Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

126/2021 Fagribær

Árið 2021, þriðjudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 126/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja við húsið að Fagrabæ 13.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru, sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 26. júlí 2021, kæra eigendur, Glæsibæ 14, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2021 að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja við húsið að Fagrabæ 13. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 4. ágúst 2021.

Málavextir: Hinn 5. nóvember 2019 tók gildi nýtt hverfisskipulag í Reykjavík fyrir Ártúnsholt, Árbæ og Selás. Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda féllu eldri deiliskipulags­áætlanir á svæðinu niður við gildistökuna. Byggingarfulltrúi samþykkti hinn 8. júní 2021 um­sókn eigenda Fagrabæjar 13 um leyfi til að reisa steinsteypta viðbyggingu á austurgafli hússins sem fyrir er á lóðinni. Áður en til samþykktar byggingaráforma kom leitaði byggingar­fulltrúi umsagnar skipulagsfulltrúa sem gerði ekki skipulagslegar athugasemdir við erindið og taldi það samræmast gildandi hverfisskipulagi. Byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum var síðan gefið út hinn 2. júlí 2021.

­Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að efnisannmarkar hafi verið á hinni kærðu ákvörðun og því beri að fella hana úr gildi. Byggingarfulltrúi hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, viðbyggingin sé fyrir utan byggingarreit, samþykktar teikningar fylgi ekki leiðbeiningum hverfisskipulags Reykjavíkur og enn fremur séu þær rangar. Samkvæmt mælingum kærenda sé viðbyggingin um 2 m frá lóðamörkum og þakskyggni muni koma til með að standa 1,36 m frá lóðamörkunum. Samkvæmt 5. tl. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé ekki heimilt að setja upp stakstæða skúra nær lóðamörkum en 3 m nema að fengnu samþykki lóðarhafa þeirrar nágrannalóðar­ og gildi hið sama um hvers kyns viðbyggingar. Ljóst sé að hin kærða ákvörðun sé byggð á misvísandi og/eða röngum upplýsingum og fari í bága við ákvæði byggingar­reglugerðar þar sem byggingin standi of nærri lóðarmörkum Glæsibæjar 14 án samþykkis kærenda. Þegar af þeirri ástæðu beri að felli hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er ekki gerð athugasemd við máls­ástæður kærenda að öðru leyti en því að heimiluð viðbygging sé 2,5 m frá lóðamörkum, en ekki 2 m, líkt og kærendur haldi fram. Afstöðumynd hafi sýnt viðbygginguna 3 m frá lóða­mörkum og því hafi skipulagsfulltrúi ekki gert athugasemdir við byggingarleyfisumsóknina. Samkvæmt eldri gildandi teikningu að Fagrabæ 13 sé bílskúr málsettur 2,5 m frá lóðamörkum, sem sé villa, og viðbyggingin „því teiknuð í sömu línu og bílskúrinn“. Þó beri á það að líta að fjarlægð viðbyggingarinnar að húsi kærenda sé 17,17 m og ekki verði séð að núverandi staðsetning hennar hafi áhrif á hagsmuni kærenda umfram það sem búast hefði mátt við væri hún staðsett 50 cm fjær lóðamörkum. Eigi það frávik því ekki að leiða til ógildingar byggingar­leyfisins.

 Athugasemdir leyfishafa: Eigendur Fagrabæjar 13 vísa til þess að þau muni verða fyrir fjárhagslegu tjóni verði farið að kröfum kærenda og að munur á upphaflegum áætlunum og raun­verulegri framkvæmd teljist það lítill að hann eigi ekki að hafa áhrif á áframhaldandi framkvæmdir og frágang umþrættrar viðbyggingar. Kærendur hafi hvorki sýnt fram á að aukið skuggavarp muni hljótast af viðbyggingunni né fært fyrir því rök að slíkt skuggavarp hafi áhrif á athafnasvæði lóðar þeirra. Viðbyggingin sé vestan við hús kærenda, hafi því ekki áhrif á sólríkasta útisvæðið og skuggavarp verði ekki mikið meira en af núverandi girðingu á milli lóðanna, sem byggð hafi verið af núverandi eigendum lóðanna árið 2020. Mælingar á lóðinni vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar frá 27. júlí 2021 hafi byggst á upplýsingum frá land­upplýsingum Reykjavíkurborgar, LUKR. Þá eigi ákvæði 5. tl. g-liðar gr. 2.3.5 í byggingar­reglugerð ekki við þar sem ekki sé um að ræða framkvæmd sem undanþegin sé byggingar­leyfi. Þvert á móti sé hún háð umfjöllun og yfirferð byggingarfulltrúa á teikningum og öðrum gögnum sem kunni að skipta máli við leyfisveitinguna.

Niðurstaða: Í málinu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2021 að samþykkja umsókn eigenda Fagrabæjar 13 um leyfi til að reisa steinsteypta viðbyggingu á austurgafl hússinns á lóðinni, en baklóð nefndrar lóðar og lóðar kærenda eiga sameiginleg lóða­mörk.

Hverfisskipulag fyrir Árbæ tók gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 5. nóvember 2019. Samkvæmt skilmálum þess er svæðinu skipt upp í skilmálaeiningar. Lóðin Fagribær 13 er innan skilmálaeiningar 7.2.3, Bæjarhverfi, en þar er eingöngu íbúðarbyggð. Kemur og fram að á meðal helstu áherslna innan einingarinnar sé að stækka byggingarreiti á lóðum og gefa viðbótarbyggingarheimildir fyrir viðbyggingum. Ónýttar byggingarheimildir sem fram komi í þeim deiliskipulagsáætlunum sem falli úr gildi með gildistöku hverfis­skipulagsins haldi sér í skipulagsskilmálum hverfisskipulagsins. Allar byggingar á lóð skuli vera innan byggingarreita og er gert ráð fyrir tvenns konar byggingarreitum. Annars vegar takmörkuðum byggingarreitum, en allar lóðir í skilmálaeiningunni sem hér um ræðir eru með slíkan byggingarreit, og hins vegar aðalbyggingarreitum. Um takmarkaða byggingarreiti er m.a. nánar tilgreint að þeir séu rúmir og að ekki sé gert ráð fyrir því að þeir séu fullnýttir heldur sýni þeir mögulegt svæði fyrir minni viðbyggingar og stakstæðar byggingar. Af skipulagsuppdrætti hverfisskipulagsins má ráða að byggingarreitur umræddrar lóðar sé í 3 m fjarlægð frá lóðamörkum gagnvart lóð kærenda og að bílskúrinn nái að hluta út fyrir þann reit.

Misræmis gætir í aðaluppdráttum heimilaðrar viðbyggingar sem samþykktir voru 8. júní 2021.­ Á aðaluppdrætti með afstöðumynd, sem hefur að geyma byggingarlýsingu, er byggingar­reitur lóðarinnar sýndur 3 m frá mörkum lóðar kærenda og viðbyggingin að einhverju leyti fyrir utan byggingarreitinn, en bílskúr sá sem fyrir er á lóðinni sýndur innan byggingarreitsins. Á aðaluppdrætti sem sýnir grunnmynd og snið, og samþykktur var sama dag með áritun byggingarfulltrúa, er byggingarreiturinn hins vegar sýndur 2,5 m frá greindum lóðamörkum og viðbyggingin ásamt bílskúr þeim sem fyrir er á lóðinni sýnd á mörkum byggingarreitsins. Af framansögðu er ljóst að með hinni kærðu ákvörðun hefur verið samþykkt að veita eigendum Fagrabæjar 13 leyfi fyrir viðbyggingu í allt að 2,5 m fjarlægð frá mörkum lóðar kærenda.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Á grundvelli ákvæðisins tilkynnir leyfisveitandi umsækjanda um samþykki byggingaráforma, enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Skal útgefið byggingarleyfi vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna. Var hið kærða byggingarleyfi því ekki í samræmi við gildandi hverfisskipulag, svo sem áskilið er í fyrrgreindum ákvæðum mannvirkjalaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja við húsið að Fagrabæ 13.