Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

152/2024 Langalda

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 5. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 152/2024, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. október 2024 um að 250.000 m3 efnistaka á 9,4 ha svæði við Langöldu í Rangárþingi ytra skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. nóvember 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. október 2024 að 250.000 m3 efnistaka á 9,4 ha svæði við Langöldu í Rangárþingi ytra skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 3. desember 2024.

Málavextir: Hinn 19. ágúst 2024 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Landsvirkjun um efnistöku við Langöldu í Rangárþingi ytra til ákvörðunar um matsskyldu skv. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. lið 2.02 í 1. viðauka laganna. Í greinargerð sem fylgdi tilkynningunni kom fram að ráðgert efnistökusvæði væri 9,4 ha að stærð og lægi sunnan við Sprengisandsleið og gatnamót við Búðarháls, milli Hrauneyjafosslínu 1 og Sigöldulínu 3. Sótt hafi verið efni í námu á svæðinu við gerð Sultartangastíflu á árunum 1982–1984 og hafi þá verið tekið um 250.000–270.000 m3 af efni. Fyrirhuguð framkvæmd geri ráð fyrir allt að 250.000 m3 efnistöku á árunum 2024–2030 og verði efnið m.a. nýtt til uppbyggingar á vindorkuveri við Vaðöldu (Búrfell). Hafði greinargerðin jafnframt þessu að geyma lýsingu á ráðgerðri tilhögun framkvæmdar.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 3. október 2024.  Í henni var fjallað um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eins og þeim var lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og umsögnum umsagnaraðila. Tók umfjöllunin til áhrifa framkvæmdarinnar á verndarsvæði, á landslag og ásýnd og áhrifa á jarðmyndanir. Einnig áhrifa á vistgerðir, hljóðvist og rykmengun, umferð, útivist og óbyggð víðerni og á vatnshlot. Í niðurstöðukafla Skipulagsstofnunar kemur fram að um sé að ræða nokkuð umfangsmikla efnistöku á svæði sem hafi áður verið nýtt til námuvinnslu og hafi svæðinu því þegar verið raskað. Fyrirhuguð efnistaka muni hins vegar óhjákvæmilega hafa neikvæð áhrif á ásýnd, einkum á framkvæmdatíma, en með boðuðum aðgerðum um verklag og vönduðum frágangi svæðisins verði hægt að draga úr þeim áhrifum. Það var niðurstaða stofnunarinnar að þættir sem falli undir eðli, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar kölluðu ekki á að framkvæmdin undirgengist mat á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að ráðgerð framkvæmd feli í sér hvort tveggja enduropnun efnistökusvæðis og námuvinnslu. Á níunda áratug síðustu aldar hafi 270.000 m3 af efni verið tekið úr námunni og séu nú áform um að bæta við efnistöku upp á 250.000 m3. Samkvæmt tölulið 2.01 í 1. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana sé skylt að umhverfismeta framkvæmd þegar efnismagn vegna vinnslu auðlinda í jörðu sé meira en 500.000 m3. Með þessu fari heildarefnismagn yfir þröskuldsviðmið töluliðarins. Er af þessu tilefni vísað til grunnraka laga nr. 111/2021, tilgangs þeirra og uppruna, dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins og 10. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, sem bæði framkvæmdaraðili og Skipulagsstofnun séu bundin af, sbr. 7. gr. laganna.

Verði ekki fallist á þessi málsrök telji kærandi að efnistakan sé eftir sem áður hluti af framkvæmdinni Búrfellslundi og því þurfi að meta samlegðaráhrif og fjalla um tilkynningu framkvæmdaraðila út frá þeirri staðreynd, sbr. tölulið 13.02 í 1. viðauka laga nr. 111/2021. Í matsskýrslu framkvæmdaraðila fyrir framkvæmdina Búrfellslund frá árinu 2016 hafi verið greint frá áætlaðri heildarefnistöku, eftir valkostum, eða samtals 700.000–1.000.000 m3. Ítarleg grein hafi verið gerð fyrir því hvar taka ætti það efni, auk þess sem rakið hafi verið hvaða aðrir mögulegir efnistökustaðir gætu bæst við. Efnistakan hafi verið meðal áhrifa- og umhverfisþátta umhverfismatsins og tilteknir efnistökustaðir verið tilgreindir, en þar hafi ekki verið greint frá efnistöku við Langöldu. Í tilkynningu til Skipulagsstofnunar til matsskyldu framkvæmdarinnar hafi ekki verið fjallað um tengsl hennar við Búrfellslund sem sé ekki í samræmi við áskilnað í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021. Það breyti ekki skyldu Skipulagsstofnunar til að kanna þau tengsl sjálfstætt.

Námuvinnsla sé þess eðlis að efnistökusvæði jafni sig ekki með tímanum. Það að 40 ár hafi liðið frá því að efni hafi verið tekið af svæðinu leiði ekki til þess að unnt sé að byrja með „hreint borð“. Um þetta sé vísað til rökstuðnings úrskurðarnefndarinnar í úrskurði frá 31. október 2024 í máli nr. 89/2024. Ekki megi láta hjá líða að meta heildaráhrifin í samræmi við 10. gr. náttúruverndarlaga. Auk framangreinds eigi það að leiða til ógildingar á hinni kærðu ákvörðun að Skipulagsstofnun hafi látið hjá líða að afla afstöðu Umhverfisstofnunar, en efnistökusvæðið sé á skilgreindu hverfisverndarsvæði. Þá hafi ekkert verið fjallað um aðkomu Orkustofnunar að efnistökuleyfum í þjóðlendum, sbr. lög nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar fullyrði stofnunin að umferð á áhrifasvæðinu sé almennt lítil og telji því ekki líkur á að umferð efnisflutningabifreiða komi til með að hafa neikvæð áhrif. Fullyrðingin sé í beinni andstöðu við það sem fram komi í tilkynningu framkvæmdaraðila þar sem vísað sé til þess að samkvæmt vef Vegagerðarinnar hafi mánuðina júní, júlí, ágúst og september 2023 farið að meðaltali 375 bílar á dag um umræddan hluta Sprengisandsleiðar. Það sé ljóst að það séu ferðamenn að leita inn á hálendið. Þetta sé töluvert meiri umferð bíla en fari um sömu mánuði um Kjalveg norðan Gullfoss og lítilsháttar færri bílar en þeir sem aki veginn niður að Dettifossi austan megin. Á áhrifasvæðinu sé því umferð bíla töluvert mikil. Séu upplýsingar um áætlaða umferð efnisflutningabíla ekki greinargóðar, en umferð allt að 120 efnisflutningabíla verði um svæðið daglega þegar mest verði. Það séu mikil en ekki lítil áhrif, svo sem Skipulagsstofnun hafi ályktað um.

Kærandi álítur að framkvæmdaraðili hafi ekki lagt fram fullnægjandi upplýsingar með tilkynningu framkvæmdarinnar til Skipulagsstofnunar. Vísar hann í því sambandi til grunnraka 2. viðauka, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021, sem varði til hvaða atriða Skipulagsstofnun skuli líta til við ákvörðun um matsskyldu. Jafnframt beri að líta til tilskipunar 2011/92/ESB. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið beri að túlka íslensk lög til samræmis við EES-samninginn og gerðir hans og leiki ekki neinn vafi á því að íslensk stjórnvöld séu bundin af skuldbindingum tilskipunarinnar. Í henni sé kveðið á um þá skyldu framkvæmdaraðila að taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna úr öðrum viðeigandi mötum á umhverfisáhrifum, en þessu hafi ekki verið sinnt.

Skipulagsstofnun hafi borið að vísa til viðeigandi viðmiða í 2. viðauka laga nr. 111/2021, sbr. einnig b-lið 5. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/92/ESB. Rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið fullnægjandi m.t.t. þeirra atriða sem þar séu nefnd. Þannig hafi borið að athuga eiginleika framkvæmdarinnar með tilliti til samlagningaráhrifa við aðrar framkvæmdir. Fyrir liggi að Búrfellslundur sé talinn þurfa a.m.k. 700.000 m3 af efni, en hvergi hafi ljósi verið varpað á það hvernig efnistöku í Langöldu sé ætlað að koma inn í þá heildarmynd. Jafnframt sé ljóst að með því að tengja ekki efnistökuna við aðra fyrirhugaða efnistöku í tengslum við Búrfellslund hafi Skipulagsstofnun brotið gegn skyldum sínum til að líta til eiginleika áhrifanna, þ.m.t. umfangs áhrifa á fjölda ferðafólks.

Í 32. gr. náttúruverndarlaga sé mælt fyrir um að skrá skuli vegi í náttúru Íslands. Ekki verði séð að sá slóði sem vísað sé til að sé til staðar á umræddu svæði hafi fengið þá málsmeðferð sem mælt sé fyrir um í ákvæðinu. Ekki sé að finna umfjöllun um þetta atriði í hinni kærðu ákvörðun og sé um ógildingarannmarka að ræða, enda verði matsskylduákvörðunin ekki byggð á óopinberum akvegum. Þá sé ekki að finna viðhlítandi mat á því hvort stórtæk efnistaka við læki leiði til þess að bindandi umhverfismarkmið laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála náist varðandi straumvatnshlotið Langöldulækir (103-930-R). Sú umfjöllun sem finna megi í hinni kærðu ákvörðun feli ekki í sér slíkt mat, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 21. desember 2023 í máli nr. 127/2023.

Að lokum er af hálfu kæranda bent á að efnistökusvæðið sé í þjóðlendu og ekki liggi fyrir í gögnum hver sé afstaða forsætisráðuneytisins, sem fari með málefni þjóðlendna. Í því felist brot á rannsóknarskyldu hafi ekki verið leitað afstöðu ráðuneytisins, enda þurfi samþykki þess fyrir efnistöku í þjóðlendum skv. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur. Hafi ekki einu sinni verið vikið að hlutverki ráðuneytisins í ákvörðuninni.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Stofnunin bendir á að í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar sé að finna rökstuðning sem hafi að geyma þau meginsjónarmið sem ákvörðunin hafi byggst á, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í því efni skipti ekki máli þótt rökstuðningurinn sé stuttur, en eðli málsins samkvæmt taki hann mið af gögnum málsins, þ.e. tilkynningu framkvæmdaraðila og umsögnum.

Ekki sé hægt að taka undir þá afstöðu kæranda að leggja eigi hina fyrirhuguðu 250.000 m3 efnistöku við 270.000 m3 af áður teknu efni með þeim afleiðingum að um framkvæmd í flokki A væri að ræða skv. tölulið 2.01 í 1. viðauka í lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Sú efnistaka hafi farið fram á svæðinu á árunum 1982–1984 eða fyrir 40 árum. Á þeim tíma hafi ekki verið fyrir hendi lög um mat á umhverfisáhrifum, þar sem fyrstu lög þess efnis hafi verið sett árið 1993, sbr. lög nr. 63/1993. Í ákvæði til bráðabirgða við þau lög hafi sagt að framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 væru ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum.

Samkvæmt ii-lið í 1. tölulið 2. viðauka laga nr. 111/2021 þurfi að athuga eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til samlegðar með öðrum framkvæmdum. Með hliðsjón af þeirri meginreglu hefði Skipulagsstofnun átt að gera í hinni kærðu ákvörðun grein fyrir tengslum hinnar tilkynntu efnistöku við þá efnistöku sem um sé fjallað í umhverfismati Búrfellslundar, sbr. álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar frá 21. desember 2016, enda sé fyrrnefnda framkvæmdin í nokkurri nálægð við framkvæmdasvæði Búrfellslundar.

Óskað hafi verið eftir umsögn frá Umhverfisstofnun vegna matsskyldufyrirspurnarinnar en stofnunin hafi svarað því til að hún hygðist ekki veita umsögn. Að mati Skipulagsstofnunar hafi málið verið álitið nægilega upplýst til að stofnunin gæti tekið matsskylduákvörðun án þess að umsögnin lægi fyrir. Þá kveði 68. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd aðeins á um skyldu til að leita umsagnar Umhverfisstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum. Hvað varði aðkomu Orkustofnunar þá sé framkvæmdin ekki háð leyfi hennar, með þeim undantekningum sem greini í lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur.

Í kafla 3.9.1 í tilkynningu framkvæmdaraðila komi fram að dagleg umferð muni aukast með enduropnun námunnar og muni hún því hafa áhrif á umferð og samgöngur á svæðinu. Vegalengd sé ekki mikil þar sem náman sé staðsett nálægt fyrirhugaðri notkun efnisins. Þá segi: „Núverandi dagleg umferð um veg F26 er ekki mikil og mun því aukin umsvif í kringum námuna ekki hafa mikil áhrif.“ Með hliðsjón af því geti Skipulagsstofnun ekki tekið undir þau orð kæranda að fullyrðing stofnunarinnar um litla umferð sé í beinni andstöðu við það sem fram komi í matsskyldufyrirspurn. Þá fáist ekki séð að 32. gr. náttúruverndarlaga, um skrá yfir vegi í náttúru Íslands, hafi þýðingu í tengslum við hina kærðu ákvörðun og sé því ekki um annmarka að ræða.

Framkvæmdaraðili hafi lagt fram upplýsingar í samræmi við kröfur 9. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þá hafi í hinni kærðu ákvörðun verið litið með fullnægjandi hætti til þeirra viðmiða í 2. viðauka með lögum nr. 111/2021 sem hafi átt við, að frátöldu því að gera hefði átt grein fyrir tengslum hinnar tilkynntu efnistöku við þá efnistöku sem um hafi verið fjallað í umhverfismati Búrfellslundar.

Hvað varði vísan kæranda til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 21. desember 2023 í máli nr. 127/2023 sé bent á að úrskurðurinn hafi varðað skyldur leyfisveitanda skv. lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Skipulagsstofnun sé ekki leyfisveitandi en leggi áherslu á að gögn málsins gefi ekki til kynna að ástandi vatnshlotanna við Langöldulæk og Tungnaárhraun muni hnigna eða að vatnshlotin verði fyrir vatnsformfræðilegum breytingum í skilningi laganna.

Því sé að lokum hafnað að talist geti til verulegs annmarka á hinni kærðu ákvörðun að ekki liggi fyrir umsögn frá forsætisráðuneytinu vegna framkvæmda í þjóðlendu. Það hefði hins vegar verið rétt að taka fram að samþykki ráðuneytisins þurfi að liggja fyrir með vísan til laga nr. 58/1998.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er bent á að á Skipulagsstofnun hafi ekki hvílt skylda til að óska umsagnar frá forsætisráðuneytinu. Fyrir liggi umsögn ráðuneytisins vegna fyrirhugaðrar breytingar á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028 og hafi þar ekki verið gerðar athugasemdir við efnistökuáformin aðrar en þær að lögð hafi verið áhersla á að sem minnst rask yrði á landslagi, að gætt yrði að frágangi yfirborðs og að samráð yrði haft við ráðuneytið kæmi til frekari skipulagsvinnu. Þess utan sé fjallað um efnistöku við Langöldu í samningi Landsvirkjunar og forsætisráðuneytisins frá 2021 um endurgjald fyrir nýtingu lands- og vatnsréttinda vegna Vatnsfells- og Búðarhálsvirkjunar. Þá sé því hafnað að það teljist annmarki á hinni kærðu ákvörðun að Umhverfisstofnun hafi ekki skilað inn umsögn við meðferð málsins, en Skipulagsstofnun hafi sannarlega óskað eftir umsögn og geti stofnunin ekki borið ábyrgð á því ef umsagnaraðilar verði ekki við slíkri ósk. Ekki hvíli á Skipulagsstofnun sérstök skylda til að ganga á eftir því að umsagnaraðilar skili umsögnum. Það hafi því ekki verið brotið gegn rannsóknarskyldu við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar.

Í matsskýrslu Landsvirkjunar frá mars 2016, vegna upphaflegrar útfærslu vindorkuversins Búrfellslundar, hafi verið fjallað um efnistöku og að þörf kynni að vera á nýtingu gamalla náma í grennd við framkvæmdasvæðið þar sem jarðrask hafi þegar átt sér stað. Því sé hafnað að í matsskyldufyrirspurn hafi ekki verið gerð grein fyrir þessum tengslum við Búrfellslund. Eðlilegt sé að umfangsmiklar framkvæmdir á borð við Búrfellslund taki nokkrum breytingum eftir því sem áformum vindi fram, þ.m.t. að efnistaka sé löguð að þörf og aðstæðum hverju sinni. Rétt sé að benda á að efnistökuþörf vegna endurhannaðs Búrfellslundar sé umtalsvert minni en samkvæmt upphaflegum útfærslum vindorkuversins. Af þessu leiði að tilkynning framkvæmdaraðila hafi verið reist á réttum lagagrundvelli.

Því sé hafnað að leggja hefði átt saman fyrirhugaða efnistöku við þá efnistöku sem hafi átt sér stað á árunum 1982–1984 með vísan til sömu sjónarmiða og fram hafi komið í umsögn Skipulagsstofnunar. Almenn sjónarmið um lagaskil leiði til þess að hvort tveggja tilkynning framkvæmdaraðila og hin kærða ákvörðun hafi byggst réttilega á umfangi þeirra framkvæmda sem nú séu fyrirhugaðar við Langöldu. Framkvæmdin falli réttilega undir tölulið 2.02 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Tilkynning félagsins um fyrirhugaða framkvæmd hafi að fullu verið í samræmi við 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021, en þar sé að finna umfjöllun um þá þætti sem framkvæmdin sé talin hafa áhrif á og jafnframt dregnar ályktanir um líkleg umhverfisáhrif. Þá megi nefna að þar megi finna sérstaka umfjöllun um áhrif framkvæmdarinnar á vatnshlot Langöldulækja og Tungnaárhrauns, sbr. lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Úrskurður úrskurðarnefndarinnar frá 21. desember 2023 í máli nr. 127/2023 eigi ekki við þar sem atvik og grundvöllur séu verulega ólík því máli sem hér sé til umfjöllunar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. október 2024 um að 250.000 m3 efnistaka á 9,4 ha svæði við Langöldu í Rangárþingi ytra skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 30. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu skv. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021, sbr. tölulið 2.02 í 1. viðauka laganna. Í þeim lið er tilgreint að efnistaka, utan þess sem tilgreint sé í tölulið 2.01, þar sem áætlað sé að raska 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m3 eða meira, ásamt efnistöku þar sem fleiri en einn efnistökustaður vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði ná samanlagt yfir 2,5 svæði eða stærra, falli undir flokk B. Í lið 2.01 er hins vegar tilgreint að efnistaka þar sem áætlað er að raska 25 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 500.000 m3 eða meira falli undir flokk A.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 111/2021 eru framkvæmdir í flokki A ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, en matsskylda framkvæmda sem tilgreindar eru í flokki B ræðst af því hvort framkvæmd geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Í 2. viðauka við lögin eru þeir þættir sem líta ber til við það mat taldir upp í þremur töluliðum, þ.e. eðli framkvæmdar, staðsetning og eiginleikar hugsanlegra áhrifa hennar. Undir hverjum tölulið er svo fjöldi annarra liða. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hverjir þeirra liða vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð, en það að framkvæmd falli undir einhverja þeirra leiðir þó ekki sjálfkrafa til matsskyldu.

Lög nr. 111/2021 gera ráð fyrir því að framkvæmdaraðili afli og leggi fram á viðhlítandi hátt upplýsingar um framkvæmd og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Þá er í 9. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana nánar kveðið á um efni tilkynningar framkvæmdar í flokki B. Mat Skipulagsstofnunar á því hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati samkvæmt lögunum hlýtur eðli máls samkvæmt að lúta að því að sannreyna gildi gagna og gæði þeirra. Í þeim tilgangi skal stofnunin leita álits umsagnaraðila áður en ákvörðun um matsskyldu er tekin, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna, en til þeirra teljast opinberar stofnanir, stjórnvöld eða aðrir lögaðilar sem sinna lögbundnum verkefnum sem varða framkvæmdir og/eða áætlanir sem falla undir lögin eða umhverfisáhrif þeirra. Þá ber Skipulagsstofnun jafnframt að gæta þess að fullnægjandi gögn hafi verið lögð fram og hvílir á stofnuninni sú skylda að upplýsa málið að því marki að hún geti komist að efnislega réttri niðurstöðu.

—–

Í tilkynningu framkvæmdaraðila er lýst áformum um að „enduropna efnistökusvæði“ við Langöldu. Svæðið sé 9,4 ha að stærð og sé gert ráð fyrir allt að 250.000 m3 efnistöku á árunum 2024–2030. Verði efni m.a. nýtt við gerð vindorkuvers við Vaðöldu (Búrfellslundur). Efnistökusvæðið sé staðsett sunnan við Sprengisandsleið og gatnamót við Búðarháls, milli Hrauneyjafosslínu 1 og Sigöldulínu 3. Sótt hafi verið efni í námu á svæðinu við gerð Sultartangastíflu á árunum 1982–1984 og hafi þá verið tekið um 250.000–270.000 m3 af efni. Vinnslu efnisins er lýst þannig að efnið verði rippað eða sprengt, svo mokað í forbrjót ef þörf sé á og eftir það verði efnið harpað og brotið aftur í mölunarsamstæðu í þær stærðir sem óskað sé eftir hverju sinni. Allt að 1.500 m3 af efni verði unnið á dag og fari þegar mest verði um 120 bílar um svæðið á dag. Gamlir námuvegir og slóðar liggi að námunni og þurfi að laga vegaslóða og slétta lítillega en ekki verði farið í aðra vegagerð. Svæðið umhverfis námuna einkennist bæði af óbyggðum víðernum og orkuvinnslu, en það sé mitt á milli tveggja 220 kV háspennulína. Fyrir liggi samningur framkvæmdaraðila við íslenska ríkið frá 2021 sem heimili efnistöku á áformuðu efnistökusvæði. Svæðið sé í Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028 skilgreint sem skógræktar- og landgræðslusvæði, en unnið sé að því að breyta skipulaginu þannig að svæðið verði skilgreint sem efnistöku- og efnislosunarsvæði.

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar leitaði Skipulagsstofnun umsagna skv. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 og var óskað álits á tilkynningu framkvæmdaraðila og hvort framkvæmdin skyldi lúta umhverfismati. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands kemur fram sú afstaða að tilkynning framkvæmdaraðila geri nægjanlega grein fyrir eðli, umfangi og umhverfi framkvæmdarinnar, sem og mótvægisaðgerðum, en ekki sé gert ráð fyrir sérstakri vöktun á umhverfisáhrifum á framkvæmdatíma. Varanleg umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, önnur en sjónræn og staðbundin í næsta nágrenni hennar, séu óveruleg og mögulegt sé að milda þau með góðri umgengni á framkvæmdatíma og vönduðum frágangi umhverfis að framkvæmdum loknum. Framkvæmdin kalli ekki á mat á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem komi fram í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Náttúrufræðistofnun Íslands gerði þá ábendingu í sinni umsögn að fyrirhugað efnistökusvæði sé innan svæðis sem falli undir hverfisvernd (HV13) samkvæmt Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028, en liggi utan annarra verndarsvæða og þar séu hvorki vistkerfi né jarðminjar sem njóti sérstakrar verndar. Vegslóði að námunni fari hins vegar yfir sandorpið nútímahraun, Búrfellshraun, sem sé um 3.200 ára gamalt og njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Líklegt sé að umhverfisáhrif verði aðallega á jarðminjar og ásýnd og að þau verði mest á framkvæmdatíma. Þá var það álit stofnunarinnar að nægjanlega vel væri gerð grein fyrir framkvæmdinni og umhverfisáhrifum og að ekki væri þörf á umhverfismati. Af hálfu Rangárþings ytra var lögð fram fundargerð frá fundi sveitarstjórnar 14. febrúar 2024 þar sem staðfest var sú niðurstaða skipulags- og umferðarnefndar frá 1. s.m. að fyrirhuguð enduropnun væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Umhverfisstofnun skilaði ekki umsögn um tilkynninguna.

Vegna athugasemda Náttúrufræðistofnunar Íslands kom framkvæmdaraðili á framfæri þeim svörum að núverandi vegslóði að námunni yrði notaður og að ekki yrði farið í aðra vegagerð. Áhrif á jarðminjar yrðu því óveruleg.

Í niðurstöðukafla ákvörðunar Skipulagsstofnunar var tekið fram að við mat á því hvort hin tilkynningarskylda framkvæmd ætti að sæta umhverfismati skyldi taka mið af eðli, staðsetningu og eiginleikum hugsanlegra áhrifa framkvæmdar og var um það vísað til nánar tilgreindra atriða í 1.–3. tölulið í 2. viðauka við lögin. Tekið var fram að um væri að ræða nokkuð umfangsmikla efnistöku á svæði sem hafi áður verið nýtt sem náma og hafi því þegar verið raskað. Fyrirhuguð efnistaka myndi óhjákvæmilega hafa neikvæð áhrif á ásýnd, einkum á framkvæmdatíma, en með boðuðum aðgerðum um verklag og vönduðum frágangi svæðisins væri hægt að draga úr þeim áhrifum. Ekki væru líkur á að umferð efnisflutningabifreiða kæmi til með að hafa neikvæð áhrif þar sem umferð á áhrifasvæðinu væri almennt lítil. Við lagfæringu á vegslóða verði tekið tillit til þess að svæðið fari um hraun sem njóti sérstakrar verndar. Leggur stofnunin áherslu á að viðhaft verði verklag sem komi í veg fyrir að olíumengun berist í jarðveg. Að endingu kemur fram það mat Skipulagsstofnunar að þættir sem falli undir eðli, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar kalli ekki á að framkvæmdin undirgangist mat á umhverfisáhrifum.

—–

Hin tilkynnta framkvæmd lýtur að 250.000 m3 efnistöku á allt að 9,4 ha efnistökusvæði við Langöldu í grennd við Sultartangalón og ráðgert vindorkuver við Búrfell. Í matsskyldufyrirspurn kom fram að náma á efnistökusvæðinu hafi verið notuð við gerð Sultartangastíflu á árunum 1982–1984. Af þeim upplýsingum sem eru í matsskyldufyrirspurn framkvæmdaraðila að dæma, virðist ljóst að gengið hafi verið frá námusvæðinu við lok þeirrar framkvæmdar og verður ekki af gögnum þessa máls ráðið að síðan hafi verið tekið efni á svæðinu. Verður í ljósi þessa að telja að eðlilegt hafi verið að líta svo á að um nýja framkvæmd væri að ræða skv. tölulið 2.02 í 1. viðauka laga nr. 111/2021, en ekki breytingu eða viðbót við eldri framkvæmd, sbr. tölulið 13.02 í sama viðauka.

Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um þá málsmeðferð sem Skipulagsstofnun ber að viðhafa við töku ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdar. Segir þar meðal annars að stofnunin skuli leita umsagnar umsagnaraðilar „eftir því sem við á eftir eðli máls hverju sinni“. Í þeim tilvikum þegar umsögn berst ekki er tekið fram  að Skipulagsstofnun geti tekið ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Fyrir liggur að Umhverfisstofnun barst umsagnarbeiðni, en stofnunin kaus að tjá sig ekki um matsskyldufyrirspurn framkvæmdaraðila. Telur kærandi að Skipulagsstofnun hafi borið að ganga á eftir umsögn stofnunarinnar, m.a. með hliðsjón af því að efnistökusvæðið sé á skilgreindu hverfisverndarsvæði samkvæmt aðalskipulagi. Ekki verður talið að afstaða Umhverfisstofnunar verði talin hafa verið nauðsynleg til þess að málið teldist nægjanlega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er þá til þess að líta að fallast verður á það mat framkvæmdaraðila að þar sem svæðinu hefur þegar verið raskað með fyrri efnistöku og þar sem gengið verði frá svæðinu til fyrra horfs verði áhrif framkvæmdanna á verndarsvæði óveruleg. Má að auki nefna sem kom fram í tilkynningu framkvæmdaraðila að sótt yrði um breytingu á skipulagi vegna framkvæmdarinnar þar sem svæðið yrði skilgreint sem efnistöku- og efnislosunarsvæði.

Þá verður heldur ekki talið að Skipulagsstofnun hafi borið að afla umsagnar forsætisráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 með vísan til þess að ráðuneytið fari með málefni þjóðlendna, þ.e. fari með heimildir eignarréttar á landssvæðinu í samræmi við ákvæði laga nr. 58/1998 um þjóðlendur, enda þótt vel hefði farið á slíku samráði. Verða verkefni ráðuneytisins skv. lögum nr. 58/1998 eigi talin af sama meiði og þeirra opinberu aðila sem sinna lögbundnum verkefnum sem varða framkvæmdir sem falla undir lög nr. 111/2021, sbr. 11. tl. 3. gr. þeirra laga.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar kemur fram að hin fyrirhugaða efnistaka verði m.a. nýtt við gerð vindorkuvers við Vaðöldu (Búrfellslundur), en fyrir liggur að sú framkvæmd hefur sætt mati á umhverfisáhrifum, sbr. álit Skipulagsstofnunar þar um frá 21. desember 2016. Í matsskýrslu framkvæmdaraðila vegna vindorkuversins frá 2016 er að finna umfjöllun um mögulega efnistökustaði vegna efnisfrekra framkvæmda við vegi og undirstöður fyrir vindorkuverið. Efnistökumagn var á þeim tíma áætlað 702.000 m3, 1.045.000 m3 eða 765.000 m3, eftir því hvaða tillaga yrði fyrir valinu, en vegna endurhönnunar er efnisþörf nú álitin minni. Í áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina eru reifuð áform framkvæmdaraðila um hvar þessi efnistaka geti farið fram og er ljóst af umfjölluninni að hún er með fyrirvara um nánari rannsóknir og er tekið fram að „á þessu stigi“ sé ekki hægt að segja til um hvar efni verði tekið. Slíkt verði tiltekið sérstaklega í umsókn um framkvæmdaleyfi þegar nær dragi framkvæmdum.

Það er viðhorf kæranda að hin ráðgerða efnistaka í Langöldu ætti með réttu að teljast til hluta af framkvæmdum við Búrfellslund sökum þess hversu tengd hún sé þeirri framkvæmd og hefði borið að meta hana í umhverfismati þeirrar framkvæmdar eða tilkynna hana til Skipulagsstofnunar sem breytingu á þeirri framkvæmd. Á móti má benda á að í lögum nr. 111/2021 er efnistaka nefnd sérstaklega í 1. viðauka við lögin þannig að gert er ráð fyrir að hún sæti eða geti sætt mati á umhverfisáhrifum ein og sér. Þá verður ekki álitið að efnistakan geti talist ákvarðandi fyrir tilhögun eða staðsetningu Búrfellslundar þannig að skylt hefði verið að meta hana með umhverfismati þeirrar framkvæmdar. Verður með hliðsjón af þessu ekki fallist á að um eina framkvæmd sé að ræða í skilningi laga nr. 111/2021.

Hin ráðgerða efnistaka fellur undir B-flokk í 1. viðauka við lög nr. 111/2021 og ber því við tilkynningu um hana til matsskyldu að fjalla m.a. um samlegðaráhrif bæði með tilliti til eðlis framkvæmdar, sbr. ii. lið 1. töluliðs, og gerðar og eiginleika framkvæmda, sbr. v. lið 3. töluliðs 2. viðauka við lögin. Af hálfu Skipulagsstofnunar hefur því verið lýst fyrir úrskurðarnefndinni að stofnuninni hefði verið rétt í hinni kærðu ákvörðun að gera nánari grein fyrir tengslum hinnar tilkynntu efnistöku við þá efnistöku sem um sé fjallað í umhverfismati Búrfellslundar. Verður af úrskurðarnefndinni fallist á að vel hefði farið á því að umfjöllun væri markvissari að því leyti til þótt athuga verði um leið að fjallað er um áhrif á umferð með hliðsjón af vindorkuverinu, þar sem greint er frá því að áformað sé að mest fari um 120 vörubílar um framkvæmdasvæðið og að bílar sem ferji efni frá efnistökustað að vindorkuverinu muni þvera Sprengisandsleið. Má með þessu telja ljóst hver sé tilgangur hinnar kærðu efnistöku og að áhrifa frá henni muni gæta vegna malarflutninga að vindorkuverinu.

Í áliti Skipulagsstofnunar var talið að fyrirhuguð framkvæmd muni koma til með að hafa áhrif á umferð á svæðinu, en vegalengdin sé hins vegar ekki löng og því muni aukin umsvif í kringum námuna ekki koma til með að hafa mikil áhrif. Kærandi telur að í þessu felist vanmat og ekkert í matsskyldufyrirspurn framkvæmdaraðila styðji þessa ályktun. Er í því sambandi vísað til umfjöllunar framkvæmdaraðila um að mánuðina júní, júlí, ágúst og september 2023 fari að meðaltali 375 bílar á dag um umræddan hluta Sprengisandsleiðar sem sé töluvert meiri umferð en fari daglega að meðaltali sömu mánuði um Kjalveg norðan Gullfoss. Þetta sé lítilsháttar minni umferð en sé sömu mánuði að Dettifossi austan megin. Að því athuguðu að um hálendisveg er að ræða má telja allnokkra umferð vera um Sprengisandsleið. Hún verður þó ekki talin veruleg. Til þess er einnig að líta að áhrif framkvæmdanna á umferð eru staðbundin auk þess að þau vara einungis á framkvæmdatíma. Verður því ekki talið að ályktun Skipulagsstofnunar sé áfátt.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila um áhrif framkvæmdarinnar á vatnshlot er því lýst að framkvæmdasvæðið sé innan staðarmarka grunnvatnshlotsins Tungnaárhraun (103-308-G) og straumvatnshlotsins Langöldulækir (103-990-R). Umhverfismarkmið í Tungnaárhrauni sé að magnstaða sé góð og efnafræðilegt ástand sé gott en núverandi ástand sé óþekkt. Ekkert álag sé skráð á vatnshlotið. Umhverfismarkmið í Langöldulækjum sé að vistfræðilegt ástand sé mjög gott og efnafræðilegt ástand sé gott. Núverandi vistfræðilegt ástand sé skráð sem mjög gott en efnafræðilegt ástand sé óþekkt. Ekkert álag sé skráð á vatnshlotið og talið sé að umhverfismarkmið náist. Ekkert kemur fram í tilkynningunni um forsendur þessarar skráningar.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila er tekið fram að hann álíti áhrif framkvæmdarinnar á vatnshlot óveruleg. Um leið er í tilkynningunni gerð grein fyrir aðgerðum sem gripið verði til í því skyni að sporna við mögulegri mengun og til að koma í veg fyrir olíuleka á svæðinu. Í hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar er greint frá þessum áformum framkvæmdaraðila. Þá er gerð sú ábending um tilhögun framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021, að viðhaft verði verklag sem komi í veg fyrir að olíumengun berist í jarðveg. Að þessu virtu verður ekki talið að hin kærða ákvörðun sé haldin ágalla hvað varðar lýsingu á áhrifum framkvæmdarinnar á vatnshlot að teknu tilliti til ákvæða laga nr. 36/2011.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að líta svo á að Skipulagsstofnun hafi við ákvarðanatöku sína litið með viðhlítandi hætti til viðeigandi viðmiða 2. viðauka laga nr. 111/2021. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. október 2024 um að 250.000 m3 efnistaka á 9,4 ha svæði við Langöldu í Rangárþingi ytra skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

172/2024 Þorragata

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 4. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 172/2024, kæra vegna ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 5. nóvember 2024 um tímabundna lokun leikskólans S

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 10. desember 2024, kærir A, leikskólastjóri, „framferði fulltrúa Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í leikskólanum S þann. 5. nóvember 2024“. Nefndin skilur málatilbúnað kæranda á þann veg að kærð sé ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 5. nóvember 2024 um að loka tímabundið leikskólanum S í kjölfar þess að húsnæði skólans var við eftirlit metið heilsuspillandi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 14.janúar 2025.

Málavextir: Þann 5. nóvember 2024 fóru tveir heilbrigðisfulltrúar í reglubundið eftirlit og í úttekt á nýrri viðbyggingu leikskólans S. Í ljós kom m.a. óþrifnaður og mikil ummerki um meindýr og var húsnæðið metið heilsuspillandi. Heilbrigðiseftirlitið tók ákvörðun um að stöðva þyrfti starfsemina til bráðabirgða, sbr. 63. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Með bréfi dags. 6. nóvember 2024 upplýsti Heilbrigðiseftirlitið leikskólann um hvaða úrbætur þyrfti að gera áður en leikskólinn gæti tekið til starfa að nýju. Þann 8. nóvember 2024 upplýsti leikskólastjórinn að búið væri að uppfylla þær kröfur sem þyrfti til að aflétta lokun leikskólans og að lokinni úttekt heilbrigðisfulltrúa sama dag var upplýst að úrbætur væru metnar fullnægjandi og að leyfilegt yrði að opna leikskólann á ný þann 11. nóvember 2024.

Málsrök kæranda: Kærandi greinir frá því að tveir fulltrúar Heilbrigðiseftirlitsins hafi þann 5. nóvember 2024 komið til að taka út húsnæði leikskólans S. Við úttektina hafi fulltrúarnir fundið músagildrur og ummerki um mýs og fyrirskipað tafarlausa lokun leikskólans. Sú fyrirskipan hafi verið ,,hóflaus og án málefnalegrar ástæðu“ því sú heilbrigðisógn sem til staðar hafi verið gæti ekki réttlætt svo harkalegar aðgerðir. Kærð sé sú hóflausa valdbeiting sem í þessu hafi falist, ófagleg og ruddaleg framkoma, einstrengingslegar tilvísanir í reglugerðartexta og að ekki hafi verið gerður greinarmunur á mismunandi tegundum þrifa í húsnæði leikskólans. Álítur kærandi að hægt hefði verið að mæta úrbótakröfum án þess að loka leikskólanum.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Heilbrigðiseftirlitið bendir á að í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Rekstrarstjóri leikskólans hafi undirritað eftirlitsskýrslu þann 5. nóvember 2024 þar sem fram komi að þar sem heilnæmi og öryggi væri ekki tryggt yrði leikskólinn lokaður þar til fullnægjandi úrbætur hefðu verið gerðar og teknar út. Kæranda hafi því mátt vera kunnugt um ákvörðunina þann 5. nóvember. Bréf um stöðvun starfsemi til bráðabirgða, dagsett 6. nóvember 2024 var undirritað af leikskólastjóra 7. nóvember 2024. Kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni 10. desember 2024. Kæran hafi því borist of seint og með vísan til 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri því að vísa henni frá nefndinni.

Heilbrigðiseftirlitið bendir einnig á að skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 sé meginreglan sú að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Hin kærða ákvörðun frá 6. nóvember 2024 um stöðvun starfsemi til bráðabirgða hafi verið afturkölluð og sé því ljóst að hún hafi ekki lengur réttarverkan. Af þeim sökum hafi kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og því ætti að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð sú ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 5. nóvember 2024, að loka tímabundið leikskólanum S í kjölfar þess að við eftirlit hafði komið í ljós ummerki eftir mýs og að heilnæmi og öryggi væri ekki tryggt í leikskólanum. Rekstrarstjóri leikskólans undirritaði og staðfesti móttöku á eftirlitsskýrslu þann 5. nóvember þar sem fram kom að loka þyrfti leikskólanum. Bréf um stöðvun starfsemi leikskólans dags. 6. nóvember, með ítarlegum upplýsingum um kærurétt og fresti vegna kæru til úrskurðarnefndarinnar, var samkvæmt upplýsingum Heilbrigðiseftirlitsins afhent og staðfest móttekið af kæranda þann 7. nóvember.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Álíta verður að kæranda hafi orðið kunnugt um ákvörðun um lokun leikskólans þegar eftirlitsskýrsla var undirrituð af starfsmanni leikskólans 5. nóvember og að kærandi hafi fengið upplýsingar um kærurétt til úrskurðarnefndarinnar eigi síðar en 7. nóvember 2024. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni meira en mánuði síðar, 10. desember 2024.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Ekki verður talið eins og atvikum er háttað, m.a. í ljósi þess að lokun leikskólans var aflétt þann 11. nóvember 2024, að ástæða sé til að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

114/2024 Stigahlíð

Með

 

Árið 2025, þriðjudaginn 4. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þráinn Hauksson landslagsarkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 114/2024, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. júlí 2024 um að samþykkja hverfisskipulag fyrir Háteigshverfi, Hlíðahverfi og Öskjuhlíðarhverfi í Reykjavík að því varðar skilmálaeiningu 3.2.4, Stigahlíð austur og vestur í Hlíðahverfi. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. desember s.á. um að samþykkja leyfi til byggingar húss á lóðinni nr. 86 við Stigahlíð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Stigahlíð 88, Reykjavík, ákvörðun borgarráðs frá 11. júlí 2024 um að samþykkja tillögu að hverfisskipulagi fyrir Háteigshverfi, Hlíðahverfi og Öskjuhlíðarhverfi. Er þess krafist að fellt verði úr gildi hverfisskipulag fyrir Stigahlíð austur og vestur, sbr. skilmálaeiningu 3.2.4 í skipulagskilmálum Hlíðahverfis, sem er hluti hinnar kærðu ákvörðunar. Auk þess er gerð krafa um að ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september s.á., um leyfi til byggingar húss á lóðinni nr. 86 við Stigahlíð í Reykjavík, verði felld úr gildi. Hinn 11. desember 2024 upplýsti leyfishafi byggingarleyfisins úrskurðarnefndina um að uppfærðum teikningum fyrir húsið hefði verið skilað til Reykjavíkurborgar. Samkvæmt upplýsingum frá borginni voru teikningarnar samþykktar á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. s.m.

Með bréfum til úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. og 6. október 2024, kæra annars vegar eigendur, Stigahlíð 84 og hins vegar eigendur, Stigahlíð 82 einnig báðar fyrrnefndar ákvarðanir og krefjast ógildingar þeirra. Verða þau kærumál, sem eru nr. 115 og 116/2024, sameinuð máli þessu enda standa hagsmunir kærenda því ekki í vegi.

Af hálfu kærenda er jafnframt gerð krafa um að úrskurðað verði um stöðvun framkvæmda við húsið á lóðinni nr. 86 við  Stigahlíð meðan málin séu til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg munu framkvæmdir við byggingu hússins ekki hafnar. Þá þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunar­kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. nóvember 2024 og í desember s.á.

Málavextir: Hinn 1. nóvember 2023 var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur lögð fram tillaga að hverfisskipulagi fyrir Hlíðahverfi, sem er innan borgarhluta 3, Hlíðar. Á fundinum var jafnframt lögð fram almenn greinargerð og stefna sem og skipulagsskilmálar, dags. 31. október 2023, verklýsing frá árinu 2015, skýrsla um íbúaþátttöku og samráð frá árinu 2023 og byggðakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur fyrir borgarhlutann, einnig frá árinu 2023. Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 43. gr., sbr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Staðfesti borgarráð greinda afgreiðslu 9. s.m. og var tillagan auglýst til kynningar frá 16. nóvember 2023 til og með 1. febrúar 2024. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 19. júní 2024 voru kynntar athugasemdir er bárust á kynningartíma. Tillagan var síðan samþykkt á fundi ráðsins 26. s.m. með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 14. júní 2024. Samþykkti borgarráð nefnda afgreiðslu 11. júlí s.á. og í framhaldinu var hverfisskipulagið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar. Gerði stofnunin ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt þess þegar nánar tilgreind atriði hefðu verið lagfærð eða skýrð. Tók hverfisskipulag fyrir Hlíðahverfi gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 6. september 2024 og féllu þá úr gildi eldri deiliskipulagsáætlanir fyrir skipulagssvæðið.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. september 2024 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa tveggja hæða steinsteypt einbýlishús með innbyggðri bílgeymslu og klætt læstri málmklæðningu á lóðinni nr. 86 við Stigahlíð. Var umsóknin samþykkt og talið að hún samræmdist ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. s.m., er fylgdi erindinu, kom fram að byggingarmagn og form hússins væri í samræmi við gildandi skilmála og innan byggingarreits eins og hann væri afmarkaður í hverfisskipulaginu. Var hér um að ræða nýja umsögn skipulagsfulltrúa vegna byggingaráforma á lóðinni  Stigahlíð 86, en fyrir lá umsögn hans frá 25. maí 2023 þar sem talið var að áformað byggingarmagn og form samkvæmt þá framlagðri umsókn væri ekki í samræmi við þágildandi skipulagsskilmála deiliskipulags fyrir Stigahlíð vestan, samþykktu í borgarráði árið 1983.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að bæði form- og efnisannmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun um hverfisskipulag og því byggi hið kærða byggingarleyfi ekki á fullnægjandi lagaheimild. Reglur um deiliskipulag eigi einnig við um hverfisskipulag eftir því sem við eigi, sbr. 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Málsmeðferð við slíkar breytingar sé nánar útfærð í gr. 5.8. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en verulega skorti á að skilyrðum greinarinnar hafi verið fylgt með fullnægjandi hætti við undirbúning skipulagsins. Í gr. 5.3.3.3. í reglugerðinni komi fram að í hverfisskipulagi skuli setja almennar reglur eða skilmála um yfirbragð eða þróun byggðar og fari sú sérstaka heimild sem fengin sé lóðinni nr. 86 við Stigahlíð þvert gegn því skilyrði. Hvers vegna vikið sé frá almennum viðmiðum í götunni megi hvorki ráða af birtum gögnum né hafi það verið rökstutt. Þá hafi fyrirhuguð áform ekki verið kynnt með fullnægjandi hætti.

Samkvæmt skipulagsskilmálum sé heimilt að reisa nýbyggingu á lóðinni Stigahlíð 86 með hámarkshæð útveggja allt að 7 m og hámarks mænishæð 8,5 m, en á hinn bóginn sé gert ráð fyrir því að hámarkshæð húsa á öðrum lóðum í einingunni sé 6,0 m frá uppgefnum hæðarkóta aðalgólfs. Með þessu séu sérstök sjónarmið látin gilda um eina lóð umfram aðra sem hafi veruleg áhrif á hagsmuni nágranna og heildarmynd götunnar. Fyrir því séu ekki málefnaleg rök sé litið til þeirra markmiða sem Reykjavíkurborg beri að vinna að lögum samkvæmt með ákvörðun um nýtt hverfisskipulag. Ekki sé heimilt að stefna að öðrum markmiðum með slíkum ákvörðunum, þ. á m. að vernda persónulega hagsmuni. Feli skilmálarnir í sér brot gegn réttmætisreglunni sem og jafnræðisreglum, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, og óskráðar jafnræðisreglur stjórnsýsluréttar.

Skjalið „Hlíðarhverfi skipulagsskilmálar“ sé víða óljóst og skorti á skýrleika í ljósi umfangs málsins og þeirra hagsmuna sem undir séu. Þegar um jafn mikilvæga hagsmuni sé að ræða verði að gera kröfu um að almenningur geti skilið hvaða áhrif tillögur og endanlegir skilmálar hafi á nærumhverfið. Tillögu vegna skilmálaeiningar 3.2.4 hafi verið breytt verulega frá auglýsingu og því hafi borið að auglýsa tillöguna á nýjan leik, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Til að mynda hafi byggingarmagn á flestum lóðum verið minnkað nema á lóð Stigahlíðar 86. Einnig hafi litið út fyrir í frumútgáfu skipulagsskilmálanna að áfram skyldi gera ráð fyrir því að hámarksstærð húsa færi lækkandi eftir því sem vestar drægi í húsalengjunni að Stigahlíð, líkt og gilt hafi í eldra skipulagi. Því hafi verið breytt án sýnilegrar ástæðu í lokaútgáfu skipulagsskilmálanna. Þá hafi ekki verið ljóst af frumútgáfunni að veita ætti einni lóð rétt umfram aðrar. Gert sé ráð fyrir yfir átta metra háu húsi á lóðinni nr. 86 við Stigahlíð, en önnur hús í götunni séu mun lægri. Hæsta húsið í götunni sé tæplega sjö metrar og hús innst í Stigahlíð séu lægri en hús austar í götunni. Verði af framkvæmdum megi búast við auknu skuggavarpi á lóðina Stigahlíð 88 og aðrar nærliggjandi lóðir og opin svæði. Þá muni birta og útsýni skerðast talsvert. Verði ekki séð hvernig slíkt samræmist hagsmunum íbúa í þessum hverfishluta og annarra borgara sem leið eigi fram hjá lóðinni, en hún sé við vinsælan göngustíg. Þá samræmist slíkt ekki hugmyndum um að sem flestir skuli geta notið birtu í húsagörðum eða göturýmum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar um hið kærða hverfisskipulag verði hafnað, en öðrum kröfum verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Undirbúningur hins kærða hverfisskipulags hafi verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010. Ítarlegt samráð hafi verið haft við íbúa og hagaðila við undirbúning þess og í raun verið gengið lengra en lög geri ráð fyrir, t.a.m. varðandi tímafresti auglýsingar. Auk þess hafi mikilvægur hluti samráðs verið í gegnum upplýsingamiðlun á vefnum. Hafi kærendur átt þess kost á að koma að athugasemdum sínum, sem þeir hafi ekki nýtt sér. Hverfisskipulagið eigi sér stoð í 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga og falli vel að ramma viðfangsefnis í gr. 5.3.3. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Með því séu heimildir til framkvæmda skilgreindar með skýrum hætti. Þá hafi verið farið með skipulagstillöguna sem nýtt deiliskipulag, líkt og skylt sé að lögum.

Hverfisskipulagið byggi á þeim markmiðum sem fram komi í gildandi aðalskipulagi og sé ætlað að stuðla að jákvæðri þróun Reykjavíkur með því að gera hverfi borgarinnar vistvænni, sjálfbærari, meira heilsueflandi og þróa byggðina í takt við breyttar áherslur í samfélaginu, eins og segi í greinargerð með skipulaginu. Í því sé tryggt að ekki sé vegið að þeim réttindum sem fyrir hafi verið í fyrra deiliskipulagi. Ónýttar byggingarheimildir séu afmarkaðar miðað við nærliggjandi byggð sem og sjónarmið og markmið skipulagsins. Hafi t.d. verið aukið við byggingarmagn flestra einbýlishúsa í skilmálaeiningu 3.2.4. Til að gæta jafnræðis og samræmis hafi verið settir skilmálar um sama nýtingarhlutfall á lóðunum, þ.e.a.s. upp í 0,45, en ekki hafi verið gert ráð fyrir auknu byggingarmagni á þeim lóðum þar sem nýtingarhlutfall hafi þegar verið orðið 0,45 eða meira. Nýtingarhlutfall lóðarinnar að Stigahlíð 82 hafi verið komið upp í 0,49 og því hafi ekki verið veitt heimild fyrir auknu byggingarmagni á lóðinni. Engin sérsjónarmið hafi legið að baki því að auka nýtingarhlutfall lóða í skilmálaeiningunni og engin greinarmunur hafi verið gerður milli íbúa í þessum efnum. Því sé hafnað að brotið sé á réttmætisreglunni.

Við útgáfu nýs hverfisskipulags hafi stefna borgarinnar m.a. verið sú að skoða heimildir til að auka byggingarmagn þar sem því yrði við komið, en það sé í takt við húsnæðisstefnu borgarinnar og stefnu um þéttingu byggðar. Einnig hafi verið lögð áhersla á aukningu á búsetuúrræðum. Hafi almennt verið leitast við að auka við byggingarmagn einbýlishúsalóða, þó þannig að haldið yrði í græn svæði og birtuskilyrði. Verið sé að veita lóðinni Stigahlíð 86 aukið byggingarmagn í samræmi við aðrar eignir í Stigahlíð austur og vestur og samræmist byggingarmagnið fyllilega stærð þeirra einbýlishúsa sem fyrir séu í hverfinu. Geri stefna aðalskipulags ráð fyrir fjölgun íbúða í borgarhlutanum og að þéttingarmöguleikar verði kannaðir frekar í hverfisskipulagi. Hafi nýtt hverfisskipulag samræmt þær heimildir sem fyrir hafi verið í Stigahlíð austur og vestur og ýtt undir að sömu heimildir væru þar veittar m.t.t. notagildis eigna og stefnu borgarinnar í skipulagsmálum.

Flest húsanna syðst í Stigahlíð vestur séu byggð á árunum 1985–1987. Síðustu áratugi hafi orðið ýmsar breytingar í byggingum húsa sem kalli á að t.d. hæð, flatarmál og útlit bygginga breytist, en einnig lega og halli þaks. Hámarks mænishæð Stigahlíðar 86 sé 8,5 m samkvæmt hverfisskipulagi, en í eldra skipulagi hafi verið gert ráð fyrir því að hámarkshæð húsa frá uppgefnum hæðarkóta aðalgólfs mætti vera 6,0 m. Sé þar miðað við mælingar frá frágengnu aðalgólfi og upp útvegg. Mænishæð miði hins vegar við hæð botnplötu og upp að mæni, hæsta punkti þaks. Mænishæð geti þannig verið hærri en hæðarkóti frá aðalgólfi eða allt eftir atvikum og hönnun þaksins. Fari mænishæð hússins ekki yfir gildandi skilmála og þyki ekki vera í ósamræmi við hæð annarra einbýlishúsa í götunni, en hæð Stigahlíðar 82, 84 og 88 sé frá 7,0–7,45 m frá aðalgólfi húss og upp að mæni. Stigahlíð 68A sé tveimur húsum norðar en Stigahlíð 86. Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé 37% og af uppdráttum megi ráða að hæð frá botnplötu sé 7,18 m.

Þegar tillaga að hverfisskipulaginu hafi upphaflega verið birt í nóvember 2023 hafi fyrir mistök verið gefið upp rangt nýtingarhlutfall nokkurra lóða í skilmálaeiningu 3.2.4. Ný skýrsla hafi verið birt 14. júní 2024 þar sem þetta hafi verið leiðrétt og jafnt 0,45 nýtingarhlutfall tiltekið. Þetta hafi aðeins átt við um 15 lóðir í allri tillögunni og einungis um sléttar tölur og lóðir sem hafi þegar farið umtalsvert fram yfir áður heimilað nýtingarhlutfall. Þar sem aðeins hafi verið um tæknileg mistök að ræða en ekki efnisleg, hafi þessarar innsláttarleiðréttingar ekki verið getið sérstaklega. Engar breytingar hafi verið gerðar á grundvallaratriðum hverfisskipulagsins og hafi leiðréttar tölur verið í tillögunni sem send hafi verið Skipulagsstofnun til yfirferðar.

Byggingarreitur lóðarinnar Stigahlíðar 86 liggi í stefnunni suðvestur til norðausturs. Ekki verði séð að fyrirhuguð bygging muni hafa áhrif á birtuskilyrði eða skuggavarp umfram það sem vænta megi í þéttbýli og sérstaklega þar sem eignir kærenda liggi flestar austan við lóðina. Njóti því óhindraðar sólar úr suðri og vestri að mestu. Lóðin liggi niður í móti í norður og muni vistarverur sérbýlis að mestu vera á annarri hæð enda sé landhalli töluverður. Göngustígur sem liggi sunnan megin við lóðina sé langt utan við lóðarmörk. Þá samræmist umsókn um byggingarleyfi ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggi fyrirhugaðar framkvæmdir á gildandi skipulagsskilmálum.

 Athugasemdir leyfishafa: Byggingarleyfishafi krefst þess að kærumálum vegna byggingaráforma Stigahlíðar 86 verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að kröfum kærenda verði hafnað. Umrædd lóð hafi verið stofnuð snemma á níunda áratug síðustu aldar. Samkvæmt skipulagi frá 1983 hafi verið gert ráð fyrir byggingu einbýlishúss á lóðinni og hafi það legið fyrir þegar kærendur hafi keypt eignir sínar í Stigahlíð. Því sé ekki hægt að fallast á sjónarmið þeirra um ætlað skert útsýni, skuggavarp, áhrif á birtu eða önnur atriði sem séu augljósar og eðlilegar afleiðingar húsbyggingar. Hafi kærendur ekki lagt fram gögn eða nánari skýringar sem varpað geti ljósi á staðhæfingar þeirra um fyrrgreinda þætti. Eigi þeir engra lögvarinna hagsmuna að gæta, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, ekki síst vegna þess að kæruaðild til nefndarinnar grundvallist á nábýlisréttarlegum hagsmunum sem megi leiða af grenndarreglum. Til að slík sjónarmið geti skapað aðilum kæruaðild fyrir úrskurðarnefndinni þurfi óþægindi sem nágrannar verði fyrir að vera meiri en þau sem búast megi við, en nágranni verði hins vegar að sætta sig við óþægindi sem gera megi ráð fyrir. Ætluð óþægindi sem leiði af þróun í borgarskipulagi sé ótvírætt meðal þeirra sem gera megi ráð fyrir á þeim stað sem um ræði og aðilar verði að sætta sig við.

Því sé hafnað að hið kærða hverfisskipulag sé haldið annmörkum með þeim hætti sem kærendur vísi til eða að ætlaðir annmarkar geti valdið ógildingu hinna kærðu ákvarðana. Það sé rangt að sérskilmálar gildi fyrir lóðina Stigahlíð 86 að því er varði byggingarheimildir. Sé nýtingarhlutfall allra lóða í botnlanganum og raunar á svæðinu öllu nú 0,45 að frátöldum lóðum sem áður hafi haft hærra nýtingarhlutfall. Virðist það í samræmi við áætlanir borgarinnar frá upphafi. Sé því hafnað að aukning byggingarmagns fari að einhverju leyti gegn réttmætisreglu eða jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins.

Þótt aðrir og ögn nákvæmari skilmálar teldust gilda um lóðina nr. 86 við Stigahlíð heldur en um lóðirnar nr. 50–64, 70–84 og 88–94 við Stigahlíð feli það eitt og sér ekki í sér ógildingarannmarka á hverfisskipulaginu eða byggingarleyfinu. Skipulagsvaldið sé í höndum sveitarfélagsins og hverfisskipulagið sé í samræmi við aðalskipulag.  Lóðin að Stigahlíð 86 sé eina óbyggða lóðin á öllu svæðinu og engar ástæður hafi verið fyrir því að setja nýja og sérstaka skilmála um aðrar lóðir. Sé mænishæð hússins hæfileg og í samræmi við almenna byggðaþróun borgarinnar. Hámarks mænishæð og hámarkshæð húsa frá uppgefnum hæðarkóta aðalgólfs sé ekki hið sama. Því sé ekki um það að ræða að húsið að Stigahlíð 86 megi samkvæmt skipulagi vera 2,5 m hærra en önnur hús á svæðinu. Hámarks mænishæð hússins sé 8,1 m og sé það vel innan gildandi skilmála hverfisskipulagsins. Enn fremur sé vísað til erindis sem arkitekt leyfishafa hafi sent Reykjavíkurborg við meðferð fyrri umsóknar um byggingarleyfi. Þar komi fram að miðað við þær skýringar sem hann hafi fengið frá borginni sé húsið í raun 5,11 m á hæð, miðað við hæðarkóta aðalgólfs enda séu öll helstu íverurými hússins á efri hæð. Megi því fullyrða að húsið uppfylli einnig þá hæðarskilmála sem gildi um aðrar lóðir. Í öllu falli sé ljóst að fjöldi húsa á svæðinu og þar með í götunni sé með yfir 6,0 m mænishæð. Málatilbúnaður um brot á reglum um jafnræði eða réttmæti eigi því ekki við rök að styðjast.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að ef víkja eigi frá almennum reglum um gerð deiliskipulags verði slíkt að byggja á málefnalegum sjónarmiðum í samræmi við réttmætisregluna og að sýnt sé fram á að slíkar reglur eigi ekki við. Einnig breyti það ekki eða bæti úr þeim óskýrleika og skorti á gögnum sem einkennt hafi undirbúnings- og kynningarferlið þótt skipulagið hafi verið auglýst lengur en lögbundnir frestir kveði á um.

Þeir annmarkar sem verið hafi á málsmeðferð hvað varði skipulagsskilmála hafi gert íbúum erfitt að átta sig á endanlegum áhrifum breytinganna á Stigahlíð austur og vestur fyrr en eftir að tillagan hafi verið auglýst. Við breytingar á skilmálum skuli birta bæði gildandi skilmála og tillögu að breytingum, sbr. 1. mgr. gr. 5.8.5.2 skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, en deiliskipulag fyrir svæðið frá 1983 hafi ekki verið meðal þeirra gagna sem birt hafi verið í tengslum við gerð og samþykkt hverfisskipulagsins. Í undirbúningsgögnum þess­ sé hvorki fjallað sérstaklega um hvert hæfilegt nýtingarhlutfall lóða skuli vera né hvaða skilmálar skuli gilda um hæð húsa. Virðist sú hugmynd um að auka byggingarheimildir hafa komið til í kjölfar erindis arkitekts lóðarhafa Stigahlíðar 86 þar sem hann nefni m.a. stærð húsa á aðliggjandi lóðum til stuðnings heimild fyrir byggingu stærra húss á lóðinni.

Byggð í hverfinu sé fastmótuð og hlutföll, þakform og yfirborðsáferð húsa áþekk og af svipaðri hæð og gerð. Fyrirhuguð bygging á lóðinni Stigahlíð 86 sé samkvæmt teikningum 8,1 m að hæð og hæðarkóti sé frá 51,92 til 60,03. Byggingin sé 375 m2  og 1305 m3 og komi því til með að verða talsvert meiri að umfangi en önnur aðliggjandi hús. Ekkert aðliggjandi húsa fari yfir hæðarkóta 60. Hús í hverfishlutanum séu og megi að hámarki vera tveggja hæða. Engin haldbær rök búi að baki því að heimila 8,5 m háa byggingu með 7 m útveggjum á lóðinni og engar haldbærar skýringar hafi verið settar fram af hálfu borgarinnar hvað þetta varði.

Þrátt fyrir að það samrýmist stefnu borgarinnar að leggja áherslu á þéttingu byggðar sé ekki þar með sagt að slíkt kalli jafnframt á aukna hæð óbyggðra húsa í rótgrónum hverfum enda komi t.d. fram í aðalskipulagi að hæðir húsa skuli m.a. ákvarðast af yfirbragði aðliggjandi byggðar. Að þessu leyti geti Reykjavíkurborg ekki borið saman aukið nýtingarhlutfall lóða almennt séð sem leiði almennt til viðbygginga eða stækkunar núverandi bygginga í grónu hverfi, við heimilaða hæð á nýbyggingum. Verið sé að bera saman ólík tilvik og leggja þau að jöfnu.

Ósamræmi sé í gögnum málsins um hvaða heimildir gildi varðandi hámarkshæð húsa í skilmálaeiningu 3.2.4. Vísi arkitekt hússins til þess efri hæðin teljist aðalgólf og því sé húsið einungis 5,11 m en augljóst sé af yfirbragði þeirrar byggðar sem þegar hafi risið að slík túlkun standist ekki. Þá sé vakin athygli á því að öll hús fyrir neðan götu, þ.e. Stigahlíð nr. 76–84 séu lægri en 7 metrar. Ekki sé hægt að líta svo á að byggingarleyfi fyrir Stigahlíð 68A sé fordæmisgefandi, en lóðin sé miklu stærri en aðrar lóðir í hverfinu og ekki hafi verið gert ráð fyrir henni í upprunalegu deiliskipulagi. Einungis tvö hús í botnlanganum séu skráð stærri en 400 m2 og ekkert hús í botnlanganum sé stærra en 380 m2 sé horft til þess hluta húsanna sem standi ofanjarðar. Þá séu fimm hús af níu undir 330 m2 að flatarmáli.  Langt hafi verið niður á fast á þessum lóðum og því hafi verið bætt við niðurgröfnum kjöllurnum undir hluta af húsunum.

Óljóst sé hvers vegna ákveðið hafi verið að auka nýtingarhlutfall lóða í Stigahlíð austur og vestur í 0,45, en þær breytingar séu þó í samræmi við áform um framkvæmdir á lóðinni nr. 86 við Stigahlíð. Ekki verði séð að breyta hafi þurft nýtingarhlutföllum lóðanna til að hægt yrði að bæta við allt að 50 m2 aukaíbúðum og mörg húsanna megi nú stækka um meira en 100 m2. Hverfið sé gróið og eðlilegt að einungis sé bætt við afar hóflegum viðbótarbyggingar­heimildum, ef þá einhverjum. Jafnframt sé brýnt að auknar byggingarheimildir fari ekki umfram það markmið sem stefnt sé að í aðalskipulagi varðandi þéttingu byggðar í gömlum og grónum hverfum borgarinnar. Einnig sé mikilvægt að áhrif nýrra bygginga og viðbótabygginga við aðliggjandi byggð verði lágmörkuð, líkt og vikið sé að í aðalskipulagi. Hámarksnýtingarhlutfallið sé langt umfram það sem þörf sé á til að ná þeim þéttingar­markmiðum sem stefnt sé að í aðalskipulagi. Þá liggi fyrir talsverð þétting byggðar í næsta nágrenni á Veðurstofuhæð sem íbúar hverfisins hafi lýst talsverðum áhyggjum yfir í skipulagsferlinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er annars vegar deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar borgarráðs að samþykkja hverfisskipulag fyrir Hlíðahverfi að því er varðar Stigahlíð austur og vestur, skilmálaeining 3.2.4, og hins vegar ákvörðun byggingarfulltrúa um að samþykkja byggingaráform á lóðinni nr. 86 við Stigahlíð, en um óbyggða lóð er að ræða. Eftir að kærur bárust úrskurðarnefndinni var nefndin upplýst um að leyfishafi hefði skilað inn uppfærðum teikningum til byggingarfulltrúa sem samþykktar voru á fundi hans 3. desember 2024. Hefur hin kærða ákvörðun frá 24. september s.á. um samþykkt byggingaráforma vegna Stigahlíðar 86 því ekki lengur réttarverkan. Verður kröfu um ógildingu hennar því vísað frá úrskurðarnefndinni. Þess í stað verður tekin afstaða til lögmætis samþykktar byggingarfulltrúa frá 3. desember 2024 sem líta verður svo á, að virtum sjónarmiðum kærenda, að sé hin kærða ákvörðun um samþykkt byggingaráforma vegna Stigahlíðar 86. Kæruheimild til nefndarinnar er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Kærendur eru eigendur fasteigna á lóðunum nr. 82, 84 og 88 við Stigahlíð. Verður í ljósi staðhátta að telja að ekki sé loku fyrir það skotið að samþykkt byggingaráform á lóðinni Stigahlíð 86 geti haft áhrif á grenndarhagsmuni þeirra með þeim hætti að skapi þeim kæruaðild fyrir úrskurðarnefndinni í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ræðst kæruaðild af atvikum hverju sinni og felur í sér heildstætt mat á því hvort skilyrðum laganna sé fullnægt. Þá liggur fyrir að með hinni kærðu ákvörðun um hverfisskipulag var nýtingarhlutfall lóðarinnar að Stigahlíð 86 aukið frá því sem gert hafði verið ráð fyrir í eldri skipulagsáætlun auk þess sem gerðar voru aðrar breytingar á skipulagsskilmálum. Teljast kærendur því eiga kæruaðild í máli þessu.

Með skipulagslögum er sveitarstjórnum falinn víðtækur réttur til skipulagsgerðar og breytinga á gildandi skipulagi innan marka síns sveitarfélags sem þó sætir takmörkunum sem leiða af lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. laganna skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Í kafla. 3.1.2. í greinargerð Aðalskipulags Reykjavíkur 2040 kemur m.a. fram í umfjöllun um íbúðarhverfi og gæði byggðar að skapaður verði sveigjanleiki til að fjölga íbúðum innan gróinnar byggðar, samkvæmt ákvörðunum í hverfisskipulagi, með betri nýtingu þess húsnæðis sem fyrir er, viðbyggingum, ofanábyggingum, uppskiptingu eigna og breyttri notkun. Með því verði m.a. stuðlað að hagkvæmri og sjálfbærri borgarþróun og dregið úr nýbyggingarþörf. Þá er tekið fram í kafla 3.5.1. að álíta verði að ákvæði hverfisskipulags um „hægfara“ fjölgun íbúða innan einstakra hverfa, s.s. með einstaka nýbyggingum innan núverandi lóða samræmist almennum heimildum aðalskipulagsins um fjölgun íbúða, enda verði fjölgun íbúða innan einstakra reita eða lóða minni en 49 íbúðir.

Í kafla 3.6.2. í greinargerð aðalskipulagsins eru sett fram nánari markmið og leiðarljós um hæðir húsa og kemur m.a. fram að hæðir skuli almennt ákvarðast af t. a. m. yfirbragði aðliggjandi byggðar. Um gæði íbúðarhúsnæðis og nærumhverfis segir í kafla 3.6.3. að hönnun íbúðarhúsnæðis á einstökum reitum þurfi ávallt að skoða í samhengi við heildarskipulag viðkomandi hverfis, þau umhverfisgæði og þjónustu sem í boði eru í næsta nágrenni og þá byggð sem er fyrir eða áformuð á nærliggjandi svæðum. Einnig kemur fram í kafla 3.6. að stefna og viðmið aðalskipulags um þéttleika byggðar og byggingarmagn gefi einvörðungu til kynna mögulega hámarksnýtingu svæða, en að endanleg ákvörðun um magn bygginga, fjölda íbúða, hæðir húsa og þéttleika á einstökum svæðum sé ávallt tekin við gerð deiliskipulags, með tilliti til meginmarkmiða aðalskipulags um sjálfbæra þróun og gæði byggðar, að undangengnu kynningar- og samráðsferli og mati á umhverfisáhrifum og með sérstöku tilliti til þeirra viðmiða og ákvæða sem sett séu fram í köflum 3.6.1–3.6.4.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga annast sveitastjórnir t.a.m. gerð deiliskipulagsáætlana, en skv. 1. mgr. 37. gr. laganna eru þar teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Um hverfisskipulag er fjallað í 37. gr. skipulagslaga sem tegund deiliskipulags fyrir þegar byggð hverfi, sbr. gr. 1.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laganna gilda reglur um málsmeðferð deiliskipulags um hverfisskipulag eftir því sem við á, en tekið er fram að heimilt sé við vinnslu slíks skipulags að víkja frá kröfum um framsetningu sem gerðar séu til deiliskipulagsáætlana í nýrri byggð og leggja frekar áherslu á almennar reglur um yfirbragð byggðarinnar auk almennra rammaskilmála. Í gr. 5.3.3.3. í skipulagsreglugerð er mælt fyrir um að í hverfisskipulagi skuli setja almennar reglur eða skilmála um yfirbragð, þróun og varðveislu byggðarinnar. Taka skuli afstöðu til ónýttra byggingarheimilda ef fyrir liggi. Þá sé heimilt að setja fram almennar reglur, leiðbeiningar og fyrirmæli um umfang og yfirbragð mannvirkja, breytingar og viðhald húseigna í stað byggingarreita og skilmála um nýtingarhlutfall eða byggingarmagn, að því tilskildu að framkvæmdaheimildir séu skýrðar með fullnægjandi hætti.

Hlíðahverfi er samkvæmt almennri greinargerð og stefnu hverfisskipulagsins skipt upp í 18 skilmálaeiningar, en þar er um að ræða þyrpingu húsa, lóða og/borgarumhverfis á afmörkuðu landsvæði innan hverfis sem fá sameiginlega skipulagsskilmála. Samkvæmt skipulagsskilmálum telst Stigahlíð austur og vestur til skilmálaeiningar 3.2.4 sem afmarkast af Hamrahlíð til norðurs, Kringlumýrarbraut til austurs, lóð Menntaskólans við Hamrahlíð til vesturs og opnu svæði og Veðurstofulóð til suðurs. Er því lýst svo í skilmálunum að gatan Stigahlíð liggi frá norðri til suðurs í miðri einingunni. Austan við götuna sé einbýlishúsabyggð sem tekið hafi að rísa í upphafi sjöunda áratugar síðustu aldar en byggðin vestan megin við götuna hafi verið skipulögð og reist eftir 1980. Í báðum tilvikum sé um að ræða innbyrðis fastmótaða byggð sem sé dæmi um byggingarstíl síns tíma. Verður þrátt fyrir þessa lýsingu þó að benda á að húsagerðir og útlit húsa á þeirri skipulagseiningu sem hér um ræðir er fjölbreytt þótt stafi að mestu frá sama tímabili.

Í skipulagsskilmálum fyrir skilmálaeiningu 3.2.4 eru helstu áherslur m.a. tilgreindar þær að veita viðbótarbyggingarheimildir þar sem nýtingarhlutfall lóðar gefi tilefni til, byggingarreitir á lóðum eru stækkaðir og heimilað er að útbúa aukaíbúð að uppfylltum skilyrðum. Þá er vísað til þess að í leiðbeiningum hverfisskipulags sé að finna nánari útlistun á skipulags- og byggingarskilmálum fyrir svæðið. Ónýttar byggingarheimildir sem fram komi í þeim deiliskipulagsáætlunum sem falli úr gildi með gildistöku hverfisskipulagsins haldi sér í skilmálum hverfisskipulags.

Húsagerðir eru tilgreindar sem einbýlishús á einni til tveimur hæðum að Stigahlíð 68 undanskilinni. Nýting ónýttra byggingarheimilda skuli vera í samræmi við eldri skilmála, þ.m.t. þakform, þakhalli og önnur takmarkandi atriði sem fram komi í viðeigandi skilmálaliðum. Jafnframt skuli nýting vera innan byggingarreits eins og hann sé afmarkaður í eldra deiliskipulagi. Með því er vísað til deiliskipulags fyrir Stigahlíð vestan sem samþykkt var í borgarráði árið 1983, en samkvæmt skipulagsskilmálum þess náði það yfir 20–21 einbýlishúsalóðir á svæðinu, þ. á m. lóðina Stigahlíð 86 og lóðir kærenda. Í skilmálunum var kveðið á um að hús skyldu vera ein hæð með lágu risi en leyfilegt væri að hluti þess væri tvær hæðir. Grunnflötur húss að bílageymslu meðtalinni mátti vera allt að 200 m2 og 80 m2 á annarri hæð, samtals 280 m2, en 240 m2 ef hús væri einnar hæðar. Hámarkshæð húsa frá uppgefnum hæðarkóta aðalgólfs mátti vera 6,0 m. Húsagerð var að öðru leyti frjáls en tekið var fram að áríðandi væri að hús félli vel að landi.

Varðandi viðbótarbyggingarheimildir er í almennum ákvæðum skilmálanna m.a. tilgreint að allar viðbætur og breytingar skuli taka mið af þaki núverandi húss en jafnframt er vísað í leiðbeiningar hverfisskipulags um viðeigandi húsagerð. Ef viðbótarbyggingarmagn er til nýtingar fyrir lóðina er heimilt að byggja viðbyggingu sem taki mið af hæðarfjölda núverandi húss. Ekki sé heimilt að fjölga hæðum. Um útlitsbreytingar og viðhald kemur fram að forðast skuli að raska að óþörfu frumgerð húss og sérkennum þess við viðhald og útlitsbreytingar. Taka skuli tillit til forma og hlutfalla, glugga og gluggasetningar, innganga, áferðar, efnisvals, mynstra og annarra sérkenna húss. Sækja má um að taka í notkun ósamþykkt rými í kjöllurum húsa sem til hafa orðið s.s. vegna náttúrulegs landhalla enda muni umfang húss ekki aukast. Þá er í umhverfismati hverfisskipulagsins tekið fram að í skilmálum þess sé lögð áhersla á varðveislu byggðamynsturs í fastmótaðri byggð og eflingu staðaranda.

Í skilmálum hverfisskipulagsins er gert ráð fyrir því að nýtingarhlutfall lóða í skilmálaeiningu 3.2.4 verði að hámarki 0,45, nema í þeim tilvikum þegar nýtingarhlutfall er þegar orðið það eða hærra. Kærendur gera athugasemdir við þetta þar sem um sé að ræða gróið hverfi og eðlilegt sé að einungis sé bætt við afar hóflegum viðbótarbyggingar­heimildum ef þá einhverjum. Af þessu tilefni er til þess að líta sem tekið er fram í umsögn Reykjavíkurborgar í máli þessu að aukið var við byggingarmagn vegna skilmálaeiningar 3.2.4 í samræmi við þróun í hverfinu og þá aukningu sem þegar hafi átt sér stað á nýtingarhlutfalli lóðanna frá fyrra deiliskipulagi. Sama nýtingarhlutfall hafi verið sett á lóðir í skilmálaeiningunni til að gæta jafnræðis og samræmis. Telja verður þessi rök málefnaleg og ekki í bága við framanrakta stefnumótun aðalskipulags Reykjavíkur hvað varðar þróun byggðar innan gróinna hverfa.

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar um hverfisskipulag fór fram margsháttar kynning á tillögunni sem var að auki auglýst til kynningar. Tekin var afstaða til framkominna athugasemda og gerðar breytingar á tillögunni í samræmi við umsögn skipulagsfulltrúa.  Fyrir liggur í málinu að vegna mistaka við útreikning hafi birst rangar niðurstöður um nýtingarhlutfall 15 lóða í þeirri skipulagstillögu sem auglýst hafði verið til kynningar en leiðréttar tölur hafi verið birtar í tillögu er send hafi verið Skipulagsstofnun og í lokaútgáfu hennar. Telja verður að ekki felist í þessu að tillögunni hafi verið breytt í grundvallaratriðum og var því ekki tilefni til að auglýsa hana að nýju, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Í skipulagsskilmálum fyrir Stigahlíð austur og vestur við umfjöllun um nýbyggingar segir að heimilt sé að reisa á lóðinni Stigahlíð 86 einbýlishús á einni til tveimur hæðum. Er lóðin sú eina sem óbyggð er á svæðinu og því ekki óeðlilegt að sérstök umfjöllun sé um hana. Hámarksbyggingarmagn er í skilmálatöflu tilgreint 385 m2 og nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,45 en gert var ráð fyrir að það væri 0,33 samkvæmt eldra deiliskipulagi. Fram kemur að hámarkshæð útveggja megi vera allt að 7 m og hámarks mænishæð 8,5 m. Skilmálar um hámarkshæð annarra húsa eru óbreyttir frá eldra deiliskipulagi. Að áliti kærenda er lóðarhafa Stigahlíðar 86 með þessu veitt mun rýmri heimild í skipulagi en aðrir njóta, en heimildir þeirra til breytinga á húsum sínum takmarkist við skilmála eldra deiliskipulags, sem tekin er upp í hverfisskipulagið, um að hámarkshæð húsa frá uppgefnum hæðarkóta aðalgólfs megi vera 6,0 metrar.

Af hálfu skipulagsyfirvalda hefur verið bent á að hámarks mænishæð og hámarkshæð húsa frá uppgefnum hæðarkóta aðalgólfs sé ekki hið sama og vísað til sjónarmiða sem færð hafa verið fram af arkitekt hússins sem ætlað er að rísi á lóðinni nr. 86 við Stigahlíð, um að það uppfylli einnig þá hæðarskilmála sem gildi um aðrar lóðir. Þá hefur verið vísað til þess að heimiluð hámarkshæð húss á lóðinni Stigahlíð 86 sé ekki í ósamræmi við hæð annarra einbýlishúsa í götunni. Samkvæmt aðaluppdráttum sé hæð Stigahlíðar 82 mælt frá aðalgólfi hússins og upp að mæni 7,2 m, hæð Stigahlíðar 84 sé 7,0 m frá aðalgólfi og upp að mæni og hæð Stigahlíðar 88 sé 7,45 m, mælt frá aðalgólfi upp að mæni. Þá sé hæð frá botnplötu Stigahlíðar 68A 7,18 m, en byggingu þess húss muni hafa verið lokið árið 2009. Virðist með þessu dæmi um að veittar hafi verið byggingarheimildir umfram heimildir deiliskipulags hverfisins, sem litið hafi verið til við ákvörðun hámarkshæðar byggingar fyrir lóðina Stigahlíð 86 í hverfisskipulaginu. Líkt og að framan greinir er tekið fram í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 að hæðir skuli almennt ákvarðast af yfirbragði aðliggjandi byggðar og verður ekki horft hjá þessum aðstæðum við það mat. Verður ekki talið að skilmálar um hámarkshæð fyrirhugaðs húss á lóðinni nr. 86 við Stigahlíð feli í sér svo mikla breytingu á yfirbragði aðliggjandi byggðar að fari í bága við þessa stefnu aðalskipulagsins. Má nefna sem dæmi að hús á næstu lóð, Stigahlíð 88, hefur mænishæð 7,45 m, sem er aðeins 0,66 m lægra en mænishæð áformaðs húss á lóðinni nr. 86 við Stigahlíð.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða ákvörðun um hverfisskipulag ekki haldin þeim annmörkum að raskað geti gildi hennar. Verður ekki annað ráðið en að umdeilt hverfisskipulag sé hvað skilmálaeiningu 3.2.4 varðar í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags um þéttingu byggðar í eldri hverfum og að öðru leyti í  samræmi við gildandi aðalskipulag svo sem áskilið er í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Verður því að hafna kröfu kærenda um ógildingu þess.

—–

Í tilefni af sjónarmiðum kærenda sem varða sérstaklega samþykkt byggingaráforma verður að benda á að gert hefur verið ráð fyrir byggingu einbýlishúss á lóðinni Stigahlíð 86 allt frá því að eldra deiliskipulag tók gildi. Ljóst er að með hinni kærðu ákvörðun um hverfisskipulag getur heimiluð bygging á lóðinni haft í för með sér aukin grenndaráhrif frá því sem áður mátti gera ráð fyrir enda byggingarmagn aukið. Til þess ber þó að líta að um nokkuð stóra lóð er að ræða og að hámarksnýtingarhlutfall hennar verður  svipað og flestra annarra lóða á skipulagsreitnum. Geta grenndaráhrif ekki talist slík að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar, enda ekki umfram það sem íbúar í þéttbýli mega búast við.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Að virtum gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að samþykkt byggingaráform séu í samræmi við ákvæði hverfisskipulagsins.

Með vísan til alls framangreinds er kröfu kærenda um ógildingu byggingaráforma fyrir lóðina nr. 86 við Stigahlíð hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. júlí 2024 um að samþykkja hverfisskipulag fyrir Háteigshverfi, Hlíðahverfi og Öskjuhlíðarhverfi í Reykjavík að því varðar skilmálaeiningu 3.2.4, Stigahlíð austur og vestur í Hlíðahverfi.

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. desember 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna Stigahlíðar 86.

Vísað er frá kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna Stigahlíðar 86.

154/2024 Brúarhlöð

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Halldóra Vífilsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 154/2024, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 19. september 2024 um að samþykkja deiliskipulagið Brúarhlöð L234128, uppbygging ferðamannaaðstöðu.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. nóvember 2024, er barst nefndinni 8. s.m., kærir eigandi landspildu Einiholti Kálfholti í Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 19. september 2024 að samþykkja deiliskipulagið Brúarhlöð L234128, uppbygging ferðamannaaðstöðu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara að deiliskipulagið verði fellt úr gildi hvað varði þann hluta sem skipulagið kalli „eyjar í Hvítá“ sem ekki séu innan sveitarfélagsmarka Hrunamannahrepps.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hrunamannahreppi 4. desember 2024.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs uppsveita bs. 28. júní 2020 var lögð fram skipulagslýsing vegna deiliskipulags fyrir Brúarhlöð í landi Haukholts og var mælst til þess við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að samþykkja skipulagslýsinguna til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn Hrunamannahrepps samþykkti skipulagslýsinguna til kynningar og umsagna á fundi sínum 12. nóvember s.á.

Tillaga deiliskipulags fyrir Brúarhlaðir var lögð fram á fundi skipulagsnefndar 9. mars 2022. Mæltist skipulagsdeildin til þess við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að deiliskipulagið yrði auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga og samþykkti sveitarstjórn auglýsingu deiliskipulagsins á fundi sínum 27. apríl s.á. Deiliskipulagstillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsnefndar 11. janúar 2023 auk þeirra umsagna sem bárust á auglýsingatíma skipulagsins. Mælti skipulagsnefnd til þess að sveitarstjórn Hrunamannahrepps samþykkti deiliskipulagið. Á fundi sveitarstjórnar 13. apríl 2023 var deiliskipulagið samþykkt en það tók ekki gildi þar sem talið var nauðsynlegt að gera breytingar á Aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2016–2032.

Á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs uppsveita bs. 28. júní 2023 var lögð fram skipulags- og matslýsing vegna breytinga á aðalskipulagi og deiliskipulag fyrir Brúarhlöð, sunnan Skeiða- og Hrunamannavegar. Breytt landnotkun í verslunar- og þjónustusvæði væri innan jarðarinnar Brúarhlöð, L234128. Stærð skipulagssvæðisins væri um 6 ha, þar sem gert væri ráð fyrir uppbyggingu þjónustu á staðnum, svo sem gistingu, veitingum og bílastæðum auk gönguleiða um svæðið og út í eyjar í Hvítá þar sem gerð yrðu örugg útsýnissvæði. Gert var ráð fyrir að heildar byggingarmagn gæti orðið allt að 1.000 m2. Mæltist skipulagsnefnd til þess við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að samþykkja skipulagslýsingu tilkynningar og umsagnir í samræmi við 30. og 40. gr. skipulagslaga. Sveitarstjórn gerði ekki athugasemdir við afgreiðslu skipulagsnefndar og samþykkti skipulagslýsinguna til kynningar og umsagna á fundi sínum 29. s.m.

Skipulags- og matslýsing vegna breytinga á Aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2016–2032 og deiliskipulags fyrir Brúarhlaðir var auglýst frá 13. júlí til 4. ágúst 2023. Á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs uppsveita bs. 29. september s.á. var tekin fyrir tillaga til breytingar á aðalskipulagi. Fram kom að dregið hefði verið úr umfangi mannvirkja og stærð svæðis miðað við hugmyndir sem settar hefðu verið fram í skipulags- og matslýsingu, hætt við gistingu og þjónustuhús minnkað. Athugasemdir og umsagnir sem bárust á umsagnartíma voru lagðar fram, þar á meðal athugasemd kæranda varðandi mörk Einiholts Kálfholts og Brúarhlaða. Lagði skipulagsnefnd áherslu á að leitað yrði umsagnar Bláskógabyggðar vegna fyrirhugaðrar skipulagsbreytingar, breyting á aðalskipulagi tæki til breyttrar landnotkunar innan jarðar Brúarhlaða en ekki væri tekin afstaða til eignarréttarlegs ágreinings varðandi landamerki, hvorki við vinnslubreytingar á aðalskipulagi eða innan deiliskipulags þegar það kæmi til afgreiðslu. Þá var vísað til þess að eigandi Einiholts Kálfholts hafi eingöngu vísað til eldri skipulagsgagna sem ekki hafi tekið gildi auk landamerkjalýsinga sem tilgreini að mörk séu dregin í miðlínu ár. Fyrir lægju hnitsett mörk lands Brúarhlaða sem eigendur Haukholts 1 hafi skrifað undir en ekki hafi verið leitað samþykkis landeigenda Einiholts Kálfholts varðandi mörk lands Brúarhlaða út í Hvítá.

Á fundi skipulagsnefndar 10. apríl 2024 var lögð fram að nýju tillaga aðalskipulagsbreytingar og mælti skipulagsnefnd til þess að sveitarstjórn samþykkti breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga. Aðalskipulagsbreytingin var samþykkt á fundi sveitarstjórnar 18. apríl 2024 og tók gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 5. september s.á. Á sama fundi 10. apríl 2024 var lögð fram tillaga til deiliskipulags fyrir land Brúarhlaða L234128. Skipulagið tók til um 2,5 ha svæðis á austurbakka Hvítár við Brúarhlöð og voru helstu markmið þess að vinna heildarskipulag fyrir móttöku ferðamanna á svæðinu sem tæki til bílastæðis, göngustígs með áningarstöðum, útsýnispalla og þjónustuhús með veitinga- og snyrtiaðstöðu. Mæltist skipulagsnefnd til þess að deiliskipulagið yrði samþykkt og auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga og samþykkti sveitarstjórn að auglýsa deiliskipulagstillöguna á fundi sínum 18. s.m.

Deiliskipulagstillagan var auglýst frá 8. maí til og með 21. júní 2024 og á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs uppsveita bs. 5. júlí s.á. var mælst til þess við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að samþykkja deiliskipulagið. Brugðist hafi verið við umsögnum sem borist hefðu með fullnægjandi hætti.

Á fundi skipulagsnefndar 11. september 2024 var deiliskipulagstillagan tekin fyrir í kjölfar yfirferðar Skipulagsstofnunar sem gerði athugasemdir við gildistöku tillögunnar. Voru athugasemdirnar ásamt samantekt athugasemda og viðbragða lagðar fram. Mælti nefndin til þess að sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagið þar sem brugðist hefði verið við umsögn Skipulagsstofnunar með fullnægjandi hætti innan samantektar á athugasemdum og viðbrögðum sem lögð væru fram við afgreiðslu málsins. Sveitarstjórn Hrunamannahrepps samþykkti deiliskipulagið á fundi sínum 19. s.m. og tók það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. október 2024.

Málsrök kæranda: Bent er á að hið samþykkta deiliskipulag fyrir Brúarhlöð fari yfir miðlínu Hvítár og inn á landsvæði Einiholts Kálfholts. Samkvæmt hinu kærða skipulagi sé gert ráð fyrir mannvirkjum inn á landareign kæranda. Engin slík notkun eða uppbygging mannvirkis á landareigninni hafi verið rædd eða samþykkt af hálfu kæranda og ljóst að eigendur Brúarhlaða séu að reyna að færa landamerki á milli landspildnanna á kostnað kæranda og færa þar með sveitarfélagamörk á milli Bláskógabyggðar og Hrunamannahrepps. Kærandi hafi í skipulagsferlinu ítrekað bent á að sveitarstjórn Hrunamannahrepps hafi ekki lagaheimild til skipulagsvalds út fyrir sveitarfélagsmörk Hrunamannahrepps en skipulagsnefnd umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita og Hrunamannahreppur hafi kosið að taka ekki efnislega á athugasemdunum. Sveitarstjórn Hrunamannahrepps hafi lýst því yfir að brugðist hafi verið við athugasemdum kæranda með fullnægjandi hætti án þess þó að hafa á nokkurn hátt fjallað um landamerki jarðanna. Sá misskilnings hafi gætt að þótt fyrir lægju hnitsett mörk lands Brúarhlaða þá séu mörkin eingöngu hnitsett að því leyti sem þau liggi ekki að Einiholti Kálfholti, en þar ráði Hvítá. Eigendur Haukholts hefðu átt að vera meðvitaðir um að eyjarnar í Hvítá væru ekki nema að hluta í þeirra eigu eins og sjáist þegar skoðuð séu önnur gögn sem liggi að baki kaupsamningi núverandi eiganda landsins við seljendur, sem skipt hafi eigninni út úr Haukholti. Engin rök styðji það að hin meinta skoðun eigenda Haukholts sé rétthærri en aðrar skoðanir um landamerkin. Engin gögn hafi verið lögð fram sem styðji neina aðra túlkun á landamerkjum Einiholts Kálfholts og Brúarhlaða en að dregin skuli miðjulína í Hvítá.

Það að skipulagsnefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki hefði átt að stöðva skipulagsferlið þar „sem eingöngu er vitnað til eldri skipulagsgagna sem tóku ekki gildi auk landamerkjalýsinga sem tilgreina að mörk séu dregin í miðlínu ár“ sé óskiljanlegt. Öll eldri skipulagsgögn styðji að eyjarnar fari yfir miðjulínu Hvítár. Núna liggi fyrir ný skipulagsgögn sem sýni enn nákvæmari legu eyjanna og því fullkomlega ljóst að deiliskipulagið, sem og aðalskipulag, fari út fyrir skipulagssvæði Hrunamannahrepps og inn yfir miðlínu Hvítár og þar með inn á land Einiholts Kálfholts í Bláskógabyggð.

Í hinu kærða deiliskipulagi hafi önnur aðaleyjan í Hvítá verið teiknuð inn sem landföst Brúarhlaða megin en hin færð inn sem eyja. Teikningarnar hafi ekki verið bornar undir eiganda Einiholts Kálfholts sem telji að við meðalflæði Hvítár séu báðar eyjarnar umvafðar straumum Hvítár þótt ljóst sé að í lægstu vatnsstöðu árinnar verði önnur eyjan landföst Brúarhlaða megin. Umsögn Bláskógabyggðar við skipulagstillögur Hrunamannahrepps hafi ekkert gildi í málinu þar sem sveitarfélagið hafi ekki ákvörðunarvald um landamerki. Auk þess sem sömu starfsmenn sitji báðu megin við borðið við gerð slíkrar umsagnar.

Málsrök Hrunamannahrepps: Vísað er til þess að umfangsmikil kynning hafi farið fram vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á umræddu svæði á grundvelli hins kærða deiliskipulags. Skipulagslýsing og deiliskipulagstillagan hafi farið í gegnum umsagnar og kynningarferli árin 2020–2023 þar sem niðurstaðan hafi verið að nauðsynlegt væri að vinna aðalskipulags­breytingu sem tæki til svæðisins, samhliða vinnslu deiliskipulags. Athugasemdir kæranda snúi að mörkum sveitarfélaganna Hrunamannahrepps og Bláskógabyggðar og um leið marka á milli Brúarhlaða, L234128, og Einiholts Kálfholts, L167299. Engar athugasemdir hafi komið fram af hálfu Bláskógabyggðar eða Hrunamannahrepps varðandi það að sveitarfélagamörk væru rangt skilgreind innan tillögunnar eða að deiliskipulagssvæðið væri að hluta innan marka Bláskógabyggðar. Fyrir liggi bókun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar þar sem staðfest sé að engar athugasemdir séu gerðar við skipulagstillöguna.

Hrunamannahreppur og Bláskógabyggð reki sameiginlega skipulagsnefnd í gegnum embætti Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita þar sem sveitarfélögin eigi einn fulltrúa hvort. Á aðaskipulagssjá Skipulagsstofnunar séu aðalskipulagsflákar ásamt mörkum sveitarfélaga lögð fram eins og þau séu skilgreind á uppdráttum aðalskipulags og þar megi sjá að svæðið sem kærandi vísi til sé allt innan marka Hrunamannahrepps samkvæmt skilgreiningum aðalskipulagsáætlana beggja sveitarfélaga. Í samantekt um umsagnir og athugasemdir hafi komið fram að í aðalskipulagi séu sveitarfélagsmörk sett fram í mælikvarðanum 1:50.000–1:100.000 og séu því fremur ónákvæm í þeim skilningi. Að jafnaði sé þó miðað við að sveitarfélaga og eignarmörk séu dregin í miðlínu áa nema annað sé tekið fram. Ekki sé tekin afstaða til ágreinings um eignamörk á milli landa eða jarða í afgreiðslu sveitarstjórnar á deiliskipulagstillögunni. Í landeignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar séu mörk Brúarhlaða skilgreind og byggi þau á hnitum á lóðarblaði. Við gerð deiliskipulagstillögu sé miðað við hnitsett mörk landsins. Aftur á móti byggi skilgreind mörk Einiholts Kálfholts ekki á hnitsettum gögnum heldur sé um að ræða vörpun á teikningu sem fyrir liggi innan þinglýstra gagna. Nákvæmni þeirrar afmörkunar sé því óviss. Engin ágreiningur sé um legu sveitarfélaga­marka á svæðinu eða óvissa um hvar mörk þeirra séu dregin.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að nágrannar Brúarhlaða hafi ekki verið látnir vita né leitað umsagna þeirra þegar fyrstu drög að deiliskipulagi hafi verið lögð fram 21. október 2020. Það hafi ekki verið gert fyrr en á miðju ári 2024, eftir að kærandi hafi gert ítrekaðar athugasemdir við deiliskipulagstillöguna á nokkrum stigum og við breytingar á aðalskipulagi sem það byggi á. Landareign kæranda sé eina fasteignin svo vitað sé, þar sem farið sé yfir bæði landamerki og sveitarfélagsmörk með hinu kærða deiliskipulagi og aðalskipulagi.

Í afgreiðslu skipulagsnefndar 5. júlí 2024 og aftur 8. s.m. hafi nefndin bókað að brugðist hafi verið við þeim umsögnum sem borist hafi „innan gagnanna og í framlagðri samantekt umsagna, athugasemda.“ Ein athugasemda Skipulagsstofnunar við deiliskipulagið hafi verið að ef deiliskipulagið næði yfir sveitarfélagsmörk þurfi skipulagsáætlunin að hljóta samsvarandi málsmeðferð í Bláskógabyggð. Hrunamannahreppur hafi svarað athugasemdinni á þann hátt að Bláskógabyggð hafi engar athugasemdir gert við legu sveitarfélagsmarka á svæðinu. Ljóst sé að skipulagsnefnd umhverfis- og tæknisviðs uppsveita bs., sem sé sameiginleg nefnd beggja sveitarfélaga, hafi ákveðið að taka ekki á athugasemdum kæranda. Það að Bláskógabyggð hafi ekki gert athugasemd geti ekki talist staðfesting á legu markanna.

Þegar skipulagsnefnd hafi fjallað um málið á árunum 2020 til 2022 hafi miðjulína Hvítár, og þar með sveitarfélagamörkin, verið skilgreind á allt annan og réttari hátt en í hinu kærða deiliskipulagi. Eftir að hið nýja skipulag hafi komið fram hafi mörkunum verið breytt en óvíst sé að nefndarmenn hafi hugað sérstaklega að því á þeim tíma. Þegar athugasemdir kæranda hafi komið fram á árinu 2023 sé líklegt að erfitt hafi verið fyrir starfsmenn nefndarinnar að skipta um skoðun og falla frá ákvörðun um breytt sveitarfélagamörk sem hafi líklega farið fram hjá þeim. Í deiliskipulagsdrögum, dags. 31. janúar 2022, séu skipulagsmörkin dregin í gegnum eyjarnar í Hvítá. Þar sem fjárhagslegir hagsmunir Bláskógabyggðar séu engir í málinu sé líklegt að það hafi verið einfaldara fyrir Bláskógabyggð að skipta sér ekki af málinu. Kærandi hafi sent tölvupóst á sveitarstjóra Bláskógabyggðar 9. nóvember 2023 og óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins en engin svör hafi borist.

Í svörum umhverfis- og tæknisviðs uppsveita bs. við kærunni sé vísað í mörk sveitarfélaga á aðalskipulagssjá Skipulagsstofnunar. Nákvæmari mynd úr aðalskipulagssjá sýni hins vegar að sveitarfélagamörkin fari í gegnum eyjarnar í Hvítá og það sama megi sjá í aðalskipulagi Hrunamannahrepps fyrir breytingar. Óskiljanlegt sé hvernig komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að umrætt svæði sé innan Hrunamannahrepps og það sé mat kæranda að með andsvari sínu hafi umhverfis- og tæknisvið uppsveita bs. viðurkennt að mikil óvissa ríki um legu eignamarkanna. Ekki sé hægt að túlka það á neinn annan hátt en að þar sé einnig átt við sveitarfélagamörkin.

Upplýsingaöflun úrskurðarnefndarinnar: Við meðferð þessa kærumáls óskaði úrskurðar­nefndin eftir afstöðu Bláskógabyggðar um hvort sveitarfélagið teldi að hið kærða deiliskipulag færi inn fyrir sveitarfélagamörk Bláskógabyggðar. Í svörum sveitarfélagsins kom fram að litið hafi verið svo á að landamörk jarða sem liggi að Hvítá ráði sveitarfélagamörkum á svæðinu. Jafnframt væri litið til 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923 um merki landareigna í lækjum og ám. Af hálfu sveitarfélagsins hafi ekki verið talin ástæða til að gera athugasemdir við að Hrunamannahreppur færi með skipulagsvald á svæði því sem deiliskipulagið tæki til.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Hrunamannahrepps um að samþykkja deiliskipulagið Brúarhlöð L234128, uppbygging ferðamannaaðstöðu.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórn gerð skipulagsáætlana og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. gr. og 38. gr. laganna. Í aðal­skipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélags, m.a. varðandi land­notkun, sbr. 1. mgr. 28. gr., en við gerð deiliskipulags ber að byggja á stefnu aðalskipulags auk þess sem deiliskipulag skal rúmast innan heimilda aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. nefndra laga. Sveitarfélög hafa samkvæmt þessu einungis heimild til að deiliskipuleggja svæði innan sveitarfélagamarka sinna.

Í sveitarfélagasjá Náttúrufræðistofnunar eru mörk sveitarfélaga sýnd. Samkvæmt því korti liggja sveitarfélagamörk Hrunamannahrepps og Bláskógabyggðar vestan við umræddar eyjur í Hvítá, líkt og hið kærða deiliskipulag miðar við. Þá kom fram í svörum Bláskógabyggðar við fyrirspurn nefndarinnar að sveitarfélagið hafi ekki talið ástæðu til að gera athugasemdir við að Hrunamannahreppur færi með skipulagsvald á svæðinu sem hið kærða deiliskipulag tekur til. Verður ráðið af svörum Bláskógabyggðar að það sé afstaða sveitarfélagsins að svæði það er hið umdeilda deiliskipulag tekur til tilheyri Hrunamannahreppi. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, sem og að virtri þeirri afstöðu, verður ekki talið sýnt sé að Hrunamanna­hreppur hafi farið út fyrir staðarleg valdmörk við setningu hins umþrætta deiliskipulags.

Kærandi vísar til þess að hluti hins deiliskipulagða svæðis nái yfir landareign hans. Samkvæmt landeignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er hið kærða deiliskipulag innan lóðarinnar Brúarhlöð, L234128. Vísar afmörkunin til þinglýstra gagna um landaskipti. Úrskurðarnefndin er ekki til þess bær að lögum að skera úr um eignaréttarlegan ágreining, líkt og hér um ræðir, enda einskorðast valdheimildir hennar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ágreining um bein eða óbein eignaréttindi verður eftir atvikum að leiða til lykta fyrir dómstólum, en rétt þykir að geta þess að deiliskipulagsákvarðanir geta ekki falið í sér ráðstöfun eignarréttinda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leitt geta til ógildingar hennar og kröfu þar um því hafnað. 

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamanna­hrepps frá 19. september 2024 um að samþykkja deiliskipulagið Brúarhlöð L234128, uppbygging ferðamannaaðstöðu.

178/2024 Álfaskeið

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður, og Halldóra Vífilsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 178/2024 kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 28. nóvember 2024 um beitingu dagsekta að fjárhæð 20.000 kr. á dag frá og með 12. desember 2024, vegna ætlaðrar óleyfisbúsetu og framkvæmda í geymslum merktar 00-02 og 00-03 sem eru hluti séreignar kærenda.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags.14. desember 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur íbúðar 0201 í fjöleignahúsinu að Álfaskeiði 37, Hafnarfirði, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 28. nóvember 2024 um beitingu dagsekta að fjárhæð 20.000 kr. frá og með 12. desember s.á., vegna ætlaðrar óleyfisbúsetu og framkvæmda í geymslum merktar 00-02 og 00-03 sem eru hluti séreignar þeirra. Kærendur gerðu jafnframt þá kröfu að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með úrskurði uppkveðnum 20. desember 2024 var fallist á kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 17. desember 2024.

Málavextir: Af gögnum þessa máls má ráða að nokkur ágreiningur sé milli eigenda íbúða í fasteigninni að Álfaskeiði 37. Í byrjun árs 2024 höfðu eigendur íbúðar 0101 samband við byggingarfulltrúa vegna óleyfisframkvæmda í kjallara hússins. Að þeirra sögn höfðu kærendur í máli þessu, sem eru eigendur íbúðar 0201, sagað gat í burðarvegg og sett upp salernisaðstöðu í geymslum sem tilheyri íbúðinni og væri þar búseta. Var þeim ráðlagt að halda húsfund í húsfélagi hússins eða hafa samband við húseigendafélagið til þess að reyna að ná sáttum við kærendur og knýja á um að sótt yrði um byggingarleyfi vegna framkvæmdanna.

Húseigendafélagið sendi kærendum bréf, dags. 7. maí 2024, þar sem farið var fram á að sameign hússins yrði komið í fyrra horf. Þeim kröfum var hafnað með bréfi frá lögmanni kærenda, dags. 7. júní s.á. Í byrjun ágúst 2024 fóru eigendur íbúðar 0101 á fund byggingarfulltrúa. Í framhaldi fundarins sendi byggingarfulltrúi kærendum bréf dags. 21. s.m. þar sem skorað var á þau að láta af búsetu hið fyrsta og sækja um leyfi fyrir framkvæmdunum. Var þeim veittur frestur til 11. september 2024. Sú beiðni var svo ítrekuð með bréfi dags. 17. október s.á. og bent á að verði ekki brugðist við erindinu fyrir 15. nóvember gæti komið til dagsekta.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. nóvember 2024 var tekin ákvörðun um að leggja á dagsektir að fjárhæð 20.000 kr. frá og með 12. desember 2024. Í bréfinu var vísað til 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Jafnframt var bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök kærenda: Bent er á að kærendur hafi fest kaup á íbúð 0201 í desember 2023. Íbúðin sjálf sé 60,7 fm en í kjallara hússins sé sérinngangur með rýmum sem tilheyri hverri hæð fyrir sig sem séreign. Rýmin sem tilheyri eign þeirra sé stórt herbergi með gluggum, samtals 16,1 fm og rými, samtals 7,2 fm sem hafi verið innréttað sem baðherbergi til fjölda ára og sé með glugga með opnanlegu fagi. Eignaskiptasamningur staðfesti þessa skiptingu.

Stuttu eftir kaupin hafi eigendur íbúðar 0101 lagt inn kvörtun til Húseigendafélagsins vegna óleyfisframkvæmda. Í kjölfarið hafi kærendum borist bréf frá Húseigendafélaginu 7. maí 2024. Hafi bréfinu verið svarað 4. júní s.á, en ekkert hafi heyrst frá Húseigendafélaginu eftir það. Ekki hafi liðið á löngu þar til borist hafi símtal frá byggingarfulltrúa Hafnafjarðarbæjar sem hvorki hafi gefið kærendum kost né færi á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Næst hafi borist bréf 21. ágúst 2024 þar sem eftirfarandi hafi komið fram „Fyrir einhverju átti byggingarfulltrúi samskipti við eiganda vegna ábendingu um búsetu í geymslu. Ekki er heimilt að nota geymslur sem gistirými nema að þær uppfylli ákvæði byggingarreglugerðar og er skráð sem „herbergi“ Samkvæmt teikningu og eignaskiptalýsingu er rými í kjallara skráð sem geymslur og þess háttar, hvergi er skráð herbergi, snyrting eða eldhús. sjá meðfylgjandi eignaskiptayfirlýsingu. „lofthæð í íbúðarrýmum og eldhúsi skal vera 2.5 að innanmáli“ grein 6.7.2. í byggingarreglugerð. Ekki er löglegt björgunarop á rýminu […] Verði þessum tilmælum ekki sinnt mun byggingarfulltrúi taka ákvörðun um framhald málsins með hliðsjón af ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og gr. 2.9.2. í byggingareglugerð nr. 112/2012. Getur sú ákvörðun falið í sér að ráðist verði í beitingu dagsektarákvæða. Komi til beitingu dagsekta og kostnaðar, verði hann innheimtur skv. ákvæði í fyrrnefndri byggingarreglugerð.“ Fullyrðingu byggingarfulltrúa um að eldhús sé til staðar í rýminu hafni kærendur alfarið, ályktun sé byggð á hreinni ágiskun án nokkurs sönnunargildis.

Hafi erindi byggingarfulltrúa verið svarað 12. september 2024, þar sem óskað var eftir öllum gögnum málsins sem ákvarðanatakan væri byggð á. Einnig hafi verið óskað eftir upplýsingum um hvaða forsendur lægju að baki þeirri ályktun að mannvirkið væri ekki nýtt í samræmi við samþykkta uppdrætti. Í svarpósti byggingarfulltrúa við beiðninni 17. s.m. hafi verið vísað í að borist hafi símtal fyrr á árinu með ábendingu um óleyfisframkvæmdir á geymslusvæði í kjallara á Álfaskeiði 37, Hafnarfirði. Í kjölfarið hafi verið haft samband símleiðis og rætt við annan kærenda sem hafi viðurkennt að vinur sinn byggi þarna og það væri búið að útbúa íbúð á geymslusvæðinu. Hafi kæranda verið bent á að slíkt væri óheimilt.

Áður en ákvörðun var tekin hafi hvorki verið búið að ganga úr skugga um hvort óleyfisbúseta væri til staðar eða hvort gluggar í rými hefðu verið með löglegt björgunarop og gætu nýst sem flóttaleið, sérstaklega í ljósi þess hversu íþyngjandi ákvörðunin er með tilliti til meðalhófs. Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri stjórnvaldi að tryggja að málið sé nægjanlega upplýst að því leyti sem þörf sé á áður en ákvörðun er tekin að. Í þessu máli liggi fyrir að byggingarfulltrúi hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni með fullnægjandi hætti, þar sem ekki hafi verið aflað upplýsinga um raunverulega notkun rýmisins og framkvæmdir sem höfðu átt sér stað í því. Heldur hafi ákvörðun verið byggð á ábendingu um búsetu í geymslu sbr. mál ÚUA nr. 31/2015.

Sé um utanaðkomandi ábendingu að ræða sé byggingarfulltrúa skylt að athuga hvort hún eigi við rök að styðjast og ráðast í nauðsynlega rannsókn til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun. Hafi það ekki verið gert heldur tekin ákvörðun út frá einhliða ábendingu sem ætti ekki við nein rök að styðjast, enda hafi Húseigendafélagið tekið þá ákvörðun að aðhafast ekkert frekar í málinu eftir að þeim var ljóst hvernig í pottinn var búið.

 Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Vísað er til þess að í byrjun árs 2024 hafi byggingarfulltrúa borist símtal frá eigendum íbúðar 0101 að Álfaskeiði 37 vegna óleyfisframkvæmda í kjallara hússins. Að þeirra sögn hafi kærendur sem séu eigendur íbúðar 0201 sagað gat í burðarvegg og sett upp salernisaðstöðu í geymslum sem tilheyri íbúð 0201. Hafi byggingarfulltrúi einnig verið upplýstur um að í þessum rýmum væri nú búseta. Í fyrstu hafi eigendum íbúðar 0101 verið ráðlagt að byrja á því að halda húsfund og/eða hafa samband við Húseigendafélagið til að reyna að ná sáttum og knýja eigendur íbúðar 0201 til þess að sækja um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum.

Í ágúst 2024 hafi eigendur íbúðar 0101 svo komið á fund hjá byggingarfulltrúa og haft undir höndum myndir af framkvæmdunum, bréf húseigendafélagsins til eigenda íbúðar 0201 og svarbréf frá lögfræðingi þeirra við bréfinu. Framkvæmdin sem um ræði hafi verið gerð án samþykkis annarra eigenda í húsinu og ekki hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir þeim. Þá hefði skv. 8. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 þurft samþykki meðeigenda ef saga ætti gat í burðarvirki eða tengja nýjar lagnir. Í framhaldi fundarins hafi eigendum íbúðar 0201 verið sent bréf dags. 21. ágúst 2024. Hafi þau svarað því bréfi 12. september s.á. þar sem óskað hafi verið eftir öllum gögnum málsins og upplýsinga um hvaða forsendur liggi að baki þeirri ályktun að mannvirkið sé ekki nýtt í samræmi við samþykkta uppdrætti. Hafi þeirri beiðni verið svarað með tölvupósti dags. 17. s.m.

Sveitarfélagið telji að um óleyfisframkvæmdir sé að ræða eins og myndir og samskipti aðila beri með sér. Hafi eigendum íbúðar 0201 verið gefið tækifæri til að bregðast við en ekki gert það. Sé byggingarfulltrúa því heimilt að leggja á dagsektir í samræmi við 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar komi fram að eigendur íbúðar 0101 hafi átt fund með byggingarfulltrúa í ágúst 2024. Vakin sé athygli á því að 12. september s.á. hafi byggingarfulltrúa verið sendur tölvupóstur og óskað eftir afhendingu allra gagna sem tengdust málinu. Í svari byggingarfulltrúa hafi komið fram að engin gögn væru til staðar vegna málsins og að málið hefði eingöngu komið til vitundar byggingarfulltrúa í formi ábendingar. Af málsatvikum sé því ljóst að byggingarfulltrúi hafi haldið eftir gögnum sem kærendur hafi átt ótvíræðan rétt á að fá afhent skv. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 Sé því alfarið hafnað að þurft hafi samþykki annarra eigenda hússins fyrir framkvæmdum innan séreignar, eins og hún sé skilgreind í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, sbr. 4. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Enginn vafi leiki á því að veggur á milli rýma 00-02 og 00-03 falli innan séreignar kærenda. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 teljist allir milliveggir sem ekki eru burðarveggir til séreignar.

Almennt teljist það ekki byggingarleyfisskyld framkvæmd að gera. hurðargat í burðarvegg. Hins vegar geti slík framkvæmd verið tilkynningarskyld til byggingarfulltrúa séu breytingar gerðar á burðarvirki. Það eigi ekki við í þessu tilviki þar sem framkvæmdin hafi ekki tengst burðarvirki hússins.

Í gr. 2.3.6 í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sé kveðið á um tilkynningarskyldar breytingar á burðarvirki. Þar segi meðal annars að breytingar á burðarvirki, sem nemi minna en 5% af hjúpfleti burðarhluta, þó aldrei meira en 5 m², séu undanþegnar byggingarleyfi en skuli tilkynna leyfisveitanda. Byggingarfulltrúi staðfesti móttöku tilkynningar og meti hvort breytingin samræmist gildandi skipulagi áður en framkvæmdin sé heimiluð.

Hafi byggingarfulltrúa verið sendur póstur 23. desember 2024 þar sem óskað hafi verið eftir teikningum af burðarvirki hússins. Svar hafi borist samdægurs þess efnis að engar teikningar væru til af burðarvirki hússins vegna aldurs þess. Veki það því mikla furðu að byggingarfulltrúi hafi svo tekið ákvörðun um að beita dagsektum án þess að hafa nein haldbær gögn sem staðfesti burðarvirki hússins.

Við nánari skoðun á sniði af húsinu megi sjá að sökkulfætur séu sýndir á þremur stöðum, undir burðarveggjum útveggja og fyrir miðju hússins. Á sniði, sem skipti húsinu að Álfaskeiði 35-37 í gegnum miðju og alla leið upp í þakplötu séu útveggir sýndir sem burðarveggir. Ekki sé að sjá þar að aðrir veggir séu burðarveggir.

Ljóst sé að vinnubrögð byggingarfulltrúa hafi verið ófagleg og byggð á ófullnægjandi gögnum. Engin gögn staðfesti að framkvæmd á hurðargati hafi átt sér stað á burðarvegg hússins þar sem engin haldbær gögn, svo sem teikningar af burðarvirki hússins, séu til staðar sem gætu stutt slíkar fullyrðingar. Þrátt fyrir þetta hafi byggingarfulltrúi tekið ákvörðun um að beita kærendur dagsektum, en slík ákvörðun krefjist traustra sannana fyrir því að framkvæmdin hafi verið óheimil. Með því að grípa til slíkra aðgerða án haldbærra gagna sé ljóst að byggingarfulltrúi hafi farið út fyrir valdheimildir sínar þar sem gögn/snið af húsinu sýni fram á hið gagnstæða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 28. nóvember 2024 um beitingu dagsekta að fjárhæð 20.000 kr. frá og með 12. desember s. á. til að knýja á um afléttingu ætlaðs ólögmæts ástands. Kæruheimild er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sbr. 1. mgr. gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er óheimilt að breyta mannvirki eða notkun þess nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Hafi notkun mannvirkis verið breytt án lögboðins leyfis er byggingarfulltrúa heimilt að stöðva þá notkun, loka mannvirkinu, krefjast úrbóta eða beita dagsektum sé leyfislausri notkun ekki hætt samkvæmt 55. og 56. gr. mannvirkjalaga, sbr. og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð. Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í máli þessu er deilt um hvort að þær breytingar sem kærendur hafi gert í geymslum, sem eru séreign þeirra, séu háðar byggingarleyfi og hvort að málið hafi verið nægjanlega upplýst og meðalhófs gætt þegar byggingarfulltrúi tók hina kærðu ákvörðun, sérstaklega í ljósi þess hversu íþyngjandi ákvörðunin er.

Um 10. gr. stjórnsýslulaga, segir í frumvarpi því sem varð að nefndum lögum að: „Mál telst nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem eru nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Um nánari afmörkun verður m.a. að líta til þess hversu mikilvægt málið er og hversu nauðsynlegt það er að taka skjóta ákvörðun í málinu. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður almennt að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar, sem búa að baki ákvörðun, séu sannar og réttar.“

Ljóst er að deilur voru milli aðila um tilurð og umfang framkvæmda og um hver væri notkun rýmisins í séreign kærenda í kjallara Álfaskeiðs 37. Þar að auki liggja ekki fyrir viðunandi teikningar sem unnt er að byggja á. Að því virtu var ekki með viðhlítandi hætti gengið úr skugga um hvort óleyfisbúseta væri til staðar eða framkvæmdir metnar út frá staðfestum gögnum. Var rannsókn máls við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar að því leyti ábótavant.

 Með vísan til þess sem að framan er rakið þykja þeir ágallar vera á rannsókn máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og þar með rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði.

 Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 28. nóvember 2024, um beitingu dagsekta að fjárhæð 20.000 kr. á dag frá og með 12. desember s.á. er felld úr gildi.

160/2024 Laugarásvegur

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Halldóra Vífilsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 160/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. nóvember 2024 um að fjarlægja skuli ljósaskilti á húsi á lóð nr. 1 við Laugarásveg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 18. nóvember 2024, kærir Skúbb ehf. þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. nóvember s.á. um að fjarlægja skuli ljósaskilti á húsi á lóð nr. 1 við Laugarásveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. desember  2024.

Málavextir: Með bréfi, dags. 28. nóvember 2023, var kærandi máls þessa upplýstur um að eftirlitsdeild umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar hefði borist ábending vegna ljósaskilta að Laugarásvegi 1. Þar kom einnig fram að á samþykktum aðaluppdráttum kæmi fram að ekki yrði sett skilti á bygginguna og að settar yrði límfilmur/merkingar í glugga. Skiltin væru þannig án byggingarleyfis. Var þinglýstum eiganda gert að fjarlæga skiltið innan 14 daga frá móttöku bréfsins. Í kjölfar símtals kæranda við starfsmann Reykjavíkurborgar 21. mars 2024 var samþykkt að fresta þvingunaraðgerðum þar sem fyrirhugað væri að sækja um byggingarleyfi vegna skiltanna.

Með bréfi, dags. 5. nóvember 2024, var þinglýstum eiganda Laugarásvegar 1 gert að fjarlægja viðkomandi skilti innan 30 daga frá móttöku bréfsins. Var kæranda sent samrit bréfsins. Í bréfinu kom einnig fram að yrði ekki brugðist við kröfunni innan gefins frests áformaði byggingarfulltrúi að leggja á dagsektir kr. 25.000. Var veittur 14 daga frestur til að koma að andmælum vegna áforma um fyrirhugaðar dagsektir.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að sá einstaklingur sem sent hafi ábendingu til byggingarfulltrúa um skiltin sé mikið í nöp við ísbúðina Skúbb og hafi kvartað til allra yfirvalda með engum árangri hingað til. Önnur fyrirtæki í þjónustukjarnanum hafi líka haft skilti en ekki hafi verið bent á þau. Umræddur einstaklingur hafi unnið skemmdarverk á bíl fyrirtækisins, starfsfólk Skúbb sé hrætt við hann vegna hótana í þeirra garð. Viðkomandi noti m.a. bílastæði sem ætluð séu viðskiptavinum þjónustukjarnans. Skiltamálið hafi verið rætt á húsfundi og hafi niðurstaða fundarins verið ástæða þess að ekki hafi verið sótt um byggingarleyfi. Gerðar hafi verið ráðstafanir til að merkja ísbúðina með öðrum hætti og verið sé að bíða eftir þeirri pöntun. Fór kærandi fram á að ákvörðun byggingarfulltrúa yrði felld úr gildi vegna tómlætis íbúa þar sem ekki hafi verið gerðar athugasemdir fyrr en áður greindur einstaklingur hafi farið í stríð við ísbúðina. Til vara hafi kærandi farið fram á frest þar til ný lausn á merkingu ísbúðarinnar, sem ekki krefðist breytingar á byggingarleyfi, væri komin.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að umrætt skilti utan á byggingunni á lóð nr. 1 við Laugarásveg sé án byggingarleyfis og í ósamræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Samkvæmt gr. 2.3.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 sé óheimilt að reisa mannvirki, breyta því, burðavirki þess, lagnakerfum, notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda. Meint tómlæti meðeigenda eða borgaryfirvalda breyti engu. Eiganda skiltisins hafi um nokkra hríð verið kunnugt um að sækja þyrfti um breytingu á byggingarleyfinu ef skiltin ættu að vera áfram á húsinu. Það hafi kærandi ekki gert, enda virðist sem meðeigendur hússins samþykki ekki slíka ráðstöfun. Ekkert hafi komið fram sem geti valdið ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og því beri að hafna kröfum kæranda í málinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að fjarlægja skuli ljósaskilti á húsi á lóð nr. 1 við Laugarásveg. Í húsnæðinu er rekin ísbúð.

Í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. gr. 2.9.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, er kveðið á um að byggingarfulltrúi skuli gera eiganda eða umráðamanni lóðar aðvart sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafar hætta eða það telst skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, eða ekki er gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu.

Í samþykktum aðaluppdráttum fyrir Laugarásveg 1, þar sem sótt var um leyfi vegna ísbúðar, er fjallað um merkingar. Þar segir: „Settar verða límfilmur í glugga. Ekki verður sett skilti eða frekari merking á bygginguna“. Eru hin umdeildu skilti þannig ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Meint tómlæti eiganda annarra eignarhluta í húsinu að Laugarásvegi 1 breytir því ekki að hin umdeildu skilti eru ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Ef breyta á samþykktum aðaluppdráttum þarf byggingarleyfi sbr. 6. tl. 3. gr. og 9. gr. laga nr. 160/2010 sbr. gr. 2.3.1. byggingarreglugerðar.

Að framangreindu virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. nóvember s.á. um að fjarlægja skuli ljósaskilti á húsi á lóð nr. 1 við Laugarásveg.

166/2024 Furuhlíð

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 166/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 30. október 2024 um að samþykkja tilkynnta framkvæmd á lóð nr. 14 við Furuhlíð, Hafnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 1. desember 2024, kæra eigendur, Fjóluhlíð 13, Hafnarfirði, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 30. október 2024 um að samþykkja tilkynnta framkvæmd á lóð nr. 14 við Furuhlíð, Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 13. desember 2024.

Málavextir: Kærendur í máli þessu eru lóðarhafar lóðar nr. 13 við Fjóluhlíð, Hafnarfirði. Bakhlið lóðarinnar er í suðvestur og liggja mörk hennar að hluta að mörkum bakhliðar Furu-hlíðar 14. Lóðirnar eru staðsettar í landhalla og standa húsin við Furuhlíð nokkuð hærra en hús við Fjóluhlíð. Gólfkóti íbúðarhússins að Furuhlíð 14 er samkvæmt samþykktum uppdrætti 33,80 en gólfkóti efri hæðar hússins að Fjóluhlíð 13 er 29,45. Eigendur Furuhlíðar 14 hafa reist sólpall á lóðinni ásamt skjól- og stoðveggjum.

Í september árið 2022 var embætti byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar gert viðvart um gerð skjólveggja og palls á lóð nr. 14 við Furuhlíð. Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 24. apríl 2023, mótmæltu kærendur umræddri framkvæmd og var eigendum Furuhlíðar 14 gert að stöðva framkvæmdir á meðan málið var til skoðunar. Hinn 5. júlí 2023 sóttu lóðarhafar Furuhlíðar 14 um byggingarleyfi fyrir skjólvegg á lóðinni og var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 12. s.m., samþykkt að kynna umsóknina fyrir aðliggjandi lóðarhöfum, þ. á m. kærendum í máli þessu. Kom þar fram að um byggingarleyfisskylda framkvæmd væri að ræða og að fyrirhugað væri að byggja 180 cm háan stoðvegg og 180 cm skjólvegg, samanlagt 360 cm að hæð. Kærendum var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sem þeir gerðu með bréfi, dags. 13. ágúst 2023. Athugasemdir kærenda lutu að hæð skjólveggjarins sem snýr í átt að lóð þeirra og lögðu þeir það til að hann yrði lækkaður í 180 cm miðað við jarðveg lóðarinnar innan ákveðinna tímamarka. Með tölvupósti, dags. 20. október 2024, kröfðust kærendur þess að skjólveggurinn yrði fjarlægður þar sem hvorki samkomulag né byggingarleyfi hafi legið fyrir.

Með tölvupósti, dags. 29. október 2024, óskuðu kærendur eftir því að umsókn um byggingar-leyfi yrði breytt í tilkynningu vegna framkvæmdar samkvæmt gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Á samþykktum teikningum kemur fram að sótt sé um skjólvegg á lóðarmörkum þar sem hæsta hæð hans sé 1,8 m en 3,6 m sé frá hæsta punkti niður á stöllun lóðar. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa degi síðar var erindið tekið fyrir og samþykkt. Ákvörðunin var tilkynnt kærendum með tölvupósti, dags. 12. nóvember 2024.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að umdeildur skjólveggur sé byggingarleyfisskyldur. Samkvæmt 2. og 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skuli afla byggingarleyfis vegna girðinga og skjólveggja á lóðum nema framkvæmdirnar falli undir undanþáguákvæði gr. 2.3.5. Skjólveggur sem sé 3,6 m að hæð falli ekki undir e-lið 1. mgr. 2.3.5. gr. í byggingarreglugerð. Það sé meginregla samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki að byggingarleyfi þurfi fyrir mannvirkjagerð og undantekningar á því skuli túlka þröngt. Þá sé mannvirkið ekki í samræmi við deiliskipulag. Íbúar við Fjóluhlíð nr. 13 hafi ekki veitt samþykki fyrir umræddum framkvæmdum.

Bygging 3,6 m hárrar skjólgirðingar sé umtalsverð breyting á mannvirkjum á lóð nr. 14 við Furuhlíð. Skuggavarp slíks mannvirkis hafi neikvæð áhrif á garð á lóð kærenda og sé ekki í samræmi við upphaflegt deiliskipulag. Mikill hæðarmunur sé á milli lóðanna, framkvæmdin skerði möguleika á nýtingu lóðarinnar ásamt því að hafa áhrif á birtu á lóð kærenda og útsýni frá henni. Grenndarkynningu byggingarfulltrúa hafi verið hafnað af hálfu kærenda þar sem hún hafi ekki tekið mið af áhrifum veggjarins á aðliggjandi eignir með nægjanlegum hætti. Skjólveggurinn hafi verið samþykktur þrátt fyrir skort á samþykki nágranna sem sé í andstöðu við kröfur í byggingarreglugerð og grenndarrétt. Byggingarfulltrúi hafi tekið ákvörðun um samþykki veggjarins án þess að taka nægjanlega tillit til framkominna athugasemda kærenda sem hafi lýst áhyggjum af skuggavarpi, sjónmengun og skorti á samráði. Að mati þeirra sé um óleyfilegt mannvirki að ræða sem ekki geti fengið löglegt byggingarleyfi og veki það athygli að ákveðið hafi verið að gefa út „tilkynningarskylt leyfi“ í staðinn.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu bæjaryfirvalda er talið að ákvörðun byggingarfulltrúa um samþykki tilkynningarskylds leyfis hafi verið tekin á grundvelli laga og reglna. Ekki sé um að ræða byggingarleyfisskylda framkvæmd heldur tilkynningarskylda. Ástæða fyrir samþykkt á tilkynningarskyldri framkvæmd hafi verið að umræddar lóðir séu í halla. Ef fylgja hefði átt hæðarblöðum þyrfti að hækka neðri lóðina upp eins og hæðarkótar kveði á um og hefði veggurinn þá ekki sýnst eins yfirgnæfandi. Skjólveggurinn sé um 3,4 m frá lóðarmörkum kærenda og sé á lóðinni um litla aukningu skuggavarps að ræða, en þegar sé skuggavarp af húsi á lóð nr. 14 við Furuhlíð.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili byggir á því að ekki sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða. Ljóst sé að umræddur skjólveggur sé ekki hærri en 1,8 m frá hæð lóðarinnar og fjarlægð hans frá lóðarmörkum sé meiri en 1,8 m eins og kveðið er á um í e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Lóð kærenda sé mun lægri en hún hefði átt að vera samkvæmt samþykktum uppdráttum og því virðist veggurinn hærri. Í málinu liggi fyrir að Hafnarfjarðarbær hafi látið kanna mögulegt skuggavarp af umræddum skjólvegg. Samkvæmt gögnum málsins megi sjá að hann skerði ekki útsýni og valdi nánast engu nýju skuggavarpi á lóð kærenda. Lóðin standi fyrir neðan bratta brekku í norður hlíð, þar sem almennt njóti minni sólar.

Samþykki allra annarra nágranna en kærenda liggi fyrir. Þá sé byggt á því að samþykki kærenda sé ekki þörf vegna framkvæmdarinnar. Framkvæmdaraðilar hafi í öllu ferlinu farið eftir leiðbeiningum og fyrirmælum leyfisveitanda. Allt samstarf hafi gengið ágætlega nema við kærendur sem hafi með ómálefnalegum hætti reynt að stöðva framkvæmdir og bætt við skilyrðum sem standist ekki lög.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja umdeilda framkvæmd ekki tilkynningar-skylda. Skjólveggurinn sé byggingarleyfisskyldur þar sem hann sé yfir 1,8 m á hæð og valdi umtalsverðum grenndaráhrifum. Skjólveggurinn sé byggður út fyrir hallann á lóðinni og dekk sólpallsins hangi því í lausu lofti. Veggurinn styðji því bara við loftið. Þó veggurinn sé 3,4 m inn á lóð Furuhlíðar 14 hafi það engu að síður grenndaráhrif vegna hæðar og staðsetningar. Hann valdi skuggavarpi og sjónmengun sem rýri gæði og notagildi lóðarinnar Fjóluhlíðar 13. Hæð lóðar kærenda sé aðeins lægri en skipulag hafi sagt til um en á móti komi að lóð Furuhlíðar 14 sé hærri en upphaflegt skipulag hafi sagt til um, það auki enn frekar áhrif veggjarins. Kærendur hafi ekki samþykkt skjólvegginn enda liggi ekkert undirritað samþykki fyrir. Þegar í ljós hafi komið að sá hluti veggjarins sem sé á milli Furuhlíðar 12 og 14 væri ekki hluti af þeirri miðlunartillögu sem lögð hafi verið fram hafi kærendur dregið hana til baka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar að  samþykkja tilkynnta framkvæmd við gerð 1,8 m skjólveggjar ofan á stoðvegg á lóðinni Furu-hlíð 14 sem mun vera allt að 1,8 þar sem hann er hæstur.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undanþiggja byggingarleyfi eða að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningarskyldar. Þannig eru í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 taldar upp þær framkvæmdir og breytingar sem undanþegnar eru byggingarheimild og -leyfi enda séu þær í samræmi við deiliskipulag.

Lóðin Furuhlíð 14 tilheyrir svæði Mosahlíðar, ÍB5, samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 þar sem í gildi er deiliskipulag Mosahlíðar. Í skilmálum deiliskipulagsins kemur fram í kafla 1.2.5 um frágang lóða að öll stöllun á lóð skuli gerð innan lóðar. Fjarlægð stalla frá lóðarmörkum skuli vera a.m.k. jöfn hæð þeirra nema þegar óhreyft landslag bjóði upp á betri lausnir. Á lóðinni Furuhlíð 14 hefur sú leið verið valin að stöllun lóðarinnar er gerð með allt að 1,8 m háum stoðvegg. Umræddur stoðveggur stendur allur innan lóðarinnar eða um 3,4 m frá lóðarmörkum. Samrýmist þessi frágangur lóðarinnar kröfum deiliskipulags svæðisins um stöllun á lóð og felur ekki í sér framkvæmd sem þarfnast byggingarleyfis eða byggingarheimildar, en samkvæmt d-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð er gerð palla og annar frágangur á eða við jarðvegsyfirborð undanþeginn byggingarleyfi. Þá kemur fram í e-lið greinarinnar að skjólveggir og girðingar, sem séu allt að 1,8 m á hæð og ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m, séu jafnframt undanþegnar byggingarleyfi. Hinn umdeildi skjólveggur í máli þessu er samkvæmt teikningu 1,8 m á hæð og staðsettur ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m og er þar af leiðandi undanþeginn byggingarleyfi.

Í gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð er fjallað með tæmandi hætti um mannvirkjagerð sem er undanþegin byggingarheimild og -leyfi, en skuli tilkynnt leyfisveitanda. Ekki verður séð að sú framkvæmd sem hér um ræðir falli undir nefnt ákvæði og því voru ekki forsendur fyrir þeirri málsmeðferð sem málið fékk hjá byggingarfulltrúa. Þar af leiðandi verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 30. október 2024 að samþykkja tilkynnta framkvæmd á lóð nr. 14 við Furuhlíð, Hafnarfirði.

79/2024 Mýrargata

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, ­Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Halldóra Vífilsdóttir arkitekt.

Endurupptekið var mál nr. 79/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 25. júlí 2024, kærir húsfélag Mýrargötu 33–39 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að byggingaraðila verði gert að ráðast í endurbætur svo húsið verði í samræmi við samþykkt hönnunargögn.

Með úrskurði nefndarinnar kveðnum upp 5. nóvember 2024 var kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. Í úrskurðinum var á því byggt að kæran lyti að ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. maí 2024 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39 og kæmu því ekki til skoðunar atriði sem tekin hefðu verið út í lokaúttekt embættisins frá 19. janúar s.á., en vottorð um lokaúttekt þeirra atriða var gefið út sama dag. Í kjölfar úrskurðarins kom kærandi á framfæri ábendingum um að honum hefði ekki verið kunnugt um „að lokaúttekt hefði verið gefin út í tvennu lagi“ auk þess sem vottorðið frá 24. maí 2024 bæri þess ekki merki. Einnig benti kærandi á að í kærunni hefði sérstaklega verið tekið fram að honum væri ekki ljóst hvenær lokaúttekt hefði farið fram og hvenær vottorð hefði verið gefið út. Var af því tilefni óskað eftir upplýsingum frá byggingarfulltrúa um hvort starfsmenn embættisins hefðu tilkynnt kæranda um lokaúttektina sem fram fór í janúar. Svar barst frá borgaryfirvöldum um að engin frekari samskipti lægju fyrir önnur en þau sem þegar hefðu verið afhent nefndinni. Af þeim gögnum er ljóst að kæranda var aldrei tilkynnt um þá úttekt sem fram fór í janúar og það vottorð sem gefið var út í kjölfar þess.

Með bréfi, dags. 21. nóvember 2021, tilkynnti úrskurðarnefndin aðilum þessa máls og Reykjavíkurborg að kærumálið hefði verið endurupptekið þar sem að áliti nefndarinnar hefði skort á upplýsingar um málsatvik og grundvöll kærunnar við uppkvaðningu úrskurðarins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. ágúst 2024, 12. september s.á., 8. október s.á. og 13. desember s.á.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 3. nóvember 2020 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um leyfi til að byggja fjölbýlishús á sex hæðum á reitum S4–S8 á lóð nr. 2 við Seljaveg, matshluta 05, en fjölbýlishúsið hefur fjóra stigaganga sem bera nöfnin Mýrargata 33, 35, 37 og 39. Umsóknir um breytingar á byggingaráformunum voru samþykktar á afgreiðslufundum embættisins 15. júní 2021 og 27. júní 2023. Í byrjun árs 2023 munu íbúðir í fjölbýlishúsinu hafa verið settar á sölu. Hinn 19. janúar 2024 gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt að hluta og náði sú úttekt samkvæmt efni vottorðsins til Mýrargötu 33, 35 og 39 ásamt bílakjallara, en Mýrargata 37 var undanskilin úttektinni. Á vottorðinu kom fram að lóða­frágangur yrði tekinn fyrir í lokaúttekt Mýrargötu 37. Hinn 24. maí 2024 gaf byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð fyrir Mýrargötu 33, 35, 37 og 39. Þar kom fram að gögn hefðu borist sem staðfestu að úrbótum væri lokið vegna athugasemda sem fram hefðu komið við skoðun. Þá kom og fram að rými 0104, 0113 og 0114 skilist á byggingarstigi 2 – fokheldi. Sækja þyrfti um nýtt byggingarleyfi svo lokaúttekt fengist á þau rými.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að fulltrúi húsfélagsins hafi ekki vitað af þeirri ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að gefa út lokaúttektarvottorð fyrr en tölvupóstur hafi borist frá embættinu 28. júní 2024. Sé kæran því lögð fram innan kærufrests.

Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skuli við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið hafi verið byggt í samræmi við samþykkt hönnunargögn, en það skilyrði hafi ekki verið uppfyllt í máli þessu þar sem töluvert misræmi sé á milli samþykkts aðal­uppdráttar og raunverlegs frágangs hússins. Þannig segi á aðaluppdrætti að útihurðir í anddyri og dyr að hjóla- og bílageymslu séu með rafrænum opnunarbúnaði, en hvorki útihurðir frá anddyri Mýrargötu 33 né frá anddyri Mýrargötu 39 séu með rafrænum opnunarbúnaði.Ekki sé fyrir hendi snjóbræðslukerfi vegna inngangs að anddyri Mýrargötu 33 eins og kveðið sé á um á samþykktum aðaluppdráttum. Gangar og stigagangar á jarðhæð séu öll teppalögð þrátt fyrir að á aðaluppdrætti segi að þar eigi að vera mjúkt undirlag undir flísalögn.

Hönnunargögn kveði á um að frágangur lóðar verði samkvæmt landslagshönnun, en þar sem kærandi hafi ekki þá hönnun fyrir hendi sé óskað eftir því að úrskurðarnefndin fari yfir hana og meti hvort frágangur lóðar sé í samræmi við það sem þar komi fram, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til sama lagaákvæðis sé þess einnig óskað að úrskurðarnefndin taki til skoðunar hvort fjölbýlishúsið sé í samræmi við önnur atriði sem gætu verið tilgreind í öðrum samþykktum hönnunargögnum. Í því sambandi sé bent á að dyr frá anddyrum séu án þéttilista sem orsaki mikinn hávaða í sameign jarðhæðar þegar vindasamt sé.  Einnig hafi annarri dyr verið bætt við ruslageymslu í byggingu Mýrargötu 37 eftir að komið hafi í ljós að sú hurð sem fyrir hafi verið hafi ekki uppfyllt kröfu gr. 6.12.7. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012 um lágmarksbreidd umferðarmáls.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að af tölvupósti fulltrúa kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 14. júní 2024, verði ráðið að honum hafi verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun á þeim tímapunkti. Þar sem kæra hafi borist nefndinni 25. júlí s.á. sé kærufrestur liðinn í máli þessu, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og því beri að vísa málinu frá. Verði ekki fallist á það sé krafist frávísunar málsins þar sem kærandi hafi ekki verið eigandi fasteignarinnar skv. d-lið 4. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki á þeim tíma sem hið kærða lokaúttektarvottorð hafi verið gefið út. Hafi útgáfan því ekki lotið að réttindum eða skyldum kæranda á þeim tíma og geti hann því ekki talist aðili málsins, en íbúðir hafi verið seldar áður en hið kærða lokaúttektar­vottorð hafi verið gefið út, sbr. d-lið 4. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010.

Í viðauka II við byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé fjallað um verklag við lokaúttektir í gr. 5.2. Þar komi fram að skoðun vegna lokaúttektar sé sjónskoðun og að skoðunarmanni sé hvorki ætlað að prófa virkni tækja eða búnaðar né að framkvæma mælingar. Ekki verði gerðar ríkari kröfur til skoðunarmanns en samkvæmt því. Hvað varði rafrænan opnunarbúnað í fjölbýlis­húsinu að Mýrargötu 33–39 sé slíkur búnaður til staðar í útidyrum sem snúi að baklóð bygginganna. Ekkert í byggingarlýsingunni segi eða gefi til kynna að rafrænn opnunarbúnaður þurfi að vera í báðum útihurðunum, enda hefði það þá sennilegast verið orðað með þeim hætti. Skortur sé á sönnun þeirri fullyrðingu kæranda að ekkert snjóbræðslukerfi sé til staðar, en byggingarfulltrúi hafi fengið yfirlýsingu um stillingu hitakerfis og virkni stýrikerfa vegna öryggis- eða lokaúttektar frá pípulagningarmeistara. Byggingarfulltrúi hafi ekki haft neina ástæðu til þess að draga þá yfirlýsingu í efa. Ákvæði byggingarreglugerðar um hljóðvist sé að finna í 11. kafla, en reglurnar hafi þann tilgang að draga úr hávaða. Lagning gólfteppis á gangi og stigagangi á jarðhæð stefni að sama markmiði um hljóðvist og sú lausn sem komi fram í byggingarlýsingu á aðaluppdráttum fjölbýlishússins.

Þau atriði sem kærandi telji vera frávik á byggingarlýsingu geti ekki talist annað en minniháttar frávik sem valdi ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Ef fallist yrði á kröfu kæranda hefði það slæmar afleiðingar í för með sér þar sem það gæfi til kynna að öll minniháttar frávik á byggingarlýsingu, s.s. lausir hurðarhúnar eða skortur á trjám, myndu leiða til ógildingar loka­úttektarvottorða. Í byggingarlýsingu er byggingaraðila veitt ákveðið svigrúm til að leita annarra sambærilegra lausna en þeirra sem tilgreindar séu nákvæmlega í byggingarlýsingu.

 Athugasemdir verktaka: Vísað er til þess að í samningi við byggingaraðila hafi ekki verið kveðið á um rafrænan opnunarbúnað. Ekki hafi verið gert ráð fyrir snjóbræðslu á samþykktum teikningum. Verið sé að skoða hvort tilefni sé til úrbóta vegna flísalagnar á gólfum stigahúsa og sameiginlegra ganga á jarðhæð. Frágangur lóðar hafi verið í samræmi við aðaluppdrætti. Gerðar hafi verið hefðbundnar, einfaldar hljóðmælingar á stigagangi og ekki hafi mælst þar óeðlilegur hávaði miðað við staðsetningu, en umræddir stigagangar liggi beint við stofnæð úr bænum og höfn. Þó sé verið að skoða að bæta úr þessu með þéttilista.

Öll atriði sem kærandi bendi á teljist minniháttar frávik sem í mesta lagi hefðu getað orðið til þess að byggingarfulltrúi hefði gefið út vottorð með athugasemdum skv. 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Eigi einhverjar af athugasemdunum við rök að styðjast væri það í ósamræmi við sjónarmið um meðalhóf að fella lokaúttektina úr gildi í heild sinni.

Athugasemdir byggingaraðila: Bent er á að það séu ekki hagsmunir byggingaraðila að úttektarvottorð sé gefið út of snemma þar sem það sé á ábyrgð byggingarstjóra verkefnisins að klára verkefnið í samræmi við samþykkta uppdrætti. Í einhverjum tilfellum sé misræmi í textalýsingu og uppdráttum og hafi þá að öllu jöfnu verið farið eftir uppdráttunum. Til standi að ráðast í úrbætur vegna þeirra útihurða sem ekki séu með rafrænum opnunarbúnaði. Allar megingönguleiðir séu snjóbræddar í samræmi við hönnun lagnahönnuðar. Inngangur Mýrar­götu 33 sé viðbótarinngangur sem hafi komið síðar í hönnunarferlinu, en teikning landslags­hönnuðar sýni hvað eigi að vera snjóbrætt. Umfjöllun á aðaluppdrætti um flísalögn anddyris eigi við um flísalögn að dyrasíma. Hljóðhönnuður eigi að hanna verkefni þannig að það uppfylli ákvæði byggingarreglugerðar. Fyrirhugað sé að klára gróðursetningu og frágang á plöntum fyrir 25. september næstkomandi. Ekki sé gerð krafa um að plöntur séu komnar út í garða til að fá útgefið lokaúttektarvottorð. Þéttilisti hafi verið á dyrum frá anddyrum Mýrargötu 33 og 39 en vegna kröfu um úrbætur hafi verktaki tekið þéttilistana út. Engar hljóðmælingar liggi til grundvallar því hvort listarnir geri gagn eða ekki og geti þetta atriði ekki verið forsenda útgáfu lokaúttektarvottorðs. Þá sé bent á að þeirri hurð sem komið hafi verið fyrir í ruslageymslu Mýrargötu 37 hafi verið bætt við til að koma til móts við ábendingar kæranda um lágmarks­breidd umferðarmáls. Búið sé að óska eftir því að hurðarhúnn fyrri hurðar verði fjarlægður og að teikningar verði uppfærðar til samræmis við breytingarnar.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Því sé andmælt að fulltrúa húsfélagsins hafi verið „full­kunnugt“ um hina kærðu ákvörðun 14. júní 2024 þegar hann hafi sent tölvupóst til byggingar­fulltrúa. Eins og þar komi fram hafi hann heyrt en ekki fengið staðfest að lokaúttekt hefði farið fram. Fyrirspurn hans hafi ekki verið svarað fyrr en 14 dögum síðar eða 28. júní 2024 og hafi kærandi þá haft upplýsingar til að leggja mat á hvort kæra skyldi ákvörðunina. Ákvörðunin varði aðstæður og aðbúnað á heimili félagsmanna kæranda og því liggi lögvarðir hagsmunir í augum uppi.

Vel megi vera að lagning gólfteppis nái a.m.k. sama markmiði um hljóðvist og sú lausn sem komi fram í byggingarlýsingu, þ.e. flísalögn. Engu að síður sé bersýnilegt að teppi fari verr úr tíðri umgengni en flísalögn. Það sé heldur ekki hlutverk byggingarfulltrúa að leggja mat á hvort teppi eða flísalögn nái markmiði um hljóðvist, heldur beri honum að gera úttekt á því hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá sé einnig bent á að samkvæmt samþykktum aðaluppdrætti skuli koma snjógildrum fyrir á þökum með málmklæðningu til að varna því að snjór og ís falli af þaki. Engar snjógildrur séu fyrir ofan glugga á húsi Mýrargötu 39 og hafi síðasta vetur skapast stórhætta þegar snjór hafi fallið niður af þaki.

Athugasemdir verktaka og byggingaraðila renni stoðum undir og gefi til kynna að rafrænn opnunarbúnaður eigi að vera við öll anddyri Mýrargötu 33–39, þ. á m. á anddyri Mýrargötu 33 sem enn vanti. Það að inngangur Mýrargötu 33 hafi komið til síðar í hönnunarferlinu séu ekki upplýsingar sem varði kæranda, enda komi þær ekki fram á samþykktum aðaluppdrætti.

Ábendingar hafi komið fram um leka úr loftplötum í bílakjallara sem beri þess merki að um sé að ræða alvarlegan galla á lóðafrágangi og/eða lagnafrágangi. Þá hafi silfurskottur verið að finnast í íbúðum í húsi Mýrargötu 33 og fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að galli í lagnafrágangi og/eða öðrum frágangi sé orsök vandans. Farið sé fram á að byggingaraðili ráðist í þær úrbætur sem hann hafi sagst ætla gera.

Viðbótarathugasemdir verktaka: Vegna ábendinga um leka hafi verktaki farið á staðinn og í ljós hafi komið að um staðbundinn leka væri að ræða. Bendi ekkert til þess að um sé að ræða alvarlegan galla á lóðafrágangi og/eða lagnafrágangi. Rétt þyki að upplýsa að málið sé í frekari skoðun í samráði við hönnuði hússins. Þá hafi meindýraeyðir farið í skoðun á húsinu og bílakjallara, en engar silfurskottur hafi fundist. Meindýraeyðirinn hafi jafnframt staðfest að hann sæi ekki neinn auðsjáanlegan galla eða ástæðu fyrir því af hverju silfurskottur væru að Mýrargötu 33 umfram það sem gengi og gerist annars staðar. Ýmsar eðlilegar ástæður geti verið fyrir tilvist þeirra, s.s. að fólk beri þær með sér í íbúðir eða að þær komið upp um niðurföll og lagnir sem standi opnar á meðan á byggingu standi. Allar athugasemdir kæranda hafi verið teknar til skoðunar og brugðist við þeim þar sem við hafi átt. Rétt sé að nefna að í fyrri athugasemdum hafi byggingaraðili nefnt að til skoðunar væri að setja upp þéttilista, en ekki hafi verið talið þörf á því vegna niðurstaðna hljóðmælinga. Þá sé búið að setja upp snjógildrur á þaki Mýrargötu 39.

Áréttað sé að allar athugasemdir kæranda lúti að atriðum sem myndu teljast minniháttar frávik sem hefðu í mesta lagi geta orðið til þess að byggingarfulltrúi hefði gefið út vottorð með athugasemdum, skv. 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 2. mgr. gr. 3.9.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Það væri í ósamræmi við sjónarmið um meðalhóf að fella lokaúttektina úr gildi í heild sinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39.

Eins og rakið er í málavöxtum fór lokaúttekt fjölbýlishússins fram í tveimur hlutum. Annars vegar var gefið út vottorð um lokaúttekt 19. janúar 2024 vegna Mýrargötu 33, 35 og 39 og bílakjallara, en hins vegar var gefið út vottorð um lokaúttekt 24. maí s.á. vegna Mýrargötu 37 og lóðafrágangs. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 5. nóvember 2024 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kæran hefði verið lögð fram innan lögbundins kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að því er varðar síðargreinda ákvörðun byggingarfulltrúa frá 24. maí 2024. Þá liggur fyrir að kæranda var ekki kunnugt um útgáfu vottorðsins frá 19. janúar 2024 fyrr en eftir uppkvaðningu úrskurðarins og verður af þeim sökum litið svo á að kæran sé jafnframt lögð fram innan kærufrests að því er varðar þá ákvörðun.

Ekki verður fallist á með Reykjavíkurborg um að vísa eigi kærumáli þessu frá á þeim grund­velli að kærandi teljist ekki aðili málsins þar sem skv. d-lið 4. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 beri fyrri eigandi ábyrgð skv. 1. mgr. lagagreinarinnar. Þrátt fyrir að útgáfa lokaúttektar­vottorðsins hafi ekki beinst að húsfélagi Mýrargötu 33–39 verður að leggja til grundvallar að hún geti varðað hagsmuni félagsmanna þess verulega, sbr. álit umboðsmanns Alþingis frá 13. september 2011 í máli nr. 6242/2010 og úrskurðaframkvæmd úrskurðarnefndarinnar. Hefur kærandi því lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa máls og verður honum því játuð kæruaðild.

Framkvæmd lokaúttektar og útgáfa vottorðs þess efnis er hluti af lögbundnu eftirliti byggingar­fulltrúa með mannvirkjagerð, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna skal við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið upp­fylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá er mælt fyrir um í 4. mgr. laga­greinarinnar að ef mannvirkið uppfylli ekki að öllu leyti ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim þá geti útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um ­úttektina með athuga­semdum. Þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar. Segir jafnframt í 5. mgr. sömu lagagreinar að eftirlitsaðili geti fyrirskipað lokun mannvirkis komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustu­kröfur og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr, en lokaúttektarvottorð skuli þá ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert.

Í byggingarlýsingu á samþykktum aðaluppdrætti er því lýst að gangstígar að inngöngum, að­koma að bílageymslu, bílastæði fyrir hreyfihamlaða og aðkoma að sorpsvæði verði með snjó­bræðslukerfi. Í máli þessu er óumdeilt að fyrir framan innganga Mýrargötu 33, þ.e. þá innganga sem snúa að Mýrargötu og leiða að rými fyrir atvinnuhúsnæði, er ekki að finna snjóbræðslu. Telur kærandi það fyrirkomulag ekki samrýmast samþykktum aðaluppdráttum en á móti bendir byggingaraðili á að ekki hafi verið gert ráð fyrir snjóbræðslu þar samkvæmt lóðaruppdrætti. Með hliðsjón af því orðalagi byggingarlýsingar að „gangstígar“ verði snjóbræddir þykir skortur á snjóbræðslu fyrir framan umrædda innganga Mýrargötu 33 ekki fela það í sér að frágangur lóðarinnar sé í ósamræmi við samþykkt hönnunargögn.

Tilgreint er í byggingarlýsingu að á anddyrum, gangi og stigagangi á jarðhæð verði mjúkt undirlag undir flísalögn en fyrir liggur að gangar og stigagangar á jarðhæð hafa ekki verið flísalögð. Þrátt fyrir að slíkur frágangur hafi gefið tilefni til athugasemda á lokaúttektarvottorði verður það ekki talinn verulegur annmarki á hinni kærðu ákvörðun með hliðsjón af því að ekki er um að ræða atriði sem varðar aðgengi eða öryggis- eða hollustukröfur, sbr. 4. og 5. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010.

Kærandi gerir athugasemd við að útihurðir frá anddyri Mýrargötu 33 eða 39 séu ekki með rafrænum opnunarbúnaði í samræmi við byggingarlýsingu, en á samþykktum aðaluppdráttum segir: „Útihurðir í anddyri og dyr að hjóla- og bílageymslu eru með rafrænum opnunarbúnaði.“ Hefur byggingaraðili svarað því til að ekki hafi verið kveðið á um rafrænan opnunarbúnað hurða í samningi verktaka. Telja verður að byggingarfulltrúa hafi borið að gera athugasemd við að skort hafi á rafrænan opnunarbúnað umræddra hurða, enda er sá skortur í andstöðu við samþykkt hönnunargögn. Að teknu tilliti til þess að ekki er um að ræða þátt er varðar aðgengi eða öryggis- eða hollustukröfur þykir umræddur ágalli ekki svo verulegur að varði ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Er þá haft í huga að í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er ekki gerð krafa um að inngangsdyr/útidyr í aðalumferðarleiðum séu með sjálfvirkan opnunarbúnað, heldur einungis að vel sé hægt að koma slíkum búnaði fyrir, sbr. b-lið 5. mgr. gr. 6.4.2.

Þá hefur kærandi komið á framfæri ábendingum um leka í bílageymslu og að silfurskottur hafi fundist í íbúðum og í bílakjallara. Af hálfu verktaka hefur komið fram að um staðbundinn leka sé að ræða í bílakjallara sem sé til skoðunar í samráði við hönnuð hússins. Jafnframt hefur hann bent á að í skoðun meindýraeyðis á húsi og bílakjallara hafi ekki fundist meindýr. Fyrir liggur í gögnum þessa máls tölvupóstur frá sama meindýraeyði þar sem hann telur upp helstu ástæður þess að silfurskottur hafi verið að finnast í húsinu en enginn þeirra snýr að því að húsið hafi ekki verið byggt í samræmi við kröfur byggingarreglugerðar eða samþykktra hönnunargagna. Með hliðsjón af því verður ekki talið að um sé að ræða ágalla á hinum kærðu ákvörðunum sem raskað geti gildi þeirra.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem ekki verður séð að neinir þeir annmarkar séu á hinum kærðu ákvörðun er varðað geta ógildingu þeirra verður kröfu kæranda þar um hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. janúar 2024 um að gefa út vottorð um lokaúttekt að hluta vegna Mýrargötu 33–39 og ákvörðunar hans frá 24. maí 2024 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Mýrargötu 33–39.

179/2024 Hringbraut

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 179/2024, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 28. nóvember 2024 um að samþykkja tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.520, Lýsisreits, vegna lóðar nr. 121 við Hringbraut.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 20. desember 2024, kærir húsfélagið að Grandavegi 42, þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 28. nóvember 2024 að samþykkja tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.520, Lýsisreits, vegna lóðar nr. 121 við Hringbraut. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og farið fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunar­kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. janúar 2025.

Málavextir: Á lóð nr. 121 við Hringbraut í Vesturbæ Reykjavíkur stendur hús sem byggt var árið 1953. Almennt er vísað til þess sem JL-hússins og hefur það hýst ýmsa starfsemi í gegnum tíðina. Með umsókn, dags. 13. nóvember 2024, var sótt um breytingu á deiliskipulagi reits 1.520, Lýsisreits, vegna lóðarinnar. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi skipulags­fulltrúa 25. nóvember 2024 og vísað til meðferðar verkefnastjóra hjá embættinu. Umsóknin var aftur tekin fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 28. s.m. og hún samþykkt með vísan til 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Auglýsing um breytinguna var birt í B-deild Stjórnartíðinda 9. janúar 2024 og kom þar fram að hún fæli í sér að heimilt yrði að vera með sérstök búsetuúrræði í húsinu, sbr. kafla 3.4.1 í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Fyrir liggur að áformað er að hin sérstöku búsetuúrræði að Hringbraut 121 hýsi umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að samkvæmt meginreglu skipulagslaga nr. 123/2010 skuli fara með breytingar á deiliskipulagi eins og um nýtt skipulag sé að ræða og túlka beri öll frávik frá þeirri meginreglu þröngt. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé Hringbraut 121 á skilgreindu verslunar- og þjónustusvæði, VÞ1, og sé fasteignin skil­greind sem hverfiskjarni við aðalgötu. Þar sé heimilt að hafa stærri matvöruverslanir og fjöl­breytta verslun og þjónustu sem þjóni heilu hverfi. Þá sé, samkvæmt gildandi skipulagi, heimilt að reka veitingastaði í flokki I og II í hverfiskjörnum, sem og gististaði í flokki I-III. Feli hin kærða ákvörðun í sér breytingu á landnotkun frá því sem kveðið er á um í gildandi skipulagi enda ekki að finna heimild fyrir sértækt búsetuúrræði á lóðinni. Því hafi borið að fara með deili­skipulagsbreytinguna eftir 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga eða í það minnsta að grenndar­kynna fyrirhugaðar breytingar fyrir nágrönnum og öðrum aðilum sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta, skv. 2. mgr. 43. gr. laganna.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er byggt á því að sú ráðagerð að húsnæði á lóð nr. 121 við Hringbraut verði notað að hluta til tímabundinnar dvalar umsækjenda um alþjóðlega vernd feli ekki í sér aðra eða víðtækari notkun en fylgir húsnæði á verslunar- og þjónustusvæðum. Ákvörðun skipulagsfulltrúa um að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags fyrir lóðina hafi hvorki í för með sér breytta notkun hússins né umfangsmeiri starfsemi en almennt sé heimil á verslunar- og þjónustusvæðum. Þá sé tímabundin búseta umsækjenda um alþjóðlega vernd í fullu samræmi við þá starfsemi sem um árabil hafi verið í húsinu. Ákvörðun skipulagsfulltrúa sé hvorki veruleg né óveruleg í skilningi skipulagslaga. Umþrætt breyting á skipulagsskilmálum víki að engu leyti frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti, formi eða svipmóti hins deiliskipulagða svæðis. Þá feli breytingin hvorki í sér breytingu á landnotkun né útliti hússins. Breytingin hafi ekki í för með sér skerðingu á hagsmunum nágranna heldur aðeins breytingu á deiliskipulagsskilmálum sem rúmist innan skilmála í aðalskipulagi og landnotkun lóðarinnar, sbr. c-lið gr. 6.2. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Í gildi sé deiliskipulag fyrir Hringbraut 121 sem tekið hafi gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní 2007. Í deiliskipulaginu sé ekki kveðið sérstaklega á um notkun og tegund starfsemi á Hringbraut 121. Þá sé starfsemi hússins ekki settar ákveðnar takmarkanir, s.s. um tímamörk eða opnunartíma. Samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar sé Hringbraut 121 skráð sem atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði. Á undanförnum árum hafi starfsemi þar verið fjölbreytt. Þar hafi m.a. verið starfræktur veitingastaður, verslun, gistiheimili og skóli. Hótelið hafi verið með rekstrarleyfi fyrir allt að 240 gesti á 4. og 5. hæð, eða samtals 61 gistiherbergi. Einnig hafi verið starfræktur veitingastaður á jarðhæð sem og verslun og kaffihús. Á 2. og 3. hæð hússins var Myndlistaskólinn í Reykjavík með aðstöðu, svo sem kennslustofur, skrifstofur og vinnustofur. Samkvæmt árskýrslu skólans 2023 var fjöldi nemenda í fullu námi á haust- og vorönn 2022 um 240-260 talsins. Að auki hafi skólinn verið í samstarfi við leik- og grunnskóla og hýsti tímabundið um 500 nemendur. Námskeið fyrir fullorðna og sumarnámskeið skólans hýstu rúmlega 200 nemendur.

Samkvæmt byggingarlýsingu umsækjanda, dags. 14. október 2024, sé ætlaður fjöldi þeirra sem gista samstundis í húsnæðinu 326 einstaklingar og verði ekki talið að umfangið sé verulegt miðað við þá starfsemi verið hafi í húsnæðinu um árabil. Að auki megi telja að umfang þeirrar starfsemi sem verið hafi á jarðhæð á undanförnum árum, þ.e.a.s. veitingastaður, kaffihús og verslun, sé sambærilegt því umfangi sem nú sé fyrirhugað. Eðli starfseminnar sem nú sé heimiluð með breytingu á skilmálum deiliskipulagsins, þ.e. tímabundin búseta umsækjenda um alþjóðlega vernd, sé í eðli sínu sambærileg starfsemi og verið hafi í húsnæðinu á undanförnum árum. Ekki sé að sjá að fyrirhuguð starfsemi í húsnæðinu sé frábrugðin þeirri starfsemi. Í öllum tilvikum, hvort heldur um sé að ræða tímabundna gistingu ferðamanna á farfuglaheimili eða hóteli eða umsækjenda um alþjóðlega vernd sé um að ræða manneskjur með ólíka eiginleika og þarfir, menntun og trúarbrögð. Bakgrunnur þeirra sem dvelji á farfuglaheimili eða hóteli geti verið jafn fjölbreyttur og þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi.

 Athugasemdir umsækjanda: Af hálfu umsækjanda um hina umdeildu breytingu á deiliskipulagi er vísað til þess að kæranda skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumálsins í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þröskuldur íslensks réttar um lögvarða hagsmuni sé hár og beri framkvæmd úrskurðarnefndarinnar þess merki. Nálægð fasteigna nægi þannig ekki ein og sér til þess að aðild sé játuð að kærumáli. Er um það vísað til tveggja úrskurða úrskurðarnefndarinnar, annars vegar í málum nr. 35/2008 og 44/2008, Urðarmói, uppkveðnum 2. desember 2009, og hins vegar í máli nr. 11/2024, Gauksstaðir, uppkveðnum 22. mars 2024. Til þess sé að líta að ekki verði aukning á fjölda þess fólks sem dvelji í fasteigninni enda hafi 500 nemendur um tíma sótt nám í hluta hússins auk þess að þar hafi verið starfrækt hótel fyrir allt að 240 manns. Þá sé ótalin sú veitingastarfsemi sem verið hafi á jarðhæð hússins á sama tíma. Fjölmargar íbúðir á lóð nr. 121 við Hringbraut séu í eigu Félagsbústaða og hafi m.a. erlendir aðilar á þeirra vegum dvalið í húsnæðinu í langtíma dvöl.

Þá er vísað til sjónarmiða um túlkun 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Það að bæta við ákvæði um sérstök búsetuúrræði í deiliskipulag geti ekki talist til breyttrar landnotkunar í skilningi 3. mgr. 43. skipulagslaga. Hugtakið landnotkun sé skilgreint í gr. 1.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sem ráðstöfun lands til mismunandi nota, svo sem undir íbúðir, frístundahús, iðnað, verslun, útivist og landbúnað. Samkvæmt núgildandi aðalskipulagi sé Lýsisreiturinn á verslunar- og þjónustusvæði sem sé einn landnotkunarflokka sem taldir séu upp í gr. 6.2. í reglugerðinni. Nánar tiltekið tilheyri reiturinn svæði VÞ1 sem skilgreint sé sem hverfiskjarni, slíkir kjarnar séu kjarnar með stærri matvöruverslunum og fjölbreyttri verslun og þjónustu sem þjóni heilu hverfi. Á meðal þess sem heimilt sé að hafa í hverfiskjörnum sé „landnotkunarflokkurinn samfélagsþjónusta og húsnæðislausnin sérstök búsetuúrræði.“ Hvergi sé í skipulagsreglugerð eða skipulagslögum minnst á sérstök búsetuúrræði og því ljóst að tilvikið falli ekki undir hugtakið landnotkun í skilningi skipulagsréttar. Megi ráða að sérstök búsetuúrræði teljist til húsnæðislausnar en séu ekki landnotkun í sjálfu sér og geti verið á þeim landnotkunarflokkum sem kveðið sé á um í aðalskipulagi.

Athugasemdir Vinnumálastofnunar: Af hálfu Vinnumálastofnunar er bent á að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í málinu varði verulega hagsmuni. Umfangsmikill undirbúningur hafi átt sér stað til að koma úrræðinu á laggirnar og séu framkvæmdir á lokastigi. Bæði stofnunin og eigandi húsnæðisins hafi lagt í kostnaðarsama vinnu við að gera viðeigandi viðbætur og endurbætur á húsnæðinu, fullviss um að viðhlítandi heimildir væru fyrir nýtingu á húsnæðinu.

Vinnumálastofnun veiti umsækjendum um alþjóðlega vernd þjónustu á meðan umsókn þeirra sé til meðferðar hér á landi og leigi aðstöðu í umræddu húsnæði að Hringbraut 121 og nýti fyrir umsækjendur. Í húsnæðinu muni búa konur, pör og fjölskyldur og þegar hafi um 60 konur flutt inn á 4. hæð þess. Alls sé rými fyrir 400 einstaklinga í húsnæðinu en ekki sé gert ráð fyrir fullnýtingu á rýmum enda bjóði samsetning umsækjendahópa og fjölskyldustærðir ekki upp á það. Á fyrstu hæð hússins sé gert ráð fyrir virknimiðstöð fyrir einstaklingana sem búa í húsnæðinu ásamt vinnuaðstöðu fyrir þjónustuteymi Vinnumálastofnunar sem þjónusti einstaklingana meðan þeir dvelji þar. Öryggisgæsla sé í húsnæðinu allan sólarhringinn og sé Vinnumálastofnun með húsnæðisteymi sem sinni viðhaldi.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Kærandi í máli þessu er húsfélagið að Grandavegi 42 A–G. Á þeirri lóð stóð áður verksmiðja Lýsis hf. og á lóðin m.a. mörk að lóð nr. 121 við Hringbraut. Við skipulagsbreytingar vegna fyrir­hugaðrar uppbyggingar á lóðinni voru lagðar kvaðir á lóð nr. 121 við Hringbraut og lóðir nr. 42 og 44 við Grandaveg, sem síðar voru sameinaðar sem lóð nr. 42. Samkvæmt nú­gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 4. september 2013, er í gildi kvöð um umferð fótgangandi um lóð kæranda frá Grandavegi og í port á lóð nr. 121 við Hringbraut. Þá er í gildi kvöð um umferðarrétt ökutækja á lóð nr. 121 við Hringbraut í bílgeymslu á lóð nr. 42 við Grandaveg. Má í þessu sambandi nefna að gert er ráð fyrir því að annar megin inngangurinn í JL-húsið verði um inngangsdyr við vesturgafl gegnt Grandavegi 42. Að þessu virtu verður að álíta að kærandi eigi slíkra hagsmuna að gæta af breytingum á skipulagi lóðarinnar að játa verður honum kæruaðild að máli þessu.

Vegna framkominnar kröfu um frestun réttaráhrifa var af hálfu borgaryfirvalda upplýst um að umsókn um byggingarleyfi hefði ekki verið samþykkt og því hefði byggingarleyfi ekki verið gefið út og var í umsögn borgarinnar vísað til þess að gildistaka deiliskipulags og breytingar á deiliskipulagi feli ekki í sér heimildir til að hefja umsóttar breytingar heldur þurfi til að koma veiting byggingarleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en í því felst einnig heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Við beitingu þessara ákvæða ber að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, en meðal þeirra er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið. Jafnframt skal tryggja að haft sé samráð við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að gefið sé tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana, sbr. d-lið lagagreinarinnar. Við töku skipulags­ákvarðana er sveitarstjórn bundin af meginreglum stjórnsýsluréttarins, þ. á m. lögmætis­reglunni. Að gættum framangreindum reglum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deili­skipulagi og breytingum á því skuli háttað.

Í aðalskipulagi er lagður grundvöllur að gerð deiliskipulags varðandi landnotkun og takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstri, þ.m.t. þéttleika byggðar, sbr. 2. mgr. 28. gr. laganna. Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Skal við gerð deiliskipulags byggja á stefnu aðalskipulags og hún útfærð fyrir viðkomandi svæði eða reit, sbr. 3. mgr. 37. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 skal stefna um landnotkun í skipulagi sýnd með einum landnotkunarflokki. Sé gert ráð fyrir landnotkun á sama reit sem falli undir fleiri en einn land­notkunarflokk skuli sá flokkur tiltekinn fyrir reitinn sem er ríkjandi en umfang annarrar landnotkunar skilgreint í skilmálum, sbr. 2. málsl. ákvæðisins.­­ Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er lóð nr. 121 við Hringbraut hverfiskjarni við aðalgötu á verslunar- og þjónustusvæði, VÞ1. Samkvæmt aðalskipulaginu er hverfiskjarni „kjarni með stærri matvöruverslunum og fjölbreyttri verslun og þjónustu sem þjónar heilu hverfi.“ Veitingastaðir í flokki I og II eru heimilir í hverfiskjörnum, svo og gististaðir í flokki I–III. Veitingastaðir í flokki III geta verið heimilir samkvæmt ákvörðun í deiliskipulagi eða hverfisskipulagi. Íbúðir eru heimilar, einkum á efri hæðum bygginga. Samfélagsþjónusta er heimil auk þrifalegrar atvinnustarfsemi.

Í 3. kafla aðalskipulags Reykjavíkur eru sett fram bindandi ákvæði um íbúðarbyggð ásamt því að m.a. eru skilgreindar heimildir sem gilda um „sértæk búsetuúrræði“ og íverurými utan hefð­bundinnar íbúðarbyggðar og blandaðrar byggðar. Er fjallað um sértæk búsetuúrræði í kafla 3.4.1. og hugtakið þar skilgreint sem húsnæðislausnir fyrir félagshópa með sérstakar húsnæðis- og/eða þjónustuþarfir, til lengri eða skemmri dvalar. Kemur þar fram að þessi búsetuúrræði geti verið heimil innan íbúðarbyggðar, verslunar- og þjónustusvæða, miðsvæða, athafnasvæða, hafnarsvæða, opinna svæða og landbúnaðarsvæða. Þá sé að undangenginni breytingu á deili­skipulagi, hægt að staðsetja búsetuúrræðin innan m.a. verslunar- og þjónustusvæða. Í þessari skyldu til að breyta deiliskipulagi felst viðurkenning á því að nokkrum grenndaráhrifum geti verið til að dreifa vegna slíkra úrræða sem krafist geti ítarlegri málsmeðferðar.

Í 43. gr. skipulagslaga er fjallað um málsmeðferð við breytingu á deiliskipulagi. Í 1. mgr. kemur fram sú meginregla að um breytinguna skuli fara eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Samkvæmt 2. mgr. er heimilt að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skal við mat á því hvort breyting teljist óveruleg taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar er jafnframt tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Í 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga er síðan mælt fyrir um heimild skipulags­nefndar til að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda.

Í umsókn um hina kærðu breytingu á deiliskipulagi, dags. 13. nóvember 2024, kom fram að umsóknin væri í samræmi við kafla 3.4.1. í aðalskipulagi. Engin nánari gögn fylgdu umsókninni sem varpað gátu skýrari mynd af ráðgerðum áformum umsækjanda. Á afgreiðslu­fundi skipulagsfulltrúa, dags. 28. nóvember 2024, var við töku hinnar kærðu ákvörðunar bókað um að breyting væri gerð á „núverandi deiliskipulagi í samræmi við fyrirmæli í aðalskipulagi, sbr. minnisblað skrifstofu stjórnsýslu og gæða“, sem dagsett var sama dag. Í minnisblaðinu var að finna nánari lýsingu á áformunum og þá afstöðu að deiliskipulagsbreytingin væri í samræmi við aðalskipulag, en í kafla 3.4. í aðalskipulaginu eru sett almennt leiðbeinandi viðmið um staðsetningu búsetuúrræða af þessu tagi. Við auglýsingu deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda  kom einungis fram að heimilt yrði að vera með sérstök búsetuúrræði í húsinu og að uppdrættir hefðu fengið meðferð skv. 2. mgr. 43. gr. og 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Var með þessu ekki með greinargóðum hætti gerð grein fyrir umfangi ráðgerðra áforma, m.a. í ljósi landnotkunar svæðisins sem hverfiskjarna.

Af gögnum þessa máls, m.a. fyrrgreindu minnisblaði sem einnig var sent Skipulagsstofnun í tilefni af breytingu á deiliskipulaginu, verður ráðið að um sé að ræða búsetuúrræði sem ætlað er fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, allt að 326 talsins, og aðstaða verði á fyrstu hæð þar sem Vinnumálastofnun verði með vinnuaðstöðu, einnig verði þar skrifstofur, opin rými, kaffiaðstaða, salerni, viðtalsrými og tómstundaherbergi. Þá er gert ráð fyrir einhverri tegund af gæslu eða eftirliti og þjónustu sem krefjist viðveru starfsmanns allan sólarhringinn. Að þessu virtu verður ekki fallist á þau sjónarmið Reykjavíkurborgar að ráðgerð notkun hússins sé sambærileg þeirri notkun sem áður hafi verið á húsinu. Það orkar þannig tvímælis að leggja að jöfnu grenndaráhrif sértæks búsetuúrræðis eins og hér um ræðir, þar sem dvalið er til lengri tíma, við starfsemi hótels og gistihúss eða skóla. Hafa samantekið að áliti úrskurðar­nefndarinnar ekki verið færð fram fullnægjandi rök fyrir því að heimilt hafi verið að fara með málið sem óverulega breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og hefði borið að auglýsa tillöguna opinberlega. Er þar jafnframt til þess að líta að húsið er skilgreint sem hverfiskjarni sem ætlað er að þjóna nærumhverfinu. Var því ekki heimilt að viðhafa málsmeðferð skv. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga við meðferð málsins. Verður af þeirri ástæðu fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 28. nóvember 2024 um að samþykkja tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.520, Lýsisreits, vegna lóðar nr. 121 við Hringbraut.

122/2024 Njarðargata

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 21. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 122/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. október 2024 um að synja umsókn um byggingarleyfi vegna áður gerðra framkvæmda að Njarðargötu 43, Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. október 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Njarðargötu 43, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. október 2024 að synja umsókn um byggingarleyfi vegna áður gerðra framkvæmda að Njarðargötu 43, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. nóvember 2024.

Málavextir: Hinn 7. maí 2024 sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir áður gerðum breytingum sem samkvæmt umsókn fólust einkum í því að bæta brunavarnir og tryggja öryggi þeirra sem dvelja í húsi kæranda að Njarðargötu 43 þar sem rekið væri gistiheimili. Breytingarnar sem þegar höfðu verið gerðar voru svalir á norðurhlið og ýmislegt innanhúss í þeim tilgangi að gera flóttaleiðir öruggari. Fyrri umsókn frá árinu 2022 var þar með dregin til baka. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 28. maí 2024. Í tilkynningu til kæranda um niðurstöðu afgreiðslufundarins voru gerðar athugasemdir við flokkun gistiheimilisins, þ.e. skráningu þess í flokk II–b. Þeim flokki tilheyra gististaðir með takmarkaða þjónustu þar sem leigð eru út 6 herbergi eða fleiri eða rými fyrir fleiri en 10 einstaklinga, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Niðurstaða fundarins var sú að erindinu var frestað og vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem skilaði umsögn sinni 4. júlí 2024. Í niðurstöðu þeirrar umsagnar var tekið neikvætt í erindið með þeim skýringum að svalir væru of djúpar og ekki væri heimilt að vera með rekstur gistiheimilis í flokki II–b þar sem rekstur gistiheimila í íbúðabyggð við aðalgötu takmarkaðist við minni gistiheimili. Var erindið aftur tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. október s.á. þar sem umsókn um byggingarleyfi var synjað með vísan til hinnar neikvæðu umsagnar skipulagsfulltrúa.

 Málsrök kæranda: Vísað er til þess að 17. apríl 2018 hafi verið samþykktar teikningar vegna endurnýjunar á rekstrarleyfi sem meðal annars sé vegna hertra krafna eldvarnaeftirlits. Samkvæmt teikningum hafi verið gert ráð fyrir gistirými í flokki II fyrir 16 manns og ráð gert fyrir svölum í risi og á 2. hæð hússins. Efri svalirnar nái 1,0 m út fyrir húshlið en þær neðri nái 1,2 m út. Breidd svalanna sé 2,5 m og 2,65 m.

Því miður hafi ekki verið gefið út byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum af ástæðum sem ekki þyki tilefni til að rekja nánar. Engu að síður hafi svalirnar verið gerðar í samræmi við samþykktar teikningar og settar upp vegna þrýstings frá Eldvarnareftirlitinu um tafarlausar úrbætur á þeim öryggisatriðum sem svalirnar séu.

Árið 2022 hafi verið sótt um endurnýjun á fyrri samþykkt og lagðar inn óbreyttar teikningar með örlitlum textabreytingum sem ekki hafi náð fram að ganga. Næsta tilraun hafi verið gerð í maí 2024 að ráði byggingarfulltrúa og hafi niðurstaðan verið sú sem nú sé kærð.

Varðandi það sem fram komi í athugasemdum skipulagsfulltrúa, að svalirnar framkalli of mikinn skugga á neðri hæð hússins, sé á það bent að þær séu á norðurhlið hússins. Sjaldan skíni sól á þá hlið en svalirnar muni þá kasta skugga til hliðar á gluggalausa fleti fremur en niður fyrir svalirnar. Neðan við svalir á 2. hæð sé baðherbergi. Á það sé einnig bent að á húsinu nr. 47 við Njarðargötu séu svalir, samþykktar árið 2020, sem fylgi allri húshliðinni og nái 1,79 m frá húsvegg.

Í húsinu hafi um árabil verið leyft gistirými fyrir 16 manns í flokki II–b og ráðist hafi verið í endurbætur samkvæmt áðurnefndum samþykktum teikningum til þess að viðhalda leyfinu.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að kærandi hafi lagt fram fyrirspurn til skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 4. september 2017. Í fyrirspurninni hafi komið fram að fyrirhugað væri að fara í endurbætur á rishæð Njarðargötu 45, gera þar litla íbúð í stað geymsluherbergja, bæta einangrun í þaki og klæða með eldþolinni klæðningu. Ennfremur ætti að gera þar svalir til að auka öryggi íbúa ef hætta steðji að. Óskað hafi verið eftir því að gera samskonar svalir á rishæð Njarðargötu 43 og einnig spurt hvort nýta mætti herbergi á jarðhæð til íbúðar. Að auki hafi kærandi spurt hvort gera mætti björgunarsvalir á 2. hæð á bakhlið beggja húsanna. Í svari skipulagsfulltrúa frá 29. september s.á. hafi meðal annars komið fram að þar sem ekki væri deiliskipulag á reitnum þyrfti að grenndarkynna byggingarleyfisframkvæmdir.

 Kærandi hafi fyrst sótt um leyfi fyrir umræddum framkvæmdum til embættis byggingarfulltrúa 16. janúar 2018. Sótt hafi verið um að gera svalir á bakhlið á 2. og 3. hæð og bæta brunavarnir í húsi á lóð nr. 43 við Njarðargötu. Hafi því erindi verið vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem skilað hafi umsögn sinni 2. mars s.á. Í þeirri umsögn hafi kæranda meðal annars verið bent á fyrri umsögn skipulagsfulltrúa frá 2017. Í niðurlagi umsagnarinnar væri bent á að minnka þurfi svalir á þakhæð húsanna og að mikilvægt sé að rjúfa ekki þakkant og rennu. Ekki hafi enn verið orðið við þeim tilmælum og því þurfi að lagfæra gögn. Svalir á 2. hæð hússins skagi jafnframt of mikið fram og framkalli of mikinn skugga á neðri hæð hússins en miðað sé við að þær séu ekki dýpri en 80 cm í eldri húsum af þessari gerð. Niðurstaða skipulagsfulltrúa hafi verið sú að grenndarkynna þyrfti aðaluppdrætti þegar að leiðréttir uppdrættir bærust.

Kærandi hafi svo sent embætti byggingarfulltrúa umsókn um byggingarleyfi hinn 30. ágúst 2022. Þar hafi verið sótt um leyfi til að setja svalir á 2. og 3. hæð norðurhliðar og bæta eldvarnir á gistiheimili í flokki II, fyrir 16 gesti í húsi á lóð nr. 43 við Njarðargötu. Hafi sú umsókn verið dregin til baka með umsókn kæranda frá 7. maí 2024.

 Bent sé á að í umsögn skipulagsfulltrúa 4. júlí 2024 sé vísað til Aðalskipulags Reykjavíkur 2040. Samkvæmt aðalskipulaginu tilheyri lóðin og byggingin á Njarðargötu 43 borgarhluta 2 Miðborg og sé á skilgreindu íbúðasvæði ÍB10 Þingholt. Ekkert deiliskipulag sé í gildi og skuli því grenndarkynna allar byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Í fylgigögnum sem fylgt hafi umsókn kæranda um byggingarleyfi 7. maí 2024 megi sjá að dýpt svala á 2. hæð sé 120 cm og dýpt svala á rishæð sé 150 cm. Í umsögninni hafi verið tekið neikvætt í erindið þar sem svalirnar væru of djúpar. Í umsögninni væri vitnað til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 2. mars 2018 vegna sömu breytinga þar sem jafnframt hafi verið neikvætt tekið í erindið. Í umsögninni frá 2. mars 2018 komi meðal annars fram að svalirnar skagi of mikið út og skuli dýptin takmarkast við 80 cm þar sem þær framkalli of mikinn skugga á neðri hæð hússins.

Njarðargata 43 sé staðsett á svæði innan Hringbrautar og falli undir hverfisvernd innan Hringbrautar samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Meðal markmiða hverfisverndar­innar sé að varðveita og styrkja söguleg og fagurfræðileg einkenni byggðarinnar. Gefnar hafi verið út leiðbeiningar hverfisskipulags sem séu grundvallaðar á stefnumörkun aðalskipulags.

Leiðbeiningar um svalir og útlitsbreytingar hafi verið gefnar út 14. desember 2018 og breytt 12. september 2019. Þær fjalli um útfærslur og breytingar á svölum, gluggum og öðru ytra byrði húsa. Í kafla um dagsbirtu og sólarljós segi „Þegar settar eru nýjar svalir á hús eða svalir stækkaðar skal stærð þeirra miðast við að lágmarka skerðingu á sólarljósi inn um glugga íbúðar fyrir neðan. Smávægileg breyting í dýpt svala getur skipt töluverðu máli.“ Samhliða nefndum leiðbeiningum hafi verið gefnar út leiðbeiningar um þakbreytingar. Í kafla leiðbeininganna sem fjalli um þaksvalir segi „Þaksvalir ættu almennt ekki að ná út fyrir þakkant/útvegg og þakkantur ætti að vera órofinn sbr. skýringarmyndir, nema annað sé hluti af upprunalegum byggingarstíll hússins.“ Af framangreindu verði ráðið að umsögn skipulagsfulltrúa sé í samræmi við framangreindar leiðbeiningar sem sækja stoð í Aðalskipulag Reykjavíkur 2040.

Bent sé á að á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 17. apríl 2020 hafi verið lögð fram umsögn vegna umsóknar um byggingarleyfi fyrir áður gerðum breytingum að Njarðargötu 47, þær breytingar hafi meðal annars falist í því að gerðar hafi verið svalir á norðurhlið hússins. Í þeirri umsögn komi fram að staðsetning og útfærsla svalanna sé ekki í samræmi við viðmið og áherslur Reykjavíkurborgar varðandi nýjar svalir og útlitsbreytingar í eldri byggð. Jafnframt segi að svalirnar sem um ræði samræmist ekki viðmiðum og leiðbeiningum um nýjar svalir á eldri húsum. Jákvæð afstaða skipulagsfulltrúa í þessu tilfelli byggi á því að um 30 ár séu síðan svalirnar voru byggðar og óljóst hvort þær hefðu verið samþykktar á þeim tíma þótt áherslur væru aðrar í dag. Þá sé tekið fram að nýrri framkvæmdir skulu alfarið samræmast núgildandi áherslum og viðmiðum. Því sé ljóst að hér sé ekki um sambærilegar aðstæður að ræða við Njarðargötu 43 og svalirnar á Njarðargötu 47 því ekki fordæmi fyrir nýjum svölum.

Njarðargata sé skilgreind sem aðalgata í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Í umsögn skipulagsfulltrúa frá 4. júlí 2024 komi fram að ekki sé hægt að heimila rekstur gistiheimilis fyrir 16 manns þar sem húsið sé staðsett á skilgreindu íbúðarsvæði við aðalgötu. Rökum fyrir þessari afstöðu séu gerð góð skil í umsögn skipulagsfulltrúa. Það skuli þó tekið fram að hin kærða synjun um byggingarleyfi geti ekki veitt eða synjað um útgáfu rekstrarleyfis þar sem það sé gefið út af sýslumanni að undangenginni umsögn umsagnaraðila. sbr. 26. gr. reglugerðar nr. 1277/2016.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi vegna áður gerðra framkvæmda að Njarðargötu 43, Reykjavík. Var ákvörðunin tekin með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 4. júlí 2024, þar sem neikvætt var tekið í erindið vegna þess að umsóttar svalir væru of djúpar og óheimilt væri að vera með rekstur gistiheimilis í flokki II–b í húsinu, þar sem rekstur gistiheimila í íbúðabyggð við aðalgötu takmarkaðist við minni gistiheimili.

 Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga.

Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 var samþykkt í borgarstjórn 19. október 2021 og birt í B-deild stjórnartíðinda 18. janúar 2022. Samkvæmt aðalskipulagi tilheyrir lóðin Njarðargata 43 borgarhluta 2 Miðborg og er á skilgreindu íbúðasvæði ÍB10 Þingholt. Um landnotkun er fjallað í III. hluta greinargerðar aðalskipulagsins. Í kafla 3.2. kemur fram að almenn skilgreining íbúðarbyggðar sé „Svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minni háttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar er kveðið á um í stefnu skipulagsins (gr. 6.2.a. í skipulagsreglugerð).“ Þá kemur fram að fjölbreyttari landnotkun sé heimil í íbúðarbyggð sem falli undir skilgreininguna aðalgata eða nærþjónustukjarni. Njarðargata er skilgreind sem aðalgata í aðalskipulaginu.

Um aðalgötur er fjallað í kafla 3.3.1. Meðfram aðalgötum er heimil fjölbreyttari landnotkun þótt grunnskilgreining lóða sé íbúðarbyggð samkvæmt þéttbýlisuppdrætti, einkum starfsemi sem fellur undir flokkana verslun og þjónusta, að skemmtistöðum undanskildum, og samfélagsþjónusta. Verslun og þjónusta á jarðhæðum getur verið heimil svo og mögulega veitingastaðir í flokki I og II og gististaðir í flokki II–III. Þá segir að umfang gististarfsemi við aðalgötur skuli miðast við minni gistiheimili, sbr. reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Minna gistiheimili telst gististaður með „takmarkaða þjónustu þar sem leigð eru út 5 eða færri herbergi eða hefur rými fyrir 10 einstaklinga eða færri“, sbr. c. lið 4. gr. reglugerðarinnar. Gistiheimili kæranda hefur gistirými fyrir 16 manns og er sú starfsemi samkvæmt framansögðu ekki í samræmi við ákvæði nefndrar reglugerðar sem gilda um gististarfsemi við aðalgötur. Þá liggur fyrir að allt frá árinu 2017 hefur kæranda verið kunnugt um þá afstöðu skipulagsfulltrúa að minnka þurfi svalir á þakhæð og grenndarkynna breytingarnar þar sem ekki er til staðar deiliskipulag fyrir svæðið. Var því umsögn skipulagsfulltrúa frá 4. júlí 2024 í fullu samræmi við fyrri umsagnir frá 29. september 2017 og 2. mars 2018. Gögn málsins bera með sér að ekki hefur verið brugðist við umsögnum skipulagsfulltrúa af hálfu kæranda.

Samkvæmt jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Í því felst að aðilar við sambærilegar aðstæður skuli hljóta samsvarandi afgreiðslu. Reglan á að hindra að ákvarðanir verði tilviljunarkenndar, byggðar á geðþótta eða annarlegum sjónarmiðum.

Eins og fram hefur komið var jákvæð afstaða skipulagsfulltrúa vegna svala á Njarðargötu 47 byggð á því að um 30 ár voru síðan svalirnar voru byggðar og óljóst hvort þær hefðu verið samþykktar á þeim tíma. Einnig kom fram að nýrri framkvæmdir skyldu alfarið samræmast núgildandi áherslum og viðmiðum. Er því ekki um sambærileg tilvik að ræða og verður ekki séð að borgaryfirvöld hafi með synjun umsóknar kæranda brotið gegn 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið liggur ekki fyrir að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim ágöllum sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu þess efnis því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. október 2024 um að synja umsókn um byggingarleyfi vegna áður gerðra framkvæmda að Njarðargötu 43, Reykjavík.