Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

52 og 87/2021 Bergstaðastræti

Árið 2021, þriðjudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur­.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. janúar 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breyttri notkun húss að Bergstaða­stræti 2 í veitingastað.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. apríl 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra 10 íbúar að Skólavörðustíg 5, Skólavörðustíg 3A og Laugavegi 8, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. janúar 2020 að samþykkja byggingarleyfi fyrir breyttri notkun Bergstaðastrætis 2 í veitingastað. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 15. júní 2021, sem barst úrskurðarnefndinni 16. s.m., kærir Hótel Óðinsvé hf. einnig fyrrgreinda ákvörðun byggingarfulltrúa með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verður síðara kærumálið, sem er nr. 87/2021, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. og 25. júní 2021.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. janúar 2020 var samþykkt umsókn um leyfi til að opna veitingastað í flokki II, tegund f, fyrir allt að 55 gesti og tvo starfsmenn, lækka kjallaragólf um 50 cm og setja stiga upp á 2. hæð við norðurgafl hússins að Bergstaðastræti 2.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að áform um breytta notkun hússins að Bergstaðastræti 2 hafi ekki verið kynnt nágrönnum og að kærendum hafi ekki verið kunnugt um málið fyrr en 21. mars 2021. Þá hafi einn kærenda fengið fregnir af málinu og samdægurs sent fyrirspurn til byggingar­fulltrúans í Reykjavík, en engin svör hefðu borist þegar kæra til úrskurðar­nefndarinnar hafi verið lögð fram. Kærendur byggja á því að í fyrirhugaðri krá muni verða spiluð tónlist fram á nætur auk þess sem drykkjuhljóð muni berast frá gestum. Afar stutt sé að svefnherbergis­gluggum í næstu íbúðum við Bergstaðastræti 2 og gerð hússins sé þess eðlis að ekki verði unnt að tryggja næturró íbúa í nærliggjandi húsum. Uppdrættir þeir sem samþykktir hafi verið 7. janúar 2020 sýni ekki nauðsynlegar hljóðvistarlegar breytingar. Reynsla kærenda af rekstri krár/ölstofu að Bergstaðastræti 3 sé sú að hávaði sé mikill og að gestir hafi gengið örna sinna hvar sem er, m.a. í bakgörðum húsanna í kring. Einn kærenda bendir á að hann leigi út fjórar íbúðir á efri hæðum Bergstaðastrætis 4, sem sé við hlið Bergstaðastrætis 2, og að staðsetning kráarinnar/ölstofunnar að Bergstaðastræti 2 sé beint fyrir neðan svefnherbergi íbúðanna í húsi nr. 4. Hafi nú þegar ítrekað orðið að endurgreiða leigu af þessum sökum og hafi leiguhúsnæðið fengið slæmar umsagnir á netinu vegna reksturs krár/ölstofu að Bergstaðastræti 3. Jarðhæð og kjallari Bergstaðastrætis 4 sé leigt út til verslunarreksturs og hafi starfsemin þar orðið fyrir ónæði vegna næturgesta Bergstaðastrætis 3. Svar frá lögfræðingi umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, þar sem fram komi að leyfið sem um ræði falli undir flokk II, sem sé umfangslítill áfengisveitingastaður og ekki til þess fallinn að valda ónæði í nágrenninu, sé ekki í samræmi við raunverulega upplifun nágranna Bergstaðastrætis 2 af slíkum rekstri.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að kröfu kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur sé liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Byggingarleyfið hafi verið samþykkt 7. janúar 2020 en kæran ekki lögð fram fyrr en 15. apríl 2021. Verði ekki fallist á kröfu um frávísun telja borgaryfirvöld að hafna eigi kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar með vísan til þess að deiliskipulag reitsins heimili þá starfsemi sem kæran lúti að og að starfsemin samræmis einnig aðalskipulagi. Málsmeðferð ákvörðunarinnar hafi verið í sam­ræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og stjórnsýslulaga. Bergstaðastræti 2 sé staðsett á miðborgarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og á svæðinu sé lögð sérstök áhersla á smávöruverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingar. Í gildi sé deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.3, Laugavegs- og Skólavörðustígsreits, sem tók gildi 10. desember 2002 ásamt síðari breytingum. Bergstaðastræti sé enn fremur á skilgreindu götusvæði nr. 22 og sé svæðið eitt af mörgum svæðum innan miðborgarinnar sem lúti starfsemiskvótum. Á skilgreindu götusvæði nr. 22 skuli hámarkshlutfall starfsemi, að smásöluverslun undan­skilinni, vera 50%. Við breytingu á notkun Bergstaðastrætis 2 verði hlutfall veitingastaða á svæðinu 46% og því innan heimilaðra marka eftir breytinguna. Í ljósi þess að heimiluð starfsemi samrýmist gildandi aðal- og deiliskipulagi hafi ekki verið þörf á grenndarkynningu.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Leyfishafi bendir á að kærufrestur sé liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og því beri úrskurðarnefndinni að vísa kærunni frá. Leyfishafi telur að ástæða kærunnar sé sú að kærendur séu mótfallnir opnun veitingastaðar að Bergstaðastræti 2 og að þeir hafi fyrir fram gefnar væntingar til þess að veitingastaðurinn muni valda íbúum ónæði. Veitingastaðurinn falli undir skilgreiningu í flokki II sem „umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og staðir sem kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu“, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007. Fyrirhugaðar framkvæmdir og opnun veitingastaðar í flokki II séu í fullu samræmi við deili­skipulag svæðisins, sem og aðalskipulag Reykjavíkur, og því hafi ekki verið þörf á grenndar­kynningu. Svæðið sem húsið að Bergstaðastræti 2 standi á sé skilgreint sem M1a, Miðborgarkjarni, þar sem lögð sé áhersla á smásöluverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingar. Bergstaðastræti 2 standi enn fremur á svæði sem teljist hafa rýmri veitinga­heimildir en almennt gildi á svæðinu samkvæmt korti sem flokki svæði í miðborginni eftir heimildum um vínveitingar. Bergstaðastræti sé á kortinu á rauðu svæði.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærandi byggir á að byggingarleyfishafi haldi því ranglega fram að Bergstaða­stræti 2 sé á svæði með rýmri heimildir til vínveitinga en almennt gildi á svæðinu. Húsið standi þvert á móti á svæði sem teljist hafa takmarkaðar heimildir, litað með grænum lit á korti, og hvers kyns starfsemi sem valdið geti ónæði hljóti því að vera óheimil eftir kl. 23:00. Afgreiðsla byggingarfulltrúa sé samkvæmt framangreindu byggð á röngum forsendum og hana beri því að fella úr gildi.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Hið kærða byggingarleyfi var samþykkt 7. janúar 2020 en kærur í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni 20. apríl og 16. júní 2021, eða rúmu ári eftir að ákvörðun byggingarfulltrúa um byggingarleyfi lá fyrir. Kærendur bera því við að þeim hafi ekki verið kunnugt um heimilaða breytta notkun húsnæðisins að Bergstaðastræti 2 fyrr en 21. mars 2021 annars vegar og svo 15. júní s.á. hins vegar.

Samþykkt eða útgáfa byggingarleyfis sætir ekki opinberri birtingu og er að jafnaði aðeins tilkynnt umsækjanda leyfis. Leiðir af því að ekki er unnt að miða kærufrest þriðja aðila sem kann að eiga hagsmuna að gæta við dagsetningu ákvörðunar byggingarfulltrúa. Borgaryfirvöld hafa ekki sýnt fram á að kærendur hafi vitað eða mátt vita af samþykkt hins kærða byggingarleyfis fyrir þann tíma sem þeir halda fram, en rekstur samkvæmt hinni breyttu notkun var ekki hafinn þegar kærur í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni. Verður upphaf kærufrests í máli þessu því miðað við þau tímamörk sem kærendur halda fram að þeim hafi orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Teljast kærur í máli þessu því hafa borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi þar sem heimilað var að breyta notkun hússins að Bergstaðastræti 2 í veitingastað í flokki II. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 eru veitingastaðir í flokki II skilgreindir sem „umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og staðir sem kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu“.

Umrætt hús er innan staðgreinireits 1.171.3, Laugarvegs- og Skólavörðustígsreits. Í skilmálum deiliskipulagsins segir að innan svæðisins sé heimil sú notkun sem samræmist reglum þar um samkvæmt aðalskipulagi. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem M1a, Miðborgarkjarni. Um það segir svo: „Í miðborgarkjarnanum má finna lykilstofnanir stjórnsýslu, menningar og mennta, líflegustu verslunargötur landsins, litríka flóru veitingastaða auk fjölbreyttrar sérfræðiþjónustu. Sérstök áhersla er á smásöluverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingu sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Á jarðhæðum eru verslunar-, veitinga- og menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en á efri hæðum skrifstofu- og íbúðarhúsnæði auk gistiþjónustu. Til þess að efla smásöluverslun staðbundið í miðborgarkjarnanum, stuðla að fjölbreyttri starfsemi og lifandi almenningsrýmum eru ákvæði um útlit og starfsemi við götuhliðar í miðborgarkjarna. Almennar veitingaheimildar miðsvæða gilda í miðborgarkjarna en á afmörkuðu svæði eru rýmri veitingaheimildir.“ Samkvæmt flokkun svæða í miðborginni eftir heimildum um vínveitingar er Bergstaðastræti 2 í flokki „rýmri heimilda“ og er því heimilt að reka þar veitingastað í flokki III með heimilaðan opnunartíma til allt að kl. 04:30 um helgar og á frídögum. Bergstaðastræti 2 stendur enn fremur á skilgreindu götusvæði nr. 22 þar sem hlutfall annarrar starfsemi en smávöruverslunar skal vera að hámarki 50%. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verður hlutfall veitingastaða á svæðinu 46% við umrædda breytingu á notkun Bergstaðastrætis 2. Fellur hin breytta notkun því innan starfsemiskvóta svæðisins. Er hið kærða byggingarleyfi samkvæmt framansögðu í samræmi við gildandi deiliskipulag, m.a. hvað land­notkun varðar, svo sem kveðið er á um í 1. mgr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og var borgaryfirvöldum ekki skylt að láta fara fram grenndarkynningu áður en byggingarfulltrúi samþykkti leyfisumsóknina.

Í málinu liggur ekki annað fyrir en að umrætt húsnæði uppfylli kröfur reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Komi síðar í ljós að hávaði vegna notkunar húss eða starfsemi sem þar fer fram sé óásættanlegur gagnvart nágrönnum ber eigandi eftir atvikum ábyrgð á að úr verði bætt svo hljóðstig sé innan lögboðinna marka. Umkvartanir kærenda um mögulegt ónæði og óþrif vegna reksturs umrædds veitingarstaðar lúta að eftirliti með starfseminni en varða ekki gildi hinnar kærðu ákvörðunar og koma þær því ekki til álita í málinu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. janúar 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breyttri notkun hússins að Bergstaðastræti 2 í veitingastað í flokki II.