Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

1/2022 Hverfisgata

Árið 2022, miðvikudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. september 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Miðbær Hraun vestur vegna lóðarinnar nr. 49 við Hverfisgötu í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. janúar 2022, er barst nefndinni 5. s.m., kærir íbúi, Álfaskeiði 40, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. september 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Miðbær Hraun vestur vegna lóðarinnar nr. 49 við Hverfisgötu í Hafnarfirði. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. janúar 2022, mótteknu næsta dag, kærir íbúi, Álfaskeiði 40, sömu ákvörðun. Með bréfi til nefndarinnar, dags. 4. janúar 2022, er barst nefndinni næsta dag, kærir íbúi, Mjósundi 16, Hafnarfirði, jafnframt sömu ákvörðun. Af hálfu allra kærenda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Verða tvö síðargreindu kærumálin, sem eru nr. 2/2022 og 3/2022, sameinuð máli þessu enda standa hagsmunir kærenda því ekki í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 10. febrúar 2022.

Málavextir: Á lóð Hverfisgötu 49 í Hafnarfirði er 145,7 m² þríbýlishús, reist árið 1925 sam-kvæmt upp­lýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Umrædd lóð er á svæði þar sem í gildi er deili­skipu­­lagið Miðbær Hraun vestur og samkvæmt skilmálum þess var heimilt að byggja bílskúr á lóðinni en hámarks­­byggingar­­­­magn á henni var 175 m². Hinn 23. október 2020 tók gildi breyting á nefndu skipulagi er fól í sér stækkun lóðarinnar úr 289,1 í 512,9 m² til norð­­­austurs. Byggingar­­­­heimildir voru óbreyttar og fór nýtingarhlutfall lóðarinnar við breyt­inguna úr 0,61 í 0,34.

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 3. mars 2021 var samþykkt sú afgreiðsla skipulags- og byggingar­ráðs að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi Hverfisgötu 49 er gerði ráð fyrir að skilgreindur yrði nýr byggingarreitur norðan við núverandi hús á lóðinni fyrir þriggja hæða einbýlis­hús, allt að 280 m² að heildarflatarmáli. Jafnframt var samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingar­fulltrúa 14. apríl s.á. að grenndarkynna tillöguna með vísan til 2. mgr. 44. gr. skipulags­laga nr. 123/2010. Fór grenndarkynning og auglýsing tillögunnar fram 5. maí 2021 og var veittur frestur til 16. júní s.á. til að skila inn athugasemdum. Bárust athugasemdir við tillöguna á kynningar­tíma, m.a. frá kærendum máls þessa, og á fundi skipulags- og byggingar­ráðs 29. júní 2021 var skipulagsfulltrúa falið að vinna greinargerð vegna framkominna athuga­semda.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarráðs 10. ágúst 2021, þar sem greinar­gerð skipulags­fulltrúa, dags. 26. júlí s.á., var samþykkt og lagt til við umsækjanda að leggja fram upp­færð gögn í samræmi við nefnda greinargerð. Lagði skipulagsfulltrúi m.a. til að í greinar­gerð deiliskipulagsins yrðu sett skýrari ákvæði um uppbrot, hlutföll, þakgerðir og efnisval sem og að byggingarmagn nýbyggingarinnar færi úr 280 í 230 m². Á fundi skipulags- og byggingar­­­ráðs 21. september 2021 voru uppfærð gögn samþykkt og að erindið yrði afgreitt í samræmi við skipulagslög. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 29. s.m. Í framhaldinu var deili­skipu­lagið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar sem með bréfi, dags. 11. nóvember 2021, gerði ekki athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt breytingar­innar þegar stofnuninni hefðu borist lagfærð gögn. Með bréfi, dags. 23. s.m., mun þeim er gert höfðu athugasemdir innan frests hafa verið send greinargerð skipulagsfulltrúa og þeir upp­lýstir um afgreiðslu málsins og kæruheimild. Öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 6. desember 2021.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að 17 íbúar nærliggjandi eigna hafi sent Hafnarfjarðar­kaupstað sameiginlegar athugasemdir sínar vegna umræddrar breytingar. Hafi greindar athuga­semdir verið að engu hafðar og hagmunir eiganda Hverfisgötu 49 verið teknir fram yfir hagsmuni eigenda nærliggjandi eigna þrátt fyrir skýra afstöðu þeirra gegn þessari breytingu. Ekki hafi verið færð fram nægileg rök fyrir hinni kærðu ákvörðun. Þær breytingar sem gerðar hafi verið á tillögunni áður en hún hafi hlotið samþykki séu langt frá því að vera nægjanlegar til að byggingin falli að núverandi byggð og hafi jákvæð áhrif á götumynd. Þá hafi ekki verið rétt staðið að grenndarkynningu tillögunnar, en hún hafi t.a.m. ekki verið kynnt fyrir íbúum Hverfisgötu 46 sem eigi beinna og augljósra hagsmuna að gæta.

Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé langt yfir hlutfalli nærliggjandi einbýlishúsalóða og geti því með engu móti fallið að götumyndinni án þess að skaða hana. Í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið komi m.a. fram að almennt sé ekki heimilt að fjölga eignum á svæðinu. Byggja megi við eldri hús í hverfinu þar sem það sé mögulegt þó þannig að nýtingarhlutfall á einbýlis­húsa­lóðum fari að jafnaði ekki yfir 0,45 og á fjölbýlishúsalóðum yfir 0,70. Nýtingarhlutfall skuli aldrei fara yfir það sem gefið sé upp í töflu með greinargerðinni. Horfa beri til nýtingar­hlutfalls nær­liggjandi lóða en ekki til deiliskipulagsins í heild sinni varðandi fordæmi fyrir svona háu nýtingarhlutfalli. Það hafi verið nánast fullnýtt samkvæmt framangreindum viðmiðum fyrir breytinguna og því ekki heimild til staðar fyrir byggingu af þessari stærðargráðu.

Horft sé fram hjá ákvæði gildandi deiliskipulags um hverfisvernd götumyndar Hverfisgötu 30-62. Þar komi m.a. fram að við byggingu nýrra húsa verði að taka mið af mælikvarða og hlut­föllum byggðarinnar. Einnig sé óheimilt að raska hrauni. Samþykkt tillaga sé ekki nægilega skýr og gefi á engan hátt mynd af því hvernig fyrirhuguð bygging muni falla að nærliggjandi byggð. Skýrari gögn þurfi að liggja fyrir svo unnt sé að meta það og ekki verði séð hvernig sveitar­félagið geti metið slíkt út frá fyrirliggjandi gögnum málsins. Hin umrædda bygging taki á engan hátt mið af mælikvarða nærliggjandi bygginga. Flest nærliggjandi einbýlishús séu 151-175 m² að stærð og því sé 230 m² bygging vel umfram það sem eðlilegt geti talist. Einnig hafi sveitar­félagið engin svör veitt við því hvort raska þurfi hrauni eða hvort sprengt verði upp úr klöpp á lóðinni. Ekki verði séð hvernig byggingin geti rúmast á lóðinni án þess að átt sé við klöppina.

Gert sé ráð fyrir að aðkoma að húsinu verði um Mjósund og að íbúar við Mjósund 16 og Álfa-skeið 40 muni deila aðgenginu með Hverfisgötu 49. Sveitarfélagið hafi að engu áhyggjur um hvort fyrir hendi sé aðgengi fyrir viðbragðsaðila, þjónustuaðila eða íbúa Mjósunds eða Álfa­skeiðs. Til að tryggja öryggi allra íbúa hafi verið nauðsynlegt að fá mat Slökkviliðs höfuð­borgar­­­svæðsins bs. hvað þetta varði áður en deiliskipulagið hafi verið samþykkt. Málið hafi ekki fengið sanngjarna og réttmæta meðferð hjá sveitarfélaginu og gangi þvert á þau viðmið sem séu í gildandi deiliskipulagi.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað. Hið umdeilda deiliskipulag hafi hlotið meðferð í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 enda hafi tillagan geta talist óveruleg breyting á gildandi deiliskipulagi. Sú ákvörðun að grenndar­kynna hana jafnframt hafi verið tekin til að tryggja að breytingin færi ekki fram hjá þeim er byggju í nánasta umhverfi við Hverfisgötu 49. Á fyrri stigum hafi farið fram grenndar­kynning á tillögu sem ekki hafi hlotið brautargengi og því hafi verið talið eðlilegt að ný tillaga yrði einnig grenndarkynnt. Engin skylda sé til að grenndarkynna tillögu sem auglýst sé skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Í greinargerð skipulagsfulltrúa sé fjallað um nýtingarhlutfall og hverfisvernd. Þar komi m.a. fram að fordæmi séu fyrir jafnháu eða hærra nýtingarhlutfalli í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið og sé hærri nýting áætluð á um 42 lóðum. Skilmálar séu almennt hámarksheimildir og leyfi­legt sé að byggja minna. Þá sé ljóst að markmið deiliskipulagsins sé að viðhalda þeim blæ sem einkenni eldri hluta byggðar í Hafnarfirði. Muni endanleg byggingarleyfisumsókn hljóta með­ferð skipulags- og byggingarráðs fyrir útgáfu byggingarleyfis. Hvað aðkomumál varði sé vísað til kafla 4.11. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur árétta áður framkomin sjónarmið sín. Umrædd deiliskipulagsbreyting geti ekki talist óveruleg og því sé alfarið hafnað að rétt hafi verið staðið að grenndarkynningunni. Kynna þurfi tillöguna að nýju fyrir öllum hagsmunaaðilum svo þeir hafi tækifæri til að gera athugasemdir. Hafnarfjarðarkaupstað beri að virða gildandi deili­skipulag og ekki aðlaga það að sínum hentugleika. Kærendur séu með öllu ósammála því að bygging af þeirri stærðargráðu sem fyrirhuguð sé falli að nærliggjandi byggð, sérstaklega í ljósi þess hve hátt nýtingarhlutfall lóðarinnar verði. Mjó­sund sé að öllu jöfnu nýtt sem bílastæði beggja vegna götunnar sem geri hana þrönga og erfiða. Það sé fráleitt að samþykkja umrædda byggingu án þess að nægilegt aðgengi sé tryggt.

——-

Lóðarhafa Hverfisgötu 49 var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna málsins. Kom hann sjónarmiðum sínum á framfæri við úrskurðarnefndina en gerði ekki skriflegar athuga­semdir við kærurnar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. september 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Miðbær Hraun vestur vegna lóðar­­­­innar nr. 49 við Hverfisgötu. Á umræddri lóð er 145,7 m² þríbýlishús samkvæmt upp­lýsingum úr fast­­eigna­skrá Þjóðskrár Íslands og samkvæmt skilmálum nefnds deiliskipulags fyrir hina kærðu breyt­ingu var hámarksbyggingarmagn lóðarinnar 175 m² og heimilt að byggja þar bílskúr. Árið 2020 tók gildi breyting á deiliskipulaginu er fól í sér að lóðin var stækkuð úr 289,1 í 512,9 m² og breyttist þá nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,61 í 0,34. Með umþrættri breytingu á deiliskipu­laginu, sem tók gildi 6. desember 2021 og er tilefni kærumáls þessa, var staðsettur byggingar­reitur norðan við núverandi hús á lóðinni og þar gert ráð fyrir þriggja hæða einbýlishúsi, allt að 230 m² að heildarflatarmáli. Felld var út heimild til að byggja bílskúr á lóðinni. Heildarbyggingarmagn á lóð­inni eftir greinda breytingu getur orðið allt að 375,7 m² og leyfilegt nýtingarhlutfall lóðarinnar er 0,73.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitar­stjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, og eru skipulagsyfirvöld þar af leiðandi ekki bundin við skilmála eldra deiliskipulags við slíka breytingu. Þess ber þó að gæta að innbyrðis samræmi sé á milli gildandi skipulagsáætlana, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga, og að stefnt sé að lögmætum markmiðum með breytingunni. Er ákvörðun um samþykkt deiliskipulags eða breytingu á því ákvörðun sem veitir skipu­lags­yfirvöldum ákveðið svigrúm í skjóli lögbundins skipulagsvalds til að móta byggð ein­stakra svæða.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og hún var einnig grenndarkynnt, sbr. 1. mgr. 44. gr. sömu laga. Bæjar­stjórn samþykkti tillöguna að undangenginni umfjöllun skipulags- og byggingaráðs þar sem tekin var afstaða til framkominna athugasemda. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnar­tíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Þá var aðilum er gert höfðu athuga­semdir send greinargerð skipulagsfulltrúa sem var samþykkt í bæjarstjórn. Máls­meðferðin var því í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og geta hugsanlegir annmarkar á grenndarkynningu við meðferð málsins ekki leitt til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar, enda var sveitarfélaginu ekki skylt að grenndar­kynna breytingartillöguna þótt það hafi kosið að gera það.

Upphafleg tillaga að breytingu á deiliskipulaginu gerði ráð fyrir byggingu 280 m² þriggja hæða einbýlis­húss og að nýtingarhlutfall lóðarinnar yrði 0,83. Að lokinni kynningu tillögunnar lagði skipulags­fulltrúi til að byggingarmagn yrði minnkað í 230 m² og eftir þá breytingu fór nýtingar­hlutfall lóðarinnar í 0,73. Lagði skipulagsfulltrúi jafnframt til að sett yrðu í greinargerð deili­skipulags­breytingarinnar skýrari ákvæði til að tryggja að mælikvarði nýbyggingar félli betur að þeim hlut­föllum og efnis­vali sem væri að finna í aðliggjandi byggð. Var í framhaldinu bætt við skilmálum í greinar­gerðina um að við hönnun nýbyggingar skyldi taka mið af mælikvarða, efnisvali og gerð mannvirkja í næsta nágrenni lóðar og um það vísað til leiðbeininga sem fram kæmu í aðal­skipu­lagi Hafnar­fjarðar og skilmálum deiliskipulagsins. Nýbyggingin skyldi brotin upp í stærð, hlutföllum og þakformi til að falla vel að nánasta umhverfi lóðar og skyldi efsta brún þaks á ný­byggingu ekki vera hærra en mænishæð núverandi íbúðarhúss á Hverfisgötu 49. Jafn­framt skyldi skoða mismunandi stefnur á mæni nýbyggingar til að draga úr skuggavarpi á að­liggjandi lóðir. Þá er áskilnaður í greinargerðinni um að aðaluppdrætti skuli leggja fyrir skipulags- og byggingarráð áður en byggingarleyfi er samþykkt. Var með þessu að nokkru komið til móts við athugasemdir er bárust við tillöguna, en íbúar eiga ekki skilyrðis­lausan rétt á að sveitarfélagið fari eftir þeim óskum eða athugasemdum sem gerðar eru við tillögu að deili­skipulagi.

Hverfisgata 49 er á skilgreindu íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 og er götumynd Hverfisgötu 30-62 hverfisvernduð, sbr. kafla 2.2.23 í aðalskipulaginu. Í almennum ákvæðum hverfisverndarsvæðis segir m.a. að nýbyggingar í þegar byggðum hverfum skuli taka mið af hefðum og yfirbragði nærliggjandi byggðar. Þá segir í hverfisverndarákvæði byggðasvæðisins að við byggingu nýrra húsa verði að taka mið af mælikvarða og hlutföllum byggðarinnar. Jafnframt sé óheimilt að raska hrauni. Svo sem fyrr segir er umrædd lóð á svæði þar sem í gildi er deiliskipulagið Miðbær Hraun vestur og má þar finna sömu skilmála um hverfisvernd. Skipulags­svæðið er frá Austurgötu að miðju Arnarhrauns, á milli Reykjavíkur­vegar og suður að Læk auk húsa á milli Álfaskeiðs og Tjarnarbrautar. Eitt af markmiðum skipu­lagsins er að stuðla að heildstæðu byggða- og götumynstri í grónu hverfi og tryggja að ný­byggingar og viðbyggingar falli vel að því umhverfi sem fyrir er. Í almennum skilmálum skipu­lagsins kemur fram að því markmiði verði náð með að virða byggingarstíl núverandi húsa og gæta að því að ný­byggingar og breytingar á eldri húsum falli vel að umhverfi sínu. Áhersla skuli lögð á heildar­mynd og mælikvarða hins byggða umhverfis. Í almennum skilmálum fyrir öll hús kemur m.a. fram að almennt sé ekki heimilt að fjölga eignum á svæðinu. Þá er tekið fram að við byggingu nýrra húsa og viðbygginga skuli taka mið af mælikvarða og hlutföllum byggðarinnar, yfirbragði hennar og sérkennum.

Samkvæmt greinargerð deiliskipulagsins er nýtingarhlutfall lóða við Hverfisgötu 37-57 mis­jafnt, eða allt frá því að vera 0,50 á Hverfisgötu 51 í 0,83 á Hverfisgötu 41. Nýtingarhlutfall lóðanna við Hverfisgötu 45, 53 og 55 er 0,57 og á lóð Hverfisgötu 47 er það 0,52. Nýtingar­hlutfall lóðar Hverfisgötu 49 verður sem fyrr segir 0,73 eftir hina umdeildu breytingu. Er því ljóst að nýtingar­hlutfall lóðarinnar er heldur hærra en almennt gerist á næstu lóðum er liggja sömu megin götunnar en sker sig þó ekki úr með afgerandi hætti. Þá er að finna hærra nýtingarhlutfall á nokkrum lóðum hinum megin við Hverfisgötuna, t.d. á lóðum nr. 38 og 40. Einnig verður ekki talið að fyrirhugað hús verði úr hófi stærra borið saman við önnur hús í næsta nágrenni, jafnvel þótt byggingarheimild skipulagsins verði fullnýtt. Að því virtu verður ekki séð að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi farið gegn áðurnefndum skilyrðum hverfis­verndar um að taka mið af mælikvarða og hlutföllum byggðarinnar. Þá verður að telja fyrr­greinda skilmála deiliskipulags­breytingarinnar stuðli að því að fyrirhuguð bygging taki mið af hefðum og yfirbragði nærliggjandi byggðar eins og almennir skilmálar aðalskipulags um hverfisvernd mæla fyrir um.

Í greinargerð skipulagsfulltrúa frá 26. júlí 2021, vegna framkominna athugasemda við tillögu að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu, eru færð fram þau rök fyrir breytingunni að stefnu­mörkun liggi fyrir um fjölgun eigna í þegar byggðum hverfum og skírskotað hvað það varðar til umfjöllunar í aðalskipulagi Hafnarfjarðar og svæðisskipulaginu Höfuðborgarsvæðið 2040 um þéttingu byggðar. Í greinargerð aðalskipulagsins er tekið fram að þétting íbúðarbyggðar sé möguleg innan eldri hluta Hafnarfjarðar við endurskipulagningu svæða með úrelta starfsemi eða starfsemi sem ekki sé lengur þörf fyrir eða sé betur staðsett annars staðar. Er ljóst að sú heimild fyrir þéttingu byggðar getur ekki átt við um hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu, enda felur hún ekki í sér endurskipulagningu svæðisins. Hins vegar segir í aðalskipulaginu að minni þéttingasvæði séu fyrirhuguð á skipulagstímabilinu og breytt skipulag á einstökum lóðum í bænum. Þá er í kjölfarið að finna töflu yfir íbúðarsvæði sveitarfélagsins og segir þar um íbúðarbyggðina Hraun, ÍB4, að ekki sé fyrirhuguð frekari uppbygging nema á einstökum lóðum. Eru hin umdeildu byggingaráform á lóð Hverfisgötu 49 því í samræmi við stefnu aðal­skipulags sveitarfélagsins um þéttingu byggðar og lágu af þeim sökum málefnaleg rök að baki breytingunni. Þá verður ekki talið að framangreindur skilmáli deiliskipulagsins, um að almennt sé ekki heimilt að fjölga eignum á svæðinu, girði fyrir að eignum sé fjölgað heldur að slíkt sé heimilt í undantekningartilvikum með breytingu á skilmálum fyrir einstakar lóðir líkt og í máli því sem hér um ræðir.

Svo sem að framan greinir felst jafnframt í hverfisvernd götumyndar Hverfisgötu 30-62 að óheimilt sé að raska hrauni. Í greinargerð skipulagsfulltrúa kemur fram að nýr byggingarreitur að Hverfisgötu 49 sé um 170 m² að stærð og að innan reitsins skuli auk grunnflatar húss m.a. koma fyrir út­byggingum, stöllum og svölum. Ef allar hæðir hússins verði jafn stórar, þ.e.a.s. rúmlega 90 m² að grunnfleti, sé ljóst að byggingarreitur sé vel rúmur. Ekki er að sjá að frekari afstaða sé tekin til þess hvort hrauni verði raskað en fyrir liggur að leggja skal aðaluppdrætti fyrir skipulags- og byggingarráð áður en byggingarleyfi er samþykkt. Þá er það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og ber því að líta til þess við meðferð umsóknar um byggingar­leyfi hvort hrauni verði raskað.

Af deiliskipulagsuppdrætti og staðháttum verður ráðið að aðkoma að nýbyggingunni sé frá Mjó­sundi og eru tvö bílastæði innan lóðarinnar. Verður ekki annað séð en að hún fullnægi áskilnaði í gr. 5.3.2.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um aðkomu neyðarbíla. Er hvað það varðar rétt að benda á að byggingarfulltrúi getur við afgreiðslu umsóknar um byggingar­leyfi metið hvort nauðsynlegt sé að leita umsagnar slökkviliðs, en áskilið er í gr. 9.8.2. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012 að á lóðum skuli vera greið aðkoma fyrir sjúkra- og slökkvibifreiðar. Jafnframt skal sýna á aðaluppdrætti hvernig haga skuli fólks- og vöruaðkomu að húsi og lóð, gáma­stæðum og aðkomu sjúkra-, slökkvi- og sorphreinsunarbíla. Sama skal og koma fram á lóða­uppdráttum, eftir því sem við á. Meðferð byggingarleyfisumsóknar getur því gefið tilefni til nánari athugunar en við skipulagsgerð. Þá kemur fram í greinargerð skipulagsfulltrúa að aðkoma og athafnamöguleikar slökkviliðs og sjúkraflutninga séu alltaf skoðaðir og samþykktir af hálfu Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. áður en leyfi fyrir nýbyggingum sé veitt.

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar sem leitt geta til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Rétt þykir þó að benda á að geti kærendur sýnt fram á tjón vegna deiliskipulags­breytingarinnar geta þeir eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. september 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Miðbær Hraun vestur vegna lóðarinnar nr. 49 við Hverfisgötu í Hafnarfirði.