Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

26/2022 Orustustaðir

Árið 2022, föstudaginn 28. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson, formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2022, kæra vegna synjunar skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps frá 25. janúar 2022 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja fyrsta hluta hótelbyggingar á Orustustöðum í Skaftárhreppi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. mars 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir A synjun byggingarfulltrúa Skaftárhrepps frá 22. febrúar s.á. um leyfi til að byggja fyrsta hluta hótelbyggingar á eignarjörð hans Orustustöðum í Skaftárhreppi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skaftárhreppi 29. apríl 2022.

Málavextir: Jörðin Orustustaðir mun hafa farið í eyði um 1950, en hún liggur þar sem heitir Brunasandur í Skaftárhreppi. Kærandi hefur unnið að því um nokkurt skeið að þar verði byggt hótel og tengd starfsemi, svo sem nánar er rakið í kæru. Árið 2015 tók gildi breyting á Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010–2022. Fól breytingin m.a. í sér að landbúnaðarsvæði var breytt í 15 ha verslunar- og þjónustusvæði og á því gert ráð fyrir um 7.000 m² hóteli á tveimur hæðum. Þá kom fram í greinargerð með breytingunni að skilgreina þyrfti héraðsveg að svæðinu, en enginn vegur lægi að jörðinni, aðeins slóðar að austan- og vestanverðu.

Árið 2016 öðlaðist gildi deiliskipulag hótels í landi Orustustaða. Í greinargerð með því segir að skipulagssvæðið nái yfir tæplega 40 ha svæði, þar af séu 28 ha innan Orustustaða, 10 ha innan óskipts lands Hraunbóls/Sléttabóls og 0,5 ha innan Fossjarða. Gert er ráð fyrir að hótelið verði með 200 gistirýmum auk annarrar aðstöðu. Skipulagið nær um leið til aðkomuvegar sem myndi vera að hluta til í landi Hraunbóls/Sléttabóls og Foss á Síðu, en aðkoma að hótelinu yrði þannig frá þjóðvegi 1 eftir núverandi vegi að Hraunbóli og síðan eftir nýjum 1,7 km vegkafla, sem liggja myndi suður fyrir bæjarstæði Hraunbóls austur að Orustustöðum. Árið 2016 lá jafnframt fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhugað hótel og aðkomuvegur að því skyldu ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Voru báðar þessar ákvarðanir kærðar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, m.a. af hálfu eigenda Hraunbóls, og þess krafist að þær yrðu felldar úr gildi. Með úrskurðum nefndarinnar í málum nr. 26/2016, uppkveðnum 22. desember 2017, og nr. 31/2016, uppkveðnum 25. janúar 2018, var þeim kröfum hafnað.

Ágreiningur hefur verið um lagningu aðkomuvegar að Orustustöðum. Hinn 27. ágúst 2019 synjaði Vegagerðin umsókn kæranda um að fyrirhugaður nýr vegur að jörðinni, samkvæmt deiliskipulagi, yrði gerður að héraðsvegi, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir samþykki eigenda þeirra jarða sem vegurinn mundi liggja um. Með úrskurði, dags. 8. maí 2020, var sú ákvörðun staðfest af ráðherra samgöngumála. Eina núverandi vegtenging að Orustustöðum virðist vera vegslóði sem liggur frá næstu jörð, Hraunbóli. Um hann er ágreiningur. Hefur sá ágreiningur komið til úrskurðarnefndarinnar. Með úrskurði frá 16. október 2020 í máli nr. 38/2020, felldi nefndin úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar um að samþykkja framkvæmdaleyfi til lagfæringar á vegslóðanum. Byggði niðurstaða nefndarinnar m.a. á því að við meðferð málsins hefði ekki verið tekin afstaða til þess hvort framkvæmdin væri í samræmi við skipulagsáætlanir, en fyrir lá að hluti vegslóðans hafði verið afmáður af aðalskipulagsuppdrætti. Þá hefði ekki verið uppfyllt lagaskilyrði til að veita hið umdeilda framkvæmdaleyfi án grenndarkynningar. Benti nefndin enn fremur á að ágreiningur um umferðarrétt og inntak hans ættu ekki undir úrskurðar-nefndina, en hvorugur aðili málsins hefði gert reka að því að fá úr honum skorið fyrir dóm-stólum.

Í sama máli var vísað frá kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfis fyrir þremur starfsmannahúsum að Orustustöðum. Í niðurstöðu sinni tók nefndin fram að umræddar byggingar myndu standa í töluverðri fjarlægð frá fasteignum kærenda í landi Hraunbóls og með hliðsjón af því yrði ekki séð að hagsmunir þeirra myndu skerðast í þeim mæli að skapaði þeim kæruaðild. Væri þá jafnframt til þess að líta að byggingarleyfið veitti einvörðungu heimild til byggingar téðra húsa, en fæli t.d. ekki í sér heimild til umferðar um land kærenda. Þættu framkvæmdir samkvæmt leyfinu því ekki vera þess eðlis að þær snertu grenndarhagsmuni eða aðra einstak-lega lögvarða hagsmuni kærenda með þeim hætti að þeir gætu talist eiga kæruaðild. Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti einnig leyfi fyrir byggingu íbúðarhúss á jörðinni en sú afgreiðsla sætti ekki kæru til nefndarinnar.

Hinn 1. desember 2021 sótti kærandi um byggingarleyfi til að reisa fyrsta hluta hótelbyggingar á Orustustöðum innan byggingarreits hótels samkvæmt deiliskipulagi. Kom fram í umsókninni að um væri að ræða einnar hæðar gistihús með 18 herbergjum úr þegar gerðum einingum, sem settar yrðu á steyptan sökkul. Í tölvubréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda af því tilefni, frá 25. janúar 2022, kom fram að byggingarleyfi fyrir frekari hóteluppbyggingu yrðu ekki gefin út á meðan aðkomuleið að Orustustöðum væri ekki tryggð og vegur samkvæmt samþykktu deiliskipulagi hefði ekki verið byggður upp. Fyrir uppbyggingu hótels sem þessa væri það grundvallarþáttur að tryggja öllum greiða aðkomu að svæðinu, þ.m.t. verktökum, sjúkrabílum, slökkviliði og gestum og gangandi. Í tölvubréfinu voru fleiri erindi frá kæranda til meðferðar, en í lok þess var gefið yfirlit um ákvæði byggingarreglugerðar nr.112/2012 um brunavarnir á gististöðum, sem tekið var saman af slökkviliðsstjóra Skaftárhrepps. Var þar m.a. vísað til ákvæða í gr. 9.2.6., gr. 9.2.4 -h og gr. 4.3.3. í reglugerðinni.

Með tölvubréfi frá 3. febrúar s.á. kom kærandi að athugasemdum og staðhæfði m.a. að sveitarstjórn hefði gefið það út að honum væri leyft að hagnýta vegslóðann þangað til nýr vegur yrði lagður. Í framhaldi var skipulags- og byggingarfulltrúi inntur eftir því hvort líta bæri á svar hans sem endanlega afgreiðslu og þar með synjun umsóknarinnar. Í svari skipulags- og byggingarfulltrúa í tölvubréfi frá 22. febrúar 2022 sagði að honum hefði verið ráðið frá því að gefa út fleiri byggingarleyfi eða framkvæmdaleyfi að Orustustöðum á meðan ekki lægi fyrir afstaða eða niðurstaða ráðuneytisins varðandi eignarnám. Þá lægi ekki fyrir stjórnsýsluákvörðun um að kærandi hefði heimild til að hagnýta sér slóðann þar til nýr vegur yrði lagður samkvæmt deiliskipulagi.

Í kæru er rakið að kærandi hafi leitast við að fá Vegagerðina, ráðherra samgöngumála og sveitarstjórn til að leita samninga við landeigendur um vegstæði og um lagningu vegar eða hlutast til um eignarnám á landi undir hann ella. Þær beiðnir hafi ekki borið árangur og standi á því, sem áður, að ekki liggi fyrir samþykki eigenda vegstæðis.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að nú liggi fyrir afstaða ráðherra samgöngumála í úrskurði um að ekki verði ráðist í eignarnám vegna hins nýja vegar. Synjun á samþykkt byggingaráforma geti við svo búið ekki verið reist á því að beðið sé eftir slíkri afgreiðslu. Jafnframt sé það ekki lögmætur grundvöllur að hafna því að samþykkja frekari byggingaráform að engin stjórnsýsluákvörðun liggi fyrir um að kærandi hafi heimild til að hagnýta sér vegslóða að Orustustöðum þar til nýr vegur verði lagður. Kærandi þurfi ekki samþykki sveitarstjórnar til að nota núverandi aðkomu. Hann eigi rétt á því samkvæmt eðli máls og með vísan til hefðarréttar að fara eftir núverandi vegi/slóða að jörð sinni enda sé það eina aðkoman að jörðinni.

Samkvæmt skilmálum gildandi deiliskipulags fyrir umrætt svæði sé gert ráð fyrir því að aðkoma að hótelinu verði frá þjóðvegi 1, eftir núverandi vegi að Hraunbóli og síðan vegslóða. Skipulagið geri einnig ráð fyrir hinum nýja vegi, lengra frá Hraunbóli, en hvergi komi fram að nýr vegur sé skilyrði fyrir uppbyggingunni samkvæmt skilmálum skipulagsins. Verði kæranda ekki gert að leggja nýja veginn enda sé honum það ekki fært nema með samþykki eigenda Fossjarða og eigenda á Hraunbóli eða að landið verði tekið eignarnámi af hálfu Vegagerðarinnar eða sveitarfélagsins, sem bæði hafi hafnað því að hafa forsendur til þess að fara í eignarnám. Eigi kærandi því ekki annan kost en að nota núverandi aðkomu.

Umrætt deiliskipulag taki ekki til núverandi vegar eða aðkomu. Hún sé því örugglega ekki felld niður með skipulaginu. Muni kærandi nota núverandi aðkomu að jörðinni, þ.e. um núverandi veg og slóða, a.m.k. þangað til honum verði gert kleift að leggja nýjan veg. Sé litið til um-fjöllunar sveitarfélagsins vegna athugasemda er borist hafi við áætlanagerð vegna fyrirhugaðra framkvæmda sé ljóst að alltaf hafi verið gert ráð fyrir að núverandi vegur yrði áfram og að hann yrði notaður auk hins nýja vegar. Synjun á samþykkt byggingaráforma á þeim forsendum að nýr vegur hafi ekki verið lagður eigi sér því ekki stoð í skipulagi, heldur þvert á móti.

Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 38/2020 hafi staðfest heimild til framkvæmda á svæðinu óháð hinum nýja vegi. Í málinu hafi nefndin staðfest gildi hinna umdeildu byggingarleyfa á þeirri forsendu að kærendur málsins, sem þó séu næstu nágrannar kæranda í máli þessu, ættu ekki lögvarða hagsmuni af útgáfu leyfanna. Með vísan til þess fái kærandi ekki skilið hvaða hagsmunir það séu sem væru lögmætir af hálfu sveitarfélagsins til að takmarka frekari útgáfu byggingarleyfa sem séu í samræmi við deiliskipulag. Sveitarfélagið hafi engin lögmæt og málefnaleg sjónarmið til að synja um samþykkt frekari byggingaráforma eða útgáfu byggingarleyfa.

Málsrök Skaftárhrepps: Sveitarfélagið mótmælir kröfum kæranda. Byggingarfulltrúi hafi gefið út framkvæmdaleyfi 31. desember 2019 fyrir vegabótum á vegslóða sem notaður hafi verið undanfarna áratugi sem heimreið að Orustustöðum. Leyfið hafi verið háð því skilyrði að skriflegt samþykki eiganda aðliggjandi jarða lægi fyrir. Kærandi hafi í engu skeytt um þau skilyrði sem sett hafi verið og hafi ráðist í framkvæmdir án tilskilinna leyfa. Umræddur vegslóði liggi að hluta til í gegnum óskipt land jarðanna Hraunbóls/Sléttabóls 2 og Sléttabóls sem liggi að jörðinni Orustustöðum að vestanverðu.

Í greinargerð Aðalskipulags Skaftárhrepps 2010–2022 segi að skilgreina þurfi héraðsveg að hótelsvæðinu. Tillögur hafi verið gerðar um sex veglínur og hafi veglína C verið valin en þar sé gert ráð fyrir rúmlega 1,7 km nýjum vegkafla. Þessi vegur hafi hins vegar ekki verið lagður, fyrst og fremst vegna djúpstæðs ágreinings kæranda og eigenda Hraunbóls. Hafi ágreiningur ratað fyrir dómstóla, sbr. mál nr. E-784/2020 hjá Héraðsdómi Suðurlands, en dómur í því hafi verið kveðinn upp 14. febrúar 2022. Þrátt fyrir að um einkaréttarlegan ágreining hafi verið að ræða sem sveitarfélagið hafi ekki átt aðild að lýsi hann í hnotskurn þeirri pattstöðu sem fyrir hendi sé varðandi frekari uppbyggingu innan Orustustaða.

Núverandi staða í skipulagslegum skilningi sé sú að ekki sé unnt að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagfæringu og/eða endurbótum á vegslóða þeim er um ræði. Forsendur séu ekki til slíks fyrr en endanleg niðurstaða liggi fyrir um skipan mála varðandi vegslóðann með áherslu á eignar- og afnotarétt. Lögð sé áhersla á að þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir nýjum aðkomuvegi í deiliskipulagi fyrir jörðina þá hafi það ekki sjálfkrafa þá réttarverkan í för með sér að framkvæmdaleyfi skuli veitt. Eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi fellt framkvæmdaleyfi við veginn úr gildi liggi fyrir að skipulagsvald sveitarfélagsins nái ekki til þess hluta vegslóðans sem liggi í gegnum jarðirnar Hraunból og Sléttaból. Það sé engin aðkoma að Orustustöðum líkt og gert sé ráð fyrir í deiliskipulagi fyrir jörðina. Samkvæmt framansögðu sé hið kærða byggingarleyfi ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svo sem áskilið sé að lögum og því beri að hafna kröfu um útgáfu þess.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi áréttar fyrri sjónarmið sín. Jafnframt er bent á að í greinargerð sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar sé byggt á allt öðrum málsástæðum en skipulags- og byggingarfulltrúi hafi byggt synjun sína á. Þegar af þeirri ástæðu sé greinargerðin þýðingarlaus enda sé ekki hægt að breyta rökstuðningi eða forsendum fyrir synjun eftir á. Þá sé því mótmælt að „skipulagsvald sveitarfélagsins“ nái ekki til vegslóðans þar sem hann liggi um land Hraunbóls eða Sléttabóls enda taki það til alls lands innan sveitarfélagsins, skv. 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Rétt sé að ekki hafi verið gerð ný aðkoma að Orustustöðum eins og gert sé ráð fyrir í deiliskipulagi. Það að sá vegur hafi ekki verið lagður veiti sveitarfélaginu hins vegar ekki heimild til að hafna frekari framkvæmdum á jörðinni. Ávallt hafi verið gert ráð fyrir að núverandi vegur yrði áfram og að hann yrði notaður auk hins nýja vegar. Hafi vegurinn verið lagfærður þannig að hann sé nú fær allri umferð. Engar forsendur hafi breyst frá því að sveitarfélagið hafi gefið út byggingarleyfi á jörðinni.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps að synja umsókn kæranda um leyfi til að byggja fyrsta hluta hótelbyggingar á Orustustöðum innan byggingarreits fyrir þá starfsemi samkvæmt deiliskipulagi. Um er að ræða einnar hæðar gistihús með 18 herbergjum úr þegar gerðum einingum, sem settar yrðu á steyptan sökkul (Orustustaðavegur 4, matshluti 01). Telja verður að hin kærða ákvörðun komi fram í tölvubréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda 25. janúar 2022. Í kæru er aðallega vísað til tölvubréfs skipulags- og byggingarfulltrúa frá 22. febrúar s.á., þar sem sú ákvörðun var áréttuð. Samkvæmt þessu verður eigi að síður að telja að kæranda hafi þegar mátt vera ljós afstaða til umsóknar hans 25. janúar. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 22. mars s.á., eða að liðnum lögbundnum kærufresti, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður þó talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr í ljósi þess að ekki verður séð að kæranda hafi verið leiðbeint um kærurétt og kæruheimild og verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Hin kærða ákvörðun er reist á þeirri forsendu að byggingarleyfi fyrir frekari hóteluppbyggingu yrðu ekki gefin út á meðan aðkoma að Orustustöðum væri ekki tryggð og vegur samkvæmt samþykktu deiliskipulagi hefði ekki verið lagður. Fyrir uppbyggingu hótels sem þessa væri það grundvallarþáttur að tryggja öllum greiða aðkomu að svæðinu. Þá var einnig vísað til þess að beðið væri með að gefa út fleiri byggingarleyfi eða framkvæmdaleyfi að Orustustöðum á meðan ekki lægi fyrir afstaða eða niðurstaða ráðuneytis varðandi eignarnám lands undir veg. Jafnframt að ekki lægi fyrir „stjórnsýsluákvörðun“ um að kærandi hefði heimild til að hagnýta sér vegslóðann sem fyrir væri þar til nýr vegur yrði lagður samkvæmt deiliskipulagi.

Mælt er fyrir um í 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að byggingaráform verði aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga, en synjun skipulags- og byggingarfulltrúa var m.a. á því reist að vegur samkvæmt samþykktu deiliskipulagi hefði ekki verið lagður.

Fyrir liggur að sveitarstjórn Skaftárhrepps hefur samþykkt skipulagsáætlanir sem gera ráð fyrir hóteli á Orustustöðum. Í þeim er gert ráð fyrir að lagður verði nýr aðkomuvegur að hótelinu. Um veginn er fjallað ítarlega í bæði greinargerð með breytingu á Aðalskipulagi Skaftárhrepps  2010–2022 og í greinargerð með deiliskipulagi hótels í landi Orustustaða. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar lá fyrir að ágreiningur væri um vegarlagninguna. Var sveitarfélaginu kunnugt um úrskurð ráðherra samgöngumála, dags. 8. maí 2020, þar sem staðfest var ákvörðun Vegagerðarinnar um að synja umsókn um að nýr aðkomuvegur að Orustustöðum yrði héraðs-vegur, gegn mótmælum eigenda vegstæðisins. Kærandi hefur mótmælt þessum úrskurði og að eigin sögn leitast við að fá Vegagerðina, ráðherra samgöngumála og sveitarstjórn til að leita samninga við landeigendur um vegstæði og um lagningu vegar eða hlutast til um eignarnám á landi undir hann ella. Hann hefur þó ekki talið rétt, a.m.k. að svo stöddu, að láta reyna á rétt sinn fyrir dómstólum.

Nýr aðkomuvegar er hluti af deiliskipulagi hótels á Orustustöðum. Í skilmálum þess er þó ekki tekið fram beinum orðum að bygging mannvirkja hótelsins sé háð því að nýr aðkomuvegur verði áður lagður. Þá veitir byggingarleyfi einvörðungu heimild til byggingar mannvirkja, en felur t.d. ekki í sér heimild til umferðar um vegi sem að þeim mannvirkjum kunna að liggja.

Það skal athugað að þeir sem fá byggingarleyfi bera sjálfir ábyrgð á því að njóta þeirra heimilda að einkarétti sem þarf til þess að tryggja eðlileg not viðkomandi fasteignar. Ágreiningur um eignarréttindi sem þessi verður hvorki leiddur til lykta með málafærslu fyrir sveitarfélögum né fyrir úrskurðarnefndinni, enda á slíkur ágreiningur eftir atvikum undir dómstóla.

Undanfari deiliskipulagsins var álit Skipulagsstofnunar frá 9. febrúar 2016 um að fyrirhugað hótel á Orustustöðum og aðkomuvegur að því skyldu ekki háð mati á umhverfisáhrifum þar sem talið var að þau væru ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Í niðurstöðum álitsins sagði að kæmi til þess að breytt yrði út frá þeirri aðkomuleið að hótelinu sem áformuð væri, þá bæri framkvæmdaraðila að tilkynna að nýju til Skipulagsstofnunar um þær breytingar. Það sama ætti við ef aðrar breytingar yrðu á framkvæmdaáformum, en slíkar breytingar gætu fallið undir tölulið 13.02 í 1. viðauka við þágildandi lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og væru því tilkynningaskyldar. Í kæru segir frá því að aðkoma að Orustustöðum sé „nokkuð erfið“ um vegslóðann. Í framhaldsathugasemdum kæranda segir á hinn bóginn að slóðinn hafi verið „lagfærður þannig að hann sé nú fær allri umferð bæði stórra og smárra bíla.“ Virðist ljóst með þessu að kærandi hyggist nota vegslóða eða veg þennan sem aðkomuveg að hótelinu. Virðist eðlilegt í því ljósi að kæranda verði leiðbeint af hálfu sveitarfélagsins um að ef standi til af hans hálfu að breyta frá þeirri aðkomuleið að hótelinu sem áformuð er í deiliskipulagi, þá geti verið skylt að tilkynna um þá breytingu til Skipulagsstofnunar.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar sé svo áfátt að það beri af þeirri ástæðu að ógilda hana.

Úrskurðarorð:

 Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps frá 25. janúar 2022 um að synja umsókn um byggingarleyfi til að byggja fyrsta hluta hótelbyggingar á Orustustöðum í Skaftárhreppi.