Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

7/2022 Kirkjubraut

Árið 2022, föstudaginn 18. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 16. desember 2021 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir sex íbúða sambýli að Kirkjubraut 20.

 Í málinu er nú kveðinn upp til svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. janúar 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigandi, Kirkjubraut 18, eigandi, Kirkjubraut 18, eigandi, Kirkjubraut 17, eigandi, Kirkjubraut 16 og eigandi, Kirkjubraut 21, Seltjarnarnesi, framkvæmdir á Kirkjubraut 20, Seltjarnarnesi. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að kærð sé sú ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 16. desember 2021 að samþykkja byggingarleyfi fyrir sex íbúða sambýli að Kirkjubraut 20. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 20. janúar 2022.

Málavextir: Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarnesbæjar 17. september 2021 var samþykkt breyting á deiliskipulagi Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistarsvæðis. Bæjar­stjórn staðfesti afgreiðsluna á fundi sínum 22. s.m. Deiliskipulagsbreytingin tók svo gildi 14. október 2021 við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Í breytingunni fólst skilgreining á nýrri lóð, Kirkjubraut 20, og heimild til að reisa á lóðinni hús að hámarki 560 m2 á einni hæð með samtals sex íbúðum. Hinn 7. desember 2021 gaf byggingarfulltrúi út heimild til jarðvegs­könnunar á lóðinni og 16. s.m. samþykkti hann byggingaráform og gaf út byggingarleyfi til að byggja sex íbúða sambýli á einni hæð að Kirkjubraut 20.

Málsrök kærenda: Kærendur gera athugasemd við upphaf framkvæmdar en byggingarleyfi hafi verið gefið út 16. desember 2021 en framkvæmdir hafi byrjað nokkrum dögum fyrr, áður en skilyrði byggingarreglugerðar hefðu verið uppfyllt. Endanlegur gólfkóti nýrrar byggingar sé ekki skilgreindur í samþykktu deiliskipulagi og þar með séu skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis ekki uppfyllt. Hagsmunir kærenda liggi fyrst og fremst í ákvörðun um gólfkóta byggingarinnar þar sem hæð hennar hafi veruleg áhrif á húsnæði þeirra. Jafnframt hafi það áhrif á líf þeirra hvernig framkvæmdum sé háttað. Ekki hafi farið fram kynning á fram­kvæmdinni meðal íbúa og því hafi skilyrðum 9. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða ekki verið uppfyllt. Eftir ítrekaðar fyrirspurnir til Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis hafi kærendum verið tjáð að það væri á hendi bæjaryfirvalda að fylgja því eftir að skilyrði reglugerðarinnar séu uppfyllt. Kærendur hafi þurft að kalla til lögreglu til að stöðva framkvæmdir með brotvélum á tímum sem ekki sé heimilt að viðhafa slíkar framkvæmdir samkvæmt reglugerðinni. Þá sé umrætt deiliskipulag sem byggt sé á ekki endanlegt. Íbúar í fleiri húsum við götuna hafi sammælst um að styðja kæruna.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að fyrsta skóflustunga að hinum nýja búsetukjarna hafi verið tekin 8. desember 2021. Daginn áður hafi byggingarfulltrúi gefið út heimild til jarðvegskönnunar í samræmi við gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Byggingarleyfi hafi verið gefið út 16. desember 2021 í samræmi við gildandi deili­skipulag og samþykkta aðaluppdrætti. Á skipulagsuppdrætti sé lega nýbyggingar í landi sýnd og leiðbeinandi gólfkóti gefinn. Á aðaluppdráttum komi fram endanlegar hæðir nýbyggingar með hæðarkótum og legu húsnæðisins í landinu gerð skil. Þá hafi framkvæmdirnar og áætlaður framkvæmdatími verið kynntur í Nesfréttum og á heimasíðu Seltjarnarnesbæjar.

 Niðurstaða: Fyrir liggur að 7. desember 2021 gaf byggingarfulltrúi út leyfi til jarðvegs­könnunar á lóðinni Kirkjubraut 20. Þá var byggingarleyfi gefið út vegna fyrirhugaðra fram­kvæmda á lóðinni 16. desember 2021. Samkvæmt 4. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er heimilt að veita umsækjanda leyfi til að kanna jarðveg á framkvæmdasvæði án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út. Verður ekki annað séð að framkvæmdir þær sem voru hafnar áður en byggingarleyfi var gefið út hafi verið í samræmi við framangreint ákvæði.

Markmið reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða er að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum af völdum hávaða, sbr. 1. gr. reglugerðarinnar. Í 9. gr. er fjallað um hávaða vegna framkvæmda og segir m.a. í 2. mgr. ákvæðisins að framkvæmdaraðili skuli kynna fyrir íbúum nærliggjandi svæða með sannarlegum hætti um háværar framkvæmdir, s.s. byggingar, gröft, sprengingar og gatnagerð á íbúðarsvæðum eða nágrenni þeirra, áður en framkvæmd hefst. Fram skuli koma tímalengd framkvæmdar, hvaða þættir hennar séu líklegir til að valda ónæði og hvenær unnið verði að þeim þáttum.

Útgefandi byggingarleyfis hefur eftirlit með því að byggt sé í samræmi við samþykkt hönnunargögn, lög og reglugerðir sem um mannvirkjagerðina gilda, sbr. 16. gr. laga um mannvirki. Þá skulu heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðar um hávaða undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, sbr. 2. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar. Hafi farist fyrir að kynna framkvæmdina samkvæmt 9. gr. reglugerðarinnar um hávaða verður það hins vegar ekki talið hafa áhrif á gildi byggingarleyfisins þótt rétt hefði verið að kynna nærliggjandi íbúum framkvæmdina sérstaklega, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 9. gr.

Samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði er byggingarmagn fyrir umrædda lóð að hámarki 560 m2 og má þar reisa hús á einni hæð með samtals sex íbúðum. Hámarksmænishæð er 4,5 m og mesta vegghæð 3,5 m. Þá er hámarks­nýtingarhlutfall 0,3. Á sniðmynd deiliskipulagsuppdráttar er gólfkóti heimilaðrar nýbyggingar 22,50. Fram kemur að gólfkótinn sé ekki bindandi og gæti breyst við frekari hönnun. Í gr. 5.5.4. í byggingarreglugerð kemur fram að skýringaruppdrætti, svo sem götumyndir, skuggavarps­teikningar og sniðmyndir, líkön og hreyfimyndir sé heimilt að nota til að sýna áhrif af og dæmi um útfærslu deiliskipulags. Skýringargögn samkvæmt framansögðu eru ekki bindandi nema það sé sérstaklega tekið fram. Samkvæmt framangreindu er ekki gerð krafa um að skilgreindur sé bindandi gólfkóti í deiliskipulagi.

Á aðaluppdráttum með hinu kærða byggingarleyfi er gólfkóti fyrirhugaðs húss sýndur 22,50. Hámarksmænishæð er 4,32 m og mesta vegghæð 3,42 m. Verður ekki annað séð en að hið kærða byggingarleyfi hafi verið í samræmi við framangreint deiliskipulag svo sem kveðið er á um í 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki talið að hið kærða byggingarleyfi sé haldið þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað getur gildi þess. Verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.

Rétt þykir að benda á að leiði hin kærða framkvæmd til hávaða umfram leyfileg mörk geta kærendur snúið sér til heilbrigðisnefndar, sem lætur framkvæma eftirlitsmælingar á hávaða eftir þörfum samkvæmt 2. mgr. 11. gr. reglugerðar um hávaða og getur eftir atvikum beitt þvingunarúrræðum samkvæmt 12. gr. sömu reglugerðar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 16. desember 2021 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir sex íbúða sambýli að Kirkjubraut 20.