Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

135/2021 Miðbær Akureyri

Árið 2021, miðvikudaginn 25. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 135/2021, kæra á ákvörðun Akureyrarbæjar frá 18. maí 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

 

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. ágúst 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur og íbúar að Hofsbót 4, Tryggingaréttur ehf., eigandi skrifstofuhúsnæðis að Hofsbót 4, S.Á.Á. fasteignir, eigandi skrifstofuhúsnæðis að Hofsbót 4,  eigandi íbúðar að Strandgötu 3, svo og eigandi íbúðar að Strandgötu 3, þá ákvörðun Akureyrarbæjar frá 18. maí 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Einnig er þess krafist að réttaráhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar verði frestað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 19. ágúst 2021.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsráðs Akureyrarbæjar 26. júní 2019 var lagt til að hefja vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar. Tillaga að breytingu nefnds skipulags var auglýst 10. mars 2021 skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., skipulagslaga nr. 123/2010 með fresti til að gera athugasemdir til 21. apríl s.á. Á fundi bæjarstjórnar 18. maí 2021 var tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar samþykkt og öðlaðist hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. júlí 2021. Samkvæmt auglýsingunni felur breytingin í sér þær breytingar helstar „að Glerárgata verður áfram 2 + 2 vegur í núverandi legu en með þrengingu og veglegri gönguþverun, afmarkað er pláss fyrir nýjan hjólastíg eftir Skipagötu, byggingarreitir eru aðlagaðir að breytingum á Glerárgötu og Skipagötu, heimiluð hæð hluta húsa hækkar og þakform breytist. Gert er ráð fyrir að hluti Skipagötu verði einstefna til suðurs og að það sama muni gilda um Hofsbót frá Skipagötu að Strandgötu.“

Kærendur krefjast stöðvunar réttaráhrifa skipulagsins þar til leyst hefur verið efnislega úr hinni kærðu ákvörðun. Reglur grenndar- og nábýlisréttar valdi því að umrædd deiliskipulagsbreyting sé ólögmæt og geri kærendur athugasemdir við þann fjölda íbúða og þéttingu byggðar sem fyrirhuguð sé, sem og fækkun bílastæða. Deiliskipulagsbreytingin muni hafa áhrif á alla íbúa Hofsbótar 4 og alla starfsemi í húsinu. Deiliskipulagsbreytingin sé enn fremur ekki í samræmi við stefnu aðalskipulags Akureyrar og sé því ólögmæt, sbr. 7. mgr. 12. gr. og 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga.

Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að engar lóðir innan þess svæðis sem deiliskipulagsbreytingin nái til hafi verið tilkynntar sem lausar með auglýsingu. Engar lóðir hafi því verið veittar á skipulagssvæðinu. Þar af leiðandi hafi hvorki verið veitt byggingarleyfi né leyfi fyrir framkvæmdum á því svæði sem hið breytta deiliskipulag taki til og séu engar framkvæmdir fyrirhugaðar í bráð á vegum sveitarfélagsins. Ekki sé uppfyllt skilyrði um að framkvæmdir séu hafnar eða yfirvofandi og því beri úrskurðarnefndinni að hafna stöðvunarkröfu kærenda. Bæjaryfirvöld taki enn fremur fram að breyting á deiliskipulagi miðbæjar sé í fullu samræmi við aðalskipulag og sé ekki haldið þeim annmörkum sem leiða ættu til ógildingar.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags eða breytingar á því felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Komi til þess að byggingaráform verði samþykkt á grundvelli hinnar kærðu skipulagsákvörðunar geta kærendur hins vegar komið að kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa, svo sem áður er rakið.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar er hafnað.