Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

168/2021 Bergstaðastræti

Árið 2022, miðvikudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 168/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. nóvember 2021 um að synja umsókn um leyfi til að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðar nr. 81 við Bergstaðastræti.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. nóvember 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 16. nóvember 2021 að synja umsókn kæranda um leyfi til að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðar nr. 81 við Bergstaðastræti. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. janúar 2022.

Málavextir: Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar 29. janúar 2021 var lögð fram fyrirspurn kæranda, dags. 21. s.m., þar sem falast var eftir áliti skipulagsfulltrúa á hug­mynd um að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti. Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnisstjóra og lögð fram að nýju ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 1. febrúar s.á. Í umsögninni kom fram að ekki væri fallist á erindið þar sem það samræmdist ekki markmiðum Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Erindið var tekið fyrir af skipulagsfulltrúa 5. febrúar s.á. þar sem tekið var neikvætt í það, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Kærandi skaut málinu til skipulags- og samgönguráðs 12. febrúar 2021, sem tók erindið fyrir á fundi 31. mars s.á. Ekki var fallist á erindið. Í kjölfarið lagði kærandi fram breytta fyrirspurn, dags. 2. júní s.á. Erindið var tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 11. s.m. og var því vísað til umsagnar verkefnisstjóra. Fyrirspurnin var tekin fyrir á fundi skipulagsfulltrúa 9. júlí s.á. ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dagsettri sama dag. Neikvætt var tekið í erindið, með vísan til umsagnarinnar. Sú afgreiðsla var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála en með úrskurði í máli nr. 121/2021, uppkveðnum 15. september 2021, var málinu vísað frá þar sem umsögn skipulagsfulltrúa væri liður í undirbúningi mögulegrar stjórnvaldsákvörðunar en ekki sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun sem bindur enda á meðferð máls.

Í kjölfar framangreinds úrskurðar sótti kærandi um byggingarleyfi. Á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 26. október 2021 var umsókn kæranda lögð fram. Málinu var frestað og sent til skipulags­fulltrúa til umsagnar og/eða grenndarkynningar. Skipulagsfulltrúi afgreiddi erindið á afgreiðslu­fundi sínum 15. nóvember 2021 og tók neikvætt í erindið, með vísan til umsagnar sinnar frá sama degi. Umsókn kæranda var synjað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. s.m., með vísan til neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að ýmsar tilvitnanir skipulagsfulltrúa í umsögn hans til aðalskipulags skjóti skökku við. Vísað sé til þess að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé almennt leiðarstef að draga úr notkun einkabílsins og fækka bílastæðum, sérstaklega í miðborginni, og að eðlilegt megi telja að færri bílar tilheyri hverri íbúð í þéttri miðborgarbyggð en í öðrum hverfum borgarinnar. Bent sé á að á bls. 155 í aðalskipulaginu segi m.a. um bíla- og hjólastæðastefnu að á svæði 1 sé að hámarki eitt bílastæði á íbúð við endurnýjun byggðar/ný­byggingu. Umrædd lóð sé á svæði 1 og í húsinu séu og hafi alltaf verið tvær íbúðir. Samkvæmt framansögðu ættu því tvö bílastæði að fylgja lóðinni. Í umsögn skipulagsfulltrúa sé vísað í markmið um að fækka stæðum en þar segi einnig að „[n]ýr bílskúr á lóðinni krefðist þess að ný innkeyrsla yrði gerð frá götu. Almennum bílastæðum á borgarlandi (götu) myndi þar með fækka um a.m.k. eitt þar sem innkeyrslan yrði staðsett. Ekki sé æskilegt að fjölga sér­afnota­stæðum/innkeyrslum í miðborginni á kostnað sameiginlegra bílastæða og er almennt ekki tekið jákvætt í slíkt.“ Rökin séu mótsagnarkennd þar sem vísað sé til markmiða aðalskipulags um fækkun bílastæða í miðborginni en þar næst sé fækkun bílastæða orðin neikvæð. Þá hljómi orðin „[e]kki er æskilegt að“ og „ekki er almennt tekið jákvætt í“ eins og persónuleg skoðun en ekki skipulagslegar forsendur.

Varðandi bílgeymslur á öðrum lóðum sem kærandi hafi vísað til segi í umsögn skipulagsfulltrúa að það sé rétt að þær hafi verið samþykktar á síðustu áratugum en ekki sé um að ræða erindi sem hafi verið samþykkt eftir gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 þegar aðrar áherslur og önnur markmið hafi verið í gildi. Þá segi að ekki hafi verið tekið jákvætt í að brjóta upp garðveggi á þessu svæði til að koma fyrir bílastæðum eða bílskúrum. Kærandi bendi á að í kaflanum Borgar­vernd í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé sérstaklega fjallað um hverfisvernd innan Hring­brautar, en þar segi m.a. um markmið: „Svipmót húsa, á tilgreindum verndarsvæðum, sem verða nánar afmörkuð í hverfisskipulagi, varðandi ytra byrði, veggáferð, gluggagerðir og þak verði sem minnst raskað og endurbygging miðist sem mest við upphaflega gerð hússins – sama gildi t.a.m. um afmörkun lóða, svo sem garðveggi og girðingar.“ Líkt og fram komi í markmiðakafla aðal­skipulagsins 2010-2030 um hverfisvernd þá hafi heftið Húsvernd í Reykjavík upphaflega fylgt með aðalskipulaginu 1996-2016 og svo aftur með aðalskipulagi 2001-2024. Í heftinu segi í kafla 2 um húsvernd: „Áhersla er lögð á varðveislu staðbundinna sérkenna í húsagerð og skipulagi, einkum þar sem um er að ræða hverfi, hverfishluta og götumyndir með sterkan heildarsvip. Á þeim svæðum þar sem lögð er til verndun byggðar vegna sérstöðu svæðis eða byggðamynsturs, er lögð áhersla á varðveislu heildarinnar. Grindverk og girðingar eru stór hluti af sérkennum eldri hverfa Reykjavíkur. Leitast skal við að viðhalda þeim eins og framast er unnt í upprunalegri mynd, og endurnýja í sömu eða svipaðri mynd ef nauðsyn krefur.“

Af framangreindu sé ljóst að nákvæmlega sömu ákvæði um hverfis- og húsvernd giltu nú og þegar þær bílgeymslur sem byggðir hafi verið í götunni á þessari öld og kærandi hafi vísað til í fyrirspurn sinni. Auðvelt sé að tryggja góðan frágang stoðveggjar og setja t.d. upp innkeyrsluhlið að götu í takt við vegginn til að tryggja samhengi. Bílgeymslur á lóðum nr. 77 og nr. 83 að Bergstaðastræti hafi verið samþykktir árið 2006 þegar sömu húsverndarákvæði hafi verið í gildi og í dag. Þá hafi bygging bílgeymsla ekki þótt vera í ósamræmi við markmið aðalskipulags, sem hafi verið þau sömu og nú. Út frá jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, sé óskað eftir því að niðurstaða Reykjavíkurborgar verði endurskoðuð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að umsókn kæranda hafi verið synjað vegna neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 15. nóvember 2021. Í 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segi að þegar mannvirki sé háð byggingarleyfi skv. 9. gr. þá skuli byggingar­fulltrúi ganga úr skugga um að fyrirhuguð mannvirkjagerð sé í samræmi við skipulags­áætlanir á viðkomandi svæði. Sambærileg skylda hvíli á byggingarfulltrúa skv. 5. mgr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, en þar komi fram að byggingarfulltrúi skuli leita umsagnar skipulagsfulltrúa ef vafi leiki á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Ekkert deiliskipulag sé á svæðinu sem um ræði og því hafi skipulagsfulltrúi skoðað erindið með tilliti til þess hvort mögulegt yrði að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar, þ.e. hvort fyrirhuguð mannvirkjagerð væri í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika og hvort hún væri í samræmi við stefnu aðalskipulags Reykjavíkur.

Í kaflanum Borgarvernd í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 komi fram að Bergstaðastræti 81 tilheyri hverfisverndarsvæði. Þar komi fram þau markmið að vernda eigi og varðveita heildar­yfirbragð gamla bæjarins, þ.m.t. svipmót húsa varðandi ytra byrði og þá einnig garðveggi sem svip sinn setji á svæðið. Neikvæð umsögn skipulagsfulltrúi hafi m.a. byggst á því að ný bílgeymsla, niðurgrafinn að hluta, með tilheyrandi uppbroti á garðvegg lóðarinnar við Bergstaðastræti, gæti ekki samrýmst þessum markmiðum aðalskipulagsins.

Jafnræðis skuli gætt með því að tryggja að sambærileg mál fái sambærilega afgreiðslu. Reykjavíkur­borg hafni því að aðstæður sem byggingarleyfi frá árinu 2006 á lóðum Bergstaða­strætis nr. 83 og 77 séu sambærilegar þeim sem nú séu uppi. Heftið Húsvernd í Reykjavík hafi verið fylgiskjal með Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og stefnan sem þar hafi komið fram hafi einungis verið leiðbeinandi. Með kaflanum Borgarvernd í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 hafi sú stefnumörkun sem fram hafi komið í Húsvernd í Reykjavík verið færð inn í A-hluta skipulagsins, þ.e. bindandi hluta þess, og þannig gert mun hærra undir höfði en áður. Skipulags­legar aðstæður hafi því breyst frá árinu 2006. Í tilfelli lóðar nr. 77 við Bergstaðastræti hafi verið um að ræða stækkun á þegar gerðri bílgeymslu með innkeyrslu frá Bergstaðastræti sem þegar hafi verið til staðar. Varðandi lóð nr. 83 við Bergstaðastræti sé um að ræða bílgeymslu með innkeyrslu frá Barónsstíg en þegar hafi verið til staðar gat í vegg á lóðarmörkum fyrir bílastæði innan lóðar. Í hvorugum þessara tilvika hafi þurft að fækka almenningsstæðum í götu líkt og yrði tilfellið við gerð nýrrar innkeyrslu á lóð nr. 81.

Samkvæmt uppdráttum frá 14. október 2021, sem umsögn skipulagsfulltrúa byggi á, sé gert ráð fyrir útirými á þaki bílgeymslu. Líkt og fram komi í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 51/2015 vegna Laufásvegs nr. 59 teljist notkun þakflatar óhefðbundin og geti eftir atvikum haft veruleg áhrif á nýtingarmöguleika nágrannalóða, svo sem vegna hljóðvistar og yfirsýnar á næstu lóðir. Í úrskurðinum komi fram að leyfi fyrir notkun þakflatar þurfi að eiga stoð í deiliskipulagi, en því sé ekki til að dreifa í máli þessu. Umþrætt erindi hafi af þessum sökum ekki verið tækt til grenndarkynningar. Það sé því álit Reykjavíkurborgar að fyrirhuguð byggingar­áform kæranda samræmist ekki skipulagsáætlunum. Í ljósi þess að skilyrði fyrir samþykkt og útgáfu byggingarleyfis séu m.a. að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010, hafi verið rétt að synja umsókn kæranda og að sú synjun hafi verið byggð á málefnalegum grunni.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Því sé andmælt að skipulagsforsendur hafi breyst frá árinu 2006. Heftið Húsvernd í Reykjavík hafi verið fylgirit með Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 og síðar Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og megi ætla að skipulagsyfirvöld hafi fylgt því. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé í kaflanum Borgarvernd fjallað um hverfisvernd innan Hringbrautar. Þar komi fram að ákvæði hverfisverndar séu almenns eðlis og að nauðsynlegt sé að stefna um hverfisvernd verði nánar skýrð í hverfisskipulagi. Síðar segi svo að tillögur um verndun húsaraða og samstæða sé alfarið viðfangsefni hverfis- og deiliskipulags. Hvorki sé til hverfis- né deiliskipulag á viðkomandi svæði. Í markmiðum hverfisverndar innan Hringbrautar sé aftur minnst á að nánari skilgreiningu verði getið í hverfisskipulagi, t.d. hvað varði afmörkun lóða, garðveggi og girðingar. Í aðalskipulagi 2001-2024 hafi komið fram að heftið Húsvernd í Reykjavík skyldi vera leiðbeinandi við gerð deiliskipulags, sem ekki hafi legið fyrir þá frekar en nú. Í framhaldi hafi komið fram að áherslur heftisins, t.a.m. um verndun einstakra svæða, yrði lögð til grundvallar við mótun nánari stefnu um verndun í hverfisskipulagi svæðanna innan Hringbrautar. Það sé ljóst að sömu skilyrði og sama stefna hafi gilt árið 2006 og nú.

Eðlileg þróun borgarumhverfis rýri ekki gildi gagnvart umhverfi eða varðveislu. Bílgeymslur séu að finna um gjörvöll Þingholtin með tilheyrandi götum í steypta garðveggi. Ekki sé hægt að segja að það hafi neikvæð áhrif á fallegar götumyndir hverfisins. Að auki þurfi ávallt að búa til göt í slíka garðveggi til þess að húseigendur einfaldlega komist að húsakynnum sínum. Hvað varði hug­mynd um útirými á þaki bílgeymslu, sem Reykjavíkurborg tilgreini sem neikvæða, sé sú hugmynd algjört aukaatriði í tillögu kæranda og sé hann meira en tilbúinn til þess að falla frá hugmyndum um slíka nýtingu og leggi það hér með til sem útgangspunkt. Við það muni ásýnd bílgeymslunnar lækka sem nemi hæð steyptra handriða þakgarðs í tillögunni eða um 90 cm.

Bent sé á nýlega afgreitt og samþykkt erindi úr sama hverfi, Laufásveg 73. Sú afgreiðsla sé dagsett 18. október 2021, löngu eftir synjun erindis kæranda. Sótt hafi verið um leyfi til að byggja 66 m2 viðbyggingu, nánar tilgreint sem tómstundahús og gróðurhús á lóðamörkum í suðaustur, auk áhaldaskúrs og pergólu á baklóð. Í umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkur segi m.a. að ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir svæðið og að skoða þurfi erindið út frá byggðamynstri o.fl. Þar segi einnig að garðveggir séu einkennandi fyrir götumyndina og gefi hverfinu sterkan svip. Í því samhengi sé rétt að benda á að á umræddri lóð sé bílgeymsla frá fornu fari og hafi innkeyrslugat veggjar ekki neikvæð áhrif á þessa sterku götumynd, en ekki verði annað skilið en að skipulagsfulltrúi sé sammála því. Í sömu umsögn segi að ekki verði heimilt að nýta þakflöt viðbyggingar sem þak­verönd, slíkt þurfi að eiga stoð í deiliskipulagi. Tillaga kæranda um að falla frá hugmynd um þak­verönd sé í fullu samræmi við þessa umsögn skipulagsfulltrúa. Lega lóðar og afstaða til nágrennis sé svipuð en innkeyrsla að þegar gerðri bílgeymslu sé á vestari hluta lóðar og bílgeymsla kæranda verði mun minni en garðhúsbygging Laufásvegar 73. Á árinu 2008 hafi byggingarfulltrúi sam­þykkt byggingu tvöfaldrar bílgeymslu á austanverðum lóðamörkum þessarar sömu lóðar, Laufás­vegar 73, sem hafi hins vegar ekki verið byggð og sé það enn eitt fordæmið í hverfinu. Að lokum sé bent á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi fellt úr gildi synjun byggingarfulltrúa Reykjavíkur um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Sjafnargötu 3 með úrskurði upp­kveðnum 1. febrúar 2018 í máli nr. 80/2015. Í niðurstöðu nefndarinnar hafi m.a. verið litið til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Ef mannvirki er háð byggingarleyfi byggingar­fulltrúa skal hann skv. 2. mgr. 10. gr. laganna leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins.

Svo sem greinir í málavöxtum sótti kærandi um leyfi til að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðar nr. 81 við Bergstaðastræti í Reykjavík, en lóðin er á ódeiliskipulögðu svæði. Í umsókn sinni vísaði kærandi til þess að fordæmi væru fyrir því á nokkrum lóðum við götuna að bílgeymslur hefðu verið samþykktar. Í umsögn skipulagsfulltrúa við umsókn kæranda var um skipulagslega stöðu vísað til þess að Bergstaðastræti 81 væri samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 á skil­greindu íbúðarsvæði ÍB12, Skólavörðuholt. Svæðið innan Hringbrautar væri á sérstöku hverfis­verndarsvæði þar sem markmiðið væri m.a. að varðveita og styrkja söguleg og fagurfræðileg einkenni byggðar. Steyptir garðveggir settu einnig svip sinn á margar götur og hefðu mikið umhverfisgildi. Þá vísaði skipulagsfulltrúi til þess að fyrirhuguð bílgeymsla krefðist þess að inn­keyrsla yrði gerð frá götu og þar með myndu almennum bílastæðum á borgarlandi, þ.e. götu, fækka um a.m.k. eitt, en ekki væri æskilegt að fjölga sérafnotastæðum í miðborginni á kostnað sam­eiginlegra bílastæða. Þau dæmi sem kærandi hefði talið upp sem fordæmisgefandi í hverfinu hefðu verið samþykkt fyrir gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 og að skipulagslegar for­sendur hefðu breyst. Einnig væri ekki tekið jákvætt í að brjóta upp garðvegg á þessu svæði til að koma fyrir bílgeymslu, en dæmi væru um að heimild hefði verið veitt til að útbúa aðgengi að eldri bílgeymslum en ekki nýjum. Samræmdist byggingaráform kæranda þannig ekki markmiðum aðal­skipulags borgarinnar. Í kjölfarið synjaði byggingarfulltrúi umsókn kæranda með vísan til framan­greindrar umsagnar skipulagsfulltrúa.

 Í máli þessu greinir kæranda og Reykjavíkurborg m.a. á um reglur um hverfisvernd sem fram koma í heftinu Húsvernd í Reykjavík og áhrif þeirra reglna á byggingarleyfisumsókn kæranda, en þó var ekki vísað til þeirra í umsögn skipulagsfulltrúa. Umrætt hefti var fylgirit með Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 en í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 kom fram að heftið yrði áfram leiðbeinandi við gerð deiliskipulags. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er í kafla um mark­mið hverfisverndar innan Hringbrautar vísað til þess að umrætt hefti gildi áfram og verði grund­völlur að endurskoðun á afmörkun og skilgreiningum einstakra verndarsvæða í hverfisskipulagi og deiliskipulagi innan Hringbrautar. Hin kærða ákvörðun varðar ekki gerð skipulagsáætlunar heldur synjun á byggingarleyfisumsókn á ódeiliskipulögðu svæði. Verður því ekki séð að reglur umrædds heftis hafi þýðingu við úrlausn þessa kærumáls.

Í samræmi við áðurnefnda 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 skilaði skipulagsfulltrúi umsögn um hvort fyrirhuguð framkvæmd samræmdist skipulagsáætlunum Reykjavíkurborgar. Var það mat hans að byggingaráformin væru ekki í samræmi við markmið aðalskipulags án þess þó að skýrlega væri greint væri frá hver þau markmið væru. Af þeirri umfjöllun sem finna má í umsögninni verður þó að telja að um hafi verið að ræða það markmið aðalskipulags varðandi hverfisvernd innan Hringbrautar að varðveita og styrkja söguleg og fagurfræðileg einkenni byggðar auk þess almenna leiðarstefs aðalskipulagsins að draga úr notkun einkabílsins og fækka bílastæðum. Þó fallast megi á að skipulagsforsendur séu fyrir því að fækka ekki almennum bílastæðum á borgarlandi verður ekki séð hvernig framkvæmdin, sem fæli í sér fækkun á einu bílastæði, gangi gegn þeirri stefnu aðalskipulags að fækka bílastæðum. Var rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar því áfátt hvað það varðar. Aftur á móti verða ekki talin efni til að hnekkja því mati skipulagsfulltrúa að framkvæmdin, sem fæli í sér uppbrot á steyptum garðvegg, nýrri aðkeyrslu og byggingu bílgeymslu, gangi gegn markmiðum aðalskipulags um hverfisvernd svæðisins.

Jafnræðisreglu íslensk stjórnsýsluréttar er að finna í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en 1. mgr. ákvæðisins kveður á um að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í laga­legu tilliti. Í reglunni felst að óheimilt er að mismuna aðilum sem eins er ástatt um og að sam­bærileg mál ber að afgreiða á sambærilegan hátt. Svo sem fyrr greinir vísaði skipulagsfulltrúi til þess í umsögn sinni að þau dæmi sem kærandi hefði tilgreint í umsókn sinni sem fordæmisgefandi fyrir umrædda bílgeymslu hefðu verið samþykkt fyrir gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 þegar aðrar áherslur og markmið hefðu verið í gildi, auk þess sem dæmi væru um að heimilað hefði verið að útbúa aðgengi að eldri bílgeymslum en ekki nýjum. Ekki er að öllu ljóst hvaða breyttu áherslur og markmið nýs aðalskipulags ættu að leiða til annarrar meðferðar vegna fram­kvæmdaáforma á borð við þá sem hér um ræðir. Þó verður ekki talið að synjun byggingarfulltrúa á byggingarleyfisumsókn kæranda hafi falið í sér brot á jafnræðisreglu þar sem að þau dæmi sem kærandi vísaði til í umsókn sinni fólu hvorki í sér brot á garðvegg til að koma fyrir nýrri aðkeyrslu og bílgeymslu né fækkun á bílastæðum fyrir almenning.

Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærður ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda og umfangs kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. nóvember 2021 um að synja umsókn kæranda um leyfi til að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðar nr. 81 við Bergstaðastræti.