Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

25/2025 Þorlákshafnarhöfn

Með

Árið 2025, mánudaginn 24. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 25/2025, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. febrúar 2025 um að landfylling við Þorlákshöfn skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. febrúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Brimbrettafélag Íslands þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. febrúar s.á. að landfylling við Þorlákshöfn skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir. Verður nú tekin afstaða til síðargreindrar kröfu kærenda.

Leitað var umsagnar Skipulagsstofnunar um kæru í máli þessu. Gerði stofnunin ábendingu um gögn málsins og boðaði umsögn innan veitts frests, sem ekki er liðinn.

Málsatvik og rök: Hinn 10. desember 2024 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Hafnarsjóði Þorlákshafnar um landfyllingu við Þorlákshafnarhöfn samkvæmt 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. liði 13.02 og 10.10 í 1. viðauka laganna. Í greinargerð með tilkynningunni kom fram að hin fyrirhugaða framkvæmd væri tæplega 1 ha landfylling á syðsta hluta hafnarsvæðisins. Núverandi hafnarsvæði H3 væri um 12 ha að stærð og fyrirhuguð breyting gerði ráð fyrir um 9.000 m2 landfyllingu sunnan Suðurvaragarðar. Efnið sem notað yrði í landfyllinguna kæmi til með að vera uppúrtekt vegna dýpkunar við nýja Suðurvarabryggju. Gert væri ráð fyrir að í landfyllinguna sjálfa yrði notað um 27.000 m3 af efni og í grjótkápuna um 10.000 m3 af grjóti. Skipulagsstofnun leitaði umsagna Brimbrettafélags Íslands, Hafrannsóknarstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Umhverfis- og orkustofnunar, Vegagerðarinnar, Sveitarfélagsins Ölfuss og Náttúruverndarstofnunar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu lá fyrir 4. febrúar 2025. Var niðurstaða stofnunarinnar að hin fyrirhugaða framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021 og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærandi bendir á að hann telji að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé háð efnis- og formannmörkum sem eigi með réttu að valda ógildingu ákvörðunarinnar. Stofnunin hafi ekki búið yfir fullnægjandi eða réttum upplýsingum til að leggja forsvaranlegt mat á líkleg umhverfisáhrif og umfang þeirra og nauðsyn hefði staðið til þess að rannsaka ýmis atriði betur. Ljóst sé að framkvæmdirnar muni hafa í för með sér óafturkræf áhrif á Aðalbrotið. Verði hin fyrirhugaða landfylling að veruleika muni aldan styttast, gæði hennar verða óásættanleg og aðstæður til brimbrettaiðkunar mun hættulegri. Hluti brimbrettasvæðisins muni fara undir land­fyllinguna, þar á meðal það svæði sem notað sé af brimbrettafólki til að komast upp úr sjónum.

Niðurstaða: Á grundvelli 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kærumáls. Um er að ræða undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og ber að skýra umrædda heimild þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Einnig að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta eða ef til staðar séu mikilvægir almannahagsmunir, t.d. þar sem ákvörðun hefur að markmiði að koma í veg fyrir hættuástand. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Hinn 10. febrúar 2025 lagði kærandi þessa máls fram kæru á framkvæmdaleyfi Sveitarfélagsins Ölfuss, dags. 4. s.m., og gerði kröfu um stöðvun framkvæmda. Með bráðabirgðaúrskurði, dags. 12. s.m., stöðvaði úrskurðarnefndin framkvæmdir á grundvelli hins kærða framkvæmdaleyfis. Var kæran í kjölfarið látin sæta flýtimeðferð hjá úrskurðarnefndinni á grundvelli 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011. Með úrskurði, fyrr í dag var kæru vegna framkvæmdaleyfis vísað frá nefndinni sökum aðildarskorts. Brestur nefndina heimild til þess að fjalla um skilyrði frestunar réttaráhrifa þeirrar ákvörðunar, að því virtu.  Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sem lýtur eingöngu að því hvort fyrirhuguð framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum en ákvörðunin felur ekki í sér sjálfstæða heimild til að hefja framkvæmdir. Verður því ekki fallið á að skilyrði geti verið til þess að fresta réttaráhrifum hennar. Það er því undir framkvæmdaraðila komið að meta hvort hann kjósi að bíða úrskurðar nefndarinnar um þá ákvörðun sem er til umfjöllunar í máli þessu.

 Vert er að geta þess að í stjórnsýslukæru kæranda er aðild rökstudd svo að hann teljist til umhverfisverndar-, útivistar eða hagsmunasamtaka. Kemur þar fram að kærandi uppfylli áskilnað b-liðs 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem hagsmunasamtök. Hefur kærandi komið nánari upplýsingum hér að lútandi til úrskurðarnefndarinnar, en ekki hefur verið tekin afstaða til kæruaðildar á þeim grundvelli að svo stöddu.

 Með tilliti til þess að heimild til frestunar réttaráhrifa er undantekning og með vísan til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis hinnar kærðu ákvörðunar verður kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli hinnar kærðu matsskylduákvörðunar.

20/2025 Grundarland

Með

Árið 2025, mánudaginn 24. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 20/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. janúar 2025 um álagningu dagsekta vegna bílskýlis að Grundarlandi 22.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. febrúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Grundarlands 22, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. janúar s.á. um álagningu dagsekta að fjárhæð 25.000 kr. á dag frá og með 24. s.m. vegna bílskýlis að Grundarlandi 22. Einnig er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa, dags. 22. ágúst 2024, um niðurrif bílskýlisins. Með tölvupósti frá 14. febrúar 2025 gerðu kærendur þá kröfu að réttaráhrifum ákvörðunar um dagsektir verði frestað á meðan málið verði til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. febrúar 2025.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 22. ágúst 2024, sem móttekið var af kærendum 3. september s.á. tilkynnti byggingarfulltrúi lóðarhöfum Grundarlands 22 að borist hefði ábending um að búið væri að reisa mannvirki á lóðarhluta húss nr. 22 á lóð nr. 18.–24. við Grundarland. Samkvæmt ábendingu væri búið að reisa skúr og bílskýli utan byggingarreits. Var kærendum tilkynnt að þeim væri skylt að rífa skýlið innan 90 daga, ella yrðu lagðar á dagsektir. Með tölvupósti frá 28. nóvember s.á. var kærendum tilkynnt að ákvörðun byggingarfulltrúa stæði og að hún væri kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Með bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 23. janúar 2025, var síðan tilkynnt um ákvörðun um álagningu dagsekta, kr. 25.000 fyrir hvern þann dag sem dragast mundi að verða við kröfu um niðurrif.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. febrúar 2025 var tekin fyrir beiðni kærenda um að stöðva innheimtu dagsekta á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þeirri beiðni var synjað.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. janúar 2025 að leggja á dagsektir að fjárhæð 25.000 kr. fyrir hvern þann dag sem kærendur draga að verða við kröfu um að fjarlægja mannvirki er tilheyri húsi nr. 22 á lóð nr. 18.–24 við Grundarland. Kærendur hafa nýtt sér heimild til að bera lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar undir úrskurðarnefndina. Um íþyngjandi ákvörðun er að ræða, sem beinist einungis að kærendum. Eins og málsatvikum er háttað þykir rétt að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar enda liggja ekki fyrir knýjandi ástæður sem gera það að verkum að varhugavert sé að bíða niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um ágreiningsefni máls þessa.

 Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. janúar 2025, um beitningu dagsekta að fjárhæð 25.000 kr. á dag frá og með 24. janúar 2025.

162/2024 Furuhlíð

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 13. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 162/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 12. maí 2024 um að aðhafast ekki frekar vegna lóðarmarka Fjóluhlíðar 11 og Furuhlíðar 10, Hafnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 25. nóvember 2024, kærir eigandi, Fjóluhlíð 11, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 12. maí 2024 að aðhafast ekki frekar vegna lóðarmarka Fjóluhlíðar 11 og Furuhlíðar 10. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 3. desember 2024.

Málsatvik og rök: Á árinu 2023 hóf kærandi tölvupóstsamskipti við byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar vegna hæðar lóðar Furuhlíðar 10 og stöllunar á henni, sem hann taldi ekki vera samkvæmt samþykktum teikningum og skipulagi. Í kjölfarið fór byggingarfulltrúi á staðinn ásamt mælingamanni og með bréfi, dags. 12. maí 2024, var kæranda tilkynnt um niðurstöður mælinga. Í bréfinu kom fram að byggingarfulltrúi teldi að stöllun innan lóðar Furuhlíðar 10 samræmdist deiliskipulagi. Þá benti hann á að lóðarfrágangurinn hafi verið með þessum hætti frá því að húsin hafi verið byggð fyrir um 20-30 árum. Þá  hugðist embættið ekki aðhafast frekar í málinu.

 Kærandi kveðst hafa byggt hús sitt að Fjóluhlíð 11 í samræmi við samþykktar teikningar og hæð lóðarinnar sé í samræmi við deiliskipulag. Húsið að Furuhlíð 10 hafi verið byggt nokkrum árum seinna og lóðin sett í jafna hæð í kóta 31 nema um 1,5 m frá lóðamörkum Fjóluhlíðar 11 þar sem 1,5 m hár stoðveggur hafi verið gerður svo hæðarkóti yrði réttur á lóðarmörkum. Kærandi hafi ekki gert sér grein fyrir því að þetta hafi ekki verið í samræmi við samþykktar teikningar Furuhlíðar 10 enda hafi lóðin verið tekin út af byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar. Lóðin sé teiknuð einhalla að lóðarmörkum og hluti hæðarmunar tekinn upp við mitt hús Furuhlíðar 10. Byggingarfulltrúi hafi í ákvörðun sinni vísað til deiliskipulags um að heimilt sé að stalla lóðina niður að lóðarmörkum Fjóluhlíðar og að það sé gert með stoðvegg úr stórgrýti. Stöllun lóðar Furuhlíðar 10 sé í engu samræmi við teikningar lóðarinnar sem sýni einhalla, né deiliskipulag. Kærandi kannist ekki við að hafa fengið bréf með ákvörðun byggingarfulltrúa og því ekki náð að kæra ákvörðunina innan tímamarka. Á árinu 2024 hafi bréf verið send til bæjarstjóra, byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa þar sem kærandi hafi óskað eftir viðbrögðum við erindi sínu. Bréfinu hafi ekki verið svarað fyrr en eftir samtöl við fulltrúa Hafnarfjarðar þegar afrit af bréfi byggingarfulltrúa hafi verið afhent.

 Af hálfu Hafnarfjarðarkaupstaðar er talið að kæran í málinu sé of seint fram komin og að hafna eigi öllum kröfum kæranda. Þá sé tiltekið að húsin og lóðirnar hafi verið í þessu horfi svo áratugum skipti. Húsið að Furuhlíð 10 hafi verið byggt árið 1989 og hús kæranda að Fjóluhlíð 11 hafi verið byggt 1994. Kærandi hefði mátt gera sér grein fyrir landhallanum þegar hús hans hafi verið byggt. Á samþykktum teikningum séu lóðarmörkin sýnd aflíðandi að lóðarmörkum, sem ekki sé raunin. Mælingamaður hafi mælt hæð á lóðarmörkum og í framhaldinu hafi verið ákveðið að embættið myndi ekki aðhafast meira í þessu máli. Kæranda hafi verið tilkynnt sú ákvörðun með bréfi.

Niðurstaða Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Ákvörðun byggingarfulltrúa var send á lögheimili kæranda með bréfi, dags. 12. maí 2024, þar sem samtímis voru gefnar leiðbeiningar um kærurétt til úrskurðarnefndarinnar. Kærandi kveðst ekki hafa móttekið bréfið en fengið það síðar í hendur í samskiptum við fulltrúa Hafnarfjarðar. Í gögnum málsins er ódagsett bréf sem kærandi kveðst hafa afhent fulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar í júní 2024. Kemur þar fram að erindi hans um að lóðin Furuhlíðar 10 yrði hæðarsett í samræmi við skipulag, hafi verið hafnað af byggingarfulltrúa. Verður ekki annað ráðið af þessu en að kærendur hafi vitað af hinni kærðu ákvörðun eigi síðar en í júní 2024.

Í ljósi þess að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 25. nóvember 2024, sem var að liðnum lögbundnum kærufresti, verður henni vísað frá nefndinni, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

171/2024 Æðaroddi

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 12. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 171/2024, kæra á afgreiðslu á erindi kæranda um að sauðfjárhald í hesthúsi að Æðarodda 27, Akranesi, verði stöðvað.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 9. desember 2024, kærir eigandi hesthúss að Æðarodda 29, afgreiðslu á erindi hans um að sauðfjárhald í næsta hesthúsi, Æðarodda 27, Akranesi, verði stöðvað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akraneskaupstað 17. janúar 2025.

Málsatvik og rök: Kærandi er eigandi hesthúss að Æðarodda 29 á Akranesi. Með tölvupósti 18. nóvember 2024 til skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar óskaði hann eftir skýringum á sauðfjárhaldi í hesthúsi að Æðarodda 27. Í framhaldi kom fram af hálfu bæjarins að heimilt væri samkvæmt deiliskipulagi að halda fé á svæðinu en krafa sé gerð um að taðþró þurfi að vera innan eða utan byggingar. Í tölvupósti, dags. 26. nóvember 2024, benti kærandi á að teikningar fyrir taðþró í kjallara hússins að Æðarodda 27 vanti á kortavef sveitarfélagsins. Þá hafi húsið verið byggt og skilgreint sem hesthús en ekki fjárhús. Ekki hafi verið sótt um leyfi til að breyta því í fjárhús né hafi verið lagðir inn uppdrættir fyrir þeim breytingum sem gerðar hafi verið á húsinu. Var þess krafist að allt sauðfé yrði fjarlægt úr húsinu þangað til þessi mál væru komin í lag. Var þessu erindi ekki svarað af hálfu bæjaryfirvalda.

Kærandi bendir á að í fasteignaskrá sé húsið að Æðarodda 27 skráð sem hesthús. Nú sé þar eingöngu sauðfé og það sem því tilheyri, þar á meðal slátrun sauðfjár að hausti. Sauðfjárhald hafi verið í húsinu í nokkur ár en hann hafi ekki vitað af því fyrr en fyrir stuttu síðan að ekki mætti breyta um starfsemi í húsinu nema með leyfi sem háð væri nýjum uppdráttum vegna breytinga. Töluverð óþægindi verði af sauðfjárhaldinu og hafi hann fengið ámæli fyrir að trufla sauðburð og sé erfitt að vera með hunda á lóðum í kring vegna þess. Vegna vondrar lyktar sem stafi frá fénu geti hann auk þess orðið fyrir fjárhagstjóni.

Af hálfu Akraneskaupstaðar er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé til að dreifa kæranlegri ákvörðun né heldur hafi kæra borist innan kærufrests. Jafnframt er vísað til þess að notkun hússins að Æðarodda nr. 27 sé í samræmi við landnotkun samkvæmt deiliskipulagi og sé bænum ekki heimilt að verða við kröfum kærenda um að búfjárhald verði þar stöðvað. Athugasemdum kæranda hafi verið svarað og skýrt hafi verið út fyrir honum að sú starfsemi sem hann krefjist að verði stöðvuð sé lögmæt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Fjallað er um hlutverk byggingarfulltrúa sveitarfélaga í lögum nr. 160/2010 um mannvirki og felst það m.a. í því að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi. Samkvæmt 55. og 56. gr. laganna hafa þeir, og eftir atvikum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, heimildir til að beita þvingunarúrræðum. Í bréfi kæranda, dags. 26. nóvember 2024, var farið fram á að sauðfjárhald yrði stöðvað í húsinu að Æðarodda 27. Erindinu hefur ekki verið svarað en í fyrri tölvupóstsamskipum milli kæranda og bæjaryfirvalda kom fram sú afstaða Akraneskaupstaðar að starfsemin samrýmdist skipulagsáætlunum á svæðinu. Sú afstaða stjórnvalds verður ekki jöfnuð við afgreiðslu málsins hjá því stjórnvaldi sem til þess er bært, en fyrir liggur að beiðni kæranda um að þvingunarúrræðum yrði beitt hefur ekki verið formlega afgreidd hjá byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar. Liggur því ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun í málinu sem bindur enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

159/2024 Brautarholt

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 12. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 159/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. júní 2023 um útgáfu vottorðs um lokaúttekt á Brautarholti 18-20.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 15. nóvember 2024, kærir A lokaúttekt byggingarfulltrúans í Reykjavík á Brautarholti 18-20, en vottorð þar um var gefið út 15. júní 2023. Í kærunni kemur fram að kærandi sé formaður húsfélagsins í Brautarholti 18-20. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík 18. desember 2024.

Málavextir: Í máli þessu er kærð til ógildingar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um útgáfu vottorðs um lokaúttekt á 64 íbúðum á 2. – 5. hæð að Brautarholti 18-20, ásamt sameign og verslunarrými á jarðhæð, á þeim grunni að byggingaraðili hafi ekki farið eftir byggingarreglugerð um fjölbýli.

Málsrök kæranda: Kærandi segir að frágangi byggingaraðila á húseigninni Brautarholt 18-20 hafi um margt verið ábótavant, byggingarframkvæmdum hafi ekki verið lokið í samræmi við byggingarreglugerð og teikningar vanti af framkvæmdum. Kærandi tiltekur fjölda atriða sem hann telur í ólagi m.v. kröfur byggingareglugerðar og krefst ógildingar á lokaúttektinni í þeim tilgangi að fá seljanda byggingarinnar til að ljúka frágangi hennar til samræmis við byggingarreglugerð.

Málsrök byggingarfulltrúans í Reykjavík: Hið kærða lokaúttektarvottorð hafi verið gefið út 15.  júní 2023, en kæra sé dagsett 15. nóvember 2024. Því sé ljóst að eitt ár og fimm  mánuðir hafi liðið frá því að lokaúttektarvottorð var gefið út og þar til að kæra vegna þess barst úrskurðarnefndinni. Kærandi hafi verið í sambandi við starfsmenn byggingarfulltrúa í júní 2023 og skv. tölvupóstsamskiptum starfsmanns byggingarfulltrúa og kæranda var kærandi upplýstur um vottorð um lokaúttekt þann 26. júní 2023 og barst vottorðið þann 27. júní 2023. Því sé ljóst að kæranda hafi verið  kunnugt um vottorð um lokaúttekt frá 27. júní 2023, en í síðasta lagi í maí 2024 þegar úttektaraðili sem húsfélagið að Brautarholti 18-20 réði skilaði matsskýrslu, sem innihélt m.a. vottorð um lokaúttekt, til húsfélagsins. Kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála, sbr. 27. og 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hafi því verið löngu liðinn þegar kæran barst nefndinni, sama hvort tímamarkið sé miðað við sem upphaf kærufrests. Krefst byggingarfulltrúinn þess að málinu verði vísað frá þar sem kæran sé of seint fram komin.

———-

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð til ógildingar lokaúttekt byggingarfulltrúans í Reykjavík á byggingarframkvæmdum að Brautarholti 18-20, skv. vottorði um lokaúttekt sem gefið var út 15. júní 2023. Í kærunni segir að kærandi hafi ekki nákvæma dagsetningu á því hvenær og hvernig hann vissi af hinni kærðu ákvörðun. Af fyrirliggjandi gögnum má hins vegar sjá að í samskiptum kæranda og starfsmanns byggingarfulltrúa Reykjavíkur þann 26. júní 2023 kom fram að byggingarfulltrúi hafi gefið út vottorð um lokaúttekt á Brautarholti 18-20 þann 15. júní 2023 og mátti því kæranda vera sú staðreynd ljós þann dag. Byggingarfulltrúi segir að kæranda hafi borist vottorðið 27. júní 2023. Upplýsingar um útgáfu lokavottorðsins komu einnig skýrlega fram í tölvupósti starfsmanns byggingarfulltrúa til kæranda þann 22. nóvember 2023, svo telja má að kæranda hefði í síðasta lagi átt að vera kunnugt um ákvörðunina þann dag.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Kæran í máli þessu barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 15. nóvember 2024, að lögbundnum kærufresti liðnum.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. skal kæru þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

26/2025 Þorlákshafnarhöfn

Með

 

Árið 2025, miðvikudaginn 12. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 26/2025, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. janúar 2025 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gerð landfyllingar við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. febrúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Brimbrettafélag Íslands þá ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. janúar s.á. um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gerð landfyllingar við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málavextir: Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss 22. janúar var tekin fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi til að gera tæplega 1 ha landfyllingu við Suðurvararbryggju. Fól umsóknin í sér gerð landfyllingar milli Suðurvarargarðs og útsýnispalls á norðanverðu hafnarsvæði Þorlákshafnar. Stærð landfyllingar yrði um 9.000 m2 sem ætlað væri að ná frá núverandi sjóvörn að stórstraumsfjöruborði og tengjast núverandi athafnasvæði syðst á hafnarsvæðinu. Heildar magn landfyllingar var áætlað um 27.000 m3 og í grjótkápu um 10.000 m3 til viðbótar. Var umsóknin samþykkt á fundinum með fyrirvara um birtingu deiliskipulags hafnarsvæðis í B-deild Stjórnartíðinda og að framkvæmdin yrði ekki metin umhverfismatsskyld af Skipulagsstofnun. Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss 30. janúar 2025 var afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar samþykkt. Hinn 3. febrúar 2025 tók greint deiliskipulag gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Lá ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu fyrir 4. s.m. og var framkvæmdaleyfi gefið út sama dag. Í leyfinu kemur fram að framkvæmdatími er áætlaður þrír mánuðir.

Í matsskyldufyrirspurn Sveitarfélagsins Ölfuss, frá 10. desember 2024, kom fram að fyrirhuguð framkvæmd væri hluti af breytingum og endurbótum sem hafi átt sér stað á hafnarsvæði Þorlákshafnar. Höfnin sé undirstaða atvinnulífs og þróunar byggðar í bænum. Um sé að ræða einu flutnings- og fiskihöfn Suðurlands allt austur til Hornafjarðar, og þjónusti hún einnig höfuðborgarsvæðinu. Fram kom einnig að umsvif hafnarinnar séu fjölbreytt og hafi aukist með tíðari komu vöruflutningaskipa og leggi sveitarfélagið áherslu á að efla þjónustu við hafnsækna starfsemi. Með breytingunni séu sköpuð ákjósanleg skilyrði til að þjónusta starfsemi hafnarinnar vel og efla um leið atvinnulíf og byggð í Þorlákshöfn, m.a. með auknum vöruflutningum, þjónustu við fiskveiðiskip og viðkomu skemmtiferðaskipa. Sjórinn suður af hafnarsvæðinu hafi verið nýttur af áhugafólki til brimbrettaiðkunar en engin aðstaða sé til staðar fyrir þá starfsemi.

Málsrök kæranda: Kærandi krefst þess að framkvæmdir verði stöðvaðar. Ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis sé háð efnis- og formannmörkum sem valdi ógildingu ákvörðunarinnar. Ljóst sé að framkvæmdirnar, sem hafnar séu, muni hafa í för með sér óafturkræf áhrif á Aðalbrotið. Líkt og rakið hafi verið í umsögn kæranda sé öldugangur á hverjum stað þannig einstakur af náttúrunnar hendi og verði ekki endurskapaður. Með kæru fylgdi myndband sem ætlað var að sýna að framkvæmdir væru þegar hafnar.

Málsrök sveitarfélagsins Ölfuss: Sveitarfélagið hefur ekki veitt umsögn um kæru í máli þessu en starfsmaður sveitarfélagsins benti á að farið yrði yfir málið og umsögn veitt. Kom um leið fram að það mundi hafa stórkostlegt tjón í för með sér ef framkvæmdir yrðu stöðvaðar, jafnvel þó það væri bara tímabundið.

Niðurstaða:  Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Ákvörðun um slíka stöðvun er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Ljóst virðist af gögnum málsins að framkvæmdir séu þegar hafnar. Vísar kærandi til þess að um óafturkræf áhrif vegna framkvæmda verði að ræða ef ekki verði brugðist við kröfu hans um stöðvun framkvæmda.

Með vísan til athugasemda um 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 verður að telja að kæruheimild kunni að verða þýðingarlaus í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið hafi úrskurðarnefndin ekki framangreindar heimildir, en mikilvægt sé að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru. Af hálfu kæranda hefur verið hreyft margvíslegum sjónarmiðum og álítur hann m.a. að ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin þurfi ekki að lúta mati á umhverfisáhrifum sé háð verulegum annmörkum. Verði ákvörðun stofnunarinnar, sem einnig hefur verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, felld úr gildi í samræmi við kröfu félagsins sé forsenda fyrir útgáfu framkvæmdaleyfisins brostin. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru ýmis álitaefni uppi í málinu sem geta haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Þarf úrskurðarnefndin því tóm til að kanna málsatvik frekar, leita eftir sjónarmiðum sveitarfélagsins og eftir atvikum afla frekari gagna.

Meðal álitaefna sem uppi eru í þessu kærumáli er hvort kærandi uppfylli skilyrði kæruaðildar að hinni kærðu ákvörðun skv. lögum nr. 130/2011. Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er fjallað um almenn skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni, þ.e. að kærandi verði að eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Af hálfu kæranda er á hinn bóginn vísað til b. liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sem varðar heimild tiltekinna samtaka, sem talin eru gæta almannahagsmuna, til þess, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum, að bera vissar ákvarðanir undir úrskurðarnefndina. Þar á meðal eru leyfi „vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum“, sbr. b-lið nefndrar 3. mgr. 4. gr.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 var rakið í skýringum við b-lið nefndrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Hér undir falli m.a. framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að skuli háðar mati á umhverfisáhrifum og var um það vísað til þágildandi laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Þau leyfi sem um sé að ræða séu öll leyfi stjórnvalda sem sæti kæru til nefndarinnar og nauðsynleg séu svo ráðast megi í framkvæmd sem sé háð mati á umhverfisáhrifum. Í ljósi þessa mun úrskurðarnefndin við meðferð þessa kærumáls óska eftir nánari rökstuðningi um kæruaðild kæranda.

Af gögnum þessa máls virðist ljóst að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi séu yfirvofandi og er framkvæmdatími áætlaður þrír mánuðir. Að því má leiða rök að ekki hafi þýðingu að fjalla efnislega um kærumálið nema tryggt sé að framkvæmdir fari ekki fram á meðan málið er til úrlausnar hjá úrskurðarnefndinni. Eru jafnframt ýmiss álitaefni uppi í málinu sem þarfnast nánari rannsóknar og eru því efnisleg rök að baki kæru. Álíta verður því að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 til stöðvunar framkvæmda. Um leið þykir rétt, að virtum þeim athugasemdum sem komu fram af hálfu sveitarfélagsins, að benda á að leyfishafi getur krafist þess að mál fyrir úrskurðarnefndinni sæti flýtimeðferð samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Stöðvaðar eru framkvæmdir samkvæmt framkvæmdaleyfi bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. janúar 2025 fyrir gerð landfyllingar við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn.

6/2025 Álfabakki

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 11. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 6/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar dags. 20. desember 2024, um að synja kröfu um stöðvun framkvæmda að Álfabakka 2A

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags, 13. janúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Búseti húsnæðissamvinnufélag, eigandi íbúða í Árskógum 5-7, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, dags. 20. desember 2024, að synja kröfu um stöðvun framkvæmda að Álfabakka 2A. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. janúar 2025.

Málavextir: Með erindi til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, dags. 12. nóvember 2024,  var farið fram á tafarlausa stöðvun yfirstandandi framkvæmda við Álfabakka 2A og kannað hvort brotið væri á forsendum samþykktrar deiliskipulagsbreytingar fyrir Suður-Mjódd, dags. 5. október 2022 og 13. október 2022, byggingarleyfis dags. 17. október 2023 og/eða réttindum Búseta og íbúa við Árskóga 5-7, 109 Reykjavík. Með bréfi dags. 20. desember 2024 synjaði byggingarfulltrúi um þá beiðni og er sú afstaða sem fram kemur í því bréfi hin kærða ákvörðun í máli þessu.

 Málsrök kæranda: Kærandi telur hina kærðu ákvörðun ekki í samræmi við lög og vísar til þess að mannvirkið og notkun þess brjóti í bága við skipulag, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. einnig 1. mgr. gr. 2.9.1 byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Hann álítur að sú afstaða byggingarfulltrúa að byggingarleyfi samræmist byggingarreglugerð standist ekki nánari skoðun. Þá séu framkvæmdirnar ekki í samræmi við byggingarleyfi auk þess að ekki hafi farið fram mat á hvort framkvæmdin væri umhverfismatsskyld, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Ákvörðun um hvort skilyrði séu til að stöðva framkvæmdir á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga um mannvirki, verði að byggja á heildstæðu mati á því hvort útgefið byggingarleyfi og framkvæmdir á þeim grundvelli sé í samræmi við lög og skipulagsáætlanir. Komi við nánari athugun í ljós að byggingarleyfi uppfylli ekki skilyrði viðeigandi laga og reglna hvíli sú skylda á byggingarfulltrúa að bregðast við og stöðva framkvæmdir. Stjórnvald sem sé upplýst um annmarka á ákvörðunum geti ekki vikið sér frá þeirri skyldu að koma málum í lögmætt horf og þá eftir atvikum afturkalla ákvarðanir sínar, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar kom fram að nefndinni beri að hafna kröfu um stöðvun framkvæmda þar sem ekki verði séð að hagsmunum kæranda verði raskað á meðan fjallað verði um gildi þeirrar afstöðu sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa frá 20. desember 2024. Heitið var frekari málafærslu fyrir úrskurðarnefndinni, en ekki þótti ástæða til að bíða hennar.

Málsrök leyfishafa: Af hálfu leyfishafa kom fram að útgefið byggingarleyfi sé í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag, deiliskipulag og lög og engir formgallar séu á undirbúningi þess, sem réttlæti jafn íþyngjandi ákvörðun og þá að stöðva framkvæmdir.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um það hvort skylt hafi verið af byggingarfulltrúanum í Reykjavík að stöðva framkvæmdir að Álfabakka 2A. Byggingarleyfi vegna framkvæmdanna hafa verið útgefin og hafa þau ekki verið kærð, en ágreiningur er um hvort framkvæmd sé í samræmi við nefnd leyfi og hvort brotið sé á forsendum samþykktrar deiliskipulagsbreytingar fyrir Suður-Mjódd, dags. 5. október 2022 og 13. október 2022, byggingarleyfis dags. 17. október 2023 og/eða réttindum Búseta og íbúa við Árskóga 5-7, 109 Reykjavík. Kæruheimild er í 59. gr. laga um mannvirki og barst kæra innan kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefndina nr. 130/2011.

Samkvæmt 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er byggingarfulltrúa heimilt að stöðva byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skv. 9. gr. laganna er þær eru hafnar án þess að leyfi sé fengið, ekki er sótt um leyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis, það byggt á annan hátt en leyfi stendur til, mannvirkið eða notkun þess brýtur í bága við skipulag, mannvirki er tekið í notkun án þess að öryggisúttekt hafi farið fram eða ef mannvirki er tekið til annarra nota en heimilt er samkvæmt útgefnu byggingarleyfi. Slík ákvörðun er bráðabirgðaákvörðun sem taka skal tafarlaust leiki grunur á því að framkvæmd sé án tilskilins leyfis. Í framhaldi hefur byggingarfulltrúi undirbúning endanlegrar ákvörðunar, sem eftir atvikum getur falist í að aflétta stöðvun eða beina tilmælum til framkvæmdaraðila um að bæta úr því sem áfátt er eða fjarlægja byggingarhluta.

Meðan mál þetta var til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni barst tilkynning frá byggingarfulltrúa dags. 30. janúar 2025, um að framkvæmdir við kjötvinnslu á 1. hæð í Álfabakka 2A yrðu tafarlaust stöðvaðar. Ástæða stöðvunarinnar var sögð að nánari skoðun á aðaluppdráttum, samþykktum 24. september 2024 hafi leitt í ljós misræmi milli samþykktra aðaluppdrátta og skráningartöflu, gera þurfi betur grein fyrir rými 0101 sem áætlað er fyrir kjötvinnslu og að ekki liggi fyrir upplýsingar um hvort félagið hafi tilkynnt til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða kjötvinnslu og líkleg umhverfisáhrif hennar. Hlutaðeigandi aðilum var veittur 7 daga frestur frá móttöku bréfsins til að koma að skriflegum skýringum og athugasemdum vegna málsins. Þá kom fram að byggingarfulltrúi mundi, að þeim fresti liðnum, taka ákvörðun um framhald málsins. Er í bréfinu tekið fram að byggingarfulltrúa kunni að vera heimilt að breyta eða fella byggingarleyfi úr gildi samkvæmt 4. mgr. 14. gr. laga nr. 160/2010 eða eftir atvikum að undangenginni endurupptöku málsins að uppfylltum skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga eða með því að afturkalla það samkvæmt 25. gr. sömu laga.

Með þessu verður að álíta að til sé að dreifa nýrri afstöðu byggingarfulltrúa sem leitt getur til nýrrar stjórnvaldsákvörðunar sem mögulegt er að verði borin undir nefndina til úrskurðar, sbr. 65. gr. laga nr. 7/1998. Verður af þeim sökum ekki talið að hin kærða ákvörðun frá 20. desember 2024 hafi réttarverkan og virðist eðlilegt að líta svo á að hún hafi verið afturkölluð með tilkynningunni dags. 30. janúar 2025. Með hliðsjón af þessu sem og því sem ráða má af tilkynningunni um yfirstandandi rannsókn máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, þykir ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um málið og verður því af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

147/2024 Sandártunga

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 11. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 147/2024, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 18. október 2024 um að 200.000 m3 efnistaka á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal skuli ekki sæta umhverfismati.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. október 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 18. október s.á. um að 200.000 m3 efnistaka á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal skuli ekki sæta umhverfismati. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 22. nóvember 2024.

Málavextir: Hinn 14. júní 2024 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Vegagerðinni um fyrirhugaða efnistöku í Sandártungu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, samkvæmt 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. tl. 2.02 í 1. viðauka laganna.

Í greinargerð sem fylgdi tilkynningunni kom fram að fyrirhuguð væri efnistaka á allt að 200.000 m3 af efni á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal, Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Samhliða væri unnið að breytingu á Aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017–2029 þar sem hluta Skógræktar- og landgræðslusvæðis yrði breytt í efnistökusvæði. Fyrirhugað væri að Vegagerðin myndi nýta 150.000 m3 til vegagerðar og bakkavarna vegna vegagerðar í Þjórsárdal, en aðrir 50.000 m3 væru áætlaðir í önnur verkefni á vegum sveitarfélagsins. Valkostagreining um staðsetningu efnistökusvæðisins hefði þegar farið fram sem og hvort hægt væri að nýta efni úr núverandi námum eða stækka þær. Engar opnar bergnámur væru nálægt fyrirhugaðri breytingu á Þjórsárdalsvegi, en um 50.000 m3 þyrfti í rofvarnir við veginn. Niðurstaða valkostagreiningar hafi verið sú að í núverandi námum sé ekki að finna efni sem uppfyllti kröfur til vegagerðar og grjótvarnar, því væri þörf á að skilgreina nýja námu. Sandártungunáma væri í 5–11 km fjarlægð frá áætluðum notkunarstöðum efnisins

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 18. október 2024. Í henni var fjallað um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eins og henni var lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila. Tók umfjöllunin til áhrifa framkvæmdarinnar á landslag, ásýnd og jarðmyndanir. Einnig áhrif á vistgerðir, fuglalíf, fornminjar, verndarsvæði, hljóðvist og loftmengun, útivist og á vatnshlot. Það var niðurstaða stofnunarinnar að með hliðsjón af umfangi, eðli og staðsetningu að áhrif af fyrirhugaðri efnistöku yrði óafturkræf varðandi jarðmyndanir, en óveruleg á aðra umhverfisþætti, en ljóst væri að staðbundið myndi ásýnd svæðisins taka nokkrum breytingum. Hin fyrirhugaða framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og framkvæmdin skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að framkvæmdaraðili hafi ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana í tilkynningu sinni til Skipulagsstofnunar. Í greinargerð framkvæmdaraðila hafi ekki verið fjallað um tengsl tilkynntrar framkvæmdar við hina umhverfismetnu Hvammsvirkjun og tilheyrandi lón eða áhrif á vatnsgæði og vatnalíf. Í greinargerðinni komi fram að framkvæmdin sé tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu til Skipulagsstofnunar samkvæmt tl. 2.02 í 1. viðauka laga nr. 111/2021. Rétt hefði verið að tilkynna framkvæmdina með vísan til tl. 13.02 viðaukans, enda sé augljóslega um breytingu á framkvæmd að ræða frá umhverfismati þar sem efnistökuþörf vegna vegagerðar hafi farið úr 10.000–15.000m3, með engri námu, í 200.000 m3. Í stað smávægilegrar efnisþarfar sem þar hafi verið greint frá að þyrfti til vegagerðar sem yrði fengin úr neðanjarðargöngum Hvammsvirkjunaráforma séu nú komnar hugmyndir um stórfellda efnistöku til vegagerðarinnar.

Í tl. 13.02 í viðauka laga nr. 111/2021 segi að allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar séu í flokki A, utan þeirra sem falli undir tl. 13.01, og flokk B sem hafi verið leyfðar, framkvæmdar eða séu í framkvæmd og kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Af þessu sé ljóst að Skipulagsstofnun hafi ekki verið veittar réttar upplýsingar í málinu auk þess sem stofnunin hafi ekki gert reka að því að upplýsa um hvers vegna nauðsyn væri á svo mikilli efnistöku og í tengslum við hvað. Ákvörðunin hafi ranglega verið tekin á grundvelli þess að um efnistöku ótengdra annarri, umhverfismetinni framkvæmd, en ekki á grunni viðbóta og breytinga frá henni líkt og raun væri.

Sá annmarki á málsmeðferð Skipulagsstofnunar, að taka ákvörðun án þess að umsögn Umhverfisstofnunar lægi fyrir, sé svo verulegur annmarki að varða eigi ógildingu ákvörðunar. Sé þá bæði vísað til friðlýsingarákvarðana og 54. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd vegna áhrifa framkvæmdar á friðlýst svæði, en einnig til sérstakrar verndar eldhrauna samkvæmt 61. gr. sömu laga. Þá hefði átt að leita álits Ferðamálastofu vegna ferðamennsku í Þjórsárdal og hafi skortur á álitsumleitan leitt til þess að málið hafi ekki verið rannsakað nægilega eða allra nýjustu og viðeigandi upplýsinga aflað um áhrif framkvæmdarinnar.

Í 1. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði sé kveðið á um að sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka, sem áhrif geti haft á fiskigengd þess, afkomu fiskistofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti sé háð leyfi Fiskistofu. Sá annmarki að leita ekki álits Fiskistofu vegna framkvæmda sem séu innan við 100 m frá árbakka tveggja vatnsfalla sé verulegur annmarki. Hvergi í gögnum málsins sé vikið að reglu 1. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006, sem áskilji slíkt leyfi. Stór hluti stærsta villta stofns Norður- Atlantshafslaxins hrygni ofan laxastigans við Búða. Því varði framkvæmdin augljóslega hrygningarsvæði villtra laxastofna. Skipulagsstofnun hafi látið ógert að rannsaka málið með tilliti til þessa. Þá sé augljóst að lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála hafi þurft að koma til skoðunar við ákvörðun um hvort umhverfismeta hefði þann þátt framkvæmdar Hvammsvirkjunar sem hin kærða ákvörðun snúi að.

Í samræmi við grunnrök 2. Viðauka, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021, sem varða það til hvaða atriða Skipulagsstofnun beri að líta við ákvörðun um hvort framkvæmd sé matsskyld, sbr. einnig ákvæði 4. mgr. 4. gr. tilskipunar nr. 2011/92/ESB, skuli framkvæmdaraðili leggja fram þær upplýsingar sem taldar séu í viðauka II.A. Það hafi ekki verið gert, en íslensk stjórnvöld séu bundin af skuldbindingum tilskipunarinnar. Skipulagsstofnun hafi borið að vísa til viðeigandi viðmiða í 2. viðauka með lögum nr. 111/2021, sbr. b-lið 5. mgr. 4. gr. tilskipunar nr. 2011/92/EB í rökstuðningi sínum. Í b-lið 1. tl. í III. viðauka tilskipunarinnar komi fram að miða eigi við samlegðaráhrif við aðrar framkvæmdir. Fyrir liggi að virkjunin muni þurfa a.m.k. 1.000.000 m3 af efni. Ekki sé ljóst hvort vegagerð sú sem hin kærða ákvörðun varði sé inni í þeirri tölu, en ljóst sé að Skipulagsstofnun hafi borið að líta til heildarefnistökuþarfar virkjunar og tengdra framkvæmda við ákvörðun sína um matsskyldu. Meginregla 10. gr. laga nr. 60/2013 um heildarálag og vistkerfisnálgun hafi því ekki verið virt. Skipulagsstofnun hafi borið að taka mið af eiginleikum hugsanlegra áhrifa við ákvörðun sína, sbr. 3. tl. viðauka III tilskipunar nr. 2011/92/ESB. Með því að tengja ekki fyrirhugaða efnistöku við aðra efnistöku vegna Hvammsvirkjunar og tengdra framkvæmda hafi Skipulagsstofnun brotið gegn skyldum sínum til að líta til eiginleika áhrifanna og þá einkum í tengslum við áhrif á vatnalíf og vatnsgæði samkvæmt lögum nr. 36/2011.

Í 61. gr. laga nr. 61/2013 komi fram að forðast beri að skerða eldhraun nema brýna nauðsyn beri til. Þar sem efnistaka eigi að fara niður um sex til tíu metra sé augljóst að sú uppgefna ástæða Skipulagsstofnunar að eldhraunið Búrfellshraun, sem sé hluti af Tungnárhraunum, sé á svæðinu þakið nokkru lagi af jarðvegi sé þýðingarlaus þegar grafa eigi langt niður úr jarðveginum. Ekkert mat hafi farið fram á áhrifum framkvæmdarinnar á, til að mynda vatnalíf, vatnsvernd og eldhraun, sem njóti sérstakrar verndar, fái ákvörðunin að standa. Með því sé verið að svipta almenning þátttökurétti sem honum sé tryggður í Árósasamningnum og EES samningnum og um leið sé grafið undan ákvæðum náttúruverndarlaga um verndarmarkmið og framkvæmdir nærri friðlýstum svæðum. Kærandi hafi gengið út frá því að framkvæmdirnar séu leyfisskyldar samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Ákvæði laganna um hvernig leyfisveitandi skuli standa að framkvæmdaleyfi eða að Fiskistofa eða Orkustofnun skuli veita leyfi komi ekki í stað þess þátttökuréttar sem almenningur eigi um allar framkvæmdir sem líklegar séu til að hafa umtalsverð áhrif á umhverfið samkvæmt Árósasamningum, Evróputilskipunum og lögum nr. 111/2021.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Bent er á að hvort sem um sé að ræða framkvæmd samkvæmt tl. 2.02 eða framkvæmd samkvæmt l. 13.02 þá sé í báðum tilvikum um að ræða B-flokks framkvæmdir, sem þýði að þær séu tilkynningarskyldar til stofnunarinnar. Fyrir liggi löglegt umhverfismat vegna Hvammsvirkjunar sem lokið hafi með úrskurði Skipulagsstofnunar 19. ágúst 2003. Af því leiði að ekki þurfi að taka afstöðu til þess hvort hin tilkynnta efnistökuframkvæmd eða efnistökuframkvæmdin í umhverfismatinu séu tengdar eða á sama framkvæmdasvæði. Telji úrskurðarnefndin að stofnunin hefði átt að fjalla sérstaklega um samlegðaráhrif hinnar tilkynntu efnistölu og efnistökunnar sem fjallað hafi verið um í umhverfismatinu leggi stofnunin áherslu á að um annmarka sé að ræða sem hafi ekki áhrif á efni ákvörðunar og sé því ekki verulegur.

Óskað hafi verið eftir umsögn Umhverfisstofnunar í málinu, en með tölvupósti 28. júní 2024 hafi stofnunin tilkynnt Skipulagsstofnun að hún hygðist ekki veita umsögn um framkvæmdina. Ákvæði 54. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd eigi við þegar tekin sé ákvörðun um veitingu leyfis. Vegna tilvísunar í 61. gr. sömu laga vegna skerðingar eldhrauna hafi komið fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar að tekið væri undir með framkvæmdaraðila að hraunið hefði að nokkru leyti misst verndargildi sitt þar sem um væri að ræða hraun sem væri þakið jarðvegi að öllu leyti. Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda yrði staðbundin og óafturkræf á jarðmyndunina Brúfellshraun. Tekið hafi verið fram að stofnunin teldi brýnt að í framkvæmdaleyfi yrði kveðið á um frágang þannig að ummerki yrðu í lágmarki og verndargildi svæðisins rýrnaði ekki umfram það sem lagt væri upp með. Þá sé bent á að í athugasemdum við 57. gr. frumvarps þess er varð að 61. gr. laga nr. 60/2013 komi fram að eldhraun, sem sé að öllu leyti sandorpið eða hulið jarðvegi og gróðri og ekki sé lengur hægt að greina hvort um hraun sé að ræða, hafi að öllu jöfnu tapað þeim einkennum sem myndi verndargildi þess sem jarðmyndunar eða hraunvistgerðar og njóti það því ekki sérstakrar verndar samkvæmt greininni,

Fjallað sé um verkefni Ferðamálastofu í 3. gr. laga nr. 96/2018 um ferðamálastofu. Þar sé ekki fjallað sérstaklega um að stofnunin eigi að veita umsagnir í málum þar sem Skipulagsstofnun taki matsskylduákvörðun. Þrátt fyrir það hafi Skipulagsstofnun leitað umsagna stofnunarinnar í einstökum málum og hafi það þá byggst á orðalagi í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana þess efnis að stofnunin skuli leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við eigi eftir eðli máls hverju sinni. Í tilkynningu Vegagerðarinnar hafi verið vikið að því að Þjórsárdalur hafi verið friðlýstur. Að virtum upplýsingum úr tilkynningunni og öðrum atriðum sem þar hafi komið fram hafi Skipulagsstofnun ekki talið þörf á að leita sérstaklega til Ferðamálastofu.

Hin fyrirhugaða framkvæmd snúist um tiltekna efnistöku á ákveðnu svæði í Sandártungu. Fyrirhugað efnistökusvæði sé vissulega nálægt Þjórsá og Sandá, en sé uppi á landi og því ekki í árfarvegi. Þá standi efnistökusvæðið um sex til tíu metrum hærra en yfirborð Sandár og Þjórsár og ekki sé gert ráð fyrir því að efni verði tekið niður fyrir vatnsborð Þjórsár. Í ljósi þess að leyfi Fiskistofu til mannvirkjagerðar í veiðivötnum samkvæmt lögum nr. 61/2006 teljist ekki til leyfis til framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021, sbr. athugasemdir við 3. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 111/2021, telji Skipulagsstofnun að það sé ekki verulegur annmarki að umsagnar Fiskistofu hafi ekki verið leitað.

Þar sem fyrir liggi löglegt umhverfismat vegna Hvammsvirkjunar hafi ekki þurft að taka afstöðu til þess hvort hin tilkynnta efnistökuframkvæmd og efnistökuframkvæmdin í umhverfismatinu væru tengdar eða á sama framkvæmdasvæði. Verði niðurstaðan önnur sé það annmarki sem ekki hafi haft áhrif á efni ákvörðunarinnar og því ekki verulegur.

 Athugasemdir Vegagerðarinnar: Bent er á að fyrirhugað sé að taka allt að 200.000 m3 af efni á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal vegna framkvæmda á Þjórsárdalsvegi, sem og annarra verkefna á vegum sveitarfélagsins. Framkvæmdin falli þar af leiðandi undir tl. 2.02 í viðauka 1. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana þar sem hvorki sé um að ræða stærra svæði en 25 ha, né sé efnismagnið meira en 500.00 m3. Engu að síður hafi verið nauðsynlegt fyrir Skipulagsstofnun að meta hvort framkvæmdin hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar hennar skv. 2. viðauka laga nr. 111/2021, sbr. 1. mgr. 18. gr. laganna.

Í 6. kafla hinnar kærðu ákvörðunar sé ítarlega farið yfir umhverfisáhrif framkvæmdarinnar skv. 1.–3. tl. 2. viðauka laga nr. 111/2021, með hliðsjón af greinargerð Vegagerðarinnar og umsögnum sem bárust. Þar hafi komið fram að áhrif framkvæmdanna verði staðbundin, efnistökusvæðið lítt áberandi frá Þjórsárdalsvegi og sjónræn áhrif því takmörkuð. Efnistökusvæðið væri vissulega innan svæðis í Þjórsárdal sem hafi verið friðlýst sem menningarlandslag, en að Minjastofnun hafi sett fram fullnægjandi leiðbeiningar um mótvægisaðgerðir svo ummerki framkvæmdarinnar verði í lágmarki og verndargildi svæðisins rýrni ekki. Einnig hafi komið fram í niðurstöðum Skipulagsstofnunar að starfsemin muni ekki fela í sér losun efna í jarðveg eða grunnvatn, og því ólíklegt að ástand grunnvatns- og straumvatnshlota versni. Eftir heildarmat á umfangi, eðli og staðsetningu framkvæmdarinnar hafi það verið niðurstaða Skipulagsstofnunar að áhrif af fyrirhugaðri efnistöku í Sandártungu yrði óafturkræf varðandi jarðmyndanir, en óveruleg að öðru leyti, og samkvæmt því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Fyrirhuguð náma í Sandártungu hafi engan snertiflöt við rennandi vatn og sé í töluverðri fjarlægð frá næsta yfirborðsvatni. Þá verði efni ekki losað út í vatn við efnisvinnsluna og því ekki búist við því að efnistakan hafi nokkur áhrif á fiskistofna eða vatnalíf í Þjórsá eða Sandá. Fiskistofa hafi skilað inn umsögn vegna breytinga á Aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017–2029 þar sem fram kom að ekki fengist séð að hið nýja efnistökusvæði myndi varða lax- eða silungsveiðihagsmuni, og því væri efnistakan ekki háð leyfi Fiskistofu.

Skipulagsstofnun hafi við undirbúning ákvörðunar sinnar lagt viðhlítandi mat á þá þætti sem hafi skipt máli og varðað það hvort umtalsverð umhverfisáhrif kynnu að hljótast af framkvæmdinni og við það mat tekið tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka laga nr. 111/2021 sem og viðmiða í III. viðauka tilskipunar nr. 211/92/EB.

Vegagerðin starfi eftir lögum nr. 120/2012 um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála. Það sé hlutverk hennar að byggja upp, viðhalda og reka samgöngukerfi ríkisins, og skuli í starfsemi sinni stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum, sem og að samgöngur þróist í samræmi við samfélagsleg og umhverfisleg markmið. Þá gegni stofnunin einnig veigamiklu hlutverki sem veghaldari þjóðvega skv. vegalögum nr. 80/2007 þar sem m.a. séu gerðar strangar kröfur til stofnunarinnar um ástand og viðhald vega. Hækkun og endurbygging Þjórsárdalsvegar sé einkum bundin við kröfur gerðar til stofnunarinnar í greindum lögum. Umræddur kafli Þjórsárdalsvegar muni að óbreyttu hverfa ofan í lónið og því sé nauðsynlegt að bregðast við því með hækkun og endurbyggingu vegarins.

Bent sé á að kærandi hafi látið hjá líða að vísa í uppfært umhverfismat, nýja matsskýrslu sem og álit Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2018 vegna framkvæmdar við Hvammsvirkjun, þar sem framkvæmdunum og öðru í tengslum við þær séu gerð ítarleg skil og magntölur uppfærðar í samræmi við frekari rannsóknir. Þar sé meðal annars að finna umfjöllun um endurbyggingu Þjórsárdalsvegar og efnisþörf vegna hennar, sbr. tl. 13.02 í 1. viðauka laga nr. 111/2021, og því sé rétt að heimfæra efnistökuna undir tl. 2.02 í 1. viðauka laganna. Áform um byggingu Hvammsvirkjunar og framkvæmdir henni tengdri hafi hlotið lögformlega meðferð innan stjórnsýslunnar að því er varði mat á umhverfisáhrifum og geti kærandi ekki vísað til eldri gagna og ákvarðana um framkvæmdirnar. Að auki megi benda á að tl. 13.02 falli undir flokk B í 1. viðauka með lögun r. 111/2021 og séu framkvæmdirnar þannig háðar sjálfstæðu mati á því hvort framkvæmdin hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 18. gr. laganna, líkt og eigi við um tl. 2.02 í sama viðauka. Myndi engu breyta þó að framkvæmdin yrði heimfærð undir tl. 13.02 í 1. viðauka.

Ítarlegt mat á valkostum hafi farið fram og í ljósi heildarmats væri fyrirhugað efnistökusvæði í Sandártungu eini raunhæfi kosturinn. Sé það einkum vegna efnisins sem þar sé að finna, sem og nálægðar við fyrirhugað framkvæmdasvæði. Verði því að telja að skilyrði um brýna nauðsyn, sbr. 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, sé uppfyllt. Þá hafi Skipulagsstofnun tekið sérstakt tillit til eldhrauns á svæðinu í ákvörðun sinni. Umsögn Umhverfisstofnunar liggi fyrir vegna breytinga á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps þar sem sé að finna sérstaka umfjöllun um umrætt eldhraun og vernd eldhrauna samkvæmt lögum nr. 60/2013.

 Athugasemdir Landsvirkjunar: Vísað er til þess að framkvæmdin hafi réttilega verið tilkynnt á grundvelli tl. 2.02 í 1. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Ekkert hafi þó komið fram í málinu um að niðurstaða Skipulagsstofnunar hefði orðið önnur ef tilkynningin hefði byggst á tl. 13.02 viðaukans, líkt og kærandi vísi til.

Engir slíkir annmarkar hafi verið á umsagnarferli hinnar kærðu ákvörðunar að varði ógildingu hennar. Við meðferð matsskylduákvarðana skuli Skipulagsstofnun leita umsagna umsagnaraðila eftir því sem við eigi eftir eðli máls hverju sinni sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021. Af ákvæðinu leiði að Skipulagsstofnun sé veitt svigrúm við mat á því hjá hvaða aðilum sé leitað umsagna. Umsagnar hafi verið leitað hjá Umhverfisstofnun en svo virðist sem Umhverfisstofnun hafi ekki talið þörf á að veita umsögn í málinu. Skipulagsstofnun hafi því borið að taka hina kærðu ákvörðun án þess að umsögn Umhverfisstofnunar lægi fyrir. Þá beri gögn málsins með sér að ekki hafi staðið efni til þess að borið hefði að óska umsagnar frá Ferðamálastofu eða Fiskistofu.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi verið tekin afstaða til áhrifa framkvæmdanna á þau atriði er lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála varði. Í niðurstöðukafla Skipulagsstofnunar hafi komið fram það mat stofnunarinnar að framkvæmdin væri ólíkleg til að leiða til þess að ástand grunnvatns- og straumvatnshlota myndu versna, en að áhersla væri lögð á að tryggt yrði að mengandi efni bærist ekki í jarðveg. Jafnframt sé minnt á að vatnshlotin þurfi að ná umhverfismarkmiðum sínum og vera í samræmi við stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi vatnaáætlun.

Farið hafi fram fullnægjandi mat á áhrifum efnistökunnar á eldhraun á svæðinu og ítarlega verið fjallað um það í matsskyldufyrirspurn Vegagerðarinnar sem og rökstuðningi Skipulagsstofnunar með hinni kærðu ákvörðun.

 —–

Kærendur hafa gert frekari grein fyrir sjónarmiðum sínum og hefur nefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þessa máls.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 18. október 2024 um að 200.000 m3 efnistaka á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal skuli ekki sæta umhverfismati. Kæruheimild er í 30. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana og barst kæra innan kærufrests.

Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu skv. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 sem framkvæmd í flokki B, sbr. lið 2.02 í 1. viðauka við lögin. Skulu tilkynningarskyldar framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka við lögin. Í tilkynningu skal framkvæmdaraðili leggja fram upplýsingar um framkvæmdina og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar. Skal hann, þar sem við á, taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfismat framkvæmdarinnar og leggja fram, eftir atvikum upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Í 20. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um að Skipulagsstofnun skuli innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina taka ákvörðun um hvort hún skuli háð umhverfismati samkvæmt lögunum. Áður skal stofnunin leita umsagnar viðkomandi umsagnaraðila eftir því sem við á hverju sinni.

Löggjafinn hefur ákveðið að ávallt skuli fara fram umhverfismat vegna efnistöku þar sem áætlað er að raska 25 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 500.000 m3 eða meira, sbr. tl. 2.01 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021. Á hinn bóginn verði metið hverju sinni hvort efnistaka þar sem áætlað er að raska 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m3 eða meira sé líkleg til að hafa í för með sér svo umtalsverð umhverfisáhrif að umhverfismat þurfi að fara fram, sbr. tl. 2.02 viðaukans. Ber við það mat að líta til þeirra viðmiða sem fram koma í 2. viðauka laganna og lúta að eðli framkvæmdar og staðsetningu, auk gerðar og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðun snýst um hvert þeirra atriða sem tiltekin eru í 1.–3. tl. 2. viðauka laga nr. 111/2021 vegi þyngst við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð. Þegar það er metið verður að miða við þá tilhögun framkvæmdar sem kynnt er og leggja mat á það hvort framkvæmdin, svo sem hún er fyrirhuguð, sé líkleg til þess að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum.

—–

Í tilkynningu framkvæmdaraðila um hina fyrirhuguðu framkvæmd kemur fram að ráðgerð sé efnistaka á allt að 200.000 m3 af efni á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal, í Búrfellshrauni austan við Sandá og norðan við Þjórsá. Efni úr námunni sé einkum ætlað til vegagerðar og til grjótvarna. Svæðið sé í um 4,5–11 km fjarlægð frá fyrirhuguðum vegaframkvæmdum. Efnisvinnslu verði þannig háttað að yfirborðsefni verði ýtt til hliðar. Þar undir sé að finna berg sem verði sprengt, malað og flutt af svæðinu. Áætla megi að þykkt vinnslulags verði um 4–7 m, en svæðið standi um 6–10 m hærra en yfirborð Sandár og Þjórsár og ekki sé reiknað með að efni verði tekið niður fyrir vatnsborð Þjórsár. Grunnvatnsborð sé talið vera á um 9 m dýpi. Lúpínu sé að finna á yfirborði efnistökusvæðis og líklega lúpínufræ. Lúpína hafi verið skilgreind sem ágeng tegund. Með því að ýta yfirborðsefni til hliðar sé lágmörkuð sú hætta að fræ dreifist út frá námunni. Á áætluðum notkunarstöðum efnis sé að finna stórar lúpínubreiður. Gert sé ráð fyrir að fjöldi vörubíla sem flytji efnið frá svæðinu verði um 10, en að hámarki 15 á hverjum degi. Akstur efnisins taki um 30 mínútur og ferðir áætlaðar um 200 talsins á dag, fram og til baka. Efni verði flutt á notkunarstað á meðan á framkvæmdum standi, en ekki verði um að ræða stöðugan akstur efnis í langan tíma.

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar leitaði Skipulagsstofnun umsagna skv. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 og var óskað álits á tilkynningu framkvæmdaraðila vegna fyrirhugaðrar efnistöku og hvort framkvæmdin skyldi lúta umhverfismati. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands kom fram að Búrfellshraun hefði runnið á nútíma og nyti sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Bent var á að ekki væri æskilegt að opna ný efnistökusvæði innan friðlýstra svæða og nýtt slíkt svæði í Sandártungu samræmdist ekki friðlýsingaskilmálum um menningarlandslag í Þjórsárdal. Það væri mat stofnunarinnar að nauðsynlegt hefði verið að bera saman fleiri staðsetningar fyrir efnistökuna þar sem allmargar opnar bergnámur væru í Þjórsárhrauni sem hægt væri að nýta. Gera þyrfti betur grein fyrir afrennsli af efnistökusvæðinu og hvort hætta væri á að mengun frá starfseminni bærist út í Þjórsá. Það væri mat stofnunarinnar að kannski væri ekki þörf á að framkvæmdin færi í fullt umhverfismat, en þar sem framkvæmdasvæðið sé á friðuðu svæði væri nauðsynlegt að skoða fleiri efnistökukosti og bera þá saman. Þá var vísað til þess að ekki væri fjallað um fuglalíf, en efnistökusvæðið sé innan mikilvægs fuglasvæðis, Suðurlandsundirlendis.

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands kemur fram það mat að tilkynning framkvæmdaraðila geri nægjanlega grein fyrir eðli, umfangi og umhverfi framkvæmdarinnar, sem og mótvægisaðgerðum, en ekki sé gert ráð fyrir sérstakri vöktun á umhverfisáhrifum á framkvæmdatíma. Umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu að miklu leyti tímabundin og/eða staðbundin og mögulegt að milda þau með góðum starfsháttum og umgengni á framkvæmdatíma og vönduðum frágangi umhverfis að framkvæmdum loknum. Það sé álit embættisins að framkvæmdin kalli ekki á umhverfismat að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem komi fram í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Í umsögn Minjastofnunar kemur fram að gera verði ráðstafanir til að nýfundnar fornminjar raskist ekki vegna efnistökunnar. Færa þurfi mörk efnistökusvæðisins fjær fornleifunum og girða þær af á meðan á efnistökunni standi til að koma í veg fyrir að þær raskist af vangá. Hafa þurfi samráð við minjavörð Suðurlands um nýja afmörkun efnistökusvæðisins á þessum stöðum og um uppsetningu girðingar þeim til varnar. Að því gefnu að gengið verði að þessum kröfum taldi Minjastofnun að framkvæmdin væri ekki háð umhverfismati.

Vegna athugasemda Náttúrufræðistofnunar Íslands greindi framkvæmdaraðili meðal annars frá því að búið væri að skoða alla þá valkosti sem koma til greina. Alls hafi átta svæði verið skoðuð en efnisgæði flestra efnistökusvæða uppfylltu ekki efniskröfur fyrir burðar- og styrktarlög. Mjög langt sé í næstu efnistökusvæði sem uppfylli efnisgæði. Þrjú svæði voru skoðuð sem voru líkleg til að uppfylla efnisgæði en tvö af þeim komu ekki til greina. Annað svæðið var talið ógna öryggi mannvirkja á Búrfellssvæðinu og hitt svæðið verði nýtt til rofvarnar í nýju lóni Hvammsvirkjunar. Efni þyrfti því alltaf að koma annarstaðar frá. Vegna jarðfræðilegra aðstæðna sé það svæði sem liggi austan Þverár og norðan (vestan) Þjórsár eina svæðið sem komi til greina í nágrenni framkvæmdasvæðisins. Talið sé að efnistaka nær Þverá hafi í för með sér minna rask en annarsstaðar í Þjórsárdal. Efnistökusvæði sé á skipulögðu land- og skógræktarsvæði og einkennist af skógrækt og lúpínu. Að efnistöku lokinni verði aftur plantað trjám og svæðið grætt upp, ásýndin verði því mjög sambærileg og áður og áhrifin á menningarlandslag svæðisins séu því hverfandi til framtíðar. Ekki verði neitt fráveitukerfi á svæðinu og því muni ofanvatn að mestu síast ofan í hraunið, en einnig muni ofanvatn renna eftir yfirborði. Litlar líkur séu á mengunarslysi, umferð vinnuvéla sé hæg inni á flötu efnistökusvæðinu og fjöldi vinnutækja sé lítill. Vinnuvélar séu sterkbyggðar og afar ólíklegt sé að eldsneytistankar rofni á þann hátt að mikið magn olíu leki út. Hætta á mengun sé engu meiri en frá öðrum vinnuvélum og landbúnaðartækjum í sveitum landsins. Efnistakan sé auk þess tímabundin á meðan framkvæmdum við nýjan Þjórsárdalsveg standi.

Það sé ekki rétt að engin umfjöllun hafi verið um fuglalíf. Ekki hafi verið fjallað um einstakar tegundir þar sem áhrif efnistökunnar séu tímabundin og þær tegundir sem nýti svæðið í dag muni geta gert það áfram að framkvæmdum loknum. Svæðið sé einungis 4 ha og 0,0001% af öllu Suðurlandsundirlendi sem skilgreint sé sem mikilvægt fuglasvæði. Þetta eigi ekki við um efnistökusvæðið í Sandártungu nema að örlitlu leyti, enda einkennist svæðið af skógrækt og lúpínu, manngerðum vistgerðum sem auðvelt sé að endurskapa. Þeir fuglar sem helst megi vænta séu spörfuglar líkt og skógarþröstur og þúfutittlingur, og svo mófuglar líkt og hrossagaukur og stelkur. Allar þessar tegundir hafi stór sambærileg búsvæði allt í kring og muni aftur geta nýtt svæðið að efnistöku lokinni. Vegna athugasemda Minjastofnunar Íslands gerði framkvæmdaaðili grein fyrir því að greindar fornleifar verði girtar af á meðan á efnistöku standi til að koma í veg fyrir að þær raskist.

Í niðurstöðukafla Skipulagsstofnunar var tekið fram að við mat á því hvort hin tilkynningarskylda framkvæmd ætti að sæta umhverfismati skyldi taka mið af eðli, staðsetningu og eiginleikum hugsanlegra áhrifa framkvæmdar og var um það vísað til nánar tilgreindra atriða í 1.–3. tl. í 2. viðauka við lögin. Fram kom að um væri að ræða nokkuð umfangsmikla efnistöku á grjóti og vinnslu þess sem muni raska hrauni sem falli undir ákvæði laga um náttúruvernd, þar sem kveðið væri á um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Samkvæmt því bæri að forðast röskun þeirra nema brýna nauðsyn bæri til og ljóst að aðrir kostir væru ekki fyrir hendi. Lögð sé áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir geti réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir. Tekið er undir með framkvæmdaraðila að hraunið hafi að nokkru leyti misst verndargildi sitt þar sem það sé þakið jarðvegi að öllu leyti. Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði staðbundin og óafturkræf á jarðmyndunina Búrfellshraun. Stofnunin telji brýnt að í framkvæmdaleyfi verði kveðið á um frágang þannig að ummerki verði í lágmarki og verndargildi svæðisins rýrni ekki umfram það sem lagt sé upp með. Gera megi ráð fyrir að efnistökusvæðið verði lítt áberandi frá Þjórsárdalsvegi og sjónræn áhrif því takmörkuð.

Efnistaka mun fara fram innan svæðis í Þjórsárdal sem hafi verið friðlýst sem menningarlandslag, þar sem margar merkar minjar sé að finna. Í umsögn Minjastofnunar hafi verið settar fram leiðbeinandi mótvægisaðgerðir sem brýnt sé að fram komi í útgefnum leyfum, svo ummerki framkvæmdarinnar verði í lágmarki og verndargildi svæðisins rýrni ekki vegna hennar. Framkvæmdin sé á áhrifasvæði grunnvatnshlotsins Efri-Þjórsá sem skilgreint er með mikið grunnvatnsstreymi og við straumvatnshlotin Þjórsá 1 og Sandá 1. Í ljósi umfangs og eðlis framkvæmdarinnar og þess að starfsemin feli ekki í sér losun efna í jarðveg eða grunnvatn sé það mat stofnunarinnar að framkvæmdin sé ólíkleg til að leiða til þess að ástand grunnvatns- og straumvatnshlotanna versni, en lögð sé áhersla á að tryggt verði að mengandi efni berist ekki í jarðveg. Greind vatnshlot þurfi eftir sem áður að ná umhverfismarkmiðum sínum í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun, skv. lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Vistgerðir á svæðinu hafi ekki verndargildi og séu algengar á landsvísu og tegundir fugla á svæðinu séu algengar á Suðurlandi og útbreiddar hér á landi. Í ljósi takmarkaðs umfangs og útbreiðslu viðkomandi vistgerða og fuglalífs á svæðinu, telji stofnunin áhrif á fyrrnefnda umhverfisþætti verða óveruleg. Viðbúið sé að hávaði berist frá efnistökusvæðinu í einhverjum mæli og ryk geti myndast við vinnslu úr námunni, en ekki sé líklegt að ónæði vegna hávaða verði í frístundabyggð eða á tjaldsvæði, m.a. vegna aðstæðna og fjarlægðar. Þá séu ekki líkur til að ryk muni berast yfir fyrrnefnd svæði af sömu ástæðum. Með hliðsjón af umfangi, eðli og staðsetningu telji Skipulagstofnun að áhrif af fyrirhugaðri efnistöku verði óafturkræf varðandi jarðmyndanir, en óveruleg á aðra umhverfisþætti en ljóst sé að staðbundið mun ásýnd svæðisins taka nokkrum breytingum.

—–

Kærandi telur að framkvæmdaraðili hafi ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 í tilkynningu til Skipulagsstofnunar að því er varði tengsl tilkynntrar framkvæmdar við hina umhverfismetnu Hvammsvirkjun. Tilkynna hefði átt framkvæmdina með vísan til tl. 13.02 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021, þar sem um breytingu á framkvæmd sé að ræða frá því að umhverfismat vegna Hvammsvirkjunar fór fram.

Hin tilkynnta framkvæmd lýtur að 200.000 m3 efnistöku á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal. Í endurskoðaðri matsskýrslu Hvammsvirkjunar frá október 2017 er fjallað um endurbyggingu Þjórsárdalsvegar milli Minni-Núps og Gaukshöfða. Þar kemur fram að vegna endurbyggingar vegarins muni veglínan færast um allt að 500 m á um 5,3 km löngum kafla. Er áætluð efnisþörf í veginn, auk færslu austasta hluta Gnúpverjavegar, metin um 300.000 m3.

Verður að telja að heimilt hafi verið að líta svo á að um nýja framkvæmd væri að ræða skv. tl. 2.02 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, en ekki breytingu eða viðbót við eldri framkvæmd sbr. lið 13.02 í sama viðauka. Enda er um að ræða svæði sem ekki hefur verið nýtt til efnistöku áður. Þá er efnistaka nefnd sérstaklega í 1. viðauka við lög nr. 111/2021 þannig að gert er ráð fyrir að hún sæti eða geti sætt mati á umhverfisáhrifum ein og sér. Verður því ekki talið að álit Skipulagsstofnunar sé háð annmörkum að þessu leyti.

Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um þá málsmeðferð sem Skipulagsstofnun ber að viðhafa við töku ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdar. Segir þar meðal annars að stofnunin skuli leita umsagnar umsagnaraðilar „eftir því sem við á eftir eðli máls hverju sinni“. Í þeim tilvikum þegar umsögn berst ekki er tekið fram að Skipulagsstofnun geti tekið ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Fyrir liggur að Umhverfisstofnun barst umsagnarbeiðni, en stofnunin kaus að tjá sig ekki um matsskyldufyrirspurn framkvæmdaraðila. Hins vegar liggur fyrir að Umhverfisstofnun gerði athugasemdir við kynningu á lýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017–2029 þar sem skilgreint var nýtt efnistökusvæði með heimild fyrir allt að 200.000 m3 efnistöku á allt að 7 ha svæði í Sandártungu. Umhverfisstofnun taldi ekki þörf á annarri umsögn á kynningarstigi aðalskipulagsbreytingarinnar. Breyting á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna efnistökusvæðis í Sandártungu tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 28. janúar 2025. Lá afstaða Umhverfisstofnunar þannig fyrir við aðalskipulagsbreytinguna. Verður ekki talið að ákvörðun Umhverfisstofnunar að tjá sig ekki um matskyldufyrirspurn framkvæmdaraðila leiði til þess að málið teljist ekki nægilega upplýst.

Þá telur kærandi það verulegan annmarka á málsmeðferð Skipulagsstofnunar að ekki hafi verið leitað umsagnar Fiskistofu og Ferðamálastofu við undirbúning ákvörðunar um matskyldu. Við kynningu á áðurgreindri breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna efnistökusvæðis í Sandártungu var óskað umsagnar Fiskistofu. Í umsögn stofnunarinnar kom fram að ekki fengist séð að efnistökusvæðið myndi varða lax- eða silungsveiðihagsmuni og væri efnistakan því ekki háð leyfi Fiskistofu. Verður að telja að afstaða Fiskistofu vegna efnistöku í Sandártungu hafi með þessu legið fyrir. Þá eru möguleg áhrif framkvæmdarinnar ekki slík að talið verði til verulegs annmarka að ekki hafi verið leitað viðhorfa Ferðamálastofu til hennar.

Í 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Nær verndin m.a. til eldhrauna, gervigíga og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma, sbr. 2. mgr. ákvæðisins, en í 3. mgr. er tiltekið að m.a. beri að forðast að raska jarðminjum sem taldar séu upp í 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Efnistökusvæðið er í Búrfellshrauni sem er hluti af Tungnárhraunum. Hraunið flokkast sem nútímahraun og fellur undir vernd framangreindrar 61. gr. Í greinargerð framkvæmdaraðila kemur fram að með efnistökunni verði hraunið fyrir varanlegum áhrifum sem verði bæði bein og óafturkræf. Hið fyrirhugaða efnistökusvæði sé staðsett við jaðar hraunsins, en hraunþekjan sé 144 km2 og því sé afar lítill hluti hraunbreiðunnar sem komi til með að raskast varanlega. Þá hafi hraunið jafnframt tapað verndargildi sínu þar sem það sé hulið jarðvegi að mestu og sjáist ekki lengur. Séu áhrifin metin óverulega neikvæð. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar kemur fram að forðast beri röskun hrauns sem falli undir ákvæði laga nr. 60/2013 nema brýna nauðsyn beri til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. Lögð er áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir geti réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir. Þá tekur stofnunin undir með framkvæmdaraðila að hraunið hafi að nokkru misst verndargildi sitt þar sem það væri þakið jarðvegi að öllu leyti. Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði staðbundin og óafturkræf á jarðmyndunina Búrfellshraun. Brýnt sé að í framkvæmdaleyfi verði kveðið á um frágang þannig að ummerki verði í lágmarki og verndargildi svæðisins rýrni ekki umfram það sem lagt sé upp með. Gera megi ráð fyrir að efnistökusvæðið verði lítt áberandi frá Þjórsárdalsvegi og sjónræn áhrif því takmörkuð. Verður ekki gerð athugasemd við umfjöllun Skipu­­lags­­stofnunar að þessu leyti.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila er ekki fjallað um áhrif efnistökunnar á vatnshlot. Í greinargerð framkvæmdaraðila vegna kærunnar er tekið fram að sökum þess að hin fyrirhugaða náma í Sandártungum hafi engan snertiflöt við rennandi vatn, sé í töluverðri fjarlægð frá næsta yfirborðsvatni og ekki sé búist við því að efnistakan hafi nokkur áhrif á fiskistofna eða vatnalíf Þjórsár eða Sandár, hafi ekki verið sérstök umfjöllun um þá umhverfisþætti sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021. Gerði Skipulagsstofnun ekki athugasemd við skort á slíkri umfjöllun.

Í hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar er greint frá því að framkvæmdin sé á áhrifasvæði grunnvatnshlotsins Efri-Þjórsá, vatnshlotsnúmer 103-211-G, sem skilgreint sé með mikið grunnvatnsstreymi og við straumvatnshlotin Þjórsá 1, vatnshlotsnúmer 103-663-R, og Sandá 1, vatnshlotsnúmer 103-907-R. Í ljósi umfangs og eðlis framkvæmdarinnar og þess að starfsemin felur ekki í sér losun efna í jarðveg eða grunnvatn var það mat Skipulagsstofnunar að framkvæmdin væri ólíkleg til að leiða til þess að ástand grunnvatns- og straumvatnshlotanna myndi versna, en lögð var áhersla á að tryggt yrði að mengandi efni bærust ekki í jarðveg. Að teknu tilliti til ákvæða laga nr. 36/2011 og að framangreindu virtu verður ekki talið að hin kærða ákvörðun sé haldin ágalla hvað varðar lýsingu á áhrifum framkvæmdarinnar á vatnshlot þótt sú umfjöllun hefði mátt vera ítarlegri.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að líta svo á að Skipulagsstofnun hafi við ákvörðunartöku sína litið með viðhlítandi hætti til viðmiða 2. viðauka laga nr. 111/2021. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 18. október 2024 um að 200.000 m3 efnistaka á um 4 ha svæði í Sandártungu í Þjórsárdal skuli ekki sæta umhverfismati.

163/2024 Hraunbær

Með

Árið 2025, mánudaginn 10. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 163/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 16. október 2024 um að gefa út byggingarleyfi vegna breytinga á innra skipulagi og fjölgun eigna að Hraunbæ 102a.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 27. nóvember 2024, kærir A f.h. JIG málunar ehf., eigandi að eignarhluta 050101 í Hraunbæ 102c, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 16. október 2024 að veita byggingarleyfi til að breyta innra skipulagi og fjölga eignum með því að skipta tveim skilgreindum rýmum í verslunar- og íbúðarhúsi að Hraunbæ 102a í 8 minni verslunareiningar og vinnustofur. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. desember 2024. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 6. febrúar 2025.

Málavextir:

Þann 7. maí 2024 var lögð inn umsókn um byggingarleyfi til byggingarfulltrúa Reykjavíkur þar sem sótt var um leyfi til að breyta innra skipulagi og fjölga eignum í verslunar- og íbúðarhúsi við Hraunbæ 102a, matshluta 01 á lóð nr. 102 í Hraunbæ í Reykjavík. Breytingarnar fólu í sér skiptingu á rýmum 0104 og 0108 upp í 8 minni verslunareiningar og vinnustofur.  Í málinu liggur fyrir samþykki frá þinglýstum eigendum allra eignarhluta fasteignarinnar að Hraunbæ 102a. Byggingarfulltrúi samþykkti umsóknina á afgreiðslufundi þann 1. október 2024 með því skilyrði að gerð yrði ný eignaskiptayfirlýsing þar sem um væri að ræða breytta skráningu á fjöleignarhúsi og var byggingarleyfi gefið út 16. október 2024.

Kærandi varð þess áskynja þann 7. nóvember 2024 að á fundi byggingarfulltrúa 1. október 2024 hafi verið fjallað um umsókn vegna Hraunbæjar 102a og því lýst að samþykki meðeigenda lægi fyrir. Kærandi spurðist fyrir um innihald umsóknarinnar og fékk svör við spurningum sínum frá Reykjavíkurborg sama dag. Þar var upplýst um innhald umsóknarinnar og að byggingarleyfi hefði verið gefið út, sem hann kærði til úrskurðarnefndarinnar til ógildingar 27. nóvember 2024.

Málsrök kæranda:

Kærandi rekur að í svari Reykjavíkurborgar til hans þann 7. nóvember 2024 komi fram að verið sé að fjölga eignarhlutum í Hraunbæ 102a um 6, úr 19 í 25, og að ekki hafi verið talin þörf á samþykki annarra en eigenda í matshluta 1. Hann telji Hraunbæ 102a og 102c vera eitt hús í skilningi fjöleignarhúsalaga, mathlutarnir beri sama húsnúmer og séu samtendir með veggjum, t.d. sé aðgengi að efri hæð Hraunbæjar 102a á lofti bílageymslu Hraunbæjar 102b-e. Lóðin sé sameiginleg. Fjölgun eignarhluta í Hraunbæ 102a þurfi samþykki eigenda í Hraunbæ 102 b-g og einnig þurfi samþykki meðlóðarhafa í Hraunbæ 102 b-g og Rofabæ 27, sem sé ein lóð. Kærandi telji að samkvæmt fjöleignarhúsalögum þurfi samþykki allra ef fjölga skuli eignarhlutum, fjölgunin hafi ekki verið borin undir hann og því kæri hann samþykki og útgáfu byggingarleyfisins frá 16. október 2024 og óski eftir því að það verði fellt úr gildi.

Málsrök byggingarfulltrúa Reykjavíkur:

Reykjavíkurborg upplýsir að á bls. 161 í skipulagsskilmálum Hverfisskipulags Árbæjar, samþykktu í borgarráði 11. október 2019, komi fram að skilmálaeiningin Hraunbær 102 og Rofabær 23, samanstandi „af fjórum fjölbýlishúsum sem byggðust upp á 8. og 9. áratugnum. Á hverfisskipulagsuppdrætti af skilmálaeiningu 7.2.7, bls. 163, séu fjölbýlishúsin Hraunbær 102a, Hraunbær 102b-e, Hraunbær 102f-h og Rofabær 23 teiknuð sem fjórar stakstæðar byggingar. Sér lóðarleigusamningur sé í gildi fyrir Hraunbæ 102a, dags. 21. nóvember 2019, þar sem fram komi í 1. gr. að lóðin Hraunbær 102a sé hluti af lóðinni Hraunbær 102, 102a-h og Rofabær 23. Jafnframt liggi fyrir sér eignaskiptayfirlýsing varðandi Hraunbæ 102a, þinglýst 16. maí 2003, þar sem fram komi að húsið Hraunbær 102a sé steinsteypt verslunar- og fjölbýlishús á tveimur hæðum. Samþykki allra eigenda Hraunbæjar 102a þurfi við breytingu eignaskiptayfirlýsingarinnar, sbr. 1. tl. A. liðar 1. mgr. 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Í ljósi framangreinds og með hliðsjón af niðurstöðu Landsréttar í máli 435/2019, þar sem talið hafi verið að Rofabær 43-37 væri sjálfstætt hús í skilningi fjöleignarhúsalaganna, sé það mat Reykjavíkurborgar að Hraunbær 102a teljist vera sjálfstætt hús í skilningi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 26/1994.

Athugasemdir leyfishafa:

Leyfishöfum var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en þeir hafa ekki tjáð sig um kærumál þetta.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Með tölvupósti 6. febrúar 2025 ítrekaði kærandi fyrri sjónarmið.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um hvort útgáfa byggingaleyfis vegna breytinga á innra skipulagi og fjölgun eigna tveggja skilgreindra rýma í verslunar- og íbúðarhúsi að Hraunbæ 102a í minni verslunareiningar og vinnustofur hefði þurft samþykki allra eigenda í Hraunbæ a, b, c, d, e, f og g og einnig meðlóðarhafa að Rofabæ 27, en ekki einungis eigenda í Hraunbæ 102a. Ég geng út frá því að um ritvillu sé að ræða hjá kæranda varðandi tilgreint húsnúmer að Rofabæ 27 og þar hafi átt að standa Rofabær 23, enda deilir það hús lóð með Hraunbæ 102a.

Úrlausn þessa ágreiningsefnis veltur annars vegar á því hvort leita hefði átt samþykkis fyrir breytingunum á Hraunbæ 102a. Þar reynir á hvort Hraunbær 102a teljist sjálfstætt fjöleignarhús í skilningi fjöleignarhúsalaganna nr. 26/1994 eða hluti stærra fjöleignarhúss. Hins vegar veltur málið á því hvort breytingarnar kalli á samþykki eigenda að Hraunbæ b, c, d, e, f, og g og eigenda Rofabæjar 27, þar sem þær húseignir deili lóð með Hraunbæ 102a.

Kærandi telur að Hraunbær 102 a og 102c séu eitt hús í skilningi fjöleignarhúsalaganna og nefndin skilur málsástæður í kæru hans um að breytingarnar á Hraunbæ 102a þurfi samþykki eigenda í Hraunbæ 102 b-g á þann veg að hann telji Hraunbæ 102a, b, c, d, e, f og g einnig vera eitt fjöleignarhús.

Hugtakið hús er skilgreint í 3. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús þannig að því sé átt við byggingu sem varanlega er skeytt við land og stendur sjálfstæð og aðgreind frá öðrum húsum eða skilur sig þannig frá þeim þótt sambyggð eða samtengd séu að eðlilegt og haganlegt sé að fara með hana samkvæmt lögunum sem sjálfstætt hús.

Fyrir liggur að á bls. 161 í skipulagsskilmálum Hverfisskipulags Árbæjar sem samþykkt var í borgarráði 11. október 2019 er því lýst að skilmálaeiningin Hraunbær 102 og Rofabær 23 samanstandi af fjórum fjölbýlishúsum sem byggst hafi upp á 8. og 9. áratugnum.  Í samræmi við þessa lýsingu eru á uppdrætti á bls. 163 þannig fjórar aðgreindar byggingar merktar; Hraunbær 102a, Hraunbær 102b-e, Hraunbær 102f-h og Rofabær 23.

Um Hraunbæ 102a gildir sérstök Eignaskiptayfirlýsing dags. 18. febrúar 2003, þar sem fram kemur að húsið að Hraunbæ 102a sé steinsteypt verslunar- og fjölbýlishús á tveim hæðum, með verslunar og þjónustufyrirtæki á 1. hæð ásamt 11 íbúðum á 2. hæð. Ekki er tilgreint að Hraunbær 102a sé hluti af stærra fjölbýlishúsi eða sambyggt öðrum húsum.

Í umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að byggingarnar við Hraunbæ 102a-h hafi ekki verið byggðar á sama tíma og útlit þeirra og yfirbragð sé frábrugðið. Aðskilin bílastæði og aðkeyrsla sé að Hraunbæ 102a og Hraunbæ 102b-e, en milli bygginganna sé samtengdur inngangur í bílageymslu og bílastæði Hraunbæjar 102a sem liggi lægra en bílastæði Hraunbæjar 102b-e og ekki akfært á milli þeirra.

Með vísan til ofangreindrar lýsingar, teikninga af byggingunum og eignarskiptayfirlýsingu Hraunbæjar 102a telur úrskurðarnefndin að Hraunbær 102a sé sjálfstætt hús í skilningi laga nr. 26/1994 um fjöleignarhúsa. Byggingarleyfið sem kært er var háð þeim skilyrðum að gerð yrði ný eignaskiptayfirlýsing fyrir Hraunbæ 102a. Með vísan til þess að úrskurðarnefndin telur að Hraunbær 102a sé sjálfstætt hús er skilyrðum 1. tl. A-liðar 1. mgr. 41. gr. um samþykki allra eigenda fyrir breytingum á þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fullnægt með því að samþykki allra þinglýstra eigenda að Hraunbæ 102a liggur fyrir. Samþykki eigenda annarra fjölbýlishúsa í Hraunbæ 102b-h eða Rofabæ 23 var því ekki þörf.

Kærandi vísar einnig til þess í málsástæðum sínum að sú fjölgun eignarhluta í Hraunbæ 102a sem byggingarleyfið er gefið út fyrir þurfi samþykki meðlóðarhafa að Hraunbæ 102b-g og Rofabæ 23. Á landeignanúmeri L111081 í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eru skráðar eignirnar Hraunbær 102, Hraunbær 102a-h og Rofabær 23. Sérstakur lóðarleigusamningur gildir fyrir Hraunbæ 102a, þar sem fram kemur að sú lóð sé hluti af lóðinni Hraunbær 102, 102a-h og Rofabæ 23. Hið kærða byggingarleyfi varðar einungis breytingar á innra skipulagi í Hraunbæ 102a en ekki framkvæmdir eða breytingar á framangreindum lóðum eða lóðaréttindum. Ekki verður séð að eigendur annarra fasteigna eigi því hagsmuna að gæta á grundvelli lóðarréttinda.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna og lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.

Framkvæmd sú sem heimiluð er með hinu kærða leyfi snýst um breytingar á innra skipulagi og fjölgun eigna með því að skipta rýmum 0104 og 0108 upp í 8 minni verslunareiningar og vinnustofur í verslunar- og íbúðarhúsi við Hraunbæ 102a, matshl. 01 á lóð nr. 102 við Hraunbæ. Fyrirliggjandi er samþykki allra þinglýstra eigenda að eignarhlutum í Hraunbæ 102a og eins og áður er rakið var ekki þörf á samþykki kæranda né annarra eigenda húseignanna að Hraunbæ 102 b-h né Rofabæ 23. Með vísan til þessa verður ekki séð að breytingarnar og sú fjölgun eigna sem byggingaleyfið nær til raski grenndarhagsmunum kæranda eða öðrum þeim einstaklingsbundnu lögvörðu hagsmunum hans á þann hátt að veitt geti honum kæruaðild í máli þessu. Af þeim sökum er kæru þessari vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

98/2024 Búrfellslundur

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 5. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2024, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 12. ágúst 2024 um að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi vegna Búrfellslundar, 120 MW vindorkuvers við Vaðöldu í Rangárþingi ytra.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. september 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið þá ákvörðun Orkustofnunar frá 12. ágúst 2024 að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi vegna Búrfellslundar, 120 MW vindorkuvers við Vaðöldu á Landmannaafrétti í Rangárþingi ytra. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er kært ætlað brot á þátttökurétti almennings við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Nánar greint er þess krafist að fallist verði á að þátttökuréttur sá sem almenningi hafi verið veittur við mat á áhrifum framkvæmdar og áætlana á óbyggð víðerni hafi ekki samrýmst löggjöf um mat á umhverfisáhrifum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 17. október 2024.

Málavextir: Hinn 15. september 2015 lagði Landsvirkjun fram frummatsskýrslu um Búrfellslund, vindorkuver með allt að 200 MW uppsettu rafafli, norðaustan við Búrfell í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Rangárþingi ytra, til athugunar hjá Skipulagsstofnun samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í mars 2016 lagði Landsvirkjun fram endanlega matsskýrslu hjá Skipulagsstofnun. Í skýrslunni var gert ráð fyrir að fjöldi vindmylla yrði 58–67 með 3–3,5 MW afli hver og að hámarkshæð þeirra, miðað við spaða í efstu stöðu, yrði 150 m. Árleg orkugeta var áætluð 705 GWst á ári. Var endingartími vindmylla talinn 25 ár. Voru í matsskýrslunni kynntar þrjár útfærslur á afmörkun framkvæmdarinnar sem tækju yfir 33–40 km2 svæði og gerð grein fyrir mögulegri skiptingu hverrar þeirrar í fjóra 50 MW áfanga.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 21. desember 2016. Í niðurstöðukafla álitsins kom fram að stofnunin teldi að matsskýrslan uppfyllti að hluta skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hvað það varði að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt. Væri áformuð framkvæmd líkleg til að hafa veruleg áhrif á landslag og víðerni auk ferðaþjónustu og útivist. Áhrifamatið væri þó háð óvissu þar sem fullnægjandi greining lægi ekki fyrir á áhrifum á landslag og víðerni sem gerði það að verkum að óvissa ríkti um áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Þá væri þörf á frekari skoðun á áhrifum á fuglalíf. Áhrif á aðra áhrifaþætti, þ.e. hljóðvist, gróður, jarðmyndanir og menningarminjar, væru almennt talin óveruleg, nema staðbundin á og næst framkvæmdasvæðinu þar sem gæti nokkurra neikvæðra áhrifa vegna beins rasks á landi og hljóðmengunar. Þá var það álit stofnunarinnar að framkvæmdin félli illa að áherslum Landsskipulagsstefnu 2015–2026 á vernd víðerna og landslagsheilda. Að lokum var sett fram ábending um að tilefni gæti verið til að endurskoða áform um framkvæmdina bæði hvað varðaði staðsetningu slíks vindmylluvers og umfang uppbyggingar hvað snerti hæð og fjölda vindmylla. Þyrfti slíkt mat að fara fram á öðrum vettvangi og þar myndi reyna á umhverfismat áætlana á grundvelli samnefndra laga, sem bæri að beita við gerð rammaáætlunar, landsskipulagsstefnu og skipulagsáætlana sveitarfélaga. Þá kynni framkvæmdin að koma aftur til skoðunar á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, yrðu breytingar á framkvæmdaáformum, sbr. 13. tölulið, 1. viðauka með lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Um Búrfellslund er fjallað í svonefndri rammaáætlun, þ.e. verndar- og orkunýtingaráætlun skv. lögum nr. 48/2011, þar sem er mótuð stefna á landsvísu um hvort landsvæði þar sem er að finna virkjunarkosti megi nýta til orkuvinnslu eða hvort ástæða sé til að friðlýsa þau eða kanna frekar. Virkjunarkostir á viðkomandi svæðum eru samkvæmt því flokkaðir í orkunýtingarflokk, verndarflokk eða biðflokk. Virkjunarkostir í vindorku komu í fyrsta sinn til umfjöllunar verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar, sem var starfandi á árunum 2013–2017. Landsvirkjun afhenti Orkustofnun skilgreiningar á tveimur slíkum, Búrfellslundi og Blöndulundi, í mars 2015 og var þeim komið áleiðis til verkefnisstjórnar með erindi frá stofnuninni 12. mars s.á. Hinn 17. mars s.á. var faghópum rammaáætlunar falið að fjalla um vindorkukostina tvo. Um þá var fjallað með öðrum slíkum nýjum kostum í lokaskýrslu verkefnisstjórnar 3. áfanga, dags. í ágúst 2016. Lagt var til í skýrslunni að Búrfellslundur yrði settur í biðflokk, en í þann flokk er virkjunarkostum skipað þegar talið er að afla þurfi frekari upplýsinga, sbr. nánar ákvæði laga nr. 48/2011.

Í febrúar 2020 birti Landsvirkjun skýrslu um endurhönnun Búrfellslundar með breyttu umfangi til að koma til móts við athugasemdir og ábendingar sem fram höfðu komið í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og í ferli 3. áfanga rammaáætlunar. Var í skýrslunni gert ráð fyrir að uppsett afl virkjunar yrði 120 MW, vindmyllur yrðu 30 í stað 58–67 og afl hverrar þeirrar yrði meira en áður var áætlað, þ.e. 4–5 MW í stað 3–3,5 MW áður. Hæð vindmylla var óbreytt eða allt að 150 m. Framkvæmdasvæðið var minnkað í 18 km2. Ársframleiðsla raforku var áætluð 440GWst í stað 705GWst áður.

Í febrúar 2022 mælti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun, þ.e. áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, þar sem lagt var til að Búrfellslundur yrði í biðflokki. Við síðari umræðu um ályktunina lágu fyrir álit og breytingartillaga meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar. Var þar bent á að orkukostinum hafi verið raðað í biðflokk með þeim rökum að hann væri á röskuðu svæði sem hefði lágt verndargildi, en áhrif hans á ferðamennsku og útivist væru hins vegar mikil. Í umsögnum til þingnefndarinnar hefðu komið fram ábendingar um að hann kynni ekki að hafa þau víðtæku áhrif á ferðamennsku sem áætluð hefðu verið. Að auki henti svæðið vel til vindorkuframleiðslu um leið og samlegð væri við nýtingu vatnsafls og flutningskerfis raforku á svæðinu. Þá kom þar fram að þróun virkjunarkostsins hefði leitt til þess að sjónræn áhrif væru töluvert minni en upphaflega hafi verið áætlað. Loks var skírskotað til orkuöryggis af þessu tilefni. Við samþykkt þingsályktunarinnar, nr. 24/152, var Búrfellslundur í orkunýtingarflokki. Var virkjunarkosturinn þar auðkenndur sem R4301B í stað R3301A áður, en með því var tekið tillit til þess að um væri að ræða breytta útfærslu þótt um sama virkjunarkost væri að ræða og áður, að því er greinir í áliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti 10. apríl 2024 tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028 vegna Búrfellslundar og tillögu að deiliskipulagi vegna sömu framkvæmdar, en tillögurnar tóku mið af þeim áformum sem fram komu í fyrrnefndri skýrslu Landsvirkjunar um endurhönnun vindorkuversins. Auglýsingar um gildistöku skipulagsáætlananna voru birtar í B-deild Stjórnartíðinda 24. og 28. maí 2024. Tekur skipulag framkvæmdasvæðisins með þessu tillit til þeirra framkvæmda sem bygging vindorkuvers gerir ráð fyrir, þ.e. vindmyllum, undirstöðum og geymslusvæði.

 Með erindi, dags. 19. október 2022, sótti Landsvirkjun um leyfi Orkustofnunar til að reisa og reka vindorkuverið Búrfellslund í Rangárþingi ytra til raforkuframleiðslu með allt að 120 MW uppsettu rafafli. Auglýsing um umsóknina var birt í Lögbirtingablaðinu og á vef Orkustofnunar 5. febrúar 2024 þar sem þeim sem málið varðaði var gefið færi á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum innan fjögurra vikna. Á auglýsingatíma bárust Orkustofnun athugasemdir frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Hinn 12. ágúst 2024 gaf Orkustofnun út umsótt virkjunarleyfi. Í fylgibréfi með því er tekin afstaða til þeirra athugasemda sem bárust á auglýsingatíma auk þess sem þar er m.a. að finna umfjöllun um álit Skipulagsstofnunar. Þá er því lýst yfir að viðmiðum 4. og 5. gr. raforkulaga nr. 65/2003 hafi verið fullnægt til útgáfu virkjunarleyfis sem og ákvæðum II. kafla reglugerðar nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga.

Málsrök kæranda: Kærandi álítur að verulegir form- og efnisannmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun og á umhverfismati því sem farið hafi fram á árunum 2014 til 2016. Í áliti Skipulagsstofnunar frá 21. desember 2016 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að ástæða væri til að endurskoða áætlanir um 200 MW vindorkuver, m.a. vegna mikilla áhrifa á ferðaþjónustu og útivist annars vegar og landslag og víðerni hins vegar. Hafi stofnunin tekið fram að skoða ætti hvort önnur landsvæði hentuðu betur fyrir framkvæmdina, en með því hafi stofnunin talið að valkostir um staðarval hafi ekki verið skoðaðir í umhverfismatinu. Þá hafi stofnunin tekið fram að frekara mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar þyrfti að eiga sér stað á öðrum vettvangi og vísað til umhverfismats áætlana á grundvelli áðurgildandi laga nr. 105/2006 sem beita ætti við gerð rammaáætlunar, landsskipulagsstefnu og skipulagsáætlana sveitarfélaga.

Af sameiginlegri umhverfismatsskýrslu sem tekin hafi verið saman við gerð aðalskipulagsbreytingar vegna Búrfellslundar og deiliskipulags framkvæmdarinnar verði skýrlega ráðið að ekkert valkostamat hafi farið fram á því hvort önnur landsvæði hentuðu betur fyrir framkvæmdina. Vísað sé til fordæmis Hæstaréttar frá 16. febrúar 2017 í máli nr. 575/2016 um afleiðingar þess að raunhæfir valkostir hafi ekki sætt mati á umhverfisáhrifum, en það fordæmi eigi við í máli þessu. Þá hafi sérstaklega verið bent á það í umhverfismati deiliskipulagsins að önnur staðsetning við Búrfell, utan miðhálendis, væri raunhæfur kostur.

Í samræmi við 13. gr. áðurgildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum þurfi leyfisveitandi að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort umsótt framkvæmd sé sú sem lýst sé í matsskýrslu. Fyrir liggi fordæmi Hæstaréttar frá 9. júní 2005 í máli nr. 20/2005 um að gera þurfi nýtt umhverfismat jafnvel þótt framkvæmd sé umfangsminni en sú sem sætt hafi mati á umhverfisáhrifum. Eigi fordæmið við í þessu máli að því leyti að búið sé að meta umhverfisáhrif tiltekinnar framkvæmdar en þau áform hafi síðan tekið breytingum. Matsskýrslan hafi þannig gert ráð fyrir 200 MW vindorkuveri með 58–67 vindmyllum og að framkvæmdasvæði yrði 33 til 45 km2 að stærð. Núverandi áform geri hins vegar ráð fyrir 120 MW vindorkuveri með 30 vindmyllum og mun minna framkvæmdasvæði. Umhverfismatið hafi gert ráð fyrir 1.200 m2 vinnuplani við hverja vindmyllu, en í nýlega samþykktu deiliskipulagi Búrfellslundar sé hins vegar gert ráð fyrir töluvert stærri undirstöðum. Það hefði því þurft að láta nýtt umhverfismat fara fram eða í það minnsta afla álits Skipulagsstofnunar á því hvort slíkt væri nauðsynlegt. Þá hefði Orkustofnun átt að gera sérstaka könnun á því hvort umhverfismat á áhrifum framkvæmdar á óbyggð víðerni gæti talist í fullu gildi, en stofnuninni beri að fara yfir álit Skipulagsstofnunar með tilliti til þess hvort það teljist fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar. Orkustofnun hafi ekki tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar í skilningi 13. gr. laga nr. 106/2000 og brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sé það slíkur verulegur annmarki á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar og deiliskipulags að virkjunarleyfi geti ekki átt stoð í því.

Almennt sé viðurkennt að rannsóknarskyldur leyfisveitanda við málsmeðferð framkvæmdar sem hafi umtalsverð áhrif á umhverfið séu mjög ríkar, svo sem fram komi í athugasemdum með 27. gr. í frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Því hafi Orkustofnun verið skylt að rannsaka hvort umsótt framkvæmd hafi verið sú sama og sætt hafi mati á umhverfisáhrifum. Það hafi ekki verið gert, en ekki sé um sömu framkvæmd að ræða. Mikilvægt sé að hafa í huga að um sé að ræða svokallaða öryggisreglu sem miði að því að mál séu vel upplýst áður en ákvörðun sé tekin svo niðurstaða verði efnislega rétt hverju sinni. Um sé að ræða fyrsta vindorkuverið á landinu sem hafi verið afar umdeilt frá upphafi og hafi „hrossakaup ríkisstjórnarinnar“ leitt til þess að virkjunin hafi verið færð í orkunýtingarflokk eftir að hið vísindalega ferli 3. áfanga rammaáætlunar og þátttökuréttur almennings hafi leitt til annarrar niðurstöðu.

Í málsmeðferð 5. áfanga rammaáætlunar hafi ítrekað komið fram atriði er varði tengsl vindorkuvera við áhrif á vatnsgæði samkvæmt lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála í tengslum við svokallað jöfnunarafl sem nauðsynlegt sé í framleiðslu á vindorku í lokuðu raforkukerfi eins og á Íslandi. Orkustofnun hafi borið að taka þetta atriði til ítarlegrar athugunar, þ.e. hvaða áhrif nýting vindorku á Vaðöldu geti haft á vatnsgæði, en það hafi hún ekki gert. Ekkert hafi verið litið til þessa í umhverfismati framkvæmdarinnar. Stofnuninni hafi sem leyfisveitanda borið í samræmi við fyrirmæli 3. mgr. 28. gr. nefndra laga, sbr. 2. mgr. 13. gr. sömu laga og 10. gr. stjórnsýslulaga, að „tryggja að leyfið sé í samræmi við stefnumörkun um vatnsvernd sem fram kemur í vatnaáætlun.“ Stjórnvald geti ekki vísað til þess að öðrum leyfisveitendum eða handhöfum valds, s.s. sveitarstjórn, beri að taka mið af umræddri löggjöf. Orkustofnun hafi heldur ekki tekið mið af hinni almennu varúðarreglu umhverfisréttar, sbr. einnig 8. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd sem fjalli um vísindalegan grundvöll ákvarðana, en ákvæðið gildi skv. 7. gr. sömu laga fullum fetum við allar ákvarðanir stjórnvalda. Hafi úrskurðarnefndin staðfest þann skilning með úrskurði frá 19. desember 2019 í máli nr. 30/2019. Orkustofnun sé einnig við ákvörðun sína bundin af ákvæði um að brýna nauðsyn og almannahagsmuni þurfi til að raska svæðum og jarðmyndunum sem njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013.

Orkustofnun beri að líta til meginreglna umhverfisréttar, þ.e. varúðarreglunnar, mengunarbótareglunnar, reglunnar um verndarsjónarmið og reglunnar um að mengun sé upprætt við upptök. Í umhverfisrétti gildi sú meginregla, mótuð af dómstólum, að umhverfismatslöggjöf skuli túlka rúmt og með hliðsjón af markmiðum hennar. Samkvæmt Evróputilskipun um mat á umhverfisáhrifum sé framkvæmdaraðila skylt að leggja m.a. fram lýsingu á fyrirhuguðum ráðstöfunum til að koma í veg fyrir, draga úr og, ef hægt sé, ráða bót á verulegum skaðlegum áhrifum. Jafnframt sé honum skylt að leggja fram öll gögn sem nauðsynleg séu til að greina og meta helstu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og yfirlit yfir aðra kosti sem hafi verið kannaðir og forsendur fyrir vali, að teknu tilliti til umhverfisáhrifa. Þessi lágmarksskilyrði hafi verið tekin upp í 9. gr. laga nr. 106/2000. Það sé ljóst í máli þessu að framangreind skilyrði hafi ekki verið uppfyllt í matsskýrslu.

Mikill vafi sé um hvort þörf sé á umræddri framkvæmd, en af opinberri umfjöllun verði ráðið að vindorka sú sem framleidd verði hafi þegar verið seld fyrir landeldi í Vestmannaeyjum. Með vísan til meintrar þarfar almennings fyrir orkuna hafi Orkustofnun borið að rannsaka málið sjálfstætt og ítarlega sem og með hliðsjón af varúðarreglu umhverfisréttar, ekki síst í ljósi þess að hún sé bundin af lögum um að fyrir liggi mat á heildarálagi af virkjuninni með vistkerfisnálgun, sbr. 10. gr. laga um náttúruvernd, og ganga úr skugga um að vísindalegri aðferð hafi verið beitt, sbr. 8. gr. sömu laga. Í 5. mgr. 61. gr. laganna komi fram að ákveði leyfisveitandi að heimila framkvæmd skuli hann rökstyðja þá ákvörðun sérstaklega, fari hún í bága við umsagnir umsagnaraðila. Þá hafi Orkustofnun ekki leitað álits varðandi sérstaka vernd eldhrauna hjá Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands eða viðkomandi náttúruverndarnefnd, sem taldar séu upp í 3. mgr. lagagreinarinnar sem og 2. mgr. 68. gr. laganna. Sé málsmeðferð stofnunarinnar að þessu leyti háð verulegum annmörkum.

Búrfellslundur hafi ekki hlotið hefðbundna málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Líkt og sé raunin með umhverfismat framkvæmdarinnar hafi á þeim vettvangi verið fjallað um aðra útfærslu en veitt hafi verið leyfi fyrir. Sé úrskurðarnefndinni eftirlátið að fjalla um hvaða áhrif þetta kunni að hafa á gildi leyfisins. Úrlausn kærumálsins muni væntanlega snúast að verulegu leyti um túlkun laga sem byggð séu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. tilskipun nr. 97/11/ESB og 2011/92/ESB. Líklega sé þörf á áliti EFTA-dómstólsins og sé úrskurðarnefndin til þess bær samkvæmt EES-rétti að leita álits dómstólsins, þrátt fyrir að stjórnsýsluframkvæmd hingað til gangi í aðra átt.

Málsrök Orkustofnunar: Stofnunin bendir á að í áliti Skipulagsstofnunar frá 21. desember 2016, um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, hafi verið vísað til þess að frekara mat á áhrif á óbyggð víðerni þyrfti að fara fram á öðrum vettvangi þar sem myndi reyna á umhverfismat áætlana. Óumdeilt sé að sú málsmeðferð hafi farið fram, en á hana reyni ekki í þessu tiltekna máli. Það sé ekki á verksviði Orkustofnunar að rannsaka lögmæti málsmeðferðar skipulagsáætlana. Þá hafi í matsskýrslu framkvæmdaraðila verið lagðar fram þrjár tillögur að mögulegum útfærslum og hafi Skipulagsstofnun ekki gert athugasemdir við þá valkostagreiningu. Fullyrðing kæranda um skort á valkostamati eigi sér enga stoð. Tilgangur valkostagreiningar sé ekki sá að leyfisveitandi getið valið milli ólíkra útfærslna eða valkosta við leyfisveitingu. Ekki sé hægt að þvinga framkvæmdaraðila til að meta kosti sem teljist óraunhæfir eða kosti sem komi ekki til greina. Í ljósi þess að valkostagreining hafi vissulega farið fram og engar athugasemdir um það mat hafi komið fram við málsmeðferð virkjunarleyfisins hafi ekki verið þörf á slíkri umfjöllun við útgáfu leyfisins.

Framkvæmd sú sem virkjunarleyfið taki til hafi þróast frá áliti Skipulagsstofnunar, en slíkt sé ekki óvanalegt, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 15. febrúar 2018 í málum nr. 10, 11 og 15/2016. Þar hafi nefndin tekið fram að óraunhæft væri að gera ekki ráð fyrir því að stórar framkvæmdir tækju breytingum í tímans rás. Sú framkvæmd sem veitt hafi verið leyfi fyrir sé innan þess svæðis sem hafi verið til umfjöllunar í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Hæð mannvirkjanna sé lægri og færri vindmyllur, en þær breytingar séu komnar til sem viðbrögð við greindu áliti Skipulagsstofnunar. Ekki sé hægt að taka undir með kæranda að dómur Hæstaréttar frá 9. júní 2005 í máli nr. 20/2005 eigi við. Atvik þar hafi verið með þeim hætti að verulegar breytingar hafi orðið á framkvæmdinni frá því sem lýst hafi verið í matsskýrslu, m.a. varðandi útlit framkvæmdarinnar og tækni við framleiðslu. Í þessu máli sé framleiðsluaðferðin sú sama, staðsetning og útlit framkvæmdar óbreytt og sjónræn áhrif framkvæmdarinnar minni að sniðum. Sé matsskýrslan fullnægjandi grundvöllur að ákvörðun stofnunarinnar.

Því sé andmælt að Orkustofnun hafi borið að meta sjálfstætt hvort nauðsyn væri á að raska svæði sem nyti verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Sambærilegt álitaefni hafi verið til umfjöllunar í úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 15. júní 2023 í máli nr. 3/2023 og hafi nefndin þar bent á að umrætt ákvæði tæki samkvæmt orðanna hljóðan einungis til þar tilgreindra leyfa og ætti ekki við um virkjunarleyfi Orkustofnunar. Hvað varði 68. gr. sömu laga þá fjalli hún um gerð skipulagsáætlana. Það sé ekki hlutverk Orkustofnunar að meta þörf á ætlaðri framleiddri orku en í því tilliti sé bent á að markmiðsákvæði 1. gr. raforkulaga nr. 65/2003 nái um málaflokkinn í heild sinni, en ekki einstakar framkvæmdir. Hvað varði það sjónarmið að stofnuninni hafi borið að rannsaka áhrif raforkuframleiðslu Búrfellslundar á vatnsgæði samkvæmt lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála sé bent á að leyfi Orkustofnunar til að reisa og reka Búrfellslund sé ekki leyfi til nýtingar vatns. Jafnframt taki ákvæði 3. mgr. 28. gr. laga nr. 36/2011 ekki til framkvæmda á grundvelli raforkulaga. Verði breyting á heimilli raforkuframleiðslu og umhverfismarkmið nýttra vatnshlota náist ekki geti stofnunin brugðist við á grundvelli 3. mgr. 6. gr. raforkulaga.

Alþingi hafi samþykkt að Búrfellslundur yrði færður í orkunýtingarflokk rammaáætlunar. Það hafi þau réttaráhrif að stjórnvöldum sé heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum og orkuvinnslu á slíkum virkjunarkostum, sbr. 4. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Orkustofnun sé ekki heimilt að lögum að endurskoða flokkun virkjunarkosts í orkunýtingarflokk á þeim grundvelli að forsendur þingsályktunar séu ekki efnislega réttar eða að málsmeðferð hafi verið ábótavant.

Ekki sé ágreiningur um að Orkustofnun sé skylt að fara eftir meginreglum umhverfismatslöggjafar, en kærandi hafi hins vegar ekki gert grein fyrir því hvernig málsmeðferðin hafi farið gegn markmiðum áðurgildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Orkustofnun hafi metið áhrifin, lagt álit Skipulagsstofnunar til grundvallar og aflað nauðsynlegra gagna. Gerð hafi verið grein fyrir rannsókn málsins og ákvörðunin rökstudd í fylgibréfi með ákvörðuninni. Farið hafi verið eftir tillögum í álitinu um mótvægisaðgerðir og skilyrði. Jafnframt hafi Orkustofnun lagt mat á hvort forsendur framkvæmdar hefðu breyst verulega og leitað umsagna í samræmi við álit Skipulagsstofnunar. Hafi því meginreglur umhverfisréttar verið hafðar til hliðsjónar.

 Athugasemdir Landsvirkjunar: Af hálfu Landsvirkjunar er farið fram á að kröfu kæranda um að brotið hafi verið á þátttökurétti almennings verði vísað frá þar sem sú krafa sé of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ekki sé ljóst af kæru hvenær brotið hafi átt að eiga sér stað, en þó sé ljóst að kærufrestur sé liðinn. Í öllu falli beri að hafna kröfunni enda hafi verið gætt með fullnægjandi hætti að þátttökurétti almennings, allt frá því að vinna hafi hafist við umhverfismat framkvæmdarinnar. Þótt einhverjir annmarkar kunni að hafa verið á þátttökurétti almennings leiði það ekki til ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Því sé hafnað að í engu hafi verið brugðist við athugasemdum í áliti Skipulagsstofnunar frá 21. desember 2016 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í þeim tilgangi að koma til móts við ábendingar stofnunarinnar hafi Búrfellslundur sætt endurhönnun þar sem afl og umfang vindorkuversins hafi verið minnkað verulega, vindmyllum fækkað og staðsetning ákvörðuð sérstaklega í því skyni að lágmarka ásýndaráhrif. Hafi sú hönnun verið lögð fyrir verkefnisstjórn 4. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar. Til viðbótar hafi verið unnin ítarleg umhverfismatsskýrsla við gerð skipulagsáætlana Rangárþings ytra. Í henni hafi komið fram að hlutfall fræðilegs sýnileika á óbyggð víðerni innan 40 km radíuss frá vindorkuverinu yrði mjög lítið eða tæp 6%. Jafnframt hafi verið greint frá því að aðeins einn valkostur kæmi til greina varðandi staðarval vindorkuversins, þ.e. sá staður sem endurhönnun hafi miðað við. Jafnframt hafi verið tekið fram í skýrslunni að með endurhönnun hafi valkostir verið skoðaðir varðandi uppröðun og fjölda vindmylla innan svæðisins. Engar athugasemdir hafi borist í umsagnarferlinu, s.s. frá Skipulagsstofnun, um að misbrestur hafi verið á viðbrögðum við fyrri ábendingum að því er varðaði valkostagreiningu, en stofnunin hafi staðfest aðalskipulagsbreytinguna. Af framangreindu sé ljóst að staðarval endurhannaðs Búrfellslundar hafi byggt á vísindalegri greiningu og hafi verið svar við þeim ábendingum sem komið hafi fram í umhverfismatinu. Sé endurhannaður Búrfellslundur allur innan þess rannsóknarsvæðis sem fjallað hafi verið um í fyrri tillögu frá árinu 2016. Verði að telja að á kæranda hvíli sönnunarbyrði um að önnur staðsetning sé ákjósanlegri út frá umhverfisáhrifum, en hann hafi ekki bent á aðra staðsetningu sem hann telji raunhæfari eða heppilegri.

 Að þessu leyti sé grundvallarmunur á atvikum þessa máls og þeim sem reynt hafi á í dómi Hæstaréttar frá 16. febrúar 2017 í máli nr. 575/2016. Þar hafi annmarkar á umhverfismati falist í því að ekki hafi verið gerður fullnægjandi samanburður á þeim raunhæfa valkosti að leggja háspennulínur í jörðu í stað loftlína. Í þessu máli sé sú staða ekki fyrir hendi að fleiri en einn tæknilegir valkostir hafi staðið til boða með mismunandi umhverfisáhrif í för með sér. Þvert á móti hafi endurhannaður Búrfellslundur byggt á sömu tækni og metin hafi verið í áliti Skipulagsstofnunar. Engin rök standi til þess að meta hefði átt allar mögulegar og ómögulegar staðsetningar fyrir vindorkuver á Íslandi, til viðbótar því svæði sem hann sé nú fyrirhugaður á. Hafa verði í huga að vindorkuverinu hafi verið mörkuð tiltekin staðsetning í rammaáætlun. Aðrar staðsetningar fyrir vindorkuver á svæðinu sé ekki að finna í orkunýtingarflokki og því óraunhæft að vísa til þess að skoða hefði átt aðrar staðsetningar sem ekki séu í þeim flokki. Fari slík túlkun langt umfram það sem mælt sé fyrir um í áðurgildandi 1. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Varðandi þau sjónarmið að leita hefði átt umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands, á grundvelli ákvæða laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, sé bent á að umsögn þeirrar stofnunar hafi legið fyrir við auglýsingu tillögu að deiliskipulagi framkvæmdarinnar. Þar segi að stofnunin geri engar efnislegar athugasemdir, en fram komi að framkvæmdasvæðið væri að hluta merkt sem gervigígasvæði en vegna rasks sem nú þegar hefði orðið á svæðinu væri ekki að sjá að þar væru heillegir gervigígar. Að þessu leyti sé því ekki um annmarka á málsmeðferð deiliskipulagsins að ræða. Sama stofnun hafi einnig skilað umsögn við málsmeðferð hins kærða virkjunarleyfis, en þar hafi ábendingu varðandi vöktun fuglalífs verið komið á framfæri.

Ekki sé rökstutt í kæru hvaða skilyrði hafi ekki verið uppfyllt í matsskýrslu. Sé leyfishafa því óhægt um vik að svara þessari fullyrðingu, en telji engu að síður að matsskýrslan hafi uppfyllt skilyrði ákvæðisins. Þá sé skýrt að fylgibréf hins kærða virkjunarleyfis uppfylli öll skilyrði 13. gr. laga nr. 106/2000 um hvað eigi að tilgreina í greinargerð. Það leiði hvorki af ákvæðum greindra laga, né gildandi laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, að endanleg framkvæmd þurfi að vera nákvæmlega sú sama og sú framkvæmd sem hafi verið umhverfismetin. Hvað varði skyldu leyfisveitanda til að kanna hvort um sömu framkvæmd sé að ræða sé bent á eftirfarandi athugasemdir við 27. gr. frumvarps þess sem orðið hafi að lögum nr. 111/2021: „Í því geta falist útfærslur og frávik sem orðið hafa við endanlega hönnun framkvæmdar, sem víkja þó ekki í meginatriðum frá þeirri framkvæmdalýsingu sem fram kemur í umhverfismatsskýrslu og álit Skipulagsstofnunar byggist á.“ Í þessu sambandi sé einnig vísað til forsendna úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 15. júní 2023 í máli nr. 3/2023. Hafi Orkustofnun tekið sérstaka afstöðu til þessara sjónarmiða í fylgibréfi. Þá hafi dómur Hæstaréttar frá 9. júní í máli nr. 20/2005 ekki þýðingu fyrir þetta mál. Ef fallist yrði á að um nýjan virkjunarkost væri að ræða hefði það letjandi áhrif, enda hefðu framkvæmdaraðilar þá engan hvata til að minnka umfang virkjunarkosts og uppsett afl og gera virkjunarkost umhverfisvænni. Í umsögnum Skipulagsstofnunar við gerð skipulagsáætlana vegna endurhannaðs Búrfellslundar sé því hvergi haldið fram að nýtt umhverfismat þurfi fyrir framkvæmdina.

Ákvörðun um útgáfu virkjunarleyfis Búrfellslundar falli utan gildissviðs laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála eins og það sé afmarkað í 2. gr. laganna. Í ákvæðinu segi að lögin taki til yfirborðsvatns og grunnvatns ásamt árósavatni og strandsjó, til vistkerfa þeirra og til vistkerfa sem tengist þeim að vatnabúskap. Sú framkvæmd sem virkjunarleyfið lúti að varði ekki þá þætti sem tilgreindir séu í ákvæðinu. Þegar af þessari ástæðu geti lögin ekki gilt um hið kærða leyfi. Sama gildi ef horft sé á framkvæmdina með hliðsjón af gildissviði tilskipunar Evrópusambandsins um aðgerðaramma bandalagsins um stefnu í vatnamálum, 2000/60/EB (vatnatilskipun ESB). Einnig sé því hafnað að samlegðaráhrif vindorku og vatnsorku hafi það í för með sér að Orkustofnun hafi borið að líta til 3. mgr. 28. gr. laga nr. 36/2011 við útgáfu leyfisins, auk þess sem framkvæmdin leiði í sjálfu sér ekki til neinna breytinga á vatnshlotum þeim sem vatnsaflsvirkjanir Landsvirkjunar varði.

Samlegðaráhrif Búrfellslundar með miðlunarlónum Landsvirkjunar felist fyrst og fremst í því að vindstyrkur sé mestur að vetri þegar lítið vatn renni um miðlunarlónið af náttúrulegum orsökum. Þannig sé hægt að framleiða rafmagn úr vindorku á þeim tíma sem framleiðsla minnki í vatnsaflsvirkjunum. Þótt Landsvirkjun geti nýtt vindorkuna til að safna vatni í uppistöðulónum þegar vindur blási þá séu starfsemi og áhrif vatnsaflsvirkjana fyrirtækisins áfram háð þeim skilyrðum sem um þær virkjanir gilda, þ.m.t. um vernd yfirborðsvatnshlota, sbr. t.d. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 36/2011. Landsvirkjun sé þar með áfram skuldbundin til að framfylgja settum reglum um vatnsaflsvirkjanir og áhrif þeirra og muni hið kærða virkjunarleyfi ekki slaka á þeim kröfum. Þau skilyrði verði ekki heimfærð yfir á starfsemi eða útgáfu virkjunarleyfa vindorkuvera með þeim hætti sem kærandi staðhæfi.

Gætt hafi verið að varúðarreglu umhverfisréttar þar sem endurhönnun vindorkuversins hafi miðað að því að taka sem best tillit til framkominna ábendinga, m.a. hvað varði áhrif á náttúru. Undirbúningur þess hafi staðið yfir í fjölda ára og byggist á fjölmörgum rannsóknum. Umhverfismatinu sé lokið, en í virkjunarleyfinu sé að finna sértækt skilyrði sem kveði á um skyldu Landsvirkjunar til að gera viðbragðsáætlun, m.a. vegna vár sem kunni að steðja að umhverfi. Vegna ályktana kæranda um ráðstöfun á raforku og raforkuþörf sé bent á að raforkusala Landsvirkjunar sé ekki tengd ákveðnum virkjunarkostum. Eftir erfið vatnsár síðustu ára, sem hafi orðið til þess að skerðingum hafi verið beitt og afhendingaröryggi raforku verið ógnað, sé ljóst að skortur sé á raforku. Orkustofnun hafi í raforkuspám sínum bent á aukna raforkuþörf heimila og fyrirtækja og sé því fráleitt að halda því fram að stofnunin hafi hvorki með sjálfstæðum hætti metið brýna nauðsyn og almannahagsmuni við töku hinnar kærðu ákvörðunar né gætt að meginreglum umhverfisréttar. Þá hafi stofnunin að öllu leyti gætt að rannsóknarskyldu sinni við leyfisveitinguna.

Þeirri fullyrðingu kæranda að hið fyrirhugaða vindorkuver hafi ekki fengið hefðbundna málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun sé hafnað. Þegar Búrfellslundi hafi verið skipað í biðflokk í rammaáætlun hafi verið gert ráð fyrir 200 MW vindorkukosti, en þegar Alþingi hafi 15. júní 2022 samþykkt þingsályktun nr. 24/152 og fært kostinn í orkunýtingarflokk hafi verið gert ráð fyrir umfangsminni áformum eða 120 MW, eins og fram hafi komið. Það komi ekki í hlut Orkustofnunar eða úrskurðarnefndarinnar að endurskoða framangreinda málsmeðferð eða lögmæti samþykkta Alþingis. Með þingsályktun hafi Alþingi falið ráðherra og stjórnvöldum að framfylgja þeirri stefnu sem hún hafi að geyma. Þar að auki hafi Alþingi á engan hátt verið bundið af tillögum verkefnisstjórnar, eins og fram komi í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að lögum nr. 48/2011. Orkustofnun hafi hins vegar borið að fylgja þessari afstöðu Alþingis og það sama gildi um æðri stjórnvöld á borð við úrskurðarnefndina.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Hafnað sé skilningi Orkustofnunar á hlutverki sínu, sem á stundum hafi verið vísað til sem aðgreiningarreglunnar, en Hæstiréttur hafi ekki byggt á slíkri reglu við mat á lögmæti ákvarðana sem byggi á raforkulögum. Sé því ekki hægt að undanþiggja umhverfismat deiliskipulags frá rannsóknarskyldu Orkustofnunar í máli þessu. Sú skylda sé þeim mun strangari eftir því sem umfang og umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu meiri, eins og hér sé raunin.

Ekki sé byggt á því að leyfið feli í sér nýtingu vatns heldur að raforkuframleiðsla Búrfellslundar muni auka aflþörf sem mætt verði með aflaukningu við raforkuframleiðslu úr vatnsaflsvirkjunum. Þá sé því hafnað að gildissvið 28. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála nái ekki til virkjunarleyfis og nægi í því sambandi að benda á að leyfi sama leyfisveitanda hafi verið ógilt með úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 15. júní 2023 í máli nr. 3/2023. Orkustofnun geti ekki látið hjá líða að líta til augljósra afleiðinga virkjunar á vatnamál með tilvísun til 3. mgr. 6. gr. raforkulaga nr. 65/2003, enda byggi lög nr. 36/2011 á því að matið eigi að fara fram áður en komi að ákvörðun, ekki eftir.

Þau ummæli Skipulagsstofnunar að frekara mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar þurfi að gerast á öðrum vettvangi leiði síður en svo til þeirrar niðurstöðu að Orkustofnun beri ekki rannsaka það tilgreinda mat, enda sé það beinlínis hluti umhverfismats framkvæmdarinnar í þessu tiltekna máli. Umhverfismatinu hafi því ekki getað verið lokið fyrr en síðar og hafi Orkustofnun borið að taka afstöðu til þess hvort tilmælin hefðu verið uppfyllt. Það sé ógjörningur annað en að skilja orð Skipulagsstofnunar á þann hátt að verið sé að vísa til valkosta sem feli í sér annað landsvæði, en það leiði af orðanna hljóðan. Ekkert mat á staðarvalkostum hafi farið fram á öðrum vettvangi. Þá sé fráleitt að halda því fram að það að minnka afl og orkuframleiðslugetu, fækka vindmyllum eða færa þær til hafi í för með sér minni umhverfisáhrif. Leyfishafi hafi einhliða farið fram með tilfærslur og fækkun vindmylla. Framkvæmdin sem um ræði sé einfaldlega önnur en sú sem sætt hafi mati á umhverfisáhrifum.

—–

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Orkustofnunar frá 12. ágúst 2024 að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir allt að 120 MW vindaflsvirkjun í Búrfellslundi í Rangárþingi ytra. Leyfið felur í sér heimild til þess að nýta vindorku til raforkuframleiðslu með þeim skilyrðum sem tilgreind eru í leyfinu, raforkulögum og reglugerð nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 2. mgr. 37. gr. raforkulaga nr. 65/2003.

 Samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði aðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda viðkomandi ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta þegar um er að ræða ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Kærandi, sem er náttúruverndarsamtök, uppfyllir skilyrði kæruaðildar og verður því játuð kæruaðild að máli þessu. Af hans hálfu er á því byggt að verulegir form- og efnisannmarkar séu á umhverfismati hinnar heimiluðu framkvæmdar, þ. á m. að ekkert valkostamat hafi farið fram, skort hafi á vísindalegt mat á stöðu óbyggðra víðerna og áhrifum framkvæmdarinnar á þau, ekki hafi verið vikið að vernd eldhrauna samkvæmt náttúruverndarlögum og að brotið hafi verið á þátttökurétti almennings.

—–

Samkvæmt 4. gr. raforkulaga þarf leyfi Orkustofnunar til að reisa og reka raforkuver og er kveðið nánar á um skilyrði fyrir veitingu virkjunarleyfis og efni þess í 5. og 6. gr. sömu laga. Í VIII. kafla laganna eru síðan almenn ákvæði um leyfisveitingar, þ. á m. um málsmeðferð, sbr. 34. gr. laganna. Ítarlegri ákvæði um virkjunarleyfi er að finna í reglugerð um framkvæmd raforkulaga og bar Orkustofnun við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar að fara að fyrrgreindum lögum og reglugerð, sem og öðrum lögum er þýðingu hafa vegna undirbúnings og útgáfu leyfisins. Einnig hvílir ætíð sú skylda á stofnuninni að gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar. Þá fer um leyfisveitingu vegna matsskyldra framkvæmda, þar sem umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir lög nr. 111/2021 var lokið við gildistöku laganna 1. september 2021, samkvæmt ákvæðum eldri laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 1. ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 111/2021.

Skyldur leyfisveitanda eru ríkar við útgáfu leyfis til framkvæmdar sem sætt hefur mati á umhverfisáhrifum. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 106/2000 skal leyfisveitandi m.a. kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar til grundvallar. Þarf álitið lögum samkvæmt að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald, en það er forsenda þess að leyfisveitandi geti tekið ákvörðun um umsókn um leyfi. Ná því skyldur hans einnig til þess að athuga hvort einhverjir þeir annmarkar séu á áliti Skipulagsstofnunar sem kunni að leiða til þess að á því verði ekki byggt. Lýtur lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar að hinu sama, sem og því hvort leyfisveitandi hafi sinnt skyldum sínum með fullnægjandi hætti.

Samkvæmt 6. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 skal framkvæmdaraðili vinna endanlega matsskýrslu á grundvelli frummatsskýrslu, en nánari fyrirmæli, svo sem um efni frummatsskýrslunnar, er að finna í 9. gr. sömu laga. Skipulagsstofnun gefur rökstutt álit á því hvort matsskýrsla uppfylli skilyrði laganna og reglugerða samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt, sbr. 11. gr. sömu laga. Í álitinu skal gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja því til grundvallar, og niðurstöðum þess. Jafnframt skal fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á athugasemdum og umsögnum við frummatsskýrslu. Eru þannig gerðar kröfur um form og efni álits stofnunarinnar í þeim tilgangi að renna styrkari stoðum undir síðari ákvarðanir á grunni þess.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar frá 21. desember 2016 er málsmeðferðinni lýst og tiltekin þau gögn sem lögð voru fram við undirbúning þess. Tilgreint er hverjir veittu umsögn og frá hverjum athugasemdir bárust. Fjallað er um frávik frá matsáætlun og framkvæmdinni og markmiðum hennar lýst. Gerð er grein fyrir niðurstöðum í matsskýrslu framkvæmdarinnar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Að endingu er gerð grein fyrir niðurstöðum Skipulagsstofnunar varðandi einstaka þætti, þ.e. áhrif fram­kvæmdarinnar á hljóðvist, menningarminjar, jarðmyndanir, gróður, fugla, landslag, þ. á m. víðerni, og ferðaþjónustu og útivist. Einnig víkur stofnunin að skipulagi og leyfum sem vindorkuverið sé háð.

Í niðurstöðukafla álitsins er því lýst að matsskýrsla framkvæmdaraðila uppfylli að hluta skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hvað varðar að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt. Þá kemur fram að framkvæmdin sé líkleg til að hafa veruleg áhrif á landslag og víðerni auk ferðaþjónustu og útivist. Áhrifamatið sé þó háð óvissu þar sem fullnægjandi greining liggi ekki fyrir á áhrifum framkvæmdarinnar á landslag og víðerni sem geri það að verkum að óvissa ríki um áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um landslagsáhrif og rannsóknir á ferðaþjónustu og útivist telji stofnunin þó hægt að álykta að framkvæmdin sé líkleg til að hafa talsverð til verulega neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist á og nærri framkvæmdasvæðinu og víðar um Suðurhálendið. Þá voru gerðir nokkrir fyrirvarar við ályktanir matsskýrslu um fuglalíf þar sem talið var að þær byggðu á takmörkuðum gögnum og mikilvægt væri að við frekari skipulagsgerð vegna vindorkuversins og undirbúning leyfisveitinga væri haft samráð við Náttúrufræðistofnun Íslands varðandi þörf á frekari rannsóknum áður en ákvörðun verði tekin um uppbyggingu og ef af verði um tilhögun framkvæmda og um nauðsynlega vöktun og mótvægisaðgerðir m.t.t. áhrifa á fuglalíf. Áhrif á aðra áhrifaþætti séu almennt talin óveruleg, nema staðbundið á og næst framkvæmdasvæðinu.

—–

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 skyldi frummatsskýrsla hafa að geyma þær upplýsingar sem sanngjarnt mætti teljast að krafist yrði svo að unnt væri að taka afstöðu til umtalsverðra umhverfisáhrifa framkvæmdar, að teknu tilliti til fyrirliggjandi þekkingar og matsaðferða. Setja má þetta í samband við þann tilgang ferlis mats á umhverfisáhrifum að tryggja almenningi raunverulegan möguleika á því að taka þátt í ferli ákvörðunar um matsskylda framkvæmd. Er sú þátttaka eðlilega háð því að þær upplýsingar sem matsskýrsla eða fylgigögn hennar hafa að geyma séu lýsandi um áhrif framkvæmda á helstu umhverfisþætti þannig að hægt sé að álykta um áhrifin. Í tilefni af athugasemdum Skipulagsstofnunar um óvissu við áhrifamat framkvæmdarinnar með vísan til tiltekinna greininga og gagna, verður fjallað nánar um það hér á eftir hvort sökum hennar verði ekki á matsskýrslunni byggt.

Til þess er fyrst að taka að í upphafi niðurstöðukafla álits Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdaraðila kemur fram að reynsla af umhverfisáhrifum stakra vindmylla sé lítil hér á landi, en vindorkuver af því umfangi sem um væri fjallað í matinu feli í sér algjört nýmæli hvað varði skipulag og mat á umhverfisáhrifum í íslensku umhverfi. Mikilvægt væri að umhverfismat slíkra framkvæmda byggi á bestu fáanlegu þekkingu um umhverfismat vindorkuvera sem safnast hefði í nágrannalöndum okkar á síðustu árum um leið og gætt væri að staðbundnum aðstæðum hér á landi. Umfjöllun stofnunarinnar er með þessu sett fram í nafni varúðarsjónarmiða en um leið mótast hún af því að lítt er við bein lagafyrirmæli eða almennar leiðbeiningar að styðjast sem markað geti leyfisveitingum vegna vindorku skýrari ramma og með því jafnframt verið til hliðsjónar við umfjöllun um ólíka umhverfisþætti við vinnslu matsskýrslu.

Meðal helstu áhrifa vindorkuvera eru áhrif á landslag og með því sjónræn áhrif. Í þeim kafla álits Skipulagsstofnunar þar sem fjallað var um áhrif framkvæmda á landslag var rakið að í matsskýrslu og meðfylgjandi sérfræðiskýrslum hafi sjónræn áhrif framkvæmdarinnar verið greind með sýnileikakortum, næmnigreiningu, ásýndarmyndum, landslagsgreiningu og viðhorfskönnunum. Hið eiginlega mat hafi þó byggt annars vegar á niðurstöðum sýnileikakortlagningar um það úr hversu mikilli fjarlægð væri talið líklegt að vindmyllurnar sæjust og hins vegar niðurstöðum landslagsgreiningar, þar sem gildi landslagsheilda hafi verið metið, byggt á sýnileika vindmyllanna innan hverrar landslagsheildar og sýnileika þeirra innan óbyggðra víðerna.

Í bæði matsskýrslu og áliti Skipulagsstofnunar er vísað til leiðbeininga Vatns- og orkustofnunar Noregs (Norges vassdrags- og energidirektorat NVE) frá árinu 2007, sem varðar hvernig sýna skuli sjónræn áhrif ráðgerðra vindorkugarða (n. Visualisering av planlagte vindkraftverk). Þar kemur m.a. fram að í yfir 10–12 km fjarlægð sé sýn til vindmylla háð veðuraðstæðum. Reynsla af vindorkuverum á eyjunum Hitra og Smøla í Þrændalögum, þar sem vindmyllur eru um 70 m háar, sé að mögulegt sé að greina vindmyllur í allt að 30–40 km fjarlægð við bestu veðurskilyrði ef sérstaklega sé eygt eftir þeim. Skeri litur á vindmyllum sig vel úr umhverfinu (n. fargekontraster) geti vindmyllur verið „vel sýnilegar“ í yfir 15–20 km fjarlægð. Í leiðbeiningunum er tekið fram að kort um ætlaðan sýnileika vindorkuvers (n. teoretisk synlighetskart) skuli útbúið sem fylgja skuli umsókn um virkjunarleyfi sem nái til 20 km baugs frá ytri afmörkun vindorkuvers. Umfjöllunin virðist almennt miða við vindmyllur með masturshæð allt að 85 m og spaða sem í hæstu stöðu eru 130 m, þ.e. nokkru lægri en ráðgerðar eru í Búrfellslundi.

Í áliti Skipulagsstofnunar var kort úr matsskýrslu um ætlaðan sýnileika sem sýndi hvaðan mætti sjá eða greina fyrirhugaðar vindmyllur. Á kortinu var markaður 25 km baugur frá framkvæmdasvæðinu þar sem vindmyllurnar væru sýnilegar. Ljóst er af kortinu að lítið mun sjást til vindmyllanna frá Landmannalaugum og nágrenni, austan og suðaustan við framkvæmdasvæðið. Í álitinu kom fram að í matsskýrslu hafi innan sama baugs verið greindar 12 landslagsheildir og réðist afmörkun hverrar heildar af landformum, þ.e. umgjörð sem lokaði á frekari sýn. Var lagt mat á gildi hverrar landslagsheildar, út frá fjórum breytum, sem hver um sig hafði jafnmikið vægi. Niðurstaða framkvæmdaraðila var sú að sjónræn áhrif vindmylla væru bein, neikvæð en afturkræf.

Í álitinu var talið að framkvæmdin væri líkleg til að hafa veruleg áhrif á landslag. Var um leið gagnrýnt að sýnileikakortlagning í matsskýrslu gæfi ekki fullnægjandi mynd af áhrifum framkvæmdarinnar á landslag. Var af þessu tilefni vísað til þess að mælt væri með því í mörgum fræðiritum að sýnileikagreining fyrir vindmyllur sem væru 100 m að hæð næðu allt að 30 km út fyrir framkvæmdasvæði. Þá væri í leiðbeiningum skoskra stjórnvalda, sem framkvæmdaraðili hefði einnig vísað til, mælt með því að sýnileiki vindorkuvers með allt að 150 m háum vindmyllum verði kortlagður í allt að 40 km radíus út frá framkvæmdasvæði. Var að auki vísað til vettvangsrannsóknar á sýnileika vindorkuvera sem fram hafði farið í Wyoming og Colorado í Bandaríkjunum við breytileg veður- og birtuskilyrði, þar sem fram kom það álit að hæfilegt viðmið fyrir mat á sjónrænum áhrifum væri 30 mílur eða 48 km. Nánari umfjöllun er á bls. 16-18 í álitinu og í niðurstöðukafla þess.

Úrskurðarnefndin getur tekið undir með Skipulagsstofnun að til greina hefði komið að styðjast fremur við þær skosku leiðbeiningar sem vísað er til. Hjá því verður þó ekki litið að þær greiningar á áhrifum framkvæmdanna á landslag og ásýnd sem eru í matsskýrslunni eru greinargóðar og má raunar sjá hvaðan mögulegt getur verið við bestu skilyrði að eygja vindmyllur alllangt utan greinds 25 km baugs um framkvæmdasvæðið. Það virðist einkum vera svæði í suðvestri í ofanverðri Landsveit sem og takmarkað svæði í norðaustri. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar er þáttur í rannsókn máls og verður ekki talið að þær greiningar sem settar eru fram í matsskýrslunni og varða landslag séu svo takmarkaðar að af þeim verði ekki dregnar ályktanir. Verður um leið bent á þá athugasemd Skipulagsstofnunar að niðurröðun og staðsetning vindmylla geti komið til nánari athugunar við deiliskipulagsgerð og umhverfismat þess.

Af hálfu kæranda er færð fram sú gagnrýni að við mat á umhverfisáhrifum hafi algerlega skort vísindalegt mat á stöðu óbyggðra víðerna og mat á áhrifum framkvæmdar á þau. Þá sé fráleitt að byggja á umhverfismati þar sem sýnileiki vindorkumannvirkja sé sýndur innan ósnortinna víðerna samkvæmt lögum sem ekki hafi verið í gildi síðastliðin níu ár. Bent sé á að aðferð sé til innanlands við að meta áhrif mannvirkja á óbyggð víðerni, en þau hafi verið kortlögð með vísindalegri aðferð og séu þau kort aðgengileg á <www.map.is> með því að ýta á flipann „Önnur kortagögn“ og flipann „Víðernakort“ þar undir.

 Af þessu tilefni má benda á að í áliti Skipulagsstofnunar kom fram að meðal verndarmarkmiða náttúruverndarlaga nr. 60/2013, sbr. e-lið 3. gr. þeirra, sé að standa vörð um óbyggð víðerni, en til þeirra teljist svæði í óbyggðum sem séu að jafnaði a.m.k. 25 km2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúru án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja og að jafnaði í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og uppbyggðum vegum, sbr. 19. tölulið 5. gr. laganna. Í 46. gr. téðra laga er gert ráð fyrir því að friðlýsa megi slík svæði sem óbyggð víðerni, en þess munu enn engin dæmi hér á landi. Að auki er í 2. mgr. 73. gr. a. í lögunum gert ráð fyrir því að slík svæði verði kortlögð fyrir tilstilli stjórnvalda. Þeirri vinnu er ekki lokið þótt unnið hafi verið að samræmingu forsendna og viðmiða en um það má vísa til þinglegs svars ráðherra umhverfismála á 154. löggjafarþingi (þskj. 1865). Til skilningsauka má jafnframt vísa til athugasemda sem fylgdu frumvörpum þeim sem urðu að lögum nr. 109/2015 og nr. 43/2020 um breytingu á lögum nr. 60/2013.

Enn má til skýringar um hugtakið óbyggð víðerni vísa til skýrslu þriggja sérfræðinga sem unnin var fyrir Skipulagsstofnun og Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða árið 2017, en þar kemur fram sá skilningur að friðlýsingarflokkurinn „óbyggð víðerni“ í lögum nr. 60/2013 svari til flokks Ib í flokkunarkerfi IUCN, Alþjóðanáttúruverndarsambandsins, sem á ensku nefnist „wilderness“. Fram kemur að þótt verndun víðerna hafi verið samofin hugmyndafræði náttúruverndar nánast frá upphafi sé flokkurinn sjálfur ekki ýkja gamall því hann hafi fyrst verið tekinn upp í flokkunarkerfi IUCN árið 1994. IUCN hafi árið 2016 gefið út fyrstu leiðbeiningar sínar sem lúti sérstaklega að stjórnun verndarsvæða í þessum friðlýsingarflokki. Með verndun slíkra svæða sé ekki verið að loka þeim algerlega fyrir umgengni manna, heldur leitast við að fyrirbyggja nýtingu eða umbreytingu sem rýri víðernisgæði og gangi þannig gegn forsendum og markmiðum verndunar. Í skýrslunni er bent á að grunnorðið sem löggjafinn hafi ákveðið á sínum tíma að nota, þ.e. víðerni, rími ekki alls kostar við þetta þar sem víðerni sé skilið sem „mikil víðátta, rýmd“ eða „vídd“ meðan hið alþjóðlega hugtak felist í varðveislu hins villta (e. wild) í náttúrunni. (Þorvarður Árnason, David Ostman og Adam Hoffritz: „Kortlagning víðerna á miðhálendi Íslands: Tillögur að nýrri aðferðafræði.“ Háskóli Íslands – Rannsóknasetur á Hornafirði. 2017).

Í niðurstöðukafla álits Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdaraðila er komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin sé líkleg til að hafa veruleg áhrif á víðerni. Á það er um leið bent að í matsskýrslu hafi verið farin sú leið að afmarka óbyggð víðerni sem svæði sem væru að lágmarki 25 km2 og í 5 km fjarlægð frá mannvirkjum án tillits til landforma og metin áhrif á þau þeirra sem væru í innan við 25 km fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu. Þessi nálgun hefði í för með sér að áhrif á óbyggð víðerni væru vanmetin og líkur væru á því að framkvæmdin hefði meiri áhrif til skerðingar á óbyggðum víðernum en niðurstöður matsskýrslu Landsvirkjunar gæfu til kynna. Við mat á áhrifum vindorkuvera á óbyggð víðerni og með hliðsjón af ákvæðum náttúruverndarlaga og lögskýringa við þau, þurfi að taka tillit til tiltekinna atriða og var í því sambandi m.a. bent á að þau mannvirki sem afmörkun víðerna miðist við hafi mismikil skerðingaráhrif. Þá þurfi við kortlagningu víðerna og áhrifamat að taka tillit til landforma og þess hvort fjallgarðar eða aðrar breytingar í landslagi geri að verkum að mannvirki verði ekki sýnileg og skerði því ekki víðerni um eins langan veg og annars væri, ef ekki kæmu til hindranir í landslagi. Til þessara þátta hafi ekki verið tekið fullnægjandi tillit í matsskýrslu og var sett fram sú ábending að nauðsynlegt væri, áður en til skipulagsákvarðana og leyfisveitinga um framkvæmdina kæmi, að fram færi ítarlegri greining á víðernum á áhrifasvæði framkvæmdarinnar og mat á áhrifum hennar á þau.

Með matsskýrslu framkvæmdaraðila fylgdi sérfræðiskýrsla um landslagsgreiningu og kemur þar fram að við kortlagningu víðerna hafi verið miðað við skilgreiningu á ósnortnum víðernum samkvæmt þágildandi lögum um náttúruvernd nr. 44/1999. Var í kortlagningu í matsskýrslu fjallað um og sýnd víðerni innan sjónræns áhrifasvæðis vindorkuversins samkvæmt þeirri skilgreiningu. Þótt hún sé ekki orðrétt samhljóða skilgreiningu gildandi laga var hún engu að síður til viðmiðunar þegar matsskýrslan var í vinnslu. Ennfremur verður bent á þá óvissu sem virðist til að dreifa um hvernig slík svæði sem hér um ræðir verði afmörkuð af stjórnvöldum, m.a. í ljósi þeirra þátta sem Skipulagsstofnun bendir á hvað varðar mat á röskun á víðernum. Verður í ljósi þessa ekki álitið að slíkri óvissu geti verið til að dreifa um mat á víðernum að ekki verði byggt á áliti Skipulagsstofnunar að þessu leyti til. Verður og vakin athygli á því að í áliti stofnunarinnar eru sett fram leiðbeinandi tilmæli til leyfisveitanda um nánara mat við undirbúning leyfisveitingar.

Í matsskýrslu framkvæmdaraðila var sett fram sú niðurstaða, á grundvelli forathugunar á fuglum á áhrifasvæði framkvæmdarinnar á árunum 2011–2013 og ítarlegri rannsóknar árið 2014, að fyrirhuguð framkvæmd mundi hafa bein neikvæð áhrif á varpfugla innan framkvæmdasvæðis og á farleiðir fugla. Umfang áhrifa á fugla væri á heildina litið óverulegt og því væru áhrif á fugla metin óveruleg. Í matsskýrslu kom fram að helstu neikvæðu áhrif vindmylla á fugla væru áflug, fæling, hindrun á farleiðum og búsvæðamissir. Var og fjallað um helstu fuglategundir sem finnast á svæðinu og farleiðir fugla. Kom fram að þrjár válistategundir væru taldar verpa í eða við næsta nágrenni ráðgerðra framkvæmda, þ.e. grágæs, fálki og hrafn, en engin þeirra var talin verða fyrir „teljanlegum skakkaföllum“ vegna vindmyllanna. Var og talið að niðurstöður úr áflugslíkani bentu til lágrar áflugstíðni farfugla við vindmyllurnar, óháð útfærslum. Áflugshættan sé mest í maí og október. Afföll álfta og gæsa yrðu mest í október, en mest afföll heiðlóa í september og október. Áætlað var að 3–14 fuglar geti árlega flogið á vindmyllurnar eftir útfærslum á staðsetningu þeirra.

Í niðurstöðukafla álits Skipulagsstofnunar kom fram að stofnunin gerði ákveðna fyrirvara við niðurstöður matsskýrslu um áhrif framkvæmdarinnar á fuglalíf. Þar verði að mati stofnunarinnar að horfa til nýmælis framkvæmdarinnar hér á landi, umfangs hennar, staðsetningar og að rannsókn vegna mats á áhrifum framkvæmdarinnar á fugla náði yfir takmarkaðan tíma. Var og vísað til þess að í skoskum leiðbeiningum væri miðað við að rannsóknir á fuglalífi vegna stórra vindorkuvera næðu til tveggja ára. Úrskurðarnefndin tekur undir þessar athugasemdir, en almennt er mikilvægt að fuglamælingar fari fram í meira en eitt ár til að hægt sé að draga fullnægjandi ályktanir um stöðu einstakra tegunda eða vistkerfis en frávik milli ára geta verið mikil. Með hliðsjón af umfjöllun í matsskýrslu benti Skipulagsstofnun á að við frekari skipulagsgerð vegna vindorkuversins og undirbúning leyfisveitinga yrði haft samráð við Náttúrufræðistofnun Íslands varðandi þörf á frekari rannsóknum áður en ákvörðun verði tekin um uppbyggingu og ef af yrði um tilhögun framkvæmda, vöktun og mótvægisaðgerðir m.t.t. áhrifa á fuglalíf. Skilja verður álit Skipulagsstofnunar að þessu leyti þannig að hún fallist á þá niðurstöðu matsskýrslu að þrátt fyrir að neikvæðum áhrifum verði til að dreifa á fugla verði að meta áhrifin í heildina sem óveruleg. Jafnframt beinir hún með þessu tilmælum til leyfisveitanda og skipulagsyfirvalda um samráð við sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar um nánara mat á áhrifum framkvæmdarinnar á fuglalíf.

Í áliti Skipulagsstofnunar er rakið að í matsskýrslu framkvæmdarinnar kemur fram að ferðaþjónustuaðilar telji sérstöðu svæðisins norðan og austan Búrfells felast í staðsetningu þess á hálendisbrúninni sem geri það að inngangi að hálendinu, staðsetningu þess við rætur Heklu sem og víðernis- og eyðimerkurásýnd svæðisins sem þeir telja sérstöðu Íslands og mikilvæga auðlind fyrir þeirra starfsemi. Á grundvelli nánari rökstuðnings var talið að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar væri þó hægt að álykta að framkvæmdin væri líkleg til að hafa talsverð til veruleg neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist á og nærri framkvæmdasvæðinu og víðar um Suðurhálendið. Lá með þessu einnig fyrir rökstudd ályktun Skipulagsstofnunar að þessu leyti, þótt jafnframt væri þó vísað til þeirrar óvissu um áhrif á landslag og víðerni, sem nú hefur verið rakin.

Úrskurðarnefndin hefur farið yfir umfjöllun í matsskýrslu framkvæmdar og álit Skipulagsstofnunar hvað aðra matsþætti snertir og telur ekki ástæðu til gera athugasemd við umfjöllun skýrslunnar um þá. Samantekið verður ekki talið að matsskýrslan sé haldin slíkum annmörkum í umfjöllun um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar að hún verði álitin misvísandi þannig að á henni verði ekki byggt af hálfu leyfisveitanda. Verður um leið talið að hún hafi gefið nægilegar upplýsingar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar þannig að almenningi hafi verið mögulegt að gæta þátttökuréttar við ferli mats á umhverfisáhrifum.

—–

Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 sagði að í tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun skyldi lýsa framkvæmdinni, eðli hennar og umfangi, framkvæmdasvæði og öðrum raunhæfum valkostum sem til greina kæmu og upplýsa um þær skipulagsáætlanir sem í gildi væru á framkvæmdasvæði og hvernig framkvæmd samræmdist þeim. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laganna skyldi í frummatsskýrslu ávallt gera grein fyrir raunhæfum valkostum sem framkvæmdaraðili hefði kannað og bera þá saman með tilliti til umhverfisáhrifa. Tilgreina skyldi ástæður fyrir aðalvalkosti með tilliti til umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar.

Í matsáætlun vegna Búrfellslundar var lögð fram ein tillaga um afmörkun framkvæmdasvæðisins, en í frummatsskýrslu lágu fyrir tvær tillögur. Þeim var síðan fjölgað um eina og því voru í matsskýrslu kynntar þrjár útfærslur á afmörkun framkvæmdarinnar og gerð grein fyrir mögulegri skiptingu hverrar útfærslu í fjóra 50 MW áfanga. Er tekið fram í matsskýrslu að sett hafi verið fram þriðja tillagan til að koma til móts við umsagnir og athugasemdir er borist höfðu við kynningu á frummatsskýrslunni um víðtæk áhrif Búrfellslundar á ásýnd í byggð og á nálægum ferðamannastöðum. Nánari rök um staðsetningu framkvæmdarinnar eru færð fram í skýrslunni, en þar kemur fram að framkvæmdaraðili hafi undanfarin ár kannað möguleika á virkjun vindorku á Íslandi í samstarfi við m.a. Veðurstofu Íslands og Veðurvaktina. Athyglin hafi sérstaklega beinst að landsvæðinu milli Búrfells og Sultartanga, sem nefnist Haf þar sem þar sé því sem næst stöðugur vindur, svæðið sé í nálægð við sex af vatnsaflsvirkjunum Landsvirkjunar og því góðir innviðir nú þegar til staðar á svæðinu. Í matsskýrslunni er svo að finna umfjöllun um umhverfisáhrif tillagnanna með skipulegum samanburði að því er varðar ásýnd, landslag, hljóðvist, jarðmyndanir, gróður, fugla, samfélag og fornleifar.

Í ljósi þess að fjallað var um þrjá valkosti í matsskýrslu og umhverfisáhrif þeirra borin saman verður að álíta að í matsskýrslu hafi verið gerð fullnægjandi grein fyrir þeim valkostum framkvæmdarinnar sem til greina komu og umhverfisáhrifum þeirra. Verður í þessu sambandi að benda á að framkvæmdaraðili hefur ákveðið forræði á því hvaða valkosti hann leggur fram sem uppfylli markmið viðkomandi framkvæmdar enda sé matið reist á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum. Rökstuddar athugasemdir sem lúta að valkostamati geta þó leitt til þess að framkvæmdaraðila sé rétt eða skylt í ferli umhverfismats að fjölga valkostum eða bæta úr lýsingu á þeim. Athygli vekur að þessu sögðu að í áliti Skipulagsstofnunar var talið að við frekari undirbúning framkvæmdarinnar þyrfti að taka sérstaklega afstöðu til þess hvort bæta þyrfti við næmnigreiningu og valkostasamanburð á lægri vindmyllum en 129 m. Óútskýrt er hvers vegna slíkur valkostur var eigi settur fram í matsskýrslunni sjálfri en í ljósi þess forræðis sem framkvæmdaraðili hefur á því hvaða valkosti hann sýnir og þess valkostamats sem þó fór fram verður þetta ekki talið til slíks annmarka að varðað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

—–

Í áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdarinnar er í ljósi umfjöllunar um skipulagslega stöðu verkefnisins sem og niðurstaðna mats á umhverfisáhrifum, gerðar athugasemdir um hvort tilefni sé til að endurskoða áform um uppbyggingu 200 MW vindorkuvers við Búrfell. Niðurstöður um mikil umhverfisáhrif framkvæmdarinnar gefi tilefni til að skoða hvort önnur landsvæði henti betur fyrir uppbyggingu af þessu tagi og umfangi. Þá kunni að vera tilefni til að skoða hvort umfangsminni uppbygging eigi betur við, bæði hvað varði hæð og fjölda vindmylla. Er með þessu vísað til málsmeðferðar umsóknar um leyfisveitingu og skipulagsáætlana og beinum orðum sagt að frekara mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar þurfi að gerast á öðrum vettvangi. Með því sé vísað til umhverfismats áætlana samkvæmt samnefndum lögum sem beri að beita við gerð rammaáætlunar, landsskipulagsstefnu og skipulagsáætlana sveitarfélaga.

Svo hagar til að meðan unnið var að umhverfismatsferli framkvæmdarinnar var samhliða unnið að 3. áfanga rammaáætlunar, sem er stefnumarkandi áætlun Alþingis um hagnýtingu virkjunarkosta. Var í áliti Skipulagsstofnunar rakið í þessu samhengi að í september 2016 hafi ráðherra umhverfismála lagt fram tillögu á Alþingi til þingsályktunar um rammaáætlun þar sem Búrfellslundur hafi verið færður í biðflokk. Varð sú tillaga ekki útrædd á 145. löggjafarþingi. Sama gilti um tillögur sama efnis á 146. og 151. löggjafarþingi. Svo sem rakið er í upphafi þessa úrskurðar voru gerðar breytingar á tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun í meðferð Alþingis á 152. löggjafarþingi, þar sem Búrfellslundur var færður í orkunýtingarflokk samkvæmt rökstuddri tillögu meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Var virkjunarkosturinn um leið auðkenndur sem R4301B í stað R3301A og vísað til þess að um væri að ræða breytta útfærslu þótt um sama virkjunarkost væri að ræða. Að þessu virtu verður ekki álitið að lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun né ákvarðanir teknar á grundvelli þeirra girði fyrir útgáfu hins kærða leyfis.

Kærandi hefur fært fram þau sjónarmið að með því að færa Búrfellslund í orkunýtingarflokk hafi Alþingi sniðgengið niðurstöður 3. áfanga rammaáætlunar og með því hafi þátttökuréttur almennings í umhverfismálum að engu orðið. Um leið er áréttað að á vettvangi rammaáætlunar hafi verið fjallað um aðra útfærslu en veitt hafi verið leyfi fyrir. Þetta veki að áliti kæranda álitaefni um túlkun laga sem byggð séu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. tilskipun nr. 97/11/ESB og 2011/92/ESB.

Samkvæmt 10. gr. laga nr. 48/2011 er skylt að umhverfismeta drög að tillögum um flokkun virkjunarkosta og afmörkun virkjunar- og verndarsvæða í samræmi við lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar skilaði tillögum sínum til ráðherra umhverfismála 26. ágúst 2016 og var tekið fram í skýrslu verkefnisstjórnarinnar að umhverfismat rammaáætlunar hafi farið fram samhliða gerð áætlunarinnar. Kemur og fram að matið hafi byggt á helstu áhrifaþáttum sem felast í stefnumiðum áætlunarinnar og framkvæmd hennar og var fjallað um umhverfisþætti sem kynnu að verða fyrir verulegum áhrifum. Tillaga að rammaáætluninni ásamt umhverfisskýrslu var auglýst 11. maí 2016 og gefinn frestur til 3. ágúst s.á. til að gera athugasemdir.

Í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 48/2011 er kveðið á um að rammaáætlun taki til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn hafi fjallað um. Í þessu felst ekki að Alþingi sé bundið af tillögum verkefnisstjórnarinnar eða ráðherra um flokkun virkjunarkosta heldur eingöngu að áður en fjallað sé um þingsályktun um rammaáætlun liggi fyrir mat á virkjunarkostum og landsvæðum sem unnið sé samkvæmt ákvæðum laganna. Vegna málsraka kæranda skal tekið fram að úrskurðarnefndina brestur vald til þess að leggja mat á undirbúning eða gildi þingsályktunar sem ljáð er með lögum slík réttarverkan sem hér um ræðir.

Vegna sjónarmiða kæranda um að leita geti þurft álits EFTA dómstólsins um álitaefni í máli þessu vísast til forsendna í fyrri úrskurðum nefndarinnar, síðast í máli nr. 3/2023 (Hvammsvirkjun) þar sem rakið var að til þess skorti úrskurðarnefndina valdheimild þar sem einungis dómstólar njóti slíkrar heimildar samkvæmt lögum nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið.

—–

Hin kærða leyfisveiting heimilar að reist verði vindorkuver með allt að 120 MW uppsettu rafafli með þeim staðarmörkum mannvirkja sem lýst er í deiliskipulagi svæðisins sem samþykkt var af sveitastjórn Rangárþings ytra 10. apríl 2024, sbr. 9. gr. leyfisins. Í fylgibréfi með hinu kærða leyfi kemur fram að Orkustofnun hafi farið yfir umsókn um leyfi út frá ákvæðum um efni umsókna um virkjunarleyfi, sbr. 4. gr. raforkulaga og II. kafla reglugerðar um framkvæmd raforkulaga.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 bar leyfisveitanda við undirbúning að útgáfu hins kærða virkjunarleyfis að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar til grundvallar. Þá var jafnframt skylt skv. 3. mgr. sömu lagagreinar að taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð var grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar og rökstyðja sérstaklega ef í leyfinu var vikið frá niðurstöðu álitsins, auk þess sem stofnuninni bar jafnframt að taka afstöðu til tengdra leyfisveitinga. Þótt að álit Skipulagsstofnunar skuli lagt til grundvallar með þessum hætti er það ekki bindandi í þeim skilningi að leyfisveitandi geti ekki vikið frá athugasemdum eða ábendingum sem þar eru settar fram, enda sé það gert með fullnægjandi rökstuðningi. Til að þessum fyrirmælum verði fullnægt þarf atviksbundið mat Orkustofnunar um leyfisveitingu að koma fram, sem felur í sér að rökstuðningur vegna hennar verður að lágmarki að uppfylla áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings. Áður hefur í úrskurði þessum verið komist að þeirri niðurstöðu að matsskýrsla framkvæmdarinnar hafi eigi verið haldin slíkum annmörkum að hún verði álitin misvísandi um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar þannig að á henni verði ekki byggt af hálfu leyfisveitanda. Um leið var ljóst af umfjöllun í álitinu að tilefni var fyrir leyfisveitanda, við undirbúning leyfisveitingar, að gæta vel að þeim athugasemdum sem komu fram í álitinu og eftir atvikum krefjast nánari upplýsinga frá framkvæmdaraðila.

Kærandi álítur að við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið gengið nægilega úr skugga um að hin heimilaða framkvæmd hafi verið sú sama og hafi verið umhverfismetin og að borið hefði að leita afstöðu Skipulagsstofnunar þar að lútandi. Telur hann að með þessu hafi verið brotið á þátttökuréttindum almennings við mat á þeirri framkvæmd sem heimiluð var með hinu kærða leyfi. Lík málsrök komu fram við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar í umsögn Skeiða- og Gnúpverjahrepps, dags. 5. mars 2024, þar sem bent er á að í umhverfismati komi fram að virkjunin verði reist í tveimur sveitarfélögum, þ.e. Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Hin nýja framkvæmd, sem öll sé nú innan Rangárþings ytra, sé í raun önnur en sú sem hafi verið umhverfismetin og hefði því verið skylt að ráðast í gerð nýs umhverfismats.

Svo sem áður greinir giltu lög nr. 106/2000 um matsferli Búrfellslundar. Í 1. mgr. 12. gr. þeirra laga var kveðið á um að ef framkvæmdir hæfust ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum lægi fyrir skyldi leyfisveitandi óska ákvörðunar stofnunarinnar um hvort endurskoða þyrfti að hluta eða í heild matsskýrslu áður en leyfi til framkvæmdar yrði veitt. Með því að skemmri tími en tíu ár voru liðin frá því að álit Skipulagsstofnunar lá fyrir um matsskýrslu framkvæmdaraðila í máli þessu á þessi lagagrein ekki við. Til þess er á hinn bóginn að líta sem rakið er í skýringum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 74/2015, þar sem ákvæði þetta kom í lög nr. 106/2000, að það ætti einungis við væri um sömu framkvæmd að ræða. Síðan segir: „Sé framkvæmdinni breytt í veigamiklum atriðum fer að sjálfsögðu um hana sem um nýja framkvæmd.“

Í skýrslu Landsvirkjunar frá febrúar 2020 um endurhönnun Búrfellslundar var lýst ráðgerðum breytingum á Búrfellslundi og kom þar fram að framkvæmdasvæðið yrði allt norðan Sprengisandsleiðar og Landvegar, en þær tillögur sem lagðar voru fram í 3. áfanga rammaáætlunar og tvær tillögur af þremur í mati á umhverfisáhrifum hafi áður miðað við að vindmyllur yrðu staðsettar báðum megin við núverandi Sprengisandsleið og Landveg. Framkvæmdasvæðið sé minnkað frá fyrri tillögum, vindmyllum fækkað og gert sé ráð fyrir að uppsett afl vindorkuversins verði minna. Fjallað er um umhverfisáhrif þessara breytinga í skýrslu þessari, en hún hlaut ekki meðferð skv. 8.–11. gr. laga nr. 106/2000.

Í matsskýrslu hinnar kærðu framkvæmdar kom fram að mikil þróun hefði orðið á sviði vindorku og vindmyllur yrðu sífellt stærri og aflmeiri. Stærri vindmyllur hefðu þann kost að færri vindmyllur þurfi til að ná sömu orkuvinnslu og sjónræn áhrif væru oft minni heldur en af smærri og fleiri vindmyllum. Var í matsskýrslunni miðað við að vindmyllur orkuversins yrðu 58–67 talsins og af stærðinni 3–3,5 MW. Miðað var við að spaði í efstu stöðu færi ekki yfir 150 m. Í skýrslu Landsvirkjunar frá febrúar 2020 koma fram lík sjónarmið um þróun á vindmyllum og er greint frá því að vindmyllur með 4–5 MW aflgetu séu þær aflmestu sem standist veðurskilyrði á svæðinu og miði áform framkvæmdaraðila við það. Í skýrslunni er miðað við að þvermál spaða verði allt að 140 m en ráða má af matsskýrslu og sérfræðiskýrslu um hljóðstigsreikninga sem fylgdu henni (viðauki 3 við skýrsluna) að miðað hafi verið við að þvermál spaða væri 113 m. Þótt að með þessu sé gert ráð fyrir nokkurri aflaukningu hverrar túrbínu verður ekki ráðið af samanburði hljóðvistarútreikninga sem fylgdu umsókn um hið kærða leyfi við þá sérfræðiskýrslu sem fylgdi matsskýrslu framkvæmdaraðila að um merkjanlega breytingu sé með þessu að ræða á hljóðmengun frá vindorkuverinu.

Í fylgibréfi með hinu kærða leyfi kemst leyfisveitandi að þeirri niðurstöðu að umhverfisáhrif þeirrar framkvæmdar sem sótt sé um leyfi fyrir hafi verið metin. Kemur og fram að tekið hafi verið tillit til álits Skipulagsstofnunar og það lagt til grundvallar útgáfu virkjunarleyfis. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að líta til þess að þrátt fyrir að áform framkvæmdaraðila hafi tekið nokkrum breytingum eftir að álit Skipulagsstofnunar lá fyrir þá véku breytingarnar ekki í neinum meginatriðum frá þeim áformum sem lýst var í matsskýrslu framkvæmdarinnar hvað varðar tæknileg atriði og framkvæmdasvæði. Umfang framkvæmdarinnar jókst ekki og er ljóst að nokkuð hefur dregið úr umhverfisáhrifum hennar varðandi tiltekna þætti, þá einkum áhrif á landslag og víðerni. Að teknu tilliti til þessa og þar sem það mundi stríða gegn markmiðum laga nr. 106/2000 að gera svo strangar kröfur til framkvæmdaraðila að ekki væri unnt að draga úr umfangi ráðgerðra framkvæmda nema að undangengnu endurskoðuðu umhverfismati, verður að hafna sjónarmiðum kæranda að þessu leyti til. Er jafnframt til þess að líta að í áliti Skipulagsstofnunar var gerð bending um að tilefni gæti verið til þess að draga úr umfangi framkvæmda. Verður því að hafna málsrökum kæranda að þessu leyti til.

Á það verður jafnframt bent að fjallað var um endurhönnun virkjunarinnar í umhverfismatsskýrslu vegna breytingar á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028 og deiliskipulags Vaðölduvers (Búrfellslundar) en við málsmeðferð þeirra skipulagsáætlana gafst almenningi færi á að kynna sér gögn og koma að athugasemdum.

—–

Í fylgibréfi með hinu kærða virkjunarleyfi kemur fram að Orkustofnun hafi tekið tillit til álits Skipulagsstofnunar og lagt það til grundvallar við útgáfu leyfisins. Þá kemur og fram að farið hafi verið yfir skýrslu framkvæmdaraðila um endurhönnun Búrfellslundar og umhverfisskýrslu sem gerð var vegna breytingar á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028 og deiliskipulags Búrfellslundar. Í þeim skýrslum hafi verið upplýsingar um áhrif endurhannaðra mannvirkja og komi fram að dregið hafi verið úr umfangi framkvæmdasvæðis, hæð vindmylla sé þó áætluð óbreytt frá fyrri tilhögun en hún hafi verið greind m.t.t. landslags og ásýndar fyrir Búrfellslund. Samkvæmt þeirri greiningu væri fyrirhuguð hæð vindmylla talin henta svæðinu vel án þess að hafa veruleg víðtæk áhrif á nærliggjandi umhverfi og einkenni hálendis. Að mati leyfisveitanda hefur framkvæmdaraðili brugðist við athugasemd í áliti Skipulagsstofnunar um hvort umfangsminni uppbygging ætti betur við á þessu svæði. Í þessu felst ekki skýr sjálfstæð afstaða af hálfu leyfisveitanda til þeirra umhverfisáhrifa sem leiða af breyttri framkvæmd, en í þessum skýrslum er að finna uppfært og víðtækt mat á áhrifum á landslag og víðerni sem taka tillit til sjónarmiða sem sett voru fram í áliti Skipulagsstofnunar. Skilja verður athugasemd leyfisveitanda þannig að hann sé með þessu sammála því uppfærða áhrifamati sem sett er fram í téðum skýrslum.

Í fylgibréfinu kemur jafnframt fram að með bréfi frá 6. mars 2024 hafi verið leitað álits Náttúrufræðistofnunar Íslands um nauðsynlegar rannsóknir á fuglum. Í svari stofnunarinnar frá 20. s.m. hafi komið fram athugasemdir og tillögur um vöktun og vöktunaráætlun sem Orkustofnun hafi sett fram sem skilyrði virkjunarleyfis, sbr. 11. gr. leyfisins. Verður talið að með þessu hafi leyfisveitandi einnig gætt að því að bregðast við umfjöllun um fuglalíf sem var í áliti Skipulagsstofnunar. Að áliti úrskurðarnefndarinnar hefði verið eðlilegt að kynna efni þessarar umsagnar við opinbera auglýsingu hins kærða leyfis skv. 4. mgr. 34. gr. raforkulaga. Verður þó bent á að umsögn Náttúrufræðistofnunar hefur ekki að geyma athugasemdir í þá átt að mat á áhrifum vindorkuversins á fuglalíf hafi verið metið með röngum hætti enda áfram talin óveruleg áhrif á fuglalíf í heildina séð. Verður sú athugasemd um leið gerð af hálfu úrskurðarnefndarinnar að tilefni hefði verið til þess í 11. gr. leyfisins að kveða með skýrari hætti á um tilhögun eftirlits og vöktunar með fuglum á framkvæmdasvæðinu.

Að lokum tekur Orkustofnun afstöðu til þeirra tilmæla Skipulagsstofnunar að virkjunarleyfið verði bundið við tiltekinn rekstrartíma þar sem líftími vindmylla sé almennt 25 ár. Er greint frá því að virkjunarleyfi samkvæmt raforkulögum séu að meginreglu ótímabundin, en þar sem um sé að ræða framkvæmd sem eigi sér ekki fordæmi hér á landi og með vísan til sjónarmiða Skipulagsstofnunar hafi verið ákveðið að gildistími þess verði 30 ár, sbr. 8. gr. leyfisins.

Í fylgibréfinu kemur fram sú niðurstaða að Orkustofnun telji að fullnægt sé viðmiðum 4. og 5. gr. raforkulaga um útgáfu virkjunarleyfis, auk ákvæða II. kafla reglugerðar um framkvæmd raforkulaga. Leyfið var veitt að undangenginni málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 106/2000 og hefur úrskurðarnefndin í máli þessu komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að á þeirri málsmeðferð hafi verið ákveðnir ágallar verði byggt á áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdaraðila. Orkustofnun tók rökstudda afstöðu til álitsins sem mótaðist af skýrslu framkvæmdaraðila um endurhönnun Búrfellslundar. Lágu með þessu fyrir fullnægjandi upplýsingar við leyfisveitinguna.

—–

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. raforkulaga þarf, áður en leyfishafi hefur framkvæmdir á eignarlandi á grundvelli leyfis, að hafa náðst samkomulag við landeigendur og eigendur orkulinda um endurgjald eða ákvörðun um eignarnám skv. 23. gr. Hafi hvorki náðst samkomulag um endurgjaldið né eignarnáms verið óskað innan 90 daga frá útgáfu leyfis fellur það niður. Framkvæmdasvæði Búrfellslundar er í þjóðlendu og þarf því leyfi ráðherra til framkvæmdanna, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur. Meðal málsgagna er samningur forsætisráðherra við Landsvirkjun „um lands- og vindorkuréttindi vegna Búrfellslundar á Þjórsársvæði innan þjóðlendna“ sem telja verður fullnægjandi að þessu leyti, enda er þar kveðið á um fyrirkomulag ákvörðunar endurgjalds fyrir landsréttindin.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skulu framkvæmdir og aðgerðir, sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Gildir það um virkjunarleyfi sem gefin eru út á grundvelli raforkulaga, sbr. 7. mgr. 5. gr. reglugerðar um framkvæmd raforkulaga. Hið kærða leyfi er í samræmi við Aðalskipulag Rangárþings ytra 2016–2028 og deiliskipulag fyrir framkvæmdasvæðið. Kærandi hefur gert athugasemdir við undirbúning þessara skipulagsáætlana, þ.m.t. varðandi gæði umhverfismats og að skort hafi á að aflað yrði umsagnar skv. 68. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Að teknu tilliti til verksviðs Orkustofnunar verður ekki talið að stofnuninni beri að rannsaka lögmæti málsmeðferðar skipulagsáætlana sveitarfélaga við afgreiðslu á umsóknum um virkjunarleyfi. Getur lögmæti fyrirliggjandi skipulagsáætlana heldur ekki sætt endurskoðun úrskurðarnefndarinnar í máli þessu og verður því ekki fallist á greind sjónarmið. Þess skal getið að umhverfisskýrsla sem fylgdi breytingum á aðalskipulagi sem og deiliskipulagi svæðisins, sem öðluðust gildi í maí 2024 tók mið af skýrslu framkvæmdaraðila frá febrúar 2020 um endurhönnun Búrfellslundar.

Kærandi hefur hreyft sjónarmiðum um að Orkustofnun hafi ekki litið til landsskipulagsstefnu við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Hefur hann af þessu tilefni vísað til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar. Þar kemur fram í niðurstöðukafla að vindorkuverið falli illa að áherslum um vernd víðerna og landslagsheilda sem komi fram í þágildandi Landsskipulagsstefnu 2015–2026. Í skýringum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 123/2010 er reifað að landsskipulagsstefna feli í sér almenna skipulagsstefnu ríkisins sem ætlað sé að móta umgjörð um skipulagsgerð sveitarfélaga, en það sé í höndum þeirra að taka ákvörðun um að samræma og útfæra þá stefnu í skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Í samræmi við það hefur Rangárþing ytra sett sér stefnu um framkvæmdina í skipulagsáætlunum sveitarfélagsins og er í umhverfismatsskýrslu vegna breytinga á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028 sem og deiliskipulagi Vaðöldu (Búrfellslundar) að finna umfjöllun um áðurgildandi Landsskipulagsstefnu 2015–2026. Verður því ekki álitið að annmarka sé til að dreifa á undirbúningi leyfisveitingar af þessum ástæðum.

Kærandi byggir málatilbúnað sinn einnig á því að fyrirhugað vindorkuver geti haft áhrif á ástand eða gæði vatnshlota vegna eftirspurnar eftir svonefndu jöfnunarafli, þ.e.a.s. afli frá annarri virkjun sem jafni sveiflur í framleiðslu vindorkuversins. Álítur kærandi að Orkustofnun hefði borið í því ljósi að gæta fyrirmæla 3. mgr. 28. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála við útgáfu hins kærða leyfis, þ.e. tryggja að leyfið væri í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram kæmi í vatnaáætlun. Á þetta verður ekki fallist, enda getur það eitt að þörf kunni að vera á afli frá öðrum virkjunum í því skyni að jafna framboð raforku frá vindorkuveri, í viðskiptum á raforkumarkaði, ekki leitt til þess að um sé að ræða „leyfi til nýtingar vatns“. Er hið kærða leyfi bundið við nýtingu vindorku til raforkuframleiðslu og hefur ekkert komið fram við málsmeðferð umsóknar sem bendir til þess að sú framleiðsla raski ástandi vatnshlota með þeim hætti sem kærandi heldur fram.

—–

Með hliðsjón af öllu framangreindu og þar sem ekki verður séð að neinir þeir annmarkar liggi fyrir sem raskað geta gildi hinnar kærðu ákvörðunar verður kröfu kæranda þar um hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun Orkustofnunar frá 12. ágúst 2024 um að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi vegna Búrfellslundar, 120 MW vindorkuvers við Vaðöldu í Rangárþingi ytra. 

 

Sérálit Aðalheiðar Jóhannsdóttur prófessors: Ég tel ákvörðun Orkustofnunar um að veita hið kærða virkjunarleyfi haldna verulegum annmörkum sem leiða eigi til ógildingar.

Ólíkt meirihlutanum tel ég að áform framkvæmdaraðila um vindorkuver í Búrfellslundi hafi tekið svo umtalsverðum breytingum að verulegur vafi leiki á hvort um sömu framkvæmd sé að ræða og sem til skoðunar var hjá Skipulagsstofnun, sbr. og álit stofnunarinnar frá 21. desember 2016 um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar. Í ljósi fyrrnefndra breytinga sem gerðar voru á áformunum og óvissu um það hvort umhverfisáhrifum þeirra hafi verið lýst á fullnægjandi hátt var framkvæmdaraðila því rétt að beina þeirri fyrirspurn til Skipulagsstofnunar hvort sú framkvæmd sem nú er ráðgerð þyrfti að sæta umhverfismati. Var leyfisveitanda jafnframt rétt að ganga eftir því að það væri gert ellegar beina fyrirspurn til Skipulagsstofnunar hvað þetta varðar í samræmi við það markmið að tryggt sé að áður en leyfi sé veitt fyrir framkvæmd hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Lá að auki hvort tveggja fyrir að framkvæmdin sem slík væri sökum stærðar sinnar matsskyld, sbr. tölulið 3.02 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, þrátt fyrir minna umfang, sem og að Skipulagsstofnun taldi að matsskýrsla Landsvirkjunar frá 2016 uppfyllti aðeins að hluta skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hvað það varðar að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt. Tel ég því að þótt að fyrirhuguð framkvæmd sé minni að umfangi miðað við það sem var upphaflega ráðgert hafi ekki annað verið forsvaranlegt en að málið færi að nýju til Skipulagsstofnunar sem myndi þá meta hvort þörf væri á því að framkvæmdin sætti aftur mati, að teknu tilliti til þeirra breytinga sem gerðar höfðu verið á framkvæmdinni og þeirra nýju gagna og upplýsinga sem fyrir lágu eftir að formlegu mati lauk.

Þá verður að telja að gengið hafi verið á svig við þátttökurétt almennings, einkum eftir að formlegri málsmeðferð og mati Skipulagsstofnunar lauk. Er enda ekki loku fyrir það skotið að framkvæmdin hefði tekið frekari breytingum í ljósi framkominna athugasemda varðandi endurhönnun Búrfellslundar eða sætt frekari skilyrðum af hálfu Skipulagsstofnunar í framhaldinu. Erfitt er að sjá að það breyti framangreindu þótt skýrsla um endurhönnun lundarins hafi verið meðal þeirra gagna sem almenningur gat kynnt sér þegar Orkustofnun auglýsti umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi til kynningar enda gátu þær athugasemdir sem þá komu fram í engu haft áhrif á umhverfismat framkvæmdarinnar.

Í ljósi þess sem að framan er rakið tel ég að fella beri hið kærða virkjunarleyfi úr gildi í heild sinni.