Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

44/2022 Frakkastígur

 

Árið 2022, föstudaginn 24. júní, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík Mættir voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Unnþór Jónsson, settur varaformaður, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. október 2021, um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu á austurhlið húss á lóð nr. 9 við Frakkastíg, stækka veitingastað sem fyrir er í húsinu í flokk II, tegund C, og auka mögulegan gestafjölda úr 15 í 55.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem barst nefndinni 3. maí 2022, kærir Húsfélagið Laugavegi 49A þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. október 2021 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu á austurhlið húss á lóð nr. 9 við Frakkastíg, stækka veitingastað sem fyrir er í húsinu í flokk II, tegund C, og þannig auka mögulegan gestafjölda úr 15 í 55. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. maí 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Laugavegar 47 sömu ákvörðun byggingarfulltrúa og gerir kröfu um að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður það kærumál, sem er nr. 54/2022, sameinað máli þessu þar sem sama ákvörðun er kærð til ógildingar og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 9. maí 2022.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 12. október 2021 var samþykkt umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu á austurhlið hússins að Frakkastíg 9, stækka veitingastað sem fyrir er í húsinu í flokk II, tegund C, og þar með auka mögulegan gestafjölda úr 15 í 55. Á samþykktum uppdráttum er gert ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóðinni sunnan megin við húsið.

Málsrök kærenda: Vísað er til þess að verið sé að loka á aðgengi að lóð Laugavegar 49A frá Frakkastíg með heimilaðri viðbyggingu og staðsetningu bílastæða. Laugavegur 49A hafi notast við aðgengi frá Frakkastíg í áratugi og því hafi myndast hefðarréttur. Frakkastígur 9 hafi áður verið íbúðarhúsnæði en hafi verið breytt í veitingastað fyrir 15 gesti árið 2018. Nú eigi að breyta honum í veitingastað fyrir 55 gesti þar sem boðið verði upp á áfengi til kl. 23:00 á virkum dögum og til kl. 03:00 um helgar. Opnunartíminn feli í sér brot á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sem tilgreini Frakkastíg 9 á svæði með takmarkaðar miðborgarheimildir. Staðurinn eigi einungis að hafa heimild til að vera opinn til kl. 23:00 um helgar, nema þá með sérstakri undanþágu.

Á teikningu séu sýndar svalir á jarðhæð hússins að Frakkastíg 9 sem snúi að hluta að lóð Laugavegar 49A og þar muni fara fram veitingasala utanhúss og vínveitingar verði leyfðar að nóttu til. Þetta muni hafa rask og truflun í för með sér fyrir íbúa Laugavegar 49A. Viðbyggingin muni skyggja verulega á garð þeirra og rýra notagildi hans. Líklega sé ekki farið eftir gr. 9.7.5 í byggingar­reglugerð nr. 112/2012 um löglegt bil milli húsa m.t.t. brunavarna. Teiknaður sé brunastigi til „bráðabirgða“ á austurgafl húss Frakkastígs 9 sem hafi áhrif á notkunarmöguleika húss Laugavegar 49A og auki á brunahættu. Samkvæmt upplýsingum sem aflað hafi verið frá fasteignasala muni framkvæmdirnar hafa talsverð neikvæð áhrif á verðgildi nefnds húss.

Þá hafi árið 2014 komið upp ágreiningur milli eiganda Frakkastígs 9 og annars kærenda þessa máls, eiganda Laugavegar 47, um umferðarrétt hins síðarnefnda um lóð Frakkastígs 9. Með dómi Hæstaréttar frá 5. febrúar 2015 í máli nr. 76/2015 hafi umferðarréttur kærandans um lóð Frakkastígs 9 verið staðfestur, en um sé að ræða einu aðkomuna að bílastæðum hússins, vöru- og sorpgeymslu. Hið kærða byggingarleyfi feli í sér tvö bílastæði sem gangi út í umferðar­rétt Laugavegar 47. Augljóst megi vera að ólögmætt sé að samþykkja byggingarleyfi sem gangi á þann rétt og samþykkta uppdrætti hússins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að samkvæmt Aðal­skipulagi Reykjavíkur 2040 sé lóðin Frakkastígur 9 á landnotkunarsvæði M1A og þannig innan svæðis í miðborginni þar sem gildi almennar vínveitingarheimildir. Í gildandi deili­skipulagi fyrir reit 1.173.0 komi fram að heimilt sé að byggja útbyggingu innan byggingarreits á lóð Frakkastígs 9 og að heimilað nýtingarhlutfall fyrir lóðina sé 0,7. Nýtingarhlutfall verði 0,67 með hinni umþrættu viðbyggingu og þannig innan heimilda deiliskipulags. Því hafi ekki borið að grenndarkynna framkvæmdina. Byggingin sé öll í einu brunahólfi og uppfylli bruna­varnar­kröfur. Ekki hafi verið tekin afstaða til þess hvort eigandi Laugavegar 49A hafi umferðarrétt um lóð Frakkastígs 9. Það falli undir verksvið dómstóla en ekki úrskurðar­nefndarinnar að skera úr um bein eða óbein eignarréttindi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi byggingarleyfis sem heimilar viðbyggingu húss sem stendur á lóðinni Frakkastíg 9 í Reykjavík, en á samþykktum uppdráttum má sjá að gert er ráð fyrir tveimur bílastæðum sunnan megin við húsið.

Með dómi Hæstaréttar 5. febrúar 2015 í máli nr. 76/2015 var fallist á þá kröfu annars kærenda þessa máls, eiganda Laugavegar 47, að hann yrði settur með beinni aðfarargerð inn í umferðarrétt að bílastæðum, vörugeymslu og sorpgeymslu að lóð Laugavegar 47 um lóð Frakkastígs 9. Þá var einnig staðfestur réttur kærandans til að nota bílastæði sem tilheyra húsinu en liggja að hluta til á lóð Frakkastígs 9. Samkvæmt greindum dómi Hæstaréttar liggur fyrir að kærandinn hefur umferðarrétt um lóð Frakkastígs 9 og rétt til að nota bílastæði sem að hluta liggja á þeirri lóð. Ljóst er að þau tvö bílastæði sem fyrirhugað er að verði sunnan megin við húsið að Frakkastíg 9 muni skerða óbeinan eignarrétt umrædds kæranda. Telja verður að samþykki hans hefði því þurft að liggja fyrir hinum umdeildu byggingaráformum áður en byggingarleyfis­umsóknin var samþykkt, en af gögnum málsins verður hvorki séð að leitað hafi verið eftir því samþykki né að samráð hafi verið við hann haft. Að framangreindu virtu verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. október 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu á austurhlið húss á lóð nr. 9 við Frakkastíg, stækka veitingastað í flokk II, tegund C, og auka mögulegan gestafjölda úr 15 í 55.