15. Hinn 23. apríl 2019 sendi kærandi tölvupóst til byggingarfulltrúans í Reykjavík og óskaði eftir því að fá að koma að athugasemdum áður en lokaúttekt færi fram, sem hann og gerði. Með tölvupóstum 27. s.m. og 31. maí s.á. kom kærandi að frekari athugasemdum vegna lokaúttektar. Lutu athugasemdir hans m.a. að því hvernig aðgengi og loftræsingu væri háttað. Byggingar­fulltrúi gaf út vottorð um lokaúttekt 21. júní 2019 en sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurði uppkveðnum 28. maí 2020 í máli nr. 54/2019 var ákvörðun byggingarfulltrúa felld úr gildi með vísan til þess að þáttum sem vörðuðu aðgengi skyldi ávallt vera lokið við gerð lokaúttektar, sbr. 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en að mati nefndarinnar voru tiltekin skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2010 um bílastæði hreyfihamlaðra ekki uppfyllt. Var í úrskurðinum jafnframt vísað til þess að færi lokaúttekt fram að nýju kynni byggingarfulltrúa að vera rétt að bregðast við þeim athuga­semdum sem kærandi hefði gert við meðferð málsins.

Með tölvupóstum 9. og 26. júní 2020 komu kærendur að athugasemdum vegna fyrirhugaðrar lokaúttektar byggingarfulltrúa og 9. júlí s.á. óskaði kærandi eftir því við byggingarfulltrúa að verða upplýstur um það þegar boðað yrði til skoðunar vegna lokaúttektar. Með umsókn, dags. 18. september 2020, sótti leyfishafi um leyfi til að koma fyrir bílastæði fyrir hreyfihamlaða við hús nr. 15 á lóð Tangabryggju 13-15. Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina á afgreiðslufundi sínum 20. október s.á. og áritaði breytta aðaluppdrætti sama dag. Skoðun á mannvirkinu vegna lokaúttektar fór fram 21. s.m. og sama dag gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt. Kærandi mun hafa verið upplýstur um það í síma 7. desember s.á. að vottorð um lokaúttekt hefði verið gefið út. Hinn 8. desember s.á. sendi byggingarfulltrúi tölvupóst til kæranda þar sem staðfest var að gefið hefði verið út vottorð um lokaúttekt og jafnframt beðist velvirðingar á að láðst hefði að boða fulltrúa kæranda í lokaúttektina.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi hvorki verið upplýstur um skoðun Tangabryggju 13-15 vegna lokaúttektar né um að lokaúttekt hefði farið fram. Hafi honum því ekki verið kunnugt um ákvörðunina fyrr en 7. desember 2020.

Í gr. 1.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 komi fram að meðal markmiða hennar sé að tryggja aðgengi fyrir alla. Samkvæmt gr. 6.4.2. í reglugerðinni skuli gera ráð fyrir sjálfvirkum opnunarbúnaði fyrir inngangsdyr í aðalumferðarleiðum. Slíkan búnað sé ekki að finna á þeim fimm dyrum sem marki aðalumferðarleið frá bílgeymslu að lyftum í Tangabryggju 15, en öll stæði fyrir hreyfihamlaða í eigninni tilheyri íbúðum að Tangabryggju 15. Þá sé kveðið á um það í gr. 6.4.11. að skábrautir skuli „að jafnaði ekki vera brattari en 1:20. Ef umferðarleið er styttri en 3 m er þó heimilt að halli skábrautar sé mest 1:12.“ Halli skábrautar að bílgeymslu sé meiri en 1:12 þrátt fyrir að um lengri skábraut en 3 m sé að ræða. Sú leið sé af þeim sökum ekki fær hjólastólum og því nauðsynlegt að aðalumferðarleið sé greiðfær þeim sem þar fari um. Aðgengi hreyfihamlaðra íbúa sé þar af leiðandi skert en slíkt brjóti í bága við reglur um aðgengi fyrir alla.

Ekki sé til staðar útsog úr eldhúsum íbúða, af gangi eða stigahúsum. Þar af leiðandi séu ekki eðlileg loftskipti á þessum stöðum í samræmi við gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Á uppdráttum komi fram að öll gluggalaus eða lokuð rými verði loftræst. Matarlykt leiði nú um íbúðir og fram á ganga. Loftræsing í stigahúsum, sem aðskilin séu frá stigapöllum með eldvarnarhurðum, hafi verið sett upp eftir að fyrra vottorð um lokaúttekt hafi verið fellt úr gildi. Önnur loftræsing hafi ekki verið lagfærð. Sorpgeymsla sé án læstrar hurðar og gólf þar ómeðhöndlað. Það leiði til þess að erfitt sé að þrífa gólfið, en skv. gr. 6.12.7. skuli sorpgeymslur þannig frágengnar að auðvelt sé að þrífa þær. Einnig segi í gr. 6.12.8. að gólf í sorpgerði/sorpskýli skuli vera úr efni sem auðvelt sé að þrífa. Þá vanti loftræsingu í sorpgeymslu svo hægt sé að læsa henni, sbr. gr. 6.12.7. Samkvæmt gr. 6.12.1. skuli ganga þannig frá tæknirýmum að þau „séu ávallt læst ef í þeim eru tæki, búnaður eða efni sem eru viðkvæm, geta valdið slysum eða verið hættuleg börnum eða fullorðnum.“ Rafmagnstöflur séu ólæstar í sameiginlegu rými, sem sé skilgreint sem hjóla- og vagnageymsla/tæknirými. Þar sé óhindrað aðgengi fyrir börn og fullorðna sem geti valdið slysum og tjóni fyrir íbúa hússins. Samkvæmt gr. 6.2.2. skuli lýsing og merkingar við alla gangstíga, hjólastíga, akbrautir og bílastæði henta þeirri umferð sem gert sé ráð fyrir á svæðinu. Bílastæði séu óupplýst ásamt hluta gangstígs, sem skapi hættu fyrir íbúa sem eigi þar leið um í skammdeginu.

Svo virðist sem húsið hafi ekki verið tekið út samkvæmt ákvæðum skoðunarhandbókar og skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð. Hefði skoðunarhandbók og skoðunarlistum verið fylgt við áfanga- og lokaúttektir á byggingunni hefði komið fyrr til úrbóta. Ekki sé hægt að gefa út lokaúttektarvottorð þegar ekki séu uppfyllt skilyrði varðandi aðgengi, hollustuhætti og öryggismál.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að ekki verði séð að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn þeirra málsástæðna sem hann hafi byggt á í máli nr. 54/2019 hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í ljósi þess að nefndin hafi áður tekið afstöðu til þeirra. Í úrskurðinum hafi ekki verið fjallað efnislega um þær málsástæður og verði því sú ályktun dregin að nefndin hafi ekki séð ástæðu til þess. Því verði einungis fjallað um aðrar málsástæður kæranda.

Leyfishafi hafi sótt um byggingarleyfi til breytinga á útgefnu byggingarleyfi til að lagfæra þau atriði sem úrskurðarnefndin hafi gert athugasemdir við í fyrra máli. Hafi byggingarfulltrúi samþykkt umsókn um bílastæði fyrir hreyfihamlaða fyrir framan húsið, en með því hafi krafa byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um bílastæði fyrir hreyfihamlaða verið uppfyllt. Skýrsla vegna stillinga á hurðarpumpum í sameign og átaksmælingar opnunar þeirra hafi verið send byggingarfulltrúa með niðurstöðum um lagfæringar á stillingum. Einnig liggi fyrir minnisblað loftræsihönnuðar þar sem gerð sé grein fyrir hönnunarforsendum og loftun stigahúsa. Þá sé bent á að aðrar málsástæður sem hafi áður komið til umfjöllunar úrskurðarnefndarinnar, s.s. vélrænt útsog í eldhúsum og aðgerðir í sorpgerði, séu ekki réttmætar. Frágangur hafi verið í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, eins og hún hafi verið við samþykkt upprunalegrar byggingarleyfisumsóknar 14. mars 2017. Hvað lýsingu á lóðinni varði þá hafi athugun byggingarfulltrúa leitt í ljós að lýsing aðkomu hússins væri í samræmi við lóðaruppdrátt frá 7. janúar 2019.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er þess krafist að kröfum kæranda í málinu verði hafnað. Bent sé á að í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 54/2019 hafi nefndin fellt úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15 með vísan til þess að bílastæði hreyfihamlaðra uppfylltu ekki nánar tilgreindar kröfur í gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Leyfishafi hafi bætt úr því með því að bæta við bílastæði fyrir hreyfihamlaða beint fyrir utan aðalinngang Tangabryggju 15. Hvað aðrar athugasemdir varði hafi nefndin tekið fram að byggingarfulltrúa kynni að vera rétt að bregðast við þeim. Að mati leyfishafa skuli afmarka ágreining málsins við það hvort  fullnægjandi úrbætur hafi verið framkvæmdar í samræmi við úrskurð nefndarinnar í fyrra máli.

Byggingarfulltrúi hafi að öllu leyti verið meðvitaður um þau atriði sem kærandi hafi talið vera ábótavant þegar gefið hafi verið út nýtt vottorð um lokaúttekt. Athugasemdir kæranda séu að langstærstum hluta þær sömu og hafi verið settar fram í máli nr. 54/2019. Áður en lokaúttekt hafi farið fram að nýju hafi kærandi sent skjal til byggingarfulltrúa með sambærilegum athugasemdum. Embættið hafi ekki talið tilefni til að bregðast við þeim, eftir atvikum með synjun um útgáfu vottorðsins eða með útgáfu þess með athugasemdum. Hin kærða ákvörðun feli þvert á móti í sér staðfestingu á að bílastæði mannvirkisins hafi uppfyllt kröfur byggingar­reglugerðar um aðgengi hreyfihamlaðra og tilskilda stærð, að mannvirkið uppfylli að öðru leyti viðeigandi kröfur laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerðar og að byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna. Fullnægjandi úrbætur hafi verið gerðar og þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfum kæranda.

Stór hluti athugasemda kæranda, s.s. varðandi sorpgeymslu, tæknirými og lýsingar á bíla­stæðum og göngustígum, beinist að atriðum sem myndu teljast minniháttar frávik ef fallist yrði á þær. Athugasemdirnar hefðu í mesta lagi getað orðið til þess að byggingarfulltrúi hefði gefið út vottorð um lokaúttektina með athugasemdum skv. 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010. Slík minniháttar frávik geti undir engum kringumstæðum valdið ógildingu lokaúttektarinnar í heild sinni með tilheyrandi íþyngjandi réttaráhrifum fyrir leyfishafa og aðra hlutaðeigandi aðila.

Kærandi nefni þrjú atriði sem tengist aðgengi. Fyrsta atriðið varði bílastæði fyrir hreyfihamlaða, en um það sé vísað til fyrri umfjöllunar. Annað atriði varði sjálfvirkan opnunarbúnað fyrir inngangsdyr/útidyr í aðalumferðarleiðum sem skuli gera ráð fyrir, sbr. b-lið 5. mgr. gr. 6.4.2. í byggingar­reglugerð. Inngangur úr bílageymslu inn í húsið liggi ekki um inngangsdyr/útidyr í aðal­umferðarleið í skilningi framangreinds ákvæðis. Fjallað sé um dyr innanhúss í gr. 6.4.3., en samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins skuli dyr í byggingum þannig frágengnar að allir, þ.m.t. fólk í hjólastól, geti opnað þær og sé í ákvæðinu mælt fyrir um ákveðið hámarksátak við að opna hurðir. Leyfishafi hafi framkvæmt átaksmælingar á opnun hurða í kjallaranum til þess að ganga úr skugga um og sýna fram á að þær væru innan leyfilegra marka með hliðsjón af kröfum ákvæðisins. Átaksmælingar hafi staðfest að allar eldvarnarhurðir úr bifreiðakjallara, inn að stigagöngum og að lyftu, sem og aðrar hurðir í kjallaranum, séu í samræmi við nefndar kröfur. Allar gönguleiðir séu samkvæmt gildandi reglum um aðgengi fyrir alla og öll atriði sem varða aðgengi innanhúss séu einnig í samræmi við gildandi reglur. Þriðja atriðið hafi varðað skábrautir en í gr. 6.4.11. í byggingarreglugerð sé fjallað um hönnun skábrauta fyrir hjólastóla og settar fram viðmiðunarreglur, m.a. um hámarkshalla. Leyfishafi geri ráð fyrir að umfjöllun kæranda beinist að halla umferðarleiðar fyrir bifreiðar inn í bílgeymslu kjallarans. Umferðarleið fyrir bifreiðar inn í bílgeymslu kjallara teljist ekki skábraut fyrir hjólastóla. Af þessari ástæðu nái kröfur um hönnun skábrauta fyrir hjólastóla ekki til þessa hluta mannvirkisins og sé ekki um brot á byggingarreglugerð að ræða.

Í skilalýsingu Tangabryggju 13-15 sé kveðið á um að vélræn loftræsing (útsog) verði í rýmum samkvæmt hönnunargögnum þar sem við eigi, auk opnanlegra faga og eldhúsháfs. Vottorð um lokaúttekt staðfesti að mannvirkið, þ.m.t. loftræsing, hafi verið byggt í samræmi við samþykkt hönnunargögn og uppfylli viðeigandi kröfur byggingarreglugerðar. Á grunnmynd af loft­ræsingu sé leitast við að varpa skýrara ljósi á þennan þátt málsins. Í því samhengi sé rétt að nefna að við lokaúttekt hafi legið fyrir yfirlýsing blikksmíða-, pípulagningar- og rafvirkja­meistara um að loftræsikerfi hafi verið stillt, samvirkni tækja prófuð og að afköst þeirra séu í samræmi við hönnunargögn. Einnig hafi legið fyrir niðurstöður loftmagnsmælinga ásamt samanburði við kröfur um loftmagn í hönnunargögnum. Að mati leyfishafa uppfylli lofræsing allar viðeigandi kröfur byggingarreglugerðar.

Hvað sorpgeymslu varði sé bent á að gr. 6.12.7. í byggingarreglugerð eigi við um innbyggðar sorpgeymslur og sorpgeymslur sem séu byggðar í tengslum við byggingar. Hin umdeilda sorpgeymsla falli ekki undir það gildissvið þar sem um sé að ræða sorpskýli. Um sorpskýli sé fjallað í gr. 6.12.18., en hvorki sé mælt fyrir um að þau skuli vera með læsanlegri hurð né að þau skuli loftræst með ólokanlegri loftrist að útilofti. Gólf sorpskýla skuli hins vegar vera úr efni sem sé auðvelt að þrífa. Gólfflötur sorpskýlisins sé steyptur og vélslípaður og í samræmi við gr. 6.12.18.

Að mati kæranda sé ekki forsvaranlegt að rafmagnstöflur séu ólæstar í sameiginlegu rými sem skilgreint sé sem hjóla- og vagnageymsla, sbr. 4. mgr. gr. 6.12.1. í byggingarreglugerð. Leyfishafi hafi haft samband við sérfræðing hjá rafmagnsöryggissviði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og hafi niðurstaða hans verið sú að ekkert væri því til fyrirstöðu að staðsetja rafmagnstöflur í hjóla- og vagnageymslum. Í byggingarreglugerð séu engar kröfur um að rafmagnstöflur séu læstar og ekki verði séð af öðrum réttarheimildum að slíkar kröfur séu gerðar. Til hliðsjónar megi benda á 13. mgr. gr. 11.2. í reglugerð nr. 678/2009 um raforkuvirki, með síðari breytingum, en þar sé tiltekið að rafmagnstöflum skuli þannig komið fyrir að aðgengi að þeim sé auðvelt og óski eigandi eða umráðamaður þess, t.d. til að koma í veg fyrir óæskilega umgengni, megi staðsetja rafmagnstöflur í læstu rými eða skáp. Af þessu ákvæði virðist mega ráða að meginreglan sé að þær skuli vera aðgengilegar og almennt í ólæstum rýmum en heimilt sé að staðsetja þær í læstu rými eða skáp.

Að lokum telji leyfishafi lýsingu bílastæða og gangstíga vera í samræmi við kröfur 5. mgr. gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð. Einnig sé bent á að bæði skoðunarhandbók og skoðunarlistar byggist á byggingarreglugerð og hafi lokaúttekt verið gerð með vísan til ákvæða í 36. gr. laga nr. 160/2010, sbr. einnig gr. 3.9.1., 3.9.2. og 3.9.3. í fyrrgreindri byggingarreglugerð. Mannvirkið uppfylli allar viðeigandi kröfur mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar og hafi verið byggt í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Engir annmarkar séu fyrir hendi á hinni kærðu ákvörðun sem geti leitt til ógildingar hennar og skuli því hafna kröfum kæranda í málinu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi vísar til þess að þó úrskurðarnefndin hafi ekki í fyrri úrskurði tilgreint að þörf sé á að uppfylla ákveðin ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 jafngildi það ekki samþykki fyrir því að þau standi óuppfyllt. Í úrskurði nefndarinnar hafi komið fram að byggingarfulltrúa kunni „að vera rétt að bregðast við þeim athugasemdum sem kærandi hefur gert við meðferð máls þessa, s.s. um að gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð sé ekki fullnægt þar sem útsog sé ekki til staðar í eldhúsum íbúða.“ Vakin sé athygli á að í gr. 6.2.4. komi fram að „bílastæði hreyfihamlaðra og umferðarleiðir frá þeim að aðalinngangi byggingar skulu vera upphituð þar sem því verður við komið.“ Bílastæðið sem bætt hafi verið við fyrir framan Tangabryggju 15 sé staðsett á stétt utan snjóbræðslu og því ekki upphitað. Sannarlega sé hægt að hafa bílastæðið upphitað þar sem nálæg stétt sé upphituð og ekkert því til fyrirstöðu að upphitun nái einnig yfir stæðið.

Samkvæmt byggingarreglugerð skuli fjölbýlið að Tangabryggju 13-15 hafa fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Þau séu nú alls fimm talsins en fjögur þeirra séu staðsett í læstri bílgeymslu og séu þinglýst eign eigenda fjögurra íbúða. Þá komi fram í 9. mgr. gr. 6.24. að fækka megi bílastæðum á lóð mannvirkis sem nemi fjölda sérmerktra stæða fyrir hreyfihamlaða í sameiginlegri bílgeymslu, enda sé tryggt að gestkomandi hafi ávallt aðgang að hluta stæðanna. Þar sem bílgeymsla sé læst og takmarkist við aðgengi íbúa hafi gestkomandi ekki aðgang að stæðum sem þar séu staðsett. Kærandi fái því ekki séð að hægt sé að fækka bílastæðum á lóð sem nemi fjölda sérmerktra stæða í sameiginlegri bílgeymslu, eins og reglugerð kveði á um. Þannig sé eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða íbúa og gesti of lítið.

Bent sé á að stilling hurðapumpa hafi ekki verið umfjöllunarefni kærunnar. Kjósi íbúi að nýta bílastæði sitt í bílgeymslu, þar sem nú þegar séu staðsett bílastæði fyrir hreyfihamlaða, komist sá hinn sami ekki úr bílgeymslunni nema í gegnum dyr í sameign. Að mati kæranda sé það aðalumferðarleið og því óásættanlegt að hreyfihömluðum íbúum sé gert ókleift að nýta stæði sín.

Í kæru hafi komið fram að lofræsingu hafi verið komið fyrir í stigahúsum áður en seinni lokaúttekt hafi farið fram. Ekki hafi fengist staðfesting á að sú loftræsing uppfylli lág­markskröfu gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð um 17 l/s loftskipti í stigahúsum. Þá sé bent á að stigagangar séu gluggalaus lokuð rými sem séu aðskilin stigahúsum með eldvarnarhurðum. Þar hafi ekki verið bætt úr loftræsingu. Í 1. mgr. gr. 10.2.5. komi fram að öll rými íbúða og íbúðarhúsa skuli loftræst. Sú loftræsing sem bætt hafi verið úr veiti ekki fersklofti inn á stigaganga sem séu lokaðir af og því enga loftræsingu þar að finna.

Sorpgeymslan á lóð fjölbýlishússins falli undir skilgreiningu byggingarreglugerðar um sorp­geymslu en ekki sorpgerði, enda hafi hún fjóra veggi og þak. Í gr. 6.12.7. komi fram að inngangur í sorpgeymslu sem byggð sé í tengslum við byggingar skuli vera utan frá um læsanlegar dyr sem opnist út. Umrædd sorpgeymsla sé sannanlega byggð í tengslum við bygginguna að Tanga­bryggju 13-15. Því eigi læsanlegar dyr að vera á henni. Einnig sé gólfflötur sorpgeymslu steyptur en ekki vélslípaður, líkt og leyfishafi haldi fram. Gólfflötur sé því grófur og erfiður til þrifa.

Reykjavíkurborg hafi greint frá því að athugun byggingarfulltrúa á lýsingu aðkomu hússins hafi leitt í ljós að hún væri í samræmi við lóðarblað hönnuða. Hönnunargögnin sjálf séu ekki til umfjöllunar en þau hefðu átt að uppfylla ákvæði reglugerðar til að vera samþykkt. Eins og sjá megi á myndum sé engin lýsing á gönguleið frá bílastæðum íbúa, sem staðsett séu á þaki bílgeymslu, og í myrkri sjáist gönguleiðin meðfram húsveggnum illa. Götulýsing dugi ekki til að lýsa upp gönguleiðina þar sem sorp- og hjólageymsla Tangabryggju 18 standi á milli ljósastaura og gönguleiðar.

Það sé rangt hjá leyfishafa að athugasemdir kæranda varði minniháttar frávik og að slíkt hefði leitt til þess að lokaúttektarvottorð hefði verið gefið út með athugasemdum. Samkvæmt 2. mgr. gr. 3.9.4. í byggingarreglugerð megi hvorki vera ófullgerðir verkþættir sem varði öryggis- og hollustukröfur né verkþættir sem séu háðir áfangaúttekt. Við lokaúttekt sé húsnæðið metið samkvæmt skoðunarhandbók og skoðunarlista Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar skv. gr. 3.5.1. Það sé forsenda úttektarinnar. Skortur á lofræsingu lokaðra rýma og það að umferðarleið að og frá bílgeymslu sé ekki hönnuð á grundvelli algildrar hönnunar leiði til athugasemda í flokki 2 samkvæmt skoðunarlista um yfirferð hönnunargagna. Athugasemdir í flokki 2 leiði til höfnunar á samþykkt og kröfu um endurtekningu skoðunar skv. gr. 2.3.1. í viðauka II við byggingarreglugerð. Byggingarfulltrúi vanræki hlutverk sitt því mannvirkið hafi verið byggt samkvæmt hönnunargögnum sem ekki hafi uppfyllt ákvæði byggingarreglugerðar að fullu.

Gerð sé athugasemd við að á aðaluppdráttum sé hvergi skilgreint tæknirými í fjölbýlinu. Í rýminu, sem sé skilgreint sem hjóla- og vagnageymsla, sé nú búið að setja upp rafmagnstöflur, loftræsiblásara og annan tæknibúnað. Þessi geymsla sé jafnframt aðalgönguleið frá lyftu í Tangabryggju 15 að bílgeymslu. Því sé ekki heimilt að staðsetja tæknibúnað í hjóla- og vagnageymslu og losna með þeim hætti undan þeirri kröfu gr. 6.12.1. í byggingarreglugerð að gengið skuli frá tæknirýmum þannig að þau séu ávallt læst ef í þeim séu tæki, búnaður eða efni sem séu viðkvæm, geti valdið slysum eða verið hættuleg börnum eða fullorðnum. Byggingarfulltrúa og leyfishafa hafi mátt vera ljóst að til að uppfylla ákvæði um aðgengi að rafmagnstöflum, óheft aðgengi að björgunaropum/neyðarútgöngum og gönguleið að bílgeymslu í þessu rými stæði lítið sem ekkert rými eftir fyrir þá hjóla- og vagnageymslu sem tilgreind sé í hönnunargögnum.

Niðurstaða: Framkvæmd lokaúttektar og útgáfa vottorðs þess efnis er hluti af lögbundnu eftirliti byggingarfulltrúa með mannvirkjagerð, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna skal við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá er mælt fyrir um í 4. mgr. ákvæðisins að ef mannvirkið uppfylli ekki að öllu leyti ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim þá geti útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um lokaúttektina með athugasemdum. Þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar.

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 54/2019 sótti leyfishafi um og fékk samþykkta breytingu á byggingarleyfi mannvirkis í því skyni að koma fyrir bílastæði fyrir hreyfihamlaða fyrir utan húsið nr. 15 á lóðinni Tangabryggju 13-15, sem hann og gerði. Í gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 kemur fram að bílastæði hreyfihamlaðra og umferðarleiðir frá þeim að aðalinngangi byggingar skuli vera upphituð þar sem því verði við komið. Fyrir liggur að gangstétt við hlið bílastæðisins er upphituð og hefði því væntanlega verið unnt að koma við upphitun bílastæðisins. Þótt það hafi ekki verið gert verður að líta til þess að ætla má að hreyfihamlaðir noti upphitaða gangstéttina til að komast að og frá bílum sínum. Með hliðsjón af því telur úrskurðarnefndin það ekki varða ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að umrætt bílastæði sé ekki upphitað.

Kærandi hefur vísað til þess að vegna skorts á lýsingu við bílastæði, sem staðsett séu á þaki bílgeymslu, sjáist gönguleiðin þaðan illa í myrkri. Að mati hans sé það ekki í samræmi við 5. mgr. gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð, sem kveður á um að lýsing og merkingar við alla gangstíga, hjólastíga, akbrautir og bílastæði skuli henta þeirri umferð sem gert sé ráð fyrir á svæðinu. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ekki ráðið af hinu almenna orðalagi ákvæðisins að leyfishafa hafi borið skylda til að koma fyrir sérstakri lýsingu á svæðinu.

Fram kemur í b-lið 5. mgr. gr. 6.4.2. í byggingarreglugerð að gera skuli ráð fyrir sjálfvirkum opnunarbúnaði fyrir inngangsdyr/útidyr í aðalumferðarleiðum. Verður það orðalag ákvæðisins að gera skuli ráð fyrir sjálfvirkum opnunarbúnaði ekki túlkað á þá leið að sú krafa sé gerð að inngangsdyr/útidyr í aðalumferðarleiðum séu með sjálfvirkan opnunarbúnað, heldur einungis að vel sé hægt að koma slíkum búnaði fyrir. Af fyrirliggjandi samþykktum teikningum verður ekki annað ráðið en að svo sé við inngangsdyr bílgeymslunnar. Þá liggur einnig fyrir skýrsla leyfishafa um átaksmælingar hurða og verður af henni ráðið að aðrar dyr í kjallara hússins uppfylli skilyrði 4. mgr. sama ákvæðis byggingarreglugerðarinnar um hámarksátak við opnun dyra.

Í gr. 6.4.11. er fjallað um halla skábrauta fyrir hjólastóla og eru settar viðmiðunarreglur um hönnun skábrauta í 2. mgr. ákvæðisins. Segir þar í 1. tölul. að skábrautir skuli að jafnaði ekki vera brattari en 1:20, en ef umferðarleið sé styttri en 3 m sé þó heimilt að halli skábrautar sé mest 1:12. Á samþykktum teikningum má sjá að skábraut í bílgeymslu að inngangsdyrum er styttri en 3 m og að halli er 8,3%, eða 1:12. Verður því að telja að hönnun skábrautarinnar í bílgeymslu sé í samræmi við nefnda viðmiðunarreglu byggingarreglugerðar.

Samkvæmt 4. mgr. gr. 6.12.1. í byggingarreglugerð skal ganga frá tæknirýmum þannig að þau séu ávallt læst ef í þeim eru tæki, búnaður eða efni sem séu viðkvæm, geta valdið slysum eða verið hættuleg börnum eða fullorðnum. Gerir kærandi athugasemd við að rafmagnstöflur séu ólæstar í sameiginlegu rými fyrir hjóla- og vagnageymslu. Að mati úrskurðarnefndarinnar geta rafmagnstöflur ekki flokkast undir tæki, búnað eða efni sem séu viðkvæm eða geti valdið slysum eða verið hættuleg börnum eða fullorðnum. Þá verður ekki séð að önnur ákvæði reglugerðarinnar kveði á um að rafmagnstöflum skuli komið fyrir í læstu rými, en alvanalegt er að svo sé ekki. Að sama skapi verður heldur ekki talið að óheimilt sé að staðsetja rafmagnstöflur í sameiginlegri hjóla- og vagnageymslu.

Fjallað er um innbyggðar sorpgeymslur og sorpgeymslur byggðar í tengslum við byggingar í gr. 6.12.7. og segir þar í 1. mgr. að inngangur skuli vera utan frá um læsanlegar dyr sem opnast út. Þá er í gr. 6.12.8. fjallað um sorpgerði/sorpskýli, en í því ákvæði er ekki gerð krafa um læsanlegar dyr. Fram kemur í ákvæðinu að gólf skuli vera úr efni sem auðvelt sé að þrífa. Úrskurðarnefndin telur ljóst að mannvirki það sem merkt er sem „sorp“ á samþykktum teikningum falli undir sorpgerði/sorpskýli í skilningi byggingarreglugerðar, enda um að ræða stakstætt útihús. Verður því ekki fallist á með kæranda að læsanlegar dyr eigi að vera á mannvirkinu. Þá liggur fyrir að gólfflötur er steyptur sem telja verður  efni sem auðvelt sé að þrífa.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir varðandi útsog og loftræsingu. Vísar hann m.a. til þess að ekki séu eðlileg loftskipti í eldhúsum íbúða, af gangi eða stigahúsum, auk þess sem stigagangar séu gluggalaus lokuð rými og því án loftræsingar. Fjallað er um loftræsingu íbúða og tengdra rýma í gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Í 1. mgr. ákvæðisins er fjallað um meginreglur og kemur þar fram í 1. tölul. að öll rými íbúða og íbúðarhúsa skuli loftræst. Heimilt sé að beita náttúrulegri loftræsingu, vélrænni loftræsingu eða blöndu af hvoru tveggja. Þá segir jafnframt að útsog skuli vera úr eldhúsi. Þá er í 2. mgr. ákvæðisins fjallað um viðmiðunarreglur um ákvörðun loftmagns í íbúðum og tengdum rýmum. Samkvæmt 1. tölul. skal útsog úr stigahúsum vera að lágmarki 17 l/s. Fyrir liggur í máli þessu minnisblað orkutæknifræðings um loftræsingu Tangabryggju 13-15 og kemur þar m.a. fram að lofræsing íbúða sé blanda af náttúrulegri og vélrænni lofræsingu. Eldhús séu staðsett í alrýmum íbúða við útvegg og séu lofræst um opnanleg gluggafög og ferskloftsventla í útveggjum, en að auki séu til staðar eldhúsháfar með kolasíum „sem hægt er að keyra til lofthreinsunar“ þegar þörf sé á. Upp úr þaki stigahúsa séu ø125 mm lofttúður til að trekkja loft upp og miðað við teikningar séu afköst þeirra á bilinu 18-30 l/s. Á lyftustokkum í stigagöngum séu lofttúður upp úr þaki sem dragi loft frá stigagöngum. Við nokkuð stöðugan umgang um stigagang, bæði um lyftur og stigahús, séu eðlileg loftskipti tryggð. Að virtri fyrrgreindri sérfræðiskýrslu, sem og uppdráttum loftræsibúnaðar, verður ekki talið að fyrirkomulagi lofræsingar mannvirkisins sé þannig háttað að varðað geti ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir neinir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kæranda þar að lútandi því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. október 2020 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15.

13/2021 Foss í Grímsnesi

Með

Árið 2021, föstudaginn 30. apríl fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2021, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar umhverfis- og tækni­sviðs Uppsveita bs. frá 9. desember 2020 sem samþykkt var í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps 16. s.m. um að samþykkja erindi kærenda um skiptingu jarðarinnar Foss með fyrirvara um samþykki eigenda aðliggjandi jarða þar sem það eigi við.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. janúar 2021, er barst nefndinni 2. febrúar s.á., kæra eigendur jarðarinnar Foss í Grímsnesi þá ákvörðun skipulags­nefndar umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. frá 9. desember 2020, sem samþykkt var í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps 16. s.m., að samþykkja erindi kærenda um skiptingu jarðarinnar Foss með fyrirvara um samþykki eigenda aðliggjandi jarða þar sem það eigi við. Gera kærendur þá kröfu að hinni kærðu ákvörðun verði breytt þannig að fyrirvarar um samþykki eigenda aðliggjandi jarða verði felldir úr ákvörðunum skipulagsnefndar og sveitarstjórnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá umhverfis- og tæknisviði Uppsveita bs. 4. febrúar 2021.

Málavextir: Með umsókn, dags. 30. nóvember 2020, sóttu kærendur, sem eru eigendur jarðarinnar Foss, um skiptingu jarðarinnar í þrjá hluta. Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs., 9. desember s.á., en umhverfis- og tæknisvið Uppsveita er byggðasamlag sveitarfélaganna Grímsnes- og Grafningshrepps, Bláskógabyggðar, Hrunamannahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Flóahrepps og Ásahrepps og hefur það hlutverk að annast lögbundin verkefni byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa. Skipulagsnefnd gerði ekki athugasemd við skiptingu jarðarinnar og mæltist til að sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti umsóknina með fyrirvara um að samþykki eigenda aðliggjandi jarða lægi fyrir þar sem það eigi við. Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps tók erindið fyrir á fundi 16. desember s.á. og samþykkti umsóknina með sama fyrirvara og skipulagsnefnd. Kærendum var tilkynnt um afgreiðslu umsóknarinnar með bréfi dags. 4. janúar 2021.

Málsrök kærenda: Bent er á að fjórar jarðir eigi land að Fossi, þ.e. Stóra-Borg, Hallkelshólar, Klausturhólar og Hraunkot. Kærendur hafi nú þegar gert sérstakt samkomulag við eigendur allra þessara jarða um landamerki þeirra gagnvart Fossi. Þegar af þeirri ástæðu hafi orðalag hins kærða fyrirvara verið kærendum framandi, sérstaklega að samkomulag þurfi að liggja fyrir „þar sem við eigi“. Að minnsta kosti einn viðsemjenda kærenda, eigandi Hallkelshóla, hafi notið lögfræðiaðstoðar við samningsgerð, líkt og vottun á samkomulagi beri með sér. Samkomulag við eigendur allra aðliggjandi jarða liggi fyrir. Þegar af þeirri ástæðu beri að taka kröfu kærenda til greina.

Til að gefa nánari mynd af samningum þessum þyki kærendum rétt að víkja nokkrum orðum að hverjum þeirra. Sá fyrsti hafi verið gerður í maí 2004 við eigendur Stóru-Borgar. Sá samningur hafi verið gerður að frumkvæði eigenda nefndrar jarðar en hinir þrír að frumkvæði kærenda. Formið hafi verið nokkuð annað en samningurinn hafi einnig náð til grannjarða Stóru-Borgar um merki jarða norðan og austan Biskupstungnabrautar. Áritun eigenda Foss feli í sér samkomulag um merki jarðanna tveggja um miðjan farveg Höskuldslækjar frá brú yfir lækinn á Biskupstungnabraut að mörkum Hraunkots í suðri. Um þetta vísist til meðfylgjandi loftmyndar af landi Stóru-Borgar og Foss og áritun samningsaðila. Um þetta hafi ætlið ríkt fullkomin sátt milli eigenda Foss og Stóru-Borgar.

Næst hafi kærendur gert samning vegna landamerkja 22. júní 2008. Þá hafi verið samið við eiganda Hallkelshóla um landamerki þeirrar jarðar og Foss. Þar með hafi verið leiddur til lykta ágreiningur, sem hafi átt rætur að rekja til 12. maí 1942 þegar Hólakot, eftir það Hallkelshólar, hafi verið selt og orðið samtímis sjálfstæð jörð með nýju nafni. Um leið hafi verið dregin landamerkjalína milli jarðanna sem liggi þar sem stutt sé á milli bæjarhúsa Klausturhóla og Hallkelshóla. Landamerkjalínan skyldi ná til suðurs að landamerkjum Foss. Fyrir mistök hafi markalínan ekki verið dregin frá norðri til suðurs að landamerkjum Foss heldur frá örnefninu Klofsteinum sem sé nokkuð innan landamerkja Foss til norðurs milli bæjarhúsa á Klaustur­hólum og Hallkelshólum. Eignarréttur þeirra jarða skyldi miðast við þá línu allt frá Klofsteinum en með þessu hafi landspildur verið fluttar frá Fossi til áðurnefndra jarða. Ekki hafi verið í ljós leitt að nokkurt samráð hafi verið haft við þáverandi eiganda Foss, hvað þá samþykki hans fengið. Nýr eigandi Foss, frá 1959, hafi leitað eftir samkomulagi við eiganda Hallkelshóla um leiðréttingu á þessum mistökum og börn hans eftir lát hans árið 1973. Viðræður hafi átt sér stað en verið stopular og málinu hafi ekki verið lokið fyrr en árið 2008. Þar séu tekin af öll tvímæli um það að á norður- og vesturmörkum, þar sem lönd Foss og Hallkelshóla komi saman, liggi mörkin í þeirri sjónhendingarlínu milli Arnarhreysis í vestri og Markakeldu í austri, sem samið hafi verið um með landamerkjabréfum fyrir Foss og Klausturhóla árin 1885 og 1890. Í niðurlagi samningsins frá 2008 sé einnig getið um fyrirvara eiganda Hallkelshóla.

Þriðji samningur kærenda við nágranna sé dagsettur 15. nóvember 2010 við Grímsnes- og Grafningshrepp. Hann beri fyrirsögnina „YFIRLÝSING um landamerki Foss og Klausturhóla í Grímsnesi“. Þar sé í upphafi getið áðurnefndra landamerkjabréfa frá 1885 og 1890 fyrir Foss og Klausturhóla en síðan sagt að bæði bréfin séu samþykkt af eigendum aðliggjandi jarða og þinglesin. Eignarréttur að þeim hluta Klausturhóla, sem liggi að Fossi og sé sunnan Biskupstungnabrautar og vestan Hallkelshóla, tilheyri nú Grímsnes- og Grafningshreppi. Aðilarnir lýsi því síðan yfir að þeir séu sammála um að í bréfunum felist að merki mill nefndra jarða mótist af línu sem hugsist dregin frá örnefninu Arnarhreysi í vestri til austurs í sjón­hendingu í Markakeldu á eystri bakka Höskuldslækjar. Vestasti hluti þessarar línu sé samkvæmt því milli Foss og Klausturhóla en framhald sömu línu til austurs að þjóðvegi sé milli Foss og Hallkelshóla samkvæmt yfirlýsingu eigenda þeirra jarða frá 22. júní 2008.

Fjórði og síðasti samningurinn sem kærendur hafi gert við nágranna sé við Sjómannadagsráð sem eiganda Hraunkots í Grímsnesi. Samningurinn sé dagsettur 3. september 2013. Hann mæli fyrir um nákvæmari legu landamerkja milli Foss og Hraunkots en áður hefði verið gert. Þá sé þar einnig fjallað um girðingu á mörkum jarðarinnar Arnarhreysis í vestri og Kiðjabergsvegar í suðaustri. Meðal annars komi fram að hún fylgi ekki nákvæmlega beinni línu sem landamerkin ráðist af og hvernig við því skuli brugðist. Þá hafi verið kveðið á um viðhald girðingarinnar.

Framangreindum athugasemdum sé ætlað að undirstrika að af hálfu kærenda hafi verið kappkostað að forðast misklíð við nágranna og semja þess í stað um ágreiningsefni sem tengist landamörkum. Að gera samning kærenda við þessar aðstæður háðan samþykki „þar sem það á við“ sé í senn illskiljanlegt og óeðlilegt.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að niðurstaða þess sé ekki kærð heldur orðalag bókunar um að erindi sé samþykkt með fyrirvara um að samþykki eigenda aðliggjandi jarða liggi fyrir þar sem við eigi. Engin kvöð felist í bókun skipulagsnefndar og sveitarstjórnar vegna málsins eins og ítrekað komi fram í kæru. Í bókuninni felist sá fyrirvari að, ef við nánari yfirferð framlagðra gagna komi fram að óska þurfi samþykkis eigenda aðliggjandi jarða fyrir sameiginlegum landamerkjum, þá verði slíkt gert. Í fyrir­varanum felist ef því engin kvöð um að það skuli gert gögn og upplýsingar reynist fullnægjandi. Við yfirferð gagnanna af hálfu starfsmanna umhverfis- og tæknisviðs hafi komið upp vafi um hvort öll hnitsett mörk hefðu sannarlega verið samþykkt af eigendum aðliggjandi jarða. Það liggi fyrir að mörk samkvæmt lýsingu hafi verið samþykkt af öllum hlutaðeigandi eins og fram komi í samantekt kærenda. Við fyrirtöku málsins hafi ekki legið fyrir, og geri ekki enn, hvort allir hlutaðeigandi hefðu samþykkt hnitsetta afmörkun landamerkja og hvort hnitsetning væri í takt við lýsingu. Það sé því ekki óeðlilegt af hálfu sveitarfélagsins að setja fyrirvara um að hugsanlega þurfi að leita samþykkis eigenda aðliggjandi jarða ef vafi sé um sameiginlegt samþykki hlutaðeigandi fyrir hnitsetningu jarðamarka enda sé nákvæmni hnitsetningar landamerkja nokkuð meiri en lýsingar.

Einnig sé bent á að úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fallast á kröfugerð kærenda eins og hún sé sett fram í kæru.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er óheimilt að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til. Er það því sveitarstjórn sem samþykkir skiptingu lands eða lóða, eftir atvikum að undangenginni málsmeðferð skipulagsnefndar sem getur sent tillögu sína um lyktir máls til sveitarstjórnar. Er það því samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafnings­hrepps frá 16. desember 2020 sem er hin kæranlega ákvörðun í máli þessu en bókun skipulagsnefndar frá 9. desember s.á er hluti af undirbúningi þeirrar ákvörðunar. Deilt er um um lögmæti þess fyrirvara í ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um skipt­ingu jarðarinnar Foss að samþykki eigenda aðliggjandi jarða liggi fyrir þar sem það eigi við.

Það er ekki á valdi sveitarstjórna að leysa með bindandi hætti úr ágreiningi um land- eða lóðamörk og geta ákvarðanir þeirra um slíka skiptingu ekki hróflað við eignaréttindum manna eða lögpersóna. Ef fyrir hendi er ágreiningur um bein eða óbein eignaréttindi að landi verður sá ágreiningur eftir atvikum til lykta leiddur fyrir dómstólum. Í máli þessu liggur ekki fyrir að ágreiningur sé uppi milli kæranda og eigenda aðliggjandi jarða um landamörk. Hafa samningar kæranda og eigenda aðliggjandi jarða sem hann skírskotar til í málsrökum sínum verið þinglýstir.

Umdeildur áskilnaður í bókun hinnar kærðu ákvörðunar er lýtur að samþykki eigenda aðliggjandi jarða felur í sér að þeim er veitt úrslitavald um það hvort að skipting jarðarinnar sem samþykkt var með hinni kærðu ákvörðun nái fram að ganga. Á það skilyrði sér ekki lagastoð og ekki liggur fyrir að efnisleg rök búi að baki því.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður að fallast á kröfu kærenda að nefndur áskilnaður verði felldur úr gildi.

Úrskurðarorð:

Það skilyrði sem sett er í hinni kærðu ákvörðun að „samþykki aðliggjandi landeigenda liggi fyrir þar sem það á við“ er fellt úr gildi.

4/2021 Kólumbusarbryggja

Með

Árið 2021, föstudaginn 30. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Snæfellsbæjar frá 4. janúar 2021 um að gefa út með athugasemdum úttektarvottorð vegna loka niðurrifs mannvirkis á lóðinni Kólumbusarbryggja 1, Snæfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. janúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Móabyggð ehf., þá ákvörðun byggingarfulltrúa Snæfellsbæjar frá 4. janúar 2021 að gefa út með athugasemdum úttektarvottorð vegna loka niðurrifs mannvirkis á lóðinni Kólumbusarbryggja 1. Er þess krafist að felldar verði niður þær athugasemdir í vottorðinu er lúta að lausafé og frágangi á fótstykkjum. Jafnframt er þess krafist að byggingar­fulltrúa verði gert að sæta ábyrgð skv. 58. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og að bæta kæranda fjárhagslegt tjón vegna málskostnaðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Snæfellsbæ 12. febrúar 2021.

Málavextir: Á árinu 2015 eignaðist kærandi 8.128 m2 hús á lóð Kólumbusarbryggju 1 í Snæfellsbæ. Í kjölfarið á kaupunum sótti kærandi um byggingarleyfi til niðurrifs á húsinu. Mun Snæfellsbær hafa hafnað þeirri umsókn en boðið kæranda að semja um niðurrif hússins. Hinn 30. apríl 2018 skrifuðu kærandi og sveitarfélagið undir samkomulag um kaup á fasteigninni að Kólumbusarbryggju 1. Í 2. gr. samningsins kemur fram að sveitarfélagið veiti kæranda byggingarleyfi til niðurrifs á húsi því sem standi á lóðinni gegn því að kærandi greiði kostnað og fasteignagjöld samkvæmt 6. gr. samningsins. Þá er mælt fyrir um í 3. gr. samningsins að kærandi skuli hafa lokið niðurrifi og brottflutningi „á húsinu og öllu lausu byggingarefni af lóðinni þannig að allt það sem tilheyrir húsinu annað en sökklar þess, gólf og annað sem ekki er mögulegt að fjarlægja, hafi verið fjarlægt.“ Einnig að frágangur skuli vera með þeim hætti að engin slysahætta stafi af þeim mannvirkjum sem eftir standi á lóðinni og taki sveitarfélagið að sér allan frekari frágang á lóðinni. Sama dag og samningurinn var undirritaður sótti kærandi um byggingarleyfi til niðurrifs á umræddu húsi. Hinn 17. maí 2018 veitti byggingarfulltrúi umsótt leyfi með tilteknum fyrirvörum og skilyrðum, m.a. að gengið yrði frá „samningi milli Snæfellsbæjar og húseiganda um framkvæmd niðurrifs og greiðslur til Snæfellsbæjar vegna þess.“

Á árunum 2018, 2019 og 2020 var uppi ágreiningur milli aðila um framkvæmd niðurrifsins og hvort úttekt við lok niðurrifs ætti að fara fram. Hinn 14. apríl 2020 hafnaði byggingarfulltrúi beiðni kæranda um lokaúttekt með vísan til þess að hann fengi ekki séð að öryggis- og hollustukröfur væru uppfylltar á meðan járn og annað hefði ekki verið fjarlægt, auk þess sem lausafé væri látið grotna niður á lóðinni. Ljúka bæri verkinu með því að hreinsa svæðið í samræmi við verkskyldur og verklýsingu. Bæði slysa- og mengunarhætta stafaði af svæðinu og því væri skilyrðum 5. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki ekki fullnægt. Í kjölfarið munu aðilar hafa sammælst um að hittast á verkstað hinn 22. apríl 2020 og fara yfir það sem byggingar­fulltrúi hafði talið ábótavant. Í tölvupósti byggingarfulltrúa 8. maí s.á. til byggingarstjóra var beiðni um lokaúttekt hafnað að nýju með vísan til þess að öryggis- og hollustukröfur hefðu ekki verið uppfylltar og kærði kærandi þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar. Með úrskurði, kveðnum upp 4. desember s.á. í máli nr. 47/2020, felldi nefndin ákvörðunina úr gildi með vísan til þess að hvorki hefðu verið rök til að hafna útgáfu vottorðs um lok niðurrifs með vísan til þess lausafjár sem finna mætti á lóðinni né til þess að lögbundnum kröfum væri ekki fullnægt.

Í kjölfar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar óskaði kærandi eftir því 7. desember 2020 að gefið yrði út vottorð um úttekt við lok niðurrifs mannvirkis. Beiðni kæranda var hafnað af byggingar­fulltrúa 9. s.m., en jafnframt var upplýst um að samband yrði haft við byggingarstjóra varðandi „að klára lokaúttekt lögum samkvæmt þar sem þær athugasemdir verði gerðar sem ástæða þykir til að gera.“ Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar 10. s.m. Hinn 22. s.m. sendi byggingarfulltrúi boð til byggingarstjóra um að mæta í lokaúttekt sem færi fram 29. s.m. og fór úttektin fram þann dag. Hinn 4. janúar 2021 gaf byggingarfulltrúi svo út úttektarvottorð vegna niðurrifs mannvirkisins með athugasemdum, m.a. er lutu að lausafé á lóðinni og frágangi á fótstykkjum. Kærandi afturkallaði í kjölfarið kæru sína frá 9. desember 2020 en kom jafnframt að nýrri kæru vegna útgáfu vottorðsins með athugasemdum, svo sem fyrr greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að þær athugasemdir sem gerðar hafi verið í hinni kærðu ákvörðun séu ómálefnalegar, ólögmætar og rangar. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hafi í máli nr. 47/2020 kveðið á um að athugasemdir vegna veiðarfæra á lóðinni og áfastra fótstykkja væru ólögmæt skilyrði fyrir synjun á útgáfu vottorðs um lok niðurrifs. Tekið hafi verið fram að fótstykkin teldust ekki hættuleg umfram annað á skipulögðu hafnarsvæði og að byggingarfulltrúi gæti beint því til lóðarhafa að hreinsa lóðina af veiðarfærum, en Snæfellsbær sé lóðarhafi Kólumbusarbryggju 1. Byggingarfulltrúi virði úrskurð frá æðra stjórnvaldi algjörlega að vettugi.

Málsrök Snæfellsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að þegar um niðurrif mannvirkis sé að ræða þurfi að gæta þess sérstaklega hvort farið hafi verið eftir byggingarleyfi niðurrifsins, sbr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í því tilviki sem hér sé til skoðunar hafi heimild til niðurrifs byggst á byggingarleyfi frá 17. maí 2018 og þeim fyrirmælum og skilyrðum sem fram komi í samningi Snæfellsbæjar og kæranda frá 30. apríl s.á. Hafi kæranda því borið að fara eftir þeim skilyrðum sem fram komi í samningnum. Í 4. mgr. 36. gr. laga um mannvirki sé mælt fyrir um þá lagaskyldu byggingarfulltrúa að ef hann gefi út lokaúttektarvottorð án þess að framkvæmdum sé að fullu lokið þá skuli hann geta þess í athugasemdum í vottorðinu um það sem að hans mati vanti upp á að umræddri framkvæmd verði að fullu lokið. Undantekning frá þeirri heimild komi fram í 5. mgr. nefndrar 36. gr. þar sem mælt sé fyrir um að óheimilt sé undir öllum kringumstæðum að gefa út vottorð um lokaúttekt ef mannvirki uppfylli ekki skilyrði um öryggis- eða hollustukröfur. Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 47/2020 komi fram að ekki sé hægt að útiloka að nokkur hætta stafi af niðurrifi mannvirkisins en þar sem lóðin sé á hafnarsvæði og ekki í alfaraleið þá verði ekki séð að svo mikil hætta sé til staðar að það geti staðið í vegi fyrir útgáfu vottorðs um lokaúttekt. Með því sé staðfest að af umræddum fótstykkjum stafi hætta enda séu þau flugbeitt og standi óvarin upp úr húsgrunninum.

Í byggingarleyfi til niðurrifs sé vísað til samnings aðila frá 30. apríl 2018 og sé samningurinn þannig hluti af umræddu byggingarleyfi. Þar sé vísað til þess að frágangur eftir niðurrif eigi að vera með þeim hætti að engin slysahætta stafi af þeim mannvirkjum sem eftir standi. Hafi það því verið hluti af niðurrifinu og skylda kæranda og byggingarstjóra að sjá til þess að engin slysahætta yrði eftir niðurrifið. Með sama hætti hafi kæranda og byggingarstjóra borið skylda til að fjarlægja allt það lausafé sem hafi tilheyrt umræddu húsi en húsið hafi áður verið geymslu­húsnæði fyrir bíla, vagna og lausafé. Megi ljóst vera að umræddri framkvæmd á niðurrifi sé ekki lokið fyrr en búið sé að klára þessi verk. Ákvörðun byggingarfulltrúa hafi því verið í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndarinnar þar sem nefndin hafi fallist á að hætta væri til staðar á svæðinu. Þá sé bent á að mjög ríkar öryggiskröfur séu gerðar til hafnarsvæða á landinu öllu og fjalli umhverfis- og öryggisnefnd Hafnarsambandsins m.a. um öryggismál hafna landsins. Hafnarstarfsemi fari fram á öllum tíma sólarhringsins, allt árið um kring, og verði að tryggja að ekkert á hafnarsvæðinu geti valdið slysum, eins og t.d. beitt járn. Þess sé rækilega gætt að ekki stafi hætta af bryggjupollum, kanttré, sorpgámum, vatnsslöngum og vatnsbrunnum enda geti það varðað ábyrgð ef slys verði rakin til óforsvaranlegs umbúnaðar hafna eða nær­liggjandi svæða.

Með því að vanefna skyldur sínar sé kærandi að velta þeim kostnaði sem fylgi því að skera burt fótstykkin eða taka úr þeim bit, auk þess kostnaðar sem fylgi því að fjarlægja og farga lausafénu, yfir á Snæfellsbæ en sá kostnaður sé verulegur og hlaupi á milljónum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að þar sem úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi synjun byggingarfulltrúa um útgáfu vottorðs um lok niðurrifs mannvirkis á þeim grundvelli að forsendur synjunarinnar stæðust ekki lög blasi við að byggingarfulltrúi beri að gefa út vottorðið. Ógilding ákvörðunarinnar feli það í sér að gefa beri út vottorðið. Til leiðbeiningar hafi nefndin tekið fram að byggingarfulltrúi geti eftir atvikum gripið til annarra aðgerða gagnvart eiganda eða umráðamanni lóðar til að knýja fram úrbætur og bent á að Snæfellsbær sé þinglýstur eigandi lóðarinnar.

Sveitarfélagið geri tilraun til að tengja útgáfu byggingarleyfis til niðurrifs við útgáfu loka­úttektarvottorðs. Úrskurðarnefndin hafi í úrskurði sínum vísað til þess að ekki séu fyrir hendi lögákveðin skilyrði sem leyfishafi þurfi að uppfylla til að fá útgefið vottorð um lok niðurrifs. Það sé því ólögmætt að tengja útgáfu byggingarleyfis við útgáfu lokaúttektarvottorðs. Þá hafi þau skilyrði sem sveitarfélagið hafi sett fyrir útgáfu byggingarleyfis til niðurrifs verið ólögmæt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsefna vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Utan þeirra valdheimilda fellur hins vegar að taka afstöðu til þess að kæranda verði bætt fjárhagslegt tjón vegna málskostnaðar og að byggingar­fulltrúa verði gert að sæta ábyrgð skv. 58. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Snæfellsbæjar að gefa út með athugasemdum úttektarvottorð vegna loka niðurrifs mannvirkis á lóðinni Kólumbusar­bryggja 1. Kemur fram í hinni kærðu ákvörðun að skv. 4. mgr. 36. gr. laga um mannvirki geti útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð með athugasemdum. Gerir byggingarfulltrúi athuga­semd við að byggingarstjóri hafi ekki mætt í úttektina, mengunar- og slysahætta sé yfirvofandi vegna lausafjár og að fjarlægja beri sökkulfestingar sé þess kostur þar sem frágangur á þeim sé hættulegur.

Líkt og kom fram í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 47/2020 er niðurrif mannvirkis byggingarleyfisskyld framkvæmd skv. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga. Slíkt leyfi var veitt með skilyrðum árið 2018 og kom fram í úrskurðinum að þau skilyrði sættu ekki endurskoðun af hálfu nefndarinnar, enda hefði leyfið ekki verið kært til hennar. Telur úrskurðarnefndin rétt að árétta að valdheimildir nefndarinnar ná ekki til þess að leysa úr kærumálum á grundvelli einkaréttarlegra samninga en slíkur ágreiningur heyrir undir dómstóla. Í nefndum úrskurði er einnig rakið það hlutverk byggingarfulltrúa skv. 2. og 3. mgr. 16. gr. laganna að framkvæma öryggisúttekt, lokaúttekt og úttekt við lok niðurrifs mannvirkis og gefa út vottorð um þær úttektir. Nánar er fjallað um öryggisúttekt í 35. gr. laganna og um lokaúttekt í 36. gr., en sambærilegt ákvæði um úttekt við lok niðurrifs mannvirkis er hvorki að finna í lögunum né byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þar af leiðandi eru ekki fyrir hendi lögákveðin skilyrði sem leyfishafi þarf að uppfylla til að fá útgefið vottorð um lok niðurrifs, svo sem bent var á í fyrrnefndum úrskurði. Að sama skapi er ekki fyrir hendi heimild byggingarfulltrúa til að gefa út vottorð um lok niðurrifs með vísan til 4. mgr. 36. gr. laganna, enda á það ákvæði við um útgáfu lokaúttektarvottorðs en ekki um útgáfu vottorðs við lok niðurrifs mannvirkis. Verður því tvennu ekki jafnað saman. Umdeildar athugasemdir í úttektarvottorði vegna loka niðurrifs mannvirkisins að Kólumbusarbryggju 1 gætu haft þýðingu fyrir skyldur leyfishafa og byggingarstjóra. Verður því að telja slíkar athugasemdir þurfa að eiga stoð í lögum eða stjórnvaldsreglum sem miða að því að vernda hagsmuni þá er mannvirkjalög fjalla um. Vissulega er stefnt að verndun þeirra hagsmuna með þeim athugasemdum sem um ræðir og lutu m.a. að frágangi á sökkulfestingum, en fyrir þeim er þó ekki lagaheimild. Þar sem umræddar athugasemdir verða ekki taldar eiga sér viðhlítandi stoð í lögum eða settum stjórnvaldsreglum verða þær af þeim sökum felldar úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felldar eru úr gildi athugasemdir byggingarfulltrúa Snæfellsbæjar frá 4. janúar 2021 í úttektar­vottorði vegna loka niðurrifs mannvirkis á lóðinni Kólumbusarbryggja 1, Snæfellsbæ.

140/2020 Fákaflöt

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 21. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og­ Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 140/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 24. nóvember 2020 um að samþykkja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámahúsum á lóðinni Fákaflöt, landnúmer 209731.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lóðarinnar Skeggjastaða, landnúmer 194858, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 24. nóvember 2020 að samþykkja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámahúsum á lóðinni Fákaflöt, landnúmer 209731. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að gámahúsin verði fjarlægð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi eystra 1. febrúar 2021.

Málavextir: Samkvæmt Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012-2024 er landnotkun Skeggja­staða, svæðisins sem um ræðir, skilgreind sem landbúnaðarsvæði. Stofnaðar hafa verið nokkrar lóðir úr jörðinni Skeggjastöðum, landnúmer 163963, þ. á m. Fákaflöt, landnúmer 209731, sem er lóð leyfishafa, og Skeggjastaðir lóð, landnúmer 194858, sem er í eigu kæranda, og deila þessar lóðir lóðamörkum. Þá á félag í eigu kæranda bæði Skeggjastaði land 9 og jörðina Skeggjastaði.

Með bréfi, dags. 4. desember 2019, til eiganda lóðarinnar Fákaflatar óskaði embætti skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra eftir skýringum á stöðu mannvirkja (skúrs/smáhýsis og gáms) á nefndri lóð. Með bréfi, dags. 14. apríl 2020, tilkynnti embættið eigendum Fákaflatar að færa þyrfti nefnd mannvirki til þannig að þau stæðu a.m.k. í 3 m fjarlægð frá lóðarmörkum að landi Skeggjastaða. Að auki þyrfti að skila inn hönnunargögnum fyrir fyrrgreind mannvirki sem að mati byggingarfulltrúa virtust flokkast sem tilkynningarskyld framkvæmd skv. i-lið í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með bréfi til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 22. apríl 2020, óskaði eigandi Fákaflatar eftir teikningum og mælingum sem fram­kvæmdar hefðu verið þannig að hægt yrði að taka upplýsta ákvörðun um það hvort ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa yrði andmælt eða ekki.

Með bréfi, dags. 11. júní 2020, ítrekaði embætti skipulags- og byggingarfulltrúa að skila yrði inn hönnunargögnum vegna nefndra mannvirkja en að öðrum kosti yrði að fjarlægja þau og afmá allt jarðrask. Kom fram að ef ekki yrði brugðist við ítrekuðum óskum embættisins innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins myndi það láta fjarlægja mannvirkin á kostnað lóðareiganda.

Með umsókn, dags. 8. júlí 2020, sótti eigandi Fákaflatar um stöðuleyfi fyrir tvö gámahús frá 9. júlí 2020 til 9. júlí 2021. Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings eystra 24. júlí 2020 var umsóknin samþykkt með þeim fyrirvara að gámarnir yrðu staðsettir innan lóðarmarka og var sú afgreiðsla staðfest á fundi byggðaráðs Rangársþings eystra 30. júlí 2020. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðar­nefndarinnar sem vísaði málinu frá með úrskurði uppkveðnum 11. nóvember 2020 í máli nr. 76/2020. Var vísað til þess að ekki væri fyrir hendi sérstök samþykkt hjá sveitarfélaginu Rangárþingi eystra um að skipulagsnefnd gæfi út slík leyfi. Í kjölfar uppkvaðningar úrskurðarins, eða hinn 24. s.m., gaf byggingarfulltrúi út stöðuleyfi fyrir gámum á lóðinni með þeim fyrirvara að þeir yrðu staðsettir innan lóðarmarka Fákaflatar.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að þrátt fyrir mótmæli gegn staðsetningu umræddra gámahúsa, leyfislausri nýtingu á landi hans til aðkomu og hundarækt á smábletti í miklu nábýli hafi stöðuleyfi verið veitt með valfrelsi um staðsetningu. Það sé full ástæða til að óttast að þessi gámahús muni daga uppi þar sem þau séu á nærliggjandi spildum þegar litið sé til tregðu eigenda við að sækja um leyfi og vegna fjölda annarra leyfislausra en leyfisskyldra lausamuna, gáma og fleira til fjölda ára.

Í stöðuleyfi séu þessi hús eins og áður flokkuð sem „gámar“. Í greinargerð umsækjenda með umsókn um stöðuleyfi komi skýrt fram að þetta séu ekki gámar heldur gámahús sem ætluð séu undir hundaeldi. Á umsóknareyðublaði fyrir stöðuleyfi sé ekki spurt um samþykki nágranna. Í nýja stöðuleyfinu sé ekki gefin upp dagsetning frá því hvaða degi það taki gildi heldur aðeins til hvaða dags.

Hinn 1. nóvember 2020, skömmu fyrir frávísun úrskurðarnefndarinnar á þeim forsendum að stöðuleyfi hafi verið veitt af röngu stjórnvaldi, hafi gámahúsin verið færð af lóð kæranda og að lóðamörkum Fákaflatar og lóðar hans og hafi færslan numið 160 cm. Staðsetningin sé ekki samkvæmt umsókninni en hvorki hafi verið send inn né gerð krafa um nýja umsókn fyrir stöðuleyfisveitingu, en heimild þar til bærs stjórnvalds þeim til handa feli í sér að mannvirkin megi vera hvar sem er innan lóðarmarka. Stöðuleyfi byggingarfulltrúans hafi verið gefið út 24. nóvember 2020 eða einu og hálfu ári eftir að gámahúsin hafi fyrst verið flutt á svæðið.

Umrædd hús séu klædd að utan með timbri, bárujárnsþak hafi verið sett á þau og þau séu með gluggum og þrennum dyrum. Byggð hafi verið verönd ásamt því að rafmagn og vatn hafi verið leitt í húsin sem séu nýtt í atvinnuskyni. Samkvæmt skilgreiningu byggingarreglugerðar nr. 112/2012 séu gámar skilgreindir sem staðlaðir geymar ætlaðir til vöruflutninga á sjó og landi og þurfi stöðuleyfi fyrir þeim sem sækja skuli um áður en þeir séu fluttir á geymslustað. Enginn vafi sé á að þessi hús séu ekki ætluð fyrir vöruflutninga. Samkvæmt leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar séu gámahús byggingarleyfisskyld nema þau geti fallið undir undanþáguákvæði g. eða i. liðar í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 segi í gr. 5.3.2: „Afmarka skal og setja ákvæði um hámarks­flatarmál gámasvæðis á lóð og hámarkshæð gámasamstæðu. Þar sem þörf er á gámasvæðum eða sorpgerðum á lóðum utan hefðbundinna atvinnusvæða skal staðsetja þau á baklóðum eða í aflokuðum rýmum. Gera skal grein fyrir afmörkun þeirra á uppdrætti.“

Málsrök Rangárþings eystra: Sveitarfélagið bendir á að heimild til útgáfu stöðuleyfis sé að finna í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þar segi í gr. 2.6.1. að sækja skuli um stöðuleyfi til leyfisveitanda til að láta eftirfarandi lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna: Hjólhýsi, á tímabilinu frá 1. október til 1. maí, gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum, sem ætlað sé til flutnings, og stór samkomutjöld. Á grundvelli umræddrar heimildar hafi Rangárþing eystra talið sig hafa fulla heimild til útgáfu stöðuleyfis með þeim hætti sem gert hafi verið. Áréttað sé að stöðuleyfi sé í eðli sínu tímabundið leyfi. Hið umþrætta stöðuleyfi falli því samkvæmt efni sínu úr gildi í júlí 2021.

Í fyrirliggjandi stöðuleyfi sé sérstaklega tekið fram að leyfið taki einungis til þess að setja umrædda gáma niður innan þess lands sem tilheyri lóðinni Fákaflöt. Leyfishafar hafi því enga heimild frá sveitarfélaginu til að setja gámana á land sem tilheyri kæranda eða öðrum aðilum. Almennt taki sveitarfélagið ekki afstöðu til ágreinings fasteignareigenda um lóðamörk eða landamerki bújarða. Um sé að ræða einkaréttarlegan ágreining sem aðilar verði að leysa úr sjálfir eftir þeim reglum sem um það gildi. Sama gildi um ágreining um umferðarrétt.

Málsrök leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er gerð sú krafa að ákvörðun byggingarfulltrúa verði staðfest enda hafi verið fullkomlega réttilega staðið að henni. Ekki sé um að ræða byggingarleyfisskylda fasteign enda einungis um að ræða gámahús sem ætlað sé að vera tímabundið á lóð leyfishafa. Sambærileg gámahús hafi verið með stöðuleyfi annars staðar en séu ekki byggingarleyfisskyld.

Reynt hafi verið eftir bestu getu að leita eftir sátt við kæranda, meðal annars að bjóða greiðslu fyrir leigu af landi hans áður en gámahúsin hafi verið færð. Þá hafi verið unnið markvisst að því að fegra ásýnd þeirra og hafa þau í fullu samræmi við aðrar byggingar á staðnum, m.a. með því að klæða húsin með timbri þannig að ekki verði af þeim sjónmengun þrátt fyrir að þeim sé einungis ætlað að vera á lóðinni tímabundið á meðan unnið sé að hönnun og byggingu annars húsnæðis.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í 9. tl. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er tekið fram að í reglugerð skuli setja ákvæði um skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa fyrir gáma, báta, torgsöluhús, stór samkomutjöld og þess háttar sem ætlað sé að standa utan skipulagðra svæða fyrir slíka hluti í lengri tíma en tvo mánuði. Í reglugerð skuli kveða á um atriði sem varði öryggi og hollustuhætti vegna þessara lausafjármuna og um heimildir byggingarfulltrúa til að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir ef ekki séu uppfyllt ákvæði reglugerðarinnar.

Í kafla 2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um stöðuleyfi. Í gr. 2.6.1. kemur fram að sækja skuli um stöðuleyfi til leyfisveitanda til að láta eftirfarandi lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna: a. Hjólhýsi, á tímabilinu frá 1. október til 1. maí. b. Gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum, sem ætlað sé til flutnings, og stór samkomutjöld.

Samkvæmt 37. tl. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð er hugtakið gámur skilgreint sem: „Staðlaður geymir fyrir vöruflutninga á sjó og landi.“ Í 54. tl. greinarinnar, þar sem hugtakið mannvirki er skilgreint, er m.a. tekið fram að til mannvirkja teljist tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar.

Umrædd gámahús eru hvort um sig 18 m2 að stærð og í greinargerð með umsókn leyfishafa um stöðuleyfi segir að í þeim sé fullkomin aðstaða og dvalarstaður fyrir hunda leyfishafa sem nýttir séu í smalamennsku og önnur störf tengd búskap. Eru umrædd mannvirki því ætluð til dýrahalds og munu þau vera staðsett í næsta nágrenni við lóð félags kæranda sem á stendur íbúðarhús. Með hliðsjón af framangreindri skilgreiningu í byggingarreglugerð á stöðuleyfisskyldum lausa­fjármunum geta umdeild mannvirki eða gámahús ekki fallið þar undir.

Með hliðsjón af framangreindu verður að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 24. nóvember 2020 um að samþykkja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámahúsum á lóðinni Fákaflöt, landnúmer 209731.

136/2020 Lækjarhjalli

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 21. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 136/2020, kæra á ákvörðun skipulagsstjóra Kópavogs frá 12. nóvember 2020 um að hafna erindi lóðarhafa Lækjarhjalla 34 þar sem óskað var eftir að koma fyrir aukabílastæði á lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. desember 2020, er barst nefndinni 16. s.m., kæra eigendur Lækjarhjalla 34, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsstjóra Kópavogs frá 12. nóvember 2020 að hafna erindi lóðarhafa nefndrar lóðar þar sem óskað var eftir að koma fyrir aukabílastæði á lóðinni. Skilja verður kröfu kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 26. janúar 2021.

Málavextir: Með tölvupósti, dags. 23. október 2020, sendu kærendur erindi til Kópavogsbæjar þar sem sótt var um að bæta við bílastæði á lóð þeirra að Lækjarhjalla 34, austan við húsið að lóðarmörkum við Lækjarhjalla 32. Erindi kærenda var tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 12. nóvember s.á. þar sem því var hafnað og var sú niðurstaða tilkynnt um­sækjendum með bréfi, dags. 20. s.m. Kærendur óskuðu í kjölfar synjunarinnar eftir rökstuðningi með tölvupósti, dags. 30. s.m. Rökstuðningur var sendur kærendum með tölvupósti 8. desember s.á. Þar kemur fram að samkvæmt skipulagi sé gert ráð fyrir 1,5 bílastæðum á hverja íbúð. Samkvæmt lóðarblaði sé nú þegar gert ráð fyrir þremur bílastæðum á lóðinni sem samræmist skipulagi. Þá hafi skipulagsstjóri talið að umbeðin staðsetning bílastæðis stefndi umferðar­öryggi í hættu þar sem stæðið yrði staðsett í beygju en jafnframt samræmdist beiðnin ekki götumynd þar sem að með breytingunni yrði meirihluti götunnar undirlagður af bílastæðum á kostnað grænna svæða.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að samkvæmt skipulagi sé gert ráð fyrir þremur bílastæðum við tvíbýlishús þeirra sem uppfylli engan veginn þarfir fjölskyldunnar. Í húsinu séu búsettir fimm einstaklingar á bíl og því þurfi tveir þeirra að leggja bílum sínum á götunni. Næsta hús, sem einnig sé tvíbýlishús, hafi yfir að ráða sex bílastæðum. Kærendur telji það ekki góð rök að grænum svæðum í Kópavogi fækki með breytingunni þar sem íbúar húsa geti hvenær sem er ákveðið að helluleggja eða gera pall á þessu litla svæði án leyfis skipulagsstjóra. Breytingin muni ekki skapa hættu fyrir vegfarendur heldur þvert á móti bæta umferðaröryggi og fegra götumyndina.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið sé gert ráð fyrir 1,5 bílastæðum á hverja íbúð. Umrætt hús sé tvíbýli. Samkvæmt lóðarblaði fyrir lóðina Lækjarhjalla 34 sé gert ráð fyrir þremur bílastæðum á lóðinni sem samræmist skipulagi. Hafi það verið mat skipulagsstjóra, sem hafi tekið fullnaðarákvörðun í málinu í samræmi við framsalsheimildir bæjarmálasamþykktar, að framlögð beiðni væri ekki í samræmi við skipulagsáætlanir svo og götumynd þar sem við umbeðna breytingu hefði meiri­hluti dvalarsvæðis framlóðar farið undir bílastæði á kostnað dvalarsvæðis. Þá hafi verið talið að umrætt bílastæði væri óheppilega staðsett á lóðinni m.t.t. umferðaröryggis. Hvað varði bílastæði á aðliggjandi lóð þá séu sex bílastæði ekki í samræmi við gildandi lóðarblöð og hafi skipulagsyfirvöld ekki veitt leyfi fyrir umframbílastæðum.

Ákvörðun um bílastæðakröfur fyrir tiltekin skipulagssvæði sé í höndum skipulagsyfirvalda. Í greindu tilviki hafi ósk um viðbótarbílastæði ekki samrýmst skipulagsáætlunum. Ekki sé hægt að gera ráð fyrir að skipulagsyfirvöld samþykki auknar bílastæðakröfur, sem sé varanleg breyting, vegna tímabundinna þarfa íbúa. Í því felist jafnframt fordæmisgildi fyrir skipulags­svæðið í heild.

Þá hefði kærendum átt að vera ljóst hve mörg bílasæði fylgdu eign þeirra við kaup á fast­eigninni. Hafi þá legið fyrir að gert væri ráð fyrir þremur bílastæðum á lóðinni. Einnig ætti að vera nánari útlistun á eignarhaldi bílastæða á lóðinni í eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið. Verði að ætla að eigendur í fjölbýlishúsi þurfi að leysa það sín á milli ef notkun sé ekki í samræmi við eignaskiptayfirlýsingu.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Bent er á að skýrt komi fram í eignaskiptayfirlýsingu að tvö stæði tilheyri eign kærenda og enginn ágreiningur sé um það. Það sem komi kærendum á óvart hafi verið synjunin vegna beiðni um viðbótarbílastæði þar sem kærendur sjái einungis kosti við hana. Kærendur séu ósammála mati sveitarfélagsins sem telji umrætt bílastæði óheppilega staðsett á lóð hvað umferðaröryggi varði. Mun meiri hætta stafi af bíl sem reglulega sé lagt úti á götu og byrgi sýn ökumanna sem og gangandi vegfarenda. Þá sé viðbótarbílastæði ekki tímabundin lausn heldur lausn til frambúðar.

Niðurstaða: Fjallað er um heimildir skipulagsstjóra til fullnaðarafgreiðslu mála í B-lið 52. gr. samþykktar um stjórn Kópavogsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 1128/2016. Í 4. tölul. nefndrar greinar segir að skipulagsstjóri, eða starfsmenn umhverfissviðs í hans umboði, afgreiði án staðfestingar skipulagsráðs frávísun eða synjun erinda og gerð umsagna um erindi sem beint sé til skipulagsráðs eða bæjarráðs og séu ekki í samræmi við skipulagsáætlanir. Af framansögðu má ráða að heimild skipulagsstjóra til að taka fullnaðarákvörðun í máli þessu veltur á því hvort að hið umdeilda erindi hafi verið í ósamræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu.

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Suðurhlíða sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 14. júní 1988. Samkvæmt gr. 2.6 í skipulagsskilmálum fyrir svæði D skal gera að minnsta kosti 1,5 bílastæði fyrir hverja íbúð. Í gr. 2.9 segir að mæliblöð sýni reit þann sem byggja megi á, fjölda bílastæða á lóð, gestabílastæði, gangstíga og kvaðir ef einhverjar eru o.fl. Mæliblað fyrir Lækjarhjalla 22, 24, 26, 28, — 40 og 42 var gefið út af tæknideild Kópavogs 20. janúar 1989. Samkvæmt mæliblaðinu eru þrjú bílastæði á lóð Lækjarhjalla 34.

Líkt og áður segir er heimild skipulagsstjóra til að taka fullnaðarákvörðun í máli þessu bundin við að efni erindis hafi ekki verið í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu. Samkvæmt gr. 2.6. í skipulagsskilmálum svæðisins skal gera að minnsta kosti 1,5 stæði fyrir hverja íbúð á lóð. Ekki verður talið að efni erindis kærenda hafi verið í ósamræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu enda kveður skipulagið á um lágmarksfjölda bílastæða.

Mæliblöð og hæðarblöð eru skilgreind í gr. 1.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sem hönnunar­gögn sem unnin eru í kjölfar deiliskipulags og lýsa með nákvæmum hætti stærðum lóða, hæðarkótum lands og bygginga, staðsetningu lagna, kvöðum og öðru sem þurfa þykir. Mæliblað felur þannig í sér nánari útfærslu gildandi deiliskipulags en mæliblaðið hefur ekki hlotið sömu eða sambærilega meðferð og deiliskipulag skv. skipulagslögum nr. 123/2010.

Byggingarfulltrúi samþykkti byggingarleyfi fyrir Lækjarhjalla 34 með áritun uppdrátta og var sú afgreiðsla samþykkt á fundi byggingarnefndar Kópavogs 29. mars 1990. Á þeim uppdráttum hafa verið samþykkt þrjú bílastæði á lóðinni. Ákvörðun um að breyta efni byggingarleyfisins verður aðeins tekin af byggingarfulltrúa, eftir atvikum eftir að leitað hafi verið umsagnar skipulagsfulltrúa skv. 2. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Skortir því á að um sé að ræða lokaákvörðun í máli þessu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

42/2021 Dalsbraut

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 21. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 42/2021, kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 30. mars 2020 um að samþykkja umsóknir um byggingarleyfi fyrir þrjú fjölbýlishús með 15 íbúðum á lóðum nr. 32, 34 og 36 við Dalsbraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 6. apríl 2021 kæra eigendur Lerkidals 52-60 þær ákvarðanir byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 30. mars 2020 að samþykkja umsóknir um byggingarleyfi fyrir þrjú fjölbýlishús með 15 íbúðum á lóðum nr. 32, 34 og 36 við Dalsbraut. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 15. apríl 2021.

Málsatvik og rök: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 18. desember 2019 var tekin fyrir umsókn leyfishafa um að heimiluð yrði stækkun mannvirkja á lóðunum Dalsbraut 32-36 sem næmi 106 m2 og að íbúðum í hverju húsi yrði fjölgað úr 11 í 15. Samþykkti ráðið að grenndarkynna umsóknina. Hinn 14. janúar 2020 var umsóknin grenndarkynnt sem breyting á deiliskipulagi Dalshverfis, 2. áfangi og athugasemdafrestur veittur til 15. febrúar s.á. Var m.a. grenndarkynnt fyrir þinglýstum eiganda Lerkidals 52-60 sem hafði á þeim tímapunkti selt fasteignirnar til kærenda. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. s.m. var erindið tekið fyrir aftur og samþykkt, auk þess sem bókað var að engar athugasemdir hefðu borist. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 3. mars s.á. Með framlagningu uppdrátta sótti leyfishafi í kjölfarið um byggingarleyfi til að byggja þrjú fjölbýlishús, hvert með 15 íbúðum, á lóðum nr. 32, 34 og 36. Hinn 30. s.m. samþykkti byggingarfulltrúi á afgreiðslufundi sínum umsókn leyfishafa með áritun sinni á uppdrættina. Í desember 2020 var grenndarkynnt fyrir kærendum tillaga að breytingu á deiliskipulagi Dalsbrautar 32-36 vegna bílastæða. Munu kærendur þá hafa orðið varir við að breyting hefði orðið á deiliskipulagi svæðisins vegna nefndra lóða. Í kjölfarið áttu nokkrir kærenda í samskiptum við bæði skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar vegna framkvæmdanna. Hinn 15. mars 2021 upplýsti byggingarfulltrúi kærendur um að starfsmenn embættisins hefðu skoðað bygginguna á staðnum og byggt sé í samræmi við aðaluppdrætti. Jafnframt var kærendum bent á að hægt væri að fylgja málinu eftir með kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Kærendur benda á að áður en þeir hafi fest kaup á fasteignum sínum hafi þeir kynnt sér skipulag svæðisins. Þeim hafi ekki verið kynnt tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna Dalsbrautar 32-36 sem sveitarstjórn Reykjanesbæjar hafi samþykkt í mars 2020 og því ekki haft tækifæri til að mótmæla umræddum breytingum. Þeir verði fyrir tjóni vegna breytinganna sem felist í skertu útsýni og innsýn í garða frá íbúðum með svölum sem snúi að Lerkidal. Leiði það til lækkunar á verðgildi húsanna.

Af hálfu Reykjanesbæjar er vísað til þess að stöðvun framkvæmda sé íþyngjandi aðgerð gegn byggingarleyfishafa sem hafi gilt byggingarleyfi í höndunum. Með hliðsjón af því meðalhófi sem þurfi að gæta að í skipulags- og byggingarmálum sé ljóst að stöðvun framkvæmda gangi lengra en þörf þyki. Kæran muni hljóta efnislega meðferð hjá úrskurðarnefndinni og verði niðurstaðan sú að fallist sé á kröfur kærenda sé ljóst að þeir kunni að eiga lögvarða bótakröfu vegna þessa tjóns sem þeir kunni að hafa orðið fyrir vegna meðferðar málsins.

Leyfishafi bendir á ekki sé ljóst hvaða framkvæmda sé krafist stöðvunar á. Framkvæmdum við hús og uppsteypu veggja sé þegar lokið og engin ástæða sé því til að stöðva framkvæmdir. Aðrar framkvæmdir, s.s. vinna við hús að innan og lokafrágangur lóðar og veggja, séu minniháttar og afturkræfar og hafi auk þess engin áhrif á hagsmuni kærenda. Stöðvun framkvæmda sé undantekningarheimild sem skýra beri þröngt og beri að beita í takmarkatilvikum þegar sérstakar aðstæður eða hagsmunir séu fyrir hendi og veigamikil rök standi til beitingar úrræðisins. Þá yrði tjón af völdum stöðvunar framkvæmda gríðarlegt fyrir leyfishafa. Sala íbúða sé í fullum gangi og myndi stöðvun hafa áhrif á afhendingu íbúða.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Hin kærðu byggingarleyfi heimila byggingu fjölbýlishúsa á lóðum nr. 32, 34 og 36 við Dalsbraut. Af fyrirliggjandi gögnum má sjá að framkvæmdirnar eru langt á veg komnar og voru það í raun þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því og framangreindum lagaákvæðum verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Ber framkvæmdaaðili enda af þeim alla áhættu verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi. Verður kröfu kærenda því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi til bráðabirgða.

38/2021 Álagrandi

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 21. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2021 um að endurútgefa vegna byggingarstjóraskipta byggingarleyfi um að byggja úr steypu með timburþaki lengju fimm bílskúra á lóð nr. 2-4 við Álagranda og 37B við Grandaveg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 24. mars 2021, kærir eigandi Aflagranda 14, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2021 að endurútgefa vegna byggingarstjóraskipta byggingarleyfi um að byggja úr steypu með timburþaki lengju fimm bílskúra á lóð nr. 2-4 við Álagranda og 37B við Grandaveg. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til síðargreindrar kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 31. mars 2021.

Málavextir: Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 18. júní 2008 var samþykkt byggingarleyfi BN38480 til byggingar á fimm steyptum bílskúrum með timburþaki á lóðinni nr. 2-4 við Álagranda og 37B við Grandaveg. Byggingarleyfið var ekki gefið út innan tilskilins tímafrests og féll því úr gildi. Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. júní 2010 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi BN41665, þar sem sótt var um endurnýjun á byggingarleyfi BN38480. Leyfið var í framhaldi gefið út og framkvæmdir hafnar. Fram­kvæmdir samkvæmt leyfinu stöðvuðust þegar byggingarstjóri sagði sig frá verkinu 29. nóvember 2011. Þá hafði verið lokið við þrjá af fimm bílskúrum sem leyfið heimilaði. Byggingarfulltrúa barst tilkynning um nýjan byggingarstjóra vegna byggingarleyfisins 13. nóvember 2020 og var leyfið endurútgefið 8. janúar 2021.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að illa komi út að hinn umdeildi bílskúr standi einn og sér, en sé ekki tengdur hinum þremur bílskúrunum. Mikil útlitsbreyting verði fyrir hverfið og byrgi skúrinn útsýni kæranda úr fasteign hans, sem missi þar með sjávarsýn. Miðað við hags­muni kæranda hefði átt að fara fram grenndarkynning fyrir endurútgáfu byggingar­leyfisins. Samkvæmt nágrönnum byggingarleyfishafa standi til að leigja bílskúrinn út sem íbúð, sem sé ekki í samræmi við heimild í byggingarleyfi og hefði í för með sér mikið ónæði fyrir nágranna. Kærandi bendir á að kæran berist innan kærufrests. Hann hafi fyrst orðið var við að til stæði að byggja bílskúr í mars og póstur þess efnis hafi verið sendur til byggingarfulltrúa  2. mars 2021.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að kröfum kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Í 14. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem hafi verið í gildi þegar byggingarleyfi BN38480 og BN41665 hafi verið samþykkt, en núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 hafi leyst af hólmi, segi að hafi byggingarframkvæmdir stöðvast í eitt ár eða lengur geti byggingarnefnd fellt byggingarleyfi úr gildi. Sambærileg ákvæði séu í núgildandi byggingarreglugerð.

Byggingarframkvæmdir hafi hafist eftir endurnýjun á byggingarleyfi BN41665 og staðið yfir þar til byggingarstjóri hafi sagt sig frá verkinu. Byggingarleyfið sé því í fullu gildi, enda geri tilvitnuð ákvæði ráð fyrir að byggingarfulltrúi þurfi að taka afstöðu til þess hvort fella eigi byggingar­leyfi úr gildi þegar framkvæmdir stöðvist. Engin slík ákvörðun hafi verið tekin og sé leyfið í fullu gildi. Leiði það ekki til niðurfellingar byggingarleyfis að framkvæmdir stöðvist, heldur þurfi að koma til ákvörðunar leyfisveitanda þar um. Byggingarleyfið sé því í fullu gildi og aldrei verið fellt úr gildi.

Í gr. 4.7.8. byggingarreglugerðar sé fjallað um byggingarstjóraskipti. Fram komi í 2. mgr. ákvæðisins að verði skipti á byggingarstjóra, þá skuli verk stöðvað tafarlaust. Sé byggingar­leyfishafa því óheimilt að halda áfram verki fyrr en nýr byggingarstjóri hafi verið settur á verkið. Engin tímamörk séu á því hvenær nýr byggingarstjóri sé settur á verk, en byggingar­fulltrúi skuli án ástæðulauss dráttar láta fara fram úttekt á stöðu verksins, áður en nýr byggingar­stjóri taki við verkinu.

Af framangreindu megi vera ljóst að byggingarreglugerð geri ráð fyrir að byggingarstjóraskipti geti orðið á verki. Skipti á byggingarstjóra sé ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga, heldur tilkynning til stjórnvalds um atriði er varði kröfur sem gerðar séu til leyfisveitingar, enda skuli byggingarstjóri vera á verki með tilheyrandi starfsábyrgðartryggingu. Hin eiginlega stjórn­­valds­ákvörðun hafi verið við samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis. Sé kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar löngu liðinn.

Í 2. mgr. 4. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis og auðlinda­mála segi að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt um kærða ákvörðun. Leiði það til þess að einungis stjórnvaldsákvarðanir verði kærðar til úrskurðar­nefndarinnar. Í því samhengi vísist til almennrar skilgreiningar stjórnsýsluréttar á stjórnvalds­ákvörðunum, en eitt skilyrða kæru sé að ákvörðun bindi enda á meðferð stjórnsýslumáls. Endir hafi verið bundinn á málið með útgáfu byggingarleyfis BN41665 árið 2011.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Leyfishafi bendir á að upphaflega hafi byggingarleyfi verið samþykkt og gefið út í ágúst árið 2010. Leyfið sé því rúmlega tíu ára gamalt og hafi verið endurnýjað reglulega svo að hægt sé að ljúka við byggingu bílskúranna fimm. Upphaflega leyfið, ásamt teikningum, hafi enn verið í gildi þegar sótt hafi verið um skipti á byggingarstjóra. Umsóknin hafi verið í samræmi við lög og reglur. Af framangreindu leiði að hin kærða ákvörðun sé endurnýjun á leyfi sem hafi verið samþykkt fyrir meira en tíu árum og kærandi hafi vitað eða átt að vita af leyfinu í langan tíma.

Bílskúrseiningarnar séu númeraðar 0101, 0102, 0103, 0104 og 0105. Einingar 0103, 0104 og 0105 hafi nú þegar verið byggðar. Eining 0101 sé hluti af skráðri fasteign leyfishafa eins og samþykktar teikningar beri með sér. Hin fyrirhugaða framkvæmd sé í samræmi við teikningar, lög og reglur.

Samskipti við nágranna að Álagranda 2, 4 og 6 hafi alltaf verið góð. Þau hafi verið látin vita af framkvæmdum og verið haldið upplýstum á mismunandi stigum framkvæmda. Það hafi alltaf verið forgangsmál leyfishafa að mynda og viðhalda jákvæðum samskiptum við nágranna.

Leyfishafi hafi nýtt byggingarleyfisréttindi sem veitt hafi verið af þar til bærum yfirvöldum á einkalóð sinni. Leyfishafi hafi fylgt öllum reglum og fyrirmælum stjórnvalda og muni halda því áfram.

Niðurstaða: Í 14. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 er fjallað um gildistíma byggingarleyfis. Í gr. 14.1 er kveðið á um að byggingarleyfi falli úr gildi hafi byggingar­framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess. Í gr. 14.2 segir að sveitarstjórn geti fellt byggingarleyfi úr gildi ef byggingarframkvæmdir stöðvist í eitt ár eða lengur. Þá er tekið fram í gr. 14.3 að hafi byggingarframkvæmdir stöðvast í tvö ár hið skemmsta geti sveitarstjórn, að tillögu byggingarnefndar með sex mánaða fyrirvara, lagt dagsektir á byggingarleyfishafa eða tekið ófullgerðar byggingarframkvæmdir eignarnámi samkvæmt lögum um framkvæmd eignar­náms. Sambærileg ákvæði er nú að finna í gr. 2.4.5. í gildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Af framangreindum ákvæðum má sjá að byggingarleyfi fellur sjálfkrafa úr gildi ef fram­kvæmdir hefjast ekki innan 12 mánaða frá útgáfu þess skv. gr. 14.1. Óumdeilt er að fram­kvæmdir hófust á sínum tíma í kjölfar endurnýjunar byggingarleyfis, enda er búið að byggja þrjá bílskúra af þeim fimm sem leyfið heimilar. Þegar framkvæmdir eru hafnar og stöðvast síðar fellur byggingarleyfi ekki sjálfkrafa úr gildi, heldur þarf sveitarstjórn að fella leyfið úr gildi skv. áðurgreindri gr. 14.2 þágildandi byggingarreglugerðar eða taka framkvæmdirnar eignarnámi skv. gr. 14.3. Hvorugt hefur verið gert í máli þessu. Byggingarleyfi BN41665 er því í gildi og hefur verið frá samþykkt þess 15. júní 2010, en sú ákvörðun var ekki kærð á þeim tíma.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Hið kærða byggingarleyfi var gefið út 8. janúar 2021, en samþykkt 15. júní 2010. Útgáfa byggingarleyfis veitir leyfishafa heimild til að hefja framkvæmdir í samræmi við þegar samþykkta byggingarleyfisumsókn þegar viðbótarskilyrði 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 eru uppfyllt, s.s. um frekari hönnunargögn og greiðslu gjalda. Útgáfa byggingarleyfis ein og sér felur hins vegar ekki í sér kæranlega stjórn­valdsákvörðun, enda hefur efnisinnihald leyfanna þá þegar verið samþykkt af byggingarfulltrúa í samræmi við 11. gr. laganna og fer útgáfa leyfis fram í skjóli þeirrar samþykktar sem er kæranleg. Verður því að miða við að kærufrestur vegna byggingarleyfisins hafi byrjað að líða þegar kæranda mátti vera kunnugt um samþykkt leyfi, í síðasta lagi þegar framkvæmdir hófust við gerð fyrstu þriggja bílskúranna samkvæmt því.  Byggingarár nefndra skúra er skráð 2010 í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og því ljóst að fjölmörg ár eru síðan kæranda mátti vera kunnugt um samþykkt leyfisins.

Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Skal og á það bent að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Segir nánar að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki og hefur byggingarleyfishafi eðli máls samkvæmt ríkra hagsmuna að gæta í málinu.

Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem að framan hafa verið rakin, verður samþykkt hins umdeilda byggingarleyfis frá 15. júní 2010 ekki tekin til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningarákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga. Þá felur útgáfa byggingarleyfis ein og sér ekki í sér kæranlega ákvörðun, eins og áður segir. Er því við að bæta að fjallað er um byggingarstjóraskipti í gr. 4.7.8. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í 2. mgr. þeirrar greinar kemur fram að framkvæmdir skuli stöðvaðar þar til nýr byggingarstjóri hafi undirritað ábyrgðaryfirlýsingu, leyfisveitandi hafi staðfest að hann uppfylli skilyrði laga um mannvirki og úttekt á stöðu framkvæmda hafi farið fram. Verður ekki heldur talið að byggingarstjóraskipti sé kæranleg stjórnvaldsákvörðun, enda bindur slík ákvörðun ekki enda á stjórnsýslumál í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til alls framangreinds verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.