Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

63/2022 Hrísateigur

Árið 2022, föstudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 63/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. júní 2022 um að synja um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Hrísateigi 15.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júní 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Hrísateigi 15, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. júní 2022 að synja umsókn hans um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Hrísateigi 15. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. ágúst 2022.

Málavextir: Hinn 20. september 2021 sóttu eigendur Hrísateigs 15 um leyfi til breytinga á húsinu sem fólust í áformum um að stækka stofur allra íbúða til suðurs, lengja svalir á 1. og 2. hæð, einangra húsið að utan og klæða það með bárujárni eða álklæðningu. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslu­fundum byggingarfulltrúa 28. september og 12. október 2021 þar sem henni var vísað til um­sagnar skipulagsfulltrúa. Umsóknin var enn á dagskrá afgreiðslufundar byggingarfulltrúa 15. desember s.á. þar sem afgreiðslu hennar var frestað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 10. s.m. Í umsögninni kom m.a. fram að um væri að ræða mikla breytingu þar sem hlutföll og ásýnd hússins breyttust mikið og að umsókn kæranda væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Hinn 25. maí 2022 kærði kærandi drátt á afgreiðslu málsins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og krafðist þess að afgreiðslu umsóknar hans yrði lokið. Í kjölfarið var byggingarleyfisumsókn kæranda synjað á afgreiðslu­fundi byggingarfulltrúa 7. júní 2022 með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa. Var kærandi því ekki lengur talinn eiga lögvarða hagsmuni af því að knýja fram afgreiðslu og kæru hans þess efnis vísað frá úrskurðarnefndinni hinn 15. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi talið að heimildir væru í endurskoðuðu deiliskipulagi Teigahverfis frá árinu 2002 fyrir byggingaráformum hans. Skipulagsfulltrúinn í Reykjavík hefði árið 2017 tekið jákvætt í fyrirspurn hans um það hvort leyfi fengist fyrir því að stækka húsið að Hrísateig 15, lyfta þaki og setja kvisti. Fordæmi séu fyrir því að ekki hafi verið leitað eftir umsögn skipulagsfulltrúa þegar gerðar hafi verið rishæðir í hverfinu. Eitt dæmi af mörgum sé tilgreind fasteign þar sem umsóknaraðili hafi verið starfsmaður skipulags­fulltrúa. Húsið sem um ræði sé „fullar tvær hæðir og/eða fullar þrjár hæðir (3×250) […]“. Þá horfi kærandi á fjölmargar nýbyggingar og viðbyggingar út um gluggann hjá sér sem skipulags­fulltrúi og byggingarfulltrúi hafi lagt blessun sína yfir. Um skipulagssvæði 1, sem fasteign kæranda tilheyri, segi einfaldlega í deiliskipulaginu að leyfilegt sé að raska hlutföllum töluvert mikið og sérkennum frá því sem hefði verið, þ.e. ef farið sé í ítrustu leyfilegar framkvæmdir samkvæmt svigrúmi vegna fordæma og heimilda deili­skipulagsins. Af umsögn skipulags­fulltrúa megi ráða að hann standi í þeirri trú að Hrísateigur 15 sé forskalað timburhús en það sé í reynd steinsteypt. Kærandi bendi á að sérkenni svæðis 1 í skipulaginu sé að þar séu allskonar húsagerðir og eigi það við um þá götumynd sem fasteign kæranda tilheyri.

Fasteign kæranda þurfi endurnýjun lífdaga líkt og mælt sé með í álitum sérfræðinga, t.d. í skýrslu starfshóps Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um endurskoðun laga og reglugerða með tilliti til myglusvepps í húsnæði frá í mars 2015. Brýnt sé að hefja framkvæmdir sem allra fyrst þar sem svalir séu við það að hrynja og hafi kærandi því lagt áherslu á framkvæmdir sem vinna mætti fljótt og örugglega.

Af fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa 7. júní 2022 megi ráða að hann hafi ekki sjálfur setið fundinn. Afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið frestað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. desember 2021 með vísan í umsögn skipulagsfulltrúa frá 10. s.m. Kærandi hafi gert alvarlegar athugasemdir við þessa umsögn skipulagsfulltrúa og fengið upp­lýsingar um að skipulagsfulltrúi væri að endurskoða umsögnina og að hann yrði látinn vita um leið og ný umsögn lægi fyrir. Byggingarfulltrúi hafi m.a. staðfest þær upplýsingar með tölvu­pósti 3. maí 2022. Því hafi ekki verið haldbært að bera greinda umsögn skipulagsfulltrúa fyrir sig sem röksemdafærslu fyrir fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. „[A]ugljóslega hefði umsóknin átt að vera áfram í rökstuddum frestunarfasa, eða hún samþykkt með vísun til heimilda í deiliskipulagi[…].“

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að í umsögn skipulagsfulltrúa frá 10. desember 2021 hafi komið fram að samkvæmt skipulagsskilmálum Teigahverfis frá 2002 skyldu allar breytingar vera úr sama efni og í sama stíl og upphaflega hefði verið gert. Timbur­hús skyldu vera klædd bárujárni eða timbri, eftir því sem við ætti, og múrhúðaðar byggingar vera múrhúðaðar. Leitast skyldi við að endurgera upphaflega klæðningu þeirra húsa sem hefðu verið forsköluð. Frágangur útveggja með bárujárns- eða álklæðningu sé því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Í umsókn kæranda um byggingarleyfi hefði verið gert ráð fyrir að út­veggur að götuhlið skyldi lengdur fram yfir svalir en án þaks. Þetta þyki brjóta í bága við deili­skipulagið þar sem hlutföll hússins raskist mjög mikið. Svalir þyki enn fremur ekki falla vel að húsinu.

Niðurstaða: Kærandi hefur greint frá því að hann telji umsögn skipulagsfulltrúa frá 10. desem­ber 2021 vera á misskilningi byggða. Hann hafi átt í samskiptum við embættið um að fá um­sögnina leiðrétta og talið að verið væri endurskoða hana. Umsókn kæranda um byggingar­leyfi hefði því verið í „frestunarfasa“ og byggingarfulltrúa af þeim sökum ekki verið stætt að nota um­sögn skipulagsfulltrúa sem rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun svo sem hann hefði gert. Líkt og áður greinir kærði kærandi töf á afgreiðslu málsins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auð­linda­mála og krafðist þess að byggingarfulltrúi lyki afgreiðslu þess. Í ljósi þeirrar kröfu kæranda og þeirra tafa sem þegar höfðu orðið á afgreiðslu málsins var byggingarfulltrúa rétt að ljúka málinu. Hafa borgaryfirvöld upplýst úrskurðarnefndina um að staðgengill byggingar­full­trúa hafi setið afgreiðslufund þann þar sem umsókn kæranda var afgreidd.

 Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga.

Lóðin að Hrísateig 15 er í grónu hverfi í austurbæ Reykjavíkur. Á svæðinu er í gildi endur­skoðað deiliskipulag Teigahverfis (syðri hluti) sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnar­tíðinda 16. ágúst 2002. Er svæðinu þar skipt í tvö svæði og tilheyrir lóð kæranda svæði 1. Í greinargerð skipu­lagsins segir í yfirliti um núverandi aðstæður á skipulagssvæðinu að á svæði 1 sé gert ráð fyrir breytingum en að svæði 2 sé talið fullbyggt og einungis lagðar til lítilsháttar breytingar á því svæði. Er um bæði svæðin vísað til skipulagsuppdráttar. Í almennum skil­málum skipulagsins segir um svæði 1 að þar sé byggð mjög blönduð hvað varði stærðir, stíl og áferð. Húsin séu úr timbri, hlaðin hús úr grásteini eða steyptum steini en einnig séu þar stein­steypt hús. Gert sé ráð fyrir að grunnflötur húsa geti breyst og hámarksstærð grunnflatar geti orðið allt að 200 m2. Um stækkunarmöguleika er vísað til byggingarreita á skipulags­uppdrætti. Þá kemur jafnframt fram að „[a]llar breytingar skulu vera úr sama efni og í sama stíl og upphaflega var gert. Þ.e. timburhús skal klætt bárujárni eða timbri eftir því sem við á og múrhúðaðar viðbyggingar múrhúðaðar.“ Þá sé heimilt að byggja svalir út fyrir byggingarreit en garðstofur og aðrar viðbyggingar skuli vera innan reitsins.

Líkt og að framan greinir er vísað til skipulagsuppdráttar um hugsanlega stækkun húsa á skipulagssvæðinu. Eru þar sýndir byggingarreitir á þeim lóðum skipulagssvæðisins þar sem heimildir eru veittar til stækkunar húsa. Þá fylgja skýringarmyndir með greinargerð skipulagsins sem sýna með hvaða hætti byggingarreitir taki mið af verndun götumyndar. Á skipulags­upp­drættinum er sýndur byggingarreitur fyrir lóðina Hrísateig 15 og má þar sjá að töluverðar heimildir eru veittar til stækkunar hússins og rúmast stækkunaráform kæranda innan byggingarreitsins. Í umsögn skipulagsfulltrúa í tilefni af umsókn kæranda er vísað til leið­beininga með hverfisskipulagi um það þegar grafið sé frá húsum í gróinni byggð og um leið­beiningar um svalabreytingar. Þær leiðbeiningar hafa þó ekki þýðingu hér þar sem hverfis­skipulag fyrir umrætt svæði hefur ekki tekið gildi. Á hinn bóginn ber að líta til þess að umrætt hús er steinsteypt með múrhúð að utan. Er því ljóst að áform kæranda um að klæða það með bárujárni eða álklæðningu uppfylla ekki skilyrði 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki um sam­ræmi byggingarleyfis við skipulagsáætlanir. Að því virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. júní 2022 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Hrísateig 15, Reykjavík.