Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

133/2021 Brú

Með

Árið 2022, föstudaginn 11. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 133/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 5. febrúar 2021 um að afturkalla afgreiðslu á erindi kæranda frá 7. janúar 2016 vegna deiliskipulags í landi Brúar.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 29. júlí 2021, er barst úrskurðarnefndinni 6. ágúst s.á., framsendi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kæru þinglýsts eiganda lóðar í landi Brúar í Bláskógabyggð, dags. 20. maí 2021, vegna ákvörðunar sveitarstjórnar um að afturkalla afgreiðslu á erindi kæranda frá 7. janúar 2016 vegna deiliskipulags í landi Brúar. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar á ákvörðuninni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 8. september 2021.

Málavextir: Í landi Brúar í Bláskógabyggð er í gildi deiliskipulag sem auglýst var í Stjórnar­tíðindum 25. október 2006. Með bréfi til skipulagsfulltrúa Uppsveita, dags. 12. september 2015, óskaði kærandi eftir að deiliskipulagið yrði tekið til endurskoðunar þar sem hann teldi að lóðir samkvæmt deiliskipulaginu tilheyrðu hans eignarlandi en eigandi jarðarinnar hefði í hyggju að setja lóðirnar á sölu. Eigandi jarðarinnar sendi skipulagsfulltrúa bréf, dags. 1. nóvember 2015, þar sem fram kom að um ágreining á eignarhaldi lands væri að ræða. Kærandi ítrekaði þá í bréfi til skipulagsfulltrúa, dags. 15. nóvember 2015, að lóðir nr. 24, 26, 30 og 32 í umræddu deiliskipulagi væru á landspildu kæranda. Bréfið var lagt fram á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita 7. janúar 2016. Í bókun nefndarinnar í fundargerð segir að ágreiningur væri á milli lóðarhafa og eiganda jarðarinnar Brúar um staðsetningu lóðar kæranda og gæti nefndin ekki úrskurðað um nákvæma staðsetningu hennar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Ekki væri hægt að stofna nýjar lóðir á umræddu svæði á grundvelli deiliskipulagsins fyrr en niðurstaða um eignarhald lægi fyrir. Sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi sama dag.

 

Á fundi skipulagsnefndar 26. janúar 2017 var erindi eiganda jarðarinnar Brúar lagt fram vegna framangreindrar bókunar. Taldi nefndin sig ekki geta staðsett lóðina með nákvæmum hætti en fól skipulagsfulltrúa að hafa samráð við Þjóðskrá Íslands og embætti sýslumanns um hvort óhætt væri að stofna lóðir í samræmi við gildandi deiliskipulag og falla þar með frá fyrri bókuninni. Var afgreiðsla nefndarinnar staðfest af sveitarstjórn á fundi 2. febrúar 2017.

 

Sveitarstjórn fjallaði um erindi eiganda jarðarinnar Brúar, dags. 28. janúar 2021, á fundi sínum 5. febrúar s.á. Óskaði hann eftir endurupptöku málsins. Sveitarstjórn taldi fyrri ákvörðun um að ekki væri hægt að stofna nýjar lóðir á grundvelli gildandi deiliskipulags vera ógildanlega og afturkallaði hana. Vísað var til þess að þegar afsal það sem kærandi leiddi rétt sinn af var gefið út fyrir lóðina hafi afsalsgjafi ekki verið eigandi lóðarinnar sem kærandi teldi sig eiga tilkall til. Einnig var vísað til þess að þegar tillaga að deiliskipulagi svæðisins var auglýst í september 2006 hafi engin athuga­semd borist um afmörkun deiliskipulagssvæðisins.

 

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að lóðarafsal hans hafi staðið óátalið hjá sýslumanni frá árinu 1993. Eigandi jarðarinnar, sem telji sig eiganda umræddrar landspildu, hafi sýnt tómlæti með því að hafa ekki farið í formlegt ferli til að fá eignarhaldinu aflétt. Hann hafi með aðgerðarleysi sínu látið hjá líða að halda töldum rétti sínum til haga í 30 ár. Kærandi hafi óátalda þinglýsta eignar­heimild á tveggja hektara spildu úr landi Brúar og hafi hann eignast landið fyrir hefð en samkvæmt 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð geti maður eignast fasteign með 20 ára óslitnu eignarhaldi. Eigandi Brúar hafi alla tíð haft vitneskju um skráningu á landinu en látið ógert að fá eignarheimildinni aflétt.

 

Fasteignagjöld af tveggja hektara sumarbústaðalóð nr. 167223 hafi verið greidd í 30 ár til sveitar­félagsins án athugasemda þess. Afstaða sveitarfélagsins til þess hvort leyfa ætti deiliskipulagningu á svæðinu orki tvímælis. Kærandi sé þinglýstur eigandi að landi sem hægt sé að afmarka gróflega. Eina heimildin um staðsetningu lóðarinnar sé í þinglýstu afsali af lóðinni. Það sé ekki hlutverk sveitarfélagsins að taka afstöðu til þess að þinglýsing á eignarheimild standi eða ekki. Sveitar­félagið ætti ekki að heimila skipulag á landi sem sé þinglýst eign annars aðila og ætti að halda sig við að leyfa ekki deiliskipulagningu á landi kæranda. Á meðan þinglýsing sé í gildi og hægt sé að benda á að deiliskipulagið fari yfir land sem kærandi eigi þá sé það þess sem standi fyrir deiliskipu­lagningu að skýra eignarhaldið. Ekki sé hægt að leyfa deiliskipulag á þeim hluta sem kærandi eigi þegar athugasemd um það hafi verið komið fram.

 Málsrök Bláskógabyggðar: Sveitarfélagið bendir á að kæran eigi ekki undir valdsvið úrskurðar­nefndarinnar og vísa eigi málinu frá. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir í lögum á því sviði. Umrædd ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en ekki skipulagslaga nr. 123/2010 og verði kæruheimild ekki byggð á þeim lögum. Þá sé ekki að finna kæruheimild vegna málsins í lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd eða lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Af því leiði að ekki sé til staðar ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem sæti lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar og beri nefndinni að vísa kröfum kæranda frá.

Telji úrskurðarnefndin að ákvörðun sveitarfélagsins eigi undir valdsvið nefndarinnar sé kæru­frestur til úrskurðarnefndarinnar liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Sveitarfélagið hafi tilkynnt umboðsmanni kæranda um hina kærðu ákvörðun 10. febrúar 2021. Kæranda hafi verið leiðbeint um kæruleið til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og um þriggja mánaða kæru­frest, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Kæra hafi borist ráðuneytinu 20. maí 2021 og lögbundinn kærufrestur því liðinn, bæði eins mánaðar kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar og þriggja mánaða kærufrestur til ráðuneytisins.

Verði ekki fallist á frávísun málsins geri sveitarfélagið þá kröfu að kröfum kæranda verði hafnað. Kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá ákvörðuninni hnekkt, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Fyrir liggi að ágreiningur sé á milli kæranda og eigenda Brúar um eignarhald á umræddu svæði og deiliskipulag tekur til að hluta. Kærandi hafi ekki sýnt fram á eignarhald sitt og því eigi kærandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úr ágreiningi skorið fyrir nefndinni. Vísað sé til þess að þegar afsal það sem kærandi leiði rétt sinn af var gefið út fyrir Brú lóð, L. 167223, hafi afsalsgjafi ekki verið þinglýstur eigandi þess lands sem kærandi telji sig eiga tilkall til. Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 verði hinn síðari rétthafi að öðlast réttindin með samningi við þinglýstan eiganda en af þinglýstum eignarheimildum virðist ekki vera hægt að rekja eignarhald fyrir lóðinni til annars lands en þess sem fyrri eigandi jarðarinnar Brúar hafi átt á þeim tíma sem hann afsalaði landinu. Af þinglýstum eignarheimildum eiganda jarðarinnar Brúar sé ljóst að hann sé afsalshafi af því landi sem umrætt deiliskipulag nái til.

Með hinni kærðu ákvörðunar hafi sveitarfélagið afturkallað þá íþyngjandi ákvörðun að ekki sé hægt að stofna nýjar lóðir byggðar á gildandi deiliskipulagi. Samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga geti stjórnvald afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði sem tilkynnt hafi verið aðila máls, þegar það sé ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun sé ógildanleg.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að eina skriflega og skýra heimildin um staðsetningu lóðarinnar L. 167223 sé í þinglýstu afsali fyrir lóðinni en þar segi: „Land þetta liggur næst landi Haraldar Sigurjónssonar sem er eigandi að landspildu í landi bæjarins Brúar í Biskups­tungum.“ Að teknu tilliti til annarra sumarbústaðalóða og ræktartúns þá sé staðsetningin augljós. Aðeins sé óvissa um lögun lóðarinnar. Athuga beri að sveitarfélagið hafi innheimt fasteignagjöld af sumarbústaðarlandinu í um 30 ár. Kærandi lesi ekki Stjórnartíðindi að staðaldri og því hafi auglýsing um deiliskipulag farið fram hjá honum árið 2006. Aftur á móti hafi eigandi jarðarinnar verið oddviti sveitarstjórnar og setið í skipulagsnefnd á árinu 2006. Hann hafi alla tíð vitað af ágreiningnum og hefði því átt að láta skipulagsnefnd vita af honum í upphafi.

Kæranda hafi verið leiðbeint um kæruleið til ráðuneytisins og um þriggja mánaða kærufrest. Óskað hafi verið eftir fresti til að skila inn kæru 5. maí 2021 og hann hafi verið veittur til 21. maí 2021. Ráðuneytinu hafi borist kæra 20. maí 2021.

Niðurstaða: Um kæruheimild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuna að gæta tengda þeirri ákvörðun sem er kærð. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklings­bundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt það að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa frá málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu. Verður því að meta í hverju tilviki hagsmuni og tengsl kæranda við úrlausn málsins til að komast að niðurstöðu um hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta.

Líkt og greinir í málavöxtum má rekja upphaf máls þessa til erindis kæranda til skipulagsfulltrúa, dags. 12. september 2015, um að deiliskipulag yrði tekið til endurskoðunar þar sem landspilda kæranda lægi á lóðum í umræddu skipulagi. Sveitarstjórn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að úrskurða um nákvæma staðsetningu spildunnar og því væri ekki hægt að stofna nýjar lóðir á umræddu svæði samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrr en niðurstaða um eignarhald lægi fyrir. Sveitarstjórn afturkallaði þessa afgreiðslu á fundi sínum 5. febrúar 2021 og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Skipulag eða breyting á skipulagi getur ekki falið í sér ráðstöfun á eða afstöðu til beinna eða óbeinna eignarréttinda. Þá er það ekki á valdi sveitarstjórna að leysa með bindandi hætti úr ágreiningi um landa- eða lóðamörk og geta ákvarðanir þeirra ekki hróflað við eignarréttindum. Ef fyrir hendi er ágreiningur um eignarréttindi að landi verður sá ágreiningur eftir atvikum til lykta leiddur fyrir dómstólum. Verður því ekki talið að hin kærða ákvörðun geti raskað lögvörðum hagsmunum kæranda með þeim hætti að honum verði játuð kæruaðild í máli þessu samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Af þeim sökum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

16/2022 Holt

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 10. febrúar, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 16/2022, kæra á ákvörðun Sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 1. júlí 2021 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Holt, L192736.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. janúar 2022, er barst nefndinni 25. s.m., kæra ábúendur Unnarholtskots 2, Unnarholtskots 3 og Krika þá ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 4. nóvember 2021 að samþykkja deiliskipulagið Holt, L192736. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Er þess jafnframt krafist að lagt verði bann við mögulegum framkvæmdum á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hrunamannahreppi 31. janúar 2022.

Málsatvik og rök: Hinn 27. nóvember 2020 var lögð fram umsókn um deiliskipulag á landi Unnarsholts þar sem óskað var eftir skilgreiningu fjögurra byggingarreita, þriggja fyrir íbúðarhús og eins fyrir útihús. Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita 9. desember s.á. þar sem bókað var að nefndin mæltist til við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að samþykkja deiliskipulagstillögu til kynningar og umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var niðurstaða skipulagsnefndar staðfest af sveitarstjórn 10. s.m. og var tillagan í kjölfarið auglýst frá 16. desember 2020 til 8. janúar 2021. Á fundi skipulagsnefndar 27. s.m. var skipulagstillagan samþykkt til auglýsingar á grundvelli 41. gr. skipulagslaga og var sú ákvörðun samþykkt í sveitarstjórn 4. febrúar s.á. Athugasemdir bárust frá ábúendum Unnarsholtskots 1, 2 og 3, dags. 16. apríl s.á. Uppfærð deiliskipulagstillaga var lögð fram á fundi skipulagsnefndar 23. júní 2021 þar sem bókað var að skipulagsnefnd mæltist til við sveitarstjórn Hrunamannahrepps að samþykkja framlagt deiliskipulag. Sveitarstjórn staðfesti niðurstöðu skipulagsnefndar á fundi 1. júlí 2021 og var þeim sem gerðu athugasemdir við skipulagið kynnt niðurstaða sveitarstjórnar með bréfi dags. 18. ágúst 2021. Í kjölfar athugasemda var stærð og lögun byggingarreita breytt, skilmálum skipulagsins um hámarkshæð skemmu lækkuð og umfang hennar minnkað úr 400 í 250 m2. Taldi skipulagsnefnd að breytingarnar væru ekki með þeim hætti að auglýsa þyrfti skipulagið á nýjan leik eða óska eftir nýrri afgreiðslu skipulagsstofnunar. Sveitarstjórn staðfesti niðurstöðu skipulagsnefndar á fundi 4. nóvember s.á. og tók deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 10. desember s.á. Sendi sveitarfélagið tilkynningu um gildistöku hins kærða deiliskipulags til þeirra sem gert höfðu athugasemdir á fyrri stigum málsins hinn 30. desember s.á.

Kærendur benda á að svör skipulagsfulltrúa við athugasemdum við deiliskipulagstillöguna hafi verið án rökstuðnings og dregnar hafi verið inn í málið eldri byggingar á svæðinu. Þá hafi deiliskipulaginu verið breytt eftir að umsagnartími hafi verið liðinn og engin grenndarkynning átt sér stað eftir breytingar. Búið væri að færa fyrirhugaðar lóðir inn á efstu hæðarlínu á teikningu, bæta við 60 m2 útihúsum fyrir hverja lóð og enginn hæðarkvóti hafi verið gefinn upp. Þessar breytingar hefðu verið þess eðlis að nauðsynlegt hefði verið að auglýsa tillöguna að nýju.

Af hálfu Hrunamannahrepps er tekið fram að málsmeðferð deiliskipulagsins hafi í öllu verið í samræmi við ákvæði laga. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 lægi skipulagsvald í höndum viðkomandi sveitarstjórnar og að játa yrði henni nokkuð svigrúm við þróun umhverfis og byggðar. Deiliskipulagið væri í samræmi við góða og eðlilega nýtingu lands og tekið hefði verið tillit til sjónarmiða allra hagsmunaaðila. Sveitarfélagið hefði tekið athugasemdir kærenda til ítarlegrar skoðunar, aflað umsagna og tilteknar breytingar verið gerðar á skipulaginu til að koma til móts við framkomnar athugasemdir. Einu breytingarnar sem gerðar hefðu verið á deiliskipulagstillögunni eftir auglýsingu hafi verið að hámarksmælishæð skemmu hefði verið lækkuð um 2 m og stærð hennar um 150 m2. Þær breytingar hafi verið til þess fallnar að minnka byggingarheimildir innan svæðisins. Þá tók sveitarfélagið fram að það gerði ekki athugasemdir við að kæran hefði borist eftir kærufrest enda hefði hún borist innan 30 daga eftir að sveitarfélagið tilkynnti þeim sem gert höfðu athugasemdir við skipulagið um gildistöku þess, 30. desember 2021.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telsdt kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. desember 2021. Tók kærufrestur því að líða 11. desember, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 25. janúar 2022 eða tveimur vikum eftir að kærufresti lauk. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni enda ekki talið unnt, eins og atvikum er háttað, að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt fyrrgreindum undantekningarákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga. Getur afstaða sveitarstjórnar til kærufrests eða tilkynning þess til kærenda um gildistöku deiliskipulagsins ekki haft áhrif á lögbundinn kærufrest enda hefur lögmælt opinber birting ákvörðunar þá þýðingu að almenningi telst vera kunnugt um hina birtu ákvörðun.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

139/2021 Melatún

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 3. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 139/2021, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar frá 28. júlí 2021, sem staðfest var í byggðarráði Skaga­fjarðar 9. ágúst s.á., um að samþykkja stækkun byggingarreits og lóðar nr. 5 við Melatún á Sauðárkróki og heimila byggingu parhúss.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júlí 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigandi, Kleifatúni 10, eigandi, Kleifatúni 8, og eigandi, Kleifatúni 6a, Sauðárkróki, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar að samþykkja stækkun byggingarreits og lóðar nr. 5 við Melatún á Sauðárkróki og heimila þar byggingu parhúss. Er þess krafist að ákvörðunin verði afturkölluð og beiðni hafnað. Skilja verður málatilbúnað kærenda á þann hátt að krafist sé ógildingar á ákvörðuninni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Skagafirði 16. október 2021.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 18. febrúar 2019 var ákveðið að stofna lóðir nr. 1-7 við Melatún og staðfesti sveitarstjórn ákvörðunina á fundi 13. mars 2019. Í yfirlýsingu skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 26. ágúst 2019, um stofnun lóðanna kemur fram að lóð nr. 5 við Melatún sé 1.020,4 m2 að flatarmáli og hafi fengið landnúmerið 228438. Meðfylgjandi yfirlýsingunni er hnitsett lóðaryfirlit, dags. 13. mars 2019, sem sýnir m.a. legu og stærð lóðar og byggingarreits. Til eru byggingarskilmálar fyrir svæðið sem kallað er „Laufblaðið“, dags. 22. maí 1996, en þeir hafa ekki fengið stöðu deiliskipulags.

 Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 29. apríl 2021 var lögð fram fyrirspurn um hvort heimilt væri að byggja parhús í stað einbýlishúss á lóð nr. 5 við Melatún. Í fundar­gerð segir svo: „Með þeirri breytingu skv. meðfylgjandi gögnum væri einnig um að ræða færslu/stækkun á byggingarreit til norðurs um 90 cm.“ Nefndin samþykkti að tillagan yrði grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir nálægum hagsmuna­aðilum og fól skipulagsfulltrúa að vinna tillögu um stækkun lóðar til norðurs að sama skapi. Sveitarstjórn samþykkti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 19. maí 2021.

Með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 26. maí 2021, var tillagan grenndarkynnt fyrir hagsmuna­aðilum og þeim gefinn frestur til að koma að athugasemdum til 22. júní s.á. Athugasemdir frá kærendum bárust á kynningartíma tillögunnar. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 28. júlí s.á. taldi nefndin að þær athugasemdir sem bárust hefðu ekki gefið tilefni til þess að breyta tillögunni og samþykkti því breytingu lóðarinnar en vísaði erindinu að öðru leyti til byggingar­fulltrúa um frekari afgreiðslu. Byggðarráð Skagafjarðar samþykkti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 9. ágúst 2021.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að umrædd breyting muni hafa áhrif á útsýni og sólar­stundir á grannlóðir. Þá sé um að ræða minnkun á opnu svæði og frekari þéttingu byggðar. Breytingarbeiðnin feli í sér byggingu parhúss í stað einbýlishúss á lóðinni auk þess að stækka byggingarreit til norðurs um 90 cm. Parhúsið verði 348 m2 með einhalla þaki þar sem hæsti punktur hússins (4,5 m) muni snúa að húsunum að fyrir neðan í Kleifatúni, en hæðarmunur lóða sé u.þ.b. tveir til þrír metrar. Umræddar breytingar séu ekki í samræmi við byggingar­skilmála fyrir Laufblaðið frá 22. maí 1996 sem settir hafi verið fyrir viðkomandi hverfi. Farið hafi verið eftir þessum byggingarskilmálum við byggingu langflestra húsa á svæðinu og það sé með öllu ólíðandi að það sama gildi ekki fyrir alla byggingaraðila.

Málsrök Sveitarfélagsins Skagafjarðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að ekki hafi verið eftir því leitast að ljá umræddum byggingarskilmálum stöðu deiliskipulags, sbr. 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis í skipulagslögum nr. 123/2010. Oft hafi verið vikið frá umræddum skilmálum á uppbyggingartíma hverfisins. Í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2009-2021 sé hverfið skilgreint sem íbúðasvæði ÍB-3.9 og hafi byggst upp á talsvert löngum tíma. Eftir árið 2009 hafi verið byggð nokkur tvíbýlishús og hafi hlutfall tví- og þríbýlishúsa hækkað frá því sem ráðgert var í umræddum byggingarskilmálum.

Í gildandi aðalskipulagi komi fram að á íbúðarsvæðum á Sauðárkróki verði byggð einbýlishús, parhús, raðhús og fjölbýlishús. Þar sé ekkert sem banni að tvíbýlishús verði byggð á skipulags­reit ÍB-3.9. Á þessum reit sé ekki í gildi deiliskipulag og því ekki deiliskipulagsákvæði sem hamli því að byggt sé tvíbýlishús á reitnum. Í þinglýstri yfirlýsingu um stofnun lóða komi ekki fram að lóðir skuli vera einbýlishúsalóðir og slíkt komi ekki fram á lóða- og hæðayfirliti sem fylgi yfirlýsingunni. Þá sé ekki tekið fram í fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 18. febrúar 2019 að á lóðunum skuli einungis byggja einbýlishús. Heimilt sé að víkja frá byggingarskilmálum fyrir Laufblaðið. Réttra aðferða hafi verið gætt við að ákveða byggingar­skilmála fyrir lóðina þar sem þeir hafi verið ákveðnir að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga.

Í gildandi aðalskipulagi sé ekki fjallað um stærð byggingarreita, einungis hvert nýtingarhlutfall skuli vera á lóðum í skipulagsreitnum. Þar sem deiliskipulagi sé ekki til að dreifa hafi verið farin rétt leið, sbr. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga, sem sé alvanaleg við slíkar aðstæður, þ.e. að grenndarkynna framkvæmdina. Yfirlýsing um stofnun lóða bindi hendur lóðarhafa gagnvart sveitarstjórn þar til breyting sé gerð á að undangenginni grenndarkynningu. Breytingin sem nú sé ráðgerð sé óveruleg. Stækkun lóðar og byggingarreits reiknist 30 m2 eða 3% stækkun. Benda skuli á að norðan við lóðina, þ.e. til þeirrar áttar sem ráðgert sé að stækka lóðina samkvæmt hinni kærðu ákvörðun, sé umtalsverð vegalengd í næsta hús til austurs eða um 14,1 m og sé langtum meira en víða annarsstaðar í hverfinu. Þá hafi lóðir og byggingarreitir við Kleifatún verið stækkaðir frá því sem ráðgert var samkvæmt stofnskjali lóðanna og lóðir verið stækkaðar inn í opin svæði. Því sé hæpið að ætla að kærendur hafi ekki mátt búast við því að lóðir í næstu götu yrðu stækkaðar eða byggingarreitir þeirra. Heimilt hafi verið að víkja frá gildandi byggingarskilmálum og réttra aðferða verið gætt við að ákveða nýja byggingarskilmála fyrir lóðina. Ekki hafi verið sýnt fram á að hagsmunir kærenda hafi verið skertir umfram það sem vænta megi í hverfi sem sé að byggjast upp í þéttbýli.

Hin kærða ákvörðun hafi ekki tekið til atriða um stærð hússins og vegghæð er snúi að húsunum í Kleifatúni. Því séu þau atriði ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Gera verði ráð fyrir að úr þeim atriðum verði ráðið í því ferli sem fram undan sé, þ.e. við útgáfu byggingarleyfis hjá byggingarfulltrúa, sbr. 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Þegar litið sé heildstætt á málið rúmist nýtingarhlutfall lóðarinnar að Melatúni 5 innan skilmála gildandi aðalskipulags og ekki sé til staðar deiliskipulag sem takmarki nýtingu lóðarinnar frekar. Ekki hafi verið færð fram sönnunargögn eða rök fyrir því að umræddar breytingar muni hafa þau neikvæðu áhrif sem haldið sé fram í kæru. Stækkun lóðar og byggingarreits sé ekki úr takti við það sem almennt hafi verið heimilað í umræddu hverfi.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja að sú staðreynd að ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag fyrir Melatún sé í andstöðu við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Stækkun lóðarinnar nái inn á opið svæði en grenndarkynningin hafi verið send á einungis hluta íbúa í Kleifatúni. Þegar gengið sé á opin svæði sé eðlilegt og rétt að grenndarkynning sé send á alla íbúa þeirra gatna sem liggi að því svæði. Það eitt eigi að nægja til þess að hafna fyrirhugaðri breytingu. Sveitarfélagið hafi ekki enn farið eftir þeim kröfum samkvæmt 44. gr. laga nr. 123/2010 að tilkynna þeim sem skiluðu inn athugasemdum við grenndarkynningu niðurstöðu sína og að færa fram rök sín fyrir höfnun framkominna athugasemda.

—–

Aðila sem hefur verið úthlutað lóðinni var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

 Niðurstaða: Svæði það sem lóðin Melatún 5 tilheyrir hefur byggst upp á talsvert löngum tíma en ekki er í gildi deiliskipulag á svæðinu. Líkt og áður segir í málavöxtum tók skipulags- og byggingarnefnd ákvörðun um að stofna lóðir nr. 1-7 við Melatún og staðfesti sveitarstjórn þá ákvörðun. Yfirlýsingu um stofnun lóðanna, dags. 26. ágúst 2019, var þinglýst 11. september 2019. Þar kemur fram að lóðin Melatún 5 sé 1.020,4 m2. Með stofnskjali lóðanna var hnitsett lóðaryfirlit þar sem lóðamörk og byggingarreitir eru afmörkuð. Þá segir að flatarmál byggingarreits á nefndri lóð sé 509,8 m2. Í 5. gr. byggingarskilmála fyrir svæðið, dags. 22. maí 1996, segir að innan byggingarreits skuli byggja einnar hæðar einbýlishús og bílgeymslu. Umræddir byggingarskilmálar hafa hins vegar ekki fengið stöðu deiliskipulags í samræmi við 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis skipulagslaga nr. 123/2010 og eru af þeim sökum ekki bindandi um byggingarheimildir á lóðinni.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 29. apríl 2021, sem sveitarstjórn staðfesti 19. maí s.á., var tekin ákvörðun um að grenndarkynna fyrirspurn sem fól í sér annars vegar heimild til að byggja parhús á lóðinni Melatúni 5 og hins vegar stækkun byggingarreits og lóðar um 90 cm til norðurs. Í fundargerð kemur fram að erindið yrði grenndarkynnt „í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir nálægum hagsmunaaðilum.“

Samkvæmt 12. gr. skipulagslaga hvílir skipulagsskylda á sveitarfélögum og þar af leiðandi bera þau ábyrgð á og annast gerð aðal- og deiliskipulagsáætlana í samræmi við viðeigandi ákvæði laganna. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í 1. mgr. 44. gr. laganna en í ákvæðinu segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmda­leyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar enda fari áður fram grenndarkynning. Ákvæðið fjallar um grenndarkynningu umsókna um byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi. Erindi það sem var grenndarkynnt var hins vegar ekki umsókn um byggingarleyfi og af fundargerðum afgreiðslufunda byggingarfulltrúa verður ekki ráðið að lögð hafi verið fram slík umsókn vegna Melatúns 5. Þá má nefna að fyrir nefndinni liggur ekki lóðarleigusamningur og er sveitarfélagið þinglýstur eigandi lóðarinnar.

Hin kærða ákvörðun fól í sér stækkun byggingarreits og lóðar til norðurs um 90 cm. Um er að ræða breytingu frá því sem kom fram í stofnskjali lóðar um lóðamörk og byggingarreit á svæði þar sem ekki er deiliskipulag í gildi og ekki lá fyrir umsókn um framkvæmdir eða breytingar á umræddri lóð. Grenndarkynning sú sem var undanfari hinnar kærðu ákvörðunar gat því ekki farið fram með stoð í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Meginregla skipulagslaga er að gera skuli deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna. Í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa, sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna. Hefði því þurft að deili­skipuleggja svæðið svo unnt hefði verið að gera breytingar á stærð byggingarreits og lóðar og heimila tiltekna tegund mannvirkis á lóðinni.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið eru þeir annmarkar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar sem leiða til ógildingar hennar.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggðarráðs Skagafjarðar frá 9. ágúst 2021 um stækkun byggingar­reits og lóðar nr. 5 við Melatún á Sauðárkróki og heimila byggingu parhúss.

134/2021 Nýi Skerjafjörður

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 3. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 134/2021, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 20. apríl 2021, um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Nýja Skerjafjörð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2021, er barst nefndinni 9. s.m., kæra nánar tilgreindir eigendur og íbúar alls 12 eigna við Einarsnes og Gnitanes þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 20. apríl s.á. að samþykkja nýtt deili-skipulag fyrir Nýja Skerjafjörð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess var jafnframt krafist að réttaráhrifum deiliskipulagsins yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar upp-kveðnum 3. september 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 17. og 26. ágúst 2021.

Málavextir: Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar 10. nóvember 2017 var forsögn rammaskipulags fyrir Nýja Skerjafjörð vísað til umhverfis- og skipulagsráðs sem tók erindið fyrir á fundi sínum 1. júlí 2020. Tillagan gerði ráð fyrir uppbyggingu um 700 íbúða, leikskóla, grunnskóla, bílageymsluhúss, verslun, þjónustu og útivistarsvæðum. Tillagan gerði einnig ráð fyrir nýjum vegtengingum til austurs, sunnan Reykjavíkurflugvallar, þar sem eingöngu væri gert ráð fyrir almenningssamgöngum, auk gangandi og hjólandi vegfarenda. Tillögunni að hinu nýja skipulagi var ætlað að fella úr gildi eldra deiliskipulag sem er að stofni til frá 16. janúar 1986. Tillagan var auglýst til kynningar 16. september 2020 í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fresti til að skila athugasemdum til 28. október s.á. Á fundi skipulagsfulltrúa 23. október s.á. var samþykkt að framlengja frestinn til 9. nóvember s.á. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 10. mars 2021 voru kynnt helstu efnisatriði innsendra athugasemda vegna deiliskipulagstillögunnar og á fundi borgarstjórnar 20. apríl 2021 var tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir Nýja Skerjafjörð samþykkt og öðlaðist skipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 9. júlí 2021.

Málsrök kærenda: Bent er á að umferð um Einarsnes muni aukast mikið með nýrri byggð og jafnvel þrefaldast. Hávaði vegna aukinnar umferðar verði að öllum líkindum yfir hámarks­viðmiðum skv. 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Neikvæð áhrif aukinnar umferðar vegna fyrirhugaðra breytinga hafi ekki verið rannsökuð eða kynnt íbúum. Sum húsanna við Einarsnes væru ekki með svefnherbergi sem yrðu í skjóli frá umferðarhávaða og loftmengun auk þess sem sum þeirra stæðu þétt við götuna og yrðu óvarin gagnvart hljóð- og loftmengun. Hávaði vegna flugumferðar væri nú þegar þónokkur og taka yrði það ónæði með í reikninginn þegar lagt væri mat á hávaða vegna aukinnar umferðar. Komið hefði fram í skýrslu verkfræðistofu að þörf yrði á mótvægisaðgerðum, en svör sem borist hefðu frá Reykjavíkurborg um útfærslu á þeim hefðu ekki verið skýr og einungis átt við nýja skipulags­svæðið eða tekur til hluta af núverandi Einarsnesi. Nauðsynlegt væri að íbúar fengju fullnægjandi kynningu áður en uppbygging hverfisins hæfist. Þá hefði ekki verið komið til móts við ábendingar um slysahættu en áætlað væri að staðsetja fjölfarinn hjólreiðastíg við innkeyrslur margra íbúðarhúsa við Einarsnes. Þá hefði ekki farið fram fullnægjandi valkosta-greining á mögulegum umferðartengingum við nýja hverfið.

Í grein 5.4.1. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 væri mælt fyrir um að við gerð deiliskipulags skuli í umhverfismati meta líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum á aðliggjandi svæði og einstaka þætti deiliskipulags á hljóðvist. Þá bæri að áætla áhrif umferðar og hávaða. Gera eigi grein fyrir þessu mati og niðurstöðu þess í greinargerð deiliskipulagsins og gera breytingar á deiliskipulagstillögunni ef hinar fyrirhuguðu framkvæmdir hafi neikvæð áhrif. Ekki sé að finna slíka greiningu á áhrifum af breyttu skipulagi á hávaða, umferð og öryggi íbúa Einarsness utan hins nýja skipulagssvæðis. Þá liggi ekki fyrir tillögur um mótvægisaðgerðir vegna hinna neikvæðu áhrifa.

Í 6. gr. þágildandi laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana hafi verið mælt fyrir um það hvaða þætti skuli fjallað um í umhverfisskýrslu sem gerð sé vegna skipulagsáætlunar. Í skýrslunni beri að hafa lýsingu á þeim umhverfisþáttum sem líklegt sé að verði fyrir verulegum áhrifum af framkvæmd áætlunarinnar og upplýsingar um aðgerðir sem séu fyrirhugaðar til að koma í veg fyrir, draga úr eða vega upp á móti verulegum neikvæðu umhverfisáhrifum af framkvæmd áætlunar. Borgaryfirvöld hafi unnið deiliskipulag fyrir Skerjafjörð og gert umhverfis­mat þvert gegn ákvæðum laga. Ekki hafi verið gætt að umferðartengingum að nýju hverfi og að breytingar á umferð standist kröfur um hljóðvist og umferðaröryggi.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að unnið hafi verið samgöngumat fyrir áfanga eitt og tvö fyrir hið nýja hverfi sem geri ráð fyrir að umferð um svæðið verði um 6.100 bílar á sólarhring en með fullbyggðum Nýja Skerjafirði sé gert ráð fyrir að umferðin verði um 9.000 bílar á sólarhring. Unnið sé að heildstæðri greiningu umferðarmála ásamt Vegagerðinni en engin gegnumstreymisumferð verði í hverfinu auk þess sem þar verði lítið um atvinnu­starfsemi. Mótvægisaðgerðir í tengslum við hljóðvist íbúa Einarsness felist einkum í götum sem hannaðar séu fyrir hæga bílaumferð og áætlað sé að halda aukinni umferð í skefjum. Nákvæm útfærsla fari fram á seinni stigum í samræmi við kvaðir í deiliskipulagi. Farið verði í vinnu við að breyta núgildandi deiliskipulagi Skildinganess og Einarsness þar sem hljóðvist vegna umferðar verði tekin fyrir og ráðist í mögulegar mótvægisaðgerðir. Umferð hjólandi og gangandi verði aðgreind frá hvorri annarri sem og frá akandi umferð á hefðbundnu gatnakerfi nýja skipulagssvæðisins. Farið verði í aðgreiningu á núverandi Einarsnesi þegar gatan verði breikkuð í tengslum við uppbygginguna svo koma megi fyrir öruggum göngu- og hjólastígum. Bílaumferð til og frá Nýja Skerjafirði muni þá færast fjær núverandi byggð.

Umferðartengingar hafi verið skoðaðar við deiliskipulagsgerðina og niðurstaðan hafi verið sú að í skipulaginu væru góðar og öruggar tengingar við aðliggjandi hverfi. Ef tengja ætti bílaumferð við hverfið eftir öðrum leiðum yrði meiri umferð en að hafa hverfið lokað í annan endann. Ekki væri hægt að taka hávaða vegna flugumferðar með þegar fjallað væri um ónæði vegna umferðar þar sem um tvö ólíka mælikvarða væri að ræða. Hávaði frá umferð væri metinn sem 24 stunda sólahrings jafngildishljóðstig en hávaði frá flugvelli færi skv. skilyrtu starfsleyfi um flugtíma og fjölda lendinga. Gefið væri út sérstakt hávaðakort vegna útbreiðslu hávaða frá flugvöllum sem reiknað væri með öðrum forsendum en frá bílaumferð. Munur á hávaða sem yrði vegna flugtaks og lendingar væri slíkur að hávaði frá bílaumferð yrði óverulegur á meðan það gengi yfir og ekki um að ræða sammögnunaráhrif.

Deiliskipulagið uppfylli öll skilyrði um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir vegna hávaða og tillögur um aðgerðir vegna aukinnar umferðar og mótvægisaðgerðir væru skýrar og raunhæfar. Þá fallist borgaryfirvöld ekki á að skipulagstillagan hafi ekki verið kynnt kærendum og að öll máls­meðferð, þ.m.t. auglýsing skipulagstillögunnar, hefði verið í samræmi við ákvæði skipulags­laga nr. 123/2010.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Bent er á að hvorki í greinargerð Reykjavíkurborgar né skipulagsgögnum væri gerð grein fyrir neinum athugunum eða rannsóknum á neikvæðum áhrifum á hljóðvist vegna aukinnar umferðar um Einarsnes. Á fundi kærenda með starfs-mönnum skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, 16. september 2021, hafi það verið staðfest. Umhverfismatið sem lagt hafði verið til grundvallar ákvörðun um samþykkt deiliskipulagsins hafi þannig verið ófullnægjandi. Fullyrðingar borgaryfirvalda um að ekki verði sam-mögnunaráhrif vegna hávaða af bílaumferð og flugumferð væri útúrsnúningur enda gerði mikil umferð og stöðug það að verkum að hljóðtoppar, líkt og frá flugumferð, yrðu illbærilegri heldur en í samhengi við umferð sem væri lítil og strjál. Þá hafi borgayfirvöld hvorki vísað til viðurkenndra reglna, staðla né álits sérfræðinga. Yfirlýsing um að útfærsla mótvægisaðgerða muni koma fram á seinni stigum í samræmi við kvaðir í deiliskipulagi staðfesti það að raunverulegar mótvægisaðgerðir vegna neikvæðra umhverfisáhrifa á byggð við Einarsnes hafi hvorki verið útfærðar né ákveðnar. Tillögur í greinargerð borgaryfirvalda séu á vinnslustigi, óljósar og óákveðnar. Mótvægisaðgerðir eigi að liggja fyrir í umhverfismati og vera kynntar fyrir íbúum áður en sveitarfélag geti samþykkt nýja skipulagsáætlun. Stjórnvöldum hljóti einnig að vera skylt að útskýra hvers vegna ákjósanlegast sé að beina allri umferð fólksbíla til og frá hinu nýja hverfi um Einarsnes og hvers vegna aðrir kostir komi ekki til álita.

Umfjöllun borgarinnar um aukningu umferðar hafi verið villandi og jafnvel vanmetin vegna óraunsærra forsendna um minni bílaeign í hinu nýja hverfi. Engin greining hafi átt sér stað á áhrifum nýs deiliskipulags á umferðaröryggi utan skipulagssvæðisins og ekki hugað að umferðaröryggi í núverandi Einarsnesi þrátt fyrir að mestu áhrifin af auknum umferðarþunga verði þar. Verið sé að gera húsagötu að stofnbraut að nýju hverfi og því hafi verið rík þörf á að greina og fjalla um umferðaröryggi við undirbúning deiliskipulagsins, skilgreina mótvægisaðgerðir og kynna niðurstöðuna fyrir íbúum. Reykjarvíkurborg hafi vanrækt þessa skyldu sína og þannig brotið gegn ákvæðum í skipulagslögum nr. 123/2010 og skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórn gerð skipulagsáætlana og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Við skipulagsgerð ber sveitarstjórnum að fylgja markmiðum skipulagslaga, sbr. 1. gr. laganna, þ. á m. því að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þó svo að hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. mgr. ákvæðisins. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallar­reglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Samhliða auglýsingu umræddrar deiliskipulagstillögu var auglýst breyting á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og tók sú breyting gildi með auglýsingu þess efnis í B-deild Stjórnar­tíðinda 7. maí 2021. Þegar vinna við deiliskipulagstillögu hefst skal sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefni, sbr. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Sveitarstjórn er þó heimilt að falla frá gerð slíkrar lýsingar ef allar meginforsendur deiliskipulagsins liggja fyrir í aðal­skipulagi, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Þar sem allar meginforsendur deiliskipulagsins lágu fyrir í aðalskipulagi var ekki unnin sérstök lýsing fyrir deiliskipulagið líkt og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga heimilar. Hið kærða deiliskipulag var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna þess sem og þeir gerðu. Í svörum skipulagsfulltrúa kom fram að í tengslum við endurgerð Einarsness yrði farið í vinnu við að breyta núgildandi deiliskipulagi Skildinganess og deiliskipulagi Einarsness þar sem hljóðvist vegna umferðar yrði tekin fyrir og ráðist í mögulegar mótvægisaðgerðir. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Stofnunin gerði ekki athugasemdir við deiliskipulagið og tók það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 9. júlí 2021.

Samkvæmt gr. 5.4.1. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 skal í umhverfismati meta líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum á aðliggjandi svæði og einstaka þætti deiliskipulags á hljóð­vist. Þá ber að áætla áhrif af umferð og hávaða. Gera skal grein fyrir þessu mati og niðurstöðu þess í greinargerð deiliskipulagsins og gera breytingar á deiliskipulagstillögunni ef hinar fyrirhuguðu framkvæmdir hafa neikvæð áhrif.

Í greinargerð deiliskipulagsins kemur fram að reiknað sé með að umferð um Einarsnes aukist úr 2.800 bílum á sólarhring í 9.000 bíla. Er þar um þreföldun að ræða. Samkvæmt hljóðvistarskýrslu sem unnin var samhliða deiliskipulaginu verður hljóðstig innan skipulagssvæðisins vegna akandi umferðar yfir mörkum við húshliðar sem snúa að götunum Einarsnesi og Skeljanesi og gerir deiliskipulagið ráð fyrir mótvægisaðgerðum vegna þessa. Ekki liggur fyrir í hinu kærða deiliskipulagi að áhrif aukinnar umferðar á byggð við núverandi Einarsnes hafi verið metin hvað varðar hljóðvist og loftgæði eða til hverra mótvægisaðgerða skuli gripið. Í ljósi þess að sú umferð sem mun fara um nýja Einarsnes og Skeljanes mun öll fara um núverandi Einarsnes má telja verulegar líkur á að hið sama muni eiga við þar. Hvað varðaði mögulegar mótvægisaðgerðir vegna neikvæðra áhrifa utan skipulagssvæðisins var tekið fram að farið yrði í vinnu við breytingar á deiliskipulagi Einarsness og deiliskipulagi Skildinganess.

Gera verður þá kröfu að stjórnvöld rannsaki líkleg áhrif þeirra framkvæmda sem fyrirhugaðar eru á grundvelli deiliskipulags og upplýsi íbúa um hvaða mótvægisaðgerðir séu fyrirhugaðar vegna neikvæðra áhrifa þess. Hins vegar verður einnig að horfa til þess að við gerð deiliskipulags er einungis verið að skipuleggja það svæði sem fellur innan marka þess. Er þannig ekki hægt að kveða á um mótvægisaðgerðir eða framkvæmdir í hinu kærða deiliskipulagi sem kveða á um framkvæmdir á svæði sem er á öðru deiliskipulagssvæði. Slíkar aðgerðir verður að kveða á um með breytingum á gildandi deiliskipulagi Einarsness og eftir atvikum Skildinganess. Fram kemur í greinargerð með hinu kærða deiliskipulagi að farið verði í vinnu við að breyta núgildandi deiliskipulagi Skildinganess og deiliskipulagi Einarsness þar sem hljóðvist vegna umferðar yrði tekin fyrir og ráðist í mögulegar mótvægisaðgerðir.

Að framangreindu virtu er ekki að finna þá form- eða efnisannmarka á hinni kærðu ákvörðun er raskað geta gildi hennar og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Rétt þykir að benda á að leiði hin kærða ákvörðun til aukins hávaða eða loftmengunar geta kærendur snúið sér til heilbrigðisnefndar til að það verði mælt og krafist úrbóta, t.a.m. í samræmi við reglugerð nr. 787/1999 um loftgæði eða reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Auk framangreinds geta kærendur eftir atvikum farið fram á bætur í samræmi við 51. gr. skipulagslaga.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarstjórnar Reykjavíkur frá 20. apríl 2021 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Nýja Skerjafjörð.

13/2022 Miðbær Kópavogs

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 1. febrúar, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 13/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 14. desember 2021 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir reiti B1-1, B1-3, B2 og B4 í miðbæ Kópavogs.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. janúar 2022, er barst nefndinni 19. s.m., kærir SGHB fasteignir ehf. þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 14. desember 2021 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir reiti B1-1, B1-3, B2 og B4 í miðbæ Kópavogs. Er þess krafist að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi og að engar framkvæmdir verði heimilaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 6. desember 2021 var tillaga að deiliskipulagi fyrir reiti B1-1, B1-3, B2 og B4 í miðbæ Kópavogs samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarráðs 9. s.m. var afgreiðslu skipulagsráðs vísað til bæjarstjórnar og samþykkti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum 14. s.m. Hið nýja deiliskipulag tók svo gildi 20. desember 2021 við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Kærandi vísar til þess að í hinu kærða deiliskipulagi sé gert ráð fyrir einu bílastæði á hverja 100 m2 en það séu mun færri stæði heldur en hafi verið gert á sínum tíma vegna Hamraborgar 10, auk þess sem gert sé ráð fyrir að nýbygging verði þar sem bílastæði séu nú staðsett. Ásókn í bílastæðin sem fyrir séu muni aukast verulega og stæði fyrir fatlaða hverfa. Forsendur fyrir áframhaldi rekstri kæranda að Hamraborg 10 séu aðgengi að bílastæðum við húsið og að fatlaður starfsmaður eigi greiða leið að húsinu. Skipulagið uppfylli ekki þær forsendur. Þá muni Hamraborg 10 verða í ævarandi skugga fyrirhugaðrar nýbyggingar. Athugun á vindálagi í skipulaginu sé illa unnin og vandséð hvaða verkfræði liggi þar að baki. Ónæði verði vegna sprenginga á byggingatíma. Þá séu fjölmargir form- og efnisgallar á undirbúningi og afgreiðslu skipulagsins. Þeir ágallar og annmarkar tengist undirbúningi, samráði og umfjöllun um athugasemdir bæjarbúa.

Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fresti stjórnsýslukæra ekki réttaráhrifum. Jafnframt segi í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en hins vegar geti kærandi farið fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hér sé um að ræða deiliskipulagsákvörðun sem feli ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þurfi til þess sérstakt leyfi í formi framkvæmda- eða byggingarleyfis. Verði því ekki séð að tilefni sé til að fallast á framkomna stöðvunarkröfu, enda hafi engin slík leyfi verið veitt og framkvæmdir því hvorki hafnar né yfirvofandi að svo stöddu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verði því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvunframkvæmda vegna hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.

 Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulags­ákvörðunar er hafnað.

11/2022 Miðbær Kópavogs

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 1. febrúar, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 11/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 14. desember 2021 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir reiti B1-1, B1-3, B2 og B4 í miðbæ Kópavogs.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. janúar 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Vinir Kópavogs og 18 einstaklingar þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 14. desember 2021 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir reiti B1-1, B1-3, B2 og B4 í miðbæ Kópavogs. Er þess krafist að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi og að engar framkvæmdir verði heimilaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 6. desember 2021 var tillaga að deiliskipulagi fyrir reiti B1-1, B1-3, B2 og B4 í miðbæ Kópavogs samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarráðs 9. s.m. var afgreiðslu skipulagsráðs vísað til bæjarstjórnar og samþykkti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum 14. s.m. Hið nýja deiliskipulag tók svo gildi 20. desember 2021 við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Kærendur vísa til þess að gerð deiliskipulagsins hafi verið afhent einkaaðilum. Tvö félög virðist hafa gengið til samstarfs við Kópavogsbæ um gerð deiliskipulagsins en skipulagið hafi að mestu leyti verið unnið af arkitektastofu sem starfi á vegum félaganna. Skilyrði skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir því að heimila landeigenda eða framkvæmdaaðila að vinna sjálfir að gerð deiliskipulags hafi ekki verið uppfyllt. Þar sem skýr lagaákvæði um ábyrgð á undirbúningi, gerð og afgreiðslu deiliskipulags séu ekki uppfyllt beri að fella hið kærða skipulag úr gildi. Samráð um deiliskipulag hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur og svör bæjaryfirvalda við athugasemdum hafi verið ábótavant. Þá séu fjölmargir form- og efnisgallar á undirbúningi og afgreiðslu skipulagsins. Þeir ágallar og annmarkar tengist undirbúningi, samráði og umfjöllun um athugasemdir bæjarbúa.

Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fresti stjórnsýslukæra ekki réttaráhrifum. Jafnframt segi í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en hins vegar geti kærandi farið fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hér sé um að ræða deiliskipulagsákvörðun sem feli ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þurfi til þess sérstakt leyfi í formi framkvæmda- eða byggingarleyfis. Verði því ekki séð að tilefni sé til að fallast á framkomna stöðvunarkröfu enda hafi engin slík leyfi verið veitt og framkvæmdir því hvorki hafnar né yfirvofandi að svo stöddu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hennar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verði því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda vegna hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.

 Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulags­ákvörðunar er hafnað.

10/2022 Miðbær Kópavogs

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 1. febrúar, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 10/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 14. desember 2021 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir reiti B1-1, B1-3, B2 og B4 í miðbæ Kópavogs.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 18. janúar 2022 kærir eigandi, Urðarbraut 7, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 14. desember 2021 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir reiti B1-1, B1-3, B2 og B4 í miðbæ Kópavogs. Er þess krafist að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi og að engar framkvæmdir verði heimilaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 6. desember 2021 var tillaga að deiliskipulagi fyrir reiti B1-1, B1-3, B2 og B4 í miðbæ Kópavogs samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarráðs 9. s.m. var afgreiðslu skipulagsráðs vísað til bæjarstjórnar og samþykkti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum 14. s.m. Hið nýja deiliskipulag tók svo gildi 20. desember 2021 við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Kærandi vísar til þess að hvergi í gögnum deiliskipulagsins séu stæði fyrir fatlaða skilgreind fyrir Hamraborg 10 eða Hamraborg 12 í framkvæmdafasa 1 og 2 á framkvæmdatíma. Óvissa muni ríkja um aðgengi fatlaðra og rétt þeirra að stæðum. Aðgengi að bílastæðum verði sýnilega takmarkandi þáttur á áætluðum byggingartíma sem geti varað í um 5-7 ár. Það sé grundvallaratriði að bílastæði fatlaðra séu tryggð á meðan á framkvæmdum standi. Þá sé vindálag og skuggavarp íþyngjandi gagnvart þeim sem nýti sér þjónustu að Hamraborg 10.

Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fresti stjórnsýslukæra ekki réttaráhrifum. Jafnframt segi í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en hins vegar geti kærandi farið fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hér sé um að ræða deiliskipulagsákvörðun sem feli ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þurfi til þess sérstakt leyfi í formi framkvæmda- eða byggingarleyfis. Verði því ekki séð að tilefni sé til að fallast á framkomna stöðvunarkröfu, enda hafi engin slík leyfi verið veitt og framkvæmdir því hvorki hafnar né yfirvofandi að svo stöddu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verði því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda vegna hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.

 Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulags­ákvörðunar er hafnað.

8/2022 Miðbær Kópavogs

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 1. febrúar, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 8/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 14. desember 2021 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir reiti B1-1, B1-3, B2 og B4 í miðbæ Kópavogs.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 16. janúar 2022 kærir eigandi, Fannborg 7, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 14. desember 2021 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir reiti B1-1, B1-3, B2 og B4 í miðbæ Kópavogs. Er þess krafist að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi og að engar framkvæmdir verði heimilaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

 

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 6. desember 2021 var tillaga að deiliskipulagi fyrir reiti B1-1, B1-3, B2 og B4 í miðbæ Kópavogs samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarráðs 9. s.m. var afgreiðslu skipulagsráðs vísað til bæjarstjórnar og samþykkti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum 14. s.m. Hið nýja deiliskipulag tók svo gildi 20. desember 2021 við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Kærandi vísar til þess að skv. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 skuli við gerð deiliskipulags leita eftir föngum eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa, umsagnaraðila og annarra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta. Það skuli gert með virkri samvinnu við íbúa og aðra hagsmunaaðila gegnum allt skipulagsferlið. Séð skuli til þess að upplýsingar um skipulagsferlið og gögn sem varði skipulagsgerðina séu aðgengileg á vinnslutímanum. Samráð bæjaryfirvalda við íbúa hafi verið til málamynda og fylgi hvorki efni né anda lagareglna. Svör við athugasemdum séu málamyndagjörningur og brotin séu ákvæði um almennan kynningarfund áður en skipulag sé auglýst. Af þessum sökum beri að fella hið kærða skipulag úr gildi.

Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fresti stjórnsýslukæra ekki réttaráhrifum. Jafnframt segi í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en hins vegar geti kærandi farið fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hér sé um að ræða deiliskipulagsákvörðun sem feli ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þurfi til þess sérstakt leyfi í formi framkvæmda- eða byggingarleyfis. Verði því ekki séð að tilefni sé til að fallast á framkomna stöðvunarkröfu, enda hafi engin slík leyfi verið veitt og framkvæmdir því hvorki hafnar né yfirvofandi að svo stöddu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verði því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda vegna hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.

 Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulags­ákvörðunar er hafnað.

141/2021 Sjónarvegur

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 27. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 141/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 21. janúar 2021 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Sjónarvegar 1 í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. september 2021, er barst nefndinni sama dag kærir eigandi, Sjónarvegi 1, Garðabæ, þá ákvörðun byggingar­fulltrúa Garðabæjar frá 21. janúar 2021 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Sjónarvegar 1. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 17. nóvember og 16. desember 2021.

Málsatvik og rök: Hinn 21. janúar 2021 gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt á húsinu að Sjónarvegi 1 í Garðabæ með athugasemd um að vélrænt afsog væri ekki til staðar í öllum eldhúsum. Með tölvupósti kæranda til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar 11. mars s.á. voru gerðar athugasemdir við greinda afgreiðslu byggingarfulltrúa, einkum hvað varðaði úttekt vegna brunamála. Einnig var bent á að fulltrúi slökkviliðsins hefði ekki verið viðstaddur loka­úttektina. Í kjölfarið óskaði Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skýringa frá byggingarfulltrúa og rökstuðningi fyrir afgreiðslu málsins. Hinn 8. október 2021 lá fyrir sú niðurstaða stofnunarinnar að framkomnar skýringar teldust fullnægjandi og að á grundvelli þeirra upplýsinga og gagna er fyrir lægju í málinu væri það í réttum farvegi hjá byggingarfulltrúa.

Kærandi telur að úttekt vegna brunavarna í sameign sé verulega ábótavant. Til að mynda sé inntaksrými rafmagns ekki þétt og veggir ekki með réttum IEXZ staðli. Þá hefði ekki átt að samþykkja handrið í stigagangi en sumstaðar sé hægt að mynda op sem sé stærra en leyfilegt bil á milli pósta. Fylgja beri lágmarkskröfum sem gerðar séu í reglugerðum og öryggisatriði og brunavarnir skulu vera í lagi. Hagsmunir kæranda og annarra íbúðareigenda hússins séu skertir vegna þessa og öryggi íbúa stefnt í hættu. Geti ágallar á úttekt haft áhrif á sölu íbúða í húsinu. Þá sé erfitt að segja til um hvort kærufrestur í máli þessu sé liðinn þegar málið hafi staðið í stað svona lengi.

 Sveitarfélagið hefur ekki skilað greinargerð í máli þessu en í svari byggingarfulltrúa til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 20. apríl 2021, kemur m.a. fram að stöðuútekt á húsinu hafi verið í lagi. Öryggistúttekt hafi farið fram 28. október 2020 að viðstöddum m.a. fulltrúa Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, sem mælt hafi með því að öryggisvottorð yrði gefið út enda engar eða óverulegar athugasemdir gerðar við eldvarnir húsnæðisins. Við lokaúttekt hafi öryggisúttektin legið fyrir og talið hafi verið að úttektaraðili fyrir hönd byggingarfulltrúa myndi fylgja eftir skýrslu slökkviliðsins. Heimilt sé að gera öryggis- og lokaúttekt á sama tíma. Skoðun vegna lokaúttektar sé sjónskoðun og sé skoðunarmanni ekki ætlað að prófa virkni tækja eða búnaðar. Þá sé ekki að sjá að framkomnar athugasemdir eigi við rök að styðjast.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Svo sem fyrr er rakið gaf byggingar­fulltrúi Garðabæjar út vottorð um lokaúttekt 21. janúar 2021. Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvort sveitarfélagið hafi tilkynnt kæranda um útgáfu vottorðsins þegar það var gefið út en fyrir liggur að í mars s.á. kom hann að athugasemdum hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vegna mögulegrar „kæru“ á lokaúttekt. Hinn 9. júlí 2021 sendi kærandi tölvupóst til stofnunar­innar til að athuga stöðu málsins og kom fram í svarpósti 13. s.m. að verið væri að skoða málið og að kærandi yrði upplýstur um framgang þess. Jafnframt var bent á rétt kæranda til að kæra ákvörðun um lokaúttekt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og að nánari upplýsingar væri að finna á vef nefndarinnar. Að framan­greindu virtu má ljóst vera að kæranda var kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar eigi síðar en í mars 2021 og um kærurétt sinn til nefndarinnar 13. júlí s.á. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 6. september 2021, eða að liðnum lögbundnum kærufresti.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl.1. mgr. 28. gr. eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Fyrir liggur að kæranda var kunnugt 13. júlí 2021 að unnt væri að skjóta ákvörðun um lokaúttekt til úrskurðarnefndarinnar og hefði hann þá getað aflað sér frekari upplýsinga og gert reka að því að skjóta málinu til nefndarinnar innan lögmælts kærufrests.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem hvorki verður talið að fyrir hendi séu þau atvik að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr né veigamiklar ástæður fyrir því að kæran verði tekin til efnismeðferðar eins og málsatvikum er háttað verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

130/2021 Skuggabakki

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 27. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 130/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 2. júlí 2021, um að aðhafast ekki frekar vegna meintrar ólögmætrar notkunar eignar­hluta í fjöleignarhúsinu að Skuggabakka 2 í Mosfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júlí 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi eignarhluta 0103 í fjöleignarhúsinu að Skuggabakka 2 í Mosfellsbæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 2. júlí 2021 að hafna því að beitt verði úrræðum 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki gagnvart eiganda eignarhluta 0104 að Skuggabakka 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 31. ágúst 2021.

Málavextir: Á lóðinni Skuggabakka 2 í Mosfellsbæ er fjöleignarhús sem í eru fjögur hest­hús auk aðstöðu á sameiginlegri lóð. Er lóðin á svæði sem skilgreint er sem hestaíþróttasvæði í gildandi deiliskipulagi og liggur fyrir lóðarleigusamningur milli eigenda fjöleignarhússins og Mosfellsbæjar. Hinn 6. apríl 2020 sendi kærandi erindi til sveitarfélagsins þar sem m.a. kom fram að samkvæmt lóðarleigu­samningi væri umrædd lóð leigð undir hesthús en ekki til búsetu eða til annarra nota. Jafnframt væri hvers konar atvinnurekstur, iðnaðar- eða verkstæðisrekstur óheimill á lóðinni. Í eignar­hluta 0104 væru hins vegar ekki haldnir hestar heldur væri þar verkstæði og geymsla og var óskað nánari skýringa á ákvæðum leigusamningsins. Í tölvupósti kæranda til Mosfellsbæjar 26. maí s.á. var og tekið fram að hesthúsinu hefði verið breytt í atvinnuhúsnæði með herbergjum í stað stía.

Með bréfi byggingarfulltrúa til eiganda umrædds eignarhluta, dags. 18. nóvember 2020, var bent á að ekki væri heimild fyrir breyttri notkun hesthússins og þess krafist að gerð yrði grein fyrir í hverju breytingin væri fólgin. Í svarbréfi eigandans, dags. 24. s.m., kom m.a. fram að engar breytingar hefðu verið gerðar á húsnæðinu umfram eðlilegt viðhald. Með tölvupósti byggingarfulltrúa til kæranda 2. júlí 2021 var tilkynnt að við skoðun á húsnæðinu 22. júní s.á. hefði komið í ljós að það væri nýtt til geymslu lausamuna og að eigandi þess hefði staðfest að þar væri ekki stunduð atvinnustarfsemi. Í ljósi þess yrði ekki séð að núverandi notkun ylli öðrum eigendum Skugga­bakka 2 ónæði og myndi byggingarfulltrúi ekki aðhafast frekar í málinu. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að eigandi eignarhluta 0104 haldi ekki hesta og hafi í þess stað notað hesthús sitt og tilheyrandi gerði sem geymslupláss. Af því hafi nágrannar augljósan ama, einkum kærandi, sem eigi hesthús sem næst sé fyrrnefndu hesthúsi.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu sveitarfélagins er bent á að í vettvangsheimsókn byggingar­fulltrúa hafi fengist staðfest að nýtingu á eignarhluta 0104 hafi ekki verið breytt í andstöðu við 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þannig að eignarhlutinn væri nýttur til búsetu, atvinnu-, iðnaðar- eða verkstæðisreksturs í andstöðu við lóðarleigusamning fyrir lóðina. Því sé ekki fallist á að tilefni hafi verið til að beita úrræðum 1. mgr. 56. gr. laganna. Eigandi umrædds eignarhluta sé handhafi beins eignarréttar yfir eignarhlutanum ásamt því að vera handhafi óbeinna eignarréttinda yfir lóðinni sem lóðarleigusamningurinn taki til. Hafi hann lögvarinn umráða- og hagnýtingarrétt yfir eign sinni sem njóti stjórnskipulegrar verndar. Eignin sé fyrst og fremst nýtt til geymslu lausamuna, sem að sögn eiganda hússins tengist hestamennsku. Afgreiðsla byggingarfulltrúa verði að teljast samrýmast sjónarmiðum um meðalhóf og vernd eignarréttinda. Ljóst sé að málið stafi fyrst og fremst af einkaréttarlegum deilum milli eigenda fjöleignarhússins. Mosfellsbær geti eðli máls samkvæmt ekki talist aðili eða tekið sérstaka afstöðu í slíkum málum.

Málsrök eiganda eignarhluta 0104: Eigandi umrædds eignarhluta tekur fram að eignarréttur hans sé verndaður af stjórnarskrá. Húsið sé og verði hesthús. Þótt ekki séu hross þar tímabundið sé ekki hægt að beita lagaákvæðum og dagsektum til að þvinga hann til að eignast hesta og halda þá í húsinu. Notkun hússins hafi ekki verið breytt, innréttingum eða öðru og byggingar­fulltrúi hafi ekki gert athugasemdir vegna notkunar hússins. Ekkert í skilmálum komi í veg fyrir að í húsinu séu lausamunir enda stafi engum hætta né ami af þeim. Fullyrðing um að kæranda stafi ónæði af lausamunum í lokuðu húsi sé óskiljanleg. Eigi þetta líka við um kyrr­stæða hestakerru í hestagerði. Einkum sé um að ræða handverkfæri sem ætluð séu til söðlasmíði en sú starfsgrein sé frá fornu fari órjúfanlegur þáttur hestamennsku og fráleitt að amast við slíkum tólum í hesthúsi. Engin atvinnustarfsemi fari fram í hesthúsinu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi vísar m.a. til þess að samkvæmt lóðarleigusamningi fyrir umrædda lóð sé ekki einungis óheimilt að nota hesthúsið til búsetu, atvinnu-, iðnaðar- og verkstæðisreksturs heldur einnig til annarra nota en sem hesthús. Húsið sé nýtt til annarra nota og fari sú notkun augljóslega í bága við lóðarleigusamninginn. Samingurinn sé sameiginlegur fyrir fjóra eignarhluta og eigendur þeirra séu sameiginlega leigutakar. Það sé því ekki einkamál milli Mosfellsbæjar og eiganda eignarhluta 0104 hvernig staðið sé að framkvæmd samningsins og notkun lóðarinnar eins og helst megi ráða af málatilbúnaði bæjarins. Hafi bærinn skyldur gagnvart öðrum lóðarhöfum til að hlutast til um að skilmálar samningsins um hagnýtingu lóðar­innar séu virtir.

Sú fullyrðing að komið hafi í ljós í vettvangsheimsókn að notkun eignarhluta 0104 hafi ekki verið breytt í andstöðu við 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki fái ekki staðist. Óumdeilt sé að eignarhlutinn sé notaður sem geymsluhúsnæði og fari sú notkun bæði í bága við skipulag og lóðarleigusamning. Breytt notkun húsnæðisins sé háð byggingarleyfi óháð því hvort jafnframt séu gerðar breytingar á húsnæðinu sjálfu. Það hefði því þurft byggingarleyfi til að breyta notkun hesthússins, en það hefði ekki verið unnt að veita þar sem breytt notkun væri í bága við skipulag. Jafnframt hefði þurft að liggja fyrir samþykki annarra lóðarhafa sem ekki hafi verið til staðar.

Því sé mótmælt að hin breytta notkun valdi ekki ónæði. Þá sé ákvæði 1. mgr. 56. gr. laga um mannvirki skyldubundið og veiti byggingarfulltrúa ekki svigrúm til að leggja mat á áhrif breytinga gagnvart nágrönnum sem hann hafi þó tekið sér vald til að gera. Hvergi sé sett sem skilyrði fyrir því að til úrræða verði gripið að breytt notkun valdi ónæði. Þegar svo sé tekið til orða eins og í þessu ákvæði hafi dómstólar talið að stjórnvald ætti ekki annarra kosta völ en beita viðkomandi úrræði, sbr. t.d. skýringu Hæstaréttar á því sem rétturinn kalli „fortakslausum fyrirmælum 2. mgr. 56. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 í dómi réttarins í máli nr. 32/2008. Mat um að umrædd notkun valdi ekki ónæði fyrir aðra eigendur Skuggabakka 2 sé efnislega röng enda verði ekki séð að þetta mat sé reist á neinum gögnum eða viðhlítandi rannsókn á málinu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þvert á móti leiði af notkun á umræddum eignarhluta sem geymslurými að eigandi þess geri kröfu um að aðrir umgangist eignir sínar á lóðinni eins og þar megi ekki halda hesta. Gerði hans sé óhirt, þar séu geymdar gamlar gúmmímottur, dekk og plast sem sé að brotna niður og gömul hestakerra. Sé þessi hagnýting öðrum eigendum til ama. Eigi kærandi ríka lögvarða hagsmuni í málinu enda sé það réttur allra lóðarhafa að tryggt sé að notkun mannvirkja á lóðinni sé í samræmi við lóðarleigusamning og gildandi skipulag. Sé það jafnframt skylda byggingar­fulltrúa og sveitarfélagsins að tryggja að svo sé.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar að hafna kröfu kæranda um að beitt verði þeim úrræðum sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki gagnvart eiganda eignarhluta 0104 í fjöleignarhúsinu að Skuggabakka 2 vegna meintrar ólögmætrar notkunar eignarhlutans.

Samkvæmt deiliskipulagi hestaíþróttasvæðis á Varmárbökkum er gert ráð fyrir hesthúsum á umræddri lóð og í þinglýstum lóðarleigusamningi, dags. 7. desember 2011, milli Mosfellsbæjar og eigenda fjöleignarhússins er lóðin leigð undir hesthús, en ekki til búsetu eða til annarra nota. Hvers konar atvinnurekstur, iðnaðar- eða verkstæðisrekstur er samkvæmt samningnum óheimill á lóðinni.

Ákvæði 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga kveður m.a. á um skyldu byggingarfulltrúa til að aðhafast ef notkun mannvirkis sé breytt án samþykkis byggingarfulltrúa eða ef notkun mannvirkis brjóti í bága við skipulag. Skal byggingarfulltrúi þá gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Ákvæði 56. gr. laganna gefur sveitarfélögum kost á að bregðast við ef byggingarleyfisskyld framkvæmd gengur gegn almannahagsmunum, þ. á m. skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum, og eiga einstaklingar því ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram beitingu þvingunarúrræða vegna einkaréttarlegra hagsmuna sinna. Við mat stjórnvalds á því hvort beita eigi úrræðum tilvitnaðrar 56. gr. þarf þó sem endranær að fylgja meginreglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að baki ákvörðun búi málefnaleg sjónarmið.

Svo sem rakið er í málavöxtum beindi byggingarfulltrúi fyrirspurn til eiganda umrædds eignar­hluta um notkun húsnæðisins og fór jafnframt á vettvang til að skoða rýmið. Mat byggingar­fulltrúi það svo að skoðun lokinni að ekki yrði séð að núverandi notkun ylli öðrum eigendum ónæði og að því yrði ekki aðhafst frekar í málinu. Vísaði byggingarfulltrúi til þess að húsnæðið væri nýtt til geymslu lausamuna og að staðfest hefði verið við skoðun húsnæðisins að þar færi ekki fram atvinnustarfsemi. Verður að telja að haldbær rök hafi búið að baki ákvörðun byggingarfulltrúa enda fer geymsla lausamuna í húsrými, hvort sem um íbúðar-, atvinnu- eða annað húsnæði er að ræða, ekki í bága við skilgreinda notkun hússins í deiliskipulagi eða að almanna­hagsmunum sé raskað með geymslu lausamunanna í umræddu hesthúsi. Jafnframt verður ekki annað ráðið en að byggingarfulltrúi hafi gætt að því að upplýsa og rannsaka málið með viðhlítandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til þess sem að framan er rakið er kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 2. júlí 2021, um að aðhafast ekki frekar vegna meintrar ólögmætrar notkunar eignarhluta 0104 í fjöleignarhúsinu að Skuggabakka 2 í Mosfellsbæ.