Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

36 og 42/2021 Dalsbraut 32 til 36

Árið 2021, föstudaginn 20. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 3. mars 2020 um að breyta deiliskipulagi Dalshverfis, 2. áfanga, vegna lóðanna nr. 32, 34 og 36 við Dalsbraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. mars 2021, sem barst nefndinni 19. s.m., kæra 9 eigendur Lerkidals 52-60, Reykjanesbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 3. mars 2020 að breyta deiliskipulagi Dalshverfis, 2. áfanga, vegna lóðanna nr. 32, 34 og 36 við Dalsbraut.

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem móttekin var 6. apríl 2021, skutu sömu aðilar ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 30. mars 2020 um að samþykkja umsóknir um leyfi fyrir byggingu þriggja 15 íbúða fjölbýlishúsa á lóðum nr. 32, 34 og 36 við Dalsbraut til úrskurðarnefndarinnar. Verður greint kærumál, sem er nr. 42/2021, sameinað kærumáli þessu þar sem kæruefni þeirra eru samofin og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé að ógildingar hinna kærðu ákvarðana.  Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu leyfum yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 21. apríl 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 15. apríl 2021.

Málavextir: Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar 7. janúar 2020 var samþykkt að grenndar­kynna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi tillögu þess efnis að heimila stækkun mannvirkja sem næmi 106 m2 á hverri lóð og að íbúðum í hverju húsi yrði fjölgað úr 11 í 15. Breytingartillagan var grenndarkynnt 14. janúar 2020 með athugasemdafresti til 15. febrúar s.á. og var m.a. grenndarkynnt fyrir þáverandi þinglýstum fasteignareigendum Lerkidals 52-60 sem höfðu á þeim tíma selt fasteignirnar til kærenda. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. s.m. var erindið tekið fyrir að nýju og samþykkt með vísan til þess að engar athugasemdir hefðu borist. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 3. mars s.á. og tók deiliskipulags­breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl s.á.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. mars 2020 voru samþykkt byggingaráform fyrir þremur fjölbýlishúsum á lóðunum Dalsbraut 32, 34 og 36 í samræmi við samþykktar breytingar á deiliskipulagi svæðisins og voru byggingarleyfi gefin út 18. júní s.á.

Í desember 2020 var tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna bílastæða lóðanna Dalsbrautar 32-36 grenndarkynnt fyrir kærendum. Telja kærendur sig þá hafa orðið varir við að breyting hefði orðið á deiliskipulagi svæðisins vegna nefndra lóða. Í kjölfarið áttu nokkrir kærenda í samskiptum við bæði skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar vegna heimilaðra framkvæmda á nefndum lóðum. Hinn 15. mars 2021 upplýsti byggingar­fulltrúi kærendur um að starfsmenn embættisins hefðu skoðað byggingu á staðnum og að byggt væri í samræmi við aðaluppdrætti. Jafnframt var kærendum bent á að hægt væri að fylgja málinu eftir með kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að áður en þeir hafi fest kaup á fasteignum sínum hafi þeir kynnt sér skipulag svæðisins. Þegar tillaga að umþrættri deiliskipulagsbreytingu vegna Dalsbrautar 32-36 var grenndarkynnt hafi kærendur verið búsettir að Lerkidal 52-60, átt þar lögheimili og hafið greiðslu útsvars til Reykjanesbæjar í samræmi við þá skráningu. Þrátt fyrir það hafi þeim ekki verið grenndarkynnt framangreind tillaga sem sveitarstjórn Reykjanesbæjar hafi samþykkt 3. mars 2020 og því ekki fengið tækifæri til að mótmæla umræddum breytingum. Ekki sé að sjá að breyting á aðalskipulagi og útgáfa byggingarleyfis hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda líkt og lög mæli fyrir um. Kærendur verði fyrir tjóni vegna breytinganna sem felst í skertu útsýni og innsýn í garða frá íbúðum með svölum sem snúi að Lerkidal. Leiði það til lækkunar á verðgildi húsanna og fara kærendur fram á að byggingum verði breytt til sam­ræmis við fyrra skipulag eða kærendum bætt það tjón sem þeir hafi orðið fyrir.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu Reykjanesbæjar er vísað til þess að framkvæmdir séu í samræmi við gildandi deiliskipulag og að málsmeðferð hafi öll verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Við framkvæmd grenndarkynningar hafi íbúar í nærliggjandi húsum fengið tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum sínum. Þá séu skipulags- og hönnunargögn gild og sett fram í samræmi við skilyrði laga og reglna. Óskert útsýni sé ekki bundið í lög og eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að einhverjar breytingar verði gerðar í nánasta umhverfi þeirra sem geti haft í för með sér einhverja skerðingu á slíkum hags­munum.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærufrestur til nefndarinnar sé liðinn og vísa beri málinu frá. Þá hafi deiliskipulagsbreytingin hvorki haft í för með sér breytingu á hæð umræddra húsa né breytingu á afstöðu þeirra til nærliggjandi húsa. Breytingin hafi varðað viðbót við breidd húsanna sem hafi lítil áhrif á nærliggjandi lóðir.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka þá málsástæðu sína að ástæða þess að engar athugasemdir hafi borist við umþrætta deiliskipulagsbreytingu sé að hún hafi ekki verið grenndarkynnt fyrir íbúum Lerkidals 52-60 líkt og skylt sé.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar skv. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 28. gr. laganna er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.

Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulagsbreytingar sem kærð er í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl 2020. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga tók kærufrestur því að líða degi síðar, eða hinn 8. s.m. Mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deili­skipulags­ákvörðun frá opinberri birtingu hennar en kæra vegna umdeildrar deiliskipulags­breytingar barst úrskurðarnefndinni 19. mars 2021.

Umsóknir um hin kærðu byggingarleyfi voru samþykktar 30. mars 2020 og á grundvelli þeirra samþykkta voru byggingarleyfi gefin út 18. júní s.á. Samkvæmt skoðunarskýrslum fóru áfangaúttektir á sökklum húsanna fram í ágúst 2020. Samkvæmt gögnum málsins voru framkvæmdir langt á veg komnar og uppsteypu húsanna að mestu lokið er leyfin voru kærð. Samkvæmt þessu mátti kærendum þegar á haustmánuðum 2020 vera ljóst að leyfi hafi verið veitt fyrir byggingum á umræddum lóðum. Þegar kæra vegna byggingarleyfanna barst úrskurðar­­nefndinni 6. apríl 2021 var því eins mánaðar kærufrestur til nefndarinnar skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 liðinn.

Fram kemur í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki og hefur byggingarleyfishafi eðli máls samkvæmt ríkra hagsmuna að gæta í málinu.

Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem að framan hafa verið rakin bárust kærur í máli þessu úrskurðarnefndinni að liðnum eins mánaðar kærufresti og verða kröfur kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana ekki teknar til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningar­ákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að skv. 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga getur sá sem sýnir fram á tjón vegna skipulags eftir atvikum átt rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi. Slík bótaákvörðun á hins vegar ekki undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.