Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

174/2021 Stórikriki

Árið 2022, föstudaginn 10. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 174/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 11. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa tveggja hæða parhús á lóðinni Stórakrika nr. 59-61 í Mosfellsbæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Stórakrika 57, Mosfellsbæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 11. nóvember 2021 að sam­þykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa tveggja hæða parhús á lóðinni Stórakrika 59-61. Jafnframt er kærð ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 5. nóvember s.á. um að málið skyldi sæta meðferð í samræmi við ákvæði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þegar vikið er óverulega frá deiliskipulagi. Er þess krafist að greindar ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 17. janúar 2022.

Málavextir: Lóðin Stórikriki 59-61 er innan Krikahverfis í Mosfellsbæ og á svæðinu er í gildi deiliskipulag Krikahverfis frá árinu 2005. Hinn 13. nóvember 2019 tók gildi breyting á deili­skipulaginu sem fólst í því að umræddri lóð yrði breytt úr lóð fyrir einbýlishús í lóð fyrir parhús af gerðinni P-IIc. Þeirri ákvörðun var skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem með úrskurði í máli nr. 80/2021, uppkveðnum 12. ágúst 2021, vísaði málinu frá sökum þess að kæra hefði borist eftir að kærufresti lauk.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar 1. nóvember 2021 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa umræddrar lóðar um leyfi til að byggja þar tveggja hæða parhús með innbyggðum bíl­geymslum. Umsókninni var vísað til umsagnar skipulagsnefndar, sem samþykkti á fundi 5. s.m. að málið yrði meðhöndlað í samræmi við 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna lögunar og lóðar byggingarreits. Bókað var að byggingar­fulltrúa væri heimilt að gefa út byggingarleyfi þegar umsókn væri í samræmi við lög nr. 160/2010 um mannvirki, byggingarreglugerð nr. 112/2012 og kynnt gögn. Einnig var fært til bókar að hjálagt væri minnisblað skipulagsfulltrúa, dags. 1. nóvember 2021. Bæjarstjórn staðfesti greinda afgreiðslu á fundi sínum 10. nóvember 2021 og var byggingar­leyfisumsóknin samþykkt á afgreiðslu­fundi byggingarfulltrúa 11. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að samkvæmt teikningu að fyrirhuguðu parhúsi sé um að ræða slíkar breytingar frá deiliskipulagi umrædds svæðis og mæli- og lóðarblöðum að ekki geti verið um að ræða óverulegt frávik í skilningi 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umrætt ákvæði heimili að vikið sé bæði frá grenndarkynningu og breytingu á deiliskipulagi. Þegar metið sé hvort um óverulegt frávik sé að ræða í skilningi ákvæðisins skuli beita þröngri túlkun. Að baki meginreglunni um þrönga túlkun skipulagsáætlana liggi ríkir almanna­hags­munir og réttmætar væntingar þeirra sem eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta. Sé vafi á hvort breyting teljist óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga beri að fara með hana sem verulega. Enn strangari sjónarmið eigi við um mat á óverulegu fráviki samkvæmt 3. mgr. 43. gr. laganna. Tengja verði matið við hagsmuni kærenda. Minnsti vafi eigi að leiða til þess að fara eigi eftir fyrirmælum 1. eða 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Í sérákvæði gildandi deiliskipulags um parhús komi fram að allir hlutar húss skuli standa innan byggingarreits eins og hann sé sýndur á deiliskipulagi og mæliblaði fyrir hverja lóð. Um parhús af gerð P-IIc segi í skipulagsskilmálum að um sé að ræða tvær hæðir, dýpt meginhúsforms sé 10 m og almenn breidd parhúsaeininga 9 m. Almennir skilmálar um parhús kveði á um að misbreiðar einingar séu heimilar innan byggingarreits lóðar án deiliskipulagsbreytinga. Hús­formið geri ráð fyrir samhverfu parhúsi á hvorri lóð. Í deiliskipulagi segi að hámarkshæð par­húsa sé 7,8 m yfir kóta 1. hæðar. Samkvæmt teikningu að Stórakrika 59-61 fari fyrirhugað hús út fyrir byggingarreit. Þá sé vikið verulega frá fyrirskipuðu formi. Fyrirhugað hús sé 10 cm hærra en heimilt sé samkvæmt framangreindum skilmálum. Gólfkóti lóðarinnar sé 63,10 og hámarkshæðarkóti húss því 70,90, en samkvæmt teikningu sé hæsti kóti hússins 71,00. Í minnis­blaði skipulagsfulltrúa, dags. 1. nóvember 2021, sé farið með rangt mál þegar sagt sé að húsið sé 40 cm lægra en deili­skipulag heimili.

Í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar frá maí 2019 komi fram að lóðarmörk, byggingar­reitur og nýtingarhlutfall séu óbreytt frá gildandi deiliskipulagi. Fyrir umrædda breytingu hafi verið gert ráð fyrir að á lóðinni yrði stallað einbýlishús, en nú sé fyrirhugað að byggja tvö tveggja hæða hús. Byggingarmagn og nýtingarhlutfall á lóðinni muni því aukast. Í minnisblaði skipulagsfulltrúa sé viðurkennt að lóðin hafi ekki verið skoðuð sérstak­lega m.t.t. parhúss þegar umrædd deiliskipulagsbreyting hafi verið gerð. Í fyrrnefndu minnisblaði sé einnig viðurkennt að ekki sé hægt að fara eftir skilmálum um meginhúsform samkvæmt deiliskipulagi Krikahverfis. Ekki sé kveðið á um nýtingarhlutfall einbýlis- og par­húsalóða í nefndu deiliskipulagi en gert hafi verið ráð fyrir að hús á lóðinni væri 418,4 m2. Skilja verði orðalag í greinargerð með framangreindri deiliskipulagsbreytingu varðandi óbreytt nýtingar­hlutfall svo að átt sé við þá hússtærð sem þegar hafi verið gert ráð fyrir á lóðinni.

Samkvæmt almennum sérskilmálum um parhús sé heimilt að laga hús að landi með stallaðri gólfplötu, háum sökkli o.fl. Stöllun húsa verði alltaf að taka mið af neðsta kóta á gólfplötu sem gefinn sé upp á mæli- og lóðarblaði. Heimild til stöllunar húss sé takmörkuð við lóðina sem það standi á. Ekki sé hægt að stalla hús „á milli lóða“. Upphaflega hafi verið um eina lóð að ræða, þ.e. lóð nr. 59, og gólfkóti á henni 63,10. Þeirri lóð hafi verið skipt upp í tvær lóðir með deili­skipulagi og mælt fyrir um að sami gólfkóti skyldi vera á hinni nýju lóð, sem sé nr. 61. Við þessa breytingu hafi ekki verið hróflað við gólfkóta á lóðinni nr. 59. Að öllu framangreindu virtu sé ekki heimilt að víkja frá kröfum 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga þar sem frávik frá sam­þykktu deiliskipulagi geti ekki talist óverulegt. Sveitarfélagið hefði þurft að gera breytingar á samþykktu deiliskipulagi samkvæmt áður tilvitnaðri lagagrein og láta fara fram grenndar­kynningu áður en umsókn um byggingarleyfi væri samþykkt, eða eftir atvikum láta gera breytingar á deiliskipulagi lóðarinnar samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laganna.

Í 12. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna komi fram að allar fasteignir skuli bera fast auðkenni, fasteignanúmer, sem Þjóðskrá Íslands úthluti. Sveitarstjórn sé skylt að tilkynna Þjóðskrá um breytingar á skráningu staðfanga, sbr. 16. gr. sömu laga. Enn fremur sé sveitar­stjórn skylt að hlutast til um að fasteign verði skráð í fasteignaskrá áður en heimild sé veitt til veðsetningar eða mannvirkjagerðar á leigulóð eða landi í eigu sveitarfélags, sbr. 17. gr. laganna. Þegar umsókn um byggingarleyfi á Stórakrika 59-61 hafi verið samþykkt á afgreiðslu­fundi byggingarfulltrúa 11. nóvember 2021 hafi engin lóð nr. 61 verið skráð í fasteignaskrá. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá sé lóðin Stórikriki 59 skráð sem 903 m2 íbúðarhúsalóð og að á henni standi 418 m2 einbýlishús. Lóðin nr. 61 beri hins vegar ekkert auðkenni eða fasteignanúmer hjá Þjóðskrá. Óheimilt sé að samþykkja byggingar­leyfi nema lóð sé skráð í fasteignaskrá, sbr. áðurnefnda 17. gr. laganna.

Eftir að lóðinni nr. 59 við Stórakrika hafi verið skipt upp með deiliskipulagsbreytingu í maí 2019 sé ekki hægt að koma þar fyrir parhúsi. Það sé andstætt meginreglum grenndar- og skipulagsréttar að freista þess að lagfæra ágalla og óvönduð vinnubrögð við gerð deili­skipulags­breytingar án kynningar fyrir nágrönnum.

Málsrök Mosfellsbæjar: Sveitarfélagið bendir á að umfjöllun í kæru um eldra deiliskipulag lóðarinnar séu máli þessu óviðkomandi. Þess sé krafist að kröfum kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsnefndar frá 5. nóvember 2021 og ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 11. s.m. verði hafnað. Ekki verði séð að fyrir hendi séu atvik sem leiði til ógildingar framangreindra ákvarðana.

Við ritun andmæla hafi komið í ljós að mistök hefðu átt sér stað við afgreiðslu byggingarfulltrúa á útprentuðum aðaluppdráttum parhússins að Stórakrika 59-61. Aðaluppdrættir sem byggingarfulltrúi hafi undirritað og afhent kærendum hafi borist sveitarfélaginu 8. október 2020, en réttir aðal­uppdrættir hafi legið til grundvallar umfjöllun skipulagsnefndar á fundi 5. nóvember 2021 og við ritun minnisblaðs skipulagsfulltrúa. Einnig hafi réttir aðaluppdrættir legið fyrir við afgreiðslu byggingarfulltrúa á samþykkt hans á byggingaráformum 11. s.m.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé umrædd lóð skilgreind sem parhúsalóð en lóðaskiptilína sé fyrir hvora einingu innan byggingarreits. Um sé að ræða eina lóð en á henni sé fyrirhugað hús með tveimur íbúðum ásamt séreignasvæðum utandyra samkvæmt væntanlegum eigna­skiptasamningi lóðarinnar. Samkvæmt 68. tl. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 séu sérbýli skilgreind sem íbúðarhús þar sem ekki teljist til sameignar annað en lóð og ytra byrði húss og hluti lagnakerfa eftir eðli máls, t.d. einbýlishús, raðhús eða parhús. Húsið í heild muni því miðast við einn gólfkóta, 63,10, og verði mesta hæð húss samkvæmt deiliskipulagi mæld út frá þeim kóta.

Skipulagsnefnd hafi samþykkt að meðhöndla málið sem óverulegt frávik deiliskipulags sam­kvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt tilvitnaðri lagagrein geti sveitar­stjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. 43. gr. laganna um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu við útgáfu framkvæmda- og byggingarleyfis þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Vísað sé til minnisblaðs skipulagsfulltrúa, dags. 1. nóvember 2021. Gert sé ráð fyrir í 3. mgr. 43. gr. að unnt sé að taka fyrir og afgreiða frávik frá samþykktu deiliskipulagi í tilteknum tilvikum án þess að meðferð þeirra breytinga fari eftir 1. og 2. mgr. 43. gr. laganna. Í 2. málsl. 2. mgr. ákvæðisins segi að við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist veruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Þegar litið sé til þeirra þátta sem tilgreindir séu í 43. gr. skipulagslaga, þ.e. landnotkunar, útsýnis, skuggavarps, innsýnis eða annars sem skert geti hagsmuni nágranna, megi nefna að í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar breytist landnotkun ekki þar sem enn sé um íbúðarbyggð að ræða. Þá rúmist hæð hússins innan heimilda deiliskipulags en samkvæmt skipulaginu sé heimilt að byggja hús innan byggingarreits mest í 7,8 m hæð frá uppgefnum kóta 63,10. Útsýni nærliggjandi húsa sé því hið sama. Skuggavarp á lóð kærenda eigi að vera óbreytt eða lítið sem ekkert þar sem lóðin Stórikriki 59-61 sé norðaustan við Stórakrika 57. Skuggavarp gagnvart Litlakrika 76 teljist óbreytt þar sem hæð hússins sé hin sama og nokkur fjarlægð á milli húsa. Innsýn hafi jafnframt ekki breyst.

Í kæru komi ekki fram með hvaða hætti hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar brjóti í bága við framangreint ákvæði skipulagslaga eða að hvaða leyti samþykkt á óverulegu fráviki deili­skipulags skerði hagsmuni nágranna hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Það sé hafið yfir allan vafa að umrædd frávik teljist óveruleg í skilningi ákvæða skipulagslaga.

Umrætt parhús muni standa á einni lóð og því sé rangt að lóðinni hafi verið skipt upp í tvær lóðir, líkt og haldið sé fram í kæru. Nýtingarhlutfall húsa sé ekki reiknað út frá rúmmetrum heldur fermetrum húsa samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en nýtingarhlutfall sérbýlis sé ekki fastsett í skipulagsskilmálum deiliskipulags Krikahverfis. Tilvísun kærenda til þess að fermetrafjöldi húss samkvæmt eldra skipulagi marki hámark byggingarmagns á lóðinni eigi ekki við rök að styðjast, enda séu þau fallin úr gildi og geti með engu móti gengið framar gildandi deiliskipulagi. Í almennum skilmálum parhúsa í greinargerð gildandi deiliskipulags sé tekið fram að misbreiðar einingar séu heimilar innan byggingarreits lóðar án deiliskipulags­breytinga. Hönnun geti því verið áþekk en breytileg. Einnig segi í skilmálunum að samtengd hús skuli hönnuð af sama aðila og lögð fyrir byggingarnefnd sem ein heild. Aðaluppdrættir fyrirhugaðs parhúss séu í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags fyrir utan þau óverulegu frávik sem heimiluð hafi verið af skipulagsnefnd.

Þá verði ekki séð að athugasemdir er varði skráningu fasteignar í Þjóðskrá Íslands varði kæru þessa, samþykkt byggingaráforma eða afgreiðslu skipulagsnefndar. Þá sé bent á að ekki sé risið hús á lóðinni.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur árétta sjónarmið sín en benda jafnframt á að ekki sé gert ráð fyrir þeirri húsagerð sem sýnd sé á aðaluppdrætti fyrirhugaðs parhúss að Stórakrika 59-61 í skilmálum gildandi deiliskipulags. Misbreiðar einingar séu heimilar innan byggingar­reits lóðar án deiliskipulagsbreytinga en ekki sé fjallað um misdjúpar einingar. Sú afstaða sem komi fram í minnisblaði skipulagsfulltrúa um að ekki sé hægt, eða erfitt, að fylgja útgefnu mæliblaði, byggingarreit og byggingarheimildum lóðarinnar og fara eftir skilmálum deili­skipulags, sem varði meginhúsform vegna aðstæðna á lóð sem ekki hafi verið skoðað sérstak­lega við breytingu skipulagsins, styðji kröfu kærenda um að ekki sé heimilt að með­höndla málið sem óverulegt frávik samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarfélagið hafi ekki sýnt fram á að hagsmunir kærenda hafi í engu skerst hvað varði útsýni, skuggavarp eða innsýn, en það beri sönnunarbyrði fyrir því. Útsýni muni skerðast verulega þar sem hús kærenda hafi verið hannað með það í huga að húsið fyrir neðan það væri stallað einbýlishús. Ef breyting verði á skuggavarpi eða útsýni þá beri sveitarfélaginu skylda til að grenndarkynna breytingar. Einungis megi víkja frá þeirri skyldu ef grenndaráhrif vegna breytinganna séu engin.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir tveggja hæða parhúsi að Stórakrika 59-61 en umrædd lóð er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Krikahverfis frá árinu 2005.

Ákvæði 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fjalla um málsmeðferð við breytingu á deili­skipulagi. Í 2. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á sam­þykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndar­kynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Þá segir í 3. mgr. lagaákvæðisins að við útgáfu framkvæmda- eða byggingar­leyfis geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deili­skipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Við meðferð umsóknar um byggingarleyfi í máli þessu samþykkti bæjarstjórn að vikið væri frá kröfum skipulagslaga um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þar sem um óverulegt frávik frá deiliskipulagi væri að ræða, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Í greinargerð nefnds deiliskipulags er í kafla 5.4 að finna skipulagsskilmála um parhús. Kemur þar m.a. fram að á deiliskipulagsuppdrætti séu húsaeiningar í parhúsalengjum almennt sýndar jafnbreiðar en misbreiðar einingar séu heimilar innan byggingarreits lóðar án deiliskipulags­breytinga. Segir einnig að allir hlutar húss skuli standa innan byggingarreits eins og hann sé sýndur á deiliskipulagi og mæliblaði fyrir hverja lóð. Á deiliskipulagsuppdrætti er gert ráð fyrir parhúsi af gerðinni P-IIc á lóðinni Stórakrika 59-61, en samkvæmt greinargerð skipu­lagsins séu slík parhús með tvær heilar hæðir. Dýpt meginhúsforms sé 10 m og almenn breidd parhúsa­eininga 9 m. Þá séu útbyggingar við meginhúsform heimilar við suðlægar langhliðar og gafla og megi lengd þeirra nema allt að helmingi viðkomandi húshliða.

Í minnisblaði skipulagsfulltrúa, sem lá fyrir við afgreiðslu bæjarstjórnar, kemur m.a. fram að fyrirhugað parhús sé ekki samhverft um miðju heldur lagi sig að aðstæðum á lóð og byggingar­reit. Þannig falli það betur að götumynd sem einkennist frekar af einbýlis­húsum, sumum með tveimur íbúðum. Við breytingu á deiliskipulagi árið 2019 hafi ráðgjafar og lóðarhafar valið skilgreininguna P-IIc fyrir lóðina. Byggingarreit hafi ekki verið breytt með sama hætti og þekkist um aðra byggingarreiti rað- og parhúsa í hverfinu, en form og lögun þeirra taki mið af skilmálum sem skuli hanna innan. Umrædd lóð sé sérkennileg í laginu. Í skilmálum deili­skipulags um parhús P-IIc standi „heldur fastmótuð hugmynd um stærð og gerð megin­húsforma“. Þá segir einnig í minnisblaðinu að ætli hönnuður „að reyna að fylgja útgefnu mæliblaði, byggingar­reit og heimildum lóðar er ljóst að ekki er hægt, eða erfitt, að fara eftir skilmálum er varða megin­húsform vegna aðstæðna á lóð sem ekki hefur verið skoðuð sérstaklega við breytingu skipulagsins.“ Bendir skipulagsfulltrúi á að fyrirhugað hús sé stallað í samræmi við skilmála og aðstæður innan lóðar. Uppbrot þess sé mikið sem hafi jákvæð áhrif á umfang hússins með tilliti til meginhúsforma. Þá sé húsið 40 cm lægra en deiliskipulag heimili og útbygging lækki um 55 cm næst aðliggjandi húsi.

Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum fyrirhugaðs parhúss verður dýpt hússins nr. 59 við Stórakrika 17 m og hússins nr. 61 verður 12 m. Breidd hússins nr. 59 er innan heimilda skilmála deiliskipulags en mesta breidd hússins nr. 61 er 11,55 m. Dýpt og breidd fyrirhugaðs parhúss er því nokkuð umfram heimildir gildandi deiliskipulags svæðisins. Þá er lögun hússins önnur en samkvæmt skilmálum deiliskipulags Krikahverfis. Verður að telja að umdeild frávik frá gildandi deiliskipulagi muni hafa grenndaráhrif gagnvart kærendum umfram það sem þar er heimilað. Voru því þau ströngu skilyrði 3. mgr. 43. gr. skipulags­laga fyrir því að vikið yrði frá skilmálum skipulags við veitingu byggingarleyfis, um að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn, ekki uppfyllt þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Þá þykir rétt að benda á að í bókun skipulagsnefndar á fundi hennar 5. nóvember 2021, sem bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum 10. s.m., var sam­þykkt að málið skyldi meðhöndlað sem óverulegt frávik skipulags samkvæmt fyrrnefndu laga­ákvæði vegna lögunar lóðar og byggingarreits. Aftur á móti verður ekki séð að einnig hafi farið fram mat á áðurnefndum áhrifum umræddra frávika deiliskipulags á hagsmuni nágranna. Var enda slíkt mat ekki að finna í minnisblaði skipulagsfulltrúa að undanskildu því er fram kemur um hæð fyrirhugaðs húss.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 11. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa tveggja hæða parhús á lóðinni Stórakrika 59-61 í Mosfellsbæ úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda og umfangs kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 11. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa tveggja hæða parhús á lóðinni Stórakrika 59-61 í Mosfellsbæ.