Árið 2025, miðvikudaginn 12. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 8/2025, kæra á ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar frá 3. janúar 2025 um að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis á skotsvæði félagsins á Álfsnesi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 12. janúar 2025 kærir eigandi, Stekk, 162 Reykjavík, þá ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar frá 3. janúar 2025 að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis á skotsvæði félagsins á Álfsnesi, þar til starfsleyfi hefur verið gefið út en þó eigi lengur en til 5. janúar 2026. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunarinnar.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfis- og orkustofnun 7. febrúar 2025.
Málsatvik og rök: Tvö félög hafa á annan áratug rekið sinn hvorn skotvöllinn á Álfsnesi og hafa álitamál vegna þeirra áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar. Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar frá 3. janúar 2025 að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis, sem veitt var til fjögurra mánaða frá 5. september 2024. Á meðal þess sem kærandi byggir á er að óeðlilegt sé að hvorki við útgáfu bráðabirgðaheimildarinnar né við framlengingu hennar hafi hagaðilum verið tilkynnt um ákvörðun.
Niðurstaða: Af hálfu Umhverfis- og orkustofnunar hefur verið upplýst að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi veitt starfsleyfi fyrir starfseminni. Var það gefið út 13. febrúar 2025 og gildir til 31. desember 2028. Með vísan til orðalags hinnar kærðu bráðabirgðaheimildar er gildi hennar nú liðið undir lok og hefur hún því ekki lengur réttaráhrif. Á kærandi því ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hennar. Verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.