Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

174/2021 Stórikriki

Með

Árið 2022, föstudaginn 10. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 174/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 11. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa tveggja hæða parhús á lóðinni Stórakrika nr. 59-61 í Mosfellsbæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Stórakrika 57, Mosfellsbæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 11. nóvember 2021 að sam­þykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa tveggja hæða parhús á lóðinni Stórakrika 59-61. Jafnframt er kærð ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 5. nóvember s.á. um að málið skyldi sæta meðferð í samræmi við ákvæði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þegar vikið er óverulega frá deiliskipulagi. Er þess krafist að greindar ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 17. janúar 2022.

Málavextir: Lóðin Stórikriki 59-61 er innan Krikahverfis í Mosfellsbæ og á svæðinu er í gildi deiliskipulag Krikahverfis frá árinu 2005. Hinn 13. nóvember 2019 tók gildi breyting á deili­skipulaginu sem fólst í því að umræddri lóð yrði breytt úr lóð fyrir einbýlishús í lóð fyrir parhús af gerðinni P-IIc. Þeirri ákvörðun var skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem með úrskurði í máli nr. 80/2021, uppkveðnum 12. ágúst 2021, vísaði málinu frá sökum þess að kæra hefði borist eftir að kærufresti lauk.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar 1. nóvember 2021 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa umræddrar lóðar um leyfi til að byggja þar tveggja hæða parhús með innbyggðum bíl­geymslum. Umsókninni var vísað til umsagnar skipulagsnefndar, sem samþykkti á fundi 5. s.m. að málið yrði meðhöndlað í samræmi við 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna lögunar og lóðar byggingarreits. Bókað var að byggingar­fulltrúa væri heimilt að gefa út byggingarleyfi þegar umsókn væri í samræmi við lög nr. 160/2010 um mannvirki, byggingarreglugerð nr. 112/2012 og kynnt gögn. Einnig var fært til bókar að hjálagt væri minnisblað skipulagsfulltrúa, dags. 1. nóvember 2021. Bæjarstjórn staðfesti greinda afgreiðslu á fundi sínum 10. nóvember 2021 og var byggingar­leyfisumsóknin samþykkt á afgreiðslu­fundi byggingarfulltrúa 11. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að samkvæmt teikningu að fyrirhuguðu parhúsi sé um að ræða slíkar breytingar frá deiliskipulagi umrædds svæðis og mæli- og lóðarblöðum að ekki geti verið um að ræða óverulegt frávik í skilningi 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umrætt ákvæði heimili að vikið sé bæði frá grenndarkynningu og breytingu á deiliskipulagi. Þegar metið sé hvort um óverulegt frávik sé að ræða í skilningi ákvæðisins skuli beita þröngri túlkun. Að baki meginreglunni um þrönga túlkun skipulagsáætlana liggi ríkir almanna­hags­munir og réttmætar væntingar þeirra sem eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta. Sé vafi á hvort breyting teljist óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga beri að fara með hana sem verulega. Enn strangari sjónarmið eigi við um mat á óverulegu fráviki samkvæmt 3. mgr. 43. gr. laganna. Tengja verði matið við hagsmuni kærenda. Minnsti vafi eigi að leiða til þess að fara eigi eftir fyrirmælum 1. eða 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Í sérákvæði gildandi deiliskipulags um parhús komi fram að allir hlutar húss skuli standa innan byggingarreits eins og hann sé sýndur á deiliskipulagi og mæliblaði fyrir hverja lóð. Um parhús af gerð P-IIc segi í skipulagsskilmálum að um sé að ræða tvær hæðir, dýpt meginhúsforms sé 10 m og almenn breidd parhúsaeininga 9 m. Almennir skilmálar um parhús kveði á um að misbreiðar einingar séu heimilar innan byggingarreits lóðar án deiliskipulagsbreytinga. Hús­formið geri ráð fyrir samhverfu parhúsi á hvorri lóð. Í deiliskipulagi segi að hámarkshæð par­húsa sé 7,8 m yfir kóta 1. hæðar. Samkvæmt teikningu að Stórakrika 59-61 fari fyrirhugað hús út fyrir byggingarreit. Þá sé vikið verulega frá fyrirskipuðu formi. Fyrirhugað hús sé 10 cm hærra en heimilt sé samkvæmt framangreindum skilmálum. Gólfkóti lóðarinnar sé 63,10 og hámarkshæðarkóti húss því 70,90, en samkvæmt teikningu sé hæsti kóti hússins 71,00. Í minnis­blaði skipulagsfulltrúa, dags. 1. nóvember 2021, sé farið með rangt mál þegar sagt sé að húsið sé 40 cm lægra en deili­skipulag heimili.

Í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar frá maí 2019 komi fram að lóðarmörk, byggingar­reitur og nýtingarhlutfall séu óbreytt frá gildandi deiliskipulagi. Fyrir umrædda breytingu hafi verið gert ráð fyrir að á lóðinni yrði stallað einbýlishús, en nú sé fyrirhugað að byggja tvö tveggja hæða hús. Byggingarmagn og nýtingarhlutfall á lóðinni muni því aukast. Í minnisblaði skipulagsfulltrúa sé viðurkennt að lóðin hafi ekki verið skoðuð sérstak­lega m.t.t. parhúss þegar umrædd deiliskipulagsbreyting hafi verið gerð. Í fyrrnefndu minnisblaði sé einnig viðurkennt að ekki sé hægt að fara eftir skilmálum um meginhúsform samkvæmt deiliskipulagi Krikahverfis. Ekki sé kveðið á um nýtingarhlutfall einbýlis- og par­húsalóða í nefndu deiliskipulagi en gert hafi verið ráð fyrir að hús á lóðinni væri 418,4 m2. Skilja verði orðalag í greinargerð með framangreindri deiliskipulagsbreytingu varðandi óbreytt nýtingar­hlutfall svo að átt sé við þá hússtærð sem þegar hafi verið gert ráð fyrir á lóðinni.

Samkvæmt almennum sérskilmálum um parhús sé heimilt að laga hús að landi með stallaðri gólfplötu, háum sökkli o.fl. Stöllun húsa verði alltaf að taka mið af neðsta kóta á gólfplötu sem gefinn sé upp á mæli- og lóðarblaði. Heimild til stöllunar húss sé takmörkuð við lóðina sem það standi á. Ekki sé hægt að stalla hús „á milli lóða“. Upphaflega hafi verið um eina lóð að ræða, þ.e. lóð nr. 59, og gólfkóti á henni 63,10. Þeirri lóð hafi verið skipt upp í tvær lóðir með deili­skipulagi og mælt fyrir um að sami gólfkóti skyldi vera á hinni nýju lóð, sem sé nr. 61. Við þessa breytingu hafi ekki verið hróflað við gólfkóta á lóðinni nr. 59. Að öllu framangreindu virtu sé ekki heimilt að víkja frá kröfum 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga þar sem frávik frá sam­þykktu deiliskipulagi geti ekki talist óverulegt. Sveitarfélagið hefði þurft að gera breytingar á samþykktu deiliskipulagi samkvæmt áður tilvitnaðri lagagrein og láta fara fram grenndar­kynningu áður en umsókn um byggingarleyfi væri samþykkt, eða eftir atvikum láta gera breytingar á deiliskipulagi lóðarinnar samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laganna.

Í 12. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna komi fram að allar fasteignir skuli bera fast auðkenni, fasteignanúmer, sem Þjóðskrá Íslands úthluti. Sveitarstjórn sé skylt að tilkynna Þjóðskrá um breytingar á skráningu staðfanga, sbr. 16. gr. sömu laga. Enn fremur sé sveitar­stjórn skylt að hlutast til um að fasteign verði skráð í fasteignaskrá áður en heimild sé veitt til veðsetningar eða mannvirkjagerðar á leigulóð eða landi í eigu sveitarfélags, sbr. 17. gr. laganna. Þegar umsókn um byggingarleyfi á Stórakrika 59-61 hafi verið samþykkt á afgreiðslu­fundi byggingarfulltrúa 11. nóvember 2021 hafi engin lóð nr. 61 verið skráð í fasteignaskrá. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá sé lóðin Stórikriki 59 skráð sem 903 m2 íbúðarhúsalóð og að á henni standi 418 m2 einbýlishús. Lóðin nr. 61 beri hins vegar ekkert auðkenni eða fasteignanúmer hjá Þjóðskrá. Óheimilt sé að samþykkja byggingar­leyfi nema lóð sé skráð í fasteignaskrá, sbr. áðurnefnda 17. gr. laganna.

Eftir að lóðinni nr. 59 við Stórakrika hafi verið skipt upp með deiliskipulagsbreytingu í maí 2019 sé ekki hægt að koma þar fyrir parhúsi. Það sé andstætt meginreglum grenndar- og skipulagsréttar að freista þess að lagfæra ágalla og óvönduð vinnubrögð við gerð deili­skipulags­breytingar án kynningar fyrir nágrönnum.

Málsrök Mosfellsbæjar: Sveitarfélagið bendir á að umfjöllun í kæru um eldra deiliskipulag lóðarinnar séu máli þessu óviðkomandi. Þess sé krafist að kröfum kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsnefndar frá 5. nóvember 2021 og ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 11. s.m. verði hafnað. Ekki verði séð að fyrir hendi séu atvik sem leiði til ógildingar framangreindra ákvarðana.

Við ritun andmæla hafi komið í ljós að mistök hefðu átt sér stað við afgreiðslu byggingarfulltrúa á útprentuðum aðaluppdráttum parhússins að Stórakrika 59-61. Aðaluppdrættir sem byggingarfulltrúi hafi undirritað og afhent kærendum hafi borist sveitarfélaginu 8. október 2020, en réttir aðal­uppdrættir hafi legið til grundvallar umfjöllun skipulagsnefndar á fundi 5. nóvember 2021 og við ritun minnisblaðs skipulagsfulltrúa. Einnig hafi réttir aðaluppdrættir legið fyrir við afgreiðslu byggingarfulltrúa á samþykkt hans á byggingaráformum 11. s.m.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé umrædd lóð skilgreind sem parhúsalóð en lóðaskiptilína sé fyrir hvora einingu innan byggingarreits. Um sé að ræða eina lóð en á henni sé fyrirhugað hús með tveimur íbúðum ásamt séreignasvæðum utandyra samkvæmt væntanlegum eigna­skiptasamningi lóðarinnar. Samkvæmt 68. tl. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 séu sérbýli skilgreind sem íbúðarhús þar sem ekki teljist til sameignar annað en lóð og ytra byrði húss og hluti lagnakerfa eftir eðli máls, t.d. einbýlishús, raðhús eða parhús. Húsið í heild muni því miðast við einn gólfkóta, 63,10, og verði mesta hæð húss samkvæmt deiliskipulagi mæld út frá þeim kóta.

Skipulagsnefnd hafi samþykkt að meðhöndla málið sem óverulegt frávik deiliskipulags sam­kvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt tilvitnaðri lagagrein geti sveitar­stjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. 43. gr. laganna um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu við útgáfu framkvæmda- og byggingarleyfis þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Vísað sé til minnisblaðs skipulagsfulltrúa, dags. 1. nóvember 2021. Gert sé ráð fyrir í 3. mgr. 43. gr. að unnt sé að taka fyrir og afgreiða frávik frá samþykktu deiliskipulagi í tilteknum tilvikum án þess að meðferð þeirra breytinga fari eftir 1. og 2. mgr. 43. gr. laganna. Í 2. málsl. 2. mgr. ákvæðisins segi að við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist veruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Þegar litið sé til þeirra þátta sem tilgreindir séu í 43. gr. skipulagslaga, þ.e. landnotkunar, útsýnis, skuggavarps, innsýnis eða annars sem skert geti hagsmuni nágranna, megi nefna að í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar breytist landnotkun ekki þar sem enn sé um íbúðarbyggð að ræða. Þá rúmist hæð hússins innan heimilda deiliskipulags en samkvæmt skipulaginu sé heimilt að byggja hús innan byggingarreits mest í 7,8 m hæð frá uppgefnum kóta 63,10. Útsýni nærliggjandi húsa sé því hið sama. Skuggavarp á lóð kærenda eigi að vera óbreytt eða lítið sem ekkert þar sem lóðin Stórikriki 59-61 sé norðaustan við Stórakrika 57. Skuggavarp gagnvart Litlakrika 76 teljist óbreytt þar sem hæð hússins sé hin sama og nokkur fjarlægð á milli húsa. Innsýn hafi jafnframt ekki breyst.

Í kæru komi ekki fram með hvaða hætti hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar brjóti í bága við framangreint ákvæði skipulagslaga eða að hvaða leyti samþykkt á óverulegu fráviki deili­skipulags skerði hagsmuni nágranna hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Það sé hafið yfir allan vafa að umrædd frávik teljist óveruleg í skilningi ákvæða skipulagslaga.

Umrætt parhús muni standa á einni lóð og því sé rangt að lóðinni hafi verið skipt upp í tvær lóðir, líkt og haldið sé fram í kæru. Nýtingarhlutfall húsa sé ekki reiknað út frá rúmmetrum heldur fermetrum húsa samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en nýtingarhlutfall sérbýlis sé ekki fastsett í skipulagsskilmálum deiliskipulags Krikahverfis. Tilvísun kærenda til þess að fermetrafjöldi húss samkvæmt eldra skipulagi marki hámark byggingarmagns á lóðinni eigi ekki við rök að styðjast, enda séu þau fallin úr gildi og geti með engu móti gengið framar gildandi deiliskipulagi. Í almennum skilmálum parhúsa í greinargerð gildandi deiliskipulags sé tekið fram að misbreiðar einingar séu heimilar innan byggingarreits lóðar án deiliskipulags­breytinga. Hönnun geti því verið áþekk en breytileg. Einnig segi í skilmálunum að samtengd hús skuli hönnuð af sama aðila og lögð fyrir byggingarnefnd sem ein heild. Aðaluppdrættir fyrirhugaðs parhúss séu í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags fyrir utan þau óverulegu frávik sem heimiluð hafi verið af skipulagsnefnd.

Þá verði ekki séð að athugasemdir er varði skráningu fasteignar í Þjóðskrá Íslands varði kæru þessa, samþykkt byggingaráforma eða afgreiðslu skipulagsnefndar. Þá sé bent á að ekki sé risið hús á lóðinni.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur árétta sjónarmið sín en benda jafnframt á að ekki sé gert ráð fyrir þeirri húsagerð sem sýnd sé á aðaluppdrætti fyrirhugaðs parhúss að Stórakrika 59-61 í skilmálum gildandi deiliskipulags. Misbreiðar einingar séu heimilar innan byggingar­reits lóðar án deiliskipulagsbreytinga en ekki sé fjallað um misdjúpar einingar. Sú afstaða sem komi fram í minnisblaði skipulagsfulltrúa um að ekki sé hægt, eða erfitt, að fylgja útgefnu mæliblaði, byggingarreit og byggingarheimildum lóðarinnar og fara eftir skilmálum deili­skipulags, sem varði meginhúsform vegna aðstæðna á lóð sem ekki hafi verið skoðað sérstak­lega við breytingu skipulagsins, styðji kröfu kærenda um að ekki sé heimilt að með­höndla málið sem óverulegt frávik samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarfélagið hafi ekki sýnt fram á að hagsmunir kærenda hafi í engu skerst hvað varði útsýni, skuggavarp eða innsýn, en það beri sönnunarbyrði fyrir því. Útsýni muni skerðast verulega þar sem hús kærenda hafi verið hannað með það í huga að húsið fyrir neðan það væri stallað einbýlishús. Ef breyting verði á skuggavarpi eða útsýni þá beri sveitarfélaginu skylda til að grenndarkynna breytingar. Einungis megi víkja frá þeirri skyldu ef grenndaráhrif vegna breytinganna séu engin.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir tveggja hæða parhúsi að Stórakrika 59-61 en umrædd lóð er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Krikahverfis frá árinu 2005.

Ákvæði 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fjalla um málsmeðferð við breytingu á deili­skipulagi. Í 2. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á sam­þykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndar­kynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Þá segir í 3. mgr. lagaákvæðisins að við útgáfu framkvæmda- eða byggingar­leyfis geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deili­skipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Við meðferð umsóknar um byggingarleyfi í máli þessu samþykkti bæjarstjórn að vikið væri frá kröfum skipulagslaga um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þar sem um óverulegt frávik frá deiliskipulagi væri að ræða, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Í greinargerð nefnds deiliskipulags er í kafla 5.4 að finna skipulagsskilmála um parhús. Kemur þar m.a. fram að á deiliskipulagsuppdrætti séu húsaeiningar í parhúsalengjum almennt sýndar jafnbreiðar en misbreiðar einingar séu heimilar innan byggingarreits lóðar án deiliskipulags­breytinga. Segir einnig að allir hlutar húss skuli standa innan byggingarreits eins og hann sé sýndur á deiliskipulagi og mæliblaði fyrir hverja lóð. Á deiliskipulagsuppdrætti er gert ráð fyrir parhúsi af gerðinni P-IIc á lóðinni Stórakrika 59-61, en samkvæmt greinargerð skipu­lagsins séu slík parhús með tvær heilar hæðir. Dýpt meginhúsforms sé 10 m og almenn breidd parhúsa­eininga 9 m. Þá séu útbyggingar við meginhúsform heimilar við suðlægar langhliðar og gafla og megi lengd þeirra nema allt að helmingi viðkomandi húshliða.

Í minnisblaði skipulagsfulltrúa, sem lá fyrir við afgreiðslu bæjarstjórnar, kemur m.a. fram að fyrirhugað parhús sé ekki samhverft um miðju heldur lagi sig að aðstæðum á lóð og byggingar­reit. Þannig falli það betur að götumynd sem einkennist frekar af einbýlis­húsum, sumum með tveimur íbúðum. Við breytingu á deiliskipulagi árið 2019 hafi ráðgjafar og lóðarhafar valið skilgreininguna P-IIc fyrir lóðina. Byggingarreit hafi ekki verið breytt með sama hætti og þekkist um aðra byggingarreiti rað- og parhúsa í hverfinu, en form og lögun þeirra taki mið af skilmálum sem skuli hanna innan. Umrædd lóð sé sérkennileg í laginu. Í skilmálum deili­skipulags um parhús P-IIc standi „heldur fastmótuð hugmynd um stærð og gerð megin­húsforma“. Þá segir einnig í minnisblaðinu að ætli hönnuður „að reyna að fylgja útgefnu mæliblaði, byggingar­reit og heimildum lóðar er ljóst að ekki er hægt, eða erfitt, að fara eftir skilmálum er varða megin­húsform vegna aðstæðna á lóð sem ekki hefur verið skoðuð sérstaklega við breytingu skipulagsins.“ Bendir skipulagsfulltrúi á að fyrirhugað hús sé stallað í samræmi við skilmála og aðstæður innan lóðar. Uppbrot þess sé mikið sem hafi jákvæð áhrif á umfang hússins með tilliti til meginhúsforma. Þá sé húsið 40 cm lægra en deiliskipulag heimili og útbygging lækki um 55 cm næst aðliggjandi húsi.

Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum fyrirhugaðs parhúss verður dýpt hússins nr. 59 við Stórakrika 17 m og hússins nr. 61 verður 12 m. Breidd hússins nr. 59 er innan heimilda skilmála deiliskipulags en mesta breidd hússins nr. 61 er 11,55 m. Dýpt og breidd fyrirhugaðs parhúss er því nokkuð umfram heimildir gildandi deiliskipulags svæðisins. Þá er lögun hússins önnur en samkvæmt skilmálum deiliskipulags Krikahverfis. Verður að telja að umdeild frávik frá gildandi deiliskipulagi muni hafa grenndaráhrif gagnvart kærendum umfram það sem þar er heimilað. Voru því þau ströngu skilyrði 3. mgr. 43. gr. skipulags­laga fyrir því að vikið yrði frá skilmálum skipulags við veitingu byggingarleyfis, um að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn, ekki uppfyllt þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Þá þykir rétt að benda á að í bókun skipulagsnefndar á fundi hennar 5. nóvember 2021, sem bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum 10. s.m., var sam­þykkt að málið skyldi meðhöndlað sem óverulegt frávik skipulags samkvæmt fyrrnefndu laga­ákvæði vegna lögunar lóðar og byggingarreits. Aftur á móti verður ekki séð að einnig hafi farið fram mat á áðurnefndum áhrifum umræddra frávika deiliskipulags á hagsmuni nágranna. Var enda slíkt mat ekki að finna í minnisblaði skipulagsfulltrúa að undanskildu því er fram kemur um hæð fyrirhugaðs húss.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 11. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa tveggja hæða parhús á lóðinni Stórakrika 59-61 í Mosfellsbæ úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda og umfangs kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 11. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa tveggja hæða parhús á lóðinni Stórakrika 59-61 í Mosfellsbæ.

182/2021 Svínabú að Torfum

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 25. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 182/2021, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Eyja­fjarðarsveitar frá 19. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa í Eyjafjarðarsveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra Holt ehf., eigandi Grundar I, og Ljósaborg ehf., eigandi Grundar II A, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðarsveitar frá 19. nóvember 2021 að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Gerðu kærendur jafnframt kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, en með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 11. mars 2021 var þeirri kröfu hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Eyjafjarðarsveit 22. desember 2021.

Málavextir: Á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar 29. nóvember 2018 var samþykkt tillaga skipulagsnefndar um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir svínabú í landi Torfa. Í tillögunni fólst m.a. að byggt yrði upp svínabú fyrir 2.400 grísi (30 kg og stærri) og 400 gyltur. Afmörkuð yrði 5,45 ha lóð undir fyrirhugaðar byggingar, sem yrðu 2.600 m² eldishús, 3.100 m² gyltu- og fráfærugrísahús, 300 m² starfsmanna- og gestahús, allt að átta síló, samtals 80 m² að grunn­flatar­máli, og 1-2 haugtankar, samtals um 6.000 m³. Að loknum kynningartíma tillögunnar fjallaði skipulagsnefnd um innkomnar athugasemdir á fundi sínum 14. mars 2019 og bókaði að nefndin legði til við sveitarstjórn að auglýst skipulagstillaga yrði samþykkt skv. 3. mgr. 41. gr. skipu­lagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem tilgreindar væru í afgreiðslu nefndarinnar á tilteknum athugasemdum. Á fundi sveitarstjórnar 28. mars 2019 var afgreiðsla skipulags­nefndar samþykkt og var deiliskipulagið birt í B-deild Stjórnartíðinda 22. maí s.á. Samhliða meðferð deiliskipulagsins var framkvæmdin tilkynnt til Skipulagsstofnunar sem framkvæmd í flokki B samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir 12. mars 2019 þar sem stofnunin komst að þeirri niður­stöðu að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærendur kærðu framangreindar ákvarðanir, þ.e.a.s. ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um að framkvæmdir vegna svínabús að Torfum skyldu ekki háðar mati á umhverfis-áhrifum og afgreiðslu sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 28. s.m. á deiliskipulagstillögu vegna svína­búsins, til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurði nefndarinnar 14. nóvember 2019 í máli nr. 49/2019 var þeim hluta kærunnar sem varðaði mats­skylduákvörðunina vísað frá þar sem kærufrestur var liðinn. Þá vísaði nefndin einnig þeim hluta kærunnar frá sem laut að deiliskipulaginu á þeim grundvelli að það hefði ekki verið sam­þykkt með réttum hætti í sveitarstjórn og bæri því að vísa málinu frá, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 27. nóvember 2019 óskuðu kærendur eftir því við Skipulagsstofnun að stofnunin endurupptæki matsskylduákvörðun sína, en þeirri beiðni var hafnað með bréfi stofnunarinnar, dags. 14. janúar 2020. Kærendur óskuðu eftir endurupp­töku málsins að nýju með bréfi, dags. 17. desember 2021, en þeirri beiðni var einnig hafnað með bréfi stofnunarinnar, dags. 8. febrúar 2022. Þá stefndu kærendur íslenska ríkinu fyrir dóm 4. október 2020 til að fá matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar hnekkt.

Hinn 13. ágúst 2019 gaf skipulagsfulltrúi út framkvæmdaleyfi til handa landeigenda að Torfum sem tók til vegtengingar við Eyjafjarðarbraut vestri og borunar eftir neysluvatni innan lóðar fyrirhugaðs svínabús. Kærendur kærðu greinda ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 70/2019, uppkveðnum 22. ágúst 2019, var málinu vísað frá þar sem kærendur voru ekki taldir eiga lögvarðir hagsmuni af úrlausn málsins. Var í forsendum þeirrar niðurstöðu vísað til þess að þótt framkvæmdirnar væru óum­deilanlega hluti af undirbúningi vegna svínabús væri ekki um slík tengsl framkvæmda að ræða að kærendur gætu byggt aðild sína á því.

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti 25. nóvember 2019 nýtt deiliskipulag umrædds svæðis vegna títtnefnds svínabús. Kærendur kærðu þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, sem hafnaði kröfum kærenda með úrskurði uppkveðnum 7. maí 2020 í máli nr. 133/2019. Hinn 19. nóvember 2021 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Eyjafjarðarsveitar byggingarleyfis­umsókn vegna svínabús á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að ógilda beri hin kærða ákvörðun þar sem enn sé beðið úrlausnar dómstóla um lögmæti ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um matsskyldu hins fyrirhugaða svínabús að Torfum samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Vísað sé til 5. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mann­virki þar sem segi að óheimilt sé að gefa út byggingarleyfi fyrir mannvirki sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Rekið sé dómsmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem farið sé fram á ógildingu nefndrar ákvörðunar Skipu­lagsstofnunar, en í málinu liggi fyrir matsgerð frá 14. júní 2021 sem staðfesti að hið fyrirhugaða svínabú muni hafa meiri umhverfisáhrif en svínabú að þröskulds­viðmiðunarstærðum skv. 1. viðauka laga nr. 106/2000. Vegna stefnunnar og niðurstöðu matsgerðarinnar virðist fram­kvæmdaraðilinn hafa farið þá leið að draga úr umfangi hins fyrirhugaða svínabús. Ekki liggi fyrir hvernig þessi nýja staða muni hafa áhrif á niðurstöðu dómsmálsins.

Sú staða sé uppi að verulegur vafi sé um lögmæti matsskylduákvörðunar Skipulagsstofnunar og hvort að sú ákvörðun geti verið grundvöllur byggingarleyfis. Hin nýja framkvæmd hafi ekki stoð í lögmætri ákvörðun Skipulagsstofnunar á þessum tímapunkti, sbr. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Horfa verði til þess að verulegar breytingar virðist hafa verið á hinni fyrirhuguðu framkvæmd sem geti haft áhrif á gildi matsskylduákvörðun stofnunarinnar. Kærendur hafi því sent erindi til Skipulagsstofnunar um að endurupptaka ákvörðunina.

Þá verði einnig að líta til þess að sumarið 2021 hafi Finnstaðaá, sem renni meðfram hinni fyrir­huguðu byggingu, flætt verulega yfir bakka sína. Flóðið hafi farið yfir nær allan byggingareit hins fyrirhugaða húss, en hefði það verið risið hefði það mögulega legið undir alvarlegum skemmdum og öll dýr drepist. Hefði flóðið komist í haugtanka hefði mögulega verið um stór­slys að ræða. Þetta séu grundvallar­forsendur sem hefðu breytt fyrri ákvörðunum Skipulags­stofnunar og valkostamati á skipulagsstigi. Hið kærða byggingaleyfi sé því grundvallað á afar veikum forsendum í umræddri ákvörðun stofnunarinnar.

Málsrök Eyjafjarðarsveitar: Af hálfu Eyjafjarðarsveitar er bent á að íbúðarhús kærenda að Grund I og Grund II A séu staðsett langt utan þeirra fjarlægðarmarka sem í gildi séu um fjar­lægð svínahúsa frá íbúðarhúsum. Þau séu í kílómetra fjarlægð frá hinu fyrirhugaða svínabúi. Í 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína segi að svínabú með meira en 2.000 eldisgrísi þurfi að vera í að lágmarki 500 m fjarlægð frá næstu íbúðarhúsum á skipulögðum landbúnaðarsvæðum. Vegna þessarar miklu fjarlægðar eigi kærendur ekki lög­varða hagsmuni af kærumáli þessu, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 sé svæðið skipulagt sem landbúnaðarsvæði. Ljóst sé að tilkoma svínabúsins muni ekki skerða nýtingarmöguleika kærenda á jörðum sínum jafnvel þó 500 m radíus fari inn á jarðir þeirra og ekkert sem gefi til kynna að svæðið verði nýtt til annars en landbúnaðar í framtíðinni. Vegna þessa geti kærendur ekki talist eiga lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumálsins.

Aðeins sé verið að heimila byggingar húsa en ekki veita starfsleyfi auk þess sem búið sé að samþykkja deiliskipulag vegna spildunnar sem leyfið eigi sér stoð í. Rétt sé að geta þess að byggingarleyfið nái aðeins til húsakosts sem dugi fyrir 300-400 gyltum, u.þ.b. 2.000 smágrísum og 200 eldisgrísum. Sá fjöldi dýra sé ekki skilgreindur berum orðum á uppdráttum en með því að bera fermetrafjölda einstakra deilda í húsnæðinu saman við kröfur reglugerðar nr. 1276/2014 um velferð svína megi álykta með vissu að byggingarleyfið sé langt frá því að fullnýta heimild deiliskipulagsins. Sveitarfélagið telji ekkert athugavert við að heimilað sé að byggja aðeins hluta heimilaðs byggingarmagns nú en að síðar verði veitt leyfi sem fullnýti heimild skipu­lagsins. Ef áðurgreindur fjöldi dýra sé borinn saman við fjarlægðarmörk samkvæmt reglugerð nr. 520/2015 þá sé hann mun minni heldur en fjarlægðarmörk vegna bús með meira en 2.000 stæði fyrir eldisgrísi eða 750 stæði fyrir gyltur, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar. Fjarlægðarmörkin virðast vera um 300 m miðað við útgefið byggingarleyfi, sbr. viðauka við reglugerðina, þ.e. 400 stæði fyrir gyltur gefi 290 m. Bent sé á að heimild samkvæmt deiliskipulagi nái til allt að 2.400 eldisgrísa og 400 gylta.

Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 70/2019 hafi kæru á ákvörðun um að veita framkvæmdaleyfi vegna vegtengingar og borunar eftir vatni á spildunni úr Torfum undir svínabúið verið vísað frá vegna skorts á lögvörðum hagsmunum. Í því máli hafi verið um að ræða afmarkaðan hluta framkvæmdarinnar, rétt eins og hið kærða byggingar­leyfi í máli þessu. Veiting byggingarleyfis sé aðeins einn afmarkaður hluti framkvæmdarinnar en umfjöllun um framkvæmdina hafi farið fram við gerð deiliskipulagsins fyrir svínabú í landi Torfa. Kærendur hafi getað komið sínum sjónarmiðum á framfæri við þá málsmeðferð. Skipu­lagið hafi verið samþykkt í sveitarstjórn 21. nóvember 2019 og hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnað kröfu kærenda að fella það úr gildi, sbr. úrskurð í máli nr. 133/2019. Fyrir liggi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um að svínabúið sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en í máli nr. 49/2019 hafi úrskurðarnefndin vísað frá kæru kærenda vegna þeirrar ákvörðunar auk þess sem Skipulagsstofnun hafi hafnað beiðni kærenda um endurupp­töku ákvörðunarinnar. Af þessu megi vera ljóst að kærendur hafi fengið tækifæri til að koma að sínum andmælum og sjónarmiðum og fengið umfjöllun um andmæli sín vegna fram­kvæmdarinnar. Í ljósi þess að byggingarleyfið eigi stoð í gildandi deiliskipulagi og mats­skylduákvörðun Skipulagsstofnunar, sem og að kærendur hafi fengið öll tækifæri til að and­mæla þessum ákvörðunum, þá verði ekki séð hvaða lögvörðu hagsmuni kærendur hafi af byggingar­leyfinu, sem aðeins sé hluti af umræddri heildarframkvæmd.

Kærendur hafi höfðað dómsmál til ógildingar fyrrnefndrar matsskylduákvörðun Skipulags­stofnunar auk þess sem þeir hafi beðið Skipulagsstofnun um að endurupptaka ákvörðunina. Í kæru þessa máls ætlist þeir til að úrskurðarnefndin hafi matsskylduákvörðun Skipulags­stofnunar að engu og að byggingarleyfið verði fellt úr gildi þar sem vafi leiki á um gildi mats­skyldu­ákvörðunarinnar. Þeir ætlist til þess að Skipulagsstofnun, úrskurðarnefndin og dómstólar fjalli um matsskylduákvörðunina á sama tíma, en samkvæmt reglunni um litis pendens áhrif megi ekki höfða fleiri en eitt mál vegna sömu kröfunnar, sbr. 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dómstólar teljist æðri stjórnvöldum og á meðan krafa kærenda um ógildingu á matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar sé til meðferðar hjá dómstólum beri stjórnvöldum að vísa kröfum frá sem lúti að ógildingu ákvörðunarinnar. Felli dómstólar ákvörðunina úr gildi yrði komin upp ný staða sem skoða yrði þegar þar að kæmi, en deili­skipulag sem sé í gildi myndi eftir sem áður halda velli. Öll lögbundin skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfisins séu því til staðar.

Kærendur haldi því fram að byggingaráætlun svínabúsins hafi verið breytt og virðast telja það vera út af dómsmáli þeirra og matsgerð sem þeir hafi aflað. Eyjafjarðarsveit sé ekki kunnugt um að byggingaráformum hafi verið breytt. Leyfishafi geti byggt búið í áföngum og verði að hafa svigrúm til þess út frá sínum eigin viðskiptalegu forsendum. Órökstutt sé af hálfu kærenda hvers vegna byggingaráætlunum hafi verið breytt eða hvers vegna málshöfðun þeirra og mats­gerð ættu að hafa áhrif á uppbyggingu búsins.

Það hafi verið vitað frá upphafi að Finnastaðaá eigi það til að flæða yfir bakka sína í miklum leysingum. Hluti af framkvæmdum vegna svínabúsins feli í sér gerð varnargarða til að varna flóðum, lítilsháttar færslu árfarvegar og dýpkun hans. Bakkavarnir við Finnastaðaá séu ekki óyfirstíganlegar fremur en við önnur smærri, sambærileg eða stærri vatnsföll hér á landi.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er farið fram á frávísun málsins með sambæri­legum rökum og gert var af hálfu Eyjafjarðarsveitar. Leyfishafi bendir jafnframt á að mats­skylduákvörðun Skipulagsstofnunar sé í fullu gildi og hafi hvorki verið hnekkt af æðra stjórn­valdi né dómstólum. Skilyrði 5. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki um að fyrir liggi ákvörðun um að ekki sé þörf á mati á umhverfisáhrifum sé því uppfyllt.

Engin breyting hafi verið gerð á framkvæmdinni líkt og kærendur haldi fram. Til standi að reisa byggingar um 3.000 m2 að stærð í þessum áfanga en aðrir áfangar verði framkvæmdir síðar. Deiliskipulagið heimili 5.700 m2 byggingarmagn. Heimilt sé að hafa allt að 2.400 alisvín og allt að 400 gyltur. Leyfishafa sé ekki skylt að nýta allt byggingarmagnið í einu. Viðskiptalegar forsendur ráði byggingarhraða og uppbyggingu en framkvæmdin fari fram í samræmi við gildandi deiliskipulag og leyfi yfirvalda. Upphaflega hafi svínabúið átt að vera um 8.500 m2 að stærð. Forsvarsmaður kærenda hafi boðist til að hanna búið í þeirri stærð og hafi gert forsvars­manni leyfishafa tilboð í verkið og tekið fram að ekki væri þörf á mati á umhverfisáhrifum. Það hafi því komið á óvart þegar kærendur hafi síðar sett sig upp á móti því að búið yrði reist, þó það væri aðeins tæplega 5.700 m2, og að ofuráherslu hafi verið lögð á að búið skyldi sæta mati á umhverfisáhrifum. Það skipti greinilega engu máli hver stærð búsins komi til með að verða, kærendur muni alltaf setja sig upp á móti því sem gert verði.

Algjörlega órökstutt sé hvers vegna stórslys geti orðið þegar Finnastaðaá flæði yfir bakka sína. Það sé vel þekkt staðreynd að áin geti flætt yfir bakka sína í miklum leysingum en það gerist þó ekki nema með nokkurra áratuga millibili. Leyfishafi sé meðvitaður um að það geti gerst oftar og því sé fyrirhugað að gera varnargarða fyrir byggingarnar. Einnig sé fyrirhugað að færa farveg árinnar lítilsháttar og gera hana aðgengilega svo unnt sé að grafa reglulega upp úr farvegi hennar, dýpka hann og hreinsa framburð. Þetta hafi verið hluti af framkvæmdaáætlun svína­búsins frá upphafi. Ef byggingar hefðu verið reistar og svínabúið væri komið í fullan rekstur hefðu varnargarðar varið byggingarnar fyrir flóði og þær ekki orðið fyrir skemmdum. Einnig hefðu þeir varið haugtanka, sem auk þess verði vel varðir og muni halda vatni og vindum. Þó svo að flóðið hefði lent á byggingum hefðu dýr ekki drepist enda gólf það hátt að vatn hefði ekki komist að þeim. Haugtankar hefðu líklega ekki orðið fyrir skemmdum þó vatn hefði komist að þeim og varnargarðar ekki haldið. Þá sé bent á að svínabúið sé háð starfsleyfi og verði undir eftirliti þess til bærra aðila, t.a.m. Umhverfisstofnunar, heilbrigðiseftirlits og Matvæla­stofnunar. Öryggi muni verða að fullu tryggt í rekstri búsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingar­fulltrúa Eyjafjarðarsveitar frá 19. nóvember 2021 að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa.

Eyjafjarðarsveit hefur gert kröfu um frávísun málsins vegna svokallaðra litis pendens áhrifa, þ.e. að aðeins megi höfða eitt mál vegna sömu kröfunnar, sbr. 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kærendur í máli þessu reka nú mál fyrir dómstólum vegna mats­skylduákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um að fyrirhuguð framkvæmd svína­bús að Torfum í Eyjafjarðarsveit sé ekki líkleg til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þetta ljóslega ekki sama krafa og höfð er uppi í máli þessu, þar sem krafist er ógildingar á byggingarleyfi, auk þess sem 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 á við um rekstur tveggja dómsmála en ekki dómsmáls og stjórn­sýslukæru. Verður því kærumáli þessu því ekki vísað frá á þeim grundvelli. Þá er haldlaus sú málsástæða sveitarfélagsins að vísa beri málinu frá þar sem kærendur hafi áður komið að sínum sjónarmiðum vegna deiliskipulags svæðisins og matsskylduákvörðunar Skipulags­stofnunar, enda fá þær staðreyndir engu breytt um þá kæruheimild sem er til staðar vegna samþykkis byggingaráforma í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýslu­réttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa frá málum á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu. Bæði Eyjafjarðarsveit og leyfishafi telja að vísa beri kærumáli þessu frá þar sem kærendur uppfylli ekki greint skilyrði um lögvarða hagsmuni með hliðsjón af fjarlægð íbúðarhúsa þeirra frá hinu fyrirhugaða svínabúi. Byggingarleyfið heimili aðeins byggingu húsa fyrir svínabú en veiti ekki starfsleyfi vegna starfsemi fyrirhugaðs svínabús.

Af ákvæðum laga nr. 160/2010 leiðir að byggingarleyfi felur ekki einvörðungu í sér heimild til að reisa mannvirki heldur kveður það líka á um notkun þess, sbr. m.a. 6. tl. 3. gr., 1. mgr. 9. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga. Við mat á lögvörðum hagsmunum vegna veitingu byggingarleyfis ber því einnig að líta til þeirrar notkunar sem leyfið heimilar þrátt fyrir að önnur leyfi séu tilskilin svo að fyrirhuguð starfsemi geti hafist. Á samþykktum aðalupp­dráttum hins kærða byggingarleyfis kemur fram að hin umdeilda bygging sé ætluð til reksturs svínabús. Ekki er útilokað að sú starfsemi geti haft áhrif á hagsmuni kærenda umfram aðra, s.s. vegna lyktarmengunar, og með hliðsjón af því teljast kærendur uppfylla skilyrði kæruaðildar samkvæmt áðurnefndri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu hins kærða byggingarleyfis fyrst og fremst á því að vafi sé uppi um lögmæti þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 að fyrirhugað svínabú að Torfum skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Vísa þeir til þess að mál sé rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem farið sé fram á ógildingu matsskylduákvörðunarinnar. Svo sem rakið er í málavöxtum komu kærendur að kæru til úrskurðarnefndarinnar vegna umþrættrar matsskylduákvörðunar, en með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 49/2019, upp-kveðnum 14. nóvember 2019, var þeim hluta kærunnar sem varðaði þá ákvörðun vísað frá þar sem kærufrestur var liðinn. Þá liggur fyrir að Skipulagsstofnun hefur í tvígang synjað beiðni kærenda um endurupptöku ákvörðunarinnar. Er því ljóst að sú ákvörðun hefur gildi að lögum, enda hefur henni hvorki verið hnekkt né hún endurupptekin eða afturkölluð af hálfu Skipulags­stofnunar. Þá verður ekki talið að tilvist áðurnefnds dómsmáls geti ein og sér leitt til ógildingar hins kærða byggingarleyfis. Skal á það bent að ef fallist verður á dómkröfur kærenda þá standa þeim til boða önnur réttarúrræði til að verja hagsmuni sína, s.s. með því að hlutast til um að byggingarfulltrúi beiti þvingunarúrræðum laga nr. 160/2010.

Á samþykktum aðaluppdrætti má sjá að gert er ráð fyrir malarplani allt í kringum svínabúið sem og malarveg frá planinu að Finnastaðaá þar sem koma á fyrir brunahana auk þess sem vísað er til þess að brunavarnir verði samkvæmt brunahönnunarskýrslu frá 20. október 2021. Í kafla 7.4 þeirrar skýrslu kemur fram að tryggja skuli slökkviliði aðkomu að Finnastaðaá til öflunar á slökkvivatni með akfærri leið niður að á og athafnasvæði við ánna með grófjöfnuðu malarplani. Hinn fyrirhugaði malarvegur, hluti malarplans og brunahani eru utan skipulags­svæðis deiliskipulags Torfa, svínabú, og felur því byggingarleyfið í sér framkvæmdir á ódeili­skipulögðu svæði að hluta. Í ljósi þess að þær framkvæmdir verða á lóð leyfishafa og einungis lítillega utan deiliskipulagssvæðisins, sem og að virtum þeim hagsmunum sem framkvæmdum er ætlað að verja með því að tryggja aðkomu slökkviliðs, verður sá annmarki þó ekki talinn slíkur að varðað geti ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Þá verður heldur ekki séð að það eigi að leiða til ógildingar byggingarleyfisins þó að Finnastaðaá geti flætt yfir bakka sína, en fram hefur komið af hálfu Eyjafjarðarsveitar og leyfishafa að sú staðreynd sé vel þekkt og til standi að gera varnargarða vegna þess.

Að framangreindu virtu og þar sem ekki liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi sé haldið slíkum form- eða efnisannmörkum að varði ógildingu þess verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda og umfangs kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðarsveitar frá 19. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa í Eyjafjarðarsveit.

177/2021 Hvaleyrarbraut

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 25. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson starfandi formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 177/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar­bæjar frá 10. nóvember 2021 um að synja um byggingarleyfi til að fella niður vegg milli rýma 01 0103 og 01 0105 í fjöleignarhúsinu að Hvaleyrarbraut 29 í Hafnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra Marás, vélar ehf. og Arctic Sport ehf., eigendur tveggja fasteigna að Hvaleyrarbraut 29 þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 10. nóvember 2021 að synja um byggingarleyfi til að fella niður vegg milli rýma 01 0103 og 01 0105 í fjöleignarhúsinu að Hvaleyrarbraut 29. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 7. janúar 2022.

Málavextir: Húsnæðið að Hvaleyrarbraut 29 í Hafnarfirði er tveggja hæða atvinnuhúsnæði. Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands eru sex iðnaðar- eða vörugeymslubil á neðri hæð hússins og sex iðnaðarbil á efri hæð. Samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu, samþykktri af byggingar­­fulltrúa 1. október 2010 og þinglýstri 3. desember s.á., var eignarhluta 01 0103 skipt upp í tvo eignarhluta, 01 0103 og 01 0105. Á meðfylgjandi teikningum er sýndur veggur á milli rýma 01 0103 og 01 0105, en hann mun aldrei hafa verið settur upp. Þá mun lokaúttekt á húsinu ekki hafa farið fram. Eru kærendur máls þessa eigendur umræddra rýma.

Með umsókn um byggingarleyfi, dags. 18. ágúst 2021, sóttu kærendur um leyfi til að fella niður vegg á milli fyrrgreindra rýma. Í kjölfarið fóru fram tölvupóstsamskipti á milli kærenda og byggingarfulltrúa þar sem m.a. kemur fram að í umsóttum breytingum felist að tvær fasteignir séu sameinaðar í eina með því að fjarlægja eignamörkin á milli þeirra. Við það falli annað rýmisnúmerið niður, en eitt rými geti ekki verið með tvö rýmisnúmer eða fasteignanúmer. Var vísað til ákvæða laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar 10. nóvember 2021 var fyrrnefnd umsókn kærenda tekin fyrir og synjað á þeim grundvelli að hún væri ekki í samræmi við reglur um skráningu fasteigna.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að Hvaleyrarbraut 29 sé fjöleignarhús í skilningi laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Umræddar fasteignir séu séreignir og nýttar sem geymslu­húsnæði. Á milli þeirra hafi aldrei verið veggur og hafi kærendur því sótt um byggingarleyfi Hafnarfjarðarbæjar fyrir þeirri skipan mála.

Af samskiptum kærenda við byggingarfulltrúa áður en umdeild ákvörðun hafi verið tekin verði ráðið að hún byggi á því mati byggingarfulltrúa að það samræmist hvorki skilgreiningu fjöleignarhúsalaga á séreign að ekki sé veggur á milli rýmanna né ákvæðum laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Engin stoð sé fyrir því í lögum eða reglugerðum að skylda eigendur tveggja séreignahluta í fjöleignarhúsi til að hafa vegg á milli þeirra.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 26/1994 sé séreign afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum sé lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi og/eða öðrum þinglýstum heimildum um húsið ásamt því sem honum fylgi. Byggingarfulltrúi hafi í samskiptum við kærendum vísað til tilgreinds ákvæðis en það veiti ekki fullnægjandi lagastoð fyrir þeirri afstöðu bæjaryfirvalda að kærendum sé skylt að hafa vegg á milli fasteignanna. Ákvæðið hafi að geyma almenna skilgreiningu á hugtakinu séreign sem verði ekki túlkuð á þann veg að lagðar séu sérstakar og íþyngjandi skyldur á herðar fasteignareigenda. Í lögum nr. 6/2001 komi fram að séreignarhluta í fjöleignarhúsum samkvæmt lögum um fjöleignarhús skuli skrá sem sérstakar eindir í fasteignaskrá, sbr. c-lið 2. mgr. 3. gr. laganna. Umræddar fasteignir séu skráðar sem sérstakar eindir í fasteignaskrá, þær hafi verið metnar fasteignamati sem slíkar og af þeim greiddir fasteignaskattar. Engu skipti í því sambandi hvort veggur sé á milli þeirra eða ekki enda fari ekki á milli mála samkvæmt teikningum og eignaskiptayfirlýsingu hver mörkin milli fasteign­anna séu. Í 2. mgr. 15. gr. sömu laga segi enda að fasteignir í fjöleignarhúsum skuli afmarkaðar á grunnteikningum og skráningartöflu húss. Ekki sé hægt að túlka ákvæði laganna á þann veg að þau skyldi eigendur séreigna í fjöleignarhúsi til að hafa vegg á milli eignanna og þaðan af síður að þau veiti nægjanlega skýra stoð fyrir slíkum íþyngjandi kröfum á borgarana. Ýmis dæmi séu um að eigendur mismunandi séreignahluta í fjöleignarhúsum hafi opnað á milli þeirra og nýtt sem eina heild, bæði í íbúðarhúsum og atvinnuhúsnæði, án þess að bæjaryfirvöld hafi amast við því.

Hvorki verði séð að ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki né byggingarreglugerð nr. 112/2012 geri þá kröfu að hafður sé veggur á milli fasteignanna heldur uppfylli umrædd rými allar þær kröfur sem lögin og reglugerðin geri til fasteigna, þ.m.t. um brunavarnir. Hafnarfjarðarbær hafi ekki orðið við kröfu kærenda um rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun og brjóti það gegn 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðunin eigi sér ekki stoð í lögum, hún sé efnislega röng og því beri að fella hana úr gildi. Jafnframt sé hún háð slíkum formannmörkum að ekki verði hjá því komist að ógilda hana.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að málsástæða kærenda sé röng og órökstudd og krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað. Í c-lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna segi að fasteignir, hluti þeirra og einstök mannvirki skuli skrá sem sérstakar eindir í fasteignaskrá. Séreignahluta í fjöleignarhúsum skuli skrá samkvæmt lögum um fjöleignarhús. Hugtakið séreign sé skilgreint í 4. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignar­hús sem afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum sé lýst í þinglýstri eignaskipta­yfirlýsingu. Í 5. gr. sömu laga sé fjallað nánar um séreign en samkvæmt 1. málslið ákvæðisins falli þar undir allt afmarkað húsrými sem gert sé að séreign samkvæmt þinglýstum heimildum og allt sem liggi þar innan veggja, sbr. 1. málslið ákvæðisins.

Hver fasteign, eða séreign, afmarkist af veggjum, t.d. geti íbúð í fjölbýli verið með mörg herbergi en afmarkist við aðra séreign eða sameign með veggjum. Jafnframt afmarkist geymsla í sameign með veggjum. Hvert rými sem sé séreign skuli hafa veggi sem umlyki viðkomandi bil til að kallast sér fasteign. Eigendum hafi verið boðið að sækja um eitt fasteignanúmer fyrir rýmin en þá myndi rýmið verða að einu með engum vegg. Að öðrum kosti yrði veggnum bætt við og rýmin með tvö fasteignanúmer.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Túlkun sveitarfélagsins á skilgreiningu 4. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús á séreign er mótmælt. Í umræddu ákvæði sé um afmörkun séreignar vísað til þinglýstra heimilda um húsið. Ákvæðið áskilji ekki að veggur sé milli séreignarhluta í fjöleignarhúsi, heldur að þeir séu afmarkaðir í þinglýstum heimildum. Þessi skilningur eigi sér einnig stoð í orðalagi 5. gr. laganna þar sem segi í 1. tölulið, að undir séreign fjöleignarhúss falli: „Allt afmarkað húsrými sem gert er að séreign samkvæmt þinglýstum heimildum“. Af þessu ákvæði sé ljóst að afmörkun fasteignar í fjöleignarhúsi ráðist af teikningum. Framan­greind ákvæði laga nr. 26/1994 og laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, verði með engu móti túlkuð þannig að veggur milli séreignarhluta sé skilyrði þess að þeir geti talist fasteignir í skilningi laganna. Þvert á móti sé það undir eigendum viðkomandi séreignarhluta komið að ákveða hvort á milli þeirra skuli vera veggur eða ekki, að gættum öllum reglum laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar að synja umsókn um byggingarleyfi til að fella niður vegg milli rýma 01 0103 og 01 0105 í fjöleignarhúsinu að Hvaleyrarbraut 29. Líkt og greinir í málavöxtum var með eignaskipta­yfirlýsingu, sem þinglýst var 3. desember 2010, eignarhluta 01 0103 í húsinu skipt upp í tvo eignarhluta sem fengu númerin 01 0103 og 01 0105. Á teikningu sem fylgdi með eignaskipta­yfirlýsingunni er sýndur veggur á milli framangreindra rýma en hann mun aldrei hafa verið settur upp. Í ljósi þess munu kærendur hafa lagt fram umrædda umsókn sem byggingarfulltrúi synjaði með vísan til þess að erindið samræmdist ekki reglum um skráningu fasteigna.

Fjöleignarhús telst vera hvert það hús sem skiptist í séreignir í eigu fleiri en eins aðila og í sameign sem getur bæði verið allra og sumra, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignar­hús. Gilda lögin m.a. um hús sem alfarið eru nýtt til annars en íbúðar, svo sem fyrir atvinnu­starfsemi, sbr. 3. tölulið 3. mgr. 1. gr. laganna. Hugtakið séreign er skilgreint í 4. gr. laganna sem afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum sé lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi og/eða öðrum þinglýstum heimildum um húsið, ásamt því sem honum fylgi sérstaklega hvort heldur er húsrými í húsinu sjálfu, bílskúr á lóð þess eða sameiginlegri lóð margra húsa, lóðarhluti, búnaður eða annað samkvæmt sömu heimildum, ákvæðum laganna eða eðli máls. Nánari útlistun á því sem fellur undir séreign fjöleignarhúss er að finna í 1.-11. tölulið 5. gr. laganna.

Séreignahlutar í fjöleignarhúsum samkvæmt lögum um fjöleignarhús skal skrá sem sérstakar eindir í fasteignaskrá, sbr. c-lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Í 2. mgr. 15. gr. sömu laga segir að fasteignir í fjöleignarhúsum skuli afmarkaðar á grunn­teikningum og skráningartöflu húss. Um skráningu fasteigna í fjöleignarhúsum fari samkvæmt lögum um fjöleignarhús.

Umsókn kærenda var synjað með eftirfarandi rökstuðningi: „Erindinu er synjað samræmist ekki reglum um skráningu fasteigna.“ Af fyrirliggjandi tölvupóstsamskiptum milli kærenda og byggingarfulltrúa áður en umsókninni var hafnað má ráða að byggingarfulltrúi sé í þessu sambandi að vísa til c-liðar 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 og 4. gr. og 1. töluliðar 5. gr. laga nr. 26/1994. Í greinargerð sveitarfélagsins er einkum byggt á því að séreign skuli vera innan veggja, sbr. síðastnefnda lagagrein.

Í 1. tölulið 5. gr. laga nr. 26/1994 segir að undir séreign falli allt afmarkað húsrými sem gert er að séreign samkvæmt þinglýstum heimildum og allt sem liggur þar innan veggja. Þrátt fyrir að vísað sé til „veggja“ í umræddum tölulið verður ekki séð að veggur sé skilyrði fyrir skráningu fasteignar sem séreignar enda er í fleiri töluliðum ákvæðisins fjallað um aðrar tegundir séreigna sem ekki er skilyrði að veggir umlyki, s.s. bílastæði samkvæmt 9. tölulið. Þá segir í 10. tölulið að undir séreign falli aðrir hlutar húss eða lóðar, bílskúr á lóð húss eða búnaður og lagnir sem þinglýstar heimildir segja séreign og teljist það samkvæmt eðli máls. Enn fremur kemur fram í skilgreiningu hugtaksins séreign samkvæmt 4. gr. laganna að séreign skuli afmörkuð samkvæmt þinglýstum heimildum en ekki er getið hvers eðlis sú afmörkun skuli vera. Er því ekki gerð fortakslaus krafa í lögum um fjöleignarhús um að séreign skuli afmörkuð með veggjum á allar hliðar og átti umdeild synjun byggingarfulltrúa þar af leiðandi sér ekki stoð í framan­greindum lagaákvæðum.

Um efni rökstuðnings stjórnvaldsákvörðunar er fjallað í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir m.a. að vísa skuli í rökstuðningi til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á, sbr. 1. mgr. lagagreinarinnar. Verður að telja að rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið í samræmi við fyrrnefnt ákvæði en hvergi er vísað til hvaða reglna um skráningu ákvörðunin byggir á. Er því ekki hægt að sjá hvort ákvörðunin hafi byggst á öðrum reglum en vísað hafði verið til í tölvupóstsamskiptum milli kærenda og byggingar-fulltrúa í aðdraganda ákvörðunarinnar.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar sé slíkum annmörkum háður að valdi ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar um að synja um byggingarleyfi til að fella niður vegg milli rýma 01 0103 og 01 0105 í fjöleignarhúsinu að Hvaleyrarbraut 29 í Hafnarfirði.

48/2022 Flókagata

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 24. maí, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 48/2022, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. apríl 2022 á fyrirspurn um samþykki fyrir áður gerðri íbúð í kjallara að Flókagötu 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. maí 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra Ljóshólar ehf. afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. apríl s.á. á fyrirspurn um samþykki fyrir áður gerðri íbúð í kjallara að Flókagötu 4. Er þess krafist að afgreiðslan verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Hinn 1. apríl 2022 sendi lögmaður kæranda á þar til gerðu eyðublaði fyrirspurn til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar þar sem farið var fram á samþykki fyrir áður gerðri íbúð í kjallara að Flókagötu 4, eignarhluta 01 0001. Erindinu fylgdi bréf og önnur gögn. Erindið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. s.m. þar sem bókað var að spurt hafi verið um leyfi til að skrá áður gerða íbúð í kjallara sem sér fasteign á grundvelli fordæmis á samþykktu erindi frá 1998 og skoðunarskýrslu vegna brunavirðis frá 1938 í húsi á lóð nr. 4 við Flókagötu. Er erindinu svarað „neikvætt“ og vísað til umsagnar á athugasemda­blaði.

Kærandi bendir á að Flókagata 4-6 sé fjöleignarhús sem skiptist í fimm eignarhluta. Flókagata 6 skiptist í þrjár íbúðir og þrjá eignarhluta, ein íbúð á hvorri hæð og ein í kjallara. Flókagata 4 skiptist einnig í þrjár íbúðir, ein á hvorri hæð og ein í kjallara, en einungis tvo eignarhluta þar sem íbúð í kjallara og íbúð á 1. hæð séu undir sama fasteignanúmeri. Í báðum húsum hafi verið íbúðir í kjallara frá upphafi en íbúðin í kjallara Flókagötu 6 hafi verið samþykkt á fundi byggingarfulltrúa 24. febrúar 1998 á þeim grundvelli að það samræmdist reglum um áður gerðar íbúðir. Þegar aflað hafi verið upplýsinga vegna gerðar eignaskiptayfirlýsingar fyrir Flókagötu 4 hafi starfsmaður byggingarfulltrúa upplýst um að íbúðin í kjallara hússins yrði að vera samþykkt af byggingarfulltrúa, annars yrði hún skráð sem geymslur. Af því tilefni hafi fyrirspurn verið lögð fyrir byggingarfulltrúa um samþykki fyrir áðurgerðri íbúð í kjallara. Þótt einungis hafi verið um afgreiðslu á fyrirspurn að ræða þá liggi ljóst fyrir að um endanlega ákvörðun hafi verið að ræða sem kæmi í veg fyrir að kærandi gæti lokið við gerð eignaskiptayfirlýsingar.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík á fyrirspurn kæranda, dags. 1. apríl 2022, um samþykki fyrir áður gerðri íbúð í kjallara að Flókagötu 4 í Reykjavík. Erindi kæranda var sett fram sem fyrirspurn þótt orðalagið benti til þess að sótt væri eftir samþykki. Afgreiðsla byggingarfulltrúa ber þess einnig merki að um afgreiðslu á fyrirspurn sé að ræða þar sem erindið og svör við því er bókað undir „ýmis mál“ í fundargerð frá afgreiðslufundi 12. apríl 2022 og það afgreitt „neikvætt“ en erindinu ekki hafnað.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verður ekki lögð að jöfnu við formlega umsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli getur eðli máls samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Neikvæð afgreiðsla byggingarfulltrúa á fyrirspurn kæranda fól því ekki í sér lokaákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

163/2021 Neðan-Sogsvegar

Með

Árið 2022, föstudaginn 20. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Unnþór Jónsson, settur varaformaður, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 163/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafn­ings­­hrepps frá 6. október 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norður­kots í Grímsnesi, sumarhúsahverfis, svæðis 3, varðandi lóðina Neðan-Sogsvegar 4.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. nóvember 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Neðan-Sogsvegar 4, samþykkt skipulagsnefndar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. frá 14. október s.á. um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norðurkots í Grímsnesi, sumarhúsahverfis, svæðis 3, þar sem byggingar­reitur lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4 er minnkaður. Fyrir liggur að sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti 6. október 2021 ofangreinda breytingu á deili­skipu­lagi Norðurkots og verður að líta svo á að það sé ákvörðun sú sem kærð sé í máli þessu. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 21. desember 2021.

Málavextir: Í febrúar 2020 samþykkti sveitarstjórn umsókn kæranda máls þessa um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norðurkots i Grímsnesi, sumarhúsahverfis, svæðis 3. Tók breytingin gildi 2. júní s.á. með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Í henni fólst að gert væri ráð fyrir stofnun lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4C úr landi lóðar nr. 4, auk lagfæringa á legu og stærð lóða. Jafnframt voru á uppdrætti deiliskipulagsbreytingarinnar markaðir byggingarreitir 10 m frá lóðarmörkum umræddra lóða, þ.e. lóða nr. 4, 4A, 4B og 4C Neðan-Sogsvegar.

Síðar kom í ljós að grenndarkynning vegna fyrrgreindrar deiliskipulags­breytingar hafði ekki náð til lóðarhafa Neðan-Sogsvegar 4A. Var þeim boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum sem þeir og gerðu. Lutu þær m.a. að því að framkvæmdir eða bygging á „tungu“ á lóð nr. 4, á milli lóða nr. 4A og 4B, gæti ógnað friðhelgi greindra lóðarhafa vegna nálægðar við hús þeirra. Í kjölfar þessa samþykkti sveitarstjórn á fundi 21. október 2020 að óveruleg breyting yrði gerð á deiliskipulaginu og byggingarreitur á lóðinni nr. 4 yrði minnkaður um 950 m². Hlaut breytingin gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 16. mars 2021. Skaut kærandi máls þessa greindri ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 34/2021, uppkveðnum 15. júní s.á., felldi hana úr gildi vegna annmarka á grenndarkynningu við meðferð málsins.

Hinn 7. júlí 2021 var málið tekið fyrir að nýju á fundi sveitarstjórnar að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar og samþykkti sveitarstjórn að grenndarkynna fyrrgreindar breyt­ingar á deiliskipulagi svæðisins sem óverulega breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lokinni grenndarkynningu var málið til umfjöllunar á fundi skipulagsnefndar 22. september 2021 þar sem tekin var afstaða til framkominna athugasemda og mælst til þess við sveitarstjórn að ekki yrði gerð athugasemd við gildistöku deiliskipulags­breytingarinnar. Á fundi sveitarstjórnar 6. október s.á. var m.a. fært til bókar að röksemdir og athugasemdir lóðarhafa lóðar nr. 4A Neðan-Sogsvegar hefðu verið með þeim hætti að ástæða væri til að bregðast við þeim, enda lægi hluti þess svæðis sem um ræddi hærra í landinu og gætu því framkvæmdir innan þess haft grenndaráhrif á aðliggjandi lóð með beinum og/eða óbeinum hætti. Taldi sveitarstjórn því eðlilegt að byggingarreitur lóðar nr. 4 yrði minnkaður í samræmi við framlagðan uppdrátt. Var og bókað að ekki væri gerð athugasemd við gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar. Tilkynning um samþykkt breytingarinnar var send Skipulags­stofnun 21. október 2021 og 28. s.m. öðlaðist hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Hefur kærandi skotið þeirri ákvörðun sveitarstjórnar til úrskurðar­nefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að lítill hluti umræddrar lóðar liggi hærra en lóðin Neðan-Sogsvegar 4A og óhugsandi að þar verði nokkurn tíma byggt. Það svæði sem standi hærra en húsið á lóð nr. 4A sé hóll og því óheppilegt sem byggingarsvæði. Núverandi hús á landi kæranda sé barn síns tíma og því fyrirsjáanlegt að það verði endurnýjað. Hvort það verði á núverandi stað eða öðrum sé óvíst, en engin ákvörðun hafi verið tekin um að byggja á umræddu svæði. Engin ástæða sé því til að skerða byggingarréttinn á lóð nr. 4, sérstaklega ekki á því svæði sem liggi fjarri og neðar en húsið á lóðinni nr. 4A. Skipulagsnefnd sé í sjálfsvald sett að hafna beiðni um að heimilt sé að byggja innan byggingarreitsins auk þess sem reglu­gerðarákvæði takmarki nálægð milli húsa og landamerkja.

Skipulagsnefnd telji landið það stórt að það muni kæranda engu að taka á sig skerðingu á byggingar­reit lóðarinnar. Með hinni kærðu ákvörðun sé gengið freklega á eignarrétt kæranda að ástæðulausu og sá möguleiki að skipta landinu í tvær 0,67 ha spildur verði nánast úr sögunni. Muni verðgildi eignarinnar rýrna umtalsvert með umræddri breytingu og hafi aðrir lóðarhafar ekki rétt til að krefjast skerðingar á byggingarreitnum. Skipulagsnefnd hafi farið fram úr vald­heimildum sínum með því að samþykkja athugasemdir lóðarhafa nr. 4A án röksemda.

Þegar foreldrar eigenda lóðar nr. 4A hafi keypt hana í september 1988 hafi öll landamerki verið skil­greind nákvæmlega og þeim hafi ekki verið breytt. Það sé því ekki um „nýtilkomna land­ræmu“ að ræða. Lóð nr. 4A hafi verið ranglega færð inn á deiliskipulagsuppdrátt fyrir svæðið frá 1996 og náð inn á land lóðar nr. 4, en það hafi verið leiðrétt með breytingunni á skipulaginu. Engin breyting hafi átt sér stað á lóðum nr. 4A og 4B. Umrædd „tunga“ hafi alla tíð legið fyrir og verið lóðarhöfum kunn. Há tré í landi lóðarhafa nr. 4A gætu valdið skugga á hús þeirra og verönd en landið sé austur og suður af því landi sem um sé deilt og því ekki um skuggavarp þaðan að ræða. Sé því alfarið hafnað að settar séu íþyngjandi kvaðir á land nr. 4 með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Sveitarfélagið telur að hafna beri sjónarmiðum kæranda. Eingöngu sé um að ræða lagfæringu á skilgreiningu á byggingarreit að teknu tilliti til athugasemda nágranna. Ólíklegt sé að sú breyting rýri umtalsvert verðgildi eignarinnar en fyrir breytinguna hafi enginn byggingarreitur verið skilgreindur innan lóðarinnar. Geti eigendur lóðarinnar nr. 4A ekki talist óviðkomandi aðilar þar sem lóð þeirra liggi að lóð kæranda. Gangi viðkomandi byggingarreitur út á landsvæði sem sé nokkuð hærra í landi og megi því ætla að grenndaráhrif geti orðið nokkur líkt og tíundað hafi verið í bókunum skipulagsnefndar og sveitarstjórnar. Muni umrædd minnkun ekki hafa veruleg áhrif á möguleika til framkvæmda innan lóðarinnar.

Ákvörðunin sé í takt við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og gætt hafi verið réttrar máls­meðferðar við afgreiðslu málsins. Sveitarstjórn fari með afgreiðslu skipulagsmála að undan­genginni yfirferð skipulagsnefndar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. Færð hafi verið fram rök fyrir ákvörðuninni í bókunum. Við meðferð málsins hafi verið gætt jafnræðis og hags­muna allra hlutaðeigandi án þess að ganga freklega á rétt kæranda. Almennt leggist sveitar­félagið gegn uppskiptingu lóða innan þegar byggðra frístundasvæða, sbr. skilmála aðal­skipu­lags Grímsnes- og Grafningshrepps er varði stefnumörkum fyrir frístundasvæði. Ólíklegt sé að heimild fengist fyrir frekari uppskiptingu lóða á svæðinu í takt við þá stefnumörkun.

Athugasemdir lóðarhafa Neðan-Sogsvegar 4A: Lóðarhafar vísa til þess að við kaup foreldra þeirra á lóðinni Neðan-Sogsvegar 4A hafi lóðirnar nr. 4A og 4B legið saman og fyrir­huguð staðsetning húsa á þeim lóðum hafi þá legið fyrir. Síðan hafi lóðunum nr. 4 og 4B verið breytt á þann veg að nú liggi lóð nr. 4B vestar í landinu, ný lóð nr. 4C hafi verið stofnuð og uppruna­landið nr. 4 eigi tungu á milli lóða nr. 4A og 4B. Byggingarreiturinn á tungunni sé það sem deilan snúist um. Bygging eða framkvæmdir á byggingarreitnum ógni verulega friðhelgi lóðar­hafa lóðar nr. 4A og feli í sér truflun og sjónmengun vegna nálægðar við hús og verönd á þeirra lóð.

Hin nýja skipting lands sé lóðarhöfum að meinalausu svo fremi sem byggingarlína verði dregin nokkuð norðar. Landeigendur eða umráðamenn lóðanna nr. 4, 4B og 4C hafi lýst því yfir að þeir vilji ekki fá hús á tungunni. Samt hafi verið lagst gegn þessum breytingum sem ekki geti talist verulegar eða hamlandi fyrir núverandi eða framtíðareigendur lóðarinnar nr. 4, þar sem betra byggingarland sé enn innan byggingarreitsins. Sé kærandi í mótsögn við sjálfan sig þar sem hann krefjist þess að fá byggingarreit skilgreindan á ný tilkominni landræmu milli lóðanna en ítreki enn og aftur að það sé „óhugsandi að nokkru sinni verði byggt á þeim bletti“.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 6. október 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norðurkots, sumarhúsahverfis, svæðis 3, er fól í sér að byggingarreitur á lóðinni Neðan-Sogsvegar 4 yrði minnkaður um 950 m².

Hinn 2. júní 2020 tók gildi breyting á fyrrgreindu skipulagi sem samkvæmt greinargerð deili­skipulagsbreytingarinnar fól í sér lagfæringar á skipulaginu til að samræma það nýjum sam­þykktum lóðarblöðum, lagfæringu á legu lóðar nr. 4A og breytingu á legu og stærð lóðanna nr. 4, 4B og 4C Neðan-Sogsvegar. Á uppdrætti skipulagsins voru staðsettir byggingarreitir í 10 m fjarlægð frá lóðarmörkum á þeim lóðum sem breytingin tók til. Eftir gildistöku breytingarinnar samþykkti sveitarstjórn 21. október 2020 að nýju breytingu á deiliskipulaginu í þá veru að byggingarreitur lóðarinnar Neðan-Sogs­vegar 4 var minnkaður um 950 m² vegna framkominna athugasemda lóðarhafa nr. 4A um möguleg grenndaráhrif byggingar á reitnum. Sú ákvörðun var felld úr gildi 15. júní 2021 með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og 6. október s.á. samþykkti sveitarstjórn á ný umrædda skipulagsbreytingu sem er tilefni kæru­máls þessa.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga og gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Við beitingu þessa skipulagsvalds ber m.a. að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Að gættum þessum markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi eða breytingu á því skuli háttað, svo fremi það mat byggi á lögmætum sjónarmiðum. Við matið geta togast á andstæð sjónarmið þess sem hagnýta vill eign sína með ákveðnum hætti og annarra sem láta sig málið varða.

Í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á sam­þykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur það í sér að byggingarreitur Neðan-Sogsvegar 4 er minnkaður um 950 m², sem telja verður óverulega breytingu á reitnum miðað við stærð lóðar. Verður því að líta svo á að um óverulega breytingu á deiliskipulagi hafi verið að ræða og var sveitarstjórn því heimilt að grenndarkynna hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulags­laga.

Byggingarreitir eru meðal þess sem setja skal fram í deiliskipulagi, sbr. 37. gr. skipulagslaga, og hafa sveitarstjórnir í skjóli skipulagsvalds síns mat um það hvernig staðsetningu og stærð byggingarreita skuli háttað, þó að teknu tilliti til þeirra laga og reglna sem áhrif geta haft á það mat. Kveðið er á um það í gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að við ákvörðun um fjarlægð milli einstakra byggingarreita í deiliskipulagi skuli taka tillit til sólarhæðar og skugga­varps, vindstrengja o.fl., eftir því hver notkun bygginganna er. Í gr. 5.3.2.12. reglugerðarinnar er svo mælt fyrir um að ekki skuli byggja frístundahús ásamt tilheyrandi mannvirkjum nær lóðarmörkum en 10 m. Þá skal samkvæmt gr. 6.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 stað­setja byggingu og fella að landi innan byggingarreits þannig að góð tenging sé milli umhverfis, útisvæðis byggingarinnar og byggingarinnar sjálfrar.

Í gildandi aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps er að finna stefnumörkun varðandi svæði fyrir frístundabyggð. Þar kemur m.a. fram að ekki sé heimilt að skipta upp sumarhúsa­lóðum í þegar byggðum sumarhúsahverfum, sbr. einnig 30. gr. þágildandi skipulags- og byggingar­laga nr. 73/1997, en sambærilegt ákvæði er nú að finna í 48. gr. skipulagslaga. Þá er í aðal­skipulaginu gert ráð fyrir að við deiliskipulagningu sumarhúsasvæða skuli enn fremur taka mið af því að sumarhúsabyggð skuli að jafnaði vera lágreist og að fjarlægð húss frá lóðarmörkum skuli vera minnst 10 m eða í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Skuli nýtingarhlutfall sumarhúsalóða ekki fara yfir 0,03.

Kveðið er á um byggingarheimildir í gildandi deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norður­kots sem hér um ræðir. Skal hámarksbyggingarmagn lóða miðast við nýtingarhlutfallið 0,03 með þeirri undantekningu að á lóðum sem eru 0,4 ha eða minni miðast hámarks-byggingarmagn við 120 m². Þetta þýðir samkvæmt greinargerð skipulagsins að á lóðum sem eru 0,5 ha að stærð er hámarksbyggingarmagn 150 m², en á lóðum sem eru 0,75 ha getur byggingarmagn verið allt að 225 m². Á hverri lóð má reisa eitt frístundahús auk tveggja aukahúsa sem mega að hámarki vera 40 m². Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóð-skrár Íslands er stærð lóðarinnar nr. 4 Neðan-Sogsvegar 13.420 m² og á lóðinni er 44,2 m² sumarhús, reist árið 1962, og því ljóst að byggingarheimildir á lóðinni samkvæmt gildandi skipulagi hafa aðeins verið nýttar að litlu leyti.

Afmörkun byggingarreita í deiliskipulagi getur eftir atvikum haft þýðingu gagnvart nágrönnum varðandi grenndaráhrif mannvirkis sem heimilt er að reisa innan byggingarreitsins. Sveitar­stjórn færði fram þau rök fyrir hinni kærðu ákvörðun að í ljósi athugasemdar rétthafa lóðar nr. 4A við þá breytingu á deiliskipulagi svæðisins sem tók gildi 2. júní 2020, hafi verið talið eðli­legt að verða við henni enda hefði fyrrgreind breyting átt að falla úr gildi vegna rangrar máls­meðferðar þar sem láðst hefði að grenndarkynna málið fyrir rétthafa lóðar nr. 4A. Talið hefði verið eðlilegt að byggingarreitur lóðar nr. 4 yrði minnkaður í takt við framlagðan uppdrátt. Jafnframt var eftirfarandi fært til bókar: „Lóðarhafar Neðan-Sogsvegar 4 telja engar líkur á skuggavarpi eða minnkuðu friðhelgi þar sem meirihluti umrædds svæðis sé neðar í landinu og hafi því ekki áhrif á aðliggjandi lóð 4A. Sveitarstjórn fellst á að hluti reitsins liggi neðar og hafi því ekki bein grenndaráhrif á það svæði en að mati sveitarstjórnar eru röksemdir og athugasemdir lóðarhafa 4A þó með þeim hætti að ástæða sé til að bregðast við þeim enda liggur hluti þess svæðis sem um ræði hærra í landinu og geti því framkvæmdir innan þess sannarlega haft grenndaráhrif á lóðarhafa aðliggjandi lóðar með beinum og/eða óbeinum hætti.“

Bjuggu samkvæmt framangreindu málefnaleg sjónarmið að baki hinni kærðu ákvörðun og fer breytingin hvorki gegn stefnumörkun aðalskipulags Grímsnes-og Grafningshrepps um fjar­lægð byggingarreita frá lóðarmörkum né skilyrði gr. 5.3.2.12. í skipulagsreglugerð um fjarlægð frístundahúsa og tilheyrandi mannvirkja frá lóðarmörkum. Þá ber til þess að líta að þrátt fyrir skerðingu byggingarreits lóðar nr. 4 Neðan-Sogsvegar nær hann eftir breytinguna engu að síður yfir meginhluta lóðarinnar.

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar sem leitt geta til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Rétt þykir þó að benda á að geti kærandi sýnt fram á tjón vegna hinnar kærðu deiliskipulags­breytingar getur hann eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 6. október 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norðurkots í Grímsnesi, sumarhúsahverfis, svæðis 3, varðandi lóðina Neðan-Sogsvegar 4.

159/2021 Leirutangi

Með

 

 

Árið 2022, föstudaginn 20. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Unnþór Jónsson, settur varaformaður, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 159/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 22. september 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka rishæð húss á lóðinni Leirutanga 10 og innrétta þar íbúðarrými.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. október 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Leiru­tanga 2, 4, 6, 8, 12, 14 og 16, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Mosfells­bæ frá 22. september 2021 að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka rishæð húss á lóðinni Leiru­tanga 10 og innrétta þar íbúðarrými. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 26. nóvember 2021.

Málavextir: Lóðin Leirutangi 10 er í grónu hverfi og á svæði þar sem ekki er í gildi deili­skipulag. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er á lóðinni 158,4 m2 einbýlishús sem reist var árið 1983 og 39,2 m2 bílskúr. Allt frá árinu 2017 hafa eigendur lóðarinnar leitast við að fá leyfi byggingaryfirvalda Mosfellsbæjar til að hækka rishæð hússins og innrétta þar íbúðarrými en eigendur nærliggjandi lóða hafa andmælt þeim áformum.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur áður haft til úrlausnar kærur vegna fyrirhugaðra byggingar­áforma á umræddri lóð. Með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 14/2019, uppkveðnum 31. október 2019, var felld úr gildi sú ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 1. febrúar 2019 að samþykkja byggingarleyfi fyrir stækkun hússins þannig að nýtingar­hlutfall lóðarinnar færi úr 0,25 í 0,43. Var niðurstaða nefndar­innar á því reist að með hinu umþrætta leyfi væri svo vikið frá nýtingarhlutfalli því sem almennt gerðist á grannlóðum á svæðinu að óheimilt hefði verið að grenndarkynna umsóknina, enda hefði umdeild hækkun nýtingar­hlutfallsins óhjákvæmilega talsverð áhrif á þéttleika byggðar og byggðamynstur. Í framhaldinu var lögð inn ný umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun hússins þar sem tekið var fram að fyrir mistök hefði nýtingarhlutfall verið skráð of hátt í skráning­ar­­töflu er fylgt hefði eldri umsókn um byggingarleyfi. Synjaði byggingarfulltrúi um­sókninni með vísan til afgreiðslu skipulagsnefndar er taldi að ekki væri kostur á að grenndar­­kynna umsóknina í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með tilliti til nýtingar­hlut­falls. Hlutfallið færi yfir þau mörk er fram kæmu í skipulags- og byggingarskilmálum fyrir Leiru­­tanga frá 19. maí 1981. Skaut eigandi Leirutanga 10 greindri afgreiðslu til úrskurðar­nefndar­innar sem með úrskurði í máli nr. 124/2020, uppkveðnum 31. mars 2021, felldi hina kærðu ákvörðun úr gildi. Í úrskurðinum kom fram að skipulags­nefnd hefði ekki verið heimilt að synja grenndar­kynningu ein­vörðungu með vísan til þess að nýtingarhlutfall lóðar­innar færi yfir þau mörk sem fram kæmu í skipulags- og byggingarskilmálum fyrir Leiru­tanga frá 19. maí 1981 og var sérstaklega tekið fram að niðurstaða nefndarinnar í máli nr. 14/2019 hefði ekki verið leidd af skipulags- og byggingar­skilmálum svæðisins heldur af samanburði á nýtingar­hlut­­falli grannlóða á svæðinu. Þá var og vísað til þess að fram kæmi í greinargerð sveitar­félagsins að ekki yrði séð að skilmálarnir hefðu verið sendir Skipulagsstofnun til samþykktar fyrir 1. janúar 1998 í samræmi við 5. tl. ákvæðis til bráða­­­birgða í skipulagslögum.

Í kjölfar þessa var á fundi skipulagsnefndar 16. apríl 2021 tekin fyrir að nýju umsókn um hækkun á risi húss að Leirutanga 10 og samþykkti nefndin að grenndar­­kynna byggingar­áformin í samræmi við 44. gr. skipulags­laga þegar full­nægjandi gögn lægju fyrir. Greind afgreiðsla var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 21. apríl s.á. Hinn 11. maí s.á. var umsóknin grenndarkynnt fyrir eigendum Leiru­tanga 2-16 og þeim veittur frestur til 14. júní s.á. til að koma athuga­semdum sínum á framfæri. Einnig var birt frétt á vef­­síðu Mos­fells­bæjar um grenndar­kynninguna 12. s.m.­­­ Bárust athuga­­­semdir frá kærendum við fyrirhuguð áform innan tilskilins frests og kom leyfishafi að sjónarmiðum sínum um framkomnar athuga­semdir með bréfi, dags. 23. júní 2021. Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi skipulags­­nefndar 1. júlí 2021 þar sem fram­­komnar athugasemdir voru kynntar ásamt bréfi leyfishafa og skipulags­fulltrúa falið að vinna drög að svörum við þeim. Erindið var aftur tekið fyrir á fundi skipulags­nefndar 10. septem­­­ber s.á. og voru drög að svörum við framkomnum athugasemdum lögð fram til kynningar og afgreiðslu. Byggingar­­áformin voru sam­þykkt og skipulagsfulltrúa falið að svara athuga­­semdum í samræmi við drög skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Jafnframt var byggingar­fulltrúa heimilað að gefa út byggingar­­leyfi þegar umsóknin samræmdist lögum nr. 160/2010 um mannvirki og byggingar­reglu­­gerð nr. 112/2012. Hinn 15. september 2021 samþykkti bæjar­stjórn af­greiðslu skipulags­nefndar og á afgreiðslu­fundi byggingarfulltrúa 22. s.m. samþykkti hann framlagða aðal­upp­drætti með áritun sinni.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er byggt á því að málsmeðferð skipulagsyfirvalda Mos­fells­­­­­bæjar, grenndarkynning og viðbrögð sveitarfélagsins við athugasemdum kærenda hafi ekki verið í samræmi við forskrift laga. Hæð húsa að Leirutanga 2-16 hafi haldist óbreytt í um 40 ár. Lóðin Leirutangi 10 tilheyri botngötu þar sem séu sex einbýlishúsalóðir og séu húsin svo­kölluð Hosby-hús, þ.e. dönsk múrsteinshlaðin einingahús. Engin fordæmi séu fyrir hækkun húsa í botngötunni eða á lóðum nærliggjandi Leiru­tanga 10. Megi því segja að búið sé að festa byggða­mynstrið með núverandi hæð bygginga, gerð þeirra og uppröðun. Samkvæmt 44. gr. skipulags­laga nr. 123/2010 megi eingöngu veita leyfi án deili­skipulags­­gerðar sé fram­kvæmdin í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þétt­leika byggðar. Í norðanverðri götunni séu þrjú lágreist einbýlishús í línu, þ.e. Leirutangi 8-12, með íbúðar­rými á einni hæð og sé hámarks­hæð þeirra öll sú sama, eða 4,87 m. Húsin að sunnan­verðu, þ.e. að Leirutanga 2, 4 og 6, séu ger­ólík en þar séu einbýlishúsin í línu með íbúðarrými á tveimur hæðum. Hækkun á húsi að Leiru­tanga 10 í 6,58 m sé ekki í samræmi við núverandi byggða­­mynstur og hafi bæjar­yfir­völdum því skv. 44. gr. skipulagslaga ekki verið heimilt að veita um­rætt byggingar­leyfi. Vísi kærendur máli sínu til stuðnings til úrskurðar úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála frá 17. nóvember 2020 í máli nr. 54/2020.

Grenndar­kynning skuli eingöngu notuð þegar um óverulegar breytingar sé að ræða. Í áliti umboðs­manns Alþingis í máli nr. 2907/1999 hafi m.a. komið fram að sveitarstjórn væri eingöngu heimilt að gefa út byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi þar sem deili­skipulag lægi ekki fyrir ef breytingar á byggðamynstri hverfisins teldust óverulegar. Það teljist veruleg breyting á byggðamynstri þriggja einbýlishúsa, sem raðist í beina línu, að miðju­húsið sé hækkað með íbúðarrými á tveimur hæðum á meðan aðliggjandi hús sitt hvoru megin séu lág­reist með íbúðar­­rými á einni hæð. Var sveitarfélaginu því ekki stætt á að grenndarkynna byggingar­leyfisumsóknina.

Núverandi nýtingarhlutfall lóðarinnar Leirutanga 10 sé 0,25 en með fyrirhugaðri stækkun húss á lóðinni verði það rúmlega 0,35. Ekkert af húsunum í norðanverðri botn­götunni sé með nýtingar­­hlut­fall yfir 0,3 og yrði Leirutangi 10 því með 61% hærra nýtingar­hlut­fall en núverandi meðal­­tal. Þegar horft sé til meðalnýtingarhlutfalls næstu lóða, þar sem styttra en 5 m sé á milli lóða­­marka, sé meðalnýtingarhlutfall þeirra 0,20 og yrði meðalnýtingarhlutfall Leiru­tanga 10 því 79% hærra en þeirra. Ekki sé því um að ræða lítilsháttar breytingar á byggingar­­magni.

Verði fyrirhuguð breyting á fasteigninni að Leirutanga 10 að veruleika muni hún skerða hags­muni nágranna, sérstaklega eigenda að Leirutanga 2, 4 og 6, með skertu útsýni. Þá muni hún skerða hagsmuni eigenda að Leirutanga 8 og 12 vegna skuggavarps og hagsmuni eigenda Leiru­tanga 8, 12, 14 og 16 með aukinni inn­sýn í hús þeirra og garða. Þá virðist sveitarfélagið skauta framhjá þeirri stað­reynd að hækkunin muni skerða hags­muni eigenda að Leirutanga 12 sem muni einnig verða fyrir birtu­skerðingu. Sveitar­félagið hefði því með réttu átt að útbúa teikningar sem sýndu áhrif fyrir­hugaðrar framkvæmdar á skuggavarp fyrir alla nágranna. Megin­inntak athugasemda eigenda að Leirutanga 8 hafi verið að fyrirhuguð hækkun á Leiru­tanga 10 myndi varpa skugga á megin útisvæði íbúanna í Leirutanga 8, þ.e. suðvestur- og vestur­hluta lóðar þeirra. Eigendurnir hafi lagt í umtalsverða vinnu og lagt út fjármuni til þess að gera útisvæðið að sælureit fjölskyldunnar. Verði fyrirhugaðar framkvæmdir að veruleika muni sólarstundum fækka um u.þ.b. 30-45 mínútur síðdegis á vorin og 45-60 mínútur síðdegis á sumrin, en það skerði lífsgæði íbúanna í Leirutanga 8 og óttist þeir að framkvæmdin muni draga úr verðmæti eignarinnar. Fordæmi séu fyrir því að bæjar­yfir­völd hafi hafnað leyfis­um­sóknum eigenda að Leirutanga 8 og 16 um hækkun á risi til að unnt væri að gera þar íbúðarrými. Synjun þeirra umsókna hafi verið rökstudd með þeim hætti að húsin við hlið Leirutanga 16 séu ekki með íbúðarrisi. Kærendur telji því núverandi leyfis­veitingu brjóta gegn fyrri fram­kvæmd og sé um að ræða brot á jafnræðisreglu stjórn­sýslu­réttar, sbr. 11. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993. Þrátt fyrir ítrekanir hafi bæjar­yfir­völd ekki sinnt upplýsinga­skyldu sinni og útvegað gögn um eldri afgreiðslur frá því upp úr árinu 1980, hvort sem þeim hafi verið synjað, líkt og um Leirutanga 8 og 16, eða þær samþykktar.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga gildi sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir ein­­­­stök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og hafi það verið sérstaklega nefnt í fyrri úrskurði nefndarinnar frá 31. október 2019 í máli nr. 14/2019. Sú skylda hvíli aug­­­ljós­lega á sveitarfélögum að deiliskipuleggja svæði séu framkvæmdir fyrirhugaðar þar. Í svörum bæjar­­­­yfirvalda við þeirri athugasemd kærenda hafi komið fram að deiliskipulag sé unnið þegar áform séu um frekari uppbyggingu svæða en í þessu tilfelli sé hverfið fullbyggt. Að mati kærenda séu þau svör í ósamræmi við framangreint lagaákvæði og virðist sveitar­félagið ekki vilja ráðast í gerð deiliskipulags fyrir svæðið.

Fyrir liggi að þær teikningar sem skipulags­nefnd hafi samþykkt að grenndarkynna 16. apríl 2021 hafi ekki verið þær sömu og hafi verið grenndarkynntar. Bæjarfulltrúar hafi ekki fengið í hendur réttar teikningar þegar drög að svörum við athuga­semdum hafi verið lögð fram til kynningar hjá nefndinni. Því hafi þeir ekki verið upplýstir um að búið væri að draga verulega úr um­fangi íbúðar á rishæð á milli útgáfu teikninga, líklega til að minnka nýtingarhlutfall, en hæð hússins hafi enn verið 6,58 m og því um sömu hagsmuna­skerðingu að ræða fyrir nágranna. Nýjar teikningar hafi verið kynntar fyrir nefndar­mönnum á fundi skipulagsnefndar 10. septem­ber 2021 og sé það enn eitt dæmið um óeðlilega málsmeðferð skipulags­yfirvalda bæjarins í máli þessu. Þá hefðu kærendur gert athugasemdir vegna ófullnægjandi kynningar­gagna, m.a. að þau hefðu ekki sýnt fyrirhugaða framkvæmd á fullnægjandi hátt. Bæjar­yfirvöld hefðu svarað því til að aðeins væri um leið­beininga­­blað að ræða. Kærendur árétti að samkvæmt gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 séu gerðar ákveðnar kröfur til þeirra gagna sem skuli fylgja með grenndarkynningu en teikningarnar hafi hvorki sýnt þau mann­virki sem fyrir séu á svæðinu eða hæðarlínur né hafi verið gerð grein fyrir landmótun eða götumyndun.

Frestur til að skila athugasemdum vegna grenndarkynningarinnar hafi verið til 14. júní 2021. Á fundi skipulagsnefndar 1. júlí s.á. hafi m.a. verið kynntar athugasemdir frá lögmanni eigenda að Leirutanga 10 frá 23.júní s.á. þar sem athugasemdum kærenda hafi verið svarað. Athuga­semdir leyfishafa hafi þar með verið orðnar hluti af gögnum málsins þrátt fyrir að frestur til að skila inn athuga­semd­um hafi þá verið liðinn. Slíkt geti ekki talist eðlileg stjórnsýsla.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er þess krafist að kröfum kærenda sé hafnað enda hafi afgreiðsla áðurgreindrar umsóknar um byggingarleyfi verið lögmæt og uppfyllt skilyrði skipulags­laga nr. 123/2010, skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, laga nr. 160/2010 um mann­­virki og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Sú ákvörðun skipulags­nefndar að grenndarkynna um­sókn leyfishafa sé í sam­ræmi við upphaflega afstöðu skipulags­nefndar frá því í janúar 2018 og hafi grenndar­kynningin farið fram í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Umsóknin hafi verið til umfjöllunar hjá skipulagsnefnd sem lagt hafi mat á það hvort hún samræmdist land­notkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar og tekin hafi verið ákvörðun um grenndar­kynningu þar sem skilyrðin hafi verið talin uppfyllt.

Leyfishafi hafi lagt fram umsókn um útlitsbreytingu og hækkun á þaki húss í þegar byggðu hverfi þar sem ekki sé í gildi deili­­skipulag sökum aldurs svæðisins. Ákvæði 44. gr. skipu­lags­laga sé nokkuð skýrt um af­greiðslu og málsmeðferð umsókna um útlitsbreytingu og beri sveitarstjórn ábyrgð á því að taka til­löguna til afgreiðslu og meta hvort hún sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þétt­leika byggðarinnar. Umsóknin hafi að fullu samræmst byggðarmynstri hverfisins og líti bæjaryfirvöld svo á að skoða beri byggð í ­Leiru­tanga­ sem heild, en hún einkennist af lágreistri byggð sérbýla á stökum stórum íbúðar­húsa­­lóðum. Ein­kennist byggðin af einbýlis- og parhúsum á einni til tveimur hæðum þar sem mann­­gengt sé víða í risi. Húsum í hverfinu hafi verið breytt og sum þeirra stækkuð. Hús snúi að rólegri húsa­götu í botngötum þar sem innkeyrsla sé að sam­byggðum eða stakstæðum bílskúrum. Þakgerð sé heldur frjálsleg en flest hús skarti tvíhalla- eða valmaþaki­. Þrjú stök hús myndi ekki sitt eigið byggðar­mynstur í götu eða hverfi sem telji sam­tals 51 íbúðareiningu í ein- eða tvíbýlum. Þó svo að þrjú hús í einni botngötu séu svokölluð Hosby­-hús séu þau ekki einkenni byggðar­mynsturs í Leirutanga­. Að hækka hús í þá hæð sem m.a. þekkist í hverfinu teljist ekki umfangsmikil breyting byggðar­mynsturs. Breytingar eða viðbætur hafi verið unnar bæði á húsum í kring sem og víða í sveitarfélaginu og sé matið og afgreiðslan því í sam­ræmi við fordæmi. Um sé að ræða breytingu á húsi innan íbúðarsvæðis í Leirutanga og verði það áfram einbýlishús. Breytingin miði að því að auka umfang þess lítillega með hækkun á þaki sem leiði til betri nýtingar.

Við mat á því hvort umsókn falli að markmiðum grenndar­kynningar séu bæjar­yfirvöld óbeint að taka afstöðu til þess hvort gera þurfi deiliskipulag á svæðinu og hafi það í þessu tilviki verið talið óþarft. Bæjaryfirvöld séu ósammála þeirri túlkun kærenda á skipulags­­lögum að nauð­synlegt hefði verið að gera nýtt deiliskipulag. Í kæru sé í flestum til­vikum vísað til ákvæða sem jafnan eigi við um gerð deiliskipulags á nýjum svæðum þar sem upp­bygging sé ekki hafin eða þar sem frekari upp­bygging sé fyrirhuguð næstu ár. Á um­­ræddu svæði í Leirutanga sé frekari upp­bygging ekki fyrirhuguð þar sem allar skilgreindar lóðir séu full­byggðar. Með vísan til úr­skurðar í máli nr. 124/2020 sé ljóst að ekki sé í gildi ákvæði um fast nýtingar­­hlut­fall hverfisins og að óheimilt hafi verið að byggja afstöðu í málinu á nýtingar­hlut­falli eldri skilmála. Þvert á móti hafi bæjaryfirvöldum borið að leggja mat á öll atriði málsins, þ. á m. nýt­ingarhlutfall Leirutanga 10 í saman­burði við nýtingar­­hlutfall grann­lóða á svæðinu. Þá hafi reikniaðferðir um stærðir húsa breyst frá því að hverfið hafi byggst upp. Prósentuútreikningar á nýtingarhlutfalli geti því ekki einir og sér legið til grundvallar við mat skipulagsnefndar á byggingar­áformum eins og fyrri úrskurðir sama máls meðal annars sýni. Við hækkun á þaki í mann­gengna rishæð stækki hlut­­fallslegt heildarumfang hússins, bæði í innra og ytra rúmmáli, lítil­lega frá því sem áður hafi verið. Leiru­tangi 10 verði þannig einnar hæðar hús með risi í sam­ræmi við helming húsa í botngötunni.

Rétt sé að grenndar­­kynningu hafi ekki fylgt afstöðumynd hnitsett í mæli­kvarða 1:500–1:2.000, en í leið­beininga­­­blaði Skipulagsstofnunar komi m.a. fram að í kynningar­­gögnum skuli vera „Aðal­teikningar eða sambærileg hönnunargögn. Götu­myndir eða önnur skýringargögn sem lýsa um­ræddri framkvæmd á þann hátt að hagsmunaaðilar geti tekið afstöðu til hennar.“ Mark­mið þeirra krafna sé að þeir sem eigi hagsmuni að gæta geti á grund­velli gagnanna myndað sér afstöðu til þeirra breytinga sem séu til kynningar. Nær full­unnar byggingar­nefndarteikningar og útlitsmyndir hússins séu full­nægjandi til þess að lýsa um­­fangi framkvæmdarinnar. Þá verði ekki ráðið af athugasemdum kærenda við grenndar­kynninguna að óljóst hafi verið hvert eðli eða umfang breytingarinnar væri. Hvað varði tilvísun kærenda til álits umboðsmanns Alþingis nr. 2907/1999 sé bent á að umrædd grenndar­­­kynning varði ekki deiliskipulag eða breytingu á því heldur umsókn um byggingar­leyfi sem afgreidd hafi verið á grundvelli skýrra heimilda í skipulagslögum. Þá sé inntak og orða­lag ákvæðis um grenndarkynningar ekki með sama hætti nú og hafi verið í eldri skipulags- og byggingarlögum. Skipulagsnefnd hafi lagt mat á athuga­semdir og tilkynnt um niðurstöðu sína í samræmi við 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Þá hafi hin kærða afgreiðsla byggingar­fulltrúa hlotið meðferð og afgreiðslu í samræmi við lög um mann­virki og gr. 2.4.2. í byggingar­reglugerð.

Líkt og fram komi í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 20/2021 séu ákvæði um skugga­varp heldur óljós þegar litið sé til skipulagsreglugerðar og því verði að telja að skipulags­yfir­völd hafi nokkuð svigrúm til þess að meta hvert sé ásættanlegt skuggavarp framkvæmda. Við hönnun húsa og skipulags hafi skapast sú hefð og venja að kanna skuggavarp og birtuskilyrði yfir þann tíma dags þegar sólar njóti helst við á sex mánaða tímabili. Algengt viðmið sé frá því klukkan níu um morgun, klukkan hálf tvö að hádegi og klukkan fimm seinnipart dags en það séu sólríkustu tímar dags. Að jafnaði séu skoðaðar sumarsólstöður og jafndægur. Við mat á því hvort skuggavarp skerði birtuskilyrði fast­eigna eða íverurýma íbúða sé almennt ekki litið til afmarkaðs tíma seint að degi til á völdum dögum ársins. Sjá megi að bæði bílskúr á lóð Leiru­tanga 10 og norðurhluti húss Leirutanga 8 varpi skugga á svæði á lóð Leirutanga 8, hvort sem húsið verði hækkað eður ei. Óbreyttur réttur til útsýnis sé ekki bundinn í lög og geti íbúar í þéttbýli átt von á því að nánasta umhverfi þeirra taki einhverjum breytingum.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er vísað til þess að sú framkvæmd sem sótt hafi verið um leyfi fyrir muni ekki leiða til þess að nýtingarhlutfall hússins að Leirutanga 10 skeri sig úr þegar horft sé til annarra húsa í hverfinu. Nýtingarhlutfall lóða að Leirutanga 2, 4 og 6 sé yfir því 35% nýtingarhlutfalli sem stækkun að Leirutanga 10 myndi fela í sér. Um sé að ræða helming húsa í botngötunni og séu þau öll einbýlishús. Húsin séu vel yfir leyfilegri hæð samkvæmt skipulags- og byggingarskilmálum fyrir Leirutanga frá 19. maí 1981. Raunverulegt nýtingar­hlut­fall Leirutanga 2 sé 0,38 en ekki 0,37 og nýtingarhlutfall Leirutanga 4 sé 0,40 en ekki 0,36. Bæjar­yfirvöld hafi strax í kjölfar nefndra skilmála veitt leyfi fyrir byggingum umfram leyfi­legt nýtingarhlutfall og/eða umfram leyfilega hæð. Því hafi svo verið haldið áfram þegar veitt hafi verið leyfi vegna við­bygginga framangreindra húsa. Þá standi framkvæmdir yfir að Leiru­­tanga 2 og að sögn eigenda þess húss eigi að byggja þar sólstofu við húsið. Muni nýtingar­­hlut­fall þess hús þá hækka en það sé þegar langt umfram heimilað nýtingarhlutfall. Að auki séu fjöl­mörg önnur hús í Leirutanga þar sem nýtingarhlutfall sé langt umfram leyfilegt hlut­fall.

Hvergi sé kveðið á um að húsin norðan megin í botngötunni skuli vera á einni hæð og húsin sunnan megin á tveimur hæðum. Í botngötunni á móti, þ.e. Leirutanga 1-9, séu t.a.m. hús bæði á einni og tveimur hæðum á víxl. Ekkert sam­ræmi sé því á ásýnd botngötunnar og fráleitt að halda því fram að hækkun á þaki húss leyfishafa brjóti gegn henni. Í fyrirhugaðri stækkun sé hækkun þaksins um 1,5 m, þ.e. til jafns við hús að Leirutanga 5, sem sé norðan megin í botn­götunni á móti, þannig að hæð hússins verði 6,60 m líkt og heimilað sé í nefndum skipulags- og byggingar­skilmálum. Hæð hússins verði því minni en húsa að Leiru­tanga nr. 2, 4 og 6 sem séu 7,4 m að hæð. Þá verði halli á þakinu og engir kvistir. Ekki sé verið að bæta heilli hæð ofan á húsið heldur einungis að nýta þar ris líkt og gert sé að Leirutanga 5. Sú mynd af gróðri á milli lóða að Leirutanga 8 og 10 sem fylgt hafi kæru sé villandi enda skyggi hús leyfishafa lítið á þann blett. Hús að Leiru­tanga nr. 2, 4 og 6 standi það ofarlega að auðvelt sé að horfa frá annarri hæð húsanna yfir húsið að Leirutanga 10 og yrði engin breyting á því með fyrir­hugaðri hækkun. Frá fyrstu hæð húsanna sé hins vegar lítið útsýni í dag vegna trjá­gróðurs í görðunum og verði því engin breyting þar á útsýni. Þá hafi engin gögn verið lögð fram um að umsóknum eigenda Leirutanga 8 og 16, um hækkun á risi til að útbúa þar íbúðarrými, hafi áður verið hafnað og engin slík gögn fundist hjá Mos­fells­bæ.

Þær athugasemdir sem gerðar hafi verið við grenndar­kynningu hafi verið sendar leyfishafa og hafi hann í kjölfarið komið á framfæri ábendingum vegna þeirra. Vilji allra hljóti að standa til þess að upplýsa málið að fullu enda skuli stjórn­vald sjá til þess að mál sé nægjanlega upp­lýst áður en ákvörðun sé tekin í því, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá mótmæli leyfishafi tilvísun kærenda til úrskurðar úrskurðar­nefndarinnar í máli nr. 14/2019 enda hafi nefndin ekki á þeim tíma búið yfir upplýsingum um nýtingarhlutfall grann­lóða leyfis­hafa auk þess sem rangar upplýsingar hafi legið fyrir hjá nefndinni um það hvert nýtingar­­hlutfall lóðar leyfishafa yrði eftir fyrirhugaða stækkun. Ekkert styðji þær fullyrðingar kærenda að fyrirhuguð hækkun á húsi leyfishafa muni hafa áhrif á hags­muni kærenda og ekkert því komið fram í málinu sem réttlæti að ógilda beri hið kærða byggingar­leyfi. Að öðrum kosti yrði staða leyfishafa verri en margra nágranna og væri þannig verið að mismuna aðilum í sömu íbúðar­götu.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur vísa til þess að ekki séu önnur hús austan eða vestan megin við Leirutanga 5 sem verði fyrir jafn miklum áhrifum af skuggavarpi og innsýn líkt og hækkun á húsinu að Leirutanga 10 hefði í för með sér. Þá hafi bæjaryfirvöld ekki enn látið útbúa teikningar sem sýni skuggavarp fyrir Leirutanga 12 vegna fyrirhugaðra fram­kvæmda en búast megi við því að íbúar þess húss verði einnig fyrir verulega skertum hags­munum vegna færri sólarstunda á lóð sinni. Ekki sé eitt einasta fordæmi fyrir því að bæjar­yfirvöld hafi samþykkt hækkun á rishæð húss til að innrétta þar íbúðarrými eftir byggingu þess. Um gróið hverfi sé að ræða sem staðið hafi óbreytt í um 40 ár. Þótt fordæmi finnist fyrir hinum ýmsu undanþágum þýði það ekki að sveitarfélaginu beri að samþykkja allar umsóknir um sömu undanþágu. Megi nefna sem dæmi að bæjaryfirvöld hafi hafnað umsókn eigenda að Bjargar­tanga 4 og 6 um gerð bílastæðis á norðurhluta lóðar út að Álfatanga, jafnvel þó fordæmi séu fyrir slíkri útfærslu á Bjargartanga 10.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 22. september 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka rishæð húss á lóðinni Leiru­tanga 10. Fól umsóknin m.a. í sér hækkun þakmænis úr 4,87 m í 6,58 m og fá með því nýtanlega rishæð, innrétta þar íbúðarrými og gera svalir, 16,3 m2 að stærð. Þá voru á aðaluppdrætti sem fylgdu umsókninni sýndar tvær svokallaðar franskar svalir, en gert var ráð fyrir dyrum við útvegg sunnan megin og kom fram að við þær væru sett svonefnd frönsk svala­handrið. Af uppdrættinum má ráða að ekki er gert ráð fyrir að unnt sé að stíga út á svalirnar. Umrædd lóð er staðsett í botngötu ásamt Leirutanga 2-12. Standa allir eigendur annarra lóða við botngötuna að kæru í máli þessu ásamt eigendum Leirutanga 14 og 16, en þær lóðir eru við næstu botngötu og er göngustígur á bæjarlandi á milli þeirra lóða og Leirutanga 10.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulags­laga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deili­skipu­lag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar.­­­­­­­­­­­­­­­­­ Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er hins vegar að finna undantekningu frá framangreindri meginreglu um gerð deiliskipulags þegar framkvæmdir eru fyrirhugaðar, en þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmda­leyfi fyrir fram­kvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitar­­stjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deili­skipulags­gerðar ef framkvæmdin er í samræmi við land­notkun, byggða­mynstur og þétt­leika byggðar. Skuli skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndar­kynningu.

Samkvæmt Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 tilheyrir lóðin Leirutangi 10 Höfða-, Tanga- og Holtahverfi og er á skilgreindu íbúðarsvæði 115-Íb. Í aðalskipulaginu er umfjöllun um skipulag svæðisins af skornum skammti en því er þó lýst sem fullbyggðu með þéttinga­mögu­leika. Húsið á umræddri lóð er 158,4 m² að stærð sam­­­kvæmt upp­lýsingum úr fasteigna­skrá Þjóð­skrár Íslands, en með bílskúr sem stendur á lóð­inni er heildarflatarmál húsa á lóðinni 197,6 m². Með hinum kærðu byggingaráformum stækkar íbúðar­húsið í 237,4 m² og að meðtöldum bílskúr fer heildarflatarmál bygginga á lóðinni því í 276,6 m². Um­rædd lóð er 789 m² að flatarmáli og fer nýtingarhlutfall hennar því úr 0,25 í 0,35 og er um að ræða 40% hækkun á hlutfallinu. Samkvæmt upplýsingum úr fast­eigna­skrá Þjóðskrár Íslands er stærð lóða í næsta nágrenni, þ.e. að Leirutanga 2-8 og 12-16, á bilinu 711 til 1.198,3 m2. Stærðir húsa á lóðunum eru á bilinu 192 til 287,4 m2. Nýtingarhlutfall lóðanna er á bilinu 0,18-0,30 að Leirutanga 2 og 4 undanskildum, en þær lóðir hafa ­hlutföllin 0,33 og 0,36. Í sömu botngötu eru lóðirnar Leiru­tangi 2-12 og á þremur þeirra má finna hús sem eru yfir 250 m2 að stærð, þ.e. Leirutanga 2, 4 og 6. Þá eru hús á meðal nærliggjandi húsa með rishæð, m.a. í sömu botngötu og Leirutangi 10. Þrátt fyrir að þau hús sem standi sitt hvoru megin við Leirutanga 10 séu á einni hæð verður af heildarmati og samanburði við framangreinda staðhætti ekki annað ráðið en að umsókn leyfis­hafa um hækkun á þaki hafi verið í samræmi við gildandi landnotkun, byggðamynstur og þétt­leika byggðar, svo sem áskilið er í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Umsókn um greint byggingar­­­leyfi var grenndarkynnt með lög­mæltum fjögurra vikna athuga­semda­­­fresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga fyrir þeim sem hagsmuna áttu að gæta og komu kærendur að athugasemdum sínum við grenndar­­kynninguna. Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar í skipulags­nefnd og hún sam­­þykkt auk þess sem afstaða var tekin til fram­kom­inna athugasemda. Þá sam­þykkti bæjar­stjórn framan­­­­greinda afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi sínum 15. september 2021. Svör skipulagsnefndar bæjar­ins við athuga­semdum kærenda og leyfishafa ásamt niðurstöðu var send kærendum með bréfi, dags. 16. septem­ber 2021. Byggingar­­fulltrúi samþykkti síðan umsóknina á afgreiðslu­fundi sínum 22. s.m. Meðferð málsins var að þessu leyti í samræmi við 2. mgr. 44. gr. gr. skipulagslaga.

Í gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er fjallað um hönnunargögn sem fylgja skulu grenndar­kynningu á byggingar- eða framkvæmdaleyfisumsókn. Í greininni kemur fram að fylgja skuli af­­stöðu­­mynd, hnitsett í mælikvarða 1:500 – 1:2000 eða í öðrum læsilegum mæli­kvarða, sem sýni fyrirhugaða framkvæmd og afstöðu hennar gagnvart aðliggjandi byggð og að landi, þ.e. sýni mannvirki sem fyrir séu á svæðinu, hæðarlínur og annað í landslagi sem skipti máli fyrir út­­­færslu framkvæmdar. Gera þurfi grein fyrir landmótun, götumyndum og öðru sem nauðsyn­legt sé til að hagsmunaaðilar geti tekið afstöðu til framkvæmdarinnar. Hönnunar­gögn þurfi ekki að vera fullunnin á þessu stigi. Með umræddri grenndarkynningu fylgdu tveir upp­drættir af fyrir­huguð­­um breytingum sem dagsettir eru 5. maí 2021. Annar uppdrátturinn sýnir grunn­­mynd fyrstu hæðar og rishæðar Leiru­­tanga 10 en hinn sýnir útlit allra hliða hússins. Upp­drættirnir eru í mæli­kvarðanum 1:100 og eru þeir því í ósamræmi við þau viðmið sem sett eru fram í gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð. Mælikvarðinn er þó læsilegur en sýnir samt ekki afstöðu fyrirhugaðrar breytingar gagn­vart grann­­lóðum auk þess sem engar hæðarlínur er að finna á honum. Með grenndarkynningunni fylgdu engin gögn sem sýndu skuggavarp.

Eigendur Leirutanga 10 hafa nú í hartnær fimm ár leitast við að fá leyfi frá bæjaryfirvöldum Mosfells­bæjar fyrir því að hækka þakmæni og útbúa nýtanlegt rými á rishæð. Af kæru má ráða að kærendur æski þess að umrætt svæði verði deiliskipulagt. Heimild sveitar­stjórna til þess að veita byggingarleyfi að undan­genginni grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipu­lagslaga er líkt og áður greinir undan­tekning frá þeirri meginreglu 2. mgr. 37. gr. sömu laga að þeim sé skylt að gera deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrir­hugaðar.

Fyrir liggur að frá því að umdeild byggingaráform voru fyrst grenndarkynnt 12. mars 2018 hafa kærendur gagnrýnt og komið á framfæri athugasemdum við bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar vegna ófull­nægjandi grenndarkynningargagna. Þannig óskuðu eigendur Leirutanga 16 eftir því hinn 15. mars s.á. að fá sendar afstöðumyndir og skuggavarpsmyndir og gerði fyrri eigandi Leiru­tanga 8 slíkt hið sama 13. febrúar 2019, en af gögnum málsins verður ekki séð að sveitarfélagið hafi orðið við þeim beiðnum. Við meðferð kærumáls nr. 14/2019 létu eigendur Leirutanga 8 gera sínar eigin skuggavarpsmyndir og gerði byggingarfulltrúi í kjölfarið athugasemdir við þær, m.a. að ekki væri ljóst á hvaða forsendum þær byggðu. Með grenndarkynningu hins kærða byggingar­leyfis 11. maí 2021 fylgdu engar skuggavarpsmyndir eða nánari skýringar á afstöðu eða áhrifum fyrirhugaðra breytinga á byggðina í kring. Verður það að teljast annmarki á með­ferð málsins, sér í lagi í ljósi forsögu þess. Af hálfu bæjaryfirvalda hefur þó verið greint frá því að þau hafi látið vinna þrívítt skuggalíkan við rýni á tillögu leyfishafa auk þess sem bæjar­yfir­völd hafa greint frá því að þær myndir sem kærendur sendu með athugasemdum við grenndar­kynningu og myndir sem Mosfellsbær hafi unnið til rýni hafi hvorar tveggja verið nýttar við endan­­lega afgreiðslu málsins. Verður því þrátt fyrir framan­greindan annmarka ekki ráðið að hann hafi haft áhrif á efni ákvörðunarinnar þar sem fyrir lágu frekari upplýsingar um skugga­varp og afstöðu fyrirhugaðrar breytingar á byggðina í kring, m.a. frá kærendum. Verður ann­mark­inn því ekki talinn raska gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Kærendur telja umrædda leyfisveitingu brjóta gegn jafnræðisreglu íslensk stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með vísan til þess að bæjaryfirvöld hafi áður synjað um hækkun á risi að Leirutanga 8 og 16. Í gögnum þessa máls eða gögnum fyrri kæru­mála vegna um­deildra byggingaráforma liggur ekkert fyrir um að slíkum beiðnum hafi verið hafnað, en sveitar­­félagið hefur upplýst að það hafi kannað afgreiðslur eldri byggingar­leyfis­umsókna í hverfinu en ekki fundið sambærileg dæmi um höfnun. Verður því ekki séð að með samþykki umsóknar hins umdeilda byggingarleyfis hafi verið brotið gegn jafnræðisreglunni.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 22. september 2021 um að samþykkja hækkun rishæðar húss á lóðinni Leirutanga 10 og innrétta þar íbúðarrými.

6/2022 Upplýsingaskilti Landspítalans

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 18. maí, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 6/2022, kæra á synjun skrifstofu framkvæmda- og viðhalds Reykjavíkurborgar frá 13. desember 2021 á beiðni húsfélagsins Sléttuvegi 19, 21 og 23, um að fjarlægja upplýsingaskilti á lóð er liggur að lóð Sléttuvegar 19-23.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. janúar 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Sléttuvegi 19, 21 og 23, synjun skrifstofu framkvæmda- og viðhalds Reykjavíkurborgar frá 13. desember 2021 á beiðni um að taka niður upplýsingaskilti Landspítalans í Fossvogi á lóð er liggur að lóð Sléttuvegar 19-23. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 1. febrúar 2022.

Málsatvik og rök: Með afnotasamningi við Reykjavíkurborg, dags. 15. september 2011, tók húsfélagið Sléttuvegi 19, 21 og 23 að sér alla umhirðu og rekstur á flága sem liggur frá gangstétt að lóðarmörkum Sléttuvegar 19-23. Var samningurinn gerður til 70 ára og þinglýst sem kvöð á lóðinni Sléttuvegur 19-23. Um mánaðarmótin nóvember/desember 2021 var upplýsingaskilti fyrir Landspítalann í Fossvogi sett upp á umræddum flága. Kærandi mótmælti framkvæmdinni og í tölvupósti, dags. 8. desember s.á, var þess krafist að skiltið yrði fjarlægt. Verkefnastjóri framkvæmda- og viðhalds hjá Reykjavíkurborg hafnaði beiðni kæranda með tölvupósti 13. s.m.

 Af hálfu kæranda er vísað til þess að Reykjavíkurborg hafi ekki verið heimilt að taka einhliða ákvörðun um að setja umdeilt upplýsingaskilti á lóðarflágann við lóð kæranda. Afnota­samningur feli í sér að hann hafi afnot flágans og því hafi borgaryfirvöldum borið að bera ákvörðun um uppsetningu skiltisins á lóðinni undir kæranda og taka tillit til afstöðu hans þegar tekin hafi verið ákvörðun um notkun flágans. Borgaryfirvöldum hafi borið að óska eftir breytingum á deiliskipulagi og hefði kærandi þá átt kost á að koma að athugasemdum við hefðbundna meðferð málsins samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010. Þá sé það óeðlilegt að upplýsingaskilti fyrir Landspítalann sé á lóð nágranna. Skiltið feli í sér verulega sjónmengun vegna stærðar sinnar og lýsingar sem sé á skiltinu auk þess sem það gæti blindað útsýni þeirra sem aki Sléttuveginn í austur og taki vinstri beygju upp Háaleitisbraut.

 Borgaryfirvöld benda á að afnotasamningur vegna flágans snúi einungis að rekstri og umhirðu. Ekkert í samningnum komi í veg fyrir að borgin, sem sé eigandi flágans, geti nýtt hann með þessum hætti enda verði ekki séð að skiltið raski neinum hagsmunum kæranda. Hann hafi engar heimildir til nýtingar flágans og ekki verði séð að skiltið hafi áhrif á möguleika kæranda til reksturs og umhirðu hans. Staðsetning skiltisins sé ekki deiliskipulagsskyld þar sem ekki sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða. Stærð og umfang skiltisins sé aðeins 2,32 m á breidd og 1,35 m á hæð og af því sé engin sjónmengun. Verkfræðistofa hafi verið fengin til að kanna aðstæður m.t.t. umferðaröryggis og niðurstaða athugunarinnar hafi verið sú að útsýni skerðist óverulega frá gatnamótum. Skiltið sé nauðsynlegt til að leiðbeina þeim sem eigi erindi á Landspítalann og því málefnaleg rök fyrir tilvist þess.

 Kærandi tekur fram í athugasemdum sínum við rök borgaryfirvalda að orðalag afnotasamningsins um rekstur flágans taki til ákvarðana um framkvæmdir á fláganum, s.s. að reisa upplýsingaskipti. Um sé að ræða framkvæmd sem feli í sér að steypa undirstöður, leggja rafmagn að skiltinu fyrir lýsingu o.fl. Um sé að ræða breytingu á deiliskipulagi sem þarfnist kynningar eða a.m.k. grenndarkynningar með vísan til 1. og 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kafla 2.5 byggingarreglugerðar nr. 112/2012 komi fram að stærð og staðsetning skilta skuli vera í samræmi við ákvæði gildandi skipulags. Sækja skuli um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum, en svo hafi ekki verið gert í þessu tilviki. Því sé ekki mótmælt að skiltið sé nauðsynlegt en ekki hafi verið sýnt fram á að nauðsynlegt sé að það standi á umræddri lóð í stað þess að standa á lóð Landspítalans.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð synjun skrifstofu framkvæmda- og viðhalds Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um að fjarlægja upplýsingaskilti á landflága er liggur að lóð Sléttuvegar 19-23.

Samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki annast byggingarfulltrúi eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða og eftir atvikum útgefnu leyfi. Kveðið er á um í 55. og 56. gr. laganna heimildir byggingarfulltrúa til að beita þar greindum þvingunarúrræðum, svo sem í því skyni að fjarlægja ólögmæt mannvirki. Líkt og fram kemur í málavaxtalýsingu var í tölvupósti kæranda, dags. 8. desember 2021 farið fram á beitingu slíkra úrræða. Barst kæranda tölvupóstur 13. s.m. frá starfsmanni skrifstofu framkvæmda- og viðhalds á vegum borgarinnar þar sem fram kom að beiðni hans væri hafnað. Þrátt fyrir að þar komi fram ákveðin afstaða til erindis kæranda verður sú afstaða ekki talin binda endi á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda ekki um að ræða afgreiðslu byggingarfulltrúa sem til þess er bær að lögum að taka ákvörðun um hvort umdeilt skilti skyldi fjarlægt eður ei. Hefur umrætt erindi kæranda því ekki verið til lykta leitt af þar til bæru stjórnvaldi.

Liggur samkvæmt framangreindu ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem borin verður undir úrskurðanefndina, sbr. fyrrgreinda 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

178/2021 Frjóakur

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Unnþór Jónsson, settur varaformaður, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­­­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 178/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 21. október 2021 um að samþykkja óverulega breytingu á deiliskipulagi Arnarneslands Akra.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Byggakri 22, og eigandi, Byggakri 20, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 21. október 2021 að samþykkja óverulega breytingu á deiliskipulagi Arnarneslands – Akra. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 31. janúar 2022.

Málavextir: Lóðin Frjóakur 9 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Arnarneslands – Akra frá 2003. Hinn 16. júní 2016 samþykkti byggingarfulltrúinn í Garðabæ umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsið að Frjóakri 9 og á fundi bæjarráðs 21. s.m. var sú afgreiðsla samþykkt. Á fundi skipulagsnefndar 30. s.m. var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi fyrir umrædda fasteign vegna óverulegs fráviks frá deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var sótt um heimild til að víkja frá skipulagsskilmála í gr. 1.1.8 í deiliskipulagi svæðisins sem kveður á um að stærð neðri hæðar skuli ekki fara yfir 70% af flatarmáli aðalhæðar. Í fundargerð skipulagsnefndar kom fram að ekki væri gerð athugasemd við að vikið væri frá ákvæðum 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga við veitingu byggingarleyfisins þar sem um óverulegt frávik væri að ræða og hagsmunir nágranna skertust í engu, sbr. 3. mgr. 43. gr. sömu laga. Var afgreiðsla skipulagsnefndar samþykkt á fundi bæjarráðs 5. júlí s.á. Hinn 8. september samþykkti byggingarfulltrúi leyfisumsóknina og gaf út byggingarleyfið.

Í janúar 2020 urðu eigendaskipti að einbýlishúsinu að Frjóakri 9 og í framhaldi af þeim hófu nýir eigendur framkvæmdir. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 16. júlí s.á., var eigendum gert að stöðva framkvæmdir þar sem sækja þyrfti um byggingarleyfi vegna þeirra. Hinn 26. s.m. var sótt um byggingarleyfi vegna breytinga á ásýnd hússins þar sem fyrirhugað væri m.a. að koma fyrir glugga/dyrum á útvegg í kjallara á norðausturhlið. Á fundi skipulagsnefndar 10. september s.á. var lögð fram tillaga að breytingu deiliskipulagi svæðisins sem gerði ráð fyrir því að flatarmál neðri hæðar húss, þ.e. kjallara, væri meira en 70% af flatarmáli aðalhæðar. Var bókað um að innréttað hefði verið herbergi í djúpum kjallara með gólfsíðum gluggum og „svæði á lóð í sömu hæð.“ Áður hefði verið veitt leyfi fyrir kjallararýminu sem tæknirými án glugga. Sú tillaga hefði verið samþykkt sem frávik frá deiliskipulagi en að gluggar á hinu umrædda rými breyttu þeim forsendum. Var tillagan metin sem óveruleg breyting deiliskipulags í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og ákveðið að grenndar­kynna hana fyrir eigendum Frjóakurs 7 og 10 og Byggakurs 18, 20, 22 og 24, en sú afgreiðsla var staðfest á fundi bæjarstjórnar 17. september s.á. Í bréfi um grenndarkynningu, dags. 1. október 2020, kom fram að í breytingunni fælist að stærð neðri hæðar Frjóakurs 9 gæti verið allt að 100% af flatarmáli aðalhæðar. Kærendur gerðu athugasemdir við tillöguna sem vísað var til úrvinnslu tækni- og umhverfissviðs. Á fundi skipulagsnefndar 14. október 2021 samþykkti nefndin hina grenndarkynntu tillögu í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulags­laga. Afgreiðsla skipulags­nefndar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 21. október s.á. og tók breytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 8. nóvember 2021.

 Málsrök kærenda: Kærendur benda á að grenndarkynning hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar komi fram að með bréfi um grenndarkynningu skuli fylgja tillaga að breytingu á deiliskipulagi eða hönnunargögn. Engin slík gögn hefðu fylgt bréfi um grenndarkynningu og því hefðu aðilar ekki getað kynnt sér tillöguna með fullnægjandi hætti. Byggakur 12, 14, 16, 18 og 20 standi á óskiptri lóð en einungis hafi verið grenndarkynnt fyrir Byggakri 18 og 20 og því hafi eigendum annarra lóða ekki gefist kostur á að kynna sér málið.

Ekki sé um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða og því hafi ekki verið heimilt að fara eftir undantekningarákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Um stefnumarkandi ákvörðun varðandi Akrahverfi væri að ræða og því hefði borið að fara með tillöguna samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Frjóakur 9 sé einbýlishúsalóð og samkvæmt deiliskipulags­skilmálum Akrahverfis séu einbýlishús einnar hæðar. Kjallarar séu leyfðir þar sem landhalli og lega lagna gefi eðlilegt tilefni til og heimilt sé að veita leyfi fyrir byggingu eins og hálfrar hæðar einbýlishúsum þar sem land falli meira en 2,0 m innan lóðarmarka. Stærð neðri hæðar megi þó ekki fara yfir 70% af flatarmáli aðalhæðar. Landhalli innan lóðarmarka Frjóakurs 9 sé hins vegar einungis um 0,4 m. Með breytingu á deiliskipulagi sé verið að leita samþykkis til að grafa frá áður samþykktu gluggalausu rými og opna út. Þannig verði stærð íverurýmis á neðri hæð langt umfram 70% af stærð efri hæðar og nýtingarhlutfall Frjóakurs 9 langt umfram það sem heimilað sé í skipulagi hverfisins. Slík breyting geti ekki talist óveruleg. Í skipulagsreglugerð komi fram í gr. 5.8.2. að við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Einnig skuli metið hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu sem varði almannahagsmuni. Líta verði til fyrri breytinga á skipulagsskilmálum Frjóakurs 9 frá árinu 2016 og miða við upprunalegt skipulag og ákvæði skipulagsskilmála hverfisins þegar metið sé hvort um sé að ræða óverulega breytingu. Um sé að ræða verulega breytingu á bæði útliti, nýtingarhlutfalli og formi hússins. Það að byggja tveggja hæða einbýlis­hús þvert á skipulagsskilmála geti ekki talist óveruleg breyting.

Þá séu verulegir annmarkar á fasteigninni að Frjóakri 9 sem séu í andstöðu við gildandi skipulag. Gólfkóti aðalhæðar sé 11,9 en samkvæmt hæðarblaði skuli hann vera 11,1. Hæð lóðar við lóðarmörk sé 11,4 en samkvæmt gildandi skipulagi eigi hún að vera 10,8-10,9. Á lóðar­mörkum við Byggakur sé steinsteyptur veggur sem sé a.m.k. 1,7 m hár miðað við lóðarmörk, en það sé umfram heimildir. Hæð veggjarins sé sérlega íþyngjandi fyrir eigendur og íbúa við Bygga­kur þar sem hæð lóðar Frjóakurs 9 sé langt umfram heimildir skipulags. Þá sé hæð hússins 16,15 m en samkvæmt skipulagi sé heimiluð hæð 16,1. Húsið sé því bæði hærra en heimilt sé samkvæmt skipulagi auk þess að vera eina einbýlishúsið á tveimur hæðum í hverfinu. Einnig hafi smáhýsi, þ.e. gufubað, verið reist á lóðinni við lóðarmörk Byggakurs 20 og 22. Litið sé fram hjá þessum ágöllum við samþykkt umræddrar tillögu að deiliskipulagi. Skipulagslög geri ráð fyrir að fjallað sé heildstætt um skipulag en ekki í „einhvers konar bútasaumi.“ Garðabær hafi ekki brugðist við ítrekuðum ábendingum vegna þessara ágalla á fasteigninni.

Grenndaráhrif þeirra breytinga sem um ræði séu veruleg. Rýmið sem grafið hafi verið frá sé nýtt sem líkamsræktaraðstaða sem nágrannar hafi ónæði af. Bæði sé um að ræða opnanlegt rými þannig að hljóð berist greiðlega frá rýminu og aðgengi frá líkamsræktaraðstöðunni að gufubaði og heitum og köldum pottum utandyra sem staðsettir séu syðst á lóðinni. Þetta skapi umgang meðfram lóðarmörkum og valdi ónæði.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er byggt á því að umdeild breyting á deili­skipulagi Arnarneslands – Akra hafi hlotið þá lögformlegu afgreiðslu sem skipulagslög mæli fyrir um. Breytingin hafi verið metin óveruleg þar sem einungis hafi verið um að ræða breytingu á skilmálum deiliskipulagsins fyrir eina staka lóð án þess að umfang mannvirkis á lóðinni aukist. Um hafi verið að ræða breytingu á innra skipulagi hússins án breytingar á nýtingarhlutfalli eða hefðbundinni notkun þess sem einbýlishúss. Skilmálabreytingin feli einungis í sér að samþykkja að flatarmál neðri hæðar, þ.e. kjallara, sé meira en 70% af flatarmáli aðalhæðar. Ekki hafi verið um að ræða breytingar á byggðarmynstri eða þéttleika byggðar og hagsmunir nágranna hafi í engu verið skertir umfram það sem almennt sé gert ráð fyrir í íbúðarhverfi. Athugasemdir frá kærendum við grenndarkynningu hafi varðað atriði sem tengdust ekki breytingatillögunni, en efni hennar hafi verið lýst skýrlega í bréfi sem kærendum hafi verið sent. Mótmæli nágranna þurfi að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og rökstuðningi um hvernig tillagan skerði hagsmuni þeirra. Tveir af sex nágrönnum sem hefðu fengið bréf um grenndarkynningu hefðu gert athugasemdir við hana, en þær athugasemdir hefðu fyrst og fremst snúist um atriði sem ekki hefðu varðað tillöguna og í engu sýnt fram á skerðingu hagsmuna þeirra. Þá eigi þeir kærendur sem skrái sig með lögheimili að Byggakri 22 ekki lengur heima þar og hafi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Nýir eigendur raðhússins að Byggakri 22 hafi lýst því yfir að þeir geri engar athugasemdir við þær breytingar eða áform sem leiða af hinni kærðu ákvörðun. Hvað varði kæranda að Byggakri 20 þá sé ljóst að breytingar á innra skipulagi hússins að Frjóakri 9 og útlitsbreytingar sem ekki séu sjáanlegar frá lóð hans geti ekki varðað hagsmuni hans eða haft þau grenndaráhrif að leiða eigi til ógildingar á samþykkt bæjarstjórnar.

Athugasemdir eigenda Frjóakurs 9: Af hálfu eigenda Frjóakurs 9 er þess krafist að kærunni sé vísað frá en til vara að hafnað sé athugasemdum kærenda vegna breytinga á deiliskipulagi Arnarneslands – Akra vegna Frjóakurs 9. Þær athugasemdir kærenda sem snúi að öðrum atriðum en deiliskipulags­breytingunni verði að vísa frá þar sem kærufrestur sé liðinn. Kærendur sem hafi átt Byggakur 22 séu búnir að selja eignina og flutt til Noregs. Afsal til nýrra eigenda hafi verið gefið út 6. ágúst 2021 og hinir nýju eigendur hafi gefið yfirlýsingu um að þau hafi engar athugasemdir við þær framkvæmdir og áform sem tengist Frjóakri 9. Fyrrum eigendur Byggakurs 22 geti því ekki talist hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.

Þrátt fyrir að lóð Byggakurs 20 liggi að hluta að lóð Frjóakurs 9 sé með öllu óljóst hvernig hin kærða deiliskipulagsbreyting raski hagsmunum kærenda. Þau grenndaráhrif sem kærendur fullyrða um, þ.e. að hljóð muni berast út um glugga og að umgangur meðfram lóðarmörkum þar sem farið sé frá glugganum að gufubaði og pottum á lóðinni, geti ekki talist til lögvarinna hagsmuna kærenda. Nú þegar sé stór útgangur úr aðalstofu Frjóakurs 9 út á pall sem liggi beint að lóðarmörkum Byggakurs 20. Þannig geti hljóð og tónlist borist óhindrað þaðan yfir á lóð Byggakurs 20. Þá sé umgangur í potta og gufubað út um þann útgang jafn nálægt lóð Byggakurs 20 eins og hægt sé. Útgangur um umræddan glugga sé fyrir framan lóð Byggakurs 24, langt frá Byggakri 20. Þvera þurfi lóð Byggakurs 22 og 24 til að sjá gluggann.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Málatilbúnaður tveggja af kærendum í kærumáli þessu byggir á réttarstöðu þeirra sem eiganda fasteignar í nágrenni við Frjóakur 9. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands hafa þeir kærendur selt Byggakur 22, en kaupsamningur var gerður 16. júní 2021 og afsali var þinglýst 13. ágúst s.á. Eiga þeir því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls þessa. Þá hafa nýir eigendur Byggakurs 22 lýst því yfir að þeir geri ekki athugasemdir við umrædda skipulagsbreytingu.

Í máli þessu er kærð breyting á deili­skipulagi Arnarneslands – Akra, sem fól í sér breytingu á skipulagsskilmálum vegna lóðarinnar Frjóakur 9. Málsrök í kæru lúta jafnframt að samþykki byggingarfulltrúa frá 8. september 2016 á umsókn um byggingarleyfi vegna heimildar til að víkja frá deiliskipulag á grundvelli 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem kærufrestur er löngu liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, kemur sú ákvörðun ekki til endurskoðunar.

Í gr. 1.1.8. í skipulagsskilmálum deiliskipulags Arnarneslands – Akra segir að stærð neðri hæðar megi ekki fara yfir 70% af flatarmáli aðalhæðar. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreyting var gerð breyting á greindum skilmála vegna lóðarinnar Frjóakurs 9, en í breytingunni fólst að stærð neðri hæðar geti að flatarmáli verið jöfn og efri hæðar. Er ljóst að hin kærða ákvörðun hvorki breytir byggingarreit lóðarinnar né hróflar hún við leyfðri notkun, fjölda íbúða eða ytra byrði húss þess er stendur á lóðinni enda hefur umræddur kjallari verið til staðar frá byggingu hússins. Verður því ekki séð að breytingin geti haft í för með sér aukin grenndaráhrif á fasteign kæranda að Byggakri 20, s.s. vegna skuggavarps eða skerðingar á útsýni, og telst hann því ekki hafa þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni sem eru skilyrði kæruaðildar vegna umræddrar deiliskipulagsbreytingar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið skortir á að kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 gerir að skilyrði fyrir kæruaðild og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

175/2021 Eskiás

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Unnþór Jónsson, settur varaformaður, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 175/2021, kæra á ákvörðunum sveitarstjórnar Garðabæjar frá 15. ágúst 2019 og 2. september 2021 um að samþykkja tillögur að breytingum á deiliskipulagi Ása – Grunda.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2021, er barst nefndinni 5. s.m., kæra Lyngás 13 ehf., eigandi fasteignarinnar Lyngáss 13, og Akralind ehf., eigandi fasteignarinnar Lyngáss 15, Garðabæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 2. september 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ása – Grunda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að hafa samráð við kærendur vegna breytingarinnar. Þá er þess krafist að sú ákvörðun bæjarstjórnar frá 15. ágúst 2019 að samþykkja breytingu á sama deiliskipulagi verði felld úr gildi og/eða tekin til endurskoðunar með vísan til framkominna athugasemda kærenda frá 21. apríl 2021. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir við Eskiás yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 17. desember 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 14. desember 2021.

Málavextir: Á lóðum kærenda, Lyngási 13 og 15, stendur atvinnuhúsnæði og eiga lóðirnar mörk að lóðunum Eskiási 6-10, sem eru enn óbyggðar. Lóðirnar Lyngás 13, Eskiás 6 og 8 eiga sameiginleg lóðamörk en Lyngás 15 á lóðarmörk að Eskiási 8 og 10. Í deili­skipulagi Ása – Grunda, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 27. mars 2002, var ekki gert ráð fyrir götu sunnan megin við lóðir kærenda heldur tilheyrði það svæði, þar sem nú er gatan Eskiás, lóðinni Stórási 4-6 og var sú byggð sem gert var ráð fyrir á lóðinni ekki við mörk lóða kærenda.

 Með auglýsingu sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 14. október 2019 tók gildi breyting á deili­skipulagi svæðisins en í breytingunni fólst m.a. að gert var ráð fyrir nýrri götu sem myndi bera heitið Eskiás. Á fundi bæjarstjórnar 2. apríl 2020 var samþykkt að veita leyfi til fram­kvæmda fyrir gatnagerð ásamt lagningu veitumannvirkja í Eskiás. Var tiltekið að fram­kvæmdin væri í samræmi við fyrrgreint deiliskipulag svæðisins og var leyfið gefið út daginn eftir. Kærendur skutu þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði, upp­kveðnum 22. október 2021 í kærumáli nr. 72 og 100/2021, vísaði kærunni frá sem of seint fram kominni.

Hinn 11. febrúar 2021 samþykkti skipulagsnefnd Garðabæjar að auglýsa tillögu að breytingu deiliskipulags Ása – Grunda í samræmi við 1. mgr. 43. gr. og 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi bæjarstjórnar 18. febrúar 2021 var afgreiðsla skipulagsnefndar samþykkt skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga, sbr. 1. mgr. 41. gr. sömu laga. Í fundargerð bæjarstjórnar kemur fram að breytingartillagan feli í sér að hæðum húsa við Eskiás 2, 4 og 6 verði fækkað um eina og heimilað verði að fjölga íbúðum í öðrum húsum á svæðinu sem nemi fækkun íbúða vegna færri hæða. Hámarkshæðir annarra húsa verði óbreyttar en byggingarreitum lóða nr. 8 og 10 verði breytt á þann veg að þar verði lokaðir innigarðar. Heildarfjöldi íbúða sé óbreyttur, eða 276 íbúðir. Tillagan var auglýst í Lögbirtingablaðinu og Fréttablaðinu 10. mars 2021 með fresti til athugasemda til 21. apríl s.á. og barst eitt erindi með athugasemdum frá kærendum. Á fundi skipulagsnefndar 16. júní 2021 var lögð fram tillaga að framangreindri deiliskipulags­breytingu ásamt minnisblaði deiliskipulagshöfundar með viðbrögðum við inn­sendum athuga­semdum. Var tillögunni vísað til úrvinnslu hjá tækni- og umhverfissviði. Á fundi skipulags­nefndar 26. ágúst s.á. var greinargerð með svörum Garðabæjar við innsendum athugasemdum samþykkt og bókað að farið hefði verið yfir inn­sendar athugasemdir af tækni- og umhverfis­sviði Garðabæjar og skipulagsráðgjafa. Þá kom fram að ekki væri talin ástæða til að breyta tillögunni enda hafi athugasemdirnar í flestum til­fellum ekki varðað breytingartillöguna. Var deiliskipulagsbreytingin samþykkt. Bæjarstjórn samþykkti þá afgreiðslu á fundi sínum 2. september s.á. Athugasemdum kærenda var svarað með bréfi, dags. 14. september 2021, og var breytingin send Skipulagsstofnun til lögboðinnar meðferðar. Í bréfi Skipulagsstofnunar 11. október s.á. gerði stofnunin ekki athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar en benti á að skila þyrfti inn uppfærðri greinargerð m.t.t. þeirra breytinga sem verið væri að gera og að sýna þyrfti skilmálatöflur fyrir og eftir breytingar á uppdrætti. Tillagan öðlaðist gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 8. nóvember 2021.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að lóðir þeirra heyri til deiliskipulags Ása – Grunda frá árinu 2019. Í verðlaunatillögu um skipulag svæðisins frá árinu 2016 hafi mátt finna sterka sýn á umgjörð og eiginleika skipulagsins, þróun byggðar og skipulag einstakra reita. Á grundvelli tillögunnar hafi verið unnið rammaskipulag á árinu 2017. Kynningarfundur vegna vinnu við deiliskipulag hafi verið haldinn fyrri part ársins 2019. Þar hafi áætlanir verið sýndar og áréttað að áframhaldandi vinna yrði unnin í samráði við hagsmunaaðila, sbr. ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og leiðbeiningar Skipulagsstofnunar. Meðal annars hafi verið rætt um að skilgreind þróunarsvæði L1 og L2, sem lóðir kærenda tilheyri, yrðu sameinuð að upp­fylltu því skilyrði að samið yrði við lóðareigendur lóða við Lyngás um útfærslur, m.a. á lóðamörkum. Kærendur hafi ekkert heyrt af umræddri vinnu þar til nýtt deiliskipulag hafi verið auglýst og síðan samþykkt af bæjarráði Garðabæjar 15. ágúst 2019. Málsmeðferð og andmælafrestur vegna framan­greindra deiliskipulagsáforma hafi farið fram hjá kærendum þar sem þeir hafi reiknað með að sveitarfélagið myndi hafa við þá samráð eins og lýst hafði verið yfir á fyrri stigum málsins. Þá hafi ekki verið staðið að deiliskipulaginu með lögformlega réttum hætti varðandi auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Í deiliskipulaginu halli umtalsvert á hagsmuni kærenda. Afar íþyngjandi kvaðir hafi verið settar á núverandi byggingar og byggingarreiti á lóðum þeirra, ólíkt nærliggjandi lóðum sem heyri undir sama skipulag. Ágreiningslaust sé að skipulag svæðisins hafi tekið umtalsverðum breytingum árið 2019. Í stað þess byggðamynsturs sem áður hafi verið gert ráð fyrir, þ.e. lægri byggingum við Ásabraut sem hækki með þéttingu byggðar í átt að Lyngási, sé gert ráð fyrir hærri byggingum á miðjum reitnum og mun þéttari byggð auk þess sem veittar séu heimildir fyrir umtalsvert meira byggingarmagni, sem leiði af sér mikla fjölgun íbúða á reitnum. Til að jafna út hæðarmun virðist sem skipulagið geri ráð fyrir kvöð um brekku inni á lóðum kærenda og þá séu byggingarreitir sem voru fyrir miðjum lóðunum færðir alveg út í Lyngás, að því er virðist til að gera öðrum kleift að byggja alveg út í mörk lóða kærenda. Farið hafi verið yfir málið á fundum með bæjarstjóra 24. september 2020, skipulagsstjóra 21. desember 2021 og með þeim báðum 24. mars s.á. Þá hafi kærendur hinn 10. janúar 2021 lagt fram erindi til skipulagssviðs sveitarfélagsins þar sem sjónarmiðum og mótmælum þeirra hafi verið komið á framfæri í því skyni að fá fram viðbrögð og skýringar sem nýst hefðu getað sem forsenda fyrir því að leggja inn tillögu að breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðir kærenda. Ekkert svar sem talist geti vera rökrétt afleiðing erindisins hafi borist, nú tæpu ári síðar.

Bæjaryfirvöld hafi litið á deiliskipulagsbreytinguna, sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 8. nóvember 2021, sem verulega breytingu á deiliskipulagi og farið með hana sem um nýtt skipulag væri að ræða. Tekin hafi verið saman lýsing, sbr. ákvæði 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga, sbr. einnig 1. mgr. 43. gr. sömu laga. Að öðrum kosti hefði sveitarfélagið grenndarkynnt breytinguna, sbr. umrætt lagaákvæði, sem sé annars eðlis og sé beint að tilteknum hagsmunaaðilum. Um mjög mikilvægt atriði sé að ræða sem snúi að ríkum hagsmunum kærenda af málinu, en mikið ójafnræði sé á milli aðila. Byggt sé á því að „opnast hafi fyrir þann möguleika að koma að athugasemdum og mótmælum er varða deiliskipulagið [frá árinu 2019], en ekki einungis er snýr að deiliskipulagsbreytingunni [frá árinu 2021]. Sú nálgun á málið [fái] stoð af því hvernig [sveitarfélagið] meðhöndlar tiltekin atriði er snúa að deiliskipulagsbreytingunni, sbr. ákvæði [s]kipulagslaga nr. 123/2010.“

 Málsmeðferð Garðabæjar brjóti í bága við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarfélagið hafi ekki svarað athugasemdum kærenda við fyrrgreinda deiliskipulagsbreytingu frá árinu 2021 með fullnægjandi hætti, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þá sé skv. IV. kafla skipulagslaga, sbr. 4. mgr. 12. gr. laganna, lögð sú skylda á sveitarfélög við gerð og framkvæmd skipulagsáætlana að leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa og annarra sem hagsmuna eigi að gæta í því tilliti varðandi mörkun stefnu. Hafið sé yfir vafa að deiliskipulagsbreytingin, sem unnin hafi verið í kjölfar þess að erindi kærenda frá 10. janúar 2021 hafi borist sveitarfélaginu, hafi verið sett í auglýsingu án þess að nokkuð samráð væri haft við þá. Skipulagsbreytingunni sé ætlað að laga deiliskipulag sem auglýst hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 14. október 2019 að yfirstandandi óleyfisframkvæmdum fyrir ofan lóðir kærenda. Leiða megi að því líkum að sveitar­félagið hafi hvorki kynnt sér gildandi deiliskipulag nægilega vel né tiltekin efnisatriði í fyrr­greindu erindi kærenda til sveitarfélagsins og hafi málið því ekki verið nægilega upplýst þegar sveitarfélagið hafi tekið ákvörðun um að auglýsa deiliskipulagsbreytinguna í mars 2021, sem samræmist ekki rannsóknarreglunni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi ekki verið gætt jafn­ræðis og samræmis í lagalegu tilliti í efnislegri umfjöllun um fyrrgreint erindi kærenda, sbr. ákvæði 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga, ekki síst varðandi frágang á lóðamörkum, hæðarkótum og samtengingu húsa á lóðunum. Brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Óleyfisframkvæmd fyrir ofan lóðirnar feli óumdeilt í sér að verið sé að ganga freklega á lögvarinn rétt kærenda. Þeir hafi ítrekað óskað eftir því við bæjaryfirvöld að fá afhent gögn er varði framkvæmdina, m.a. uppdrætti og hæðarkóta á lóðamörkum, en af einhverjum ástæðum hafi ekki verið orðið við því.

Þá megi samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar engan skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þurfi til þess lagafyrirmæli og fullt verð að koma fyrir. Engir almannahagsmunir séu svo ríkir að réttlæti að kærendur þurfi að sæta skerðingum og kvöðum á eignum sínum, sem birtist m.a. í samliggjandi byggingarreitum, minnkun byggingarreita og kvöð um svæði inni á lóðum þeirra. Þetta eigi sér stað án þess að nokkuð komi á móti í staðinn og sveitarfélagið hafi ekki gert tilraun til að semja um málið við kærendur. Aðrir hagsmunaaðilar á aðliggjandi og nálægum lóðum hafi ekki þurft að sæta viðlíka skerðingu og kvöðum og blasi við að sveitarfélagið sé að leggja á kærendur.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er m.a. vísað til þess að í þeirri breytingu á deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 2. september 2021 hafi falist að einungis yrðu heimilaðar þrjár hæðir á lóðunum nr. 2, 4 og 6 við Eskiás í stað fjögurra áður. Gerðar hafi verið lítilsháttar breytingar á byggingarreitum lóðanna nr. 6, 7, 8 og 10 við Eskiás til að auðvelda fjölgun íbúða án þess að hækka húsin. Ytri mörkum byggingar­reita hafi ekki verið breytt en nýtingarhlutfall allra lóða við Eskiás hafi breyst og heildarfjöldi íbúða verði óbreyttur. Í kæru virðist gæta þess misskilnings að nýtt deiliskipulag fyrir svæðið hafi verið samþykkt en augljóst sé að aðeins sé um að ræða breytingu á deiliskipulaginu. Breytingin geti á engan hátt varðað hagsmuni kærenda. Aðrir þættir deiliskipulagsins byggi í grundvallaratriðum á deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið haustið 2019 og sé kærufrestur hvað það varði löngu liðinn.

—–

Kærendur hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu sem verður ekki rakið nánar hér, en úrskurðar­nefndin hefur haft það til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti tveggja ákvarðana bæjarstjórnar Garðabæjar um að samþykkja breytingar á deiliskipulagi Ása – Grunda.

 Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Meira en tvö ár liðu frá upphafi kærufrests þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 15. ágúst 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulag Ása – Grunda þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 5. desember 2021, en nefnd skipulagsbreyting tók gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. október 2019. Verður þeim þætti málsins af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. Verður því einungis sú skipulagsbreyting sem samþykkt var í bæjarstjórn 2. september 2021 tekin til efnismeðferðar.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórn gerð skipulagsáætlana og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðal­skipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. um þéttleika byggðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr., en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðalskipulags. Við skipulagsgerð ber sveitarstjórnum enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, þ. á m. að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c.-lið 1. mgr. ákvæðisins. Sveitarstjórn er einnig bundin af meginreglum stjórnsýsluréttarins, þ. á m. lögmætisreglunni er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitar­stjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað og heimild til að breyta deiliskipulagi, sbr. 43. gr. skipulagslaga.

Umdeild deiliskipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 41. gr. og 43. gr. skipulagslaga og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar sem þeir og gerðu. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Í bréfi stofnunarinnar til bæjaryfirvalda kom fram að farið hefði verið yfir framlögð gögn og að ekki væru gerðar athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda, en þó var bent á að skila þyrfti inn uppfærðri greinargerð m.t.t. þeirra breytinga sem verið væri að gera og að sýna þyrfti skilmálatöflur fyrir og eftir breytingar á uppdrætti. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Var formleg málsmeðferð deiliskipulags-breytingarinnar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Deiliskipulagsbreytingin sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 8. nóvember 2021 fól í sér að hæðum húsa við Eskiás 2, 4 og 6 var fækkað um eina og heimilað var að fjölga íbúðum í öðrum húsum á skipulagssvæðinu sem nam fækkun íbúða. Hámarkshæðir annarra húsa voru óbreyttar. Þá var byggingarreitum lóða nr. 8 og 10 við Eskiás breytt þannig að þar yrðu lokaðir innigarðar. Heildarfjöldi íbúða á skipulagssvæðinu var óbreyttur. Skilmálar gildandi deiliskipulags varðandi lóðir kærenda, þ.e. Lyngáss 13 og 15, breyttust ekki. Á skipulagsuppdrætti deiliskipulagsbreytingarinnar var sýnt með hvaða hætti lokuðum inni-görðum var komið fyrir á lóðum við Eskiás 8 og 10. Byggingar á lóðunum mynduðu innri garð sem var opinn gagnvart Eskiási. Eftir breytinguna er gert ráð fyrir að sá garður verði lokaður á allar hliðar. Farlægð frá Lyngási 13 og 15 er óbreytt. Þá var nýtingarhlutfall þeirra lóða sem liggja að lóðum kærenda sýnt og kom m.a. fram að nýtingarhlutfall Eskiáss 6 hefði áður verið 1,38 en yrði 1,06, nýtingarhlutfall Eskiáss 8 hefði áður verið 0,67 en yrði 1,06 og að nýtingar-hlutfall Eskiáss 10 hefði áður verið 0,69 en yrði 0,82. Um breytingar á fjölda íbúða í húsunum kom fram að áður hefði verið gert ráð fyrir því að í Eskiási 6 yrðu 33 íbúðir en viðmiðunarfjöldi íbúða yrði 26, í Eskiási 8 hefði áður verið gert ráð fyrir 18 íbúðum en viðmið yrði 27 íbúðir og í Eskiási 10 hefði áður verið gert ráð fyrir 12 íbúðum en miðað yrði við að þær yrðu 16.

Í Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 er svæðið sem hér um ræðir skilgreint sem þróunar­svæði A og eru lóðir kærenda og svæði þar sem nú er gatan Eskiás á reitnum 2.07. Í greinargerð skipulagsins er vikið að svæðinu sem Lyngássvæðis og segir þar að gert sé ráð fyrir íbúðar­byggð á reit 2.07. Stefnt sé að þéttri blandaðri byggð í tengslum við miðbæ og hámarkshæð verði fjórar hæðir. Lögð sé áhersla á að þétta byggð á þróunarsvæðum A og B til að nýta land betur og tryggja betri þjónustu við íbúa. Reynt sé að draga úr neikvæðum áhrifum á landslag og ásýnd með almennum skilmálum um gæði hins byggða umhverfis og halda í byggðamynstur nærliggjandi svæða, þar sem það eigi við. Samkvæmt hinni kærðu breytingu á deiliskipulagi var hæðum húsa við Eskiás 2, 4 og 6 fækkað um eina, eða úr fjórum hæðum í þrjár, og íbúðum í öðrum húsum á svæðinu, þ. á m. Eskiási 8 og 10, fjölgað. Samkvæmt framangreindu verður ekki séð að hin kærða deiliskipulagsbreyting fari í bága við gildandi aðalskipulag.

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir form- eða efniságallar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Rétt þykir að benda á að geti kærendur sýnt fram á tjón vegna hinnar kærðu deiliskipulags­breytingar geta þeir átt rétt á bótum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum dómstóla.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 15. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ása – Grunda er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 2. september 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ása – Grunda.

161/2021 Primex ehf.

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 11. maí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 161/2021, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar um álagningu viðbótargjalds að fjárhæð kr. 409.200 vegna mengunarvarnaeftirlits.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. október 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Primex ehf. þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að leggja viðbótargjald á fyrirtækið að fjárhæð kr. 409.200 vegna mengunarvarnaeftirlits. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 8. desember 2021 og viðbótargögn 11. mars 2022 og 5. apríl s.á.

Málavextir: Kærandi hefur starfsleyfi frá Umhverfisstofnun fyrir rekstri kítín- og kítósan­framleiðslu á Siglufirði, en stofnunin hefur jafnframt eftirlit með þeirri starfsemi, sbr. 54. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 57. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Hinn 27. apríl 2020 tilkynnti stofnunin kæranda um niðurstöðu mats á umhverfisáhættu samkvæmt nefndri 57. gr. reglugerðarinnar. Kom og fram að stofnunin hefði skilgreint starfsemi kæranda í áhættuflokk A og því ætti eftirlit að fara fram tvisvar á hverju ári. Fyrra reglubundna eftirlitið fór fram 3. júní 2020 og var niðurstaða þess kynnt kæranda með bréfi, dags. 26. s.m. Í bréfinu var greint frá því að ekkert frávik hefði komið fram við eftirlitið, en að eldra frávik um sýrustig í frárennsli væri enn opið. Hinn 14. september s.á. tilkynnti stofnunin kæranda að henni hefði borist kvörtun um vítissódagufu frá starfsemi kæranda og var óskað eftir viðbrögðum hans við þeirri kvörtun. Svaraði kærandi því til að engin breyting hefði orðið á vinnslu hjá fyrirtækinu og engin vítissódagufa hefði farið frá starfseminni. Síðara reglubundna eftirlitið fór fram 9. desember 2020 og í eftirlitsskýrslu vegna þess var greint frá því að öllum eldri frávikum hefði verið lokað. Eitt frávik hefði verið skráð við eftirlitið vegna sýrustigs­mælinga en mælingar sem kærandi hefði sent Umhverfis­stofnun væru ófullnægjandi þar sem ekki væri hægt að lesa úr þeim hve stóran hluta rekstrartíma seinasta árs sýrustigið hefði verið yfir 10 pH. Var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri vegna þessa, sem hann og gerði.

Með bréfi til kæranda, dags. 9. apríl 2021, tilkynnti Umhverfisstofnun um innheimtu viðbótargjalds vegna umfangsmikils eftirlits fyrir árið 2020. Í bréfinu kom fram að þegar hefði verið sendur reikningur fyrir árlegu eftirlitsgjaldi, sbr. 25. gr. gjaldskrár nr. 535/2015 fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar, en gjaldið byggðist á þeirri forsendu að sá tími sem varið væri í eftirlit væri að jafnaði 25 klst. Sagði jafnframt í bréfinu að stofnunin hefði varið 56 klst. í eftirlit með starfseminni og áformaði því að inn­heimta viðbótargjald fyrir þá 31 klst. sem varið hefði verið í eftirlit umfram 25 klst., eða kr. 409.200. Var veittur frestur til 21. apríl s.á. til þess að gera athugasemdir við innheimtuna, en athugasemdir bárust ekki frá kæranda innan þess frests. Í kjölfarið gaf Umhverfisstofnun hinn 7. maí 2021 út reikning fyrir viðbótargjaldinu með gjalddaga sama dag og eindaga 6. júní s.á.

Með bréfi kæranda, dags. 22. júní 2021, voru gerðar athugasemdir við innheimtu umrædds viðbótargjalds og því haldið fram að skilyrðum fyrir gjaldtöku væru ekki fullnægt og að eftirlitsframkvæmd Umhverfisstofnunar hefði brotið í bága við meðalhófsreglu stjórn­sýsluréttar. Væri því óskað eftir afturköllun innheimtunnar. Þeim athugasemdum var svarað af hálfu stofnunarinnar með bréfi, dags. 24. september s.á., en þar kom fram að henni væri heimilt samkvæmt lögum nr. 7/1998 að taka gjald fyrir eftirlit. Á árinu 2020 hefði eftirlit verið án efa nokkuð tímafrekt vegna fráviks varðandi mælingar á sýrustigi, en þar sem kærandi hefði sent ófullnægjandi gögn hefðu sérfræðingar stofnunarinnar lagt nokkra vinnu í að fara yfir mælingarnar. Þá var jafnframt vísað til þess í bréfinu að ákvörðun um álagningu þess gjalds sem um ræddi hefði verið tekin 9. apríl 2021. Kæranda hefði ekki verið leiðbeint um kæruheimild skv. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 og hefði stofnunin því talið rétt að líta svo á að með bréfi, dags. 22. júní s.á., hefði kærandi verið að óska eftir rökstuðningi á grundvelli 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga. Þá var vísað til þess að í þeim tilvikum þar sem aðili færi fram á rökstuðning hæfist kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefði verið kynntur honum, sbr. 3. mgr. 27. gr. laganna. Í kjölfar bréfs Umhverfisstofnunar lagði kærandi fram kæru til úrskurðarnefndarinnar 25. október 2021.

 Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að ekki fáist séð að innheimta gjalds fyrir reglubundið eftirlit falli undir gjaldtökuheimild Umhverfisstofnunar á grundvelli 53. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Álagning þjónustugjalds verði að byggjast á viðhlítandi lagaheimild í samræmi við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Reglubundið eftirlit með starfsemi kæranda fari ekki fram á grundvelli 51. gr. laga nr. 7/1998 heldur á grundvelli 1. mgr. 54. gr. sömu laga. Ákvæðið mæli fyrir um að eftirlit skuli vera með atvinnurekstri sem taki til athugunar á öllum þáttum umhverfisáhrifa viðkomandi starfsemi sem máli skipti sem og hollustuhátta. Fái kærandi ekki séð að innheimta gjalds fyrir reglubundið eftirlit rúmist innan gjaldtökuheimildar Umhverfisstofnunar. Gjaldtakan verði heldur ekki réttlætt með vísan til 2. mgr. 53. gr. laganna, en til þess að gjaldtökuheimild sé gild verði að koma fram í henni fyrir hvaða þjónustu eða verkefni gjaldið sé innheimt. Sé það gert í 1.-4. tl. 1. mgr. 53. gr. með skýrri tilvísun í þau ákvæði sem Umhverfisstofnun sé heimilt að innheimta gjald fyrir, en hvergi komi fram í þeirri lagagrein að Umhverfisstofnun sé heimilt að taka gjald fyrir reglubundið eftirlit samkvæmt 54. gr. sömu laga. Meginreglan sé sú að rekstur opinberra stofnana sé fjármagnaður með skattgreiðslum og beri að túlka undantekningar á því, s.s. heimildir til gjaldtöku, með þröngum hætti. Standi því engin rök til þess að útvíkka gjaldtökuheimild Umhverfis­stofnunar með umræddum hætti og beri þegar af þeirri ástæðu að ógilda hina kærðu ákvörðun.

Verði ekki fallist á framangreindar röksemdir sé því mótmælt alfarið að skilyrði 3. mgr. 25. gr. gjaldskrár nr. 535/2015 fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar hafi verið uppfyllt. Ákvæðið feli í sér undanþágu frá meginreglu 25. gr. um fast gjald vegna reglubundins eftirlits, en hið fasta gjald feli í sér áætlaðan raunkostnað Umhverfisstofnunar af þjónustu við fyrirtæki í hverjum flokki. Ákvæði 3. mgr. 25. gr. veiti einungis heimild til innheimtu viðbótargjalds þegar framkvæmd eftirlits, undirbúningur og/eða úrvinnsla sé sérlega umfangsmikil. Orðalag ákvæðisins og þau dæmi sem þar séu tekin, þ.e. sérstakar aðstæður, fjöldi frávika eða ófullnægjandi upplýsingar, beri öll með sér að áskilja þurfi að eftirlit sé á einhvern hátt umfram áætlun. Því sé haldið fram af Umhverfisstofnun að eftirlit með kæranda hafi orðið tímafrekara, og þar af leiðandi umfangsmeira, en búist hafi verið við vegna fráviks sem hafi stafað af ófullnægjandi gögnum frá kæranda. Þessu sé mótmælt og bent á að einungis eitt frávik hafi verið skráð í eftirliti stofnunarinnar með starfsemi kæranda allt árið 2020. Verði því ekki séð að fjöldi frávika hafi valdið því að eftirlit hafi verið sérlega umfangsmikið. Þá hafi gögn um sýrustigsmælingar ekki verið ófullnægjandi, en þau hafi verið send með sama hætti og ávallt hafi verið gert. Fullyrðingar Umhverfisstofnunar um ófullnægjandi gögn eigi sér heldur enga stoð í gögnum málsins, þ.m.t. tímaskýrslu stofnunarinnar. Samkvæmt skýrslunni séu skráðir 17,65 klst. vegna vinnu í kjölfar eftirlits 9. desember 2020. Gerðar séu verulegar athugasemdir við þessa kostnaðarliði. Bent sé að ef ekki hefði verið fyrir frávikið sem um ræði hefði eftirlit með starfsemi kæranda engu að síður farið vel yfir 25 klst. viðmiðunarmarkið. Samkvæmt tímaskýrslu Umhverfisstofnunar hafi stofnunin þegar eytt tæplega 24 klst. í eftirlit með starfsemi kæranda í september 2020, löngu áður en síðari eftirlitsferðin hafi verið farin. Þá hafi ekkert frávik verið skráð við fyrri eftirlitsheimsókn stofnunarinnar 3. júní s.á.

Af framangreindu verði ekki annað ráðið en að aðalástæðu þess að eftirlit stofnunarinnar hafi reynst „sérlega umfangsmikið“ sé að rekja til þess að hún hafi sjálf áætlað í maí 2020 að þörf væri á tveimur reglubundnum eftirlitsferðum hjá kæranda. Þannig hafi hún í raun ákveðið fyrir fram að eftirlit með kæranda yrði umfangsmikið það ár. Því sé sérstaklega mótmælt að hægt sé að innheimta viðbótargjald á grundvelli. 3. mgr. 25. gr. gjaldskrár Umhverfisstofnunar, enda verði ekki séð að reglubundið eftirlit samkvæmt fyrirframáætlun hlutaðeigandi stjórn­valds geti fallið undir ákvæðið. Yrði í öllu falli að telja eðlilegast að upplýst yrði um slíkt fyrir fram, en mikilvægt sé að ákvarðanir um gjaldtöku stjórnvalds byggist á skýrum og fyrir­sjáanlegum grundvelli sem borgararnir geti kynnt sér, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9970/2019. Einnig séu gerðar alvarlegar athugasemdir við kostnaðarliði vegna vinnu í kjölfar síðari eftirlits­ferðarinnar í desember 2020, en engin gögn hafi fylgt svarbréfi Umhverfisstofnunar sem sýnt hafi fram á það um hvaða vinnu hafi verið að ræða eða hvort hún hafi verið unnin.

Sá tími og kostnaður sem Umhverfisstofnun hafi skráð vegna umrædds eftirlits sé úr öllu hófi, en í mörgum tilvikum hafi stofnunin eytt töluvert meiri vinnu en þurft hefði í venjuleg samskipti. Ekki hafi verið lögð fram nein gögn um stóran hluta vinnu stofnunarinnar samkvæmt yfirliti tímaskráningar, eða tæplega 30 klst., en hin kærða álagning sé vegna 31 klst. viðbótarvinnu. Þá sé skráður tímafjöldi vegna ýmissa verkliða úr hófi. Sem dæmi megi nefna verkliðina „Undirbúningur“ frá 4. maí 2020 og 17. og 18. nóvember s.á., sem Umhverfisstofnun hafi varið í samtals 1,75 klst., en í sérhverju tilviki hafi verið um að ræða mjög stutta tölvupósta um fyrirhugað eftirlit og frestun á eftirliti. Eftirlit sem farið hafi fram 9. desember 2020 hafi tekið innan við klukkustund, en skráð sé að það hafi tekið 2 klst. Ferðatími sé ekki innifalinn í þeirri skráningu heldur séu sérstaklega skráðar 4 klst. í ferðatíma fyrir akstur frá og til Akureyrar. Því sé mótmælt þar sem það taki um klukkutíma og korter að keyra frá Akureyri til Siglufjarðar. Verði heldur ekki séð að stofnuninni sé heimilt að rukka fyrir akstur á grundvelli tímagjalds, enda innheimti stofnunin ferða- og uppihaldskostnað í samræmi við reglur ferðakostnaðar­nefndar fjármálaráðuneytisins, sbr. 2. gr. gjaldskrár Umhverfisstofnunar.

Þegar fyrirkomulag gjaldtöku sem þessarar sé ákveðið og afstaða tekin til fjárhæðar gjaldsins verði að gæta þess að tekjur stjórnvalds séu ekki hærri en svo að þær standi straum af kostnaði við þá eftirlitsaðgerð sem gjaldtökuheimildin nái til. Þannig sé stjórnvaldi í meginatriðum einungis heimilt að taka gjald fyrir beinan kostnað eða kostnað sem standi í nánum efnislegum tengslum við þá þjónustu sem gjaldið eigi að standa straum af. Gangi gjaldtakan lengra að þessu leyti feli hún í sér skattlagningu og þurfi þar af leiðandi lagaheimild sem fullnægi kröfum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Þannig verði Umhverfisstofnun að sýna fram á með full­nægjandi hætti að tímagjald stofnunarinnar samsvari þeim kostnaði sem hafi hlotist við að veita þjónustuna og jafnframt að hún gangi ekki lengra. Af þeim gögnum sem lögð hafi verið fram um eftirlitið verði ekki séð að svo sé. Engin gögn liggi fyrir um meginþorra þeirra verkhluta sem tilgreindir séu í yfirlitinu og sé það ámælisvert, enda sé þannig hvorki sýnt fram á umrædda vinnu né hafi kærandi fengið færi á að andmæla gögnum að baki umræddum verkhlutum þrátt fyrir að hafa óskað eftir aðgengi að þeim. Þessu til viðbótar sé bent á að heildarfjöldi skráðra tíma samkvæmt yfirliti nemi rúmri 51 klst., en reikningur stofnunarinnar byggi hins vegar á 56 klst. eftirliti. Af því verði ekki annað ráðið en að gjaldtakan hafi gengið lengra en svarað hafi til raunkostnaðar og sé hún ólögmæt af þeirri ástæðu.

Þá mótmæli kærandi 25 klst. viðmiði Umhverfisstofnunar við mat á því hvort þjónusta teljist umfangsmikil. Í þessu sambandi sé áréttað að þjónustugjald eigi að samsvara áætluðum kostnaði fyrir það sem almennt kosti að veita tiltekna þjónustu. Þessi meginregla gildi einnig gagnvart stofnuninni, en sú staðreynd að eftirlit fari yfir greint 25 klst. viðmið leiði ekki sjálfkrafa til þess að eftirlit sé orðið umfangsmikið eða að það réttlæti innheimtu tímagjalds í skilningi 3. mgr. 25. gr. gjaldskrár stofnunarinnar. Sé til að mynda litið til tímaskráningar stofnunarinnar virðist eftirlit hennar verða sérlega umfangsmikið um leið og þörf sé á frekari aðkomu en einni reglubundinni eftirlitsferð, en það sé úr öllu hófi. Fjöldi klukkustunda einn og sér geti ekki réttlæt beitingu 3. mgr. 25. gr. gjald­skrárinnar heldur hljóti einhver efnisleg skilyrði að þurfa að vera uppfyllt svo eftirlit geti talist sérlega umfangsmikið. Rétt eins og vinna geti verið undir 25 klst. viðmiði án þess að til endurgreiðslu komi af hálfu stofnunarinnar hljóti vinna að geta farið yfir viðmiðið án þess að til viðbótarkröfu komi.

Tímagjald Umhverfisstofnunar sé einnig óhóflega hátt, en stofnunin innheimti kr. 13.200 fyrir vinnu sérfræðings. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um þjónustugjöld verði að telja að tímagjaldið þurfi að nema raunverulegum kostnaði vegna vinnu sérfræðings fyrir hvern klukkutíma. Kærandi dragi í efa að raunkostnaður vegna vinnu sérfræðinga stofnunarinnar sé svo hár og telji því tímagjaldið ekki vera í neinum tengslum við raunkostnað. Ekki liggi fyrir hvernig fjárhæð tímagjaldsins sé ákveðin, s.s. til hvaða kostnaðarliða sé litið við ákvörðun gjaldsins og þá að hvaða marki. Úrskurðarnefndinni sé rétt að kalla eftir upplýsingum um þetta atriði, sbr. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þótt ekki liggi fyrir upplýsingar um ákvörðun tímagjaldsins hljóti launakostnaður sérfræðinga að vera skýr mælikvarði um það hver sé raunkostnaður af eftirlitsskyldu starfsmanna. Eigi kr. 13.200 tímagjald að samsvara raunverulegum kostnaði vegna vinnu sérfræðings yrði mánaðarlegur launakostnaður hans, gróflega áætlað og byggt á 36 klst. vinnuviku, um kr. 1.900.000 fyrir árið 2020, eða kr. 1.636.800, að frádregnum klukkutíma á dag í matar- og kaffihlé.

Ljóst sé að aðalástæða þess að Umhverfisstofnun hafi skráð eitt frávik við eftirlit hennar hafi verið vegna ófullnægjandi gagna frá kæranda um sýrustigsmælingar. Gögn hafi þó verið send með sama hætti og áður, en ekki hafi verið gerð athugasemd við þau fram að þessu. Verði því ekki annað ráðið en að frávikið hafi verið afleiðing breyttrar stjórnsýsluframkvæmdar hjá stofnuninni. Bent sé á að stjórnsýsluframkvæmd verði ekki breytt nema að hún sé kynnt fyrir­fram og með sanngjörnum fyrirvara, en ella sé um brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga að ræða. Kæranda hafi aldrei verið tilkynnt um þessa breyttu stjórnsýsluframkvæmd og hefði hann vitað af þessari nýju afstöðu sé ljóst að gögnin hefðu verið send með öðrum hætti. Þar sem grundvöllur fyrir fráviki hafi verið ófullnægjandi breyting Umhverfisstofnunar á stjórnsýsluframkvæmd, sem hafi brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, telji kærandi að stofnuninni hafi verið óheimilt að innheimta viðbótarkostnað vegna þeirrar vinnu sem kunni að hafa hlotist af frávikinu.

 Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu Umhverfisstofnunar er vísað til þess að hin kærða stjórnvaldsákvörðun fullnægi kröfum sem gerðar séu í lögum og reglugerðum. Gjaldtökuheimild stofnunarinnar vegna eftirlits byggi á 2. tölulið 1. mgr. 53. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, þ.m.t. vegna sýnatöku, sbr. 51. gr. sömu laga. Í 2. mgr. 53. gr. laganna segi að ráðherra setji, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni sé falið að annast eða stofnunin taki að sér. Upphæð gjalds skuli taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skuli byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds sé byggð á. Gjaldið megi ekki vera hærra en sá kostnaður og skuli birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Í 51. gr. laganna sé fjallað um eftirlit Umhverfisstofnunar en það taki bæði til eftirlitshlutverks stofnunarinnar með lögunum í heild sem og þess beina eftirlits sem stofnuninni viðhafi á grundvelli 1. mgr. 54. gr. sömu laga. Það lagaákvæði fjalli um eftirlit með mengandi starfsemi, sem sé umfangsmesta eftirlit stofnunarinnar, sbr. og X. kafla reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Skorti því ekki lagastoð til gjaldtöku vegna eftirlits með megandi starfsemi.

Grunngjald sé innheimt þegar vinna við eftirlit með mengandi starfsemi sé innan þess tíma­ramma sem birtist í 2. mgr. 25. gr. gjaldskrár nr. 535/2015 fyrir verkefni og þjónustu Umhverfis­stofnunar. Einungis sé um að ræða áætlun sem taki til margra mismunandi rekstraraðila og hafi stofnunin því heimild til innheimtu viðbótargjalds þegar eftirlit með rekstraraðila verði umfangs­meira en gert sé ráð fyrir í gjaldskrá. Í 3. mgr. 25. gr. gjaldskrárinnar séu talin upp nokkur atriði sem geti leitt til þess að vinna við eftirlit verði umfangsmeiri en samkvæmt grunngjaldi, en þar segi að verði eftirlit umfangsmikið, t.d. vegna sérstakra aðstæðna, fjölda frávika eða ófullnægjandi upplýsinga rekstraraðila, skuli innheimta tímagjald sem því nemi skv. 1. gr. gjaldskrárinnar. Upptalning ákvæðisins sé í gerð í dæmaskyni og því geti önnur og fleiri tilvik fallið undir ákvæðið. Eitt þeirra atriða sem talið sé upp í ákvæðinu, þ.e. ófullnægjandi upplýsingar frá rekstraraðila, eigi þó við í þessu máli. Sú forsenda búi hér að baki viðbótargjaldi að kostnaður vegna vinnu stofnunarinnar við eftirlit með mengandi starfsemi eigi samkvæmt greiðslureglu umhverfisréttarins, þ.e. mengunar­bótareglu, ekki að falla á almenning heldur rekstraraðila.

Skýrsluskrif og vinna við eftirlit séu almennt tímafrekari þegar frávik hafi verið skráð heldur en þegar rekstraraðili uppfylli þær kröfur sem gerðar séu til hans í starfsleyfi, reglugerðum og lögum. Þegar eldri frávik séu opin, þ.e. þegar að rekstraraðili hafi ekki brugðist við kröfum Umhverfisstofnunar og þegar viðkomandi fráviki frá starfsleyfi hafi ekki verið lokað, sé undir­búnings­tími eftirlitsmanna vegna eftirlits almennt meiri en þegar engin frávik hafi verið skráð. Því hafi ekki verið haldið fram að meiri tíma hafi verið eytt við vinnu við eftirlit á árinu 2020 vegna fráviks sem hafi varðað mælingar á sýrustigi. Kærandi hafi sent stofnuninni ófullnægjandi gögn sem hafi ekki sýnt með óyggjandi hætti hvort mælingar væru undir leyfilegum mörkum samkvæmt starfsleyfi. Sérfræðingar stofnunarinnar hafi því lagt í nokkra vinnu við að fara yfir mælingarnar og í samskipti við kæranda í tengslum við frávikið.

Eðli frávika sem stofnunin skrái vegna mengandi starfsemi geti verið ýmis konar. Þau geti verið einföld úrlausnar, t.d. ef rekstraraðila hafi láðst að hafa viðeigandi öryggisblöð aðgengileg á stað þar sem efnameðferð fari fram, en þá felist úrbætur í því að slík blöð verði gerð aðgengileg. Frávikin geti einnig verið mun flóknari og krafist mikillar sérþekkingar auk aðkomu og samráðs við fleiri en einungis þá sem sinni því eftirliti sem um ræði. Það geti því verið að vinna stofnunarinnar vegna eins fráviks verði svo umfangsmikil að tímafjöldi fari umfram grunngjald stofnunarinnar skv. 25. gr. gjaldskrár stofnunarinnar nr. 535/2015. Eftirlit með starfsemi kæranda hefði farið yfir 25 klst. viðmið gjaldskrárinnar jafnvel þótt ekki hefði verið fyrir nefnt frávik. Bent sé á að samkvæmt verkbókhaldi stofnunarinnar hafi hún eytt tæpum 24 klst. við eftirlit með starfsemi kæranda í september 2020 áður en farið hafi verið í síðari eftirlitsferð þrátt fyrir að ekki hafi verið skráð frávik við fyrri eftirlitsheimsókn 3. júní s.á.

Í eftirlitsferðum Umhverfisstofnunar árin 2018 og 2019 hafi einnig verið skráð frávik vegna sýrustigs­mælinga, en niðurstöður þeirra hafi verið yfir mörkum starfsleyfis bæði árin. Vinna sérfræðinga stofnunarinnar tengd frávikinu hafi ekki eingöngu farið fram eftir seinna eftirlit ársins þar sem frávikið hafi áður verið skráð í eftirlitum fyrri ára. Í þessu samhengi telji stofnunin rétt að benda á að í fyrra eftirliti ársins 2020 hafi verið skráð ábending vegna sýru­stigsmælinga. Það sé hlutverk stofnunarinnar sem eftirlitsaðila að taka málið föstum tökum og ganga á eftir því að rekstraraðili bæti úr fyrirkomulagi sýrustigsmælinga til að tryggja að sýru­stig sé undir leyfilegum mörkum samkvæmt starfsleyfi.

Samkvæmt 4. mgr. 54. gr. laga nr. 7/1998, sbr. einnig 4. mgr. 57. gr. áðurnefndar reglugerðar nr. 550/2018, beri Umhverfisstofnun skylda til þess að gera reglulega áætlanir um reglubundið eftirlit með atvinnurekstri samkvæmt viðaukum I-IV, þ.m.t. um tíðni vettvangsheimsókna fyrir mismunandi starfsemi. Tímabilið milli tveggja vettvangsheimsókna skuli byggjast á kerfis­bundnu mati á umhverfisáhættu viðkomandi starfsemi og skuli fyrir starfsemi samkvæmt viðaukum I og II ekki vera lengra en eitt ár fyrir starfsemi sem valdi mestri áhættu en þrjú ár fyrir starfsemi sem valdi minnstri áhættu. Stofnuninni sé því skylt að útbúa kerfisbundið mat á umhverfisáhættu, þ.e. áhættumat. Í a-, b- og c-liðum 4. mgr. 57. gr. reglugerðar nr. 550/2018 komi fram þau viðmið sem stofnunin skuli byggja á við gerð áhættumats. Kerfisbundið áhættumat byggist á því að greina starfsemina með tilliti til hættu og líkum á atvikum sem kunni að leiða til umtalsverðra umhverfisáhrifa.

Í skýrslu vegna eftirlits með starfsemi kæranda 3. október 2019 komi fram að áhættumat til ákvörðunar á tíðni eftirlitsferða hafi verið kynnt kæranda. Einnig komi þar fram að Umhverfisstofnun muni í lok árs framkvæma heildræna rýni á niðurstöður áhættumatsins og nota til ákvörðunar á tíðni eftirlitsferða frá og með árinu 2020. Nánar sé gerð grein fyrir áhættumatinu í landsáætlun um eftirlit og áætlun um reglubundið eftirlit stofnunarinnar sem nálgast megi á heimasíðu stofnunarinnar. Í skýrslu vegna eftirlits með starfsemi kæranda 3. júní 2020 komi fram að farið hafi verið yfir áhættumat til ákvörðunar á tíðni eftirlits. Þar segi að kærandi hafi farið í eftirlitsflokk A, sem geri tvö eftirlit á ári. Hlustað hafi verið á athugasemdir hans og verði tekið mið af þeim þegar áhættumatið verði endurskoðað í haust.

Vinna Umhverfisstofnunar varðandi eftirlit með mengandi starfsemi sé fólgin í ýmsu. Þegar samskipti eigi sér stað á milli sérfræðinga stofnunarinnar og rekstraraðila sé oft svo að viðkomandi sérfræðingur þurfi, fyrir eða eftir að viðkomandi samskipti eigi sér stað, að huga að ýmsu öðru, t.d. leita sér upplýsinga tengdum þeim samskiptum sem um ræði. Sá tími sem sérfræðingur eyði í samskipti við rekstraraðila sé því oft fólginn í fleiru en eingöngu beinum samskiptum. Varðandi athugasemdir um skort á gögnum til þess að sýna fram á um hvaða vinnu hafi verið að ræða þá sé bent á að sérfræðingar stofnunarinnar skrái ekki niður nákvæmlega hvaða verkefnum þeir sinni hverju sinni. Vinnan sé skráð í verkbókhald stofnunarinnar en undir hverju verknúmeri séu nokkrir verkhlutar, m.a. verkhlutinn „Skýrslur og bréf“. Áhersla sé lögð á að sérfræðingar skrái undir hvaða verkhluta viðkomandi vinna falli en ekki nákvæmlega hvaða faglegu þáttum þeir sinni. Varðandi tímalengd ferða frá Akureyri til Siglufjarðar og til baka sé bent á að seinna eftirlitið hafi farið fram í desember, en þann dag hafi verið hált og því seinfært. Ekki hafi því tekið klukkutíma og korter að keyra aðra hvora leiðina.

Reglur ferðakostnaðarnefndar fjármálaráðuneytisins, sbr. 2. gr. gjaldskrárinnar, taki til aksturs ríkisstarfsmanna á eigin bílum og dagpeninga vegna ferða almennra ríkisstarfsmanna. Í eftirliti stofnunarinnar, þ.e. vettvangsheimsóknum, sé eðli máls samkvæmt nauðsynlegt fyrir eftirlits­mann að komast á staðinn. Hluti af umfangi vinnu eftirlitsmanns við eftirlit felist því í ferðum fram og til baka á viðkomandi stað. Ekki verði séð hvernig reglur ferðakostnaðarnefndar komi í veg fyrir að stofnunin innheimti tímagjald sérfræðings við ferðir.

Í 2. gr. gjaldskrár stofnunarinnar sé veitt heimild til að innheimta fyrir ferðakostnað í samræmi við reglur ferðakostnaðarnefndar, þ.e. að stofnunin innheimti útlagðan kostnað sem greiddur væri til starfsmanna vegna aksturs á eigin bílum eða vegna dagpeninga. Eftirlitsmenn fái hvorki greidda aksturspeninga né dagpeninga fyrir ferðir og séu ekki á eigin bílum heldur á bílaleigubíl eða bíl stofnunarinnar þegar þess þurfi. Stofnunin innheimti því ekki slíkan kostnað samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar varðandi eftirlit með mengandi starfsemi en ferðakostnaður, t.d. vegna bílaleigubíls eða flugs, sé innifalinn í grunngjaldi. Þar að auki séu tímarnir sem um ræði og birtist í yfirliti stofnunarinnar sá tími sem viðkomandi sérfræðingur eyði í ferðir ekki ferða- og uppihalds­kostnaður.

Kærandi hafi fengið aðgang að gögnum málsins 2. september 2021 og hafi því fengið tækifæri til þess að kynna sér þau. Stofnuninni hafi ekki borist andmæli rekstraraðila við gögnunum. Í verkferli stofnunarinnar um innheimtu viðbótargjalds vegna mengunareftirlits komi fram að viðbótargjald sé innheimt ef tímafjöldi umfram grunngjald séu tíu eða fleiri. Það að skráðir séu fleiri tímar í verkbókhald en gert sé ráð fyrir í grunngjaldi þýði því ekki að stofnunin innheimti sjálfkrafa fyrir því sem nemi þeim tímum. Hvert tilvik sé tekið til skoðunar og metið hvort álagning viðbótargjalds sé forsvaranlegt. Bent sé á að tímagjald stofnunarinnar hafi ekki breyst síðan gjaldskrá nr. 535/105 hafi verið sett árið 2015 þrátt fyrir breytingar á vísitölu og verðbólgu. Tímagjaldið byggist ekki á geð­þóttaákvörðun stofnunarinnar heldur sé það fast­ákveðið og ófrávíkjanlegt.

Áréttað sé að tíðni vettvangsheimsókna grundvallist á niðurstöðum áhættumats. Seinna eftirlit ársins 2020 hafi því ekki verið vegna fráviks um sýrustigsmælingar. Eins og komi fram í skýrslu vegna eftirlits 3. júní 2020 hafi verið skráð frávik í eftirlitum áranna 2018 og 2019 varðandi sýrustigsmælingar. Niðurstöður mælinga hefðu verið yfir mörkum starfsleyfis kæranda bæði árin. Kærandi hefði gefið þá skýringu í eftirliti 3. júní 2020 að froða hefði safnast upp í fráveitubrunni við þrif á húsnæðinu og að mælirinn sæti í froðunni þegar ekkert gegnumstreymi væri um brunninn, t.d. um helgar, en því sýndi mælirinn falska niðurstöðu. Kærandi hefði lagt til að hann myndi láta ferskt vatn drjúpa á mælinn bæði til þess að hreinsa froðuna af mælinum og eins til þess að halda mælinum rökum þegar vatnshæð lækkaði í brunninum. Stofnunin hefði fallist á þetta sem tilraunaverkefni. Í skýrslu vegna eftirlits 3. júní 2020 sé að finna ábendingu um að stofnunin hafi óskað eftir mæligögnum yfir tveggja vikna tímabil fyrir og eftir fyrirhugaðar breytingar til að staðfesta niðurstöður sýrustigsmælinga og að niðurstöður hafi verið innan leyfilegra marka þegar rekstur hafi verið í gangi. Jafnframt hafi komið fram í skýrslunni að vatnsmagn til skolunar á mælinum mætti ekki vera til þynningar á efnamagni í fráveitu og mætti heldur ekki skekkja sýrustigsmælingar rekstraraðila. Tekið hafi verið fram að ekki væri um varanlega lausn að ræða og að það yrði að endurhanna bruninn þannig að sýrustigsmæli yrði komið fyrir neðan við yfirborð fráveituvatns svo hann gæti mælt sýrustig fráveituvatns eins og tilskilið væri. Skoða skyldi niðurstöður þessarar tilraunar í næsta eftirliti og hafi það verið gert í eftirliti 9. desember 2020. Af þeim gögnum sem hefðu borist stofnuninni hefði ekki verið hægt að ráða hvort sýrustig hefði verið innan marka starfsleyfisins, en um hefði verið að ræða mynd af grafi og gögnin því ófullnægjandi.

Í eftirliti 9. desember 2020 hefði verið rætt um sýrustigsmælingar, en þar hefði komið fram að nú væri farið að mæla sýrustig á annan hátt en áður. Mælt væri u.þ.b. tíu sinnum á mínútu og meðaltal reiknað út frá því. Að mati kærandi myndi þetta jafna út toppa sem gætu komið upp en endurspeglaði þó ekki meðaltal sýrustigs á hverjum tíma. Einnig hefði komið fram að ef pera sem notuð væri til að mæla sýrustig yrði færð neðar í brunninn myndi hún lenda í drullu og eyðileggjast, en hún mætti samt ekki vera ofan við yfirborð vatns því þá myndi hún þorna og eyðileggjast. Á þessum tíma hefðu dropar enn þá verið látnir renna á peruna svo hún myndi ekki þorna. Eftir eftirlitið hefði fulltrúi Umhverfisstofnunar þurft að taka saman allar upplýsingar sem hún hefði haft um sýrustigsmælingar frá kæranda og hvernig þeim væri háttað. Þetta hefði verið gert vegna þess að um hefði verið að ræða frávikasögu sem hefði spannað þó nokkurn tíma og ekki ljóst hvort kærandi hefði í raun verið búinn að ná tökum á sýrustigsmælingum sínum. Vinnan við að staðfesta að fyrirkomulag þessara mælinga væri ásættanlegt hefði verið tímafrekt og krafist sértækrar þekkingar sem viðkomandi eftirlitsmaður hefði aflað sér með lestri gagna og frá öðrum starfsmönnum stofnunarinnar.

 Ekki sé um breytta stjórnsýsluframkvæmd að ræða og þar af leiðandi sé ekki um brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi beri ábyrgð á að gögn sem hann sendi eftirlitsaðila séu fullnægjandi, en í eftirliti hafi kærandi verið upplýstur um að gögn hafi verið ófullnægjandi. Hafi stofnunin verið í samskiptum við hann um hvernig hægt væri að bæta úr. Í þeim tilvikum þar sem gögn frá rekstraraðila séu ófullnægjandi eða illgreinanleg sé yfirferð þeirra mun tímafrekari fyrir viðkomandi sérfræðing.

Sérfræðingar Umhverfisstofnunar hafi skráð 53,87 klst. í verkbókhald vegna eftirlits með kæranda. Í bókhaldinu sé einnig að finna töflu sem hafi fylgt með bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 9. apríl, þar sem tilkynnt hafi verið um álagningu viðbótargjalds. Í töflunni sé að finna yfirlit yfir tímana eftir verkhlutum og megi sjá að samtals sé um að ræða 56,02 klst. Þar á meðal sé vinna við gerð áhættumats sem nemi 0,85 klst. og vinna vegna umsjónar með eftirlitsflokknum sem nemi 1,3 klst. Sá tími sem hafi verið varið í vinnu við áhættumat hafi verið deilt á alla starfsleyfishafa sem stofnunin hafi eftirlit með á meðan heildarfjöldi skráðra tíma vegna umsjónar með eftirlitsflokknum sé deilt á alla þá sem hafi starfsleyfi og falli undir þann málaflokk.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að álagning þjónustugjalds verði að vera á grundvelli skýrrar lagaheimildar og beri að túlka undantekningar, s.s. gjaldtöku­heimildir á grundvelli víðara samhengis, með þröngum hætti. Þá ítreki kærandi að hér sé ekki eingöngu um að ræða gjaldtöku fyrir reglubundið eftirlit heldur sé gengið töluvert lengra af hálfu Umhverfisstofnunar. Telji kærandi því eftir sem áður að gjaldtaka stofnunarinnar byggi á ófullnægjandi lagaheimild.

Áður en fjallað sé um röksemdir fyrir því að skilyrði 3. mgr. 25. gr. gjaldskrár nr. 535/2015 fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar hafi verið uppfyllt vilji kærandi staldra við þá fullyrðingu stofnunarinnar að gjald fyrir reglu­bundið eftirlit skv. 2. mgr. 25. gr. sé grunngjald. Meginreglan sé sú að stofnunin innheimti gjald fyrir reglubundið eftirlit en hins vegar geti stofnunin innheimt viðbótargjald sé framkvæmd eftirlits, undirbúningur og/eða úrvinnsla sérstaklega umfangsmikil. Það skilyrði hafi ekki verið uppfyllt. Sú staðreynd að eftirlitið hafi farið fram yfir þann tímafjölda sem skírskotað sé til innan sviga og án nokkurrar frekari útfærslu í 2. mgr. 25. gr. geti ekki ein og sér leitt til þess að eftirlit verði sérlega umfangsmikið. Kærandi ítreki í þessu sambandi að það hafi verið óhjákvæmileg afleiðing af áhættumati Umhverfisstofnunar að farið yrði yfir 25 klst. viðmið stofnunarinnar.

Bent sé á að grunnskilyrði 3. mgr. 25. gr. gjaldskrárinnar sé að framkvæmd eftirlits, undir­búningur og/eða úrvinnsla sé sérlega umfangsmikil. Skýrt sé af orðalagi ákvæðisins að eftirlit þurfi á einhvern hátt að vera umfram áætlun til þess að heimilt sé að innheimta viðbótargjald. Ekki hafi verið sýnt fram á að eftirlit með kæranda hafi verið sérlega umfangsmikið og virðist röksemdir stofnunarinnar þar að lútandi vera á nokkru reiki. Sé í fyrsta lagi vísað til þess, rétt eins og í hinni kærðu ákvörðun, að ófullnægjandi gögn hafi verið ástæða þess að eftirlit með kæranda hafi orðið sérlega umfangsmikið í skilningi 3. mgr. 25. gr. gjald­skrárinnar. Í öðru lagi sé fjallað um að eldri frávik frá árunum 2018 og 2019 hafi haft þýðingu. Í hinni kærðu ákvörðun hafi hins vegar aldrei komið fram að frávik frá þeim árum hafi haft nokkra þýðingu við umfang eftirlitsins.

Því sé sérstaklega mótmælt hvernig Umhverfisstofnun hafi ákvarðað ferðakostnað, þ.e. að rukkað sé fyrir akstur á grundvelli tímagjalds. Slíkt fyrirkomulag feli í sér augljósa mismunun á grundvelli þess hversu langt frá starfsstöð stofnunarinnar starfsemi leyfishafa sé staðsett og hversu heppinn viðkomandi leyfishafi hafi verið með veður á ferðadegi. Auk þess verði ekki séð að stofnunin hafi heimild til að reikna sér tímagjald á meðan ekið sé til Siglufjarðar þegar ákvæði gjaldskrárinnar geri ráð fyrir sérstöku kílómetragjaldi.

 Ekki verði séð að sú vinnuregla Umhverfisstofnunar að innheimta ekki viðbótargjald nema tímafjöldi umfram grunngjald sé tíu eða fleiri hafi verið birt nokkurs staðar eða hafi verið gerð kæranda aðgengileg. Samt sem áður virðist stofnunin gera regluna að grundvelli fyrir innheimtu íþyngjandi viðbótarþjónustugjalds. Ljóst sé að innheimta þjónustu­gjalds á grundvelli verklagsreglna stjórnvalds uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu til þjónustugjalda, s.s. á grundvelli lögmætisreglu. Stofnuninni hafi borið að styðjast eingöngu við 3. mgr. 25. gr. og meta hvort eftirlit hafi verið sérlega umfangsmikið.

Röksemdir Umhverfisstofnunar séu ekki í samræmi við hina kærða ákvörðun hvað varði frávik um sýrustigsmælingar. Enn fremur virðist röksemdirnar styðja þá ályktun kæranda að flokkun á kæranda í eftirlitsflokk A hafi ein og sér leitt til þess að um sérlega umfangsmikið eftirlit hafi verið að ræða. Kærandi mótmæli þessu enda geti reglubundið eftirlit, sem sé fyrirfram ákveðið að umfangi, ekki talist sérlega umfangsmikið. Í slíkum tilvikum hljóti eingöngu að vera um að ræða venjulegt eftirlit samkvæmt meginreglu 2. mgr. 25. gr. gjaldskrárinnar. Hvað varði frávikið sjálft ítreki kærandi að um breytta stjórnsýsluframkvæmd hafi verið að ræða. Kærandi hafi sent gögn um sýrustig með sama hætti frá árinu 2013 án nokkurra athugasemda af hálfu Umhverfis­stofnunar. Ekki hafi því verið nein leið fyrir kæranda að vita af þessari breyttu afstöðu árið 2020. Það fullnægi engan veginn áskilnaði meginreglna stjórnsýsluréttar um þjónustugjöld að byggja gjaldtöku á „fastákveðinni og ófrávíkjanlegri“ gjaldskrá sem sé, þegar þetta sé ritað, orðin sjö ára gömul. Sé í því sambandi ítrekað að þjónustugjald eigi að endurspegla kostnaðargrunn stjórnvalds við veitingu þeirrar þjónustu sem gjaldinu sé ætlað að standa undir. Miðað við þessa afstöðu Umhverfisstofnunar megi líta svo á að umrædd gjaldtaka sé í reynd skattlagning en ekki innheimta þjónustugjalds. Þessi afstaða renni enn fremur frekari stoðum undir þá afstöðu kæranda að úrskurðarnefndin kalli eftir gögnum sem sýni hvernig gjaldið sé ákvarðað og hvaða þjónustu því sé ætlað að standa undir.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti álagningar viðbótargjalds vegna mengunarvarna­eftirlits Umhverfisstofnunar með starfsemi kæranda. Var kærandi upplýstur um að til stæði að leggja á greint viðbótargjald með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. apríl 2021, en líta verður svo á að ákvörðun um hina kærðu álagningu hafi þó ekki verið tekin fyrr en með útgáfu reiknings stofnunarinnar 7. maí s.á. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að og var kærufrestur því liðinn er kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni 25. október 2021. Hins vegar voru leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest hvorki að finna í bréfi stofnunarinnar, dags. 9. apríl 2021, né í reikningi hennar frá 7. maí s.á., svo sem skylt er að gera skv. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því að telja afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist að kærufresti liðnum, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, og verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Að meginstefnu til er fjár vegna lögbundinna verkefna ríkis og sveitarfélaga aflað með almennri skattheimtu. Umhverfisstofnun er þó heimilt skv. 2. tölulið 1. mgr. 53. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir að taka gjald fyrir eftirlit, þ.m.t. sýnatöku, sbr. 51. gr. sömu laga. Ekki verður á það fallist með kæranda að gjaldtaka vegna eftirlits Umhverfis­stofnunar sé bundin við það eftirlit sem sérstaklega er tilgreint í 51. gr. laganna heldur eigi heimildin við um lögbundið eftirlit stofnunarinnar, þ. á m. það eftirlit sem hér um ræðir.

Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 7/1998 setur ráðherra, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni er falið að annast eða stofnunin tekur að sér. Skal upphæð gjalds taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal hún byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birta í B-deild Stjórnartíðinda. Ráðherra hefur nýtt sér greinda heimild og var gjaldskrá nr. 535/2015 fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. júní 2015. Gjald fyrir útselda vinnu sérfræðings skv. 1. gr. gjaldskrárinnar er kr. 13.200 á hverja klukkustund fyrir verkefni og þjónustu sem stofnuninni eru falin í lögum og reglugerðum og sem heimilt er að taka gjald fyrir. Í 2. gr. gjaldskrárinnar er fjallað um ferðakostnað og er þar kveðið á um að Umhverfistofnun innheimti ferða- og uppihaldskostnað í samræmi við reglur ferðkostnaðar­nefndar fjármálaráðuneytisins. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. gjaldskrárinnar inn­heimtir Umhverfis­­stofnun gjald af fyrirtækjum sem stofnunin hefur eftirlit með skv. 57. gr. reglugerðar nr. 550/2018, um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, og stunda atvinnurekstur sem talinn sé upp í viðauka I, VII og IX með reglugerðinni. Í 2. mgr. 25. gr. gjaldskrárinnar segir að vegna reglubundins eftirlits skv. 57. gr. reglugerðar nr. 550/2018 og eftirlits sem nánar sé kveðið á um í starfsleyfi fyrirtækis skuli innheimta nánar tilgreint gjald. Í gjaldaflokki 3 er gjaldið að fjárhæð kr. 446.000 og í því gjaldi er gert ráð fyrir 25 klst. vinnu. Þá segir í 3. mgr. 25. gr. gjaldskrárinnar að sé framkvæmd eftirlits, undirbúningur og/eða úrvinnsla sérlega umfangsmikil, t.d. vegna sérstakra aðstæðna, fjölda frávika eða ófullnægjandi upplýsinga rekstraraðila, skuli innheimta tímagjald sem því nemi skv. 1. gr. Reikningur skuli gefinn út þegar eftirlitsskýrsla liggi fyrir.

Meðal framlagðra gagna í máli þessu er svokallað verk­bókhald Umhverfisstofnunar vegna vinnu stofnunarinnar við eftirlit með starfsemi kæranda. Þar er m.a. greint frá því að 2,5 klst. hafi farið í vinnu undir verkhlutanum „Fyrirspurnir“ og þar af er 0,5 klst. með skýringunni „ábending um vítis[s]sódagufur“ og 0,5 klst. með skýringunni „v fráveitu“. Þá eru 1,72 klst. skráð í verkhlutanum „Annað“ án frekari skýringa. Jafnframt er í verkhlutanum „Eftirlitsferð“ skráðar 4 klst. með skýringunni „Ferðatími“, en sú skráning mun vera vegna aksturs frá starfsstöð Umhverfisstofnunar á Akureyri til starfsstöðvar kæranda á Siglufirði og til baka. Hefur stofnunin upplýst að sá ferðatími hafi verið tvöfalt lengri en í venjulegu árferði þar sem færðin hafi verið slæm þann tiltekna dag. Einnig er í verkbókhaldinu að finna skráningar vegna tölvupóstsamskipta á milli starfsmanns stofnunarinnar og kæranda um það hvenær henti að fara í eftirlitsferð. Að lokum er í bókhaldinu líka að finna skráningar vegna leiðbeiningar frá starfsmanni Umhverfis­stofnunar til kæranda um skil á niðurstöðum sjósýnatöku í tengslum við grænt bókhald.

Úrskurðarnefndin óskaði frekari skýringa á framangreindum liðum í verkbókhaldi Umhverfis­stofnunar. Hvað varðar vinnu vegna ábendingar um vítíssódagufur þá mun hún hafa falið það í sér að stofnuninni barst nafnlaust símtal þar sem komið var á framfæri ábendingu um vítissódagufur frá starfsemi kæranda og ábendingunni komið áleiðis til kæranda með tölvupósti og spurt hvort einhver breyting hefði orðið á starfseminni sem gæti útskýrt gufurnar. Svaraði kærandi fyrirspurninni neitandi og verður ekki annað séð en að málinu hafi verið lokið við það. Hvað varðar vinnu vegna fráveitu þá mun Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra hafa borist ábending um litabreytingu við affall í sjó við starfsstöð kæranda og kom eftirlitið ábendingunni áleiðis til Umhverfis­stofnunar. Stofnunin kom henni síðan áleiðis til kæranda með fyrirspurn um hvort skýringar lægju fyrir. Kærandi svaraði þeirri fyrirspurn og taldi að þær ljósmyndir sem fylgt hefðu ábendingunni vera af klaka eða snjó sem vörubílar hefðu keyrt í sjóinn. Eftir að Umhverfisstofnun svaraði eftirlitinu með vísan til svara kæranda verður ekki annað séð en að málinu hafi þar með verið lokið.

Samkvæmt 54. gr. laga nr. 7/1998 skal eftirlit vera með atvinnurekstri, sbr. viðauka I-IV, sem tekur til athugunar á öllum þáttum umhverfisáhrifa viðkomandi starfsemi sem máli skipta, sem og hollustuhátta. Að því orðalagi virtu verður ekki talið að sú vinna sem fór í að sinna ábendingum vegna vítissódagufa og fráveitu geti fallið undir gjaldtökuheimild Umhverfis­stofnunar vegna eftirlits með starfsemi kæranda, enda er ekkert fram komið í málinu um að ábendingarnar hafi varðað umhverfisáhrif frá starfsemi kæranda. Að sama skapi verður heldur ekki á það fallist að annars vegar samskipti um hentuga tímasetningu fyrir eftirlitsferð og hins vegar akstur til og frá starfsstöð rekstraraðila falli undir mengunarvarnaeftirlit í skilningi laganna.

Á stjórnvöldum hvílir rík almenn leiðbeiningarskylda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. nefndrar 7. gr. segir að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Þó hefur verið litið svo á að í því felist ekki skylda til að veita umfangsmikla og sérfræðilega ráðgjöf. Með hliðsjón af fyrrnefndri meginreglu um að fjár vegna lögbundinna verkefna ríkis og sveitarfélaga sé aflað með skattheimtu nema fyrir hendi sé gjaldtökuheimild í lögum er ljóst að þau verkefni sem stjórnvöld sinna á grundvelli leiðbeiningarskyldu sinnar verða að vera veitt án gjaldtöku. Telja verður að sú vinna Umhverfisstofnunar er fólst í að svara fyrirspurnum vegna græns bókhalds sé þáttur í lögbundinni leiðbeiningarskyldu stofnunarinnar, en gögn málsins bera ekki með sér að um umfangsmikla og sérfræðilega ráðgjöf hafi verið ræða. Var Umhverfis­stofnun því ekki rétt að telja þá vinnu með við álagningu umdeilds viðbótargjalds.

Með hliðsjón af því sem nú hefur verið rakið verður ekki talið að umrædd gjaldtaka uppfylli skilyrði 53. gr. laga nr. 7/1998 þess efnis að upphæð gjalds vegna eftirlits megi ekki vera hærri en kostnaður við veitta þjónustu, enda voru a.m.k. framangreindir kostnaðarliðir úr verkbókhaldi Umhverfisstofnunar ranglega lagðir gjaldtökunni til grundvallar. Verður hin kærða álagning því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 7. maí 2021 um álagningu viðbótargjalds á kæranda að fjárhæð kr. 409.200 vegna mengunarvarnaeftirlits.