Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

17/2024 Brattahlíð

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 27. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 16. janúar 2024 um álagningu dagsekta vegna lóðarinnar nr. 16–22 við Bröttuhlíð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. febrúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Tré-búkki ehf. ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 16. janúar s.á. um álagningu dagsekta. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 28. febrúar 2024.

Málavextir: Með tölvupósti 14. febrúar 2023 hafði kærandi samband við skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar og óskaði eftir heimild til að flytja krana og vinnubúðir, sem staðsett voru á lóð nr. 16–22 við Bröttuhlíð, á nánar tilgreindan reit. Var fyrirspurnin ítrekuð 27. s.m. Með tölvu­pósti, dags. 28. s.m., upplýsti skipulagsfulltrúi að hann hefði framsent erindið til umhverfis­stjóra þar sem fyrirspurnin væri ekki innan hans verksviðs. Þá óskaði skipulagsfulltrúi eftir frekari upplýsingum um erindið.

Umhverfissvið Mosfellsbæjar sendi kæranda bréf, dags. 12. júní 2023, þar sem fram kom að staðsetning gáma og byggingarefnis á lóð nr. 16–22 við Bröttuhlíð væri ólögleg. Var gerð krafa um að gámarnir og byggingarefnið yrði fjarlægt og leiðbeint um að ef ekki yrði orðið við kröfu um úrbætur fyrir 26. s.m. mætti búast við að beitt yrði heimildum 3. og 4. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Byggingarfulltrúi sendi kæranda tölvupóst 3. ágúst s.á. þar sem fram kom að hann hefði skoðað aðstæður á lóð nr. 16–22 við Bröttuhlíð og niðurstaða skoðunar­innar hefði verið að notkun lóðarinnar væri ekki í samræmi við skilmála skipulags, ákvæði í kafla 2.9. byggingar­reglugerðar nr. 112/2012 sem og ákvæði gildandi lóðarleigu­samnings. Var gerð krafa um að gámar og lausamunir sem tilheyrðu byggingarstarfsemi yrðu fjarlægðir innan 20 daga en ella yrði þvingunarúrræðum beitt samkvæmt 56. gr. laga nr. 160/2010. Kæranda var send ítrekun með bréfi, dags. 12. september s.á., þar sem gerð var krafa um að þrír gámar og lausa­munir tengdir byggingarstarfsemi yrðu fjarlægðir. Var gefinn 20 daga frestur til að bregðast við áður en þvingunarúrræðum yrði beitt.

Kærandi svaraði erindi byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 6. október 2023, þar sem vísað var til samnings kæranda við sveitarfélagið, dags. 7. janúar 2007, og viðauka, dags. 30. ágúst s.á., varðandi uppbyggingu og fyrirhugaðar skipulagsbreytingar. Þá var bent á að framkvæmdum á svæðinu væri ekki alveg lokið og að gr. 4.11.4. byggingarreglugerðar legði skyldur á byggingaraðila að koma upp aðstöðu fyrir starfsmenn á byggingarvinnustöðum samkvæmt reglum Vinnueftirlits ríkisins um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingar­vinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Þá lægi fyrir að kærandi hefði forgang við úthlutun lóða og/eða byggingarheimildum og stæði til að hann myndi hefja framkvæmdir á lóð vestan við raðhús við Bröttuhlíð 24–30 þegar skipulagsvinnu lyki. Sendar hefðu verið ítrekaðar fyrirspurnir til bæjarins sem ekki hafi verið svarað um staðsetningu gámanna þar til framkvæmdir myndu hefjast, en þeir væru notaðir vegna framkvæmda við Bröttuhlíð 16–22 sem vinnuaðstaða fyrir starfsfólk. Kærandi teldi að skilyrði 56. gr. laga nr. 160/2010 um beitingu dagsekta væru ekki til staðar þar sem ekki væri heimilt að leggja á dagsektir væri notkun lóðar í ósamræmi við skipulag sbr. bréf byggingarfulltrúa, dags. 3. ágúst 2023, og því væru ekki lagalegar forsendur fyrir kröfunni. Óskaði kærandi eftir því að umræddir gámar fengju að standa á umræddri lóð og/eða samtali við sveitarfélagið um hvar væri hægt að koma þeim fyrir þar til framkvæmdir á nýskipulögðu svæði myndu hefjast. Þá var bent á að kærandi hefði þegar komið til móts við bæinn með því að flytja bæði „klósett­gám“ og krana af svæðinu og eftir stæðu einungis þrír gámar sem væru í notkun.

Byggingarfulltrúi sendi kæranda bréf, dags. 16. janúar 2024, þar sem bent var á að lóðin Bratta­hlíð 16–22 væri inni á skilgreindu þéttbýlissvæði/íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Mosfells­bæjar 2011–2030. Í byggingarreglugerð kæmi fram í gr. 2.6.1. að sækja skuli um stöðu­leyfi ef gámar eigi að standa lengur en tvo mánuði utan svæðis sem sé sérstaklega skipulagt og ætlað til geymslu slíkra lausafjármuna. Umrædd lóð væri íbúðarhúsalóð og því ekki skipulögð sem geymslusvæði fyrir gáma til lengri tíma. Því væri notkun lóðarinnar til geymslu gámanna ólögmæt í skilningi laga nr. 160/2010. Þau sjónarmið ættu einnig við um aðra lausafjármuni sem geymdir væru á lóðinni og tengdust byggingarframkvæmdum á öðrum lóðum. Var vísað til þess að í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 kæmi fram að ef ásigkomulagi, frá­gangi, umhverfi húss eða lóðar sé ábótavant og ekki sé gengið frá því samkvæmt reglu­gerðum skuli gera eiganda aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Það hafi verið gert í þeim bréfum sem byggingarfulltrúi og starfsmenn hans hafi sent kæranda. Í 2. mgr. 56. gr. greindra laga sé heimild til handa byggingarfulltrúa til að beita dagsektarúrræðum til að knýja kæranda til að láta af því ólögmæta atferli að geyma umrædda gáma á lóðinni án til­skilinna leyfa. Þá var vísað til að samkvæmt gr. 4.11.4. í byggingarreglugerð verði aðstöðu fyrir starfsmenn á byggingarvinnustað ekki komið upp án þess að samþykki leyfisveitanda liggi fyrir en ekki hafi verið sótt um slíkt leyfi. Þá gæti umrædd lóð ekki talist byggingarvinnustaður þar sem þar stæði fullbyggt íbúðarhús þar sem ekki stæðu yfir neinar framkvæmdir sem sótt hafi verið um leyfi fyrir hjá embættinu eða því sé kunnugt um. Hvað varðaði beiðnir kæranda um að flytja krana og vinnubúðir hafi skipulagsfulltrúi svarað póstinum og óskað eftir frekari upplýsingum. Því erindi hafi ekki verið svarað heldur hafi kærandi óskað eftir fundi með bæjarstjóra vegna málsins. Á þeim fundi hafi ósk kæranda verið rædd og í tölvupósti frá bæjarstjóra, dags. 19. september 2023, til kæranda hafi komið fram að ekki yrði fallið frá kröfum byggingarfulltrúa um að gámarnir skyldu fjarlægðir. Í lóðarleigusamningi milli bæjarins og kæranda hafi þess sérstak­lega verið getið að óheimilt væri að staðsetja gáma á lóðinni nema að fengnu leyfi byggingar­fulltrúa og sé staðsetning þeirra á lóðinni því brot á skilmálum hans. Var kæranda til­kynnt að ef gámarnir og lausafjármunir yrðu ekki fjarlægðir fyrir 15. febrúar 2024 myndu verða lagðar á hann dagsektir að fjárhæð kr. 20.000 sbr. heimild í 56. gr. laga nr. 160/2010.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að engar lagalegar forsendur séu fyrir álagningu dagsekta vegna umræddra gáma, en auk þess hafi fjölmargar reglur stjórnsýsluréttar verið brotnar við afgreiðslu málsins.

Álagning dagsekta sé þvingunarráðstöfun og verði beiting slíkra sekta að eiga sér skýra stoð í lögum. Í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki komi fram að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar, eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Bregðist umráðamaður ekki við geti HMS eða byggingarfulltrúi við­komandi sveitarfélags lagt á dagsektir eða látið framkvæma það sem áfátt sé á kostnað þess sem hafi vanrækt verkið. Ekkert í lögunum veiti hins vegar byggingarfulltrúa heimild til að leggja á dagsektir vegna þess að vanrækt hafi verið að sækja um stöðuleyfi vegna gáma, það út­runnið eða farið hafi verið út fyrir ákvæði skipulags eða lóðaskilmála líkt og haldið sé fram.

Í tilkynningu byggingarfulltrúa, dags. 16. janúar 2024, hafi komið fram að samkvæmt ákvæði 2.6.1. byggingarreglugerðar nr. 12/2012 skuli sækja um stöðuleyfi fyrir gáma ef þeir eigi að standa lengur en í tvo mánuði utan svæðis sem sé sérstaklega skipulagt og ætlað til geymslu slíkra lausafjármuna. Ákvæðið segi hins vegar ekkert um að beita megi dagsektum sé ekki farið eftir ákvæðinu. Í gr. 2.6.2. byggingarreglugerðar sé kveðið á um hvað skuli gera ef vanrækt hafi verið að sækja um stöðuleyfi vegna gáma, það útrunnið eða að farið hafi verið út fyrir ákvæði skipulags- eða lóðaskilmála. Þar komi fram að séu lausafjármunir staðsettir án stöðuleyfis skuli leyfisveitandi krefja eiganda um að fjarlægja þá innan eðlilegs frests, þó aldrei lengri frests en eins mánaðar, að öðrum kosti verði það gert á kostnað eiganda. Það sama eigi við þegar handhafi stöðuleyfis uppfylli ekki þær kröfur sem fram komi í grein 2.6.1. eða önnur skilyrði stöðuleyfis og skuli þá leyfisveitandi jafnframt krefjast þess að lausafjármunirnir verði fjarlægðir innan hæfilegs frests, að öðrum kosti verði þeir fjarlægðir á kostnað handhafa stöðu­leyfis. Hvorki í byggingarreglugerð né í lögum um mannvirki sé nokkuð sem heimili byggingar­­­fulltrúa að leggja á dagsektir vegna þess að reglur um stöðuleyfi séu brotnar. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að álagning dagsekta af hálfu byggingarfulltrúa skortir lagastoð og sé ólögmæt.

Byggingaraðila sé skylt samkvæmt gr. 4.11.4. byggingarreglugerðar að koma upp aðstöðu fyrir starfsmenn á byggingarvinnustöðum samkvæmt reglum Vinnueftirlits ríkisins um aðbúnað, hollustu­hætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mann­virkja­gerð. Hefði aðstaðan ekki verið til staðar hefði byggingarfulltrúi ekki gefið út byggingarleyfi á öllum þeim húsum sem kærandi hafi byggt á svæðinu. Framkvæmdum á svæðinu sé ekki lokið en jafnframt liggi fyrir að skipulag svæðis sem hafi verið afhent Mosfellsbæ á grund­velli viðauka við samning kæranda við sveitarfélagið sé á lokametrunum. Kærandi eigi forgang að úthlutun lóða og/eða byggingarheimildum á því svæði og standi til að hefja framkvæmdir á lóð vestan við raðhús við Bröttuhlíð 24–30 þegar skipulagsvinnu ljúki. Sendar hafi verið ítrekaðar fyrirspurnir til bæjarins um staðsetningu gámanna þar til fram­kvæmdir hæfust á um­ræddu svæði en í millitíðinni væru þeir notaðir sem vinnuaðstaða fyrir starfs­fólk vegna framkvæmda við Bröttuhlíð 16–22­. Þeim fyrirspurnum hafi ekki verið svarað.

Mosfellsbær sé bundinn af jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Í því sambandi sé bent á að frágangi við Bröttuhlíð 17, sem sé ekki í eigu kæranda, virtist ekki vera lokið án þess að gerðar séu kröfur til þess að eigandi þess húsnæðis fjarlægi lausafé af sinni lóð, m.a. byggingarefni. Byggingar­­framkvæmdum fylgi rask meðan á þeim standi, sem m.a. felist í því að geyma þurfi nauðsynlegt byggingarefni og koma upp lögbundinni aðstöðu. Hafi það verið væntingar bæjarins við útgáfu byggingarleyfis að framkvæmdir við Bröttuhlíð hefðu ekki slíkt rask í för með sér, séu það afar óraunhæfar væntingar. Fyrir liggi að framkvæmdum kæranda ljúki á næstu mánuðum, en einnig hafi verið framkvæmdir annarra í gangi við Bröttuhlíð 17. Í til­kynningu bæjarins hafi komið fram að bærinn sæi ekki hvaða vægara úrræði hann gæti beitt en vægara úrræði væri t.d. að heimila kæranda að klára framkvæmdir innan eðlilegra tímamarka og gámarnir yrðu fjarlægðir innan ákveðins tíma frá því þeim lyki. Ekki sé hægt að sjá að aðrir hafi ríkari hagsmuni á meðan á framkvæmdunum standi en ljóst sé að byggingarframkvæmdir í íbúðarhverfi hafi ónæði í för með sér á meðan á þeim stendur. Áréttað sé að sveitarfélagið hafi skuldbundið sig til þess að tryggja að kærandi hefði forgang til lóða á svæði sem hann afhenti bænum endurgjaldslaust með undirritun á nefndan viðauka.

Sendar hafi verið ítrekaðar fyrirspurnir um hvort og/eða hvar gámarnir fengju að standa tíma­bundið. Svör hafi borist seint og illa og loks þegar þau hafi borist hafi gámarnir verið færðir að gamla húsinu, þ.e. Bröttuhlíð 16–22, þar sem þeir séu nú. Komið hafi verið til móts við bæinn með því að flytja bæði klósettgám og krana af svæðinu og því hafi einungis staðið eftir þrír gámar sem séu nauðsynlegir vegna aðstöðusköpunar vegna framkvæmda við Bröttuhlíð 16–22.

Þá sé einkennilegt að byggingarfulltrúi láti sér loftlagsmarkmið bæjarins í léttu rúmi liggja í framangreindri tilkynningu, þar sem hann haldi því fram að þau komi ekki byggingar­framkvæmdum kæranda við. Bærinn hafi sett sér loftlagsstefnu í samræmi við lög nr. 70/2012 um loftlagsmál en af bréfi byggingarfulltrúa megi ráða að loftlagsmarkmið bæjarins séu orðin tóm og ekki nokkur ásetningur eða vilji sé til að fylgja þeim eftir. Með því að skylda kæranda til óþarfa flutnings á gámunum muni það hafa í för með sér notkun á eldsneyti með tilheyrandi út­blæstri gróðurhúsaloftegunda sem sé vandséð hvernig samræmist loftslagamarkmiðum bæjarins.

Málsrök Mosfellsbæjar: Vísað er til þess að ekki sé hægt að telja tölvupóst kæranda til bæjarins 14. febrúar 2023 um byggingarkrana og gáma sem umsókn um stöðuleyfi enda komi fram í gr. 2.6.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 hvað skuli koma fram í slíkri umsókn. Umsókn um stöðuleyfi hafi aldrei borist frá kæranda vegna staðsetningar umræddra gáma á lóðinni Brattahlíð 16–22. Í samræmi við greint ákvæði byggingarreglugerðar hafi fulltrúi bæjar­ins óskað eftir frekari upplýsingum frá kæranda áður en hægt væri að taka málið lengra. Óskað hafi verið eftir upplýsingum með tölvupósti um hvaða framkvæmdum eða útgefnu byggingar­leyfi kraninn hafi tengst en póstinum hafi aldrei verið svarað. Þar sem engin svör hafi borist hafi byggingarfulltrúi sent bréf, dags. 12. júní 2023, til kæranda þar sem tilkynnt var að um­rædd notkun lóðarinnar væri óheimil og að honum bæri að fjarlægja umrædda muni innan til­skilins frests. Byggingarfulltrúi hafi ítrekað erindið með bréfi, dags. 3. ágúst s.á., Í kjölfarið hafi kærandi óskað eftir fundi með bæjarstjóra sem hafi farið fram um miðjan ágúst þar sem málið hafi verið rætt. Fundurinn hafi hins vegar ekki leitt til þess að fyrri ákvörðun byggingar­fulltrúa um ólögmæta notkun lóðarinnar yrði breytt og var kæranda því send ítrekun 12. september s.á.

Varðandi fullyrðingar að umrætt lausafé væri tilkomið vegna tilrauna kæranda til „aðstöðusköpunar“ vegna framkvæmda er bent á að kærandi hafi upphaflega sett sig í samband við bæinn og óskað eftir að fá að geyma krana og gáma á bæjarlandi. Bærinn heimili ekki afnot af bæjarlandi til slíkrar geymslu en hafi þó leyft tímabundin afnot af bæjarlandi í tengslum við framkvæmdir í samræmi við útgefið byggingar- eða framkvæmdaleyfi. Ráðstöfun bæjarlands sem geymslu undir lausafé byggingarverktaka milli verkefna falli ekki undir slíkt en eðlilegt sé að byggingarverktakar geri sjálfir nauðsynlegar ráðstafanir varðandi geymslu tækja og búnaðar sem þeir noti í tengslum við rekstur fyrirtækja sinna. Lausafé það sem hin kærða ákvörðun snúi að samanstandi af gámum, efnishrúgum, vinnupöllum, steypumótum o.fl. Eftir af­skipti byggingarfulltrúa af ástandi lóðarinnar hafi byggingarkrani og salernisgámur verið fluttur af henni. Hin kærða ákvörðun varði því ekki byggingarkrana sem tíðrætt hafi verið í kærunni.

Lóðir húsa í íbúðarhverfum bæjarins séu ekki geymslustaður undir búnað sem notaður sé vegna verkefna sem staðið sé í annarsstaðar. Slíkt gangi í berhögg við skipulagsskilmála gildandi Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2011–2030, skilmála gildandi deiliskipulags sem gildi um lóðina og ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Þá brjóti slík notkun lóðarinnar einnig gegn ákvæðum lóðarleigusamnings.

Í gr. 6.2. skipulagsreglugerðar sé hugtakið íbúðarhúsnæði skilgreint sem svæði fyrir íbúðar­húsnæði og nærþjónustu sem því tengist auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar sé kveðið á um í stefnu skipulagsins. Augljóst sé að geymsla kæranda á því lausafé sem eigi sér stað á lóðinni falli ekki undir skilgreininguna og sé því ekki í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010.

Hvergi í byggingarreglugerð sé að finna heimild fyrir svokallaðri aðstöðusköpun vegna framkvæmda utan þeirrar lóðar sem framkvæmdir fari fram á. Í gr. 4.11.4. byggingar­reglugerðar komi fram að skylt sé að koma upp aðstöðu fyrir starfsmenn á byggingarvinnu­stöðum en þar komi einnig fram að staðsetning og frágangur slíkrar aðstöðu sé háður samþykki leyfisveitanda. Lóðin Brattahlíð 16–22 sé hvorki byggingarvinnustaður né hafi kærandi leitað eftir samþykki byggingarfulltrúa hvað varðaði staðsetningu umræddra gáma á lóðinni. Óum­deilt sé að vinnupallar, steypumót, spítnabrak eða efnishaugar geti nokkru sinni talist til aðstöðu fyrir starfsmenn. Þá hafi í röksemdum kæranda verið ítrekað vísað til þess að hin svokallaða aðstöðusköpun væri tilkomin vegna framkvæmda kæranda á svæðinu eða í bænum. Hvergi hafi hins vegar komi fram á hvaða svæði þær séu né af hverju kærandi eigi að fá að geyma byggingarefni og tæki á umræddri lóð vegna framkvæmda hans annars staðar í bænum. Kærandi sé ekki með neinar framkvæmdir á lóð Bröttuhlíðar 16–22 sem kalli á allan þann búnað sem þar sé geymdur. Þá sé hafnað þeim fullyrðingum að aðstaða fyrir starfsmenn sé nauðsynleg á lóðinni vegna framkvæmda innanhúss þar sem byggingarfulltrúa sé fullkunnugt um að engar slíkar framkvæmdir standi þar yfir heldur sé húsið notað sem gistiaðstaða fyrir starfsmenn á vegum kæranda.

Ábending kæranda um að íbúi við götuna geymi byggingarefni á lóð sinni sé málinu óvið­komandi auk þess sem umrætt byggingarefni sé þar vegna framkvæmda lóðarhafa á eigin lóð og tengist ekki atvinnurekstri viðkomandi og sé af allt annarri stærðargráðu. Geymsla gáma brjóti gegn skilmálum lóðarleigusamnings um lóðina, dags. 30. september 2020, en þar komi fram að óheimilt sé að staðsetja gáma á lóðinni án leyfis byggingarnefndar, en byggingarfulltrúi fari með valdheimildir nefndarinnar. Lokaúttekt Bröttuhlíðar 24–30 sé annað og óskylt mál sem hafi ekkert með þetta mál að gera en rétt sé að benda á að byggingarfulltrúi hafi samþykkt að framkvæma lokaúttekt sem hafi ekki enn getað farið fram vegna atvika er varði kæranda sjálfan.

Í 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki felist skýr heimild byggingarfulltrúa til að beita dagsektum sem þvingunarúrræði í því skyni að knýja fram breytingar á ólögmætu ástandi. Samkvæmt ákvæði laganna sé heimil álagning dagsekt í því skyni að knýja á um fjarlægingu stöðuleyfisskylds lausafjár sem ekki hafi tilskilin leyfi og augljóst sé að fái ekki leyfi. Úrskurðarnefndin hafi áður kveðið upp úrskurð í sambærilegu máli sem staðfest hafi lögmæti ákvarðana byggingarfulltrúa um að beita dagsektum í því skyni að knýja á um að farið sé að lögum og byggingarreglugerð er verði lausafé sem sé stöðuleyfisskylt. Hvað varði samkomulag það er kærandi hafi lagt fram með kæru sinni sé bent á að það atriði sé óviðkomandi ástandi lóðarinnar sem hin kærða ákvörðun snúi að og varði ekki lögmæti ákvörðunar um álagningu dagsekta. Þá snúi rökstuðningur kæranda hvað þetta atriði varði einungis að hluta málsins, eða margnefndum gámum, en ekkert sé minnst á annað lausafé á lóðinni sem hin kærða ákvörðun nái einnig til.

Þrátt fyrir samkomulag kæranda við bæinn um forgang að lóðum í nágrenni við lóðina Bröttuhlíð 16–22 þá hafi skipulagsgögn ekki enn verið fullunnin og engin tillaga til deili­skipulags hafi verið auglýst. Óvíst sé hvenær kærandi muni geta hafið framkvæmdir á því svæði sem umrætt samkomulag nái til en forsendur umræddrar skipulagsvinnu hafi ekki verið fullmótaðar af skipulagsnefnd. Ef veittir væru frestir í samræmi við rök kæranda væri í raun verið að veita ótímabundna fresti fyrir geymslu á umræddu lausafé inni á íbúðarsvæði sem væri mjög óeðlilegt með hagsmuni annarra lóðarhafa við Bröttuhlíð í huga. Kærandi hafi fengið fyrstu tilkynningu byggingarfulltrúa um ólögmæta notkun lóðarinnar 12. júní 2023. Tilkynning um álagningu dagsekta hafi ekki borist kæranda fyrr en 16. janúar 2024, en þá hafi kæranda í tvígang verið sendar ítrekanir auk fundar hans með bæjarstjóra. Kærandi hafi þegar fengið ríflegt svigrúm til að fjarlægja umrætt lausafé af lóðinni.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að ekkert komi fram í lögum eða reglugerð sem kveði á um að umsókn um stöðuleyfi verði að vera á tilteknu formi. Sveitarfélagið virðist stað­festa fullyrðingar kæranda þess efnis að umsókn hafi verið send þótt form hennar hafi þótt ábóta­vant.

Kærandi hafi ítrekað í alllangan tíma óskað eftir að fá að flytja gámana og umræddan krana á tiltekið svæði. Reynt hafi verið að fá stöðuleyfi sem næst raðhúsunum að Bröttuhlíð 24–30 á meðan framkvæmdir kláruðust. Þær fullyrðingar sveitarfélagsins að óljóst hafi verið hvaða fram­kvæmdum umsóknin hafi tengst séu haldlausar eftir á skýringar enda hafi öllum verið ljóst að þær tengdust framkvæmdum að Bröttuhlíð 24–30. Fyrirspurnum bæjarins hafi verið svarað í fjölmörgum samtölum við starfsmenn bæjarins og því rangt að engin svör hafi borist. Brattahlíð 16–22 sé ekki notuð sem gistiaðstaða fyrir starfsmenn á vegum kæranda heldur sé fasteignin í útleigu. Yfir standi framkvæmdir varðandi þá þeirri fasteign og séu umræddir gámar nauðsynleg aðstöðusköpun vegna framkvæmdanna.

Umrætt land hafi tilheyrt kæranda en honum hafi verið gert að afhenda bænum það sem hluta af samkomulagi um að fá svæðið deiliskipulagt. Kærandi hafi aldrei farið fram á að nokkuð land yrði notað sem geymsla heldur hafi legið fyrir frá upphafi að um aðstöðu væri að ræða fyrir starfsmenn og/eða lausafé vegna tímabundinna byggingarframkvæmda. Kærandi hafi aldrei geymt efnishrúgur eða spýtnabrak á umræddu svæði og þær myndir sem sveitarfélagið hafi lagt fram tilheyri ekki kæranda og hafi ekki verið sett á umræddan stað af honum né með hans leyfi. Aðrir aðilar í götunni séu að setja efni á lóð kæranda að honum forspurðum og einkennilegt sé að bærinn hyggist leggja dagsektir á kæranda vegna lausafjár sem sé honum alls óviðkomandi.

Sveitarfélagið hljóti að þurfa að tilgreina með nákvæmum hætti hvaða lausafé það vilji að sé fjarlægt. Þá sé ljóst að húseigendum sé ekki óheimilt að geyma lausafé á lóðum. Þannig séu til að mynda bílar og hjól lausafé og því sé hæpið að leggja á dagsektir vegna ótilgreinds lausafjár sem kæranda sé ætlað að fjarlægja án þess að tilgreina nákvæmlega til hvaða lausafjár sé verið að vísa, sérstaklega þar sem megnið af því lausafé tilheyri honum ekki. Sveitarfélaginu beri að rannsaka málið nánar sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sjá til þess að málið sé nægjan­lega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því, einkum þegar um íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sé að ræða. Þá sé einkennilegt að réttlæta athugasemdir við byggingarefni á lóð annars lóðar­hafa á sama svæði með þeim rökum að viðkomandi lóðarhafi sé á eigin lóð að framkvæma í sam­ræmi við byggingarleyfi. Öll sömu sjónarmið eigi við um kæranda og því sé bærinn að viður­kenna brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar um álagningu dagsekta á kæranda að fjárhæð kr. 20.000 til að knýja fram brottflutning gáma og lausa­muna af lóð hans.

Í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er tekið fram að telji byggingarfulltrúi að ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar sé ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu eða ekki sé gengið frá því samkvæmt sam­þykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skuli hann gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Í 2. mgr. ákvæðisins er síðan að finna heimild til að beita dagsektum til að knýja á um úrbætur. Nánar er kveðið á um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem byggingarfulltrúa er m.a. veitt heimild til að beita dagsektum allt að 500.000 kr. til að knýja eigendur eða umráðamenn til þeirra verka sem þeir skulu hlutast til um samkvæmt lögum um mannvirki.

Lóðin Brattahlíð 16–22 er staðsett á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Hulduhólasvæðis, með síðari breytingum. Samkvæmt Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011–2030 er um að ræða íbúðarsvæði. Kærandi gerði samning við sveitarfélagið um lóðina sem var innfærður í þinglýsingarbók sýslumanns 23. nóvember 2020. Í samningnum kemur meðal annars fram að óheimilt sé að staðsetja gáma á lóðinni nema með leyfi byggingarnefndar, sbr. 2. mgr. 71. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Heldur kærandi því fram að í bréfi byggingarfulltrúa hafi ekki verið nægilega skýrt kveðið á um hvaða lausafjármuni væri um að ræða sem og að byggingarefni á lóðinni tilheyri öðrum lóðarhöfum í Bröttuhlíð sem hafi sett það á lóðina án samþykkis kæranda. Í tölvupósti byggingarfulltrúa frá 3. ágúst 2023 og bréfum, dags. 12. september s.á. og 16. janúar 2024, kemur fram að kæranda sé gert að fjarlægja lausafjármuni sem tilheyri byggingarstarfsemi. Verður að telja að tilkynning byggingarfulltrúa hafi verið nægilega skýr til að kærandi gæti gert sér grein fyrir því hvaða lausafjármuni væri um að ræða.

Í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010, sbr. gr. 2.9.2. byggingarreglugerðar er kveðið á um að byggingarfulltrúi skuli gera eiganda eða umráðamanni lóðar viðvart sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Ber kærandi sem lóðarhafi ábyrgð á að uppfyllt séu skilyrði laga og reglugerðar um ásigkomulag og frágang lóðarinnar.

Ágreiningur er um hvort kærandi hafi sótt um stöðuleyfi fyrir gámum þeim er standa á lóð Bröttuhlíðar 16–22. Í tölvupósti kæranda til sveitarfélagsins, dags. 14. febrúar 2023, óskaði hann eftir að flytja krana og vinnubúðir á tiltekinn stað á annarri lóð samkvæmt meðfylgjandi teikningu. Kærandi ítrekaði beiðnina 27. s.m. og var honum svarað degi síðar af skipulags­fulltrúa. Frekari samskipti áttu sér stað milli kæranda og starfsmanna sveitarfélagsins en ljóst er að ekki hefur verið gefið út stöðuleyfi vegna umræddra gáma skv. 9. tl. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 160/2010, sbr. gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð. Þrátt fyrir að erindi kæranda til sveitar­félagsins hafi ekki tiltekið sérstaklega að verið væri að sækja um stöðuleyfi bar það með sér að kærandi óskaði eftir að staðsetja gámana á tilteknum stað á annarri lóð. Bar sveitarfélaginu eins og atvikum var háttað að leiðbeina kæranda um að sækja þyrfti um stöðuleyfi vegna umræddra gáma og skorti því á að gætt væri leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins. Erindi kæranda frá 14. febrúar 2023 sneri hins vegar ekki að leyfi til að staðsetja gámana á lóð Bröttuhlíðar 16–22 heldur á annarri lóð og verður því ekki talið að framangreindur annmarki hafi áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Í gr. 4.11.4. byggingarreglugerðar kemur fram að skylt sé að koma upp aðstöðu fyrir starfsmenn á byggingarvinnustöðum samkvæmt reglum Vinnueftirlits ríkisins um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Staðsetning og frágangur slíkrar aðstöðu er háður samþykki leyfisveitanda. Fyrir liggur að staðsetning umræddra gáma sem notaðir hafa verið undir aðstöðu fyrir starfsmenn hefur ekki verið samþykkt af byggingarfulltrúa sem leyfisveitanda.

Verður í ljósi framangreinds að fallast á að notkun umræddrar lóðar hafi verið ólögmæt með þeim hætti að byggingarfulltrúa hafi verið heimilt að beita dagsektum til að knýja fram úrbætur. Verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar af þeim sökum hafnað.

Með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þykir rétt að dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falli niður.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 16. janúar 2024 um álagningu dagsekta vegna lóðarinnar nr. 16–22 við Bröttuhlíð.

Dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á samkvæmt hinni kærðu ákvörðun til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falla niður.

59/2024 Tjarnarbíó

Með

Árið 2024, föstudaginn 21. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 59/2024, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 26. mars 2014 um að aflétta banni við tónleikahaldi í Tjarnarbíói og ákvörðun eftirlitsins frá 27. febrúar 2018 um að gefa út starfsleyfi til að starfrækja leikhús, samkomusali og kaffihús að Tjarnargötu 12.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 30. maí 2024, kærir íbúi að Suðurgötu 15, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 26. mars 2014 að aflétta banni við tónleikahaldi í Tjarnarbíói. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að jafnframt sé kærð sú ákvörðun eftirlitsins frá 27. febrúar 2018 að veita Menningarfélaginu Tjarnarbíói starfsleyfi til að starfrækja leikhús, samkomusali og kaffihús að Tjarnargötu 12. Krefst kærandi „varanlegrar lausnar á vandamálinu með hávaðamengun“.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 14. júní 2024.

Málsatvik og rök: Hinn 8. mars 2011 veitti Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur Menningarfélaginu Tjarnarbíói starfsleyfi til reksturs leikhúss að Tjarnargötu 12. Með bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 20. desember s.á., var lagt bann við tónleikahaldi og öðrum hávaðasömum viðburðum í Tjarnarbíói eftir að hljóðmælingar í nærliggjandi íbúðum sýndu að hávaði frá staðnum reyndist yfir viðmiðunarmörkum. Umræddu banni var síðar aflétt með bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 26. mars 2014, eftir að gerðar voru úrbætur á hljóðeinangrun staðarins og hljóðstig í íbúðum mældist undir viðmiðunarmörkum. Í bréfinu var jafnframt kveðið á um að leyfishafi skyldi fylgja ákvæðum reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Starfsleyfi Tjarnarbíós sem nú er í gildi var gefið út af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 27. febrúar 2018 og heimilar það rekstur leikhúss, samkomusals og  kaffihúss.

Kærandi telur að skilyrðum starfsleyfisins er varði hávaðamengun hafi ekki verið fullnægt og að sú mengun hafi valdið íbúum að Suðurgötu 15 verulegum óþægindum og skerðingu á lífsgæðum auk þess sem hún brjóti gegn friðhelgi einkalífs þeirra. Lausn leyfishafa með notkun hljóðdeyfis hafi reynst ófullnægjandi, en hún sé auðveldlega sniðgengin og krefjist persónulegrar íhlutunar stjórnenda í hvert sinn. Fjöldi kvartana hafi borist vegna hávaða frá Tjarnarbíói. Leyfishafi hafi ekki farið eftir skilyrðum útgefins starfsleyfis, en samkvæmt reglugerð nr. 724/2008 beri að gæta sérstaklega að því að koma í veg fyrir að lágtíðnihljóð berist frá samkomustöðum.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tekur fram að niðurstöður mælinga, sem gerðar hafi verið árið 2014 við reglubundið eftirlit, hafi sýnt fram á að hljóðstig væri undir mörkum reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða og hafi því ákvörðun eftirlitsins frá 20. desember 2011 um bann við tónleikahaldi og öðrum hávaðasömum viðburðum í Tjarnarbíói verið aflétt. Þá sé bent á að talsverður tími sé liðinn frá þeim ákvörðunum sem kæran lúti að og kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé liðinn.

Leyfishafi bendir á að sá búnaður sem settur hafi verið upp árið 2014 og ætlaður sé til takmörkunar á hljóðkerfi Tjarnarbíós sé enn til staðar og sé virkur. Bent sé á að hljóðstyrkur sé reglulega mældur með búnaði í formi smáforrits en leyfishafi telji þörf á að kaupa áreiðanlegri mæli svo mælingar standist kröfur um áreiðanleika. Hömlur séu á hljóðkerfi og eigi búnaðurinn að framfylgja hömlum á tilteknu lágtíðnisviði þó ekki sé hægt að útiloka að lágtíðni slæðist inn á hamlað tíðnisvið á viðburðum sem notist við stöðuga lágtíðni. Þegar litið sé til þeirra viðburða sem kvartað hafi verið yfir sé erfitt að festa fingur á það hvað það sé sem trufli kæranda annað en búseta í nálægð við lifandi miðstöð sviðslista. Því sé mótmælt að notkun umrædds hömlunarbúnaðar sé háður aðkomu tæknifólks eða annara og að nokkuð sé gert til þess að komast hjá notkun hans.

Niðurstaða: Hið umdeilda starfsleyfi var gefið út í febrúar 2018 og var ákvörðunin kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá mars 2014 um að aflétta banni við tónleikahaldi í Tjarnarbíói var þá sömuleiðis kæranleg til nefndarinnar samkvæmt lögunum.

Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um kæranlega ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kæran barst rúmlega sex árum eftir að núgildandi starfsleyfi var gefið út og rúmlega 10 árum frá því að ákvörðun þess efnis að banni við tónleikahaldi í Tjarnarbíói yrði aflétt. Kæran er því of seint fram komin og verður vísað frá nefndinni í samræmi við 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur að kæru skuli vísa frá berist hún að liðnum kærufresti og að henni skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Rétt þykir að benda á að telji kærandi að hávaði frá umræddri starfsemi sé yfir heimiluðum mörkum við fasteign hans samkvæmt reglugerð nr. 724/2008 um hávaða er eftir atvikum unnt að leita atbeina Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til að fá úr því skorið.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

52/2024 Móstekkur

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 20. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 17. apríl 2024 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir parhús á lóð nr. 61–63 við Móstekk.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Fortis ehf., lóðarhafi Móstekks 61–63, Selfossi, landnúmer L236631, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 17. apríl 2024 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir parhúsi á lóð nr. 61–63. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 21. maí 2024.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar 17. apríl 2024 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi fyrir byggingu parhúss á lóð nr. 61–63 við Móstekk á Selfossi. Á framlögðum uppdráttum kom fram að um væri að ræða parhús með tveimur íbúðum. Í fundargerð afgreiðslufundarins var bókað að umsókninni væri synjað þar sem teikning gæfi til kynna að hægt verði að nýta matshluta 0102 sem tvær aðskildar „íbúðareiningar“ með tveimur aðskildum inngöngum, en í gr. 5.1. í deiliskipulagi svæðisins væri kveðið á um að í einbýlis-, par- og raðhúsum skuli vera ein íbúð í hverju húsi og að ekki sé heimilt að hafa aukaíbúð á lóðum.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að ekki verði séð að byggingarfulltrúi hafi leitað umsagnar skipulagsfulltrúa í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þar sem mælt sé fyrir um að það sé skylt leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Eignarhluti 0102 í parhúsinu sé hannaður þannig að um sé að ræða tvö rými með tveimur aðskildum inngöngum. Bílgeymsla tengi rýmin saman og sé innangengt frá henni að báðum rýmunum. Miði hönnunin að því að gera söluvænni vöru fyrir væntanlega kaupendur, s.s. fyrir foreldra með unglinga eða uppkomin börn. Þótt fallast megi á það með byggingarfulltrúa að hugsanlega væri unnt að nýta eignarhlutann sem tvær aðskildar „íbúðareiningar“ gæti slíkt þó ekki orðið án breytinga á hönnun mannvirkisins og að uppfylltum öðrum lagalegum skilyrðum sem varði stofnun nýrrar fasteignar.

Af lögum nr. 160/2010 leiði að byggingaryfirvöld skuli við ákvörðun um útgáfu byggingarleyfis meta hvort mannvirkið og notkun þess samrýmist gildandi skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna. Ákvörðun um að synja umsókn um byggingarleyfi verði ekki á því reist að teikning gefi til kynna að hugsanlega megi nýta mannvirki með hætti sem ekki samrýmist deiliskipulagi. Ekki sé farið leynt með að vilji sé til að eiga möguleika á að fjölga íbúðum í parhúsinu og að vonir séu bundnar við að skipulagsyfirvöld samþykki það í framtíðinni. Slíkt sé alþekkt og feli í sér annað sjálfstætt umsóknarferli. Staðreyndin sé sú að eignarhluti 0102 sé á aðaluppdrætti skilgreindur sem ein íbúð og séu engar fyrirætlanir um að nýta hann sem aðskildar íbúðareiningar í andstöðu við gildandi deiliskipulag.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ljóst megi vera að eignarhluti 0102 sé hannaður sem tvær aðskildar íbúðareiningar og að áætlanir standi til að nýta rýmin sem slíkar. Frumskilyrði útgáfu byggingarleyfis sé að mannvirki og notkun þess samrýmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt gildandi deiliskipulag í landi Bjarkar við Selfoss (Björkurstykki) sé skýrlega kveðið á um að í einbýlis- par- og raðhúsum skuli vera ein íbúð í hverju húsi að ekki sé heimilt að hafa aukaíbúð á lóðum. Kærandi hafi staðfest að nýta megi matshluta 0102 sem sér­íbúðar­hluta. Öllum sem skoða aðaluppdrætti sem fylgt hafi byggingarleyfisumsókn kæranda megi ljóst vera að um sé að ræða aukaíbúð. Í þeim hluta sé að finna sérútgang, eldhúskrók, sérbaðherbergi og á milli hennar og bílgeymslu sé teiknaður EI60 veggur. Hvort sem viðurkennt sé að nýta eigi þennan hluta sem séríbúðarhluta strax eða síðar, sé ljóst að um sé að ræða rými sem með engu móti verði skilgreint sem annað en aukaíbúð í skilningi skipulagsskilmála og erfitt sé að ímynda sér skýrara dæmi um aukaíbúð við parhús. Er og vísað til úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 28. júlí 2009 í máli nr. 95/2008 og frá 19. október 2011 í máli nr. 66/2010.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Reynt hafi á sambærilegt álitaefni og hér um ræði í dómi Hæstaréttar frá 17. desember 2020 í máli nr. 25/2020. Ágreiningur þess máls hafi m.a. lotið að því hvernig túlka bæri skipulagsskilmála sem kváðu á um að óheimilt væri að hafa meira en eina íbúð í húsi og hvort aðaluppdrættir mannvirkis gerðu ráð fyrir einni eða tveimur íbúðum. Af niðurstöðu dómsins megi ráða að sjónarmið þau sem tiltekin hafi verið af Sveitarfélaginu Árborg skipti ekki höfuðmáli heldur fyrst og fremst hvernig skráningu fasteigna sé háttað. Eignarhluti 0102 í fyrirhuguðu parhúsi sé skilgreindur sem ein íbúð á aðaluppdrætti og ætti sú skráning að vera ráðandi við úrlausn málsins en ekki ályktanir um hugsanlega nýtingu hans. Þá verði ekki séð að þeir úrskurðir úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem vísað hafi verið til hafi þýðingu við úrlausn málsins.

Samkvæmt 4. mgr. 17. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús beri að afhenda byggingarfulltrúa eignaskiptayfirlýsingu til staðfestingar og komi þá til skoðunar hvort hún sé í samræmi við skipulagsskilmála, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar. Augljóst sé að byggingarfulltrúi myndi ekki staðfesta eignaskiptayfirlýsingu sem mælti fyrir um að eignar­hlutinn skiptist í tvær aðgreindar íbúðir. Muni bann við aukaíbúðum í skipulagsskilmálum því áfram hafa þýðingu þótt hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar á byggingarleyfis­umsókn vegna húss á lóð nr. 61–63 við Móstekk. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Þá verða byggingaráform aðeins samþykkt og gefið út byggingarleyfi ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis, sbr. 11. gr og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna.

Samkvæmt Aðalskipulagi Árborgar 2020–2036 er landnotkun umrædds svæðis skilgreind sem íbúðarsvæði, ÍB7, Björkurstykki. Kemur fram að um sé að ræða óbyggt svæði og að í gildi sé deiliskipulag fyrir hluta svæðisins og að gert sé ráð fyrir fjölbreyttum íbúðakostum. Deiliskipulag í landi Bjarkar við Selfoss (Björkurstykki) tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. júní 2019. Um hönnun mannvirkja og uppdrætti er tiltekið í kafla 4.1. í greinargerð deiliskipulagsins að húsagerðir séu frjálsar að öðru leyti en því sem mæli- og hæðarblöð, skilmálar skipulagsins, byggingarreglugerð og aðrar reglugerðir segi til um. Jafnframt er tekið fram að þar sem hús séu samtengd skuli samræma útlit, þakform, lita og efnisval. Það eigi einnig við um hús sem séu á sömu lóð en séu ekki samtengd. Á aðaluppdráttum skuli sýna skipulag lóðar, þ. á m. bílastæði. Á grundvelli deiliskipulagsins gefi sveitarfélagið út mæli- og hæðablöð sem sýni nákvæmar stærðir lóða, lóða­mörk og byggingarreiti húsa. Í kafla 4.7 greinargerðarinnar segir um bílastæði og bílageymslur að gert sé ráð fyrir tveimur bílastæðum við hverja íbúð í einbýlis-, par- og raðhúsum. Þá kemur fram í kafla 5.1 að í einbýlis-, par- og raðhúsum skuli vera ein íbúð í hverju húsi og að ekki sé heimilt að hafa aukaíbúð á lóðum. Um parhús, gerð P1, segir að innan byggingarreits sé heimilt að reisa einnar hæðar parhús ásamt sambyggðri bílgeymslu og að koma skuli fyrir tveimur bílastæðum á lóð.

Óyggjandi er af aðaluppdráttum sem fylgja byggingarleyfisumsókn kæranda að um sé að ræða þrjár aðskildar íbúðareiningar. Af hálfu kæranda hefur verið vísað til stuðnings málsrökum til dóms Hæstaréttar frá 17. desember 2020 í máli nr. 25/2020, sem varðaði aukaíbúð í einbýlishúsi. Þar er með almennum hætti fjallað um að ekki sé að finna í skipulagslögum eða öðrum réttarheimildum um fasteignir fyrirmæli um hvenær fleiri en ein íbúð teljist óhjákvæmilega vera í húsi. Þá sé heldur ekki að finna neinar haldbærar vísbendingar um að hlutlægt mat á innra skipulagi og öðrum eiginleikum húss samkvæmt aðaluppdráttum eigi að ráða við mat á því hvort hús teljist einbýli og fullnægi þar með skilmálum deiliskipulags sem mæli fyrir um að óheimilt sé að hafa fleiri en eina íbúð í húsi. Í ljósi þessa hefði rökstuðningur byggingar­fulltrúa mátt vera með ítarlegri hætti, en þó að teknu tilliti til þess að aðstæður eru aðrar.

Af hálfu úrskurðarnefndarinnar er gerð bending um að á uppdrætti deiliskipulagsins, þ.e. við götu 15, er gert ráð fyrir parhúsi, P1, á tveimur jafn stórum lóðum, að heildarstærð 1.260 m2 ásamt tveimur samliggjandi bílastæðum. Á mæliblaði lóðarinnar, sem áritað var af skipulagsfulltrúa 22. nóvember 2023, eru bílastæðin sýnd með sambærilegum hætti en húsið sýnt á einni lóð, L236631, þar sem önnur íbúðin er stærri og tekur til sín aukinn hluta lóðarinnar um leið og tilhögun bílastæða er breytt.

Með vísan til framangreinds verður að líta svo á að rökstuðningi og undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt og því sé rétt að fella hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 17. apríl 2024 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir parhúsi á lóð nr. 61–63 við Móstekk.

42/2024 Eiríksgata

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 20. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á fjöleignarhúsi á lóð nr. 19 við Eiríksgötu.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 5. apríl 2024, kærir Arnarbakki ehf., eigandi húss á lóð Eiríksgötu 19, Reykjavík, ákvörðun um að synja umsókn hans um byggingarleyfi fyrir að breyta kjallara í íbúðir í fjöleignarhúsi því er stendur á lóðinni. Verður að skilja málskot kæranda svo að kærð sé ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík þess efnis frá 5. mars 2024 og að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. apríl 2024.

Málavextir: Á lóðunum nr. 19–23 við Eiríksgötu er sambyggt fjöleignarhús. Með umsókn, dags. 30. janúar 2024, óskaði kærandi eftir byggingarleyfi fyrir breytingum á kjallara þess hluta hússins sem er á lóð nr. 19 þannig að þar yrðu tvær einstaklingsíbúðir í stað geymslna og sameignar. Botnplata hússins yrði lækkuð, innra skipulagi íbúða á fyrstu og annarri hæð jafnframt breytt og stigahús yrði aðeins á milli fyrstu og annarrar hæðar.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 13. febrúar 2024, var erindinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem á fundi sínum 15. s.m. vísaði því til umsagnar verkefnastjóra hjá embættinu. Var erindið aftur tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 22. s.m. og bókað í fundargerð: „Neikvætt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 22. febrúar 2024, samræmist ekki hverfisverndarákvæði aðalskipulags“. Er sú umsögn fylgigagn fundar­gerðarinnar og kemur þar m.a. fram að með byggingaráformunum sé gert ráð fyrir að gengið verði inn í fyrirhugaðar kjallaraíbúðir um framhlið hússins, sem krefðist þess að grafið yrði frá stórum hluta framhliðarinnar og gerðar tröppur niður. Slík framkvæmd breyti húsinu mikið að utan og raski hlutföllum þess sem væri ekki í anda hverfisverndar, en í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er skilgreind hverfisvernd á umræddu svæði, þ.e. innan Hringbrautar, sem hefur það að markmiði að varðveita og styrkja heildaryfirbragð gamla bæjarins. Þá kæmi fram í rammaskipulagi sem gert hefði verið fyrir reitinn að ekki skyldi samþykkja eða gera nýjar íbúðir í kjöllurum eða á rishæðum. Almennt væru þó ekki gerðar athugasemdir við fjölgun íbúða ef forsendur gæfu tilefni til, þ. á m. næg birtugæði og að útliti verndaðra húsa væri ekki raskað. Þær aðstæður væru ekki fyrir hendi í þessu tilfelli, rýmið væri mikið niðurgrafið, gluggar litlir og ekki yrði heimilað að grafa frá húshlið í suðurgarði þar sem það myndi breyta útliti hússins of mikið sem og heildarmynd götunnar. Þá var bent á gr. 6.7.4. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012, sem fjallar um íbúðir með niðurgrafna útveggi.

Byggingarfulltrúi tók umsóknina á ný fyrir á afgreiðslu­fundi 5. mars 2024 og synjaði henni með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa. Er í máli þessu deilt um þá ákvörðun.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að ráðast þurfi í umfangsmiklar aðgerðir til endurbóta á húsi á lóð nr. 19 við Eiríksgötu, m.a. þurrka út kjallaraveggi og hafi skýrsla verkfræðistofu frá árinu 2019 sýnt fram á nauðsyn þess. Öruggast sé að moka frá útveggjum og lækka þannig jarðveg en um leið auka loftun og birtugæði í kjallara með því að stækka glugga til suðvesturs. Nauðsynlegt sé að brjóta upp kjallaragólf, endurnýja lagnir í jörð og koma fyrir jarðvegslögnum við suðvestur hlið hússins.

Skipulagsfulltrúi hafi í umsögn sinni ekki gert athugasemd við fjölgun íbúða á reitnum ef forsendur gæfu tilefni til, m.a. næg birtugæði sem umsóttar breytingar lúti að. Þá hafi íbúðir verið leyfðar í sama fjöleignarhúsi, á lóðum nr. 21 og 23, með sambærilegum breytingum á gluggum og kærandi hafi hug á að gera. Eins hafi íbúð verið leyfð í kjallara í húsinu við hliðina, þ.e. á lóð nr. 17 og í fjölda annarra sambærilegra húsa í sömu húsaröð og nærliggjandi húsa­röðum. Yrðu breytingarnar lítt eða ekki sjáanlegar frá götu og gangi allar í þá átt að tryggja heilbrigði og loftgæði í fjöleignarhúsinu öllu og séu þær mjög til bóta fyrir alla íbúa Eiríksgötu 19–23 þar sem augljóst sé að raki fari á milli eininga undir húsinu, líkt og komið hafi í ljós í kjallara á lóðum nr. 19 og 21.

Birtuskilyrði í kjallara húss á lóð nr. 19 við Eiríksgötu batni til mikilla muna og bæti þannig búsetuskilyrði og notkunarmöguleika, í stað þess að viðhalda húsnæði með takmarkaðri birtu og lítilli lofthæð sem þó yrði nýtt með ýmsum hætti. Markmið eiganda sé fyrst og fremst að tryggja heilbrigði íbúa ásamt því að gæta að útliti þessara fallegu bygginga.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að ekkert hafi komið fram sem valdið geti ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Árið 1987, í tíð eldri byggingar­reglugerðar, hafi verið samþykkt að breyta kjallara húss á lóð nr. 23 við Eiríksgötu í íbúð en slík breyting hafi ekki verið samþykkt á lóð nr. 21. Landhalli liggi niður Eiríksgötuna og kjallarinn á lóð nr. 23 sé mun minna niðurgrafinn og með stærri kjallaraglugga en kjallarinn á lóð nr. 19. Í gr. 6.7.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 komi fram þau skilyrði sem íbúðir í kjallara þurfi að uppfylla og hafi í afgreiðslu byggingarfulltrúa ekki verið tekin afstaða til þess hvort þau væru uppfyllt. Samkvæmt a.-lið framangreinds ákvæðis skuli minnst ein hlið íbúðar­rýmis ekki vera niðurgrafin. Til þess að uppfylla skilyrði a.-liðar þyrfti að grafa frá stórum hluta framhliðar hússins. Slík framkvæmd myndi breyta útliti hússins mikið að utan og hlutföll þess myndu raskast auk þess sem þetta hefði áhrif á heildarmynd götunnar sem væri ekki í anda hverfisverndar aðalskipulags.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir breytingum á fjöleignarhúsi á lóð nr. 19 við Eiríksgötu. Ráðgert var að breyta notkun kjallararýmis og fjölga eignarhlutum með stofnun tveggja nýrra fasteigna þannig að í húsinu yrðu fjórar íbúðir í stað tveggja. Um leið var óskað heimildar fyrir breytingum á innra skipulagi og á útliti hússins, þ.e. með gerð nýrra dyra og stækkun glugga sem og til breytinga á lóð með greftri frá húsinu.

Samkvæmt 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis upp­fylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Þá verða byggingaráform aðeins samþykkt og gefið út byggingarleyfi ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulags­áætlanir viðkomandi svæðis, sbr. 11. gr og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna. Samþykki byggingaráforma felur með þessu í sér það sem kalla má óbeina ákvörðun samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010, en í 3. málsl. 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki er mælt fyrir um að ef mannvirki er háð byggingarleyfi skuli byggingarfulltrúi leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er landnotkun umrædds svæðis, ÍB12, skilgreind sem íbúðarbyggð. Ekki er í gildi deiliskipulag á svæðinu. Svæði sem lúta borgarvernd í aðal­skipulaginu eru skilgreind sem hverfisverndarsvæði en hverfisverndin byggir á 2. gr. skipulags­laga um ákvæði í skipulagi um m.a. verndun sérkenna eldri byggðar. Umrætt svæði,  innan Hringbrautar, er slíkt svæði og eru sett markmið og ákvæði um hverfisvernd í skipulaginu. Meðal þeirra er að varðveita skuli og styrkja einkenni og heildaryfirbragð gamla bæjarins og að við þróun byggðar verði gætt ítrustu varúðar og meginmarkmiðum borgarverndarstefnu fylgt í hvívetna. Þá kemur m.a. fram að svipmóti húsa á tilgreindum verndarsvæðum, sem verði nánar afmörkuð í deili- og/eða hverfisskipulagi, varðandi ytra byrði, veggáferð, gluggagerðir og þak, verði sem minnst raskað og endurbygging miðist sem mest við upphaflega gerð hússins. Sama gildi t.a.m. um afmörkun lóða, svo sem garðveggi og girðingar. Þá kemur fram í viðauka 8. við aðalskipulagið að á svæðinu innan Hringbrautar séu samstæður húsa og heildir sem lagt sé til að vernda með hverfisvernd í deiliskipulagi vegna umhverfislegrar sérstöðu þeirra.

Í umsögn skipulagsfulltrúans í Reykjavík, dags. 22. febrúar 2024, var vísað til markmiða hverfisverndar innan Hringbrautar um að varðveita og styrkja heildaryfirbragð gamla bæjarins. Því markmiði yrði náð með því að gæta ýtrustu varúðar við þróun byggðar innan svæðisins og fylgja meginmarkmiðum borgarverndarstefnu í hvívetna. Í því felist m.a. breytingar á ytra útliti bygginga og lóða. Fram kom að með byggingaráformunum væri gert ráð fyrir að gengið yrði inn í íbúðir í kjallara um framhlið hússins á lóð nr. 19 við Eiríksgötu og að til þess að það væri hægt þyrfti að grafa frá stórum hluta framhliðarinnar og gera tröppur niður. Slík fram­kvæmd myndi breyta húsinu mikið að utan og hlutföll þess myndu raskast sem ekki væri í anda hverfisverndar. Þá var vísað til þess að gert hafi verið rammaskipulag fyrir reitinn þar sem gert hafi verið ráð fyrir því að ekki yrðu samþykktar eða gerðar nýjar íbúðir í kjöllurum eða á rishæðum. Í umsögn skipulagsfulltrúans, sem var lögð til grundvallar við töku hinnar kærðu ákvörðunar, var með þessu færð fram efnisleg afstaða til byggingaráformanna á grundvelli sjónarmiða aðalskipulags um hverfisvernd. Í ljósi þess að ekki hefur verið unnið hverfis- eða deiliskipulag fyrir svæðið, svo sem gert er ráð fyrir í aðalskipulagi, hefði rökstuðningur þessi mátt vera ítarlegri, sem þó verður ekki látið varða gildi ákvörðunarinnar.

Þar sem í téðri umsögn skipulagsfulltrúans var vísað til rammaskipulags var átt við ramma­skilmála að breytingum á húsum á staðgreinireitum 1.195.0-1-2-3, sem saman markast af Egilsgötu, Barónsstíg, Eiríksgötu og Þorfinnsgötu, og samþykktir voru af borgarráði 8. nóvember 1988. Úrskurðarnefndin leitaði upplýsinga hjá Skipulagsstofnun um hvort þessir skilmálar hefðu borist stofnuninni með vísun til 5. tl. ákvæðis til bráðabirgða í skipulagslögum nr. 123/2010 og barst svar þess efnis að ekki yrði séð að svo væri. Verður því ekki á þeim byggt sem skipulags­skilmálum þrátt fyrir að þeir kunni að vera leiðbeinandi. Er það í samræmi við umsögn skipulagsfulltrúans þar sem greint var frá ákvæðum rammaskilmálanna um nýjar íbúðir í kjöllurum um leið og tekið var fram að almennt séu ekki gerðar athugasemdir við fjölgun íbúða, gefi forsendur tilefni til, s.s. ef ekki þurfi að raska útliti friðaðra húsa og næg birtuskilyrði séu til staðar.

Kærandi hefur vísað til þess að veitt hafi verið leyfi fyrir íbúðum í kjöllurum á svæðinu og m.a. í kjallara í sama fjöleignarhúsi á lóðum nr. 21 og 23 ásamt því að íbúð sé í kjallara húss á lóð nr. 17 við sömu götu, þ.e. í næsta húsi. Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar verður ekki séð að fjallað hafi verið um þessar röksemdir. Í umsögn borgaryfirvalda til úrskurðar­nefndarinnar hefur af þessu tilefni verið greint frá því að af hálfu borgarinnar hafi ekki verið samþykkt að breyta kjallara húss á lóð nr. 21 við Eiríksgötu í íbúð. Árið 1987 hafi þó verið samþykkt að breyta kjallara húss á lóð nr. 23 í íbúð. Það hafi verið í tíð eldri byggingar­reglugerðar. Þá liggi landhalli niður Eiríksgötuna og sé því kjallarinn í húsi nr. 23 mun minna niðurgrafinn og með stærri kjallaraglugga en á lóð nr. 19. Þá séu í núgildandi byggingar­reglugerð, gr. 6.7.4., gerðar aðrar kröfur en í eldri byggingarreglugerðum um hvaða skilyrði íbúðir í kjallara þurfa að uppfylla auk þess sem hverfisvernd aðalskipulags hafi ekki verið til staðar. Samkvæmt fasteignaskrá voru árið 2001 skráðar íbúðir í kjallara á lóðum nr. 17, 21 og 23 við Eiríksgötu. Eru slíkar íbúðir sýndar í kjallara húsa á lóð nr. 23 á samþykktum aðal­uppdrætti árið 1987 og á lóð nr. 17 árið 2017. Verður í ljósi þessara skýringa, þar sem dregin eru fram aðdragandi og einkenni endurbóta í kjöllurum á svæðinu og með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa að öðru leyti, ekki álitið að ástæða sé til að ætla að hin kærða ákvörðun stríði gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Sú ábending er að lokum gerð að skv. 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki skal umsókn um byggingarleyfi m.a. fylgja samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og verður ekki ráðið af gögnum málsins að þessa hafi verið gætt, sbr. 21. gr., 1. og 3. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 30. gr. laganna, eftir því sem við á. Hefði því verið óheimilt við svo búið, þegar af þeirri ástæðu, að samþykkja téð byggingaráform.

Með vísan til alls framangreinds verður hafnað kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á fjöleignarhúsi á lóð nr. 19 við Eiríksgötu.

24/2024 Túngata

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 6. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. janúar 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu á íbúðarhúsi á lóð nr. 36a  við Túngötu í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 28. febrúar 2024, kærir eigandi að Marargötu 7, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. janúar 2024 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu á íbúðarhúsi á lóð nr. 36a við Túngötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. mars 2024.

Málavextir: Á Túngötu 36 og 36a er parhús. Hinn 26. ágúst 2022 kvað úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp úrskurð í máli nr. 22/2022 þar sem felld var úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars s.á. um að samþykkja leyfi fyrir áður gerðum breytingum á húsinu að Túngötu 36a. Fólust þær breytingar í því að í stað glugga á norðurhlið hússins voru settar dyr sem stækkaði opið auk þess sem gerðar voru svalir eða pallur með tröppum niður á lóðina. Í niðurstöðu nefndarinnar kom fram að ekki væri loku fyrir það skotið að umdeildar framkvæmdir gætu haft grenndaráhrif gagnvart fasteign kæranda, s.s. vegna auk­innar innsýnar og breyttrar umferðar um lóð leyfishafa. Ætti undantekningarregla 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 því ekki við og hefði borgaryfirvöldum borið að grenndar­kynna hina umdeildu umsókn fyrir kæranda og öðrum er gætu átt hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 30. janúar 2024 var samþykkt umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu á húsinu að Túngötu 36a. Fólst hún í það sinn aðeins í síkkun glugga á norðurhlið hússins. Var umsóknin talin samræmast ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010. Jafnframt var tekið fram að um væri að ræða samþykkt á framkvæmd sem gerð hefði verið án byggingarleyfis. Fékk framkvæmdar­aðili sent bréf, dags. 5. febrúar 2024, þar sem fram kom að umsókn hans um byggingarleyfi hefði verið samþykkt.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að með hinni kærðu ákvörðun sé hunsaður úrskurður úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 22/2022. Við undirbúning ákvörðunar­innar hafi ekki farið fram grenndarkynning en innsýn í íbúð sé óbreytt frá fyrra máli. Þá fáist ekki séð að Minjastofnun Íslands hafi fjallað um breytinguna, en hús á lóðum Túngötu 36 og 36a hafi verið reist fyrir árið 1940 og falli því undir áskilnað 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Jafnframt verði hvorki séð hvort sameigandi parhússins hafi samþykkt umrædda framkvæmd né hvers vegna vísað hafi verið til þess við afgreiðslu málsins að fyrir lægi samþykki lóðarhafa Túngötu 23. Sé um rökstuðning fyrir kæru vísað til rökstuðnings úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 22/2022.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. Engir þeir form- eða efnisannmarkar liggi fyrir sem leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Sérstaklega hafi verið horft til þess að fyrirliggjandi umsókn væri talsvert frábrugðin fyrri umsókn frá árinu 2022. Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 22/2022 hafi umsækjandi lagt fram nýja umsókn um byggingarleyfi, dags. 18. október 2023, þar sem einungis hafi verið sótt um leyfi fyrir áðurgerðum breytingum er fólust í síkkun glugga á norðurhlið hússins. Litið hafi verið til þess að á húsinu hafi verið minni gluggi frá byggingu þess og staðfestu upphaflegar teikningar það. Eftir vettvangsskoðun byggingarfulltrúa og mat á umfangi og grenndaráhrifum breytingarinnar gagnvart fasteign kæranda hafi umsóknin verið samþykkt. Byggingar­­fulltrúi hafi talið breytinguna í engu skerða hagsmuni nágranna hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn og því hafi ekki verið tilefni til að grenndarkynna umsóknina, sbr. loka­málslið 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsókninni hafi fylgt samþykki sameiganda að Túngötu 36 og þar með hafi skilyrði um samþykki meðeiganda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús verið uppfyllt, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en tilvísun til samþykkis lóðar­hafa Túngötu 23 í fundargerð byggingarfulltrúa frá 30. janúar 2024 hafi verið ritvilla sem búið sé að lagfæra.

Breytingin muni ekki hafa aukin grenndaráhrif í för með sér gagnvart fasteign kæranda, hvorki hvað varði innsýn né önnur grenndaráhrif. Snúi umræddur gluggi að bakgarði og girðingu milli Túngötu 36a og fasteignar kæranda. Framkvæmdir á Túngötu 36a hafi verið gerðar á árinu 2021 en þá hafi verið við það miðað í 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar að leita skyldi umsagnar Minjastofnunar Íslands væru hús byggð árið 1925 eða fyrir þann tíma. Það hafi ekki verið fyrr en með breytingarlögum nr. 126/2022 sem tekið hafi gildi 1. janúar 2023 sem miðað hafi verið við að leita skyldi umsagnar vegna húsa sem byggð væru fyrir árið 1940. Þar sem samþykki byggingarfulltrúa hafi tekið til áðurgerðra breytinga hafi hann ekki talið sig skyldan til að fylgja því eftir hvort umsækjandi hefði leitað álits Minjastofnunar Íslands. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 80/2012 skyldu eigendur leita álits stofnunarinnar áður en ráðist væri í verulegar breytingar, flutning eða niðurrif. Um hafi verið að ræða minniháttar breytingu á einum glugga sem falli þar af leiðandi ekki undir 30. gr. laganna.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila, fyrri eiganda Túngötu 36a, er tekið fram að eftir úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 22/2022 hafi eigendur hætt við þau áform sín að byggja stigapall og tröppur niður á plan norðan megin við húsið en eftir hafi staðið síkkun glugga í stofu. Slík framkvæmd sé ekki byggingar­leyfisskyld en skuli tilkynnt byggingarfulltrúa. Þar sem síkkunin hafi verið framkvæmd áður en byggingarfulltrúa hafi verið tilkynnt um fyrirhugaða síkkun hafi embættið ákveðið að sækja skyldi um byggingarleyfi. Ekki hafi verið gefið út byggingarleyfi enda framkvæmdin eingöngu tilkynningaskyld.

Marargata 7 standi töluvert hærra en Túngata 36a og hafi því innsýn frá Marargötunni verið mikil áður en glugginn hafi verið síkkaður. Snúi sex stórir stofugluggar að Túngötu 36a þar sem á móti hafi verið fimm misstórir gluggar. Standist húsin ekki alveg á og að auki séu 30 m frá glugganum á Túngötu 36a að húsi kæranda og nokkur gróður á milli húsanna. Vegna fjarlægðar og afstöðu verði ekki séð hvernig innsýn kæranda inn um einn síkkaðan glugga í stofu Túngötu 36a geti haft nokkur slík grenndaráhrif að tilefni sé til kærunnar.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að meðal þeirra gagna sem fylgt hafi umsögn Reykjavíkurborgar sé teikning arkitekts sem dagsett sé 18. október 2023. Geri kærandi ráð fyrir að umrædd teikning sé flokkuð sem byggingarleyfisumsókn sem tekin hafi verið afstaða til á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. janúar 2024. Ný umsókn um byggingarleyfi hafi því borist frá tilgreindum arkitekt rúmi ári eftir að úrskurðarnefndin hafi kveðið upp úrskurð sinn í máli nr. 22/2022. Þegar umsóknin hafi verið lögð inn hjá Reykjavíkurborg hafi lög nr. 126/2022 sem breytt hafi lögum nr. 80/2012 um menningarminjar tekið gildi. Sú lagaskylda að leita skuli umsagnar Minjastofnunar Íslands hafi ekki verið uppfyllt. Það sé útilokað að það sé hlutverk Reykjavíkurborgar að leggja mat á það hvaða breytingar á húsum sem falli undir 30. gr. laganna teljist minniháttar eða meiriháttar, verulegar eða óverulegar. Slíkt mat sé í höndum Minjastofnunar, ef það eigi yfirleitt að fara fram. Hafi starfsmaður Reykjavíkurborgar óskað eftir afstöðu stofnunarinnar til umsóknarinnar og í svari 21. mars 2024 hafi m.a. komið fram að stofnunin teldi umræddar breytingar umsagnarskyldar skv. 30. gr. laga nr. 80/2012. Reykjavíkurborg hafi hunsað þessa niðurstöðu og upplýst nefndina um að byggingarfulltrúi teldi að ekki væri þörf á því að leita álits Minjastofnunar.

Fyrir óleyfisframkvæmd fyrri eigenda Túngötu 36a hafi gluggi á norðurvegg hússins við Túngötu 36a verið þannig staðsettur að eigendur íbúða gegn nefndri íbúð hafi ekki séð inn í hana. Hafi framkvæmdirnar falist í því að téður gluggi hafi í það minnsta verið tvöfaldaður að stærð. Eftir breytinguna hafi innsýn aukist verulega inn í íbúðina frá íbúðum við Marargötu 7.

Eigendaskipti hafa orðið að Túngötu 36a og hafa nýir eigendur tekið undir málatilbúnað borgaryfirvalda.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 6. júní 2024.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. janúar 2024 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu sem fólst í því að gluggi á 1. hæð norðurhliðar íbúðarhúss á lóð nr. 36a við Túngötu var síkkaður.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Með hinu umdeilda leyfi var fallist á stækkun glugga á norðurhlið hússins að Túngötu 36a. Á þremur hæðum hússins á þeirri hlið hafa frá byggingu þess árið 1937 verið níu gluggar. Sá gluggi sem um er deilt í málinu nær nú niður á gólf. Glugginn er í stofu hússins og við hlið hans er stærri stofugluggi og er sambærilegur gluggi í hinum hluta parhússins, þ.e. í þeim hluta sem er á lóð nr. 36 við Túngötu. Hvorki verður séð að innsýn yfir á lóð kæranda aukist að neinu marki né að aukin innsýn hans vegna síkkunar gluggans snerti lögvarða hagsmuni hans með þeim hætti að játa verði honum kæruaðild vegna hinnar umdeildu ákvörðunar. Þá teljast sjónarmið um verndun mannvirkja samkvæmt lögum nr. 80/2012 um menningarminjar til almanna­hagsmuna en slík sjónarmið teljast að jafnaði ekki til einstaklingsbundinna hagsmuna. Verður kærumáli þessu af framangreindum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

54/2024 Laugarásvegur

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 6. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2024 um að krefjast þess að kærendur fjarlægi skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61 innan 14 daga, en verði ekki orðið við þeirri kröfu áformi embættið að leggja á dag­sektir að fjárhæð kr. 25.000.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra lóðarhafar Laugarásvegar 63, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2024 að krefjast þess að þeir fjarlægi skjólvegg við mörk lóðarinnar og lóðar nr. 61 við sömu götu innan 14 daga, en verði ekki orðið við þeirri kröfu áformi embættið að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 25.000. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 24. maí 2024, var réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar frestað að kröfu kærenda á meðan mál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. maí 2024.

Málavextir: Samkvæmt gögnum máls þessa er nokkur ágreiningur milli lóðarhafa lóða nr. 61 og 63 við Laugarásveg vegna framkvæmda á síðarnefndu lóðinni. Reistur hefur verið skjólveggur á mörkum lóðanna og hafa borgaryfirvöld til meðferðar mál er varða m.a. heitan pott á lóð nr. 63 við Laugarásveg. Auk þess kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í máli nr. 31/2024 hinn 30. maí 2024 sem varðaði stoðvegg á mörkum lóða nr. 59 og 63 við Laugarásveg.

Í bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 2. febrúar 2024, kom fram að þeim væri gert að leggja fram byggingarleyfisumsókn og skriflegt samþykki lóðarhafa lóðar nr. 61 við Laugarásveg vegna girðingar á mörkum lóðanna innan 14 daga. Var bent á að yrði tilmælunum ekki sinnt yrði tekin ákvörðun um framhald málsins sem gæti falið í sér að ráðist yrði í úrbætur á kostnað kærenda eða dagsektum beitt. Í tölvubréfi kærenda til byggingarfulltrúa, dags. 28. febrúar 2024, kom fram að gerð yrði „lokatilraun á allra næstu dögum til að ná samkomulagi á milli lóðarhafa, ef það náist ekki verði girðingin færð eða fjarlægð með deildum kostnaði þegar frost fari úr jörðu.“ Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa degi síðar var framangreint fært til bókar. Í tölvubréfi til kærenda, dags. 1. mars s.á., kom fram að veittur væri frestur til 31. s.m. til að reyna að ná samkomulagi við eiganda Laugarásvegar 61 um girðingu á mörkum lóðanna og senda það til byggingarfulltrúa. Að öðrum kosti þyrfti að fjarlægja vegginn, líkt og kærendur hefðu sagst ætla að gera. Með tölvubréfi, dags. 4. apríl 2024, var sá frestur framlengdur til 18. s.m. Slíkt samkomulag barst ekki til byggingarfulltrúa og sendi hann kærendum bréf, dags. 23. s.m., þar sem fram kom að veittur væri lokafrestur til að fjarlægja skjólvegg við mörk lóðar nr. 61 en yrði hann ekki fjarlægður innan 14 daga frá móttöku bréfsins áformaði byggingarfulltrúi að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 25.000 fyrir hvern þann dag sem það drægist. Var jafnframt veittur 14 daga frestur til að koma að andmælum. Í bréfinu var vísað til 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Jafnframt var bent á kæruheimild til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess á að hinn umdeildi skjólveggur hafi staðið í þrjú og hálft ár og kostnaður við hann hafi verið um tvær milljónir króna. Veggurinn hafi verið reistur í góðu samkomulagi og að hluta til í samstarfi við eiganda aðliggjandi lóðar. Þegar kærendur hafi óskað skriflegs samþykkis hafi það þó ekki fengist og munnlegt samþykki afturkallað með textaskilaboðum 20. júní 2023. Þar hafi jafnframt komið fram að skriflegt samþykki yrði ekki veitt. Eigendur Laugarásvegar 61 hafi ekki krafist stöðvunar framkvæmda þegar skjólveggurinn var reistur og hafi fyrst með málarekstri þessum verið óskað eftir því að veggurinn yrði fjarlægður.

Skjólveggurinn ógni ekki almannahagsmunum og af honum stafi ekki slysahætta. Ekki standi því málefnaleg rök til að beita verulega íþyngjandi þvingunarúrræðum líkt og dagsektum. Þá samræmist það ekki venjubundinni framkvæmd að leggja á dagsektir í málum sem þessum, sbr. m.a. úrskurði úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 98/2022, 116/2022 og 52/2023. Hin kærða ákvörðun gangi því gegn meginreglum stjórnsýsluréttarins um réttmæti, jafnræði og meðalhóf sem lögfestar séu að hluta í 1. mgr. 11. gr. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Taka verði mið af munnlegu samþykki eigenda Laugarásvegar 61 sem og tómlæti þeirra.

Málsmeðferð byggingarfulltrúa sé háð verulegum annmörkum. Hann hafi hvorki gefið kærendum færi á að nýta lögvarinn rétt til andmæla áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin né hafi hann leiðbeint kærendum um rétt þeirra til rökstuðnings hinnar kærðu ákvörðunar. Samrýmist það ekki 13. gr. og 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að ekki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir hinum umdeilda skjólvegg samkvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki, en hann sé ekki undanþeginn byggingarleyfi samkvæmt e-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og ekki sé til staðar samkomulag um vegginn samkvæmt 3. mgr. gr. 7.2.3. reglugerðarinnar. Hvorki ákvæðum laga um mannvirki né byggingarreglugerðar hafi því verið fylgt við framkvæmdina.

Við töku ákvörðunar um að aðhafast ekki vegna stoðveggjar á mörkum lóða nr. 59 og 63 við Laugarásveg, dags. 29. febrúar 2024, sem fjallað hafi verið um í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 31/2024 frá 30. maí 2024, hafi sérstaklega verið bókað að kærendur hygðust fjarlægja hina umdeildu girðingu ef ekki næðist samkomulag við lóðar­hafa aðliggjandi lóðar nr. 61. Byggi bókunin m.a. á loforði kærenda.

Það sé hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010. Í 55. og 56. gr. laganna sé kveðið á um þvingunarúrræði þau sem honum séu tiltæk til að fylgja eftir ákvörðunum sínum. Þannig sé í 1. mgr. 55. gr. m.a. tekið fram að byggingarfulltrúi geti gripið til aðgerða sé ekki farið að ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar séu samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdina. Þá sé kveðið á um það í 2. mgr. að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi fengist fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að beita dagsektum eða vinna slík verk á hans kostnað.

Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða sé háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið fram í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Byggingarfulltrúi hafi reynt til hins ítrasta að finna niðurstöðu sem aðilar gætu sætt sig við og hafi beðið lengi eftir því að samkomulag myndi nást vegna girðingarinnar á sameiginlegum lóðamörkum þeirra og veitt fresti í því skyni. Það hafi verið mat byggingarfulltrúa að meðalhófi hefði verið beitt með því að fara ekki fram á að steyptur veggur á lóð kærenda yrði fjarlægður en í staðinn yrði hin umdeilda girðing fjarlægð eða færð innar á lóðina. Á þann hátt mætti mæta kröfum beggja aðila þannig að sem minnst tjón hlytist af fyrir þá sem þegar höfðu lagt í kostnað vegna óleyfisframkvæmdarinnar. Kærendur hafi virst sáttir við þá niðurstöðu allt þar til komið hafi að því að fjarlægja girðinguna.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur er benda á að hin kærða ákvörðun verði ekki byggð á meintum yfirlýsingum um að þeir myndu fjarlægja skjólvegginn. Því sé hafnað að ummæli þeirra feli í sér bindandi yfirlýsingu um að veggurinn verði fjarlægður, líkt og lagt sé út af í umsögn Reykjavíkurborgar og bókun byggingarfulltrúa. Ummælin hafi verið háð skilyrði um kostnaðarskiptingu, sbr. orðalagið „með deildum kostnaði“. Ekkert liggi fyrir um slíka skiptingu.

Hin kærða ákvörðun verði ekki byggð á sjónarmiðum um að koma til móts við lóðarhafa Laugarásvegar 61 og breyti engu í því sambandi að þeim líki illa niðurstaða annars máls um steyptan vegg á mörkum Laugarásvegar 59 og 63. Sé framangreint sjónarmið ómálefnalegt og gangi gegn réttmætisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2024 um að krefjast þess að kærendur fjarlægi skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61 innan 14 daga, en verði ekki orðið við þeirri kröfu áformi embættið að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 25.000.

Gildissvið laga nr. 160/2010 um mannvirki nær skv. 1. mgr. 2. gr. til allra mannvirkja á landi og eru girðingar í þéttbýli þar nefndar í dæmaskyni. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna er óheimilt að reisa mannvirki nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingar­fulltrúa. Í 2. mgr. 55. gr. er svo mælt fyrir um að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki sé fjarlægt.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um mannvirkjagerð sem undanþegin er byggingarheimild og -leyfi. Er beiting greinarinnar háð því skilyrði að framkvæmdir séu í samræmi við deiliskipulag, en á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag. Þá eru skilyrði e-liðar nefndrar greinar, svo sem um undirritað samkomulag, ekki uppfyllt. Í 2. og 3. mgr. gr. 7.2.3. í reglugerðinni er kveðið á um að afla skuli byggingarleyfis vegna girðinga og skjólveggja á lóðum nema framkvæmdirnar séu undanþegnar byggingarleyfi skv. áðurnefndri gr. 2.3.5. og að alltaf skuli liggja fyrir samþykki beggja lóðarhafa áður en hafist er handa við smíði girðingar eða skjólveggjar. Samkvæmt framansögðu er hinn umdeildi skjólveggur byggingar­leyfis­skyldur og óumdeilt að ekki hefur fengist byggingarleyfi fyrir honum. Var byggingar­fulltrúa því heimilt að krefjast þess af kærendum að þeir fjarlægðu skjólvegginn.

Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að beita dagsektum allt að kr. 500.000 til að knýja menn til þeirra verka sem þeir skulu hlutast til um samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim eða láta af ólögmætu athæfi. Líta verður svo á að með hinni kærðu ákvörðun hafi byggingarfulltrúi ekki tekið lokaákvörðun um álagningu dagsekta heldur einungis krafist þess af kærendum að aðhafast með tilgreindum hætti og tilkynnt þeim jafnframt að áformað væri að leggja á dagsektir ef kærendur myndu ekki verða við kröfunni. Þeim áformum hefur ekki verið hrint í framkvæmd með ákvörðun um álagningu dagsekta og liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður þeim hluta málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2024 um að krefjast þess að kærendur fjarlægi skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61. Að öðru leyti er máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

46/2024 Hestagerði við Markarveg

Með

Árið 2024, föstudaginn 31. maí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 46/2024, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Kópavogsbæjar vegna erindis kæranda um hestagerði austan við lóð Markavegar 9.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 14. apríl 2024, kærir eigandi lóðarinnar Markavegar 9 í Kópavogi, aðgerðarleysi Kópavogsbæjar vegna hestagerðis austan við lóð kæranda. Er þess krafist að úrskurðarnefndin geri sveitarfélaginu að bregðast við erindi kæranda og taka ákvörðun í málinu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 16. maí 2024.

Málsatvik og rök: Í ágúst 2019 sendi kærandi bréf til umhverfissviðs Kópavogsbæjar þar sem gerðar voru athugasemdir við hestagerði Hestmannafélagsins Spretts sem staðsett er austan við lóð kæranda að Markavegi 9. Lutu athugasemdirnar aðallega að hæð gerðisins og skorti á dreni og niðurfalli, en það taldi kærandi að myndi leiða til snjó- og vatnssöfnunar á lóð hans. Óskaði hann eftir svörum við tilteknum spurningum og krafðist aðgerða af hálfu sveitarfélagsins, m.a. um að bærinn myndi byggja nýtt hringgerði í eðlilegri hæð. Svaraði sveitarfélagið fyrirspurnum kæranda 2. september s.á. en ekki var tekin afstaða til krafna hans. Hinn 12. júlí 2022 sendi kærandi bréf til umhverfissviðs og byggingarfulltrúa Kópavogs þar sem ítrekaðar voru athugasemdir um hestagerðið, m.a. að það væri í ósamræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012. Fór kærandi fram á að sveitarfélagið myndi bregðast við „þessari óleyfisframkvæmd og tryggja að gengið verði frá málum í samræmi við lög“. Einnig krafðist hann þess að sveitarfélagið myndi klára að leggja gangstéttir og steypa veggi á tilgreindum stöðum á svæðinu. Kærandi og sveitarfélagið voru svo í frekari samskiptum vegna málsins á árinu 2023 en í október það ár tilkynnti lögmaður sveitarfélagsins kæranda að málið væri í skoðun. Hinn 6. desember 2023 var af hálfu kæranda óskaði eftir svari við því hvort byggingarfulltrúi hygðist bregðast við erindi hans. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni sem fyrr segir 14. apríl 2024. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. maí s.á., var kröfum kæranda um aðgerðir af hálfu sveitarfélagsins hafnað.

Í kæru sinni bendir kærandi á að umdeilt hestagerði sé ekki í samræmi við byggingarreglugerð en hæðarmunur valdi snjó-, aur- og steinfoki á lóð hans auk þess sem vatn renni inn á hana með tilheyrandi tjóni og óþægindum. Ítrekað hafi hann reynt að fá byggingarfulltrúa eða Kópavogsbæ til að bregðast við í samræmi við lög en aldrei hafi verið brugðist við eða gefnar viðunandi skýringar á því af hverju ekki sé þörf á því. Slíkt sé í andstöðu við lög nr. 160/2010 um mannvirki, byggingarreglugerð, málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og góða stjórnsýsluhætti.

Kópavogsbær krefst þess að úrskurðarnefndin vísi kærumálinu frá þar sem brugðist hafi verið við erindum kæranda og hafi hann því ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki frekar sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Verði ekki fallist á frávísun málsins sé þess krafist að kröfum kæranda um aðgerðir af hálfu Kópavogsbæjar verði hafnað með vísan til þeirra raka sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. maí 2024.

Niðurstaða: Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Kæra í máli þessu lýtur að drætti á afgreiðslu Kópavogsbæjar á erindi kæranda um að sveitarfélagið bregðist við í tilefni af hestagerði Hestamannafélagsins Spretts sem staðsett er austan við lóð kæranda að Markavegi 9. Líta verður svo á að í erindinu felist beiðni um beitingu þvingunarúrræða á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki, en skv. 59. gr. laganna sæta stjórnvaldsákvarðanir teknar á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er málinu því réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar.

Fyrir liggur að eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni brást sveitarfélagið við og afgreiddi umrætt erindi kæranda. Var það gert með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. maí 2024, þar sem fram kom það mat byggingarfulltrúa að umrætt hestagerði væri hvorki í ósamræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012 né byggingarleyfisskyld framkvæmd. Kröfum kæranda um gerð gangstétta og veggja var svarað á þann veg að slíkar framkvæmdir væru ekki í samræmi við deiliskipulag. Væri það mat embættisins að um einkaréttarlegan ágreining væri að ræða og að ekki væri tilefni til að grípa til þvingunarúrræða af þeim sökum, enda yrði ekki séð að öryggis- eða almannahagsmunir knýi á um slíkar aðgerðir. Það væri ekki á ábyrgð Kópavogsbæjar að kosta úrbætur, s.s. með gerð stoðveggjar. Að lokum var kæranda leiðbeint um kæruheimild og kærufrest vegna ákvörðunarinnar.

Samkvæmt framansögðu hefur byggingarfulltrúi brugðist við erindi kæranda með fullnægjandi hætti. Hefur það því ekki þýðingu að úrskurða um drátt á afgreiðslu erindis hans, eftir atvikum til að knýja á um afgreiðslu málsins,  og verður kröfu kæranda því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

56/2024 Leiðhamrar

Með

Árið 2024, föstudaginn 31. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 56/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. apríl 2024 um að stöðva framkvæmdir við „byggingu skúrs“ á lóðamörkum Leiðhamra 52 og 54.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Leiðhömrum 54, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. apríl 2024 að stöðva framkvæmdir við „byggingu skúrs“ á lóðamörkum Leiðhamra 52 og 54. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. maí 2024.

Málsatvik og rök: Hinn 11. apríl 2024 barst byggingarfulltrúanum í Reykjavík ábending um að framkvæmdir væru hafnar á lóðinni Leiðhamrar 54 án tilskilins leyfis. Hinn 15. s.m. sendi embættið bréf til kæranda þar sem fram kom að hafnar væru framkvæmdir við byggingu skúrs á lóðarmörkum án leyfis aðliggjandi lóðarhafa, sbr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með bréfinu var tilkynnt um að allar byggingarleyfisskyldar framkvæmdir væru stöðvaðar með vísan til 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð. Yrði þeim tilmælum ekki sinnt myndi byggingarfulltrúi taka ákvörðun um framhald málsins sem gæti falist í aðstoð lögreglu, sbr. 4. mgr. 55. gr. laganna. Loks var leiðbeint um heimild til að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Hinn 23. s.m. fóru starfsmenn embættisins á vettvang og tóku myndir af framkvæmdunum.

Af hálfu kæranda er byggt á því að hann sé alls ekki að reisa smáhýsi sem þarfnist byggingarleyfis eða samþykki nágranna í skilningi gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Hið rétta sé að hann hafi sett upp skjólvegg fyrir heitan pott og útisturtu og hafi það verið gert að mestu fyrir nokkrum árum síðan og það eftir að hann hafi fengið leyfi eiganda nærliggjandi lóðar til að reisa 1,8 m hátt grindverk á lóðamörkum. Skjólveggirnir nái ekki yfir hið samþykkta grindverk og sé því ekki þörf á byggingarleyfi. Úrskurðað hafi verið um hæð grindverksins í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 98/2022. Auk þess sé bent á að aðstæður hafi ekki verið rannsakar nægjanlega áður en ákvörðun hafi verið tekin í málinu, en slíkt sé brot á 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda hafi ekki gefist færi á því að andmæla ákvörðuninni áður en hún hafi verið tekin, sem feli í sér brot á 13. og 14. gr. sömu laga. Einnig feli ákvörðunin í sér brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga þar sem ekki hafi verið tekið til skoðunar hvort beita hefði mátt vægari úrræðum.

Reykjavíkurborg fari fram á að kröfum kæranda verði vísað frá þar sem um málsmeðferðarákvörðun sé að ræða en ekki stjórnvaldsákvörðun sem bindi enda á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Byggingarfulltrúi hafi stöðvar framkvæmdirnar svo unnt væri að rannsaka og taka afstöðu til þess hvort og þá að hve miklu leyti væri um að ræða byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Enn hafi ekki verið tekin lokaákvörðun í málinu þar sem vafi leiki á því hvort framkvæmdirnar séu byggingarleyfisskyldar. Hafi því sú ákvörðun verið tekin að leita niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um það álitamál með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. apríl 2024 að stöðva framkvæmdir við „byggingu skúrs“ á lóð Leiðhamra 54 við mörk þeirra lóðar og lóðar nr. 52.

Samkvæmt 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er byggingarfulltrúa heimilt að stöðva byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skv. 9. gr. laganna ef ekki liggur fyrir tilskilið leyfi. Ákvörðun um stöðvun framkvæmda á grundvelli þeirra heimildar er bráðabirgðaákvörðun sem taka skal tafarlaust leiki grunur á því að framkvæmd sé án tilskilins leyfis. Í framhaldi hefur byggingarfulltrúi undirbúning endanlegrar ákvörðunar, sem eftir atvikum getur falist í að aflétta stöðvun eða beina tilmælum til framkvæmdaraðila um að bæta úr því sem áfátt er eða fjarlægja byggingarhluta.

Fyrir liggur að byggingarfulltrúi er enn með til athugunar hvort hinar umræddu framkvæmdir teljist byggingarleyfisskyldar og hefur hann af því tilefni óskað eftir áliti úrskurðarnefndarinnar þar um á grundvelli 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010. Er það mál til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og hefur það hlotið málsnúmerið 58/2024, en tekið skal fram að samkvæmt 2. málsl. ákvæðisins skal niðurstaða nefndarinnar liggja fyrir innan eins mánaðar frá móttöku erindisins. Með hliðsjón af framangreindu verður því að líta svo á að ákvörðun byggingarfulltrúa um að stöðva framkvæmdir sé bráðabirgðaákvörðun sem ekki sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður af þeim sökum að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

31/2024 Laugarásvegur

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 30. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. febrúar 2024 um að aðhafast ekki frekar vegna steypts veggjar á lóðamörkum Laugarásvegar 63 og 59, Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 21. mars 2024, kærir eigandi Laugarásvegar 61, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 29. febrúar 2024 að aðhafast ekki frekar vegna steypts veggjar á lóðamörkum Laugarásvegar 63 og 59, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. apríl 2024.

Málavextir: Lóðarhafar Laugarásvegar 63 munu hafa reist steyptan vegg á lóðamörkum Laugarásvegar 63 og 59, en síðarnefnda lóðin er borgarland sem gengur einnig undir nafninu Gunnarsbrekka. Kærandi sendi umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar ábendingu vegna veggjarins í júlí 2023 og var lóðarhöfum Laugarásvegar 63 sent bréf 17. nóvember 2023 þar sem skýringa var óskað. Var erindið ítrekað 5. desember s.á. Engin viðbrögð bárust við bréfinu og var það sent með birtingapósti 18. s.m. Lóðarhafar Laugarásvegar 63 óskuðu með tölvubréfi, dags. 20. s.m., eftir 14 daga fresti til að bregðast við efni bréfsins. Viðbrögð bárust 10. janúar 2024 þar sem fram kom að lóðarhafar Laugarásvegar 63 hefðu ekki áttað sig á að sækja þyrfti um leyfi fyrir veggnum en til stæði að láta gera aðaluppdrætti og afstöðumynd sem myndi fylgja með leyfisumsókn. Byggingarfulltrúi sendi lóðarhöfunum ítrekunarbréf með birtingarpósti 2. febrúar s.á. og tókst sú birting 8. s.m. Í kjölfarið sendu lóðarhafar Laugarás­vegar 63 byggingarfulltrúa samþykki Reykjavíkurborgar sem lóðarhafa Laugarásvegar 59 ásamt teikningum hinn 28. s.m. Kom þar jafnframt fram fyrirspurn þess efnis hvort þörf væri á byggingarleyfi ef undirritað samkomulag lægi fyrir. Byggingarfulltrúi tók ákvörðun hinn 29. s.m. um að aðhafast ekki frekar hvað varðaði umdeildan vegg og bókaði:

„Upplýsa þarf eiganda að hann þarf að tilkynna til embættis byggingarfulltrúa heitapottinn. Komið samþykki frá Reykjavíkurborg sem aðliggjandi lóðarhafa lóð nr. 59 fyrir steypta stoðveggnum. Ekki þarf samþykki eiganda á lóð nr. 61 þar sem stoðveggurinn er fjær en 3 m. Bókað að byggingarfulltrúi mun ekki aðhafast frekar að því er varðar steypta vegginn. Eigandi lóðar nr. 63 hyggst gera lokatilraun til að ná samkomulagi með eiganda lóðarhafa nr. 61 varðandi girðingu á lóðarmörkum. Náist það ekki mun hann fjarlægja umrædda girðingu.“

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að umræddur veggur sé byggingarleyfis­skyldur, auk þess sé heitur pottur á lóð leyfishafa tilkynningarskyldur samkvæmt byggingar­reglugerð nr. 112/2012. Hvorki hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir umræddum vegg né útiskýli og hafi engin slík leyfi verið veitt. Þá hafi heitur pottur ekki verið tilkynntur til byggingarfulltrúa með lögformlegum hætti.

Rannsóknarregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið þverbrotin í málinu þar sem augljóst sé að lítil sem engin rannsókn hafi farið fram á áhrifum framkvæmdanna á lóð kæranda eða á almenna öryggishagsmuni. Þannig hafi engin formleg afstaða verið tekin af hálfu embættis byggingarfulltrúa til ábendinga kæranda. Ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki sé órökstudd með öllu og með engum hætti hægt að gera sér grein fyrir á hverju hún sé byggð.

Óvænt og skyndilegt „eftir á samþykki“ eignaskrifstofu Reykjavíkurborgar á því að fram­kvæmdin nái yfir lóðamörk gæti verið mögulegt skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis, en geti ekki verið nægjanleg ástæða þess að byggingarfulltrúi aðhafist ekki í málinu. Sú teikning sem eignaskrifstofan hafi fengið í hendurnar rétt fyrir afgreiðslufund byggingarfulltrúa sé án málsetningar og ekki sé getið um byggingarefni stoðveggjar og ekkert fjallað um breytingu á landslagi vegna jarðvegsrasks á borgarlandi á lóð Laugarásvegar 59. Óljóst sé hvort tölulegar upp­lýsingar um stærð mannvirkisins á lóðarmörkum hafi legið fyrir þegar eignaskrifstofan hafi samþykkt vegginn og teikninguna. Þá hafi borgarráð ekki veitt samþykki eins og venja sé fyrir þegar borgarlandi sé ráðstafað. Um byggingarleyfisskylda framkvæmd sé að ræða sem sé háð grenndarkynningu samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010, en ekkert deiliskipulag sé í gildi á lóðinni. Engar skipulagslegar heimildir séu þannig fyrir hendi.

Byggingarfulltrúi hafi sent lóðarhafa Laugarásvegar 63 bréf, dags. 2. febrúar 2024, þar sem veittur hafi verið 14 daga frestur til að leggja inn byggingarleyfisumsókn, m.a. fyrir hinum umdeilda vegg. Svo virðist sem byggingarfulltrúi hafi horfið frá þeirri kröfu án þess að ákvörðunin hafi verið afturkölluð með formlegum hætti. Kæranda hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um þá ákvörðun.

Ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki í máli þessu sé líklega lagalega fordæmis­gefandi. Þannig geti lóðarhafar í Reykjavík reist stóran steyptan vegg og útiskýli á lóðar­mörkum án þess að sækja um byggingarleyfi. Þá sé gerð athugasemd við óeðlilegan drátt á afgreiðslu máls hjá byggingarfulltrúa sem hafi fengið málið í hendurnar 11. júlí 2023 og lokið málinu í lok febrúar 2024. Engar teikningar séu til af útiskýli á lóð Laugarásvegar 63 og geti lóðarhafi því stækkað skýlið að vild, líkt og hann hafi gert hingað til.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Kvartanir kæranda sem hafi verið til meðferðar hjá byggingar­fulltrúa séu margþættar og varði hin kærða ákvörðun í máli þessu, sem snúi að steyptum vegg, einungis einn þátt þeirra umkvartana. Kvartanir sem snúi að heitum potti á lóð Laugarásvegar 63 og grindverki á lóðamörkum Laugarásvegar 61 og 63 séu enn í vinnslu. Þá hafi kærandi einnig kvartað yfir timburpalli á lóð Laugarásvegar 63 eftir að kæra í máli þessu hafi borist.

Byggingarfulltrúi hafi það hlutverk að hafa eftirlit með mannvirkjagerð, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og í 55. og 56. gr. laganna sé kveðið á um þvingunarúrræði sem mögulegt sé að nýta svo fylgja megi ákvörðunum eftir. Byggingarfulltrúi hafi haft mál er varðaði steyptan stoðvegg á lóðarmörkum til meðferðar frá 17. nóvember 2023 til 29. febrúar 2024. Málinu hafi lokið með ákvörðun þess efnis að aðhafast ekki frekar og þar með ákvörðun um að þvingunarúrræðum yrði ekki beitt til að knýja fram byggingarleyfis­umsókn eða að stoðveggurinn yrði fjarlægður.

Fyrir liggi að umræddur stoðveggur hafi verið reistur án leyfis. Rannsókn byggingarfulltrúa í málinu hafi snúið að því hvort tilefni væri til að beita þvingunarúrræðum mannvirkjalaga en 2. mgr. 55. gr. fjalli t.a.m. um þau úrræði sem í boði séu þegar byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fyrir henni. Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé háð mati byggingar­fulltrúa hverju sinni, en í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að mannvirkjalögum komi fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs.

Ákvörðun byggingarfulltrúa í máli þessu hafi byggt á málefnalegum sjónarmiðum. Líkt og fram komi í tölvubréfi til kæranda, dags. 5. mars 2024, hafi byggingarfulltrúi ekki talið forsendur fyrir því að halda málinu til streitu í ljósi samþykkis aðliggjandi lóðarhafa og vegna þess að ekki verði séð að hinn umþrætti veggur ógni öryggis- eða almannahagsmunum. Kæranda sé ekki tryggður lögvarinn réttur til þess að knýja byggingarfulltrúa til beitingar þvingunarúrræða.

Loftmynd af svæðinu sýni að umþrættur veggur nái ekki inn á lóð nr. 59 við Laugarásveg. Þá hafi ekkert komið fram í málinu sem renni stoðum undir þá kenningu kæranda að yfirborðsvatn renni nú í átt að Laugarásvegi 61. Veggurinn standi a.m.k. þrjá metra frá lóðamörkum kæranda og 13 m frá því húshorni kæranda sem næst standi veggnum.

 Athugasemdir eigenda Laugarásvegar 63: Af hálfu eigenda Laugarásvegar 63 er bent á að fyrir liggi samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, Laugarásvegar 59, vegna veggjarins, í sam­ræmi við e-lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Staðfesting byggingarfulltrúa þess efnis að ekki sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða liggi einnig fyrir. Aðrar fram­kvæmdir á lóð falli undir c- og d-lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar, en viðhald vegna lóða, girðinga, gerð palla og annar frágangur sé undanþeginn byggingarheimild og -leyfi, sem og tilkynningarskyldu.

Framkvæmdir á baklóð svipi til annarra minniháttar framkvæmda á lóðum í hverfinu. Skjól­veggi, palla og heita potta sé að finna við meirihluta einbýlishúsa í götum ofan Laugardals. Ekki verði séð hvernig framkvæmdin í heild sé frábrugðin þeim eða að hún skerði að einhverju marki hagsmuni kæranda. Inngangur og bílastæði séu á baklóð kæranda og þaðan séu 20 m að stoð­veggnum.

Leyfishafar telja nauðsynlegt að leiðrétta ýmsar rangfærslur sem fram komi í kæru. Teikning sú sem samþykkt hafi verið af Reykjavíkurborg sé í kvarða og innihaldi mál. Veggurinn, sem sé 2,2 m á hæð, sé allur á lóð nr. 63 og borgarlandi hafi því ekki verið ráðstafað. Stoðveggurinn sjáist ekki greinilega frá lóð kæranda. Þegar lauf séu á trjám sé veggurinn varla sýnilegur frá inngangi og bílastæði kæranda. Meira sjáist í vegginn á veturna. Ekki fáist séð að veggurinn skerði útsýni frá lóð eða gluggum kæranda að nokkru ráði. Þá sé það skoðun kæranda að veggurinn sé lýti í umhverfinu. Aðrir nágrannar og arkitektar hafi hrósað framkvæmdinni. Veggnum hafi verið slegið upp í anda hússins í takt við umsögn skipulagsfulltrúa við fyrirspurn leyfishafa. Horft hafi verið til gr. 6.5.4. í byggingarreglugerð við frágang á veggnum, en endanlegum frágangi sé ekki lokið. Útiskýli það sem kærandi vísi til sé pergóla sem sé opin að miklu leyti en lokuð yfir heitum potti með glæru plexígleri og svipi helst til skjólveggjar sem sé undanskilinn leyfum og tilkynningarskyldu skv. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Fullyrðing kæranda um að veggurinn beini vatni frá Gunnarstúni í átt að Laugarásvegi 61 sé ekki á rökum reist. Samkvæmt áliti fagaðila sem leyfishafi hafi aflað hafi komið fram að drenun við vegginn ætti frekar að losa vatn frá lóðinni en að auka það. Kærandi hafi í a.m.k. tvígang upplýst leyfis­hafa um leka í kjallara áður en stoðveggurinn hafi verið byggður, en ekki hafi verið upplýst um nýjan leka. Viðhald á eign kæranda sé einnig lítið sem ekkert, þakskyggni yfir svölum sé að hruni komið og þakið leki. Líklegt sé að löngu sé tímabært að drena lóðina við hús kæranda, en það standi á lægsta punkti fyrir neðan Gunnarstún. Þá beinast sleðaferðir niður Gunnarstún ekki í átt að veggnum, heldur fremur að lóð kæranda. Ekki þurfi að fá leyfi fyrir heitum potti, hann sé tilkynningarskyldur.

Baklóð kæranda snúi að Gunnarstúni og þar sé að finna inngang, bílastæði, ónýt grindverk og gróðurhús í niðurníðslu. Útsýni kæranda frá baklóð takmarkist einna helst af framangreindu, sem og gróðri. Þeir gluggar kæranda sem snúi að brekkunni séu stigagangsgluggi og langur eldhúsgluggi sem endi í brjósthæð. Erfitt sé að átta sig á hvaða útsýni kærandi missi enda liggi veggurinn ekki við lóð hans.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að afstaða byggingarfulltrúa að aðhafast ekki í málinu feli ekki í sér samþykki fyrir veggnum og því sé enn um óleyfisframkvæmd að ræða. Samþykki lóðarhafa Laugarásvegar 59 sé ekki það sama og að byggingarfulltrúi hafi samþykkt vegginn enda sé hann of hár og valdi slysahættu hjá börnum og varði því almanna­heill, ásamt því að valda leka í húsi kæranda.

Kærandi verði fyrir beinni og verulegri útsýnisskerðingu, ónæði og leka vegna veggjarins og sé öll sú óleyfisframkvæmd byggingarleyfisskyld. Samþykki skrifstofustjóra hafi verið óvænt þar sem frestur til að skila inn byggingarleyfisumsókn hafi verið liðinn.

Ósannað sé að fram hafi komið símleiðis að hinn umdeildi veggur þyrfti ekki byggingarleyfi. Þá hafi kærandi ekki orðið var við túnskriðu við lóðarmörk. Kærandi hafi látið framkvæma mælingu sem sýni að veggurinn sé á borgarlandi að hluta. Hann hafi verið reistur í óleyfi árið 2021 og fyrsti leki í húsi kæranda hafi orðið í norðausturhluta kjallara hússins árið 2022. Óljóst sé hvort og hvernig drenað sé við vegginn, enda ekki til neinar teikningar fyrir hann. Þá séu dæmi um að börn hafi klesst á vegginn í sleðaferðum niður brekkuna.

Varðandi athugasemdir Reykjavíkurborgar sé bent á að öryggis- og almannahagsmunum sé ógnað. Lína dregin á loftmynd sé ekki nægjanlega nákvæm til að kveða á um hvort veggurinn nái inn á borgarland og hafi kærandi undir höndum mælingaskýrslu frá skipulagssviði Reykjavíkurborgar þar sem fram komi að veggurinn nái inn á borgarland.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að aðhafast ekki frekar í tilefni af steyptum vegg á lóðamörkum Laugarásvegar 63 og 59. Ýmis önnur deiluefni eru nefnd í málsrökum lóðahafa Laugarásvegar 61 og 63, svo sem heitur pottur og timburpallur á lóð Laugarásvegar 63. Eru þau deiluefni enn í vinnslu hjá borgaryfirvöldum og hefur ekki verið tekin stjórnvaldsákvörðun í þeim málum, en skv. 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Deilur um grindverk á lóðamörkum Laugarásvegar 61 og 63 hafa ratað til úrskurðarnefndarinnar í öðru kærumáli, nr. 54/2024, og verður því ekki vikið frekar að þeim deilum í úrskurði þessum.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Kærandi í máli þessu er lóðarhafi Laugarásvegar 61 og liggur hinn umdeildi veggur ekki að lóðarmörkum hans. Hafa lóðarhafar Laugarásvegar 63 vísað til þess að veggurinn sjáist lítið sem ekkert frá inngangi kæranda, gluggum hans eða bílastæði. Í málinu liggja fyrir allnokkrar myndir af hinum umdeilda vegg, teknum frá lóð kæranda. Verður að líta svo á að veggurinn breyti ásýnd umhverfisins og útsýni kæranda að nokkru. Þá er ekki útilokað að tilvist veggjarins veiti vatni í auknum mæli á lóð kæranda, en halli er á landi ofan við vegginn. Með vísan til framangreinds verður litið svo á að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn máls þessa.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og í 55. og 56. gr. laganna er kveðið á um þvingunarúrræði þau sem honum eru tiltæk til að fylgja ákvörðunum sínum eftir. Í 1. mgr. 55. gr. er m.a. tekið fram að byggingarfulltrúi geti gripið til aðgerða ef ekki er fylgt ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdir. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. ákvæðisins að ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að beita dagsektum eða vinna slík verk á hans kostnað, sbr. 3. mgr. 55. gr. laganna.

Tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að sú breyting sé gerð frá fyrri lögum að byggingarfulltrúa sé heimilt að beita þvingunarúrræðum en sé það ekki skylt eins og verið hafði. Kemur þar fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Er ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða því háð mati stjórnvalds hverju sinni og gefur sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Fer það því eftir atvikum hvort nefndum þvingunarúrræðum verði beitt í tilefni af framkvæmd sem telst vera ólögmæt. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting þvingunarúrræða sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum, og fylgja þarf meginreglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að málefnaleg sjónarmið búi að baki ákvörðun.

Hugtakið mannvirki er skilgreint í 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 sem hvers konar jarðföst, manngerð smíð, sbr. einnig 55. tl. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Er hinn um­deildi veggur mannvirki í skilningi framangreindra ákvæða. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Í ákvæðinu er þó tekið fram að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undan­þiggja byggingarleyfi, að slíkar framkvæmdir séu einungs tilkynningarskyldar eða að gera skuli vægari kröfur um fylgigögn eða umsóknarferli.

Af ljósmyndum og samskiptum sem fyrir liggja í máli þessu er ljóst að hinn umdeildi veggur er steyptur og er fyrst og fremst gerður til að styðja við jarðveg, en landhalli er nokkur á svæðinu. Hugtökin skjól- og stoðveggur eru ekki skilgreind í byggingarreglugerð en í gr. 4.4.4. um lóðauppdrætti kemur fram að á uppdráttum skuli m.a. gera ráð fyrir skjólveggjum, sbr. c-lið, og stoðveggjum, sbr. d-lið. Er því í reglugerðinni gert ráð fyrir að um tvær gerðir af veggjum sé að ræða. Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð er fjallað um minniháttar mannvirkjagerð sem undanþegin er byggingarheimild og -leyfi. Er þar fjallað um skjólveggi í e-lið en stoð­veggir ekki nefndir sérstaklega. Skilyrði þess að heimilt sé að beita gr. 2.3.5. er að þau mannvirki eða framkvæmdir sem þar eru upp talin séu í samræmi við deiliskipulag. Í e-lið er svo tiltekið að lóðarhöfum samliggjandi lóða sé heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingar eða skjólveggi allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina. Miðað skuli við jarðvegshæð lóðar sem hærri er ef hæðarmunur sé á milli lóða á lóðarmörkum.

Óumdeilt er að hinn kærði stoðveggur var byggður án þess að byggingarleyfi hafi verið veitt. Af hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa má ráða að niðurstaða hans um að aðhafast ekki hafi ráðist af því að samþykki eiganda aðliggjandi lóðarinnar Laugarásvegar 59 hafi legið fyrir þegar sú ákvörðun var tekin. Kemur sú afstaða jafnframt fram í tölvupósti frá Reykjavíkurborg til kæranda 1. mars 2024.

Meginregla laga nr. 160/2010 er að byggingarleyfi þurfi fyrir mannvirkjagerð og verður að túlka undantekningar þær sem finna má í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð þröngt. Verður orðalag e-liðar nefndrar greinar um samþykki lóðarhafa vegna skjólveggja ekki túlkað svo rúmt að það nái einnig til stoðveggja, en líkt og áður segir er gerður greinarmunur á þeim tegundum veggja í reglugerðinni. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna um stoðveggi í reglugerðinni og getur samþykki því ekki haft réttaráhrif umfram það sem skýrlega er mælt fyrir um í greininni. Byggði ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki frekar þar sem samþykki lægi fyrir því á röngum lagagrundvelli. Rétt þykir einnig að benda á að ekki er til staðar deiliskipulag fyrir svæðið, sem er forsenda þess að unnt sé að beita gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Þá virðist byggingarfulltrúi ekki hafa tekið efnislega afstöðu til sjónarmiða kæranda um ógn við almanna- og öryggishagsmuni, svo sem um slysahættu barna.

Í ljósi framangreinds verður að telja að rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar sé haldin slíkum ágöllum að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. febrúar 2024 um að aðhafast ekki frekar vegna steypts veggjar á lóðamörkum Laugarásvegar 63 og 59, Reykjavík.

29/2024 Svínabú að Torfum

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 30. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 29/2024, kæra á ákvörðun Eyjafjarðarsveitar frá 14. febrúar 2024 um synjun á viðurkenningu á bótaskyldu vegna deiliskipulags svínabús að Torfum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags, 15. mars 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra Holt ehf. og Ljósaborg ehf., eigendur jarðanna Grundar I og Grundar II A í Eyjafjarðarsveit, synjun Eyjafjarðarsveitar frá 14. febrúar 2024 á bótaskyldu vegna deiliskipulags svínabús að Torfum. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að málinu vísað aftur til sveitarfélagsins til efnislegrar meðferðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Eyjafjarðarsveit 17. apríl 2024.

Málavextir: Hinn 25. nóvember 2019 tók gildi deiliskipulag fyrir svínabú í landi Torfa í Eyjafjarðarsveit. Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda er á skipulagssvæðinu gert ráð fyrir byggingu tveggja gripahúsa samtals u.þ.b. 5.700 m² að stærð auk tilheyrandi fóðursílóa, hauggeymslu og starfmannahúss. Ráðgert er að á hverjum tíma verði fjöldi grísa í eldi 2.400 og fjöldi gylta 400. Með bréfi kærenda, eigenda nábýlisjarðarinnar Grundar, til Eyjafjarðarsveitar, dags. 24. nóvember 2023, voru lagðar fram kröfur um viðurkenningu sveitarfélagsins á bótaskyldu vegna deiliskipulags svínabúsins. Erindinu var svarað með bréfi, dags. 14. febrúar 2024, þar sem kröfum kærenda var hafnað og m.a. tekið fram að ekki yrði séð að kærendur yrðu fyrir tjóni vegna fyrirhugaðs svínabús. Var sú afstaða áréttuð með tölvubréfi til kærenda 14. mars s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur hafna því að sveitarfélög geti synjað bótakröfum í heild vegna deiliskipulagsáætlana þegar tjón sé bersýnilega til staðar en umfang þess verði ekki auðveldlega ákvarðað. Í 51. og 51. gr. a. skipulagslaga nr. 123/2010 sé að finna lögbundna skyldu sveitarfélaga til að dómkveðja matsmenn til að meta slíkt tjón. Feli hin kærða synjun í sér að þessi fyrirmæli séu sniðgengin. Augljóst sé að tjón sé til staðar. Vísað sé til dóms Hæstaréttar Íslands frá 26. apríl 2012 í máli nr. 523/2011 þar sem talið hafi verið að nágrannajörð við nýbyggt svínabú hefði orðið fyrir tjóni. Atvik umræddra mála séu nokkuð sambærileg en svínabúið í hinu dæmda máli hafi verið mun lengra frá nágrannajörðinni en í hinu kærða máli. Þá sé einnig að finna ákvæði í 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti sem skerði verulega nýtingarrétt kærenda til að byggja húsnæði nálægt fyrirhuguðu svínabúi.

Hin kærða ákvörðun beri fremur einkenni stjórnvaldsákvörðunar en úrlausnar á einkaréttarlegri bótakröfu enda varði ákvörðunin málsmeðferðarskyldu stjórnvalda sem kunni að koma upp í kjölfar gerðar deiliskipulags. Sveitarfélaginu hafi verið bent á umfjöllun í frumvarpi til stjórnsýslulaga um að málsmeðferðarákvarðanir vegna eignarnámsbóta teldust til stjórnvaldsákvarðana. Sterk tengsl séu á milli eignarnáms og bóta á grundvelli 51. gr. skipulagslaga, sbr. athugasemdir við núverandi 51. gr. í frumvarpi að breytingalögum nr. 59/2014 á skipulagslögum.

Málsrök Eyjafjarðarsveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfum kærenda verði vísað frá en annars hafnað. Ákvörðun sveitarfélags um bótaskyldu skv. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé einkaréttarlegs eðlis og þar með ekki kæranleg til æðra stjórnvalds. Stjórnvaldsákvarðanir séu ákvarðanir teknar á grundvelli opinbers réttar um rétt eða skyldur aðila. Í frumvarpi því sem orðið hafi að stjórnsýslulögum komi fram að lögin taki ekki til ákvarðana sem séu einkaréttarlegs eðlis en orðrétt segi: „Á sömu sjónarmiðum er byggt að því er varðar bótakröfur sem beint er að hinu opinbera. Þannig taka lögin til ákvarðana varðandi eignarnámsbætur og bætur frá almannatryggingum svo að dæmi séu nefnd, meðan ákvarðanir um skaðabætur af öðrum orsökum falla flestar utan gildissviðs þeirra.“ Ekki verði séð að ákvörðun um eignarnám eða eignarnámsbætur séu sambærilegar við bótakröfur skv. 51. gr. skipulagslaga. Byggi bótaskylda skv. 51. gr. skipulagslaga á almennum reglum skaðabótaréttar en ákvörðun um eignarnámsbætur byggi á þvingunaraðgerð og því á íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun. Þegar skipulag sé samþykkt þurfi eigendur aðliggjandi eigna að þola takmörkun á eignarrétti.

Einnig sé því mótmælt að í 51. og 51. gr. a. skipulagslaga felist lögbundin skylda sveitarfélaga til að láta dómkveðja matsmenn þegar farið sé fram á skaðabætur samkvæmt greininni. Þvert á móti segi í 1. mgr. 51. gr. laganna að sá „er getur sýnt fram á tjón af þeim sökum rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi.“ Þetta sé í samræmi við þá meginreglu skaðabótaréttar að sá sem telji sig verða fyrir tjóni verði að sýna fram á tjón sitt. Ekki verði séð að önnur sjónarmið eigi við um bótakröfur samkvæmt umræddu ákvæði. Þá sé engin lagaheimild til þess að nefndin vísi málinu aftur til sveitarfélagsins sem eigi að leggja út í kostnað og vinnu við að útbúa matsbeiðni til héraðsdóms og bera kostnað af dómkvaðningu og vinnu matsmanna. Kærendur hafi alls ekki sýnt fram á að þeir verði fyrir tjóni. Svínabúið og land kærenda sé á skipulögðu landbúnaðarsvæði og eldi svína teljist landbúnaður. Þá eigi dómur Hæstaréttar Íslands frá 26. apríl 2012 í máli nr. 523/2011 ekki við enda málsatvik önnur en í máli þessu.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja að sveitarfélög hafi vítt svigrúm til að viðurkenna hvort bótaskylda sé til staðar vegna skipulags. Þó sé ljóst að slík ákvörðun sé stjórnvaldsákvörðun, sambærileg t.d. ákvörðun um hvort standa eigi að eignarnámi. Slíkar ákvarðanir lúti meginreglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. meginreglunum um skyldubundið mat og réttmætisregluna. Augljóst sé að kærendur verði fyrir tjóni við það að eitt stærsta svínabú landsins sé skipulagt á landamörkum jarða þeirra. Verði talið að ákvörðun um að viðurkenna bótaskyldu eða ekki sé ekki stjórnvaldsákvörðun sé ljóst að sveitarfélög geti undantekningarlaust skotið sér undan þeirri ábyrgð sem felist í 51. gr. a. skipulagslaga nr. 123/2010.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010 sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar að undanskildum ákvörðunum sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að staðfesta, sbr. 52. gr. laganna. Í máli þessu er kærð sú ákvörðun Eyjafjarðarsveitar frá 14. febrúar 2024 að synja kröfu kærenda um viðurkenningu sveitarfélagsins á bótaskyldu vegna deiliskipulags fyrir svínabú að Torfum í Eyjafjarðarsveit. Til álita kemur hvort synjun sveitarfélagsins á viðurkenningu um bótaskyldu teljist stjórnvaldsákvörðun sem tekin sé á grundvelli skipulagslaga og sé þar með kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Gildissvið stjórnsýslulaga nr. 37/1993 markast af stjórnvaldsákvörðunum, en með þeim er átt við ákvarðanir stjórnvalda sem teknar eru í skjóli stjórnsýsluvalds um rétt eða skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í athugasemdum við 1. gr. í frumvarpi því er varð að þeim lögum var rakið að þeim væri ekki ætlað að taka til ákvarðana stjórnvalda sem teldust einkaréttarlegs eðlis. Voru þessu til skýringar tilfærð nokkur dæmi og var þar m.a. nefnt að þótt lögunum væri ætlað að ná til ákvarðana varðandi eignarnámsbætur og bætur frá almannatryggingum mundu þau ekki taka til ákvarðana um skaðabætur af flestum öðrum orsökum. Ráða má af þessari umfjöllun að huga verður að þeim lagagrundvelli sem ákvörðunin byggist á og hvers eðlis og efnis ákvörðunin er. Hefur þar einnig þýðingu hver staða stjórnvalds er við ákvarðanatöku. Skylda sveitarstjórnar til að taka afstöðu til bótaskyldu vegna skipulagsgerðar samkvæmt bótareglu 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er þáttur í rækslu lögbundinna verkefna og getur sveitarstjórn þar ekki talist í hliðstæðri stöðu og einkaaðili. Verður því talið að afstaða til bótakröfu á grundvelli lagagreinarinnar verði að teljast til stjórnvaldsákvörðunar, sem með því sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Hinn 24. nóvember 2023 fóru kærendur í máli þessu fram á það að Eyjafjarðarsveit viðurkenndi skaðabótaskyldu á grundvelli 51. og 51. gr. a. skipulagslaga vegna deiliskipulags svínabús að Torfum og var m.a. vísað til skertra landnotkunarmöguleika og ætlaðrar lyktarmengunar. Með bréfi sveitarfélagsins, dags. 14. febrúar 2024, var þessum kröfum hafnað og m.a. vísað til þess að land kærenda væri á skipulögðu landbúnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi þar sem væri löng hefð fyrir landbúnaði. Liggur með þessu fyrir rökstudd afstaða stjórnvaldsins til kröfu sem reist var á grundvelli tilvísaðra lagagreina og var ákvörðunin því studd efnislegum sjónarmiðum sem ekki verða talin ómálefnaleg. Þessu mati verður ekki hnekkt við lögmætiseftirlit úrskurðarnefndarinnar skv. 52. gr. skipulagslaga. Til þess er jafnframt að líta að skv. 51. gr. skipulagslaga bera kærendur sönnunarbyrðina fyrir því tjóni sem þeir telja sig hafa orðið fyrir. Með vísan til þessa og þar sem að öðru leyti liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem varðað geta ógildingu hennar verður kröfu um ógildingu hennar hafnað

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun Eyjafjarðarsveitar frá 14. febrúar 2024 um synjun á viðurkenningu á bótaskyldu vegna deiliskipulags svínabús að Torfum.

 

Sérálit Ómars Stefánssonar: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli skipulagslaga kæru til úrskurðarnefndarinnar að undanskildum ákvörðunum sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að staðfesta, sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er ákvörðun stjórnvalds sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds um rétt eða skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Er það jafnframt talið einkenni slíkra ákvarðana að þeim er beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum í ákveðnu og fyrirliggjandi máli. Í athugasemdum við 1. gr. í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum segir að lögin taki ekki til ákvarðana stjórnvalda sem teljast einkaréttarlegs eðlis. Þar er og tekið fram að bótakröfur sem beint sé að hinu opinbera geti fallið undir lögin svo sem ákvarðanir varðandi eignarnámsbætur og bætur frá almannatryggingum meðan ákvarðanir um skaðabætur af öðrum toga falli flestar utan gildissviðs þeirra. Af framangreindu má ráða að synjun stjórnvalds á kröfu um greiðslu skaðabóta teljist ekki stjórnvaldsákvörðun þegar ákvörðunin er einkaréttarlegs eðlis og ekki tekin í skjóli stjórnsýsluvalds.

Í 51. gr. skipulagslaga segir að leiði skipulag eða breyting á því til þess að verðmæti fasteignar skerðist verulega, umfram það sem við eigi um sambærilegar eignir í næsta nágrenni, eigi sá er geti sýnt fram á tjón af þeim sökum rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi. Þá er mælt fyrir um það í 2. mgr. 51. gr. a. sömu laga að sá sem telur sig eiga rétt á bótum skuli senda kröfu sína til sveitarstjórnar. Viðurkenni sveitarstjórn bótaskyldu og ekki næst samkomulag um bætur skal hún annast um að dómkvaddir verði matsmenn til að ákveða bætur. Hins vegar er í engu getið í nefndum ákvæðum um formlegan undirbúning eða málsmeðferð að baki ákvörðunar um að hafna bótaskyldu.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að hin kærða afstaða stjórnvalds til skaðabótaskyldu feli í sér ákvörðun einkaréttarlegs eðlis sem ekki er tekin í skjóli stjórnsýsluvalds og bindur á engan hátt hendur meints tjónþola til að fylgja bótakröfu sinni eftir. Það fellur einnig utan valdsvið úrskurðarnefndarinnar að taka til endurskoðunar afstöðu stjórnvalda til skaðabótaskyldu eða eftir atvikum til upphæðar bóta sem ráðast af reglum íslensks skaðabótaréttar. Slíkur ágreiningur á eftir atvikum undir dómstóla. Tel ég því úrskurðarnefndina bresta vald til að taka kæruefnið til efnismeðferðar og beri af þeim sökum að vísa kærumáli þessu frá.