Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

93/2021 Selvogsgata

Með

Árið 2021, föstudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 22. júní 2021 um að synja um beitingu þvingunarúrræða og um ógildingu ákvörðunar um samþykkt byggingarleyfis frá 23. september 2015 vegna Selvogsgötu 16a í Hafnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. júní 2021, er barst nefnd­inni sama dag, kærir eigendur, Holtsgötu 13, Hafnarfirði, þá ákvörðun bygg­ingar­full­­­trúa Hafnarfjarðar frá 22. júní 2021 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna breytinga sem gerðar hafi verið á Selvogsgötu 16a og ógildingu teikninga sem sam­þykktar hafi verið á af­greiðslu­­fundi skipulags- og byggingarfulltrúa 23. september 2015. Skilja verður málskot kær­anda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunar um samþykkt byggingarleyfis frá 23. september 2015 og ákvörð­­unar um að synja um beitingu þvingunarúrræða frá 22. júní 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 5. júlí 2021.

Málsatvik og rök: Árið 2015 sóttu fyrri eigendur Selvogsgötu 16a, Hafnarfirði, um byggingarleyfi til þess að gera tvö­­falda svaladyr með útgengi í garð í stað eldra gluggaops á bakhlið hússins. Á upp­drætti er fylgdi umsókn um byggingarleyfi voru jafnframt færðar inn áður gerðar breytingar á húsinu án þess að þær væru sérstaklega tilgreindar, en í þeim fólst að á bílskúr í horni lóðarinnar, við lóðamörk Selvogsgötu 16b­ og Holtsgötu 13, höfðu verið gerðar þaksvalir, handrið og stigi. Uppdrættirnir voru samþykktir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar hinn 23. september 2015. Að sögn fyrri eiga­nda höfðu framangreindar breytingar þegar verið tilkomnar við kaup hans á húsinu árið 2014. Þá er í gögnum málsins vísað til þess að nágranni hefði greint frá því að þegar hann keypti sína eign fyrir 15 ár­um hefðu svalirnar þegar verið til staðar.

Með bréfi til byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar, dags. 22. júní 2021, fór kærandi fram á að teikningar frá árinu 2015 vegna Selvogsgötu 16a yrðu ógiltar og að beitt yrði þvingunar­úrræðum skv. 55. og 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 vegna framangreindra fram­kvæmda. Byggingar­full­­­trúi sveitarfélagsins svaraði kæranda sama dag með þeim hætti að ákvörðunin stæði, teikning­­a­r­nar hefðu verið samþykktar í september árið 2015 og að framkvæmdir hefðu þegar farið fram.

 Kærandi telur teikningar af þeim breytingum sem varði þaksvalir hvorki vera í samræmi við lög né byggingarreglugerð. Þá hafi nágrannar ekki veitt samþykki sitt fyrir þeim. Af svölunum sé fallhætta, þær varpi skugga á næstu lóðir og valdi ónæði. Hand­rið sé 85 cm á hæð en það sé ekki á stiganum líkt og skylt sé.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að hinar umdeildu breytingar hefðu verið til komnar þegar samþykkt var að breyta gluggaopi í dyraop árið 2015. Ekki séu til teikningar af þessari breytingu en oft og tíðum sé áður gerðri framkvæmd bætt inn á teikningar. Þá er vísað til þess að skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé eins mánaðar kærufrestur til nefndarinnar liðinn.

 Af hálfu eiganda Selvogsgötu 16a er bent á að kærandi hafi keypt eign sína árið 2020 og hafi honum því verið kunnugt um hinar umdeildu þaksvalir og stiga en engar athugasemdir gert fyrr en árið 2021.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til úrskurðar­nefnd­ar­innar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Fyrir liggur að á þeim tíma er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni voru tæp sex ár liðin frá því að byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar veitti samþykki fyrir hinni kærðu framkvæmd, sem mun þó vera eldri. Var kærufrestur því löngu liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni 22. júní 2021.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Skilyrði 28. gr. stjórnsýslulaga fyrir töku máls til efnismeðferðar að liðnum kærufresti þykja ekki uppfyllt í máli þessu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar um samþykkt byggingarleyfis frá 23. september 2015 vísað frá úrskurðarnefndinni.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í því hlutverki felst m.a. að taka afstöðu til beitingar þvingunarúrræða þeirra sem mælt er fyrir um í 55. og 56. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 55. gr. er m.a. tekið fram að sé byggingarleyfisskyld framkvæmd skv. 9. gr. hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða byggt á annan hátt en leyfi stendur til geti byggingarfulltrúi stöðvað slíkar framkvæmdir tafarlaust og fyrirskipað lokun mannvirkisins. Sama gildi ef ekki sé að öðru leyti fylgt ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar séu samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdina. Þá er kveðið á um í 2. mgr. 55. gr. laganna að ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að vinna slík verk á hans kostnað. Þá er í 56. gr. laganna fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Sé það ekki gert sé heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hafi að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. sama ákvæðis.

Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræðis er háð mati stjórnvalds hverju sinni en tekið er fram í athugasemdum við 55. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 160/2010 að eðlilegt sé að hvert tilvik sé metið, m.a. með tilliti til meðalhófs. Fyrrgreind ákvæði 55. og 56. gr. laganna gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við ef byggingarleyfisskyld framkvæmd gengur gegn almanna­hagsmunum, þ. á m. skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum, og eiga einstaklingar því ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram beitingu nefndra þvingunarúrræða vegna einkaréttarlegra hagsmuna sinna. Við mat stjórnvaldsins þarf þó sem endranær að fylgja megin­ reglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að baki ákvörðun búi málefnaleg sjónarmið.

Í hinni kærðu ákvörðun um að aðhafast ekki vegna umdeildra framkvæmda var vísað til þess að teikningarnar hefðu verið sam­þykktar árið 2015 og þess að framkvæmdum væri lokið. Þá upplýsti sveitarfélagið hinn 12. október 2021 um að þvingunarúrræðum væri ekki beitt nema þegar um ólöglegar framkvæmdir væri að ræða og að í umræddu tilviki hefði verið veitt byggingarleyfi fyrir þeim. Með hliðsjón af því og þar sem ekki liggur fyrir að almanna­hagsmunum hafi verið raskað með hinum umdeildu framkvæmdum liggja ekki fyrir þær ástæður sem leitt geta til þess að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa að synja um beitingu þvingunarúrræða verði hnekkt.

 Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 23. september 2015 um samþykkt byggingarleyfis vegna Selvogsgötu 16a er vísað frá úrskurðar­nefnd­inni.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar um að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna breytinga sem gerðar hafa verið á Selvogsgötu 16a.

69/2021 Reykjavíkurvegur

Með

Árið 2021, föstudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2021, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2021 um að synja um breytingu á skiptingu lóðarinnar Reykjavíkurvegar 31.  

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. maí 2021, er barst nefndinni 28. s.m., kæra tveir þinglýstra eigenda lóðarinnar Reykjavíkurvegar 31, þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 30. apríl 2021, sem staðfest var í borgarráði 20. maí s.á., að synja umsókn þeirra um skiptingu nefndrar lóðar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 1. júlí 2021.

Málavextir: Á lóðinni Reykjavíkurvegi 31 í Litla Skerjafirði, Reykjavík, stendur fjölbýlishús með fjórum íbúðum. Með afsali, dags. 25. september 1991, eignuðust foreldrar kærenda íbúð í húsinu og var eigninni þar lýst sem þriggja herbergja íbúð á efri hæð hússins, ásamt risi, hlut­deild í eignarlóð og öllu öðru sem eignarhlutanum fylgdi. Þá kom einnig fram að kaupendum væri kunnugt um ágreining um lóðarskiptingu og kvaðir sem á eigninni hvíldu. Í kjölfar andláts foreldra kærenda kom eignin í hlut þeirra með skiptayfirlýsingu árið 2009.

Lóðin Reykjavíkurvegur 31 er 900 m2, en hefur frá 8. október 2018 verið skráð hjá Þjóð­skrá sem tvær lóðir, hvor um sig sé 450 m2, þ.e. Reykjavíkurvegur 31 (L106688) og Reykja­­víkur­vegur 31b (L227482). Kærendur sóttu hinn 18. mars 2021 um breytingu á deili­skipu­lagi vegna Reykjavíkurvegar 31 og 31b til samræmis við skráningu Þjóðskrár. Þeirri umsókn kærenda var hins vegar synjað á fundi borgarráðs hinn 20. maí 2021 og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur kveðast hafa áform um að reisa smáhýsi á lóðinni Reykjavíkur­vegi 31 og í því skyni hafi þeir óskað eftir því að lóðinni yrði skipt. Vísað sé til þinglýstra heimilda, allt frá árinu 1964, um að ákveðinn hluti lóðarinnar Reykja­­víkur­­vegar 31 tilheyri ekki lóð íbúðarhússins og sé það ágreiningslaust meðal eigenda hússins. Fordæmi séu fyrir því að eignarhald þess lóðarhluta hafi verið á hendi annarra en eigenda hússins. Fyrrum eigandi efri hæðar og riss hafi keypt lóðar­hlutann árið 1988 og við það hafi lóðarhlutinn fyrst aftur komist í eigu eiganda íbúðar í húsinu. Ári síðar hafi Reykjavíkurborg samþykkt umsókn þessa fyrrum eiganda um að reisa bílskúr á lóðarhlutanum en ekkert hafi orðið af þeim framkvæmdum. Í þinglýstum skiptasamningi frá 8. júní 1989, sem allir eigendur íbúðarhússins utan einn hafi undirritað, komi fram að lóðin sem húsið standi á sé 900 m2 og skiptist í tvo jafna hluta, lóðar­hluta A, sem sé 450 m2 og skiptist á milli húseigenda í samræmi við eignarhluta þeirra í húseigninni, og lóðarhluta B, sem einnig sé 450 m2 og sé í eigu einstaklings. Þá hafi núverandi eigandi þeirrar íbúðar sem fyrri eigandi undirritaði ekki framangreindan skiptasamning nú veitt samþykki sitt fyrir skiptingu lóðar þeirrar sem tilheyri húseigninni og ritað undir yfirlýsingu þess efnis.

Í kjölfar þess að kærendur hefðu veitt því athygli að skráning Reykja­víkur­vegar 31b hjá Þjóðskrá væri ófrágengin hefðu þeir fengið henni breytt. Þegar í ljós hefði komið að hjá borginni væri lóðin Reykjavíkurvegur 31 enn skráð 900 m2 hefðu kærendur sent umsókn um skiptingu lóðarinnar til skipulagsfulltrúa Reykjavíkur.

Kærendur hafi með kaupsamningi hinn 4. júní 2021 selt íbúð sína í húsinu að Reykjavíkurvegi 31. Í samningnum sé fyrirvari um eignarhald kærenda að lóð­inni Reykjavíkurvegi 31b og vilji kærendur tryggja eignarréttindi sín að lóðinni en fulltrúar borgarinnar hafi upplýst kærendur um að þeir gætu misst eignarréttindi sín yfir lóðarhlutanum ef lóðinni væri ekki skipt áður en þeir seldu íbúðina.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að engin gögn um skráningu lóðarinnar hafi fundist hjá borginni og að skv. 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé óheimilt að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðar­mörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til. Slíkt samþykki af hálfu Reykjavíkurborgar liggi ekki fyrir og engar skýringar séu á breytingum Þjóðskrár vegna nýskráningar lóðarinnar Reykja­víkur­­­­vegar 31b.

Með hinni kærðu ákvörðun hafi umsókn kærenda um breytingu á deiliskipulagi verið synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 30. apríl 2021. Þar komi m.a. fram að rétt væri að hafa forsögu málsins í huga þegar gerð væri grein fyrir afstöðu skipu­lagsfulltrúa til skiptingar lóðarinnar. Var þar vísað til umsagna skipulagsfulltrúa vegna fyrir­spurna kærenda frá 2. febrúar 2018 og 26. febrúar 2021 um leyfi til að byggja smáhýsi á lóðinni. Í fyrri umsögn skipulagsfulltrúa komi m.a. fram að um væri að ræða stóra lóð sem hugsanlega væri hægt að nýta betur og skipta í tvær. Þó væri á lóðinni kvöð um frárennsli sem kæmi í veg fyrir að hægt væri að nýta hluta hennar og að gera þyrfti heildstætt mat á því hvort og hvernig hægt væri að þétta byggð á þessum stað og mikilvægt væri að sátt ríkti um slíka þéttingu. Þá komi fram í seinni umsögninni að engin gögn fyndust um „þessa lóð / lóðparspildu“ í land­­upp­lýsingakerfi Reykjavíkur, LUKR, hjá umhverfis- og skipulagssviði og að í fast­eigna­skrá væru kærendur einungis skráðir sem umráðamenn en ekki þinglýstir eigendur lóðarinnar.

Niðurstaða: ­­­­­­­­­­­­­­­­­­Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 er skipulag lands innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna, og geta þær með því haft áhrif á og þróað byggð og umhverfi með bindandi hætti. Annast þær og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. sömu laga og ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðal­­skipulags. Samkvæmt 48. gr. skipulagslaga er óheimilt að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til. Við meðferð umsókna um framangreint ber sveitarstjórn að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýslu­réttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar. Þá eru sveitarstjórnir jafnframt bundnar af lög­mætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum mark­miðum.

­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­Eitt markmiða Aðalskipulags Reykjavíkur 2010–2030 er að skapa heildstæðari og þéttari borg­ar­byggð og nýta þar með betur land og fjárfestingar í gatna- og veitukerfum og þjónustu­stofn­unum. Er uppbygging á miðlægum svæðum þar sögð vera í algjörum forgangi. Samkvæmt aðal­skipulaginu er umrædd lóð í Litla Skerjafirði á svæði sem skilgreint er sem íbúðarbyggð, ÍB6, og tilheyrir vestur­bænum, borgarhluta 1. Þar er Litla Skerja­firði lýst sem fullbyggðum og fast­mótuð­um en í jaðri svæðisins sé þróunarsvæði 4.­ Á sumum svæða borgar­hlutans séu miklir upp­byggingar­möguleikar, einkum á jaðar­svæðum, og er gert ráð fyrir því að íbúðum geti fjölgað um 2.300, þar af um 1.100 íbúðir austan Suðurgötu, í Skerja­firði og Vatns­mýri. Verður ekki séð að umdeild lóðarskipting færi gegn þessum markmiðum eða stefnu gildandi aðalskipulags, en ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði.

Í umsögn skipulagsfulltrúa sem vísað var til sem rökstuðnings fyrir hinni kærðu ákvörðun var m.a. vísað til lagnakvaðar sem á lóðinni hvíldi og þess að borginni bæri að þjónusta sérhverja lóð. Ekki verða í því talin felast efnisrök fyrir synjun um skiptingu lóðarinnar að á henni hvíli lagnakvöð enda liggja ekki fyrir neinar mótaðar fyrirætlanir um mannvirkjagerð á lóðinni. Þá verða, án þess að frekari skýringar komi til, ekki heldur talin felast efnisrök í þeim rökstuðningi borgarinnar að uppskipting lóðarinnar samræmist ekki „hagsmunum Reykjavíkurborgar þar sem borginni ber skylda að þjónusta sérhverja lóð á ýmsan hátt.“ Loks kemur fram í umsögn skipulagsfulltrúa að „almennt er ekki gert ráð fyrir skiptingu lóða nema með ákveðnum skilyrðum samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur, sbr. kafla um borgarvernd (í kaflanum Borg fyrir fólk) með vísan í fjöl­breytileika byggðarmynsturs innan Hringbrautar, sjá bls. 164­.“­ Á uppdráttum skipulagsins er svæðið „innan Hringbrautar“ sýnt sem svæði norðan Hringbrautar. Þar sem lóðin Reykjavíkurvegur 31 er ekki „innan Hringbrautar“ samkvæmt aðalskipulaginu byggir rökstuðningur ákvörðunarinnar að því leyti á rangri forsendu.

Að öllu þessu virtu verður að telja að rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið svo áfátt að fallast verður á kröfu kærenda um ógildingu hennar.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2021 um að synja um skiptingu lóðarinnar Reykjavíkurvegar 31.

45/2021 Iðndalur

Með

Árið 2021, föstudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2021, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 24. mars 2021 um að kæranda sé skylt að hreinsa 2. áfanga lóðarinnar Iðndals 23, Vogum, af úrgangi og rusli og koma í löglega förgun en að öðrum kosti þurfa að sæta því að lóðin verði hreinsuð að tilstuðlan Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. apríl 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi hluta lóðarinnar Iðndals 23, Vogum, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 24. mars 2021 að kæranda sé skylt að hreinsa 2. áfanga lóðarinnar Iðndals 23 af úrgangi og rusli og koma í löglega förgun en að öðrum kosti þurfa að sæta því að lóðin verði hreinsuð að tilstuðlan Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 14. maí 2021.

Málavextir: Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur áður haft afskipti vegna óþrifnaðar á lóðinni Iðndal 23 á árunum 2014 og 2019, en þeim afskiptum lauk ekki með ákvörðunum eða þvingunar­ráðstöfunum eftirlitsins. Með bréfi, dags. 25. febrúar 2021, gerði Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja þá kröfu að allur úrgangur á fyrrgreindri lóð yrði fjarlægður og komið í löglega förgun. Bréfinu var beint til eigenda lóðarinnar, sem eru tveir, og er kærandi annar þeirra. Var veittur fjögurra vikna frestur frá dagsetningu bréfsins til að ljúka verkinu. Þá voru veittar leiðbeiningar um andmælarétt og kæruheimild. Kærandi andmælti kröfunni með bréfi, dags. 16. mars s.á., með þeim rökum að hvorki úrgangurinn né sá hluti lóðarinnar sem úrgangurinn væri á tilheyrði honum. Bréfinu var svarað af hálfu heilbrigðiseftirlitsins 24. s.m. þar sem fram kom að athugasemdum kæranda væri hafnað þar sem um sameiginlega og óskipta lóð væri að ræða.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að lóðin Iðndalur 23 sé leigulóð frá Vatnsleysu­­strandar­­hreppi til 75 ára frá og með 24. júlí 1999 skv. lóðarleigusamningi dags. 1. desember s.á. Samkvæmt 7. og 8. gr. samningsins sé gert ráð fyrir því að fleiri en eitt hús eða önnur mannvirki verði reist á lóðinni og að þau geti gengið kaupum og sölum að undangengnum forkaupsrétti leigu­sala.

Með eignaskiptayfirlýsingu fyrir lóðina frá 19. apríl 2000, sem þinglýst hafi verið á lóðina 2. maí 2000, hafi lóðinni verið skipt í tvo áfanga. Á 1. áfanga lóðarinnar hafi verið reist hefðbundið stálgrindarhús sem skiptist í fjórar fasteignir með risþaki og sé hlutur 1. áfanga í heildarlóð 40% en hlutur 2. áfanga 60%. Komi fram í eignaskiptayfirlýsingunni að byggingarréttur 2. áfanga fylgi fasteigninni á 1. hæð til hægri, austurenda, hluta 01 0104. Segi í grein 1.8 í athugasemdum að „byggingarréttur 2. áfanga og afnotaréttur þess lóðarhafa fram að byggingu áfangans fylgir fasteign 0104“. Á teikningum sem fylgi eignaskiptayfirlýsingunni sé 2. áfangi lóðarinnar sér­greindur hægra megin, þ.e. austan megin við stálgrindarhúsið næst eignarhluta 0104.

Með kvöð sem lögð hafi verið á lóðina með skjali, dags. 26. september 2007, þinglýstu 28. s.m., hafi hverjum eignarhluta stálgrindarhússins verið veittur sérafnotaréttur af þeim hluta lóðarinnar sem liggi að og beint út frá hverjum eignarhlut. Þá sé ítrekað það sem komi fram í framangreindri eignaskiptayfirlýsingu að byggingarréttur 2. áfanga lóðarinnar fylgi eignarhluta 0104 og sagt að allur umráða- og afnotaréttur byggingarréttar og lóðar sem að honum liggi tilheyri eignarhluta 0104. Þá sé lögð sú kvöð á eigendur eignarhluta 0101, 0102 og 0103 að standa ekki í vegi fyrir heldur samþykkja þær byggingarframkvæmdir sem fyrirhugaðar séu á lóðinni og að sama skapi samþykkja nauðsynlegar breytingar á eignaskiptasamningi til samræmis við þær framkvæmdir. Með eignaskiptayfirlýsingu, dags. 27. september 2007, móttekinni til þinglýsingar 9. október s.á., hafi lóðinni verið skipt upp í sérafnotafleti, sbr. gr. 1.7 og í samræmi við framangreinda kvöð, og staðfest að byggingarréttur 2. áfanga, sem og allur umráða- og afnotaréttur lóðarhlutans, fylgi eign 0104, sbr. gr. 1.8, í samræmi við kvöðina og fyrri eignaskiptayfirlýsingu.

Kærandi sé eigandi að tveimur fasteignum í því stálgrindarhúsi sem reist hafi verið á 1. áfanga lóðarinnar, þ.e. 1. hæðar til vinstri, vesturenda, eignarhluta 0101, og 1. hæðar til vinstri, fyrir miðju, eignarhluta 0102. Þeim eignarhlutum fylgi samkvæmt framangreindum heimildum sérafnotaflötur á þeim hluta lóðarinnar sem liggi að og beint út frá eignarhlutum kæranda. Eigandi 1. hæðar til hægri fyrir miðju, hl. 0103, og 1. hæðar til hægri, austurenda, hl. 0104, sé einkahlutafélag. Eignarhlutum þess félags fylgi samkvæmt framangreindum þinglýstum heimildum sérafnotaflötur á þeim hluta lóðarinnar sem liggi að og beint út frá eignarhlutunum auk þess sem eignarhluta 0104 fylgi allur umráða- og afnotaréttur byggingarréttar og 2. áfanga lóðarinnar.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús sé séreign skilgreind sem „afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum er lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi og/eða öðrum þinglýstum heimildum um húsið ásamt því sem honum fylgir sérstaklega […] lóðarhluti […] eða annað samkvæmt sömu heimildum, ákvæðum laga þessara eða eðli máls“. Í 9. og 10. tölul. 5. gr. laganna segi að séreign teljist hluti lóðar sem sé séreign samkvæmt þinglýstum heimildum eða eðli máls, svo sem ef viðkomandi hafi kostað það. Í 2. mgr. 7. gr. framangreindra laga segi að um sameign sumra sé að ræða þegar lega sameignar eða afnot hennar eða möguleikar til þess séu með þeim hætti að sanngjarnt og eðlilegt sé að hún tilheyri aðeins þeim sem hafi aðgang að henni og notkunarmöguleika. Þá sé kveðið á um það í 9. gr. laganna að við úrlausn þess hvort um séreign eða sameign allra eða sumra sé að ræða skuli m.a. líta til þess hvernig staðið hafi verið að byggingu hússins eða viðkomandi hluta þess og hvernig byggingarkostnaði hafi verið skipt.

Af framangreindum þinglýstum heimildum sem og ákvæðum fjöleignarhúsalaga leiði að 2. áfangi lóðarinnar að Iðndal 23 verði að teljast séreign einkahlutafélagsins. Sé umræddur lóðarhluti sérstaklega afmarkaður á teikningum sem séu hluti þinglýstra eignaskiptayfirlýsinga og tekið fram að einungis eignarhluti 0104 hafi umráða- og afnotarétt að lóðarhlutanum. Þá sé sú kvöð á eigendum annarra eignarhluta að samþykkja fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir á 2. áfanga sem og nauðsynlegar breytingar á eignaskiptayfirlýsingu. Með hliðsjón af 2. mgr. 7. gr. fjöleignar­húsalaga geti ekki talist eðlilegt né rökrétt að viðkomandi lóðarhluti teljist í sameign enda hafi kærandi hvorki aðgang né afnotamöguleika að viðkomandi lóðarhluta. Þá sé ljóst að eigandi lóðarhlutans muni standa að og kosta alla uppbyggingu á 2. áfanga lóðarinnar og því eðlilegt með hliðsjón af 9. gr. laganna að líta á þann hluta sem séreign.

Verði ekki fallist á að 2. áfangi lóðarinnar teljist séreign eignarhluta 0104 sé ljóst að lóðarhlutinn sé hluti af sérafnotafleti eignarhluta 0104, sbr. þinglýsta kvöð og eignaskiptayfirlýsingu frá 27. september 2007. Í því felist að eigandi eignarhluta 0104 hafi einkarétt til afnota og umráða yfir þeim hluta lóðarinnar sem teljist til sérafnotaflatar eiganda og leggi þá kvöð á aðra sameigendur að heildarlóðinni að þeir virði umráða- og ákvörðunarrétt sérafnotaréttarhafa. Um leið taki sérafnotaréttarhafi á sig stofn-, viðhalds- og umhirðukostnað við flötinn. Þá hafi aðrir sameigendur að lóðinni ekki almennan umgengnisrétt um sérafnotaflöt sérafnotaréttarhafa. Benda megi m.a. á álit kærunefndar húsamála í málum nr. 132/2018 og 94/2020.

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja byggi kröfu sína á 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti sem og 16. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðferð úrgangs. Í báðum reglu­gerðunum sé lögð sú skylda á umráðamann lóðar að halda lóðinni hreinni og snyrtilegri. Sá úrgangur sem gerð sé krafa um að verði fjarlægður sé allur á 2. áfanga lóðarinnar, þ.e. óbyggðu svæði sem liggi að eignarhluta 0104 og tilheyri honum og lúti því alfarið umráðum eiganda þess hluta. Samkvæmt þinglýstum heimildum hafi kærandi engan umráðarétt yfir umræddum 2. áfanga lóðarinnar. Samkvæmt þeim heimildum sem vísað sé til um kröfuna gagnvart kæranda sé það hins vegar skilyrði að sá sem hægt sé að beina slíkri kröfu gegn sé umráðamaður viðkomandi lóðar. Kröfunni sé því ranglega beint að kæranda. Lögtaksréttur geti því ekki stofnast í eignarhluta kæranda í umræddri lóð.

Það leiði af lögmætisreglu íslensks réttar að stjórnvaldsákvarðanir verði að vera í samræmi við lög og eiga sér viðhlítandi stoð í þeim. Að mati kæranda sé ekki lagastoð fyrir kröfu heilbrigðis­eftirlitsins á hendur kæranda. Verði talið að svo sé þá leiði af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að stjórnvaldið skuli velja það úrræði sem vægast sé til að ná því markmiði sem stefnt sé að og gæta hófs við beitingu þess. Af því leiði að beina ætti kröfu um hreinsun 2. áfanga lóðarinnar að þeim aðila sem ábyrgð beri á óþrifnaðnum, en ágreiningslaust sé að það sé ekki kærandi. Kærandi taki undir að tímabært sé að heilbrigðiseftirlitið hlutist til um hreinsun lóðarinnar og að gera beri lögtak fyrir þeim kostnaði sem af því hljótist í eignarhluta umráðamanns og ábyrgðaraðila þess hluta lóðarinnar. Sé ekkert sem standi í vegi fyrir því enda séu hans eignarhlutar sérgreindir í fasteignaskrá og hver með sitt fastanúmer.

Kærandi áskilji sér jafnframt rétt um greiðslu kostnaðar úr hendi Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja sem hann muni hafa af máli þessu.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er bent á að í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, sem sett sé með stoð í lögum nr. 7/1998, sé kveðið á um skyldur eiganda eða umráðamanna húss eða mannvirkis til þess að halda eigninni hreinni og snyrtilegri ásamt tilheyrandi lóð þannig að það valdi ekki öðrum ónæði. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. sömu reglugerðar sé enn fremur bannað að skilja eftir, dreifa eða geyma hluti, búnað eða tæki á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu.

Samkvæmt 16. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðferð úrgangs sé heilbrigðisnefnd heimilt að láta fara fram hreinsun á lóð eiganda ef þess sé talin þörf. Samkvæmt 21. gr. reglugerðar um hollustuhætti sé heilbrigðisnefnd enn fremur veitt heimild til að láta fjarlægja lausamuni að undan­genginni viðvörun. Þá sé heilbrigðisnefnd heimilt að láta vinna verkið á kostnað kæranda, sbr. 61. gr. laga nr. 7/1998. Í 2. mgr. ákvæðisins komi fram að þegar verk það sem heilbrigðisnefnd láti vinna sé komið til vegna vanhirðu og óþrifa eða heilsuspillandi aðstæðna í húsi, á lóð eða í farartæki sé kostnaður tryggður með lögveðsrétti í viðkomandi húsi, lóð eða farartæki í tvö ár eftir að greiðslu hafi verið krafist.

Í kæru sé á það bent að sá úrgangur og óþrifnaður sem heilbrigðiseftirlitið geri athugasemdir við sé allur á svokölluðum 2. áfanga lóðarinnar, sem sé enn óbyggður og tilheyri sameiganda kæranda. Heilbrigðiseftirlitið bendi á að óháð byggingaráföngum lóðarinnar sé hún ein óskipt lóð og ekki sé hægt að gera greinarmun á 1. og 2. áfanga lóðarinnar hvað skyldur samkvæmt lögum nr. 7/1998, reglugerð nr. 941/2002 og reglugerð nr. 737/2002 varði. Samkvæmt þinglýstum heimildum sé lóðin Iðndalur 23 í Vogum ein óskipt lóð. Á lóðinni standi iðnaðarhús sem sé einn matshluti og skiptist í fjórar eignir. Fram komi í eignaskiptayfirlýsingu að eignarhlutar séu fjórir og hlutdeild hvers eignarhluta í óskiptri lóð sem reiknuð sé í ákveðnu hlutfalli en lóðinni sé ekki skipt upp að öðru leyti. Í kvöð sem þinglýst sé á fasteignina komi fram að hver eignarhluti fái sérafnotarétt af „þeim hluta lóðarinnar sem liggur að og beint út frá hverjum eignarhlut“.

Í 4. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 sé séreign skilgreind sem „afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum er lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi og/eða öðrum þing­lýstum heimildum um húsið ásamt því sem honum fylgir sérstaklega hvort heldur er húsrými í húsinu sjálfu, bílskúr á lóð þess eða sameiginlegri lóð margra húsa, lóðarhluti, búnaður eða annað samkvæmt sömu heimildum, ákvæðum laga þessara eða eðli máls“. Ekki verði ráðið af eigna­skiptayfirlýsingu að um séreign sé að ræða í skilningi 4. gr. fjöleignarhúsalaga.

Í tilvitnaðri eignaskiptayfirlýsingu komi fram að þeir eignarhlutar hússins sem tilheyri kæranda séu annars vegar 9,88% og hins vegar 10,12% af sameiginlegri lóð. Samtals tilheyri mannvirkjum kæranda 20% hlutdeild í heildarlóð. Fyrir liggi í málinu loftmyndir sem sýni óþrifnað á lóðinni ásamt lóðaruppdrætti frá byggingarfulltrúa sem sýni mörk umræddrar lóðar. Áfangaskipting byggingar­fram­kvæmda hafi í sjálfu sér ekkert með málið að gera. Óumdeilt sé að lóðin sé í vanhirðu, til lýta fyrir umhverfið og að mengunarhætta stafi af úrgangi sem þar sé geymdur, þannig að skilyrði framan­greindra réttarheimilda séu uppfyllt til að krefjast hreinsunar lóðarinnar.

Heilbrigðiseftirlitið veki athygli á því að í tilvitnaðri kvöð komi það eitt fram að lögð sé sú kvöð á sameigendur að eigendur hafi tiltekinn afnotarétt af sameiginlegri lóð. Þá sé tekið fram að byggingarréttur á 2. áfanga lóðarinnar tilheyri eign 01 0104. Jafnframt hafi verið kveðið á um umferðarrétt annarra eigenda um þessa sérafnotafleti. Telja verði að í þessari kvaðasetningu hafi ekki verið stofnað til séreignarréttar í skilningi laga um fjöleignarhús heldur tiltekins afnotaréttar af sameign. Heilbrigðiseftirlitið vísi hér m.a. til álits kærunefndar fjöleignarhúsamála í máli nr. 94/2020, sem kærandi vísi einnig til, þar sem segi um sérafnotafleti lóða í fjöleignarhúsum skv. eignaskiptayfirlýsingu: „Sá réttur felur ekki í sér séreignarétt, samkvæmt skilningi 4. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994, yfir viðkomandi fleti heldur einungis afnotarétt, þ.e. kvöð á aðra sameigendur að lóðinni að þeir virði umráða- og ákvörðunarrétti sérafnotaréttarhafa. Um leið tekur sérafnotaréttarhafi á sig stofn-, viðhalds og umhirðukostnað við flötinn“. Hér vísist einnig til álits í máli nr. 82/2020 og dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 388/2010.

Af framangreindu leiði að sá hluti lóðarinnar þar sem úrgang og óþrifnað sé að finna, þ.e. 2. áfangi lóðarinnar, geti ekki talist séreign eiganda eignarhluta 0104 í skilningi fjöleignarhúsalaga. Bent sé á að skyldur lóðarhafa gagnvart samfélaginu séu opinbers réttar eðlis og byggist á lögum nr. 7/1998 og lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Lögin og reglugerðir settar samkvæmt þeim geri kröfur til eigenda og umráðamanna lóða en fjalli ekki um innbyrðis réttarstöðu eigenda og notkunarheimildir þeirra samkvæmt fjöleignarhúsalögum, eigna­skipta­samningum og þinglesnum kvöðum. Óumdeilt sé í málinu að úrgangur og óþrifnaður sé innan lóðarmarka Iðndals 23 og heilbrigðiseftirlitið þurfi ekki að greina á milli hvar hann sé staðsettur á hinni óskiptu lóð eða hver sé eigandi úrgangsins. Skyldan til að virða lög um hollustuhætti og meðferð úrgangs hvíli á eigendum lóðarinnar. Heilbrigðiseftirlitið geti því ekki annað, miðað við gildandi lög og reglu­gerðir, en að beina kröfu um hreinsun að öllum þinglýstum eigendum.

Samkvæmt þinglýstum heimildum sé heildarlóðinni Iðndal 23 ekki skipt upp þótt kveðið sé á um afnotarétt af tilteknum hluta hennar. Mörk sérafnotaflata séu ekki alveg ljós en hafi ekki sjálfstæða þýðingu þar sem lóðin sé sameiginleg og óskipt. Eigendur beri því sameiginlega ábyrgð gagnvart heilbrigðiseftirlitinu á því að lögbundnar kröfur til lóðarinnar séu uppfylltar. Athugasemdir heil­brigðis­eftirlitsins snúi að úrgangi og óþrifnaði á sameiginlegri lóð og hafi því ekki verið hjá því komist að beina áskorun til allra eigenda lóðarinnar til að bæta úr innan gefins frests. Þá leggist lögveð skv. 2. mgr. 71. gr. laga nr. 7/1998 á heildarlóðina vegna kostnaðar sem falli til ef til þvingunar­úrræða þurfi að koma. Skyldur eigenda lóðarinnar séu einnig skýrar.

Hin kærða ákvörðun hafi byggst á skýrum laga- og reglugerðarheimildum og sé því fullnægjandi laga­stoð fyrir henni. Um sjónarmið kæranda um meðalhóf skuli tekið fram að heilbrigðiseftirlitið beini kröfu jafnt til allra þinglýstra eigenda að þeirri lóð þar sem úrgangur og óþrifnaður séu til staðar. Ef eigendur verði ekki við lögmætum kröfum heilbrigðiseftirlitsins eigi stjórnvaldið ekki annarra kosta völ en að láta fara fram hreinsun á kostnað eigenda, eins og réttarheimildir greini. Af þeim sökum verði ekki séð hvernig meðalhófs hafi ekki verið gætt.

Heilbrigðiseftirlitið bendi jafnframt á þá meginreglu að aðilar verði sjálfir að bera kostnað sinn af málsmeðferð innan stjórnsýslunnar. Samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi nefndin ekki heimild til að úrskurða málskostnað.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að afskipti Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja af umræddri lóð nái a.m.k. aftur til 20. mars 2014 þegar gerð hafi verið krafa um að kærandi fjarlægði tiltekna muni af lóðarhluta eiganda eignarhluta 0104. Kærandi hafi mótmælt þeirri kröfu í bréfi, dags. 11. apríl s.á., með sömu rökum og í máli þessu en jafnframt fagnað því að heilbrigðiseftirlitið vildi hreinsa svæðið af því rusli sem þar lægi enda væri það hvorki á ábyrgð kæranda né á þeim hluta lóðarinnar sem hann hefði umráð yfir. Ekki hafi verið gerðar athugasemdir við röksemdir kæranda eða þeim mótmælt og hafi hann því talið að fallist hafi verið á þær og málinu lokið. Það hafi því komið á óvart þegar kærandi hafi fengið ný bréf frá heilbrigðiseftirlitinu árin 2019 og 2021. Í bréfum þessum sé röksemdarfærslum kæranda í engu svarað. Ekki hafi því verið gætt að meginreglum um málsmeðferð stjórnvalda og ómaklegt að ýja að því í greinargerð að kærandi eigi á einhvern hátt sök á því ástandi sem ríki á þeim hluta lóðarinnar sem einkahlutafélagið hafi umráð yfir. Ef meginreglum stjórnsýsluréttar um rannsóknarskyldu, andmælarétt, meðalhóf og málshraða hefði verið sinnt væri ekki um „viðvarandi vandamál að ræða“, eins og haldið sé fram í greinargerð.

Þrátt fyrir að umrædd lóð hafi verið óskipt þegar hún hafi verið leigð með lóðarleigusamningi 1. desember 1999 hafi henni nú verið skipt með þeim löggerningum sem þinglýst hafi verið á lóðina og ekki verði litið fram hjá. Ákvæði 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti og 16. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðferð úrgangs geri ráð fyrir því að umráðamenn séu ábyrgir fyrir því að halda lóð sinni snyrtilegri. Svo sem grein hafi verið gerð fyrir í kæru hafi umráð að einstökum hlutum lóðarinnar verið afmörkuð. Með hliðsjón af framangreindum löggerningum sem afmarki umráðarétt núverandi eiganda, orðalagi umræddra reglugerðarákvæða sem og reglum um meðalhóf hljóti heilbrigðiseftirlitið að eiga að beina kröfu um hreinsun að þeim aðila sem ábyrgð beri á óþrifnaði á þeim lóðarhluta sem hann fari með umráð yfir en ekki aðilum sem fari með umráð yfir öðrum afmörkuðum hlutum viðkomandi lóðar. Neyðist heilbrigðiseftirlitið til að hlutast til um hreinsun lóðarinnar hljóti því að vera skylt að gera lögtak eingöngu í þeim eignarhlutum sem tilheyri hinum eigandanum, en ekki í eignarhlutum kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um heimild Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja til að krefjast þess af kæranda að hann hreinsi lóðina Iðndal 23, Vogum, af úrgangi og komi honum í löglega förgun. Kærandi telur kröfunni ranglega að sér beint þar sem hann hvorki eigi úrganginn né hafi umráð þess hluta lóðarinnar þar sem úrgangur sé.

Heilbrigðiseftirlitið byggir fyrrgreinda ákvörðun sína á 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti þar sem segir: „Eigandi eða umráðamaður húss eða mannvirkis skal halda eigninni hreinni og snyrtilegri ásamt tilheyrandi lóð og girðingum, þannig að ekki valdi öðrum ónæði.“ Eftirlitið vísar einnig um ákvörðun sína til 1. mgr. 20. gr. sömu reglugerðar þar sem kemur fram: „Bannað er að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma hluti, búnað eða tæki á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti.“ Heilbrigðiseftirlitið vísar og í ákvörðun sinni til 16. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðferð úrgangs. Í 1. mgr. þeirrar greinar segir að umráðamönnum lóða sé skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum. Þá er í 3. mgr. mælt fyrir um að heilbrigðisnefnd geti krafist lagfæringa og viðgerða á lóðum, girðingum og mannvirkjum, ef nauðsynlegt þyki til þrifnaðar eða ef ástand þeirra sé til lýta fyrir umhverfið. Einnig er skv. 4. mgr. m.a. heimilt að fyrirskipa hreinsun lóða og lendna og getur heilbrigðisnefnd látið hreinsa einkalóðir á kostnað eigenda telji nefndin þess þörf vegna mengunar og óhollustu samkvæmt 5. mgr. ákvæðisins. Loks var ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins talin eiga sér stoð í 21. gr. reglugerðar um hollustuhætti þar sem segir: „Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undan­genginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum.“ Framangreind ákvæði gera ráð fyrir að krafa heilbrigðisnefndar beinist að eiganda eða umráðamanni lóðar.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er lóðin Iðndalur 23 leigulóð í eigu Vatnsleysustrandarhrepps sem leigð hefur verið til 75 ára frá og með 24. júlí 1999 samkvæmt lóðarleigusamningi, dags. 1. desember s.á. Leigutakar lóðarinnar eru kærandi og einn annar aðili, en þeir eiga jafnframt hús sem stendur á lóðinni. Í eignaskiptayfirlýsingu fyrir lóðina, dags. 19. apríl 2000, kemur fram að um einn matshluta sé að ræða. Matshlutinn skiptist í tvo áfanga. Sé áætluð hlutdeild 1. áfanga í heildarlóð 40% og 2. áfanga 60%. Endurskoða skuli skiptinguna þegar komi til byggingar á 2. áfanga. Eitt hús sé á lóðinni með fjórum fasteignum: 0101, 0102, 0103 og 0104 og er hlutdeild hvers eignarhluta í húsinu og í heildarlóð eftir nánar tilgreindum hlutfallstölum. Samkvæmt gr. 1.7. í eigna­skiptayfirlýsingunni er lóðin í óskiptri sameign og hlutdeild hverrar fasteignar í henni eins og áður greinir. Eðli máls samkvæmt fylgi hverri fasteign umhirða og umráðaréttur yfir lóðarspildunni sunnan við hana að götu og beri hún allan kostnað þar af. Í gr. 1.8. er svo tekið fram að byggingar­réttur 2. áfanga og afnotaréttur þess lóðarhluta fram að byggingu áfangans fylgi fasteign 0104.

Kvöð var sett á lóðina Iðndal 23 hinn 26. september 2007 samhliða nýrri eignaskipta­yfirlýsingu, dags. 27. s.m. Í yfirlýsingu um kvöðina kemur fram að sú breyting sé gerð frá fyrri eignaskiptasamningi að hver eignarhluti fái sérafnotarétt af þeim hluta lóðarinnar sem liggi að og beint út frá hverjum eignarhluta. Þó verði sameiginlegur umferðarréttur allra eignarhluta meðfram bílastæðum á baklóðinni meðfram eignum 0101, 0102 og 0103. Þar segir einnig að í eldri samningi fylgi byggingarréttur endaeiningu merktri 0104 sem liggi að hinum óbyggða hluta lóðarinnar. Verði það þannig áfram og tilheyri allur umráða- og afnotaréttur byggingarréttar og lóðar sem að honum liggi eignarhluta 0104. Eigendur eignarhluta 0101, 0102 og 0103 skuldbindi sig til að standa ekki í vegi fyrir og samþykkja þær byggingarframkvæmdir sem fyrirhugaðar séu á lóðinni og fáist samþykktar af byggingar- og skipulagsyfirvöldum í Vogum og að sama skapi samþykki nauðsynlegar breytingar á eigna­skiptasamningi til samræmis við þær framkvæmdir og aukið byggingarmagn á lóðinni, enda verði engin breyting á séreignar-­ eða afnotarétti þessara hluta fyrir utan breytingar á hlutfallstölum.

Í 1. mgr. 16. gr. reglugerðar um meðferð úrgangs er kveðið á um að umráðamönnum lóða sé skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum. Lóðin Iðndalur 23 skiptist í sérafnotafleti samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu og kvöð, eins og fyrr greinir. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 er eign í fjöleignarhúsi með þrennu móti, þ.e. séreign, sameign allra eigenda og sameign sumra eigenda. Sérafnotafletir eru þar ekki taldir upp sem sérstakt eignarform. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 5. tölul. 8. gr. laganna er öll lóð húss sameign sem ekki er ótvírætt séreign samkvæmt þinglýstum heimildum. Fjallað er um hugtakið séreign í 4. gr. fjöleignar­húsalaga. Þar kemur fram að séreign samkvæmt lögunum sé afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum sé lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi og/eða öðrum þinglýstum heimildum um húsið. Í áðurnefndri þinglýstri kvöð, dags. 26. september 2007, kemur fram að „[í] eldri samningi fylgir byggingarréttur endaeiningu merkt 0104 sem liggur að hinum óbyggða hluta lóðarinnar og verður það þannig áfram og tilheyrir allur umráða og afnotaréttur byggingarréttar og lóðar sem að honum liggur eignarhluta 0104.“ Eru því til staðar þinglýstar heimildir sem kveða á um með skýrum hætti að umráðaréttur yfir óbyggða hluta lóðarinnar, þar sem hinn umdeilda úrgang er að finna, tilheyri eignarhluta 0104.

Líkt og áður segir leggur 1. mgr. 18. gr. reglugerðar um hollustuhætti þær skyldur á herðar eiganda eða umráðamanns húss eða mannvirkis að halda eigninni hreinni og snyrtilegri ásamt „tilheyrandi lóð“. Óumdeilt er að kærandi er bæði eigandi og umráðamaður eignarhluta 0101 og 0102 í því húsi er stendur á lóðinni Iðndal 23. Samkvæmt tilvitnaðri 1. mgr. 18. gr. ber kæranda því að halda „tilheyrandi lóð“ hreinni. Deilan í máli þessu snýst því um það hvort sá hluti lóðar Iðndals 23, þar sem úrgang er að finna, tilheyri eignarhluta 0101 og 0102 í skilningi framangreinds ákvæðis. Samkvæmt fyrrgreindri kvöð tilheyrir „allur umráða- og afnotaréttur byggingarréttar og lóðar“ eignarhluta 0104. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. fjöleignarhúsalaga skal við úrlausn þess hvort um séreign eða sameign fjöleignarhúss sé að ræða, auk þess sem geti í 4.-8. gr. laganna, líta til þess hvernig staðið hafi verið að byggingu hússins eða viðkomandi hluta þess og hvernig byggingar­kostnaði hafi verið skipt. Samkvæmt þinglýstri eignarskiptayfirlýsingu fylgir allur byggingar­­réttur 2. áfanga eignar­hluta 0104.

 

Samkvæmt framangreindum þinglýstum heimildum liggur fyrir að kærandi hefur ekki umráð þess lóðarhluta sem hér um ræðir eða lausafjármuna sem þar kunna að finnast. Verður því að telja að Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja hafi ekki verið rétt að gera kröfu til þess að hann hreinsaði lóðarhlutann.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 24. mars 2021 um að kæranda sé skylt að hreinsa 2. áfanga lóðarinnar Iðndals 23, Vogum, af úrgangi og rusli og koma í löglega förgun.

91/2021 Kiðjaberg

Með

Árið 2021, föstudaginn 22. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 91/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. apríl 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lóðar nr. 111 í Kiðjabergi þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. apríl 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að réttaráhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 21. júní 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 13. september 2021.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs uppsveita 9. september 2020 var fjallað um fyrirspurn eiganda frístundalóðar nr. 110 í Kiðjabergi varðandi stækkun byggingar­­reits lóðarinnar. Með bókun nefndarinnar var mælst til þess að sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti breytingar á deiliskipulagi lóðarinnar með fyrirvara um uppfærð gögn. Sveitarstjórn staðfesti bókun nefndarinnar á fundi sínum 16. s.m. og samþykkti að málið skyldi fá meðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um óverulega breytingu á deiliskipulagi og að grenndarkynningin skyldi ná til næstu nágranna og landeigenda. Í kjölfar grenndarkynningar kom í ljós misræmi milli deiliskipulags og þinglýstra heimilda lóðarhafa á svæðinu. Á fundi skipulagsnefndar 10. febrúar 2021 var lögð fram umsókn frá Kiðjabergsfélaginu um leiðréttingu á deiliskipulagi Kiðjabergs. Í umsókninni kom fram að þegar deiliskipulag Kiðjabergs hefði verið uppfært frá handteiknuðu í stafrænt form hefðu orðið þau mistök að ein lóðin hefði verið teiknuð 4 m of breið. Það hefði orðið til þess að hliðrun hefði orðið á teiknigrunni fleiri lóða. Var þess farið á leit að stærðir lóða nr. 108, 109, 110 og 111 yrðu leiðréttar í samræmi við þinglýst skjöl og núverandi kvaðir deiliskipulags. Samhliða yrði byggingarreitur á lóð nr. 110 stækkaður í takt við umsókn þess efnis. Mæltist skipulagsnefnd til þess við sveitarstjórn að hún samþykkti viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Á fundi sveitarstjórnar 17. s.m. var niðurstaða skipulagsnefndar samþykkt með bókun um að málið fengi málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga um óverulega breytingu á deiliskipulagi og yrði grenndarkynnt hlutað­eigandi lóðarhöfum. Var breytingar­tillaga deiliskipulagsins grenndarkynnt með athugasemda­fresti frá 23. febrúar til 25. mars s.á. og bárust athugasemdir frá kæranda 29. mars s.á. Málið var tekið fyrir í skipulagsnefnd 15. apríl s.á. þar sem tekin var afstaða til fram­kominna athuga­semda með bókun og var hún staðfest í sveitarstjórn 21. apríl s.á. Kæranda var kynnt niður­staða sveitarstjórnar með tölvupósti 4. maí 2021, auk þess sem samhliða var send tilkynning í bréf­pósti. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 21. maí 2021.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að mál þetta eigi sér nokkra forsögu, en deilur hafi verið um deiliskipulagsákvarðanir sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps er varði frístunda­svæði í landi Kiðjabergs. Mikið og freklega hafi verið þrengt að lóð kæranda í gegnum árin með breytingum á skipulagi og framkvæmdum og ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda og mótmæla. Kærandi hefði óskað eftir frekari gögnum í kjölfar grenndarkynningar í október 2020, s.s. gögn um hnitsetningu lóða nr. 108-112, uppdráttum þar sem lóð nr. 112 sæist, hnit­setningu húsa á lóðum nr. 109, 110 og 112 og mælistikum á lóðamörk. Aðeins hnitsetningar lóða nr. 109-111 hefðu borist við grenndarkynningu deiliskipulagsins. Skipulagsfulltrúi hafi upplýst á kynningartíma að skekkjur hefðu komið í ljós við nánari skoðun og verið væri að útbúa ný gögn. Gögnin hefðu ekki borist fyrir lok athugasemdarfrests kynningar og aðeins að hluta fyrir samþykkt deiliskipulags. Mælistikur sem sýndu lóðamörk greinilega hafi ekki verið settar út. Þá hafi byggingarreitur á lóð nr. 110 verið stækkaður um fimm metra í átt að lóðar­mörkum. Ekki séu fordæmi fyrir því að byggingarreitir séu færðir þetta nálægt öðrum lóðum og verið sé að ganga á réttindi kæranda enn einu sinni. Komið hafi verið til móts við óskir annarra lóðareigenda hvað eftir annað en brotið gegn grenndarrétti og friðhelgi eignarréttar kæranda.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Sveitarfélagið bendir á að málsrök kæranda taki fyrst og síðast til eldri mála sem ekki falli undir hina kærðu ákvörðun. Fyrir liggi hverjar þinglýstar eignarheimildir lóða á svæðinu séu og þar á meðal sé lóðarleigu­samningur á milli kæranda og Kiðjabergsfélagsins ehf. sem sé eigandi upprunalandsins. Af þeim gögnum megi ætla að málsettar stærðir lóða á svæðinu liggi fyrir og að breidd lóðar nr. 111 eigi að vera 50 m en ekki 54 m, eins og tilgreint hafi verið í deiliskipulagi. Ekkert liggi fyrir um að breytingar hafi verið gerðar á stærðarmörkum lóðanna sem skýri eða réttlæti þá stærð sem tilgreind hafi verið í deiliskipulaginu. Misræmið kunni að hafa áhrif á byggingar­heimildir aðliggjandi lóða þar sem byggingarreitir skerðist í samræmi við skilgreind lóða­mörk sam­kvæmt deiliskipulagi.

Bent sé á að deiliskipulagsákvarðanir geti ekki falið í sér ráðstöfun eignarréttinda að íslenskum rétti. Þannig geti deiliskipulag eitt og sér ekki markað stærð lóða sem séu í einkaeigu heldur verði deiliskipulagið að endurspegla þinglýstar eignarheimildir. Ef misræmi sé á milli til­greindrar stærðar lóðar í deiliskipulagi annars vegar og þinglýstra eignar­heimilda hins vegar gildi hinar þinglýstu eignarheimildir. Hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi fyrst og fremst snúist um að lagfæra þau mörk sem birst hafi í deiliskipulagi svæðisins í takt við þinglýstar eignarheimildir og lóðarleigusamning sem taki til lóðar nr. 111. Mælingar sem gerðar hafi verið hafi staðfest að skekkja væri á milli raunverulegra lóðamarka og marka samkvæmt deili­skipulagi. Ekki sé verið að skerða eignarréttindi kæranda með hinni kærðu ákvörðun. Úrskurðar­nefndin sé ekki til þess bær að lögum að skera úr um ágreining um bein eða óbein eignar­réttindi, svo sem um stærð lóða eða eignarlanda, en slíkan ágreining verði eftir atvikum að leiða til lykta fyrir dómstólum.

Breytingar á byggingarreit lóðar nr. 110 hafi engin grenndaráhrif gagnvart lóð nr. 111 enda séu byggingar­reitir lóðanna ekki samliggjandi auk þess sem hús kæranda standi í 115 m fjarlægð frá umræddum byggingarreit.

 Athugasemdir leyfishafa: Eigandi lóðar nr. 110 í Kiðjabergi vísar til þess að það sem kærandi hafi ekki borið fram athugasemdir við skipulagsnefnd og sveitarstjórn fyrr en að liðnum athugasemda­­fresti eigi að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni án frekari umfjöllunar.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi vísar til þess að sveitarfélagið haldi því ranglega fram að kæran snúi einungis að eldra skipulagi. Nýja skipulagið byggi á breytingum sem gerðar hafi verið með skipulagi árið 2015 og felli úr gildi breytingar á stærð lóðar kæranda. Enn sé óljóst hvaða breytingar sé verið að gera í Kiðjabergi og að sveitarfélagið hafi ekki sent gögn sem skýri málið. Það hafi ekki orðið við beiðnum um frekari gögn en svo virðist sem verið sé að færa lóð nr. 111 í norðaustur inn á aðra lóð og færa tvær aðlægar lóðir inn á lóð nr. 111. Stikur hafi ekki verið settar út til afmörkunar lóða fyrr en 28. september 2021 eftir ítrekaðar beiðnir. Þá hafi einungis verið settar út fjórar stikur við horn lóðar nr. 111 en engar til að afmarka aðlægar lóðir. Samkvæmt myndum af stikunum sé lóð nr. 111 komin langt inn á lóð nr. 112. Telur kærandi jafnvel að rangir hnitpunktar hafi verið settir út en skipulagsfulltrúi hafi hvorki svarað fyrirspurn um það né beiðni um frekari gögn. Myndir virðist ekki samræmast hnitunum á loftmynd. Lóð kæranda hafi allt frá upphafi mælst 50 m breið og sé hún með gróðurbeltum á langhliðum. Því sé mótmælt að sveitarfélaginu hafi ekki borist umsóknir um lóðar­­stækkun, en margar beiðnir og umræður um lóðarstækkun hafi verið til umfjöllunar af fulltrúum sveitarfélagsins. Lóðin hafi svo verið stækkuð í 7.561 m2 með deiliskipulagi árið 2015.

—–

Færð hafa verið fram ítarlegri rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs er lýtur m.a. að því að tilgreindri stærð leigulóðar kæranda sé breytt úr 7.561 m2 í 6.150 m2.

Árið 2015 var gildandi deiliskipulag Kiðjabergs tekið til endurskoðunar og tók breytt deili­skipulag svæðisins gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. september 2015. Með deili­skipulags­breytingunni var lóð nr. 111 í Kiðjabergi stækkuð úr 6.762 m2 í 7.561 m2 til að koma til móts við óskir kæranda þar um. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 29. september 2017, er varðaði hið endurskoðaða deiliskipulag frá 2015, sagði svo um stækkun lóðar kæranda: „Tilkall kæranda til stærri lóðar ræðst af samningi hans við land­eiganda, en hvorki beinum né óbeinum eignarréttindum verður ráðstafað með deili­skipulagi.“

Í hinni umdeildu deiliskipulagsbreytingu kemur fram að markalínur lóða nr. 108, 109, 110 og 111 hafi ekki verið réttar á teiknigrunni miðað við þinglýst skjöl. Hafi lóðirnar því verið mældar upp á staðnum og hnitsettar á uppdrætti til samræmis við skjölin. Með skipulags­breytingunni sé verið að leiðrétta framangreint misræmi. Um lóð nr. 111 segir enn fremur „Lóðin er á teikningu 7561 m2 en er skv. þinglýstum skjölum 6150 m2. Um 4 metra hliðrun er á teiknigrunni sem er leiðrétt, en lóðin var teiknuð á teiknigrunni 64 metrar á breidd en áttu að vera 60 metrar sbr. þinglýst gögn. Lóðin er leiðrétt í 6150 m2.“

Samkvæmt þinglýstum heimildum um umrædda lóð, þ.e. lóðaleigusamningi, dags. 19. júlí 1990, og stofnskjali lóðarinnar, dags. 21. júní 2005, er stærð hennar 6.150 m2 og liggja engar þinglýstar heimildir fyrir sem skýra stækkun lóðarinnar við deiliskipulagsbreytinguna árið 2015. Deiliskipulag getur hvorki myndað né fellt niður bein eða óbein eignarréttindi, svo sem lóðarréttindi, sem byggjast á einkaréttarlegum samningum, ýmist um kaup á eignarlandi eða um leigu lóðarréttinda. Þinglýstar heimildir um lóðarréttindi, hvort sem um eignarland eða leigulóð er að ræða, eru stofnskjöl slíkra réttinda. Stækkun lóðar nr. 111 samkvæmt deili­skipulagi getur því ekki skapað eignarréttindi umfram þinglýstar heimildir.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011 og hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. ­Er það því ekki á færi nefndarinnar að taka til úrlausnar álitamál er snúa að beinum eða óbeinum eignarréttindum og gildi þinglýstra heimilda í því sambandi.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var byggingarreitur á lóð nr. 110 stækkaður. Sú breyting verður ekki talin hafa áhrif á grenndarhagsmuni kæranda enda mun hús kæranda vera í um 115 m fjarlægð frá umræddum byggingarreit.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leitt geta til ógildingar hennar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafnings­hrepps frá 21. apríl 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs í nefndum hreppi.

72 og 100/2021 Lyngás

Með

Árið 2021, föstudaginn 22. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 2. apríl 2020 um veitingu framkvæmdaleyfis fyrir gatnagerð í götunni Eskiási, á málsmeðferð við breytingar á deiliskipulagi Ása og Grunda og á drætti á afgreiðslu erindis kærenda frá 10. janúar 2021.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. maí 2021, er barst nefndinni 1. júní s.á., kæra Lyngás 13 ehf., eigandi fasteignar á lóð með sama heiti, og Akralind ehf., eigandi Lyngáss 15, Garðabæ, framkvæmdir við gatnagerð og gerð veitumannvirkja í götunni Eskiási samkvæmt framkvæmda­leyfi sem sam­þykkt var í bæjarstjórn Garðabæjar 2. apríl 2020. Þá er kærð málsmeðferð sveitar­félagsins við breytingu á deiliskipulagi Ása og Grunda. Auk þess er kærður óhæfilegur dráttur á afgreiðslu erindis kærenda frá 10. janúar 2021.­ Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar umræddrar deiliskipulags­breytingar og hins kærða framkvæmdaleyfis, að fram­kvæmdir sam­kvæmt leyfinu verði stöðvaðar til bráða­birgða og jafnframt að sveitarfélaginu verði gert að svara erindi kærenda frá 10. janúar 2021.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júní 2021, er barst nefndinni 28. s.m., kæra sömu kærendur þá ákvörðun skipulagsnefndar Garðabæjar frá 27. maí s.á. að vísa erindi þeirra frá 10. janúar og ítrekun þess 6. apríl s.á. til úrvinnslu við mótun tillögu um rammahluta aðalskipulags fyrir Lyngássvæði og Hafnarfjarðar­veg. Verður það kærumál, sem er nr. 100/2021, sameinað máli þessu þar sem um samofin mál er að ræða sem sömu aðilar standa að, enda þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 5. júlí 2021.

Málavextir: Auglýsing vegna samþykktar bæjarstjórnar Garðabæjar á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ása og Grunda, að því er varðar Lyngás og Stórás, var birt í B-deild Stjórnartíðinda 14. október 2019. Þar kom m.a. fram að breytingin tæki til svæðis sem afmarkaðist af Lyngási til norðurs, Ásabraut til vesturs og suðurs og Stórási til austurs og að gert væri ráð fyrir nýrri götu sem myndi bera heitið Eskiás. Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 2. apríl 2020 var samþykkt að veita leyfi til framkvæmda fyrir gatnagerð ásamt lagningu veitumannvirkja í Eskiás og tiltekið að fram­kvæmdin væri í samræmi við fyrrgreint deiliskipulag svæðisins. Var leyfið síðan gefið út daginn eftir.

Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 18. febrúar 2021 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyt­ingu á deiliskipulagi Ása og Grunda skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 1. mgr. 41. gr. sömu laga. Fól breytingartillagan í sér að hæðir húsa við Eskiás 2, 4 og 6 yrðu lækkaðar um eina hæð og heimilað að fjölga íbúðum í öðrum húsum sem næmi fækkun íbúða vegna lækkunarinnar. Hámarkshæðir annarra húsa yrðu óbreyttar en byggingarreitir lóða nr. 8 og 10 breyttust þannig að þar yrðu lokaðir innigarðar. Heildarfjöldi íbúða yrði óbreyttur, eða 276 íbúðir. Tillagan var auglýst í Lögbirtinga­blað­inu og Fréttablaðinu 10. mars s.á. með athuga­semda­fresti til 21. apríl s.á. og bárust athuga­semdir frá kærendum.

Erindi kærenda frá 10. janúar 2021, sem fól í sér fyrirspurn um hugmyndir þeirra að breytingu á deiliskipulagi Ása og Grunda vegna lóðanna Lyngáss 13 og 15, var lagt fram á fundi skipulags­nefndar 14. janúar s.á. og vísað til skoðunar hjá tækni- og umhverfissviði bæjarins. Í erindinu kom m.a. fram vilji kærenda til að bæta við hæðum, minnka íbúðir og fjölga þeim í fyrir­huguðum húsum á lóðum þeirra. Kærendur ítrekuðu erindi sitt 6. apríl s.á. Var það tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 27. maí s.á. og þá vísað til úr­vinnslu við mótun tillögu að ramma­hluta aðal­skipulags fyrir Lyngássvæði og Hafnarfjarðar­veg.

Málsrök kærenda: Kærendur telja málsmeðferð sveitarfélagsins á erindi þeirra um deili­­skipulags­­breytingu brjóta í bága við ákvæði stjórn­­sýslu­­­­laga nr. 37/1993. Garðabær hafi hvorki svarað erindinu sem tekið hafi verið fyrir á skipulagsnefndarfundi 14. janúar 2021 né gætt að málshraðareglu stjórnsýslu­réttarins, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Ekki hafi verið gætt að rann­sóknar­reglunni, sbr. 10. gr. sömu laga, og sveitar­­félagið hafi ekki kynnt sér gildandi deili­skipu­lag nægilega vel. Ekki hafi verið gætt samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti, sbr. ákvæði 1. mgr. 11. gr. sömu laga. Eigendur aðliggjandi lóða við Lyngás, sitt hvoru megin við lóðir kærenda nr. 7, 9, 11 og 17, hafi ekki þurft að sæta viðlíka kvöðum og kærendur, en þær fólust í því að byggingar­reitir á samliggjandi lóðum þeirra væru tengdir saman, en áður hafi reitirnir verið aðskildir. Þá hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórn­sýslu­­laga. Kærendum hafi ekkert orðið ágengt hvað hagsmuni sína varði gagnvart sveitar­félaginu en fyrir liggi að ítrekað hafi verið sam­þykktar deili­skipulags­breytingar er stafi frá öðrum einka­aðila sem hafi þar hagsmuna að gæta.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið unnin af sveitar­félaginu í kjölfar þess að erindi kærenda frá 10. janúar 2021 hafi borist sveitarfélaginu. Sé henni ætlað að aðlaga eldra deili­skipulag yfirstandandi óleyfisframkvæmdum, sniðganga áðurnefnt erindi kærenda og setja kvaðir á nýtingu þeirra á lóðum sínum. Kærendur krefjast þess að framkvæmdum verði hagað í samræmi við gildandi deiliskipulag. Synja hefði átt um útgáfu framkvæmdaleyfis þar sem áformin samræmist ekki skipulagsáætlunum, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi sveitar­félaginu borið að hafa eftirlit með því að framkvæmdir væru í sam­ræmi við fram­kvæmda­leyfi, sbr. 1. mgr. 16. gr. skipulagslaga.

Ákvörðun skipulagsnefndar Garðabæjar um að vísa erindi kærenda frá 10. janúar 2021 til úr­vinnslu tengdri rammahluta aðalskipulags sé röng og rakalaus enda sé sveitarfélagið með því móti að hengja afgreiðslu erindis kærenda á óljósan hátt við framtíðaráform sveitarfélagsins varðandi önnur svæði en lóðir þeirra tilheyri en þær heyri undir deiliskipulagið frá 14. október 2019.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að endanleg ákvörðun bæjar­stjórnar um tillögu að breytingu á skipulagi Ása og Grunda, sem auglýst var til kynningar 10. mars 2021, liggi ekki fyrir og því geti ekki talist vera fyrir hendi kæranleg ákvörðun hvað varði þá deiliskipulagsbreytingu.

Á svæðinu standi yfir tvenns konar framkvæmdir. Undanfarið hafi verið unnið að fram­kvæmdum við gatnagerð í Eskiási á grundvelli framkvæmdaleyfis sem samþykkt hafi verið á fundi bæjar­stjórnar 2. apríl 2020. Þeim framkvæmdum sé að mestu lokið og kærufrestur vegna framkvæmdaleyfisins löngu liðinn. Einnig sé hafin bygging fjölbýlishúss að Eskiási 1. Byggingar­­áform hafi verið sam­þykkt á fundi bæjarráðs Garðabæjar 25. maí 2021 og byggingarleyfi gefið út af byggingar­fulltrúa 16. júní s.á. Ekki verði ráðið af kæru að verið sé að kæra það byggingarleyfi.

Lóðir kærenda séu á svæði sem samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 sé skilgreint sem þróunarsvæði. Í undirbúningi sé að hefja vinnu við mótun tillagna að rammahluta aðal­skipulags fyrir svæðið sem unnið verði m.a. með hliðsjón af legu Borgarlínu. Eðlilegt sé að tillögur um breytingar á deiliskipulagi er varði lóðir kærenda verði teknar til skoðunar samhliða því sem mótaðar verði tillögur fyrir allt svæðið við Lyngás og Skeiðarás.

—–

Kærendur hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu sem verður ekki rakið nánar hér, en úrskurðar­nefndin hefur haft það til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu deilt um lögmæti gatnaframkvæmda á umræddu svæði sem kennt er við götuna Eskiás og um breytingar á deiliskipulagi Ása og Grunda. Þá er kærður óhæfilegur dráttur á afgreiðslu erindis kærenda til Garðabæjar frá 10. janúar og ítrekun þess frá 6. apríl 2021 er fól í sér fyrirspurn um tillögu kærenda að breyt­ingu á deiliskipulagi vegna lóðanna Lyngáss 13 og 15.

­­­­Fyrir liggur að á þeim tíma er kæra vegna deiliskipulagsbreytingarinnar barst úrskurðar­nefndinni hinn 1. júní 2021 hafði bæjarstjórn Garðabæjar ekki samþykkt breytinguna, en fyrir liggur að hún var sam­þykkt í bæjarstjórn hinn 2. september s.á. Auglýsing um gildistöku skipulags­breytingarinnar­ hefur hins vegar ekki enn verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga, en kærufrestur ákvarðana sem sæta opinberri birtingu telst frá birtingu ákvörðunar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Hefur deiliskipulagsbreytingin því ekki öðlast gildi og liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórn­sýslu­­laga nr. 37/1993.

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gatnagerð ásamt gerð veitumannvirkja í götunni Eskiási hinn 2. apríl 2020. Samkvæmt verksamningi á milli verk­kaupa, þ. á m. Garðabæjar, og verktaka hófust framkvæmdir 14. maí s.á. og bar að ljúka þeim í september s.á. Hefur sveitarfélagið upplýst að framkvæmdum sé nú að mestu lokið og að í september 2020 hafi verkið verið vel á veg komið. Í erindi kærenda til Garðabæjar frá 10. janúar 2021 er vikið að umræddum framkvæmdum. Samkvæmt framansögðu mátti kærendum vera ljóst þegar í september 2020 að leyfi hefði verið veitt fyrir framkvæmdum á svæðinu og í síðasta lagi við ritun fyrrnefnds erindis kærenda. Þegar kæra vegna framkvæmdaleyfisins barst úrskurðarnefndinni hinn 1. júní 2021 var því liðinn eins mánaðar kærufrestur til nefndarinnar skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Fram kemur í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórn­sýslulaga. Brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjár­hags­leg­um toga. Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnis­meðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórn­sýslu­lögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undan­tekningartilvikum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki verður talið að hin kærða ákvörðun raski veigamiklum hagsmunum kærenda, verður krafa um ógildingu framkvæmda­leyfisins ekki tekin til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undan­tekningarákvæða 28. gr. stjórnsýslu­laga þar sem ekki þykja liggja fyrir þær ástæður sem geri það afsakanlegt að kæra vegna fram­kvæmda­leyfisins barst svo seint sem raun ber vitni.

­­­­Í erindi kærenda til skipulagssviðs Garðabæjar frá 10. janúar 2021 fólst fyrirspurn varðandi tillögu þeirra að breytingu á deili­skipu­lagi vegna lóða þeirra Lyngáss 13 og 15 ­og var þar m.a. nánar tiltekið að „nánari gögn varðandi breytingu á deiliskipulagi, verði unnin og lögð inn til sveitar­félagsins í formlegt ferli, þegar niðurstaða á vettvangi sveitarfélagsins er varði fyrirspurn þessa liggi fyrir.“ Kærendur halda því fram að þrátt fyrir að erindið hafi verið tekið fyrir á fundi skipulags­­nefndar í janúar s.á. hafi ekki borist svar frá sveitarfélaginu. Þá hafi erindið verið ítrekað 6. apríl s.á. og ekki hafi heldur borist svar vegna þess. Samkvæmt gögnum málsins hefur erindi kærenda frá 10. janúar 2021, sem ítrekað var 6. apríl s.á., verið svarað af sveitarfélaginu með bréfum, dags. 15. janúar og 31. maí 2021. Í fyrra svari bæjarins kom fram að fyrir­spurninni væri vísað til skoðunar hjá tækni- og umhverfissviði. Í því síðara kom fram að erindi lóðarhafa væri vísað til úrvinnslu við mótun tillögu að rammahluta aðalskipulags fyrir Lyngás­svæði og Hafnarfjarðarveg, sem væri í undirbúningi, og myndi kalla á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ása og Grunda. Var því brugðist við fyrirspurn kærenda með tilteknum hætti en þau viðbrögð geta eðli máls samkvæmt ekki verið undanfari eða falið í sér stjórn­valdsákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og þ.a.l. er ekki unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu fyrirspurnarinnar til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórn­sýslulaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir í máli þessu ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi, sem sætt getur lög­mætis­­athugun úrskurðar­­nefndarinnar. Verður kröfum kærenda af þeim sökum vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.­

154/2021 Bríetartún

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 21. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 154/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. september 2021 um að samþykkja leyfi til að fjarlægja útigeymslu við austurhlið 1. hæðar og til að innrétta fjögurra deilda leikskóla fyrir 60 börn í rými 0105, 0116 og 0117 á 1. hæð í Bríetartúni 9-11 á lóð nr. 8-16 við Borgartún.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

 úrskurður

um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. október 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur íbúða 0206, 0210, 0213, 2012, 0307 að Bríetartúni 11 og eigendur íbúðar 05 0803 að Bríetartúni 9, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja leyfi til að fjarlægja útigeymslu við austurhlið 1. hæðar og til að innrétta fjögurra deilda leikskóla fyrir 60 börn í rými 0105, 0116 og 0117 á 1. hæð í Bríetartúni 9-11 á lóð nr. 8-16 við Borgartún. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. október 2021.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. september 2021 var samþykkt umsókn um leyfi til að fjarlægja útigeymslu við austurhlið 1. hæðar og til að innrétta fjögurra deilda leikskóla fyrir 60 börn í rými 0105, 0116 og 0117 á 1. hæð í Bríetartúni 9-11 á lóð nr. 8-16 við Borgartún. Á fundi Borgarráðs 30. september 2021 var afgreiðsla byggingarfulltrúa staðfest með samþykkt á Bhluta fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 29. september 2021. Byggingarleyfi var gefið út 29. september 2021.

Kærendur krefjast þess að umrætt byggingarleyfi verði fellt úr gildi auk þess sem framkvæmdir verði stöðvaðar þar til efnisleg niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir í málinu. Með byggingarleyfinu hafi verið gefið leyfi til að girða af hluta af útisvæði lóðarinnar Borgartún 8-16 og útbúa þar útileiksvæði fyrir leikskóla. Lóðin sé sameign eigenda Borgartúns 8-16,  Þórunnartúns 1, Bríetartúns 9-11 og Katrínartúns 2, 4 og 6. Þar sem ekki hafi legið fyrir samþykki allra meðeiganda lóðarinnar, líkt og lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús  kveði á um, sé ákvörðun byggingarfulltrúa ekki í samræmi ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki. Því beri að ógilda hana.

Borgaryfirvöld vísa til þess að um sé að ræða tímabundna leigu á hluta af lóð sem kalli á breytingu á nýtingu lóðarinnar að hluta. Þar sem um leigu á óverulegum hluta sameignar hafi verið að ræða hafi samþykki einfalds meirihluta félagsmanna verið fullnægjandi til útgáfu byggingarleyfis. Þá liggi fyrir að heimilt sé að reka atvinnustarfsemi 1. hæð hússins og slík starfsemi geti alltaf kallað á óverulegar breytingar á lóð. Á grundvelli meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, telji Reykjavíkurborg að hafna beri kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Leyfishafi bendir á að í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaáhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt sé kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti sé kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Heimildildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar séu þannig undantekning frá meginreglu sem skýra beri þröngt og að ríkar ástæður eða veigamikil rök verði að vera fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda. Í kærunni séu engin rök færð fyrir kröfu um stöðvun framkvæmda. Um afturkræfa aðgerð sé að ræða enda liggi fyrir í málinu yfirlýsing, dags. 10. mars 2021, um að leyfishafa sé skylt að koma lóðinni í upprunalegt horf við lok leigutíma. Framkvæmdir á lóð séu ekki hafnar og fari nú eingögngu fram inni í rými 0105.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og séu heimildar­ákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar að að fjarlægja útigeymslu við austurhlið 1. hæðar og til að innrétta fjögurra deilda leikskóla fyrir 60 börn í rými 0105, 0116 og 0117 á 1. hæð í Bríetartúni 9-11 á lóð nr. 8-16 við Borgartún. Fyrirliggjandi gögn málsins bera með að framkvæmdir á lóð Borgartúns 8-16 eru ekki hafnar auk þess sem þær framkvæmdir sem heimilaðar hafa verið á lóðinni eru afturkræfar, en stöðvunarkrafa kærenda lýtur að þeim framkvæmdum. Í ljósi framangreinds verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Rétt er þó að taka fram að leyfishafi ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að hefja framkvæmdir áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.

152/2021 Kotra í landi Syðri-Varðgjár

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 21. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 152/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 3. júní 2021 um að samþykkja deiliskipulag fyrir þriðja áfanga íbúðarsvæðis landi Kotru.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. október 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Neringa ehf., þá ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 3. júní 2021 að samþykkja deiliskipulag fyrir þriðja áfanga íbúðarsvæðis í landi Kotru. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er þar að auki krafist að framkvæmdir við gatnagerð verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og að réttaráhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar verði frestað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Eyjafjarðasveit 8. október 2021.

Málsatvik og rök: Á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar 14. janúar 2021 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir þriðja áfanga íbúðarsvæðisins í landi Kotru í Eyjafjarðarsveit. Skipulagstillagan tók til sex nýrra íbúðarlóða, auk þess sem fyrri áfangar íbúðabyggðar í Kotru voru felldir undir hið nyja skipulag. Tillagan var auglýst 4. febrúar 2021 í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fresti til að skila athugasemdum til 18. mars s.á. Á fundi skipulagsnefndar 31. maí 2021 var fjallað um innsendar athugasemdir vegna deiliskipulagstillögunnar og á fundi sveitastjórnar 3. júní s.á. var tillaga að deiliskipulagi fyrir Kotru samþykkt. Öðlaðist skipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 6. september 2021.

Kærandi krefst þess að framkvæmdir við gatnagerð verði stöðvaðar og að réttaráhrifum deiliskipulagsins skuli frestað þar til leyst hefur verið efnislega úr hinni kærðu ákvörðun. Staðsetning vegar samkvæmt umræddu deiliskipulagi muni skerða notagildi fasteigna hans og valda hávaða og óþægindum. Vegtenging sé ekki í samræmi við skilyrði í greinargerð deiliskipulagsins þar sem fram komi að allur frágangur lóða eigi að vera í samræmi við ákvæði gildandi byggingarreglugerðar og að landhæð á lóðamörkum skuli vera skv. náttúrulegri landhæð. Jafnframt komi fram að sú landhæð skuli ná að lágmarki 1m inn á hvora lóð samliggjandi lóða nema um annað sé samið. Þá hafi deiliskipulagið ekki verið kynnt kæranda líkt og kveðið sé um í 3. mgr. gr. 5.2.1. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa verði vísað frá en til vara að öllum kröfum kæranda í málinu verði hafnað. Ekki hafi verið gefið út leyfi til gatnagerðar eða annarra framkvæmda á grundvelli hins kærða deiliskipulags. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi haft samband við landeigenda vegna upplýsinga frá kæranda um framkvæmdir á svæðinu og lagt fyrir hann að aðhafast ekki frekar. Þar sem ekki hafi verið tekin ákvörðun um framkvæmd eða gefið út byggingaleyfi hafi kærandi ekki lögvarða hagsuni af kæru sinni gagnvart sveitarfélaginu og beri því að vísa málinu frá. Verði kærunni ekki vísað frá þá verði að hafna kærunni þar sem engin stjórnvaldsákvörðun sé í gildi sem úrskurðarnefndin geti tekið afstöðu til.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. gr. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Komi til þess að byggingaráform eða leyfi til framkvæmda verði samþykkt á grundvelli hinnar kærðu skipulagsákvörðunar getur kærandi hins vegar komið að kröfu um stöðvun framkvæmda, svo sem áður er rakið. Í ljósi atvika málsins er og rétt að benda á að telji kærandi framkvæmdir eiga sér stað án tilskilinna getur hann eftir avikum beint því til byggingarfulltrúa að beita þvingunarúrræðum skv. mannvirkjalögum.

Úrskurðarorð:

 Kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda og frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar er hafnað.

86/2021 Ísafjarðardjúp fiskeldi

Með

Árið 2021, mánudaginn 18. október, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 86/2021, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. maí 2021 um að áform Háafells ehf. um eldi á regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi samhliða eða í staðinn fyrir laxeldi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Náttúruverndarsamtök Íslands og Íslenski náttúruverndarsjóðurinn (IWF), þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. maí 2021 að áform Háafells ehf. um eldi á regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi samhliða eða í staðinn fyrir laxeldi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 7. júlí 2021.

Málavextir: Hinn 12. febrúar 2012 sendi móðurfélag framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar matsskýrslu um framleiðslu á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi og óskaði eftir áliti hennar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Stofnunin gaf út umbeðið álit 1. apríl 2015 og komst að þeirri niðurstöðu að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerða um mat á umhverfisáhrifum. Hinn 4. maí 2017 sendi framkvæmdaraðili til Skipulagsstofnunar matsskýrslu um framleiðslu á 6.800 tonnum af laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi og óskaði eftir áliti hennar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í skýrslunni var því lýst að til stæði að skipta yfir í laxeldi úr eldi á regnbogasilungi. Heildarframleiðsla félagsins yrði 7.000 tonn, þ.e. 6.800 tonn af laxi og 200 tonn af þorski. Umbeðið álit Skipulagsstofnunar lá fyrir 22. desember 2020 og taldi stofnunin að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt.

Hinn 15. janúar 2021 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá framkvæmdaraðila um áform um eldi á regnbogasilungi samhliða eða í staðinn fyrir laxeldi þar sem hámarkslífmassi væri allt að 6.800 tonn í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi, sbr. 6. gr. áðurgildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Kom fram í tilkynningunni að heildarlífmassi, eldisstaðsetningar, eldisaðferðir og eldisskilyrði yrði að öðru leyti óbreytt frá þeim laxeldisáformum sem þegar hefðu hlotið málsmeðferð á grundvelli laga nr. 106/2000. Skipulagsstofnun leitaði umsagna Ísafjarðarbæjar, Súðavíkurhrepps, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar. Taldi enginn umsagnaraðili að breytingin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 3. maí 2021. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar, sem lögð séu til grundvallar mati á umhverfisáhrifum hinnar tilkynningarskyldu framkvæmdar og hinni kærðu ákvörðun, hafi ekki sætt málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Hvorki áhættumat erfðablöndunar né burðarþolsmat sé því lögmætur grundvöllur mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar eða hinnar kærðu ákvörðunar. Með vísan til þess sé þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er vísað til þess að jafnvel þó talið verði að áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat falli undir gildissvið laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana sé ekki um verulegan annmarka að ræða á ákvörðuninni. Sé þá horft til eðlis og hlutverks þessara mata sem mælt sé fyrir um í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, sbr. 3. gr., 6. gr. a og 6. gr. b. Í því efni verði einnig að hafa í huga að samkvæmt 6. gr. a skuli rekstrarleyfi samrýmast áhættumati og samkvæmt 6. gr. b skuli lífmassi eldisdýra hvers slíks leyfis að hámarki samrýmast burðarþolsmati. Samkvæmt þessu séu umrædd möt grundvöllur rekstrarleyfis. Hin kærða ákvörðun lúti ekki að leyfisveitingu.

———-

Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um málatilbúnað kærenda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að eldi á regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi samhliða eða í staðinn fyrir laxeldi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum

Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt flokki B, sbr. lið 13.02 og 1.11 í 1. viðauka þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B skulu háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Þegar framkvæmdaraðili hefur tilkynnt Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. nefndar 6. gr., tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar. Í p-lið 3. gr. laganna eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“ Niðurstöðu sína um hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skal Skipulagsstofnun skv. 3. mgr. 6. gr. laganna, svo sem henni var breytt með lögum nr. 96/2019, rökstyðja með hliðsjón af þeim viðmiðum sem talin eru upp í 2. viðauka laga nr. 106/2000, en þau viðmið eru í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og gerð og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. í 2. viðauka, en undir hverjum tölulið er svo talinn upp fjöldi annarra liða.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Ísafjarðarbæjar, Súðavíkurhrepps, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar. Taldi enginn umsagnaraðila að breytingin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Matvælastofnun telur í sinni umsögn ekki ástæðu til þess vegna tegunda­breytingarinnar. Fiskistofa telur í sinni umsögn að mögulega umhverfisáhrif af sjókvíaeldinu, og áhrif á villta laxfiskastofna, verði þau sömu eða minni ef regnbogasilungur verði alinn í staðinn fyrir lax. Fram kemur í umsögn Hafrannsóknastofnunar að eldi á regnbogasilungi feli ekki í sér hættu á erfðablöndun við villta íslenska laxfiska og geri stofnunin ekki athugasemd við erindið. Þá telur Umhverfisstofnun að ekki sé líklegt að framkvæmdin, eins og henni sé lýst í tilkynningu framkvæmdaraðila, muni hafa aukin umhverfisáhrif umfram það sem lýst sé í fyrra mati á umhverfisáhrifum. Að lokum er í umsögn Súðavíkurhrepps bent á að fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar fyrir regnbogasilung annars vegar og lax hins vegar. Lagst sé gegn því að kvíar séu staðsettar innan hafnarmarka og siglingaleiða inn Álftafjörð því fyrir liggi uppbyggingaráform á Langeyri með nýrri höfn, landfyllingu og verksmiðju. Í svari framkvæmdaraðila við umsögn sveitarfélagsins segir að tilkynningin lúti einungis að því að hægt verði að velja á milli hvort notast sé við lax eða regnbogasilung. Það svæði sem beri heitið „Álftafjörður“ í matsskýrslu hafi ekki truflandi áhrif á skipaumferð um Álftafjörð vegna nýrrar verksmiðju við Langeyri.

Hin kærða ákvörðun lýsir fyrirhugaðri framkvæmd, fjallar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, eins og þeim var lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og umsögnum umsagnaraðila, og víkur að þeim leyfum sem framkvæmdin er háð. Í niðurstöðukafla sínum vísar Skipulagsstofnun til þess að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skuli taka mið af eðli hennar, m.a. stærð og umfangi framkvæmdar, úrgangsmyndun og mengun, sbr. 1. tl. 2. viðauka þágildandi laga nr. 106/2000. Einnig skuli taka mið af staðsetningu framkvæmdar, m.t.t. hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, s.s. með tilliti til þeirrar landnotkunar sem fyrir sé og álagsþols strandsvæða. Þá beri að skoða áhrif framkvæmdar í ljósi eiginleika hugsanlegra áhrifa, einkum með tilliti til svæðis sem ætla megi að verði fyrir áhrifum, stærðar og fjölbreytileika áhrifa og tímalengdar. Í niðurstöðukafla stofnunarinnar er vísað til þess að fyrir liggi álit hennar um mat á umhverfisáhrifum af 6.800 tonna eldi regnbogasilungs í Ísafjarðardjúpi, sem og álit um mat á umhverfisáhrifum af 6.800 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Í fyrirliggjandi ákvörðun sé eingöngu til umfjöllunar áform um að ala regnbogasilung samhliða eða í staðinn fyrir ófrjóan eða frjóan lax. Engar breytingar verði gerðar á heildarlífmassa, eldisstaðsetningum, eldisaðferðum eða eldisskilyrðum frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í mati á umhverfiáhrifum í fyrrnefndu 6.800 tonna laxeldi framkvæmdaraðila. Að mati stofnunarinnar muni sá möguleiki að ala regnbogasilung samhliða eða í staðinn fyrir frjóan og ófrjóan lax hafa í för með sér sömu eða sambærileg áhrif á flesta umhverfisþætti, en minni áhrif á villta laxastofna samanborið við eldi á 6.800 tonnum af laxi. Þá telji stofnunin að áhrif fyrirhugaðrar breytingar á vistkerfi verði óveruleg. Var niðurstaða Skipulagsstofnunar sú að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Að áliti úrskurðarnefndarinnar er ákvörðun Skipulagsstofnunar um að umrædd breyting skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum studd haldbærum rökum. Verður og ekki annað séð en að stofnunin hafi að rannsökuðu máli lagt viðhlítandi og sjálfsætt mat á þá þætti sem máli skipti um það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni.

Málsrök kærenda í máli þessu lúta einvörðungu að því að áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar, sem lögð séu til grundvallar mati á umhverfisáhrifum hinnar tilkynningarskyldu framkvæmdar og hinni kærðu ákvörðun, hafi ekki sætt málsmeðferð samkvæmt þágildandi lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, sbr. nú lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Telja kærendur áhættumatið og burðarþolsmat því hvorki vera lögmætan grundvöll mats á umhverfisáhrifum framkvæmdar né hinnar kærðu ákvörðunar. Samkvæmt b-lið 2. gr. laga nr. 111/2021 gilda þau um áætlanir og breytingar á þeim sem marka stefnu fyrir leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í 1. viðauka laganna og eru undirbúnar og/eða afgreiddar af stjórnvöldum og unnar samkvæmt lögum eða ákvörðun ráðherra, sbr. og áðurgildandi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2006. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar er undanfari leyfis til framkvæmda sem fellur undir lög nr. 111/2021, s.s. þegar um er að ræða leyfi fyrir fiskeldi, en ákvörðunin sjálf felur ekki í sér slíkt leyfi. Skortur á umhverfismati áætlana, óháð því hvort það hefði átt að fara fram eða ekki, raskar því ekki gildi hinnar kærðu matsskylduákvörðunar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 3. maí 2021 um að áform Háafells ehf. um eldi á regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi samhliða eða í staðinn fyrir laxeldi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

81/2021 Sjókvíaeldi í Berufirði

Með

Árið 2021, mánudaginn 18. október, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2021, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 28. apríl 2021 um að breyting á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun sjókvíaeldis í Berufirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Náttúruverndarsamtök Íslands og Íslenski náttúruverndarsjóðurinn þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 28. apríl 2021 að breyting á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun sjókvíaeldis í Berufirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 5. júlí 2021.

Málavextir: Hinn 19. mars 2018 lagði Fiskeldi Austfjarða hf. fram matsskýrslu vegna eldis á allt að 20.800 tonnum af laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Í matsskýrslunni var gert ráð fyrir að ala 9.800 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Berufirði. Kom fram í skýrslunni að útsetningaráætlun myndi taka mið af nýju áhættumati Hafrannsóknastofnunar og að samkvæmt matinu myndu 6.000 þeirra tonna sem áætlað væri að ala í Berufirði verða frjór lax og 3.800 tonn geldlax. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 14. júní s.á. Umhverfisstofnun veitti framkvæmdaraðila starfsleyfi 19. mars 2019 fyrir 9.800 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Berufirði, þar af að hámarki 6.000 tonna ársframleiðslu á frjóum laxi, og 21. s.m. veitti Matvælastofnun framkvæmdaraðila rekstrarleyfi vegna sama eldis.

Hinn 8. janúar 2021 barst Skipulagsstofnun tilkynning um fyrirhugaða breytingu á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Berufirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, sbr. 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í greinargerð með tilkynningunni kom fram að Berufjörður væri skilgreindur sem tvö sjókvíaeldissvæði með fimm eldissvæðum, þ.e. Glímeyri, Svarthamrar, Svarthamarsvík, Hamraborg I og Hamraborg II. Í breytingunni fælist að eldissvæðin yrðu fjögur. Eldissvæðið Hamraborg II yrði lagt af og flutt innar í fjörðinn að Gautavík. Eldissvæði, sem næði yfir þrjú samtengd svæði Glímeyri, Svarthamrar og Svarthamarsvík, yrði stækkað og skipt í tvö aðskilin svæði. Einnig yrði gerð breyting á útsetningaráætlun og seiði sett út á hverju ári þannig að almennt yrðu tvö svæði í notkun og tvö svæði í hvíld á hverjum tíma. Skipulagsstofnun leitaði umsagna Múlaþings, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Vegagerðarinnar og Umhverfisstofnunar. Taldi Náttúrufræðistofnun Íslands að meta skyldi umhverfisáhrif vegna breytingarinnar í ljósi þess að um væri að ræða starfsemi á alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði og þar sem umfjöllun um áhrif á fugla hefði verið verulega áfátt í upphaflegri matsskýrslu. Aðrir umsagnaraðilar töldu ekki þörf á að fram færi mat á umhverfisáhrifum vegna breytingarinnar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 28. apríl 2021. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að umhverfisverndarsamtök þau sem að kærunni standi fullnægi skilyrðum 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og uppfylli af þeim sökum það skilyrði að eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn fyrirliggjandi kæru, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr., enda samrýmist kæran tilgangi starfsemi þeirra.

Hin kærða ákvörðun lúti að breytingu á framkvæmd sem falli í flokk B í 1. viðauka þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. gr. 11.1 og 13.2 í viðaukanum. Í samræmi við það og 1. mgr. 6. gr. laganna skuli breytingin háð mati á umhverfisáhrifum, ef hún geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar hennar og sé jafnframt tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar, sbr. 1. málsl. 2. mgr. sömu greinar. Skipulagsstofnun beri skv. 3. mgr. 6. gr. laganna að byggja ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar á þeim upplýsingum sem framkvæmdaraðili hafi lagt fram, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna og 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, og öðrum gögnum um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eftir því sem við eigi, þ.m.t. upplýsingum sem fram komi í þeim umsögnum sem stofnunin hafi aflað í samræmi við fyrirmæli 12. gr. reglugerðarinnar. Við ákvörðun sína á þessum grundvelli beri Skipulagsstofnun að fara eftir þeim viðmiðum sem fram komi í 2. viðauka laganna og rökstyðja niðurstöðuna með hliðsjón af þeim. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og við undirbúning slíkrar ákvörðunar beri stofnuninni m.a. að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá beri stofnuninni að haga efni rökstuðnings í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar þannig að uppfylltar séu þær lágmarkskröfur um efni rökstuðnings sem lögfestar séu í 22. gr. stjórnsýslulaga.

Á grundvelli fullnægjandi upplýsinga um breytinguna og líklegum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í heild að gerðum þeim breytingum, þ.m.t. fyrirliggjandi niðurstöðu um umhverfisáhrif hennar, upplýsinga um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir og umsagna leyfisveitenda og annarra umsagnaraðila, sem hafi fullnægt kröfum reglugerðar nr. 660/2015, hafi Skipulagsstofnun borið að taka rökstudda afstöðu til þess hvort breytt framkvæmd gæti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs síns, eðlis eða staðsetningar að virtum þeim viðmiðum sem tilgreind séu í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og færa fullnægjandi rök fyrir þeirri afstöðu með vísan til þessara viðmiða. Hin kærða ákvörðun uppfylli ekki þær kröfur.

Tilkynning framkvæmdaraðila geri ráð fyrir þrenns konar breytingum á hlutaðeigandi framkvæmd, þ.e. breytingu á staðsetningu eldissvæða í firðinum, breytingu á útsetningaráætlun eldisins og að ala einungis frjóan lax í firðinum. Í áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrsluna 14. júní 2018 segi í kafla 3.4.4. að framkvæmdaraðili áformi eldi á 6.000 tonnum af frjóum laxi í Berufirði. Samkvæmt framanröktu hafi fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar verið reist á þeirri forsendu að eldi framkvæmdaraðila á frjóum laxi í Berufirði yrði ekki umfram 6.000 tonn á ári. Eldi á allt að 9.800 tonnum af frjóum laxi, eins og gert sé ráð fyrir í tilkynningu framkvæmdaraðila, feli því í sér mjög veruleg frávik frá gildandi mati á umhverfisáhrifum og rúmist ekki innan þess. Hin kærða ákvörðun sé haldin þeim verulega annmarka að þar sé ekki fjallað um einn þriggja meginþátta sem breytingin lúti að, þ.e. aukningu á eldi á frjóum laxi úr 6.000 tonnum í 9.800 tonn. Þegar af þeirri ástæðu sé óhjákvæmilegt að fella hana úr gildi.

Framangreindan annmarka megi rekja til þess að í tilkynningu framkvæmdaraðila sé nánast ekkert fjallað um þá verulegu breytingu á framkvæmdinni sem þar sé gert ráð fyrir og felist í því að skipta yfir í eldi á frjóum laxi og hætta að ala ófrjóan lax. Þótt vikið sé að þessum áformum í tilkynningunni hafi hún hvergi nærri að geyma þær upplýsingar sem áskildar séu skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Tilkynningin sé að þessu leyti alls ófullnægjandi og ekki viðhlítandi grundvöllur fyrir hina kærðu ákvörðun. Lúti tilkynning framkvæmdaraðila ekki að fyrirhugaðri breytingu á umfangi á eldi frjós lax í Berufirði heldur einvörðungu að breyttri staðsetningu eldissvæða og breyttu fyrirkomulagi við útsetningu seiða, án tillits til frjósemi þeirra, skorti upplýsingar um það í hvaða farveg framkvæmdaraðili hafi lagt eða hyggist leggja þessa verulegu breytingu á framkvæmd sinni, sem í tilkynningunni sé sögð forsenda annarra breytinga sem þar sé lýst. Um sé að ræða tilkynningarskylda breytingu sem leggja þurfi fyrir Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu. Sérstök skilyrði séu sett um hámark ársframleiðslu á frjóum laxi í leyfum framkvæmdaraðila og áður en unnt sé að breyta framkvæmdinni þurfi sú breyting að koma til umfjöllunar Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. laga nr. 106/2000. Þá hafi tilkynning framkvæmdaraðila ekki að geyma þær upplýsingar sem áskildar séu skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um þá þætti hennar sem lúti að breyttri staðsetningu eldissvæða og breyttu fyrirkomulagi útsetningar og hvíldartíma sem af því leiði.

Skipulagsstofnun sé skylt við meðferð mála á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000 að afla umsagna, m.a. leyfisveitenda, í samræmi við fyrirmæli 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Uppfylli umsagnirnar ekki þær kröfur sem þar komi fram beri stofnuninni í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins um skyldubundna álitsumleitan að leggja fyrir álitsgjafafa að bæta þar úr með nýrri umsögn. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar skuli í umsögn koma m.a. fram hvort tilkynning geri nægilega grein fyrir framkvæmd, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun og hvort og þá á hvaða forsendum umsagnaraðili telji að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum út frá þeim atriðum sem falli undir starfssvið umsagnaraðila og að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka. Ef frá sé talin umsögn Umhverfisstofnunar sé ekki vikið í umsögnum umsagnaraðila að stóraukinni framleiðslu framkvæmdaraðila á frjóum laxi. Þessar umsagnir séu að þessu leyti haldnar mjög verulegum annmarka. Þá eigi umsagnir í málinu það sammerkt að þær uppfylli ekki áskilnað 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um að þar sé tekin rökstudd afstaða til þess hvort tilkynning framkvæmdaraðila sé fullnægjandi og þá hvort hinar tilkynntu breytingar skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Að því marki sem tekin sé afstaða til þessara atriða í umsögnunum fylgi henni takmarkaður, ef nokkur, rökstuðningur umsagnaraðila.

Þótt enga umfjöllun sé um það að finna í hinni kærðu ákvörðun verði ráðið af tilkynningu framkvæmdaraðila að hún sé m.a. sett fram með vísan til mats Hafrannsóknastofnunar 11. maí 2020 á áhættu erfðablöndunar á grundvelli 6. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi sem staðfest hafi verið af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 3. júní, sbr. auglýsingu nr. 562/2020 í B-deild Stjórnartíðinda. Eftir þær breytingar sem gerðar hafi verið á lögum nr. 71/2008 með breytingalögum nr. 101/2019 sé ótvírætt að áhættumat erfðablöndunar skv. 6. gr. a í lögunum og burðarþolsmat skv. 6. gr. b feli í sér framkvæmdaáætlanir í skilningi laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, sem háðar séu umhverfismati samkvæmt fyrirmælum þeirra laga. Þar sem ekki liggi fyrir að framangreint áhættumat Hafrannsóknastofnunar hafi sætt meðferð samkvæmt fyrirmælum laga nr. 105/2006 geti niðurstöður þess ekki orðið grundvöllur fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis í skilningi laga nr. 106/2000 án frekara mats á umhverfisáhrifum hlutaðeigandi áætlunar og framkvæmdar. Þar við bætist að mat samkvæmt lögum nr. 106/2000 geti ekki komið í stað mats samkvæmt lögum nr. 105/2006, þótt í vissum tilvikum sé heimilt að sameina skýrslugerð á grundvelli þessara laga.

Að því er varði rannsókn Skipulagsstofnunar á því hvort hinar tilkynntu breytingar á staðsetningu eldissvæða og útsetningu seiða geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif skuli tekið fram að forsendur varðandi staðsetningu eldis og kynslóðaskiptingu, þ. á m. hvíldartíma fjarðarins í heild hans í 9-12 mánuði milli kynslóða, hafi verið lagðar til grundvallar mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, án þess að gerð hafi verið grein fyrir öðrum valkostum í þessu efni og þeir bornir saman. Þær upplýsingar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, sem fyrir liggi í mati á umhverfisáhrifum, miði því við aðrar forsendur en þær sem lagðar hafi verið til grundvallar hinum tilkynntu breytingum. Staðsetning eldissvæða og fyrirkomulag varðandi útsetningu seiða og hvíld eldissvæða milli kynslóða séu atriði varðandi framkvæmd þauleldis á fiski í sjókvíum sem hafi verulega þýðingu þegar umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu metin. Af því leiði að unnt sé að draga takmarkaðar ályktanir um umhverfisáhrif þess að víkja frá forsendum mats á umhverfisáhrifum um þessi atriði. Fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar komi því að takmörkuðu gagni við rannsókn á því hvort hinar tilkynntu breytingar á henni kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Lúti það ekki að breytingunum sem slíkum heldur að umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í heild sinni að teknu tilliti til tilkynntra breytinga. Í hinni kærðu ákvörðun felist því sú afstaða Skipulagsstofnunar að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér að gerðum þessum breytingum, önnur en eða umfram þau umhverfisáhrif sem þegar hafi verið lagt mat á og tekin afstaða til við útgáfu fyrri framkvæmdarleyfa. Ekki sé fullnægjandi grundvöllur fyrir þessari afstöðu stofnunarinnar með þeim gögnum sem hin kærða ákvörðun sé reist á, en þau gögn hafi aðeins að geyma mjög takmarkaðar upplýsingar um möguleg áhrif breyttrar staðsetningar eldissvæða og breytts fyrirkomulags útsetningar.

Breytingin feli í sér að eldissvæði verði nær hvert öðru. Því til viðbótar sé verið að leggja til breytta útsetningaráætlun. Um áhrif framkvæmdarinnar með þessum breytingum á meðal annars lífríki í firðinum liggi ekki fyrir nægilegar upplýsingar í gögnum málsins. Af gögnunum sé því ekki unnt að álykta að hin breytta framkvæmd geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif önnur en eða umfram þau sem þegar hafi verið lagt mat á. Til viðbótar skorti á að Skipulagsstofnun hafi aflað gagna um ýmis atriði sem umsagnaraðilar bendi á í umsögnum sínum.

Ekki liggi fyrir í gögnum málsins samandregnar fullnægjandi upplýsingar um gerð og eiginleika mögulegra umhverfisáhrifa breyttrar framkvæmdar. Skipulagsstofnun hafi því ekki getað fullyrt, svo forsvaranlegt væri, á grundvelli þessara gagna að hin breytta framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif önnur en eða umfram þau sem stofnunin hafi áður lagt mat á og tekið afstöðu til í áliti sínu um matsskýrslu framkvæmdaraðila frá 2018. Samkvæmt framansögðu sé hin kærða ákvörðun ekki reist á fullnægjandi upplýsingum um möguleg umhverfisáhrif tilkynntra breytinga, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Í hinni kærðu ákvörðun séu heldur ekki færð fullnægjandi rök fyrir þeirri niðurstöðu stofnunarinnar að hin tilkynnta breyting geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Ekki sé rökstutt, með vísan til eðlis, umfangs og staðsetningar fyrirhugaðrar framkvæmdar, að hún sé ekki líkleg, að gerðum hinum tilkynntu breytingum, til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif önnur en eða umfram þau, sem þegar hafi verið metin og tekin afstaða til. Rökstuðningurinn uppfylli hvergi nærri þær ströngu kröfur sem leiði af lögum nr. 106/2000. Hafa beri í huga að hér sé um verulega breytingu að ræða á umfangsmikilli framkvæmd sem fyrir liggi að haft geti í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna eðlis síns og staðsetningar í sjó. Í samræmi við flókið samspil slíkrar framkvæmdar við það lífríki sem fyrir sé í sjó og nærliggjandi ám og strandsvæðum sé krafist ítarlegs rökstuðnings fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar. Í slíkum tilvikum kunni rök Skipulagsstofnunar að koma í stað frekara mats á umhverfisáhrifum hlutaðeigandi framkvæmdar. Ef lög nr. 106/2000 eigi að ná markmiði sínu verði því að vera tryggt að rökstuðningur stofnunarinnar sé réttur og fullnægjandi. Þá skorti mjög á að tekin sé rökstudd afstaða í hinni kærðu ákvörðun til þeirra atriða sem bent sé á í umsögnum umsagnaraðila. Samkvæmt framansögðu sé rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar ekki í samræmi við fyrirmæli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. einnig 22. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er bent á að tilkynning framkvæmdaraðila beri þess merki með skýrum hætti að tilkynningin lúti aðeins að tveimur þáttum, þ.e. breytingu á eldissvæðum og útsetningaráætlun. Hvergi komi fram í tilkynningunni að hún lúti að aukningu á eldi úr 6.000 tonnum í 9.800 tonn af frjóum laxi á ári. Ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi eingöngu snúið að tilfærslu eldissvæða og breytingu á útsetningaráætlun. Í matsskýrslu framkvæmdaraðila frá 2018 hafi áhrif þess að ala allt að 9.800 tonn af frjóum laxi í Berufirði verið metin. Í matsskýrslunni hafi komið fram að áhættumati Hafrannsóknastofnunar yrði fylgt og því hafi verið áformað að sækja um leyfi til að ala 6.000 tonn af frjóum laxi í Berufirði í samræmi við áhættumatið, eins og það hafi verið þegar matsskýrsla hafi verið unnin. Í matsskýrslu hafi jafnframt verið tekið fram að áhættumatið gæti tekið breytingum og að framleiðsluáætlanir framkvæmdaraðila myndu taka breytingum til samræmis við áhættumatið hverju sinni. Framleiðslumagn frjós fisks myndi þó ekki fara yfir 20.800 tonn í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé vikið að framangreindu, þ.e. að breytingar hafi orðið á áhættumatinu og í ljósi þess sem fjallað hafi verið um í matsskýrslu hafi framkvæmdaraðili óskað eftir uppfærslu gildandi leyfis í Berufirði með það í huga að magn frjós fisks verði aukið í samræmi við breytt áhættumat. Að öðru leyti sé ekki fjallað um frjóan lax í tilkynningunni. Að mati Skipulagsstofnunar beri að skilja umfjöllunina á þann hátt að samhliða tilkynningu um breytingu á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Berufirði hyggist framkvæmdaraðili auka magn á frjóum fiski til samræmis við breytt áhættumat, líkt og fjallað hafi verið um í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Þá sé þess getið að í kjölfar álits Skipulagsstofnunar um mat á áhrifum allt að 20.800 tonna eldis í Berufirði og Fáskrúðsfirði hafi framkvæmdaraðili óskað frekari skýringa á því hvort þörf væri á sérstakri málsmeðferð á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum kæmi til breytinga á áhættumati og aukningu á frjóum fiski í eldi fyrirtækisins til samræmis við breytt áhættumat.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé ekki beint fjallað um áhrif minni fjarlægðar milli kvía og tíðari útsetningar seiða m.t.t. laxalúsar og sjúkdóma, en samt sé fjallað um villta laxfiska í tilkynningunni. Þar sé lýst þeirri afstöðu framkvæmdaraðila að breytt staðsetning eldissvæða muni ekki hafa miklar breytingar í för með sér varðandi þá áhættuþætti sem snúi að hugsanlegum áhrifum á villta laxastofna. Ef breytingin leiði til bættrar velferðar eldisfisks þá muni breytt staðsetning hafa jákvæð áhrif m.t.t laxastofna. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar komi fram að fyrirhuguð breyting á framkvæmdinni sé ekki líkleg til að auka hættu á slysasleppingum eða auka álag á villta laxfiska vegna laxalúsar eða sjúkdóma. Lesa verði tilkynninguna og framangreinda afstöðu stofnunarinnar með hliðsjón af því sem fram komi í áliti stofnunarinnar frá 14. júní 2018 um mat á umhverfisáhrifum vegna 20.800 tonna framleiðslu á laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Þar sé að finna umfjöllun um fisksjúkdóma og laxalús.

Ítrekað sé að tilkynning framkvæmdaraðila hafi ekki lotið að stóraukinni framleiðslu fyrirtækisins á frjóum laxi. Af því leiði að hjá þeim umsagnaraðilum sem stofnunin hafi leitað til hafi ekki verið fyrir hendi forsendur til að gefa álit á umræddu atriði. Þá sé bent á að í 3. mgr. 12. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum sé ekki gerð krafa um að umsagnaraðilar rökstyðji hvort þeir telji að tilkynning sé fullnægjandi um þau atriði sem talin séu upp í málsgreininni. Þá segi í málsgreininni „eftir því sem við á“ varðandi atriðin. Hins vegar beri þeim að rökstyðja hvort tilkynntar breytingar á framkvæmd skuli háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. orðalagið „hvort og þá á hvaða forsendum“ og þá „út frá þeim atriðum sem falla undir starfssvið umsagnaraðila.“ Í umsögn flestra umsagnaraðila sé að finna fullnægjandi rökstuðning að baki því hvort umrædd framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Hjá tveim eða þrem umsagnaraðilum kunni að vera að rökstuðningur sé ekki fullnægjandi með tilliti til framangreinds reglugerðarákvæðis. Ekki fáist þó séð að slíkt, eitt og sér, geti leitt til þess að verulegur annmarki sé á ákvörðun um matsskyldu.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar varði ekki leyfisveitingu heldur hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Því taki ákvörðunin ekki afstöðu til þess hvort áhættumat erfðablöndunar og burðarþols falli undir gildissvið laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og geti verið grundvöllur fyrir útgáfu framkvæmdaleyfi.

Ljóst sé af úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 3/2020 að ekki sé ætlast til þess að í ákvörðun um matsskyldu, vegna breytingar á framkvæmd sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum, séu að nýju metin umhverfisáhrif hinnar upphaflegu framkvæmdar heldur einskorðist ákvörðunin við þau áhrif sem breytingin geti kallað fram. Hin kærða ákvörðun sé reist á fullnægjandi gögnum og því séu þær kröfur sem leiði af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 uppfylltar. Fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum allt að 20.800 tonna eldis í Fáskrúðsfirði og Berufirði sem byggi m.a. á rannsóknum sem varði botndýr, hafstrauma, öldufar og súrefni í Berufirði. Þá hafi legið fyrir umsagnir þeirra sérfræðistofnana sem búi yfir þekkingu á þeim umhverfisþáttum sem fyrirhuguð breyting sé líkleg til að hafa áhrif á. Fram komi í umsögn Umhverfisstofnunar að breytingin sé ekki líkleg til að hafa í för með sér aukin umhverfisáhrif umfram þau sem lýst hafi verið í upphaflegu umhverfismati. Einnig komi fram í umsögn Matvælastofnunar að ekki sé ástæða til að meta umhverfisáhrif breytingarinnar.

Rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar sé að mati Skipulagsstofnunar fullnægjandi með tilliti til 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin hafi í stjórnsýsluframkvæmd sinni litið svo á að rökstyðja beri ákvörðun út frá þeim sjónarmiðum í 2. viðauka sem „við eiga í hverju máli.“ Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 53/2020 segi t.d.: „Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðun varðar hvaða liðir vegi þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar geti talist umtalsverð.“ Í athugasemdum við frumvarp það er orðið hafi að breytingalögum nr. 96/2019 komi fram að Skipulagsstofnun beri við rökstuðning niðurstöðu sinnar að horfa til þeirra þátta í 2. viðauka sem „skipti mestu máli“ hvað varði framkvæmdina. Samkvæmt því sem hér sé rakið þurfi ekki alltaf að víkja að öllum sjónarmiðum í viðaukanum. Hin tilkynnta framkvæmd hafi ekki kallað á frekari rökstuðning, en skoða verði rökstuðninginn með hliðsjón af áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018. Þá sé bent á að í athugasemdum með frumvarpi því er orðið hafi að stjórnsýslulögum komi fram að í flestum tilvikum ætti tiltölulega stuttur rökstuðningur fyrir ákvörðunum að nægja í málum á „fyrsta stjórnsýslustigi.“ Jafnvel þó svo að úrskurðarnefndin telji rökstuðninginn annmarka á hinni kærðu ákvörðun þá sé hann ekki svo verulegar að leiði til ógildingar ákvörðunarinnar.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er gerð krafa um að málinu verði vísað frá þar sem ekki liggi fyrir fullnægjandi umboð til þess lögmanns sem riti undir kæruna frá kærendum. Umboðin séu haldin ágalla þar sem þau séu óvottuð, auk þess sem hin kærða ákvörðun sé ranglega dagsett. Formenn félagasamtakanna geti ekki tekið ákvörðun um kæru fyrir hönd félaganna án þess að fyrir liggi viðeigandi heimild til þess. Of seint sé að bæta úr annmörkunum. Þá hafi samtökin ekki sýnt fram á að þau uppfylli skilyrði sem sett séu fyrir aðildarhæfi í 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn um hvaða hagsmuni þeir kunni að hafa af úrlausn málsins. Skorti þá því lögvarða hagsmuni í málinu og beri að vísa málinu frá, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1007/2020. Við mat á lögvörðum hagsmunum verði að miða við hvað breytingin feli í sér og hverju hún breyti frá skilgreindu ástandi samkvæmt mati á umhverfisáhrifum, en umdeild breytingin hafi ekki áhrif á kærendur. Fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum fyrir eldi á 9.800 tonnum af frjóum laxi í Berufirði og feli tillaga að breytingu ekki í sér breytingu á framleiðslumagni eða nokkru því sem geti haft áhrif á hagsmuni kærenda eða félagsmenn þeirra. Að auki liggi fyrir mat sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar á hættu á erfðablöndun af eldi í Berufirði og sé hún hverfandi eða engin.

Við mat á ógildingu þurfi að hafa hugfast að lax sé nú önnur verðmætasta útflutningsfiskafurð Íslands og fiskeldi sé meginatvinnustoð tveggja landsfjórðunga. Því þurfi mikið að koma til svo hin kærða ákvörðun verði ógild. Ákvörðun Skipulagsstofnunar og tilkynningar framkvæmdaraðila um fyrirhugaða breytingu á staðsetningu eldissvæða og útsetningu uppfylli þau skilyrði sem sett séu í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og samnefndri reglugerð nr. 660/2015. Skipulagsstofnun hafi aflað umsagna leyfisveitanda og annarra hlutaðeigandi umsagnaraðila og sé engin þessara umsagna háð annmörkum, a.m.k. ekki annmörkum sem geti leitt til þess að kröfur kærenda verði teknar til greina. Beiting 11. gr. og 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar sé háð mati Skipulagsstofnunar, enda sé gerður sá fyrirvari að meta skuli upplýsingaskyldu út frá eðli og umfangi hlutaðeigandi framkvæmdar, en jafnframt að leita skuli umsagnar annarra en leyfisveitenda eftir eðli máls, líkt og gert hafi verið.

Þegar rætt sé um eldi á frjóum laxfiski þá sé talað um lax, enda sé lax alltaf frjór nema það eigi sér stað inngrip í þroskaferil hans. Sé verið að ræða um eldi á ófrjóum laxi þá sé undantekningarlaust rætt um ófrjóan lax. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018 sé eldi á 9.800 tonnum af frjóum fiski í Berufirði, en gerður sé fyrirvari um að framkvæmdin sé alltaf í samræmi við gildandi áhættumat á hverjum tíma. Matsskýrslan sé mjög skýr hvað þetta varði. Stefna framkvæmdaraðila hafi, allt frá því áhættumat erfðablöndunar hafi fyrst verið kynnt 14. júlí 2017, verið sú að fylgja matinu og sé það nú lagaskylda. Kærendur rugli saman annars vegar magni frjós fisks samkvæmt útsetningaráætlun, sem endurspegli ávallt áhættumat og taki breytingum, og svo tilgreindu magni fisks í eldi samkvæmt mati á umhverfisáhrifum. Magn samkvæmt útsetningaráætlun geti því bæði hækkað og lækkað út frá gildandi áhættumati og leyfum, en alinn frjór fiskur fari þó aldrei yfir 20.800 tonn í báðum fjörðunum.

Eldi á frjóum fiski og ófrjóum sé ekki frábrugðið hvort öðru nema að því er taki til hættu á erfðablöndun við villta stofna. Ef fjallað hefði verið um eldi og áhrif eldis á ófrjóum fiski á villta stofna í matsskýrslunni hefði þá umfjöllun verið að finna í kafla 6.5.3. um umhverfisáhrif. Sá kafli matsskýrslunnar geri það hins vegar ekki. Um eldi á ófrjóum fiski sé fjallað í valkostagreiningu og eðli málsins samkvæmt lúti því meginefni skýrslunnar að eldi á frjóum fiski.

Því sé andmælt að ekki sé nægjanlega fjallað um aukningu á eldi á frjóum fiski í tilkynningu framkvæmdaraðila, en það sé Skipulagsstofnunar að meta hverju sinni út frá aðstæðum hversu ítarleg tilkynning þurfi að vera varðandi einstaka þætti. Breyting á útsetningaráætlun taki bæði til breytinga á kynslóðaskiptingu og magni frjós fisks. Fram komi í tilkynningu að framkvæmdaraðili hafi óskað eftir uppfærslu gildandi leyfis með það i huga að magn frjós fisks verði aukið, enda miðist fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar við það að meta hvaða áhrif 9.800 tonna lífmassi af frjóum fiski hafi á fjörðinn og umhverfið. Framkvæmdaraðili hafi óskað eftir því við Matvælastofnun að rekstrarleyfi yrði uppfært miðað við nýtt áhættumat. Sé byggt á því að stofnuninni ber skylda til að uppfæra rekstrarleyfi miðað við breytt áhættumat og kalli slíkt ekki á aðkomu Skipulagsstofnunar, sbr. 4. mgr. 6. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé ítarlega fjallað um tilfærslu svæða, uppdrættir sýndir og nákvæmar hnitsetningar. Einnig sé ítarleg eldisáætlun sett fram ásamt upplýsingum um hvíldartíma, en hann sé óbreyttur frá því sem segi í matsskýrslu. Umsagnir séu vel rökstuddar. Í umsögn Umhverfisstofnunar sé fjallað ítarlega um þá ætlan framkvæmdaraaðila að ala eingöngu frjóan lax og staðfest að í fyrra mati á umhverfisáhrifum hafi verið gert ráð fyrir 9.800 tonna framleiðslu á frjóum laxi. Þar sem tilkynningin lúti að breytingu á eldisáætlun sé bæði vísað til breytingar á fjölda seiða í útsetning, sem og breytingar í frjóan fisk.

Áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat feli ekki í sér áætlanir sem marki stefnu um leyfisveitingar til framkvæmda á tilteknu svæði. Hvort tveggja séu í eðli sínu rannsóknir og séu einungis hluti af mörgum rannsóknum og forsendum sem þurfi að vera fyrir hendi til að leyfi sé veitt til fiskeldis. Þannig geti niðurstaðan orðið sú að fiskeldi verði ekki leyft þótt áhættumat og burðarþolsmat heimili það. Síðan kunni að koma upp sú staða að annað hvort áhættumat eða burðarþolsmat heimili eldi en hitt matið geri það ekki og þá verði ekki af eldi á viðkomandi stað. Áhættumat og burðarþolsmat séu því ekki afgerandi um útgáfu leyfa og séu auk þess háð breytingum og skulu endurskoðast reglulega, sbr. 3. mgr. 6. gr. a og 2. mgr. 6. gr. b í lögum nr. 71/2008.

Þegar áhættumat og burðarþolsmat liggi fyrir vinni Hafrannsóknastofnun svæðaskipulag eldissvæða skv. 4. gr. a í lögum nr. 71/2008, en jafnframt sé gert strandsvæðaskipulag af svæðisráðum samkvæmt lögum nr. 22/2008 um skipulag haf- og standsvæða. Að því loknu sé eldissvæðum úthlutað og þeir aðilar sem fái úthlutun geti farið með fyrirhugaðar framkvæmdir í mat á umhverfisáhrifum. Slíkt mat byggi fjölda rannsókna, þ. á m. áhættumati og burðarþolsmati, og sé það ekki fyrr en að því loknu, ef því ljúki með áliti, sem leyfi geti hugsanlega verið gefið út, en um það eigi Umhverfisstofnun og Matvælastofnun sjálfstætt mat. Þar með sé sjónarmiðum um aðkomu almennings og málskotsrétt fullnægt en það séu einmitt þau sjónarmið sem lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana byggi á. Sú ákvörðun sem hér sé til umfjöllunar byggi á mati á umhverfisáhrifum þar sem allir þeir þættir sem ákvörðunin byggi á hafi verið kynntir almenningi og þeim gefist kostur á að gera athugasemdir. Umfang og eðli framkvæmdarinnar hafi ekki breyst frá því að matið hafi verið gert og sé því um að ræða óverulegar breytingar sem séu undanþegnar lögum nr. 105/2006 samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, sbr. 10. gr. Um það hafi Skipulagsstofnun úrskurðað með ákvörðun sinni. Það að kynna framkvæmd aftur og gera um hana umhverfisskýrslu væri tvíverknaður og ekki í samræmi við markmið laga nr. 105/2006.

Kærð sé ákvörðun Skipulagsstofnunar sem falli ekki undir lög nr. 105/2006, en að auki sé í þeim lögum ekki heimild til ógildingar ákvörðunar, hvað þá sjálfstæðrar ákvörðunar sem ekki sé fjallað um í lögunum, eins og ákvörðun um matsskyldu sé. Eftir gildistöku breytingalaga nr. 101/2019 hafi dómstólar og úrskurðarnefndin ítrekað fjallað um mál tengd leyfisveitingum til fiskeldis þar sem áhættumat og burðarþolsmat hafi komið til skoðunar og legið til grundvallar úrlausn máls, s.s. úrskurði í málum nr. 89/2020 og 3/2020 og úrskurð Landsréttar í máli nr. 10/2019. Í þeim málum hafi ekki verið vikið að því að áhættumat eða burðarþolsmat falli undir lög nr. 105/2006. Hafa beri hugfast að úrskurðarnefndinni beri að beita málsástæðum og lagarökum þótt málsaðilar hafi ekki haldið þeim fram í gögnum málsins.

Þá sé það Skipulagsstofnun sem skeri úr um ef vafi leiki á því hvort lög nr. 105/2006 eigi við. Af framkvæmd megi ráða að Hafrannsóknastofnun telji áhættumat og burðarþolsmat ekki falla undir lögin og hafi það mat verið staðfest af ráðherra að því er taki til áhættumats. Skipulagsstofnun hafi gefið út álit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar þar sem áhættumat og burðarþolsmat sé lagt til grundvallar og af því megi ráða að stofnunin meti það svo að lög nr. 105/2006 nái ekki yfir áhættumat og burðarþolsmat. Hin kærða ákvörðun byggi á áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar frá 14. júní 2018, en rekstrarleyfi hafi verið gefið út 21. mars 2019 og starfsleyfi 19. s.m. Allt hafi þetta farið fram fyrir gildistöku laga nr. 101/2019 þegar áhættumat og burðarþolsmat hafi verið lögfest. Ekki verði talið að lögum nr. 105/2006 verði beitt um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, eða ákvörðun byggða á því mati, sem framkvæmt hafi verið fyrir gildistöku laga nr. 101/2019.

Fyrir liggi ítarlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar ásamt valkostagreiningu. Matið byggi á því að hvíld milli kynslóða sjókvíaeldissvæðis sé 9-12 mánuðir og sé það óbreytt samkvæmt tillögu framkvæmdaraðila. Með breytingunni sé fóðrun minnkuð og seiðum í sjó fækkað. Þá sé ítarleg umfjöllun um möguleg áhrif á æðarvarp í mati á umhverfisáhrifum. Í vöktunaráætlun framkvæmdaraðila, sem samþykkt sé af Umhverfisstofnun, sé gert ráð fyrir vöktun áhrifa eldis á fuglalíf. Ekki hafi fundist laxalús á eldisfiski á Austfjörðum, en fiskilús hafi fundist og sé hún talin meinlaus.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að í athugasemdum framkvæmdaraðila komi fram að breyting á útsetningaráætlun feli í sér breytingu á framleiðslumagni á frjóum fiski úr 6.000 tonnum í 9.800 tonn. Liggi því fyrir að með hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið tekin afstaða til matsskyldu vegna eins þeirra meginþátta sem hin tilkynnta breyting hafi lotið að. Óháð því hvort það eigi rætur að rekja til annmarka á tilkynningu framkvæmdaraðila eða ófullnægjandi mats og rannsóknar Skipulagsstofnunar sé hin kærða ákvörðun að þessu leyti haldin verulegum annmarka sem leiði óhjákvæmilega til þess að hún verði felld úr gildi.

Áréttað sé að hin kærða ákvörðun feli ekki í sér að breyting á eldi á frjóum laxi úr 6.000 tonnum í 9.800 tonn sé ekki matsskyld af þeirri ástæðu að umhverfisáhrif breyttrar framkvæmdar hafi þegar verið metin með fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum. Eins og skýrlega komi fram í umsögn Skipulagsstofnunar hafi stofnunin ekki tekið efnislega afstöðu til þess hvort þessi breyting á framkvæmdinni sé matsskyld. Ekki reyni því á gildissvið fyrirliggjandi mats á umhverfisáhrifum að þessu leyti við úrlausn kærumálsins. Mat á umhverfisáhrifum skv. 4. gr. a í samnefndum lögum nr. 106/2000 samanstandi af sex þáttum sem þar séu nánar tilgreindir, þ.m.t. athugun Skipulagsstofnunar á matsskýrslu framkvæmdaraðila, áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og að álit stofnunarinnar sé lagt til grundvallar við afgreiðslu umsóknar um leyfi til framkvæmda. Hvað sem líða kunni áformum framkvæmdaraðila um síðari breytingar hafi álit Skipulagsstofnunar frá 14. júní 2018 á matsskýrslu framkvæmdaraðila skýrlega verið reist á þeirri forsendu, sem einnig komi fram í matsskýrslunni, að í hinni metnu framkvæmd fælist framleiðsla á að hámarki 6.000 tonnum á ári af frjóum laxi í Berufirði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að breyting á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Berufirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuni að gæta geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga teljist eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna tilgreindra ákvarðana, enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. teljast umhverfisverndarsamtök samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Útivistarsamtök teljast samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Samtök skv. 1. og 2. málsl. skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald. Meðal þeirra ákvarðana sem framangreind samtök geta kært eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda samkvæmt 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Fyrir úrskurðarnefndinni liggja gögn er sýna fram á að kærendur uppfylla fyrrnefnd skilyrði kæruaðildar. Þá verða fyrirliggjandi umboð samtakanna til lögmanns ekki talin ófullnægjandi, svo sem framkvæmdaraðili heldur fram.

Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt flokki B, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B skulu háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. nefndra laga. Þegar framkvæmdaraðili hefur tilkynnt Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. nefndrar 6. gr., tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar.

Í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“ Niðurstöðu sína um hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skal Skipulagsstofnun skv. 3. mgr. nefndrar 6. gr., svo sem henni var breytt með lögum nr. 96/2019, rökstyðja með hliðsjón af þeim viðmiðum sem talin eru upp í 2. viðauka laga nr. 106/2000, en þau eru í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og gerð og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. í 2. viðauka, en undir hverjum tölulið er svo talinn upp fjöldi annarra liða. Skal Skipulagsstofnun taka matsskylduákvörðun innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina og er stofnuninni heimilt að setja fram ábendingar um tilhögun hennar sé hún ekki matsskyld að áliti stofnunarinnar. Í frumvarpi með breytingalögum nr. 96/2019 er tekið fram að með breytingunni sé gerð skýrari krafa um innihald ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Henni beri við rökstuðning niðurstöðu sinnar að horfa til þeirra þátta í 2. viðauka sem skipti mestu máli hvað varðar framkvæmdina. Rökstuðningur eigi bæði við um ákvörðun um að framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum og ákvörðun um að framkvæmd skuli ekki háð slíku mati. Skipulagsstofnun skuli byggja ákvörðun sína um matsskyldu á upplýsingum frá framkvæmdaraðila, en sé einnig heimilt að byggja hana á öðrum gögnum. Þar undir gætu til dæmis fallið forprófanir eða mat á umhverfisáhrifum sem fram hafi farið á grundvelli annarra laga og ábendingar sem stofnuninni berist, til dæmis frá öðrum stofnunum og almenningi.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Múlaþings, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Vegagerðarinnar og Umhverfisstofnunar í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, eins og rakið er í málavaxtalýsingu. Telur Umhverfisstofnun í sinni umsögn að breytingin muni ekki koma til með að hafa neikvæð áhrif og að áhrif framkvæmdarinnar liggi ljós fyrir. Í umsögn Hafrannsóknastofnunar er vísað til þess að breytingin hafi ekki áhrif á burðarþolsmat stofnunarinnar fyrir Berufjörð. Fiskistofa bendir á að breytingin muni ekki hafa miklar afleiðingar í för með sér varðandi þá áhættuþætti sem snúi að hugsanlega áhrifum á villta laxa- og silungastofna. Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram að þau eldissvæði sem fyrirhugað sé að breyta og bæta við í Berufirði séu utan hafnarmarka Djúpavogshafnar. Telja fyrrgreindar stofnanir ekki nauðsyn á að mat á umhverfisáhrifum fari fram vegna breytingarinnar. Minjastofnun gerir þá kröfu í umsögn sinni að stofnuninni verði kynnt gögn sem kunni að liggja fyrir vegna skönnunar á botni eldissvæða í Berufirði eða vegna köfunar sem fram hafi farið á svæðinu. Þess sé óskað að teknar verði myndir af þeim stöðum þar sem fyrirhugað sé að koma fyrir botnfestingum og að stofnuninni verði gefinn kostur á að koma að athugasemdum við staðsetningu áður en gengið verði frá festingum. Að því gefnu að gengið verði að kröfum stofnunarinnar telji hún breytinguna ekki háða mati á umhverfisáhrifum. Matvælastofnun telur ekki ástæðu til þess fram fari mat á umhverfisáhrifum breytingarinnar verði gætt að hvíld milli tæmingar og útsetningar á eldissvæðum Glímeyrar og Svarthamarsvíkur, sbr. 46. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi. Þá telur Múlaþing í sinni umsögn ekki ástæðu til að meta umhverfisáhrif breytingarinnar þótt rökstyðja þurfi betur ýmsa þætti fyrirhugaðrar breytingar ásamt því að fjalla þurfi um mótvægisaðgerðir við hugsanleg áhrif á fjöruvistgerðir í fjarðarbotni. Hins vegar kemur fram í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands að það sé mat stofnunarinnar að meta skuli umhverfisáhrif breytingarinnar í ljósi þess að um sé að ræða starfsemi á alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði, auk þess sem umfjöllun um áhrif á fugla hafi verið verulega áfátt í upphaflegri matsskýrslu. Bent sé á að flórgoðar haldi m.a. til við Gautavík en þangað verði eldissvæði flutt.

Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar skiptist í nokkra kafla. Fyrirhugaðri framkvæmd er lýst, þ.e. áformum framkvæmdaraðila um tilfærslu eldissvæða og breytta útsetningaráætlun, fjallað er um umhverfisáhrif breytingar framkvæmdarinnar, eins og þeim var lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og umsögnum umsagnaraðila. Fram kemur að vegna fyrrgreindrar umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands hafi framkvæmdaraðili í samstarfi við RORUM og Náttúrustofu Austfjarða hafið vöktun á nýtingu fugla, einkum flórgoða, duggandar og himbrima á Berufirði og Berufjarðarströnd. Rannsóknin muni standa yfir í eitt ár og taka sérstaklega til þeirra atriða sem nefnd hafi verið af Náttúrufræðistofnun Íslands. Í framhaldinu verði lögð fram endurskoðuð vöktunaráætlun sem taki mið af niðurstöðum rannsóknarinnar, en samkvæmt útsetningaráætlun fyrir eldissvæðið í Gautavík sé gert ráð fyrir að útsetning eigi sér stað í ágúst 2023. Þá hafi framkvæmdaraðili, vegna umsagnar Minjastofnunar, upplýst um að Köfunarþjónustan ehf. hafi gert fjölgeislamælingu vegna fyrirhugaðrar uppsetningar eldiskvía í og við Gautavík. Samkvæmt mælingu sem gerð hafi verið í lok október 2020 sé ekkert sem bendi til að menningarminjar séu á svæðinu. Komi síðar fram eitthvað sem bendi til að fornleifar séu á sjávarbotni verði Minjastofnun gert vart við og þeim afhent viðeigandi gögn. Í frekari viðbrögðum stofnunarinnar komi fram að hún telji gögnin fullnægjandi svar við athugasemdum þeim sem fram hafi komið í umsögn hennar. Að lokum er í kafla um skipulag og leyfi vikið að þeim leyfum sem framkvæmdin er háð.

Í niðurstöðukafla sínum vísar Skipulagsstofnun til þess að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skuli taka mið af eðli hennar, m.a. stærð og umfangi og úrgangsmyndun. Einnig skuli taka mið af staðsetningu framkvæmdar, m.t.t. hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, s.s. með tilliti til þeirrar landnotkunar sem fyrir sé og álagsþols náttúrunnar, þ.m.t. strandsvæða og kjörlendi dýra. Þá beri að skoða áhrif framkvæmdar í ljósi eiginleika hugsanlegra áhrifa, einkum með tilliti til svæðis sem ætla megi að verði fyrir áhrifum, stærðar og fjölbreytileika áhrifa og tímalengdar.

Í umfjöllun Skipulagsstofnunar um staðsetningu og eðli framkvæmdar er vísað til þess að fyrir liggi álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum allt að 20.800 tonna framleiðslu á laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði frá 14. júní 2018. Um sé að ræða breytingu á þeirri framkvæmd sem felist í því að breyta staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Berufirði. Gera megi ráð fyrir því að uppsöfnun næringarefna verði að einhverju leyti sambærileg því sem gert hafi verið ráð fyrir í matsskýrslu. Að mati stofnunarinnar sé óvissa um áhrif fyrirhugaðs eldis í Berufirði á súrefnisinnihald við botn og þá sér í lagi í nágrenni eldissvæðis við Glímeyri, þar sem eldissvæðið sé staðsett nokkuð innarlega í firðinum og að hluta til innan við þröskuld yfir hvilft. Í ljósi þess að Hafrannsóknastofnun geri ekki athugasemd við áform framkvæmdaraðila um breytt fyrirkomulag og telji breytinguna ekki þurfa að fara í mat á umhverfisáhrifum telji Skipulagsstofnun ólíkt að fyrirhuguð breyting hafi umtalsverð áhrif á súrefnisstyrk. Með hliðsjón af reynslu af fiskeldi hérlendis telji stofnunin að miklar breytingar verði á botndýralífi undir sjókvíum sem færist þó líklega í svipað ástand á ný ef nægileg hvíld verði á uppsöfnun lífrænna leifa eða ef uppsöfnun hætti alfarið. Framkvæmdaraðili áformi að hvíla eldissvæði á milli kynslóða. Að mati stofnunarinnar þurfi vöktun að leiða í ljós árangur þeirrar hvíldar, en dæmi séu um að botn beri einkenni raskaðs ástands eftir níu mánaða hvíld. Telji stofnunin mikilvægt að í starfsleyfi verði skýrt kveðið á um við hvaða umhverfisaðstæður heimilt sé að setja út seiði. Þá bendir stofnunin á að í Berufirði sé að finna mikilvæg fuglasvæði, en flórgoðar haldi til í Gautavík þar sem fyrirhugað sé að koma fyrir nýju eldissvæði. Í kjölfar umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands hafi framkvæmdaraðili lagt fram áætlun um fuglatalningar í Berufirði með sérstaka áherslu á flórgoða og Gautavík. Fuglaathuganir muni standa yfir í eitt ár og á grundvelli þeirra verði lögð fram endurskoðuð vöktunaráætlun áður en til útsetningar komi í Gautavík. Í ljósi þess telji Skipulagsstofnun ólíklegt að áhrif fyrirhugaðra breytinga á fugla verði umtalsverð, enda sé auðvelt að færa eldiskvíar til ef vöktun gefi tilefni til. Mikilvægt sé við útgáfu starfsleyfis að kveða á um að útsetning í Gautavík fari ekki fram fyrr en fyrir liggi endurskoðuð vöktunaráætlun að loknum þeim athugunum sem framkvæmdaraðili hafi boðað og að skýrt verði kveðið á um vöktun á fuglum. Þá muni tilfærsla eldissvæðanna ekki breyta áhrifum fiskeldis á ásýnd frá því sem nú sé. Til að mynda muni eldissvæði færast fjær Teigarhorni sem sé að hluta friðlýst sem náttúruvætti og sem fólkvangur. Að lokum sé fyrirhuguð breyting á framkvæmd ekki líkleg til að auka hættu á slysasleppingum eða auka álag á villta laxfiska vegna laxalúsa eða sjúkdóma. Hvað eiginleika hugsanlegra áhrifa breytingarinnar varði telur stofnunin umhverfisáhrif muni að mestu verða sambærileg fyrri framkvæmd. Var niðurstaða Skipulagsstofnunar, eins og fyrr greinir, sú að hin umdeilda breyting skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B í 1. viðauka laganna. Ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar skal Skipulagsstofnun byggja á þeim upplýsingum sem framkvæmdaraðili hefur lagt fram, sbr. 2. mgr., og öðrum gögnum um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, ef við á. Tilkynning framkvæmdaraðila einskorðaðist við breytingu á eldissvæðum og útsetningaráætlun. Í texta tilkynningarinnar kemur fram að sett verði út seiði á hverju ári þannig að almennt verði tvö svæði í notkun og tvö svæði í hvíld á hverjum tíma. Fjallað er um fjölda og stærð seiða og tekið fram að lífmassi muni aldrei fara yfir 9.800 tonn, en ekki hver skipting verði í frjóan lax og ófrjóan. Ný útsetningar- og eldisáætlun í viðauka 1 með tilkynningunni tilgreinir sömu atriði, sömuleiðis án þess að slík skipting komi fram. Þótt vikið sé að þeirri fyrirætlan framkvæmdaraðila að fá leyfum sínum breytt á þann veg að meira magn frjós lax verði alið er ljóst að tilkynning hans lýtur ekki að þeim breytingum. Var því Skipulagsstofnun ekki skylt að fjalla um aukningu á eldi á frjóum laxi, svo sem kærendur telja að stofnuninni hafi borið að gera. Að sama skapi er það ekki ágalli á þeim umsögnum sem Skipulagsstofnun aflaði sem hluta af rannsókn málsins á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að ekki hafi verið fjallað um aukna framleiðslu á frjóum laxi. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum skal í umsögn umsagnaraðila koma fram hvort tilkynning geri nægilega grein fyrir framkvæmd, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun, eftir því sem við á. Þegar litið er til eðlis og umfangs þeirrar breytingar á framkvæmd sem um ræðir verður ekki talið að frekari umfjöllun eða rökstuðningur umsagnaraðila hafi átt við í skilningi nefnds reglugerðarákvæðis.

Svo sem henni bar lagði Skipulagsstofnun að lokum sjálfstætt mat á það hvort breytingin á framkvæmdinni skyldi háð mati á umhverfisáhrifum, en taldi að svo væri ekki. Ljóst er að ekki er ætlast til þess að í ákvörðun um matsskyldu, vegna breytingar á framkvæmd sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum, séu metin að nýju umhverfisáhrif hinnar upprunalegu framkvæmdar heldur einskorðast ákvörðunin við þau áhrif sem breytingin getur kallað fram. Verður að skoða röksemdir Skipulagsstofnunar fyrir niðurstöðu hennar í því ljósi. Þá fer það eðli máls samkvæmt eftir þeirri breytingu á framkvæmd sem ákvörðun snýst um hvaða atriði sem tiltekin eru í 1.-3. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000 vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif breytingarinnar teljist umtalsverð. Það að breyting framkvæmdar falli undir einhvern liðanna leiðir ekki sjálfkrafa til matsskyldu, en kann eftir atvikum að gefa tilefni til að kanna sérstaklega samspil allra þeirra liða sem upp eru taldir í 2. viðauka. Reynsla af upprunalegu framkvæmdinni, vöktun og mótvægisaðgerðum kann að gefa vísbendingu um hver áhrif breytingarinnar kunni að verða. Að þessu virtu var að áliti úrskurðarnefndarinnar lagt mat á þá þætti sem máli skiptu um það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni, svo sem hún var kynnt af framkvæmdaraðila. Þá tók Skipulagsstofnun við það mat, sem áður er fjallað um, viðhlítandi tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka nefndra laga.

Kærendur byggja m.a. á því að áður en hin kærða matsskylduákvörðun var tekin hafi umhverfismat áætlana samkvæmt þágildandi lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana ekki farið fram vegna mats Hafrannsóknastofnunar á áhættu af erfðablöndun frjórra eldislaxa við villta laxastofna, sbr. 6. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2006 gilda þau um umhverfismat þeirra skipulags- og framkvæmdaáætlana og breytingar á þeim sem marka stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar er undanfari leyfis til framkvæmda sem fellur undir lög nr. 106/2000, s.s. þegar um er að ræða leyfi fyrir fiskeldi, en ákvörðunin sjálf felur ekki í sér slíkt leyfi. Raskar því skortur á umhverfismati áætlana, óháð því hvort það hefði átt að fara fram eða ekki vegna hinnar upprunalegu framkvæmdar, ekki gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hún tók hin kærðu matsskylduákvörðun, lagt tilhlýðilegt mat á efni málsins og rökstutt niðurstöðu sína með fullnægjandi hætti. Þar sem enga þá annmarka er að finna á hinni kærðu ákvörðun sem leiða ættu til ógildingar verður kröfu kærenda þar um hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 28. apríl 2021 um að breyting á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun sjókvíaeldis í Berufirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

66/2021 Stekkjarsel

Með

Árið 2021, föstudaginn 15. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson vara­­formaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. mars 2021 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir áður gerðum breytingum, sem fólust í því að óútgröfnu rými og geymslu í kjallara var breytt í íbúðarrými, bætt var við gluggum og dyrum á norðurhlið og gluggar stækkaðir á austurhlið einbýlishússins að Stekkjarseli 7.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. maí 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Stekkjarseli 7, Reykjavík, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 2. mars 2021 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir áður gerðum breytingum sem fólust í því að óútgröfnu rými og geymslu í kjallara var breytt í íbúðarrými, bætt var við gluggum og dyrum á norðurhlið og gluggar stækkaðir á austurhlið einbýlishússins nr. 7 við Stekkjarsel. Fer kærandi fram á að umsóttar breytingar verði samþykktar með sama hætti og gert hafi verið í tilviki Stekkjarsels 5. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 28. júní 2021.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 2. mars 2021 var umsókn kæranda um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á einbýlishúsinu að Stekkjarseli 7 synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 15. janúar s.á. Var kæranda tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 3. mars s.á. Kærandi lagði fram nýjar teikningar 16. s.m. og var erindi hans þá tekið fyrir að nýju hjá byggingarfulltrúa 12. maí s.á., ásamt umsögn verkefnisstjóra, og er þar enn óafgreitt.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að byggingarfulltrúi hafi áður leyst úr samkynja álitamáli þegar umsókn um byggingarleyfi var samþykkt í máli nágranna hans 18. mars 2003 vegna Stekkjarsels 5. Ákvörðunin muni hafa gríðarleg áhrif á hagsmuni kæranda þar sem hann hefði keypt húsið í góðri trú um að mál hans fengi sambærilega meðferð hjá byggingarfulltrúa og mál nágrannans og að eigendur gætu selt sinn hluta í húsinu án þess að þurfa að krefjast þess að eignin væri seld í heild sinni. Þá yrði eignin talsvert verðmætari þegar búið væri að skipta henni upp í þrjár aðskildar fasteignir. Um sé að ræða eðlislík mál sem snúist um fasteignir sem hafi verið byggðar á sama tíma og standi hlið við hlið. Því sé vísað til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Engin lög eða reglugerðir sem varði niðurstöðu þessara mála hafi breyst og eigi málin því að hljóta sömu niðurstöðu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að breytingarnar séu ekki í samræmi gildandi deiliskipulag, m.a. vegna þess að núverandi nýtingarhlutfall lóðar kæranda sé þegar komið yfir tilskilið hámark samkvæmt skipulaginu og að ekki sé heimild fyrir fleiri en tveimur íbúðum á lóðinni. Þá sé á það bent að þær framkvæmdir sem kærandi vísi til í Stekkjarseli 5 hafi verið í samræmi við þágildandi ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 79/1997 og þá­gildandi skipulag þegar þær hafi verið samþykktar öfugt við framkvæmdir samkvæmt umsókn kæranda sem ekki samræmdust gildandi deiliskipulagi.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að umsóttar breytingar séu í samræmi við núverandi frágang hússins og óski hann því eftir því að skráning þess taki mið af því. Fyrir liggi burðarvirkis- og lagnateikningar hjá byggingarfulltrúa, stimplaðar af honum á byggingartíma hússins, sem sýni öll þau rými sem sótt sé um leyfi fyrir. Ekki sé verið að óska eftir stækkun hússins. Sama deiliskipulag sé í gildi og verið hafi þegar breytingar hafi verið samþykktar af byggingarfulltrúa vegna Stekkjarsels 5. Skipulagslög hafi í engu breyst þannig að þau standi í vegi fyrir sömu niður­stöðu í báðum málum. Borgaryfirvöld færi engin lagarök fyrir því að sett lög og reglur hafi að einhverju leyti breyst að því er varði þetta mál. Lágmarkskrafa sé að greinargóð skil séu gerð á því hvaða lagaheimildir það séu sem hafi breyst sem hamli því að umsókn kæranda hljóti sömu niðurstöðu og umsóknin varðandi Stekkjarsel 5. Um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða og því beri að rökstyðja hana með lagarökum. Kærandi byggi kröfu sína aðallega á jafnræðis­reglu stjórnsýslulaga, jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. mannréttinda­sáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, og á óskráðri réttarreglu um bann við mismunun.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun Reykjavíkurborgar á byggingarleyfi fyrir áður gerðum breytingum á einbýlishúsinu nr. 7 við Stekkjarsel. Hin kærða ákvörðun var rök­studd á þann veg að umsóttar breytingar færu í bága við skipulag.

 Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um þá ákvörðun sem kæra skal. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að taka hana til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 3. mars 2021. Í bréfinu var leiðbeint um málskotsrétt með eftirfarandi hætti: „Í slíkum tilvikum er heimilt að skjóta málinu til æðra stjórnvalds, sem er úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Úrskurðarnefndin starfar á grundvelli laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011.“ Þá var í bréfinu upplýst um netfang og vefsíðu úrskurðarnefndarinnar. Kærufrests var ekki sérstaklega getið svo sem mælt er fyrir um í 2. tl. 20. gr. stjórnsýslulaga. Í ljósi greinds annmarka á leiðbeiningum til kæranda þykir afsakanlegt að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og verður málið því tekið til efnismeðferðar með hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

­Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlut­verk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að umsóttar breytingar verði samþykktar.

Í umsóttum breytingum fólst að „óútgröfnu rými“ og geymslu í kjallara umrædds húss yrði breytt í íbúðir, bætt yrði við gluggum og dyrum á norðurhlið hússins og gluggar stækkaðir á austurhlið. Sótt var um samþykki fyrir „afmörkun áður gerðra séreigna“ á þann veg að efri hæð og bílskúr yrðu skilgreind sem ein eign, íbúð á neðri hæð fengi sérstakt fasteignanúmer og önnur íbúð í kjallara yrði skráð sem ósamþykkt íbúð með sérstakt fasteignanúmer.

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Seljahverfis, Selhryggur, sem samþykkt var í borgarráði 17. desember 1974. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins er heimild fyrir tveimur íbúðum á lóð. Önnur íbúðin má ekki vera stærri en 70 m2 og skulu gluggar vera á henni í minnst tvær áttir. Hámarksnýtingarhlutfall á lóð er 0,4.

Í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er skráð stærð hússins 311,8 m2. Núverandi nýtingarhlutfall er samkvæmt því 0,43 og er því þegar umfram leyfilegt nýtingarhlutfall samkvæmt deili­skipulaginu. Með umsókn kæranda var óskað eftir að húsinu yrði skipt í þrjár eignir og fengju þær hver sitt fasteignanúmer. Samrýmast þær breytingar ekki gildandi deiliskipulagi sem heimilar einungis tvær íbúðir á lóðinni að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Var því ekki heimilt að óbreyttu deiliskipulagi að samþykkja byggingarleyfisumsókn kæranda, en skilyrði fyrir sam­þykkt og útgáfu byggingar­­­leyfis er m.a. að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulags­­áætlunum á svæðinu, sbr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. mars 2021 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á einbýlishúsi að Stekkjarseli 7.