Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

82/2022 Víðigrund

Árið 2022, fimmtudaginn 22. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 82/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. júní 2022, um að synja umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Víðigrundar 1-55 vegna lóðar nr. 23.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júní 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Víðigrund 23, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. júní 2022 að synja umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Víðigrundar 1-55. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og framlögð tillaga að breytingu á deiliskipulagi verði samþykkt en til vara að málið verði unnið aftur á hlutlausan og faglegan hátt. Að auki er gerð krafa um endurgreiðslu kostnaðar vegna grenndarkynningar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 26. ágúst 2022.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag Víðigrundar 1-55 í Kópavogi frá árinu 1989. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá er stærð íbúðarhússins að Víðigrund 23 skráð 131,1  m2 og stærð lóðarinnar er 456 m2. Er núverandi nýtingarhlutfall því 0,28. Hinn 21. október 2021 sótti kærandi um leyfi til að byggja 70,3 m2 viðbyggingu við núverandi hús. Erindið var lagt fram á fundi skipulagsráðs 15. nóvember 2021 og var afgreiðslu málsins frestað. Hönnuði kæranda barst tölvupóstur 16. s.m. frá skipulagsdeild Kópavogsbæjar þar sem fram kom að undirritað samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, Víðigrundar 25, þyrfti ef framkvæmdir væru fyrir-hugaðar á lóðamörkunum sjálfum. Þá var einnig bent á að sækja þyrfti um breytingu á deiliskipulagi þar sem deiliskipulag væri í gildi á svæðinu.

Á fundi skipulagsráðs 31. janúar 2022 var samþykkt að grenndarkynna erindi kæranda um breytingu á umræddu deiliskipulagi vegna Víðigrundar 23 fyrir lóðarhöfum Víðigrundar 11, 13, 21, 25, 29 og 31. Í breytingunni fólst heimild til að byggja 70,3 m2 viðbyggingu sem yrði á 1. hæð og kjallara við núverandi hús. Deiliskipulagsbreytingin var grenndarkynnt 19. apríl 2022 með athugasemdafresti til 20. maí s.á. Á kynningartímanum bárust athugasemdir frá lóðarhöfum Víðigrundar 25. Erindi kæranda var hafnað á fundi skipulagsráðs 20. júní 2022 með vísan til umsagnar skipulagsdeildar, dags. 16. s.m., og staðfesti bæjarstjórn afgreiðsluna á fundi sínum 28. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi telur verulega form- og efnisannmarka vera á hinni kærðu ákvörðun sem feli í sér brot á lögmætisreglunni, jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, meginreglunni um bann við mismunun, meginreglunni um réttmætar væntingar o.fl.

Viðbygging sú sem umsóttar breytingar hafi falið í sér sé í samræmi við byggðamynstur, húsa- og götumynd og feli ekki í sér skuggamyndun eða útsýnisskerðingu. Nýtingar- og byggingarhlutfall sé jafnframt í samræmi við nýtingu á öðrum lóðum. Umsótt breyting sé sambærileg þeim breytingum sem gerðar hafi verið á öðrum húsum í götunni, en 12 af 38 húsum hafi verið breytt.

Heildarbyggingarmagn á lóð eftir breytingu verði 201,4 m2 sem muni gera nýtingar­hlutfallið 0,44. Meðaltalsnýtingarhlutfall á lóðum Víðigrundar 9-21 og 25-35 sé 0,37, minnst 0,27 og mest 0,77. Um brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins sé að ræða þar sem íbúum sé mismunað. Ljóst sé að fjölda fasteigna í götunni hafi verið breytt og byggt hafi verið við þau sem og að nýtingarhlutfall og byggingarmagn sé meira en í umsóttum breytingum kæranda. Engin rök séu færð fyrir því hvers vegna umræddri tillögu að breytingu á deiliskipulagi hafi verið hafnað. Ekki sé bent á neikvæð áhrif hennar svo sem vegna götumyndar, byggðamynsturs, byggingarmagns, nýtingarhlutfalls, sjónmengunar, útsýnisskerðingar eða nein önnur málefnaleg sjónarmið.

Þá hafi sveitarfélagið ekki uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína samkvæmt stjórnsýslulögum. Þegar kærandi hafi fyrst leitað til skipulagsdeildar hafi honum aðeins verið leiðbeint um að fá áritun aðliggjandi lóðahafa á teikningarnar. Í kjölfar þess að kærandi hafi bent á að sú krafa væri ekki í samræmi við gildandi lög hafi skipulagsyfirvöld ákveðið að málið skyldi fara í grenndarkynningu. Eftir synjun á umsókninni hafi ítrekað komið fram í samtölum við starfsmenn skipulagsyfirvalda að málið hefði ekki átt að fara í grenndarkynningu án nokkurs rökstuðnings. Hafi það verið afstaða sveitarfélagsins hafi leiðbeiningar þess efnis átt að berast í upphafi málsins haustið 2021, áður en kærandi hafi lagt út í kostnað og vinnu við grenndarkynningu. Í umsögn skipulagsdeildar, dags. 16. júní 2022, hafi ekki verið að finna leiðbeiningar og þá hafi ekki verið til staðar vilji til að leiðbeina frekar í kjölfar synjunar á umsókn um breytingu á deiliskipulagi. Starfsmenn skipulagsdeildar hafi neitað að hitta kæranda og hönnuð hans vegna málsins. Þá hafi borist ófullnægjandi leiðbeiningar með tölvupósti eftir fund með bæjarstjóra.

Kærandi hafi fengið heimsókn og hótanir frá fyrrum bæjarfulltrúa og fulltrúa í skipulagsráði Kópavogsbæjar. Eftir þá heimsókn hafi annar starfsmaður skipulagsdeildar tekið við málinu og hafi hann tekið aðra afstöðu í því. Ekki hafi fengist skýringar á því hvers vegna annar starfsmaður hafi verið látinn taka við málinu. Þegar kærandi hafi óskað skýringa á niðurstöðu málsins hjá þessum starfsmanni hafi hann fengið þau svör að viðbyggingin hafi verið of stór og ekki átt að fara í grenndarkynningu. Hann hafi þó ekki getað svarað því hvernig stærð viðbyggingarinnar hafi verið metin og hvað teldist umfangsmikið og hvað ekki. Þá hafi hann ekki getað svarað því hvers vegna sveitarfélagið hafi látið málið fara í grenndarkynningu ef mat þess væri það að málið hefði ekki átt að fara þá leið. Illa hafi gengið að fá fund með umræddum starfsmanni en þó gengið að lokum. Kærandi hafi haft samband við skipulagsfulltrúa sem hafi brugðist illa við. Að loknu símtalinu hafi kæranda borist tölvupóstur frá fyrrnefndum starfsmanni skipulagsdeildar þar sem fram hafi komið að fyrirhuguðum fundi hefði verið aflýst þar sem „lóðarhafi hafi þegar haldið þennan fund með skipulagsfulltrúa í síma hér rétt áðan og fengið sín svör“. Þarna hafi kæranda verið refsað fyrir að krefjast skýringa og upplýsinga um hvernig ferli málsins hafi verið en kærandi hafi einnig sent tölvupóst til allra bæjarfulltrúa Kópavogs og upplýst um léleg vinnubrögð skipulagsdeildar og meint pólitísk afskipti af málinu. Á fundi með bæjarstjóra og skipulagsfulltrúa vegna málsins 6. júlí 2022 hafi bæjarstjóri talið að um misskilning væri að ræða og lagt til að skipulagsfulltrúi myndi senda kæranda almennilegar leiðbeiningar. Þær hafi borist samdægurs en verið ófullnægjandi.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að kröfum kæranda verði hafnað. Með hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Í henni felist að óheimilt sé að mismuna aðilum sem eins sé ástatt um og að sambærileg mál beri að afgreiða á sambærilegan hátt, sbr. 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi vísi til breytinga á lóðum nr. 35 og 55 við Víðigrund en aðstæður þar séu ekki sambærilegar og á lóðinni nr. 23. Breyting á deiliskipulagi Víðigrundar vegna lóðar nr. 55 hafi falið í sér heimild til að byggja 18,4 m2 sólstofu við vesturhlið hússins en sú breyting hafi óveruleg grenndaráhrif á aðliggjandi lóð hvað varði skuggavarp, nánd, innsýn og útsýni. Tillaga kæranda sé umfangsmeiri og grenndaráhrif hennar umtalsvert meiri. Breytingar vegna lóðar nr. 35 hafi falið í sér heimild til að reisa viðbyggingu og tengibyggingu á lóðinni, samtals 57 m2 að flatarmáli. Einnig hafi verið veitt heimild til að nýta áður gerðan kjallara undir íbúðarhúsinu og koma fyrir tveimur gluggum á vesturhlið kjallarans. Með breytingunni hafi nýtingarhlutfall farið úr 0,30 í 0,61. Á sínum tíma hafi engar athugasemdir borist vegna breytinga á framangreindum lóðum. Aðrar breytingar sem kærandi vísi til séu ekki sambærilegar tillögu kæranda en þar hafi verið um að ræða breytingar á staðsetningu bílskúra sem hefðu haft óveruleg grenndaráhrif. Þá hafi þær breytingar sem kærandi fjalli um verið samþykktar fyrir gildistöku Aðalskipulags Kópavogs 2019-2040.

Við mat á tillögu kæranda hafi verið horft til síðustu breytinga á deiliskipulagi Víðigrundar 1-55. Nýjasta breytingin heimili m.a. dvalarrými í áður ónotuðu kjallararými hússins á lóð nr. 7 en við þá breytingu hafi nýtingarhlutfall lóðar farið í 0,57. Breyting sem gerð hafi verið þar á undan hafi falið í sér heimild til að byggja kjallara undir bílageymslu á lóð nr. 21, ásamt því að stækka grunnflöt bílageymslunnar um 25 m2. Eftir breytinguna hafi nýtingarhlutfall lóðar orðið 0,56 en engar athugasemdir hafi borist við tillöguna. Þá hafi bæjarstjórn einnig samþykkt breytingu á lóð nr. 35 sem hafi m.a. falið í sér heimild til að byggja kjallararými undir bílageymslu sem tengdist kjallara hússins. Eftir breytinguna sé nýtingarhlutfall lóðar 0,78. Engar athugasemdir hafi borist við framangreindar tillögur. Þessi dæmi teljist óverulegar breytingar í skilningi skipulagslaga nr. 123/2010.

Tillaga kæranda teljist ekki óveruleg breyting í skilningi skipulagslaga þar sem hún hafi í för með sér neikvæð umhverfisáhrif fyrir lóð nr. 25 og þá einkum vegna skuggavarps og útsýnis-skerðingar. Ennfremur leiði tillagan til þess að aðkoma að útidyrum á lóð nr. 25 sé þrengri og hafi þannig neikvæð umhverfisáhrif á nánd og innsýn, þ.e. notkun eignarinnar, sbr. það sem fram kemur í umsögn skipulagsdeildar, dags. 16. júní 2022. Hefði tillaga kæranda verið samþykkt hefði nýtingarhlutfall lóðarinnar orðið nokkuð hærra en meðaltals nýtingarhlutfall á svæðinu. Slík breyting væri fordæmisgefandi fyrir nærliggjandi lóðir.

Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 sé Víðigrund 23 á íbúðasvæði ÍB-2. Í 2. kafla greinargerðar aðalskipulagsins sé m.a. fjallað um skilgreiningu landnotkunar á íbúðasvæðum og sett fram viðmið um nýtingarhlutfall lóða, reita og svæða og tilgreint hlutfallið 0,2 til 0,35 fyrir einbýlishúsalóðir. Samkvæmt almennum rammaákvæðum aðalskipulags, sem séu stefnu­mótandi og gildi um þegar byggð hverfi, skuli nýtingarhlutfall að jafnaði ekki vera hærra en meðaltals nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða, sbr. kafla 7.2.2. í aðalskipulaginu. Jafnframt skuli breytingar á einstökum lóðum eða hluta götureita í eldri hverfum bæjarins ekki raska yfirbragði aðliggjandi byggðar þar sem m.a. sé gætt samræmis hvað varði götumynd, hlutföll bygginga og byggingarstíl, sbr. kafla 7.4.1.

Á umræddu svæði Víðigrundar sé í gildi deiliskipulag Víðigrundar 1-55 sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn 26. september 1989. Deiliskipulagið byggi á heildarskipulagi og skilmálum frá september 1971. Þar sé m.a. tekið fram í kafla III fyrir einbýlishús við Víðigrund að á lóðinni skuli byggja 130 m2 einbýlishús á einni hæð. Form og stærð húss sé bundin skv. málblaði. Á austurhlið hússins skuli vera hátt sitjandi gluggar eða afskermun glugga til að hindra innsýn í garð hússins fyrir austan. Gafl í lóðamörkum skuli vera gluggalaus. Þá sé mesta leyfða þakhæð yfir skurðlínu vegg- og þakflatar 1,2 m.

Núverandi nýtingarhlutfall lóðar nr. 23 sé 0,29. Breytingartillagan geri ráð fyrir að heildarbyggingarmagn á lóð verði 201,4 m2 sem hækki nýtingarhlutfallið í 0,44. Þessir útreikningar geri ekki ráð fyrir bílageymslu en kæranda sé heimilt að byggja allt að 26 m2 bílageymslu á lóðinni skv. gildandi deiliskipulagi. Verði bílageymsla byggð hækki núverandi nýtingarhlutfall lóðar úr 0,29 í 0,34. Verði byggð 70,3 m2 viðbygging á lóðinni verði heildarbyggingarmagn lóðar 226,4 m2 en í dag sé það 157,1 m2. Hefði breytingin verið samþykkt hefði heimilað nýtingarhlutfall lóðar farið úr 0,34 í 0,50. Þess megi geta að meðaltals nýtingarhlutfall á lóðum Víðigrundar 9-21 og 25-35 sé 0,37. Hefði tillaga kæranda verið samþykkt hefði nýtingarhlutfall lóðar nr. 23 orðið nokkuð hærra en meðaltalsnýtingarhlutfall á nærliggjandi lóðum. Af heildarmati og samanburði við áðurnefndar breytingar á nærliggjandi lóðum hafi niðurstaðan verið sú að ekki hafi verið fullnægjandi rök fyrir því að veita slíkt fordæmi.

Þá hafi kæranda verið leiðbeint með fullnægjandi hætti og í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga, sbr. umsögn skipulagsdeildar, dags. 16. júní 2022, rökstuðning sveitarfélagsins í bréfi, dags. 20. júlí s.á., og önnur gögn málsins. Einnig sé fullyrðingum um meint pólitísk afskipti vísað á bug enda byggi ákvörðunin á faglegum og málefnalegum sjónarmiðum og fyrirliggjandi gögnum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi óskað eftir öllum gögnum málsins frá Kópavogsbæ og hluti þeirra gagna hafi borist en lykilskjöl vanti um samskipti fyrrum bæjarfulltrúa við skipulagsdeild. Við skoðun þeirra gagna sem borist hafi komi margt fram sem staðfesti það sem kærandi hafi haldið fram á fyrri stigum málsins um brot á jafnræðisreglu, lélega stjórnsýslu og pólitísk afskipti af skipulagsmálum í sveitarfélaginu.

Þá ítreki kærandi fyrri málsrök sín um að umrædd tillaga að deiliskipulagi hafi verið í samræmi við byggðamynstur, húsa- og götumynd. Sérstök áhersla hafi verið lögð á þessa þætti þrátt fyrir að ódýrara hefði verið að hanna viðbyggingu í nútímalegri stíl. Þá hafi tillagan verið í samræmi við fordæmi í hverfinu, hvort sem horft sé til nýtingarhlutfalls eða annarra mælikvarða.

Í leiðbeiningum frá skipulagsfulltrúa, sem sendar hafi verið með tölvupósti til kæranda 6. júlí 2022, sé vísað til Víðigrundar 35 sem fordæmis. Samkvæmt greinargerð sveitarfélagsins sé sú bygging samtals 57 m2 og nýtingarhlutfall lóðar hafi farið úr 0,30 í 0,61. Í tillögu kæranda sé gert ráð fyrir 35 m2 stækkun ofanjarðar og færi nýtingarhlutfall lóðar úr 0,29 í 0,44. Ef heimild til að byggja bílskúr sé bætt við hækki mögulegt nýtingarhlutfall í 0,50. Hvort sem litið sé á umfangið út frá nýtingarhlutfalli eða fjölda fermetra sé ljóst að viðbyggingin við Víðigrund 35 sé talsvert umfangsmeiri og verði því ekki annað séð en að hin kærða ákvörðun sé brot á jafnræðisreglunni. Þetta fáist staðfest í þeim gögnum sem kærandi hafi fengið frá sveitarfélaginu en í tölvupósti 25. apríl 2022 frá starfsmanni skipulagsdeildar til fyrrum bæjarfulltrúa komi fram að fordæmi séu í hverfinu fyrir viðbyggingu sem svipi til fyrirhugaðra framkvæmda. Ekki verði séð hvað geti útskýrt breytingar á afstöðu skipulagsdeildar um fordæmi á rúmum mánuði og hafi kærandi ekki fengið þau svör frá sveitarfélaginu.

Þá hafi starfsmenn skipulagsdeildar fundað 3. maí 2022 með lóðarhöfum Víðigrundar 25. Kærandi hafi ítrekað óskað eftir fundi með skipulagsdeild vegna málsins og fengið tvívegis fundartíma sem í bæði skiptin hafi verið aflýst degi fyrir fyrirhugaðan fund. Sú staðreynd að starfsmenn skipulagsdeildar hafi neitað að funda með kæranda vegna málsins en á sama tíma fundað og verið í símasamskiptum við aðliggjandi lóðarhafa sé brot á jafnræðisreglunni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulagsráðs, sem staðfest var í bæjarstjórn, að synja um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 23 við Víðigrund.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings-málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun. Þá úrskurðar nefndin ekki um endurgreiðslu kostnaðar kæranda. Verður því einungis tekin afstaða til ógildingarkröfu kæranda í máli þessu.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Unnt er að óska eftir því við sveitarstjórn að deiliskipulagi sé breytt en einstakir aðilar eiga almennt ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram slíka breytingu gegn vilja skipulagsyfirvalda. Við meðferð slíkrar umsóknar ber sveitarstjórn aftur á móti að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins og jafnframt að beita valdi sínu á málefnalegan hátt.

Eins og rakið hefur verið fól tillaga kæranda að breyttu deiliskipulagi í sér heimild til að byggja 70,3 m2 viðbyggingu við núverandi hús á 1. hæð og kjallara. Skipulagsráð synjaði umsókn hans á fundi 20. júní 2022 og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi 28. s.m. en ekki var bókað um frekari rökstuðning í fundargerðum. Umsögn skipulagsdeildar vegna málsins, dags. 16. júní 2022, var lögð fram á báðum fundunum. Í henni er fjallað um athugasemdir lóðarhafa Víðigrundar 25 og áhrif umsóttrar breytingar á lóð hans. Kemur þar fram að „morgun skuggi“ muni stafa af fyrirhugaðri viðbyggingu, einkum við útidyr. Þá breytist útsýni þegar horft væri til norðausturs frá austurhluta Víðigrundar 25. Varðandi umhverfisáhrif af nánd og innsýn væri það mat skipulagsdeildar að fyrirhuguð viðbygging þrengdi aðkomu að útidyrum, þ.e. aukin nánd, en ekki væri tekið undir með lóðarhöfum að nánd raskist í barnaherbergi. Þá kom fram að með fyrirhugaðri breytingu yrði hámarksnýtingarhlutfall 0,44 sem væri yfir meðaltals-nýtingu Víðigrundar 9-35, en undir lóðarnýtingu Víðigrundar 7, 21 og 35 þar sem gerðar hefðu verið breytingar á deiliskipulagi. Um væri að ræða mikla breytingu á götumynd Víðigrundar 19-25 sem yrði fordæmisgefandi fyrir allt deiliskipulagssvæðið. Í Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 væru sett fram viðmið um nýtingarhlutfall lóða, reita og svæða og tilgreint hlutfallið 0,20-0,35 fyrir einbýlishúsalóðir. Þær breytingar sem hefðu verið gerðar á Víðigrund hefðu aðallega náð til stækkunar húsnæðis neðanjarðar og viðbygginga sem væru garðskálar og forstofur eða tengingar milli húss og bílageymslu þar sem grunnflötur væri undir framlengdu þaki, þ.e. ekki verið að gera kvisti. Ætti það við um Víðigrund 35, 37 og 57 en umrædd breyting yrði umtalsvert stærri en nefndar breytingar. Að baki hinni kærðu ákvörðun bjuggu því efnis- og skipulagsrök.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal við úrlausn máls gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í því felst að aðilar við sambærilegar aðstæður skuli hljóta samsvarandi afgreiðslu. Í athugasemdum kæranda er vísað til þess að sambærilegar framkvæmdir sé að finna í sömu götu. Við mat á því hvort jafnræðis hafi verið gætt við töku hinnar umdeildu ákvörðunar verður að líta til þess að um er að ræða stjórnvaldsákvörðun sem veitir skipulagsyfirvöldum ákveðið svigrúm í skjóli lögbundins skipulagsvalds til að móta byggð einstakra svæða. Þær breytingar sem kærandi vísar máli sínu til stuðnings eru ekki sambærilegar þeirri sem hann sótti um og verður einnig að líta til þess að engin andmæli bárust vegna þeirra á sínum tíma.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. júní 2022 um að synja umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Víðigrundar 1-55 vegna lóðar nr. 23.