Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

41/2021 Suðurnesjalína 2 Reykjanesbær

Með

Árið 2021, mánudaginn 4. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 16. febrúar 2021 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 innan marka Reykjanesbæjar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. mars 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra Hraunavinir, Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Ungir umhverfis­sinnar þá ákvörðun sveitarstjórnar Reykjanesbæjar frá 19. janúar 2021 að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 innan marka Reykjanesbæjar. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða með vísan til 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála á meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni. Með bréfi Landsnets til úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. apríl 2021, var upplýst að Landsnet myndi að öllu óbreyttu bíða með framkvæmdir þar til efnisniðurstaða nefndar­innar lægi fyrir í kærumálum vegna lagningar Suðurnesjalínu 2. Þótti nefndinni því ekki tilefni til að kveða upp úrskurð um stöðvun framkvæmda í málinu og var aðilum málsins tilkynnt sú afstaða með bréfi, dags. 3. maí 2021. Í bréfinu var tekið fram að vinnslu málsins yrði flýtt, sbr. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Jafnframt kom þar fram að breyttist staða mála hvað framkvæmdir varðaði þá bæri að upplýsa nefndina um það sem myndi þá eftir atvikum taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 30. apríl 2021.

Málavextir: Áform Landsnets um lagningu Suðurnesjalínu 2 eiga sér langan aðdraganda. Fjallað var um framkvæmdina í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Suðvestur­­lína sem lá fyrir 17. september 2009. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra veitti Landsneti heimildir til eignarnáms á nánar tilteknum jörðum vegna lagningar Suðurnesjalínu 2, en þær ákvarðanir voru felldar úr gildi með dómum Hæstaréttar, uppkveðnum 12. maí 2016, í málum nr. 511, 512, 513 og 541/2015. Ákvörðun Orkustofnunar frá 5. desember 2013, um að veita Landsneti leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2, var felld úr gildi með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 13. október 2016, í máli nr. 796/2015.

Sveitarstjórnir Reykjanesbæjar, Grindavíkur og Sveitarfélagsins Voga, sem og skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar, veittu Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 og voru öll framkvæmdaleyfin kærð til úrskurðarnefndarinnar. Jafnframt var framkvæmda­leyfi Sveitarfélagsins Voga borið undir dómstóla og með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016 í máli nr. E-1121/2015 var greind ákvörðun sveitarfélagsins felld úr gildi. Staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu með dómi uppkveðnum 16. febrúar 2017, í máli nr. 575/2016. Taldi Hæstiréttur að sá annmarki á mati á umhverfisáhrifum sem leitt hefði til þess að áðurnefnt leyfi Orkustofnunar hefði verið fellt úr gildi og heimildir til eignarnáms hefðu verið ógiltar hefði enn verið fyrir hendi þegar framkvæmdaleyfi það sem um væri deilt í málinu hefði verið veitt. Umhverfisáhrifum jarðstrengs í samanburði við aðra framkvæmdakosti hefði samkvæmt því ekki verið lýst á fullnægjandi hátt og uppfylltu matsferlið og umhverfismatsskýrslan því ekki þann áskilnað sem gerður væri í lögum um mat á umhverfisáhrifum, skipulagslögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Samkvæmt því gætu matsskýrsla Landsnets um Suðurnesjalínu 2 og álit Skipulagsstofnunar um skýrsluna ekki verið lögmætur grundvöllur ákvörðunar sveitarfélagsins um veitingu framkvæmdaleyfisins sem samkvæmt því væri reist á röngum lagagrundvelli.

Hinn 28. mars 2017 felldi úrskurðarnefndin úr gildi áðurgreind framkvæmdaleyfi Reykjanes­bæjar, Grindavíkur og Hafnarfjarðar, með úrskurðum í málum nr. 75/2014, 42/2015 og 109/2015, með vísan til fyrrnefndrar niðurstöðu Hæstaréttar og þar sem sama matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar hefði legið til grundvallar hinum kærðu ákvörðunum. Jafnframt vísaði úrskurðarnefndin frá kærumálum nr. 73/2014, 101/2015 og 108/2015 vegna sömu fram­kvæmdar. Þá voru kærur til úrskurðarnefndarinnar vegna leyfisveitingar Sveitarfélagsins Voga afturkallaðar.

Í kjölfar þessa ákvað Landsnet að vinna nýtt mat á umhverfisáhrifum er afmarkaðist eingöngu við Suðurnesjalínu 2. Barst Skipulagsstofnun tillaga að matsáætlun vegna fyrirhugaðrar fram­kvæmdar 20. apríl 2018 og 6. júlí s.á. féllst stofnunin á tillöguna með nánar tilgreindum athuga­­semdum. Hinn 28. maí 2019 móttók Skipulagsstofnun frummatsskýrslu Landsnets um Suðurnesjalínu 2 og 20. janúar 2020 lagði Landsnet fram matsskýrslu og óskaði eftir áliti stofnunarinnar um fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í mats­skýrslunni kom m.a. fram að ein 132kV raflína, Suðurnesjalína 1, sæi um allan flutning til og frá Suðurnesjum. Lægi hún frá Hamranesi í Hafnarfirði að Fitjum í Reykjanesbæ og væri flutningsgeta línunnar um 150MW. Áformaði Landsnet að byggja 220kV raflínu, Suðurnesja­línu 2, milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja sem yrði hluti af meginflutningskerfi raforku. Stefnt væri að því að flutningsgeta Suðurnesjalínu 2 yrði a.m.k. 300MW til að mæta orkunotkun og -vinnslu til næstu áratuga. Línan myndi liggja frá tengivirki í Hamranesi í Hafnarfirði og að tengivirki á Rauðamel í Grindarvíkurbæ og færi óháð valkostum um fjögur sveitar­félög, þ.e. Hafnarfjarðarbæ, Sveitarfélagið Voga, Reykjanes­bæ og Grindavíkurbæ. Markmið framkvæmdarinnar væri að auka afhendingar­öryggi og flutningsgetu raforku­kerfisins milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja. Valkostir sem metnir hefðu verið í mati á umhverfis­áhrifum væru sex. Þeir væru jarðstrengir (valkostir A og B), loftlínur (valkostir C og C2) og blönduð leið (valkostir D og E). Aðalvalkostur Lands­nets væri valkostur C, en um væri að ræða loftlínu sem færi um Hrauntungur og lægi línan samhliða Suðurnesjalínu 1 frá sveitar­félaga­mörkum Hafnarfjarðarbæjar og Sveitar­félagsins Voga. Frá Njarðvíkurheiði að Rauða­mel lægi línan samhliða Fitjalínu 1. Jarðstengur væri í báðum endum og lengd línunnar alls um 33,9 km.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 22. apríl 2020. Í því kom fram að við þær aðstæður sem væru á áhrifasvæði framkvæmdarinnar teldi stofnunin margt mæla með því að leggja jarðstreng alla leið og þá sérstaklega valkost B meðfram Reykjanesbraut. Ávinningur af því með tilliti til umhverfisáhrifa, borið saman við loftlínuvalkosti, fælist í minni áhrifum á landslag og ásýnd, ferðaþjónustu og útivist, vistgerðir og gróður, svo og fuglalíf. Aðalvalkostur Landsnets hefði mest neikvæð áhrif allra skoðaðra valkosta á framangreinda þætti. Með tilliti til náttúruvár gæti jafnframt verið ávinningur af því að leggja línuna sem jarðstreng meðfram Reykjanesbraut fremur en sem loftlínu eða jarðstreng meðfram Suðurnesjalínu 1. Að auki mælti ýmislegt tengt byggða- og atvinnuþróun á Suðurnesjum með því að línan yrði lögð í jörð.

Í niðurstöðu sinni vék Skipulagsstofnun einnig að þingsályktun nr. 11/144 um stefnu stjórn­valda um lagningu raflína, sem og að því að ekki væri nægilegt að horfa eingöngu til kostnaðar­munar milli ólíkra útfærslna á lagningu línunnar. Taldi stofnunin mat á umhverfis­áhrifum Suðurnesjalínu 2 sýna fram á að lagning hennar sem jarðstrengs væri best til þess fallin að draga eins og kostur væri úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar, sbr. markmiðs­ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum, og að þá væri valkostur B æskilegastur. Hlutað­eigandi sveitarfélög þyrftu að taka sameiginlega ákvarðanir um það hvaða valkostur yrði endan­lega fyrir valinu þar sem þær ákvarðanir væru háðar hver annarri. Í kjölfar álits Skipulags­stofnunar sendi Landsnet bréf, dags. 28. maí 2020, um náttúruvá og legu valkosta til Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Skipulagsstofnunar og umræddra sveitar­félaga. Einnig fól Landsnet verkfræðistofunni Eflu að vinna minnisblað vegna mats á náttúru­vá vegna Suðurnesjalínu 2 og er það dagsett 2. júlí 2020.

Með umsókn, dags. 11. desember 2020, sótti Landsnet um framkvæmdaleyfi til Reykjanes­bæjar fyrir 220kV Suðurnesjalínu 2 innan sveitarfélagsins samkvæmt valkosti C. Með umsókninni fylgdi m.a. greinargerð þar sem rakin voru markmið framkvæmdarinnar, mótvægisaðgerðir og vöktun umhverfisþátta og öryggis-, heilbrigðis- og umhverfisáætlun. Einnig voru tilgreindar forsendur framkvæmdaleyfis, svo sem samræmi Suðurnesjalínu 2 við opinberar áætlanir og stefnur. Jafnframt var þar að finna umfjöllun um valkosti og mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sem og afstaða Landsnets til álits Skipulagsstofnunar.

Í greinargerðinni er að finna eftirfarandi framkvæmdalýsingu: „Framkvæmdin er línulögn milli Hamraness í Hafnarfirði að Rauðamel í landi Grindavíkur. Frá tengivirkinu í Hamranesi er áætlað að leggja um 1,4 km jarðstreng samhliða Suðurnesjalínu 1 að Hraunhellu en þaðan fer línan í lofti í suðaustur í átt að Hrauntungum. Frá Hrauntungum liggur línan til suðvesturs og kemur að Suðurnesjalínu 1 við sveitarfélagamörk Hafnarfjarðar og Voga. Þaðan munu línurnar liggja samhliða alla leið á Njarðvíkurheiði í Reykjanesbæ. Þar fer Suðurnesjalína 2 til suðurs samhliða Fitjalínu að tengivirkinu á Rauðamel í Grindavík. Fjöldi mastra á línuleiðinni er 101 og meðalhæð þeirra 22,5 m. Að meðaltali eru 326 m á milli mastra […]. Línan kemur til með að nýta fyrirliggjandi vegslóð sem liggur meðfram núverandi línum. Fjarlægð á milli nýrrar loftlínu og eldri lína er á bilinu 40-50 m. Reiknuð flutningsgeta 220 kV loftlínu er 470 MVA. Heildarrask verður 12,55 ha og þar af 6,97 ha á óhreyfðu landi.“ Þá kom fram að Suðurnesjalína 2 væri alls um 33,9 km og myndi fara um fjögur sveitarfélög. Lengsti hluti línunnar yrði innan Sveitarfélagsins Voga, eða 17,26 km. Stysti hluti hennar yrði innan Grindavíkurbæjar, eða 0,79 km. Innan Hafnarfjarðarbæjar færi línan um 8,38 km leið og innan Reykjanesbæjar 7,45 km. Framkvæmdin lægi að stærstum hluta á eldhrauni sem nyti sérstakrar verndar samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd. Hún næði ekki inn á frið­lýst svæði, en línuleiðin lægi meðfram og lítillega innan svæðis á náttúruminjaskrá við Hrafna­gjá í Sveitarfélaginu Vogum. Fyrirhugaðar framkvæmdir væru innan Reykjaness jarðvangs.

Í greinargerðinni var einnig tekið fram að samkvæmt stefnu stjórnvalda fyrir meginflutnings­kerfi raforku skyldi meginreglan vera sú að notast við loftlínur nema annað væri talið æski­legra, m.a. út frá tæknilegum atriðum, umhverfis- eða öryggissjónarmiðum. Valkostur B, jarðstrengur samhliða Reykjanesbraut að hluta, væri sá kostur er félli best að markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum. Þegar litið væri til annarra þátta þá væri munur á umhverfis­áhrifum valkosta B og C ekki slíkur að ganga skyldi gegn stefnu stjórnvalda, ákvæðum raforkulaga eða kerfisáætlun. Gagnvart jarðhræringum væri loftlína öruggari valkostur en jarðstrengur við þær aðstæður sem væri að finna á framkvæmdasvæði Suðurnesjalínu 2. Sú niðurstaða að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir línunni í samræmi við valkost C í mati á umhverfisáhrifum byggði á ítarlegri undirbúningsvinnu, sem fæli í sér valkostagreiningu, mat á umhverfisáhrifum, sérfræðiskýrslur, kostnaðargreiningar, samræmi við lög og reglur, stefnu stjórnvalda og samráð við hagaðila og landeigendur.

Umsókn um framkvæmdaleyfi var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 15. janúar 2021. Var erindinu frestað og skipulagsfulltrúa falið að útbúa framkvæmdaleyfi ásamt greinargerð í samræmi við framlögð drög og samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu 19. s.m. Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 5. febrúar s.á. og framkvæmdaleyfi fyrir 7,45 km, 220kV, raflínu samþykkt. Fært var til bókar að ekki lægi fyrir deiliskipulag fyrir svæðið en að lega raflínunnar samræmdist aðalskipulagi. Þá voru tilgreind þau gögn er fylgt hefðu umsókn. Einnig lá fyrir greinargerð um afgreiðslu málsins þar sem m.a. kom fram að með tilliti til jarðhræringa á svæðinu sem einkennt hefðu árið 2020, væri samþykktur loftlínukostur umfram jarðstreng vegna lifandi sprungusvæðis sem þyrfti að þvera yfir Njarðvíkurheiði og eldvirkni svæðisins almennt. Var því til stuðnings einnig vísað til bréfsins „Suðurnesjalína 2. Náttúruvá og lega valkosta.“, dags. 28. maí 2020, og til sérfræði­skýrslu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands um jarðvá frá árinu 2018. Á fundi bæjarstjórnar 16. febrúar 2021 var greind ákvörðun samþykkt.

Framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, með nánar tilgreindum skilyrðum, var gefið út 4. mars 2021. Í því var m.a. vísað til fylgigagna með umsókn um leyfi og til fyrirliggjandi hönnunar­gagna og skipulagslegra forsendna. Jafnframt var í leyfinu að finna umfjöllun um mat á umhverfisáhrifum og álit Skipulagsstofnunar. Auglýsing um samþykkt og útgáfu leyfisins var birt í Lögbirtingablaðinu 10. mars 2021. Einnig var birt auglýsing um samþykkt framkvæmdaleyfisins í Víkurfréttum, sem og á heimasíðu Reykjanesbæjar.

Hafnarfjarðarbær og Grindavíkurbær hafa einnig samþykkt framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 samkvæmt valkosti C, en Sveitarfélagið Vogar synjaði Landsneti um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu línunnar. Hafa greindar ákvarðanir einnig sætt kæru til úrskurðar­nefndarinnar og eru þau kærumál nr. 46/2021, 53/2021 og 57/2021.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að hin kærða ákvörðun og öll afgreiðsla málsins sé haldin verulegum form- og efnisannmörkum sem leiða eigi til þess að samþykkt framkvæmdaleyfisins sé ógild eða ógildanleg. Við meðferð málsins hafi verið brotið gegn skipulagslögum nr. 123/2010, lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, stjórnsýslu­lögum nr. 37/1993 og reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Rökstuðningur sveitarstjórnar hafi ekki uppfyllt skilyrði laga. Afgreiðsla hennar hafi hvorki verið í samræmi við 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga né 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000. Sveitarfélagið hafi ekki rökstutt með fullnægjandi hætti ákvörðun sína um að veita framkvæmda­leyfi, þvert á niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Í útgefnu framkvæmdaleyfi sé að finna örstuttan rökstuðning fyrir því hvers vegna ákveðið hafi verið að víkja frá niðurstöðu í áliti Skipulagsstofnunar. Ekkert sem fram komi í sérfræði­skýrslu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands frá árinu 2018 breyti efni matsskýrslu framkvæmdaraðila eða áliti Skipulagsstofnunar, en skýrslan hafi legið fyrir þegar matsskýrslan hafi verið unnin og þegar álitið hafi komið út. Þá sé vandséð hvernig bréf Landsnets, dags. 28. maí 2020, geti kollvarpað áliti Skipulagsstofnunar, þar sem starfi helstu sérfræðingar sem fari með þetta hlutverk lögum samkvæmt. Einnig sé ótækt að vísa til ráðgjafar án þess að tiltaka nánar í hverju hún hafi falist og hvernig hún hafi haft áhrif á matið. Það hafi verið sérstaklega rík ástæða til þess að gera grein fyrir þessu í ljósi neikvæðs álits Skipulagsstofnunar.

 Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. skipulags­laga beri sveitarstjórn að leggja álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum til grund­vallar við umfjöllun um umsókn um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldrar fram­kvæmdar. Ákvæðið svohljóðandi hafi komið inn með lögum nr. 96/2019, sem breytt hafi lögum nr. 106/2000, en fyrir breytinguna hafi leyfisveitanda borið að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Fram komi í greinargerð með lagabreytingunni að hún sé í sam­ræmi við breytingu á 8. gr. tilskipunar 2011/92/ESB sem gerð hafi verið með tilskipun 2014/52/ESB. Einnig að lögð sé enn meiri áhersla á hlutverk Skipulagsstofnunar í máls­með­ferð vegna mats á umhverfisáhrifum vegna þeirrar faglegu þekkingar sem stofnunin búi yfir. Í samræmi við ákvæðið sé álit Skipulagsstofnunar bindandi fyrir sveitarstjórnir nema til komi sérstök og málefnaleg rök sem styðji aðra niðurstöðu. Ella myndi álitið ekki þjóna neinum tilgangi og væri hlutverk stofnunarinnar þá gert að engu, sem væri í andstöðu við lögin.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi sveitarstjórn jafnframt borið að fara að stjórnsýslu­lögum en miðað við gögn málsins hafi það ekki verið rannsakað á fullnægjandi hátt, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Almennt verði að líta svo á að í rökstuddri afstöðu sveitarstjórnar í skilningi 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga verði að felast efni rökstuðnings sem uppfylli áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga þar um. Þannig skuli í rökstuðningi, að því marki sem ákvörðun byggist á mati, greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við matið. Sé vísað til athugasemda við 22. gr. í frumvarpi því sem orðið hafi að stjórnsýslulögum, sem og til úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í málum nr. 46/2016 og nr. 95/2016. Umræddir úrskurðir hafi fallið áður en lög nr. 96/2019 hafi tekið gildi en þeir sýni engu að síður mikilvægi þess að sveitarstjórn rökstyðji ákvörðun sína um veitingu framkvæmdaleyfis og rannsaki mál á fullnægjandi hátt. Sú skylda sé enn ríkari nú eftir lagabreytinguna sé vikið frá áliti Skipulagsstofnunar.

Í áliti Skipulagsstofnunar komi fram að stofnunin geri ekki athugasemdir við ályktanir í matsskýrslu um áhrif náttúruvár á Suðurnesjalínu 2. Telji hún þó að það sem þar komi fram mæli fremur með lagningu jarðstrengs en loftlínu og þá sérstaklega með jarðstreng samkvæmt valkosti B, sem liggi utan sprungusveims Reykjaneskerfisins. Í bréfi Landsnets, dags. 28. maí 2020, sé bent á ágalla á matsskýrslu. Þar komi fram að enginn munur sé á legu valkosta A, B og C hvað varði jarðvá og því sé álit Skipulagsstofnunar ekki rétt. Ef rétt sé verði að telja framangreint verulegan ágalla á matsskýrslu sem farið hafi í gegnum vandað og lögbundið ferli. Jafnvel sé ástæða til að vinna matsskýrslu að nýju þar sem sveitarfélagið hafi teflt fram rökum um jarðvá sem ástæðu fyrir því að velja fremur loftlínu en jarðstreng. Almenningur og aðilar máls verði að geta treyst því að matsskýrsla sé rétt og byggð á áreiðanlegum gögnum. Geti umrætt bréf hvorki samkvæmt efni sínu né formi haft nein áhrif í málinu, auk þess sem það breyti ekki niðurstöðum í áliti Skipulagsstofnunar.

Minnisblaði verkfræðistofu sem Landsnet hafi látið vinna, dags. 2. júlí 2020, sé ætlað að sýna fram á kosti loftlína borið saman við jarðstrengi þegar komi að jarðvá á umræddu svæði. Það feli þó ekki aðeins í sér rýni á skýrslu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands um náttúruvá á framkvæmdasvæði Suðurnesjalínu 2 heldur sé um að ræða sjálfstætt mat á jarðvá á svæðinu. Efni minnisblaðsins sé mótmælt auk þess sem það sé ekki hluti af matsferlinu og geti því hvorki samkvæmt grundvelli sínum, efni né tilgangi bætt úr matsskýrslu framkvæmdaraðila. Í þessu sambandi sé vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 575/2016 þar sem því hafi verið hafnað að taka tillit til skjals sem framkvæmdaraðili hafi lagt fram eftir að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram. Sveitarfélagið geti ekki vísað til framangreindra skjala án þess að rökstyðja nánar á hvaða rökum sé byggt. Það hafi verið sérstaklega mikilvægt þar sem vikið hafi verið frá áliti Skipulagsstofnunar.

Engar skemmdir hafi orðið á þeim jarðstrengjum sem fyrir séu á nálægum slóðum þrátt fyrir jarðskjálftahrinu síðustu mánaða. Skipulagsnefnd Voga hafi talið á fundi sínum 16. mars 2021 að mikilvægt væri að Suðurnesjalína 1 og Suðurnesjalína 2 væru ekki báðar loftlínur sem lægju hlið við hlið og að Suðurnesjalína 2 yrði lögð sem jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut. Með því móti væri áhætta sem kynni að verða af völdum náttúruhamfara minnkuð. Kærendur séu sammála þeim rökum.

Framkvæmdin hafi ekki verið grenndarkynnt svo sem borið hafi að gera skv. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Fjallað sé um áætlaða uppbyggingu í stuttu máli á bls. 20-21 í greinargerð með Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2015-2030. Umfjöllunin sé mjög almenn og hvergi nærri nógu ítarleg til að unnt hafi verið að falla frá þeirri skyldu að grenndarkynna framkvæmdina. Þá kunni að vera að skylt hafi verið að leita meðmæla Skipulagsstofnunar vegna fram­kvæmdarinnar í samræmi við 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 772/2012.

Með ákvörðun, dags. 18. janúar 2019, hafi Orkustofnun samþykkt Kerfisáætlun Landsnets 2018-2027 og í samþykki stofnunarinnar hafi falist leyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Umrædd leyfisveiting Orkustofnunar hafi verið ólögmæt og þar með séu einnig ógildar síðari kerfisáætlanir og áætlun um framkvæmdaverk 2021-2023, sem bíði afgreiðslu Orkustofnunar hvað varði Suðurnesjalínu 2. Í kerfisáætlun 2018-2027 hafi valkostur C verið valinn sem aðal­valkostur áður en mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi verið lokið samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og samanburði valkosta samkvæmt þeim. Gangi það gegn mark­miðum 1. gr. laganna, þ.e. að tryggja að áður en leyfi sé veitt fyrir framkvæmd hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum hennar. Jafnframt sé það til þess fallið að vekja grunsemdir um að alltaf hafi staðið til að velja valkost C sem aðalvalkost í matsskýrslu og dragi það úr trúverðug­leika skýrslunnar. Leiði framangreind atriði til þess að grundvöllur umhverfis­matsins sé brostinn. Þá hafi málsmeðferð Orkustofnunar vegna ákvörðunar um kerfisáætlun verið ólögmæt. Kærendum hafi verið meinað að koma að athuga­semdum vegna áætlunarinnar til Orkustofnunar og sé það andstætt markmiðum Árósasamningsins.

Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 skuli leyfisveitandi í greinargerð sinni um afgreiðslu framkvæmdaleyfis taka afstöðu til tengdra leyfisveitinga þegar tilefni sé til ef um það sé fjallað í áliti Skipulagsstofnunar. Í álitinu hafi ekki verið fjallað um Kerfisáætlun Landsnets 2018-2027 svo sem átt hefði að gera enda sé framkvæmdin háð leyfi Orku­stofnunar. Það hafi verið grundvallaratriði hvort það leyfi hafi verið lögmætt og hafi sveitar­stjórn átt að taka framangreint til skoðunar í ljósi rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Hvíli greint leyfi Orkustofnunar á ólögmætum grunni og leiði þar með til þess að hafna hefði átt umsókn um framkvæmdaleyfi.

Fyrirhuguð framkvæmd muni fara um eldhraun sem óumdeilt sé að falli undir 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Ekki hafi verið fjallað um umrædd lög í rökstuðningi sveitar­stjórnar eða hvernig skilyrðum þeirra hafi verið fullnægt, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Telja verði það verulegan ágalla á afgreiðslu leyfisins. Í 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 segi m.a. að forðast beri að raska vistkerfum og jarðminjum sem taldar séu upp í 1. og 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Um túlkun ákvæðisins sé m.a. vísað til úrskurðar úrskurðar­nefndarinnar í máli nr. 52/2018. Skilyrðið um brýna nauðsyn sé ekki uppfyllt í tilviki því sem hér um ræði, m.a. í ljósi þeirra valkosta sem standi til boða. Gögn bendi til þess að meginástæða þess að Suðurnesjalína 2 sé áformuð sem loftlína um hið umdeilda svæði sé að leyfishafi telji að um ódýrari kost sé að ræða. Ekki sé hægt að réttlæta brýna nauðsyn með slíkum fjárhagslegum ástæðum.

Jafnframt sé vísað til álits Skipulagsstofnunar en um þetta segi á bls. 21: „Skipulags­stofnun telur ekki nægilegt að horfa eingöngu til kostnaðarmunar milli ólíkra útfærslna á lagningu línunnar, þar sem ólíkir valkostir um legu línunnar hafa í för með sér mismunandi möguleika og takmarkanir á annarri landnýtingu og þróun byggðar og atvinnulífs á nær­liggjandi svæðum sem rétt er að taka með í reikninginn þegar horft er á kostnað við lagningu línunnar.“ Þótt aukið raforkuöryggi fáist með Suðurnesjalínu 2 sé ekki brýn nauðsyn að um loftlínu sé að ræða.

Fullnægjandi skoðun á mögulegum valkostum sé meginforsenda þess að unnt sé að ná því markmiði mats á umhverfisáhrifum að raunveruleg umhverfisáhrif fyrirhugaðrar fram­kvæmdar séu metin, sbr. a-lið 1. gr. laga nr. 106/2000, 73. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, og aðfararorð Árósasamningsins um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í töku ákvarðana og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Umhverfisáhrif valkostar B hafi ekki verið rannsökuð með fullnægjandi hætti. Sá valkostur hafi minnst umhverfisáhrif samkvæmt matsskýrslu og sé einnig sá valkostur sem Skipulagsstofnun telji ákjósanlegastan. Kærendur telji að valkostur B hafi jafnvel minni umhverfisáhrif en lýst sé í matsskýrslu. Í kynningu Vegagerðarinnar á fundi sem haldinn hafi verið með verkefnaráði Suðurnesjalínu 2 og landeigendum á svæðinu í janúar 2020 hafi komið fram að ásættanlegt sé að heimila legu strengs þannig að jaðar skurðar verði í 10 m fjarlægð frá kantlínu vegar. Þekkt sé að í Frakklandi hafi flutningsfyrirtækjum tekist að leggja 225kV jarðstrengi með vegum í 80 cm breiða skurði og steypa yfir án þess að slíkt valdi teljanlegum umhverfisáhrifum. Í samræmi við framangreint sé ekki nægjanlega vel rannsakað hvort og að hve miklu leyti valkostur B muni raska hrauni sem njóti verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013. Einnig hafi komið fram að ef valkostur B yrði fyrir valinu væri hægt að nýta framkvæmdir til að lagfæra fláa við Reykjanesbraut þar sem þeir væru of brattir. Í því felist hagræðing sem beri að meta.

Taka hefði átt til nánari skoðunar útfærslur valkosta sem geri ráð fyrir 132kV spennu enda valdi stærri mannvirki að jafnaði meiri neikvæðum umhverfisáhrifum en minni. Bygging og lagning 220kV línu sé jafnframt dýrari en 132kV línu. Ekki hafi verið sýnt fram á nauðsyn þess að leggja 220kV línu, en m.a. sé byggt á óljósum framtíðarspám um hugsanlega stóriðju á Suðurnesjum og stækkun virkjana. Sérstakt mat á raforkuþörf vegna fram­kvæmdar­innar, sem almenningi stæði til boða að fara yfir og gera athuga­semdir við, þurfi að fara fram. Almennar fullyrðingar framkvæmdaraðila um nauðsyn 220kV línu dugi ekki. Þá sé það ágalli á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar að Skipulags­stofnun sé ekki að öllu leyti sammála vægiseinkunn í niðurstöðum framkvæmdaraðila varðandi landslag og ásýnd.

Valkostur C sé ekki besti kosturinn sé tekið mið af mati á umhverfisáhrifum. Allir valkostir sem teknir hafi verið til skoðunar uppfylli skilyrði framkvæmdarinnar. Eftir standi þau megin­rök fyrir vali á loftlínu C sem aðalvalkosti að horfa beri til kostnaðarmunar og þeirrar stefnu stjórnvalda að fyrir meginflutningskerfi raforku skuli meginreglan vera sú að notast við loftlínur nema annað sé talið æskilegra, m.a. út frá tæknilegum atriðum eða umhverfis- eða öryggissjónarmiðum. Telji Skipulagsstofnun í áliti sínu ekki nægilegt að horfa eingöngu til kostnaðarmunar milli ólíkra útfærslna á lagningu línunnar. Þá sé vísað til umfjöllunar um stefnumörkun stjórnvalda á bls. 21 í áliti Skipulagsstofnunar. Stórir ágallar séu á valkostamatinu og vali á aðalvalkosti. Virðist sem fjárhagsleg sjónarmið hafi ráðið för en með öllu hafi verið litið fram hjá umhverfisáhrifum í trássi við fyrirmæli laga um mat á umhverfis­áhrifum.

Ákvarðanir hvers og eins sveitarfélags um útgáfu framkvæmdaleyfis séu mjög háðar hver annarri, líkt og komi fram í áliti Skipulagsstofnunar. Geti framkvæmdir vegna Suðurnesjalínu 2 ekki hafist nema sveitarfélögin öll gefi út framkvæmdaleyfi vegna framkvæmdarinnar. Að öðrum kosti verði framkvæmdin ekki í samræmi við það mat á umhverfisáhrifum sem liggi fyrir.

 Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað. Því sé alfarið hafnað að á málsmeðferð og ákvörðun sveitarfélagsins séu form- eða efnisannmarkar. Öll meðferð og afgreiðsla málsins hafi verið í samræmi við lög og reglur og málsmeðferð vönduð. Farið hafi verið eftir skipulagslögum nr. 123/2010, lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Þá hafi verið farið eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og samþykkt Reykjanesbæjar um stjórn sveitarfélagsins og fundarsköp bæjarstjórnar.

Hin kærða ákvörðun sé skýr og vel rökstudd og byggi á vönduðum og ítarlegum gögnum. Ekkert hafi komið fram sem valdið geti vafa um lögmæti framkvæmdarinnar eða að stefnt sé að öðru en lögmætum markmiðum. Fyrirliggjandi gögn, m.a. þau sem orðið hafi til við meðferð málsins, séu gild og sett fram í samræmi við skilyrði laga og reglna. Löggjafinn hafi hagað málum með þeim hætti að ákvörðun um framkvæmdaleyfi sé í höndum sveitarfélaga. Þau hafi sjálfsákvörðunarrétt í málum af þessum toga og geti komist að þeirri niðurstöðu sem sveitarstjórn ákveði, innan marka laga og reglna.

Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 sé álit Skipulags­stofnunar ekki bindandi fyrir sveitarstjórn sem tekið hafi ákvörðunina með hliðsjón af greindu áliti en á grundvelli annarra gildra gagna og sjónarmiða. Ákvörðun sveitarstjórnar sé í samræmi við tilvitnað ákvæði sem og 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Hafi sveitarstjórn að öllu leyti uppfyllt lagaskyldu sína við meðferð og afgreiðslu málsins. Vísað hafi verið ítarlega í fyrirliggjandi gögn við meðferðina og í auglýsingum. Allir sem fylgst hafi með málsmeðferðinni, eða kynnt hafi sér niðurstöðu sveitarstjórnar, hafi getað áttað sig á rökstuðningi í málinu og þeim sjónarmiðum sem niðurstaðan hafi verið reist á.

Sveitarstjórn hafi tekið ákvörðun að vel rannsökuðu máli og uppfyllt rannsóknarskyldu sína, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Hafi sveitarfélagið gengið mun lengra en nauðsynlegt hafi verið til að upplýsa ólík sjónarmið í málinu og kalla eftir gögnum og upplýsingum. Mikilvægi málsins fyrir sveitarfélagið, íbúa þess og raunar fyrir Suðurnesin hafi kallað á miklar og vandaðar rannsóknir og góðan undirbúning. Heimild sveitarfélags til að synja umsókn ráðist að miklu leyti af eðli framkvæmda og skipulagsákvarðana, en svigrúm þess sé takmarkaðra þegar komi að framkvæmdum í meginflutningskerfinu. Þá sé byggt á stefnumótun, sem hafi verið fyrirliggjandi við meðferð máls þessa, en til hennar hafi m.a. verið litið í forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 193/2017.

Ekkert hafi komið fram sem flokka megi sem verulegan ágalla á matsskýrslu eða öðrum fyrirliggjandi gögnum. Í bréfi Landsnets, dags. 28. maí 2020, sé ekki talað um ágalla, en rætt um mikilvægar viðbótarupplýsingar. Þessar upplýsingar hafi verið veittar sumarið 2020 en þrátt fyrir það hafi Skipulagsstofnun ekki séð ástæðu til að bregðast við. Meginatriðið í umræddu bréfi snúi að því að háspennulína og jarðstrengur liggi um sama sprungusvæði. Breyti þetta engu hvað varði umfjöllun um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar sem Skipulagsstofnun telji í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000. Þá sé því alfarið mótmælt að dómur Hæstaréttar í máli nr. 575/2016 hafi fordæmisgildi í máli þessu. Jafnvel þótt dómurinn kunni að hafa leiðbeiningargildi til framtíðar þá hafi hann ekkert fordæmisgildi í máli því sem hér sé til umfjöllunar.

Þegar svo hátti til að framkvæmd sé í samræmi við svæðis- og aðalskipulag sé ekki nauðsynlegt að láta fara fram grenndarkynningu. Þessu hafi m.a. verið slegið föstu í úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, þegar hvort tveggja svæðisskipulag og mat á umhverfis­áhrifum hafi legið fyrir og með hliðsjón af fyrirhugaðri staðsetningu línu og tilgangi grenndarkynningar. Hafa beri í huga að línan sé ekki í grennd við þéttbýli, bújarðir eða aðra atvinnustarfsemi. Séu ekki þær aðstæður uppi að grenndarkynning hefði þurft að fara fram skv. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga eða 8. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Samráð hafi verið haft við meðferð málsins og við mat á umhverfisáhrifum. Hefði grenndarkynning ekki skilað viðbótar­upplýsingum. Ítarlega sé fjallað um framkvæmdina í Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2015-2030 og sérstakur kafli sé í greinargerð aðalskipulagsins um línuna. Þá komi lega hennar skýrt fram bæði á þéttbýlis- og sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulagsins.

Kerfisáætlun sæti mati samkvæmt lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Niðurstaða og málsmeðferð Orkustofnunar vegna kerfisáætlana samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003 sé kæranleg til úrskurðarnefndar raforkumála. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé ekki bær til að endurskoða samþykkta kerfisáætlun heldur beri að byggja á henni í málinu.

Línan fari ekki um eldhraun innan sveitarfélagamarka Reykjanesbæjar. Í matsskýrslu segi m.a. að berggrunnur á þessu svæði sé að mestu leyti grágrýti, þ.e. hraun runnin á hlýskeiði ísaldar sem jökull hafi síðan sorfið. Mikilvægi framkvæmdarinnar fyrir innviði svæðisins og nauðsyn styrkingar raforkukerfisins sé óumdeilt. Sveitarfélagið sé ekki bært til að hafa áhrif á opinbera stefnumótun í málaflokknum og hvorki framkvæmdaraðili né kærendur séu bærir til að endurskoða hana.

Þeim sjónarmiðum að stórir ágallar séu á valkostamati málsins og vali á aðalvalkostum sé í heild sinni mótmælt. Öllum umhverfisþáttum sex valkosta hafi verið lýst með fullnægjandi hætti, sbr. hina skýru afstöðu Skipulagsstofnunar. Framkvæmdin hafi sætt lögbundinni málsmeðferð sem ekki hafi verið gerð athugasemd við og samráð verið haft um framkvæmdina.

Hvert sveitarfélag sem fjalli um umsóknir af þessu tagi sé sjálfstætt stjórnvald með sjálfstætt skipulagsvald. Heimild þeirra til veitingar framkvæmdaleyfa sé sömuleiðis sjálfstæð og óháð niðurstöðum annarra sveitarstjórna.

Athugasemdir leyfishafa: Landsnet mótmælir framkominni kæru og krefst þess að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Því sé hafnað sem röngu og ósönnuðu að hin kærða ákvörðun sé haldin verulegum form- og efnisannmörkum. Engir þeir ágallar séu á henni sem réttlætt geti ógildingu hennar. Bæjarstjórn hafi farið að ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010, laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og reglugerðar nr. 772/2010 um framkvæmdaleyfi eins og öll gögn málsins beri skýrlega með sér.

Málsmeðferð Reykjanesbæjar hafi verið fullnægjandi. Sveitarfélagið hafi rökstutt ákvörðun sína á grundvelli 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 og 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Ekkert í lögum formbindi þann rökstuðning. Láti kærendur undir höfuð leggjast að fjalla um þýðingu allra þeirra gagna sem fylgt hafi umsókn um leyfi og sem einnig hafi verið grundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar. Hluti rökstuðnings og greinargerðar leyfisveitanda sé greinargerð Landsnets með umsókn um framkvæmdaleyfi en þar sé fjallað ítarlega um framkvæmdina og álit Skipulagsstofnunar. Álitið hafi verið lagt til grundvallar við töku hinnar kærðu ákvörðunar eins og rökstutt hafi verið í greinargerð framkvæmdaleyfis. Sveitarfélagið hafi fylgt niður­stöðu álitsins um lögmæti skýrslunnar og málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000. Kærendur hafi haft allar forsendur til að meta efni hinnar kærðu ákvörðunar og á hvaða grunni hún hvíli.

Því sé mótmælt að hin umdeilda ákvörðun gangi „þvert á niðurstöðu Skipulagsstofnunar“. Um álit stofnunarinnar sé fjallað í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000. Niðurstaða stofnunarinnar sé ótvíræð um að matsskýrsla Landsnets uppfylli skilyrði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Hin kærða ákvörðun sé í fullu samræmi við niðurstöður álitsins sem komi fram strax í upphafi niðurstöðukafla þess. Því fari fjarri að álit Skipulagsstofnunar sé eina gagnið sem stuðst sé við þegar metið sé hvort gefa skuli út framkvæmdaleyfi og þurfi leyfisveitandi að líta til margra annarra þátta. Í matsskýrslu sé að finna heildstæða umfjöllun og rök fyrir framkvæmdinni og lýsingu á undirbúningi hennar. Landsnet hafi lagt sig fram við að ná fram umfjöllun og samráði um framkvæmdina, umfram lagaskyldu. Gögn er fylgt hafi umsókn um framkvæmdaleyfið séu mjög ítarleg og umfangs­mikil og taki umfjöllunin mið af þeim lögbundnu skyldum sem hvíli á Landsneti. Hin kærða ákvörðun beri með sér að stjórnvaldið hafi kynnt sér þessi gögn og metið gildi þeirra og vegið lögmæt sjónarmið er mæli með útgáfu leyfis. Í kæru sé ekki litið til þessa heldur einvörðungu byggt á áliti Skipulagsstofnunar og rangar ályktanir dregnar af því.

Umrædd framkvæmd hvíli á opinberri stefnumótun stjórnvalda, sbr. þingsályktanir nr. 11/144 og nr. 26/148. Stefna stjórnvalda, sem samþykkt sé af Alþingi, feli í sér lögmæt sjónarmið sem leyfisumsóknin sé byggð á. Feli hún í sér að í meginflutningskerfi raforku skuli meginreglan vera sú að notast sé við loftlínur, nema annað sé talið hagkvæmara eða æskilegra, m.a. út frá tæknilegum atriðum eða umhverfis- eða öryggissjónarmiðum. Stefnan taki því bæði tillit til sjónarmiða sem kveðið sé á um í raforkulögum og í umhverfislöggjöf.

Landsnet sé einnig bundið af eigin kerfisáætlun sem samþykkt sé af Orkustofnun. Sé það, líkt og leyfisveitandi, bundið af ákvæðum raforkulaga að þessu leyti. Sú lagaskylda hvíli á Landsneti að byggja flutningskerfi raforku upp á hagkvæman hátt, m.a. að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni og áreiðanleika afhendingar. Um sé að ræða lögbundin sjónarmið sem byggja beri á í ákvörðunum um uppbyggingu flutningskerfisins. Uppbygging kæru taki mið af þeirri skoðun kærenda að leggja beri jarðstreng samkvæmt valkosti B. Þau sjónarmið sem teflt sé fram hafi í megindráttum legið fyrir við allar ákvarðanir sem teknar hafi verið varðandi framkvæmdina. Tekið hafi verið lögmætt tillit til þeirra og þau vegin og metin við mótun opinberrar stefnu og töku lögbundinna ákvarðana, þ. á m. við hina kærðu ákvörðun.

Leyfisveitandi skuli taka viðeigandi tillit til álits Skipulagsstofnunar, en eftir sem áður bindi álit stofnunarinnar ekki hendur þess stjórnvalds sem fari með útgáfu leyfis til framkvæmda, enda sé í 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 beinlínis gert ráð fyrir því að leyfisveitandi geti með rökstuddum hætti vikið frá niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar. Þetta sé staðfest með dómafordæmum Hæstaréttar, t.d. í máli nr. 575/2016. Ekki hafi þó verið vikið frá niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar með hinni kærðu ákvörðun.

Ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið brotið við töku hinnar kærðu ákvörðunar, eins og gögn málsins beri með sér. Óljóst sé til hvers kærendur séu að vísa um þetta atriði. Málið hafi legið ljóst fyrir þegar ákvörðunin hafi verið tekin. Þá sé það ágalli á kæru að fjallað sé um álit Skipulagsstofnunar í heild sinni en engin tilraun gerð til þess að fjalla um á hvern hátt það snerti greinda ákvörðun, þ.e.a.s. þann hluta framkvæmdarinnar sem sé innan lögsagnar­umdæmis Reykjanesbæjar.

Í engu sé gert lítið úr sérfræðingum Skipulagsstofnunar þótt sveitarfélagið taki einnig mið af nýjustu upplýsingum um náttúruvá eða frekari skýringum þar um.

Málsrökum kærenda varðandi bréf Landsnets, dags. 28. maí 2020, sé mótmælt. Byggi umrædd málsástæða á rangri grundvallarforsendu, eins og kæran öll. Hvað varði umfjöllun um náttúruvá þá breyti nýjar upplýsingar engu um aðalvalkost en sýni einvörðungu að ekki sé rétt að valkostur B sé utan sprungusveims. Á engan hátt sé verið að bæta úr annmörkum varðandi framkvæmdina heldur sé eingöngu verið að benda á þá staðreynd að aðalvalkostur og jarðstrengskostur meðfram Reykjanesbraut liggi um sama svæði á vestari hluta leiðarinnar. Ekki sé um að ræða nýjar upplýsingar eða breytingar á upplýsingum um grunnástand frá því í matsskýrslu, m.t.t. náttúruvár á svæðinu. Mikilvægt hafi þótt að árétta hið rétta í málinu, þannig að réttar upplýsingar lægju fyrir við ákvarðanatöku. Því sé hafnað að annmarkar séu á matsferli þótt fram komi upplýsingar um einstaka þætti í mjög viðamiklu mati á umhverfisáhrifum sem tryggja eigi að enginn misskilningur sé uppi. Rangt sé að skilja þetta sem svo að valkostirnir B og C séu sambærilegir þegar komi að hættu vegna jarðvár. Í þessu felist að sömu jarðfræðilegu aðstæður séu til staðar hvað varði báða valkosti á þessu svæði, þeir séu hins vegar ekki sambærilegir að því er varði hættu vegna jarðvár.

Málsatvik í dómi Hæstaréttar í máli nr. 575/2016 verði ekki lögð að jöfnu við aðstæður í þessu máli. Dómurinn hafi því enga þýðingu við úrlausn þessa álitaefnis. Þá megi benda á dóm Hæstaréttar í máli nr. 193/2017, sbr. og úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 96/2016. Þótt í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 segi að leggja skuli álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum til grundvallar þá feli það ekki í sér að vikið sé frá skyldu til að upplýsa mál og rannsaka.

Umrædd skýrsla Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands sé lýsing á þeirri jarðvá sem ógnað geti mannvirkjum á þeim slóðum sem framkvæmdin liggi um, en minnisblað verkfræðistofu frá 2. júlí 2020 fjalli um áhrif þessarar jarðvár á mannvirki mismunandi valkosta. Þannig sé skýrslan frekar áhættumat vegna jarðvár en hluti mats á umhverfisáhrifum. Þeim rökum sem kærendur tefli fram með vísun til niðurstöðu skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga sé hafnað. Ítrekað sé að sjónarmið um náttúruvá byggi á óyggjandi upplýsingum sérfræðinga og umfjöllun um aðra og mun minni jarðstrengi en 220kV, sem liggi á öðru svæði á Reykjanesskaganum, breyti engu þar um.

Í niðurstöðukafla í áliti Skipulagsstofnunar komi fram að ávinningur geti verið af því að leggja línuna sem jarðstreng meðfram Reykjanesbraut fremur en sem loftlínu eða jarðstreng meðfram Suðurnesjalínu 1 með tilliti til náttúruvár. Landsnet telji að þetta byggi á misskilningi, eins og nánar hafi verið útskýrt í bréfi til Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Skipulagsstofnunar og leyfisveitenda. Þá hafi Landsnet lagt fram frekari gögn varðandi áhrif jarðhræringa á jarðstrengi. Af heildarleið valkostar B séu 14,9 km meðfram Reykjanesbraut. Liggi sá hluti utan þekktra sprungusvæða og misgengja og hafi Skipulagsstofnun lagt það til grundvallar í áliti sínu. Vestari hluti leiðarinnar sé um 10 km og segi í skýrslu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands um það svæði að gera megi ráð fyrir því að í næstu umbrotum verði hreyfing á þeim sprungum sem fyrir séu ásamt myndun nýrra sprungna og misgengja. Í ljósi lögboðinna sjónarmiða í raforkulögum hafi borið að taka rökstudda afstöðu til þessara gagna og hafi það verið gert í hinni kærðu ákvörðun. Um sé að ræða mjög óverulegt atriði sem geti ekki gefið ástæðu til að vinna matsskýrslu upp á nýtt. Með kæru sé í engu haggað þeirri staðreynd að upplýsingar í fyrrgreindu bréfi og minnisblaði séu réttar.

Sjónarmið um grenndarkynningu hafi ekki átt við. Gera verði greinarmun á matsskyldum framkvæmdum og framkvæmdum sem ekki séu háðar mati á umhverfisáhrifum. Ekki sé að finna ákvæði um grenndarkynningu í 14. gr. skipulagslaga sem fjalli um framkvæmda­leyfi vegna matsskyldra framkvæmda. Suðurnesjalína 2 liggi í talsverðri fjarlægð frá íbúabyggð. Vandséð sé hverjir gætu talist nágrannar sem kynna ætti framkvæmdina fyrir og í lögunum eða reglugerðum sé ekki að finna nánari skilgreiningu á hugtakinu nágrannar. Þeir aðilar sem hugsanlega gætu talist nágrannar á grundvelli eignarhalds síns á landi hafi gefið samþykki sitt fyrir framkvæmdinni. Telja verði að skilyrði 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012, er kveði á um að heimilt sé að veita framkvæmdaleyfi á grundvelli aðalskipulags, ef í því sé gerð grein fyrir framkvæmdinni og fjallað á ítarlegan hátt um m.a. umfang og frágang hennar, hafi verið uppfyllt. Þá verði ekki séð að við eigi þau sjónarmið eða tilgangur þegar slíkrar grenndarkynningar sé krafist, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar. Að frum­kvæði Landsnets hafi framkvæmdin fengið mikla umfjöllun og langt umfram lagaskyldu. Tekið hafi verið tillit til umsagna umsagnaraðila. Jafnframt sé fjallað ítarlega um framkvæmdina í svæðisskipulagi, umhverfisskýrslu kerfisáætlunar 2018-2027 og mati á umhverfisáhrifum. Til hliðsjónar megi vísa til niðurstöðu í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 148/2016. Í áliti Skipulagsstofnunar hafi ekki verið að finna neina umfjöllun um að þörf væri á gerð deiliskipulags, grenndarkynningu eða meðmælum stofnunarinnar vegna leyfisveitinga fyrir framkvæmdinni, en henni hefði borið að gera slíkt teldi hún svo vera.

Vísa beri frá málsástæðum kærenda varðandi kerfisáætlun. Ákvarðanir Orkustofnunar, laga­setning tengd breytingum á raforkulögum og ákvarðanir úrskurðarnefndar raforkumála heyri ekki undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Því sé hafnað sem röngu að umrædd leyfisveiting Orkustofnunar hafi verið ólögmæt, sem og síðari kerfisáætlanir og áætlun um framkvæmdaverk 2021-2023 sem varði línuna. Ekki liggi fyrir neinn úrskurður eða dómar um ógildingu og séu afgreiðslur Orkustofnunar því í fullu gildi. Um framkvæmdina hafi verið fjallað í kerfisáætlun 2018-2027 en hún hafi sætt mati samkvæmt lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Skortur á umfjöllun í áliti Skipulagsstofnunar um kerfisáætlun og skyldur Landsnets samkvæmt ákvæðum raforkulaga geti ekki talist nægjanleg ástæða til að ógilda ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis. Skipulagsstofnun sé ekki bær að lögum til að taka til endurskoðunar ákvarðanir Orku­stofnunar og ef um ónóga umfjöllun sé að ræða leiði það ekki til þess að líkur séu á að efnis­leg niðurstaða breytist. Engar heimildir séu til þess að leyfisveitandi endurskoði ákvarðanir Orkustofnunar á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga, eins og kærendur haldi fram.

Rök kærenda um að alltaf hafi staðið til að velja valkost C sem aðalvalkost og að grundvöllur mats á umhverfisáhrifum sé því brostinn séu ekki rétt. Landsneti beri skv. 9. gr. a í raforkulögum nr. 65/2003 að leggja árlega fyrir Orkustofnun til samþykktar kerfisáætlun um uppbyggingu flutnings­kerfisins. Í 5. tl. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 870/2016 um kerfisáætlun fyrir uppbyggingu flutningskerfis raforku sé m.a. kveðið á um að í umfjöllun um einstakar framkvæmdir skuli koma fram greining valkosta vegna hverrar framkvæmdar ásamt rökstuðningi fyrir þeim kosti sem valinn sé. Landsnet geri í kerfisáætlunum fyrirvara um að framkvæmdin kunni að taka breytingum þegar mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggi fyrir. Þannig sé alveg ljóst að endanleg ákvörðun um valkost hafi ekki legið fyrir áður en mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram. Allir valkostir hafi verið metnir til jafns í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og því rangt að grundvöllur matsins hafi verið brostinn.

Umhverfisstofnun telji í umsögn sinni um frummatsskýrslu Landsnets að lagning jarðstrengja á því svæði þar sem ráðgert sé að leggja Suðurnesjalínu 2 sé slæmur kostur vegna áhrifa á jarðmyndanir. Að því er varði land innan marka Reykjanesbæjar þá verði af matsskýrslu ráðið að allir valkostir hafi sambærileg áhrif á jarðminjar, þ. á m. þær sem njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Í áliti Skipulagsstofnunar komi fram að stofnunin geri ekki athugasemdir við niðurstöðu Landsnets um vægi áhrifa ólíkra valkosta á jarðmyndanir. Innan marka Reykjanesbæjar hafi jarðstrengskostir öllu meiri áhrif á vatnsvernd og landnotkun en loftlínukostir sem hafi meiri áhrif á landslag og ásýnd, ferðaþjónustu og fugla.

Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 52/2018, sem kærendur vísi til, fjalli um raforku­vinnslu en ekki meginflutningskerfi. Ekki sé unnt að jafna þessu tvennu saman þótt báðir varði raforku, enda eigi ólík lagaákvæði við. Rétt sé þó það sem þar sé tekið fram að aukið raforkuöryggi, sem sé einmitt eitt af meginmarkmiðum framkvæmdarinnar, teljist málefnalegt markmið sem falli innan þess svigrúms til mats sem sveitarstjórn hafi á brýnni nauðsyn í skilningi tilvitnaðrar 61. gr. laga um náttúruvernd.

Enginn munur sé á legu valkosta innan lögsagnarumdæmis Reykjanesbæjar heldur sé eingöngu um að ræða mun á útfærslu. Fyrir liggi að loftlínukostur hafi minni bein og varanleg áhrif á þá hagsmuni sem 61. gr. sé ætlað að vernda en jarðstrengskostir. Í ljósi þess að framkvæmd sú sem sótt hafi verið um leyfi fyrir hafi minni áhrif hafi ekki verið brotið gegn ákvæðinu. Brýn þörf sé á framkvæmdinni og séu því uppfyllt skilyrði laga um náttúru­vernd á svæðinu burtséð frá því hvort um loftlínu eða jarðstreng sé að ræða og hafi fjárhags­legar ástæður engin áhrif á það mat.

Því sé hafnað sem röngu og ósönnuðu að umhverfisáhrif valkostar B, um að leggja jarðstreng meðfram Reykjanesbraut, hafi ekki verið rannsökuð með fullnægjandi hætti. Í niðurstöðum í áliti Skipulags­stofnunar sé m.a. ekki vikið að því að sá valkostur að leggja jarðstreng meðfram Reykjanes­braut sé í matinu talinn hafa meiri áhrif á jarðminjar en aðalvalkostur Landsnets. Megináhrif valkosts B séu á fornleifar, jarðminjar, vistgerðir, landslag, ásýnd og vatnsvernd. Liggi megináhrif hans ekki í legu strengsins meðfram Reykjanesbraut, heldur á þeim köflum þar sem strengurinn liggi um ósnortið hraun á leið sinni að og frá Reykjanesbraut. Þetta komi skýrt fram í matsskýrslu og umsögn Umhverfisstofnunar sem vitnað sé til í áliti Skipulags­stofnunar. Að því er varði lagningu jarðstrengja í Frakklandi þá hafi sú aðferð verið skoðuð og sé umfjöllun um hana í matsskýrslu. Þessi athugasemd hafi komið fram við frummatsskýrsluna og henni verið svarað, m.a. með vísan til þess að Landsnet hafi ekki talið skynsamlegt að nýta takmarkaðan jarðstrengskvóta á suðvesturhorni landsins.

Fyrir liggi stefna stjórnvalda þar sem tilgreind séu viðmið sem vísi til þess hvar til greina komi að velja dýrari jarðstrengskosti umfram loftlínu. Suðurnesjalína 2 muni einungis að litlu leyti liggja innan slíkra svæða, en mikilvægt þyki að eiga til framtíðar möguleika á að leggja jarðstrengi. Samkvæmt skilgreiningu m-liðar í 3. gr. laga nr. 106/2000 teljist þjóðhags­leg áhrif og arðsemi einstakra framkvæmda ekki til umhverfisáhrifa og sé vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 511/2015 í þessu sambandi. Þannig geti skortur á umfjöllun um kostnað eða hagræði í mati á umhverfisáhrifum ekki talist ágalli á matsskýrslu eða leitt til þess að hún verði ekki talin uppfylla skilyrði laga.

Í matsskýrslunni sé ítarlega fjallað um möguleika þess að notast við mismunandi rafspennu. Þar segi m.a. að sé tekið mið af upplýsingum um þróun raforkuflutnings á Suðurnesjum, kerfisrannsóknum og spám um uppbyggingu á svæðinu megi ætla að flutningsþörf til og frá Suðurnesjum verði meiri en 132kV flutningsvirki ráði við. Eina raunhæfa lausnin sé því að byggja flutningsvirki fyrir 220kV spennu sem geti annað fyrirséðri orkuflutningsþörf. Mat Landsnets á aukinni flutningsþörf byggi m.a. á kerfislegum greiningum. Niðurstaða þeirra hafi verið að raflína sem ekki nái að anna a.m.k. 300MVA flutningsþörf uppfylli að því leyti ekki markmið framkvæmdarinnar. Vísað sé til dóms Hæstaréttar í máli nr. 22/2009 þar sem staðfest hafi verið að framkvæmdaraðili hafi forræði á því að meta hvaða framkvæmdakostir uppfylli markmið framkvæmdar. Einnig sé bent á úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 91/2013. Því sé sérstaklega mótmælt að raforkuþörf byggi á almennum fullyrðingum félagsins um nauðsyn 220kV línu. Þá sé Landsneti með 5. tl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 65/2003 falið að sjá til þess að fyrir liggi spá um raforkuþörf og áætlun um uppbyggingu flutningskerfisins.

Mismunandi afstaða Landsnets og Skipulagsstofnunar að því er varði vægiseinkunnir sé fullkomlega eðlileg og geti ekki talist ágalli á mati á umhverfisáhrifum. Því sé alfarið hafnað að ágallar séu á valkostamatinu. Jafnframt að fjárhagsleg sjónarmið hafi ráðið ferðinni og að með öllu hafi verið litið fram hjá umhverfisáhrifum í trássi við fyrirmæli laga um mat á umhverfisáhrifum. Í matsskýrslu sé ítarlega fjallað um aðalvalkost, sem og aðra valkosti, og þeir metnir út frá umhverfisþáttum. Þar komi fram að ákvörðun um aðalvalkost grundvallist á því að vega og meta nokkra meginþætti, en einn þeirra sé umhverfi. Þá þurfi að tryggja að framkvæmdin uppfylli kröfur um öryggi á afhendingu rafmagns og horfa til verðmætis og efnahagslegra þátta sem byggi á kostnaði eða ávinningi framkvæmdarinnar. Sömu atriði komi fram í greinargerð með umsókn um framkvæmdarleyfi. Mat á umhverfisáhrifum leiði ekki sjálfkrafa til þess að ákvörðun um aðalvalkost byggi eingöngu á því að velja þann kost sem hafi vægustu áhrifin. Bent hafi verið á að í dómum Hæstaréttar í málum nr. 511, 512, 513 og 541/2015 komi fram að þótt kostnaður við framkvæmdir teljist ekki til umhverfisáhrifa þá geti fjárhagsleg sjónarmið ráði úrslitum um endanlega ákvörðun.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur árétta það sem fram kemur í kæru og mótmæla í heild sinni framkomnum greinargerðum leyfisveitanda og leyfishafa. Einnig að með leyfis­veitingunni hafi verið tekin rökstudd afstaða til greinargerðar leyfishafa og að kærendur hafi haft allar forsendur til að meta efni hinnar kærðu ákvörðunar og á hvaða grunni hún hvíli. Leyfisveitandi geti ekki með því einu að vísa til fylgiskjala umsóknar um leyfi hlaupist undan þeirri lögbundnu skyldu að rökstyðja ákvörðun sína á viðhlítandi hátt. Jafnframt liggi ekkert fyrir um það að greinargerð hafi legið fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Það sé grundvallaratriði að í greinargerð sé greint frá þeim sjónarmiðum sem hafi verið ráðandi.

Í umsögn leyfishafa sé látið að því liggja að niðurstaða matsskýrslu hafi verið sú að loftlína væri betri kostur en jarðstrengur þegar kæmi að náttúruvá. Það telji kærendur ekki rétt og vísi í þessu sambandi til ummæla á bls. 232 í matsskýrslu um samanburð á loftlínu og jarðstreng. Í matsskýrslunni hljóti að hafa verið tekið tillit til þess sem fram hafi komið í skýrslu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og sé því mótmælt að skýrslan mæli fremur með loftlínukosti en jarðstreng. Einnig sé því mótmælt að um óyggjandi upplýsingar sé að ræða í minnisblaði verkfræðistofu, dags. 2. júlí 2020.

Það sjónarmið sem kærendur byggi á sé að valinn verði sá framkvæmdakostur sem hafi minnstar afleiðingar fyrir umhverfið samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfis­áhrifum. Samkvæmt matsskýrslu leyfishafa sé það valkostur B og fyrir liggi að allir fram­kvæmdakostir sem hafi verið metnir tryggi afhendingaröryggi. Það vægi sem leyfishafi gefi stefnu stjórnvalda sé óvarlegt og illa undirbyggt. Hvorki tilskipanir á sviði umhverfis- og raforkumála né lög og reglur á því sviði geri ráð fyrir að þingsályktun eða stefna stjórnvalda vegi þyngra en mat á umhverfisáhrifum. Ef svo væri þá væri slíkt mat óþarft.

Samráð hafi aðeins verið að formi til og sé það tilfinning kærenda að engin raunverulegur samstarfsvilji hafi verið hjá leyfishafa heldur hafi alltaf staðið til að velja þann framkvæmdakost sem væri ódýrastur og fylgdi stefnu stjórnvalda.

Þau rök leyfishafa að framtíðarmöguleikar á lagningu jarðstrengs séu skertir verulega með því að leggja Suðurnesjalínu 2 sem jarðstreng séu ekki haldbær. Jarðstrengskvóti á Reykjanes­skaga sé um 100 km og fram komi í áliti Skipulagsstofnunar að honum verði ekki ráðstafað annars staðar vegna mögulegs flugvallar í Hvassahrauni.

——

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Hefur úrskurðarnefndin kynnt sér þau sjónarmið en ekki þykja efni til að rekja þau nánar hér.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna tilgreindra ákvarðana enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Meðal þeirra ákvarðana sem framangreind samtök geta kært eru ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem féllu undir þágildandi lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. tilvitnaðra laga teljast umhverfisverndarsamtök samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Útivistarsamtök teljast samtök sem hafa útivist og umhverfi­svernd að markmiði. Framangreind samtök, sbr. 1. og 2. málsl. nefndrar 4. mgr. 4. gr., skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald. Hins vegar gilda þær kröfur ekki um hagsmunasamtök.

Aðrir kærendur en Ungir umhverfissinnar hafa áður átt aðild að kærumálum fyrir úrskurðar­nefndinni og uppfylla nefnd skilyrði. Félagsmenn Ungra umhverfissinna eru fleiri en 30 og um aðild að félaginu segir í samþykktum þess að allir á aldrinum 15-30 ára sem aðhyllist markmið og stefnu þess geti verið félagsmenn. Aðild að félaginu er því takmörkuð við ákveðinn aldur. Þá segir í samþykktum þess: „Framtíðarsýn félagsins er að á Íslandi byggist upp grænt hagkerfi þar sem jafnrétti kynslóða hvað varðar aðgengi að náttúruauðlindum er tryggt. Framtíð þar sem sjálfbærni er tryggð og almenn umhverfisvernd er höfð að leiðarljósi í allri ákvörðunartöku og löggjöf ríkisins.“ Hyggst félagið ná tilgangi sínum með því að stuðla að vitundarvakningu ungs fólks um umhverfismál. Er þannig um samtök ungs fólks að ræða sem gæta hagsmuna þess í umhverfis­­­málum til framtíðar. Telur úrskurðarnefndin að um hagsmunasamtök sé að ræða í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og þar sem þau uppfylla skilyrði um félagafjölda njóta þau kæruaðildar í máli þessu.

——

Áform um lagningu Suðurnesjalínu 2 eiga sér talsverðan aðdraganda líkt og lýst er í málavöxtum. Nýtt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar fór fram í kjölfar dóms Hæstaréttar 16. febrúar 2017, í máli nr. 575/2016, þar sem talið var að umhverfisáhrifum jarðstrengs í samanburði við aðra framkvæmdakosti hefði ekki verið lýst á fullnægjandi hátt og matsferlið og umhverfismatsskýrslan hefðu því ekki uppfyllt þann áskilnað sem gerður væri í þágildandi lögum nr. 106/2000, skipulagslögum nr. 123/2010 og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Hinn 20. janúar 2020 lagði Landsnet fram matsskýrslu til Skipulagsstofnunar um Suðurnesjalínu 2 og óskaði eftir áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum fram­kvæmdarinnar. Kom fram að áformað væri að byggja 220kV raflínu milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja sem yrði hluti af meginflutningskerfi raforku. Línan myndi liggja milli tengivirkis í Hamranesi í Hafnarfirði og tengivirkis á Rauðamel í Grindavík. Skoðaðir hefðu verið margir valkostir til að ná markmiði framkvæmdarinnar og væri lagður fram samanburður á sex valkostum. Niðurstaða fyrirtækisins væri að leggja fram sem aðalvalkost svonefndan valkost C, loftlínu sem fylgdi að mestu Suðurnesjalínu 1, með stuttum jarðstrengsköflum næst tengivirki í Hafnarfirði og tengivirki á Rauðamel. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 22. apríl 2020. Taldi stofnunin m.a. matið sýna fram á að lagning línunnar sem jarðstrengs væri best til þess fallin að draga eins og kostur væri úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar, sbr. markmiðsákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum, og þá væri æskilegasti kosturinn valkostur B, meðfram Reykjanesbraut.

Með umsókn, dags. 11. desember 2020, óskaði Landsnet eftir framkvæmdaleyfi hjá Reykjanesbæ fyrir Suðurnesjalínu 2 innan marka sveitarfélagsins, samkvæmt áðurgreindum valkosti C. Framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, með nánar tilgreindum skilyrðum, var gefið út 4. mars 2021. Auglýsing um samþykkt og útgáfu þess var birt í Lögbirtingablaðinu 10. s.m., en auk þess var auglýsing um samþykkt leyfisins birt í Víkurfréttum, sem og á heimasíðu Reykjanesbæjar. Var tilgreint að útgáfa leyfisins hefði verið samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 15. janúar 2021 og staðfest af bæjarstjórn 19. s.m. Eins og rakið er í málavaxtalýsingu var umsókn Landsnets vissulega tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 15. janúar 2021, en erindinu var hins vegar frestað og skipulagsfulltrúa falið að útbúa framkvæmdaleyfi ásamt greinargerð í samræmi við framlögð drög. Samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu 19. s.m., en ekki leyfis­veitingu. Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 5. febrúar s.á. Fyrst þá var framkvæmdaleyfið samþykkt og sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar 16. febrúar 2021. Málinu lauk fyrst þá með ákvörðun þar til bærs aðila, sbr. 13. gr., sbr. og 14. gr., skipulagslaga, og er sú ákvörðun kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Ákveðinnar ónákvæmni gætti þannig í auglýsingum um hvenær hið kærða framkvæmdaleyfi hefði verið samþykkt. Þá voru hvorki kæruheimildir né kærufrestir tilgreindir í auglýsingum, svo sem áskilið er í 4. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 og 4. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Tilgangur auglýsingar með þeim hætti sem kveðið er á um í nefndum ákvæðum er einkum að upplýsa almenning um að ákveðinni málsmeðferð sé lokið, gefa honum kost á að kynna sér forsendur þar að baki og taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til að koma að kæru af því tilefni. Ber samkvæmt framangreindu að upplýsa um kæruleið, þ.e. til hvaða stjórnvalds mögulegt er að kæra viðkomandi ákvörðun, og innan hvers tíma. Í ljósi þess að af auglýsingum var ljóst hvert efni framkvæmdaleyfisins væri og þar sem kæru var komið að í málinu þykir þó ekki ástæða til að fjalla frekar um þessa annmarka.

—–

Meginágreiningur máls þessa lýtur að því hvort sveitarstjórn hafi verið heimilt að lögum að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 samkvæmt valkosti C. Telja kærendur svo ekki vera og tefla fram þeim rökum að sveitarstjórn hafi við töku hinnar kærðu ákvörðunar borið að leggja til grundvallar álit Skipulagsstofnunar um að valkostur B hafi í för með sér minni umhverfisáhrif, en álitið bindi sveitarstjórnir nema til komi sérstök og málefnaleg rök sem styðji aðra niðurstöðu. Sveitarstjórn hafi hvorki rökstutt ákvörðun sína né rannsakað málið með fullnægjandi hætti, auk þess sem framkvæmdin hafi ekki verið grenndarkynnt. Fjárhagsleg sjónarmið hafi ráðið för og ekki hafi staðið brýn nauðsyn til að leggja loftlínu í stað jarðstrengs. Valkostamat hafi verið gallað og sé valkostur Landsnets ekki í samræmi við mat á umhverfisáhrifum. Þá gera kærendur ýmsar athugasemdir er varða Kerfisáætlun Landsnets 2018-2027.

Verður nú fjallað um hvort skilyrðum til veitingar framkvæmdaleyfis hafi verið fullnægt í máli því sem hér er til úrlausnar. Kemur þar til skoðunar málsmeðferð við hina kærðu leyfisveitingu, m.a. að teknu tilliti til þess mats á umhverfisáhrifum sem fram fór sem hluti af undirbúningi hennar. Er ljóst að skyldur sveitarstjórnar sem leyfisveitanda eru ríkar við útgáfu leyfis til framkvæmdar sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum og er í lögum kveðið á um ákveðna málsmeðferð og skilyrði þess að leyfi verði veitt. Auk skipulagslaga og laga nr. 106/2000 geta komið til skoðunar þágildandi lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Þá ber að líta til stjórnsýslulaga, svo og til ýmissa verndarákvæða í lögum, s.s. lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd.

—–

Samkvæmt 9. gr. a í raforkulögum nr. 65/2003 skal flutningsfyrirtæki árlega leggja fyrir Orkustofnun til samþykktar kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfisins. Fer stofnunin yfir og samþykkir áætlunina með hliðsjón af markmiðum um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu raflínu og um uppbyggingu flutningskerfis raforku, sbr. 9. gr. b í sömu lögum. Samkvæmt 9. gr. þarf einungis leyfi Orkustofnunar fyrir nýju flutningsvirki ef það er ekki á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar og halda kærendur því fram að í samþykki stofnunarinnar á Kerfisáætlun Landsnets 2018-2027 hafi falist leyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Sú leyfisveiting hafi verið ólögmæt, en í kerfisáætluninni hafi valkostur C verið valinn sem aðal­valkostur áður en mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi verið lokið samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og samanburði valkosta samkvæmt þeim. Gangi það gegn mark­miðum 1. gr. laga nr. 106/2000, þ.e. að tryggja að áður en leyfi sé veitt fyrir framkvæmd hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum hennar. Þá hafi kærendum verið meinað að koma að athuga­semdum vegna áætlunarinnar til Orkustofnunar og sé það andstætt markmiðum Árósasamningsins.

Löggjafinn hefur ákveðið það fyrirkomulag sem að framan er lýst með raforkulögum, m.a. um hvort og hvernig samráð skuli fara fram. Í 9. gr. sömu laga kemur fram að ákvörðun Orkustofnunar um samþykkt eða synjun kerfisáætlunar sé kæranleg til úrskurðarnefndar raforkumála, sbr. 30. gr. laganna. Brestur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála því vald til að fjalla um lögmæti kerfisáætlunar og þeirra leyfa sem í henni kunna að felast. Hvað varðar athugasemd kærenda um að valkostur C hafi verið valinn áður en mati á umhverfisáhrifum hafi verið lokið er rétt að benda á að í tilvitnaðri kerfisáætlun kemur m.a. fram að „ef niðurstaða umhverfismats einstakra framkvæmda skilar annarri niðurstöðu en fæst með valkostagreiningu í framkvæmdaáætlun mun það verða afgreitt í öðru ferli en kerfisáætlun.“

—–

Mælt er fyrir um í 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmda fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfis­áhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Í 2. mgr. hvorrar lagagreinar fyrir sig er svo fjallað nánar um hvernig líta skuli til álits Skipulagsstofnunar við leyfisveitingu vegna matsskyldrar framkvæmdar. Áður voru þau lagaákvæði samhljóða um að við slíka leyfisveitingu bæri leyfisveitanda að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar.

Með breytingalögum nr. 96/2019 var lögum nr. 106/2000 hins vegar breytt, m.a. tilvitnuðu orða­lagi 2. mgr. 13. gr. laganna. Í stað þess að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar ber leyfisveitanda nú að leggja það til grundvallar við ákvörðun um útgáfu leyfis. Í athugasemdum með þeirri grein frumvarpsins er fjallar um nefnda breytingu kemur fram að breyting á orðalagi sé í samræmi við breytingu á 8. gr. tilskipunar 2011/92/ESB sem gerð hafi verið með tilskipun 2014/52/ESB. Fyrir þá breytingu hafi sagt: „Í tengslum við málsmeðferð við veitingu leyfis ber að taka mið af niðurstöðum samráðs og þeim upplýsingum sem teknar hafa verið saman skv. 5., 6. og 7. gr.“ en nú segi: „Við málsmeðferð við veitingu leyfis fyrir framkvæmd ber að taka viðeigandi tillit til niðurstaðna úr samráði og þeirra upplýsinga sem teknar hafa verið saman skv. 5. til 7. gr .“ Samkvæmt lögskýringargögnum verður talið að þessi breyting á orðalagi 2. mgr. 13. gr. laganna endurspegli betur orðalag 8. gr. tilskipunarinnar eftir breytingu, sbr. tilskipun 2014/52/ESB. Sambærileg breyting var gerð á 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga.

Í 18. gr. breytingalaga nr. 96/2019 er kveðið á um lagaskil og skulu matsskyldar framkvæmdir hlíta málsmeðferð samkvæmt eldri lögum ef tillaga að matsáætlun hefur borist Skipulagsstofnun fyrir gildistöku laga nr. 96/2019, svo sem raunin er hér. Samkvæmt þágildandi 2. mgr. 13. laga nr. 106/2000 bar því sveitarstjórn að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Sambærilegt lagaskilaákvæði er hins vegar ekki að finna vegna breytingarinnar í skipulagslögum og bar því að leggja álit Skipulagsstofnunar til grundvallar leyfisveitingu samkvæmt orðalagi 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, sem gilti við samþykki hins kærða framkvæmdaleyfis. Það verður þó ekki séð að breytt orðalag hafi haft í för með sér þá efnisbreytingu að máli skipti við úrlausn þessa máls, svo fremi að báðum ákvæðum sé fullnægt þannig að rökstudd afstaða sé tekin til álits Skipulagsstofnunar og það jafnframt lagt til grundvallar leyfisveitingu.

Annað nýmæli, sem með sömu breytingalögum nr. 96/2019 var tekið upp í nýja 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000, er þess efnis að leyfisveitandi skuli taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð sé grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og rökstyðja sérstaklega ef í leyfinu sé vikið frá niðurstöðu álitsins. Með sömu breytingalögum var því skeytt við 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga að sveitarstjórn skuli taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Eftir sem áður er leyfisveitandi ekki bundinn af áliti Skipulagsstofnunar, enda er gert ráð fyrir því í nýrri 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 að víkja megi frá niðurstöðu þess. Er það sama fyrirkomulag og verið hefur frá því að nefndum lögum var breytt með breytingalögum nr. 74/2005, auk þess að vera í samræmi við þá verkaskiptingu sem löggjafinn hefur ákveðið, þ.e. að sveitarstjórnir hafi heimild til að veita framkvæmdaleyfi, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga, en Skipulagsstofnun hafi í samræmi við 4. gr. skipulagslaga eftirlit með framkvæmd þeirra laga auk þess að framfylgja ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum.

—–

Samkvæmt 6. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 skal framkvæmdaraðili vinna endanlega matsskýrslu á grundvelli frummatsskýrslu en nánari fyrirmæli, svo sem um efni frummatsskýrslunnar, er að finna í 9. gr. sömu laga. Meðal þess sem mælt er fyrir um er að ávallt skuli gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman.

Meðal þess sem kærendur tefla fram er að mat hefði átt að fara fram á áhrifum þess valkosts að leggja Suðurnesjalínu 2 með 132kV spennu. Um þennan kost var fjallað í tillögu Landsnets að matsáætlun og komst fyrirtækið að þeirri niðurstöðu að 132kV lína væri ekki raunhæfur valkostur til að uppfylla markmið framkvæmdarinnar um flutningsgetu til framtíðar. Hluti kærenda kom að athugasemdum við það að ekki væri fyrirhugað að meta umhverfisáhrif þessa valkosts og var þeim athugasemdum svarað við málsmeðferð vegna matsáætlunarinnar. Rökstuddi fyrirtækið nánar þá niðurstöðu að 132kV lína myndi ekki anna flutningsþörf þótt línan yrði fyrst um sinn rekin á þeirri spennu. Þá benti það á að þegar kæmi að því að hækka þyrfti spennu í 220kV yrði það gert án nýrrar línu, en ef byggð væri 132kV lína þyrfti að bæta við mannvirkjum til að anna viðkomandi þörf.

Kærendur telja enn fremur að mat á umhverfisáhrifum valkosts B hafi verið haldið ágöllum. Tæki það mið af öðrum aðferðum við lagningu jarðstrengja, t.a.m. þeim sem tíðkist í Frakklandi, myndi matið leiða í ljós minni umhverfisáhrif nefnds kosts. Í matsskýrslu er rakið í kafla 5.2.1.1 að Landsnet hafi skoðað mismunandi aðferðir við lagningu jarðstrengja og hvort bæta mætti aðferðafræði við strenglagnir hérlendis. Er því lýst að m.a. hafi verið skoðuð aðferð sem notuð hafi verið í Suður-Frakklandi þar sem rör fyrir strengi séu steypt í þröngan skurð, en kostnaður við þá aðferð sé metinn um 3,5 sinnum hærri en við hefðbundna aðferð. Þá ráðist umfang og frágangur jarðstrengjalagna af jarðvegi, en víðast hvar við íslenskar aðstæður sé erfitt að grafa skurði með lóðrétta skurðbakka vegna þess hversu litla samloðun íslenskur jarðvegur hafi. Til að grafa strengskurði í eða við vegfláa þurfi skurðsniðið að vera minna og almennt séu aðstæður í vegum ekki hentugar fyrir jarðstrengi. Efnið í vegfyllingunni hafi gjarnan lágt rakastig sem hafi áhrif til hins verra á flutningsgetu strengsins, auk þess sem meiri hætta sé á því að strengurinn verði fyrir hnjaski. Ein leið til þess að minnka skurðsniðið, án þess að auka hættu á því að strengurinn verði fyrir skemmdum, væri að fylla að strengnum með steypu í stað sands. Þessi aðferð sé um fjórum sinnum dýrari en hefðbundin aðferð.

Úrskurðarnefndin leggur áherslu á að framkvæmdaraðila hefur verið játað ákveðið forræði á því hvaða kosti sem nái markmiðum framkvæmdar hann leggi fram til mats, að teknu tilliti til þess að meta verði helstu möguleika svo markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum verði náð. Í matsskýrslu þeirri sem hér um ræðir eru metin umhverfisáhrif sex valkosta um lagningu Suðurnesjalínu 2. Tveggja jarðstrengskosta (valkosta A og B), tveggja loftlínukosta (valkosta C og C2), og svo tveggja kosta (valkosta D og E) sem eru eins og valkostur C að öðru leyti en því að annar þeirra gerir ráð fyrir lagningu jarðstrengs á hluta leiðarinnar en hinn línu á tvírásamöstrum að hluta. Framangreind rök Landsnets vegna mismunandi aðferða við strenglagnir voru að hluta til af efnahagslegum toga, en slík rök standa ekki í málefnalegu samhengi við tilgang mats á umhverfisáhrifum. Það gera hins vegar þau rök sem vísa til aðstæðna á Íslandi. Einnig eru málefnaleg þau rök að frekari mannvirki þyrfti síðar meir til að tryggja aukna flutningsgetu til framtíðar ef nú yrði lögð 132kV lína, enda hefði það bersýnilega nokkur umhverfisáhrif í för með sér. Þá verður ekki dregið í efa mat Landsnets um flutningsþörf þegar litið er til hlutverks fyrirtækisins samkvæmt raforkulögum. Var að öllu virtu gerð fullnægjandi grein fyrir þeim valkostum sem til greina komu og umhverfisáhrif þeirra borin saman. Þar sem því sleppir er það framkvæmdaraðili sem leggur til að framkvæmt verði samkvæmt þeim kosti sem hann telur æskilegastan, hvort sem þar liggja sjónarmið um kostnað að baki eða ekki. Lagði Landsnet til valkost C, loftlínu, að loknu mati á mismunandi kostum í kjölfar lögbundins samráðs, sem gert er ráð fyrir í lögum nr. 106/2000. Þótt það samráð hafi ekki leitt til niðurstöðu sem kærendum hugnast og þeir telji það hafa verið í skötulíki þá haggar það ekki þeirri staðreynd að framkvæmdaraðili hefur forræði á framkvæmd sinni innan marka gildandi laga og reglna.

—–

Í 11. gr. laga nr. 106/2000 er fjallað um álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt 1. mgr. skal stofnunin gefa rökstutt álit sitt á því hvort matsskýrsla uppfylli skilyrði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Í álitinu skal gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja því til grundvallar, og niðurstöðum þess. Jafnframt skal fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á athugasemdum og umsögnum við frummatsskýrslu. Eru þannig gerðar kröfur um form og efni álits stofnunarinnar í þeim tilgangi að renna styrkari stoðum undir síðari ákvarðanir á grunni þess.

Í áliti Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar er m.a. tilgreint hvaða gögn lágu fyrir við meðferð málsins, m.a. matsskýrsla Landsnets og umsagnir og athuga­semdir er bárust vegna frummatsskýrslu ásamt viðbrögðum fyrirtækisins við þeim. Fram kemur að í matsskýrslu hafi umhverfismati framkvæmdanna verði skipt niður á fjögur svæði á línuleiðinni. Um 2 km línunnar muni liggja innan svæðisins Hafnarfjörður, um 9-11 km innan svæðisins Almenningur, um 9 km á Strandarheiði og um 12-13 km á svæðinu Njarðvíkurheiði. Í matsskýrslu hafi umhverfisáhrif sex valkosta verið metin, jarðstrengja (valkostir A og B), loftlína (valkostir C og C2) og blandaðra leiða (valkostir D og E). Við mat á umhverfisáhrifum einstakra umhverfis­þátta víkur stofnunin að mati Landsnets hvað hvern þátt varðar, sem og til annarra sjónarmiða og umsagna, og færir svo fram niðurstöðu sína. Var fjallað um eftirfarandi þætti, þ.e. jarðmyndanir, landslag og ásýnd, ferðaþjónustu og útivist, landnotkun, byggð og atvinnuþróun, vatnsvernd, vistgerðir og gróður, fuglalíf, menningarminjar, hljóðvist og raf- og segulsvið, loftslag og að lokum náttúruvá.

Helstu niðurstöður Skipulagsstofnunar eru þær að matsskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglu­gerðar um mat á umhverfisáhrifum. Einnig segir eftirfarandi: „Um er að ræða umfangsmikil mannvirki um langan veg, þar sem landslag er opið og víðsýnt og þar sem náttúrufar nýtur verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd auk þess að hafa hlotið alþjóðlega viðurkenningu vegna jarðfræðilegrar sérstöðu. Línan fer nærri einum fjölfarnasta þjóðvegi landsins, sem jafnframt er gátt erlendra ferðamanna inn í landið um Keflavíkurflugvöll og fer um og nærri náttúrusvæðum sem eru vinsæl útivistarsvæði í grennd við þéttbýlasta svæði landsins. Við þær aðstæður sem eru á áhrifasvæði framkvæmdarinnar telur Skipulagsstofnun margt mæla með því að leggja jarðstreng alla leið og þá sérstaklega valkost B meðfram Reykjanesbraut. Ávinningur af því með tilliti til umhverfisáhrifa samanborið við loftlínuvalkosti felast í minni áhrifum á landslag og ásýnd, ferðaþjónustu og útivist, vistgerðir og gróður og fuglalíf. Aðalvalkostur Landsnets, lagning loftlínu samkvæmt valkosti C, hefur mest neikvæð áhrif allra skoðaða valkosta á framangreinda þætti. Jafnframt getur verið ávinningur af því að leggja línuna sem jarðstreng meðfram Reykjanesbraut fremur en sem loftlínu eða jarðstreng meðfram Suðurnesjalínu 1 með tilliti til náttúruvár. Auk framangreinds mælir að mati Skipulagsstofnunar ýmislegt tengt byggða- og atvinnuþróun á Suðurnesjum til framtíðar með því að línan sé lögð í jörð.“

Skipulagsstofnun tók fram að fyrir lægi þörf til þess að styrkja raforkukerfið á Suðurnesjum og væru allir þeir valkostir sem fjallað væri um í matsskýrslu taldir raunhæfir í því tilliti. Ekki væri nægjanlegt að horfa eingöngu til kostnaðarmunar milli ólíkra útfærslna á lagningu línunnar þar sem ólíkir valkostir hefðu í för með sér mismunandi möguleika og takmarkanir á annarri landnýtingu og þróun byggðar og atvinnulífs á nærliggjandi svæðum sem rétt væri að taka með í reikninginn þegar horft væri á kostnað við lagningu línunnar. Fjallaði stofnunin um þau viðmið sem sett væru fram í þingsályktun nr. 11/144 sem réttlættu að dýrari kostur væri valinn og línur í flutningskerfi raforku lagðar sem jarðstrengir í heild eða að hluta. Tók stofnunin fram að þótt þessi skilyrði ættu strangt til tekið ekki við á framkvæmdasvæði Suðurnesjalínu 2 nema að takmörkuðu leyti væru þetta þó allt atriði sem Skipulagsstofnun teldi vega þungt við ákvörðun um legu og útfærslu Suðurnesjalínu 2. Þá þyrfti að taka tillit til þess að stjórnvöld hefðu til athugunar að byggja flugvöll í Hvassahrauni og yrði þeim hluta „jarðstrengjakvótans“ því ekki ráðstafað annars staðar fyrr en niðurstaða væri fengin um að fallið væri frá þeim áformum. Niðurstaða stofnunarinnar var dregin saman með eftirfarandi hætti: „Í ljósi framangreinds telur Skipulagsstofnun umhverfismat Suðurnesjalínu 2 sýna fram á að lagning línunnar sem jarðstrengs sé best til þess fallin að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar, sbr. markmiðsákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum, og þá sé æskilegasti kosturinn valkostur B meðfram Reykjanesbraut.“ Loks sagði: „Það er í höndum hlutaðeigandi sveitarfélaga að taka afstöðu til þess hvaða valkostur verður endanlega fyrir valinu. Þær ákvarðanir þurfa sveitarfélögin að taka sameiginlega, þar sem þær ákvarðanir eru háðar hver annarri.“

Álit Skipulagsstofnunar er að mati úrskurðarnefndarinnar haldið nokkrum ágöllum. Þannig verður ekki séð hvernig umfjöllun stofnunarinnar um hvað rétt væri að taka með í reikninginn þegar horft væri til kostnaðar við línulagnir, um hvaða atriði „vegi þungt“ við ákvörðun um legu og útfærslu Suðurnesjalínu 2 eða um hvernig ráðstafa ætti „jarðstrengjakvóta“ samræmist því hlutverki stofnunarinnar sem fram kemur í 11. gr. laga nr. 106/2000, sem áður er lýst. Geta þessi atriði ekki með réttu leitt til þeirrar ályktunar að „lagning línunnar sem jarðstrengs sé best til þess fallin að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar, sbr. markmiðs­ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum.“ Það gerir hins vegar sú niðurstaða stofnunarinnar að það sé ávinningur af því að leggja línuna sem jarðstreng borið saman við loftlínuvalkosti með tilliti til umhverfisáhrifa sem felist í minni áhrifum jarðstrengs á landslag og ásýnd, ferðaþjónustu og útivist, vistgerðir og gróður og fuglalíf, sem og að aðalvalkostur Landsnets, lagning loftlínu samkvæmt valkosti C, hafi mest neikvæð áhrif allra skoðaðra valkosta á framangreinda þætti. Er í þessu sambandi einnig rétt að árétta að Skipulagsstofnun veitir álit sitt á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar og mismunandi valkosta hennar, en að sveitarstjórn veitir leyfi til framkvæmdar. Eins og Skipulagsstofnun tekur fram í niðurstöðu sinni er það því sveitarstjórnar að taka afstöðu til framkvæmdaleyfisumsóknar sem tiltekur ákveðinn valkost, eftir atvikum að teknu tilliti til atriða sem ekki teljast til umhverfisáhrifa. Þá er ekkert í lögum sem mælir fyrir um að hlutaðeigandi sveitarstjórnir þurfi að taka sameiginlegar ákvarðanir um hvaða valkosti veita beri framkvæmda­leyfi fyrir þótt þær kunni að vera háðar hver annarri. Getur ákvörðun einnar sveitarstjórnar enda ekki bundið aðra sveitarstjórn við að taka efnislega sambærilega ákvörðun þótt hagkvæmt geti verið að þær komist að sömu niðurstöðu. Í þessu sambandi er rétt að benda á að þótt gert sé ráð fyrir því í 34. gr. skipulagslaga með hvaða hætti skuli leysa ágreining um atriði sem samræma þurfi í aðalskipulagi samliggjandi sveitarfélaga er ekki að finna slíkt ákvæði um veitingu leyfa til framkvæmda sem tekur til eins eða fleiri sveitarfélaga.

Fleira er athugavert við álit Skipulagsstofnunar. Í matsskýrslu er komist að þeirri niðurstöðu varðandi jarðminjar að helstu áhrif allra valkosta þar á verði á svæðinu Almenningur, en þar á eftir á Strandarheiði. Áhrif valkosta B og C2 verði talsvert neikvæð á jarðmyndanir í Almenningi en áhrif annarra kosta verði talsvert til veruleg neikvæð. Á Strandarheiði verði áhrif valkosts A talsvert til veruleg neikvæð, valkosts B nokkuð til talsvert neikvæð og annarra valkosta talsvert neikvæð. Gerir Skipulagsstofnun ekki athugasemdir við niðurstöðu Landsnets um vægi áhrifa ólíkra valkosta á jarðmyndanir.

Umfjöllun í matsskýrslu um náttúrufar, m.a. jarðmyndanir, byggðist að miklu leyti á úttekt Náttúrufræðistofnunar Íslands og var umsagnar þeirrar stofnunar leitað af hálfu Skipulags­stofnunar. Þar er bent á að Náttúrufræðistofnun hafi komið að þeim rannsóknum sem umfjöllun um náttúrufar byggi á, gerðar eru lítilsháttar athugasemdir við texta um fuglalíf en ekki er bent á neitt sérstaklega um jarðminjar. Kemur fram að stofnunin telji að kostur B, jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut, sé sá valkostur sem í heild sinni hafi minnst áhrif á náttúru svæðisins, þ.m.t. landslag. Rekur Skipulagsstofnun þessa niðurstöðu umsagnarinnar í umfjöllun sinni um jarð­myndanir og vísar einnig til umsagnar Umhverfisstofnunar og að sú stofnun telji að lagning jarðstrengja á því svæði þar sem ráðgert sé að leggja Suðurnesjalínu 2 sé slæmur kostur vegna áhrifa á jarðmyndanir. Verði niðurstaðan sú að leggja jarðstreng meðfram Reykjanesbraut (valkostur B) telji Umhverfisstofnun að leggja ætti strenginn annað hvort um raskað svæði í Kapelluhrauni eða raskað svæði í Afstapahrauni en ekki um óraskað hraun í Almenningi austan Afstapahrauns. Niðurstaða Skipulagsstofnunar um þennan þátt er að óhjákvæmilegt sé að valda óafturkræfu raski á jarðmyndunum sem njóti verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga við lagningu Suðurnesjalínu 2, hvaða valkostur sem verði fyrir valinu. Stofnunin telji ekki vera grundvallarmun á áhrifum ólíkra valkosta um legu og útfærslu Suðurnesjalínu 2 hvað varði áhrif á jarðmyndanir þegar eingöngu sé horft til beins jarðrasks en ekki landslags- og ásýndaráhrifa. Varðandi beint rask á jarðmyndunum telji stofnunin þurfa að horfa til þess hverskonar jarð­myndanir og hvaða heildir verði fyrir áhrifum ekki síður en til stærðar þeirra svæða sem raskist. Út frá því telji stofnunin ekki grundvallarmun á því jarðraski sem loftlína eða jarðstrengur meðfram Suðurnesjalínu 1 og jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut hafi í för með sér. Í því tilliti telji stofnunin hins vegar ástæðu til að draga fram áhrif valkostar C þar sem hann sveigi til suðurs af leið Suðurnesjalínu 1 á svæðinu Almenningur og fari þar inn á áður óraskaða heild, á svæði sem Landsnet telji hafa hæsta verndargildi þeirra svæða sem hér eru skoðuð með tilliti til jarðmyndana. Á móti komi að við fyrri framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 hafi verið lagðir vegslóðar og mastraplön á þessu svæði og því séu bein áhrif valkostar C á jarðmyndanir á því svæði að miklu leyti þegar komin fram.

Auk þess sem Skipulagsstofnun rekur í áliti sínu kemur fram í umsögn Umhverfisstofnunar að hún telji að hafa verði í huga a-lið 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013, þ.e. að forðast verði að velja strengleið um óraskað eða lítt raskað hraun. Einnig eigi að varast að velja strengleiðir sem fari um berg eða klappir þar sem sprengja geti þurft skurði fyrir strengi með tilheyrandi óafturkræfu raski. Tæknilegar takmarkanir séu á því hversu langa jarðstrengi sé unnt að leggja á hverju svæði sem geti náð til margra háspennulína. Því telji Umhverfisstofnun að velja eigi þær strengleiðir þar sem unnt sé að leggja strengi í laus jarðlög og forðast klappir og sérstaklega eldhraun þar sem áhrif lagningar jarðstrengja verði mikil og óafturkræf. Hafa beri í huga að við lagningu jarðstrengja sé ekki unnt að víkja mikið frá beinni línu, en við lagningu háspennulína sé unnt að leggja línuvegi á þann hátt að þeir falli að landi og við slíka slóðagerð sé unnt að krækja hjá klettum og öðrum jarðminjum sem ekki sé möguleiki við lagningu jarðstrengs. Lagning jarðstrengs geti því haft verulega neikvæð áhrif á fjölbreytt yfirborð eins og í Almenningi, sem einkennist af miklum fjölbreytileika jarðminja og gróðurs, þar sem í hrauninu séu margir rishólar sem unnt sé að sneiða hjá þegar um loftlínu sé að ræða. Því telji Umhverfisstofnun að lagning jarðstrengja á því svæði þar sem ráðgert sé að leggja Suðurnesjalínu 2 sé slæmur kostur vegna neikvæðra áhrifa á jarðmyndanir sem njóti sérstakrar verndar. Um loftlínur kemur fram að stofnunin telji að í lagningu þeirra felist minnstu varanlegu umhverfisáhrifin, önnur en sjónræn, á því svæði sem Suðurnesjalína 2 liggi um og einkennist að stórum hluta af hrauni frá nútíma.

Að mati úrskurðarnefndarinnar komu fram sjónarmið í nokkuð ítarlegri umsögn Umhverfis­stofnunar sem tilefni var til fyrir Skipulagsstofnun að fjalla frekar um og taka afstöðu til. Einkum þegar litið er til þess að Skipulagsstofnun dregur fram þau áhrif valkostar C á svæðinu Almenningur þar sem hann fari inn á áður óraskaða heild, án þess að fjallað sé um það álit Umhverfisstofnunar að lagning jarðstrengs geti haft verulega neikvæð áhrif á yfirborð eins og í Almenningi, sem einkennist af miklum fjölbreytileika jarðminja og gróðurs, þar sem í hrauninu séu margir rishólar sem unnt sé að sneiða hjá þegar um loftlínu sé að ræða. Þá telur Skipulagsstofnun að horfa þurfi til þess hvers konar jarðmyndanir og hvaða heildir verði fyrir áhrifum og tekur fram að valkostur C fari inn á áður óraskaða heild, án þess að tiltaka hvers konar heild sé um að ræða, t.d. jarðfræðilega heild eða landslagsheild.

Í umfjöllun sinni um landslag og ásýnd vék Skipulagsstofnun ekki að umsögn Umhverfisstofnunar, en í henni er bent á að neikvæð áhrif loftlínu, líkt og í valkostum C og C2, á ásýnd svæðis séu óveruleg þar sem línan liggi meðfram Suðurnesjalínu 1 og beri svæðin á Njarðvíkurheiði og í Hafnarfirði merki manngerðs umhverfis með umfangsmiklum innviðamannvirkjum. Aftur á móti dregur Skipulagsstofnun fram að í umsögnum og athugasemdum nokkurra aðila sé lögð áhersla á að velja jarðstrengskosti, m.a. vegna áhrifa á landslag og ásýnd. Án þess að fjallað sé um umsögn Umhverfisstofnunar orkar sú niðurstaða Skipulagsstofnunar tvímælis að hún telji „jafnframt að munur á áhrifum á landslag og ásýnd sé meiri milli valkosta á svæðunum Strandarheiði og Njarðvíkurheiði en vægiseinkunnir Landsnets benda til, sér í lagi þar sem línan fer næst Reykjanes­braut. Stofnunin telur að sjónræn áhrif stærri loftlínu á þeim kafla, við hlið þeirrar sem fyrir er, hafi mikil áhrif á sjónræna upplifun frá fjölförnum vegi, auk þess sem þessi kafli línunnar sé í mikilli nálægð við vaxandi þéttbýli í Vogum. Á því svæði telur stofnunin mun æskilegra út frá áhrifum á landslag og ásýnd að velja jarðstrengskosti í heild eða hluta (A, B eða D).“ Í þessu sambandi tekur úrskurðarnefndin þó almennt fram að mismunandi vægiseinkunnir Landsnets og Skipulagsstofnunar gefa ekki til kynna slíka galla á mati að ógildingu varði, enda verður að telja eðlilegt að túlkun mismunandi aðila á gögnum leiði ekki alltaf til samhljóða niðurstöðu.

Niðurstaða matsskýrslu og álits Skipulagsstofnunar var á þá lund að lagning Suðurnesjalínu 2 sem loftlínu samkvæmt valkosti C hefði í heildina flest neikvæð umhverfisáhrif í för með sér miðað við aðra valkosti. Verður ekki gerð athugasemd við þá niðurstöðu en ekki skilur mikið á milli valkosta, auk þess sem nokkrir ágallar voru á áliti Skipulagsstofnunar vegna sumra þátta. Verður þó ekki litið svo á að annmarkarnir séu svo verulegir að á álitinu og fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum verði ekki byggt við afgreiðslu umsóknar um framkvæmdaleyfi. Lá enda fyrir matsskýrsla studd ítarlegum gögnum og eru uppfyllt þau grundvallarskilyrði að stofnunin veitti álit sitt á því hvort skýrslan uppfyllti skilyrði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum væri lýst á fullnægjandi hátt, sbr. 11. gr. laga nr. 106/2000. Viðkomandi sveitarstjórn bar hins vegar við málsmeðferð framkvæmdaleyfisumsóknar að kanna hvort nefndir annmarkar hefðu þýðingu við ákvörðun hennar og þá eftir atvikum að renna styrkari stoðum þar undir með frekari rannsókn og rökstuðningi, hvort sem um samþykki eða synjun umsóknarinnar væri að ræða.

Í þessu sambandi þykir einnig rétt að benda á að eftir að álit Skipulagsstofnunar lá fyrir taldi Landsnet ástæðu til að koma að ábendingu hvað varðaði þau gögn sem lágu til grundvallar umfjöllun um náttúruvá í matsskýrslu, en á þeim byggði álitið einnig. Í bréfi, dags. 28. maí 2020, tekur fyrirtækið fram að í ljósi jarðhræringa á Reykjanesi hefði það farið yfir þessa umfjöllun um náttúruvá og í ljós komið að umfjöllun um valkost B tæki ekki til allrar strengjaleiðarinnar milli Hafnarfjarðar og tengivirkis við Rauðamel á Njarðvíkurheiði. Þessi umfjöllun hefði skilað sér í áliti Skipulags­stofnunar. Áréttar fyrirtækið að enginn munur sé á legu valkosta A, B og C á vestari hluta Njarðvíkur­heiðar og vísar þar um til myndar 5 í sérfræðiskýrslu og myndar 21.6 í matsskýrslu. Því miður hefði í texta um valkost B verið gengið út frá því að hann næði eingöngu rétt inn á austasta hluta þess. Bréfið var m.a. sent þeim sveitarfélögum þar sem línan er fyrirhuguð og því rétt fyrir þær sveitarstjórnir að taka til skoðunar hvort og þá hverju þetta breytti við ákvörðun þeirra. Smávægilegur ágalli sem þessi, þar sem texta og myndum í matsskýrslu ber ekki saman, leiðir hins vegar ekki til þess að mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram að nýju, svo sem kærendur halda fram.

—–

Kemur þá til skoðunar ákvörðun sveitarstjórnar, forsendur hennar og rökstuðningur, en eins og áður hefur verið fjallað um bar sveitarstjórn skv. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga að leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar til grundvallar og taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt þágildandi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 bar sveitarstjórn einnig að taka rökstudda afstöðu til álitsins. Hefur úrskurðarnefndin áður komist að þeirri niðurstöðu að breyting á orðalagi nefndra ákvæða hafi ekki haft í för með sér þá efnisbreytingu að máli skipti, svo fremi að báðum ákvæðum sé fullnægt. Jafnframt hefur nefndin komist að þeirri niðurstöðu að álit Skipulags­stofnunar sé ekki bindandi fyrir sveitarstjórn við leyfisveitingu þótt leggja beri það til grundvallar. Til að framangreindum laga­ákvæðum verði fullnægt þarf atviksbundið mat sveitarstjórnar um leyfisveitingu hins vegar að koma fram, sem felur í sér að rökstuðningur vegna hennar verður að lágmarki að uppfylla áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings. Skal m.a. í rök­stuðningnum, að því marki sem ákvörðun byggist á mati, greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið, sbr. 1. mgr. nefndrar 22. gr. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er í athugasemdum við títtnefnda 22. gr. tekið fram að rökstuðningur stjórnvaldsákvarðana eigi að meginstefnu til að vera stuttur, en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hafi orðið sú sem raun varð á. Það fari því ávallt eftir atvikum hverju sinni hversu ítarlegur rökstuðningur þurfi að vera svo að hann uppfylli framan­greint skilyrði. Áður er greint frá því að nokkra ágalla sé að finna á mati á umhverfisáhrifum og áliti Skipulagsstofnunar þar um. Bar sveitarstjórn því m.a. að líta til þessa við afgreiðslu málsins.

Í matsskýrslu er fyrirhuguðu framkvæmdasvæði Suðurnesjalínu 2 skipt í fjögur svæði og áhrif á hvern umhverfisþátt metin innan þeirra. Svæðin eru Hafnarfjörður, Almenningur, Strandarheiði og Njarðvíkurheiði. Samkvæmt greinargerð Landsnets með framkvæmdaleyfis­umsókn er vestari hluti síðastnefnda svæðisins innan Reykjanesbæjar og er línuleiðin þar sögð vera 7,5 km löng og liggja samhliða Suðurnesjalínu 1 og Fitjalínu 1. Á línuleiðinni verði 23 möstur þar sem meðalhæð burðarmastra sé 23,1 m og meðalhæð horn-/fastmastra sé 19,6 m. Meðalhaflengd milli mastra sé 311,6 m. Rask vegna framkvæmdarinnar á yfirborði innan Reykjanesbæjar verði 1,38 ha, en þar af hafi 1,04 ha þegar verið raskað. Helstu umhverfisáhrif framkvæmdar á Njarðvíkurheiði séu á ferðaþjónustu og útivist, svo og fuglalíf. Áhrifin séu metin talsverð á ferðaþjónustu og útivist og nokkuð til talsverð á fugla. Áhrif Suðurnesjalínu 2 á vatnsvernd, jarðminjar, landslag og ásýnd, sem og vistgerðir og gróður séu metin nokkuð neikvæð.

Umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi var sem fyrr greinir samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 5. febrúar 2021 og samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 16. s.m. Við afgreiðsluna lá fyrir greinargerð, dags. í janúar 2021, svo til samhljóða því framkvæmdaleyfi sem gefið var út 4. mars s.á. Í henni er m.a. vísað til fylgigagna með umsókn, fyrirliggjandi hönnunargagna og til skipulagslegra forsendna. Tilgreind eru skilyrði leyfisveitingar, þ. á m. er vísað til greinargerðar Landsnets með umsókninni hvað mótvægisaðgerðir varðar. Er og tekið fram að framkvæmdaleyfið sé gefið út samkvæmt fyrirliggjandi og meðfylgjandi málsgögnum og með þeim fyrirvörum og skilyrðum sem þar komi fram og samkvæmt þeim lögum og reglugerðum sem vísað sé til.

Í umfjöllun um mat á umhverfisáhrifum og álit Skipulagsstofnunar segir að Reykjanesbær hafi kynnt sér matsskýrslu Landsnets og þá valkosti sem þar séu settir fram og að sveitarfélagið telji að framkvæmdin sé í samræmi við þá framkvæmd sem lýst sé í matsskýrslu. Jafnframt er vísað til þess að í fyrrgreindu áliti komi fram að matsskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Taki sveitarfélagið undir að helstu umhverfisáhrif framkvæmdar í sveitarfélaginu verði á ásýnd, landslag, fuglalíf og samfélag.

Þá er eftirfarandi tekið fram: „Sveitarfélagið tekur undir með áliti Skipulagsstofnunar um alla kosti þess að línan fari í jörðu. En með tilliti til jarðhræringa á svæðinu sem einkenndu árið 2020 og með vísan í skýrslu Suðurnesjalína 2. Náttúruvá og lega valkosta dags 28. maí 2020 og sérfræðiskýrslu Jarðvísindastofnunar um jarðvá (2018) er samþykktur loftlínukostur umfram jarðstreng vegna lifandi sprungusvæðis sem þarf að þvera yfir Njarðvíkurheiði og eldvirkni svæðisins almennt.“ Einnig: „Þjóðhagslegt mikilvægi starfsemi á Suðurnesjum er óumdeilt en Keflavíkurflugvöllur er eini fullbúni alþjóðaflugvöllur landsins og mikilvægi ferðamennsku fyrir þjóðarbúið er augljóst sérstaklega í ljósi þess samdráttar sem brast á árið 2020. Það er mat sveitarfélagsins eftir ráðgjöf færustu sérfræðinga á þessu sviði að jarðstrengur tryggir síður afhendingaröryggi en loftlína.“

Efnisleg niðurstaða sveitarstjórnar var því sú að fallast á að umhverfislegur ávinningur myndi hljótast af því að leggja Suðurnesjalínu 2 sem jarðstreng, en að sá kostur tryggði síður afhendingaröryggi en loftlína. Gögn þau sem lágu fyrir sveitarstjórn varðandi þá ályktun eru m.a. áðurgreind skýrsla Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands frá árinu 2018 sem vísað var til við afgreiðslu málsins. Í inngangi skýrslunnar kemur fram að henni sé ætlað að fara yfir hugsanleg áhrif jarðhræringa á línuleið Suðurnesjalínu 2 og sér í lagi hvaða áhrif eldgos gætu haft á viðkomandi línu. Í niðurstöðukafla skýrslunnar eru teknar saman helstu niðurstöður hættumatsins út frá einstökum línukostum og fjallað um hvern og einn þeirra með almennum hætti, en ekki er að sjá að tekin sé afstaða til þess hvaða kostur teljist ákjósanlegastur með tilliti til hættu á jarðvá. Einnig var við afgreiðslu málsins vísað til bréfs Landsnets til Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Skipulagsstofnunar og hlutaðeigandi sveitarfélaga, dags. 28. maí 2020. Þar er upplýst að komið hafi í ljós að umfjöllun um valkost B og náttúruvá í umhverfismatinu taki ekki til allrar strengleiðarinnar milli Hafnarfjarðar og tengivirkis við Rauðamel á Njarðvíkurheiði. Enginn munur sé á legu valkosta A, B og C á vestari hluta Njarðvíkurheiðar, en að í umfjöllun mats á umhverfisáhrifum um valkost B sé gengið út frá því að „hann nái eingöngu rétt inn á austasta hluta þess, áður en valkostir sameinast og fari inn á sprungusvæðið“. Í greinargerð með framkvæmdaleyfisumsókninni sem lá fyrir sveitarstjórn er greint frá frekari rýni verkfræðistofunnar Eflu í minnisblaði, dags. 2. júlí 2020, á áhrifum náttúrvár á valkosti, en niðurstaða hennar hefði verið send sveitarfélaginu. Er í greinargerðinni rakin sú niðurstaða rýninnar að gagnvart höggunarhreyfingum sé það mat verkfræðistofunnar að loftlína sé mun öruggari valkostur en jarð­strengur við þær aðstæður sem sé að finna á línuleiðinni. Hvað varði eldsumbrot og hraunrennsli sé áhættan talin mjög sambærileg fyrir skoðaða valkosti. Þar sem tíðni jarðhræringa á svæðinu með varanlegum höggunarhreyfingum eða mögnun á hreyfingu við sprungubrúnir sé umtalsvert meiri en tíðni eldgosa sé „talið rétt að miða frekar við slíka atburði við mat á líkum og jarðfræðilegri hættu“ við Suðurnesjalínu 2. Þá kemur fram í minnisblaði skipulags­fulltrúa, dags. 14. apríl 2021, sem lagt var fram við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni, að ákvörðunin hefði verið tekin út frá sérfræðiskýrslu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem sveitarfélagið hefði kynnt sér, auk þess að fara yfir innihald hennar með tveimur af höfundum hennar. Mun það hafa verið gert á fundi 2. júní 2020 samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðar­nefndin hefur aflað frá sveitar­félaginu.

Fallast má á með kærendum að sveitarstjórn hefði verið rétt í rökstuðningi sínum að gera nánari grein fyrir því í hverju fælist tilvitnuð „ráðgjöf færustu sérfræðinga á þessu sviði“ um að jarðstrengur tryggði síður afhendingaröryggi en loftlína. Að virtum þeim gögnum sem lágu fyrir sveitarstjórn voru þó haldbær þau rök um afhendingaröryggi, enda verður ekki litið fram hjá t.d. fyrrgreindu minnisblaði verkfræðistofu sem aflað var eftir að mat á umhverfisáhrifum hafði farið fram. Eru þau atvik ekki sambærileg við þau sem fjallað er um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 575/2016, enda fór fram samanburður valkosta í því tilviki sem hér um ræðir og er ekki um að ræða grundvallar­breytingu á mati á umhverfisáhrifum. Er og ljóst af rökstuðningi sveitarstjórnar að vegin voru þau neikvæðu umhverfisáhrif sem verða af lagningu Suðurnesjalínu 2 sem loftlínu og þau metin andspænis þeim hagsmunum sem felast í afhendingaröryggi. Verður hér einnig að hafa í huga að ekki ber mikið á milli í mati á umhverfisáhrifum mismunandi valkosta og að álit Skipulagsstofnunar er haldið nokkrum ágöllum hvað það mat varðar, eins og áður er lýst.

Að öllu virtu lágu málefnalegar ástæður leyfisveitingunni að baki og var álit Skipulagsstofnunar að mati úrskurðarnefndarinnar lagt til grundvallar með viðunandi hætti og rökstudd afstaða tekin til þess á ásættanlegan máta, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000.

—–

Í skipulagslögum er í 14. gr. fjallað um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldra framkvæmda, en ljóst er af orðanna hljóðan og framsetningu IV. kafla laganna að einnig gilda um slík leyfi ákvæði 13. gr., sem fjallar um framkvæmdaleyfi almennt. Kemur enda fram í athugasemdum við þá lagagrein í frumvarpi því sem varð að skipulagslögum að greinin fjalli almennt um framkvæmdaleyfi og setji fram þær kröfur sem fylgja þurfi við yfirferð og útgáfu leyfis.

Við útgáfu hins kærða framkvæmdaleyfis bar sveitarstjórn því einnig skv. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga að ganga úr skugga um að gætt hefði verið að ákvæðum laga um náttúruvernd og annarra laga og reglugerða sem við áttu. Í 61. gr. laga nr. 60/2013 er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Nær verndin m.a. til eldhrauna, gervigíga og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma, sbr. 2. mgr. ákvæðins, en í 3. mgr. er tiltekið að m.a. beri að forðast að raska jarðminjum sem taldar séu upp í 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Þá beri áður en leyfi er veitt að leita umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndar­nefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. liggi fyrir. Veitti Umhverfisstofnun umsögn sína við gerð aðalskipulags Reykjanesbæjar. Þá mun umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar m.a. fara með náttúruverndarmál, sbr. 3. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 en eins og fyrr er rakið var umsókn um framkvæmdaleyfi til umfjöllunar hjá því ráði. Bar því ekki nauðsyn til að leita frekari umsagna, sbr. 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013.

Samkvæmt matsskýrslu einkennist athugunarsvæðið af eldhraunum sem runnið hafa á nútíma og síðjökultíma, að undanskildu grágrýtissvæði með þunnum jökulruðningi frá ísöld á Njarðvíkur­heiði. Liggur því fyrir að við lagningu Suðurnesjalínu 2 verður raskað tilteknum jarðminjum sem njóta sérstakrar verndar skv. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 og í áliti sínu kemst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að óhjákvæmilegt sé að valda óafturkræfu raski á jarðmyndunum sem njóti slíkrar verndar, hvaða valkostur Suðurnesjalínu 2 sem verði fyrir valinu. Þó sé ekki grundvallar­munur á því jarðraski sem loftlína eða jarðstrengur meðfram Suðurnesjalínu 1 og jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut hafi í för með sér.

Í greinargerð sveitarstjórnar kemur fram að við afgreiðslu framkvæmdaleyfisumsóknarinnar hafi m.a. verið litið til laga nr. 60/2013 og laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Sé talið að með fyrirkomulagi framkvæmda og mótvægisaðgerðum verði dregið úr neikvæðum áhrifum á náttúru­minjar, en ekki verði rask á menningarminjum innan sveitarfélagsins. Fela mótvægisaðgerðir í sér að við hönnun línunnar verði tekið tillit til jarðmyndana og umhverfis eins og kostur sé, auk þess sem nýttir séu slóðar sem fylgi línuleið Suðurnesjalínu 1 og efnisþörf og efnisflutningum haldið í lágmarki. Áhersla er lögð á þjóðhagslegt mikilvægi starfsemi á Suðurnesjum, m.a. vegna eina alþjóða­flugvallar landsins, og er tekið fram að Reykjanesbær fallist á að um brýna nauðsyn sé að ræða vegna raforkuinnviða. Játa verður sveitarstjórn nokkuð svigrúm til mats á því hvað teljist til brýnna hagsmuna almennings og verður að telja sjónarmið um aukið raforku­öryggi málefnalegt. Að teknu tilliti til þessa verður fallist á að sveitarstjórn hafi fært næg rök fyrir því að þeir hagsmunir sem hún vísaði til feli í sér brýna nauðsyn í skilningi 61. gr. laga nr. 60/2013.

—–

Umsókn um framkvæmdaleyfi skal vera skrifleg og henni skulu fylgja gögn sem kveðið er á um í reglugerð, sbr. 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fylgdi ítarleg greinargerð, dags. september 2020. Í henni er t.a.m. fjallað um markmið framkvæmdar, mótvægisaðgerðir og vöktun umhverfisþátta og öryggis-, heilbrigðis- og umhverfisáætlun. Jafnframt er þar að finna framkvæmdalýsingu. Í umfjöllun um forsendur framkvæmdaleyfis er m.a. vikið að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og afstaða tekin til álits Skipulags­stofnunar. Einnig fylgdu umsókninni kortahefti og bréf Landsnets, dags. 28. maí 2020, vegna náttúruvár og legu valkosta. Framkvæmdaleyfisumsóknin og gögn vegna hennar fullnægði því áskilnaði 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga, sbr. og ákvæði reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Samkvæmt 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga skal sveitarstjórn við útgáfu framkvæmdaleyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Er í greinargerð framkvæmda­leyfisins vísað til þess að skipulagslegar forsendur þess séu Aðalskipulag Reykjanes­bæjar 2015-2030 og Svæðisskipulag Suðurnesja 2008-2024, en í báðum skipulagsáætlunum er að finna línuleið þá sem leyfi var veitt fyrir.

Í 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga er kveðið á um að þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu sé um að ræða framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag og í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Heimilt er að falla frá grenndarkynningu ef gerð er grein fyrir framkvæmdinni og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulagi. Nánar er fjallað um grenndarkynningu í m.a. 44. gr. skipulagslaga, sem og í 8. gr. reglugerðar nr. 772/2012.

Í greinargerð Aðalskipulags Reykjanesbæjar 2015-2030 er vikið að Suðurnesjalínu 2, m.a. í kafla 3.3.4, þar sem gerð er grein fyrir fyrirhuguðum háspennulínum. Einnig er í greinargerðinni vísað til álits Skipulagsstofnunar frá 17. september 2009 um Suðvesturlínur sem taka m.a. til Suðurnesja­línu 2. Jafnframt kemur lega línunnar fram bæði á þéttbýlis- og sveitarfélagsuppdrætti. Æskilegt hefði verið að fjalla ítarlegar um línuna í greinargerð aðalskipulagsins. Þegar litið er til fyrir­liggjandi skipulagsuppdrátta í aðalskipulaginu og nefndrar umfjöllunar þar, til Svæðis­skipulags Suðurnesja 2008-2024, sem og til fyrirhugaðrar stað­­setningar línunnar og tilgangs grenndar­kynningar, verður þó að telja að skilyrði hafi verið til þess að falla frá grenndarkynningu. Hefur þá einnig verið litið til þess að þótt um stórframkvæmd sé að ræða þá telst hún ekki óvenjuleg. Þá verður ekki talið að leita hefði þurft meðmæla Skipulags­stofnunar, sbr. 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 772/2012, líkt og kærendur telja, enda er gert ráð fyrir framkvæmdinni í aðal­skipu­lagi, eins og áður segir.

—–

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður ekki talið að hin kærða ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis vegna Suðurnesjalínu 2 samkvæmt valkosti C sé haldin þeim form- eða efnis­annmörkum að ógildingu varði og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 16. febrúar 2021 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 innan marka Reykjanesbæjar.

53/2021 Suðurnesjalína 2 Vogum

Með

Árið 2021, mánudaginn 4. október kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 24. mars 2021 um að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir 220kV Suðurnesjalínu 2.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. apríl 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Landsnet hf. þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 24. mars 2021 að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir 220kV Suðurnesjalínu 2. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Vogum 27. maí 2021.

Málavextir: Áform Landsnets um lagningu Suðurnesjalínu 2 eiga sér langan aðdraganda. Fjallað var um framkvæmdina í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Suðvestur­­lína sem lá fyrir 17. september 2009. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra veitti Landsneti heimildir til eignarnáms á nánar tilteknum jörðum vegna lagningar Suðurnesjalínu 2, en þær ákvarðanir voru felldar úr gildi með dómum Hæstaréttar, uppkveðnum 12. maí 2016, í málum nr. 511, 512, 513 og 541/2015. Ákvörðun Orkustofnunar frá 5. desember 2013, um að veita Landsneti leyfi til að reisa og reka raforkuflutningsvirkið Suðurnesjalínu 2, var felld úr gildi með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 13. október 2016, í máli nr. 796/2015.

Sveitarstjórnir Reykjanesbæjar, Grindavíkur og Sveitarfélagsins Voga, sem og skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar, veittu Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 og voru öll framkvæmdaleyfin kærð til úrskurðarnefndarinnar. Jafnframt var framkvæmda­leyfi Sveitarfélagsins Voga borið undir dómstóla og með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016 í máli nr. E-1121/2015 var greind ákvörðun sveitarfélagsins felld úr gildi. Staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu með dómi uppkveðnum 16. febrúar 2017, í máli nr. 575/2016. Taldi Hæstiréttur að sá annmarki á mati á umhverfisáhrifum sem leitt hefði til þess að áðurnefnt leyfi Orkustofnunar hefði verið fellt úr gildi og heimildir til eignarnáms hefðu verið ógiltar hefði enn verið fyrir hendi þegar framkvæmdaleyfi það sem um væri deilt í málinu hefði verið veitt. Umhverfisáhrifum jarðstrengs í samanburði við aðra framkvæmdakosti hefði samkvæmt því ekki verið lýst á fullnægjandi hátt og uppfylltu matsferlið og umhverfismatsskýrslan því ekki þann áskilnað sem gerður væri í lögum um mat á umhverfisáhrifum, skipulagslögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Samkvæmt því gætu matsskýrsla Landsnets um Suðurnesjalínu 2 og álit Skipulagsstofnunar um skýrsluna ekki verið lögmætur grundvöllur ákvörðunar sveitarfélagsins um veitingu framkvæmdaleyfisins sem samkvæmt því væri reist á röngum lagagrundvelli.

Hinn 28. mars 2017 felldi úrskurðarnefndin úr gildi áðurgreind framkvæmdaleyfi Reykjanes­bæjar, Grindavíkur og Hafnarfjarðar, með úrskurðum í málum nr. 75/2014, 42/2015 og 109/2015, með vísan til fyrrnefndrar niðurstöðu Hæstaréttar og þar sem sama matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar hefði legið til grundvallar hinum kærðu ákvörðunum. Jafnframt vísaði úrskurðarnefndin frá kærumálum nr. 73/2014, 101/2015 og 108/2015 vegna sömu fram­kvæmdar. Þá voru kærur til úrskurðarnefndarinnar vegna leyfisveitingar Sveitarfélagsins Voga afturkallaðar.

Í kjölfar þessa ákvað Landsnet að vinna nýtt mat á umhverfisáhrifum er afmarkaðist eingöngu við Suðurnesjalínu 2. Barst Skipulagsstofnun tillaga að matsáætlun vegna fyrirhugaðrar fram­kvæmdar 20. apríl 2018 og 6. júlí s.á. féllst stofnunin á tillöguna með nánar tilgreindum athuga­­semdum. Hinn 28. maí 2019 móttók Skipulagsstofnun frummatsskýrslu Landsnets um Suðurnesjalínu 2 og 20. janúar 2020 lagði Landsnet fram matsskýrslu og óskaði eftir áliti stofnunarinnar um fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í mats­skýrslunni kom m.a. fram að ein 132kV raflína, Suðurnesjalína 1, sæi um allan flutning til og frá Suðurnesjum. Lægi hún frá Hamranesi í Hafnarfirði að Fitjum í Reykjanesbæ og væri flutningsgeta línunnar um 150MW. Áformaði Landsnet að byggja 220kV raflínu, Suðurnesja­línu 2, milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja sem yrði hluti af meginflutningskerfi raforku. Stefnt væri að því að flutningsgeta Suðurnesjalínu 2 yrði a.m.k. 300MW til að mæta orkunotkun og -vinnslu til næstu áratuga. Línan myndi liggja frá tengivirki í Hamranesi í Hafnarfirði og að tengivirki á Rauðamel í Grindarvíkurbæ og færi óháð valkostum um fjögur sveitar­félög, þ.e. Hafnarfjarðarbæ, Sveitarfélagið Voga, Reykjanes­bæ og Grindavíkurbæ. Markmið framkvæmdarinnar væri að auka afhendingar­öryggi og flutningsgetu raforku­kerfisins milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja. Valkostir sem metnir hefðu verið í mati á umhverfis­áhrifum væru sex. Þeir væru jarðstrengir (valkostir A og B), loftlínur (valkostir C og C2) og blönduð leið (valkostir D og E). Aðalvalkostur Lands­nets væri valkostur C, en um væri að ræða loftlínu sem færi um Hrauntungur og lægi línan samhliða Suðurnesjalínu 1 frá sveitar­félaga­mörkum Hafnarfjarðarbæjar og Sveitar­félagsins Voga. Frá Njarðvíkurheiði að Rauða­mel lægi línan samhliða Fitjalínu 1. Jarðstengur væri í báðum endum og lengd línunnar alls um 33,9 km.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 22. apríl 2020. Í því kom fram að við þær aðstæður sem væru á áhrifasvæði framkvæmdarinnar teldi stofnunin margt mæla með því að leggja jarðstreng alla leið og þá sérstaklega valkost B meðfram Reykjanesbraut. Ávinningur af því með tilliti til umhverfisáhrifa, borið saman við loftlínuvalkosti, fælist í minni áhrifum á landslag og ásýnd, ferðaþjónustu og útivist, vistgerðir og gróður, svo og fuglalíf. Aðalvalkostur Landsnets hefði mest neikvæð áhrif allra skoðaðra valkosta á framangreinda þætti. Með tilliti til náttúruvár gæti jafnframt verið ávinningur af því að leggja línuna sem jarðstreng meðfram Reykjanesbraut fremur en sem loftlínu eða jarðstreng meðfram Suðurnesjalínu 1. Að auki mælti ýmislegt tengt byggða- og atvinnuþróun á Suðurnesjum með því að línan yrði lögð í jörð.

Í niðurstöðu sinni vék Skipulagsstofnun einnig að þingsályktun nr. 11/144 um stefnu stjórn­valda um lagningu raflína, sem og að því að ekki væri nægilegt að horfa eingöngu til kostnaðar­munar milli ólíkra útfærslna á lagningu línunnar. Taldi stofnunin mat á umhverfis­áhrifum Suðurnesjalínu 2 sýna fram á að lagning hennar sem jarðstrengs væri best til þess fallin að draga eins og kostur væri úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar, sbr. markmiðs­ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum, og að þá væri valkostur B æskilegastur. Hlutað­eigandi sveitarfélög þyrftu að taka sameiginlega ákvarðanir um það hvaða valkostur yrði endan­lega fyrir valinu þar sem þær ákvarðanir væru háðar hver annarri. Í kjölfar álits Skipulags­stofnunar sendi Landsnet bréf, dags. 28. maí 2020, um náttúruvá og legu valkosta, til Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Skipulagsstofnunar og umræddra sveitarfélaga. Einnig fól Landsnet verkfræðistofunni Eflu að vinna minnisblað vegna mats á náttúruvá vegna Suðurnesjalínu 2 og er það dagsett 2. júlí 2020.

Með umsókn, dags. 11. desember 2020, sótti Landsnet um framkvæmdaleyfi til Sveitarfélagsins Voga fyrir 220kV Suðurnesjalínu 2 í Reykjanesbæ samkvæmt valkosti C. Með umsókninni fylgdi m.a. greinargerð þar sem rakin voru markmið framkvæmdarinnar, mótvægisaðgerðir og vöktun umhverfisþátta og öryggis-, heilbrigðis- og umhverfisáætlun. Einnig voru tilgreindar forsendur framkvæmdaleyfis, svo sem samræmi Suðurnesjalínu 2 við opinberar áætlanir og stefnur. Jafnframt var þar að finna umfjöllun um valkosti og mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sem og afstaða Landsnets til álits Skipulagsstofnunar.

Í greinargerðinni er að finna eftirfarandi framkvæmdalýsingu: „Framkvæmdin er línulögn milli Hamraness í Hafnarfirði að Rauðamel í landi Grindavíkur. Frá tengivirkinu í Hamranesi er áætlað að leggja um 1,4 km jarðstreng samhliða Suðurnesjalínu 1 að Hraunhellu en þaðan fer línan í lofti í suðaustur í átt að Hrauntungum. Frá Hrauntungum liggur línan til suðvesturs og kemur að Suðurnesjalínu 1 við sveitarfélagamörk Hafnarfjarðar og Voga. Þaðan munu línurnar liggja samhliða alla leið á Njarðvíkurheiði í Reykjanesbæ. Þar fer Suðurnesjalína 2 til suðurs samhliða Fitjalínu að tengivirkinu á Rauðamel í Grindavík. Fjöldi mastra á línuleiðinni er 101 og meðalhæð þeirra 22,5 m. Að meðaltali eru 326 m á milli mastra […]. Línan kemur til með að nýta fyrirliggjandi vegslóð sem liggur meðfram núverandi línum. Fjarlægð á milli nýrrar loftlínu og eldri lína er á bilinu 40-50 m. Reiknuð flutningsgeta 220 kV loftlínu er 470 MVA. Heildarrask verður 12,55 ha og þar af 6,97 ha á óhreyfðu landi.“ Þá kom fram að Suðurnesjalína 2 væri alls um 33,9 km og myndi liggja um fjögur sveitarfélög. Lengsti hluti línunnar yrði innan Sveitarfélagsins Voga, eða 17,26 km. Stysti hluti hennar yrði innan Grindavíkurbæjar, eða 0,79 km. Innan Hafnarfjarðarbæjar færi línan um 8,38 km leið og innan Reykjanesbæjar 7,45 km. Framkvæmdin lægi að stærstum hluta á eldhrauni sem nyti sérstakrar verndar samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd. Hún næði ekki inn á frið­lýst svæði, en línuleiðin lægi meðfram og lítillega innan svæðis á náttúruminjaskrá við Hrafna­gjá í Sveitarfélaginu Vogum. Fyrirhugaðar framkvæmdir væru innan Reykjaness jarðvangs.

Í greinargerðinni var einnig tekið fram að samkvæmt stefnu stjórnvalda fyrir meginflutnings­kerfi raforku skyldi meginreglan vera sú að notast við loftlínur nema annað væri talið æski­legra, m.a. út frá tæknilegum atriðum, umhverfis- eða öryggissjónarmiðum. Valkostur B, jarðstrengur samhliða Reykjanesbraut að hluta, væri sá kostur er félli best að markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum. Þegar litið væri til annarra þátta þá væri munur á umhverfis­áhrifum valkosta B og C ekki slíkur að ganga skyldi gegn stefnu stjórnvalda, ákvæðum raforkulaga eða kerfisáætlun. Gagnvart jarðhræringum væri loftlína öruggari valkostur en jarðstrengur við þær aðstæður sem væri að finna á framkvæmdasvæði Suðurnesjalínu 2. Sú niðurstaða að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir línunni í samræmi við valkost C í mati á umhverfisáhrifum byggði á ítarlegri undirbúningsvinnu, sem fæli í sér valkostagreiningu, mat á umhverfisáhrifum, sérfræðiskýrslur, kostnaðargreiningar, samræmi við lög og reglur, stefnu stjórnvalda og samráð við hagaðila og landeigendur.

Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna lagningar Suðurnesjalínu 2 var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga 16. mars 2021 og lágu fyrir fylgigögn og lögfræðiálit tilgreindrar lögfræðistofu, dagsett sama dag. Í fundargerð nefndarinnar segir: „Skipulags­nefnd Sveitarfélagsins Voga telur mikilvægt að standa vörð um þá stefnu sem áður hefur verið mótuð á vettvangi bæjarstjórnar, um að Suðurnesjalína 2 skuli lögð í jörð. Í ljósi jarðhræringa undanfarið og hugsanlegrar náttúruvár er það mat nefndarinnar að mikilvægt sé að Suðurnesjalína 1 og 2 séu ekki báðar loftlínur hlið við hlið. Þess í stað álítur nefndin mikilvægt að Suðurnesjalína 2 verði lögð sem jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut. Með því móti er áhætta sem kann að verða af völdum náttúruhamfara minnkuð. Þá er þessi valkostur jafnframt í samræmi við álit Skipulagsstofnunar. Skipulagsnefnd leggur því til við bæjarstjórn að staðið verði við fyrri ákvörðun, um leið og stjórnvöld eru hvött til að fallast á tillögu sveitarfélagsins um að strengurinn skuli lagður í jörð.“ Mun fyrri ákvörðun vísa til afgreiðslu bæjarstjórnar á fundi 24. júní 2019 þar sem samþykkt var umsögn um frummatsskýrslu vegna Suðurnesjalínu 2 og bókað að bæjarstjórn legði til að línan yrði lögð í jörð í stað loftlínu.

Á fundi bæjarstjórnar 24. mars 2021 var ákvörðun skipulags­nefndar staðfest og eftirfarandi bókað um umfjöllun og afgreiðslu bæjarstjórnar á umsókn Landsnets: „Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hefur kynnt sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og telur að framkvæmdin sé sú sama og lýst er í matsskýrslu. Bæjarstjórn fellst á þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að matsskýrsla Landsnets um Suðurnesjalínu 2 uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Þá hefur bæjarstjórn kynnt sér fyrirliggjandi umsókn, meðfylgjandi gögn og álit Skipulagsstofnunar frá 22. apríl 2020 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Bæjarstjórn hefur jafnframt kynnt sér nefnda umsögn lögfræðistofu um erindið, dags. 16. febrúar 2021, og samþykkir hana og gerir að sinni umsögn um málið auk eftirfarandi afgreiðslu og rökstuðnings.“ Einnig var bókað að umsókn Landsnets væri hafnað með vísan til lögfræðiálitsins, dags. 16. febrúar 2021, og frekari rökstuðnings og sjónarmiða sem væru að mestu leyti í samræmi við rökstuðning sem fram kæmi í niðurstöðukafla álits Skipulagsstofnunar. Segir enn fremur í bókun bæjarstjórnar: „Í ljósi framangreinds sé það niðurstaða bæjarstjórnar að umhverfismat Suðurnesjalínu 2 sýni að lagning línunnar sem jarðstrengs sé best til þess fallin að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar, sbr. markmiðsákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Æskilegasti framkvæmdakosturinn sé því valkostur B meðfram Reykjanes­braut en ekki valkostur C sem sótt hefur verið um. Ábendingar Landsnets um villur í mati Skipulagsstofnunar um áhrif jarðskjálfta á jarðstreng og ný gögn um að loftlína sé öruggari valkostur en jarðstrengur í „höggunarhreyfingum“ breyta ekki niðurstöðu bæjarstjórnar.“

Hafnarfjarðarbær, Reykjanesbær og Grindavíkurbær hafa samþykkt framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 samkvæmt valkosti C. Hafa greindar ákvarðanir einnig sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar, og eru þau kærumál nr. 41/2021, 46/2021 og 57/2021.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að um starfsemi fyrirtækisins gildi að meginstefnu til raforkulög nr. 65/2003. Varðandi þá framkvæmd er hin kærða ákvörðun lúti að sé einnig vísað til matsskýrslu kæranda frá september 2019, þar sem sé að finna heildstæða umfjöllun hans um rök fyrir framkvæmdinni og lýsingu á undirbúningi hennar. Framkvæmdin hvíli á opinberri stefnumótun stjórnvalda, sbr. þingsályktanir nr. 11/144 og 26/148. Það sé ekki á valdi kæranda, sveitarstjórnar sem leyfisveitanda eða Skipulagsstofnunar í umfjöllunum um mats­skýrslu kæranda að breyta þeim viðmiðum sem þar séu sett fram. Sveitarstjórn hafi við ákvörðun sína litið fram hjá þýðingu þessarar opinberu stefnumörkunar, auk þess sem skort hafi á rökstuðning fyrir því á grundvelli hvaða heimilda leyfisveitandi geti virt að vettugi opinbera stefnumótun um mikilvæga innviðauppbyggingu landsins, sem jafnframt byggi á lögbundnum sjónarmiðum í raforkulögum. Einnig hafi verið litið fram hjá lögbundnum kostnaðarviðmiðum og tekjumörkum sem kæranda beri að fara eftir. Kærandi sé bundinn af kerfisáætlun sem samþykkt sé af Orkustofnun. Líkt og kærandi sé leyfisveitandi framkvæmdaleyfis bundinn af ákvæðum raforkulaga að þessu leyti. Í niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar sé fjallað um mismunandi umhverfisáhrif jarðstrengs og loftlínu, en munur á sjónrænum áhrifum þessara tveggja kosta liggi í augum uppi. Mat á umhverfisáhrifum fjalli um mun fleiri atriði og aðalniðurstaða í áliti Skipulagsstofnunar sé að mati kæranda sú að umfjöllun um alla valkosti sé málefnaleg og í samræmi við ákvæði laga þar um. Ekkert útiloki framkvæmdina að lögum og í ljósi þess sé kærandi bundinn af lögum sem um starfsemi hans gildi, m.a. því að framkvæmdin sé samþykkt af Orkustofnun í kerfisáætlun.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi borið að fjalla málefnalega um framkvæmdina í heild. Slík umfjöllun hefði að mati kæranda leitt til þeirrar niðurstöðu að leyfisveitanda bæri að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir hinni lögbundnu og lögmætu framkvæmd við flutningskerfi raforku, sem teljist til mikilvægustu innviða samfélagsins. Það hafi ekki verið gert í hinni kærðu ákvörðun. Á kæranda sé lögð sú lagaskylda að byggja flutningskerfi raforku upp á hagkvæman hátt, m.a. að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni og áreiðanleika afhendingar. Um sé að ræða lögbundin sjónarmið sem byggja beri á í ákvörðunum um uppbyggingu flutningskerfisins og sé Orkustofnun í raforkulögum falið að hafa eftirlit með að farið sé eftir þeim sjónarmiðum við gerð kerfisáætlunar. Í matsskýrslu og áliti Skipulagsstofnun sé m.a. fjallað um náttúruvá, en í niðurstöðukafla álits stofnunarinnar komi m.a. fram að með tilliti til náttúruvár geti ávinningur verið af því að leggja línuna sem jarðstreng meðfram Reykjanesbraut frekar en sem loftlínu eða jarðstreng meðfram Suðurnesjalínu 1. Þetta hafi verið á misskilningi byggt og kærandi komið upplýsingum um það á framfæri um leið og tilefni hafi verið til.

Í niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar og afgreiðslu sveitarstjórnar komi fram það mat að ávinningur af því að leggja jarðstreng meðfram Rekjanesbraut með tilliti til umhverfisáhrifa borið saman við loftlínukost felist í minni áhrifum á landslag og ásýnd, ferðaþjónustu og útivist, vistgerðir og gróður og fuglalíf. Jafnframt að aðalvalkostur kæranda, lagning loftlínu samkvæmt valkosti C, hafi mest neikvæð áhrif allra valkosta á framangreinda þætti. Hvorki í niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar né í hinni kærðu ákvörðun sé hins vegar fjallað um að sá valkostur að leggja jarðstreng meðfram Reykjanesbraut sé talinn hafa meiri áhrif á jarðminjar en aðalvalkostur kæranda. Þá sé ekki vikið að því að Umhverfisstofnun telji í umsögn sinni um frummatsskýrslu að lagning jarðstrengja á því svæði sem fyrirhugað sé að leggja Suðurnesjalínu 2 sé slæmur kostur vegna áhrifa á jarðmyndanir. Þá sé bent á að Umhverfisstofnun hafi eftirlit með framkvæmd laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og skv. 5. mgr. 61. gr. þeirra skuli leyfisveitandi rökstyðja það sérstaklega ákveði hann að heimila framkvæmd sem fari í bága við umsagnir umsagnaraðila.

Markmiðum með mati á umhverfisáhrifum sé lýst í 1. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Eitt þessara markmiða sé að tryggja að áður en leyfi sé veitt fyrir framkvæmd, sem kunni vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgi, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Óumdeilt sé að í máli þessu sé þetta skilyrði uppfyllt hvað varði Suðurnesjalínu 2.

Annað mikilvægt markmið laganna, sem eigi sér einnig samsvörun í raforkulögum, sé að draga eins og kostur sé úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Orðalagið „eins og kostur sé“ vísi til mats þeirra sem lögbundna ábyrgð beri á framkvæmd á niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum framkvæmdar annars vegar og hins vegar öðrum þáttum sem í tilviki Suðunesjalínu 2 ráðist bæði af lögum og lögmætum sjónarmiðum, öðrum en umhverfisáhrifum. Við útgáfu framkvæmdaleyfis beri m.a. að líta til kostnaðarþátta. Þannig komi t.d. fram í forsendum Hæstaréttar í máli nr. 511/2015 að kostnaður við framkvæmdir teljist ekki til umhverfisáhrifa í skilningi laga nr. 106/2000 þótt fjárhagsleg sjónarmið geti ráðið úrslitum um endanlega ákvörðun um þær. Að sama skapi beri að líta til opinberrar stefnumótunar sem einnig taki mið af kostnaðarþáttum ásamt öðru, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 193/2017 um Kröflulínu 4. Þar hafi verið bent á að löggjafinn hefði mælt fyrir um helstu sjónarmið sem líta beri til við ákvörðun um hvernig flutningskerfi raforku væri byggt upp. Hefði því einnig verið hafnað að þingsályktun nr. 11/144 væri þýðingarlaus við úrlausn málsins.

Á bls. 18 í greinargerð með framkvæmdaleyfisumsókn sé að finna skýra og rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar þar sem fjallað sé um aðra þætti sem taka þurfi afstöðu til við útgáfu framkvæmdaleyfis. Nefna megi að í matsskýrslu sé gerð grein fyrir kostnaðarmun hinna ýmsu valkosta sem metnir hafi verið. Stofnkostnaður við jarðstreng sem lýst sé í valkosti B sé 4.358 m.kr. en stofnkostnaður við framkvæmdina sem sótt sé um sé 2.329 m.kr. Einnig komi fram í greinargerðinni að Suðurnesjalína 2 sé á samþykktri þriggja ára framkvæmdaáætlun í kerfisáætlun 2018-2027. Leyfi Orkustofnunar liggi því fyrir um framkvæmdina og um leið heimild til nýtingar fjármuna í verkefnið.

Í lögfræðiáliti því sem bæjarstjórn hafi gert að sínu við töku hinnar kærðu ákvörðunar komi fram að sveitarstjórn geti synjað umsókn um framkvæmdaleyfi, en þá þurfi að rökstyðja slíka synjun á grundvelli lögmætra og málefnalegra sjónarmiða. Í hinni kærðu ákvörðun sé hvergi að finna fullyrðingar eða rökstuðning þess efnis að kæranda sé unnt að eigin frumkvæði að ákveða að verja 2.000 m.kr. meira í kostnað í nauðsynlega styrkingu meginflutningskerfisins til Suðurnesja með lagningu jarðstrengs. Verði því að leggja til grundvallar og álykta að ekki sé neinn ágreiningur um að framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni sem sótt hafi verið um og sem hin kærða ákvörðun lúti að sé sú lausn á þessu brýna vandamáli í meginflutningskerfinu sem kærandi geti út frá lög­bundnum skyldum sínum og lögmætum sjónarmiðum, m.a. opinberri stefnumótun, lagt til. Í hina kærðu ákvörðun vanti allan rökstuðning um af hverju litið sé fram hjá áhrifum hennar á kostnaðarþætti sem bundnir séu af lögum og varði alla raforkunotendur í landinu. Sé um verulegan annmarka að ræða sem leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Líkt og áður greini beri kæranda samkvæmt lögum að byggja flutningskerfi raforku upp á hagkvæman hátt m.a. að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni og áreiðanleika afhendingar. Í niðurstöðukafla álits Skipulagsstofnunar komi fram að ávinningur geti verið af því að leggja línuna sem jarðstreng meðfram Reykjanes­braut fremur en sem loftlínu eða jarðstreng meðfram Suðurnesjalínu 1 með tilliti til náttúruvár. Þetta sé á misskilningi byggt og hafi verið lögð fram frekari gögn varðandi áhrif jarðhræringa á jarðstrengi. Kærandi telji að í ljósi áðurgreindra lögboðinna sjónarmiða í raforkulögum hafi sveitarstjórn borið að taka rökstudda afstöðu til þessara gagna, en það hafi ekki verið gert.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000 skuli Skipulagsstofnun gefa rökstutt álit sitt á því hvort matsskýrsla framkvæmdaraðila um mat á umhverfisáhrifum uppfylli skilyrði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Í 2. mgr. sömu greinar segi að telji Skipulagsstofnun að setja þurfi frekari skilyrði fyrir framkvæmdinni eða að gera þurfi aðrar eða frekari mótvægisaðgerðir en fram komi í matsskýrslu skuli stofnunin tilgreina skilyrðin og mótvægisaðgerðir og færa rök fyrir þeim. Sama komi fram í 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Hinn 20. janúar 2020 hafi kærandi lagt fram matsskýrslu um Suðurnesjalínu 2 og óskað eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 11. gr. laga nr. 106/2000. Þar sé mat á umhverfis­áhrifum framkvæmdarinnar dregið saman og mat kæranda á framkvæmdakosti í ljósi þess.

Aðalvalkostur kæranda um Suðurnesjalínu 2 sé í fullu samræmi við stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Gert sé ráð fyrir loftlínu á stærstum hluta leiðarinnar í samræmi við stefnu stjórnvalda um að notast skuli við loftlínur í meginflutningskerfinu. Með vísan til niðurstaðna mats á umhverfisáhrifum og samanburðar á umhverfisáhrifum aðalvalkostar og annarra valkosta sé ekki tilefni til þess að vikið sé frá þeirri stefnu stjórnvalda, sér í lagi þar sem kostnaður vegna loftlínu sé mun lægri en við jarðstreng. Þrátt fyrir að áhrif aðalvalkostar séu meiri en annarra valkosta þá sé sá munur ekki það mikill að hann réttlæti val á mun dýrari valkosti. Kæranda beri að byggja raforkukerfið upp á hagkvæman hátt og sé aðalvalkostur mun ódýrari en jarðstrengskostir. Kostnaður við framkvæmdir teljist ekki til umhverfisáhrifa í skilningi laga nr. 106/2000 en fjárhagsleg sjónarmið geti skipt máli við endanlegt val. Fyrir liggi niðurstaða um aðalvalkost sem byggð sé á málefnalegu og hlutlægu mati þar sem bornir hafi verið saman ólíkir valkostir og sé matið fullnægjandi grundvöllur útgáfu leyfa.

Þegar litið sé til 11. gr. laga nr. 106/2000 og 2. mgr. 26. gr. reglugerðar 660/2015 komi skýrt fram hvert hlutverk Skipulagsstofnunar sé, þ.e.a.s. að gefa rökstutt álit á því hvort matsskýrsla framkvæmdaraðila um mat á umhverfisáhrifum uppfylli skilyrði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim. Í álitinu komi fram að matsskýrslan uppfylli umrædd skilyrði og sé það meginniðurstaða álitsins. Umfjöllun Skipulagsstofnunar um kostnaðarmun valkosta, rétt­lætingu fyrir vali á dýrari kosti, ráðstöfun jarðstrengskvóta og óljósum framtíðaráformum um flugvöll í Hvassahrauni, sem hvorki séu á skipulagi né tekin hafi verið formleg ákvörðun um, falli hins vegar tæplega undir mat á umhverfisáhrifum eða hvort matsskýrsla framkvæmdaraðila uppfylli skilyrði laga og reglugerða. Benda megi á að Hæstiréttur hafi staðfest að kostnaður við framkvæmdir teljist ekki til umhverfisáhrifa í skilningi laga nr. 106/2000. Í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga segi að sveitarstjórn skuli leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar til grundvallar við ákvörðun um útgáfu framkvæmda­leyfis. Hlutverk Skipulagsstofnunar sé skýrt og lögbundið. Í ljósi mikilvægis álits Skipulags­stofnunar þegar komi að útgáfu framkvæmdaleyfis verði ekki séð að stofnunin hafi heimild til að binda álitið öðrum skilyrðum en þeim er snúi beinlínis að mati á umhverfisáhrifum og séu lög og reglugerðir skýr um þetta. Af sömu ástæðum verði ekki séð að sveitarstjórn sé heimilt að rökstyðja ákvörðun sína eða skilyrða hana með röksemdum eða skilyrðum Skipulagsstofnunar sem snúi ekki að mati á umhverfisáhrifum heldur öðrum þáttum sem falli utan valdbærni stofnunarinnar. Verði að gera þá kröfu til sveitarstjórnar að hún, á grundvelli 14. gr. skipulags­laga, vegi og meti þau sjónarmið sem fram komi í áliti Skipulagsstofnunar saman við önnur lögmæt sjónarmið sem líta beri til. Það hafi ekki verið gert við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Í áliti Skipulagsstofnunar komi fram sú skoðun hennar að jarðstrengur sé heppilegri framkvæmd og í þeirri umfjöllun séu rakin atriði sem hvorki heyri undir mat á umhverfis­áhrifum né valdbærni stofnunarinnar. Verði leyfisveitendur að greina milli slíkra ábendinga Skipulagsstofnunar og lögbundinnar afstöðu í áliti hennar um mat á umhverfisáhrifum. Bent sé á að hin raunverulega niðurstaða álits Skipulagsstofnunar sé að málsmeðferð kæranda hafi verið í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000 og að umhverfisáhrifum aðalvalkostar sé þar lýst með fullnægjandi hætti.

Samkvæmt 8. tl. 1. mgr. 2. gr. skipulagslaga sé með framkvæmdaleyfi átt við leyfi til fram­kvæmda í samræmi við skipulag sem séu ekki háðar ákvæðum laga um mannvirki. Framkvæmdaleyfi sé stjórnvaldsákvörðun. Ekki verði hins vegar séð að útgáfa slíks leyfis sé í eðli sínu skipulagsákvörðun en leyfið skuli gefa út að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þ. á m. því skilyrði að framkvæmd sem leyfi sé gefið fyrir samræmist ákvörðunum er teknar hafi verið um skipulag.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. b í raforkulögum hafi Orkustofnun það hlutverk að fara yfir og samþykkja kerfisáætlun kæranda með hliðsjón af markmiðum um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Suðurnesja­lína 2 sé á þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar kæranda fyrir árin 2021-2023, sem samþykkt hafi verið af Orkustofnun. Í 5. mgr. 9. gr. a í raforkulögum komi fram að nánari útfærsla kæranda á mannvirkjum vegna uppbyggingar flutningskerfisins, svo sem hvort um sé að ræða raflínu í jörð eða loftlínu, ráðist af stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Að sama skapi sé kæranda skylt að byggja flutningskerfið upp í samræmi við stefnu stjórnvalda. Núverandi stefna sé sett fram í þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína nr. 11/144 frá 28. maí 2015. Í þingsályktuninni sé útskýrt til hvaða viðmiða eigi að líta þegar ákvörðun sé tekin um það hvort leggja eigi jarðstrengi eða loftlínur. Orkustofnun sé bundin af þessari stefnu stjórnvalda þegar hún meti hvort framkvæmdir/valkostir í kerfisáætlun séu í samræmi við ákvæði raforkulaga, enda sé vísað beint í stefnu stjórnvalda í þeim lögum. Meginreglan sem komi fram í stefnu stjórnvalda sé að notast skuli við loftlínur nema annað sé talið hagkvæmara eða æskilegra, m.a. út frá umhverfis- eða öryggissjónarmiðum. Miða eigi við að leggja skuli jarðstreng ef kostnaður við hann sé ekki meira en tvöfaldur á við kostnað við loftlínu og sýnt að jarðstrengurinn hafi umhverfislegan ávinning. Sé um að ræða framkvæmd í þéttbýli, á friðlandi, sem verndað sé sökum sérstaks landslags, eða innan flugöryggissvæðis flugvalla sé heimilt að kostnaður vegna jarðstrengs sé meira en tvöfaldur á við loftlínu.

Í 9. gr. c í raforkulögum sé fjallað um stöðu kerfisáætlunar gagnvart skipulagi sveitarfélaga. Þar komi m.a. fram að sveitarstjórnum beri að tryggja að skipulagsáætlanir hindri ekki framgang þeirra verkefna sem séu í staðfestri þriggja ára framkvæmdaáætlun. Um málsmeðferð sam­kvæmt greininni fari að öðru leyti samkvæmt skipulagslögum, eftir því sem við eigi, að teknu tilliti til stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og um uppbyggingu flutnings­kerfis raforku. Þótt útgáfa framkvæmdaleyfis falli strangt til tekið ekki undir hugtakið „skipulagsákvörðun“ þá skyti það skökku við ef sveitarstjórn gæti án viðunandi röksemda hafnað útgáfu framkvæmdaleyfis og þannig hindrað framgang þeirra verkefna sem séu í staðfestri þriggja ára framkvæmdaáætlun. Í raun megi velta fyrir sér hvort sveitarstjórn hafi yfir höfuð val um hvort gefa eigi út framkvæmdaleyfi, séu skilyrði laga og reglugerða fyrir útgáfu leyfisins uppfyllt, sbr. grein Páls Hreinssonar um „Framkvæmdaleyfi“.

Samkvæmt 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga skuli sveitarstjórn við útgáfu framkvæmdaleyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Jafnframt skuli sveitarstjórn ganga úr skugga um hvort gætt hafi verið ákvæða laga um náttúruvernd og annarra laga og reglugerða sem við eigi. Þá segi að sveitarstjórn sé heimilt að binda framkvæmd skilyrðum sem sett séu í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir. Samkvæmt þessu beri sveitarstjórn að gæta að ákvæða laga um náttúruvernd en einnig annarra laga og reglugerða sem við eigi. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 193/2017 hafi verið deilt um ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um eignarnám vegna lagningar 220kV háspennulína, svonefndra Kröflu­lína 4 og 5. Í héraðsdómi, sem staðfestur hafi verið af Hæstarétti með vísan til forsendna, hafi því sjónarmiði verið hafnað að þingsályktun nr. 11/144 væri þýðingarlaus við úrlausn málsins.

Draga megi þá ályktun af framangreindu að sveitarstjórn geti í ákvörðun sinni vegna framkvæmdaleyfisumsóknar ekki látið hjá líða að fjalla um og taka afstöðu til allra þeirra sjónarmiða sem löggjafinn hafi mælt fyrir um að líta beri til við ákvörðun um hvernig flutningskerfi raforku skuli byggt upp.

Eitt af markmiðum Landsskipulagsstefnu 2015-2026 sé að tryggja örugga afhendingu raforku um leið og tekið sé tillit til náttúru og landslags. Við ákvörðun kæranda um uppbyggingu bættrar tengingar hafi farið fram mat á þörf fyrir uppbyggingu í samræmi við markmið landsskipulags­stefnu. Ekki sé fjallað um áhrif eða vægi landsskipulagsstefnu á aðrar skipulagsáætlanir og sé það verulegur annmarki á hinni kærðu ákvörðun. Þá sé hin kærða ákvörðun í ósamræmi við Svæðisskipulag Suðurnesja 2008-2024 og sé á engan hátt rökstutt hvaða sjónarmið eða heimildir liggi þar til grundvallar. Hvað varði Aðalskipulag Sveitarfélagsins Voga 2008-2028 þá hafi kærandi gert grein fyrir því að framkvæmdin fylgdi línuleið sem þar komi fram. Þessi línuleið sé einnig í samræmi við rétthærri skipulagsákvarðanir sem bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga sé bundin af. Ekki sé að finna í hinni kærðu ákvörðun rökstuðning fyrir því hvað heimili leyfisveitanda að sniðganga fyrri og rétthærri skipulagsákvarðanir sem bindi hann að lögum, en fyrir liggi að umsókn kæranda hafi verið í samræmi við svæðis- og aðalskipulag. Ekki verði séð að nauðsynlegt hefði verið að grenndarkynna umsókn um framkvæmdaleyfi, eins og fram komi í umsögn tilgreindrar lögfræðistofu, dags. 16. febrúar 2021, þar sem framkvæmdinni sé vel lýst í aðalskipulagi.

Ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga byggi á matsskýrslu og umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi, umsögn nefndrar lögfræðistofu, sem bæjarstjórn hafi gert að sinni, áliti Skipulagsstofnunar sem bæjarstjórn hafi gert að sínu, og aðalskipulagi sveitarfélagsins. Helstu rök fyrir synjun umsóknar séu umhverfissjónarmið, kostnaðar- og landnýtingarsjónar­mið, auk öryggissjónarmiða. Bæjarstjórn taki sjónarmið beint upp úr áliti Skipulagsstofnunar án þess að vikið sé að sjálfstæðri rannsókn eða skoðun sveitarfélagsins á þeim þáttum, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í 3. mgr. 14. gr. skipulagslaga segi að sveitarstjórn geti bundið fram­kvæmdaleyfi þeim skilyrðum sem fram kunni að koma í áliti Skipulagsstofnunar, að svo miklu leyti sem aðrir sem veiti leyfi til framkvæmda samkvæmt sérlögum hafi ekki tekið afstöðu til þeirra. Ekki verði séð að sveitarstjórn geti á grundvelli þessa ákvæðis rökstutt ákvörðun sína með rökum Skipulagsstofnunar er snúi ekki að mati á umhverfisáhrifum, líkt og áður hafi verið rakið. Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hafi rökstutt niðurstöðu sína með því að stjórnvaldinu væri heimilt að synja framkvæmdaleyfisumsókn kæranda, einvörðungu með vísan til álits Skipulagsstofnunar. Í umsókn kæranda hafi komið fram að hann teldi að búið væri að uppfylla öll skilyrði fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis. Það hafi verið mat bæjarstjórnar að sú framkvæmd sem sótt hafi verið um og lýst væri í umsókn og fylgiskjölum væri ein af þeim framkvæmdaleiðum sem lýst sé í matsskýrslu. Þá hafi bæjarstjórn tekið undir niðurstöðu Skipulagsstofnunar um að matsskýrsla kæranda uppfyllti skilyrði laga og reglugerða. Þannig hafi að mati bæjarstjórnar hvorki verið ágallar á umsókn um framkvæmdaleyfi né málsmeðferð vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í greinargerð þeirri sem bæjarstjórn hafi gert að sinni komi fram það álit að sveitarstjórn beri ekki skylda að lögum til að samþykkja umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi enda geri aðal­skipulag m.a. ráð fyrir öðrum möguleika á legu línunnar, þ.e.a.s. jarðstreng meðfram Reykjanesbraut. Þá sé það niðurstaða Skipulagsstofnunar að lagning línunnar sem jarðstrengs sé best til þess fallin að draga eins og kostur sé úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar samkvæmt markmiðsákvæðum laga nr. 106/2000.

Í greinargerðinni, sem bæjarstjórn hafi gert að sinni, skorti mun ítarlegri umfjöllun um þau lögmætu og málefnalegu sjónarmið sem henni beri að líta til og taka mið af í rökstuðningi sínum. Svo virðist sem einblínt sé á umhverfisþáttinn, en það sé þó alls ekki fullnægjandi umfjöllun að mati kæranda og skorti samanburð að því leyti. Hafi ekki verið horft til þess að munur á umhverfisáhrifum valkosta sé ekki stórvægilegur og að jarðstrengur raski hrauni meira en loftlína. Á þetta bendi Umhverfisstofnun í umsögn sinni, en ekki virðist litið til þess í rökstuðningi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga.

Í rökstuðningi bæjarstjórnar komi fram að afstaða hennar ætti ekki að koma kæranda á óvart, enda hafi hún verið opinber allt frá 2008. Áhersla bæjarstjórnar á lagningu jarðstrengs komi m.a. fram í samkomulagi sem kærandi hafi gert við sveitarfélagið hinn 17. október 2008. Í samkomulaginu hafi verið fjallað um að jarðstreng ætti að skoða ef kostnaður við lagningu breyttist verulega. Að mati bæjarstjórnar hafi sú breyting sem orðið hafi á kostnaði verið veruleg og jarðstrengur út frá því raunhæfur valkostur. Vegna þessa bendi kærandi á að 2. gr. samningsins kveði á um heimild fyrirtækisins til að leggja loftlínur, 220kV, og að það muni síðar taka til athugunar lagningu jarðstrengja í stað loftlína ef forsendur breytist verulega. Til skýringar á því hvað teljist verulega breyttar forsendur sé eftirfarandi tilgreint í nefndri 2. gr. samningsins: „i. Að heildar­kostnaður við jarðstrengi lækki frá því sem nú sé og verði sambærilegur við heildarkostnað háspennulína (loftlína) á hverjum tíma, að teknu tilliti til stofn- og rekstrarkostnaðar, rekstraröryggis dreifikerfis og skuldbindinga um uppitíma kerfisins. ii. Að lögum verði breytt svo fyrirtækinu verði gert skylt að leggja jarðstrengi í stað loftlína sem þá séu í notkun á sambærilegu svæði og í Sveitarfélaginu Vogum, að teknu tilliti til heildarkostnaðar, spennu, rekstraröryggis og skuldbindinga um uppitíma. iii. Að samfelld byggð þróist á næstu 20 árum frá því flutningskerfið sé tekið í notkun að háspennulínurnar hamli verulega frekari þróun byggðar.“ Einnig hafi verið tekið fram að þrátt fyrir breytingar á forsendum megi háspennulínur sem komið hafi verið upp standa í a.m.k. 20 ár frá því flutningskerfið er tekið í notkun. Komi fram að um sé að ræða þróun íbúðabyggðar fyrst og fremst.

Við ákvörðun um útgáfu leyfis til matsskyldrar framkvæmdar, líkt og þeirrar er hér um ræði, skuli leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar til grundvallar, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000. Leyfisveitandi skuli enn fremur taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð sé grein fyrir samræmi milli þess og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og rökstyðja sérstaklega ef í leyfinu sé vikið frá niðurstöðu álitsins. Í tilskipun 2014/52/ESB komi fram að í ákvörðun um að synja um leyfi til framkvæmda skuli tilgreina meginástæður fyrir synjuninni. Í hinni kærðu ákvörðun sé ekki gerð athugasemd við lögmæti framkvæmdarinnar. Fram komi hins vegar það mat bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga að æskilegasti framkvæmdakosturinn sé valkostur B meðfram Reykjanesbraut, en ekki valkostur C, sem kærandi hafi sótt um framkvæmdaleyfi fyrir en verið synjað um. Ekki verði séð að nægilega skýrt sé að vísa til þeirrar meginástæðu að leyfisveitanda hugnist annar valkostur betur en sá sem sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi fyrir.

Stjórnsýslulög séu grundvallarlög um framkvæmd stjórnsýslu og óumdeilt sé að þau gildi um ákvarðanir sem sveitarfélög, sem stjórnvöld, taki einhliða um rétt og/eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds. Mikilvægt sé að stjórnvöld vandi til verka við undir­búning stjórnvaldsákvarðana og gæti að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga. Það hafi ekki verið gert í þessu máli og hafi málsmeðferð bæjarstjórnar verið haldin verulegum annmörkum. Í fyrsta lagi hafi kæranda ekki gefist færi á að nýta sér andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, áður en ákvörðun hafi verið tekin. Bæjarstjórn hafi látið kanna lögmæti umsóknarinnar en ekki hafi verið leitað eftir umsögn eða andmælum kæranda. Í öðru lagi hafi ekki verið gætt að rannsóknarskyldu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Bæjarstjórn hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni varðandi ábendingu um ítarlegri upplýsingar sem vörðuðu umfjöllun í áliti Skipulagsstofnunar um áhrif jarðskjálfta á jarðstrengi. Í þriðja lagi hafi ekki verið gætt að jafnræðisreglu, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Hin kærða ákvörðun sé til þess fallin að hafa mikil áhrif á íbúa Suðurnesja enda sé styrking flutningskerfisins ein meginforsenda fyrir uppbyggingu á Suðurnesjum. Sveitarfélagið Vogar hafi hagað málum á þann veg að íbúar Suðurnesja sitji ekki við sama borð, hvað varði raforkuflutning og styrk flutningskerfisins, og íbúar nærliggjandi svæða. Í fjórða lagi hafi ekki verið gætt að meðalhófsreglu, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Bæjarstjórn hafi mátt vera ljóst að sú framkvæmd sem sótt hafi verið um væri í samræmi við skilyrði laga og reglugerða. Í umfjöllun um meðalhóf verði einnig að taka tillit til hins mikla kostnaðar sem kærandi hafi lagt út vegna undirbúnings framkvæmdarinnar í samræmi við lögbundnar skuldbindingar sínar. Ekki verði séð að heimilt hafi verið að taka hina kærðu ákvörðun, sem sé jafn íþyngjandi og um ræði, enda sé hægt að ná lögmætu markmiði sem grundvallist m.a. á raforkulögum með öðru og vægara móti.

Þrjú sveitarfélög hafi gefið út framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni Suðurnesjalína 2, 220kV háspennulína, hvert þeirra innan viðkomandi lögsagnarumdæmis á grundvelli sömu lagaraka og vísað sé til í greinargerð kæranda með framkvæmdaleyfisumsókn þeirri sem hafnað hafi verið. Einnig komi Minjastofnun og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja að málsmeðferð vegna útgáfu leyfa. Framkvæmdin nái yfir fjölmargar jarðir sem séu í eigu einstaklinga, lögaðila og opinberra aðila. Miðað við fyrir­liggjandi jarðamörk, sem séu ónákvæm, fari loftlína um 18,1 km af landi í eigu opinberra aðila, 9,7 km í eigu lögaðila og 5,5 km í eigu einstaklinga. Samningum sé lokið við flesta landeigendur.

Málsrök Sveitarfélagsins Voga: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að málsástæða kæranda um að ekki hafi verið litið til lögbundins hlutverks hans sé óskýr og því erfitt að ráða í hvað kærandi eigi nákvæmlega við og til hvers hann sé nákvæmlega að vísa. Verði málsástæðan ekki skilin öðruvísi en svo að byggt sé á því að sveitarfélagið hafi, vegna tilvísaðra þingsályktana, ekki átt annan kost en að veita framkvæmdaleyfi fyrir þeirri línuleið sem sótt hafi verið um. Ekki sé þó gerð nánari grein fyrir því hvernig sú niðurstaða sé fengin. Slík regla verði alls ekki leidd af umræddum þingsályktunum, sem séu í raun stefnu­yfirlýsingar Alþingis. Þær svipti sveitarfélög hins vegar hvorki sjálfsákvörðunarrétti sem þeim sé veittur af stjórnarskrárgjafanum skv. 78. gr. stjórnarskrárinnar né skipulagsvaldi því sem þeim sé falið af Alþingi með skipulagslögum. Af réttarheimildafræði leiði að jafnvel þótt slík ótvíræð stefnumörkun kæmi fram í umræddum þingsályktununum, sem hún geri ekki, hefði það ekki haft nein áhrif á heimild sveitarfélagsins til að afgreiða umþrætta umsókn eins gert hafi verið. Lögum verði ekki breytt með þingsályktun og því síður með kerfisáætlun. Væri málflutningur kæranda réttur væri engin þörf á mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda né leyfisveitingum sveitarfélaga um framkvæmdaleyfi.

Í áliti tilgreindrar lögfræðistofu, dags. 16. febrúar 2021, og öðrum gögnum málsins, sé fjallað um fram­kvæmdina í heild. Sveitarfélagið hafi hins vegar ekki átt þess kost að hafa samráð um afgreiðslu málsins við önnur sveitarfélög sem framkvæmdin varði, svo sem Skipulagsstofnun hafi lagt til, þar sem þau hefðu þá þegar lokið við að afgreiða málið fyrir sitt leyti án samráðs við Sveitarfélagið Voga.

Vegna tilvísunar til álits Skipulagsstofnunar um að ávinningur geti verið af því að leggja línuna sem jarðstreng vegna náttúruvár og að það hafi verið á misskilningi byggt sem hafi verið leiðréttur, sé á það bent að ekki sé um það deilt í málinu að kærandi hafi aflað frekari gagna um þetta atriði og lagt fram í málinu. Bæjarstjórn hafi kynnt sér þessi gögn við afgreiðslu umsóknarinnar, eins og fram komi í bókun vegna afgreiðslu málsins á fundi bæjarstjórnar 24. mars 2021. Þau hafi hins vegar ekki breytt því mati að leggja ætti línuna sem jarðstreng, m.t.t. sömu sjónarmiða og Skipulagsstofnun hefði vísað til. Tilvísun til þess að slík lína kynni að vera öruggari m.t.t. náttúruvár hefði ekki verið meginforsenda þess að Skipulagsstofnun hefði talið að leggja ætti línuna í jörðu heldur hefði það verið vegna umhverfisáhrifa. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar segi um þetta: „Jafnframt getur verið ávinningur af því að leggja línuna sem jarðstreng meðfram Reykjanesbraut fremur en sem loftlínu eða jarðstreng meðfram Suðurnesjalínu 1 með tilliti til náttúruvár.“

Í gögnum málsins sé lýst áhrifum hinna mismunandi leiða á jarðminjar. Í áliti Skipulags­stofnunar, sbr. kafla 3.1 um Jarðmyndanir, segi orðrétt: „Óhjákvæmilegt er að valda óafturkræfu raski á jarðmyndunum sem njóta verndar samkvæmt 61. gr. laga um náttúruvernd við lagningu Suðurnesjalínu 2, hvaða valkostur sem verður fyrir valinu. Enginn valkostanna veldur hinsvegar raski á svæðum á náttúruminjaskrá (C-hluta), en þau svæði hafa jafnframt verið skilgreind sem áhugaverðir jarðminjastaðir af Reykjanesjarðvanginum.“ Þá komi fram: „Skipulagsstofnun gerir ekki athugasemdir við niðurstöðu Landsnets um vægi áhrifa ólíkra valkosta á jarðmyndanir. Skipulagsstofnun telur ekki vera grundvallarmun á áhrifum ólíkra valkosta um legu og útfærslu Suðurnesjalínu 2 hvað varðar áhrif á jarðmyndanir þegar eingöngu er horft til beins jarðrasks en ekki landslags- og ásýndaráhrifa […].“ Loks segi: „Varðandi beint rask á jarðmyndunum telur stofnunin þurfa að horfa til þess hverskonar jarðmyndanir og hvaða heildir verða fyrir áhrifum ekki síður en til stærðar þeirra svæða sem raskast. Út frá því telur stofnunin ekki grundvallarmun á því jarðraski sem loftlína eða jarðstrengur meðfram Suðurnesjalínu 1 og jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut hefur í för með sér. Í því tilliti telur stofnunin hinsvegar ástæðu til að draga fram áhrif valkostar C þar sem hann sveigir til suðurs af leið Suðurnesjalínu 1 á svæðinu Almenningur og fer þar inn á áður óraskaða heild, á svæði sem Landsnet telur hafa hæsta verndargildi þeirra svæða sem hér eru skoðuð með tilliti til jarðmyndana. Á móti kemur að við fyrri framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 voru lagðir vegslóðar og mastraplön á þessu svæði og því eru bein áhrif valkostar C á jarðmyndanir á því svæði að miklu leyti þegar komin fram. Hvaða valkostur sem verður fyrir valinu þarf að mati Skipulagsstofnunar að kappkosta við endanlega verkhönnun og framkvæmdir að halda raski á jarðmyndunum í algjöru lágmarki.“

Skipulagsstofnun hafi þannig í fyrsta lagi fallist á mat kæranda sjálfs á áhrifunum. Í annan stað hafi stofnunin ekki talið vera grundavallarmun á áhrifum leiðanna þegar eingöngu væri litið til jarðrasks. Áhrifin væru hins vegar meiri þegar kæmi að landslagi og ásýnd. Um áhrifin á jarðmyndanir sé því líka fjallað í kafla 3.2. í áliti Skipulagsstofnunar sem fjalli um landslag og ásýnd.

Sveitarfélagið átti sig ekki á tilvísun kæranda til umsagnar Umhverfisstofnunar en bendi á að í úttekt Náttúrufræðistofnunar Íslands á náttúrufari, í viðauka við matsskýrslu, segi í kafla 5.1 að áhrif framkvæmda á jarðminjar verði annars vegar bein áhrif á jarðmyndunina og hins vegar áhrif á heild og ásýnd myndunarinnar. Þessi áhrif séu svo mismunandi eftir tegund jarðminja. Hraun séu frábrugðin flestum öðrum gerðum jarðlaga að því leyti að þau séu nýmyndaður berggrunnur með upprunalegt yfirborð. Yfirborðið sé afar viðkvæmt fyrir raski og allt rask sé óafturkræft. Þetta eigi við bæði á smáum og stórum skala, svo sem um hraunreipi á yfirborðsskorpu, formgerðir og stakar hraunmyndanir og um heildarásýnd og landslag hraunsins. Yfirborð annarra jarð­myndana sé yfirleitt annað hvort rofflötur eða virkur setmyndunarflötur. Yfirborðið sjálft sé því ekki eins viðkvæmt fyrir raski og auðveldara sé að lagfæra slíkt. Komi fram að skoðuð hafi verið áhrif þess að leggja loftlínur annars vegar og jarðstreng hins vegar. Rask vegna lagningar loftlína felist annars vegar í beinu raski við gerð línuvegar og mastrastæða og hins vegar í áhrifum mastra og lína á ásýnd jarðmyndunar á stærri mælikvarða. Rask við lagningu jarðstrengs felist fyrst og fremst í beinu raski á yfirborði við gerð línuvegar ásamt greftri eða fleygun línuskurðs, sem verði rúmlega 1 m á breidd og dýpt. Línuvegur fyrir Suðurnesjalínu 1 sé um 5 m breiður og fylgi landslagi. Ef farin væri leið C, loftlína, yrði sami línuvegur notaður nema innan sveitarfélagsins Hafnarfjarðar þar sem línan lægi sunnar. Þegar hafi verið lagður línuvegur og mastrastæði mestalla þá leið. Beint rask á jarðmyndunum vegna þessarar leiðar felist því aðallega í gerð nýrra mastrastæða á þeim hluta leiðarinnar sem sé í Sveitarfélaginu Vogum. Hins vegar verði áhrif á ásýnd jarðmyndana veruleg.

Í úttekt Náttúrufræðistofnunar Íslands segi enn fremur: „Ef farin er leið A, verður lagður jarð­strengur í línugötu meðfram Suðurnesjalínu 1. Gert er ráð fyrir að nýta fyrirliggjandi línuvegi að miklu leyti, en sums staðar þurfi að færa þá eitthvað. Landsnet áætlar að rasksvæði við lagningu jarðstrengs verði 8–14 m breitt belti, hugsanlega minna. Ætla má að beint rask á yfirborði hrauna verði talsvert meira við lagningu jarðstrengs en við lagningu loftlínu. Hins vegar eru áhrif af lagningu loftlínu á ásýnd hraunanna á stærri mælikvarða miklu meiri en áhrif af lagningu jarðstrengs. Ef farin er leið B, verður lagður jarðstrengur við Reykjanesbraut stóran hluta leiðarinnar. Á Njarðvíkurheiði myndi hann þó fylgja Suðurnesjalínu 1 og við Rauðamel, suðvestur af Straumsvík, er gert ráð fyrir að hann liggi til suðurs frá Reykjanesbraut að Suðurnesjalínu 1. Reykjanesbraut er að lágmarki 50 m breitt raskbelti og ljóst er að ef strengurinn er lagður innan þess, þá verði áhrif á hraun engin. Það er þó ekki ljóst enn hvar við Reykjanesbraut strengurinn mun liggja, en þó eru vísbendingar um að Vegagerðin krefjist þess að hann verði furðu langt frá vegkanti. Þess vegna er hugsanlegt að lagning jarðstrengs verði til þess að breikka raskbelti Reykjanesbrautar um nokkra metra. Vissulega er æskilegra að nýta þegar raskað svæði undir jarðstreng, en þrátt fyrir það, þá má segja að það breyti tiltölulega litlu hvort raskbelti Reykjanesbrautar sé 50 eða 55 m breitt. Því má segja að þessi leið hafi langminnst áhrif á hraun og ásýnd þeirra á línuleiðinni. Á þessu er þó ein mikilvæg undantekning. Skammt austan við Rauðamel, suðvestur af Straumsvík, er gert ráð fyrir að strengurinn verði lagður í óraskað helluhraun með tilkomumiklum rissléttum. Þessi hluti hraunsins hefur mjög hátt verndargildi. Hægt væri að draga verulega úr heildaráhrifum vegna þessarar leiðar með því að finna aðra leið frá Reykjanesbraut að Suðurnesjalínu.“

Alls ekki sé rétt að sá kostur sem sótt hafi verið um hafi minni áhrif á jarðmyndanir en jarðstrengur, eins og kærandi haldi fram. Áhrifin séu sambærileg þegar komi að jarðraski en mun meiri af loftlínu hvað varði landslag og ásýnd. Áhrifin verði enn minni sé jarðstrengur lagður meðfram Reykjanesbraut, eins og sveitarfélagið vilji. Engin þörf hafi verið á að fjalla sérstaklega um þennan þátt í niðurstöðum Skipulagsstofnunar eða við afgreiðslu sveitarstjórnar umfram það sem gert hafi verið. Engin lagaskylda standi til þess.

Hvorki í lögum um mat á umhverfisáhrifum, ákvæðum skipulagslaga né annarra laga sem málið varði sé lögð sú skylda á leyfisveitanda að taka með beinum hætti tillit til eða taka sérstaklega til umfjöllunar kostnað við einstakar framkvæmdir eða mismunandi leiðir við töku ákvarðana við útgáfu framkvæmdaleyfis af þeim toga sem hér sé til umfjöllunar. Því sé þó ekki andmælt að kostnaðarsjónarmið geti vel talist málefnaleg við slíka ákvarðanatöku. Fleiri sjónarmið séu þó líka málefnaleg, t.a.m. þau sem fram komi í niðurstöðukafla álits Skipulagsstofnunar og sveitarfélagið hafi byggt á við ákvörðun sína, eins og bókun þess sýni. Það að ekki hafi verið tekin rökstudd afstaða til kostnaðarsjónarmiða geti ekki leitt til ógildingar á ákvörðun.

Í áðurnefndu lögfræðiáliti sé ítarlega gerð grein fyrir viðbótargögnum um áhrif jarðhræringa. Í bókun bæjarstjórnar frá 24. mars 2021 sé vikið að þessu. Þar segi m.a. í lokin: „Ábendingar Landsnets um villur í mati Skipulags­stofnunar um áhrif jarðskjálfta á jarðstreng og ný gögn um að loftlína sé öruggari valkostur en jarðstrengur í gagnvart „höggunarhreyfingum“ breyta ekki niðurstöðu bæjarstjórnar.“

Skipulagsstofnun hafi í áliti sínu ekki farið út fyrir valdsvið sitt að lögum. Hvað sem því líði hafi sveitarfélaginu a.m.k. verið heimilt að leggja sömu sjónarmið og Skipulagsstofnun fjalli um, og vísað sé til í kæru, til grundavallar ákvörðun sinni um synjun eða samþykki leyfisins, svo sem gert hafi verið, enda um lögmæt og málefnaleg sjónarmið að ræða. Í því sambandi sé bent á að kærandi sjálfur haldi því fram í kæru að honum hafi borið að líta til kostnaðarsjónarmiða. Niðurstaða Skipulagsstofnunar og þar með sveitarfélagsins byggist á sjónarmiðum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna, svo sem lög um mat á umhverfis­áhrifum geri ráð fyrir.

Eins og kærandi bendi sjálfur á sé framkvæmdaleyfi ekki skipulagsáætlun. Viðkomandi skipulagsáætlanir fari ekki í bága við landsskipulagsstefnu. Í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga 2008-2028 sé gerð grein fyrir tveimur möguleikum á tengingu raflína um sveitarfélagið, þ.e. um jarðstreng meðfram Reykjanesbraut og um línu samhliða Suðurnesjalínu, sem séu leiðir B og C samkvæmt matsáætlun kæranda.

Í Landsskipulagsstefnu 2015-2026 sé lögð áhersla á að skipulag gefi kost á uppbyggingu flutningsmannvirkja raforku sem tryggi örugga afhendingu. Um leið sé lögð áhersla á að orkuflutningsmannvirki falli sem best að annarri landnotkun og landslagi. Við skipulags­ákvarðanir um lagningu raflína skuli leitast við að velja þann kost sem valdi minnstum neikvæðum umhverfisáhrifum. Auk framangreindra áherslna, sem settar séu fram í lands­skipulagsstefnu, snerti lagning Suðurnesjalínu 2 ýmsar aðrar áherslur sem einnig komi fram í sömu stefnu. Megi þar nefna áherslu á að skipulag stuðli að eflingu ferðaþjónustu og varðveiti þau gæði sem séu undirstaða ferðaþjónustu. Ekki verði gengið að óþörfu á svæði sem séu verðmæt vegna náttúruverndar og leitast verði við að varðveita náttúrugæði sem hafi stað­bundið eða víðtækara gildi út frá náttúrufari. Einnig að skipulag stuðli að öryggi almennings gagnvart náttúruvá. Sveitarfélagið telji að aðalskipulag þess taki því mið af landsskipulagi enda sé gert ráð fyrir tveimur línuleiðum í gegnum sveitarfélagið. Hin kærða ákvörðun sé jafnframt í samræmi við landsskipulag, eins og að framan greini, enda verði að vega og meta einstaka þætti við slíkar ákvarðanir. Umhverfissjónarmið hafi verið sett á oddinn við ákvörðunartökuna.

Þeir valkostir um legu og útfærslu Suðurnesjalínu 2 sem fylgi Suðurnesjalínu 1 séu í samræmi við svæðisskipulagið. Valkostur B, þ.e. jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut, sé hins vegar ekki í samræmi við svæðisskipulagið og kalli á breytingu á því verði hann valinn. Það leiði þó ekki til þess að hin kærða ákvörðun verði ógildanleg.

Í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga sé mörkuð stefna um að nýjar raflínur verði lagðar í jörð, þar sem því verði við komið. Jafnframt að þar sem raflínur verði ofanjarðar verði leitast við að draga úr sjónrænum áhrifum þeirra eins og frekast sé kostur. Í umsögn sveitarfélagsins um frummatsskýrslu Landsnets hafi verið áréttað að lagning jarðstrengs sé sá kostur, sem lögð sé megináhersla á af hálfu sveitarfélagsins varðandi Suðurnesjalínu 2. Ljóst sé að valkostir B, C og E í matsskýrslu kæranda séu í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins. Afgreiðsla sveitarfélagsins sé því ekki í ósamræmi við skipulag heldur taki hún einmitt mið af stefnumörkun þess og sé í samræmi við hana og aðalskipulag.

Við ákvörðun um hvort veita beri leyfi til framkvæmda sem háð sé mati á umhverfisáhrifum beri leyfisveitanda að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og leggja álit Skipulags­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar til grundvallar skv. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skuli leyfis­veitandi taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð sé grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Þá skuli hann rökstyðja sérstaklega ef í leyfinu sé vikið frá niðurstöðu álitsins. Í því tilviki sem hér um ræði hafi það verið gert.

Útgáfu leyfisins hafi verið synjað á grundvelli lögmætra og málefnalegra sjónarmiða. Sveitarfélagið hafi tekið ákvörðun í samræmi við niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar og sú ákvörðun verið rökstudd. Sveitarfélaginu hafi ekki borið nein skylda til að rökstyðja ákvörðun sína ítarlegar en það hafi gert. Það eigi aðeins við ef vikið sé frá niðurstöðu Skipulagsstofnunar, sbr. framangreint lagaákvæði. Engin lagaskylda hafi heldur hvílt á sveitarfélaginu til að fjalla á fræðilegan hátt um tengsl kerfisáætlunar og skipulagsáætlana, eins og kærandi haldi fram. Málsmeðferð hafi því verið í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000.

Því sé mótmælt að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga eða stjórnsýsluréttar. Bent sé á að kveðið sé á um málsmeðferð umsóknar, líkt og hér um ræði, í ákvæðum laga nr. 106/2000 og skipulagslaga, auk stjórnvaldsreglna settra á grundvelli þeirra. Málið hafi hlotið þá meðferð sem lögin geri ráð fyrir.

Minnt sé á að málið stafi frá kæranda. Allar upplýsingar hafi legið fyrir í málinu til að hægt væri að taka afstöðu til þess og hafi þær allar komið frá kæranda. Engin þörf hafi verið á að veita kæranda sérstaklega möguleika á að tjá sig frekar um málið, enda hefðu ekki verið lögð fram nein ný gögn önnur en lögfræðiálit, sem hafi í raun verið samantekt og yfirferð á fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum, einkum umsókn kæranda. Engar nýjar upplýsingar hafi komið fram í því áliti sem nauðsynlegt hafi verið að fá afstöðu kæranda til eða veita honum tækifæri til að tjá sig um.

Sérstaklega sé mótmælt að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu við afgreiðslu málsins, enda hafi kæranda ekki verið mismunað á neinn hátt m.t.t. sjónarmiða um jafnræði. Tilvísun til þess að afgreiðslan hafi falið í sér brot gegn íbúum Suðurnesja sé þýðingarlaus, enda snúi umrædd ákvörðun ekki að lögvörðum hagsmunum þeirra.

Því sé jafnframt mótmælt að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um meðalhóf. Málsástæða þessi sé raunar óskýr. Þó sé bent á að ekki hafi verið annar kostur að lögum en að afgreiða umsóknina eins og hún hafi legið fyrir með samþykki eða synjun. Ekki hafi verið hægt að samþykkja eitthvað annað en sótt hafi verið um eða að breyta umsókn kæranda. Kæranda sé hins vegar frjálst að sækja um breytta framkvæmd vilji hann það.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að ekki hafi verið litið til raforkulaga nr. 65/2003 í umfjöllun sveitarfélagsins sem því megi þó vera ljóst að sé órjúfanlegur þáttur umfjöllunar um stefnu stjórnvalda í formi þingsályktana og ákvarðana sem felist í kerfisáætlun Landsnets og samþykki Orkustofnunar þar að lútandi. Skipulagsvald sveitarfélaga sæti margvíslegum takmörkunum þrátt fyrir sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga, s.s. vegna ákvæða vegalaga nr. 80/2007 og vegna rammaáætlunar, svo nefnd séu dæmi. Í raforkulögum felist veigamikil ákvæði um uppbyggingu raforkukerfisins, sem sé einn mikilvægasti liður í grunnkerfi samfélagsins. Raforkulög geri ráð fyrir að sveitarfélögum sé skylt að haga efni þeirra skipulagsáætlana, sem þau setji á grundvelli skipulagslaga, til samræmis við efni kerfisáætlunar, sem sett sé samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, sem sett sé á grundvelli 39. gr. a í sömu lögum, sbr. 5. og 6. mgr. 9. gr. a. Það vald sem sveitarfélögum sé falið með 78. gr. stjórnarskrárinnar feli einnig í sér ábyrgð sem felist m.a. í því að taka gaumgæfilega til skoðunar það lagaumhverfi sem framkvæmd, sem óskað sé leyfis fyrir, byggi á.

Framsetning hvað varði skort á samráði sé sérkennileg og röng. Eins og gerð hafi verið grein fyrir í kæru hafi kærandi umfram lagaskyldu lagt sig fram við að hafa samráð við leyfisveitendur áður en leyfisbeiðni hafi verið lögð fram. Þá hafi verið haldnir sérstakir samráðsfundir með öðrum sveitarfélögum að frumkvæði Sveitarfélagsins Voga vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Benda megi sérstaklega á sameiginlega fundi sveitarfélaganna um framkvæmdina sem haldnir hafi verið sumarið 2020.

Umsögn Umhverfisstofnunar sé hluti af þeim gögnum sem hafi fylgt leyfisumsókn kæranda og hafi sveitarfélaginu því verið í lófa lagið að kynna sér viðkomandi gagn. Rétt sé að minna á að munur sé á verndarákvæðum í 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, er snúi annars vegar að jarð­myndunum (eldhraunum) og hins vegar að landslagi og ásýnd. Í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 60/2013 sé í athugasemdum við 61. gr. sérstaklega fjallað um þetta. Þar segi að náttúrufyrirbærin eldhraun séu frábrugðin flestum öðrum gerðum jarðlaga að því leyti að þau séu nýmyndaður bergrunnur með upprunalegt yfirborð sem sé afar viðkvæmt fyrir raski og sé allt rask óafturkræft. Verndargildi hrauna lækki við rask og veðrun og því hafi yngri hraun almennt hærra verndargildi en eldri hraun.

Í umfjöllun um áhrif á jarðmyndanir í mati á umhverfisáhrifum, m.t.t. verndarviðmiða laga um náttúruvernd, þurfi að greina í sundur mat á áhrifum á jarðmyndunina sjálfa, sem njóti formlegrar verndar, og svo hins vegar á landslag og ásýnd. Mat á landslagi og ásýnd í matsskýrslu hafi m.a. tekið mikið af gildi ákveðinna svæða, þ.m.t. verndargildis, t.d. eldhrauns á grundvelli framangreindra laga. Við mat á grunnástandi landslags hafi verndun jarðmyndana verið tekin með í reikninginn, en stór hluti allra línuleiðavalkosta fari um eldhraun. Aðalvalkostur fari að örlitlum hluta innan náttúruminjasvæðis við Seltjörn, sem sé ekki sérstaklega verndað vegna landslags.

Kærandi meti áhrif á landslag og ásýnd þau sömu af jarðstreng og loftlínu innan Sveitarfélagsins Voga, á Strandaheiði og Njarðvíkurheiði. Skipulagsstofnun sé ekki sammála þessu í sínu áliti og telji sjónræn áhrif loftlínu meiri og vísi þá sérstaklega til sjónrænnar upplifunar frá fjölförnum vegi og vaxandi þéttbýli í Vogum. Kærandi sé sammála því að fleiri muni sjá loftlínu en jarðstreng frá þessum svæðum sem í dag séu hluti af röskuðu mannvirkjabelti. Þó vanti rökstuðning fyrir því hvernig tenging sé gerð í áliti Skipulagsstofnunar um áhrif valkosta á jarðminjar yfir á vægismat um landslag og ásýnd. Sýnileg loftlína sé afturkræf framkvæmd og því ekki um að ræða varanlega ásýndarbreytingu á landslagi sem njóti ekki formlegrar verndar. Aftur á móti sé rask sem jarðstrengur valdi á hrauni, sem njóti verndar samkvæmt lögum nr. 60/2013, óafturkræf framkvæmd.

Lögð hafi verið fram gögn sem sýni að valkostur C, aðalvalkostur, valdi minna raski en aðrir kostir á óhreyfðu landi, sem innan Sveitarfélagsins Voga og Hafnarfjarðarkaupstaðar séu að mestu eldhraun. Vegna athugasemda Náttúrufræðistofnunar Íslands sé bent á að stofnunin miði ekki við réttar upplýsingar þegar hún nefni að skurðstæði jarðstrengs sé 1 m að breidd. Í matsskýrslu komi fram að raskbelti vegna jarðstrengs verði á bilinu 8-12 m. Samráð við Vegagerðina, sem fjallað sé um í kafla 6.5. í matsskýrslu, hafi leitt í ljós að jarðstrengur yrði um 10 m frá vegkanti. Því sé það aðeins á fáeinum stöðum þar sem raskbelti Reykjanesbrautar og jarðstrengs fari saman.

Sveitarfélagið sé bundið af ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 við útgáfu framkvæmdaleyfis eða eftir atvikum synjun þess, þ.m.t. 1. gr. laganna. Þar komi fram m.a. að markmið laganna sé að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi sé haft að leiðarljósi. Kærandi sjái þess ekki stað að höfð hafi verið hliðsjón af þessari lagaskyldu við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Hin kærða ákvörðun sé ekki í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins og þær forsendur sem það hvíli á. Í því sambandi sé bent á umsögn umhverfis- og skipulagsnefndar Sveitar­félagsins Voga frá haustinu 2009 þar sem m.a. sé bent á að ekki sé gert ráð fyrir byggð sunnan Reykjanesbrautar á skipulagstímanum og ekkert bendi til þess að byggð þróist þar á þeim tíma. Hefði því ekki verið talið að hægt yrði að verða við kröfum um að línan yrði lögð í jörðu. Ekki sé rökstutt að þessu leyti í hinni kærðu ákvörðun af hverju framkvæmdaleyfis­umsókn sem hvíli á aðalskipulagi sé hafnað.

Kærandi telji mikilvægt að minna á 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmda­leyfi þar sem komi fram að framkvæmdaleyfi veiti ekki heimild til framkvæmda sem brjóti í bága við skipulagsáætlanir og ákvæði laga og reglugerða eða rétt annarra. Tilvísun í ákvæði laga og reglugerða sýni að leyfisveitandi geti ekki einskorðað ákvarðanatöku sína við álit Skipulagsstofnunar, líkt og gert hafi verið. Ljóst sé einnig að aðalskipulag skuli vera í samræmi við svæðisskipulag, en þess sé ekki gætt í hinni kærðu ákvörðun. Þá sé bent á að horft sé fram hjá þeirri stefnu í landsskipulagsstefnu að skipulagsákvarðanir um raforkuflutningsmannvirki geri kleift að tryggja örugga afhendingu raforku, um leið og tekið sé tillit til áhrifa á náttúru og landslag.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar hafi á engan hátt hamlað því að veitt yrði framkvæmdaleyfi í samræmi við umsókn kæranda. Um sé að ræða íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem nauðsyn­legt hafi verið að rökstyðja, líkt og fjallað sé um í kæru.

Óumdeilt sé að þörf sé á styrkingu raforkuflutningskerfisins á Suðurnesjum og að sú aðgerð sé brýn. Ákvæði raforkulaga séu sett til verndar raforkunotendum, en umrædd framkvæmd sé mikilvæg raforkunotendum á svæðinu. Ákvörðun sveitarstjórnar hafi raunar áhrif á alla raforkunotendur landsins og þótt hún skýli sér á bak við það að aðrir íbúar Suðurnesja hafi ekki lögvarða hagsmuni af ákvarðanatöku hennar þá hafi sveitarstjórn borið að líta til þeirra lögbundnu atriða sem starfsemi kæranda byggi á og feli m.a. í sér að gæta hagsmuna allra landsmanna þegar komi að raforkuöryggi.

Í landsskipulagsstefnu segi: „Skipulagsákvarðanir um raforku­flutningsmannvirki geri kleift að tryggja örugga afhendingu raforku, um leið og tekið er tillit til áhrifa á náttúru og landslag. Við skipulagsákvarðanir um nýja orkuvinnslukosti og lagningu raflína verði lagt mat á umhverfisáhrif, þar á meðal sjónræn áhrif, og leitast við að velja þann kost sem valdi minnstum neikvæðum umhverfisáhrifum.“ Kærandi hafi með breytingum á framkvæmd og mótvægisaðgerðum dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum kosts C. Jafnframt tryggi sá kostur best örugga afhendingu raforku og því hafi beiðni um framkvæmdaleyfi fyrir þessum aðalvalkosti verið lögð fram. Sveitarfélagið hafi eingöngu horft til sjónarmiða um umhverfisáhrif en ekki öryggis við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 24. mars 2021 að synja umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu 220kV Suðurnesjalínu 2 sem loftlínu samkvæmt aðalvalkosti C og einskorðast lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar við þá ákvörðun.

Þegar teknar eru ákvarðanir um stórframkvæmdir á borð við lagningu háspennulína sem liggja munu um nokkur sveitarfélög er að mörgu að huga. Í aðdraganda slíkra framkvæmda fer fram málsmeðferð hjá mis­munandi stjórnvöldum á grundvelli ýmissa laga, m.a. raforkulaga nr. 65/2003, skipulagslaga nr. 123/2010 og þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfis­áhrifum, nú laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, auk þess sem ávallt þarf að gæta ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. raforkulaga er það hlutverk flutningsfyrirtækis, þ.e. Landsnets, að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhend­ingar, gæða raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Markmið raforkulaga er að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og skal í því skyni m.a. stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku, tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda, auk þess að taka tillit til umhverfissjónarmiða. Loftlínur til flutnings á raforku með 66kV spennu eða hærri eru ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. tl. 3.08 í 1. viðauka við þágildandi lög nr. 106/2000. Markmið þeirra laga er m.a. að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Mat á umhverfisáhrifum er því hluti af þeirri rannsókn sem fram fer áður en til leyfisveitingar kemur. Í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 er kveðið á um að sveitarstjórn fari með stjórn sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 8. gr., og að sveitarfélögum sé skylt að annast þau verkefni sem þeim séu falin í lögum, sbr. 1. mgr. 7. gr. Samkvæmt skipulagslögum veitir sveitarstjórn leyfi til framkvæmda, s.s. þeirrar sem hér um ræðir, en meðal markmiða þeirra laga er að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þannig er í lögum kveðið á um hvaða málsmeðferð skuli viðhafa í aðdraganda línulagnar, hvaða hlutverki hvert stjórnvald gegni í þeirri málsmeðferð og að hvaða markmiðum sé stefnt.

Kærandi teflir því m.a. fram að ónógt tillit hafi verið tekið til ákvæða raforkulaga við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og skjóti skökku við að sveitarstjórn geti án viðhlítandi röksemda synjað um fram­kvæmdaleyfi þegar litið sé til 9. gr. c í raforkulögum. Samkvæmt þeirri lagagrein beri sveitar­­stjórnum við næstu endurskoðun aðalskipulags, og eigi síðar en innan fjögurra ára frá samþykkt kerfisáætlunar, að samræma skipulagsáætlanir vegna verkefna í staðfestri tíu ára kerfisáætlun. Sveitarstjórnum beri enn fremur að tryggja að skipulagsákvarðanir hindri ekki framgang þeirra verkefna sem séu í staðfestri þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Ákveða skuli legu flutningslína í skipulagi að fenginni tillögu flutningsfyrirtækisins í samræmi við kerfisáætlun, að höfðu samráði þess og skipulagsyfirvalda. Hvað varðar lagningu Suðurnesjalínu 2 er í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga 2008-2028 bæði gert ráð fyrir loftlínu og jarðstreng, en í málinu er ekki ágreiningur um að framkvæmdin sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir sé í samræmi við framangreint skipulag. Þá er ljóst að samkvæmt orðanna hljóðan tekur ákvæði 9. gr. c til ákvarðana um skipulag en ekki til ákvarðana um framkvæmdaleyfi.

Í 2. mgr. framangreindrar 9. gr. c er tekið fram að um málsmeðferð samkvæmt lagagreininni fari að öðru leyti samkvæmt skipulagslögum eftir því sem við eigi, að teknu tilliti til stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og um uppbyggingu flutningskerfis raforku og markmiða kerfisáætlunar. Um framkvæmdaleyfi er fjallað í 13.-15. gr. skipulagslaga, en skv. 1. mgr. 13. gr. skal afla fram­kvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Eru skilyrði þess að framkvæmdaleyfi verði veitt nánar rakin í ákvæðum 13. gr. laganna og einnig í 14. gr. þeirra hvað matsskyldar framkvæmdir varðar. Skipulagslög gera því ráð fyrir því að endanleg ákvörðun um samþykkt framkvæmdaleyfis sé í höndum sveitarstjórna og eðli máls samkvæmt taka þær líka ákvörðun um synjun umsóknar um slíkt leyfi.

Löggjafinn hefur ákveðið það fyrirkomulag sem að framan er lýst, þ.e. að skipulagsvaldið hvíli hjá sveitarstjórn, sem gæta lögum samkvæmt að hagsmunum íbúa sveitarfélagsins og að almanna­hagsmunum, en að Landsneti beri m.a. að líta til sjónarmiða um kostnað og öryggi. Löggjafinn hefur enn fremur kveðið á um að samráð þurfi milli Landsnets og skipulagsyfirvalda í aðdraganda ákvörðunar um legu flutningslína í skipulagi, sbr. 9. gr. c í raforkulögum. Engin úrræði er hins vegar að finna í raforkulögum ef það samráð leiðir ekki til þess að framkvæmdaleyfi sé veitt, en slík úrræði er t.a.m. að finna í 28. gr. vegalaga nr. 80/2007.

Samkvæmt 78. gr. stjórnarskrárinnar skulu sveitarfélög sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Í þessu birtist svonefnd sjálfstjórn sveitarfélaga, sem áréttuð er í 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga, en þar segir að landið skiptist í sveitarfélög sem sjálf ráði málefnum sínum á eigin ábyrgð. Í frumvarpi því sem varð að sveitarstjórnarlögum kemur fram að það hafi verið meginsjónarmið við gerð frumvarpsins að tryggja bæri ríka sjálfstjórn sveitarfélaga hér á landi sem mikil söguleg hefð væri fyrir. Í athugasemdum við nefnda 1. mgr. 1. gr. er vísað til tilvitnaðs stjórnarskrárákvæðis og tekið fram að í samræmi við þá grunnreglu íslenskrar stjórnskipunar sé hnykkt á því í upphafsgrein sveitarstjórnarlaga að sveitarfélögin ráði sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð. Þá er meðal markmiða sveitarstjórnarlaga, sem talin eru upp í 3. gr. þeirra, að afskipti annarra stjórnvalda af málefnum sveitarfélaga taki ávallt mið af sjálfstjórn sveitarfélaga samkvæmt stjórnarskrá og sáttmála Evrópuráðsins um sjálfstjórn sveitarfélaga. Að þessu virtu hefur sveitarstjórnum verið játað ákveðið svigrúm þegar kemur að matskenndum stjórnvaldsákvörðunum og stefnt er að lögmætu markmiði. Má í þeim efnum vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 70/2002.

Áður hefur komið fram að sveitarfélögum er skv. 7. gr. sveitarstjórnarlaga skylt að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum og fer sveitarstjórn með stjórn sveitarfélagsins og sér um að lögbundnar skyldur séu ræktar, sbr. 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna. Sveitarstjórnir taka ákvarðanir sínar á fundum og skal fundargerð færð um þá fundi, sbr. III. kafla sömu laga um sveitarstjórnarfundi. Meðal almennra skylda sveitarstjórnarmanna er að gæta í hvívetna að almennum hagsmunum íbúa sveitarfélagsins sem og öðrum almannahagsmunum, sbr. 2. mgr. 24. gr. nefndra laga. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að sveitarstjórnarlögum er tekið fram að við gerð frumvarpsins hafi ákveðin meginsjónarmið verið höfð í huga. Er meðal annars tekið fram að búa þurfi sveitarstjórnum skýrt og skilvirkt starfsumhverfi sem taki tillit til þarfa sveitarstjórna til að sinna staðbundnum hagsmunum en feli um leið í sér skýr skilaboð um að sveitarstjórnir skuli á hverjum tíma starfa þannig að sem best samræmist hagsmunum íbúa sveitarfélagsins og þjóðfélagsins í heild. Ákvarðanir, stefnumótun og fjármál einstakra sveitarfélaga skipti sífellt meira máli fyrir samfélagið í heild og því sé jafnvel mikilvægara nú en áður að þær almennu reglur sem gildi um stjórn og starfsemi sveitarfélaga tryggi, eftir því sem unnt sé, ábyrgð við framkvæmd sveitarstjórnarmála með almannahagsmuni til lengri tíma í huga. Frumvarpið byggist á því sjónarmiði að það sé og skuli vera meginatriði í stjórnskipulagi sveitarfélaga að með stjórn þeirra hvers um sig fari sérstaklega kjörin sveitarstjórn sem fari með stjórn sveitarfélagsins og beri um leið ábyrgð á starfsemi þess. Þetta sé í samræmi við ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga og ákvæði Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga. Sveitarfélög fari með mikla hagsmuni og geti ákvarðanir um málefni sveitarfélaga haft mikil áhrif á íbúa sveitarfélaganna og jafnvel á þjóðfélagið í heild sinni. Um áðurnefnda 2. mgr. 8. gr. er tekið fram að um sé að ræða eðlilega áréttingu á skyldum sem þegar leiði af stöðu sveitarstjórnar. Einnig að valdi (rétti) til að stjórna sveitarfélagi í þágu opinberra hagsmuna fylgi einnig sú skylda til að gera það með þeim hætti að sömu hagsmunum sé ekki stefnt í voða. Loks segir um 2. mgr. 24. gr. að þar sé að finna ákvæði sem sé ákaflega mikilvægt um réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna, þar á meðal um skyldu þeirra til að gæta í hvívetna almennra hagsmuna íbúa sveitarfélagsins sem og annarra almannahagsmuna. Sveitarstjórnum sé ætlað að vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúa sinna, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Sveitarfélögin séu hins vegar hluti af hinu opinbera stjórnsýslukerfi. Af því leiði að það hljóti einnig að vera tilgangur sveitarfélaga að vinna þannig að gætt sé heildarhagsmuna samfélagsins.

Af því sem að framan er rakið er ljóst að þótt það sé grundvallarskylda sveitarstjórnar að gæta að hagsmunum íbúa sveitarfélagsins ber henni einnig að líta til hagsmuna samfélagsins í heild sinni, svonefndra almannahagsmuna. Til að svo verði þarf sveitarstjórn við málsmeðferð umsóknar um framkvæmdaleyfi að vega og meta þau sjónarmið sem fyrir hendi eru og mæla ýmist með leyfis­veitingu eða ekki. Áður eru rakin markmið skipulagslaga, raforkulaga og laga um mat á umhverfisáhrifum og teljast þau markmið þar af leiðandi öll málefnaleg. Af rökstuðningi sveitar­stjórnar í málinu verður ráðið að hún metur það svo að hagsmunum sveitarfélagsins og íbúa þess sé best borgið með því að fyrirhuguð raflína verði lögð í jörðu, enda hafi það síður neikvæð umhverfisáhrif í för með sér borið saman við lagningu loftlínu. Verður að gera þá kröfu að lágmarki að rök­stuðningur sveitarstjórnar þar um sé haldbær og að hann uppfylli áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings. Skal m.a. í rökstuðningnum, að því marki sem ákvörðun byggist á mati, greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið, sbr. 1. mgr. nefndrar 22. gr. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er í athugasemdum við áðurnefnda 22. gr. tekið fram að rökstuðningur stjórnvaldsákvarðana eigi að meginstefnu til að vera stuttur, en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á. Það fari því ávallt eftir atvikum hverju sinni hversu ítarlegur rökstuðningur þarf að vera svo að hann uppfylli framangreint skilyrði.

Með hliðsjón af því að undirbúningur framkvæmdar þeirrar sem hér um ræðir hefur staðið yfir í nokkur ár, mat á umhverfisáhrifum hennar hefur farið fram, sem og ítarleg gagnaöflun, verður að líta svo á að atvik þessa máls séu með þeim hætti að ítarlegan og glöggan rökstuðning hafi þurft til að undirbyggja ákvörðun um synjun umsótts framkvæmdaleyfis. Verður þar að hafa í huga að skv. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga skal sveitarstjórn við umfjöllun um umsókn um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin sé sú sem lýst er í matsskýrslu. Þá skal sveitarstjórn leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar til grundvallar, auk þess að taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Verður að telja að það eigi við hvort sem um er að ræða samþykkt eða synjun framkvæmdaleyfisumsóknar. Greinargerð sveitarstjórnar liggur ekki fyrir í máli þessu. Að mati úrskurðar­nefndarinnar skiptir þó höfuðmáli efni þess sem fram kemur við afgreiðslu málsins, hvort sem það er að finna í bókun í fundargerð eða í greinargerð leyfisveitanda, en ekki form. Verður skortur á sérstakri greinargerð bæjarstjórnar því ekki látinn valda ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar einn og sér heldur verður litið til efnislegs innihalds viðkomandi fundargerðar, sbr. einnig það sem áður er rakið um efni rökstuðnings.

Á fundi bæjarstjórnar 24. mars 2021 var umsókn Landsnets tekin fyrir og henni synjað. Var bókað að fyrir lægi álit lögfræðistofu, sem áður er vísað til. Svo var eftirfarandi bókað: „Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hefur kynnt sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og telur að framkvæmdin sé sú sama og lýst er er í matsskýrslu. Bæjarstjórn fellst á þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að matsskýrsla Landsnets um Suðurnesjalínu 2 uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Þá hefur bæjarstjórn kynnt sér fyrirliggjandi umsókn, meðfylgjandi gögn og álit Skipulagsstofnunar frá 22. apríl 2020 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Bæjarstjórn hefur jafnframt kynnt sér umsögn Landslaga um erindið, dags. 16. febrúar 2021, og samþykkir hana og gerir að sinni umsögn um málið auk eftirfarandi afgreiðslu og rökstuðnings. Bæjarstjórn sveitarfélagsins Voga hafnar umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir 220 kV Suðurnesjalínu 2, loftlínu meðfram núverandi Suðurnesjalínu 1, í Sveitarfélaginu Vogum með vísan til framangreindrar umsagnar Landslaga, dags. 16. febrúar 2021, og eftirfarandi rökstuðnings og sjónarmiða sem eru að mestu leyti í samræmi við rökstuðning sem fram kemur í niðurstöðukafla álits Skipulagsstofnunar. Suðurnesjalína 2 sé umfangsmikið mannvirki sem liggi yfir langan veg, þar sem landslag sé opið og víðsýnt, náttúrufar njóti verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd auk þess sem það hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu og vottun UNESCO vegna jarðfræðilegrar sérstöðu. Línan liggi nálægt einum fjölfarnasta þjóðvegi landsins, sem jafnframt sé gátt erlendra ferðamanna inn í landið og fari um og liggi nærri náttúrusvæðum sem séu vinsæl útivistarsvæði í grennd við þéttbýlasta svæði landsins. Við þær aðstæður, telur sveitarfélagið ekki forsvaranlegt að samþykkja nýja loftlínu. Margt mæli með því að leggja línuna í jarðstreng alla leið innan sveitarfélagsins, skv. valkosti B í umhverfismatinu, meðfram Reykjanesbraut. Sveitarfélagið hafi áður bent á það en sá valkostur sé að auki í samræmi við ákvæði aðalskipulags sveitarfélagsins. Ávinningur af þeirri leið, með tilliti til umhverfisáhrifa samanborið við loftlínuvalkosti, felist í minni áhrifum á landslag og ásýnd, ferðaþjónustu og útivist, vistgerðir og gróður og fuglalíf. Aðalvalkostur Landsnets, sem sótt er um, þ.e. lagning loftlínu samkvæmt valkosti C, hafi mest neikvæð áhrif allra skoðaðra valkosta í umhverfismati á framangreinda þætti. Þá er tekið undir þau sjónarmið Skipulagsstofnunar að ýmislegt tengt byggða- og atvinnuþróun á Suðurnesjum til framtíðar, mæli frekar með því að línan verði lögð í jörð. Landsnet hafi bent á kostnaðarmun loftlína og jarðstrengja og þær takmarkanir sem séu á heildarlengd jarðstrengja í flutningskerfinu á suðvesturhorninu sem rök fyrir því að velja loftlínu við uppbyggingu Suðurnesjalínu 2. Þá hafi Landsnet vísað til þess að aðstæður á framkvæmdasvæði Suðurnesjalínu 2 falli ekki nema að litlu leyti að þeim viðmiðum sem sett hafa verið í stefnu stjórnvalda um lagningu jarðstrengja í flutningskerfi raforku. Bæjarstjórn telur að ekki sé nægilegt að horfa eingöngu til kostnaðarmunar milli ólíkra útfærslna á lagningu línunnar, þar sem ólíkir valkostir um legu línunnar hafi í för með sér mismunandi möguleika og takmarkanir á annarri landnýtingu og þróun byggðar og atvinnulífs á nærliggjandi svæðum sem rétt sé að taka með í reikninginn þegar horft sé á kostnað við lagningu línunnar.“ Einnig var bókað: „Bent sé á að í þingsályktun nr. 11/144, um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, séu sett fram viðmið sem réttlæti að dýrari kostur sé valinn og línur lagðar í jarðstreng í heild eða hluta. Umrædd lína sé fyrirhuguð í næsta nágrenni við vaxandi þéttbýli í Vogum. Hún sé fyrirhuguð um svæði þar sem stjórnvöld hafa til athugunar að byggja upp nýjan flugvöll og fari um svæði sem njóti verndar vegna náttúrufars.“ Loks var bókað: „Í ljósi framangreinds sé það niðurstaða bæjarstjórnar að umhverfismat Suðurnesjalínu 2 sýni að lagning línunnar sem jarðstrengs sé best til þess fallin að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar, sbr. markmiðsákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Æskilegasti framkvæmdakosturinn sé því valkostur B meðfram Reykjanesbraut en ekki valkostur C sem sótt hefur verið um. Ábendingar Landsnets um villur í mati Skipulagsstofnunar um áhrif jarðskjálfta á jarðstreng og ný gögn um að loftlína sé öruggari valkostur en jarðstrengur í gagnvart „höggunarhreyfingum“ breyta ekki niðurstöðu bæjarstjórnar.“

Í áliti Skipulagsstofnunar er tekið fram að valkostur B kalli á breytingu á svæðisskipulagi. Þrátt fyrir það er í rökstuðningi bæjarstjórnar fyrir hinni kærðu ákvörðun ekki vikið sérstaklega að þessu þótt bæjarstjórn vísi til nefnds kostar sem þess æskilegasta.

Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurði í kærumálum nr. 41, 46 og 57/2021 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum væri haldið nokkrum ágöllum en þó ekki þannig að á álitinu eða mati á umhverfisáhrifum yrði ekki byggt við ákvörðun um framkvæmdaleyfi. Gerði úrskurðarnefndin ekki athugasemd við þá niðurstöðu álitsins að af lagningu Suðurnesjalínu 2 samkvæmt valkosti C yrðu meiri áhrif en af öðrum valkostum, þótt ekki væri mikill munur milli valkosta. Þá benti nefndin á að sveitarstjórnum bæri að líta til nefndra ágalla teldu þær þá hafa þýðingu við ákvörðun sína.

Í fyrrgreindum kærumálum komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að ekki yrði séð að umfjöllun í áliti Skipulagsstofnunar um það hvað rétt væri að taka með í reikninginn þegar horft væri til kostnaðar við línulagnir, um hvaða atriði „vegi þungt“ við ákvörðun um legu og útfærslu Suðurnesjalínu 2 eða um hvernig ráðstafa ætti „jarðstrengjakvóta“ gæti samræmst hlutverki stofnunarinnar samkvæmt 11. gr. laga nr. 106/2000. Enn fremur að þessi atriði gætu ekki með réttu leitt til þeirrar ályktunar að „lagning línunnar sem jarðstrengs sé best til þess fallin að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar, sbr. markmiðs­ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum.“ Það gerði hins vegar sú niðurstaða stofnunarinnar að ávinningur væri af því að leggja línuna sem jarðstreng borið saman við loftlínuvalkosti með tilliti til umhverfis­áhrifa sem fælust í minni áhrifum jarðstrengs á landslag og ásýnd, ferðaþjónustu og útivist, vistgerðir og gróður, sem og fuglalíf. Þá taldi úrskurðarnefndin að áður en Skipulags­stofnun kæmist að niðurstöðu um umhverfisáhrif mismunandi valkosta Suðurnesjalínu 2 á jarðmyndanir hefði verið tilefni fyrir hana að fjalla frekar um í áliti sínu og taka afstöðu til atriða sem fram hefðu komið í umsögn Umhverfisstofnunar þar um. Enn fremur að án þess að fjallað hefði verið um umsögn Umhverfisstofnunar, sem teldi að neikvæð áhrif loftlínu yrðu óveruleg þar sem hún myndi liggja meðfram Suðurnesjalínu 1 og að svæðin á Njarðvíkurheiði og í Hafnarfirði bæru merki manngerðs umhverfis með umfangsmiklum innviðamannvirkjum, orkaði m.a. tvímælis sú niðurstaða Skipulags­stofnunar að hún teldi „að munur á áhrifum á landslag og ásýnd sé meiri milli valkosta á svæðunum Strandarheiði og Njarðvíkurheiði en vægiseinkunnir leyfishafa benda til, sér í lagi þar sem línan fer næst Reykjanes­braut.“

Varðandi byggða- og atvinnuþróun á Suðurnesjum til framtíðar tekur bæjarstjórnin undir það sjónarmið Skipulagsstofnunar að ýmislegt því tengdu mæli frekar með því að Suðurnesjalína 2 verði lögð í jörðu. Þótt það geti ekki talist falla undir hlutverk Skipulagsstofnunar að líta til slíkra sjónarmiða fellur það ótvírætt innan verksviðs sveitarstjórna samkvæmt skipulagslögum og sveitarstjórnarlögum. Betur hefði hins vegar farið á því að bæjarstjórn fjallaði sjálfstætt um þessi atriði að teknu tilliti til þessarar verkaskiptingar. Nefnd sjónarmið eru þó reifuð frekar í bókun bæjarstjórnar í tengslum við þingsályktun nr. 11/144 um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, uppbyggingu flutningskerfis raforku o.fl. Tekur bæjarstjórn fram í því sambandi að Suðurnesjalína 2 sé fyrirhuguð í nágrenni vaxandi þéttbýlis í Vogum og fari um svæði þar sem til athugunar sé að byggja nýjan flugvöll. Verður þó ekki séð að þau atriði sem vísað er til komi  með beinum hætti fram í skipulagsáætlunum og hefði bæjarstjórn verið rétt að lýsa nánar hvaða áhrif þau gætu haft. Einkum og sér í lagi þar sem vísað var til þessara atriða með tilliti til fyrrgreindrar stefnu stjórnvalda sem kemur fram í greindri þingsályktun. Þótt þessi stefna stjórn­valda svipti sveitarstjórnir ekki því ákvörðunarvaldi sem þeim er fengið með skipulags­lögum, og bindi þær ekki með sama hætti og t.d. Landsnet, er hún þó ekki þýðingarlaus, sbr. ummæli í héraðsdómi sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar í máli nr. 193/2017.

Af rökstuðningi bæjarstjórnar, sem áður er lýst, er ljóst að megináhersla er lögð á áhrif framkvæmdarinnar á landslag og ásýnd, auk annarra umhverfisþátta, en ekki á þau áhrif sem verða á jarðmyndanir. Vegna eðlis sveitarstjórnar sem staðbundins stjórnvalds verður ekki gerð athugasemd við þetta, enda verður það að teljast á forræði sveitarstjórnar að draga fram þá umhverfisþætti sem hún leggur áherslu á í mati sínu á því hvernig hagsmunum íbúa sveitarfélagsins og almannahagsmunum sé best borgið. Þar sem bæjarstjórn reisti niðurstöðu sína ekki á því hver áhrif yrðu á jarðmyndanir, sem Skipulagsstofnun taldi sambærileg, sama hvaða valkostur yrði fyrir valinu, var ekki heldur tilefni fyrir bæjarstjórn til að skoða sérstaklega umsögn Umhverfisstofnunar í þessu samhengi. Hins vegar var það tilefni til staðar þegar litið er til þess að bæjarstjórn byggði m.a. á niðurstöðu Skipulagsstofnunar um áhrif á landslag og ásýnd, en eins og áður er rakið skorti á að í niðurstöðu stofnunarinnar væri fjallað um þá umsögn Umhverfisstofnunar að neikvæð áhrif loftlínu yrðu óveruleg að þessu leyti. Verður að telja að um sé að ræða nokkurn annmarka á rökstuðningi bæjarstjórnar hvað þetta varðar.

Eftir að álit Skipulagsstofnunar lá fyrir taldi framkvæmdaraðili ástæðu til að koma að ábendingu hvað varðaði þau gögn sem lágu til grundvallar umfjöllun um náttúruvá í matsskýrslu, sem á var byggt í niðurstöðu álitsins. Í bréfi, dags. 28. maí 2020, tekur Landsnet fram að í ljósi jarð­hræringa á Reykjanesi hafi það farið yfir þessa umfjöllun um náttúruvá og í ljós komið að umfjöllun um valkost B tæki ekki til allrar strengjaleiðarinnar milli Hafnarfjarðar og tengivirkis við Rauðamel á Njarðvíkurheiði. Þessi umfjöllun hefði skilað sér í áliti Skipulags­stofnunar. Áréttar fyrirtækið að enginn munur sé á legu valkosta A, B og C á vestari hluta Njarðvíkur­heiðar og vísar þar um til myndar 5 í sérfræðiskýrslu og myndar 21.6 í matsskýrslu. Því miður hafi í texta um valkost B verið gengið út frá því að „hann nái eingöngu rétt inn á austasta hluta þess, áður en valkostir sameinast og fara inn á sprungusvæðið.“ Bréfið var m.a. sent sveitarfélögum þar sem fyrirhugað er að leggja Suðurnesjalínu 2 og því rétt fyrir þær sveitarstjórnir, þ. á m. bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga, að taka til skoðunar hvort og þá hverju þetta breytti við ákvörðun þeirra. Fyrir bæjarstjórn lá einnig minnisblað verkfræðistofunnar Eflu, dags. 2. júlí 2020, um áhrif náttúruvár á valkosti sem aflað var af Landsneti eftir að mat á umhverfisáhrifum hafði farið fram. Var bókað af þessu tilefni að ábendingar fyrirtækisins og ný gögn um að loftlína væri öruggari valkostur en jarðstrengur gagnvart „höggunarhreyfingum“ breyttu ekki niðurstöðu bæjarstjórnar. Þótt áður hafi verið rakin sú niðurstaða bæjarstjórnar að vegna umhverfisáhrifa væri valkostur B æskilegasti kosturinn, þ.e. jarðstrengur meðfram Reykjanes­braut, er ekki um það greinargóðan rökstuðning að ræða að hægt sé að skilja af lestri hans af hverju litið hafi verið fram hjá greindum ábendingum og gögnum um öryggi loftlína umfram jarðstrengi, meðal annars m.t.t. náttúruvár. Verður í þessu tilliti að leggja sérstaka áherslu á að sveitarstjórnarmönnum ber ekki einungis að gæta að hagsmunum íbúa sveitarfélags heldur einnig að almannahagsmunum, sbr. 2. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga.

Í rökstuðningi sveitarstjórnar er raunar í engu vikið að öðrum almannahagsmunum en þeim sem felast í umhverfislegum ávinningi, t.d. þeim sem lúta að flutningskerfi raforku á Suðurnesjum. Með hliðsjón af því hlutverki sveitarstjórna og fulltrúa þeirra sem áður er rakið og leiðir af sveitarstjórnarlögum verður ekki séð að vegin hafi verið og metin þau andstæðu sjónarmið sem fyrir hendi voru. Þótt fyrir liggi að leyfi hafi verið synjað með vísan til umhverfisáhrifa af framkvæmdinni varð ekki, án frekari umfjöllunar um önnur sjónarmið, af rökstuðningi bæjarstjórnar glögglega ráðið hvernig þau rök leiddu til þeirrar niðurstöðu. Hefur þá einnig verið litið til þess að ekki bar mikið á milli í mati á umhverfisáhrifum mismunandi valkosta og að álit Skipulagsstofnunar var haldið nokkrum ágöllum hvað það mat varðaði í nokkrum þeirra þátta sem niðurstaða bæjarstjórnar byggðist á. Að framangreindu virtu uppfyllir rökstuðningur bæjarstjórnar að þessu leyti ekki áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings og er í þessu sambandi rétt að benda á til hliðsjónar að í athugasemdum við lagagreinina í frumvarpi því sem varð að nefndum lögum er tekið fram að ef fyrir liggi í máli umsögn sérfróðs aðila sem ekki sé lögð til grundvallar beri að gera grein fyrir ástæðum þess. Er því um annmarka að ræða á meðferð málsins fyrir bæjarstjórn.

Eins og að framan er rakið eru annmarkar á rökstuðningi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga. Þannig var niðurstaða Skipulagsstofnunar lögð til grundvallar um ávinning jarðstrengs umfram loftlínu þegar kæmi að áhrifum framkvæmdarinnar á landslag og ásýnd, án þess að bæjarstjórn rökstyddi þessi atriði sérstaklega að teknu tilliti til umsagnar Umhverfisstofnunar. Var rökstuðningurinn því haldinn sama ágalla og álit Skipulagsstofnunar hvað þetta varðar. Meira máli skiptir þó að ekki var tekin afstaða til meginsjónarmiða Landsnets um öryggi loftlínu umfram jarðstreng. Verður að telja að mat á þeim sjónarmiðum andspænis þeim sem lutu að umhverfislegum ávinningi og bæjarstjórn byggði á hefði getað haft þýðingu fyrir afdrif umsóknar Landsnets um framkvæmdaleyfi. Þegar hafðir eru í huga þeir miklu hagsmunir sem undir eru, langur aðdragandi umsóknar um framkvæmdaleyfi og ítarleg málsmeðferð á þeim tíma, þykja greindir annmarkar á rökstuðningi bæjarstjórnar til þess fallnir að vekja réttmætan vafa um hvort synjun hennar hafi verið reist á málefnalegum grundvelli að teknu tillit til framangreindra atvika allra. Leiða annmarkar þessir óhjákvæmilega til þess að ógilda ber hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

 Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 24. mars 2021 um að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir 220kV Suðurnesjalínu 2.

92 og 96/2021 Starfsleyfi Álfsnes

Með

Árið 2021, föstudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 92/2021, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 4. maí 2021 um að gefa út starfsleyfi til Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis til reksturs skotvalla í Álfsnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. júní 2021, er barst nefndinni 21. s.m., kæra tilgreindir íbúar og landeigendur við Kollafjörð, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 4. maí 2021 að gefa út starfsleyfi fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis í Álfsnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að óháður aðili framkvæmi hljóðmælingar, jarðvegsmælingar og mælingar á blýmengun við strönd og sjó norðan við aðstöðu félagsins.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra aðrir tilgreindir íbúar og landeigendur í nágrenni Kollafjarðar sömu ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins og gera kröfu um að hún verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að hlutlausir aðilar verði látnir rannsaka blý- og hljóðmengun af völdum starfsemi skotvalla í Álfsnesi. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni.  Verður það kærumál, sem er nr. 96/2021, sameinað máli þessu þar sem sama ákvörðun er kærð í báðum málum og kröfugerð kærenda er á sömu lund. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 1. september 2021.

Málavextir: Hinn 8. febrúar 2021 sendi Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur umsókn um endurnýjun starfsleyfis fyrir starfsemi félagsins á skotvelli þess í Álfsnesi, ásamt greinargerð, dags. 5. s.m. Með bréfi, dags. 15. s.m., óskaði heilbrigðiseftirlitið eftir umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, sbr. 6. gr. reglu­gerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnir, um það hvort starfsemin væri í samræmi við skipulag og hvort fyrirhugaðar væru breytingar á skipulagi sem gætu komið í veg fyrir útgáfu starfsleyfis til 12 ára. Bent var á að ef skipulagsfulltrúi legðist gegn útgáfu starfsleyfis til 12 ára væri athygli vakin á því að skipulagsfulltrúinn hefði fyrir skemmstu lagt til tveggja ára gildistíma leyfis fyrir starfsemi Skotfélags Reykjavíkur í næsta nágrenni við starfsaðstöðu skotveiðifélagsins og mikil­vægt væri að gæta jafnræðis.

Umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 26. febrúar 2021, barst heilbrigðiseftirlitinu 3. mars s.á. Í henni kemur fram að ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir svæðið en samkvæmt aðalskipulagi sé það skilgreint sem hafnar- og iðnaðarsvæði. Frá upphafi hafi umrætt svæði verið ráðgert til tíma­bundinna afnota, en samkvæmt gildandi skipulagi væri þar gert ráð fyrir 20 ha hafnar- og iðnaðarsvæði fyrir lóðir undir hafnsækna og landfreka athafna- og iðnaðarstarfsemi. Í ljósi þeirrar óánægju sem íbúar í nágrenni hafi látið í ljós og þeirra ábendinga sem borist hafi vegna hávaða telji skipulagsfulltrúi nauðsynlegt að setja strangari skilyrði um starfsemina, s.s. um opnunartíma og notkun á blýhöglum, samhliða því að kanna til hlítar nýjar staðsetningar fyrir starfsemina á höfuðborgarsvæðinu. Í ljósi þessa hafi ekki verið mælt með því að gefa út starfsleyfi til lengri tíma en tveggja ára og þá aðeins með ítarlegum starfsleyfisskilyrðum.

Auglýsing um tillögu að starfsleyfi fyrir skotvöll Skotveiðifélagsins Reykjavíkur og nágrennis í Álfsnesi var birt á vefsvæði heilbrigðiseftirlitsins 9. mars 2021, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018. Í tillögunni var lagt til að starfsleyfið gilti til tveggja ára frá útgáfudegi og að um starfsemina giltu sértæk og almenn starfsleyfisskilyrði fyrir mengandi starfsemi. Í auglýsingunni kom fram að á tímabilinu 9. mars til 16. apríl s.á. mætti hver sem vildi senda inn athugasemdir og ábendingar við tillöguna. Sérstök tilkynning var send á hagsmunaaðila. Á auglýsingatíma bárust 127 athugasemdir og gerð er grein fyrir þeim og svörum í greinargerð um útgáfu starfsleyfis.

Á afgreiðslufundi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur 4. maí 2021 var samþykkt að gefa út starfsleyfi til tveggja ára, eða til 4. maí 2023. Tilkynning um útgáfu þess ásamt greinargerð um útgáfuna, afriti af starfsleyfi og starfsleyfisskilyrðum var birt á vefsvæði heilbrigðiseftirlitsins 21. maí 2021. Skotveiðifélagi Reykjavíkur og nágrennis var tilkynnt um útgáfu starfsleyfisins með tölvupósti 11. maí 2021 en öðrum sem sendu inn athugasemdir var send tilkynning í tölvupósti 21. s.m., auk slóðar á greinargerð með útgáfu starfsleyfisins.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda kemur fram að samkvæmt 47. gr. laga nr. 7/1998 beri heilbrigðisnefnd að sjá um að ákvæðum laganna og reglugerða settum samkvæmt þeim sé fylgt. Aldrei hafi farið fram grenndarkynning eða samtal við nágranna svæðisins vegna umþrættrar starfsemi. Þá hafi skriflegar athugasemdir við tillögu um starfsleyfi ekki verið afgreiddar af heilbrigðisnefnd skv. a-lið 1. gr. viðauka 2.2 við samþykkt um stjórn og fundarsköp Reykjavíkurborgar nr. 1020/2019, er fjallar um embættisafgreiðslur framkvæmdastjóra Heilbrigðis­eftirlits Reykjavíkurborgar. Leyfishafi hafi haldið áfram starfsemi eftir að eldra starfsleyfi hafi fallið úr gildi.

Frá því að tillaga um starfsleyfi hafi verið auglýst og þar til starfsleyfi hafi verið gefið út hafi engar breytingar verið gerðar. Athugasemdir íbúa séu að engu hafðar þótt ljóst sé að leyfishafi uppfylli ekki starfsleyfisskilyrðin og hafi ekki gert síðan 2005. Þá sé greinilegt af myndbandi á Facebooksíðu leyfishafa að skothljóð endurkastist frá Esjunni, magnist upp og valdi mikilli hávaða­mengun á annars kyrrlátu svæði. Einnig sjáist á síðunni hvernig skotið sé úr haglabyssum. Drægi skotanna sé um 250-300 m og lendi því stór hluti þeirra fram af bakkanum og niður í fjöru og sjó, sem sé í 90 m fjarlægð. Hafa beri í huga að Kollafjörður sé einnig vinsæll til kajaksiglinga.

Heilbrigðiseftirlitið hafi alla tíð gert lítið úr þessari alvarlegu blýmengun og ekki beitt sínum heimildum til að koma í veg fyrir hana. Þótt blýskot hafi nú verið bönnuð á svæðinu sé ljóst að mikið magn hafi safnast upp á sl. 15 árum. Ákvæðum laga um mengun sjávar sé ekki fylgt. Í eftirlitsskýrslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá árinu 2020 séu þrjú frávik bókuð, þar á meðal varðandi hreinsun og mengun. Engin rannsókn á þungmálmamengun hafi verið fram­kvæmd á svæðinu síðan völlurinn hafi verið tekinn í notkun. Samkvæmt starfsleyfisskilyrðum skuli á fimm ára fresti mæla hversu djúpt þungmálmamengun frá skotum hafi borist, í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.

Rök heilbrigðiseftirlitsins vegna jarðvegsmælinga séu ómarktæk. Heilbrigðiseftirlitið viti með vissu hversu mikið af jarðvegi hafi þurft að fjarlægja af gamla skotsvæðinu í Leirdal. Nú sé komin langþráð reglugerð um jarðvegsmengun með viðmiðum. Því sé óásættanlegt að nýtt starfsleyfi sé gefið út áður en jarðvegsmælingar fari fram. Einnig sé sérkennilegt að setja í gamla starfsleyfið að mælingar skuli fara fram á fimm ára fresti ef ekkert viðmið hafi áður verið til. Oft hafi verið minnst á næðisdaga til handa íbúum vegna hávaðamengunar en hins vegar hafi heilbrigðiseftirlitið gefið leyfi til keppnismóta á fjölda næðisdaga sumarsins og sé það því misvísandi.

Starfsleyfi hafi einungis verið samþykkt af starfsmönnum heilbrigðiseftirlitsins en ekki framkvæmdastjóra. Leyfið hafi síðan verið lagt fyrir fund umhverfis- og heilbrigðisráðs eftir útgáfu þess. Þetta sé ekki í samræmi við viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar en þar segi að skriflegar athugasemdir við starfsleyfistillögur skuli þó áfram berast heilbrigðis­nefnd og afgreiðast af henni.

Hluti kærenda bendir á að í hvert skipti sem rigni á Álfsnesi skolist blý úr jarðvegi í sjóinn. Þar af leiðandi muni blýbann þar ekki stöðva áframhaldandi blý­mengun frá leyfishafa út í fjöru og sjó. Þá veki það furðu að skipulags­fulltrúi hafi ekki gert skipulagslegar athugasemdir við umdeilda mengandi starfsemi, sem hafi haft í för með sér blýlosun í sjó og fjöru í 16 ár í nágrenni við mikilvæga sjófuglabyggð. Þá séu mannvirki á svæðinu ekki í samræmi við neitt samþykkt deiliskipulag.

Heilbrigðiseftirlitið hafi ekki sinnt eftirliti með skotsvæðinu í 16 ár, eða frá opnun þess árið 2005. Komi fram í eftirlitsskýrslu árið 2020 í fyrsta skipti að brotið hafi verið gegn starfsleyfis­skilyrðum og að gefnar hafi verið villandi upplýsingar um losun á blýi.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur bendir á að samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir hafi stofnunin það hlutverk að veita starfsleyfi fyrir starfsleyfisskylda starfsemi, sbr. viðauka IV við lögin, og setja starfseminni ramma í starfsleyfis­skilyrðum um hvað geti talist ásættanleg umhverfisáhrif út frá m.a. starfseminni og stað­setningu. Skipulagsyfirvöld móti skipulag og landnotkun í skipulagi, sem ákvarði á hvaða svæðum tiltekin starfsemi sé heimil. Heilbrigðiseftirlitið meti í umsóknarferli hvort tiltekin starfsemi sé í samræmi við skipulag og beri að leita umsagnar, eftir atvikum skipulags- og/eða byggingarfulltrúa, um það hvort starfsemi sé í samræmi við skipulag og heimila notkun fasteignar, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnir. Ekki sé heimilt að gefa út starfsleyfi nema fyrir liggi jákvæð umsögn skipulagsfulltrúa og/eða byggingarfulltrúa. Helstu umhverfisáhrif af starfsemi skotvalla séu hávaði, mengun vegna efna í skotum og höglum og vegna umgengni á svæðunum. Hávaði frá starfseminni hafi í för með sér ónæði fyrir nágranna og útivistarfólk og notkun á blýhöglum hafi í för með sér mengunar­hættu í umhverfinu. Það sé hlutverk heilbrigðiseftirlitsins að setja starfseminni mörk í starfsleyfi til að lágmarka þessi umhverfisáhrif.

Vegna staðhæfinga kærenda um að ekki hefði farið fram grenndarkynning, samtal eða samráð um skipulag, og þá væntanlega fyrir það svæði þar sem starfsemi skotfélaganna sé á, taki heilbrigðiseftirlitið fram að það geti ekki svarað fyrir það. Ekki sé hlutverk eftirlitsins að kynna skipulag heldur sé það hlutverk skipulagsnefndar.

Tillaga að starfsleyfisskilyrðum hafi verið í auglýsingu á vefsvæði heilbrigðiseftirlitsins í fjórar vikur, eins og kveðið sé á um í reglugerð nr. 550/2018, frá 10. mars til 6. apríl 2021. Ákveðið hafi verið að láta hagsmunaaðila vita af auglýsingunni umfram lagaskyldu til að tryggja að viðkomandi væru upplýstir um hana og gætu komið að athugasemdum innan frests. Tilkynningar um að tillaga að starfsleyfi hefði verið auglýst hefðu verið sendar með tölvupósti 15. mars s.á. og sé áréttað að með því hafi verið gengið lengra en lögin kveði á um. Ekki sé hægt að fallast á að með því hafi athugasemdafrestur verið orðinn stuttur. Þess megi einnig geta að við kynningu á tillögu að starfsleyfisskilyrðum og afgreiðslu starfsleyfis fyrir Skotfélag Reykjavíkur, sem afgreitt hafi verið um tveimur mánuðum fyrr, hafi komið fram að vænta mætti þess að tillaga að starfsleyfinu yrði auglýst á næstu vikum þar á eftir. Hafi þetta m.a. komið fram á kynningarfundi hjá íbúaráði Kjalarness og hafi kærendur þar af leiðandi haft ástæðu til að fylgjast vel með að þessu leyti.

Því sé mótmælt að greinargerð um útgáfu starfsleyfis hafi birst löngu eftir viðmiðunarfrest, eða tæpum sjö vikum síðar, eins og lesa megi úr kæru. Greinilegt sé að kærendur telji að greinargerð um útgáfu starfsleyfis eigi að birta að loknum auglýsingatíma tillögu að starfsleyfi en svo sé ekki. Greinargerðina sé ekki hægt að birta fyrr en tekin hafi verið afstaða til útgáfu starfsleyfis, enda eigi í henni að gera grein fyrir málsmeðferðinni sem ljúki ekki fyrr en með ákvörðun um útgáfu leyfisins. Ákvæði um að starfsleyfi skuli fylgja greinargerð, þar sem farið sé yfir málsmeðferðina, tekin afstaða til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum, ef við eigi, og gerð sé grein fyrir afstöðu útgefanda leyfis til athugasemda sem hafi borist, sé að finna í 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018. Ekki sé að finna tímaviðmið fyrir birtingu starfsleyfis og greinar­gerðar í reglugerðinni en eðlilegt sé að birting fari fram eins fljótt eftir afgreiðslu á umsókn um starfs­leyfi og hægt sé. Í þessu tilviki hafi athugasemdir verið óvenju margar, eða 127 talsins, og megnið af þeim borist á tveimur síðustu dögum auglýsingatímans. Mun lengri tíma hafi því tekið að vinna greinargerðina en ætlað hafi verið. Hafi birting því dregist og þar með tilkynning um útgáfu starfsleyfis. Tilkynning um útgáfuna og greinargerð hafi verið birt á vefsvæði Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur 21. maí 2021, eða 17 dögum eftir samþykkt starfsleyfisins.

Meðferð og samþykkt starfsleyfis hafi verið í samræmi við fundarsköp Reykjavíkurborgar, sbr. samþykkt nr. 1020/2019. Samkvæmt viðauka 2.2 við samþykktina sé framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins heimilt að gefa út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun, sbr. fylgiskjal 2 við reglugerð nr. 785/1999, nú viðauka X við reglugerð nr. 550/2018 og viðauka IV við lög nr. 7/1998. Í fjarveru framkvæmdastjóra gegni deildarstjórar heilbrigðiseftirlitsins stöðu framkvæmdastjóra sem staðgenglar og fari með vald hans. Deildar­stjórar hjá heilbrigðiseftirlitinu séu tveir og hafi þeir báðir setið afgreiðslufund nr. 1533 er útgáfa starfsleyfisins hafi verið samþykkt.

Með lögum nr. 66/2017 um breytingu á lögum nr. 7/1998 hafi verið gerð sú breyting að útgefandi starfsleyfis skuli innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögu að starfsleyfi hafi runnið út taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfis. Við setningu laganna hafi láðst að uppfæra samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar í ljósi fyrrgreindrar lagabreytingar en samkvæmt samþykktinni hafi verið gert ráð fyrir því að skriflegar athugasemdir við starfsleyfistillögur skyldu áfram berast heilbrigðisnefnd og afgreiðast skriflega af henni. Sé umrætt ákvæði bæði óljóst og óframkvæmanlegt þar sem nefndin fundi að jafnaði einu sinni í mánuði og sé það því ósamrýmanlegt þeim skilyrðum sem sett séu í lögunum. Bent sé á að samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar séu reglur sem Reykjavíkurborg setji sér. Með þeim hafi heilbrigðisnefnd framselt vald sitt í ákveðnum tilfellum til framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits, með heimild í 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 2. mgr. 59. gr. samþykktarinnar, og sé því af og frá að lög og reglur hafi verið brotin eða sniðgengin í tengslum við afgreiðslu starfsleyfisins. Unnið sé að uppfærslu á fyrrgreindum viðauka 2.2 þar sem fyrirhugað er að umrætt ákvæði verði fellt út. Fundur umhverfis- og heilbrigðisráðs sem vísað sé til í kærunni hafi farið fram 11. maí 2021, eða eftir að starfsleyfi hafi verið samþykkt, og sé ljóst að afgreiðsla hefði ekki breyst við að leggja skriflegar athugasemdir við starfsleyfistillöguna fram á þeim fundi.

Breytingar sem gerðar hafi verið á fyrra leyfi hafi strax komið fram í tillögu að starfsleyfi og hafi þar verið reynt að taka tillit til allra hagsmunahópa eins og hægt hafi verið. Rétt sé hjá kærendum að tillögunni hafi í engu verið breytt frá auglýsingu til samþykktar leyfis og meðfylgjandi starfsleyfisskilyrða. Hins vegar sé ekki rétt að starfsemi leyfishafa hafi um tíma verið án starfsleyfis. Fyrra starfsleyfi hafi verið með gildistíma til 4. maí 2021 og hafi gildandi leyfi verið samþykkt með gildistíma frá sama degi.

Könnun á hávaða hafi verið unnin í samræmi við þær leiðbeiningar sem sé að finna í reglugerð nr. 724/2008 um hávaða og leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um mæliaðferðir við hljóð­mælingar vegna eftirlits og aðferðir sem þar sé vísað til. Við val á mælistöðum hafi verið höfð hliðsjón af fyrri mælingum heilbrigðiseftirlitsins og mælt á stöðum sem áður hafi verið mælt á til að gæta samræmis og fá samanburð, auk þess sem bætt hafi verið við mælingu í Esjuhlíðum til að fá hugmynd um upplifun og áhrif á útivistarfólk. Niðurstöðurnar gefi til kynna að hávaði frá starfseminni sé yfir viðmiðunarmörkum, að gefnum forsendum. Í reglugerð nr. 724/2008 sé ekki að finna ákvæði eða viðmið sem séu sértæk fyrir skotvelli og gefi reglugerðin ekki leiðbeiningar um mælingar eða mat á hávaða frá starfsemi skotvalla. Sama gildi um leiðbeiningar Umhverfisstofnunar og mæliaðferðir sem þar sé vísað í, en þar séu ekki heldur leiðbeiningar um hávaðamælingar frá starfsemi skotvalla. Ekki sé heldur að finna viðmið fyrir hávaða á landbúnaðarsvæðum í reglugerðinni en helsta áhrifasvæði starfsemi umrædds skotvallar hvað varði hávaða sé á svæði sem sé skilgreint landbúnaðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Heilbrigðiseftirlitið hafi því staðið frammi fyrir því að þurfa að ákveða til hvaða viðmiða skyldi horft við túlkun á niðurstöðum mælinga. Það hafi verið niðurstaðan að nota viðmið fyrir íbúðarhús á íbúðarsvæði. Hafi það þótt vera millivegur milli þess að nota viðmið fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi á iðnaðarsvæðum, þar sem viðmið séu hærri, og þess að nota viðmið fyrir hávaða í frístundabyggð, þar sem viðmið séu lægri, en þau viðmið hafi komið til greina með tilliti til skilgreindrar landnotkunar á afnota- og áhrifa­svæði starfseminnar.

Við vinnslu á tillögu að opnunartíma hafi verið horft til þess að niðurstöður hávaðamælinga sýndu að hávaði frá starfseminni væri yfir mörkum í töflu III í reglugerð nr. 724/2008 eftir kl. 19:00 á kvöldin, þegar horft sé til viðmiða fyrir íbúðarhús á íbúðarsvæði. Því hafi verið sett það starfsleyfisskilyrði að starfsemi væri óheimil eftir kl. 19:00. Í athugasemdum við tillögu að starfsleyfi sé gagnrýnt að heilbrigðiseftirlitið skuli horfa til viðmiða fyrir íbúðarhús á íbúðar­svæði. Stuðningsmenn skotfélagsins hafi talið að réttara væri að horfa til viðmiða fyrir athafna- og iðnaðarsvæði, en íbúar við Kollafjörð og útivistarfólk hafi hins vegar viljað að horft yrði til viðmiða fyrir frístundasvæði eða dreifbýli. Ákveðið hafi verið að nota þetta viðmið þótt það væri ekki lýsandi fyrir svæðið, en heilbrigðiseftirlitið telji það skásta kostinn með tilliti til allra hagsmunahópa, þ.e. hvorki sé miðað við hæstu né lægstu mörk í töflu III. Í töflu III komi fram að mörkin séu 50 dB(A) á dagtíma, frá kl. 07:00 til 19:00 og 45 dB(A) á kvöldin frá kl. 19:00 til 23:00. Niðurstöður hávaðamælinga væru þær að hávaði frá starfseminni reyndist vera yfir 50 dB(A) í nokkrum mælingum og leggi heilbrigðiseftirlitið það til grundvallar því að heimila ekki starfsemi eftir kl. 19:00. Heilbrigðiseftirlitið hafi ekki heimild til að víkja frá ákvæðum reglugerðarinnar eða nota viðmið úr erlendum reglum án þess að til þeirra sé vísað í íslensku regluverki.

Sem fyrr segi hafi könnun á hávaða verið unnin í samræmi við þær leiðbeiningar sem sé að finna í reglugerð nr. 724/2008 um hávaða og leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um aðferðir við hljóðmælingar vegna eftirlits og mæliaðferðir sem vísað sé til þar. Munur sé á niðurstöðum hljóðmælinga heilbrigðiseftirlitsins og hljóðmælinga sem íbúar við Kollafjörð hafi staðið fyrir og eigi sá munur sér þá skýringu að notaðar séu mismunandi mæliaðferðir. Heilbrigðiseftirlitið geri sér grein fyrir því að mæliaðferð sem reglugerðin um hávaða og leiðbeiningar Umhverfis­stofnunar vísi til sé ekki heppilegasta aðferðin til að mæla hávaðamengun frá skotsvæðum þar sem aðrar aðferðir gefi betri mynd af hávaðamenguninni frá þeirri starfsemi. Í ljósi þess að hér á landi sé í gildi reglugerð um hávaða með tilteknum viðmiðunarmörkum telji heilbrigðis­eftirlitið að ekki sé hægt að byggja ákvæði í starfsleyfisskilyrðum á erlendum mæliaðferðum sem ekki hafi verið innleiddar eða vísað til í íslenska löggjöf. Þess megi geta að í eldri reglugerð um hávaða nr. 933/1999 hafi komið fram að ef upp kæmi tilvik sem reglurnar næðu ekki yfir skyldi velja viðurkennda hávaðareglu sem stuðst væri við í slíkum tilvikum í einhverju hinna Norður­landanna. Þessa reglu sé ekki að finna í gildandi reglugerð.

Haustið 2020 hafi heilbrigðiseftirlitið gert könnun á magni og dreifingu blýhagla við skotvellina í Álfsnesi. Tilgangur með könnuninni hefði annars vegar verið sá að skoða hvort hægt væri að staðfesta tilvist blýhagla á jörðu og í fjöru út frá skotvöllunum og hins vegar að skoða hlutfall blý- og stálhagla á nokkrum sýnatökustöðum til að fá hugmynd um hvort það væri nálægt þeim hlutföllum sem skotfélögin hefðu gefið upp árin á undan. Markmið með könnuninni hefði ekki verið að gera heildarúttekt á mengun af völdum blýhagla eða magntaka blýhöglin og mögulega mengun af þeirra völdum. Mun ítarlegri rannsókn þyrfti í þeim tilgangi og þyrfti þá að skoða aðra þætti, t.d. áhrif veðrunar á mismunandi gerðir af höglum. Hins vegar hefði tilgangurinn verið sá að gera mælingar á hávaða frá starfseminni og bera saman við gildi í töflu III, Mörk fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi, í reglugerð nr. 724/2008 um hávaða, að gefnum forsendum, þar sem reglugerðin gefi ekki viðmið fyrir þá starfsemi sem hér um ræði.

Niðurstöður könnunar á blýi staðfesti tilvist blýhagla á öllum sýnatökustöðum, sem hafi ekki komið á óvart þar sem fyrir hafi legið að blýhögl hefðu verið notuð á báðum skotvöllunum frá upphafi starfseminnar í kringum árið 2005, en könnunin staðfesti dreifingu hagla út fyrir skotvellina sjálfa. Niðurstöðurnar hafi einnig sýnt að hlutfall blýhagla væri hærra en búast mátti við út frá upplýsingum frá skotfélögunum, en samkvæmt þeim hafi það verið undir 5% af heildarnotkun hagla og jafnvel minna. Notkun blýhagla hafi verið mun algengari á fyrri árum starfseminnar, en engar upplýsingar séu til um hversu algeng hún hafi verið. Því hafi mátt búast við að hlutfallið væri hærra en uppgefið hlutfall síðustu ára. Niðurstöður könnunar­innar gefi vísbendingar um að notkun blýhagla hafi verið meiri síðustu ár en komið hafi fram í gögnum skotfélaganna. Hafi það gefið tilefni til að leggja til bann við notkun blýhagla á skotvöllunum til að koma í veg fyrir frekari mengun, enda séu á markaði högl úr efnum sem hafi minni umhverfisáhrif. Heilbrigðiseftirlitið hafi tekið þetta skref þrátt fyrir að ekki lægi fyrir staðfest vísindaleg gögn um að lífríki Kollafjarðar hefði orðið fyrir skaða af völdum hagla úr blýi. Til rökstuðnings hefði einnig verið horft til þeirrar varúðarreglu í umhverfisrétti, um að náttúran nyti vafans. Sambærileg þróun sé víða í Evrópu, þ.e. að verið sé að þrengja að eða banna notkun blýhagla á skotvöllum.

Ástæða þess að heilbrigðiseftirlitið hafi ekki gengið eftir mælingum á þungmálmum í jarðvegi sé sú að fram til 1. janúar 2021, við gildistöku reglugerðar nr. 1400/2020 um mengaðan jarðveg, hafi engar leiðbeiningar verið að finna í íslensku regluverki um viðmiðunarmörk fyrir mengaðan jarðveg. Litið hafi verið svo á að rannsóknir á mengun í jarðvegi myndu þjóna litlum tilgangi þegar ekki væru til leiðbeiningar um hvernig túlka ætti niðurstöðurnar eða nota, auk þess sem rannsóknin yrði kostnaðarsöm og því varla verjandi að krefjast slíkrar rannsóknar. Þá hafi hvorki verið gerð úttekt á mengun á svæðinu áður en starfsemi skotvallarins hafi hafist árið 2005 né séu bakgrunnsgildi þungmálma í jarðvegi á svæðinu þekkt, sem enn hefði aukið á erfiðleika við túlkun á niðurstöðum. Með gildistöku áðurnefndrar reglugerðar séu þó komin viðmið til að nota við túlkun á niðurstöðum, enda hafi það verið sett í ný starfsleyfisskilyrði að framkvæma ætti mælingar innan sex mánaða frá gildistöku starfsleyfisins. Sá tími hafi þótt hæfilegur til að undirbúa og framkvæma sýnatöku en einnig hefði verið horft til þess að leiðbeiningar sem Umhverfisstofnun ætti að gefa út um frummat, áhættudreifingu, aðferðir við sýnatöku og meðhöndlun jarðvegs hefðu ekki verið gefnar út en kæmu vonandi innan fyrrnefnds tímaramma. Í ljósi þess að nú sé notkun blýhagla bönnuð ætti ekki að bætast við mengun á þeim tíma og því talin lágmarksáhætta að veita þennan frest.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Bent er á að málsmeðferð við útgáfu starfs­leyfisins hafi ekki verið í samræmi við reglugerð nr. 550/2018. Samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar skuli útgefandi starfsleyfis taka ákvörðun um útgáfu leyfis innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögur að starfsleyfi hafi runnið út. Sá frestur hafi runnið út 6. apríl 2021 og þeim sem gert hefðu athugasemdir verið send tilkynning 21. maí s.á. Það séu samtals sex vikur og þrír dagar. Í rannsóknarskýrslu heilbrigðiseftirlitsins komi fram að stálhögl innihaldi á bilinu 0,6-8,6% af blýi svo að ekki sé hægt að halda því fram að með blýbanni verði ekki meiri blýmengun í fjöru og sjó í Kollafirði. Fráleitt sé að vísa til þess að Náttúrufræði­stofnun hafi ekki fengið neina ábendingu um fugla sem hafi sýnt einkenni blýeitrunar. Kolla­fjörður sé ekki Reykjavíkurtjörn. Blýeitrun í fuglum sjáist aldrei þar sem fuglar leiti í skjól til að deyja í friði og verði síðan fljótt bráð rándýra. Þá sé alrangt að hljóðmælt hafi verið á sömu stöðum og áður. Frá upphafi mælinga hafi verið mælt við sumarhús andspænis skotsvæðunum en það hafi hins vegar ekki verið gert í síðustu hljóðmælingu.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 4. maí 2021 um að gefa út starfsleyfi til Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis til reksturs skotæfinga­svæðis.

Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 er tekið fram að allur atvinnurekstur sem sótt sé um starfsleyfi fyrir skuli vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum eða lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Var þessu ákvæði skeytt við 1. mgr. 6. gr. með 18. gr. laga nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða. Í athugasemdum við 18. gr. í frumvarpi því sem varð að þeim lögum segir að með ákvæðinu séu lagðar til þær breytingar á nokkrum lögum er varði leyfisveitingar að þar komi skýrt fram að útgáfa skuli samræmast gildandi skipulagi, en í sumum tilvikum hafi jafnvel skort á í umræddum lögum að kveðið væri skýrt á um að leyfisveitingar skyldu samræmast skipulagi sveitarfélaga.

Við málsmeðferð umsóknar leyfishafa aflaði heilbrigðiseftirlitið umsagnar frá skipulags­fulltrúa Reykjavíkurborgar. Í umsögn hans, dags. 26. febrúar 2021, kemur fram að ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir svæðið en samkvæmt aðalskipulagi sé það skilgreint sem hafnar- og iðnaðarsvæði. Frá upphafi hafi umrætt svæði verið ráðgert til tímabundinna afnota en samkvæmt aðalskipulagi sé þar gert ráð fyrir 20 ha hafnar- og iðnaðarsvæði fyrir lóðir undir hafnsækna og landfreka athafna- og iðnaðarstarfsemi. Í ljósi þeirrar óánægju sem íbúar í nágrenninu hafi látið í ljós og þeirrar ábendinga sem borist hafi vegna hávaða telji skipulags­fulltrúi nauðsynlegt að setja strangari skilyrði um starfsemina, s.s. um opnunartíma og notkun á blýhöglum samhliða því að kanna til hlítar nýja staðsetningu fyrir starfsemina á höfuðborgarsvæðinu. Í ljósi þessa hafi ekki verið mælt með því að gefa út starfsleyfi til lengri tíma en tveggja ára og þá aðeins með ítarlegum starfsleyfisskilyrðum.

Samkvæmt f-lið gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er iðnaðarsvæði skilgreint svo: „Svæði fyrir umfangsmikla iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem er talin geta haft mengun í för með sér, svo sem verksmiðjur, virkjanir, þ.m.t. vatnsfallsvirkjanir, jarðhitavirkjanir, sjávarfallavirkjanir og vindmyllur, tengivirki, veitustöðvar, skólpdælu- og hreinsistöðvar, endurvinnslustöðvar, brennslustöðvar, förgunarstöðvar, sorpurðunarsvæði, flokkunar­miðstöðvar og birgðastöðvar fyrir mengandi efni.“ Samkvæmt o-lið sömu greinar er hafnar­svæði skilgreint svo: „Svæði fyrir hafnir og hafnarmannvirki þar sem gert er ráð fyrir mannvirkjum og tækjum til móttöku skipa og báta, losunar og lestunar þeirra, geymslu vöru, móttöku og afgreiðslu þessarar vöru til áframhaldandi sjó- eða landflutninga, til móttöku og brottfarar farþega og smábátahafnir.“

Þá er í j-lið sömu greinar að finna skilgreiningu fyrir landnotkunarflokkinn „Íþróttasvæði“ og kemur þar fram að íþróttasvæði sé fyrir landfreka íþróttaaðstöðu aðra en þá sem þjóni tilteknu hverfi, svo sem skeiðvelli, hesthúsabyggð, akstursíþróttasvæði, skotæfingasvæði, golfvelli og stærri íþróttamiðstöðvar.

Af því sem að framan er rakið liggur fyrir að starfsemi sú sem heimiluð er með hinu kærða starfsleyfi, sem er rekstur skotæfingasvæða, samræmist ekki landnotkun umrædds svæðis eins og það er tilgreint í aðalskipulagi, svo sem áskilið er í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998. Verður af þeim sökum að fella hið kærða starfsleyfi úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 4. maí 2021 um að gefa út starfsleyfi fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis í Álfsnesi.

78/2021 Starfsleyfi Álfsnes

Með

Árið 2021, föstudaginn 24. september kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2021, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 4. maí 2021 um að gefa út starfsleyfi til Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis til reksturs skotvalla í Álfsnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júní 2021, er barst   nefndinni sama dag, kærir Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis þá ákvörðun Heilbrigðis­eftirlits Reykjavíkur frá 4. maí 2021 að gefa út starfsleyfi til félagsins til reksturs skotvalla í Álfsnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að Reykjavíkurborg verði gert að veita nýtt starfsleyfi með rýmri opnunartíma svæðisins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 9. júlí 2021.

Málsatvik og rök: Hinn 8. febrúar 2021 sendi Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis umsókn til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um endurnýjun starfsleyfis fyrir starfsemi félagsins á skotvelli þess í Álfsnesi ásamt greinargerð, dags. 5. s.m. Hinn 15. s.m. sendi heilbrigðis­eftirlitið beiðni til skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnir, um umsögn um það hvort starfsemin í Álfsnesi væri í samræmi við skipulag. Umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 26. febrúar 2021, barst heilbrigðis­eftirlitinu 3. mars s.á. Í henni kemur fram að ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir svæðið en samkvæmt aðalskipulagi sé það skilgreint sem hafnar- og iðnaðarsvæði. Í ljósi þeirrar óánægju sem íbúar í nágrenni hafi látið í ljós og þeirra ábendinga sem borist hafi vegna hávaða telji skipulags­fulltrúi nauðsynlegt að setja strangari skilyrði um starfsemina, s.s. um opnunartíma og notkun á blýhöglum, samhliða því að kanna til hlítar nýjar staðsetningar fyrir starfsemina á höfuðborgar­svæðinu. Að lokinni kynningu starfsleyfisumsóknarinnar samþykkti heilbrigðis­eftirlitið að gefa út starfsleyfi til tveggja ára, eða til 4. maí 2023. Tilkynning um útgáfu þess ásamt greinar­gerð um útgáfuna, afriti af starfsleyfi og starfsleyfisskilyrðum var birt á vefsvæði heilbrigðis­eftirlitsins 21. maí 2021.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að mikil þörf sé fyrir svæði eins og hér um ræði. Mikilvægt sé að til séu svæði þar sem veiðimenn geti æft skotfimi til að tryggja að þeir verði færar skyttur. Mikil afturför væri ef veiðimenn hrektust aftur í yfirgefnar námur eða önnur opin svæði í nágrenni borgarinnar til að æfa sig. Þá sé það öryggismál að slík æfingasvæði séu opin. Umrætt svæði henti sérstaklega vel til skotæfinga og fyrir liggi að samkvæmt skipulagi sé ekkert íbúðarsvæði nálægt umræddu skotsvæði. Í umsókn sinni hafi kærandi sótt um óbreyttan opnunartíma enda hafi félagið talið að ekkert hefði breyst frá því núverandi starfsleyfisreglur hefðu verið samþykktar til 12 ára. Óbreyttur opnunartími sé grunnforsenda fyrir rekstri svæðisins.

Samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir hafi heilbrigðisnefnd það hlutverk að veita starfsleyfi fyrir starfsleyfisskylda starfsemi, sbr. viðauka IV við lögin, og setja starfseminni ramma í starfsleyfisskilyrðum um hvað geti talist ásættanleg umhverfisáhrif út frá m.a. starfseminni og staðsetningu. Skipulagsyfirvöld móti skipulag og landnotkun í skipulagi, sem ákvarði með því á hvaða svæðum tiltekin starfsemi sé heimil. Meti heilbrigðiseftirlitið í umsóknarferli hvort tiltekin starfsemi sé í samræmi við skipulag og beri að leita umsagnar, eftir atvikum skipulagsfulltrúa og/eða byggingarfulltrúa, um það hvort starfsemin sé í samræmi við skipulag, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnir. Ekki sé heimilt að gefa út starfsleyfi nema fyrir liggi jákvæð umsögn skipulagsfulltrúa og/eða byggingarfulltrúa. Helstu umhverfisáhrif umræddrar starfsemi séu hávaði og ónæði frá starfseminni fyrir nágranna og útivistarfólk, en auk þess hafi notkun á blýhöglum í för með sér mengunarhættu í umhverfinu. Það sé hlutverk heilbrigðiseftirlitsins að setja starfseminni mörk í starfsleyfi til að lágmarka þessi umhverfisáhrif.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 4. maí 2021 um að veita starfsleyfi til kæranda til reksturs skotvalla í Álfsnesi með þrengri skilyrðum en í fyrra starfsleyfi. Gerir kærandi þá kröfu að heilbrigðiseftirlitinu verði gert að gefa út nýtt starfsleyfi með rýmri opnunartíma skotæfingasvæðis félagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endur­skoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun eða breytir efni ákvörðunar.

Úrskurðarnefndin kvað upp fyrr í dag úrskurð í kærumáli nr. 92/2021, þar sem ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 4. maí 2021, um að gefa út starfsleyfi til handa kæranda máls þessa til reksturs skotvalla í Álfsnesi, var felld úr gildi. Liggur því nú fyrir að hin kærða ákvörðun í máli þessu hefur ekki lengur réttarverkan að lögum og hefur kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

51 og 56/2021 Starfsleyfi Álfsnes

Með

Árið 2021, föstudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 51/2021, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 11. mars 2021 um að gefa út starfsleyfi til Skotfélags Reykjavíkur til reksturs skotvalla í Álfsnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. apríl 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra tilgreindir íbúar og landeigendur í nágrenni Álfsness þá ákvörðun Heilbrigðis­eftirlits Reykjavíkur frá 11. mars 2021 að gefa út starfsleyfi til Skotfélags Reykjavíkur til reksturs skotvalla í Álfsnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að hlutlausir aðilar verði látnir mæla mengun í sjó og við strönd fyrir neðan aðstöðu Skotfélags Reykjavíkur.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. maí 2021, er barst nefndinni 3. s.m., kæra tilgreindir íbúar og landeigendur við Kollafjörð, Reykjavík, sömu ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins og gera kröfu um að ákvörðunin verði felld úr gildi og að óháðir aðilar framkvæmi hljóð- og jarðvegs­mælingar á umræddu svæði. Verður það kærumál, sem er nr. 56/2021, sameinað máli þessu þar sem sama ákvörðun er kærð til ógildingar og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 3. júní 2021.

Málavextir: Með tölvupósti til Skotfélags Reykjavíkur hinn 7. janúar 2020 upplýsti Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur að starfsleyfi félagsins fyrir skotvelli í Álfsnesi myndi renna út 11. mars s.á. og sækja þyrfti um nýtt leyfi tímanlega. Hinn 15. janúar s.á. sótti Skotfélag Reykjavíkur um endurnýjun starfsleyfis. Móttaka umsóknar var staðfest með tölvupósti 3. febrúar s.á. og um leið vakin athygli á því að umsókn þyrftu að fylgja gögn í samræmi við 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Skotfélagið óskaði einnig eftir því að gildandi starfsleyfi yrði framlengt um eitt ár, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hinn 11. mars 2020 staðfesti heilbrigðis­eftirlitið að umsóknin væri fullnægjandi og óskað var umsagnar skipulagsfulltrúa Reykjavíkur­borgar um skipulagslega stöðu skotvallarins. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 27. s.m., kom fram að samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur væri umrætt svæði, I2/H6/E5, skilgreint sem hafnar- og iðnaðarsvæði. Á svæðinu væri gert ráð fyrir lóðum undir hafnsækna athafna- og iðnaðarstarfsemi sem væri landfrek og af stafaði mengunarhætta. Gert væri ráð fyrir lítilli höfn við Kollafjörð vestast á svæðinu með landfyllingu og varnargörðum. Ekkert deiliskipulag væri í gildi fyrir reitinn. Kom fram að æskilegt væri að hafin yrði vinna við að finna skotfélaginu nýjan stað fyrir æfingasvæði sitt í ljósi þeirra kvartana sem borist hefðu frá íbúum í nágrenni svæðisins. Skipulagsfulltrúi taldi ekkert því til fyrirstöðu að framlengja starfsleyfi félagsins um eitt ár. Á afgreiðslufundi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur 7. apríl 2020 var samþykkt að framlengja gildistíma starfsleyfis Skotfélags Reykjavíkur fyrir skotvelli í Álfsnesi um eitt ár.

Haustið 2020 var unnin könnun á blý- og hávaðamengun á og nærri skotvelli Skotfélags Reykjavíkur og við skotvöll Skotveiðifélags Reykjavíkur, sem er á sama svæði. Var könnunin til undirbúnings endurnýjunar starfsleyfa beggja félaganna. Með tölvupósti 3. nóvember 2020 var umsagnar skipulagsfulltrúa leitað vegna umsóknar um endurnýjun á starfsleyfi Skotfélags Reykjavíkur um það hvort starfsemin samræmdist skipulagi og hvort fyrirhugaðar væru breytingar á skipulagi sem gætu komið í veg fyrir endurnýjun starfsleyfisins til 12 ára. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 22. janúar 2021, kom fram að ekkert deiliskipulag væri í gildi fyrir svæðið en samkvæmt aðalskipulagi væri það skilgreint sem hafnar- og iðnaðarsvæði. Frá upphafi hefði umrætt svæði verið ráðgert til tímabundinna afnota, en samkvæmt gildandi skipulagi væri gert ráð fyrir 20 ha hafnar- og iðnaðarsvæði fyrir lóðir undir hafnsækna og landfreka athafna- og iðnaðarstarfsemi. Í ljósi þeirrar óánægju sem íbúar í nágrenninu hefðu látið í ljós og þeirra ábendinga sem borist hefðu vegna hávaða teldi skipulagsfulltrúi nauðsynlegt að setja strangari skilyrði um starfsemina, s.s. um opnunartíma og notkun á blýhöglum, samhliða því að kanna til hlítar nýja staðsetningu fyrir starfsemina á höfuðborgarsvæðinu. Í ljósi þessa hefði ekki verið mælt með því að gefa út starfsleyfi til lengri tíma en tveggja ára og þá aðeins með ítarlegum starfsleyfisskilyrðum.

Auglýsing um tillögu að starfsleyfi fyrir skotvöll Skotfélags Reykjavíkur í Álfsnesi var birt á vefsvæði Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur 19. janúar 2021. Kom fram að á tímabilinu 19. janúar til 15. febrúar s.á. mætti hver sem vildi senda heilbrigðiseftirlitinu athugasemdir og ábendingar vegna tillögunnar. Sérstök tilkynning var send á hagsmunaaðila, s.s. íbúa í nágrenninu, aðila sem hefðu kvartað yfir starfseminni o.fl. Á auglýsingatíma bárust 15 athugasemdir, m.a. frá sumum kærenda.

Á afgreiðslufundi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur 11. mars 2021 var samþykkt að gefa út starfsleyfi fyrir skotvelli Skotfélags Reykjavíkur í Álfsnesi til tveggja ára með sértækum starfsleyfisskilyrðum  og almennum starfsleyfisskilyrðum heilbrigðisnefndar Reykjavíkur fyrir mengandi starfsemi. Tilkynning um útgáfu starfsleyfis var birt á vefsvæði Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur 16. mars s.á.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda við Álfsnes er vísað til þess að þeir telji alvarlega blýmengun vera til staðar í fjöru og sjó hjá Skotfélagi Reykjavíkur í Álfsnesi. Mistök hafi verið gerð hjá embætti borgarverkfræðings þar sem skotvellirnir hafi verið færðir niður að sjó svo koma mætti fyrir vélhjólabraut á sama svæði. Síðan hafi eftirlit með starfseminni verið sett í hendur leyfishafa, sem hafi komist upp með að segja ósatt í eftirlitsskýrslum um losun á blýi og ekki farið eftir starfsleyfisskilyrðum í 14 ár. Heilbrigðiseftirlitið hafi lokað augunum fyrir þessum brotum og mengun og ekki sinnt vöktun á skotsvæðinu, sem hafi haft þær afleiðingar að e.t.v. tugir tonna af blýi liggi í sjó og fjöru á Álfsnesi og í Kollafirði sem sé óhreinsanlegt. Það hafi ekki verið fyrr en íbúar og landeigendur, sem hafi verið orðnir þreyttir á því að heilbrigðiseftirlitið hunsaði ábendingar, létu gera skýrslu um blýmengun í sjó og fjöru á Álfsnesi. Skýrslan hafi síðan verið kynnt í borgarráði og í framhaldi af því hafi Heilbrigðis­eftirlit Reykjavíkur verið látið gera rannsóknarskýrslu á blýmengun sem hafi leitt til nákvæm­lega sömu niðurstöðu, þ.e. að helmingur skotanna væri úr blýi. Eftir það hafi verið fenginn nýr eftirlitsaðili sem viðurkenndi í eftirlitsskýrslu á árinu 2020, í fyrsta skipti frá opnun skotvalla Skotfélags Reykjavíkur árið 2008, að blýskotin endi í sjónum og fjörunni. Síðan hafi Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur lagt á blýbann á Álfsnesi. Til dagsins í dag hafi ekki enn farið fram eftirlit með blýmengun í sjó og fjöru fyrir neðan haglabyssuvelli Skotfélags Reykjavíkur í Álfsnesi. Telji kærendur, sem eigi lönd að sjó, að þessi blýmengun sé mjög alvarleg og stofni lífríki hafsins og fuglalífi í mikla hættu.

Í gr. 1.2 í starfsleyfisskilyrðum fyrir mengandi starfsemi komi fram að rekstraraðila beri að sjá til þess að starfsemi sé í samræmi við lög og reglur og að hann beri ábyrgð á því að hvorki fólki né umhverfi stafi hætta af. Kærendur telji að Skotfélag Reykjavíkur hafi margbrotið þessar reglur. Í eftirlitsskýrslum skotfélagsins hafi verið gefnar upp rangar upplýsingar og í sumum tilfellum engar upplýsingar um það magn af blýi sem sé losað á ári í tengslum við starfsemi þess. Í eftirlitsskýrslunum sé talað um að skotfæraverslanir selji nær eingöngu stálskot fyrir skotvelli svo að nánast engin blýskot séu notuð. Þetta sé alrangt, enda selji skotfæraverslanir nú jafn mikið af blýskotum og stálskotum fyrir skotvelli og geti hver maður farið á netsíður þeirra og fengið það staðfest. Samkvæmt eftirlitsskýrslum losi skotfélögin um fjögur tonn af höglum á ári og á tveimur skotsvæðum ca. 100 tonn síðustu 14 ár.

Veki það furðu að það hafi tekið eftirlitsmenn heilbrigðiseftirlitsins 14 ár að játa það að Skot­félag Reykjavíkur losi blý í fjöru og sjó. Mönin fyrir framan haglabyssuvöllinn þyrfti að hækka um rúmlega 15 m til þess að hún þjónaði einhverjum tilgangi, sem sé ógerlegt. Eina leiðin til að koma í veg fyrir að högl lendi í sjónum sé að gera 150 m landfyllingu fyrir aftan haglabyssu­völlinn. Núverandi mön sé einungis til skrauts og þjóni engum tilgangi. Þá sé einnig mikilvægt að minna á að í rannsóknarskýrslu heilbrigðiseftirlitsins komi fram að stálskot innihaldi 0,6-8% blý. Þó svo að blýskot hafi verið bönnuð muni losun á blýi í sjó og fjöru halda áfram, bara í minna magni.

Í eftirlitsskýrslum komi fram að aldrei hafi farið fram rannsókn á þungmálmamengun á svæðinu. Samkvæmt gr. 2.1.2 í starfsleyfisskilyrðum skuli á fimm ára fresti, í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, mæla hversu djúpt þungmálmamengun frá skotum hafi borist. Eftir að rannsóknarskýrsla heilbrigðiseftirlitsins á blýi og hávaðamengun hafi sýnt mikla og alvarlega blýmengun á svæðinu veki það furðu að ekki hafi verið farið í að mæla hversu djúpt þungmálmamengun frá skotum hefði borist áður en starfsleyfi væri gefið út. Þá hafi Skotfélag Reykjavíkur aldrei lagt sérstakt yfirborðlag úr jarðefni sem bindi þungmálma á skotæfinga­svæði sínu, eins og gert sé að skilyrði samkvæmt gr. 6.4. í starfsleyfisskilyrðum. Þá hafi skotfélagið aldrei tilkynnt í samræmi við gr. 1.7. í starfsleyfisskilyrðum um að blýskot hefðu lent í sjó og fjöru.

Svo virðist sem mistök hafi verið gerð hjá Reykjavíkurborg með því að hanna haglabyssuvöll Skotfélags Reykjavíkur á þann hátt að öll losun á blýi frá þeim endi beint út í sjó og fjöru. Vegna kostnaðar og þess að svæðið hafi nú þegar verið byggt upp hafi verið tekin sú ákvörðun að horfa fram hjá þeirri alvarlegu losun á hættulegum efnum út í sjó og fjöru.

Af hálfu kærenda í nágrenni Kollafjarðar er bent á að ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir skot­svæðið. Þar af leiðandi hafi aldrei farið fram umhverfismat eða kynning fyrir hagsmunaaðilum og grenndarsamfélaginu vegna starfseminnar. Upphaflega hafi verið ráðgert að svæðið væri til afnota einungis til ársins 2020.

Frá árinu 2007 hafi Skotfélag Reykjavíkur verið með starfsemi í Álfsnesi en nánast frá upphafi hafi hún verið í mikilli óþökk íbúa, m.a. vegna hávaðamengunar. Einnig séu gerðar athugasemdir við eftirlit með blýmengun í jarðvegi á svæði skotfélagsins auk þess sem ekki hafi verið rannsökuð áhrif þess að blýhögl safnist upp í fjörunni og hafni að lokum í sjónum. Telji kærendur að lífríkið bíði skaða af. Þá hafi umsókn Skotfélags Reykjavíkur ekki uppfyllt skilyrði starfsleyfisumsóknar. Þannig hafi engar viðbótarupplýsingar verið skráðar um mótvægisaðgerðir hvorki vegna hávaða né myndunar og losunar mengandi efna í umhverfi í starfsleyfisumsókninni.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur það hlutverk að veita starfsleyfi fyrir starfsleyfisskylda starfsemi, sbr. viðauka IV við lögin, og setja starfseminni ramma í starfsleyfis­skilyrðum um hvað geti talist ásættanleg umhverfisáhrif út frá m.a. starfseminni og stað­setningu. Skipulagsyfirvöld móti skipulag og landnotkun í skipulagi, sem ákvarði á hvaða svæðum tiltekin starfsemi sé heimil. Heilbrigðiseftirlitið meti í umsóknarferli hvort tiltekin starfsemi sé í samræmi við skipulag og beri að leita umsagnar, eftir atvikum skipulags- og/eða byggingarfulltrúa, um það hvort starfsemi sé í samræmi við skipulag og heimila notkun fasteignar, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnir. Ekki sé heimilt að gefa út starfsleyfi nema fyrir liggi jákvæð umsögn skipulagsfulltrúa og/eða byggingarfulltrúa. Helstu umhverfisáhrif af starfsemi skotvalla séu hávaði, mengun vegna efna í skotum og höglum og vegna umgengni á svæðunum. Hávaði frá starfseminni hafi í för með sér ónæði fyrir nágranna og útivistarfólk og notkun á blýhöglum hafi í för með sér mengunarhættu í umhverfinu. Það sé hlutverk heilbrigðiseftirlitsins að setja starfseminni mörk í starfsleyfi til að lágmarka þessi umhverfisáhrif.

Heilbrigðiseftirlitinu hafi borist umsókn Skotfélags Reykjavíkur um endurnýjun á starfsleyfi fyrir skotvöll félagsins í Álfsnesi í janúar 2020. Mælt sé fyrir um meðferð umsóknar um starfsleyfi í lögum nr. 7/1998 og í reglugerð nr. 550/2018 og hafi öll málsmeðferð umsóknar­innar verið í samræmi við viðeigandi ákvæði í lögunum og reglugerðinni.

Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 skuli starfsleyfisskyld starfsemi vera í samræmi við skipulag og beri útgefanda starfsleyfis að leita umsagnar skipulagsfulltrúa þar um. Umsagnar skipulagsfulltrúa hafi verið leitað í tvígang. Umsagnar hafi fyrst verið leitað þegar heilbrigðis­eftirlitið hafi tekið til afgreiðslu erindi Skotfélags Reykjavíkur um að nýtt yrði heimild í lögum nr. 7/1998 um framlengingu starfsleyfis í allt að eitt ár á meðan nýtt leyfi væri unnið. Í umsögn skipulagsfulltrúa komi fram að hann telji ekkert því til fyrirstöðu skipulagslega séð að starfs­leyfið verði framlengt um eitt ár. Í seinni umsögninni, sem leitað hafi verið eftir þegar tillaga um starfsleyfi hafi verið í auglýsingu, séu ekki gerðar skipulagslegar athugasemdir við starfsemina en tekið sé fram að skipulagsfulltrúi mæli ekki með því að starfsleyfi verði gefið út til lengri tíma en tveggja ára. Með þessum tveimur umsögnum skipulagsfulltrúa, þar sem ekki séu gerðar skipulagslegar athugasemdir við starfsemina, telji heilbrigðiseftirlitið að uppfyllt sé það skilyrði að starfsemi skuli vera í samræmi við skipulag.

Tillögu að starfsleyfi beri að auglýsa opinberlega á vefsvæði útgefanda starfsleyfis, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018. Auglýsing um tillögu að endurnýjun á starfsleyfi Skotfélags Reykja­víkur fyrir starfsemi skotvallar félagsins, ásamt starfsleyfisskilyrðum sem um starfsemina gildi samkvæmt tillögunni, hafi verið birt á vefsvæði heilbrigðiseftirlitsins 19. janúar 2021. Tekið hafi verið fram að á auglýsingatíma mætti hver sem vildi senda inn ábendingar og athugasemdir við tillöguna á tímabilinu 19. janúar til 15. febrúar s.á. og hafi borist 15 athugasemdir á auglýsingatíma. Með auglýsingunni hafi verið uppfyllt ákvæði um auglýsingu starfsleyfis, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018.

Útgáfa og gildistaka starfsleyfis til tveggja ára fyrir starfsemi skotvallar Skotfélags Reykjavíkur í Álfsnesi hafi verið auglýst á vefsvæði heilbrigðiseftirlitsins 16. mars 2021. Meðfylgjandi auglýsingunni hafi verið birt greinargerð um útgáfu starfsleyfisins þar sem farið hafi verið yfir málsmeðferðina, innsendar athugasemdir birtar og gerð grein fyrir afstöðu heilbrigðis­eftirlitsins til þeirra, ásamt afriti af starfsleyfinu og starfsleyfisskilyrðum sem um starfsemina gildi. Með birtingu auglýsingarinnar hafi verið uppfyllt ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um auglýsingu á útgáfu starfsleyfis. Starfsemi skotvallarins hafi áhrif á ólíka hagsmunahópa sem gróflega megi skipta í tvennt. Annars vegar sé það skotveiði- og skotíþróttafólk sem nýti aðstöðu til að stunda skotæfingar. Hins vegar séu íbúar og eigendur fasteigna við Kollafjörð og á Kjalarnesi og útivistarfólk, sem m.a. vilji njóta kyrrðar. Hagsmunir og sjónarmið þessara hópa séu eðli málsins samkvæmt gjörólíkir og endurspeglist það í innsendum athugasemdum. Við gerð starfsleyfisskilyrða telji heilbrigðiseftirlitið að tekið hafi verið tillit til sjónarmiða beggja hópa að því leyti sem hægt hafi verið án þess að ganga um of á sjónarmið annars hvors hópsins eða víkja frá ákvæðum laga og reglugerða. Þannig sé starfsemin enn heimil, sem þjóni  hags­munum skotmanna. Hins vegar hafi starfseminni verið sniðinn þrengri stakkur en áður, með því að banna notkun á blýhöglum vegna mengunarhættu og banna  starfsemi eftir kl. 19:00, í ljósi niðurstaðna mælinga á hávaða frá skotsvæðunum,  en það komi  til móts við sjónarmið íbúa og útivistarfólks. Einnig sé starfsemi óheimil tvo daga í viku og sérstaka frídaga og sé það til að koma til móts við kröfur um næðisdaga.

Haustið 2020 hafi heilbrigðiseftirlitið gert könnun á magni og dreifingu blýhagla við skotvellina í Álfsnesi. Tilgangur með könnuninni hefði annars vegar verið sá að skoða hvort hægt væri að staðfesta tilvist blýhagla á jörðu og í fjöru út frá skotvöllunum og hins vegar að skoða hlutfall blý- og stálhagla á nokkrum sýnatökustöðum til að fá hugmynd um hvort það væri nálægt þeim hlutföllum sem skotfélögin hefðu gefið upp árin á undan. Markmið með könnuninni hefði ekki verið að gera heildarúttekt á mengun af völdum blýhagla eða magntaka blýhöglin og mögulega mengun af þeirra völdum. Mun ítarlegri rannsókn þyrfti í þeim tilgangi og þyrfti þá að skoða aðra þætti, t.d. áhrif veðrunar á mismunandi gerðir af höglum. Hins vegar hefði tilgangurinn verið sá að gera mælingar á hávaða frá starfseminni og bera saman við gildi í töflu III, Mörk fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi, í reglugerð nr. 724/2008 um hávaða, að gefnum forsendum, þar sem reglugerðin gefi ekki viðmið fyrir þá starfsemi sem hér um ræði.

Niðurstöður könnunar á blýi staðfesti tilvist blýhagla á öllum sýnatökustöðum, sem hafi ekki komið á óvart þar sem fyrir hafi legið að blýhögl hefðu verið notuð á báðum skotvöllunum frá upphafi starfseminnar í kringum árið 2005, en könnunin staðfesti dreifingu hagla út fyrir skotvellina sjálfa. Niðurstöðurnar hafi einnig sýnt að hlutfall blýhagla væri hærra en búast mátti við út frá upplýsingum frá skotfélögunum, en samkvæmt þeim hafi það verið undir 5% af heildarnotkun hagla og jafnvel minna. Notkun blýhagla hafi verið mun algengari á fyrri árum starfseminnar, en engar upplýsingar séu til um hversu algeng hún hafi verið. Því hafi mátt búast við að hlutfallið væri hærra en uppgefið hlutfall síðustu ára. Niðurstöður könnunar­innar gefi vísbendingar um að notkun blýhagla hafi verið meiri síðustu ár en komið hafi fram í gögnum skotfélaganna. Hafi það gefið tilefni til að leggja til bann við notkun blýhagla á skotvöllunum til að koma í veg fyrir frekari mengun, enda séu á markaði högl úr efnum sem hafi minni umhverfisáhrif. Heilbrigðiseftirlitið hafi tekið þetta skref þrátt fyrir að ekki lægi fyrir staðfest vísindaleg gögn um að lífríki Kollafjarðar hefði orðið fyrir skaða af völdum hagla úr blýi. Til rökstuðnings hefði einnig verið horft til þeirrar varúðarreglu í umhverfisrétti, um að náttúran nyti vafans. Sambærileg þróun sé víða í Evrópu, þ.e. að verið sé að þrengja að eða banna notkun blýhagla á skotvöllum.

Ástæða þess að heilbrigðiseftirlitið hafi ekki gengið eftir mælingum á þungmálmum í jarðvegi sé sú að fram til 1. janúar 2021, við gildistöku reglugerðar nr. 1400/2020 um mengaðan jarðveg, hafi engar leiðbeiningar verið að finna í íslensku regluverki um viðmiðunarmörk fyrir mengaðan jarðveg. Litið hafi verið svo á að rannsóknir á mengun í jarðvegi myndu þjóna litlum tilgangi þegar ekki væru til leiðbeiningar um hvernig túlka ætti niðurstöðurnar eða nota, auk þess sem rannsóknin yrði kostnaðarsöm og því varla verjandi að krefjast slíkrar rannsóknar. Þá hafi hvorki verið gerð úttekt á mengun á svæðinu áður en starfsemi skotvallarins hafi hafist árið 2005 né séu bakgrunnsgildi þungmálma í jarðvegi á svæðinu þekkt, sem enn hefði aukið á erfiðleika við túlkun á niðurstöðum. Með gildistöku áðurnefndrar reglugerðar séu þó komin viðmið til að nota við túlkun á niðurstöðum, enda hafi það verið sett í ný starfsleyfisskilyrði að framkvæma ætti mælingar innan sex mánaða frá gildistöku starfsleyfisins. Sá tími hafi þótt hæfilegur til að undirbúa og framkvæma sýnatöku en einnig hefði verið horft til þess að leiðbeiningar sem Umhverfisstofnun ætti að gefa út um frummat, áhættudreifingu, aðferðir við sýnatöku og meðhöndlun jarðvegs hefðu ekki verið gefnar út en kæmu vonandi innan fyrrnefnds tímaramma. Í ljósi þess að nú sé notkun blýhagla bönnuð ætti ekki að bætast við mengun á þeim tíma og því talin lágmarksáhætta að veita þennan frest.

Könnun á hávaða hafi verið unnin í samræmi við þær leiðbeiningar sem sé að finna í reglugerð nr. 724/2008 um hávaða og leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um mæliaðferðir við hljóð­mælingar vegna eftirlits og aðferðir sem þar sé vísað til. Við val á mælistöðum hafi verið höfð hliðsjón af fyrri mælingum heilbrigðiseftirlitsins og mælt á stöðum sem áður hafi verið mælt á til að gæta samræmis og fá samanburð, auk þess sem bætt hafi verið við mælingu í Esjuhlíðum til að fá hugmynd um upplifun og áhrif á útivistarfólk. Niðurstöðurnar gefi til kynna að hávaði frá starfseminni sé yfir viðmiðunarmörkum, að gefnum forsendum. Í reglugerð nr. 724/2008 sé ekki að finna ákvæði eða viðmið sem séu sértæk fyrir skotvelli og gefi reglugerðin ekki leiðbeiningar um mælingar eða mat á hávaða frá starfsemi skotvalla. Sama gildi um leiðbeiningar Umhverfisstofnunar og mæliaðferðir sem þar sé vísað í, en þar séu ekki heldur leiðbeiningar um hávaðamælingar frá starfsemi skotvalla. Ekki sé heldur að finna viðmið fyrir hávaða á landbúnaðarsvæðum í reglugerðinni en helsta áhrifasvæði starfsemi umrædds skotvallar hvað varði hávaða sé á svæði sem sé skilgreint landbúnaðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Heilbrigðiseftirlitið hafi því staðið frammi fyrir því að þurfa að ákveða til hvaða viðmiða skyldi horft við túlkun á niðurstöðum mælinga. Það hafi verið niðurstaðan að nota viðmið fyrir íbúðarhús á íbúðarsvæði. Hafi það þótt vera millivegur milli þess að nota viðmið fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi á iðnaðarsvæðum, þar sem viðmið séu hærri, og þess að nota viðmið fyrir hávaða í frístundabyggð, þar sem viðmið séu lægri, en þau viðmið hafi komið til greina með tilliti til skilgreindrar landnotkunar á afnota- og áhrifasvæði starfseminnar.

Við vinnslu á tillögu að opnunartíma hafi verið horft til þess að niðurstöður hávaðamælinga sýndu að hávaði frá starfseminni væri yfir mörkum í töflu III í reglugerð nr. 724/2008 eftir kl. 19:00 á kvöldin, þegar horft sé til viðmiða fyrir íbúðarhús á íbúðarsvæði. Því hafi verið sett það starfsleyfisskilyrði að starfsemi væri óheimil eftir kl. 19:00. Í athugasemdum við tillögu að starfsleyfi sé gagnrýnt að heilbrigðiseftirlitið skuli horfa til viðmiða fyrir íbúðarhús á íbúðarsvæði. Stuðningsmenn skotfélagsins hafi talið að réttara væri að horfa til viðmiða fyrir athafna- og iðnaðarsvæði, en íbúar við Kollafjörð og útivistarfólk hafi hins vegar viljað að horft yrði til viðmiða fyrir frístundasvæði eða dreifbýli. Ákveðið hafi verið að nota þetta viðmið þótt það væri ekki lýsandi fyrir svæðið, en heilbrigðiseftirlitið telji það skásta kostinn með tilliti til allra hagsmunahópa, þ.e. hvorki sé miðað við hæstu né lægstu mörk í töflu III. Í töflu III komi fram að mörkin séu 50 dB(A) á dagtíma, frá kl. 07:00 til 19:00 og 45 dB(A) á kvöldin frá kl. 19:00 til 23:00. Niðurstöður hávaðamælinga væru þær að hávaði frá starfseminni reyndist vera yfir 50 dB(A) í nokkrum mælingum og leggi heilbrigðiseftirlitið það til grundvallar því að heimila ekki starfsemi eftir kl. 19:00. Heilbrigðiseftirlitið hafi ekki heimild til að víkja frá ákvæðum reglugerðarinnar eða nota viðmið úr erlendum reglum án þess að til þeirra sé vísað í íslensku regluverki.

Sem fyrr segi hafi könnun á hávaða verið unnin í samræmi við þær leiðbeiningar sem sé að finna í reglugerð nr. 724/2008 um hávaða og leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um aðferðir við hljóðmælingar vegna eftirlits og mæliaðferðir sem vísað sé til þar. Munur sé á niðurstöðum hljóðmælinga heilbrigðiseftirlitsins og hljóðmælinga sem íbúar við Kollafjörð hafi staðið fyrir og eigi sá munur sér þá skýringu að notaðar séu mismunandi mæliaðferðir. Heilbrigðiseftirlitið geri sér grein fyrir því að mæliaðferð sem reglugerðin um hávaða og leiðbeiningar Umhverfis­stofnunar vísi til sé ekki heppilegasta aðferðin til að mæla hávaðamengun frá skotsvæðum þar sem aðrar aðferðir gefi betri mynd af hávaðamenguninni frá þeirri starfsemi. Í ljósi þess að hér á landi sé í gildi reglugerð um hávaða með tilteknum viðmiðunarmörkum telji heilbrigðiseftirlitið að ekki sé hægt að byggja ákvæði í starfsleyfisskilyrðum á erlendum mæliaðferðum sem ekki hafi verið innleiddar eða vísað til í íslenska löggjöf. Þess megi geta að í eldri reglugerð um hávaða nr. 933/1999 hafi komið fram að ef upp kæmi tilvik sem reglurnar næðu ekki yfir skyldi velja viðurkennda hávaðareglu sem stuðst væri við í slíkum tilvikum í einhverju hinna Norður­landanna. Þessa reglu sé ekki að finna í gildandi reglugerð.

Þá sé áréttað að kærandi í nágrenni Kollafjarðar hafi fengið umbeðin gögn ásamt leiðbeiningum um kæruleiðir og kærufresti í tölvupósti 23. mars 2021, sbr. það sem fram komi í kæru. Jafnvel þótt kærufrestur væri miðaður við þá dagsetningu, þ.e. 23. mars 2021, þá væri kæra engu að síður of seint fram komin og því bæri að vísa henni frá. Kærufrestur sé einn mánuður frá því kæranda hafi orðið kunnugt eða mátt vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 2. málsl. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Sem fyrr segi hafi verið tilkynnt um útgáfu starfsleyfis á vefsvæði Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur 16. mars s.á. og teljist tilkynningin vera opinber birting, sbr. 7. gr. laga nr. 7/1998. Frá þeim tíma hafi kærendum mátt vera kunnugt um ákvörðunina og beri því að miða kærufrest við tímabilið 17. mars til 17. apríl. Kæran sé dagsett 2. maí 2021 og því augljóst að hún sé of seint fram komin.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur norðan megin við Kollafjörð taka fram að undarlegt sé að heilbrigðiseftirlitið segist hafa tekið tillit til sjónarmiða beggja hópa, þar sem margir íbúar hafi þurft að yfirgefa heimili sín og sett eignir sínar á sölu og margar eignir í landi Móa hafi verið í eyði frá opnun skotsvæðanna vegna hávaðamengunar. Sé áréttað að kærendur telji heilbrigðiseftirlitið aldrei frá upphafi hafa komið til móts við íbúa og landeigendur í Kollafirði. Þá sé rannsóknarskýrsla heilbrigðiseftirlitsins um blý- og hljóðmengun illa gerð og lítið gert úr mengun af völdum starfseminnar.

Áréttað sé að áðurgreindum frídögum hafi verið fækkað um 40% frá júní til september vegna ákvæðis um að skotfélögin megi halda fjögur mót á ári á nefndum frídögum. Þá hafi leyfishafi ekki uppfyllt skilyrði 5. gr. reglugerðar nr. 550/2018, þar sem blý sé enn að berast í sjó og fjöru utan skotsvæðanna og aldrei hafi verið farið eftir hávaða­vörnum í starfsleyfisskilyrðum. Enginn munur sé á hávaða á svæðinu eftir að sett hafi verið strangari skilyrði í endurnýjað starfsleyfi.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 11. mars 2021 um að gefa út starfsleyfi til Skotfélags Reykjavíkur til reksturs skotæfingasvæðis.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðunin var tilkynnt aðila.

Hin kærða ákvörðun var birt á vefsvæði Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur 16. mars 2021. Í samræmi við 5. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir telst birting á vefsíðu útgefanda starfsleyfis vera opinber birting og markaði sú birting því upphaf kærufrests.

Í greinargerð með 7. gr. frumvarps til laga nr. 66/2017 um breytingu á lögum nr. 7/1998 er fjallað um breytingu á ákvæði laganna um auglýsingu og útgáfu starfsleyfis með svofelldum hætti: „[E]r lögð skylda á Umhverfisstofnun að hafa aðgengilegar upplýsingar um útgáfu starfsleyfa og önnur tilgreind atriði. Telja verður mikilvægt að hagsmunaaðilar og almenningur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um framangreind atriði til að auðvelda þeim að koma á framfæri sjónarmiðum sínum við fyrirhugaðar ákvarðanir Umhverfisstofnunar. Um er að ræða innleiðingu á 24. og 25. gr. tilskipunar 2010/75/ESB. […] Þá er lagt til að Umhverfisstofnun auki upplýsingagjöf sína svo sem varðandi útgáfu starfsleyfa. Þannig er gert ráð fyrir að umsóknir um starfsleyfi, umsóknir um breytingar á starfsleyfum og upplýsingar um endurskoðun á starfsleyfum verði gerðar aðgengilegar á vefsvæði Umhverfisstofnunar.“ Síðan segir um birtingu útgefinna starfsleyfa: „Að lokum er lagt til að Umhverfisstofnun skuli auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa. Samkvæmt núgildandi lögum skal Umhverfisstofnun auglýsa útgáfu starfsleyfa í Stjórnartíðindum. Talið er að ein helsta ástæðan fyrir framangreindri skyldu hafi verið sú að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um gildistöku tiltekinna starfsleyfa. Telja verður að unnt sé að ná fram framangreindu markmiði með öðrum hætti en með birtingu í Stjórnartíðindum. Af þeim sökum er lagt til að Umhverfisstofnun verði gert skylt að auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa. Almenningur mun því auðveldlega geta nálgast þessar upplýsingar á vefsíðu Umhverfisstofnunar.“ Framangreint á einnig við um aðra útgefendur starfsleyfa skv. lögum nr. 7/1998, til að mynda Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.

Samkvæmt framangreindu eru breytingarnar sem gerðar voru á ákvæðum um auglýsingu á útgáfu starfsleyfa liður í því að gera starfsleyfisferlið gagnsætt og aðgengilegt almenningi og er greinileg sú ætlun löggjafans að leyfisveitendur noti vefsvæði sitt til miðlunar upplýsinga. Taka má undir að þessi leið geti leitt til greiðari aðgangs að upplýsingum er varða hagsmuni almennings. Þó verður að gera þann fyrirvara að upplýsingarnar sem um ræðir séu auðfundnar á vefsvæði viðkomandi stofnunar. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur rekur ekki eigin heimasíðu heldur er vefsvæði eftirlitsins að finna á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Til þess að finna vefsvæði heilbrigðiseftirlitsins þarf að velja flipann „Þjónusta“ á forsíðu heimasíðu Reykjavíkurborgar og finna þar heilbrigðiseftirlitið undir liðnum „Umhverfi og samgöngur“. Á vefsíðunni sem opnast við það er að finna flipa sem ber heitið „Opinber birting starfsleyfa“, á þeirri vefsíðu sem opnast í kjölfarið er að finna flipa sem ber heitið „Útgefin starfsleyfi fyrir mengandi starfsemi“. Eftir að hafa smellt á þann flipa opnast vefsíða með lista yfir starfsleyfi útgefin af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur en nýjustu starfsleyfin virðast þar ekki vera tilgreind fyrst. Þá eru engar upplýsingar um það í hvaða röð starfsleyfin birtast eða hvernig hægt sé að leita í listanum með markvissum hætti. Verður þetta að teljast galli á auglýsingu viðkomandi starfsleyfis og ekki til þess fallið að auðvelda aðgengi almennings að upplýsingunum.

Þrátt fyrir nefnda ágalla er það engum vafa undirorpið að auglýsing á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er sú leið er fara skal við birtingu starfsleyfis samkvæmt 5. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 og er ekki í lögunum eða greinargerð með þeim skilgreint nánar hvernig birtingin skuli fara fram. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að auglýsing hins kærða starfsleyfis hafi farið fram 16. mars 2021 í skilningi 5. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 og hafi kærendur mátt vita af útgáfu þess frá sama tíma, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Var kærufrestur því liðinn þegar kærur bárust úrskurðarnefndinni 19. apríl og 3. maí 2021. Hins vegar var fyrirkomulag birtingarinnar, svo sem áður er lýst, með þeim hætti að afsakanlegt verður að telja að kæra í máli þessu hafi ekki borist fyrr, sbr. ákvæði 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður málinu því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni á þeim forsendum.

Hins vegar bárust einum kærenda með tölvupósti 23. mars 2021 upplýsingar um útgáfu starfsleyfisins og leiðbeiningar um kæruleið og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar. Kæra þess kæranda barst 3. maí 2021, eftir að kærufresti lauk, hvort sem miðað er við lögbundinn kærufrest eða leiðbeiningar frá heilbrigðiseftirlitinu. Verður kæru þess kæranda er fékk nefndan tölvupósti því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 er tekið fram að allur atvinnurekstur sem sótt sé um starfsleyfi fyrir skuli vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum eða lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Var þessu ákvæði skeytt við 1. mgr. 6. gr. með 18. gr. laga nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða. Í athugasemdum við 18. gr. í frumvarpi því sem varð að þeim lögum segir að með ákvæðinu séu lagðar til þær breytingar á nokkrum lögum er varði leyfisveitingar að þar komi skýrt fram að útgáfa skuli samræmast gildandi skipulagi, en í sumum tilvikum hafi jafnvel skort á í umræddum lögum að kveðið væri skýrt á um að leyfisveitingar skyldu samræmast skipulagi sveitarfélaga.

Við málsmeðferð umsóknar leyfishafa aflaði heilbrigðiseftirlitið umsagnar frá skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar. Í umsögn hans, dags. 22. janúar 2021, kemur fram að ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir svæðið en samkvæmt aðalskipulagi sé það skilgreint sem hafnar- og iðnaðarsvæði. Frá upphafi hafi umrætt svæði verið ráðgert til tímabundinna afnota en samkvæmt aðalskipulagi sé þar gert ráð fyrir 20 ha hafnar- og iðnaðarsvæði fyrir lóðir undir hafnsækna og landfreka athafna- og iðnaðarstarfsemi. Í ljósi þeirrar óánægju sem íbúar í nágrenninu hafi látið í ljós og þeirrar ábendinga sem borist hafi vegna hávaða telji skipulagsfulltrúi nauðsynlegt að setja strangari skilyrði um starfsemina, s.s. um opnunartíma og notkun á blýhöglum samhliða því að kanna til hlítar nýja staðsetningu fyrir starfsemina á höfuðborgarsvæðinu. Í ljósi þessa hafi ekki verið mælt með því að gefa út starfsleyfi til lengri tíma en tveggja ára og þá aðeins með ítarlegum starfsleyfisskilyrðum.

Samkvæmt f-lið gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er iðnaðarsvæði skilgreint svo: „Svæði fyrir umfangsmikla iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem er talin geta haft mengun í för með sér, svo sem verksmiðjur, virkjanir, þ.m.t. vatnsfallsvirkjanir, jarðhitavirkjanir, sjávarfallavirkjanir og vindmyllur, tengivirki, veitustöðvar, skólpdælu- og hreinsistöðvar, endurvinnslustöðvar, brennslustöðvar, förgunarstöðvar, sorpurðunarsvæði,  flokkunar­mið-stöðvar og birgðastöðvar fyrir mengandi efni.“ Samkvæmt o-lið sömu greinar er hafnarsvæði skilgreint svo: „Svæði fyrir hafnir og hafnarmannvirki þar sem gert er ráð fyrir mannvirkjum og tækjum til móttöku skipa og báta, losunar og lestunar þeirra, geymslu vöru, móttöku og afgreiðslu þessarar vöru til áframhaldandi sjó- eða landflutninga, til móttöku og brottfarar farþega og smábátahafnir.“

Í j-lið sömu greinar er að finna skilgreiningu fyrir landnotkunarflokkinn „Íþróttasvæði“ og kemur þar fram að íþróttasvæði sé fyrir landfreka íþróttaaðstöðu aðra en þá sem þjóni tilteknu hverfi, svo sem skeiðvelli, hesthúsabyggð, akstursíþróttasvæði, skotæfingasvæði, golfvelli og stærri íþróttamiðstöðvar.

Af því sem að framan er rakið liggur fyrir að starfsemi sú sem heimiluð er með hinu kærða starfsleyfi, sem er rekstur skotæfingasvæða, samræmist ekki landnotkun umrædds svæðis eins og það er tilgreint í aðalskipulagi, svo sem áskilið er í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998. Verður af þeim sökum að fella hið kærða starfsleyfi úr gildi.

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 11. mars 2021 um að gefa út starfsleyfi fyrir starfsemi Skotfélags Reykjavíkur í Álfsnesi.

Kröfum þess kæranda sem fékk leiðbeiningar um kærufrest í tölvupósti 23. mars 2021 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

64/2021 Birkiland

Með

Árið 2021, föstudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 14. maí 2021 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Birkilands vegna lóðar nr. 15.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. maí 2021, er barst nefndinni 21. s.m., kærir Vogatunga27 sf., eigandi Birkilands 15, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skútu­staðahrepps frá 14. s.m. að synja um óverulega breytingu á deiliskipulagi vegna nefndrar lóðar. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi. Kærandi óskaði eftir flýti­meðferð málsins og var þeirri beiðni hafnað 1. júní 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skútustaðahreppi 27. maí 2021.

Málavextir: Deiliskipulag vegna Birkilands í landi Voga III, Skútustaðahreppi, tók gildi með aug­lýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 30. júlí 2007. Fól það í sér að stofnaðar voru 30 frí­stunda­húsa­lóðir úr landi jarðarinnar ásamt þjónustusvæði, alls 17 ha að flatarmáli. Kærandi öðlaðist umráð einnar lóðar­innar, Birkilands 15, með lóðarleigusamningi hinn 4. júlí 2011. Breytingar á deiliskipulagi Birkilands tóku gildi með aug­lýsingum þar um í B-deild Stjórnar­tíðinda 6. september 2013 og 25. mars 2020. Í auglýsingu vegna síðari breytingarinnar kom fram aðhún væri gerð til að atvinnu­rekstur yrði heimilaður á einni lóð í samræmi við gildandi lóða­rleigusamninga.

Kærandi sótti hinn 4. nóvember 2020 um deiliskipulags­breytingu til þess að heimilt yrði að leigja út „frístundahús/frístundaeiningar“ á lóð hans Birkilandi 15. Í umsókninni var breytingunni m.a. lýst með þeim hætti að hún tæki til „atvinnureksturs sem varðar landnotkun“. Var umsókninni synjað á fundi sveitarstjórnar Skútu­staða­­hrepps 14. maí 2021 og er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu sveitar­­stjórnar á umleitan hans um breytingu á deiliskipulagi og afgreiðslan verið ómálefnaleg. Rök kæranda að baki beiðninni hafi ekki­­­ verið hrakin eða jafnvel ekki tekin fyrir. Gengið sé á rétt hans til atvinnu­starf­semi og jafnræðis ekki gætt. Þá hafi hann þegar orðið fyrir efna­hags­legum skaða af drætti málsins.

Málsrök Skútustaðahrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að deiliskipulag á svæðinu hafi verið gert að frumkvæði landeigenda og að samkvæmt lóðarleigusamningum hafi frá upphafi verið gert ráð fyrir heimild til gistireksturs á lóðum nr. 1 og 2. Forsendur þeirrar heimildar hafi verið staðsetning lóðanna í jaðri svæðisins. Ekki sé heimild til útleigu í lóðar­leigu­­­­samningi Birkilands 15 enda hafi ekki verið gert ráð fyrir gistirekstri á þeirri lóð. Yrði gisti­­­­rekstur heimilaður sé staðsetning lóðarinnar til þess fallin að gera megi ráð fyrir aukinni umferð gestkomandi, sem væri forsendubrestur gagnvart öðrum lóðarhöfum sem fjárfest hafi í lóðum í Birkilandi. Þá sé vísað til ákvæða reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtana­­hald.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti synjunar umsóknar kæranda um deiliskipulags­breytingu sem fæli í sér að á lóð hans Birkilandi 15 í landi Voga III, Skútustaðahreppi, yrði heimilt að leigja út „frístundahús/frístundaeiningar“.

­­­­­Vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélaga er í höndum sveitarstjórna samkvæmt skipulags­lögum nr. 123/2010 og annast þær og bera ábyrgð á gerð og breytingu deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr., 1. mgr. 38. gr. og 43. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laganna er hægt að óska eftir því við sveitarstjórn að deiliskipulagi sé breytt en einstakir aðilar eiga almennt ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram slíka breytingu gegn vilja skipulagsyfirvalda.

Samkvæmt 11. tl. 1. mgr. 2. gr. skipulagslaga er landnotkun skilgreind með þeim hætti að í henni felist ráðstöfun lands til mismunandi nota, svo sem undir íbúðir, frístundahús, iðnað, verslun, útivist og landbúnað. Í 1. mgr. 28. gr. sömu laga kemur og fram að í aðalskipulagi sé sett fram stefna sveitarstjórnar m.a. varðandi landnotkun. Nánar er tilgreint í 2. mgr. ákvæðisins að í aðalskipulagi sé lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags, m.a. varðandi land­notkun og takmarkanir á landnotkun.

­­Tveir skipulagsuppdrættir fylgja Aðalskipulagi Skútustaðarhrepps 2011-2023, annars vegar sveitarfélagsuppdráttur og hins vegar þéttbýlisuppdráttur. Á þéttbýlis­­uppdrætti sem jafnframt sýnir hluta „sveitaruppdráttar“ er Birkiland í landi Voga III sýnt sem frístunda­byggð. Slíkt hið sama má lesa úr greinargerð aðalskipulagsins en þar er Birkiland tilgreint í töflu yfir frístunda­svæði og að jafnframt liggi fyrir deiliskipulag vegna 30 lóða. Líkt og að framan greinir var skipulag svæðisins sem frístundabyggð staðfest árið 2007. Svæðið Birkiland er samkvæmt framan­sögðu innan skilgreindrar frístundabyggðar. Samkvæmt h-lið gr. 6.2. í skipulags­reglugerð nr. 90/2013 er frístundabyggð skilgreind sem svæði fyrir frístundahús, tvö eða fleiri, og nærþjónustu sem þeim tengist, þ.m.t. orlofshús og varanlega staðsett hjólhýsi. Föst búseta sé óheimil í frístundabyggðum.

Í hinni kærðu ákvörðun er m.a. vísað til þess að atvinnurekstur á lóð Birkilands samrýmist ekki ákvæðum skipulagsreglugerðar um frístundabyggð án þess að þar sé vísað til ákvæða laga eða reglugerða þar að lútandi. Í rökstuðningi sveitarfélagsins til úrskurðar­nefndarinnar var hins vegar vísað til reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtana­hald varðandi skilgreiningu á því hvenær gistirekstur teldist til atvinnurekstrar. Gildissvið reglu­gerðarinnar er nánar afmarkað í 1. gr. hennar þar sem m.a. kemur fram að reglugerðin gildi um sölu gistingar á gististöðum. Reglugerðin mælir því fyrir um rekstur gististaða en ekki hefð­bundin afnot og ráðstöfunarrétt rétthafa fasteignar, svo sem til leigu fasteignar um lengri eða skemmri tíma. Þá var í rökstuðningi sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar vísað til stað­setningar lóðar kæranda í sumarhúsabyggðinni sem gerði það að verkum að gististarfsemi á lóðinni gæti fylgt aukið ónæði gagnvart öðrum sumarhúsaeigendum á svæðinu. Bjuggu því efnisrök að baki synjun sveitarfélagsins um framangreinda breytingu á deiliskipulagi, en á það skal hins vegar bent að gildandi landnotkun umrædds svæðis kemur ekki í veg fyrir útleigu „frístundahúss/frístundaeininga“ á lóð kæranda.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið liggja ekki fyrir neinir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leiða eigi til ógildingar hennar. Verður kröfu kæranda af þeim sökum því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda mála sem skotið hefur verið til úr­skurðar­nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 14. maí 2021 um að synja um óverulega breytingu á deiliskipulagi Birkilands vegna lóðar nr. 15.

138/2021 Hafnargata

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 22. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 138/2021, kæra á ákvörðun bæjarráðs Fjarðabyggðar frá 23. júlí 2021 um að samþykkja afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar á grenndar­kynningu byggingarleyfisumsóknar og samþykkja jafnframt umsókn Loðnuvinnslunnar hf. um byggingarleyfi vegna viðbyggingar og breytinga innanhúss að Hafnargötu 32, Fáskrúðsfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur fasteignarinnar að Búðavegi 24, Fáskrúðsfirði, þá ákvörðun bæjarráðs Fjarðabyggðar frá 23. júlí 2021 að samþykkja afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar á grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar og samþykkja jafnframt um­sókn Loðnuvinnslunnar hf. um byggingarleyfi vegna viðbyggingar og breytinga innanhúss að Hafnargötu 32. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 30. ágúst 2021.

Málavextir: Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 7. júní 2021 var umsókn leyfishafa lögð fram þar sem sótt var um leyfi til að byggja tvær viðbyggingar að flatarmáli 147,5 m2 og 652,7 m2 í kverk austan frystitækjasalar og norðan við núverandi pökkunarsal og starfsmannaaðstöðu í húsnæði fyrirtækisins að Hafnargötu 32, Fáskrúðsfirði. Kemur fram í umsókninni að bæta eigi við eimsvala norðan við vélasal til að minnka hávaða og lækka hljóðstig frá núverandi kælibúnaði til að uppfylla viðmiðunarmörk fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi í samræmi við reglugerð um hávaða nr. 724/2008. Nefndin samþykkti að grenndarkynna umsóknina. Bæjarstjórn tók málið fyrir á fundi 24. júní s.á. og samþykkti afgreiðslu nefndarinnar. Að lokinni grenndarkynningu var byggingarleyfisumsóknin samþykkt á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 22. júlí 2021 og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarráði 23. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur rökstyðja stöðvunarkröfu sína með vísan til annmarka á málsmeðferð að formi til og efni. Vísað er til þess að hávaði skv. reglugerð nr. 724/2008 sé of mikill nú og að ekki hafi verið sýnt fram á að hávaðinn muni minnka með framkvæmdunum. Þá skorti á gögn og mælingar sem sýni með óyggjandi hætti að framkvæmdirnar verði til bóta fyrir hávaða á svæðinu og að með því hafi Fjarðabyggð brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Fjarðabyggðar: Varðandi stöðvunarkröfu er af hálfu bæjaryfirvalda vísað til 5. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Greinin feli í sér þá meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Ákvæðið hvíli jafnframt á meginreglum stjórnsýsluréttar um þýðingu kærumálsmeðferðar, þ.e. að kæra fresti ekki réttaráhrifum.

Bent sé á að í úrskurðaframkvæmd úrskurðarnefndarinnar hafi m.a. birst það sjónarmið að litið skuli til umfangs og eðlis framkvæmda sem stöðvunarkrafa varði. Stöðvunarkröfuna verði jafnframt að setja í samhengi við þann efniságreining sem komi fram í kæru. Sjónarmið kærenda hvíli í veigamiklum atriðum á stöðu fasteignar þeirra í ljósi reglna um hljóðvist vegna starfsemi á fasteign leyfishafa.

Byggingarleyfið varði í raun tvíþættar framkvæmdir utan húss, þ.e. annars vegar viðbyggingu og frágang eimsvala og hins vegar breytingar innanhúss. Um framkvæmdir við viðbygginguna og breytingar innanhúss gildi augljóslega að þær hafi ekki áhrif á hljóðvist svo nokkru nemi eða varði hagsmuni kærenda. Þá gildi um alla hluta framkvæmdarinnar og sérstaklega um frágang nýs eimsvala að eðli framkvæmdanna sé þannig að einfalt sé að fjarlægja þann búnað. Stöðvunarkrafan verði með engum hætti réttlætt með því að óafturkræf röskun verði á hagsmunum kærenda, yrði kæra þeirra tekin til greina á síðari stigum.

Vegna stöðvunarkröfu verði ekki litið fram hjá því undirmarkmiði framkvæmdarinnar að lækka hljóðstig frá núverandi kælibúnaði. Leyfishafi hafi látið fara fram hljóðmælingar á núverandi búnaði og stefnt að því að hljóðstig minnki með nýjum tæknibúnaði. Nýr kælibúnaður og aðrar breytingar á rekstri leyfishafa muni skapa svigrúm til minni hljóðmengunar frá rekstrinum. Þá sé það skilyrði byggingarleyfisins að hljóðstig vegna starfsemi leyfishafa eftir breytingar verði sannreynt og að hljóðvist verði innan tilskilinna marka sem skilgreind séu í reglugerð um hávaða. Það sé því bæði markmið leyfishafa að lækka hljóðstig frá starfseminni á grunni þeirra framkvæmda sem byggingarleyfið varði og skilyrði leyfisveitanda að sannreynt verði hvort það gangi eftir. Jafnframt sé möguleiki á endurskoðun byggingarleyfisins eða á kröfum um úrbætur á öðrum grunni. Það sé því með engu móti rökrétt eða forsvaranlegt að fallast á stöðvunarkröfu kærenda. Stöðvun framkvæmda geti haft þveröfug áhrif varðandi þá hagsmuni sem kærendur byggi á að þeir hafi, þ.e. bætingu hljóðvistar. Hafa beri og í huga að það markmið og þau rökstuddu áhrif framkvæmdar að lækka hljóðstig frá starfsemi leyfishafa varði fleiri eigendur fasteigna í nágrenninu. Yrði fallist á stöðvunarkröfu yrði gengið á þá hagsmuni að bæta hljóðvist á öðrum fasteignum í nágrenni fasteignar leyfishafa.

Athugasemdir leyfishafa: Hvað stöðvunarkröfu kærenda varðar er henni mótmælt sem tilefnislausri, órökstuddri og fráleitri. Það sé meginregla að kæra til úrskurðarnefndar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Með sama hætti sé kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 130/2011 komi fram að úrskurðar­nefndinni beri að gæta að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru. Sé litið til úrskurða nefndarinnar beiti hún þessu valdi af mikilli varfærni. Umkvörtunarefni kærenda sé tilefnislaust m.t.t. tilgangs framkvæmdanna að draga úr hljóðmengun og sé því órökstutt með öllu og eigi jafnvel ekki undir úrskurðarvald nefndarinnar.

Ljóst sé að stöðvun framkvæmda byggist á undantekningarheimild sem skýra beri þröngt og beri einungis að beita í takmarkatilvikum þegar sérstakar ríkar aðstæður eða hagsmunir séu fyrir hendi og veigamikil rök standi til beitingar úrræðisins. Kærendur hafi hvorki fært fram málsástæður né efnisleg rök fyrir að einhverjar þær aðstæður séu uppi sem réttlæti beitingu svo harkalegs úrræðis eða sýnt fram á að þeir verði fyrir tjóni vegna framkvæmdanna. Augljóst sé hins vegar að stöðvun framkvæmda hefði í för með sér verulegt tjón fyrir leyfishafa og viðsemjendur hans, með beinum og óbeinum afleiðingum fyrir nærsamfélagið allt. Fyrirhuguðum framkvæmdum sé ætlað að bæta samkeppnishæfni leyfishafa vegna vinnslu uppsjávarafla á svæðinu, bæta hljóðvist m.a. fyrir nágranna leyfishafa og starfsumhverfi starfsmanna, ásamt því að verja störf 30 starfsmanna í landvinnslu auk 15 sjómanna á svæðinu. Sé einnig bent á í því sambandi að umrædd framkvæmd kosti félagið rúman 1,1 milljarð króna og hafi nú þegar verið keypt efni, tæki, og búnaður sem kosti rúmar 900 milljón króna. Ljóst sé enn fremur að framkvæmdin öll sé undir verulegum tímatakmörkunum enda þurfi framkvæmdum að vera lokið áður en loðnuvertíð hefjist. Takist það ekki muni leyfishafi verða af á bilinu 3-4 milljarða króna í veltu sem myndi hafa verulegt tjón í för með sér fyrir leyfishafa. Mætti í raun tala um altjón í því sambandi fyrir leyfishafa.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu, sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir slíkum ákvörðunum.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130 /2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu eru málsaðilar fleiri en einn og eiga þeir andstæðra hagsmuna að gæta. Ekki verður talið að framkvæmdir vegna eimsvalans séu óafturkræfar, en það virðast helst vera þær framkvæmdir sem kærendur eru ósáttir við. Þá kemur fram í skilyrðum byggingarleyfis að hljóðstig vegna starfseminnar verði sannreynt að framkvæmdum loknum þannig að hljóðstig verði innan þeirra marka sem skilgreind eru í reglugerð um hávaða nr. 724/2008.

Í ljósi framangreinds verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kærenda þess efnis því hafnað en frekari framkvæmdir eru á áhættu leyfishafa um úrslit málsins.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.

132/2021 Sænska húsið

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 21. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 132/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 19. mars 2021 um flutning eða nýbyggingu „sænska hússins“ á lóðinni að Smáratúni 1, Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 7. ágúst 2021, kærir eigandi Smáratúns 5, ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 19. mars 2021 um flutning eða nýbyggingu „sænska hússins“ á lóðinni að Smáratúni 1, Selfossi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Árborg 8. september 2021.

Málavextir: Tillaga að áformuðum breytingum á lóðinni Smáratúni 1 var kynnt nágrönnum 2.-31. desember 2020, en lóðin hafði verið auð um langt skeið. Í tillögunni var m.a. fjallað um afmörkun á byggingarreit, nýtingarhlutfall, hámarksfjölda hæða auk þess sem aðkoma að lóðinni var skilgreind. Að lokinni kynningunni, sem vísað var til sem grenndarkynningu, fjallaði skipulagsnefnd um tillöguna 13. janúar 2021 og bæjarstjórn tók málið fyrir á fundi dags. 20. s.m. Afgreiðslu málsins var frestað á þeim fundi bæjarstjórnar. Skipulagsnefnd tók málið aftur fyrir á fundi 10. mars s.á. þar sem staðfest var að umbeðin gögn hafi borist nefndinni og að breytingar hafi verið gerðar á tillögunni í kjölfar athugasemda sem borist hefðu. Bæjarstjórn tók málið aftur fyrir 19. s.m. og samþykkti tillöguna.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að gengið sé þvert á vilja flestra íbúa sem fengið hafi að taka þátt í grenndarkynningu. Fleiri hefðu viljað taka þátt og vilji þeirra sé svipaður og hinna sem þátt hefðu tekið. Húsið passi ekki inn í götumyndina og standi þvert á önnur hús í götunni. Oft hafi verið sótt um eða spurst fyrir um þessa lóð en hún hafi ekki fengist til úthlutunar hingað til.

Málsrök Árborgar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að sú ákvörðun sem kæran lúti að veiti ein og sér ekki leyfi til framkvæmda, enda þurfi lóðarhafi að sækja um og fá útgefið byggingarleyfi. Slíkt leyfi hafi ekki verið afgreitt. Að því sögðu telji sveitarfélagið að engin kæranleg stjórnvalds­ákvörðun sé til staðar í málinu. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2020 geti sveitarstjórn veitt byggingar- eða framkvæmdaleyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Í slíkum tilvikum skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga felist grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynni nágrönnum sem taldir séu geta átt hagsmuna að gæta af leyfisumsókn eða tillögu að breytingu á skipulagsáætlun og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests sem skuli vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hafi afgreitt málið skuli þeim sem hafi tjáð sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar. Um afgreiðslu byggingarleyfis fari síðan nánar tiltekið eftir ákvæðum III. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. einnig ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Það sé mat sveitarfélagsins að fyrirhuguð framkvæmd, sem felist í flutningi eða endurbyggingu „sænska hússins“ á lóðinni Smáratúni 1, samræmist fyllilega aðalskipulagi, skilgreindri landnotkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar. Umrædd lóð sé á skilgreindu miðsvæði samkvæmt aðalskipulagi og jafnvel þó svo að lóðin tilheyri Smáratúni þá standi hún einnig við Kirkjuveg, þar sem bæði sé atvinnu- og þjónustustarfsemi. Að mati bæjarstjórnar sé því skilyrði til þess að heimila framkvæmdina án deiliskipulagstillögu.

Þegar fyrri grenndarkenning hafi farið fram dagana 2.-31. desember 2020 hafi ekki legið fyrir hvort flytja ætti „sænska húsið“ á lóðina að Smáratúni 1 eða endurbyggja húsið á lóðinni. Ætla megi að slík áform muni liggja fyrir þegar umsókn félagsins um byggingarleyfi verði tekin til meðferðar. Sveitarfélagið muni framkvæma aðra grenndarkynningu í tengslum við umsókn um byggingarleyfi í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Sveitarfélagið hyggist þá taka tillit til athugasemda kæranda að því er varði víðtækari grenndarkynningu og kynna framkvæmdina fyrir honum, sem og öðrum þeim sem kunni að eiga hagsmuna að gæta. Sveitarfélagið taki ekki afstöðu til annarra athugasemda kæranda að svo stöddu máli en árétti að hann geti komið þeim á framfæri þegar byggingarleyfisumsókn verði grenndarkynnt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á þeim lagagrundvelli.

Eins og að framan greinir snýst mál þetta um flutning eða endurbyggingu „sænska hússins“ að Smáratúni 1. Byggingarleyfi hefur hins vegar ekki verið samþykkt eða gefið út, né heldur hefur umsókn um slíkt leyfi verið lögð fram. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. og 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga skal svokölluð grenndarkynning fara fram við tilteknar aðstæður þegar breyta á deiliskipulagi eða þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir. Hvorki stendur til að breyta deiliskipulagi, enda er ekkert slíkt til staðar á svæðinu, né hefur verið sótt um byggingar- eða framkvæmdaleyfi. Sú kynning sem fram fór og lýst er í málavöxtum var því ekki eiginleg grenndarkynning í skilningi skipulagslaga. Hefur ekki verið tekið nein stjórnvaldsákvörðun í málinu heldur virðist sem tilteknar hugmyndir hafi verið kynntar í aðdraganda mögulegrar leyfisveitingar.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið verður ekki talið að fyrir hendi sé kæranleg stjórnvaldsákvörðun sem leitt hafi mál til lykta í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni, en fari leyfisveiting fram síðar í kjölfar grenndarkynningar er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

16/2021 Patreksfjörður og Tálknafjörður

Með

Árið 2021, mánudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2021, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 14. janúar 2021 um að notkun eldisnóta með ásætuvörn í sjóakvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. febrúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Náttúruverndarsamtök Íslands og Íslenski náttúruverndarsjóðurinn (IWF) þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 14. janúar 2021 að notkun eldisnóta með ásætuvörn í sjóakvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrðu frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 24. febrúar 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 26. mars 2021.

Málavextir: Arnarlax hf. hefur leyfi til sjókvíaeldis á 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði. Kveðið er á um í gildandi starfsleyfi félagsins að ekki sé heimilt að losa þau efni sem talin séu upp í listum I og II í viðauka reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, en kopar er á lista II. Við reglubundið eftirlit Umhverfisstofnunar 14. nóvember 2018 gerði stofnunin athugasemd við að notaðar væru eldisnætur sem innihéldu koparoxíð. Hinn 3. maí 2019 samþykkti stofnunin úrbótaáætlun félagsins með skilyrðum vegna umrædds fráviks.

Skipulagsstofnun barst tilkynning 30. október 2020 um fyrirhugaða breytingu á starfsleyfi félagsins til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, sbr. 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í greinargerð með tilkynningunni kom fram að félagið hyggðist sækja um breytingu á starfsleyfi svo heimilt yrði að nota eldisnætur með ásætuvörn sem innihéldi koparoxíð. Markmiðið með notkun þessara ásætuvarna væri að draga úr þrifum á eldisnótum. Eldisnætur sem ekki innihaldi kopar þurfi að þrífa á um það bil sex vikna fresti, en ásætuvarnir sem innihaldi koparoxíð þurfi að þrífa á um það bil 8-12 mánaða fresti. Skipulagsstofnun leitaði umsagna Tálknafjarðarhrepps, Vesturbyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Matvælastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar um fyrirhugaða framkvæmd. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 14. janúar 2021. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að umhverfisverndarsamtök þau sem að kærunni standi fullnægi skilyrðum 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og uppfylli af þeim sökum það skilyrði að eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn fyrirliggjandi kæru, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr., enda samrýmist kæran tilgangi með starfsemi þeirra.

Hin kærða ákvörðun lúti að breytingum á framkvæmd sem falli í flokk B í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. gr. 11.1 og 13.2 í viðaukanum. Í samræmi við það og 1. mgr. 6. gr. laganna, skuli breytingin háð mati á umhverfisáhrifum ef hún geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs síns, eðlis eða staðsetningar. Sé breytingin jafnframt tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar, sbr. 1. málsl. 2. mgr. sömu greinar. Skipulagsstofnun beri skv. 3. mgr. 6. gr. laganna að byggja ákvörðun sína um matsskyldu framkvæmdar á þeim upplýsingum sem framkvæmdaraðili hafi lagt fram, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna og 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, og öðrum gögnum um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eftir því sem við eigi, þ.m.t. upplýsingum sem fram komi í þeim umsögnum sem stofnunin hafi aflað í samræmi við fyrirmæli 12. gr. reglugerðarinnar. Við ákvörðun sína á þessum grundvelli beri Skipulagsstofnun að fara eftir þeim viðmiðum sem fram komi í 2. viðauka laganna og rökstyðja niðurstöðuna með hliðsjón af þeim. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og við undirbúning slíkrar ákvörðunar beri stofnuninni m.a. að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin, sbr. 10. gr. sömu laga. Þá beri stofnuninni að haga efni rökstuðnings síns skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 þannig að uppfylltar séu þær lágmarkskröfur um efni rökstuðnings sem lögfestar séu í 22. gr. stjórnsýslulaga.

Á grundvelli fullnægjandi upplýsinga um breytinguna og líkleg umhverfisáhrif framkvæmdarinnar í heild að gerðum þeim breytingum, þ.m.t. fyrirliggjandi niðurstöðu um umhverfisáhrif hennar, upplýsinga um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir og umsagna leyfisveitenda og annarra umsagnaraðila, sem hafi fullnægt kröfum reglugerðar nr. 660/2015, hafi Skipulagsstofnun borið að taka rökstudda afstöðu til þess hvort breytt framkvæmd gæti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs síns, eðlis eða staðsetningar að virtum þeim viðmiðum sem tilgreind séu í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og færa fyrir því fullnægjandi rök með vísan til þessara viðmiða. Hin kærða ákvörðun uppfylli ekki þær kröfur.

Tilkynning framkvæmdaraðila, sem beri heitið fyrirspurn þrátt fyrir að hin tilkynnta breyting falli ótvírætt í flokk B í 1. viðauka laga nr. 106/2000, hafi ekki að geyma þær upplýsingar sem áskilið sé að fram komi í slíkri tilkynningu skv. 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Í fyrsta lagi sé engin efnisleg grein gerð þar fyrir eðli breytingarinnar eða umfangi. Ekki komi þannig fram í tilkynningunni í hvaða magni fyrirhugað sé að nota umrædda ásætuvörn, hver sé samsetning hennar nánar tiltekið og þá hvert sé magn koparoxíðs í henni. Þá sé engin grein gerð fyrir tímalengd fyrirhugaðrar notkunar. Þær upplýsingar hafi grundvallarþýðingu við mat á því hvort notkunin geti haft umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, eins og m.a. umsögn Hafrannsóknastofnunar beri með sér. Í öðru lagi sé ekki gerð nánari grein fyrir umfangi notkunar koparoxíðs við fiskeldi í Arnarfirði, en hafa þurfi í huga að sú afstaða framkvæmdaraðila að hin tilkynnta breyting sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér sé alfarið reist á samanburði við framkvæmdina í Arnarfirði og niðurstöðum mælinga framkvæmdaraðila á umhverfisáhrifum hennar. Í þriðja lagi sé í tilkynningunni ekki vísað til neinna mælinga á umhverfisáhrifum tilkynntrar breytingar þrátt fyrir að fram komi í tilkynningunni að henni hafi þegar verið hrundið í framkvæmd. Í fjórða lagi hafi tilkynningin hvorki að geyma upplýsingar um það botndýralíf eða aðra umhverfisþætti sem breytingin sé talin geta haft áhrif á né almennar upplýsingar um eituráhrif koparoxíðs á slíkt lífríki sem þó séu sögð þekkt og raunar ástæðan fyrir því að framkvæmdaraðili hyggist nota það.

Samkvæmt framansögðu hafi tilkynningin hvorki að geyma fullnægjandi upplýsingar um framkvæmdina sjálfa né um líkleg eða raunveruleg áhrif hennar. Ekki sé því unnt á grundvelli tilkynningarinnar að taka afstöðu til þess hvert sé líklegt umfang umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar, eðli áhrifanna, styrk, tímalengd, afturkræfni eða hverjar séu líkur á að þau komi fram. Tilkynningin hafi því hvorki verið fullnægjandi að formi til né verið til þess fallin að leggja fullnægjandi efnislegan grundvöll að hinni kærðu ákvörðun. Frekari upplýsingar sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun hafi borist frá framkvæmdaraðila 1. og 9. desember 2020 en þær hafi ekki verið birtar opinberlega. Hafi það haft þýðingu fyrir úrlausn málsins hefði borið að leggja fyrir framkvæmdaraðila að bæta úr tilkynningunni og senda hana aftur inn svo breytta þannig að almenningi gæfist kostur á að gera athugasemdir sínar á réttum grundvelli. Tilkynningin lúti í reynd ekki að fyrirhugaðri breytingu heldur breytingu sem hafi verið við lýði um nokkurt skeið og ættu þá upplýsingar um raunveruleg, fremur en áætluð umhverfisáhrif hennar, að liggja fyrir og koma fram í tilkynningunni. Engar slíkar upplýsingar komi þar hins vegar fram.

Skipulagsstofnun sé skylt við meðferð mála á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000 að afla umsagna, m.a. leyfisveitenda, í samræmi við fyrirmæli 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Uppfylli umsagnirnar ekki þær kröfur sem þar komi fram beri stofnuninni í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins um skyldubundna álitsumleitan að leggja fyrir álitsgjafa að bæta þar úr með nýrri umsögn. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar skuli í umsögn koma m.a. fram hvort tilkynning geri nægilega grein fyrir framkvæmd, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun og hvort og þá á hvaða forsendum umsagnaraðili telji að framkvæmdin skuli háð mat á umhverfisáhrifum út frá þeim atriðum sem falli undir starfssvið umsagnaraðila og að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka laganna. Umsögn Umhverfisstofnunar uppfylli á engan hátt framangreind skilyrði. Þar sé hvorki tekin skýr afstaða til þess hvort tilkynningin geri nægilega grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun né færð rök fyrir þeirri afstöðu stofnunarinnar að áhrif framkvæmdarinnar liggi ljós fyrir nú þegar. Þessum áhrifum, sem stofnunin telji ljós, sé ekki nánar lýst í umsögninni. Sama gildi um umsögn Matvælastofnunar. Sé því ekki fullnægt því formskilyrði að Skipulagsstofnunin hafi áður en ákvörðun hafi verið tekin aflað umsagna leyfisveitenda. Þar sem sú álitsumleitan, sem mælt sé fyrir um í 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015, sé þáttur í fullnægjandi rannsókn máls sé meðferð málsins að þessu leyti heldur ekki í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

Aðrar umsagnir hafi að geyma takmarkaðar upplýsingar til viðbótar þeim sem fram komi í tilkynningu framkvæmdaraðila. Auk þess hnígi þrjár umsagnanna í öfuga átt miðað við niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Þannig sé það mat Hafrannsóknastofnunar, Vesturbyggðar og Tálkna­fjarðarhrepps að hin tilkynnta breyting skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Með þessum umsögnum sé því ljóslega ekki lagður grundvöllur að þeirri niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar að breytingin skuli ekki háð slíku mati. Hin kærða ákvörðun leggi til grundvallar að notkun koparoxíðs sem ásætuvarnar kunni að hafa skaðleg áhrif á botndýralíf og ástand sjávar á tilteknum svæðum. Í ákvörðuninni sé engin nánari grein gerð fyrir þessum atriðum eða vísað til nánari upplýsinga um þau, þ.m.t. um ástand botndýralífs og sjávar á framkvæmdasvæðinu. Í því sambandi þurfi að hafa í huga að Hafrannsóknastofnun geri í umsögn sinni athugasemdir við áreiðanleika mælinga Akvaplan Niva. Þá þurfi einnig að hafa í huga að áhrif koparoxíðs séu ekki bundin við sjávarbotn heldur geti þau verið víðtækari, eins og bent sé á í umsögn Hafrannsóknastofnunar. Jafnframt hafi enn frekari ástæða verið til að fjalla um áhrif framkvæmdarinnar á botndýralíf í firðinum í ljósi þess að vegna hinnar upphaflegu framkvæmdar hafi þau áhrif verið talin geta verið talsvert neikvæð. Með hinni fyrirhuguðu framkvæmd liggi fyrir að áhrif á botndýralíf muni aukast enn meira frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum upphaflegrar framkvæmdar. Sé því nauðsynlegt að í matsskylduákvörðun sé tekið tillit til allra þeirra mismunandi umhverfisáhrifa sem eldi framkvæmdaraðila komi til með að hafa á botndýralíf á svæðinu. Þá sé í hinni kærðu ákvörðun heldur ekki vísað til neinna almennra vísindalegra rannsókna eða niðurstaðna um eituráhrif koparoxíðs á lífríki í sjó. Slík vísindaleg þekking á afleiðingum framkvæmdar sé forsenda þess að hægt sé að meta hvort hún geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Samkvæmt framansögðu sé hin kærða ákvörðun ekki reist á fullnægjandi upplýsingum um möguleg umhverfisáhrif tilkynntrar breytingar.

Í hinni kærðu ákvörðun séu heldur ekki færð fullnægjandi rök fyrir þeirri niðurstöðu stofnunarinnar að breytingin geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Í ákvörðuninni sé þannig ekki rökstutt, með vísan til eðlis umfangs og staðsetningar fyrirhugaðrar notkunar koparoxíðs á eldisnætur sem ætlaður sé langur líftími í sjó á viðkomandi eldissvæðum, að slík notkun muni ekki hafa í för með sér umtalsverð áhrif á viðkomandi umhverfi. Rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki að geyma þau efnisatriði sem þar eigi að koma fram samkvæmt framansögðu, auk þess að vera rangur að efni til. Virðist hin kærða ákvörðun reist á þeim grundvelli annars vegar að umhverfisáhrif breytingarinnar séu háð óvissu og hins vegar að þau skuli vöktuð og brugðist við síðar ef vöktunin leiði í ljós að um umtalsverð umhverfisáhrif sé að ræða. Þessi rökstuðningur sé í andstöðu við það fyrirkomulag laga nr. 106/2000 að umhverfisáhrif skuli metin með fullnægjandi hætti áður en framkvæmd sé leyfð og að framkvæmdir sem falli í B flokk í 1. viðauka laganna skuli háðar mati á umhverfisáhrifum nema ljóst sé fyrirfram að þær geti ekki haft slík áhrif í för með sér. Af rökstuðningi ákvörðunarinnar verði ekki séð að þessi lagaskilyrði séu fyrir hendi þannig að Skipulagsstofnun hafi verið rétt að undanskilja breytinguna mati á umhverfisáhrifum.

Fyrir liggi í málinu að framkvæmdaraðili hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 106/2000 með því að haga framkvæmd sinni með öðrum hætti en gerð hafi verið grein fyrir í matsskýrslu án þess að tilkynna það áður til Skipulagsstofnunar. Ljóst sé að aðili, sem standi að framkvæmd sem háð sé mati á umhverfisáhrifum, sé ekki heimilt að haga framkvæmd með öðrum hætti en lýst sé í matsskýrslu og tilkynna síðan um breytingu á henni án þess að sú breyting, sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum, sæti jafnframt slíku mati. Ef slík málsmeðferð fengist staðist sé ljóst að framkvæmdaraðilar hefðu hagsmuni af því að lýsa framkvæmd með öðrum hætti en hún væri raunveruleg fyrirhuguð og sækja síðan eftir á um breytingar á henni. Að sama skapi sé ljóst að framkvæmdaraðili geti ekki tilkynnt framkvæmd eða breytingu á henni eftir að hún hafi farið fram án þess að gera samhliða grein fyrir raunverulegum umhverfisáhrifum hennar, sem þá hljóti að liggja fyrir. Liggi slíkar upplýsingar ekki fyrir sökum þess að framkvæmdaraðili hafi, auk þess að framkvæma í andstöðu við gildandi leyfi og mat á umhverfisáhrifum, vanrækt að afla upplýsinga um raunveruleg áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið á þeim tíma sem hún hafi verið við lýði, geti ekki komið til greina að framkvæmdaraðili njóti sjálfur þess vafa sem hann hafi þannig átt þátt í að skapa, með því að ótilkynntar framkvæmdir séu síðan undanþegnar mati á umhverfisáhrifum.

Með hinni tilkynntu notkun koparoxíðs sé ætlunin að eitra fyrir því lífríki sem ella setjist á hlutaðeigandi nætur. Þessi þekktu eituráhrif séu jafnframt ástæða þess að magni kopars séu sett umhverfismörk, m.a. í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, og jafnframt tilefni umfangsmikillar vísindalegrar umfjöllunar um áhrif af notkun kopars í atvinnustarfsemi sem þessari. Eðli hinnar tilkynntu breytingar, þ.e. notkun þungmálms sem þekkt sé að hafi eituráhrif á lífríki og safnist upp án þess að eyðast, veiti tilefni til að ætla að notkunin kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif eftir atvikum. Þegar umfjöllun á grundvelli laga nr. 106/2000 ljúki með ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum fari ekki fram frekara mat á grundvelli þeirra laga. Því sé brýnt að matsskylduákvörðunin sé reist á fullnægjandi upplýsingum, þ.m.t. upplýsingum um fyrirhugaða framkvæmd, vísindalegum upplýsingum um eðli umhverfisáhrifa af völdum slíkra framkvæmda og fullnægjandi upplýsingum um ástand þess umhverfis sem framkvæmdin kunni að hafa áhrif á.

Auk framangreindra atriða verði ekki framhjá því litið að úrskurðarnefndinni beri í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, að leysa með sama hætti úr málum sem séu sambærileg í lagalegu tilliti. Verði það niðurstaða nefndarinnar að ekki séu efni til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi, þrátt fyrir þá annmarka sem meðferð málsins hafi verið haldin samkvæmt framansögðu og aðdraganda þess, væri með þeirri niðurstöðu sett fordæmi sem drægi verulega úr því réttaröryggi sem nefndinni sé ætlað að skapa með eftirliti sínu með stjórnsýslu, m.a. Skipulagsstofnun. Í slíku fordæmi fælist að notkun koparoxíðs sem ásætuvarnar á nætur væri almennt heimil í sjókvíaeldi hér á landi án undangengins mats á umhverfisáhrifum slíkrar notkunar og án þess að lagður hefði verið viðhlítandi grundvöllur að ákvörðun um matsskyldu með fullnægjandi upplýsingum um fyrirhugaða notkun, þau áhrif sem almennt fylgi henni og ástand þess umhverfis þar sem hún sé fyrirhuguð, og það jafnvel í tilvikum eins og því sem hér sé til umfjöllunar þar sem slík ásætuvörn hafi verið tekin í notkun í heimildarleysi og ekki liggi fyrir upplýsingar um raunveruleg umhverfisáhrif þeirrar notkunar. Slíkt fordæmi samrýmist ekki ákvæðum laga nr. 106/2000 eins og þau beri að túlka í ljósi ákvæða EES-samningsins og grundvallarreglna EES-réttarins um einsleitna og skilvirka framkvæmd.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er lögð áherslu á að í upphafi 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum segi að tiltekin gögn skuli fylgja tilkynningu framkvæmdar í flokki B og C, „eftir því sem við á“, að teknu tilliti til eðlis og umfangs framkvæmdar. Ákvörðun stofnunarinnar um matsskyldu taki eðli máls samkvæmt mið af því að notkun ásætuvarnarinnar sé eins lengi og unnt sé, þ.e. þangað til gildistími starfsleyfisins renni út, það sé afturkallað eða endurskoðað. Sú ásætuvörn sem notuð sé í Arnarfirði sé samskonar þeirri sem nota eigi í Patreksfirði og Tálknafirði og sama tækni sé notuð við þrif nótnanna. Í því ljósi sé ekki óeðlilegt að vikið sé að framkvæmdinni í Arnarfirði og niðurstöðum mælinga framkvæmdaraðila á umhverfisáhrifum hennar í tilkynningunni. Lögð sé áhersla á að stofnunin hafi ekki aðeins tekið mið af þeim upplýsingum heldur hafi hún einnig fengið upplýsingar frá umsagnaraðilum, sem og viðbótarupplýsingar frá framkvæmdaraðila vegna tiltekinna umsagna sem varpi ljósi á hina tilkynntu framkvæmd og umhverfisáhrif hennar, eins og gögn málsins leiði í ljós. Hafni stofnunin þeim orðum kærenda að tilkynningin hafi ekki verið til þess fallin að leggja fullnægjandi efnislegan grundvöll að hinni kærðu ákvörðun.

Málsmeðferð á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum geri ekki ráð fyrir opinberri kynningu á meðan málsmeðferðin fari fram. Því hafi ekki verið skylt að birta opinberlega svör framkvæmdaraðila við tilteknum umsögnum. Í 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 segi aðeins að Skipulagsstofnun skuli veita framkvæmdaraðila a.m.k. þrjá virka daga til að fara yfir framkomnar umsagnir og koma á framfæri athugasemdum sínum. Svör framkvæmdaraðila hafi haft þýðingu. Lög nr. 106/2000 og umrædd reglugerð geri ekki ráð fyrir að við slíkar aðstæður skuli Skipulagsstofnun leggja fyrir framkvæmdaraðila að bæta úr tilkynningunni og senda hana aftur inn svo breytta. Svör framkvæmdaraðila séu hluti af gögnum málsins og viðbót við upplýsingar í tilkynningu.

Skipulagsstofnun telji umsögn Umhverfisstofnunar í meginatriðum fullnægjandi. Í umsögninni sé kafli sem fjalli um framkvæmdalýsingu og í kaflanum um umhverfisáhrif framkvæmdar sé vikið að vöktun og mótvægisaðgerðum. Niðurstaða stofnunarinnar um að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum sé rökstudd með vísan til umfangs, eðlis og staðsetningar framkvæmdar og að því gefnu að starfsemin muni uppfylla þau skilyrði sem sett verði í breytt starfsleyfi, auk þess sem byggt verði á bestu aðgengilegri tækni. Samkvæmt orðanna hljóðan hvíli ekki skylda á umsagnaraðila að rökstyðja á hvaða hátt tilkynning framkvæmdaraðila geri nægilega grein fyrir framkvæmd, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun heldur hvíli slík skylda á umsagnaraðila aðeins varðandi það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum eður ei, sbr. orðalagið „og hvort og þá á hvaða forsendum“ í 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Einnig sé bent á að það sé ekki fortakslaus skylda að segja í umsögn hvort tilkynning geri nægilega grein fyrir framangreindum atriðum. Hafa verði í huga að Umhverfisstofnunin víki að vöktunarmælingum í Arnarfirði og þeirri niðurstöðu í tilkynningu framkvæmdaraðila að áhrif framkvæmdarinnar á umhverfi muni ekki hafa áhrif á magn kopars í botnseti. Þá hafi í umsögn Matvælastofnunar verið að finna fullnægjandi rökstuðning fyrir því að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Telji úrskurðarnefndin að um annmarka sé að ræða á umsögnum umsagnaraðila sé lögð áhersla á að annmarkinn sé ekki verulegar þegar önnur gögn málsins séu virt í heild sinni.

Umsagnir umsagnaraðila séu ekki bindandi gagnvart Skipulagsstofnun, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 46/2014. Stofnunin horfi á gögn málsins með heildstæðum hætti og leggi innbyrðis mat á þau. Í umsögnum Vesturbyggðar, Hafrannsóknastofnunar og Tálknafjarðarhrepps séu færð rök fyrir því að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaraðili svari umsögnum í tölvupóstum til Skipulagsstofnunar frá 1. og 9. september 2020 og að virtum þeim svörum, því sem fram komi í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar og umsögnum annarra umsagnaraðila, telji stofnunin að framangreindar umsagnir gefi ekki tilefni til að ætla að framkvæmdin hafi umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.

Í umsögn Vesturbyggðar hafi verið bent á að hvorki komi fram í tilkynningu framkvæmdaraðila hvort vöktun sé á eldissvæðum félagsins í Patreksfirði og Tálknafirði né hver styrkur kopars sé í fjörðunum. Hafi framkvæmdaraðili svarað því til að kopar sé nú þegar vaktaður á öllum eldissvæðum félagsins í Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði og hafi styrkur kopars í botnseti verið kannaður í vöktunarskýrslum. Vöktun sé liður í vöktunaráætlun Arnarlax sem sé háð skilyrðum og samþykki Umhverfisstofnunar. Botnsýni sé tekið áður en eldi hefjist að nýju eftir hvíld og við hámarkslífmassa hverrar kynslóðar sem alin sé á eldissvæðum. Þannig sé gildi kopars vaktað tvisvar á um það bil þriggja ára fresti að jafnaði á hverju eldissvæði.

Þá hafi í umsögn Vesturbyggðar verið vísað til þess að af gögnum málsins verði ráðið að hin fyrirhugaða breyting sé gerð til þess að þrífa eldisnætur sjaldnar og að ekki séu upplýsingar um það hvort þvottur slíkra eldisnóta, sem innihaldi koparoxíð, kunni að losa mikið magn koparoxíðs út í náttúruna eða ekki. Þá hafi vaknað upp spurningar um hvort tilgangur breytingarinnar sé að draga úr kostnaði á kostnað náttúrunnar. Í svörum framkvæmdaraðila komi fram að markmið með nýtingu ásætuvarna snúi fyrst og fremst að bættri velferð eldisfiska en einnig sé hér verið að huga að umhverfinu. Ásætur á netum á eldiskvíum í sjó auki þyngd á öllum búnaði, skapi aukið lífrænt álag og súrefnisflæði geti skerst í kvíum. Eðli ásæta, hvort sem um sé að ræða gróður eða dýr, sé að festa sig kyrfilega á ákjósanlegt yfirborð þar sem næring sé næg. Eldisnætur séu því einstaklega heppilegar til ásætu. Til að losa ásætur þurfi að nota háþrýstiþvott á eldiskvíar sem geti haft ýmsar aukaverkanir í för með sér. Lífrænt álag í umhverfinu geti aukist því ásæturnar vaxi og dafni við eldið og losni svo við vegna tíðra þvotta á eldisnótum. Þegar ásætur losni myndist einnig mikið grugg sem hafi áhrif á sjón fiska sem þeir nýti til að koma auga á fóður en gruggið geti líka sest í tálkn fiska. Þá verði aukið álag á búnað og net við þvott sem auki líkur á myndun gatna og þar með möguleika á slysasleppingu.

Í umsögn Tálknafjarðarhrepps komi fram sú afstaða að mengandi áhrif kopars séu fullnægjandi ástæða þess að hin tilkynnta framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun bendi á að mengandi áhrif kopars séu ástæða þess að stofnunin hafi talið þörf á að taka breytinguna til meðferðar á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka laganna. Notkun efna sem kunni að hafa mengandi áhrif leiði ekki til þess að framkvæmd eða starfsemi undirgangist mat á umhverfisáhrifum nema notkunin geti haft umtalsverð umhverfisáhrif. Líkt og komi fram í hinni kærðu ákvörðun telji stofnunin, með tilliti til umsagnar Umhverfisstofnunar og með hliðsjón af fyrirhugaðri vöktun og mögulegum mótvægisaðgerðum, þ.m.t. mögulegum viðbrögðum og inngripum leyfisveitenda ef tilefni sé til, að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð í sjókvíaeldi framkvæmdaraðila sé ekki líkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum.

Í umsögn Hafrannsóknastofnunar segi að mælingar á kopar hefðu verið gerðar á fimm stöðvum á áhrifasvæði eldisins og á þremur viðmiðunarstöðvum. Einungis tvær stöðvar hefðu verið 25 m frá kvíum en aðrar 100-500 m frá þeim. Samkvæmt úttekt Akvaplan Niva frá 2000 hefði komið í ljós að öll kopargildi hafi fallið í flokk I eða II, eins og þeir séu skilgreindir í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns og því innan þeirra marka sem teljist náttúrulegur styrkur. Þessar koparlituðu eldisnætur hefðu einungis verið í sjó í um ár þegar sýnatakan hefði farið fram. Svo segi í umsögninni að þrátt fyrir að koparmælingar Akvaplan Niva hefðu verið innan marka þurfi að meta langtímaáhrif notkunar slíkra ásætuvarna. Rannsóknin hefði verið gerð eftir mjög stutta notkun ásætuvarna á kvíum við Eyri eða um eitt ár. Í svörum framkvæmdaraðila komi fram að búið sé að uppfæra vöktunaráætlun og kopar sé nú vaktaður á öllum eldissvæðum Arnarlax. Hvað varði langtímaáhrif ítreki framkvæmdaraðili að kopar sé vaktaður með reglubundnum hætti. Ef í ljós komi að kopar safnist upp í botnseti og rekja megi þá uppsöfnun til notkunar á eldisnótum með ásætuvörn sem innihaldi kopar muni framkvæmdaraðili, í samvinnu við Umhverfisstofnun, hætta notkun á slíkum eldisnótum og eftir atvikum leita annarra leiða í ásætuvörnum. Ef uppsöfnun kopars sé vegna náttúrulegra aðstæðna á borð við dýpi, botngerð eða straumhraða sé hugsanlega hægt að færa kvíarnar þar sem umhverfisskilyrði séu með öðrum hætti og kopar safnist ekki upp undir og við sjókvíar. Þá bendi Skipulagsstofnun á að í umsögn Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða komi fram að einhver uppsöfnun á kopar á botnseti geti átt sér stað, en að ekki verði talið að „uppsöfnun verði upp lífkeðjuna eða hafi langtímaáhrif.“

Umtalsverð umhverfisáhrif séu skilgreind í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 sem veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Því sé ekki nægilegt að áhrifin séu með þeim hætti sem lýst sé heldur þurfi sú aðstaða að vera fyrir hendi að mótvægisaðgerðir fyrirbyggi ekki eða bæti úr áhrifunum. Að virtri þessari skilgreiningu, gögnum málsins og fyrirhugaðri vöktun og mögulegum mótvægisaðgerðum framkvæmdaraðila telji stofnunin að framkvæmdin geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Þá hafi verið fjallað um möguleg áhrif á botndýralíf hinni kærðu ákvörðun.

Rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar sé að mati Skipulagsstofnunar fullnægjandi með tilliti til 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hafi í stjórnsýsluframkvæmd sinni litið svo á að rökstyðja beri ákvörðun út frá þeim sjónarmiðum í 2. viðauka laganna sem „við eiga í hverju máli.“ Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 53/2020 segi að eðli máls samkvæmt fari það „eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðun varðar hvaða liðir vegi þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar geti talist umtalsverð.“ Í athugasemdum við frumvarp það er orðið hafi að breytingalögum nr. 96/2019 komi fram að Skipulagsstofnun beri við rökstuðning niðurstöðu sinnar að horfa til þeirra þátta í 2. viðauka sem „skipti mestu máli“ hvað varði framkvæmdina. Samkvæmt því sem hér sé rakið þurfi ekki alltaf að víkja að öllum sjónarmiðum í viðaukanum. Hin tilkynnta framkvæmd hafi ekki kallað á frekari rökstuðning en skoða verði rökstuðninginn með hliðsjón af áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018. Þá sé bent á að í athugasemdum með frumvarpi því er orðið hafi að stjórnsýslulögum komi fram að í flestum tilvikum ætti tiltölulega stuttur rökstuðningur fyrir ákvörðunum að nægja í málum á „fyrsta stjórnsýslustigi.“ Jafnvel þó svo að úrskurðarnefndin teldi að rökstuðningurinn væri annmarki á hinni kærðu ákvörðun þá sé hann ekki svo verulegar að leiði til ógildingar ákvörðunarinnar.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er vísað til þess að félagið muni ekki nota eldisnætur sem innihaldi koparoxíð nema að því gefnu að Umhverfisstofnun fallist á breytingu starfsleyfis. Félagið hafi þó nokkra reynslu af notkun koparoxíðs sem ásætuvarnar í eldiskvíum í Arnarfirði frá árinu 2014 og sé sú notkun alfarið í samræmi við gildandi leyfi Umhverfisstofnunar. Sú ásætuvörn sé einnig með markaðsleyfi sem samþykkt sé af sömu stofnun. Styrkur kopars í botnseti í Arnarfirði hafi verið undir viðmiðunarmörkum og niðurstöður vöktunar sýni ekki fram á aukningu kopars í botnseti, þrátt fyrir notkun ásætuvarna síðan 2014. Styrkur kopars sé nú vaktaður á öllum eldissvæðum framkvæmdaraðila í Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði. Vöktunin sé liður í vöktunaráætlun sem sé háð skilyrðum og samþykki Umhverfisstofnunar.

Vert sé að hafa í huga að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð hafi lengi tíðkast í fiskeldi og áhrif þeirra séu að mestu leyti þekkt, eins og t.d. komi fram í umsögnum Heilbrigðiseftirlits Vestfjarðar og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Í umsögn þeirrar stofnunar segi enn fremur að mat á umhverfisáhrifum sé ekki líklegt til að bæta við miklum upplýsingum um málið umfram það sem liggi fyrir nú þegar. Vakin sé sérstök athygli á að umsögn Umhverfisstofnunar sé afdráttarlaus um möguleg áhrif, en stofnunin sé leyfisveitandi og eftirlitsaðili þegar komi að vöktun á kopar. Í umsögninni segi m.a. að áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á umhverfið liggi ljós fyrir og að ferli mats á umhverfisáhrifum í þessu tilfelli sé ekki til þess fallið að varpa skýrari mynd á áhrif starfseminnar á umhverfið. Þá telji stofnunin framkvæmdina ekki líklega til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Að auki verði að gera ráð fyrir því að ef stofnunin heimili notkun kopars muni hún breyta starfsleyfisskilyrðum þannig að kveðið verði á um endurskoðun á heimildinni ef mælingar sýni fram á aukningu kopars yfir viðmiðunarmörk og þær mótvægisaðgerðir sem grípa beri til ef styrkur mælist yfir viðmiðunarmörkum.

Eins og ótvírætt orðalag 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum beri með sér geymi ákvæðið ekki fortakslausa upptalningu á þeim gögnum sem skylt sé að afhenda, eins og kærendur gefi í skyn, heldur sé slík framlagning gagna ávallt háð mati stjórnvalda hverju sinni. Af ákvörðun Skipulagsstofnunar megi einnig vera ljóst að öll nauðsynleg gögn hafi legið fyrir við meðferð málsins. Óhjákvæmilega verði einnig að líta til þess að um sé að ræða breytingu á framkvæmd sem nú þegar hafi undirgengist lögbundið mat á umhverfisáhrifum. Þannig liggi fyrir ítarlegar upplýsingar og gögn um fiskeldi framkvæmdaraðila í Patreksfirði og Tálknafirði. Eins og fram komi í niðurstöðum Skipulagsstofnunar feli fyrirhuguð framkvæmd hvorki í sér breytingu á stærð og umfangi sjókvíaeldisins né nýtingu náttúruauðlinda eða aukna úrgangsmyndun. Ítarleg gögn liggi fyrir um notkun framkvæmdaraðila á ásætuvörnum með kopar í Arnarfirði. Að sama skapi liggi fyrir skýrslu um vöktun kopars í Arnarfirði, en vöktunar- og eftirlitsskýrslu séu einnig aðgengilegar almenningi á vefsíðu Umhverfisstofnunar. Eins og fram komi í tilkynningu framkvæmdaraðila samræmist eldisnætur umhverfisstöðlum ASC sem félagið vinni eftir, en staðallinn heimili þrif með lágþrýstingi á eldisnótum sem innihaldi kopar. Fiskeldi framkvæmdaraðila í Arnarfirði sé fyllilega sambærilegt þeirri starfsemi sem fram fari í Patreksfirði og Tálknafirði, en í öllum tilvikum sé um að ræða kynslóðaskipt eldi sem sé svipað að umfangi (lífmassa), noti sambærilegur nætur og hringi, auk þess sem eldisferill og tími í sjó sé svipaður. Þá liggi fyrir staðarúttekt sem sýni að umhverfisálag sé sambærilegt á Eyri og Lagardal og Haganesi í Arnarfirði. Hvað viðmiðunarmörk varði sé gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun muni tilgreina um slíkt í uppfærðu starfsleyfi. Notkun kopars færi í kjölfarið alfarið eftir fyrirmælum stofnunarinnar.

Framkvæmdaraðili hafni því að umsagnir umsagnaraðila standist ekki gerðar kröfur með vísan til sömu raka og fram komi í athugasemdum Skipulagsstofnunar. Umsögn Umhverfisstofnunar vegi óneitanlega þungt í málinu, enda sé stofnunin leyfisveitandi og eftirlitsaðili þeirrar framkvæmdar sem hina kærða ákvörðun lúti að. Eins og fram komi í umsögn stofnunarinnar liggi áhrif fyrirhugaðrar breytingar á starfsleyfi ljós fyrir og í þessu tilfelli myndi mat á umhverfisáhrifum ekki vera til þess fallið að varpa skýrari mynd af áhrifum starfseminnar á umhverfið. Í ljósi stöðu og þekkingu Umhverfisstofnunar verði ekki séð að Skipulagsstofnun hafi haft fullnægjandi upplýsingar til að draga það mat í efa.

Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur og Hafrannsóknastofnun hafi í umsögnum sínum talið að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum og í meginatriðum vísað til þess að kanna þurfi betur áhrif þess ef kopar safnist upp í botnseti. Líkt og ákvörðun Skipulagsstofnunar beri með sér verði þessum óvissuþáttum mætt með vöktun og eftirliti og því verði hægt að grípa inn í og hætta notkun kopars ef vísbendingar komi fram um óæskileg áhrif.

Eins og fram komi í niðurstöðum Skipulagsstofnunar kunni áhrif notkunar kopars sem ásætuvarnar fyrst og fremst að felast í hugsanlegri uppsöfnun kopars í botnseti. Slík uppsöfnun geti haft skaðleg áhrif á botndýralíf og ástand sjávar á tilteknum svæðum. Stofnunin tiltaki einnig að lífríki sjávar stafi ekki hætta af völdum þungmálma í náttúrulegum styrk og að styrkur kopars í seti á Íslandi sé ekki breytilegur. Þó sé hann almennt nokkuð hár samanborið við önnur lönd. Í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns komi fram umhverfismörk fyrir málma í sjávarseti við land. Þar séu efri mörk náttúrulegra gilda skilgreind á bilinu 70-250 mg/kg. Styrkur undir 70 mg/kg flokkist sem lág eða mjög lág gildi. Í niðurstöðum Skipulagsstofnunar komi fram að styrkur kopars í seti í Patreksfirði og Tálknafirði hafi mælst á bilinu 26,9-45,4 mg/kg og sé þar vísað til vöktunar Arnarlax við Eyri 2018 og 2020, Laugardal 2019 og vöktun Arctic Sea Farm við Hvannadal og Kvígindisdal. Með öðrum orðum sé styrkur kopars nú lágur eða mjög lágur. Niðurstaða Skipulagsstofnunar hafi að auki byggst á þeirri staðreynd að magn kopars í botnseti verði áfram vaktað á svæðinu. Framkvæmdin verði háð eftirliti Umhverfisstofnunar sem setja muni skilyrði um mótvægisaðgerðir ef starfsleyfinu verði breytt þannig að notkun kopars verði heimiluð. Ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi einnig verið bundin skilyrði um að Umhverfisstofnun setti ákvæði um vöktun og samráð vegna notkunar ásætuvarna með kopar í breytt starfsleyfi. Að þessu virtu hafi Skipulagsstofnun réttilega talið að ekki væri líklegt að ásætuvarnir með kopar myndu valda umtalsverðum umhverfisáhrifum.

Hafa beri í huga að hið lögmæta markmið, sem komi til skoðunar við ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum, sé að tryggja að notkun kopars hafi ekki óæskileg áhrif á umhverfið. Það blasi við að unnt sé að mæta hugsanlegum óvissuþáttum með virku eftirliti og leyfisskilyrðum. Á þessu byggist hin kærða ákvörðun. Ef til þess komi að mælingar sýni fram á uppsöfnun kopars umfram viðmiðunarmörk verði unnt að grípa til ráðstafana. Nauðsyn standi ekki til þess að fara strangar í sakirnar og þar af leiðandi sé niðurstaða Skipulagsstofnunar í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur taka fram að staðhæfingar í kæru um að framkvæmdir séu hafnar í andstöðu við gildandi leyfi og án þess að fram hafi farið mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar séu að öllu leyti reistar á því sem fram komi í tilkynningu framkvæmdaraðila og hinni kærðu ákvörðun. Þar sé vísað til þess að í eftirliti Umhverfisstofnunar 14. nóvember 2018 hafi verið gerð athugasemd við að notaðar væru eldisnætur sem innihéldu koparoxíð sem ásætuvörn og hafi úrbótaáætlun vegna þessa fráviks verið samþykkt 3. maí 2019. Hvorki í tilkynningu framkvæmdaraðila né hinni kærðu ákvörðun sé gerð grein fyrir efni tilvitnaðrar úrbótaáætlunar eða framkvæmd hennar, þ.m.t. hvort og þá hvenær þær ásætuvörðu eldisnætur sem framangreindar athugasemdir Umhverfisstofnunar hafi lotið að hafi í reynd verið teknar úr notkun og/eða teknar úr sjó. Því hafi ekki verið haldið fram í kærunni að notkun umræddra ásætuvarna hafi haldið áfram eftir tiltekið tímamark heldur að notkun hafi hafist í andstöðu við gilandi leyfi og mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Engu breyti um réttmæti þeirra staðhæfinga þótt þessum sömu framkvæmdum hafi síðar verið hætt eða hlé gert á þeim.

Fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar geti ekki haft þau áhrif á inntak tilkynningarskyldu framkvæmdaraðila eða málsmeðferð Skipulagsstofnunar að dregið sé úr kröfum efnis tilkynningar eða mats á því. Enn síður sé tilefni til að draga úr kröfum til málsmeðferðar þegar við bætist að hin tilkynnta breyting hafi frá öndverðu verið fyrirhuguð sem hluti framkvæmdarinnar og hefði því að réttu lagi átt að koma til mats samhliða og í samhengi við heildarmat á umhverfisáhrifum hennar.

Ekki verði séð að þau gögn sem framkvæmdaraðili hafi nú lagt fyrir úrskurðarnefndina hafi legið til grundvallar hinni kærðu ákvörðun, þ.m.t. skýrsla Akvaplan Niva frá 26. maí 2020 um rannsókn á eldissvæði við Eyri. Þá verði ekki séð að vísað hafi verið til þessara gagna eða tekin afstaða til þeirra upplýsinga sem þar komi fram í rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar. Áhersla sé lögð á að hafi ákvörðunin byggst á umræddum gögnum og mati á þeim upplýsingum sem þar komi fram sé rökstuðningur hennar haldinn mjög verulegum annmörkum að þessu leyti. Samkvæmt framansögðu verði ekki séð að þau viðbótargögn sem framkvæmdaraðili hafi lagt fyrir úrskurðarnefndina leiði til þess að hafna beri ógildingarkröfu kærenda. Þvert á móti virðist þessi gögn staðfesta það að hin kærða ákvörðun hafi ekki byggst á fullnægjandi gögnum og upplýsingum, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að notkun eldisnóta með ásætuvörn sem innihaldi koparoxíð í sjóakvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt flokki B, sbr. lið 13.02 og 1.11 í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B skulu háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. nefndra laga. Þegar framkvæmdaraðili hefur tilkynnt Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. nefndrar 6. gr., tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar.

Í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“ Niðurstöðu sína um hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skal Skipulagsstofnun skv. 3. mgr. nefndrar 6. gr., svo sem henni var breytt með lögum nr. 96/2019, rökstyðja með hliðsjón af þeim viðmiðum sem talin eru upp í 2. viðauka laga nr. 106/2000, en þau viðmið eru í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og gerð og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. í 2. viðauka, en undir hverjum tölulið er svo talinn upp fjöldi annarra liða. Skal Skipulagsstofnun taka matsskylduákvörðun innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina og er stofnuninni heimilt að setja fram ábendingar um tilhögun hennar sé hún ekki matsskyld að áliti stofnunarinnar. Í frumvarpi með breytingalögum nr. 96/2019 er tekið fram að með breytingunni sé gerð skýrari krafa um innihald ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Henni beri við rökstuðning niðurstöðu sinnar að horfa til þeirra þátta í 2. viðauka sem skipti mestu máli hvað varðar framkvæmdina. Rökstuðningur eigi bæði við um ákvörðun um að framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum og ákvörðun um að framkvæmd skuli ekki háð slíku mati. Skipulagsstofnun skuli byggja ákvörðun sína um matsskyldu á upplýsingum frá framkvæmdaraðila, en sé einnig heimilt að byggja hana á öðrum gögnum. Þar undir gætu til dæmis fallið forprófanir eða mat á umhverfisáhrifum sem fram hafi farið á grundvelli annarra laga og ábendingar sem stofnuninni berist frá öðrum, til dæmis öðrum stofnunum og almenningi.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Tálknafjarðarhrepps, Vesturbyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Matvælastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar, eins og rakið er í málavaxtalýsingu. Í umsögnum Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps er tekið fram að þar sem mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi ekki tekið tillit til þess að notaðar væru ásætuvarnir sem innihéldu koparoxíð sé fullnægjandi ástæða til að breytingin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Hafrannsóknastofnunin gerir í sinni umsögn athugasemd við mælingar á styrk kopars í Patreksfirði og Tálknafirði, m.a. vegna fjarlægðar mælinga frá áhrifasvæðum og þar sem koparlitaðar eldisnætur hefðu aðeins verið í sjó í rúmt ár þegar mælingar hefðu farið fram. Með hliðsjón af umfangi framkvæmdar sem fyrirhuguð breyting taki til sé talið að umbeðin breyting á framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar að verði starfsleyfisskilyrðum breytt á þann veg að notkun koparlitaðra nóta verði heimil verði einnig ákvæði um endurskoðun á heimildinni ef mælingar sýni fram á aukningu yfir viðmiðunarmörkum. Auk þess verði kveðið á um reglubundnar mælingar á styrk kopars í botnseti í vöktunaráætlun og þær mótvægisaðgerðir sem rekstraraðili skuli grípa til mælist styrkur kopars yfir viðmiðunarmörkum. Telji stofnunin að áhrif fyrirhugaðrar breytingar liggi ljós fyrir og að mat á umhverfisáhrifum sé ekki til þess fallið að varpa skýrari mynd á áhrif starfseminnar á umhverfið, að því gefnu að skilyrði sem sett verði í breytt starfsleyfi verði uppfyllt. Þá segir í umsögnum Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða og Náttúrufræðistofnunar að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð hafi lengi tíðkast og að áhrif séu að mestu þekkt. Ekki sé talið að uppsöfnun kopars eigi sér stað upp lífkeðjuna eða hafi langtímaáhrif. Vakta þurfi uppsöfnun kopars í botnseti við eldiskvíar. Með hliðsjón af því sé ekki talið að mat á umhverfisáhrifum muni bæta miklum upplýsingum við.

Vegna umsagna Hafrannsóknastofnunar, Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps kom framkvæmdaraðili að frekari athugasemdum. Kemur þar m.a. fram að markmið með nýtingu ásætuvarna snúi fyrst og fremst að bættri velferð eldisfiska. Til að losa ásætur þurfi að nota háþrýstiþvott á nætur eldiskvía sem geti aukið lífrænt álag í umhverfinu. Jafnframt kemur fram að framkvæmdaraðili hafi vaktað styrk kopars í botnseti í Arnarfirði og hafi mælingar ekki sýnt aukningu kopars. Vísar framkvæmdaraðili í þessu sambandi til vöktunarskýrslu Laugardals frá 2019 og Eyri í Patreksfirði frá 2020.

Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar skiptist í nokkra kafla. Fyrirhugaðri framkvæmd er lýst, þ.e. áformum framkvæmdaraðila um að nota eldisnætur með ásætuvörn sem inniheldur koparoxíð í sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði auk þess sem vísað er til þess að markmiðið með breytingunni sé að draga úr þrifum á eldisnótum. Fjallað er um umhverfisáhrif breytingar framkvæmdarinnar eins og þeim var lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og umsögnum umsagnaraðila. Þá er stuttlega vikið að þeim leyfum sem framkvæmdin er háð. Í niðurstöðukafla sínum fjallar stofnunin um eðli og staðsetningu framkvæmdar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar. Er vísað til þess að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skuli taka mið af stærð og umfangi hennar, úrgangsmyndun og mengun. Einnig skuli taka mið af staðsetningu framkvæmdar, svo sem álagsþoli náttúrunnar, einkum með tilliti til strandsvæða og kjörlenda dýra. Þá skuli einnig taka mið af eiginleikum hugsanlegra áhrifa framkvæmda, s.s. stærðar og fjölbreytileika áhrifa, hverjar líkur séu á áhrifum og tímalengd og tíðni áhrifa á tilteknu svæði.

Skipulagsstofnun bendir á að ákvörðunin snúi að notkun á ásætuvörnum sem innihaldi koparoxíð í eldiskvíum og feli því framkvæmdin ekki í sér breytingu á stærð og umfangi sjókvíaeldis. Þá feli hún ekki í sér nýtingu náttúruauðlinda eða aukna úrgangsmyndun. Að mati stofnunarinnar kunni áhrif af notkun koparoxíðs sem ásætuvarnar fyrst og fremst að felast í hugsanlegri uppsöfnun kopars í botnseti sem geti haft skaðleg áhrif á botndýralíf og ástand sjávar á tilteknum svæðum. Talið sé að lífríki í sjónum stafi ekki hætta af völdum þungmálma í náttúrulegum styrk. Styrkur kopars í seti á Íslandi sé breytilegur en almennt nokkuð hár samanborið við önnur lönd. Í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns séu sett umhverfismörk fyrir málma í sjávarseti hér við land. Þar séu efri mörk náttúrulegra gilda skilgreind á bilinu 70-250 mg/kg. Styrkur undir 70 mg/kg flokkist sem lág eða mjög lág gildi. Styrkur kopars í seti í Patreksfirði og Tálknafirði hafi mælst á bilinu 26,9-45,4 mg/kg, sbr. vöktun framkvæmdaraðila við Eyri 2018 og 2020, Laugardal 2019 og vöktun Arctic Sea Farm við Hvannadal og Kvígindisdal 2019. Með tilliti til umsagna Umhverfisstofnunar og með hliðsjón af fyrirhugaðri vöktun og mögulegum mótvægisaðgerðum, þ.m.t. mögulegum viðbrögðum og inngripum leyfisveitenda ef tilefni sé til, telji Skipulagsstofnun að notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð sé ekki líkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum.

Í niðurstöðu sinni vísar Skipulagsstofnunar til þess að í umsögn Hafrannsóknastofnunar sé vikið að staðsetningu sýnatökustöðva vegna þeirra mælinga á styrk kopars í botnseti sem þegar hafi farið fram. Að mati Skipulagsstofnunar þurfi að hafa samráð við Umhverfisstofnun við útfærslu vöktunar og staðsetningu sýnatökustöðva til að tryggja að botn sé vaktaður þar sem líklegast sé að uppsöfnun á kopar eigi sér stað. Þá telji Skipulagsstofnun rétt að í starfsleyfi séu skýr ákvæði um hvernig vöktun og samráði við Umhverfisstofnun skuli vera háttað, sem og hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi svo heimilt sé að nota ásætuvarnir sem innihaldi koparoxíð. Var niðurstaða Skipulagsstofnunar eins og fyrr greinir að hin umdeilda framkvæmd skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Skipulagsstofnun aflaði umsagna sem hluta af rannsókn málsins á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er í þessu sambandi rétt að árétta að Skipulagsstofnun er ekki bundin af þeim umsögnum sem hún aflar við lögbundna meðferð máls, enda geta umsagnaraðilar, að teknu tilliti til þeirra atriða sem falla undir starfssvið þeirra, komist að gagnstæðri niðurstöðu um hvort mat á umhverfisáhrifum skuli fara fram eða ekki. Í 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum er ekki kveðið á um fortakslausa skyldu þess efnis að fram komi í umsögn umsagnaraðila hvort tilkynning geri nægilega grein fyrir framkvæmd, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun, heldur ber að greina frá því eftir því sem við á hverju sinni. Að virtri þeirri breytingu á framkvæmd sem um ræðir verður talið að umsögn Umhverfisstofnunar uppfylli kröfur umrædds reglugerðarákvæðis. Í umsögn Matvælastofnunar er ekki rökstutt sérstaklega hvernig breytingin hafi í för með sér bættar og öruggari aðstæður til eldis hvað varði dýraheilbrigði- og velferð. Skipulagsstofnun reisti niðurstöðu sína ekki á þessu atriði og verður að telja nefndan ágalla óverulegan með hliðsjón af málsatvikum í heild.

Lagði Skipulagsstofnun að lokum sjálfstætt mat á það hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum, svo sem henni bar, og komst að því að svo væri ekki. Röksemdir stofnunarinnar fyrir þeirri niðurstöðu verður að skoða í því ljósi að ekki er ætlast til þess að í ákvörðun um matsskyldu, vegna breytingar á framkvæmd sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum, séu metin að nýju umhverfisáhrif hinnar upprunalegu framkvæmdar heldur einskorðast ákvörðunin við þau áhrif sem breytingin getur kallað fram. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri breytingu á framkvæmd sem ákvörðun snýst um hvaða atriði sem tiltekin eru í 1.-3. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000 vega þyngra en önnur við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif breytingarinnar teljist umtalsverð. Það að framkvæmd eða breyting á henni falli undir einhvern liðanna leiðir ekki sjálfkrafa til matsskyldu, en kann eftir atvikum að gefa tilefni til að kanna sérstaklega samspil allra þeirra liða sem upp eru taldir í 2. viðauka. Miða verður við þá tilhögun breyttrar framkvæmdar sem tilkynnt er af framkvæmdaraðila og studd þeim gögnum sem við á að teknu tilliti til eðlis og umfangs framkvæmdar, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015, eftir atvikum að teknu tilliti til mótvægisaðgerða. Þá kann reynsla af upprunalegu framkvæmdinni, vöktun og mótvægisaðgerðum að gefa vísbendingu um hver áhrif breytingarinnar kunni að verða. Að þessu virtu var að áliti úrskurðarnefndarinnar lagt mat á þá þætti sem máli skiptu um það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni. Þá tók Skipulagsstofnun við það mat, sem áður er fjallað um, viðhlítandi tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka nefndra laga, auk þess að koma með ábendingar varðandi samráð og vöktun.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hún tók hina kærðu matsskylduákvörðun, lagt tilhlýðilegt mat á efni málsins og rökstutt niðurstöðu sína með fullnægjandi hætti. Í því sambandi er rétt að taka fram að ekki verður séð að sú staðreynd að framkvæmdaraðili hóf notkun á eldisnótum með koparoxíði án þess að það væri heimilt samkvæmt þágildandi starfsleyfi, þótt ámælisvert sé, hafi haft áhrif á málsmeðferð eða niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar skv. lögum nr. 106/2000. Ógildingarkröfu kærenda er því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 14. janúar 2021 um að notkun eldisnóta með ásætuvörn í sjóakvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

121/2021 Bergstaðastræti

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 15. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 121/2021, kæra á afgreiðslu skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 9. júlí 2021 á fyrirspurn um byggingu bílgeymslu á austurhluta lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 14. júlí 2021 kærir eigandi Bergstaðastrætis 81, Reykjavík, afgreiðslu skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar 9. júlí s.á. á fyrirspurn um byggingu bílgeymslu á austurhluta lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti. Er þess krafist að afgreiðslan verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. ágúst 2021.

Málavextir: Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar 29. janúar 2021 var lögð fram fyrirspurn kæranda, dags. 21. s.m., þar sem falast var eftir áliti skipulagsfulltrúa á hugmynd um að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti. Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnisstjóra og lögð fram að nýju ásamt umsögn skipu­lags­fulltrúa, dags. 1. febrúar s.á. Í umsögninni kom fram að ekki væri fallist á erindið þar sem það samræmdist ekki markmiðum Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Erindið var tekið fyrir af skipulagsfulltrúa 5. febrúar s.á. þar sem tekið var neikvætt í það, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Kærandi sendi skipulags- og samgönguráði málskot dags. 12. febrúar 2021, sem tók erindið fyrir á fundi 31. mars s.á. Ekki var fallist á erindið. Í kjölfarið lagði kærandi fram breytta fyrirspurn, dags. 2. júní s.á. Erindið var tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 11. s.m. og var því vísað til umsagnar verkefnisstjóra. Fyrirspurnin var tekin fyrir á fundi skipulagsfulltrúa 9. júlí s.á. ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dagsettri sama dag. Neikvætt var tekið í erindið, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa. Er það sú afgreiðsla sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að tilvísun umsagnaraðila til Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 skjóti skökku við. Skipulagsfulltrúi nefni að í aðalskipulaginu sé almennt leiðarstef að draga úr notkun einkabílsins og fækka bílastæðum, sérstaklega í miðborginni. Kærandi bendi á að samkvæmt skipulaginu sé Bergstaðastræti 81 á svæði 1 samkvæmt bíla- og hjólastæðastefnu. Á svæði 1 skuli eitt stæði fylgja hverri íbúð við endurnýjun byggðar og við nýbyggingar. Í húsinu séu tvær íbúðir og því ættu tvö stæði að fylgja lóðinni. Þá komi fram í umsögn skipulagsfulltrúa annars vegar að stefna aðalskipulags sé að fækka bílastæðum í miðborginni, en hins vegar að neikvætt sé að almennum bílastæðum á borgarlandi myndi fækka um eitt stæði. Þá hljómi rök skipulagsfulltrúa um að framkvæmdin sé ekki æskileg eins og persónuleg skoðun en ekki skipulagslegar forsendur. Að lokum hafi sömu hverfisverndarákvæði og nú gildi um garðveggi og girðingar verið í gildi þegar aðrir bílskúrar á svæðinu hafi verið reistir. Með hliðsjón af jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé farið fram á að afstaða skipulagsfulltrúa verði endurskoðuð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem hin kærða afgreiðsla feli ekki í sér lokaákvörðun sem bindi enda á meðferð máls og sé hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar á erindi kæranda, dags. 2. júní 2021, um byggingu bílgeymslu á austurhluta lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti í Reykjavík. Erindið var lagt fram sem fyrirspurn til skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar og óskaði kærandi eftir afstöðu skipulagsfulltrúa um fyrirhugaða byggingu bílgeymslu. Ekki er í gildi deiliskipulag á svæðinu.

Um gerð mannvirkja, þ. á m. bílgeymsla, fer að lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Eftir atvikum þarf til að koma byggingarleyfi veitt af byggingarfulltrúa í samræmi við kröfur 1. mgr. 9. gr. laganna. Ganga þarf úr skugga um að framkvæmdin samræmist skipulagsáætlunum og var umsagnar skipulagsfulltrúa leitað. Erindi kæranda hefur hins vegar ekki komið til afgreiðslu byggingarfulltrúa, sem samkvæmt áðurgreindum lögum fer með vald til að veita eða synja umsókn um byggingarleyfi. Verður því litið svo á sem umsögn skipulagsfulltrúa um fyrirspurn kæranda hafi verið liður í undirbúningi mögulegrar stjórnvaldsákvörðunar, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en ekki sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun sem bindur enda á meðferð máls í skilningi 2. mgr. 26. gr. sömu laga. Ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.