Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

95/2022 Skotvöllur í Álfsnesi

Árið 2022, miðvikudaginn 26. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindmála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 95/2022, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur frá 26. júlí 2022 um að gefa út starfsleyfi til Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis fyrir rekstri skotvallar í Álfsnesi.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 25. ágúst 2022, er barst nefndinni 26. s.m., kæra sjö íbúar og fasteignaeigendur í Kollafirði þá ákvörðun Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur frá 26. júlí 2022 að gefa út starfsleyfi til Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis fyrir rekstri skotvallar í Álfsnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að hlutlausir sérfræðingar framkvæmi hljóðmælingar og rannsaki blýmengun í fjöru og sjó í Djúpavík. Þá verður einnig að skilja kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Málsatvik og rök: Hinn 15. febrúar 2022 sótti Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis um starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur fyrir starfsemi félagsins á skotvelli þess í Álfsnesi á Kjalarnesi. Heilbrigðiseftirlitið óskaði 1. mars s.á. eftir umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkur um hvort umsóknin væri í samræmi við skipulag. Í umsögn skipulagsfulltrúa frá 18. maí s.á. er komist að þeirri niðurstöðu að heimilt sé samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 að endurnýja starfsleyfi einstakra rekstraraðila til skemmri tíma, enda gildistími starfsleyfis innan tímamarka gildandi skipulagstímabils og uppbygging. Leggur skipulagsfulltrúi til að gefið verði út starfsleyfi til skemmri tíma með ákveðnum skilyrðum um þau atriði sem helst hafi verið gerðar athugasemdir við og varða opnunartíma, umhverfisþætti og hljóðmengun. Tillaga að starfsleyfi var auglýst á vefsvæði heilbrigðiseftirlitsins 3. júní 2022 og var frestur til að koma að athugasemdum veittur til 1. júlí s.á. Á afgreiðslufundi heilbrigðiseftirlitsins 26. s.m. var samþykkt að gefa út starfsleyfi til 31. október 2026 með sértækum starfsleyfisskilyrðum fyrir starfsemi skotvallarins auk almennra starfsleyfisskilyrða fyrir mengandi starfsemi.

Kærendur benda á að samkvæmt rannsókn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á blý- og hávaðamengun vegna skotvallar á Álfsnesi frá árinu 2020 berist blýhögl niður í fjöru og sjó. Djúpavík í Kollafirði sé mikilvæg byggð fyrir sjófugla og sé mikið varp í klettunum, en að auki sé mikið lífríki í fjöru, á grunnsævi og hafsbotninum. Heilbrigðiseftirlitið hafi virt að vettugi kröfu kærenda um að lagt verði bann við blýnotkun á Álfsnesi. Þá hafi það aldrei krafið leyfishafa um að framkvæma jarðvegsmælingu þó kveðið hafi verið á um það í starfsleyfi þess í 17 ár að sú mæling eigi að fara fram á fimm ára fresti. Leyfishafi hafi heldur aldrei lagt yfirborðslag úr jarðefni sem bindi vel þungmálma heldur hafi blýi verið skotið út í fjöru og sjó í tæp 20 ár. Evrópusambandið hafi bannað allt blý við votlendi þar sem ein milljón fugla drepist ár hvert í Evrópu þegar þeir innbyrði blýhögl.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vekur athygli á að notkun á blýhöglum á skotvelli leyfishafa sé bönnuð í hinu kærða starfsleyfi, sbr. gr. 2.1 í starfsleyfisskilyrðum skotvallarins. Starfsemin valdi því ekki blýmengun þar sem notkun blýhagla sé þegar óheimil. Því sé ekki tilefni til að stöðva starfsemina af þeirri ástæðu sem kærendur vísi til.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum vegna fyrirliggjandi kröfu um frestun réttaráhrifa en hann hefur ekki nýtt sér það tækifæri.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar, og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með nefndri lagagrein í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Þá segir í athugasemdum við 5. gr. með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar.

Í kærumáli þessu eru aðilar máls fleiri en einn og hafa þeir andstæðra hagsmuna að gæta, en sem fyrr greinir mælir slíkt gegn því að fallist verði á kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa. Málsrök kærenda varða hættu á blýmengun í fjöru og sjó í Djúpavík vegna notkunar blýhagla í starfsemi leyfishafa. Samkvæmt gr. 2.1 í starfsleyfisskilyrðum fyrir skotvöll í Álfsnesi er notkun blýhagla óheimil. Verður af þeim sökum ekki ætlað að hætta sé á blýmengun af völdum umdeildrar starfsemi og verður kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa starfsleyfisins því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa vegna ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 26. júlí 2022 um að gefa út starfsleyfi til Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis fyrir rekstri skotvallar í Álfsnesi.