Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

96/2020 Esjumelar

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 4. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2020, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. júlí 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6 við Bronssléttu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigandi, Kvíslartungu 92, eigandi, Laxatungu 185, eigandi, Leirvogstungu 92, eigandi, Laxatungu 10, eigandi, Vogatungu 53 og sveitarfélagið Mosfellsbær þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. júlí 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6 við Bronssléttu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. nóvember 2020.

Málavextir: Á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur 15. janúar 2020 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6 við Bronssléttu. Í breytingunni fólst m.a. heimild til að sameina nokkrar lóðir í lóðina Bronssléttu 6 og heimila þar starfsemi malbikunarstöðvar. Var samþykkt að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 1. mgr. 43. gr., og samþykkti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 16. janúar 2020. Tillagan var í kjölfarið auglýst 30. s.m. og frestur gefinn til athugasemda til 12. mars s.á. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 1. júlí s.á. var breytingartillagan tekin fyrir ásamt athugasemdum sem bárust á kynningartíma hennar auk þess sem umsögn skipulagsfulltrúa frá 11. júní 2020 var lögð fram. Með vísan til 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga var tillagan samþykkt með áorðnum breytingum í samræmi við umsögn skipulagsfulltrúa. Á fundi borgarráðs 2. júlí s.á. var samþykkt skipulags- og samgönguráðs staðfest. Auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 11. september 2020.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að umrætt svæði á Esjumelum sé mjög nálægt sveitarfélagsmörkum Mosfellsbæjar og í næsta nágrenni við stóra íbúðarbyggð bæjarins, Leirvogstunguhverfi. Aðeins sé um kílómetri milli nýrrar malbikunarstöðvar og þéttrar byggðar. Fyrirhuguð malbikunarstöð hafi í för með sér neikvæð sjón- og umhverfisáhrif fyrir íbúana og muni m.a. skerða gæði útivistar, auk þess sem mengandi iðnaður kunni að hafa neikvæð áhrif á fasteignaverð íbúða á nærliggjandi svæðum. Hafa verði í huga að Reykjavíkurborg vinni nú markvisst að því að færa mengandi iðnað frá íbúðarbyggð í Reykjavík. Liður í því sé að færa slíkan mengandi iðnað á Esjumela án þess að tekið sé tillit til íbúa sem þar búi.

Kærendur sem eru íbúar og eigendur fasteigna í Leirvogstungu eigi lögvarða hagsmuni í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála af því að fá niðurstöðu nefndarinnar um lögmæti deiliskipulagsbreytingarinnar. Jafnvel þótt hin kærða ákvörðun beinist ekki sérstaklega að kærendum þá varði hún hagsmuni þeirra og réttindi umfram aðra. Í athugasemdum sem fylgt hafi frumvarpi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segi m.a. að hugtakið aðili máls beri að skýra „rúmt þannig að ekki sé einungis átt við þá sem eiga beina aðild að máli, svo sem umsækjendur um byggingarleyfi […], heldur geti einnig fallið undir það þeir sem hafa óbeinna hagsmuna að gæta, svo sem nágrannar […].“ Við mat á beinum og lögvörðum hagsmunum kærenda verði því líta til þess að Esjumelar séu í næsta nágrenni við heimili þeirra. Þá séu ótalin þau sjónrænu áhrif sem fylgi malbikunarstöðvum og annarri mengandi iðnaðarstarfsemi rétt við íbúðarbyggð. Reykjavíkurborg hafi ekki kynnt breytinguna sérstaklega fyrir íbúum í Leirvogstungu og því hafi kærendum ekki verið gefinn kostur á að tjá hug sinn áður en ákveðið hafi verið að heimila mengandi iðnað skammt frá heimilum þeirra og náttúruperlum.

Lagaleg skylda hvíli á Reykjavíkurborg að haga skipulagsáætlunum sínum til samræmis við skipulagsáætlanir Mosfellsbæjar. Að sama skapi sé borginni skylt að kynna aðalskipulagsbreytingar fyrir Mosfellsbæ og því megi ætla að Mosfellsbær hafi eitthvað að segja um deiliskipulagsbreytingar sem sveitarfélagið telji ekki samræmast aðalskipulagi. Skipulagslöggjöfin geri beinlínis ráð fyrir að hagsmunir aðliggjandi sveitarfélaga fari saman við uppbyggingu á svæðum á sveitarfélagamörkum og leiði lögvarðir hagsmunir Mosfellsbæjar því af lögum. Sveitarfélagið hafi augljósra hagsmuna að gæta af uppbyggingu á iðnaðarsvæðum á Esjumelum, enda sé fyrirséð að slík landnotkun muni hafa verulega takmarkandi áhrif á athafnir þess og skipulagsáætlanir til frambúðar. Til dæmis kunni mengun og aukin umferð vörubíla og stórvirkra vinnuvéla frá slíku iðnaðarsvæði að takmarka möguleika sveitarfélagsins á uppbyggingu þeirra svæða sem standi næst Esjumelum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð krafa um frávísun málsins þar sem kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi deiliskipulagsbreytingarinnar. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hafi þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Ekki sé með neinu móti hægt að sjá að kærendur eigi hagsmuni tengda málinu, hvað þá að þeir hagsmunir geti talist verulegir.

Fasteignir kærenda séu í um 1,5 km fjarlægð frá hinni fyrirhuguðu starfsemi og verði ekki séð að mannvirki verði í augsýn frá fasteignum kærenda þótt ekki sé loku fyrir það skotið að einstakir byggingarhlutar muni mögulega sjást frá einhverjum af lóðum kærenda. Lóð malbikunarstöðvarinnar sé staðsett á bak við þau mannvirki sem þegar hafi risið á Esjumelum. Þótt mögulega sjáist í topp einhverra mannvirkja malbikunarstöðvarinnar frá fasteignum kærenda geti það ekki haft áhrif á hagsmuni þeirra. Réttur til óbreytts útsýnis um aldur og ævi sé auk þess ekki bundinn í lögum. Kærendur hafi ekki einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun umfram aðra. Einnig beri að vísa kæru Mosfellsbæjar frá nefndinni þar sem sveitarfélagið geti hvorki talist aðili að hinni kærðu ákvörðun í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né átt þá einstaklega lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem séu skilyrði kæruaðildar.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka að samkvæmt athugasemdum sem fylgt hafi frumvarpi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri að skýra hugtakið aðili máls rúmt þannig að þeir sem hafi óbeinna hagsmuna að gæta falli einnig undir það. Í athugasemdunum segi einnig að ómögulegt sé að gefa ítarlegar leiðbeiningar um það hvenær maður teljist aðili máls og hvenær ekki, heldur ráðist það af málsatvikum hverju sinni. Það ráðist m.a. af því hvaða svið stjórnsýslunnar sé um að ræða. Ljóst sé að skoða verði eðli framkvæmdarinnar, starfsemina sem henni fylgi og hugsanleg áhrif hennar á kærendur við mat á því hvort þeir geti talist hafa lögvarinna hagsmuna að gæta. Við það mat verði að líta til þess að kærendur búi ásamt fjölskyldum sínum í Leirvogstunguhverfi. Um sé að ræða tiltölulega nýtt og fjölskylduvænt hverfi þaðan sem m.a. sé stutt að sækja í ýmis konar útivist. Hagsmunir þeirra einskorðist því ekki við nákvæma staðsetningu fasteigna þeirra heldur sé óhjákvæmilegt að líta til svæðisins í heild, bæði varðandi sjónræna þætti og með tilliti til annarrar mengunar og afleiddra áhrifa.

Hafið sé yfir allan vafa að umrædd malbikunarstöð teljist til mengandi iðnaðar en um það vísist til þeirra krafna sem gerðar séu til starfsemi malbikunarstöðva. Slíkar kröfur séu ekki gerðar nema þegar mengunarhætta sé til staðar og því augljóst að malbikunarstöðvar flokkist undir mengandi starfsemi. Hér megi einnig vísa til þeirra gagna sem legið hafi til grundvallar þegar aðalskipulagi borgarinnar á Esjumelum hafi verið breytt varðandi iðnað og aðra landfreka starfsemi. Í umhverfisskýrslu sem unnin hafi verið fyrir Reykjavíkurborg í febrúar 2019 séu malbikunarstöðvar t.a.m. skilgreindar sem „meira mengandi starfsemi“, og sé þar jafnframt tiltekið að slík starfsemi falli undir skilgreiningu „iðnaðarsvæða“. Fram hafi komið í auglýsingu hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar að markmiðið væri að „tryggja aukið framboð lóða fyrir mengandi iðnað […]“. Áhrif malbikunarstöðvarinnar takmarkist því ekki við sjónræna þætti líkt og borgin reyni að halda fram í greinargerð sinni. Mengun kunni auðveldlega að berast um svæðið og því megi ætla að starfsemin hafi áhrif á lífsgæði kærenda. Þá sé fyrirséð að þungaflutningar muni aukast á svæðinu með tilheyrandi mengun og áhrifum á almenna umferð. Í öllu falli séu áhrifin óljós og því eðlilegt að kærendur hafi eitthvað um málið að segja, enda verði að túlka óvissu um mengun og áhrif hennar á íbúa kærendum í hag. Að auki hafi mengandi iðnaðarstarfsemi bein áhrif á verðmæti fasteigna kærenda og ímynd hverfisins.

Bent sé að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi í máli nr. 133/2019 talið að kærendur hefðu lögvarinna hagsmuna að gæta vegna ákvörðunar sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar um að samþykkja deiliskipulag sem heimilaði byggingu svínabús í ríflega kílómetra fjarlægð frá íbúðarhúsum kærenda. Sagði þar m.a. að í ljósi eðlis þeirrar starfsemi sem hið kærða deiliskipulag hafi gert ráð fyrir sé ekki unnt að útiloka að hún geti snert hagsmuni kærenda, t.a.m. vegna lyktarmengunar. Sömu sjónarmið eigi við í því máli sem hér sé til umfjöllunar. Sú mengun og önnur áhrif sem stafi frá malbikunarstöðinni sé vafalaust meira heilsuspillandi heldur en lyktarmengun sem stafi frá svínabúum.

Líta verði til þess að Mosfellsbær hafi óumdeilanlega aðildarstöðu við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Tillaga að deiliskipulaginu hafi t.a.m. verið send bænum til umsagnar í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 um að aðliggjandi sveitarfélögum beri að samræma skipulagsáætlanir sínar. Að auki feli skipulagslög sveitarfélögum það hlutverk að fara með hagsmuni íbúanna eins og atvikum sé háttað í þessu máli. Af þeirri ástæðu hljóti sveitarfélagið einnig að hafa einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta. Þannig leiði hinir lögvörðu hagsmunir bæjarins í málinu beinlínis af lögum. Þá verði að horfa til þess að fulltrúar borgarinnar hafi fundað með fulltrúum Mosfellsbæjar og gefið bænum kost á að leggja inn frekari og ítarlegri athugasemdir síðar í ferlinu. Verði bærinn ekki talinn eiga lögvarða hagsmuni myndi það ganga gegn meginreglunni um að sá sem eigi aðild að máli á lægra stjórnsýslustigi eigi jafnframt aðild á æðra stjórnsýslustigi.

Mosfellsbær sé einnig eigandi að landsvæði á sveitarfélagamörkum og sé sveitarfélaginu því unnt að gæta hagsmuna sinna með sambærilegum hætti og einkaréttarlegur aðili. Allar íbúðarhúsalóðir í Leirvogstunguhverfi séu leigulóðir í eigu sveitarfélagsins. Þessar landareignir séu í um 6-700 m fjarlægð frá deiliskipulagssvæðinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi. Felur breytingin m.a. í sér að sameina nokkrar lóðir í lóðina Bronssléttu 6 og heimila þar starfsemi malbikunarstöðvar, en málsrök kærenda snúa einvörðungu að þeirri breytingu skipulagsins.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Við mat á því hvort kærendur hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls verður að líta til þess að stjórnsýslukæra er úrræði til að tryggja réttaröryggi borgaranna, en það er meðal markmiða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. athugasemdir í frumvarpi því sem varð að þeim lögum. Almennt ber því að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu. Verður því að meta í hverju tilviki hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins til að komast að niðurstöðu um hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta.

Sveitarfélagið Mosfellsbær vísar m.a. til þess að lögvarðir hagsmunir þess leiði af skipulagslögum nr. 123/2010 þar sem löggjöfin geri ráð fyrir að hagsmunir aðliggjandi sveitarfélaga fari saman við uppbyggingu á svæðum á sveitarfélagamörkum. Sú landnotkun sem heimiluð er með hinu kærða deiliskipulagi hafi verulega takmarkandi áhrif á athafnir sveitarfélagsins og skipulagsáætlanir til frambúðar. Þá verði að líta til þess að sveitarfélagið hafi óumdeilanlega haft aðildarstöðu við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga annast sveitarstjórnir gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulags og ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags innan marka sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Taki deiliskipulagstillaga til svæðis sem liggur að mörkum aðliggjandi sveitarfélags skal tillagan kynnt sveitarstjórn þess sveitarfélags skv. 41. gr. skipulagslaga. Að öðru leyti gera lögin ekki ráð fyrir aðkomu nágrannasveitarfélaga við deiliskipulagsgerð annars sveitarfélags en samráð nágrannasveitarfélaga um sameiginleg hagsmunamál á vettvangi skipulagsmála fer fram við gerð svæðis- og aðalskipulags. Verður því ekki fallist á að sérstök kæruaðild Mosfellsbæjar sem sveitarfélags verði leidd af skipulagslögum.

Um lögvarða hagsmuni kærenda sem eigenda fasteigna í nágrenni umrædds deiliskipulagssvæðis er vísað til þess að aðeins sé um kílómetri milli nýrrar malbikunarstöðvar og íbúðarbyggðarinnar Leirvogstunguhverfis. Fyrirhuguð malbikunarstöð muni hafa í för með sér neikvæð sjónræn- og umhverfisáhrif fyrir íbúana og skerða gæði útivistar, auk þess sem mengandi iðnaður kunni að hafa neikvæð áhrif á fasteignaverð íbúða á nærliggjandi svæðum. Hefur sveitarfélagið Mosfellsbær jafnframt bent á það eigi landareignir í um 6-700 m fjarlægð frá deiliskipulagssvæðinu og sé sveitarfélaginu því unnt að gæta hagsmuna sinna með sambærilegum hætti og einkaréttarlegur aðili.

Við mat á því hvort kærendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun verður að líta til þess að fasteignir kærenda í Leirvogstunguhverfi eru í u.þ.b. 1,3-1,9 km fjarlægð frá fyrirhugaðri malbikunarstöð og landareignir Mosfellsbæjar eru í tæplega kílómetra fjarlægð þar sem þær eru næst stöðinni. Liggur Vesturlandsvegur á milli deiliskipulagssvæðisins annars vegar og Leirvogstunguhverfis og hluta landareigna sveitarfélagsins hins vegar. Aðrar þær landareignir sveitarfélagsins sem gætu skapað þeim einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni liggja í næsta nágrenni vegarins. Ekki verður séð að grenndarhagsmunir kærenda muni skerðast að nokkru marki hvað varðar landnotkun eða útsýni enda þótt þeir eygi t.d. reyk frá reykháfi fyrirhugaðrar stöðvar. Sama á við um mögulegan hávaða frá verksmiðjunni þegar tekið er tillit til staðhátta. Í umhverfismati skipulagsins er greint frá því að starfsemi malbikunarstöðvarinnar geti mögulega haft neikvæð áhrif á aðliggjandi svæði vegna loftmengunar en með síubúnaði frá útblæstri og með rykbindingu sé hægt að halda því í lágmarki. Áhrif breytingarinnar séu því metin óveruleg/neikvæð. Hvað hljóðmengun varði sé nokkur hvinur frá tækjum og einnig áhrif frá umferð stórra vinnuvéla og þungaflutningabifreiða en vegna staðsetningar og fjarlægðar frá byggð séu þau áhrif talin óveruleg.

Starfsemi sú sem fjallað er um í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er mengandi og háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar, en starfsemin fellur ekki undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Um varnir gegn loftmengun er fjallað í ýmsum reglugerðum. Markmið reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði er m.a. að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum loftmengunar á heilsu manna og umhverfið. Í því skyni mælir 5. gr. reglugerðarinnar fyrir um að í ákvæðum starfsleyfa fyrir mengandi atvinnurekstur skuli viðeigandi ráðstafanir gerðar til þess að hamla gegn loftmengun og að beita skuli til þess bestu fáanlegu tækni. Í reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit er í 52. gr. fjallað um loftgæði. Samkvæmt henni skulu ábyrgðaraðilar starfsleyfisskylds atvinnurekstrar, sbr. m.a. IX. viðauka sem tilgreinir malbikunarstöðvar, sem hefur í för með sér losun mengandi efna í andrúmsloft, gera viðeigandi ráðstafanir, þ.m.t. með umhverfisstjórnun og hreinsibúnaði, til að draga úr slíkri losun eftir því sem nánar er mælt fyrir um í reglugerð um loftgæði og reglugerð nr. 920/2016 um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu, styrk ósons við yfirborð jarðar og um upplýsingar til almennings. Meðal markmiða síðargreindrar reglugerðar er að setja viðmiðunar- og viðvörunarmörk fyrir nefnd efni sem miða að því að fyrirbyggja eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilbrigði manna og umhverfið í heild, sbr. b. lið 1. gr. Gildir reglugerðin m.a. um atvinnurekstur hér á landi, sbr. 2. mgr. 2. gr. Þá er jafnan í starfsleyfum vegna starfsemi malbikunarstöðva kveðið á um varnir gegn mengun ytra umhverfis, s.s. losunarmörk fyrir útblástur og þann hreinsibúnað sem skal vera til staðar, auk þess sem rekstraraðila ber að nota bestu aðgengilegu tækni við mengunarvarnir, sbr. reglugerð nr. 935/2018 um BAT (bestu aðgengilegu tækni) o.fl. á sviði atvinnurekstrar sem haft getur í för með sér mengun. Verður að gera ráð fyrir að hliðstæð skilyrði verði sett þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er og þannig verði dregið úr þeirri loftmengun sem óhjákvæmilega fylgir starfseminni. Þótt ekki sé hægt að útiloka að loftmengun aukist með fyrirhugaðri starfsemi og hafi e.t.v. einhver áhrif á hagsmuni kærenda verður að líta til þess að samkvæmt gögnum frá Veðurstofu Íslands er vindafar deiliskipulagssvæðisins hagstætt gagnvart Leirvogstunguhverfi. Að framangreindu virtu og með hliðsjón af þeirri fjarlægð sem fyrrgreindar eignir eru í frá fyrirhugaðri starfsemi verður ekki talið að möguleg áhrif vegna loftmengunar séu með þeim hætti að varðað geti hagsmuni kærenda svo verulega að þeir eigi þá einstaklingsbundnu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun umfram aðra sem skapi þeim kæruaðild. Loks lúta málsrök kærenda um skert gæði útivistar og áhrif á náttúruperlur fyrst og fremst að gæslu hagsmuna sem telja verður almenna en ekki einstaklega.

Með hliðsjón af öllu framangreindu þykir hin umdeilda starfsemi sem heimiluð er með kærðri deiliskipulagsbreytingu ekki þess eðlis að það snerti grenndarhagsmuni kærenda eða aðra einstaklega lögvarða hagsmuni þeirra með þeim hætti að þeir geti talist eiga kæruaðild í máli þessu. Þar sem skilyrðum kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 telst ekki fullnægt verður kröfu þeirra um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

Sérálit Aðalheiðar Jóhannsdóttur prófessors: Ég er ósammála þeirri niðurstöðu meirihlutans að vísa málinu frá og tel að taka eigi málið til efnismeðferðar með eftirfarandi rökum.

Við mat á því hvort kærendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun verður að líta til þess að malbikunarstarfsemi er mengandi iðnaður og sem slíkur háður starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Fasteignir kærenda í Leirvogstunguhverfi eru í u.þ.b. 1,3-1,9 km fjarlægð frá fyrirhugaðri malbikunarstöð og landareignir Mosfellsbæjar eru í tæplega kílómetra fjarlægð þar sem þær eru næst stöðinni. Í starfsleyfum vegna starfsemi malbikunarstöðva er jafnan kveðið á um varnir gegn mengun ytra umhverfis, s.s. losunarmörk fyrir útblástur og þann hreinsibúnað sem skal vera til staðar, auk þess sem rekstraraðila ber að nota bestu aðgengilegu tækni (BAT) við mengunarvarnir. Þrátt fyrir að gera megi ráð fyrir að hliðstæð skilyrði verði sett þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er á skipulagssvæðinu verður þó ekki hjá því litið að loftgæði munu að öllum líkindum minnka í nágrenni stöðvarinnar. Kemur enda fram í umhverfismati skipulagsins að starfsemin geti mögulega haft neikvæð áhrif á aðliggjandi svæði vegna loftmengunar. Að því virtu er ekki hægt að útiloka að kærendur verði fyrir áhrifum af loftmengun og öðru ónæði frá starfseminni umfram aðra og með vísan til þeirra sjónarmiða sem reifuð eru fremst í niðurstöðu meirihlutans um aðild að kærumálum er það mat mitt að kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem krafist er skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

86/2020 Suður-Hvoll, Vík

Með

 

Árið 2021, fimmtudaginn 4. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 86/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 20. ágúst 2020 um að fallast ekki á útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir skógrækt í landi Hvols I, Mýrdalshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. september 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Suður-Hvoli, Vík, þá ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 20. ágúst 2020 að synja umsókn um útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir skógrækt í landi Hvols I, landnúmer 163035. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mýrdalshreppi 2. nóvember 2020 og í janúar 2021.

Málavextir: Með bréfi kæranda til sveitarstjórnar Mýrdalshrepps, dags. 11. janúar 2019, var tilkynnt um skógræktarsamning fyrir jörðina Hvol I og óskað eftir afstöðu sveitarstjórnar til þess hvort krafist yrði framkvæmdaleyfis vegna fyrirhugaðrar skógræktar. Í erindinu kom m.a. fram að samningurinn tæki til 93 ha lands sem áður hefði verið nýtt til beitar. Lægi svæðið norðan þjóðvegar 1 í Mýrdal, skammt austan við ána Klifanda. Um 1/3 hluti þess væri vel gróið mólendi og mýrlendi en um 2/3 einkenndust af þunnri mosaskán með strjálum gróðri. Við hönnun á útliti væntanlegs skóglendis yrði þess gætt að sú landnotkun félli sem best að landslagi svæðisins, með ásýnd skógarins í huga. Væru skilyrði til skógræktar á svæðinu fremur erfið og þætti vænlegast að gera ráð fyrir breiðum skjólsvæðum í jaðri þess austan-, norðan- og vestanmegin, þar sem gróðursettar yrðu lauftegundir trjáa og runna eins og birki, elri og víðitegundir. Í frjósamari hluta landsins væri hægt að hafa tegundir líkt og greni, ösp og reynitegundir.

Í kjölfar þessa óskaði skipulags- og byggingarfulltrúi Mýrdalshrepps m.a. umsagna Umhverfisstofnunar og Minjastofnunar Íslands um fyrirhuguð áform. Í bréfi hans til umsagnaraðila, dags. 20. mars 2019, var tekið fram að öll nýræktun skóga á minna en 200 ha svæði skyldi tilkynnt til viðkomandi sveitarfélags sem myndi ákveða hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum, en umrædd framkvæmd félli í C-flokk, sbr. einnig lið 1.02 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Væri því leitað umsagna svo sveitarfélagið gæti tekið upplýsta ákvörðun um matsskyldu framkvæmdarinnar. Taldi Umhverfisstofnun í umsögn sinni, dags. 29. mars 2019, að skógræktin myndi hafa áhrif á ásýnd svæðis og landslagsheild, á vistgerðir með hátt og mjög hátt verndargildi auk mögulegra áhrifa á lífríki. Í umsögninni kom einnig fram að landslag svæðisins einkenndist af flatlendi og söndum þar sem upp úr stæðu há fjöll, Pétursey, Búrfell og svo Mýrdalsjökull. Fyrirhugað ræktunarsvæði myndi þegar fram í sækti mynda hyrningslaga svæði þar sem skörp skil yrðu á milli þess og þess svæðis sem væri umhverfis það. Sýnileikinn yrði þeim mun meiri þar sem svæðið lægi að þjóðvegi 1 og væri á allstóru flatlendi á Suðurlandi þar sem engin sambærileg ræktun ætti sér stað. Benti stofnunin einnig á 70. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og taldi mikilvægt að huga að sjónrænum áhrifum skógræktar, þannig að ekki yxi upp ferningslaga ræktunarsvæði. Einnig tók stofnunin fram að ekki hefði verið sýnt fram á umhverfisáhrif framkvæmdarinnar á fullnægjandi hátt í gögnum og óskaði frekari gagna og viðbragða við nánar tilgreindum atriðum svo unnt væri að taka afstöðu til matsskyldu framkvæmdarinnar. Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 16. maí 2019. Við afgreiðslu þess var vísað til fyrrgreindrar umsagnar Umhverfisstofnunar og svohljóðandi bókað: „Með vísan til athugasemda Umhverfisstofnunar um að mati á vistgerðum svæðisins sé ábótavant auk framangreinds um sjónræn áhrif og rof á landslagsheild telur sveitarstjórn verkefnið þannig vaxið að það krefjist framkvæmdaleyfis. Sveitarstjórn gefur því ekki heimild fyrir því að hafnar verði framkvæmdir og mælist jafnframt til þess að útbúið verði líkan sem sýni fram á sjónræn áhrif framkvæmdanna svo hægt sé að leggja mat á þau atriði sem Umhverfisstofnun veltir upp.“

Mun kærandi hafa verið upplýstur um greinda afstöðu sveitarstjórnar og í framhaldi af því mun hann hafa skilað inn nýrri skýrslu skógræktarráðgjafa, dags. 2. desember 2019, ásamt korti til sveitarstjórnar þar sem fyrirhugað skógræktarsvæði hafði verið minnkað í 20,7 ha. Á fundi skipulagsnefndar 13. febrúar 2020 var erindi kæranda lagt fram og bókað að nefndin setti sig ekki upp á móti skógrækt í landi Hvols I og að skipulagsfulltrúa væri falið að vinna málið. Hinn 20. ágúst s.á. var erindið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar og eftirfarandi fært til bókar: „Sveitarstjórn vísar í skilmála vegna skógræktar í aðalskipulagi Mýrdalshrepps þar sem segir: „Taka skal tillit til 36. gr. laga nr. 44/1999, sem segir að við túnrækt, skógrækt, uppgræðslu lands, skjólbeltagerð og aðra ræktun skal þess gætt að hún falli sem best að heildarsvipmóti lands og raski ekki náttúru- og menningarminjum.“ Með tilliti til ofangreinds fellst sveitarstjórn ekki á útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir skógrækt í landi Hvols enda mun hún byrgja sýn frá þjóðvegi þegar fram í sækir og sveitarstjórn telur að hún falli ekki að heildarsvipmóti lands.“ Var kæranda tilkynnt um afgreiðslu málsins með tölvupósti 21. ágúst 2020. Í kjölfarið óskaði kærandi þess að honum yrðu send öll gögn málsins og sendi sveitarstjóri frekari skýringar og gögn með tölvupósti 18. september s.á. Var í þeim tekið fram að kærandi hefði minnkað svæði það sem um ræddi og aðlagað það landslagi, en sveitarstjórn teldi ræktunina ekki falla að heildarsvipmóti lands. Frekari umsagna hefði ekki verið leitað til að tefja ekki afgreiðslu málsins þar sem afstaða sveitarstjórnar hefði legið fyrir og byggt á aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að við meðferð málsins hafi hvorki verið gætt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né andmælareglu 13. gr. sömu laga og þeim meginreglum stjórnsýsluréttar sem liggi þeim til grundvallar. Stjórnvaldi beri að sjá til þess að nauðsynlegar og réttar upplýsingar liggi fyrir þannig að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun. Ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis til skógræktar varði enn fremur stjórnarskrárvarinn eignarrétt kæranda og því hvíli enn ríkari skylda á stjórnvöldum til að tryggja að slíkar ákvarðanir séu upplýstar með fullnægjandi hætti.

Ljóst sé að umsókn kæranda hafi uppfyllt öll sértæk skilyrði Aðalskipulags Mýrdalshrepps 2012-2028 fyrir skógrækt og hafi hún því verið í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Eina skilyrðið sem eftir hafi staðið hafi verið almennt skilyrði 36. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd, en ekki verði séð að sveitarstjórn hafi rannsakað með fullnægjandi hætti hvort skilyrði þess ákvæðis væri uppfyllt. Umrætt ákvæði veiti enga vísbendingu um hvað þurfi til að þess að skógrækt falli, eða falli ekki, að heildarsvipmóti lands. Rétt hefði því verið að leita umsagnar fagaðila, s.s. Umhverfisstofnunar við mat á því, en hún hafi eftirlit með framkvæmd laganna. Sé ákvæðið afar almennt og beri eingöngu að beita því á grundvelli gaumgæfilegrar rannsóknar.

Sú staðreynd að leitað hafi verið umsagna fjölmargra aðila, m.a. Umhverfisstofnunar, þegar kærandi hafi lagt fram fyrri umsókn sína bendi til þess að nauðsynlegt hefði verið að fá umsagnir frá fagaðilum áður en ákvörðun um framkvæmdaleyfi yrði tekin. Hafi breytingar í nýrri umsókn kæranda enda tekið mið af m.a. umsögn Umhverfisstofnunar. Ekki sé ljóst hvort sveitarstjórn hafi byggt afstöðu sína á framkomnum umsögnum að einhverju leyti, en ákvörðunin virðist fyrst og fremst hafa byggst á eigin mati sveitarstjórnar á ákvæði 36. gr. náttúruverndarlaga. Ákvörðunin hafi ekki verið studd neinum sérstökum rökum heldur einfaldlega skírskotað til þess að skógræktin myndi byrgja sýn frá þjóðvegi og að hún félli ekki að heildarsvipmóti lands. Rökstuðningur sveitarstjóra varpi ekki frekari ljósi á það hvernig ákvæði 1.6. í aðalskipulagi Mýrdalshrepps og þ.a.l. ákvæði 36. gr. náttúruverndarlaga séu ekki uppfyllt.

Þegar kærandi hafi lagt fram nýja umsókn um skógræktarsvæðið hafi það bæði verið minnkað talsvert og afmarkað með nýjum hætti þannig að það yrði ekki ferningslaga heldur félli betur að gróðurlendi svæðisins. Um hafi verið að ræða nýja umsókn sem breytt hafði verið í grundvallaratriðum og því hafi umsagnir er lotið hafi að fyrri umsókn kæranda ekki lengur átt við. Leita hefði átt umsagnar Umhverfisstofnunar, sem og annarra umsagnaraðila, að nýju til að málið teldist rannsakað með fullnægjandi hætti. Hafi sveitarstjórn ekki gætt rannsóknarskyldu sinnar skv. 10. gr. stjórnsýslulaga, en einnig hafi falist brot gegn rannsóknarreglu í því að kæranda hafi ekki verið gefinn kostur á að kynna sér gögn málsins með fullnægjandi hætti og koma að frekari upplýsingum um málið.

Jafnframt hafi verið brotið gegn andmælarétti kæranda við meðferð málsins. Á meðan umsóknin hafi verið til meðferðar hafi hann aldrei fengið tækifæri til að kynna sér gögn málsins, tjá sig um framkomnar upplýsingar eða koma að frekari upplýsingum áður en ákvörðunin hafi verið tekin. Þar sem kærandi hafi enga vitneskju haft um framgang málsins hverju sinni hafi honum ekki gefist kostur á því að óska eftir aðgangi að gögnum, koma á framfæri sjónarmiðum sínum eða tjá sig um þá ákvörðun sveitstjórnar að óþarft væri að leita umsagna við umsókn hans. Hafi brot sveitarstjórnar gegn andmælareglunni einnig falið í sér brot gegn 14. og 15. gr. stjórnsýslulaga. Um svo verulega formannamarka sé að ræða að hin kærða ákvörðun sé ógildanleg þegar af þeirri ástæðu. Einnig sé gerð athugasemd við það hversu lengi hafi dregist að fá svör við beiðni um aðgang að gögnum. Þá hafi hinni kærðu ákvörðun hvorki fylgt sérstakur rökstuðningur né hafi verið leiðbeint um kærurétt eða rétt til að krefjast rökstuðnings. Sé þessi málsmeðferð ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

Sveitarstjórn hafi vanrækt skyldubundið mat sitt á því hvort skilyrði 36. gr. náttúruverndarlaga og þ.a.l. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga væri fyrir hendi og sé ákvörðunin ógildanleg af þeim sökum. Ekki sé að sjá að neitt einstaklingsbundið mat hafi verið framkvæmt á því hvort skilyrðið væri fyrir hendi, enda hafi því ekki verið lýst nánar með hvaða hætti skógræktin félli ekki vel að heildarsvipmóti landsins. Vísan í að skógrækt myndi byrgja sýn frá þjóðvegi sé ekki fullnægjandi í þessu samhengi enda hafi sýn frá þjóðvegi ekkert með heildarsvipmót landsins að gera í þessum skilningi.

Málsrök sveitarfélagsins: Af hálfu Mýrdalshrepps er tekið fram að engir þeir formannmarkar séu til staðar sem leitt geti til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Sveitarstjórn hafi víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sveitarfélags, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 439/2012.

Eins og víðast hvar á Suðurlandi hafi skógrækt í Mýrdalshreppi aukist afar mikið á síðustu árum og áratugum. Skógrækt geti haft í för með sér varanlega breytingu á ásýnd lands og séu sum svæði viðkvæmari en önnur að þessu leyti. Endanlegt mat um útgáfu framkvæmdaleyfa til umfangsmikillar skógræktar liggi hjá sveitarfélögum. Slíku efnislegu mati verði hvorki hnekkt af dómstólum né úrskurðarnefndum. Þegar upphafleg tillaga hafi komið fram hafi verið aflað nauðsynlegra umsagna. Á endanum hafi það verið heildstætt mat sveitarstjórnar að skógræktaráformin féllu ekki að heildarsvipmóti landsins, sbr. ákvæði í aðalskipulagi. Í ljósi hinnar viðkvæmu staðsetningar nærri þjóðvegi 1, geti áform um ræktun 20,7 ha skógræktarsvæðis haft mikil áhrif á ásýnd landsins. Um sé að ræða mjög stór landsvæði og þótt svæðið hafi verið minnkað þá eigi enn við öll þau sömu meginsjónarmið og umsagnaraðilar hafi tekið til umfjöllunar í fyrri tillögu. Sveitarstjórn hafi verið einhuga um að hafna umsókninni. Afstaða til heildarsvipmóts lands sé afar matskennt atriði, en það ætti þó að vera óumdeilt að slíkt mat sé á könnu sveitarfélags á grundvelli þess skipulagsvalds sem sveitarfélögum sé falið í lögum.

Því sé hafnað að sveitarfélagið hafi með einhverjum hætti brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar við mat sitt. Einnig sé því mótmælt að brotið hafi verið gegn andmælareglu, rökstuðningsreglu eða málshraðareglu. Hafi málið fengið ítarlega skoðun hjá sveitarfélaginu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi áréttar sjónarmið sín. Ný umsókn hafi verið lögð fram og hafi sveitarfélaginu borið að fylgja lögboðnum málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar við töku stjórnvaldsákvörðunarinnar. Eina neikvæða umsögnin sem hafi borist hafi verið frá Umhverfisstofnun. Sé úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála heimilt að endurskoða hvort efnisleg ákvörðun sveitarfélagsins hafi verið í samræmi við lög og hvort hún hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum. Fullyrðingar sveitarfélagsins um að engir formannmarkar séu til staðar séu ekki studdar neinum rökum.

Ekki verði séð að hin kærða ákvörðun hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum. Af greinargerð sveitarfélagsins megi ráða að það telji sig hafa nánast ótakmarkað svigrúm við mat á því hvort skilyrði 36. gr. náttúruverndarlaga sé fyrir hendi, en það standist ekki. Því sé hafnað að sömu sjónarmið hafi átt við og um fyrri umsókn. Með því að segja að sömu sjónarmið hafi átt við og um fyrri tillögu sé í raun fallist á að ekki hafi verið framkvæmt fullnægjandi einstaklingsbundið mat á því hvort framkvæmdin væri í samræmi við heildarsvipmót lands. Þótt sveitarfélagið hafi víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sinna sé valdið ekki ótakmarkað. Með gerð aðalskipulags hafi sveitarfélagið sett sér ramma um á hvaða grundvelli skógræktarleyfi yrði veitt og hafi íbúar sveitarfélagsins réttmætar væntingar um að ákvarðanir þess verði í samræmi við skipulagsáætlanir.

Eins og fram komi í greinargerð sveitarfélagsins hafi skógrækt í Mýrdalshreppi og annars staðar á Suðurlandi aukist mjög á síðustu árum og með vísan til þess sé skógrækt í raun orðin hluti af heildarsvipmóti lands á svæðinu. Beri að taka tillit til þess þegar ákveða skuli hvort framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt skuli veitt, m.a. vegna jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.

Niðurstaða: Í skipulagslögum nr. 123/2010 er fjallað um veitingu framkvæmdaleyfis, málsmeðferð og skilyrði slíkra leyfa. Samkvæmt 13. gr. skipulagslaga skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Þá segir í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi að framkvæmdir sem tilgreindar séu í lögum um mat á umhverfisáhrifum séu ávallt háðar framkvæmdaleyfi. Komst sveitarstjórn að þeirri niðurstöðu 16. maí 2019 að skógrækt kæranda á 93 ha svæði væri framkvæmdaleyfisskyld, en við meðferð málsins var leitað umsagna með vísan til þess að um væri að ræða framkvæmd sem væri tilkynningarskyld til sveitarstjórnar, sbr. lið 1.02, sbr. einnig lið 1.07 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Fram kemur í 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga að sá sem óski framkvæmdaleyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar skuli kveða á um í reglugerð. Er í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 772/2012 áskilið að sá sem óski eftir framkvæmdaleyfi skuli senda skriflega umsókn til hlutaðeigandi leyfisveitanda ásamt nauðsynlegum gögnum um fyrirhugaða framkvæmd. Eru markmið reglugerðarinnar tíunduð í 2. gr. og felast m.a. í að tryggja faglegan undirbúning við útgáfu framkvæmdaleyfa og koma á samræmdu ferli vegna umsókna um framkvæmdaleyfi, sbr. b-lið ákvæðisins. Með bréfi, dags. 11. janúar 2019, óskaði kærandi eftir afstöðu sveitarstjórnar varðandi framkvæmdaleyfi vegna skógræktar á 93 ha svæði í landi Hvols I. Erindinu fylgdi m.a. skýrsla skógræktarráðgjafa, dags. 16. október 2018. Eftir að kærandi hafði verið upplýstur um afgreiðslu sveitarstjórnar frá 16. maí 2019 afhenti hann nýja óundirritaða skýrslu skógræktarráðgjafa, dags. 2. desember s.á., og var þá gert ráð fyrir að fyrirhugað skógræktarsvæði væri 20,7 ha. Var það erindi tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 20. ágúst 2020 og af fundargerð þess fundar má ráða að litið hafi verið á þessi nýju gögn sem umsókn um framkvæmdaleyfi. Hefur sá skilningur verið staðfestur af hálfu sveitarfélagsins sem hefur upplýst að litið hafi verið á fyrrgreinda skýrslu skógræktarráðgjafa, dags. 2. desember 2019, sem umsókn. Einnig að það hafi verið sameiginlegur skilningur kæranda og skipulagsfulltrúa að fjalla ætti um erindið sem umsókn. Eins og fyrr greinir í málavaxtalýsingu afgreiddi sveitarstjórn erindið með þeim hætti að fallast ekki á útgáfu framkvæmdarleyfis með vísan til þess að skógræktin félli ekki að heildarsvipmóti lands, sbr. gildandi aðalskipulag.

Samkvæmt framangreindu var ekki til að dreifa eiginlegri skriflegri umsókn um framkvæmdaleyfi samkvæmt 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga og 6. gr. reglugerðar nr. 772/2012 er erindi kæranda var afgreitt á fundi sveitarstjórnar 20. ágúst 2020. Voru því ekki fyrir hendi skilyrði til að taka erindi hans til efnislegrar afgreiðslu sem umsókn um framkvæmdaleyfi og afgreiða með slíkum hætti, enda var erindið verulega breytt frá fyrirspurn hans um framkvæmdaleyfisskyldu hvað stærð svæðisins og afmörkun þess varðar. Lagði kærandi því ekki fram fullnægjandi gögn við meðferð málsins og bar sveitarstjórn að svo stöddu að vekja athygli hans á því og veita honum færi á að leggja fram skriflega umsókn og leiðbeina honum um afleiðingar þess yrði það ekki gert, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en ekki að afgreiða erindið efnislega með synjun án þess að leita nánari útskýringa. Þegar af þeirri ástæðu, og að teknu tilliti til þess markmiðs reglugerðar nr. 772/2012 að tryggja faglegan undirbúning við útgáfu framkvæmdaleyfa, þykir verða að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Hefur þá hvorki verið tekin afstaða til þess hvort undirbúningur sveitarfélagsins hafi að öðru leyti tryggt nægilega faglegan undirbúning vegna fyrirhugaðrar skógræktar, s.s. með því að leita umsagna um verulega breytt áform kæranda eða fylgja eftir bókun sinni um að útbúið yrði líkan af skógræktinni, né til annarra málsástæðna kæranda hvað varðar rannsókn máls og andmælarétt.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 20. ágúst 2020 um að fallast ekki á útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir skógrækt í landi Hvols I, Mýrdalshreppi.

94/2020 Stórhöfði

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 28. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 94/2020, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. júní 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða – Eystri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra EG. heild ehf., Stórhöfða 17, og Flísabúðin hf., Stórhöfða 21, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. júní 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða – Eystri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. nóvember 2020.

Málavextir: Á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur 4. mars 2020 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða – Eystri vegna afmörkunar nýrrar lóðar fyrir smáhýsi. Kom fram í bókuninni að velferðarsvið borgarinnar hafi leitað eftir því að koma fyrir smáhýsum á völdum stöðum í borginni sem búsetuúrræði fyrir skjólstæðinga þeirra. Í breytingunni fólst að koma fyrir allt að þremur smáhýsum á nýrri lóð. Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., skipulagslaga nr. 123/2010. Staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 12. mars 2020 og var tillagan auglýst til kynningar frá 31. s.m. til og með 12. maí s.á. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 10. júní s.á. var tillagan tekin fyrir að nýju ásamt athugasemdum sem bárust á kynningartíma tillögunnar auk þess sem umsögn skipulagsfulltrúa frá 5. s.m. var lögð fram. Var tillagan samþykkt og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 25. maí 2020. Auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. september 2020.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar annars vegar á því að skipulagsbreytingin samrýmist ekki Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og hins vegar að málsmeðferð tillögunnar hafi ekki verið í samræmi við ákvæði og markmið skipulagslaga nr. 123/2010. Umdeild lóð sé á miðsvæði, Höfðar – Keldur (M4), nánar tiltekið M4b. Í skilmálum aðalskipulags segi: „Fyrst og fremst gert ráð fyrir rýmisfrekum verslunum, heildsölum og skrifstofum. Léttur iðnaður og verkstæði eru leyfð. Að öllu jöfnu er ekki gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði, gistiheimilum og hótelum, nema það sé sérstaklega tilgreint í deiliskipulagi.“ Sambærilegan texta sé að finna í umfjöllun um hverfisskipulag Grafarvogs, en þar sé sérstaklega gert ráð fyrir uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á reit 4c. Sambærileg heimild sé ekki fyrir hendi vegna reits 4b.

Í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé miðsvæði skilgreint sem „svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi sem talin er samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis“, sbr. b-lið greinarinnar. Í gr. 4.3.1. sé fjallað um viðfangsefni og efnistök aðalskipulags. Meginviðfangsefni þess sé stefnumörkun sveitarstjórnar um landnotkun og þróun byggðar og skuli í skipulagsgögnum gera grein fyrir og marka stefnu um tilgreind málefni og setja þau fram með ákvörðunum um landnotkun, eftir því sem við eigi. Meðal þeirra málefna sé blöndun byggðar og íbúaþróun, sbr. b- og d-liði greinarinnar, og sé þar m.a. átt við blöndun íbúða við aðra landnotkun, t.d. þar sem blanda eigi íbúðum og verslunar-, menningar- og þjónustustarfsemi í þéttbýli. Gæta skuli sérstaklega að búsetuhagsmunum íbúa, svo sem með því að blanda ekki íbúðum við starfsemi sem ætla megi að valdi nágrönnum óþægindum, t.d. vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar. Staðsetning nýrra íbúða eða starfsemi hamli ekki starfsemi sem fyrir sé á svæðinu. Af þessu megi sjá að samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé einungis gert ráð fyrir atvinnustarfsemi á svæðinu.

Smáhýsin séu ótvírætt ætluð til íbúðar og ekki skipti máli þótt um tímabundið úrræði sé að ræða. Vissulega kunni búseta hvers og eins skjólstæðings að vera tímabundin en búseta í smáhýsunum og úrræðið sem slíkt sé varanlegt, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 79/2019. Hin kærða deiliskipulagsbreyting sé því ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag, svo sem áskilið sé í 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga.

Samráðsferli við gerð skipulags sé lögmælt. Ákvæði 41. gr. skipulagslaga um auglýsingu skipulags endurspegli markmiðsákvæði d-liðar 1. gr. laganna um að tryggja að samráð sé haft við almenning og hagsmunaaðila við gerð og breytingu deiliskipulags, þannig að almenningi gefist kostur á að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalds. Í þessu tilviki hafi alls 19 athugasemdir borist einkum frá eigendum og rekstraraðilum í nágrenninu og af þeim hafi 18 verið neikvæðar og ein hlutlaus. Af hálfu fyrirtækja á svæðinu hafi m.a. verið bent á að breytingin geti rýrt verðgildi eigna og haft neikvæð áhrif á rekstur. Íbúðarbyggð í umhverfi þeirrar þjónustu sem veitt sé á svæðinu henti svæðinu illa. Reynsla af sambærilegum smáhýsum við Grandagarð gefi ekki fögur fyrirheit um snyrtilega umgengi og þrifnað. Eigendur og rekstraraðilar á reit 4b hafi byggt upp starfsemi sína og fjárfest í fasteignum á svæðinu með hliðsjón af gildandi deiliskipulagsskilmálum frá árinu 2002 um „að á nýjum lóðum sé gert ráð fyrir verslunar-, skrifstofu- og þjónustustarfsemi. Ekki er gert ráð fyrir nýrri íbúðarbyggð.“

Samkvæmt 41. gr. skipulagslaga skuli sveitarstjórn, þegar frestur til athugasemda sé liðinn, taka tillöguna til umræðu þar sem afstaða sé tekin til athugasemda sem borist hafi. Í umfjöllun skipulagsfulltrúa hafi einungis að litlu leyti verið tekin afstaða til framkominna athugasemda. Umfjöllunin beri þess skýr merki að ekki sé um að ræða raunverulegt samráðsferli heldur liggi niðurstaðan fyrir. Svör við athugasemdum byrji á að vísa til þess að ekki sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð á svæðinu og síðar tekið fram að ef heimila eigi uppbyggingu íbúðarbyggðar til frambúðar þurfi að skoða það heildstætt. Þessar staðreyndir séu síðan hunsaðar til að komast að niðurstöðu sem virðist fyrirfram ákveðin um að heimila íbúðarbyggð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé reiturinn sem um ræði á skilgreindu miðsvæði, M4, en um svæðið segi m.a. að öllu jöfnu sé ekki gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði, gistiheimilum eða hótelum nema það sé sérstaklega tilgreint í deiliskipulagi. Skilgreining þessi samræmist þeirri landnotkun sem sé á svæðinu í dag, en þar sé blönduð starfsemi verslana, létts iðnaðar o.fl. Í gildandi deiliskipulagi sé ekki gert ráð fyrir nýrri íbúðarbyggð á reitnum, en ljóst sé að heimild sé í aðalskipulagi til að skilgreina sérstakar heimildir fyrir íbúðarhúsnæði í deiliskipulagi og hafi það verið gert með tillögu þessari. Sé því deiliskipulagsbreytingin í fullu samræmi við skilmála aðalskipulags á svæðinu.

Málsmeðferð tillögunnar hafi verið í fullu samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, en tillagan hafi verið kynnt með lögboðnum hætti og athugasemdum svarað. Þó ekki hafi verið fallist á athugasemdir þýði það ekki að kröfum skipulagslaga um samráð hafi ekki verið fylgt.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar, sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Við gerð deiliskipulags ber að byggja á stefnu aðalskipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt deiliskipulagssvæði á miðsvæði merktu M4b. Kemur fram í kaflanum Landnotkun-skilgreiningar (bindandi stefna) að á svæðinu sé fyrst og fremst gert ráð fyrir rýmisfrekum verslunum, heildsölum og skrifstofum. Léttur iðnaður og verkstæði séu leyfð. Að öllu jöfnu sé þar ekki gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði, gistiheimilum eða hótelum nema það sé sérstaklega tilgreint í deiliskipulagi. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er afmörkuð lóð við Stórhöfða þar sem heimilað er að byggja allt að þrjú smáhýsi. Af gögnum málsins liggur fyrir að smáhýsin eru ætluð sem búsetuúrræði. Rúmast því umrædd deiliskipulagsbreyting innan heimilda aðalskipulags.

Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna. Afstaða var tekin til athugasemda sem borist höfðu í samræmi við 3. mgr. 41. gr. sömu laga og skipulagstillagan ásamt svörum við athugasemdum samþykkt í borgarráði. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda að undangenginni lögmæltri yfirferð Skipulagsstofnunar. Liggur því ekki annað fyrir en að málsmeðferð hennar hafi verið lögum samkvæmt.

Kærendur hafa m.a. vísað til þess að breytingin geti rýrt verðgildi eigna á svæðinu og haft mjög neikvæð áhrif á rekstur. Íbúðarbyggð í umhverfi þeirrar þjónustu sem veitt sé henti svæðinu mjög illa. Í umsögn skipulagsfulltrúa var bent á ástæður að baki breytingunni, m.a. að smáhýsin séu hluti af hugmyndafræðinni „Húsnæði fyrst“ fyrir heimilislausa einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Með því sé verið að mæta óskum íbúa varðandi staðsetningu húsnæðis og stuðla að öruggu húsnæði fyrir einstaklinga með fjölþættan vanda. Liggja því málefnaleg rök að baki umdeildri breytingu. Þá verður að gera ráð fyrir að borgaryfirvöld grípi til viðeigandi ráðstafana valdi notkun smáhýsanna ónæði eða vandamálum gagnvart nærliggjandi starfsemi. Jafnframt var í umsögn skipulagsfulltrúa vakin athygli á að skv. 51. gr. skipulagslaga eigi fasteignareigandi rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi geti hann sýnt fram á tjón vegna breytinga á skipulagi. Úrlausn um það álitaefni er hins vegar ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 25. júní 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða – Eystri.

8/2021 Dunhagi

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 27. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 8/2021, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 15. október 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. janúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Tómasarhaga 32, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 15. október 2020 að samþykkja deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir á grundvelli hennar verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Til vara er þess krafist að úrskurðarnefndin fresti gildistöku hins umþrætta deiliskipulags á meðan mál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 25. janúar 2021.

Málsatvik og rök: Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 15. október 2020 var staðfest samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. s.m. um nýtt deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Auglýsing um deiliskipulagið birtist í B-deild Stjórnartíðinda 17. desember s.á. Hin kærða skipulagsákvörðun felur í sér heimild til niðurrifs og uppbyggingar á Dunhaga 18-20, auk bílskúrsréttinda á þremur lóðum.

Kærendur taka fram að þeir hafi orðið þess varir að framkvæmdir væru hafnar í húsinu á grundvelli byggingarleyfis sem samþykkt hefði verið 12. janúar 2021. Telji þeir deiliskipulagið ógilt og að þær röksemdir og sjónarmið sem færð séu fram geti ekki leitt til annars en að kröfugerð kærenda verði tekin til greina. Af þeim sökum hafi kærendur brýna hagsmuni af því að framkvæmdir verði þegar stöðvaðar eða gildistöku deiliskipulagsins frestað á meðan mál þetta sé til meðferðar fyrir nefndinni, enda feli deiliskipulagið í sér heimild til gífurlegrar uppbyggingar á lóðinni við Dunhaga 18-20.

Af hálfu borgaryfirvalda kemur fram að engin byggingar- eða framkvæmdaleyfi hafi verið gefin út. Séu einhverjar byggingarleyfisskyldar framkvæmdir hafnar geti byggingarfulltrúi eftir atvikum stöðvað þær. Gildistaka deiliskipulags, eða deiliskipulagsbreytingar, feli ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þurfi til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Ljóst sé því að hagsmunir kærenda knýji ekki á um slíka frestun.  Reykjavíkurborg fari því fram á að kröfum kærenda sé hafnað.

Af hálfu framkvæmdaraðila er tekið fram að allar þær framkvæmdir sem ráðist hafi verið í að Dunhaga 18-20 falli undir minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar séu byggingarleyfi, sbr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Lúti þær að öryggi hússins og næsta nágrennis, sem og viðhaldi innanhúss að Dunhaga 18-20. Í ljósi þess sé farið fram á að ósk kærenda um stöðvun framkvæmda verði hafnað.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. ákvörðun um veitingu byggingar- eða framkvæmdaleyfis, eftir atvikum með stoð í skipulagi, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna slíkra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Þar af leiðandi er að jafnaði ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Að teknu tilliti til þess sem rakið hefur verið verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda, enda fara þær ekki fram á grundvelli hins kærða skipulags, og verður henni hafnað.

Rétt er þó að benda á að fyrir liggur að byggingaráform hafa verið samþykkt á grundvelli hins kærða deiliskipulags. Kæra málsins tekur þó ekki til nefndra byggingaráforma en kjósi kærendur að koma að kæru vegna þeirra geta þeir gert kröfu að nýju um stöðvun framkvæmda. Kærufrestur vegna byggingaráforma, líkt og annarra ákvarðana, er einn mánuður frá því að kærendum varð kunnugt eða mátti verða kunnugt um þau, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Í ljósi framkominna skýringa borgarinnar og leyfishafa skal einnig á það bent að telji kærendur um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir að ræða geta þeir beint kröfu um beitingu þvingunarúrræða til byggingarfulltrúa. Ákvörðun hans þar um er jafnframt kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, eftir atvikum hvort sem er af kærendum eða framkvæmdaraðila.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda er hafnað.

130/2020 Kerhraun

Með

Árið 2021, föstudaginn 22. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 130/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 18. nóvember 2020 um að synja beiðni um breytingu Aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 vegna lóðarinnar Kerhraun C 103/104.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi sumarhúss að Kerhrauni C 103/104, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 18. nóvember 2020 að synja beiðni um breytingu aðalskipulags sveitarfélagsins vegna lóðarinnar Kerhraun C 103/104. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sveitarstjórn að taka nýja ákvörðun.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 8. janúar 2021.

Málsatvik og rök: Á fundi byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps 22. apríl 2020 var tekin fyrir beiðni kæranda um að skráning á sumarhúsi hans á lóðinni Kerhraun C 103/104 yrði breytt í íbúðarhús. Var umsókninni synjað með vísan til þess að umrædd lóð væri í skipulagðri frístundabyggð í landi Klausturhóla samkvæmt deiliskipulagi. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 5. maí 2020, sem með úrskurði uppkveðnum 14. ágúst s.á. í máli nr. 33/2020 hafnaði ógildingarkröfu kæranda. Hinn 28. október 2020 sótti kærandi um breytingu á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 vegna lóðarinnar Kerhraun C 103/104. Var með umsókninni óskað eftir því að skipulagi lóðarinnar yrði breytt úr frístundalóð í landbúnaðarsvæði. Á fundi skipulagsnefndar 11. nóvember s.á. var erindi kæranda tekið fyrir og lagt fyrir sveitarstjórn að hafna beiðninni. Hinn 18. s.m. var umsókn kæranda hafnað á fundi sveitarstjórnar með vísan til þess að lóðin væri staðsett í mjög stóru hverfi fyrir skipulagða frístundabyggð. Væru engar forsendur fyrir því að skilgreina staka lóð sem landbúnaðarland.

Kærandi bendir á að umsóknin varði óverulega breytingu á aðalskipulagi, auk þess sem hún sé í samræmi við fyrri breytingar sveitarfélagsins í sambærilegum málum. Það sé ómálefnalegt að mismuna kæranda með þessum hætti og ekki í samræmi við 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Sveitarfélagið bendir á að í 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi fram að ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra beri að nefndum lögum að staðfesta sæti ekki kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Breytingar á aðalskipulagi séu háðar samþykki sveitarstjórnar og samþykki Skipulagsstofnunar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna. Hin kærða ákvörðun feli í sér synjun á umsókn um breytingu aðalskipulags en samkvæmt skýrum ákvæðum skipulagslaga hafi úrskurðarnefndin ekki valdheimildir til að endurskoða slíka ákvörðun. Því beri að vísa málinu frá nefndinni. Til vara er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Að baki ákvörðuninni séu bæði skipulagsrök og málefnaleg sjónarmið.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna, en þó einungis staðfestingu Skipulagsstofnunar ef um óverulega breytingu er að ræða, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Hin kærða ákvörðun felur í sér synjun á beiðni um breytingu Aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020. Samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

120/2020 Neðan Sogsvegar

Með

Árið 2021, föstudaginn 22. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 120/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. október 2020 um að leggja til að óveruleg breyting verði unnin á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norðurkots vegna lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Neðan-Sogsvegar 4, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. október 2020 að leggja til að óveruleg breyting verði unnin á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norðurkots vegna lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 8. janúar 2021.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps 14. október 2020 var tekin fyrir athugasemd lóðarhafa Neðan-Sogsvegar 4A varðandi breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norðurkots. Gerð var athugasemd við að byggingarreitur innan lóðar nr. 4 nái yfir svæði sem standi töluvert hærra en bústaður á lóð nr. 4A. Bygging þar geti verið veruleg ógnun við friðhelgi þeirra auk þess að vera sjónmengun. Var óskað eftir því að viðkomandi deiliskipulagsbreyting yrði felld úr gildi og nýtt deiliskipulag unnið sem tæki tillit til athugasemda varðandi byggingarreit. Lagði skipulagsnefnd til að óveruleg breyting yrði unnin á deiliskipulagi og byggingarreitur lóðar nr. 4 minnkaður. Á fundi sveitarstjórnar 21. október 2020 var samþykkt að gera óverulega breytingu á deiliskipulaginu. Var skipulagsfulltrúa falið að ljúka málinu á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skyldi niðurstaða sveitarstjórnar og skipulagsbreytinga grenndarkynnt lóðarhafa lóðar nr. 4 og honum gefinn kostur á andmælum.

Kærandi telur að óviðkomandi aðilar séu að ganga freklega á eignarrétt hans að ástæðulausu. Erfiðara verði að skipta upp lóðinni í tvær aðskildar lóðir. Verði settar hömlur á byggingarreitinn rýri það verðgildi eignarinnar umtalsvert. Skipulagsnefnd hafi farið fram úr sínum valdheimildum með því að samþykkja athugasemdir lóðarhafa lóðar nr. 4A án röksemda. Engin ákvörðun hafi verið tekin um að byggja á umdeildu svæði. Það svæði sem standi hærra en húsið á lóð nr. 4A sé hóll og því óheppilegt sem byggingasvæði. Lóðarhafar þeirrar lóðar hafi ekki rétt á að krefjast skerðingar á byggingarreitnum.

Sveitarfélagið bendir á að deiliskipulagsbreyting vegna breyttrar legu byggingarreits hafi ekki verið kláruð þar sem ákveðið hafi verið að bíða með grenndarkynningu þar til niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála lægi fyrir. Hin kærða ákvörðun hafi því ekki tekið gildi og enn eigi eftir að grenndarkynna fyrirhugaðar breytingar skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Því verði ekki séð að um kæranlega ákvörðun sé að ræða, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds. Hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar frá 21. október 2020, um að leggja til að óveruleg breyting verði unnin á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norðurkots vegna lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4, er ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur liður í málsmeðferð deiliskipulagsbreytingar. Ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingu um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Verður henni þá fyrst skotið til úrskurðarnefndarinnar og sætir þá deiliskipulagsbreytingin og öll málsmeðferð hennar lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

62/2020 Garðarsbraut, Húsavík

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 21. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2020, kæra vegna synjunar byggðarráðs Norðurþings frá 11. júní 2020 á endurskoðun og endurgreiðslu sorphirðugjalda sem lögð voru á vegna fasteignarinnar Garðarsbrautar 12, Húsavík, árin 2018, 2019 og 2020.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júlí 2020, er barst nefndinni 15. s.m., kærir Bjarkarkot ehf. þá ákvörðun byggðarráðs Norðurþings frá 11. júní 2020 að synja um „endurgreiðslu og niðurfellingu sorphirðugjalda“ sem lögð voru á kæranda vegna fasteignarinnar Garðarsbrautar 12, Húsavík, árin 2018, 2019 og 2020. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Norðurþingi 23. ágúst 2020 og 30. nóvember s.á.

Málavextir: Hinn 13. maí 2020 sendi kærandi sveitarstjóra Norðurþings bréf þar sem þess var óskað að álagning sorphirðugjalds vegna eignar hans Garðarsbrautar 12, fastanúmer 215-2556, 228-6800 og 228-6801, yrði endurskoðuð og gjaldið endurgreitt fyrir tímabilið 1. mars 2018 til og með 1. maí 2020. Mun kærandi starfrækja gistiþjónustu í húsnæðinu.

Á fundi byggðarráðs Norðurþings 11. júní 2020 var erindi kæranda tekið fyrir og eftirfarandi bókað: „Byggðarráð felur sveitarstjóra að taka saman minnisblað og leggja fyrir ráðið að viku liðinni. Sveitarstjóra er falið að svara erindunum og tjá íbúðareigendum að sveitarfélagið sjái sér ekki fært að verða við óskum um niðurfellingu sorphirðugjalda.“ Með tölvupósti 16. s.m. var kæranda tilkynnt niðurstaða málsins og var vísað til þess að samkvæmt lögum, reglugerðum og samþykktum væru lögð gjöld á alla íbúðareigendur í Norðurþingi, þar með talin sorphirðugjöld, enda væri húsnæðið skráð sem íbúðarhúsnæði. Væri hins vegar tilefni til þess að eign yrði skráð sem atvinnuhúsnæði breyttust álögð gjöld til samræmis við lög, reglugerðir og samþykktir þannig að sorphirðugjöld væru ekki innheimt og þar með á ábyrgð eiganda húsnæðisins að kaupa slíka þjónustu. Var jafnframt tekið fram að óskaði eigandi Garðarsbrautar 12 eftir því að fasteignin yrði skráð sem atvinnuhúsnæði og fengi þar með felld niður sorphirðugjöld á vegum sveitarfélagsins væri sjálfsagt að verða við þeirri beiðni og skyldi hún berast skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings á tiltekið netfang.

 Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi eignast húsnæðið að Garðarsbraut 12 í upphafi árs 2018 og hafi ætlunin verið að gera upp íbúðirnar og leigja út til ferðamanna í skammtímaleigu. Hafi Norðurþing bent kæranda á að heppilegast væri að skrá húsnæðið sem íbúðarhúsnæði þar sem auðveldara væri að selja íbúðirnar í sitthvoru lagi og að hver íbúð hefði sitt fastanúmer. Fljótlega eftir að kærandi hafi komið að rekstri húsnæðisins hafi honum orðið það ljóst að sorpmálum væri mjög ábótavant. Sorpílátum hafi verið illa sinnt. Þau hafi verið losuð sjaldan og gjarnan innsigluð þar sem ekki hafi verið hægt að fylgjast með réttri flokkun. Til að koma í veg fyrir áframhaldandi sóðaskap og óþægindi hefði verið óskað eftir því að sveitarfélagið fjarlægði sorpílátin þar sem tíðni losunar og stærð ílátanna hentaði ekki þeirri starfsemi sem væri í húsnæðinu. Sveitarfélagið hefði fjarlægt sorpílátin, eins og óskað hefði verið eftir, og hætt allri þjónustu við húsnæðið. Hefði kæranda ekki verið bent á að bærinn gæti komið til móts við þarfir eigenda í sorphirðumálum og hefði kærandi ekki haft vitneskju um slíkt. Hann hefði því óskað eftir því að Íslenska gámafélagið (ÍGF), sem sjái um sorphirðu fyrir sveitarfélagið, útvegaði stórt sorpílát og tæki að sér losun þess eftir pöntunum. ÍGF hafi verið greitt fyrir leigu á sorpíláti og losun á sorpi síðan í mars árið 2018. Í maí 2020 hafi kæranda þótt kostnaður við sorphirðu orðinn óvenju hár og við nánari skoðun hefði komið í ljós að sveitarfélagið hefði innheimt gjöld fyrir sorphirðuþjónustu allt frá því að óskað hefði verið eftir því við sveitarfélagið að þjónustu við Garðarsbraut 12 yrði hætt, sem það hefði og gert.

Hinn 13. maí 2020 hefði kærandi sent sveitarfélaginu formlegt bréf þar sem þess hefði verið óskað að sorphirðugjöld fyrir fasteignir með fastanúmerin 215-2556, 228-6800 og 228-6801 yrðu endurgreidd yfir tiltekið tímabil og þau felld niður í kjölfarið þar sem kostnaður sveitarfélagsins vegna þjónustu við sorphirðu vegna húsnæðisins væri enginn. Hefði beiðnin verið tekin fyrir á fundi byggðarráðs Norðurþings hinn 11. júní 2020 og henni hafnað.

Í 1. gr. gjaldskrár Norðurþings um meðhöndlun og förgun sorps árið 2020 sé tilgreind upphæð árlegs þjónustugjalds vegna meðhöndlunar og förgunar úrgangs í Norðurþingi til þess að standa undir kostnaði við sorphirðu. Í 3. gr. gjaldskrárinnar segi að gjöld fyrir meðhöndlun og urðun úrgangs skuli innheimt með fasteignagjöldum. Í 8. gr. samþykktar nr. 646/2017 um meðhöndlun úrgangs í Norðurþingi frá 3. júlí 2017 komi fram að sveitarstjórn sé heimilt að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar að setja gjaldskrá og innheimta sorphirðugjöld til að standa straum af öllum kostnaði við sorphirðu. Þar komi einnig fram að gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemi rekstrarkostnaði fyrir veitta þjónustu. Jafnframt segi í ákvæðinu að gjöld miðist við stærð og fjölda íláta, magn úrgangs og tíðni sorphirðu.

Í máli þessu sé tekist á um hvort þjónustugjöldum við sorphirðu samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins sé beitt eins og um fasteignaskatt sé að ræða. Sorphirðugjöld vegna Garðarsbrautar séu sannanlega hærri en sem nemi rekstrarkostnaði sveitarfélagsins við þjónustuna, auk þess sem gjöldin séu augljóslega ekki miðuð við stærð, fjölda, magn úrgangs eða tíðni sorphirðu vegna eignarinnar. Engu máli skipti hvort húsnæðið sé skráð sem íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði þar sem kostnaður við þjónustuna hafi ekki lent á sveitarfélaginu. Sorphirðugjöldin séu ekki ætluð til annars en að standa undir rekstrarkostnaði við sorphirðu.

Verði að gera ríka kröfu á ríki og sveitarfélög um að þau sinni upplýsingagjöf og leiðbeiningaskyldu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en sveitarfélaginu hefði verið í lófa lagið að benda á að sorphirðugjöld yrðu eftir sem áður innheimt vegna fasteignanna óháð því hvort kærandi þæði þjónustu af hálfu sveitarfélagsins eða ekki. Sveitarfélaginu beri að tryggja jafnræði á milli eigenda fasteigna og að einstaka aðilar greiði ekki hærri gjöld en sanngjarnt sé hverju sinni. Því beri að líta til meðalhófs við ákvarðanir sínar, taka mið af reglum varðandi sorphirðu og innheimta ekki þjónustugjöld fyrir þjónustu sem hafi ekki verið veitt í tvö og hálft ár.

Sveitarfélaginu sé ekki stætt á því að leggja gjöld á fyrirtækið vegna þjónustu við sorphirðu fasteigna þess fyrir tímabilið 1. mars 2018 og út árið 2020 þar sem engin þjónusta hafi þá verið veitt og enginn kostnaður fallið á sveitarfélagið. Greitt hafi verið samviskusamlega fyrir losun á því sorpi sem fallið hafi til á tímabilinu. Ekki sé verið að reyna að komast hjá því að greiða fyrir losun og urðun á því sorpi sem til falli. Umrætt húsnæði sé skráð sem íbúðarhúsnæði en ekki atvinnuhúsnæði. Öllum tilmælum sveitarfélagsins í þá veru að fyrirtækið breyti skráningu húsnæðisins í atvinnuhúsnæði, til þess eins að bæta sveitarfélaginu upp tekjumissi í gegnum þjónustugjöld við sorphirðu, sé alfarið hafnað.

Málsrök Norðurþings: Sveitarfélagið bendir á að skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um ákvörðun. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs skuli sveitarstjórnir ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélagi. Hafi sveitarfélagið á því tímabili sem hér um ræði byggt á samþykkt sinni nr. 646/2017 um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu frá 3. júlí 2017, sem sæki lagastoð í framangreint ákvæði laga nr. 55/2003 og lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Árlega hafi sveitarfélagið samþykkt gjaldskrá vegna meðhöndlunar og förgunar úrgangs í sveitarfélaginu. Gjaldskrá fyrir árið 2018 hafi verið samþykkt af sveitarstjórn 29. nóvember 2017, gjaldskrá fyrir árið 2019 hafi verið samþykkt 13. desember 2018 og gjaldskrá fyrir árið 2020 hinn 4. desember 2019. Í öllum tilvikum hafi gjaldskrárnar tekið gildi 1. janúar viðkomandi ár. Krafa kæranda nái til áranna 2018, 2019 og 2020. Kærandi hafi keypt þær þrjár íbúðir sem um ræði með kaupsamningi, dags. 31. janúar 2018. Fyrir vikið hafi álagningarseðill ársins 2018 verið sendur á fyrri eiganda en aðrir innheimtuseðlar á kæranda. Samkvæmt kaupsamningi skyldi gefa út afsal 15. febrúar 2018 og verði að leggja til grundvallar að eigi síðar en þá hafi kæranda verið kynntur álagningarseðill vegna fasteignagjalda. Afsali hafi ekki enn verið þinglýst. Kæranda hafi verið sendir álagningarseðlar vegna 2019 hinn 7. febrúar það ár og vegna 2020 hinn 10. febrúar það ár. Kærandi hafi hingað til greitt umrædda álagningu fasteignagjalda athugasemdalaust, eða allt þar til 14. maí 2020.

Kærandi geti ekki búið til nýjan kærufrest með því að krefjast endurgreiðslu á þegar greiddum sorphirðugjöldum. Kærufresturinn byrji að líða þegar gjöldin séu lögð á. Sé það í síðasta lagi þegar álagningarseðill vegna gjaldanna sé sendur til viðkomandi gjaldanda. Samkvæmt 2. mgr. 4. laga nr. 130/2011 hafi kærufrestur vegna sorphirðugjalda runnið út 10. mars 2018 vegna gjalda það ár, 9. mars 2019 vegna gjalda það ár og 11. mars 2020 vegna gjalda það ár. Kærufrestur hafi því verið löngu liðinn þegar kæra hafi verið lögð fram 10. júlí 2020.

Í kæru komi kröfugerð ekki skýrt fram. Orðalagið í kæru verði ekki skilið öðruvísi en svo að það sé álagningin sem verið sé að kæra, en ekki synjun á endurgreiðslu. Þannig segi í upphafsorðum niðurstöðukafla kærunnar: „Norðurþingi er ekki stætt að leggja gjöld á Bjarkarkot ehf. vegna þjónustu við sorphirðu fasteigna fyrirtækisins …“ Sé litið svo á að kröfugerðin lúti að ákvörðun sveitarfélagsins um að hafna endurgreiðslu, þá blasi við að yrði sú ákvörðun felld úr gildi þá breytti það engu um réttarástandið, álagningin stæði eftir sem áður. Kærandi hafi þannig ekki lögvarða hagsmuni af slíkri niðurstöðu sem væri í reynd ekkert annað en lögfræðileg álitsgerð.

Við ákvörðun gjaldskrár vegna þjónustugjalda sé sveitarfélögum veitt ákveðið svigrúm til að haga gjaldtökunni með almennum hætti og þurfi þau ekki að sýna fram á að gjaldið samsvari kostnaði gagnvart hverjum einstökum viðtakanda þjónustunnar. Sérstaklega komi fram í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 að sveitarfélagi sé heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Norðurþing hafi, eins og önnur sveitarfélög, valið þessa leið við gjaldtöku og ákvarðað samræmt gjald vegna meðhöndlunar úrgangs á allar íbúðir í sveitarfélaginu. Ekki sé hægt að útiloka að eigendur einstakra íbúða geti rökstutt að kostnaður við þjónustuna gagnvart þeim sé lægri en þau gjöld sem greidd séu. Nægilegt sé að sveitarfélagið sýni fram á almenna, gagnsæja og sanngjarna álagningu gjalda og að gjaldtöku sé ekki þannig hagað að hagnaður sé af starfseminni að jafnaði.

 

Eftirfarandi sé samantekt úr bókhaldi sveitarfélagsins vegna sorphirðu þess árin 2015 til 2019:

Ár                   Tekjur*                       Gjöld              Niðurstaða

2015                59.621.844                  84.431.826      24.809.982

2016                59.958.717                  70.178.809      10.220.092

2017                62.178.687                  56.092.237      -6.086.450

2018                57.217.959                  61.694.150        4.476.191

2019                58.187.505                  70.906.279      12.718.774

Nettó             297.164.712                343.303.301     46.138.589

*Sorphirðugjald og sorpeyðingargjald

 

Árið 2017 hafi tekjur orðið aðeins hærri en bein útgjöld vegna sorphirðu sveitarfélagsins. Þótt sveitarfélagið telji að það hefði getað rökstutt óbreytta gjaldtöku hafi verið ákveðið að lækka gjöldin árið 2018 vegna þessa, þannig að bein útgjöld við starfsemina væru meiri en allar tekjur vegna hennar. Áætlun 2020 geri ráð fyrir tapi af starfseminni.

Sveitarfélagið hafi beinlínis lögbundna heimild til að ákveða fast gjald á hverja fasteignar-einingu miðað við þjónustustig. Skráning eigna kæranda sem íbúða skilgreini þjónustustig og skyldur sveitarfélagsins í þessum efnum. Kæranda hafi verið veitt sama þjónusta og sama þjónustustig og öðrum íbúðareigendum. Ekki sé hægt að bera ábyrgð á því hvort aðrir en þeir sem dvelji í íbúð noti sorpílát sem tilheyri þeirri íbúð og hver séu viðbrögð íbúðareigenda við slíku. Tíðari tæmingar eða notkun annarra íláta séu á ábyrgð hvers fasteignareigenda. Íbúðareigandi virðist ekki hafa snúið sér til sveitarfélagsins árið 2018 heldur samið beint við þjónustuaðila sveitarfélagsins um aðra tilhögun. Ekki fáist séð að kostnaðurinn hafi tekið nokkrum breytingum við þessa aðgerð kæranda.

Áréttað sé að það standist ekki viðurkennd lagasjónarmið að ætla sveitarfélagi að reikna út kostnað við hverja staka íbúð fyrir sig, heldur sé nægilegt að deila allri gjaldtöku á eignir með sama þjónustustig með gagnsæjum og sanngjörnum hætti. Það sé gert og þrátt fyrir það nægi heildartekjur ekki til að standa straum af öllum kostnaði við að veita þjónustuna. Sé gjaldtakan þannig á allan hátt innan ramma þeirra reglna sem gildi um þjónustugjöld.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar að sveitarfélagið hafi um árabil ekki þurft að þjónusta Garðarsbraut 12 vegna losunar sorps, en hafi engu að síður innheimt gjöld af kæranda fyrir þjónustuna. Ljóst sé að Norðurþing innheimti gjald sem eigi ekki rétt á sér og sé bent á að í lögum nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda segi í 8. gr. um endurgreiðslu oftekins fjár að stjórnvöldum beri að hafa frumkvæði að endurgreiðslu þegar þeim verði ljóst að ofgreitt hafi verið.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um álagningu sorphirðugjalda á kæranda vegna eigna hans að Garðarsbraut 12 fyrir árin 2018, 2019 og 2020 og synjun á kröfu hans um endurgreiðslu þeirra gjalda. Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Þó skal kæru ekki sinnt skv. 2. mgr. nefndrar 28. gr. ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Hin kærðu gjöld voru lögð á með álagningarseðlum, dags. 7. febrúar 2018, 7. febrúar 2019 og 10. febrúar 2020. Leitaði kærandi til sveitarfélagsins með ósk um endurgreiðslu 13. maí 2020 og 15. júlí s.á. barst úrskurðarnefndinni kæra máls þessa með bréfi, dags. 10. s.m., sem póstlagt var þann dag. Meira en ár var þá liðið frá því að álagning vegna sorphirðu árið 2019 var tilkynnt kæranda með álagningarseðlum og einnig frá því að hún var tilkynnt fyrri eiganda með sama hætti vegna sorphirðu 2018. Kærandi eignaðist fasteignir þær sem um ræðir með kaupsamningi, dags. 31. janúar 2018, og var afsal gefið út honum til handa 15. febrúar s.á., en þá fer almennt fram uppgjör gjalda milli aðila. Var einnig liðið meira en ár frá því tímamarki þegar kæran var móttekin. Í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, verður kæru kæranda vegna álagningar þessara ára því ekki sinnt og þeim kröfum hans vísað frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Verður við úrlausn þessa atriðis að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Við meðferð máls þessa hefur sveitarfélagið upplýst að það hafi fellt niður sorphirðugjöld vegna ársins 2020, en það hafi ekki fordæmisgildi gagnvart álagningu fyrri eða síðari ára. Hefur úrskurðarnefndin undir höndum álagningarseðla, dags. 2. október 2020, þar sem fram kemur að álagning sorphirðugjalds á kæranda vegna fasteigna hans hafi verið felld niður. Eftir niðurfellingu gjaldanna hefur álagning ársins 2020 ekki lengur réttarverkan að lögum. Á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn um lögmæti gjaldtöku þess árs. Verður kröfum kæranda hvað það ár varðar því einnig vísað frá úrskurðarnefndinni.

Svo sem áður greinir óskaði kærandi eftir endurskoðun álagningar sorphirðugjalda með bréfi, dags. 13. maí 2020, en því erindi var synjað af byggðarráði 11. júní s.á. Synjun um endurupptöku máls bindur á það enda að nýju og er því stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Kæra til nefndarinnar var póstlögð 10. júlí s.á og hún því nægilega snemma framkomin hvað varðar ákvörðun um synjun á endurgreiðslu sorphirðugjalda vegna áranna 2018 og 2019, sem ekki hafa verið felld niður, og verður sá hluti málsins því tekinn til efnismeðferðar.

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný að vissum skilyrðum uppfylltum. Þannig kemur fram í 1. tl. 1. mgr. 24. gr. að aðili máls eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný hafi ákvörðun byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Í 2. tl. nefndrar málsgreinar er svo kveðið á um að aðili eigi rétt á endurupptöku máls hafi íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Þó er mælt fyrir um það í 2. mgr. 24. gr. laganna að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tl. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tl. 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Þá verður, samkvæmt nefndu ákvæði, mál ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Ljóst er að þegar beiðni kæranda um endurupptöku barst Norðurþingi voru allir þeir tímafrestir er tilgreindir eru í 24. gr. stjórnsýslulaga löngu liðnir. Í athugasemdum við 2. mgr. 24. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur fram að skilyrði hennar séu sett m.a. til að viðhalda hæfilegri festu í stjórnsýsluframkvæmd. Er og tekið fram að telji aðili þörf á endurupptöku máls beri honum að bera fram beiðni þar að lútandi án ástæðulauss dráttar.

Við mat á því hvort endurupptaka eigi mál ber að líta til eðlis þess hverju sinni og málsatvika allra, sem og þeirra sjónarmiða sem leiða má af skilyrðum ákvæðanna um tímafresti. Eiga fyrrgreind sjónarmið einnig við um rétt til endurupptöku máls sem leiða má af ólögfestum reglum stjórnsýsluréttarins þótt þær reglur kunni að vera rýmri en gert er ráð fyrir í ákvæðum stjórnsýslulaga. Þau rök voru færð fyrir synjun sveitarfélagsins á beiðni kæranda um endurskoðun að það „sjái sér ekki fært“ að verða við óskum um niðurfellingu sorphirðugjalda án þess að rakið væri af hvaða orsökum það væri. Í tilkynningu til kæranda var þó tekið fram að um álagningu á alla íbúðareigendur væri að ræða en álögð gjöld myndu breytast yrði eign skráð sem atvinnuhúsnæði, en til þess þyrfti að koma fram beiðni íbúðareiganda. Af nefndum gögnum verður hins vegar hvorki ráðið að afstaða hafi verið tekin til þess hvort álagningin hefði t.d. byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, né að fram hafi farið mat á því hvort veigamiklar ástæður mæltu með því að endurskoða álagninguna, sbr. 2. mgr. sama lagaákvæðis. Í þessu sambandi skal tekið fram að undir meðferð kærumáls þessa leitaði úrskurðarnefndin upplýsinga hjá sveitarfélaginu um númer og birtingu gjaldskráa þeirra sem nefnd álagning byggðist á, en skv. 4. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs skal láta birta í B-deild Stjórnartíðinda gjaldskrár vegna gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs, s.s. sorphirðu. Fengust þau svör að ekki yrði séð að gjaldskrár þær sem um ræðir hefðu fengið númer en vísað til þess að þær hefðu verið birtar opinberlega á vef Norðurþings. Þrátt fyrir eftirgrennslan úrskurðarnefndarinnar verður ekki séð að umræddar gjaldskrár hafi verið birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Með hliðsjón af framangreindu var því fullt tilefni til þess fyrir sveitarfélagið að leggja sérstakt mat á og taka afstöðu til þess hvort vafi um lögmæti álagningar hinna umdeildu gjalda ætti að leiða til endurskoðunar álagningarinnar, þrátt fyrir þann tíma sem liðinn væri frá henni. Er því óhjákvæmilegt að fella úr gildi synjun byggðarráðs á beiðni kæranda um endurskoðun og endurgreiðslu álagðra gjalda vegna áranna 2018 og 2019. Hins vegar verður öðrum kröfum kæranda vísað frá úrskurðarnefndinni, eins og áður er komið fram.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggðarráðs Norðurþings frá 11. júní 2020 um að synja um endurskoðun og endurgreiðslu álagningar sorphirðugjalda vegna áranna 2018 og 2019 á kæranda vegna Garðarsbrautar 12, Húsavík.

Öðrum kröfum kæranda er vísað frá úrskurðarnefndinni.

88/2020 Ásvallagata

Með

Árið 2021, föstudaginn 8. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 88/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2020 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á þaksvölum hússins að Ásvallagötu 21.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2020, er barst nefndinni 30 s.m., kæra eigendur, Ásvallagötu 23, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2020 að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á þaksvölum hússins að Ásvallagötu 21. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt eru gerðar kröfur um að framkvæmdin uppfylli öll lög og reglugerðir, að haft verði nákvæmara eftirlit, að gengið verði frá húsi kærenda eins og það hafi upphaflega verið, að skoðað verði hvort byggingarstjóri hafi tilheyrandi starfsleyfi og tryggingar og að kærendur séu upplýstir ef breytingar verði á fyrirhuguðum verklokum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. október 2020.

Málavextir: Hinn 7. nóvember 2006 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um byggingarleyfi sem fólst m.a. í því að gera þaksvalir og aðkomurými úr gleri á húsinu nr. 21 við Ásvallagötu, en byggingarleyfið var síðan endurnýjað á árinu 2009. Gerð var breyting á leyfinu árið 2010 sem fólst m.a. í því að breyta þakgerð á þaksvölum úr glerþaki í bárujárnsþak. Þá var aftur gerð breyting á leyfinu árið 2017 sem fólst m.a. í því að samþykkja reyndarteikningar af þaksvölum vegna lokaúttektar. Leyfishafar festu kaup á fasteigninni að Ásvallagötu 21 í júní 2018, en frágangi vegna framkvæmda á þaksvölum mun þá ekki hafa verið lokið.

Með bréfi, dags. 19. maí 2020, sendu kærendur minnisblað til byggingarfulltrúa vegna framkvæmdanna þar sem þeir lýstu áhyggjum sínum vegna þeirra. Kom þar m.a. fram að íbúar í húsi kærenda hafi orðið varir við leka í íbúðum sínum sem þeir telji að megi rekja til framkvæmdanna. Gerðu kærendur ýmsar kröfur í minnisblaðinu, þ. á m. að ef fyrirhugað væri að leyfa breytingar á verklokum yrðu þeir upplýstir um það. Hinn 1. júlí 2020 sóttu leyfishafar um byggingarleyfi fyrir breytingum á þaksvölum hússins og kom þar fram að einungis væri um útfærslubreytingar að ræða. Breytingar hafi verið gerðar á hliðarveggjum aðliggjandi húsa en séu alfarið innan lóðarmarka Ásvallagötu 21. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. s.m. var bókað að sótt væri um leyfi til að breyta áður samþykktu byggingarleyfi vegna lokaúttektar sem fælist í því að gaflar yrðu klæddir á húsinu. Var umsóknin samþykkt.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir hafi fyrst fengið fregnir af samþykki um­deilds byggingarleyfis þegar þeir hafi haft samband við byggingarfulltrúa 10. september 2020. Því sé kæran lögð fram innan kærufrests.

Samþykki umsóknarinnar hafi komið kærendum á óvart þegar tekið sé tillit til þess að þeir hafi sent minnisblað til byggingarfulltrúa 19. maí 2020 þar sem skilmerkilega hafi verið gerð grein fyrir fjölmörgum göllum við framkvæmd þaksvalanna. Í umsókninni komi fram að ekki sé um stækkun að ræða heldur einungis útfærslubreytingu. Hið rétta sé að svalirnar hafi breikkað um 180 cm, 90 cm hvoru megin, frá þeim áformum sem hafi verið grenndarkynnt og þau samþykkt. Í umsókninni segi einnig að allar breytingar séu innan lóðarmarka Ásvallagötu 21, en hið rétta sé að til standi að klæða gaflinn á Ásvallagötu 23. Svalagólfið muni ná upp að húsgafli húss kærenda og svalirnar séu 4-5 m2 stærri en á fyrri teikningum. Að kærendum óspurðum hafi verið byggt ofan á þak þeirra og göt boruð í vegg og bárujárn, sem gæti hafa valdið leka og geti valdið leka í framtíðinni.

Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli bera breytingar sem þessar undir nágranna sem eigi hagsmuna að gæta áður en samþykki sé veitt. Hagsmunir kærenda séu miklir en vatnstjón hafi nú þegar orðið í þremur íbúðum vegna leka frá svölum. Teikningarnar, sem sýni að gólf svalanna endi upp við gafl, hafi aldrei verið bornar undir kærendur. Fjölmargir sérfræðingar séu sammála um að svalagólf sem endi við samskeyti húsa feli í sér aukna hættu á vatnsleka, en á þeim teikningum sem kynntar hafi verið fyrir kærendum og þeir samþykkt hafi 90 cm þakkantur verið á húsi Ásvallagötu 21, á milli svalanna og gaflsins á húsi kærenda. Þegar áður samþykktar teikningar séu bornar saman við þær teikningar sem nú hafi verið samþykktar sjáist greinilega að um umtalsverða stækkun sé að ræða. Þá sé eldvörnum ábótavant þar sem þak hafi verið hækkað með forsköluðum timburvegg á milli húsanna, en einnig sé forskalaður timbur­­­veggur, þ.e. timbur með vírneti og steypu, yfir steyptum eldvarnarvegg milli húsanna.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð krafa um frávísun málsins þar sem kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi verið liðinn þegar kæra barst nefndinni. Ljóst megi vera að kærendum hafi verið kunnugt um framkvæmdina allt frá því fyrst hafi verið leitað leyfis þeirra vegna fram­kvæmdarinnar. Hafi kærendur verið meðvitaður um framkvæmdirnar, sbr. nýlegt erindi þeirra til byggingarfulltrúa.

Árið 2010 hafi þaki yfir svölum samkvæmt byggingarlýsingu verið breytt úr glerþaki í hefðbundið bárujárnsþak. Sótt hafi verið um samþykki fyrir reyndarteikningum af þaksvölum vegna lokaúttektar sem varði útfærslu þaksvala á árinu 2017. Með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið sótt um samþykki fyrir nýrri útfærslu á þaki svalanna þar sem byggt sé glerhýsi ofan á þær. Samkvæmt uppdráttum sem fylgt hafi byggingarleyfisumsókn sé breytingin innan þeirra stærðarmarka sem samþykktar hafi verið árið 2017 og því sé ekki um að ræða stækkun. Kærð stækkun hafi í raun átt sér stað fyrr eða á árinu 2017.

Fram komi í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að byggingarfulltrúi skuli leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á því hvort framkvæmd samræmist skipulagsáætlun sveitarfélagsins. Í 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé fjallað um grenndarkynningu byggingarleyfis. Fram komi að sé framkvæmd í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn ákveðið að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar. Skilyrði fyrir slíkri málsmeðferð sé að framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Ekkert deiliskipulag sé í gildi á umræddu svæði og því gildi nefnd 44. gr. skipulagslaga. Byggingarfulltrúi hafi metið það svo að ekki væri þörf á aðkomu skipulags­fulltrúa.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er gerð krafa um frávísun málsins þar sem kærendur hafi sent kæruna að liðnum kærufresti, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæra hafi verið send 76 dögum eftir að hin kærða ákvörðun hafi verið birt á vefsvæði Reykjavíkurborgar og því sé kærufrestur liðinn. Kærendur hafi fylgst grannt með hinum umdeildu framkvæmdum og verið í tíðum samskiptum við starfsmenn byggingarfulltrúa vegna þeirra. Fyrir liggi tölvupóstur frá starfsmanni byggingarfulltrúa 9. september 2020 til annars leyfishafa þar sem fram komi að einn eigenda Ásvallagötu 23 óski eftir upplýsingum um stöðu byggingarleyfis. Það sé því ljóst að kærendur hafi verið upplýstir um hina kærða ákvörðun þann dag og hafi raunar verið  upplýstir um hana allt frá þeim tíma sem hún hafi verið birt. Þá komi fram í byggingarsögu að aðilar á vegum kærenda hafi óskað 22. júlí 2020 eftir afriti allra gagna sem varði framkvæmdina.

Málsmeðferð byggingarleyfisins hafi á allan hátt verið lögmæt. Hin kærða ákvörðun feli í sér óverulega breytingu á áður útgefnu byggingarleyfi sem snerti hagsmuni kærenda ekki á nokkurn hátt, enda séu þær allar innan lóðarmarka og hafi engin nábýlisréttarleg áhrif á kærendur. Skerði breytingin í engu hagsmuni nágranna hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp, innsýn eða aðra hagsmuni. Rúmist sú breyting að öllu leyti innan ákvæða laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í þessu samhengi sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að í hinni kærðu ákvörðun felist samþykki fyrir stækkun svalanna um 180 cm. Hið rétta sé að stærð svala sé óbreytt, fari hvorki yfir lóðarmörk né byggingarreit hússins og sé í samræmi við áður útgefið byggingarleyfi. Eina breytingin felist í smávægilegum frágangi sem engum sé sýnileg öðrum en leyfishöfum. Bent sé á að ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem kærendur vísi til, eigi við um málsmeðferð við breytingu á deiliskipulagi, en um það sé ekki að ræða í máli þessu.

Þá sé bent á að breytingin ein og sér væri í öllu falli ekki byggingarleyfisskyld á grundvelli gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, enda væri þá um að ræða endurnýjun þakkants og veggklæðningar þar sem sambærilegt efni og frágangur væri notaður og samþykkt hafi verið í upphaflegu byggingarleyfi auk þess sem útliti byggingarinnar væri svo til ekkert breytt. Slíkar framkvæmdir einar og sér væru einfaldlega ekki byggingarleyfisskyldar. Kærumálið muni ekki leysa úr ágreiningi um hvort rekja megi leka til frágangs á þaki sem leyfishafar leitist nú við að lagfæra. Sú deila hafi ekkert með forsendur byggingarleyfisins að gera. Kærendur vilji að framkvæmdirnar séu gerðar á þeirra forsendum og í samráði við þá. Það hafi ekkert með lögmæti byggingarleyfisins að gera heldur varði það hvort rekja megi rakatjón til þeirra framkvæmda sem þegar hafi átt sér stað. Hvað sem öðru líði sé bent á að ákvæði um grenndarkynningu byggingarleyfisskyldra framkvæmda sé einfaldlega ekki ætlað að vernda hagsmuni af þessum toga og væri það í andstöðu við markmið laga að fallast á sjónarmið kærenda. Vettvangurinn fyrir úrlausn deilu milli leyfishafa og kærenda sé ekki þetta kærumál.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Fundargerð byggingarfulltrúa, sem m.a. hafði að geyma hina kærðu ákvörðun, mun hafa verið birt á heimasíðu borgarinnar í kjölfar afgreiðslufundar hans 14. júlí 2020. Sá birtingarmáti telst ekki til opinberrar birtingar í skilningi 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Getur birting fundargerðar byggingarfulltrúa því ekki markað upphaf kærufrests í máli þessu, enda er ekki fyrir hendi sérstök lagaheimild um að slík birting teljist vera opinber birting. Ekkert liggur fyrir um að kærendum hafi mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun meira en mánuði áður en kæra barst úrskurðarnefndinni 30. september 2020. Verður því við það að miða að kæran hafi borist innan lögmælts kærufrests. Hið kærða byggingarleyfi snertir framkvæmdir á þakfleti hússins að Ásvallagötu 21, sem er sambyggt húsi kærenda, og er ekki útilokað að ákvörðunin geti haft áhrif á lögvarða hagsmuni þeirra eins og atvikum er háttað. Verða þeir því taldir eiga kæruaðild í máli þessu, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 er það hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því einvörðungu tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingu á þaksvölum hússins að Ásvallagötu 21, en upphaflegt byggingarleyfi til að gera þaksvalir og aðkomurými er frá árinu 2009. Ágreiningur í málinu lýtur m.a. að því hvort byggingarleyfið feli einungis í sér útfærslubreytingu vegna frágangs, líkt og kemur fram í byggingarleyfinu, eða hvort um stækkun á umræddum svölum sé að ræða, eins og kærendur halda fram.

Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulagi liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að grenndarkynning felist í því að skipulags­nefnd kynni leyfisumsóknina nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests. Þó er skipulagsnefnd heimilt skv. 3. mgr. ákvæðisins að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjenda.

Líkt og rakið var í málavöxtum var með umsókn hins kærða byggingarleyfis sótt um leyfi vegna breytinga sem gerðar höfðu verið á hliðarveggjum aðliggjandi húsa. Á samþykktum uppdráttum hins kærða byggingarleyfis kemur fram að um sé að ræða útfærslubreytingar sem gerðar hafi verið eftir að reyndarteikningar hússins voru samþykktar árið 2017. Hins vegar verður af samanburði teikninga sem samþykktar voru árið 2017 og samþykktra teikninga vegna umþrætts byggingarleyfis ráðið að svalirnar hafa breikkað og ná nú að gafli húss kærenda að Ásvallagötu 23 auk þess sem svalahandrið hefur færst utar. Er því ljóst að ekki er einungis um útfærslubreytingu að ræða, svo sem kemur fram bæði í umsókn um byggingarleyfi og á samþykktum uppdráttum. Hin kærða ákvörðun heimilar stækkun svalanna auk þess sem þær ná að gafli húss kærenda. Bar því samkvæmt fyrrnefndri 44. gr. skipulagslaga að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina áður en byggingarfulltrúi tók afstöðu til hennar.

Að öllu framangreindu virtu verður hið kærða byggingarleyfi fellt úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2020 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á þaksvölum hússins að Ásvallagötu 21.

133/2020 Skaftafell Hveragerði

Með

Árið 2021, föstudaginn 8. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 133/2020, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðis frá 10. desember 2020 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir niðurrifi hússins Skaftafells, Heiðmörk 23, og byggingu nýs húss á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Borgarhrauni 34, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðis að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir niðurrifi hússins Skaftafells, Heiðmörk 23, og byggingu nýs húss á lóðinni. Er þess krafist að hinni kærðu ákvörðun verði vísað til skipulags- og mannvirkjanefndar Hveragerðisbæjar og að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar kröfu um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hveragerðisbæ 21. desember 2020.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 2. október 2020, sótti eigandi hússins Skaftafells á lóðinni Heiðmörk 23 um byggingarleyfi fyrir niðurrifi hússins og byggingu nýs húss á lóðinni. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 6. s.m. var lagt til að tillagan yrði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi bæjarstjórnar 8. október s.á. var tillaga skipulags- og mannvirkjanefndar samþykkt. Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 1. desember s.á. og kom þar fram að engar athugasemdir hefðu borist á kynningartíma. Samþykkti meirihluti nefndarinnar að leggja til við bæjarstjórn að umsóknin yrði samþykkt og á fundi bæjarstjórnar 10. desember 2020 samþykkt meirihluti bæjarstjórnar niðurrif hússins og byggingu nýs húss á lóðinni Heiðmörk 23.

Kærandi tekur fram að hann sé bæjarfulltrúi og sitji í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar fyrir bæjarmálafélagið Okkar Hveragerði. Hann telji að meðferð meirihluta bæjarstjórnar á málinu samrýmist ekki góðum og vönduðum stjórnsýsluháttum og að málið hafi ekki verið kannað til hlítar áður en ákvörðun hafi verið tekin. Þá standi húsið sem heimilað sé að rífa innan reits sem njóti hverfisverndar samkvæmt Aðalskipulagi Hveragerðis 2017-2029. Tilgangur hverfis­verndarinnar sé að varðveita byggðamynstur og götumynd.

Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að fyrirhuguð bygging fari að óverulegu leyti út fyrir byggingarlínur núverandi húss nema á baklóð og mænishæð sé nokkurn vegin sú sama og núverandi húss. Falli nýja húsið vel að formi og hlutföllum núverandi byggðar í hverfinu og sé því í samræmi við skilmála aðalskipulags um hverfisvernd.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Þau rök sem kærandi tiltekur í kæru sinni, m.a. um verndun götumyndar og hverfisvernd, lúta að skipulagsmarkmiðum sem skipulagsyfirvöldum sveitarfélags er falið að móta samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Teljast skipulagshagsmunir vera almannahagsmunir sem veita einstaklingum ekki almenna kæruaðild að stjórnsýslurétti en skipulagsákvarðanir, svo sem um hverfisvernd, geta eftir atvikum snert lögvarða hagsmuni einstaklinga eða lögaðila með þeim hætti að þeim yrði játuð kæruaðild.

Við mat á því hvort kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun verður að líta til þess að hús hans stendur í u.þ.b. 700 m fjarlægð frá þeirri lóð sem fyrirhugað niðurrif og byggingaráform taka til og er íbúðarbyggð þar á milli. Verður því ekki séð að hin kærða ákvörðun sé til þess fallin að raska persónulegum lögvörðum hagsmunum kæranda, svo sem grenndarhagsmunum.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að kærandi hafi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun umfram aðra. Á kærandi af þeim sökum ekki kæruaðild í máli þessu í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kröfu kæranda í máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

131/2020 Fífuhvammur

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 6. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir.

Mál nr. 131/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 4. desember 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25.

Í málinu er nú kveðinn upp  til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Fífuhvamms 27, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 4. desember 2020 að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 7. október 2019, sótti eigandi Fífuhvamms 25 um byggingarleyfi til að reisa 8,1 m2 gróðurhús ofan á bílgeymslu lóðarinnar. Á fundi skipulagsráðs 4. nóvember s.á. var samþykkt með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að grenndarkynna umsóknina fyrir lóðarhöfum Fífuhvamms 23 og 27 og Víðihvamms 16, 18 og 20. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kærendum. Á fundi skipulagsráðs 6. janúar 2020 var afgreiðslu málsins frestað og vísað til umsagnar skipulags- og byggingardeildar. Hinn 6. apríl s.á. var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs. Var lögð var fram umsögn skipulags- og byggingardeildar frá 2. s.m. ásamt uppfærðum teikningum. Samþykkti skipulagsráð erindið og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi sínum 14. s.m. staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsráðs. Hinn 4. desember s.á. samþykkti byggingarfulltrúi umsókn leyfishafa.

Kærendur benda á að hin fyrirhugaða bygging sé á lóðamörkum lóðar kærenda og lóðar Fífuhvamms 25. Hún samrýmist ekki götumynd og auki skuggamyndun á lóð kærenda, einkum í garði, og takmarki þannig nýtingarmöguleika þeirra. Útgáfa byggingarleyfisins fari í bága við lögmæta hagsmuni kærenda og muni hin fyrirhugaða framkvæmd lækka verðmæti eignarinnar. Framkvæmdir séu nú þegar hafnar og því mikilvægt að ákvörðun verði tekin sem fyrst um að stöðva framkvæmdirnar.

Leyfishafi vísar til þess að umrætt gróðurhús sé í dag lokað með frágengnu þaki, gluggum og hurðum auk þess að vera vatnshelt og vindhelt. Þá sé búið að einangra þak og opna á milli inn í íbúðina. Bygging gróðurskálans sé nánast lokið og mannvirkið tilbúið til notkunar.

Af hálfu Kópavogsbæjar er bent á að gróðurhúsið hafi í för með sér óveruleg grenndaráhrif. Fordæmi sé að finna fyrir byggingu gróðurhúss á þaki bílskúrs í götunni. Meðferð málsins hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglur. Að því virtu telur sveitarfélagið að hafna eigi framkominni stöðvunarkröfu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar byggingu gróðurhúss á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25. Af fyrirliggjandi gögnum má að sjá bygging gróðurskálans er langt á veg komin og var það raunar skömmu eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni. Þegar litið er til nefndra atvika, framangreindra lagaákvæða og að um er að ræða afturkræfa framkvæmd verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Ber framkvæmdaaðili enda af þeim alla áhættu verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi. Verður kröfu kærenda því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi til bráðabirgða.