Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

61/2024 Sindragata

Með

Árið 2024, mánudaginn 12. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 61/ 2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 14. maí 2024 um að samþykkja byggingaráform fyrir lóðina að Sindragötu 4A.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júní 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra íbúar og fasteignareigendur að Sindragötu 4A og Aðalstræti 8, 10 og 16 á Ísafirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 14. maí 2024 að samþykkja byggingaráform á lóð nr. 4A við Sindragötu vegna nýs fjöleignarhúss á þremur hæðum ásamt kjallara. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 15. júlí 2024.

Málavextir: Sindragata er á Eyrinni á Ísafirði og er í gildi deiliskipulag fyrir Eyrina frá árinu 1998. Tilheyrir það svæði sem hér um ræðir atvinnu- og íbúðarsvæði á Wardstúni og eru á skipulagsuppdrætti sýndar þar fjórar lóðir. Með breytingu á deiliskipulaginu árið 1999 fékk ein lóðin númerið 4 og með breytingu árið 2018 var þeirri lóð skipt í tvær lóðir, nr. 4 og 4A. Á síðarnefndu lóðinni var gert ráð fyrir tveimur íbúðarbyggingum með samtals 20–23 íbúðum og nýtingarhlutfall um leið hækkað úr 0,5 í 1,0 í samræmi við stefnu Aðalskipulags Ísafjarðarbæjar 2008–2020 um þéttingu byggðar.

 Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar 14. maí 2024 voru samþykkt byggingar-áform fyrir lóð nr. 4B við Sindragötu. Af samanburði fyrirliggjandi aðaluppdrátta, sem ekki eru áritaðir, og deiliskipulagsuppdráttar frá greindri breytingu árið 2018 verður ráðið að hin umdeildu byggingaráform taki til hluta lóðar nr. 4A við Sindragötu enda ekki til staðar lóð nr. 4B við götuna, hvorki samkvæmt deiliskipulagi né fasteignaskrá. Á austanverðri lóð nr. 4A við Sindragötu er fyrir fjöleignarhús með 13 íbúðum og hefur með hinni kærðu ákvörðun verið samþykkt að því til viðbótar verði á lóðinni byggt þrílyft íbúðarhús með níu íbúðum og kjallara.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er byggt á því að byggingarmagn á lóðinni sé komið yfir hámarksnýtingarhlutfall samkvæmt deiliskipulagi. Nýtingarhlutfallið hafi farið yfir leyfilegt hámark af þeirri ástæðu að allar svalir hafi í skráningartöflu verið felldar undir C-rými, en samkvæmt „leiðbeiningum um skráningu mannvirkja“ sé lokunarflokkun svala með þeim hætti að einungis svalir með enga lokun að ofan, t.d. svalir á efstu hæð, falli í lokunarflokk C. Þar sem ráða megi af hinum samþykktu byggingaráformum, svo og af skuggavarpsmyndum, að allir svalir hússins verði lokaðar að ofan sé ljóst að flokka beri þær í A- eða B-rými, sem séu þau rými sem reiknuð séu til nýtingarhlutfalls ólíkt rýmum í flokki C sem séu undanskilin. Af þessum sökum séu byggingaráformin ekki í samræmi við skipulag sem leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að ágreiningur málsins sé í reynd ekki um nýtingarhlutfall heldur um að sambærileg bygging og gert sé ráð fyrir í deiliskipulagi verði byggð á lóðinni. Í deiliskipulagi sé gert ráð fyrir að á lóðinni verði tvær íbúðarbyggingar með samtals 20–23 íbúðum og hafi kærendur ekki getað gert ráð fyrir öðru. Ekki standi til að breyta deiliskipulagi hvað þetta varði enda eigi að þétta byggð á svæðinu.

Líkt og í ljós hafi komið hafi nýtingarhlutfall ekki verið rétt reiknað á framlögðum uppdráttum þar sem svalir á 1. og 2. hæð hafi ranglega verið færðar í lokunarflokk C, í stað lokunarflokks B. Svalir á 3. hæð verði hins vegar opnar að ofan og séu þær réttilega færðar í C-flokk. Hlutdeild nýbyggingar í nýtingarhlutfalli lóðar sé því 0,55 sem leiði til þess að nýtingarhlutfall á lóðinni verði hærra en 1,0 sem sé það nýtingarhlutfall sem komi fram í deiliskipulagi. Um óverulega aukningu sé þó að ræða en nýtingarhlutfallið muni, gangi byggingaráformin eftir, verða að hámarki 1,1 en að lágmarki 1,06. Ekki verði séð að þessi óverulega aukning á nýtingarhlutfalli muni hafa áhrif á kærendur að neinu leyti og sé munur á stærð fyrirhugaðrar byggingar frá því sem gert sé ráð fyrir í deiliskipulagi það óverulegur að ekki verði séð að slíkt frávik muni hafa teljandi áhrif á þá. Leiði frávikið t.a.m. ekki til breytinga á skuggavarpi en kærendur hafi áður mótmælt fyrirhuguðu mannvirki með vísan til skuggavarps.

Þá sé rétt að benda á að í ljós hafi komið að hús það sem fyrir sé á lóð nr. 4A við Sindragötu hafi verið vanskráð að því er fermetrafjölda varði. Ástæðu þess megi rekja til þess að í skráningartöflu hafi stærð svala ekki verið reiknuð til nýtingarhlutfalls. Af því leiði að fasteignin sé skráð til fasteignamats minni en hún sé í reynd. Sé því ljóst að eigendur þurfi að gera viðhlítandi breytingar á eignaskiptayfirlýsingu til leiðréttingar.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um kærumál þetta.

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Gagnaöflun við meðferð þessa máls: Úrskurðarnefndin óskaði eftir því við Ísafjarðarbæ að fá senda aðaluppdrætti vegna þeirra byggingaráforma sem um er fjallað í máli þessu og bárust þeir nefndinni 24. júlí 2024. Uppdrættirnir voru ekki áritaðir af byggingarfulltrúa, en þar sem slíkir uppdrættir hafa ekki borist nefndinni þrátt fyrir ítrekanir, verða þeir lagðir til grundvallar í máli þessu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykki byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 14. maí 2024 á byggingaráformum á lóð nr. 4A við Sindragötu.

 Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kærendur eru íbúar og eigendur fasteigna á Eyrinni á Ísafirði. Með hliðsjón af staðháttum og staðsetningu fyrirhugaðs mannvirkis verður ekki séð að hagsmunir þeirra kærenda sem eru íbúar Aðalstrætis 16 muni skerðast á nokkurn hátt að því er varðar landnotkun, skuggavarp eða innsýn. Þá verður aðkoma að húsinu og bílastæðum um Sindragötu og verður því ekki séð að grenndaráhrif vegna aukinnar umferðar verði teljandi ef nokkur fyrir þá og verður kæru þeirra því vísað frá nefndinni. Fasteignir annarra kærenda eru ýmist á sömu lóð og hin fyrirhugaða nýbygging eða á lóðum sem liggja að henni. Af staðháttum er ljóst að byggingaráformin varða grenndarhagsmuni þeirra og verður þeim því játuð kæruaðild í máli þessu.

Í 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur m.a. fram að fyrirhuguð mannvirkjagerð sem sótt sé um byggingarleyfi fyrir þurfi að vera í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Þetta má einnig sjá í 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna, sem gerir það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirkið samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu.

Ágreiningur þessa máls lýtur að því hvort hin kærðu byggingaráform séu í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem krafa er gerð um í 11. gr. og 1. tl. 13. gr. laga um mannvirki. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir Eyrina er nýtingarhlutfall lóðarinnar að Sindragötu 4A 1,0. Er óumdeilt að byggingaráformin fela í sér að nýtingarhlutfall lóðarinnar verður hærra en gildandi deiliskipulag heimilar, þar sem láðst hefur að reikna svalir á 1. og 2. hæð til nýtingarhlutfalls. Af hálfu bæjaryfirvalda hefur verið byggt á því að þetta sé óverulegur annmarki og að nýtingarhlutfall lóðarinnar muni verða á bilinu 1,06–1,1. Þá sýnir óáritaður aðaluppdráttur nr. 106, dags. 7. maí 2024, að svalir á 3. hæð séu yfirbyggðar og beri því að flokka þær í lokunarflokk B. Um leið hefur verið upplýst um að stærð þess húss sem fyrir sé á lóðinni sé ekki rétt skráð þar sem einnig hafi láðst að reikna svalir þess húss til nýtingarhlutfalls. Verður af því áætlað að nýtingarhlutfallið sé enn hærra en bæjaryfirvöld hafa haldið fram.

Samantekið verður með þessu að álíta hina kærðu ákvörðun haldna svo verulegum annmörkum að fella verði hana úr gildi.

 

 Samkvæmt Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008–2020, sem tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 20. apríl 2010, tilheyrir sá hluti Eyrarinnar á Ísafirði sem hér um ræðir miðsvæði, M4. Um svæðið segir að það sé líflegt og með mjög fjölbreyttri starfsemi, m.a. verslun, þjónustu, stofnunum og íbúðum. Um miðsvæði segir að gert sé ráð fyrir því að þar byggist upp þéttur og líflegur og aðlaðandi kjarni með fjölbreyttri verslun og þjónustu og íbúðum. Áhersla verði lögð á það að gera svæðin aðlaðandi með verndun gamalla húsa og annarra einkenna sem og snyrtilegu umhverfi, í samræmi við ákvæði hverfisverndar.

Í greinargerð aðalskipulagsins í kafla um yfirbragð byggðar í þéttbýli kemur fram að markvisst verði unnið að því að yfirbragð miðsvæða verði sem líkast því sem það var á fyrsta hluta 20. aldar, en nýrri hverfi fá að þróast í takt við tíðaranda síðari tíma. Áhersla verði lögð á það að ná samfelldum bæjarhlutum í þetta horf til að ná sem mestum heildaráhrifum. Þá kemur fram að skipulag í tengslum við nýbyggingar og uppbyggingu eldri húsa í Ísafjarðarbæ, skuli taka mið af stærðum og hlutföllum eldri húsa í umhverfinu og við staðsetningu skuli taka mið af sögulegum arfi. Loks kemur fram að rammaskipulag verði unnið fyrir hvert hverfisverndar­svæði gömlu bæjanna, þar sem stefna aðalskipulagsins verði nánar útfærð og fjallað í smáatriðum um framkvæmd uppbyggingar gömlu húsanna.

Í deiliskipulagi fyrir Eyrina á Ísafirði frá árinu 1998 kom fram að skilmálar væru rúmir fyrir ný­byggingar á Wardstúni en huga bæri að samspili þeirra við Miðkaupstaðarhúsin og ásýnd frá höfninni. Líkt og fram kom í málavöxtum var mælt fyrir um að á reitnum væri nýtingarhlutfallið að hámarki 0,5. Með breytingu á deiliskipulaginu árið 2018 var lóð nr. 4 við Sindragötu skipt í tvær lóðir, þ.e. nr. 4 og 4A. Síðarnefnda lóðin varð 2.347,3 m2 að flatarmáli og kom fram að nýtingarhlutfall hennar væri hækkað úr 0,5 í 1,0 til samræmis við markmið Aðalskipulags Ísafjarðarbæjar 2008–2020 um þéttingu byggðar.

Úrskurðarnefndin vekur athygli á því að í ljósi framangreindrar stefnumótunar í aðal- og deiliskipulagi hefði verið tilefni til sérstakrar umfjöllunar um það við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hvort tryggt væri að byggingaráformin samrýmdust stefnumótuninni að þessu leyti.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 14. maí 2024 um að samþykkja byggingaráform fyrir lóðina að Sindragötu 4A.

60/2024 Búrfellshólmi

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 8. ágúst 2024, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur. Arnór Snæbjörnsson formaður tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 60/2024, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 8. maí 2024 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Búrfellshólma.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júní 2024, er barst nefndinni 4. s.m., kærir Náttúrugrið ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 8. maí 2024 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Búrfellshólma fyrir allt að 50.000 m3. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi 18. júní 2024.

Málavextir: Með úrskurði skipulagsstjóra ríkisins frá 1. mars 2000 var fallist á vikurnám á Hekluhafi austan við Búrfell í Gnúpverjahreppi, en samkvæmt úrskurðinum mun vikurnám hafa farið fram á svæðinu frá árinu 1969. Taldi skipulagsstjóri að fyrirhuguð framkvæmd myndi ekki hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir eða samfélag, en setti það skilyrði í úrskurði sínum að mörk vinnslusvæðisins yrðu ákveðin í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Í úrskurðinum var jafnframt vísað til þess að fyrir lægi sérvinnsluleyfi, útgefið af iðnaðarráðuneytinu 1. júlí 1998, til tuttugu ára þar sem námusvæðið væri skilgreint sem svæði utan eignarlanda austan Búrfells í Gnúpverjahreppi og vestan Þjórsár. Það væri um 140 ha og áætluð efnistaka á gildistíma leyfisins væri 80–140.000 m3 árlega. Af málsgögnum má ráða að starfsemi í námunni féll niður og að árið 2021 var í það ráðist að leita tilboða um vikurnám á svæðinu.

 Á fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps 8. maí 2024 var tekin fyrir og samþykkt umsókn leyfishafa um framkvæmdaleyfi vegna áframhaldandi efnistöku í tilraunaskyni í Búrfellshólma fyrir 50.000 m3. Í umsókninni kom fram að áætlað væri að hefja rannsóknir á vordögum er standa myndu yfir fram á haustið 2024 og tilgangur þeirra væri að öðlast betri skilning á efnisgæðum og tilhögun vinnslu og nýtingar. Þá stæði yfir vinna við umhverfismat og breytingu á aðalskipulagi sem miðaði að stækkun efnistökusvæðis. Hið kærða framkvæmdaleyfi var gefið út 6. júní s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að mál þetta varði framkvæmdaleyfi á vikri, sem verði fluttur af svæðinu til vinnslu og útflutnings. Um sé að ræða hluta af framkvæmd sem fjallað hafi verið um í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins, dags. 1. mars 2000. Þar komi fram að heimilt sé að taka allt að 140.000 m3 vikurs árlega á 20 ára tímabili á um 140 ha svæði. Í niðurstöðukafla úrskurðarins hafi verið lögð áhersla á að ætla mætti „að svigrúm sé til þess að takmarka námusvæðið enn frekar“. Þá sé bent á að með úrskurði óbyggðanefndar 21. mars 2002 í máli nr. 7/2000 hafi umrætt svæði verið úrskurðað þjóðlenda og gildi því um það fyrirmæli laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Í hinni kærðu ákvörðun skorti allar upplýsingar sem lög kveði á um. Ákvörðunin standist ekki grundvallarákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Engin rannsókn virðist hafa farið fram við undirbúning ákvörðunarinnar, engin vísbending sé um að sveitarstjórn hafi lagt álit Skipulagsstofnunar til grundvallar ákvörðun sinni og engan rökstuðning sé að finna fyrir leyfinu, líkt og skylt sé að lögum. Nýting auðlinda úr jörðu sé háð leyfi Orkustofnunar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu en ekki verði séð að slíkt leyfi liggi fyrir. Undanþága 8. gr. sömu laga eigi aðeins við um eignarlönd. Þá liggi ekki fyrir leyfi forsætisráðuneytisins, svo sem áskilið sé í fyrri málslið 2. mgr. 31. gr. laga nr. 57/1998 en samningur um hagnýtingu geti ekki komið því í stað. Ekki liggi heldur fyrir leyfi Fiskistofu skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði.

Leyfisveitandi hafi ekki tekið mið af bindandi umhverfismarkmiðum laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála eða fjallað um áhrif ákvörðunarinnar á gæði vatnshlots. Ekki hafi á neinu tímamarki farið fram mat á áhrifum framkvæmdar skv. 10. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Sé bent á alvarlegar athugasemdir sem hafi borist í umsögnum í apríl 2024 við matsáætlun og í niðurstöðu Skipulagsstofnunar í úrskurði frá 1. mars 2000. Þá sé það verulegur annmarki að hvorki sé í hinni kærðu ákvörðun né í aðalskipulagi sveitarfélagsins fjallað um áskilnað 8., sbr. 7. gr. laga nr. 60/2013, sem varði nauðsynlegan vísindalegan grundvöll ákvarðana og áætlana.

Málsrök Skeiða- og Gnúpverjahrepps: Sveitarfélagið tekur fram að um sé að ræða áframhaldandi nýtingu á svæði sem skilgreint sé sem efnistökusvæði í aðalskipulagi og hafi hún sætt umhverfismati í tíð eldri laga. Nýtingin rúmist innan þess rúmmetrafjölda sem það umhverfismat hafi náð til. Um það sé nánar vísað til álits tilgreindrar verkfræðistofu samkvæmt minnisblaði, dags. 31. maí 2019. Um sé að ræða námu sem hafi staðgreiningarnúmer E33 í aðalskipulagi sveitarfélagsins 2017–2029 og sem „geymi 2.000.000 m3 efni“ á 235 ha svæði.

Hið kærða leyfi sé eingöngu veitt til rannsókna og sé leyfishafa skylt að lúta skilmálum útboðsgagna og aðalskipulags við vinnsluna að teknu tilliti til úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins frá 1. mars 2000 um mat á umhverfisáhrifum vikurnáms í Hekluhafi við Búrfell. Í útboðsskilmálum komi m.a. fram að ganga þurfi frá efnistökusvæði strax og efnistöku ljúki þannig að það „falli aftur að umhverfi sínu og líkist sem mest landformum og nágrenni þess“. Við frágang vegna efnistökunnar skuli einnig miða við leiðbeiningar í ritinu Námur – efnistaka og frágangur, sem gefið hafi verið út af m.a. Vegagerðinni og umhverfisráðuneyti. Sé því mótmælt að framkvæmdaleyfið hafi ekki verið veitt á lögmætum grunni enda liggi fyrir umhverfismat auk þess sem það byggi á aðalskipulagi. Þá sé unnið að mati á umhverfisáhrifum aukinnar vikurvinnslu á svæðinu.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er tekið fram að hann hafi verið þátttakandi í útboði um efnistöku og nýtingu í Búrfellshólmsnámu og hafi verið vísað til þess að það svæði væri 189 ha og magn vikurs á bilinu 3–5 milljónir m3. Gerður hafi verið samningur milli leyfishafa og hreppsins um efnistökuna, dags. 14. september 2023, en áskilið hafi verið í útboðinu að forsenda þess að samið yrði við verktaka væri að hann mundi sjá um og kosta umhverfismat. Sú efnistaka sem fari nú fram varði aðeins þegar raskað námusvæði og rannsóknir og tilraunir með efni sem þar sé að finna, en svæðið sé skilgreint sem námusvæði í aðalskipulagi. Þá sé því mótmælt með vísan til 1. mgr. 8. gr. a. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu að framkvæmdin sé háð leyfi Orkustofnunar skv. 6. gr. sömu laga.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Í viðbótarathugasemdum eru ítrekuð fyrri sjónarmið. Framkvæmdaleyfið rúmist ekki innan þeirrar framkvæmdar sem hafi verið umhverfismetin og sé því ekki í samræmi við matið. Jafnframt sé vísað til þess að í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins frá 1. mars 2000, hafi komið fram að helstu umhverfisáhrif framkvæmdar séu sjónræn á meðan framkvæmdir standi yfir. Með stóraukinni ferðamennsku séu áhrifin orðin mun meiri, en um sé að ræða helstu ferðaleið fólks sem sæki í þá upplifun sem hálendið bjóði upp á. Þá virðist skilyrðum sem sett hafi verið í úrskurðinum í engu hafa verið sinnt. Magn efnis sem fyrirhugað sé að taka fylli a.m.k. 13 vörubílahlöss á dag væri ekið alla daga vikunnar frá leyfisveitingadegi í fulla fimm mánuði. Óljóst sé hvað slíkt magn efnis geri til að auka þekkingu. Sé málflutningur stjórnvaldsins og grundvöllur ákvörðunar fordæmdur að þessu leyti, en brotið sé bæði gegn lögmætisreglu og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem og 8. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd með því að byggja ákvörðun á slíkum ómálefnalegum undirbúningi.

Viðbótargagnaöflun: Með tölvubréfi 5. júlí 2024 beindi úrskurðarnefndin fyrirspurn til Skeiða- og Gnúpverjahrepps og óskaði frekari gagna. Í svörum sveitarfélagsins sem bárust 16. júlí s.á. var m.a. upplýst að framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út 6. júní s.á., en ákvörðun um leyfið hafi ekki verið birt. Þá væru framkvæmdir samkvæmt hinu kærða rannsókarleyfi ekki háðar öðrum leyfum, en leyfið varði heimild til að rannsaka svæðið í tengslum við vinnslu aðalskipulagsbreytingar og umhverfismats á svæðinu. Þá kom fram að ef selja ætti efnið væri það háð starfsleyfi frá heilbrigðiseftirlitinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps að veita framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Búrfellshólma fyrir allt að 50.000 m3. Kæruheimild er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. nánar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en af gögnum sem úrskurðarnefndin hefur kynnt sér uppfyllir kærandi skilyrði þeirrar greinar. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b. lið málsgreinarinnar. Að virtum þeim sjónarmiðum sem rakin verða hér á eftir og varða undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar verður að fella hana hér undir, enda er skylt að tilkynna til Skipulagsstofnunar skv. 19. gr. laga nr. 111/2021 um efnistöku þar sem áætlað er að raska 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m3 eða meira, sbr. lið 2.02 í 1. viðauka við lögin.

Eins og atvikum er hér háttað verður kæra í máli þessu því tekin til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytinga lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í 2. mgr. lagagreinarinnar er sérstaklega tekið fram að framkvæmdaleyfi vegna efnistöku skuli gefið út til tiltekins tíma og skuli í leyfinu gerð grein fyrir stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt sé að nýta samkvæmt því, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði. Þá er í 3. mgr. mælt fyrir um að sá sem óski framkvæmdaleyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar, ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar sé kveðið á um í reglugerð. Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi skal slíkri umsókn fylgja m.a. afstöðumynd, hönnunargögn, eftir því sem við eigi, lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum. Þá skal þess getið að í kafla 2.3.9 í greinargerð Aðalskipulags Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029 er mælt fyrir um að með umsókn um framkvæmdaleyfi skuli leggja fram verkáætlun og tímasetta nýtingaráætlun ásamt afstöðumynd og áætlun um frágang að vinnslu lokinni.

Í umsókn um hið kærða leyfi kom fram að um væri að ræða áframhaldandi efnistöku á vikri í tilraunaskyni. Sé tilgangur þessa að öðlast betri skilning á vinnslu á svæðinu, bæði hvað varði efnisgæði sem og til að ákvarða hvernig best skuli haga vinnslu og nýtingu á efni innan svæðisins. Svæðið sé innan þeirra marka sem skilgreint sé sem efnistökusvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins, en notast verði við stórvirkar vinnuvélar við vinnslu efnisins og það keyrt í burtu til frekari vinnslu og rannsókna. Umsóknin var samþykkt á fundi sveitarstjórnar 8. maí 2024 með svohljóðandi bókun: „Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkir með fimm atkvæðum að veita framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Búrfellshólma fyrir allt að 50.000 m3“. Með umsókninni fylgdi óglögg skjámynd úr aðalskipulagsuppdrætti af syðsta hluta efnistökusvæðis í Búrfellshólma (E33) og kom fram að miðað yrði við þau mörk sem sæjust á þeirri mynd. Með þessu uppfyllti umsókn um hið kærða leyfi ekki áskilnað laga nr. 123/2010, reglugerðar nr. 772/2012, né ákvæði aðalskipulags, þar sem ekki var lögð fram nánari lýsing á framkvæmdinni, með verkáætlun og nýtingaráætlun ásamt áætlun um hvernig staðið yrði að frágangi svæðisins að vinnslu lokinni. Hefði sveitarfélaginu, sem leyfisveitanda, því verið rétt við svo búið að rannsaka málið nánar áður en leyfi yrði gefið út, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 25. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmdar sem fellur undir þau lög, fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Í báðum lögunum er svo fjallað nánar um hvernig líta skuli til álits stofnunarinnar við leyfisveitingu vegna matsskyldrar framkvæmdar. Lög nr. 111/2021 tóku gildi 1. september 2021, en í 1. ákvæði til bráðabirgða við lögin segir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir þau lög er lokið við gildistöku laganna skuli ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar, gilda. Verður þá einnig að athuga að með lögum nr. 74/2005 um breytingu á lögum nr. 106/2000 voru gerðar verulegar breytingar á matsferli matsskyldra framkvæmda og um leið tekið fram, í 17. gr. breytingarlaganna, að í þeim tilvikum þegar matsferli framkvæmdar sem undir lögin félli væri lokið samkvæmt eldri lögum, en ekki hefðu verið veitt öll leyfi vegna hennar, skyldi við leyfisveitingu fara samkvæmt þeim lögum.

Með breytingarlögum nr. 74/2005 var horfið frá því fyrirkomulagi sem áður var bundið í 11. gr. laga nr. 106/2000 að Skipulagsstofnun skyldi kveða upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum og taka í honum ákvörðun um hvort fallist væri á viðkomandi framkvæmd, með eða án skilyrða, eða hvort lagst væri gegn henni vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa. Voru þess í stað sett ákvæði í 11. gr. laga nr. 106/2000 um að Skipulagsstofnun skuli gefa rökstutt álit sitt á því hvort matsskýrsla framkvæmdaraðila uppfylli skilyrði laga um mat á umhverfisáhrifum og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt.  Samhliða þessum breytingum var leitt í lög að við útgáfu leyfis til matsskyldra framkvæmda skyldi leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar.

Með hinni kærðu ákvörðun tók sveitarstjórn til afgreiðslu beiðni um framkvæmdaleyfi til efnistöku í tilraunaskyni. Við meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndinni hefur sveitarfélagið vísað til úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins frá 1. mars 2000 um umhverfisáhrif vikurnáms á Hekluhafi við Búrfell í Gnúpverjahreppi. Var úrskurður þessi kveðinn upp í gildistíð laga nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum. Í matsskýrslu þeirrar framkvæmdar, dags. í október 1999, var fjallað um áframhaldandi vikurvinnslu á svæðinu austan Búrfells (Hekluhafs) og að teknir yrðu allt að 3.000.000 m3 af vikri á næstu 20 árum eða um 150.000 m3 á ári. Lýst var ráðgerðu vinnsluferli, þ.m.t. haugsetningu efnis, hreinsun þess og meðferð frákastsefnis, auk þess að fjallað var um valkosti og helstu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Hefur úrskurður skipulagsstjóra að geyma umfjöllun um matsskýrsluna og var fallist á framkvæmdina eins og henni var lýst í frummatsskýrslu og viðbótargögnum framkvæmdaraðila, með því skilyrði að mörk vinnslusvæðisins yrðu nánar ákveðin í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Í niðurstöðukafla úrskurðarins var m.a. vísað til ákvæða þágildandi náttúruverndarlaga varðandi vinnslu og frágang námasvæða sem og reglugerðar nr. 514/1995 um vinnslu og nýtingu vikurs.

Í umsögn sinni til úrskurðarnefndarinnar hefur sveitarfélagið lagt áherslu á að um sömu framkvæmd sé að ræða og lýst var í téðum úrskurði og um leið m.a. vísað til þess að vinnslan sé í tilraunaskyni. Að auki hefur sveitarfélagið haldið því fram að frágangur vegna efnistöku hafi verið tryggður með setningu útboðsskilmála sem vísi til leiðbeininga Vegagerðarinnar og fleiri aðila. Að áliti úrskurðarnefndarinnar verður þó ekki hjá því litið að úrskurður skipulagsstjóra frá 1. mars 2000 varðaði áform annars aðila sem voru til mikilla muna umfangsmeiri og miðuð við tuttugu ára tímabil, sem er liðið. Þá verður ekki ráðið af undirbúningi ákvörðunarinnar, að hvaða marki þau áform gengu eftir eða hvert sé ástand svæðisins, en af málsgögnum má ráða að frágangi þess hafi verið ábótavant.

Að teknu tilliti til þessa var sá annmarki á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar að ekki var tekin rökstudd afstaða til þess í upphafi hvort úrskurður skipulagsstjóra ríkisins og umhverfismat þeirrar framkvæmdar sem þar var fjallað um næði til þeirrar framkvæmdar sem heimiluð var með hinu kærða leyfi. Vandaðri undirbúningur ákvörðunarinnar að þessu leyti hefði eftir atvikum getað leitt til þess að málsmeðferð umsóknar um hið kærða leyfi yrði eftir atvikum felld í þann farveg að tilkynnt yrði um áformin til Skipulagsstofnunar sem nýja eða breytta framkvæmd, sbr. liði 2.02 og 13.02 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021.

Með vísan til framangreinds verður ekki hjá því komist að fella hið kærða leyfi úr gildi.

Af hálfu kæranda hafa verið færð fram sjónarmið í máli þessu um að skylt hefði verið við undirbúning hins kærða leyfis að gæta að ákvæðum laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Með þeim lögum eru m.a. gerðar kröfur til leyfisveitingarstjórnvalds um rökstuðning fyrir því að framkvæmdir feli eigi í sér hnignun vatnsgæða sem fari í bága við meginreglur laga um stjórn vatnamála. Það verður ekki séð að gætt hafi verið þessarar skyldu við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar, en þar sem nefndin hefur þegar í úrskurði þessum komist að þeirri niðurstöðu að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi hefur ekki sérstaka þýðingu að fjalla nánar um þetta atriði.

Þá kemur fram í 5. tl. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja upplýsingar um fyrirliggjandi samþykki og/eða leyfi annarra leyfisveitenda sem framkvæmdin kann að vera háð, ásamt upplýsingum um önnur leyfi sem framkvæmdaraðili er með í umsóknarferli eða hyggst sækja um. Þegar lög gera með þessum hætti ráð fyrir því að ákvörðun stjórnvalds sé háð því að fyrir liggi ákvörðun annars stjórnvalds leiðir af 10. gr. stjórnsýslulaga rík skylda fyrir fyrrnefnda stjórnvaldið að afla með forsvaranlegum hætti nægilegra upplýsinga um hvort ákvörðun hins síðarnefnda stjórnvalds liggi fyrir og þá hvers efnis hún er. Af hálfu kæranda hefur verið haldið fram að afla hefði þurft nýtingarleyfis samkvæmt 6. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, áður en framkvæmdaleyfi yrði gefið út, m.a. í ljósi þess að námasvæðið er í þjóðlendu. Að auki skorti á skýrt samþykki forsætisráðuneytis fyrir framkvæmdinni skv. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Þá hefur kærandi jafnframt bent á skilyrði laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði fyrir framkvæmdum í grennd við veiðivötn.  Í ljósi niðurstöðu nefndarinnar í máli þessu er ekki ástæða til að fjalla nánar um þessi sjónarmið, en sveitarfélaginu er bent á að gæta að þeim sjónarmiðum komi til þess að sambærileg umsókn um framkvæmdaleyfi komi til meðferðar að nýju.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 8. maí 2024 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Búrfellshólma.

Sérálit Arnórs Snæbjörnssonar

Leyfisveitandi, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, hefur við meðferð þessa máls fyrir úrskurðarnefndinni bent á að um sé að ræða áframhaldandi nýtingu á því svæði sem fjallað var um í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins um vikurnám í Hekluhafi við Búrfell í Gnúpverjahreppi  frá 1. mars 2000. Hafi efnistakan með því þegar sætt umhverfismati í tíð eldri laga, en hún rúmist innan þess rúmmetrafjölda sem það umhverfismat hafi náð til. Verður að mínu áliti að leggja þetta til grundvallar. Þess skal að vísu getið að umfjöllun í téðum úrskurði miðaði við tímabundin áform sem tóku síðan mið af sérvinnsluleyfi ráðherra iðnaðarmála, sem lá þá fyrir. Í frummatsskýrslu vegna vikurnáms í Hekluhafi við Búrfell frá því í október 1999, sem um var fjallað í úrskurðinum, var í samræmi við sérvinnsluleyfið gerð áætlun um árlegt efnismagn, sem tók mið af áætluðu heildarmagni á svæðinu, en um leið var tekið fram að efnistaka mundi fara fram svo lengi sem starfsleyfi væri í gildi, það er að segja a.m.k. næstu 20 árin. Með þessu var í matsferli framkvæmdarinnar fjallað heildstætt um efnistökuna og eftir atvikum gert ráð fyrir því að til endurnýjunar leyfis gæti komið, eftir þeim reglum sem þá mundu gilda. Er eðli framkvæmdarinnar sem efnistaka einnig þannig að miðað er við að námur verði fullnýttar.

Samkvæmt b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála teljast umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af ákvörðunum um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana, m.a. vegna ætlaðs brots á þátttökuréttindum almennings með athöfnum eða athafnaleysi eða annars ágalla sem kann að hafa verið á málsmeðferð.  Samkvæmt þessu falla undir b-lið leyfi vegna framkvæmda sem eru matsskyldar skv. IV. kafla laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, eða eftir því sem við á í eldri lögum sama efnis. Til framkvæmdar samkvæmt lögunum telst hvers konar nýframkvæmd eða breyting á eldri framkvæmd sem fellur undir lögin og starfsemi sem henni fylgir. Hin kærða ákvörðun er mjög óveruleg að umfangi í samanburði við þá framkvæmd sem háð var mati á umhverfisáhrifum í öndverðu og leyfi var veitt fyrir í heild sinni og sætti málsmeðferð af til þess bærum stjórnvöldum á sviði umhverfismála. Var með henni engin heimild veitt til þess, svo ég fái séð, að ráðist verði í framkvæmdir, sem feli í sér aukið álag á umhverfið, svo kalli á nýja málsmeðferð. Að þessu virtu álít ég, með vísun til b-liðs 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, að kærandi njóti ekki kæruaðildar að máli þessu og því verði að vísa því frá nefndinni.

78/2024 Hauganes

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 31. júlí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 78/2024, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 16. apríl 2024 um óverulega breytingu á Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 og afgreiðslu varðandi breytingu á deiliskipulagi Hauganess vegna Sjávarstígs 2.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 24. júlí 2024, kærir eigandi íbúðar að Aðalgötu 8, Hauganesi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 16. apríl s.á. að samþykkja tillögu um óverulega breytingu á Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 vegna Sjávarstígs 2, Hauganesi. Skilja verður málskot þetta svo að jafnframt sé kærð afgreiðsla sveitarstjórnar um breytingu á deiliskipulagi Hauganess vegna Sjávarstígs 2.

Málsatvik og rök: Á fundi sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar hinn 16. apríl 2024 var samþykkt að gerð yrði óveruleg breyting á Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 vegna áforma um nýtt 0,05 ha iðnaðarsvæði á Hauganesi. Á sama fundi frestaði sveitarstjórn afgreiðslu á tillögu um breytingu á deiliskipulagi Hauganess vegna Sjávarstígs 2. Tillagan gerði ráð fyrir nýrri 438 m2 lóð fyrir „hafnsækna“ starfsemi með 50 m2 byggingarheimild. Kærandi færir fram rök um að undirbúningur þessa hafi verið haldinn annmörkum og krefst ógildingar.

Niðurstaða: Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem ber undir Skipulagsstofnun og ráðherra til staðfestingar ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur síðan fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Skipulagsstofnun hefur upplýst að tillaga að breyttu aðalskipulagi hafi ekki verið staðfest af stofnuninni. Þá liggur fyrir að málsmeðferð breytingar á deiliskipulagi hefur verið frestað þar til málsmeðferð breytingar á aðalskipulagi lýkur.

Með þessu liggur ekki fyrir kæranleg stjórnvaldsákvörðun í máli þess, sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. laga nr. 37/1993. Verður því kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

66/2024 Úlfsstaðir

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 24. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2024, kæra á ákvörðun Borgarbyggðar frá 7. mars 2023 um að synja beiðni kæranda um endurmat og endurgreiðslu á fasteignagjöldum vegna sorp­hirðu- og rotþróargjalds.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi Innviðaráðuneytisins, dags. 24. júní 2024, var úrskurðarnefndinni framsendur hluti kæru eins eigenda jarðarinnar Úlfsstaða í Borgarbyggð og fast­eignar sem jörðinni tengjast, dags. 27. febrúar 2023, þar sem kærð er ákvörðun Borgarbyggðar frá 7. mars 2023 um að synja beiðni um endurmat og endurgreiðslu á fasteignagjöldum vegna áranna 2015 til 2022. Sá hluti kærunnar sem framsendur var til úrskurðarnefndarinnar lýtur að gjaldtöku vegna tæmingar á rotþró og synjun beiðni um niðurfellingu sorphirðugjalds. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að Borgarbyggð verði gert að endurmeta og endur­greiða kæranda ofgreidd gjöld.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni með framsendingu kærunnar 24. júní 2024.

Málavextir: Kærandi er ein fjögurra erfingja að jarðeigninni Úlfsstöðum í Borgarbyggð ásamt tilheyrandi fasteignum. Samkomulag var um að þrír þeirra sem höfðu tengsl við jörðina myndu skipta með sér greiðslu fasteignagjalda vegna jarðarinnar og greiða þriðjung hver. Fjórði erfinginn var látinn og samkvæmt samkomulaginu voru erfingjar hans ekki greiðsluskyldir. Árið 2014 varð breyting á eignarhaldi eins erfingjans og við það breyttist innheimta gjalda hjá Borgarbyggð á þann hátt að kæranda var gert að greiða að fullu öll fasteignagjöld vegna jarðarinnar. Jafnframt hefur kærandi verið krafinn um og greitt gjöld vegna sorphirðu og tæmingu rotþróar íbúðahússins á Úlfsstöðum, sem systir kæranda býr í, auk rotþróar sumarbústaðar síns.

Með bréfi kæranda til sveitarfélagsins, dags. 27. febrúar 2023, var kærð álagning fasteigna­gjalda 2023 auk þess sem farið var fram á að greiðsluhlutfall kæranda yrði leiðrétt til samræmis við eignahlutföll frá árinu 2007 sem samkomulag hafði verið um. Var þess krafist að álögð gjöld hennar yrðu lækkuð til samræmis. Fór kærandi fram á endurmat og endurgreiðslu á fasteignagjöldum vegna áranna 2015–2022 til samræmis við framangreind hlutföll. Kærandi fór jafnframt fram á að felld yrðu niður sorphirðugjöld, gjöld vegna tæmingar rotþróar og gjald vegna söfnunar og eyðingar dýraleifa.

Hinn 7. mars 2023 synjaði Borgarbyggð beiðni kæranda um að fasteignagjöld fyrir árin 2015–2022 yrðu endurmetin og endurgreidd til samræmis við það greiðsluhlutfall sem samkomulag erfingjanna hafði mælt fyrir um. Hins vegar var samþykkt beiðni um að greiðslu fasteignagjalda 2023 yrði skipt niður á þrjá greiðendur í samræmi við samkomulagið. Þá hafnaði sveitarfélagið niðurfellingu sorphirðugjalds og gjalds vegna tæmingar rotþróar. Að því er varðar gjöld vegna söfnunar og eyðingar dýraleifa þá upplýsti sveitarfélagið að þau hefðu ranglega verið lögð á kæranda og endurgreiðsla vegna áranna 2021 og 2022 kæmi því til lækkunar fasteignagjalda vegna ársins 2023. Var ákvörðun sveitarfélagsins kærð til Innviða­ráðuneytisins 5. júní 2023. Eins og fyrr greinir var hluti kærunnar sem lýtur að tæmingu rotþróar og greiðslu sorphirðugjalda framsendur til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að kæranda hafi um nokkurra ára skeið hrörnað og sé nú á hjúkrunarheimili. Við lestur álagningarseðils fyrir árið 2023 hafi aðstandandi orðið var við að greiðsluhlutfall kæranda vegna jarðarinnar Úlfsstaða og eigna sem þar standi hafi verið 100 % auk gjalda vegna alifuglabús á jörðinni. Að auki hefðu bæst við önnur gjöld sem séu kæranda óviðkomandi eins og tæming rotþróar, söfnun og eyðing dýraleifa, sorptunnugjöld, rekstur grenndarstöðva og móttökustöðvar.

Við nánari skoðun á greiðslum frá árinu 2007 hafi komið í ljós að fasteignagjöld kæranda hafi fjórfaldast milli áranna 2014 og 2015 og hafi haldist á því róli síðan. Sökum aldurs hafi kærandi ekki borið skynbragð á upphæðirnar og því hafi umrædd gjöld verið greidd nánast sjálfkrafa af bankareikningi hennar án athugasemda, enda hafi hún ekki haft burði til að meta eða véfengja álögð gjöld opinberra aðila.

Í ljósi þess aðstöðumunar sem sé á kæranda og sérhæfðu starfsfólki sveitarfélagsins beri að gera ríkar kröfur til sveitarfélagsins um að útreikningar séu réttir og að ekki verði gerðar slíkar umfangsmiklar breytingar á greiðslufyrirkomulagi án þess að vekja athygli greiðanda á þeim.

Málsrök Borgarbyggðar: Sveitarfélagið kannist ekki við að hafa það samkomulag undir höndum sem kærandi vísi til en viðurkenni að greiðslur fasteignagjaldanna hafi breyst frá og með árinu 2015 í kjölfar þess að einhver breyting hafi orðið í eigendahópi fasteignarinnar. Á greiðsluseðlum komi skýrt fram um hvaða eign sé að ræða, fasteignamat hennar, hver séu álögð gjöld, hverjir séu eigendur eignarinnar og hverjir greiðendur gjaldanna ásamt dagsetningu og upphæð hvers gjalddaga fyrir sig. Það hafi því alltaf legið fyrir og upplýsingar þar um sendar árlega til allra eigenda. Ekki séu allir eigendur á sama aldri og kærandi og hafi því öllum eigendum átt að vera kunnugt um að kærandi greiddi öll gjöldin.

Borgarbyggð hafi hins vegar tekið til greina athugasemd hvað varði fasteignagjöld ársins 2023 og hafi gjöldum þess árs verið skipt í samræmi við eignarhluta hvers eiganda. Hafi það verið gert í ljósi þess að athugasemdir kæranda hafi borist þegar skammt var liðið frá álagningu gjaldanna. Ekki hafi í kærunni verið gerð athugasemd hvað varði fjárhæð álagðs fasteignaskatts en gerðar hafi verið athugasemdir hvað varði önnur álögð gjöld s.s. vegna tæmingar rotþróa. sorpgjalds og gjalds vegna söfnunar og eyðingar dýraleifa.

Gjald fyrir tæmingu rotþróa sé lagt á í samræmi við 16. gr. samþykktar um fráveitur og rotþrær í Borgarbyggð nr. 296/2007. Gjaldið sé árlega lagt á en tæming rotþróanna fari fram á þriggja ára fresti. Þriggja ára gjald eigi því að standa undir kostnaði við eina hreinsun. Kærandi eigi sumarhús á jörðinni og þar sé rotþró. Hafi hún síðast verið tæmd í október 2021 og sama eigi við um rotþró við íbúðarhúsið að Úlfsstöðum.

Sorpgjald sé lagt á samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins og eigi að standa undir kostnaði við meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og samkvæmt 11. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð nr. 898/2022. Eins og sú gjaldskrá beri með sér sé innheimt gjald fyrir þrjár sorptunnur á hverju heimili og síðan sé innheimt gjald fyrir rekstur grenndar- og móttökustöðvar. Í gjaldskránni sé ákvæði um að sé íbúðarhúsnæði nýtt til tímabundinnar dvalar, án fastrar búsetu og engar tunnur tæmdar, sé eingöngu innheimt gjald vegna reksturs grenndar- og móttökustöðvar. Samkvæmt upplýsingum frá íbúaskrá sé fólk með lögheimili að Úlfsstöðum og því sé innheimt gjald fyrir tunnur.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Áréttuð eru fyrri sjónarmið sem fram komu í kæru. Vegna breytinga á innheimtu fasteignagjaldanna hafi öll gjöld varðandi sorphirðu og tæmingu rotþróar verið innheimt hjá kæranda frá árinu 2015. Eigi það einnig við vegna húseignar sem kærandi hafi ekki búið í.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar Borgarbyggðar frá 7. mars 2023 um að hafna beiðni kæranda um að felld verði niður gjöld fyrir tæmingu á rotþró og sorphirðugjald vegna fasteigna á jörðinni Úlfsstöðum í Borgarbyggð.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála  er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Þá kemur fram að sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Verður því kæru vegna álagðra sorphirðugjalda og tæmingar rotþróar vegna áranna 2015–2022 vísað frá úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af atvikum þykir rétt að taka til efnismeðferðar kæru vegna álagningar nefndra gjalda fyrir árið 2023 með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr stjórnsýslulaga þar sem ranglega var leiðbeint um kæruleið og kærufrest vegna umræddra gjalda, sbr. 20. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi. Ber hún ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og skal sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar setur sveitarstjórn sérstaka samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Í gildi er samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð nr. 898/2022. Í 9. gr. er fjallað um skyldur íbúa, húsráðenda, rekstraraðila og landeigenda í sveitarfélaginu til þess að fara eftir þeim reglum sem sveitarfélagið setur um meðhöndlun úrgangs. Sérhverjum húseiganda eða umráðamanni húsnæðis í sveitarfélaginu, hvort sem um er að ræða íbúðar- eða frístunda­húsnæði, sé skylt að nota þau ílát og þær aðferðir sem sveitarstjórn ákveður. Í 11. gr. samþykktarinnar er fjallað um skyldu sveitarfélaga til innheimtu gjalda samkvæmt lögum nr. 55/2003, sbr. 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Með vísan til laga nr. 55/2003 setti Borgarbyggð gjaldskrá fyrir söfnun, förgun, móttöku og flokkun sorps í Borgarbyggð nr. 1649/2022, sem birt var í B–deild  Stjórnartíðinda 4. janúar 2023. Samkvæmt 1. gr. hennar skal sveitarstjórn Borgarbyggðar innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laganna og samkvæmt 11. gr. samþykktar sveitarfélagsins nr. 898/2022. Í 2. gr. nefndrar gjaldskrár kemur einnig fram að sé íbúðarhúsnæði nýtt til tímabundinnar dvalar, án fastrar búsetu og engar tunnur séu þar, verði innheimt gjald vegna reksturs grenndar- og móttökustöðva kr. 32.280. Í 16. gr. samþykktar um fráveitur og rotþrær í Borgarbyggð nr. 296/2007, sbr. 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir kemur fram að húseigandi skuli greiða árlegt rotþróargjald sem standa skuli undir kostnaði við tæmingu rotþróa.

Lögð er á það áhersla í lögum nr. 55/2003 að meðhöndlun sorps sé grunnþjónusta í sveitarfélagi og beri það ríkar skyldur til að tryggja að sú þjónusta sé í föstum skorðum. Þjónustan er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki, enda er sveitarfélagi beinlínis skylt að innheimta gjald fyrir meðhöndlun úrgangs, sbr. áður tilvitnað ákvæði 23. gr. laganna. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum tekur umdeilt gjald mið af áætluðum kostnaði sveitarfélagsins við veitta þjónustu vegna sorphirðu og tæmingu rotþróa.

Ekki leikur vafi á að umrædd þjónusta hafi verið veitt á tilteknum tíma og að umrædd gjaldtaka eigi sér stoð í fyrrgreindum lögum, reglugerð og samþykkt sveitarfélagsins. Þá liggur fyrir úrskurður Innviðaráðuneytisins, dags. 5. júní 2024, þar sem kæranda er bent á hina almennu reglu eignaréttar, að hafi með löglegum hætti verið stofnað til skuld­bindinga vegna sameignar gagnvart þriðja manni, sé ábyrgð sameigenda gagnvart honum óskipt.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Borgarbyggðar frá 7. mars 2023 um að synja beiðni um niðurfellingu sorphirðugjalds og gjalds við tæmingu rotþróa vegna ársins 2023.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

77/2024 Njálsgata 38

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 24. júlí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 77/2024, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 4. október 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Njálsgötureits, reits 1.190.2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 18. júlí 2024, kærir einn eigandi lóðar nr. 38 við Njálsgötu, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 4. október 2023 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Njálsgötureits, reits 1.190.2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málatvik og rök: Kærandi er eigandi eins af þremur eignarhlutum í  lóðinni Njálsgötu 38 sem er innan deiliskipulags Njálsgötureits, reits 1.190.2. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 4. október 2023 var samþykkt breyting á deiliskipulaginu að undangenginni grenndarkynningu með vísan til A- liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs. Með deiliskipulagsbreytingunni sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2023 er heimilað að núverandi bílageymslu á baklóð Njálsgötu 38 verði rifin og í hennar stað byggt íbúðarhús með íbúð á einni og hálfri hæð með þakverönd sem snýr að öskustíg.

Kærandi vísar til þess að breytingartillagan hafi aldrei verið grenndarkynnt fyrir honum auk þess sem honum hafi aldrei borist tilkynning um þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs að samþykkja deiliskipulagsbreytinguna. Kærandi hafi fengið vitneskju um ákvörðunina í júní 2024 fyrir tilviljun. Í aðdraganda deiliskipulagsbreytingarinnar hafi eigendur bílageymslunnar sem deiliskipulagsbreytingin taki til verið í samskiptum við kæranda um ákjósanlega útfærslu á breytingu hennar í íbúðarhús. Samkvæmt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. nóvember 2022, hefði þurft samþykki meðlóðarhafa fyrir breytingu á deiliskipulaginu en þess hafi ekki verið aflað. Umrædd breyting leiði til þess að eign kæranda komi til með að rýrna, svo sem vegna skerðingar á eignarhluta hans í lóð, aukins skuggavarps og ónæðis.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en um útreikning frests fer skv. 8. gr. laganna. Hin kærða deiliskipulagsbreyting var birt í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2023 og mátti kæranda vera kunnugt um hana frá þeim tíma. Kærufresti vegna umræddrar ákvörðunar lauk 22. janúar 2024 en kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni ekki fyrr en 18. júlí s.á. eða tæpum sex mánuðum eftir lok kærufrests.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, eins og raunin er í máli þessu. Sé svo, sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.

Ekki verður talið að forsendur séu fyrir því að telja framangreindan drátt á kæru til úrskurðarnefndarinnar afsakanlegan eða að fyrir liggi veigamiklar ástæður í skilningi 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, sem mæli með því að málið verði tekið til efnismeðferðar að kærufresti liðnum. Ber því samkvæmt nefndu ákvæða að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að deiliskipulag eða breytingar á því hafa ekki í för með sér ráðstöfun á beinum eða óbeinum eignaréttindum og almennt þarf að liggja fyrir samþykki lóðarhafa lóðar í óskiptri sameign svo byggingarleyfi fyrir mannvirkjum á henni fáist samþykkt, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

57/2024 Skor

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 24. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2024, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 27. febrúar 2024 um að aflétta takmörkunum á opnunartíma samkvæmt starfsleyfi fyrir veitingastaðinn Skor, Geirsgötu 2–4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi íbúðar 301 í fasteigninni að Kolagötu 1, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 27. febrúar s.á. að aflétta tak­mörkunum á opnunartíma samkvæmt starfsleyfi fyrir veitingastaðinn Skor, Geirsgötu 2–4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 21. júní 2024.

Málavextir: Mál þetta á sér þó nokkra forsögu. Hinn 29. mars 2023 kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í máli nr. 102/2022 þar sem fellt var úr gildi starfsleyfi til 12 ára til að reka veitingastað í flokki II að Geirsgötu 2–4, sem gefið var út af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 5. ágúst 2022. Var niðurstaðan á því byggð að undirbúningi og rannsókn hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið hagað með þeim hætti að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hinn 31. mars s.á. var rekstraraðila veitingastaðarins Skor veitt tímabundið starfsleyfi til óbreytts reksturs veitingastaðarins til þriggja mánaða meðan brugðist væri við fyrrgreindum úrskurði nefnd­arinnar. Með úrskurði í máli nr. 42/2023 hafnaði úrskurðarnefndin kröfu um að hið tímabundna starfsleyfi yrði fellt úr gildi þar sem fallist var á að til þess að uppfylla rannsóknarskyldu hafi heilbrigðiseftirlitinu reynst nauðsynlegt að gefa út tímabundið starfs-leyfi. Unnið væri að framkvæmd hávaðamælinga og greiningu niðurstaðna úr þeim. Ljóst væri að þær mælingar yrðu grundvöllur ákvörðunar um það hvort starfsleyfi til veitingastaðarins yrði gefið út til lengri tíma eða ekki.

Í apríl 2023 voru gerðar hljóðmælingar í íbúð 201 að Kolagötu 1 með síritandi hljóðmæli og stóðu þær yfir í þrjár vikur. Voru niðurstöður mælinganna þær að aðstæður í íbúðinni væru metnar heilsuspillandi. Hinn 31. maí s.á. barst Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur úrbótaáætlun frá rekstraraðila sem sótti í framhaldinu um tímabundið starfsleyfi þar sem fyrir lá að ekki næðist að ljúka úrbótum áður en gildistími tímabundins starfsleyfis staðarins frá 31. mars 2023 rynni út í lok júní s.á.

Heilbrigðiseftirlitið varð við beiðni rekstraraðila og veitti veitingastaðnum tímabundið starfs­leyfi 27. júní s.á. til þriggja mánaða með takmörkun á hljóðstigi við 75 dB(A) í miðrými staðarins og takmarkaði opnunartíma til kl. 22:00 alla daga vikunnar. Var rekstraraðili upplýstur um að takmörkunum yrði ekki aflétt fyrr en hægt væri að staðfesta að úrbætur hefðu skilað tilætluðum árangri. Hinn 26. júlí s.á. lýsti rekstraraðili Skors því yfir að úrbótum væri lokið og óskaði eftir að heilbrigðiseftirlitið kæmi til hljóðmælinga til að staðfesta úrbæturnar. Heilbrigðiseftirlitið hafði samband við eigendur íbúða 201 og 205 að Kolagötu 1, en íbúð 201 var komin í útleigu og eigendur íbúðar 205 voru í sumarleyfi. Fór Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hinn 30. ágúst 2023 í eftirlit á veitingastaðinn Skor og kannaði úrbætur á hljóðvist. Komin voru teppi undir bjórkúta, úrbætur höfðu verið gerðar samkvæmt ráðleggingum hljóð­sérfræðings staðarins en frágangur í lofti óbreyttur að sjá. Settur var upp síritandi hljóðmælir í miðrými staðarins.

Heilbrigðiseftirlitið fór til hljóðmælinga og skynmats í íbúðum 201 og 205 að Kolagötu 1 hinn 15. september 2023. Sýndu niðurstöður þeirra mælinga að þær úrbætur sem rekstraraðili hafði ráðist í uppfylltu ekki kröfur um hljóðeinangrun milli hæða. Hljóðstig veitingastaðarins jókst með auknum gestafjölda og hljóðmælir staðsettur í meginrými staðarins sýndi að hljóðstig fór almennt vaxandi eftir því sem leið á kvöldið. Var ónæði og hávaði metinn heilsuspillandi í báðum íbúðum. Í íbúð 201 mátti greina söng gesta í karókíherbergi og í íbúð sem staðsett er yfir miðrými staðarins mátti heyra hróp, köll og skelli frá starfseminni.

Rekstraraðili sótti um starfsleyfi til 12 ára hinn 21. september 2023 og 26. s.m. tók heilbrigðis­eftirlitið ákvörðun um að framlengja gildistíma tímabundins starfsleyfis frá 30. júní til 15. nóvember s.á. með sömu skilyrðum og takmörkunum á opnunartíma, þ.e. til kl. 22:00 sunnudaga til fimmtudaga og til kl. 23:00 föstudaga, laugardaga og aðfaranætur frídaga. Afgreiðslu fyrirliggjandi umsóknar um starfsleyfi til 12 ára var frestað þar sem hljóðmælingar höfðu ekki farið fram í íbúð 205. Hljóðmælingar og skynmat fóru fram í íbúðinni hinn 29. september 2023 og var unnin hljóðskýrsla út frá gögnum sem safnað var við heimsóknir í íbúðir 201 og 205. Helstu niður­stöður voru að enn væri ónæði í íbúðunum. Í íbúð 201 mátti heyra söng gesta í karókíherbergi og í báðum íbúðunum heyrðust hróp og köll frá gestum.

Hinn 14. nóvember 2023 sendi heilbrigðiseftirlitið tölvupóst á íbúðaeigendur og húsfélag Kolagötu 1 varðandi fyrirhugaða veitingu starfsleyfis fyrir Skor til 12 ára með þeim takmörkunum að opnunartími væri til kl. 22:00 sunnudaga til fimmtudaga og til kl. 23:00 föstudaga, laugardaga og aðfaranætur frídaga. Ekki bárust athugasemdir frá íbúum Kolagötu 1 vegna hinnar fyrirhuguðu ákvörðunar. Frá apríl 2023 til 15. nóvember s.á. bárust 45 kvartanir frá íbúum Kolagötu 1 vegna starfsemi Skors. Á afgreiðslufundi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur 15. nóvember s.á. var samþykkt að veita Skor starfsleyfi til 12 ára með starfsleyfisskilyrðum fyrir samkomustaði og sértækum starfsleyfisskilyrðum fyrir Skor að Geirsgötu 2. Til að takmarka ónæði voru gerðar kröfur um að jafngildishljóðstig tónlistar í miðrými skyldi ekki fara yfir 80 dB(A) og hljóðkerfi skyldi vera með búnað til að fyrirbyggja að það gæti gefið af sér hærra hljóðstig en leyfilegt væri. Notkun karókíherbergis staðarins var ekki lengur heimil.

Hinn 10. janúar 2024 upplýsti rekstraraðili Skors að ráðist hefði verið í umfangsmiklar hljóð­einangrandi aðgerðir á staðnum og sótti um að aflétt yrði takmörkunum og opnunartími yrði til samræmis við heimilaðan opnunartíma skipulagsyfirvalda á svæðinu, sem er til kl. 23:00 alla virka daga og til kl. 01:00 um helgar. Einnig var óskað eftir að heimiluð yrði notkun á karókí­herbergi sem sérherbergi fyrir píluspil. Heilbrigðiseftirlitið fór í eftirlit á Skor 14. febrúar s.á. til að taka út þær úrbætur sem lýst var í umsókn um breytingu á starfsleyfi staðarins. Staðfest var að úrbætur höfðu verið gerðar á hljóðeinangrun í miðrými staðarins, sérstaklega undir íbúðum með hljóðeinangrandi ísogsplötum. Einnig höfðu verið gerðar úrbætur á loftræsingu og hljóðkerfi í sérherbergi. Við eftirlitið kom fram að úrbótum væri ekki að fullu lokið.

Á afgreiðslufundi heilbrigðiseftirlitsins 27. febrúar 2024 var samþykkt að aflétta takmörkunum að hluta og heimila opnunartíma Skors til kl. 23:00 sunnudaga til fimmtudaga og til kl. 01:00 aðfaranætur laugardaga, sunnudaga og frídaga, sem er sami opnunartími og heimilaður er í skipulagi Reykjavíkurborgar fyrir veitingastaði á þessu svæði. Til að lágmarka ónæði í nærliggjandi íbúðabyggð voru eftirfarandi takmarkanir settar á starfsemi staðarins: 60 mínútna jafngildishljóðstig tónlistar í miðrými skuli ekki fara yfir 80 dB(A) og hljóðkerfi skuli vera með búnað til að fyrirbyggja að hægt sé að spila hærra hljóðstig en leyfilegt er. Opnunartími sérherbergis var takmarkaður til kl. 00:00 aðfaranætur laugardaga, sunnudaga og frídaga. Ástundun pílukasts á staðnum skyldi miðast við sömu tímamörk. Karókístarfsemi í sérherbergi staðarins var óheimil. Önnur starfsemi var heimiluð með takmörkunum á opnunartíma sérherbergis.

Málsrök kæranda: Kærandi leggur áherslu á að umræddur staður eigi að vera færður í flokk III í flokkun veitingastaða í stað flokks II sem hann er í núna. Starfsemin byggist upp á hávaða sem meðal annars feli í sér hópaleiki með mikilli áfengisdrykkju þar sem fólk er hvatt til að öskra, stappa og taka áfengisskot þegar það vinnur/tapar leikjum. Hávær danstónlist sé spiluð til að „peppa“ fólk upp í „stuði“ og drekka meira en hófi gegnir. Umrætt „lúxusherbergi“ sé svo notað undir hópa þar sem þeir geta lokað sig af með hurð, stjórnað sjálf tónlist og sjónvarpi og öskrað án þess að starfsfólk umrædds staðar sé að fylgjast með. Umrætt herbergi sé beint fyrir neðan svefnherbergi kæranda og var áður karókíherbergi.

Engin gögn eða útskýringar styðji þá framkvæmd að lengja opnunartíma staðarins til kl. 01:00 að nóttu um helgar og aðfaranætur frídaga. Samkvæmt nýjustu upplýsingum sé umræddur opnunartími til kl. 01:00  frá miðvikudögum til laugardaga og aðfaranætur frídaga. Þrátt fyrir ítrekaða pósta með kvörtunum og óskum um svör og upplýsingar hafi engin gögn borist sem stutt gætu framangreinda ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins

Óskað sé eftir að skoðuð verði tengsl heilbrigðiseftirlitsins við umræddan stað og hvers vegna, allt frá opnun staðarins, hafi ítrekað verið gefin út bráðabirgðaleyfi, þrátt fyrir urmul kvartana íbúa og ekkert aðhafst fyrr en seint og um síðir og þá vegna fyrrum úrskurðar nefndarinnar vorið 2023. Heilbrigðiseftirlitið sé ítrekað að brjóta á rétti kæranda um að þurfa ekki að lifa við heilsuspillandi aðstæður svo árum skiptir og þurfi kærandi reglulega að flýja eigið heimili til að vernda eigin heilsu. Frá staðnum berist stanslaus bassataktur sem ómi upp í íbúð kæranda ásamt öskrum, stappi og öðrum hljóðum frá gestum staðarins.

Ekki sé hægt að beina kvörtunum til staðarins eða eigenda þar sem þeir bendi ítrekað á leyfi sín frá heilbrigðiseftirlitinu, vitandi að ekkert sé aðhafst vegna hávaðakvartana. Staðurinn Skor sé ekki með starfsemi sem falli undir veitingastað í flokki II, sem séu umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemi er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu með háværri tónlist og kalli ekki á mikið eftirlit eða löggæslu. Stað sem þessum, þar sem stundaðir eru hópaleikir með stanslausum hávaða og háværri tónlist ásamt umfangsmikilli áfengisdrykkju, þurfi þá að finna einhvern nýjan stuðul. Starfsemina ætti að flokka undir skemmtistað í flokki III í það minnsta ef ekki sé búið að breyta löggjöf fyrir nýrri tegundir veitinga/skemmtistaða sem feli í sér leikjastarfsemi með mikilli áfengisdrykkju og hávaða sem valdi bæði líkamlega heilsuspillandi aðstæðum og eignatjóni þar sem íbúð kæranda sé ósöluhæf við núverandi aðstæður.

Nauðsynlegt sé að hafa sjónvarp heimilisins hátt stillt allt til lokunar staðarins til að yfirgnæfa hávaða og ekki sé hægt að fara að sofa fyrr en eftir lokunartíma staðarins. Aðstæður vegna hávaða frá staðnum séu að hafa mjög slæm heilsuspillandi áhrif þar sem stanslaust bank/taktur/bassi frá hljómkerfi staðarins geti varað allt frá kl. 16:00–17:00 til kl. 01:00 að nóttu. Einnig sé hávaði slíkur þegar verið sé að henda bjórkútum úr stáli eftir gólfum staðarins að húsið skjálfi.

Allt ofangreint sé þess eðlis að taugakerfi kæranda sé undir sífelldu áreiti vegna óeðlilegs hávaða sem enginn ætti að þurfa að lifa við. Að það taki næstum þrjú ár fyrir heilbrigðiseftirlitið að finna út að staðurinn valdi mengun og heilsuspillandi tjóni og gefi jafnframt ítrekað út leyfi og heimili breytingar til að þóknast rekstraraðilum en ekki íbúum hljóti að vera lögbrot. Það sé verið að aðlaga leyfi og flokkun staðarins að aðstæðum leyfishafa meðan íbúar í fjölbýli fái hvorki upplýsingar né andmælarétt.

Staðurinn Skor geti flutt sig á annan stað þar sem fólk býr ekki á hæðum fyrir ofan en kærandi geti ekki flutt eða selt húsnæði sitt meðan staðurinn er fyrir neðan án þess að selja á brunaútsölu vegna stórs galla á fasteigninni. Það hafi komið í ljós þegar íbúð á 2. hæð var í söluferli og hætt var við kaupsamning vegna hávaða frá Skor. Einnig hafi starfsemin valdið því að þær íbúðir sem séu á 2. og 3. hæð hússins hafa verið settar í Airbnb útleigu sem skapi enn meiri vandamál fyrir alla íbúa hússins þar sem „hótelgestir“ sem gista aðeins örfáar nætur séu ekki að kvarta yfir hávaða. Ekki hafi verið farið að lögum í öllu því ferli er varði veitingastaðinn allt frá fyrstu opnun. Annar staður með samskonar starfsemi sé á Snorrabraut í stakstæðu húsnæði með enga íbúa fyrir ofan sig og sé hann opinn til kl. 23:00 á kvöldin og um helgar. Ætti það að vera samanburðarhæft og gefa tilefni til að þessi starfsemi eigi ekki heima með íbúum á efri hæðum sama hvaða flokki veitingastaða hann tilheyri.

Varðandi kærufrest þá hafi borist póstur frá heilbrigðiseftirlitinu í nóvember 2023 þar sem fram komi að gefið hafi verið út leyfi með opnun til kl. 22:00 virka daga og til kl. 23:00 um helgar og aðfaranætur frídaga. Þar hafi einnig komið fram að karókíherbergi væri óleyfilegt. Aðrar ákvarðanir eftir það hafi ekki fengist staðfestar nema með einum stuttaralegum pósti í mars 2024 með svarinu „já“ þegar kærandi spurði hvort búið væri að lengja opnunartíma. Eina ástæðan sem var gefin var að „búið væri að fara í miklar framkvæmdir“ á staðnum. Engar upplýsingar hafi borist um hvers konar framkvæmdir eða hvað það þýddi. Eftir þetta og allan tímann frá langtímaleyfi í nóvember 2023 hafi kærandi þurft að senda kvartanir og beðið ítrekað um svör við spurningum og gögn er varði ákvarðanir á sífelldum breytingum en ekki fengið nein svör. Upplýsingar varðandi nýjustu breytingar um lengingu opnunar til kl. 01:00 alla miðvikudaga til laugardaga hafi verið aflað af netsíðu Skors. Ekkert hafi borist frá heilbrigðiseftirlitinu þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir og kvartanir. Þá hafi heilbrigðiseftirlitið aldrei upplýst íbúa um nokkrar af þessum breytingum að fyrra bragði.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Áréttað er að tekin hafi verið ákvörðun um rýmkun opnunartíma veitingastaðarins Skors 27. febrúar 2024 og kærandi upplýstur um ákvörðunina 1. mars s.á. Sé því kærufrestur liðinn skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Ítrekað sé að meginhlutverk heilbrigðiseftirlitsins sé að gefa út starfsleyfi skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með síðari breytingum og lögum nr. 93/1995 um matvæli með síðari breytingum, ásamt því að hafa eftirlit með þeirri löggjöf.

Flokkun veitingastaða í flokka II og III komi fram á rekstrarleyfum veitingastaða sem gefin séu út skv. lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, með síðari breytingum. Sé það hlutverk Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að gefa út rekstrarleyfi eftir að hafa leitað umsagna hlutaðeigandi sveitarstjórnar, slökkviliðs, heilbrigðisnefndar, byggingarfulltrúa, vinnueftirlits og lögreglu. Hafi úrskurðarnefndin þegar staðfest að flokkun veitingastaðarins samrýmist deiliskipulagi svæðisins og búsetu í húsinu.

Hafnað sé fullyrðingum um að kærandi hafi ekki fengið upplýsingar um ákvarðanir heilbrigðiseftirlitsins varðandi Skor frá því í nóvember 2023. Af gögnum málsins megi sjá að stofnunin hafi upplýst kæranda um að rekstraraðili Skors hafi sótt um leyfi til notkunar á sérherberginu sem áður hafi verið karókíherbergi. Eins hafi kærandi fengið upplýsingar hinn 1. mars s.á. um að opnunartími staðarins hafi verið rýmkaður. Heilbrigðiseftirlitið hafi ítrekað verið í sambandi við deiluaðila síðan málið hófst í janúar 2022. Hafi stofnunin oftar en einu sinni fundað með íbúum, nú síðast 9. apríl 2024. Samskipti hafi verið virk, bæði í gegnum kvartanir sem og sjálfstæðar rannsóknir heilbrigðiseftirlitsins á málinu.

Í framhaldi af þeim breytingum sem rekstraraðili Skor hafi sótt um 10. janúar 2024 hafi heilbrigðiseftirlitið farið í eftirlit á staðinn hinn 14. febrúar s.á. til að taka út téðar úrbætur. Við eftirlitið hafi úrbætur verið staðfestar og þó að þeim væri ekki að fullu lokið hafi heilbrigðiseftirlitið metið svo að þær væru að draga verulega úr ónæðinu. Breytingar á starfsemi í sérherbergi, úrbætur á hljóðvist, uppsetning hljóðgildra, minni hátalarar og hljóðkerfi væru til þess fallnar að hindra að hljóð bærist úr sérherberginu.

Niðurstöður úttektarinnar ásamt skoðun fyrirliggjandi gagna hafi legið til grundvallar því að á afgreiðslufundi 27. febrúar 2024 hafi verið samþykkt að aflétta takmörkunum að hluta og heimila þar með opnunartíma Skor til kl. 23:00 sunnudaga til fimmtudaga og til kl. 01:00 aðfaranætur laugardags, sunnudags og frídaga. Hafi sjónarmið meðalhófs, ítrekaðra kvartana og hljóðmælinga vegið þungt í ákvörðunum um takmarkanir á starfsemi staðarins.

Bent sé á að heilbrigðiseftirlitið hafi ítrekað farið í íbúð kæranda til hljóðmælinga en skynmat í íbúðinni ekki gefið ástæðu til að framkvæma hljóðmælingar. Við skynmat í íbúð 301 hafi heilbrigðisfulltrúar ekki getað greint hávaða og ónæði frá Skor. Eins og fram komi í hljóðmælingaskýrslu hafi verið farið í heimsókn 29. september 2023 í íbúð kæranda til skynmats og þá hafi ekki verið hægt að greina hljóð sem rekja mætti til staðarins. Á sama tíma hafi verið í gangi hljóðmæling og skynmat í íbúð 205 og hafi þar heyrst greinileg fagnaðarlæti og köll frá veitingastaðnum meðan ómur frá tónlist væri lítill.

Gögn sem fylgi kærunni og skjáskot af heimasíðu Skor sýni opnunartíma staðarins skráðan til kl. 01:00 miðvikudaga til sunnudaga. Hafi kærandi einnig sent þessar upplýsingar á heilbrigðiseftirlitið og taldi að stofnunun hefði breytt opnunartíma staðarins. Heilbrigðiseftirlitið hafi staðfest upplýsingar af skjáskotunum með eigin rannsóknum og upplýst kæranda með tölvupósti dags. 29. maí 2024 að engar breytingar hefðu verið gerðar á starfsleyfi Skors né heimilaður annar opnunartími frá því að núgildandi starfsleyfi var gefið út hinn 27. febrúar s.á. Við skoðum heilbrigðiseftirlitsins á heimasíðu Skors 29. september s.á. hafði opnunartíma verið breytt og upplýsingar um opnunartíma til samræmis við gildandi opnunartíma staðarins. Engar ábendingar hafi borist um að Skor hafi farið út fyrir opnunartímann hvorki frá lögreglu né íbúum að Kolagötu 1.

Hafnað sé ásökunum um að stofnunin dragi taum rekstraaðila. Heilbrigðiseftirlitið einsetji sér að vinna mál ávallt af fagmennsku með vandaða og góða stjórnsýsluhætti að leiðarljósi. Málið hafi verið í virkri rannsókn allan tímann og sé enn, bæði hvað varði hljóðvist og lyktarmengun.

Málsrök leyfishafa: Bent er á að umdeilt leyfi hafi verið gefið út 27. febrúar 2024 og kærandi því komin langt yfir lögbundin kærufrest. Rými það sem Skor sé staðsett í hafi aldrei verið neitt annað en bar/veitingastaður og sé húsið og svæðið skilgreint sem svæði sem heimili slíka starfsemi.

Vísað sé til í kæru að staðurinn hafi leyfi til kl. 01:00 frá miðvikudegi til laugardags. Það sé ekki rétt þar sem leyfi fyrir opnunartíma sé til kl. 01:00 föstudaga, laugardaga og aðfaranætur frídaga. Skjáskotið sem fylgi kæru sé innsláttarvilla frá því nýlega þegar opnunartíma var breytt yfir daginn þegar byrjað var að opna síðdegis mánudaga og þriðjudaga, slysaðist sami lokunartími á miðvikudaga og fimmtudaga á einhverjum stað á vefsíðu. Annars staðar hafi þetta alltaf verið sett rétt fram og staðurinn rekinn samkvæmt leyfðum opnunartíma.

Sérherbergi sem kærandi lýsi sem „gamla karaoke herbergið“ sé fullhljóðeinangrað herbergi með enga tengingu við útveggi. Inni í því sé píluspjald, Sonos hátalari stilltur á 50% og sjónvarp sem nýtir aðeins innbyggða hátalara sem gestir nota stöku sinnum til að horfa á íþróttaviðburði eða sambærilegt. Herbergið sé ekki notað til að öskra eins og kærandi lýsi. Vert sé að benda á að ótal mælingar hafi verið gerðar af hljóðverkfræðingum og aldrei mælst hávaði yfir leyfilegum mörkum, jafnvel þegar herbergið var nýtt sem karókí herbergi. Hafnað sé lýsingum kæranda og bent á að „hljóðlimiter“ sé á staðnum sem komi í veg fyrir að tónlist geti spilast hærra en 75dB. Loftin þoli 85 til 95dB. Þá búi kærandi á þriðju hæð, þar sem enginn hátalari úr sal sé í nálægð við loft eða útvegg sem deilt sé með kæranda. Varðandi kvartanir vegna „kútahljóða“ sé bent á að allir kútar séu staðsettir hinum megin í húsinu við kæranda og að mottur séu undir kútum sem dempi hljóð. Gólf sé slitið frá útveggjum ásamt því að hljóðdúkur sé undir gólfefnum sem komi í veg fyrir að högghljóð berist í útveggi.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Ítrekaðar eru fyrri kröfur um að staðurinn Skor verði flokkaður sem veitingastaður í flokki III og að fallið verði frá lengingu opnunartíma. Leyfi til lengri opnunartíma hafi verið veitt án samráðs eða samtals við íbúa þrátt fyrir kvartanir og eins og sjá megi á gögnum virðist vera nóg að leyfishafi hefji framkvæmdir eða tali um þær, en þurfi ekki að ljúka þeim til að fá útgefin ný leyfi. Voru því úrbætur ekki kláraðar áður en lenging á opnunartíma var gefin út til að leita fullvissu um að úrbætur haldi. Eins og sjá megi á gögnum virðist sem staðurinn hafi fengið umtalsverðar tilfæringar í gegnum árin frá opnun í byrjun árs 2022. Samkvæmt gögnum virðist sem staðurinn hafi verið í rekstri allt frá janúar 2022 án rekstrar- og starfsleyfis fram til loka mars sama ár.

Liðið sé langt á þriðja ár í sífelldri baráttu vegna staðarins og stanslauss ónæðis af hálfu hans. Að búa við slíkt til lengri tíma sé óviðunandi og erfitt sé að sjá hvað valdi því að svo erfitt sé að taka ákvarðanir um að þessi staður eigi ekki heima á neðstu hæð fjölbýlishúss þar sem íbúar halda heimili og búast við eðlilegum heimilisfrið í íbúðum sínum þrátt fyrir að búa í miðbæ Reykjavíkur. Ónæðið komi nefnilega ekki að utan heldur innanhúss þar sem hljóð berist frá atvinnurekstri sem ætti að vera flokkaður sem skemmtistaður en ekki krá/veitingasala. Athuga þurfi vel og vandlega hverskonar starfsemi sé á staðnum og hvar hann sé staddur með tilliti til íbúafjölda fyrir ofan og í kring. Lögð sé rík áhersla á að rekstraraðili virði ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða og ákvæði 22. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti hvað ónæði varði og því skuli rekstraraðili gera allt sem í hans valdi stendur til að koma í veg fyrir ónæði í samræmi við ofangreindar reglugerðir.

Varðandi heimsóknir sem heilbrigðiseftirlitið segist hafa farið í inn á heimili kæranda og greini frá að ekki hafi verið hægt að greina hávaða frá staðnum, þá muni kærandi eftir einni heimsókn. Hafi það verið á virkum degi og heimsókn staðið yfir í 15 mínútur á milli kl. 21:00 og 22:00. Hafi kærandi sent heilbrigðiseftirlitinu tugi myndbanda þar sem heyra megi hávaðann berast upp í íbúðina. Þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir og ábendingar um að hávaðinn sé mestur frá fimmtudegi til sunnudags og að tónlist sé hækkuð upp þá daga hafi verið tekin ákvörðum um að lengja opnunartíma staðarins aftur. Þrátt fyrir þessar upplýsingar hafi kærandi ekki séð nein gögn um að farið hafi verið í eftirlit á þeim tíma til að kanna hávaða frá starfseminni.

Bent sé á að rekstraraðilar hafi ekki ákveðið sjálfir að hætta með rekstur karókíherbergis. Hinn 11. janúar 2024 hafi kærandi sent tölvupóst á heilbrigðiseftirlitið vegna hávaða, öskra og tónlistar úr gamla karókíherberginu sem hafði verið lokað af hálfu heilbrigðiseftirlitsins og beðið um upplýsingar um hvort komið sé leyfi fyrir notkun á herberginu. Hinn 13. febrúar s.á. hafi komið svar um að kvartanir væru mótteknar og að Skor hafi sótt um leyfi fyrir herbergi til pílukasts. Hvergi komi fram í póstinum hvort leyfið hafi verið útgefið eða hvort svo verði. Á sama tíma hafi umrætt herbergi verið í fullri notkun eins og fram komi í tölvupósti til heilbrigðiseftirlitsins 14. febrúar s.á. Hinn 1. mars s.á. komi svar um að leyfi fyrir einkapíluherbergi hafi verið veitt með takmörkunum á opnunartíma til miðnættis um helgar og gerðar hafi verið úrbætur.

Þarna hafi fyrst borist „loðið“ svar um að gefið hafi verið út leyfi með lengri opnunartíma þar sem opnunartími áður hafi einungis verið til kl. 23:00 um helgar. Þann sama dag berist annað svar við fyrirspurn um hvort heilbrigðiseftirlitið hafi veitt leyfi fyrir lengri opnunartími. Þar hafi komið fram að svo sé, því farið hafi verið í úrbætur á hljóðvist staðarins. Þann sama dag óski kærandi eftir gögnum sem sýni fram á úrbætur og ástæðu lengri opnunar. Svör hafi ekki borist fyrr en 18. mars 2024 eftir kvartanir um hávaða. Hinn 29. maí s.á. hafi sér fyrst borist einhver gögn er varði úrbætur þrátt fyrir kvartanir og ítrekaða pósta frá 19. mars s.á. um að fá send gögn og útskýringar varðandi breytingar á leyfi.

Kærandi hefur gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 27. febrúar 2024 að aflétta takmörkunum á opnunartíma samkvæmt starfsleyfi veitingastaðarins Skor, Geirsgötu 2–4. Þá er þess krafist að umræddur veitingastaður verði færður í flokk III í flokkun veitingastaða og að skoðuð verði tengsl heilbrigðiseftirlitsins við rekstraraðila.

Hlutverk úrskurðarnefndarinnar er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði, sbr. 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Í samræmi við það tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því eingöngu tekin til meðferðar sú ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins frá 27. febrúar 2024 um að aflétta takmörkunum á opnunartíma samkvæmt umþrættu starfsleyfi.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Fjallað er um kærur sem berast að liðnum kærufresti í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. ákvæðisins er tekið fram að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar skv. 2. tl.

Hinn 13. febrúar 2024 fékk kærandi upplýsingar frá heilbrigðiseftirlitinu um að Skor hefði sótt um leyfi til notkunar á karókíherbergi sem notað yrði sem sérherbergi og 1. mars s.á. fékk hann jafnframt upplýsingar um að opnunartími staðarins hefði verið rýmkaður. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 22. maí 2024 og var þá meira en mánuður liðinn frá framangreindum tilkynningum. Eftir móttöku tilkynninganna fór kærandi fram á frekari upplýsingar og gögn um efni umræddrar breytingar á starfsleyfinu og um þær úrbætur sem unnið væri að á staðnum, sem ekki var brugðist við fyrr en með tölvupósti, dags. 29. maí 2024. Verður því að telja það afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist svo seint sem raun ber vitni og verður það því tekið til efnismeðferðar í samræmi við 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu sýndu niðurstöður hljóðmælinga frá apríl 2023, sem gerðar voru í íbúð 201 í húsinu að Geirsgötu 2–4, að aðstæður í íbúðinni væru metnar heilsuspillandi vegna hávaða. Þrátt fyrir þær úrbætur sem rekstraraðili hafði gert sýndu niðurstöður hljóð­mælinga í íbúðum 201 og 205, auk skynmats í íbúðum og stigagöngum, sem fram fóru 15. og 29. september 2023 að þær uppfylltu ekki kröfur um hljóðeinangrun milli hæða. Í skýrslu heilbrigðiseftirlitsins um eftirlitsferð 14. febrúar 2024, til að taka út þær úrbætur sem lýst var í umsókn um breytingu á starfsleyfi staðarins, kemur fram að úrbætur hefðu verið gerðar á hljóðeinangrun í miðrými staðarins og undir íbúðum með hljóðeinangrandi ísogsplötum. Einnig höfðu verið gerðar úrbætur á loftræsingu og hljóðkerfi í sérherbergi. Í skýrslunni kemur fram að úrbótum væri ekki að fullu lokið.

Í kjölfar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 102/2022 voru gerðar nákvæmari mælingar á hávaða frá veitingastaðnum Skor. Þær mælingar sýndu að ekki hafði verið unnt að meta raunverulegt ónæði af starfseminni fyrr en að loknum mælingum í íbúð á 2. hæð hússins sem stóðu yfir í þrjár vikur samfleytt í apríl 2023. Samkvæmt hljóðskýrslu sem unnin var eftir hljóðmælingar og skynmat í september s.á. í sömu íbúðum voru aðstæður enn metnar óviðunandi. Engar sambærilegar hljóðmælingar eða skynmat hefur farið fram sem stutt geta þá ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins að lengja opnunartíma staðarins.

Að framangreindu virtu og í ljósi forsögu málsins var ekki með viðhlítandi hætti gengið úr skugga um hvort hávaði í íbúð kæranda væri innan þeirra marka sem sett eru í lögum og reglu­gerð nr. 724/2008. Var rannsókn máls við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar að því leyti ábótavant og verður af þeim sökum og með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga fallist á kröfu kæranda um ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 27. febrúar 2024 um að aflétta takmörkunum á opnunartíma samkvæmt starfsleyfi fyrir veitingastaðinn Skor, Geirsgötu 2–4.

47/2024 Skúlagötusvæði

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 16. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður, Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2024, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna skiptistöðvar Strætó við Skúlagötu og framkvæmdaleyfi, dags. 22. mars s.á., sem gefið var út á grundvelli nefndrar skipulagsbreytingar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. apríl 2024, er barst nefndinni 17. s.m., kærir húsfélag eigenda íbúða að Klapparstíg 1, 1a, 3, 5, 5a og 7 auk Skúlagötu 10, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2024 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna skiptistöðvar Strætó við Skúlagötu og framkvæmda­leyfi, dags. 22. mars s.á., sem gefið var út á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Var þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir yrðu felldar úr gildi og framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Var kröfunni um stöðvun framkvæmda hafnað með bráðabirgðaúrskurði nefndarinnar uppkveðnum 6. maí 2024.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. apríl 2024.

Málavextir: Vegna breytinga á skipulagi almenningssamgangna í Reykjavík og fyrirhugaðra framkvæmda umhverfis Hlemm þarf að flytja starfsemi Strætó þaðan. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 17. janúar 2024 var samþykkt umsókn, dags. 4. september 2023, um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna tímabundinna skipti- og/eða endastöðva fyrir Strætó. Svæðið sem deiliskipulagsbreytingin tekur til er á móts við Skúlagötu 10 og Klapparstíg 1-3. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er breytingasvæðið innan miðsvæðis, M1b – blönduð miðborgarbyggð. Í breytingunni felst að byggingarreitir fyrir þjónustu eru felldir út og afmarkað er svæði fyrir skiptistöð Strætó þar sem komið verður fyrir biðstöðvum vagna ásamt skýlum fyrir farþega. Auk þess er afmarkaður byggingarreitur fyrir aðstöðuhús starfsmanna Strætó. Borgarráð samþykkti afgreiðslu ráðsins á fundi 25. janúar 2024 og tók breytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. mars s.á. Framkvæmdaleyfi vegna tímabundinnar skiptistöðvar og lóðarfrágangs var svo gefið út af skipulagsfulltrúa 22. s.m.

Málsrök kæranda: Bent er á að um sé að ræða hagsmuni sem snerti íbúa í 121 íbúð. Hluti íbúðanna á Skúlagötu 10 og Klapparstíg 1-3 snúi að umræddri skiptistöð og eigi það við um stærstu glugga íbúðanna og þar á meðal svefnherbergisglugga. Vegna aukins álags á svæðinu sem muni fylgja starfsemi skiptistöðvar Strætó við Skúlagötu muni aðrir íbúar óneitanlega einnig verða varir við starfsemina. Eigi það einkum við vegna aukinnar loftmengunar, hávaða, umferðar um Skúlagötu og aukinnar umferðar um lóðir kæranda.

Sú starfsemi sem deiliskipulagsbreytingin geri ráð fyrir að verði á reitnum sé ekki samræman­leg Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Reiturinn sé innan miðsvæðis, M1b, sem skilgreindur sé sem skrifstofur og þjónusta í blandaðri miðborgarbyggð. Vegna eðlis fyrirhugaðrar starfsemi á skipulagssvæðinu sé um að ræða mjög mengandi starfsemi sem fráleitt sé að falli að íbúðar­svæðum.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 4. október 2023 hafi verið lögð fram og samþykkt umsókn um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis. Í kjölfarið hafi breytingin verið lögð fram á fundi Borgarráðs Reykjavíkur 12. s.m. þar sem samþykkt hafi verið að auglýsa tillöguna samkvæmt 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Eigendur íbúða hús­félagsins sem nú kæri hafi mótmælt harðlega og sent bréf með athugasemdum við breytinguna, þar með talið lögmaður fyrir hönd húsfélagsins.

Þrátt fyrir athugasemdir sem fram hafi komið í umsögn skipulagsfulltrúa og eftir að athugasemdafrestur rann út hafi umrædd tillaga verið tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 17. janúar 2024 og samþykkt af borgarráði 25. janúar 2024, ásamt umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, dags. 11. s.m. Í kjölfarið hafi breytingin verið send Skipulagsstofnun til yfirferðar og hafi stofnunin hinn 15. mars s.á. gert tvær alvarlegar athugasemdir við skipulagsbreytinguna og birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Hafi þær annars vegar lotið að umhverfisáhrifum og hins vegar skilmálum varðandi tímabindingu. Hinn 20. s.m. hafi Skipulagsstofnun svo sent nýtt bréf til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur­borgar, þar sem birting í Stjórnartíðindum var samþykkt og fallið frá áður gerðum athuga­semdum án nokkurra skýringa. Breytingin hafi í kjölfarið verið auglýst í B-deild Stjórnar­tíðinda degi síðar.

Byggt sé á því að núverandi skipulag hafi verið gildandi í 40 ár samkvæmt aðalskipulagi frá 1983 og deiliskipulagi frá 1986. Hvoru tveggja þeirra skipulaga kveði skýrt á um að reiturinn sem er langsum meðfram Skúlagötu hafi allur verið skilgreindur sem miðbæjarsvæði og að á reitnum hafi ekki áður verið tilgreind landnotkun. Lagt sé til að landnotkun verði miðbæjar­starfsemi og bílastæði í samræmi við deiliskipulagstillögu frá september 1985. Samkvæmt skipulaginu sem samþykkt var árið 1986 sé um að ræða minni, lágreist hús, þar sem notkun væri þjónusta, en stærstur hluti Skúlagötusvæðisins væri bílastæði og hljóðtálmi eins og sé í dag. Skilgreining á svæðinu hafi verið samkvæmt skipulaginu frá 1986 að svæðið væri opið svæði þar sem hljóðmön er í dag og svæði með grasi. Sé Reykjavíkurborg bundin af því að notkun á nefndum reit verði í samræmi við gildandi deiliskipulag sem feli jafnframt í sér að auglýst tillaga um breytingu á deiliskipulagi sé ekki heimil enda rúmist ekki innan gildandi aðalskipulags.

Deiliskipulagsbreyting þessi feli í sér róttæka og alvarlega breytingu á landnotkun, þar sem heimilaðri notkun sé breytt úr því að vera mjög takmörkuð samkvæmt núgildandi skipulagi í atvinnustarfsemi/þjónustu sem sé sérstaklega umfangsmikil að stærð og með mikil áhrif á aðliggjandi fasteignir.

Komi skýrt fram í aðalskipulagi að markmið um starfsemi á svæðinu sé að efla fjölbreytta atvinnu- og þjónustustarfsemi sem falli að íbúðarsvæðum. Í aðalskipulagi Reykjavíkur og sömuleiðis aðalskipulagi nágrannasveitarfélaga skulu svæði sem skipulögð séu fyrir almenningssamgöngur sérstaklega afmörkuð og þeim fundin staðsetning þar sem umhverfið bjóði upp á nágrenni við slíka starfsemi. Sem dæmi megi þar nefna Hlemm, Mjóddina, BSÍ, Lækjartorg, Hörpuna, Hamraborg o.fl. Landnotkun fyrir slíka starfsemi þurfi að vera vel rökstudd og staðsetning sérstök. Svo sé í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 og sé merkt M5b sem sé í miðborgarkjarnanum M1a, þar sem slík starfsemi er heimiluð.

Skúlagötureiturinn hafi verið skilgreindur með heimila starfsemi sem sé einstaklega ólík þeirri starfsemi að vera með skipti- og endastöð fyrir Strætó. M1b geri ekki ráð fyrir svo sérstakri starfsemi vegna eðlis hennar og sé því einungis um að ræða sérstök svæði innan aðal­skipulagsins sem heimili slíka starfsemi. Sé í þessu vísað til 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi ekki átt sér stað rökstutt og fullnægjandi valkostamat og rökstuðningur fyrir umræddu vali ófullnægjandi með öllu. Í rökstuðningi sé vísað til þess að mat hafi átt sér stað á umhverfi, valkostum og mengun, en ljóst sé af gögnum málsins að um innihaldslaus orð hafi verið að ræða enda hafi ekkert slíkt mat farið fram.

Einnig beri að hafa til hliðsjónar að ekki sé einungis um að ræða stjórnvaldsákvörðun sem verði að uppfylla þær kröfur sem lög og reglur geri til slíkra ákvarðana, heldur sé einnig um að ræða stjórnarskrárvarin réttindi íbúðareigenda sbr. 1. mgr. 72. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Umþrætt breyting á deiliskipulaginu raski verulega hagmunum íbúa og sé þannig brotið gegn reglum nábýlisréttarins og friðhelgi eignaréttarins ásamt því að skerðing verður á verðmæti íbúða í húsunum við Klapparstíg 3. Muni breytingin hafa slíka verðmætaskerðingu í för með sér að það eitt feli í sér veigamikla ástæðu til að umþrætt tillaga verði felld úr gildi. Til rökstuðnings bótaskyldu og þess sem að framan greinir sé vísað til dómafordæma Hæstaréttar í málum nr. 461/1998, 260/2006, 222/2012, 523/2011 og 542/2015.

Þá hafi ekki verið fylgt eftir þeirri málsmeðferð sem kveðið sé á um í skipulagslögum við vinnslu nefndrar tillögu, þar sem í engu hafi verið haft samráð við eigendur íbúða á Klapparstíg 1-7, en slíkt sé skylt samkvæmt ákvæðum skipulagslaga. Telja verði það verulegan annmarka við meðferð málsins, en varðandi málið í heild sé Reykjavíkurborg skylt að fara að skipulags- og stjórnsýslulögum við meðferð málsins. Ennfremur sé athugasemd gerð við það að Reykjavíkurborg hafi ekki látið fara fram mat á því hvaða áhrif verði af starfseminni sem óhjákvæmilega séu verulega neikvæð. Vísast í því sambandi til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kveði á um rannsóknarskyldu stjórnvalda og annars eðlilegs umhverfismats þannig að samræmist yfirlýstri stefnu samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur.

Mikilvægt sé að meðferð málsins sé vönduð og lögum fylgt í hvívetna. Samkvæmt stjórnsýslulögum og skipulagslögum sé Reykjavíkurborg skylt að gæta að meðalhófi, grenndarrétti og lögbundnum sem og ólögbundnum reglum í hvívetna. Fyrir liggi að deiliskipulagsbreytingin muni valda umtalsverðum og verulegum umhverfisáhrifum þar sem umrædd starfsemi og tilheyrandi aðstaða muni breyta ásýnd svæðisins. Samræmist tillagan því á engan hátt því gildandi sjónarmiði í skipulagsmálum miðbæjar Reykjavíkur að nýtt skipulag í grónum hverfum verði aðeins heimilað þegar sýnt væri fram á að það væri til bóta fyrir heildarsvip byggðar.

Þær gámabyggingar sem nú séu heimilaðar séu heldur ekki til að fegra ásýndina og útsýni íbúa. Slíkt fari einnig þvert á stefnu aðalskipulags og almennar kröfur skipulagsyfirvalda um útlit bygginga í miðbæ Reykjavíkur. Þá sé enn fremur gerð athugasemd við það að svo virðist sem byggingarreiturinn hafi einnig verið fluttur til á lóðinni án þess að sæta hefðbundinni meðferð á þeirri breytingu.

Í tillögunni að breytingunni sé vísað til þess að umhverfismat hafi átt sér stað, en það sé einfaldlega rangt. Ekkert slíkt mat hafi farið fram. Þá sé vísað til þess að mat á grenndaráhrifum hafi átt sér stað, en ljóst sé samkvæmt gögnum málsins að engar slíkar mælingar hafi átt sér stað. Algjör meginregla sé og skylda að verkfræðistofur séu fengnar til þess að gera matsgerðir um þessi atriði, en ekkert slíkt hafi farið fram og ekki byggt á neinum mælilíkönum í málinu. Eftir að deiliskipulagsbreytingin hafi verið samþykkt og send Skipulagsstofnun til athugasemda hafi verið gerðar tvær alvarlegar athugasemdir. Komið hafi fram að allar skipulagsáætlanir falli undir 1. mgr. 2. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 og því þurfi að gera grein fyrir umhverfisáhrifum áætlanna, sbr. 6. gr. reglugerðar um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 1380/2021.

Hefði Reykjavíkurborg fylgt eftir fyrrgreindum ákvæðum laga um umhverfismat sé ljóst að niðurstaðan hefði verið önnur. Þá sé einnig bent á að í niðurlagi bréfs Skipulagsstofnunar komi fram að „Skipulagsstofnun minnir á að sveitarstjórn skal taka athugasemdir Skipulagsstofnunar til umræðu samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga.“

Í þessu sambandi vísist til bréfs Skipulagsstofnunar, dags. 20. mars 2024, þar sem stofnunin sendi nýtt bréf þar sem felld er niður umrædd athugasemd án nokkurra skýringa eða rökstuðnings. Ekki sé hægt að líta öðruvísi á þessa skyndilegu breytingu en að þarna hafi stofnunin látið undan ómálefnalegum þrýstingi Reykjavíkurborgar um að taka þessar athugasemdir til baka.

Skipulagslög séu alveg skýr um það að umhverfismat skuli eiga sér stað og öðruvísi sé ekki hægt að rökstyðja og samþykkja breytingartillöguna. Við blasi að veruleg loft- og hljóðmengun verði af starfseminni ásamt ónæði af þeim fjölda fólks sem muni sækja þjónustuna. Þrátt fyrir að í gildandi skipulagi sé gert ráð fyrir þjónustu á reitnum sé alveg ljóst að það feli ekki í sér hvers kyns þjónustu í líkingu við starfsemi Strætó.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 11. janúar 2024, sé haldið fram þeim rökum að þar sem umferð um Sæbraut sé um 20 þúsund ökutæki verði viðbótarumferð í tengslum við enda­stöðina, sem verði um 300-350 strætisvagnaferðir, innan skekkjumarka þegar komi að hljóð­mengun á þessum stað. Vísað sé til þess að sérfræðingar á sviði hljóðvistar telji ljóst að breytingar á jafngildishljóðstigi dB(A) við byggingar á Skúlagötu séu innan skekkjumarka. Þessu sé mótmælt sem rökleysu. Um sé að ræða vísan til mats skipulagsfulltrúa sem í raun hafi ekki átt sér stað og sé lögskylda. Þá liggi engin gögn því til grundvallar og er alvarlega dregið í efa að slíkir sérfræðingar hafi verið fengnir til að meta mengun á staðnum. Í bréfi skipulagsfulltrúa sé einnig sagt að breytingin sé ekki umfram það sem búast megi við á svæðinu og vegna þess hversu mikil mengun sé á Sæbraut, sé þetta lítil viðbót. Þeirri röksemdarfærslu sé alfarið hafnað og þar sem umferð og loftmengun sé mikil á svæðinu sé ekki forsvaranlegt að auka mengun með því að auka á umferð um Skúlagötu.

Núgildandi skipulag hafi tekið mið af því að fjöldi íbúða sé á staðnum með því að skipuleggja Skúlagötusvæðið sem bílastæði fyrir þessi nálægu íbúðarhús. Ef af því verði að skipulagi á umræddum reit verði breytt og öll 62 bílastæðin fjarlægð muni það þýða alvarlega skerðingu á bílastæðum og í raun alvarlegt bílastæðavandamál fyrir nálæg íbúðarhús.

Þá séu gerðar alvarlegar athugasemdir við þá tímabindingu sem tilgreind sé í auglýsingunni sem marklausri í raun. Lagalega hafi slík tímabinding bókstaflega enga þýðingu ef deiliskipulagi verði breytt á annað borð, þar sem tímasetningin sé auk þess án tímaramma og feli þar af leiðandi í raun í sér ótímabundna heimild til að hafa starfsemi Strætó á Skúlagötusvæðinu. Í fyrrgreindu bréfi Skipulagsstofnunar dags. 15. mars 2024 komi fram alvarleg athugasemd við samþykkta deiliskipulagsbreytingu sem laut að því að koma þurfi fram skýrari viðmið um tímabundna nýtingu lóðar með tilliti til áætlaðra loka framkvæmda við aðalskiptistöð við Hlemm og þá eftir atvikum settir skilmálar um frágang svæðis að lokinni tímabundinni notkun. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 20. mars 2024, eða fimm dögum síðar hafi þessi athugasemd verið dregin til baka. Bent sé á að óskýrir skilmálar um svo veigamikið atriði sé með öllu óheimilt að samþykkja á þennan hátt enda, eins og fram kom í bréfi stofnunarinnar 15. s.m. voru gerðar við þetta alvarlegar athugasemdir. Bent sé á að ekki komi til greina að deiliskipulagi verði breytt með þessum hætti og ítrekað að fyrir liggi samþykkt deiliskipulag frá 1986 og allar breytingar á því skipulagi séu háðar þeim takmörkunum sem fram hafi komið í kæru þessari. Séu því umþrættar breytingar á deiliskipulagi ólögmætar á grundvelli þess að málsmeðferð hafi verið ólögmæt.

Þar sem Reykjavíkurborg sé í raun aðili máls hafi borið að gæta þess sérstaklega að við meðferð málsins væri farið eftir skipulagslögum og stjórnsýslulögum en samþykki umhverfis- og skipulagsráðs, ásamt samþykki borgarráðs hafi verið ólögmæt. Afgreiðsla Skipulagsstofnunar hafi ennfremur verið ólögmæt. Gerð sé því krafa um að deiliskipulagið verði fellt úr gildi og Reykjavíkurborg verði skylt að taka málið aftur til meðferðar þar sem fylgt verði í hvívetna skyldum samkvæmt skipulagslögum og stjórnsýslulögum. Framkvæmdaleyfi, útgefið 22. mars 2024, byggi því á röngum/ólögmætum forsendum samanber það sem að framan greini.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til þess hvað felist í skilgreiningu svæðisins M1b í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Í blandaðri miðborgarbyggð sé meðal annars gert ráð fyrir stofnunum, skrifstofum og sérhæfðri þjónustu auk almennrar miðbæjarstarfsemi samkvæmt skilgreiningu miðsvæða. Eðli málsins samkvæmt sé þungamiðja almenningssamgangna og lykilskiptistöðvar í hverju þéttbýli jafnan á miðsvæðum og svo hafi ávallt verið í skipulagi Reykjavíkur. Núverandi skiptistöð við Hlemm, sé innan miðborgarsvæðisins M1a samkvæmt gildandi aðalskipulagi og þar gildi í öllum meginatriðum sömu landnotkunarákvæðin og um svæði M1b. Sú tímabundna ráðstöfun sem gert sé ráð fyrir með breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis sé í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag.

——

Við meðferð málsins óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum frá Reykjavíkurborg varðandi hvort áætluð hafi verið einhver tímamörk á því hversu lengi fyrirhugað sé að skiptistöð fyrir almenningsvagna verði á umræddu svæði, hvort mat hafi verið lagt á áhrif vegna aukinnar umferðar stórra ökutækja og áætlaðan fólksfjölda sem komi til með að nýta sér skiptistöðina ásamt mati á hljóðvist með tilliti til nálægðar starfseminnar við íbúðir kæranda. Í svörum Reykjavíkurborgar kom fram að erfitt væri að gefa nákvæmar dagsetningar. Á svæðinu þurfi að vera endastöð fyrir Strætó að lágmarki þar til hægt sé að breyta leiðakerfinu í samræmi við „Nýtt Leiðakerfi“, en það velti á uppbyggingu innviða fyrir Borgarlínuna. Varðandi mat á breytingu á magni og gerð bílaumferðar og áhrif þess á hljóðvist var bent á að ársdagsumferð um Sæbraut, nokkrum metrum utar, sé um 20 þúsund ökutæki. Ætla megi að viðbótarumferð vegna endastöðvarinnar, um 300-350 strætisvagnaferðir á sólarhring, sé innan skekkjumarka þegar kemur að mati á loftmengun á þessum stað. Þá sé einnig ljóst að bílaumferð sem í dag sé í tengslum við umrætt bílastæði muni fara annað. Sérfræðingar á sviði hljóðvistar telji ljóst að breytingar á jafngildishljóðstigi dB(A) við byggingar á Skúlagötu verði innan skekkjumarka. Vegfarendur og íbúar við Skúlagötu muni að sjálfsögðu verða varir við breytinguna en hún sé ekki umfram það sem búast megi við í þéttbýli. Hámarkshljóðstyrkur við akstursmælingu sé skilgreindur í reglugerð um gerð og útbúnað ökutækja. Allir strætisvagnar eigi meðal annars að uppfylla kröfur um hávaðamengun í samræmi við áðurnefnda reglugerð. Strætó vinni að því að rafvæða vagnaflotann og eftir því sem nýir vagnar bætist í flotann verði hann hljóðlátari. Akstur Strætó sé samkvæmt núgildandi áætlun á milli klukkan hálf sjö á morgnanna og hálf eitt eftir miðnætti.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 12. júlí 2024.

Niðurstaða: Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að hlutverk nefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða breytir efni ákvörðunar. Þá brestur úrskurðarnefndina heimild til þess að leggja tilteknar athafnir fyrir stjórnvöld og borgara, en slík krafa er sett fram af kæranda.

Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna tíma­bundinnar skiptistöðvar eða endastöðvar Strætó. Er einkum um það deilt hvort fullnægjandi valkostamat hafi átt sér stað og mat á áhrifum starfseminnar, einkum með tilliti til loft­mengunar, hávaða, umferðar um Skúlagötu og aukinnar umferðar um lóðir kæranda.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 bera sveitarstjórnir ábyrgð á og annast gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í framangreindu felst m.a. heimild sveitarstjórna til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. laganna, en þess ber þó að gæta að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulags­laga. Í aðalskipulagi er lagður grundvöllur að gerð deiliskipulags varðandi landnotkun og takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstri, þ.m.t. þéttleika byggðar sbr. 2. mgr. 28. gr. laganna. Við skipulagsgerð ber ennfremur að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Meðal þeirra markmiða er að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi er haft að leiðar­ljósi, sbr. a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar og að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þó svo að hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. mgr. Að gættum framangreindum reglum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi og breytingum á því skuli háttað.

Í kæru er vikið að því að við afgreiðslu og samþykki skipulagsins hafi Reykjavíkurborg í raun verið aðili máls og hafi málsmeðferð því verið ómálefnaleg. Sveitarstjórnir sækja umboð sitt til íbúa og ber að rækja skyldur sínar lögum samkvæmt, sbr. 8. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Þegar svo hagar til að sveitarfélag stendur sjálft að framkvæmdum er mikilvægt sem endranær að sveitarstjórnir vandi vel til við málsmeðferð og töku ákvarðana, en ekki er til að dreifa öðrum stjórnvöldum lögum samkvæmt sem falið er að taka skipulagsákvarðanir við nefndar aðstæður.

Tillaga að umræddri deiliskipulagsbreytingu var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga frá 2. nóvember til 14. desember 2023. Kærandi sendi á kynningartíma inn athugasemdir fyrir hönd íbúa þeirra húsa sem standa að húsfélaginu. Að lokinni kynningu og eftir samþykki borgarráðs hinn 25. janúar 2024 var skipulagsbreytingin send Skipulags­stofnun til yfirferðar, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 41. gr. laganna. Með bréfi, dags. 15. mars 2024, gerði stofnunin athugasemdir, m.a. þess efnis að æskilegt væri að fram kæmu skýrari viðmið í skilmálum deiliskipulagsins varðandi tímabundna nýtingu lóðarinnar og að gera þyrfti grein fyrir umhverfisáhrifum áætlunarinnar. Þessar athugasemdir voru dregnar til baka með bréfi, dags. 20. s.m., þar sem stofnunin taldi ekki ástæðu til að gera athugasemdir við gildistöku deiliskipulagstillögunnar, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 42. gr. laganna.Var formleg málsmeðferð um­deildrar deiliskipulagsbreytingar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga að þessu leyti.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er Skúlagötusvæðið hluti miðborgarsvæðis M1b, sem í skipulaginu er skilgreint sem blönduð miðborgarbyggð, skrifstofur og þjónusta. Í kafla III. í greinargerð aðalskipulagsins sem ber heitið ,,Landnotkun og önnur ákvæði um uppbyggingu byggðar”, er fjallað um miðborg og miðsvæði á bls. 94-95. Þar kemur fram að miðborgin sé skilgreind í grunninn sem miðsvæði, sbr. skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en vegna sérstöðu hennar fái hún sérstaka merkingu á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulagsins og landnotkunarkorti borgarhlutans. Miðsvæði borgarinnar séu flokkuð niður eftir stefnu um meginstarfsemi. Um hvert svæði gildi ákveðin stefnumörkun og grundvallist hún á mismunandi hlutverki þeirra og staðsetningu í borginni. Miðsvæði er skilgreint í b. lið gr. 6.2 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar segir að miðsvæði séu „Svæði fyrir verslunar- og þjónustu­starfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi sem talin er samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis.“ Markmiðið á þeim svæðum sem merkt eru M1b í skipulaginu er að efla fjölbreytta atvinnu- og þjónustustarfsemi sem falli að íbúðarbyggð. Gert er ráð fyrir stofnunum og skrifstofum og sérhæfðri þjónustu, þ.m.t. gistiþjónustu. Íbúðir eru heimilar, einkum á efri hæðum húsa. Við jarðhæðir með götuhliðastýringu er verslunar- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi. Almennar veitingaheimildir miðsvæða gilda á svæðinu. Eðli máls samkvæmt fara almenningssamgöngur þvert á landnotkunarflokka og fer því hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki í bága við ákvæði í aðalskipulagi um landnotkun.

Í skipulagslögum er fjallað um þær kröfur sem verði gerðar til aðalskipulags er varðar stefnumótun um samgöngu- og þjónustukerfi. Skal í greinargerð skipulags þannig lýsa rökstuddri stefnu sveitarstjórnar þar að lútandi. Skal skipulagsuppdráttur auk þess sýna „staðbundnar ákvarðanir um landnotkun, vernd og aðrar takmarkanir á landnotkun og samgöngu- og þjónustukerfi“, sbr. 28. gr. laganna. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 eru leiðir áformaðrar Borgarlínu sýndar með bindandi hætti á þéttbýlisuppdrætti og á þemakortum, í samræmi við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins. Aðrar helstu leiðir almennings­samgangna, einkum með hárri ferðatíðni, bæði stofnleiðir og almennar leiðir strætisvagna eru sýndar með þeim fyrirvara að þær séu aðeins leiðbeinandi og má af greinargerð skipulagsins ráða að með því þurfi ekki að ráðast í breytingu á aðalskipulagi þegar gerðar séu leiðakerfisbreytingar, t.d. varðandi ferðatíðni eða legu leiðar. Jafnframt þessu eru sýndar bæði kjarnastöðvar Borgarlínu og aðrar þungamiðjur almenningssamgangna, með þeim sama fyrirvara, um að þær séu ekki bindandi um nákvæma staðsetningu. Af þessu er ljóst að stefnumörkun aðalskipulagsins gerir ráð fyrir töluverðu svigrúmi til breytinga á leiðakerfi almenningsvagna.

Samkvæmt a. lið 2. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 gilda lögin meðal annars um skipulagsáætlanir og breytingar á þeim. Þó kemur fram í 4. mgr. nefndrar greinar að óverulegar breytingar á áætlunum séu ekki háðar ákvæðum laganna. Við mat ábyrgðaraðila viðkomandi áætlunar á því hvort breytingar teljist verulegar skuli taka mið af áhrifum á framkvæmdir og aðra áætlanagerð og áhrifum á umhverfið. Í athugasemdum með nefndri 4. mgr. í frumvarpi til laganna kemur einnig fram að óverulegar breytingar séu breytingar sem ekki eru taldar líklegar til að hafa í för með sér veruleg áhrif á umhverfið. Að áliti nefndarinnar verður að telja hina kærðu deiliskipulagsbreytingu óverulega í þessum skilningi.

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir umhverfisáhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma og umhverfismati áætlunarinnar. Fjallað er um umhverfismat deiliskipulags í gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar segir í 1. mgr. að við gerð deiliskipulags skuli meta líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði og einstaka þætti áætlunarinnar sjálfrar svo sem á ásýnd, útsýni, hljóðvist og loftgæði eftir því sem efni skipulagsins gefi tilefni til. Áætla skuli áhrif af t.d. umferð, hávaða og umfangsmiklum mannvirkjum, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Þá er kveðið á um í 3. mgr. að gera skuli grein fyrir matinu og niðurstöðu þess í greinargerð deiliskipulagsins. Sé um breytingu á deiliskipulagi að ræða beri að gera grein fyrir áhrifum hennar á umhverfið með nýju umhverfismati ef við eigi, sbr. gr. 5.8.5.2. í reglugerðinni. Í 1. mgr. sömu reglugerðargreinar kemur fram að í greinargerð skuli lýsa breytingunni, forsendum hennar, rökstuðningi fyrir henni, samráði við hagsmunaaðila og samræmi við aðalskipulag. Við breytingar á skilmálum skuli bæði birta gildandi skilmála og tillögu að breytingum. Að öðru leyti sé heimilt í breytingarferlinu að vísa til greinargerðar gildandi deiliskipulags fyrir þau atriði sem ekki taki breytingum.

Íbúðir félagsmanna kæranda eru á skilgreindu miðsvæði og er óhjákvæmilegt að þeirri landnotkun fylgi ónæði fyrir íbúa á svæðinu. Í 4. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða er fjallað um viðmiðunarmörk fyrir leyfilegt hljóðstig frá umferð ökutækja, flugumferð og hvers konar atvinnustarfsemi og vísað til viðauka við reglugerðina. Í III. töflu í viðaukanum eru sett mörk fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi, þar á meðal fyrir íbúðarhúsnæði á verslunar-, þjónustu- og miðsvæðum. Forráðamönnum fyrirtækja og stofnana er skylt að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða og ónæði af völdum hávaða, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar. Við hönnun samgöngumannvirkja skal miðað við að hljóðstig verði undir mörkum í töflum I og II í viðauka. Við breytingu á umferðaræð í byggð sem leitt geti til aukins hávaða, skuli grípa til mótvægisaðgerða til þess að koma í veg fyrir að hljóðstig hækki, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar.

Í greinargerð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar er greint frá neikvæðum áhrifum á þann hátt að gera megi ráð fyrir tímabundnu ónæði meðan á uppbyggingu skiptistöðvarinnar standi. Umferðarmagn og hávaði á Skúlagötu aukist samhliða akstri strætisvagna, en þó ekki umfram það sem „eðlilegt getur talist í þéttbýli.“ Hafa borgaryfirvöld skírskotað til þess að aukin umhverfisáhrif breytingarinnar sem til komi vegna umferðar séu hverfandi miðað við aðstæður.

Ljóst er að andlag umhverfismats deiliskipulags er breytilegt eftir efni þess og umfangi. Í máli þessu eru aðstæður með þeim hætti að fyrir breytingu deiliskipulagsins er mikil umferð um Sæbraut, sem er rúma 40 metra frá íbúðum kæranda, eða um 20.000 bílar á sólarhring, með tilheyrandi hávaða og loftmengun. Með tilkomu skiptistöðvar Strætó er óhjákvæmilegt að þau umhverfisáhrif muni aukast frá því sem fyrir er, en á móti kemur að á svæðinu eru felld út um 60 almenn bílastæði með tilheyrandi minnkun bílaumferðar. Verður að telja að við aðstæður sem þessar hefði verið tilefni til að greina frá áhrifum breytingarinnar í skipulagsgreinargerð með hliðsjón af þeim athugasemdum sem fram komu á auglýsingartíma skipulags­breytingarinnar og var sérstakt tilefni til þess að leggja mat á áhrif starfseminnar á hávaða á svæðinu. Verður sá annmarki þó ekki talinn ráða úrslitum um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.

Hvað valkostamat varðar liggur fyrir að skipulagsyfirvöld völdu með umdeildri skipulagsbreytingu staðsetningu skiptistöðvar strætisvagna milli Skúlagötu og Sæbrautar. Staðsetning slíkrar starfsemi ræðst eðli máls samkvæmt af kerfi almenningssamgangna sem fyrir er og tengist óhjákvæmilega akstursleiðum á því svæði sem skiptistöðinni er ætlað að þjóna. Staðsetningin, hver sem hún yrði á svæðinu, hefði áþekk grenndaráhrif.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar um breytingu deiliskipulags. Að þeirri niðurstöðu fenginni á hið kærða framkvæmdaleyfi stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis og þar sem ekki liggja fyrir annmarkar á málsmeðferð leyfisveitingarinnar verður kröfu um ógildingu framkvæmdaleyfisins hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna skiptistöðvar Strætó við Skúlagötu og um ógildingu hins kærða framkvæmdaleyfis sem skipulagsfulltrúi gaf út hinn 22. mars sl.

68/2024 Ægisnes 3

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 3. júlí 2024, tók Arnór Snæbjörnsson formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 68/2024, kæra á útgáfu heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra á starfsleyfi til eins árs, dags. 30. maí 2024, fyrir starfsemi móttökustöðvar fyrir úrgang og flutning úrgangs að Ægisnesi 3, Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júní 2024, er barst nefndinni 24. s.m., kærir Terra umhverfisþjónusta hf., útgáfu heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra á starfsleyfi til eins árs, dags. 30. maí 2024, til handa Íslenska gámafélaginu ehf. fyrir starfsemi móttökustöðvar fyrir úrgang og flutning úrgangs að Ægisnesi 3, Akureyri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Kærandi var keppinautur leyfishafa í útboði sem varðaði starfrækslu grenndarstöðva og gámastöðva á Akureyri og álítur að annmarkar hafi verið á framkvæmd útboðsins þar sem leyfishafi hafi ekki fullnægt skilyrðum sem þar hafi verið sett um aðstöðu og mengunarvarnir og er mál vegna þessa til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála. Hafi leyfisveitandi síðan farið út fyrir valdheimildir sínar með því að gefa út hið kærða starfsleyfi, þar sem skilyrðum til þess hafi ekki verið fullnægt, en með leyfinu komist leyfishafi nær því að öðlast samning samkvæmt hinu umdeilda útboði. Ekki sé viðunandi „að þeir aðilar, sem ekki hafa yfir að ráða aðstöðu sem uppfyllir kröfur til mengunarvarna og annars konar umhverfisverndar, geti tekið að sér verkefni fyrir hið opinbera, á grundvelli lægri verða, sem hljóta a.m.k. að hluta til að ráðast af hinni óviðunandi aðstöðu, sem sé kostnaðarsparandi.“ Þá hafi útgáfa leyfisins önnur afleidd áhrif og skekki allan samkeppnisrekstur á svæðinu.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Verður að túlka þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum og verður þá litið til þess hvort kærandi eigi slíkra beinna, einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta. Kærandi hefur fært fram sjónarmið fyrir úrskurðarnefndinni um að hann eigi samkeppnislegra eða fjárhagslegra hagsmuna að gæta af útgáfu hins kærða starfsleyfis. Almennt leiða slíkir óbeinir hagsmunir ekki til kæruaðildar samkvæmt stjórnsýslurétti. Þá verður ekki ráðið að í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sé gert ráð fyrir að samkeppnisaðilar í rekstri njóti aðildar að stjórnsýslumáli vegna umsóknar ótengds aðila um starfsleyfi, án þess að annað og meira komi til, t.d. grenndarhagsmunir eða hagsmunir sem kunna að leiða af skipulagsskilmálum. Þar sem ekkert liggur fyrir um að útgáfa hins umdeilda starfsleyfis snerti einstaklega lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að hann geti átt aðild að kæru vegna hennar verður kæru hans vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

58/2024 Leiðhamrar

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 27. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2024, beiðni um að úrskurðað verði hvort framkvæmdir á lóðinni Leiðhömrum 54 séu háðar byggingarleyfi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, fór umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar fram á það við úrskurðarnefndina með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að skorið yrði úr um hvort tilteknar framkvæmdir á lóðinni Leiðhömrum 54 væru háðar byggingarleyfi.

Málsatvik og rök: Hinn 11. apríl 2024 barst byggingarfulltrúanum í Reykjavík ábending um að framkvæmdir væru hafnar á lóðinni Leiðhömrum 54 án tilskilins leyfis. Hinn 15. s.m. sendi embættið bréf til lóðarhafa þar sem fram kom að hafnar væru framkvæmdir við byggingu skúrs á lóðarmörkum án leyfis lóðarhafa aðliggjandi lóðar, sbr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með bréfinu var tilkynnt um að allar byggingarleyfisskyldar framkvæmdir væru stöðvaðar með vísan til 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð. Yrði þeim tilmælum ekki sinnt myndi byggingarfulltrúi taka ákvörðun um framhald málsins sem gæti falist í aðstoð lögreglu, sbr. 4. mgr. 55. gr. laganna. Lóðarhafi kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en á meðan meðferð kærumálsins stóð yfir barst nefndinni beiðni frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar um að skorið yrði úr um hvort umræddar framkvæmdir væru háðar byggingarleyfi. Með úr­skurði í máli nr. 56/2024, uppkveðnum 31. maí 2024, vísaði úrskurðarnefndin kærumálinu frá á þeim grundvelli að stöðvun framkvæmda væri bráðabirgðaákvörðun sem ekki væri kæranleg til nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Reykjavíkurborg vísar til þess að embætti byggingarfulltrúa hafi borist ábending um að verið væri að byggja skúr á lóðamörkum án fyrirliggjandi byggingarleyfis. Farið hafi verið á vettvang og myndir teknar sem sýni ýmis skýli ásamt svokallaðri pergólu yfir heitum potti. Vafi hafi leikið á því hvort framkvæmdir væru háðar byggingarleyfi og hafi því sú ákvörðun verið tekin að leita til úrskurðarnefndarinnar til að fá úr því skorið.

Lóðarhafi Leiðhamra 54 bendir á að grindverk á lóðinni hafi þegar verið samþykkt, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 98/2022. Þær framkvæmdir sem hér um ræði feli m.a. í sér skýli fyrir hjól án hurðar. Einnig sé um að ræða ruslatunnuskýli sem á verði hurð. Í bakgarðinum sé pergóla sem nái yfir pottinn og að grindverki. Á bakvið skjólvegg við heita pottinn sé inngangur að sturtu, en ekki sé ætlunin að loka því rými. Vinstra megin við heita pottinn sé einnig lítið skot sem hugsað sé fyrir rólu. Þá sé skýli fyrir grill í bakgarðinum, það sé heldur ekki fyrirhugað að loka því. Enginn hluti framkvæmdanna muni ná upp fyrir grindverk lóðarinnar. Framkvæmdirnar séu óverulegar og minniháttar og undanþegnar byggingarheimild og -leyfi, sbr. gr. 2.3.4. eða d- og e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Þær hvorki skerði hagsmuni nágranna, t.d. hvað varði útsýni, skuggavarp eða innsýn, né hafi áhrif á götumynd, sbr. gr. 2.3.4. í byggingarreglugerð. Sé því ekki þörf á samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar.

Niðurstaða: Í máli þessu er tekin fyrir sú beiðni umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar að úrskurðarnefndin skeri úr um hvort tilteknar framkvæmdir á lóðinni Leiðhömrum 54 séu háðar byggingarleyfi. Er beiðnin lögð fram með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sem kveður á um að ef vafi leikur á því hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi skuli leita niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.

Í 9. gr. laga nr. 160/2010 er fjallað um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Þar segir í 1. mgr. að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda. Þá segir að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum, sbr. flokkun mannvirkja skv. 1. mgr. 17. gr., skuli undanþiggja byggingarleyfi, að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningarskyldar eða að gera skuli vægari kröfur um fylgigögn eða umsóknarferli.

Í samræmi við framangreint er í 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 talin upp þau minni háttar mannvirki og framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarheimild og -leyfi, auk þess sem sú krafa er gerð að þær séu í samræmi við deiliskipulag og önnur ákvæði reglugerðarinnar sem við eiga hverju sinni. Þar er meðal annars upptalið pallagerð og annar frágangur á eða við jarðvegsyfirborð, sbr. d-lið, skjólveggir og girðingar sem eru allt að 1,8 m að hæð og ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m, sbr. e-lið, og smáhýsi sem er að hámarki 15 m2 og mesta hæð þaks 2,5 m mælt frá yfirborði jarðvegs, sbr. f-lið. Í síðastnefndum lið segir jafnframt að sé smáhýsið minna en 3,0 m frá aðliggjandi lóð þurfi samþykki eigenda þeirrar lóðar. Slík smáhýsi séu ekki ætluð til gistingar eða búsetu. Orðið smáhýsi er síðan skilgreint í 81. tölul. gr. 1.2.1. sömu reglugerðar sem „[skýli] sem almennt er ætlað til geymslu garðáhalda o.þ.h. og er ekki ætlað til íveru. Smáhýsi er ekki upphitað. Hámarksstærð þess er 15 m2.“ Auk þess er í gr. 2.3.6. að finna upptalningu á þeirri mannvirkjagerð sem undanþegin er byggingarheimild og -leyfi en er háð tilkynningu til leyfisveitanda. Segir í 1. mgr. að framkvæmdin skuli ekki vera í ósamræmi við deiliskipulag og önnur ákvæði reglugerðarinnar eins og við eigi hverju sinni, en í d-lið er svo tilgreint að heitir og kaldir pottar eða laugar í görðum við íbúðarhús og frístundahús teljist til tilkynningarskyldrar mannvirkjagerðar.

Af fyrirliggjandi myndum og verklýsingu frá lóðarhafa Leiðhamra 54 verður ráðið að sú mannvirkjagerð sem hér um ræði feli í sér ýmsar framkvæmdir sem sambyggðar eru skjólvegg á mörkum lóðarinnar. Nánar tiltekið er um að ræða yfirbyggingu potts með pergólu auk nokkurra misstórra skýla fyrir reiðhjól, sorptunnur, sturtu og grill. Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Hamrahverfis frá árinu 1985, en ekki verður séð að ákvæði þess standi í vegi fyrir hinum umræddu framkvæmdum, sbr. gr. 5.3.2.11. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Ljóst er að pottur fellur undir d-lið 1. mgr. gr. 2.3.6. byggingarreglugerðar og er því tilkynningarskyld mannvirkjagerð. Hvað aðrar framkvæmdir varðar er ekki hægt að líta svo á að þær geti fallið undir fyrrgreinda d- eða e-liði 1. mgr. gr. 2.3.5. reglugerðarinnar, enda hvorki um að ræða gerð palls eða annan frágang á eða við jarðvegsyfirborð né gerð skjólveggjar eða girðingar. Aftur á móti verður með hliðsjón af áðurgreindri skilgreiningu byggingarreglugerðar á orðinu smáhýsi að fella framkvæmdirnar undir f-lið sama ákvæðis, en ljóst þykir af framlögðum myndum að flatarmál hvers smáhýsis fer ekki yfir viðmið ákvæðisins um 15 m2. Eru þau því undanþegin byggingarheimild og -leyfi en háð samþykki eiganda aðliggjandi lóðar ef smáhýsin eru innan við 3,0 m frá lóðamörkum.

Að framangreindu virtu er það álit úrskurðarnefndarinnar að umdeild mannvirkjagerð á lóðinni Leiðhömrum 54 sé ekki byggingarleyfisskyld skv. 9. gr. laga nr. 160/2010.

Úrskurðarorð:

Umdeild mannvirkjagerð á lóðinni Leiðhömrum 54 er ekki háð byggingarleyfi samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

34/2024 Suðurhella

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 27. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 28. febrúar 2024 um álagningu dagsekta að fjárhæð kr. 20.000 vegna óleyfisframkvæmda í húsinu á lóðinni Suðurhellu 10.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 26. mars 2024, kæra Firring Fasteign ehf. og Malina ehf., eigendur hluta hússins að Suðurhellu 10, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 28. febrúar 2024 að leggja dagsektir að fjárhæð kr. 20.000 á kærendur vegna óleyfisframkvæmda í húsinu að Suðurhellu 10. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 23. apríl 2024.

Málavextir: Árið 2005 voru samþykkt byggingaráform fyrir 7,5 m háu iðnaðarhúsi á einni hæð með 1.441 m2 grunnfleti á lóðinni Suðurhellu 10. Deiliskipulag Selhrauns suður tók gildi 2006 og var þá gert ráð fyrir að lóðin Suðurhella 10 væri 4.569,2 m2 að flatarmáli með hámarksnýtingarhlutfall 0,28. Gerð var breyting á deiliskipulagi svæðisins 2018 og jókst flatarmál lóðarinnar í 4.576,5 m2 og nýtingarhlutfallið hækkaði í 0,34. Samkvæmt fasteignaskrá skiptist húsið í átta matshluta og eiga kærendur fimm þeirra, þ.e. matshluta 0102, 0103, 0106, 0107 og 0108. Eignuðust þeir fyrstu matshlutana 2016 og samkvæmt því sem fram kemur í kæru var þá búið að setja upp svokölluð milliloft í húsinu sem ekki höfðu verið samþykkt.

Á árunum 2020–2022 sendi byggingarfulltrúi ýmis tilmæli til eigenda Suðurhellu 10 um að fjarlægja umrædd milliloft auk þess sem fjarlægja bæri svalir af húsinu og láta af ólöglegri búsetu, en í bréfunum var jafnframt tekið fram að yrði tilmælunum ekki sinnt myndi byggingarfulltrúi taka ákvörðun um framhald málsins með hliðsjón af 1. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í nóvember 2022 óskaði húsfélag Suðurhellu 10 eftir breytingu á deiliskipulagi svæðisins er laut aðallega að því að hámarksnýtingarhlutfalli lóðarinnar yrði breytt úr 0,34 í 0,62 þannig að hægt yrði að fá samþykkt milliloft í hverjum matshluta eignarinnar. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 17. s.m. var erindinu synjað. Í fundargerð var ekki fært til bókar á hvaða grund­velli synjunin byggði en af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að synjunin hafi byggst á því að ekki hafi allir eigendur fasteignarinnar verið samþykkir því að deiliskipulaginu yrði breytt með þeim hætti.

Hinn 7. september 2023 sendi byggingarfulltrúi bréf til eigenda Suðurhellu 10 þar sem fram kom að búið væri að setja milliloft í nokkrum matshlutum hússins án þess að fyrir lægi samþykki byggingarfulltrúa. Var skorað á eigendur að fjarlægja byggingarhlutana hið fyrsta en yrði þeim tilmælum ekki sinnt myndi byggingarfulltrúi taka ákvörðun um framhald málsins með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 160/2010 sem gæti falið í sér álagningu dagsekta. Tilmælin voru ítrekuð með bréfi byggingarfulltrúa 3. október 2023 auk þess sem fram kom að ef ekki væri búið að bregðast við fyrir 1. nóvember 2023 myndi byggingarfulltrúi leggja á dagsektir. Var eigendum jafnframt bent á andmælarétt skv. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi, dags. 20. október 2023, var af hálfu kærenda andmælt fyrirhugaðri álagningu dagsekta. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 28. febrúar 2024 var tekið fyrir málefni Suðurhellu 10 með fyrirsögninni „óleyfisframkvæmdir, óleyfisbúsetu“. Var samþykkt að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 20.000 á eigendur Suðurhellu 10 frá og með 13. mars s.á. ef ekki yrði brugðist við fyrrgreindum tilmælum byggingarfulltrúa. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 29. febrúar s.á., var kærendum tilkynnt um þá ákvörðun.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi gefið kærendum vilyrði um að efri hæðir í húsinu á lóð Suðurhellu 10 yrðu samþykktar sem vinnustofur. Breyta þurfi deiliskipulagi en erfiðlega hafi gengið að fá samþykki eins eigenda Suðurhellu 10 fyrir þeirri breytingu þrátt fyrir að hann hafi samþykkt að hver og einn eigandi geti útbúið milliloft í sínu rými, en fyrir liggi þinglýstur samningur þess efnis. Í ljósi þess að um sé að ræða fyrirkomulag innan veggja fasteignar sé eðlilegra að leysa málið án þess að kærendur verði fyrir fjárhagslegu tjóni. Bent sé á að við Suðurhellu 6 sé búið að heimila sambærilega notkun og farið sé fram á varðandi Suðurhellu 10. Í ljósi jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins sé eðlilegt að heimiluð verði sambærileg deiliskipulagsbreyting.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Sveitarfélagið bendir á að fyrstu teikningar af Suðurhellu 10 hafi verið samþykktar árið 2007. Fasteignin sé samþykkt sem hús á einni hæð og stærð lóðar sé skráð 4.576,5 m2 í fasteignaskrá. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé hámarks­nýtingarhlutfall á lóð 0,34, en það hlutfall sé fullnýtt miðað við byggingarmagn lóðarinnar. Í umræddri fasteign séu átta rými og eigi kærendur sex þeirra. Búið sé að gera milliloft í þeim rýmum sem ekki sé í samræmi við samþykktar teikningar. Við gerð þeirra hafi einnig verið komið fyrir stigum til að komast að milliloftunum. Engin lokaúttekt hafi verið gerð þar sem samþykktar teikningar séu ekki í samræmi við fasteignina eins og hún sé í dag. Í mörg ár hafi byggingarfulltrúi ítrekað bent kærendum á ýmsa ágalla sem bæta þyrfti úr. Tvær leiðir séu fyrir hendi, annars vegar að sækja um og fá samþykkta deiliskipulagsbreytingu og hins vegar að fjar­lægja milliloft. Hinn 7. september 2023 hafi kærendum verið sent bréf með áskorun um að klára málið og var vísað til þess að yrði ekki brugðist við myndi byggingarfulltrúi beita öðrum úrræðum, t.d. álagningu dagsekta.

Árið 2021 hafi kærendum verið gert að rýma húsnæðið og hafi byggingarfulltrúi byggt málsmeðferð sína á 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en þá hafi verið þar óleyfisbúseta. Lögreglan hafi innsiglað rýmin en það hafi alltaf verið rifið og óleyfisbúseta hafi haldið áfram. Í þetta skipti byggi málsmeðferðin á 56. gr. sömu laga, en ákvæðið kveði á um aðgerðir til að knýja fram úrbætur.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Útleggingum Hafnarfjarðarkaupstaðar á málavöxtum sé mótmælt og vísað til þess að byggingarfulltrúi hafi engan reka gert að því að leiðbeina kærendum um breytingu á deiliskipulagi. Kærendur hafi ítrekað lýst því yfir að þeir væru reiðubúnir að senda inn umsókn um deiliskipulagsbreytingu, síðast í bréfi frá 20. október 2023. Byggingarfulltrúi hafi hins vegar ekki tekið það til umræðu þrátt fyrir að hækkað nýtingarhlutfall hafi verið samþykkt að Suðurhellu 6. Sveitarfélagið hafi ásetning til að heimila innan skamms hækkun nýtingarhlutfalls vegna Suðurhellu 10, en byggingarfulltrúi hafi sjálfur lýst því yfir í bréfi, dags. 9. mars 2021, að milliloft yrðu mögulega samþykkt. Hafi kærendur því haft réttmætar væntingar um að þau yrðu samþykkt.

Samkvæmt 11. gr. a. í lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur sé einstaklingi, sem skráður sé til lögheimilis í sveitarfélagi án tilgreinds heimilisfangs, heimilt að skrá sérstakt aðsetur sitt í atvinnuhúsnæði sem uppfylli ekki skilyrði 3. og 4. mgr. 2. gr. Þá komi fram í g-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir að hlutverk slökkviliðs sé m.a. að gefa umsagnir óski annað stjórnvald eftir þeim. Eftir slíkri umsögn virðist byggingarfulltrúi ekki hafa kallað en væntanleg ástæða þess sé sú að nú byggi byggingarfulltrúi eingöngu á því að milliloft séu ólögmæt en ekki að um óleyfisbúsetu sé að ræða í húsnæðinu.

Ákvörðun byggingarfulltrúa brjóti freklega gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins þar sem ekki sé skýrt hvers vegna ekki sé hægt að bíða þar til unnið sé að breytingu deiliskipulagsins. Álagning dagsekta sé íþyngjandi þvingunarúrræði og því skipti máli að skýrt sé hvers vegna þær séu lagðar á, hvaða fasteignir þær varði og að hverjum þeim sé beint. Fjöleignarhúsið Suðurhella 10 samanstandi af átta matshlutum en ekki sé tilgreint í hinni kærðu ákvörðun í hvaða rýmum hafi verið gerð milliloft. Álagning dagsekta geti ekki byggst á því að milliloft séu í einhverjum matshlutum heldur þurfi að tilgreina það með vísun til fasteignanúmera. Þegar af þeirri ástæðu beri að ógilda ákvörðunina.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 28. febrúar 2024 að leggja dagsektir að fjárhæð kr. 20.000 á kærendur frá og með 13. mars 2024 vegna óleyfisframkvæmda í húsinu að Suðurhellu 10.

Í fundargerð byggingarfulltrúa vegna fundar hans 28. febrúar 2024, þar sem hin kærða ákvörðun var tekin, og í bréfi hans til kærenda, dags. 29. s.m., kemur fyrir orðið „óleyfisbúseta“ í fyrirsögn erindanna. Aftur á móti er ljóst af atvikum málsins, þ. á m. undanfarandi tilmælum byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 7. september og 3. október 2023, að álagning dagsekta byggði á umræddum óleyfisframkvæmdum en ekki óleyfisbúsetu. Er því ekki tilefni til að fjalla um hvort álagning dagsekta hafi mátt byggja á óleyfilegri búsetu í húsinu.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að breyta mannvirki nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Þá er mælt svo fyrir í 2. mgr. 55. gr. laganna að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hinn ólöglegi byggingarhluti verði fjarlægður. Byggingarfulltrúa er svo heimilt skv. 2. mgr. 56. gr. laganna að beita dagsektum allt að kr. 500.000 til að knýja menn til þeirra verka sem þeir skulu hlutast til um samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim eða láta af ólögmætu athæfi.

Í máli þessu er óumdeilt að milliloft sem hafa verið reist í húsinu að Suðurhellu 10 hafa ekki fengist samþykkt af byggingarfulltrúa og voru þau því reist í óleyfi. Ástæða þess að samþykki liggur ekki fyrir er sú að með því yrði farið fram úr leyfilegu nýtingarhlutfalli samkvæmt deiliskipulagi svæðisins. Svo sem rakið er í málavöxtum hefur byggingarfulltrúi síðustu ár beint þeim tilmælum til kærenda að fjarlægja byggingarhlutana og af því tilefni vakið athygli á því að til álita komi að leggja á dagsektir ef ekki yrði brugðist við tilmælunum. Hafa kærendur ekki gert það heldur þess í stað reynt að fá í gegn breytingu á deiliskipulagi svæðisins þannig að hægt yrði að samþykkja milliloftin. Þau áform hafa aftur á móti ekki gengið eftir.

Með hliðsjón af framangreindum lagaákvæðum og atvikum málsins verður að líta svo á að byggingarfulltrúa hafi verið heimilt að leggja dagsektir á kærendur, en hafa ber í huga að öryggis- og heilbrigðishagsmunir búa að baki byggingarleyfisskyldu mannvirkja og skipulagshagsmunir að baki kröfu um að byggingar séu í samræmi við gildandi skipulag. Þykir álagning dagsekta að fjárhæð kr. 20.000 ekki vera úr hófi. Þá geta áform kærenda um að fá deiliskipulagi svæðisins breytt ekki raskað gildi hinnar kærðu ákvörðunar, enda liggur fyrir að beiðni um breytingu deiliskipulagsins hefur verið synjað og ekkert sem bendir til þess að sveitarfélagið hyggist breyta afstöðu sinni í því máli.

Samkvæmt jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu stjórnvöld við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í reglunni felst nánar tiltekið að óheimilt sé að mismuna aðilum sem eins sé ástatt um og að sambærileg mál beri að afgreiða á sambærilegan hátt. Fyrir liggur að í húsinu á lóð Suðurhellu 6 voru samþykkt milliloft í andstöðu við leyfilegt nýtingarhlutfall lóðarinnar samkvæmt áðurgildandi deiliskipulagi, en aðaluppdrættir voru áritaðir um samþykki árið 2007 og hámarksnýtingarhlutfalli lóðarinnar var síðan breytt með deiliskipulagsbreytingu árið 2018. Sú staða getur þó ekki leitt til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar enda getur jafnræðisreglan ekki veitt mönnum réttindi sem eru í andstöðu við lög.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Með vísan til 12. gr. og 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þykir rétt að dagsektir, sem kunna að hafa verið lagðar á til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar, falli niður.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 28. febrúar 2024 um álagningu dagsekta að fjárhæð kr. 20.000 vegna óleyfisframkvæmda í húsinu á lóð Suðurhellu 10.

Dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á samkvæmt hinni kærðu ákvörðun til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falla niður.