Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

31/2004 Hafnarbraut

Með

Ár 2004, þriðjudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2004, kæra íbúa að Hólsgötu 2, Neskaupstað á ákvörðun umhverfismálanefndar Fjarðabyggðar frá 25. febrúar 2004 um útgáfu byggingarleyfis vegna breytingar á húsnæðinu að Hafnarbraut 2, Neskaupstað. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. maí 2004, sem barst nefndinni hinn 5. sama mánaðar, kærir B, Hólsgötu 2, Neskaupstað þá ákvörðun umhverfisnefndar Fjarðarbyggðar frá 25. febrúar 2004 að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á húsnæðinu að Hafnarbraut 2, Neskaupstað. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Fjarðarbyggðar hinn 4. mars 2004. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Húsið að Hafnarbraut 2, Neskaupstað var byggt árið 1950 af Kaupfélaginu Fram og nýtt sem verslunar- og þjónustuhúsnæði fyrir rekstur kaupfélagsins en einnig sem íbúðarhúsnæði þar sem að í hluta hússins var íbúð fjölskyldu kaupfélagsstjórans.  Á því svæði sem húsið stendur er ekki fyrir hendi deiliskipulag.  Í húsinu er starfrækt matvöruverslun og bakarí.

Hinn 5. júlí 2000 samþykkti umhverfisnefnd umsókn frá núverandi eiganda um að hluti hússins yrði nýttur sem gistiheimili en rekstri kaupfélagsins hafði þá verið hætt fyrir nokkru.  Hinn 15. desember 2003 samþykkti einnig nefndin beiðni eiganda þess efnis að breyta annarri, þriðju og fjórðu hæð hússins í íbúðir.  Vegna þessarar afgreiðslu komu fram athugasemdir frá nokkrum íbúum við Hólsgötu um að ekki hefði farið fram grenndarkynning vegna framkvæmdanna og á fundi umhverfisnefndar hinn 28. janúar 2004 voru framkvæmdir stöðvaðar og ákveðið að íbúum yrði kynnt breytingin. 

Í grenndarkynningarbréfi til þeirra er málið varðaði kom fram að breytingin fælist í því að byggt yrði stigahús við norðurvegg hússins sem og aðgangssvalir út frá stigahúsinu.  Settur yrði inngangur á vesturhlið hússins og byggðar svalir á suðurhlið þess.  Þá yrðu þakkvistir fjarlægðir, portveggir á norður- og suðurhlið hækkaðir í útveggjahæð og flatt þak sett á húsið.  Mænir hússins myndi ekki hækka.  Bílastæði yrðu að hluta til á lóð hússins en einnig á plani sunnan Hafnarbrautar. 

Grenndarkynningunni lauk hinn 24. febrúar 2004 og barst athugasemd frá kæranda.  Umhverfisnefnd tók athugasemdina til afgreiðslu á fundi sínum hinn 25. febrúar 2004 og hinn 8. mars 2004 var kæranda ritað bréf vegna afgreiðslu nefndarinnar og samþykktar bæjarstjórnar á henni. 

Málsrök kæranda:  Kærandi heldur því fram að núverandi aðkoma hússins nr. 2 við Hafnarbraut sé með öllu óásættanleg með tilliti til slysahættu en mikil bílaumferð sé þar í kring vegnastarfsemi í húsinu.  Engin gangstétt sé fyrir framan húsið og þessi mikla bílaumferð hafi í för með sér mengun. 

Kærandi bendir á að ef fjölga eigi bílastæðum norðan Hafnarbrautar 2 um allt að helming þýði það samsvarandi mengun og umferð með enn aukinni slysahættu.  Aðstæður allar séu óheppilegar, gatan þröng og umferð mikil.  Þá bendir kærandi á að hugmyndir íbúa við Hólsgötu hafi verið þær að gera götuna að einstefnugötu. 

Kærandi gerir athugasemd við að framkvæmdir séu hafnar án þess að fullgildur byggingarmeistari sé ábyrgur fyrir framkvæmdunum sem og að burðarþoli hússins sé ábótavant. 

Sjónarmið Fjarðarbyggðar:  Af hálfu Fjarðarbyggðar er á það bent að eftir ítarlegar umræður í umhverfisnefnd hafi nefndin fallist á erindið með hliðsjón af 4. kafla skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Í upphafi hafi ekki þótt ástæða til að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina m.a. vegna þess að hæð hússins hafi ekki breyst og þegar hafi verið rekin gistiaðstaða í húsinu með aðgengi frá Hólagötu.  Þá hafi legið fyrir að brauðgerðarverslunin legðist af og einnig myndi listmunageymsla flytjast úr húsinu en aðgengi að þeim hafi einnig verið frá Hólsgötu.  Þá hafi legið fyrir lausn á bílastæðum vegna íbúðanna sem að miklu hluta verði sunnan Hafnarbrautar. 

Fjarðarbyggð bendir loks á að fullnægt sé kröfum um hönnuði, byggingarstjóra og meistara. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um ákvörðun umhverfisnefndar Fjarðarbyggðar þess efnis að veita heimild til breytinga á húsnæðinu að Hafnarbraut 2, Neskaupstað.  Fólu breytingarnar í sér að rými sem nýtt hafði verið sem verslunar- og þjónusturými var breytt í íbúðir.  Byggir kærandi annars vegar á því að málsmeðferð hafi verið ábótavant og hins vegar að með hinni kærðu ákvörðun aukist bílaumferð í grennd við húsið. 

Eins og að framan er rakið setti kærandi fram athugasemdir eftir að byggingarleyfisumsóknin hafði verið grenndarkynnt.  Voru athugasemdir hans teknar til afgreiðslu á fundi umhverfisnefndar hinn 25. febrúar 2004 og þeim svarað með bréfi byggingarfulltrúa til hans, dags. 8. mars sama ár. 

Í 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga segir að telji einhver rétti sínum hallað með samþykki byggingarnefndar eða sveitarstjórnar sé honum heimilt, innan mánaðar frá því að honum er kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar, að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar.  Var kærufrestur því liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 5. maí 2004.  Hins vegar skorti á að í framangreindu bréfi byggingarfulltrúa til kæranda væri getið um kæruheimild, kærustjórnvald eða kærufrest svo sem áskilið er í 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þykir af þessum sökum afsakanlegt þótt kæran hafi borist að liðnum kærufresti og verður málið því tekið til efnisúrlausnar með stoð í 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Ekki verður fallist á að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt.  Svo sem rakið hefur verið hér að framan stendur hús það sem hér um ræðir á ódeiliskipulögðu svæði en byggingarleyfishafa var veitt hið kærða byggingarleyfi í kjölfar grenndarkynningar.  Kærandi setti fram athugasemdir sem bæjaryfirvöld svöruðu og telst sú málsmeðferð í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Af hálfu kæranda er einnig á því byggt að breytt notkun hússins nr. 2 við Hafnarbraut hafi í för með sér aukna bílaumferð.  Hvað þetta atriði varðar verður að líta til þess að samkvæmt Aðalskipulagi Neskaupstaðar 1979-1999, sem ekki hefur verið endurnýjað, stendur hús það sem um ræðir á miðbæjarsvæði þar sem margvísleg atvinnustarfsemi er heimiluð í bland við íbúðarbyggð.  Mega íbúar á slíkum svæðum jafnan búast við að starfsemi á svæðinu kunni að hafa í för með sér bílaumferð í þeim mæli sem um ræðir í máli þessu og verður því ákvörðun umhverfismálanefndar ekki hnekkt af þessum sökum.  Engar aðrar málsástæður hafa komið fram er leitt gætu til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfum kæranda um ógildingu hennar því hafnað. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfis fyrir breytingum á húsnæðinu að Hafnarbraut 2, Neskaupstað, samkvæmt ákvörðun umhverfismálanefndar Fjarðabyggðar frá 25. febrúar 2004, er hafnað. 

________________________________
Ásgeir Magnússon

_____________________________              _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Ingibjörg Ingvadóttir

29/2004 Arnarnesvogur

Með

Ár 2004, þriðjudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 29/2004, kæra íbúa að Ránargrund 1, Garðabæ á samþykkt skipulagsnefndar Garðabæjar um breytingu á deiliskipulagi Garðabæjar við Arnarnesvog.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. apríl 2004, sem barst nefndinni hinn 3. maí sama ár, kæra J og G, Ránargrund 1, Garðabæ samþykkt skipulagsnefndar Garðabæjar frá 3. mars 2004 um breytingu á deiliskipulagi vegna strandhverfis við Arnarnesvog.  Bæjarstjórn Garðabæjar staðfesti samþykktir skipulagsnefndar á fundi hinn 18. sama mánaðar.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Kærendur eru búsettir að Ránargrund 1, Garðabæ og liggur gatan meðfram Arnarnesvogi.  Í næsta nágrenni, austan og norðan við lóðir kærenda voru lengst af útivistar- og óbyggð svæði. 

Samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 1995 – 2015 var gert ráð fyrir iðnaðarsvæði vestan Ránargrundar, ásamt höfn, og enn vestar var reitur ætlaður t.d. stofnunum, íbúðum eða þrifalegri atvinnustarfsemi.

Á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar hinn 5. júní 2002 var samþykkt tillaga að breyttu aðalskipulagi bæjarins.  Breytingin fól í sér að iðnaðarsvæðið við höfnina í Arnarnesvogi, ásamt svæðinu vestan þess, yrði að mestu breytt í íbúðarsvæði, höfnin yrði fyllt upp auk þess sem bætt yrði við um 2,5 ha nýrri landfyllingu.  Breytingarnar fólu nánar tiltekið í sér að á svæðinu yrði gert ráð fyrir íbúðum, verslun, þjónustu og stofnunum, svo og iðnaði á afmörkuðu svæði.  Útivistarsvæðinu yrði breytt í óbyggt svæði.  Breyting aðalskipulagsins gerði ráð fyrir íbúðarbyggð með 560 almennum íbúðum ásamt 200 íbúðum sem ætlaðar yrðu eldri borgurum.  Auk íbúða var gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði fyrir skrifstofur og þjónustu, lítilli smábátahöfn, bensínstöð, leikskóla, sjóbaðströnd, fuglaskoðunarstað o.fl.  Í greinargerð að nefndri breytingu á aðalskipulagi kom m.a. fram að hún væri í samræmi við tillögu að svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins um þéttingu byggðar.  Með henni væri stuðlað að aukinni fjölbreytni íbúðarhúsnæðis í bænum, hagkvæmari rekstri fyrirtækja og stofnana, hærra þjónustustigi og betri nýtingu lands. 

Á áðurnefndum fundi skipulagsnefndar Garðabæjar hinn 5. júní 2002 var einnig samþykkt tillaga að deiliskipulagi fyrir umrætt svæði í samræmi við framangreinda tillögu að breytingu á aðalskipulagi.

Í greinargerð með deiliskipulagstillögunni kom fram að meirihluti bygginga á svæðinu yrði tveggja og þriggja hæða íbúðarhús.  Vestast á svæðinu yrðu tveggja hæða hús og væri þannig tekið tillit til útsýnis frá Hraunsholti.  Austan við þau og næst ströndinni yrðu þriggja hæða hús en hús upp á fjórar til fimm hæðir innar í landinu.  Hæð húsa yrði því ákvörðuð þannig að þau trufluðu sem minnst útsýni frá núverandi íbúðarhverfum.  Þá sagði enn fremur að húsaþyrpingar yrðu flestar byggðar í kringum garða sem myndu opnast í sólarátt.  Áhersla yrði lögð á að sem flestar íbúðir nytu í senn útsýnis og rólegs umhverfis.  Hús sem stæðu á núverandi óhreyfðu landi næst sjó ættu að mynda lágreista ósamfellda byggð og á milli þeirra og yfir þau myndi sjást til hafs frá næstu húsum sem stæðu ofar í landinu.  Við íbúðir eldri borgara yrði gert ráð fyrir sameiginlegu þjónustuseli.

Þá sagði enn fremur í greinargerðinni að við aðalinnkeyrslu í hverfið, næst Vífilstaðavegi, yrði byggt tíu þúsund fermetra skrifstofuhúsnæði og bensínstöð.  Við enda hafnarfyllingarinnar kæmi lítil smábátahöfn og á jarðhæðum fjögurra húsa við hana gæti verið vistvænt atvinnuhúsnæði.  Vestast við voginn, á um 2,1 ha svæði, væri náttúruleg fjara sem áfram yrði óhreyft land.  Í beinu framhaldi af henni til austurs yrði gert ráð fyrir garði miðsvæðis og þar kæmi leikskóli, sparkvöllur og sjóbaðströnd sem snúa ætti í sólarátt.  Aðstöðu til fuglaskoðunar yrði komið fyrir á tanga þar sem áhugafólk gæti virt fyrir sér fuglalíf.  Bílastæði yrðu að miklu leyti undir húsum og torgum.  Þannig yrði helmingur bílastæða, sem tengd væru íbúðum, neðanjarðar og íbúum þar af leiðandi tryggt rólegt umhverfi með einstæðu útsýni.

Að lokinni málsmeðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum voru tillögur skipulagsnefndar samþykktar í bæjarstjórn Garðabæjar hinn 13. júní 2002 og birtust auglýsingar í Lögbirtingarblaði hinn 19. júlí 2002 og 9. ágúst s.á.  Tillaga að breyttu aðalskipulagi hlaut staðfestingu umhverfisráðherra hinn 9. júlí 2002.  Ákvörðunum þessum var skotið til úrskurðarnefndarinnar en með bréfi, dags. 30. apríl 2004, var kæran dregin til baka með vísan til þess að á fundi bæjarstjórnar hinn 4. desember 2003 var samþykkt tillaga skipulagsnefndar frá 19. nóvember 2003 um að auglýsa tillögu að endurskoðun á hinu kærða deiliskipulagi.  Var þar aðallega um að ræða lagfæringar eldra deiliskipulags.  Var tillagan auglýst 29. desember 2003 og var frestur til að koma að athugasemdum til og með 11. febrúar 2004.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 3. mars 2004 var eftirfarandi fært til bókar:  „Sjáland, breytingar á deiliskipulagi, endurskoðun – 2003 10 0065.  Að auglýsingu lokinni var á ný lögð fram tillaga að breytingu (endurskoðun) deiliskipulags á Sjálandi.  Jafnframt voru lögð fram þrjú erindi með athugasemdum og greinargerð tækni- og umhverfissviðs, dags. 3. mars 2004, vegna athugasemdanna og svör við þeim.  Einnig var lagt fram yfirlit yfir lagfæringar á uppdrætti, dags. 1.3.2004.  Skipulagsnefnd mælir með að tillaga að breytingum á deiliskipulagi á Sjálandi verði samþykkt með lagfæringum samkvæmt yfirliti.“

Á fundi bæjarstjórnar hinn 18. mars 2004 var tillagan samþykkt og birtist auglýsing um nýtt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. apríl 2004.

Samþykkt bæjarstjórnar Garðabæjar skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar svo sem fyrr er rakið. 

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að byggðin sem rísa muni á hinu umdeilda svæði skerði verulega útsýni frá heimilum þeirra yfir í Gálgahraun og Eskines.  Þá muni einnig skerðast útsýni til Bessastaða og til vesturs í átt að Snæfellsjökli og einnig muni fyrirhuguð byggð að mestu leyti skyggja á Álftanes.  Kærendur muni fara á mis við tilkomumikið sólarlag þegar þannig standi á.  Gott útsýni sé afar verðmætt í dag og ef skipulagsáform bæjaryfirvalda nái fram að ganga muni það hafa í för með sér mikla verðlækkun á fasteignum þeirra.  Kærendur benda á 1. mgr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga þar sem fram komi að sá sem geti sýnt fram á tjón vegna skipulagsákvarðana eigi rétt á bótum úr sveitarsjóði eða að sveitarstjórn leysi eignina til sín.  

Kærendur halda því einnig fram að íbúafjöldinn sem komi til með að búa á svæðinu muni hafa í för með sér aukna umferð með tilheyrandi hávaða og útblástursmengun og eyðileggja þannig friðinn sem ríki á Arnarnesinu.  Svæðið sé mikil náttúruperla og muni fyllingin/byggðin koma til með að valda miklum náttúruspjöllum á lífríki og fuglalífi í og við voginn. 

Þá benda kærendur á að þegar fólk velji sér íbúðarstað á sjávarlóð geti það í engu reiknað með því að fyllt sé upp í sjóinn og byggt fyrir framan það, sér í lagi þegar nægjanlegt byggingarland sé til staðar í bæjarfélaginu. 

Málsrök Garðabæjar:  Af hálfu Garðabæjar er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað og að samþykkt deiliskipulag við Arnarnesvog standi óraskað.

Af hálfu Garðabæjar er bent á að samkvæmt skipulags- og byggingarlögum sé það hlutverk sveitarfélaga að annast gerð aðal- og deiliskipulagsáætlana.  Við gerð slíkra áætlana beri sveitarfélögum að setja fram stefnu um landnotkun og þróun byggðar.  Í sveitarfélagi eins og Garðabæ sem staðsett sé á höfuðborgarsvæðinu verði að telja eðlilegt að þróun byggðar hafi í för með sér breytingu á landnotkun.

Á það sé bent að í Aðalskipulagi Garðabæjar 1995 – 2015 hafi verið gert ráð fyrir aukinni nýtingu lands við Arnarnesvog.  Um árabil hafi verið rekin umfangsmikil iðnaðarstarfsemi í næsta nágrenni við kærendur og í aðalskipulagi hafi svæðið vestan iðnaðarsvæðisins verið skilgreint sem svæði sem sé t.d. heppilegt fyrir stofnanir, íbúðir eða þrifalega starfsemi. 

Um langt skeið hafi verið gert ráð fyrir aukinni byggð við Arnarnesvog og þær breytingar sem felist í breyttu aðalskipulagi og nýju deiliskipulagi séu frekar þess eðlis að draga úr röskun gagnvart byggð sem fyrir sé á svæðinu en verið hafi skv. eldra skipulagi.  Iðnaðarstarfsemi og rekstur hafnar samkvæmt eldra skipulagi verði aflögð en þess í stað verði svæðið fyrst og fremst notað undir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi þjónustu.  Almennt sé talið að slík byggð feli í sér minna ónæði en starfsemi eins og vélsmiðjur og skipasmíðastöð en þannig starfsemi hafi verið á svæðinu samkvæmt eldra skipulagi.

Það sé skoðun Garðabæjar að þau sjónarmið sem kærendur nefna um kyrrð við sjávarsíðu og útsýni geti ekki talist þess eðlis að þau skapi kærendum rétt fram yfir skyldur sveitarfélagsins til að ráða málefnum sínum sjálft og taka lögmætar ákvarðanir um þróun byggðar og gerð skipulagsáætlana. 

Garðabær bendir á að ágreiningur um bótaskyldu eða bótafjárhæð sveitarfélags verði ekki borinn undir úrskurðarnefndina en alveg eins megi halda því fram að friðsælt nábýli við íbúðarbyggð í stað grófrar iðnaðarstarfsemi væri líkleg til að leiða af sér hærra verð á fasteignum kærenda.

Bæjaryfirvöld í Garðabæ telji augljóst að nýjar tillögur um breytt skipulag brjóti á engan hátt gegn markmiðum skipulags- og byggingarlaga og þær séu í fullu samhengi við eðlilega þróun í uppbyggingu sveitarfélagsins þar sem skapaðir séu möguleikar til íbúðarbyggðar í góðri sátt við umhverfið með því að breyta landnotkun til hagsbóta fyrir íbúa sveitarfélagsins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin hefur óformlega kynnt sér aðstæður á vettvangi.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var í Aðalskipulagi Garðabæjar 1995 – 2015 fyrirhugað að á hinu umrædda svæði yrði starfrækt höfn og iðnaðarsvæði og vestan þess yrði landnotkun blönduð.  Mátti þannig gera ráð fyrir nýbyggingum og starfsemi á svæðinu sem hefði í för með sér ónæði og skerðingu á grenndarhagsmunum kærenda.  Frá þessum áætlunum var horfið með breytingu þeirri á aðalskipulagi Garðabæjar, sem áður er getið og kærð var í hinu fyrra kæmumáli. 

Ekki hefði getað komið til endurskoðunar úrskurðrnefndarinnar á lögmæti umræddrar breytingar á aðalskipulaginu, enda sætti hún staðfestingu ráðherra og var úrskurðarnefndin því ekki bær til þess að fjalla um lögmæti hennar.  Hafa áður gengið úrskurðir í nefninni um hliðstætt efni.

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Var sveitarstjórn því rétt að láta vinna deiliskipulag til samræmis við breytta áætlun aðalskipulags um landnotkun á umræddu svæði og verður ekki séð að við gerð deiliskipulagsins hafi verið gengið lengra hvað varðar hæð og þéttleika byggðar á svæðinu en breytt aðalskipulag gaf tilefni til.  Verður ekki á það fallist að með hinu umdeilda skipulagi sé gengið gegn lögvörðum hagmunum kærenda umfram það sem vænta hefði mátt við uppbygginu iðnaðar- og hafnarsvæðis í næsta nágrenni þeirra svo sem ráðgert var í eldra aðalskipulagi.  Þykja grenndaráhrif byggðar samkvæmt hinu nýja skipulagi því ekki eiga að leiða til ógildingar þess.

Kærendur krefjast þess og að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi þar sem það muni hafa í för með sér verðlækkun á fasteignum þeirra m.a. vegna útsýnisskerðingar. 

Sveitarstjórnum er að lögum ætlað víðtækt vald til ákvarðana um skipulag og í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er gert ráð fyrir því að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á einstökum fasteignaréttindum.  Í 1. mgr. 32. gr. laganna er sveitarstjórnum veitt eignarnámsheimild vegna áætlaðrar þróunar sveitarfélagsins samkvæmt staðfestu aðalskipulagi.  Þá er í 33. gr. laganna gert ráð fyrir því að ef gildistaka skipulags hafi í för með sér að verðmæti fasteignar lækki eða nýtingarmöguleikar hennar rýrni frá því sem áður var geti sá sem sýni fram á tjón krafið sveitarsjóð um bætur eða innlausn fasteignar. 

Samkvæmt þessu raskar það ekki gildi skipulagsáætlana þótt þær gangi gegn hagsmunum manna, en sveitarstjórnir eiga að gæta þess, með hliðsjón af greindum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, 1. gr. og 4. mgr. 9. gr. sömu laga, að umrædd réttindi verði ekki fyrir borð borin bótalaust.  Það er aftur á móti ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til bótaréttar vegna gildistöku skipulagsáætlana, sbr. 3. mgr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga, og verður því ekki fjallað frekar um það álitaefni hér.

Með vísan til þess sem hér að ofan er rakið er ekki unnt að fallst á ógildingu hinnar kærðu samþykktar skipulagsnefndar Garðabæjar um breytingu á deiliskipulagi strandhverfis við Arnarnesvog og er því kröfu kærenda þess efnis hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsnefndar Garðabæjar frá 3. mars 2004 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna strandhverfis í Arnarnesvogi, sem staðfest var í bæjarstjórn Garðabæjar hinn 18. mars sama ár.

__________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________              _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                         Ingibjörg Ingvadóttir

67/2002 Skipholt

Með

Ár 2004, þriðjudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 67/2002, kæra eiganda fasteignarinnar að Skipholti 25 í Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. apríl 2002 um að samþykkja deiliskipulag Skipholtsreits þar sem ekki var fallist á kröfu kæranda um aukið nýtingarhlutfall lóðar hans.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. desember 2002, er barst nefndinni hinn 19. desember s.á., kærir Skipholt ehf., eigandi fasteignarinnar að Skipholti 25, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. apríl 2002 að samþykkja deiliskipulag fyrir Skipholtsreit þar sem ekki var fallist á kröfu kæranda um aukið nýtingarhlutfall lóðar hans.  Borgarráð Reykjavíkur staðfesti deiliskipulagið hinn 12. nóvember 2002 og auglýsing um gildistöku skipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. janúar 2003.

Kærandi gerir þá kröfu að hinu kærða skipulagi verði hnekkt og heimilað verði hærra nýtingarhlutfall á lóð hans.

Málavextir:  Á árinu 2001 var hafin vinna við breytingu á deiliskipulagi fyrir svonefndan Skipholtsreit er afmarkast af Skipholti, og Brautarholti austan Nóatúns, en á því svæði hafði verið í gildi deiliskipulag frá árinu 1957, sem endurskoðað var á árinu 1968.  Var hagsmunaaðilum á skipulagsreitnum tilkynnt um skipulagsvinnuna með bréfi, dags. 18. maí 2001, og gefinn kostur á að koma á framfæri ábendingum og athugasemdum við Borgarskipulag Reykjavíkur.  Þá var þeim með bréfi, dags. 19. september 2001, kynnt drög að deiliskipulagi reitsins og gefið færi á að senda fyrirspurnir og ábendingar til skipulagsyfirvalda af því tilefni.  Bárust nokkrar athugasemdir og ábendingar frá hagsmunaaðilum.

Fullmótuð deiliskipulagstillaga var síðan auglýst til kynningar frá 25. janúar til 8. mars 2002 og bárust athugasemdir og ábendingar við deiliskipulagstillöguna frá þremur aðilum, þ.á.m. kæranda, þar sem m.a. var farið fram á hækkað nýtingarhlutfall lóðarinnar að Skipholti 25.  Að lokinni kynningu var deiliskipulagstillagan tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 24. apríl 2002 þar sem fyrir lá umsögn skipulagsfulltrúa vegna framkominna athugasemda, dags. 16. apríl 2002.  Var  skipulagstillagan samþykkt án frekari hækkunar á nýtingarhlutfalli lóðar kæranda en með fyrirvara um samþykki lóðarhafa fyrir skiptingu tiltekinnar lóðar.  Borgarráð Reykjavíkur staðfesti þessa afgreiðslu á fundi hinn 12. nóvember 2002.

Kærandi undi ekki þessum málalokum og kærði umrætt deiliskipulag til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi skírskotar til þess að hann hafi við kynningu hins kærða deiliskipulags gert ýmsar athugasemdir og þá einkum varðandi fyrirhugað nýtingarhlutfall lóðarinnar að Skipholti 25.

Bent er á að á árinu 1995 hafi verið sótt um að fá að byggja á baklóð hússins eina hæð í láréttu framhaldi af fyrstu hæð þess með bílageymslu á jarðhæð.  Hafi sú umsókn verið samþykkt með áskilnaði um smávægilegar breytingar. Sú bygging sé ekki risin en búið sé að steypa sökkla og plötu sem nýtt sé undir bílastæði.

Í fyrirliggjandi deiliskipulagi sé nýtingarhlutfall lóðar kæranda ákveðið 1,5 þrátt fyrir að nýtingarhlutfall lóðanna nr. 27 og 29 við sömu götu verði 1,9 og 2,0 án þess að séð verði að rými sé fyrir nægjanleg bílastæði vegna aukins byggingarmagns.  Þá sé nýtingarhlutfall lóðanna nr. 22, 24 og 26 við Brautarholt nú þegar 1,9-2,0 og allt upp í 420 fermetra rými á hvert bílastæði við þau hús, en bílastæðin séu auk þess utan lóða þeirra.

Með hliðsjón af þessu telur kæranda lágmarkskröfu að nýtingarhlutfall lóðar hans verði a.m.k. jafn hátt og á lóðunum nr. 27 og 29 við Skipholt og nr. 24 og 26 við Brautarholt sem liggi að lóð kæranda.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Gerð er sú krafa af hálfu Reykjavíkurborgar að kröfu kæranda um hækkað nýtingarhlutfall á lóðinni nr. 25 við Skipholt verði vísað frá úrskurðarnefndinni og að hið kærða skipulag standi óhaggað.

Til stuðnings frávísunarkröfu er vísað til þess að úrskurðarnefndin sé ekki til þess bær að kveða á um breytingar á deiliskipulagi.

Vísað er til þess að í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 16. apríl 2002, komi fram að ástæða mismunandi nýtingarhlutfalls lóða á skipulagsreitnum helgist af ólíkum aðstæðum og leitast hafi verið við að halda götumynd óbreyttri.

Húsið að Skipholti 25 falli að núverandi götumynd og ekki hafi þótt fært að hækka húsið í fjórar hæðir. Slík hækkun húsa á skipulagsreitnum hefði aukið byggingarmagn mikið, aukið skuggavarp á fasteignir við Brautarholt og ekki hafi verið unnt að koma fyrir nægjanlegum bílastæðum.

Með hinu kærða deiliskipulagi sé nýtingarhlutfall lóðar kæranda hækkað úr 1,3 í 1,5 með heimilaðri viðbyggingu norðan við núverandi hús sem hægt sé að aka undir þannig að bílastæðum á lóðinni fækki ekki og muni byggingin vera í sömu hæð og bakbygging að Brautarholti 26-28.  Stærri bygging á baklóð kæranda yrði of djúp og eingöngu væri hægt að hafa glugga á henni austanverðri.  Með slíkri byggingu væri jafnframt lokað fyrir alla glugga þess hluta byggingarinnar sem standi meðfram götunni og yrði hún auk þess meira íþyngjandi gagnvart húsum við Brautarholt en ella væri.  Bent er og á að samskonar bakbygging sé heimiluð að Skipholti 23 en á þeirri lóð verði nýtingarhlutfall aðeins 1,3 þar sem núverandi hús sé grynnra en hús kæranda.   

Skýring á misjöfnu nýtingarhlutfalli lóða sé að nokkru leyti sú að fyrir skipulagsgerð hafi þegar verið samþykktar viðbyggingar á baklóðum húsa.  Á óbyggðum lóðum að Skipholti 29 og 32 verði nýtingarhlutfall nokkru hærra en á öðrum lóðum en þar sé möguleiki á að gera bílageymslur neðanjarðar.  Þá séu lóðir á götuhornum oftast með hærra nýtingarhlutfall en ella þar sem aðalhlutar húsa standi við götu og götulengd þar meiri.  Hús sem standi við götu á skipulagsreitnum séu að jafnaði þrjár hæðir en byggingar á baklóðum að jafnaði lægri.  Deiliskipulagið beri með sér að lóðir þær sem hafi hærra nýtingarhlutfall en 1,5, að undanskilinni lóð að Brautarholti 26-28, séu annað hvort þegar með hærri nýtingu eða séu að stórum hluta óbyggðar með möguleika á bílakjöllurum undir nýbyggingum. Aðrar lóðir séu með nýtingarhlutfallið 1,5 eða lægra.

Við deiliskipulagsgerð sé tekið tillit til ýmissa hluta svo sem legu og stærðar lóða fyrirliggjandi bygginga, skuggavarps, grenndaráhrifa að öðru leyti, heildaryfirbragðs götu og bílastæðamöguleika.  Þar sem þessir þættir séu mismunandi varðandi einstakar lóðir verði nýting þeirra með ólíkum hætti.   Með greind atriði í huga hafi niðurstaðan orðið sú að hæfilegt nýtingarhlutfall lóðar kæranda væri 1,5.

Niðurstaða:  Í kæru er þess krafist að ákvarðað verði nýtingarhlutfall fyrir lóð kæranda að Skipholti 25, Reykjavík til jafns við nýtingarheimildir lóðanna nr. 27 og 29 við sömu götu.  Hefur Reykjavíkurborg krafist þess að þeirri kröfu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum en sveitarstjórnum er falið það hlutverk í 2. mgr. 3. gr. nefndra laga að annast gerð skipulagsáætlana. Úrskurðarnefndin sker því úr um gildi slíkra ákvarðana sem sveitarstjórnir hafa tekið en hefur ekki það hlutverk að taka skipulagsákvarðanir, svo sem að ákveða nýtingarhlutfall einstakra lóða..  Verður kröfu kæranda um tiltekið nýtingarhlutfall á lóð hans að Skipholti 25 af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Óumdeilt er í máli þessu að deiliskipulagsákvörðun sú sem hér er til umfjöllunar hafi hlotið formlega rétta málsmeðferð samkvæmt lögum, en kærandi teflir fram þeirri málsástæðu að skipulagið þrengi með óhæfilegum hætti lóðarnýtingu hans með tilliti til nýtingarheimilda sumra annarra lóða á skipulagssvæðinu.

Ýmsar málefnalegar ástæður geta ráðið því að nýtingarhlutfall einstakra lóða á deiliskipulagssvæði sé misjafnt.  Sérstaklega á það við um skipulagsreit sem er að mestu þegar byggður við skipulagsgerð eins og hér á við.  Borgaryfirvöld hafa m.a. gefið þá skýringu fyrir hinni umdeildu ákvörðun að ekki hafi þótt fært að auka nýtingarhlutfall lóðar kæranda umfram 1,5 þar sem stefnt hafi verið að því að fá samræmi í ásýnd götumyndar og aukið byggingarmagn á lóðunum hefði falið í sér aukið skuggavarp gagnvart öðrum lóðarhöfum og ekki verið unnt að uppfylla kröfur um fjölda bílastæða fyrir götureitinn. Þessar ástæður verður að virða sem málefnaleg skipulagsrök.

Lóð kæranda við Skipholt 25 er að sömu stærð og lóðirnar beggja vegna við hana sem eru nr. 23 og 27, en þessar lóðir eru 620 fermetrar hver.  Í deiliskipulagi því sem hér er til umfjöllunar er nýtingarhlutfall lóðarinnar að Skipholti 23 óbreytt, eða 1,3, nýtingarhlutfall lóðar kæranda er aukið úr 1,3 í 1,5 en nýtingarhlutfall lóðarinnar að Skipholti 27 er óbreytt, eða 1,9.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar að Brautarholti 26-28 er aukið úr 1,6 í 1,8 en aðrar lóðir á skipulagsreitnum, að frátöldum tveimur hornlóðum, fá ekki aukið nýtingarhlutfall frá því sem fyrir var.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður hið kærða deiliskipulag ekki talið hafa falið í sér mismunun gagnvart kæranda hvað varðar nýtingarrétt hans á umræddri lóð og ekki liggja fyrir aðrir þeir annmarkar á skipulaginu er gætu valið ógildingu þess.

Ekki verður í úrskurði þessum tekin afstaða til þess hvort byggingarleyfi það frá árinu 1995, er kærandi skírskotar til, hafi verið í gildi við staðfestingu deiliskipulagsins, en það verður ekki talið ráða úrslitum um gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um hækkað nýtingarhlutfall á lóð hans að Skipholti 25 í Reykjavík er vísað frá úrskurðarnefndinni.  Kröfu kæranda um ógildingu deiliskipulags fyrir svonefndan Skipholtsreit, sem samþykkt var í Borgarráði Reykjavíkur hinn 12. nóvember 2002, er hafnað.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________              _______________________________
  Þorsteinn Þorsteinsson                                       Ingibjörg Ingvadóttir

22/2004 Sólvellir

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 9. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2004, kæra eiganda landspildu úr landi Sólvalla í Mosfellsbæ á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 2. mars 2004 um að hafna erindi kæranda um skipulag byggðarkjarna á nefndri landspildu.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. mars 2004, er barst nefndinni hinn 13. apríl sama ár, kærir I, Faxaskjóli 24, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 2. mars 2004 að hafna tillögu að skipulagi byggðarkjarna á landspildu í eigu kæranda, úr landi Sólvalla, Mosfellsbæ.  Bæjarstjórn Mosfellsbæjar staðfesti þá ákvörðun á fundi hinn 3. mars 2004.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Málavextir:  Kærandi er eigandi að fjögurra hektara landspildu í landi Sólvalla, Mosfellsbæ.  Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt og gildir því Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2002-2024 um landnotkun þess.  Aðalskipulagið var samþykkt af bæjarstjórn Mosfellsbæjar hinn 12. febrúar 2003 og staðfest af umhverfisráðherra hinn 8. júlí sama ár.

Við kynningu gildandi aðalskipulags Mosfellsbæjar á árinu 2002 fór kærandi fram á að í skipulaginu yrði gert ráð fyrir íbúðabyggð eða blandaðri byggð á fyrrgreindri landspildu.  Ekki var fallist á þá tilhögun af hálfu bæjaryfirvalda.  Á haustdögum 2003 bar kærandi undir bæjaryfirvöld hugmynd um uppbyggingu byggðarkjarna á landspildunni þar sem gert var ráð fyrir 76 íbúðum.  Tillaga að skipulagningu þessa byggðarkjarna var síðan lögð formlega fyrir skipulags- og byggingarnefnd bæjarins með bréfi, dags. 20. febrúar 2004.

Tillaga kæranda var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar hinn 2. mars 2004 og afgreidd með svofelldri bókun:  „Samkvæmt aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 er ekki gert ráð fyrir íbúðarbyggð á þessari spildu á skipulagstímabilinu, þar sem landið er skilgreint sem opið óbyggt svæði.  Samkvæmt skilgreiningu skipulagsreglugerðar er þar almennt ekki gert ráð fyrir neins konar mannvirkjagerð að stígum frátöldum.  Í svæðisskipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið er gert ráð fyrir að umrætt svæði sé til uppbyggingar eftir 2024.  Hugað verður því að uppbyggingu á þessari spildu í tengslum við heildarskipulag þess svæðis sem þá væri í uppbyggingu.  Því getur nefndin ekki fallist á erindið að svo komnu máli.”  Kærandi sætti sig ekki við þessi málsúrslit og hefur nú skotið greindri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að hann hafi átt umrædda landspildu í um 25 ár og við kaupin á sínum tíma hafi í engu verið getið um hömlur á framkvæmdum á landinu.  Á kynningartíma núgildandi aðalskipulags Mosfellsbæjar hafi hann komið að athugasemdum og farið þess á leit með bréfi, dags. 14. júní 2002, að jafnræðis yrði gætt við ákvörðun um landnotkun landspildu hans og lands Sólvalla og Akra, þar sem gert væri ráð fyrir íbúðarbyggð og blandaðri byggð.  Hafi þessari málaleitan kæranda verið hafnað af bæjaryfirvöldum.  Síðar hafi verið leitað til bæjaryfirvalda með mótaða tillögu um nýtingu landspildunnar en sú tillaga ekki hlotið brautargengi svo sem hin kærða ákvörðun beri með sér.

Á því er byggt að engin rök séu til þess að undanskilja eignarland kæranda frá uppbyggingu sem gert sé ráð fyrir á sambærilegum svæðum í landi Sólvalla og Akra.  Með hinni kærðu ákvörðun sé því ekki gætt jafnræðis.  Umrædd landspilda geti vart talist opið óbyggt svæði þar sem herstöð hafi verið reist á landinu í seinni heimstyrjöldinni, sem menjar séu um, og vegur sem þá hafi verið lagður sé notaður enn í dag sem aðkoma að frístundahúsi í heilsársnotkun sem fyrir sé á landspildunni.  Dregur kærandi það í efa að skipulagsreglugerð standi því í vegi að uppbygging eigi sér stað á landspildu hans.

Loks skírskotar kærandi til þess að hörgull sé á íbúðalóðum í Mosfellsbæ og að tillaga hans um uppbyggingu á landspildunni kalli á óverulega breytingu á tengivegi þeim er ætlað sé að liggja um land Sólvalla og Akra.

Málsrök Mosfellsbæjar:  Af hálfu Mosfellsbæjar er gerð sú krafa að hin kærða synjun skipulags- og byggingarnefndar bæjarins standi óhögguð.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fari skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna og sé eitt af meginverkefnum skipulagsnefnda að annast gerð aðalskipulags, sbr. 1. mgr. 16. gr. nefndra laga.  Nefndarmenn sveitarstjórna séu einungis bundnir af lögum og sannfæringu sinni um afstöðu til einstakra mála skv. 28. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Í aðalskipulagi sé sett fram stefna sveitarstjórnar m.a. um landnotkun og þróun byggðar með þarfir sveitarfélagsins og markmið skipulags- og byggingarlaga í huga.

Allar ákvarðanir skipulags- og byggingarnefnda sveitarfélags verði að vera í samræmi við staðfest aðalskipulag en landareign kæranda sé á svæði sem skilgreint sé sem opið óbyggt svæði í gildandi aðalskipulagi.  Slík svæði séu ætluð til almennrar útivistar og skuli mannvirkjagerð vera þar í lágmarki skv. gr. 4.13.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Með því að heimila kæranda að skipuleggja blandaða byggð, á svæði sem skipulagt hafi verið sem opið óbyggt svæði, væri farið gegn skýrum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og skipulagsreglugerðar, auk þess sem ætla mætti að slík ákvörðun yrði kærð af hálfu þeirra fasteignaeigenda að landi Sólvalla og Akra, sem nú hafi verið skipulagt undir blandaða byggð.  Þeir aðilar hafi réttmæta ástæðu til að vænta þess að aðalskipulag sé virt og ekki sé hróflað við útivistarsvæði við eignir þeirra, a.m.k. til ársins 2024.

Bent er á að umrætt svæði sé jafnframt hluti af Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024, en þar sé gert ráð fyrir að landsvæði kæranda ásamt nálægum lóðum við Úlfarsfell og Hafravatn byggist ekki upp fyrr en eftir árið 2024.

Af framangreindu megi ljóst vera að hin kærða ákvörðun sé í fullu samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og skipulagsreglugerðar og fylgi stefnu gildandi aðal- og svæðisskipulags.

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun var hafnað ósk kæranda um skipulag 76 íbúða byggðarkjarna á fjögurra hektara eignarlandi hans í Mosfellsbæ, en í 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga er landeiganda heimilað að gera slíka tillögu til sveitarstjórnar.

Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt og gildir því Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2002-2024 um landnotkun á svæðinu, en þar er landspilda kæranda merkt sem opið óbyggt svæði.  Kærandi gerði athugasemdir við áætlaða landnotkun spildu sinnar á kynningartíma aðalskipulagsins, sem ekki voru teknar til greina, en ekki hefur verið gerður reki að því að fá aðalskipulaginu hnekkt.  Verður því greint aðalskipulag lagt til grundvallar í máli þessu, enda ekki í valdi úrskurðarnefndarinnar að endurskoða og meta hallkvæmni ákvarðana sem staðfestar hafa verið af umhverfisráðherra eins og hagar til um aðalskipulagið.

Deiliskipulag skal gera á grundvelli aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga, og verða svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir að vera í innbyrðis samræmi skv. 7. mgr. 9. gr. laganna.  Tillaga kæranda um uppbyggingu á landspildu hans á ekki stoð í gildandi aðalskipulagi Mosfellsbæjar og var bæjaryfirvöldum af þeim sökum óheimilt að samþykkja tillöguna að óbreyttu aðalskipulagi. 

Með vísan til þessa verður krafa kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar ekki tekin til greina.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 2. mars 2004, að hafna ósk um skipulag byggðarkjarna á landspildu í eigu kæranda úr landi Sólvalla, Mosfellsbæ, er hafnað.

_______________________________ 
Ásgeir Magnússon

______________________________               _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir

28/2008 Vatnsmýti

Með

Ár 2004, þriðjudaginn 17. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2002, kæra íbúa að Oddagötu 12, Reykjavík á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. maí 2002 um breytingu deiliskipulags lóðar Háskóla Íslands í Vatnsmýri í Reykjavík. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 13. júní 2002, sem barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir B, Oddagötu 12, Reykjavík ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. maí 2002 um breytt deiliskipulag lóðar Háskóla Íslands í Vatnsmýri í Reykjavík.  Ákvörðunin var staðfest í borgarráði hinn 14. maí 2002.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hinn 28. september 1999 samþykkti borgarráð Reykjavíkur deiliskipulag fyrir lóð Háskóla Íslands í Vatnsmýri, háskólasvæði austan Suðurgötu, þ.e. svæðið sem afmarkast af lóðum stúdentabústaða í suðri, Njarðargötu í austri og Hringbraut í norðri að undanskildu íbúðasvæði við Aragötu og Oddagötu.  Samkvæmt skipulaginu var svæðið ein lóð sem skipt var upp í afmörkuð byggingarsvæði merkt A-H.  Var það skipulag í gildi fyrir hina kærðu breytingu.  Fól það í sér heimild til að byggja á svæðinu mismunandi byggingar, samtengdar eða ekki, allt eftir aðstæðum.  Hæðir húsa á svæðinu máttu vera ein til þrjár og nýtingarhlutfall um 0,37.  Grunnflötur allra hæða mátti vera 30.000 m².  Bílastæði voru ekki reiknuð sérstaklega en gert var ráð fyrir einu bílastæði á hverja 50 m² gólfflatar á svæðinu í heild. 

Í ágúst árið 2000 samþykktu borgaryfirvöld breytingu á deiliskipulagi þessu varðandi byggingarsvæði merkt H og vegna úthlutunar lóðar til Íslenskrar erfðagreiningar.  Með breytingunni varð sú lóð ekki lengur hluti hins eiginlega háskólasvæðis. 

Árið 2001 var lögð fram í skipulags- og byggingarnefnd tillaga að breytingu áðurnefnds deiliskipulags fyrir lóð Háskóla Íslands á byggingarsvæðum A-F, sem afmarkaðist af Sturlugötu til norðurs, lóð Íslenskrar erfðagreiningar til austurs, Eggertsgötu til suðurs og Oddagötu/Sæmundargötu til vesturs.  Á fundi sínum hinn 28. nóvember s.á. lýsti nefndin sig jákvæða gagnvart því að unnin yrði formleg tillaga að deiliskipulagsbreytingu á grundvelli framlagðrar tillögu ASK arkitekta, dags. 31. október 2001, breytt 23. nóvember 2001, að þekkingarþorpi á lóð Háskóla Íslands.  Hinn 5. desember s.á. samþykkti skipulags- og byggingarnefnd að auglýsa framkomna tillögu með þeirri breytingu að starfsemi á svæðinu yrði skilgreind með ákveðnum hætti í skilmálum og fram kæmi að eignarhald bygginga á svæðinu skyldi vera á einni hendi.  Í bókun nefndarinnar kom fram eftirfarandi skilgreining á starfseminni:  „Heimilt er að starfrækja á lóðinni fyrirtæki og stofnanir á sviði rannsókna, vísinda og þekkingar sem hafa hag af staðsetningu á háskólasvæðinu, leggja háskólastarfseminni lið með nálægð sinni eða tengjast henni.  Á lóðinni er og heimilt að vera með verslunar- og þjónustustarfsemi í smáum stíl til að þjónusta fyrirtæki og stofnanir á svæðinu, svo sem litlar verslanir, kaffihús, líkamsrækt, ljósritunarþjónusta o.fl.“  Borgarráð Reykjavíkur staðfesti þessa afgreiðslu á fundi sínum hinn 11. desember 2001. 

Nánar tiltekið fól tillagan í sér að nýtingarhlutfall án kjallara yrði 0,7 en með kjallara 0,9.  Byggingarmagn á lóðinni án kjallara og bílageymslna yrði u.þ.b. 50.000 m² og fjöldi hæða mætti vera ein til tíu.  Eitt bílastæði skyldi reiknað fyrir hverja 50 m² gólfflatar.

Tillagan var auglýst til kynningar í Lögbirtingablaðinu og dagblöðum frá 11. janúar til 8. febrúar 2002, athugasemdafrestur var til 22. febrúar 2002.  Athugasemdabréf bárust frá Norræna húsinu, dags. 14. febrúar 2002, íbúum Oddagötu 4, dags. 10. febrúar 2002, Baldri Símonarsyni, f.h. 44 íbúa við Oddagötu og Aragötu, dags. 22. febrúar 2002, Náttúruvernd ríkisins, dags. 22. febrúar 2002, og Kjartani Bollasyni, Fálkagötu 14, dags. 22. febrúar 2002.  Skipulagstillagan var á ný lögð fyrir skipulags- og byggingarnefnd hinn 6. mars 2002 ásamt innsendum athugasemdum og umsögn skipulagsfulltrúa um þær til kynningar og var málinu síðan frestað.  Tillagan var á ný lögð fyrir nefndina hinn 8. maí 2002 og var hún þá samþykkt á fundinum með svohljóðandi bókun:  „Auglýst tillaga samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Vísað til borgarráðs.  Með vísan til athugasemda íbúa við Aragötu og Oddagötu er samþykkt að unnin verði tillaga að breyttu skipulagi hvað varðar umferð og kannað hvort vilji sé fyrir því hjá íbúum að gera Aragötu og/eða Oddagötu að botnlangagötum.“  Borgarráð Reykjavíkur staðfesti afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar hinn 14. maí 2002.

Var athugasemdaaðilum í kjölfar þessa tilkynnt um afgreiðslu málsins, þeim send umsögn skipulagsfulltrúa og leiðbeint um kærurétt og kærufrest.  Tillagan, ásamt fylgiskjölum, var að því loknu send til skoðunar Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 18. júní 2002, var bent á nokkur atriði í deiliskipulagsgögnunum sem lagfæra þyrfti og greint frá því að ekki yrði gerð athugasemd við að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda þegar tillit hefði verið tekið til athugasemda og Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 tekið gildi.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 24. janúar 2003.

Málsrök kæranda:  Í kæru til úrskurðarnefndarinnar vísar kærandi til athugasemda sem hann, ásamt fleiri íbúum við Oddagötu og Aragötu, setti fram við skipulagsyfirvöld á kynningartíma tillögunnar.  Þar kemur fram að hann telji að athugasemdum þeirra hafi aðeins að litlu leyti verið svarað efnislega og að rökstuðningi sé áfátt.

Kærandi telur að fyrirhugaðar byggingar samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi séu of nærri húsunum nyrst við Oddagötu.  Þá sé og gerð athugasemd við hæð húsa samkvæmt skipulaginu.  Húsin við Oddagötuna séu lágreist og telur kærandi að útsýni þaðan muni spillast.  Það samrýmist illa háskólasvæðinu að reisa þar tíu hæða hús.  Byggingarnar eigi að mynda „þekkingarþorp“ en mörg samtengd þriggja og fjögurra hæða hús falli ekki að þeirri hugmynd.  Þá verði skuggavarp nokkuð af byggingunum. 

Þá lýsir kærandi áhyggjum af vindáhrifum bygginganna og snjóþyngslum á svæðinu og þess farið á leit við borgaryfirvöld að þessir þættir verði kannaðir sérstaklega áður en framkvæmdir hefjist.

Varðandi bílastæði og bílageymslur þá sé í deiliskipulaginu gert ráð fyrir því að syðst við Oddagötuna sé niðurgrafinn bílastæðakjallari og opin bílastæði þar fyrir ofan.  Telur kærandi að eðlilegra sé að bílastæðin dreifist jafnt um svæðið og verði að hluta niðurgrafin.
Þá gerir og kærandi athugasemd við kynningu á tillögu hins kærða deiliskipulags.  Af teikningum þeim sem kynntar hafi verið hafi ekkert verið unnt að ráða hver hæð einstakra bygginga yrði eða hönnun og útlit.  Því telji kærandi kynningu tillögunnar ófullnægjandi og ámælisverða.

Þá sé bent á að nálægð fyrirhugaðra bygginga við íbúðarhúsin sem nú þegar séu á svæðinu spilli yfirbragði háskólahverfisins.  Aragata og Oddagata séu frá upphafi hugsaðar sem íbúðargötur, en vanhugsaðar breytingar á nágrenni þeirra rýri verðgildi fasteigna þar.  Húsin hafi þónokkurt byggingarsögulegt gildi og göturnar heillegt yfirbragð sem þoli ekki nálægð háreistra húsa.  Aðkoman að þeim og Norræna húsinu sé falleg en hún spillist ef nýbyggingar séu of nærri núverandi húsum.  

Kærandi tekur undir athugasemdir stjórnar Norræna hússins í Reykjavík sem settar voru fram við tillögu deiliskipulagsins og lúta að því að hið kærða deiliskipulag muni spilla verulega ásýnd Norræna hússins í borgarmynd Reykjavíkur og rýra þannig listrænt gildi einnar merkustu byggingar sem íslenska þjóðin hafi eignast. 

Að lokum kveðst kærandi gera sér fulla grein fyrir því að byggt verði á svæðinu, það sé aftur á móti ekki sama með hvaða hætti það verði gert.  

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að hin kærða ákvörðun, um breytingu á deiliskipulagi fyrir Háskóla Íslands, svæði A-F, verði staðfest.  Í kærunni sé aðallega byggt á þeim atriðum að kynning og málsmeðferð tillögunnar hafi ekki verið fullnægjandi, að fyrirhugað tíu hæða hús í Vatnsmýri spilli heildaryfirbragði háskólahverfisins og skerði aðkomu að Oddagötu, byggingar séu of nálægt húsum nyrst við Oddagötu og að æskilegt sé að húsum og bílastæðum sé dreift um fyrirhugað byggingarsvæði.  Hvað varði hæð og fjarlægð húsa þá sé vakin athygli á því að í þágildandi skipulagi hafi byggingarreitir verið þannig staðsettir að heimilt hafi verið að byggja allstórar byggingar mjög nálægt Oddagötu.  Samkvæmt umdeildri breytingu hafi byggingarreitir verið færðir til með þeim afleiðingum að uppbygging muni eiga sér stað nær nokkrum húsum við Oddagötu en fjær öðrum.  Í skilmálum sé gert ráð fyrir að hæðir húsa geti verið frá einni til tíu, innan skilgreindra byggingarreita, með nýtingarhlutfall að hámarki 0,7.  Byggingarreitur fyrir eins til tíu hæða hús sé bundinn í miðju á milli tveggja byggingarreita fyrir þriggja til fjögurra hæða hús.

Auk þess þyki ástæða til að benda á að skv. skipulags- og byggingarlögum sé sveitarfélögum falið skipulagsvald á deiliskipulagsstigi og þeim heimilað að breyta deiliskipulagsáætlunum að undangenginni málsmeðferð í samræmi við ákvæði laganna.  Reykjavíkurborg hafi því fulla heimild til að breyta umræddu skipulagi á þann veg sem gert var, þ.m.t. heimila hækkun húsa innan svæðisins.  Einnig sé bent á að umrædd lóð sé á miðsvæði (M5) samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Á slíkum miðsvæðum verði að vera hægt að taka tillit til breytilegra þarfa atvinnulífsins og í þessu tilviki háskólasamfélagsins.  Það sé viðurkennd lögskýring í skipulagsmálum að sveitarfélagi sé veitt meira svigrúm til breytinga á atriðum sem varði t.d. nýtingu lóða, kröfur til bílastæða og hæð húsa en til að mynda í grónum íbúðasvæðum, að teknu tilliti til áhrifa á hagsmunaaðila í nágrenni slíkra svæða.  Einnig beri að ítreka að í aðalskipulaginu sé fyrst og fremst gert ráð fyrir fjármála-, hátækni- og þekkingarfyrirtækjum, rannsóknarstarfsemi, hótelum og þjónustu tengdri þessari starfsemi.  Umþrætt breyting á deiliskipulaginu sé sniðin að þörfum Háskóla Íslands og þeirra aðila sem munu standa að uppbyggingu þekkingarþorps á háskólasvæðinu.

Hvað skuggavarpið varði þá sé samkvæmt hinni kærðu breytingu byggingarreit hæsta hússins hagað þannig að skuggavarp af því hafi sem minnst áhrif á íbúa í nágrenninu.  Af skuggavarpsgögnum megi ráða að aldrei verði skuggavarp af fyrirhuguðum húsum á háskólasvæðinu inn á lóðir við Oddagötu.  Sé því ekki um neina skerðingu að ræða sem íbúar þurfi að sætta sig við.  Skuggavarp af húsunum geti þar af leiðandi ekki orðið þess eðlis að leitt geti til ógildingar skipulagsbreytingarinnar á grundvelli grenndarréttarlegra sjónarmiða.  Telji aðilar sig aftur á móti, þrátt fyrir útreikninga og framlögð gögn, verða fyrir tjóni geti það leitt til bótaskyldu af hálfu Reykjavíkurborgar á grundvelli 33. gr. skipulags- og byggingarlaga en geti aldrei leitt til ógildingar skipulagsins. 

Varðandi það að athugasemdum íbúa hafi aðeins að litlu leyti verið svarað efnislega, að rökstuðningur hafi verið rýr og að kynning tillögunnar hafi verið ófullnægjandi telur borgin að öllum athugasemdum hafi verið svarað á málefnalegan og skýran hátt og með rökstuðningi sem uppfylli kröfur stjórnsýslulaga.  Bent sé á að ekki sé unnt, og í eðli sínu óæskilegt, að kynna á deiliskipulagsstigi nákvæmar teikningar sem sýni hönnun og útlit bygginga.  Þá sé ekki unnt að staðsetja nákvæmlega hversu háar byggingar verði á hverjum stað enda sé um deiliskipulag að ræða en ekki byggingarleyfisumsókn.  Settur sé fram í deiliskipulagstillögunni ákveðinn rammi, í þessu tilviki að hæðir húsa geti verið á bilinu frá ein til tíu, innan skilgreindra og afmarkaðra byggingarreita með nýtingarhlutfall að hámarki 0,7.  Eðli sínu samkvæmt sé því um að ræða skipulagsáætlun fyrir afmarkaðan reit sem byggð sé á aðalskipulagi og kveði nánar á um útfærslu þess.  Gögn eins og athugasemdaraðilar virðist sækjast eftir að sjá liggi þ.a.l. ekki frammi fyrr en sótt verði um byggingarleyfi á lóðinni.

Kynning tillögunar hafi verið auglýst í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Auglýsingar um tillöguna hafi birst í Lögbirtingablaðinu auk þriggja dagblaða.  Að auki hafi verið haldinn kynningarfundur fyrir íbúa á svæðinu til að fara yfir tillöguna.  Fjölmargir aðilar hafi gert athugasemdir á kynningartíma tillögunnar og því sé ljóst að auglýsingin og kynningin hafi vakið athygli þeirra og ekki komið í veg fyrir að þeir kæmu á framfæri sjónarmiðum sínum og athugasemdum við tillöguna.

Varðandi vindáhrif og snjóþyngsli þá sé ekki unnt á þessu stigi málsins að kanna sérstaklega þessi áhrif þar sem hvorki liggi fyrir endanleg útfærsla á hæðum né gerðum húsanna á svæðinu.  Í skilmálum sé kveðið á um að við hönnun einstakra byggingarhluta skuli heildarmynd lóðarinnar vera skoðuð með tilliti til vindálags og skuli hanna hvern hluta byggingar með hliðsjón af því.  Við nánari hönnun húsanna muni byggingarfulltrúi hafa samráð við sérfræðinga um þau mál.  Almennt megi þó benda á að líklegast sé að skjólsælla verði í hverfinu í ákveðnum vindáttum eftir að uppbyggingin hafi átt sér stað.  Í ljósi þess að lágar byggingar umkringi væntanlegt miðhús, sem heimilt sé að hafa tíu hæðir, sé sennilegt að hefðbundnir vindsveipir kringum háhýsi nái ekki niður auk þess sem þeir séu yfirleitt bundnir við húsin sjálf.  Ekki sé hægt að sjá í fljótu bragði hvernig uppbyggingin geti haft áhrif á snjóþyngsli við Oddagötu. 

Hvað varði aðkomu að Oddagötu, Aragötu og Norræna húsinu, bílastæði og bílageymslur þá sé samkvæmt skilmálum gert ráð fyrir að aðkomur að svæðinu verði á þremur stöðum, þ.e. frá Sæmundargötu og Eggertsgötu auk aðalaðkomu frá Sturlugötu austan og vestan við húsaþyrpinguna.  Sturlugata muni tengjast Suðurgötu (sic) með hringtorgi.  Nú standi yfir færsla Hringbrautar sem hafi mikil áhrif við lausn umferðartæknilegra vandamála á svæðinu og stuðli að því að minnka álag á íbúðabyggð við Oddagötu og Aragötu auk stúdentagarða.  Við færslu Hringbrautar muni Njarðargatan fá aukið vægi sem aðkoma að háskólasvæðinu enda feli færslan í sér miklar endurbætur á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu.  Þegar uppbygging sé farin af stað á svæðinu sé gert ráð fyrir því að strætisvagnar fari um Sturlugötu og tryggi þar með að þekkingarþorpið sé í góðri tengingu við almenningssamgöngur.  Með vísan til þessa verði ekki annað séð en að með færslu Hringbrautar og umferðartæknilegra lausna í tillögunni stórbatni aðkoma að íbúðabyggðinni og létti á umferð.  Sérstaklega sé vísað til þess að skipulags- og byggingarnefnd hafi samþykkt að vinna tillögu að breyttu skipulagi hvað varði umferð um íbúðabyggðina og að kannað yrði hvort vilji væri fyrir því hjá íbúum að gera Aragötu og/eða Oddagötu að botnlangagötum.  Líklegt sé að slík könnun fari fram þegar séð verði hvenær framkvæmt verði samkvæmt deiliskipulagstillögunni.

Á lóðinni sé gert ráð fyrir einu bílastæði á hverja 50 fermetra gólfflatar eða u.þ.b. 100 bílastæðum.  Heimilt sé að hafa hluta bílastæða neðanjarðar enda séu fyrir þau sérstakir byggingarreitir tilgreindir á skipulagsuppdrætti.  Í skilmálum komi fram að vanda skuli til hönnunar lóðar og bílastæða, m.a. með því að koma fyrir gróðurbelti á milli Oddagötu og bílastæða auk þess sem koma skuli upp gróðurreitum til að gefa bílastæðasvæðum grænt yfirbragð.  Sérstaklega sé kveðið á um að tryggt verði að góðar og öruggar gönguleiðir séu til staðar á lóðinni sem tengist stígakerfi Háskólasvæðisins og stúdentagarða.

Niðurstaða:  Kærandi í máli þessu krefst ógildingar á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur um breytingu á deiliskipulagi lóðar Háskóla Íslands í Vatnsmýri.  Byggir hann í meginatriðum annars vegar á því að málsmeðferð hafi verið áfátt við gerð og undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og hins vegar að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið gengið gegn lögvörðum grenndarhagsmunum hans. 

Ekki verður fallist á að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt.  Þegar skipulagstillagan var fullmótuð var hún auglýst og hlaut hún þá málsmeðferð sem áskilin er í 1. mgr. 26. gr. sbr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Einnig héldu skipulagsyfirvöld fund með hagsmunaaðilum þar sem þeim gafst kostur á að reifa sjónarmið sín varðandi tillöguna.  Þá verður ekki fallist á að tillagan hefði átt að greina nánar frá hæð einstakra bygginga umfram það sem fram kemur á skipulagsuppdrættinum, enda er þar ákvörðuð hámarkshæð húsa auk þess sem nýtingarhlutfall ræður byggingarmagni á svæðinu.  Loks verður ekki séð að umsögn skipulagsfulltrúa vegna athugasemda sem settar voru fram við tillöguna hafi verið ófullnægjandi þannig að til ógildingar skipulagsins leiði.

Af hálfu kæranda er einnig á því byggt að skipulagsbreytingin hafi í för með sér aukin grenndaráhrif bygginganna vegna staðsetningar þeirra og að þær muni hafa í för með sér aukið skuggavarp frá því sem verið hefði eftir eldra skipulagi.  Séu þessi áhrif meiri en kærandi þurfi að una í grónu íbúðahverfi.

Úrskurðarnefndin telur að hæð, umfang og staðsetning bygginga samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi sé ekki meiri en búast hafi mátt við með tilliti til þess að um miðsvæði er að ræða.  Til þess verður að líta að samkvæmt eldra deiliskipulagi svæðisins frá árinu 1999 voru byggingarreitir staðsettir þannig að búast hefði mátt við allstórum byggingum nálægt nokkrum húsum við Oddagötu.  Sætti það skipulag ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Þá verður skuggavarp bygginganna ekki talið eiga að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar, en gögn um skuggavarp fyrirhugaðrar byggingar hafa verið lögð fyrir úrskurðarnefndina. 

Engar aðrar málsástæður hafa komið fram er leitt gætu til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfum kæranda um ógildingu hennar því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna þess hve gagnaöflun hefur tekið langan tíma.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. maí 2002, sem staðfest var í borgarráði 14. maí 2002, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðar Háskóla Íslands í Vatnsmýri í Reykjavík.

 

________________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________           _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Ingibjörg Ingvadóttir

 

 

77/2003 Sólheimakot

Með

Ár 2004, þriðjudaginn 17. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 77/2003, kæra tveggja eigenda landspildna í landi Sólheimakots í Mosfellsbæ á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 18. nóvember 2003 um að hafna umsókn um breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 23. desember 2003, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni sama dag, kærir Einar Jónsson hdl., f.h. Ó, Vesturbrún 3, Reykjavík og H, Klapparstíg 1, Reykjavík, samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 18. nóvember 2003 um að hafna umsókn þeirra um breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar þannig að landspildur þeirra teljist til skipulagðrar frístundabyggðar.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar hinn 26. nóvember 2003. 

Kærendur krefjast þess að ákvörðun skipulags- og bygginganefndar verði felld úr gildi.  Jafnframt er þess krafist að lagt verði fyrir skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar og bæjarstjórn að taka umsóknina til afgreiðslu að nýju og ljúka málinu með breytingu á aðalskipulagi í samræmi við beiðni kærenda.

Málavextir:  Kærendur máls þessa eru eigendur tveggja spildna í landi Sólheimakots í Mosfellsbæ.

Með bréfi, dags. 20. ágúst 2003, sótti annar kærenda um leyfi til að endurbyggja sumarhús sitt sem stendur í landi Sólheimakots í Mosfellsbæ.  Var hugmyndin sú að reisa nýtt hús á grunni þess gamla.  Erindinu var hafnað á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 26. ágúst 2003 með þeim rökum að um væri að ræða almennt opið svæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi.

Með bréfi, dags. 18. september 2003, var af hálfu lögmanns kærenda bent á mistök sem virtust hafa orðið við setningu nýsamþykkts aðalskipulags Mosfellsbæjar og þess óskað að skipulagið yrði leiðrétt, á þann veg að umræddar eignarlóðir kærenda yrðu innan marka frístundabyggðar.

Skipulags- og byggingarnefnd hafnaði erindinu með þeim rökum að umrætt svæði hefði ekki verið skilgreint sem sumarbústaðasvæði frá árinu 1983, en þá hefði aðalskipulag fyrir sveitarfélagið fyrst verið samþykkt.  Afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hinn 26. nóvember 2003.

Þessari niðurstöðu vildu kærendur ekki una og skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að annar kærenda hafi átt landspildu sína í þrjá áratugi og hafi byggt þar sumarhús á árunum 1979-1980 samkvæmt byggingarleyfi sveitarfélagsins.  Á umræddu svæði séu fjórar lóðir, þar af tvær í þeirra eigu með sumarhúsum en hinar tvær hafi ekki verið seldar og séu í eigu sveitarfélagsins.  Þá séu fleiri sumarhús í nágrenni við þau.  Þótt skilgreining bæjarstjórnar á landinu hafi allt frá árinu 1983 verið röng breyti það ekki þeirri staðreynd að annar kærenda hafi undanfarna áratugi haft not af sumarhúsi sínu og eðli málsins samkvæmt nýtt landið sem sumarbústaðaland með leyfi og vitund byggingaryfirvalda.  Í raun sé um sumarbústaðasvæði að ræða þótt mistök hafi orðið við nafngift landsins í aðalskipulagi.

Kærendur mótmæla þeim rökum Mosfellsbæjar að ekki sé unnt að breyta skipulaginu þar sem það hafi verið með þessum hætti frá 1983.  Umsókn kærenda til bæjarstjórnar Mosfellsbæjar lúti að því að hið nýsamþykkta aðalskipulag verði leiðrétt til samræmis við áratuga notkun landsins.  Það sé komið í ljós að svæðið sé skilgreint sem almennt opið svæði og þótt svo hafi verið frá árinu 1983 breyti það ekki því að rétt sé og vel mögulegt að breyta því skipulagi.  Þau einföldu rök að svona hafi þetta verið frá árinu 1983 dugi ekki þegar litið sé til mikilvægra hagsmuna kærenda af nýtingu eigna sinna. 

Sérstaklega sé til þess vísað að hinn 19. júní 1990 hafi Mosfellsbær veitt öðrum kærenda leyfi til byggingar sumarhúss á landi sínu.  Komi það illa heim og saman við þann rökstuðning bæjarins að umrætt svæði hafi ekki frá árinu 1983 verið skilgreint sem sumarhúsabyggð.  Þess sé krafist að skipulaginu verði breytt í samræmi við veitt byggingarleyfi.

Kærendur telja að mistök hafi verið gerð við samþykkt aðalskipulagsins árið 1983, þegar tvær sumarhúsalóðir, sem sumarhús kærenda standi á, hafi af einhverjum ástæðum orðið útundan og láðst hafi að tilkynna þeim eigendum þá breytingu sem varði verulega hagsmuni þeirra.  Vísað sé til þess að sveitarstjórn hafi heimild til leiðréttinga á skipulagi við þessar aðstæður samkvæmt 2. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, án þess að slíkt leiði til mikils kostnaðar. 

Með þeirri ákvörðun að synja um leyfi til að endurbyggja sumarbústað á grunni þess gamla sé vegið að ráðstöfunarrétti eiganda lands til réttmætrar og eðlilegrar nýtingar.  Annar kærenda hafi undirbúið nauðsynlega endurnýjun á sumarbústaðnum, fengið iðnaðarmann til verksins o.s.frv., og tafir á framkvæmdinni séu til þess fallnar að valda honum og fjölskyldu hans óþægindum og tjóni.  Slík skerðing á nýtingu eignar í einkaeigu, verði ekki gerð án samþykkis eiganda sem jafnframt þurfi ekki að þola það bótalaust skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995. 

Að lokum er til þess vísað að út frá skipulagslegu sjónarmiði sé eðlilegt og rétt að þessar tvær lóðir, sem fyrir mistök hafi lent rétt utan skipulagðrar frístundabyggðar, lendi innan þess svæðis.  Til þess að greiða enn frekar fyrir jákvæðri afgreiðslu málsins hafi kærendur lýst yfir sáttavilja og boðist til að kaupa á sanngjörnu verði þær tvær spildur sem séu í eigu bæjarins og séu reiðubúin til að skuldbinda sig til að setja gróður í lóðirnar og byggja þar ekki.  Með þeim hætti séu órofin tengsl milli skipulagðra sumarhúsalóða.

Málsrök Mosfellsbæjar:  Krafa Mosfellsbæjar er að staðfest verði ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 26. nóvember 2003 um að hafna umsókn kærenda um breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar þannig að sumarhús kærenda lendi innan skipulagðrar frístundabyggðar.

Af hálfu bæjarins er vísað til þess að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fari skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna.  Skipulagsnefndir annist m.a. gerð aðal- og deiliskipulags vegna alls lands innan sveitarfélagsins.  Samkvæmt 16. gr. laganna beri sveitarstjórn ábyrgð á að gert sé aðalskipulag fyrir sveitarfélagið þar sem fjallað sé um allt land innan marka sveitarfélagsins.  Mosfellsbær hafi staðið við þær skyldur. 

Þá er á það bent að á árinu 1978 hafi Mosfellshreppur efnt til opinnar samkeppni um aðalskipulag sveitarfélagsins.  Í framhaldi af því hafi verið unnið aðalskipulag fyrir sveitarfélagið fyrir tímabilið 1983 til 2003.  Gerð aðalskipulagsins hafi því átt sér talsverðan aðdraganda og til þess verið vandað.  Nýtt aðalskipulag 1992 til 2012 hafi tekið gildi á árinu 1992 og það verið tekið til endurskoðunar á árinu 2002.  Enn hafi nýtt aðalskipulag verið unnið og hafi það tekið gildi í janúar 2003 og gildi fyrir tímabilið 2002 til 2024.  Við alla þessa skipulagsvinnu hafi verið fylgt lögum og reglum um gerð aðalskipulags.  Allt frá árinu 1983 hafi sumarbústaðalönd kærenda verið á svæði sem skilgreint sé sem almennt opið svæði.  Það hafi því legið fyrir strax við gerð fyrsta aðalskipulags Mosfellsbæjar að þetta svæði yrði almennt opið svæði en ekki frístundabyggð.  Ekki hafi verið hrapað að þeirri ákvörðun.  Í greinargerð með aðalskipulagi 2002 til 2024 segi í kafla 2.2.2., sem beri yfirskriftina: „Svæði fyrir frístundabyggð“ að sumarhús megi einungis reisa innan svæða sem afmörkuð séu fyrir frístundabyggð og í samræmi við samþykkt deiliskipulag.  Þá segi í greinargerðinni:  „Ekki verður heimilt að byggja við, endurbyggja eða byggja ný sumarhús utan svæða fyrir frístundabyggð.  Einungis verði um að ræða eðlilegt og nauðsynlegt viðhald slíkra eiga.  Gert er ráð fyrir að skipulögð landnotkun samkvæmt aðalskipulagi taki við þegar slík hús hafa lokið hlutverki sínu, ganga úr sér eða verða fjarlægð.“

Það sé því ljóst að forsendur aðalskipulags Mosfellsbæjar séu þær að ekki verði aukið við frístundabyggð á þeim svæðum sem nú séu skilgreind sem almenn opin svæði, heldur muni þau með tíð og tíma verða raunveruleg opin svæði eftir því sem sumarbústaðirnir gangi úr sér.  Byggð í Mosfellsbæ sé að þéttast og það sé því í samræmi við það sem ekki sé heimilt að endurbyggja eldri bústaði eða nýja.

Ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 26. nóvember 2003 um að hafna umsókn kærenda um breytingu á aðalskipulagi sé því í fullu samræmi við forsendur aðalskipulagsins.  Engin rök standi til þess að breyta aðalskipulaginu.  Þá sé hætt við að ef samþykkt yrði breyting á aðalskipulaginu í þá veru sem kærendur krefjist muni slíkt leiða til fjölda annarra krafna um breytingar á aðalskipulaginu á öðrum jaðarsvæðum, þar sem það sem skilgreint hafi verið sem almennt opið svæði liggi að frístundabyggð.  Þá sé það af og frá að það hafi verið fyrir einhver mistök, svo sem kærendur haldi fram, að svæðið sem sumarbústaðir þeirra standa á, hafi lent utan skipulagðrar frístundabyggðar.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um synjun á beiðni kærenda til bæjarstjórnar Mosfellsbæjar um leiðréttingu aðalskipulags sveitarfélagsins í þá veru að landspildur þeirra í landi Sólheimakots falli innan frístundabyggðar en ekki innan almenns opins svæðis. 

Samkvæmt 16. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 ber sveitarstjórn ábyrgð á gerð aðalskipulags og í lögunum er gert ráð fyrir að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á fasteignarréttindum.  Í 1. mgr. 32. gr. laganna er sveitarstjórnum veitt eignarnámsheimild, með leyfi ráðherra og að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, þegar sveitarstjórn er nauðsyn á, vegna áætlaðrar þróunar sveitarfélagsins og samkvæmt staðfestu aðalskipulagi, að fá umráð fasteignarréttinda.  Þá er í 33. gr. laganna gert ráð fyrir að ef gildistaka skipulags hafi í för með sér að verðmæti fasteignar lækki eða nýtingarmöguleikar hennar rýrni frá því sem áður var geti sá sem sýni fram á tjón krafið sveitarsjóð um bætur eða innlausn fasteignar.

Samkvæmt þessu raskar það ekki gildi skipulagsáætlana þótt þær gangi á eignarrétt manna en sveitarstjórnir eiga að gæta þess með hliðsjón af greindum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, svo og 4. mgr. 1. gr. og 4. mgr. 9. gr. sömu laga að umrædd réttindi verði ekki fyrir borð borin bótalaust.  Það er aftur á móti ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til bótaréttar vegna gildistöku skipulagsáætlana, sbr. 3. mgr. 33. gr. laganna.

Byggingarleyfi skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og í lögunum er ekki að finna lagaheimildir til handa íbúum sveitarfélaga til að knýja á um einstakar lausnir í því skyni að ná tilgreindum markmiðum um landnotkun.  Afstaða skipulagsyfirvalda í Mosfellsbæ við erindi kæranda byggðist samkvæmt framansögðu á lögmætum sjónarmiðum og verður hin kærða ákvörðun því ekki felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 18. nóvember 2003 að synja beiðni kærenda um breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar er varðar landspildur í landi Sólheimakots í Mosfellsbæ. 

 

_________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________            _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Ingibjörg Ingvadóttir

42/2002 Hólmaslóð

Með

Ár 2004, þriðjudaginn 17. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2002, kæra leigutaka húsnæðis að Hólmaslóð 4, Reykjavík vegna höfnunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur á að taka til afgreiðslu kæru á hendur arkitekt. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 8. ágúst 2002, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 9. sama mánaðar, kærir G, f.h. Nuddskóla G ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 10. júlí 2002 þess efnis að hafna kröfu hans um að taka til afgreiðslu kæru á hendur Þormóði Sveinssyni arkitekt. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarráðs hinn 16. júlí 2002.

Kærandi krefst þess að ákvörðun skipulags- og bygginganefndar verði felld úr gildi. 

Úrskurðarnefndin óskaði hinn 15. september 2003 eftir því við skipulags- og byggingarnefnd að nefndin lýsti viðhorfum sínum til kærunnar og léti úrskurðarnefndinni í té gögn er verið gætu til upplýsingar við úrlausn málsins.  Engin gögn bárust og því var hinn 22. júlí 2004 óskað eftir því að afhent yrði hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar ásamt kæru til skipulags- og byggingarnefndar, dags. 12. apríl 2002, bréfi arkitekts til nefndarinnar, dags. 2. júlí 2002, og bréfi byggingarfulltrúa, dags. 8. júlí 2002.  Telur úrskurðarnefndin sjónarmið skipulags- og byggingarnefndar nægilega reifuð í framangreindum gögnum og málið í heild sinni því tækt til úrskurðar. 

Málavextir:  Í maí árið 2000 tók Þormóður Sveinsson arkitekt að sér gerð aðaluppdrátta vegna breytinga á húsnæði sem kærandi hafði tekið á leigu vegna starfsemi sinnar að Hólmaslóð 4 í Reykjavík. 

Framkvæmdir hófust vegna innréttingabreytinga í júlímánuði árið 2000 og hinn 29. ágúst sama ár var fyrirspurn arkitektsins til byggingaryfirvalda vegna breytinga á húsnæðinu tekin til afgreiðslu í skipulags- og byggingarnefnd.  Húsnæði það sem hér um ræðir er á hafnarsvæði og því þurfti að liggja fyrir samþykki hafnarstjórnar svo unnt væri að samþykkja aðra starfsemi í húsinu en þá sem hafnsækin væri, svo sem við á í þessu tilviki.  Hafnarstjórn lagðist gegn breytingunum og var fyrirspurninni því hafnað á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 26. september 2000.  Ný umsögn hafnarstjóra barst byggingarfulltrúa hinn 23. nóvember 2000 þar sem fram kom að hafnarstjórn gerði ekki athugasemdir við starfsemi kæranda í húsnæðinu til bráðabirgða eða fram til 31. maí 2001. 

Með bréfi, dags. 2. apríl 2002, kærði kærandi máls þessa arkitektinn til skipulags- og byggingarnefndar með vísan til 58. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 211. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, vegna starfa hans í þágu kæranda. 

Skipulags- og byggingarnefnd tók kæruna til afgreiðslu hinn 10. júlí 2002 og hafnaði kröfum hans um að nefndin beitti fyrrgreindum heimildum.

Framangreinda afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar sætti kærandi sig ekki við og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir kæru sína á því að ráðgjöf og vinnubrögð arkitektsins honum til handa hafi verið ófagleg og því hafi skipulags- og byggingarnefnd borið að fallast á kröfu hans um að úrræðum 58. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 211. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 yrði beitt gagnvart arkitektinum.  Fyrir liggi m.a. að arkitektinn hafi ekki kannað afstöðu hafnaryfirvalda til fyrirætlana kæranda og að hann hafi tekið ákvörðun um að iðnaðarmenn mættu hefja störf í húsnæðinu án þess að heimildir byggingaryfirvalda stæðu til þess.  Þá hafi og arkitektinn lagt fram fyrirspurnarblað í stað fullgildrar byggingarleyfisumsóknar og þar að auki hafi verið gerðar veigamiklar athugasemdir við teiknivinnu hans. 

Á grundvelli þess sem hér að ofan er rakið telur kærandi að arkitektinn hafi gerst svo brotlegur í starfi að tilefni hafi verið til að beita úrræði 58. gr. skipulag- og byggingarlaga, sbr. 211. gr. byggingarreglugerðar.  Samkvæmt þeim ákvæðum getur byggingarnefnd veitt hönnuði áminningu leggi hann fram hönnunargögn sem brjóti gegn ákvæðum laganna, reglugerð eða skipulagsáætlunum. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Byggingarfulltrúi bendir á að hinn 28. nóvember 2000 hafi fyrirspyrjanda verið veitt jákvætt svar vegna fyrirspurnarinnar en henni hafi ekki verið fylgt eftir með byggingarleyfisumsókn.  Þá hafi komið fram í kæru kæranda til skipulags- og byggingarnefndar að honum hafi við undirritun leigusamnings vegna húsnæðisins verið fullkunnugt um að afla þyrfti samþykkis hafnarstjórnar. 

Þá telur byggingarfulltrúi að fyrirspurn arkitektsins til skipulags- og byggingarnefndar hafi verið varfærin og til þess fallin að lágmarka kostnað kæranda.  Með framlagningu fyrirspurnarinnar hafi á engan hátt verið brotið gegn ákvæðum 58. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Önnur atriði er fram komi í kæru varði einkaréttarlegan ágreining og sé skipulags- og byggingarnefnd óviðkomandi. 

Mótmæli kæranda við sjónarmiðum byggingarfulltrúa og frekari rök hans:  Kærandi mótmælir í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar rökum byggingarfulltrúa sem lögð voru til grundvallar ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar og færir í kærunni fram frekari rök til stuðnings kröfu sinni.  Verða þau ekki frekar rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um hvort fella beri úr gildi synjun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur á erindi um að nefndin beiti arkitekt, er tók að sér að vinna verk fyrir kæranda, viðurlögum samkvæmt 58. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 211. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Samkvæmt 58. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur byggingarnefnd veitt hönnuði, sem fengið hefur löggildingu skv. 48. eða 49. gr. laganna, áminningu leggi hann fram hönnunargögn sem brjóta gegn ákvæðum laganna, byggingarreglugerð eða skipulagsáætlunum.  Séu brot alvarleg eða ítrekuð getur nefndin óskað eftir því að ráðherra svipti hlutaðeigandi hönnuð löggildingu.  Ákvæðið veitir tilgreindu stjórnvaldi heimild til þess að beita viðurlögum og er það alfarið á valdi stjórnvaldsins að meta, á málefnalegan hátt, hvort beita eigi þeim samkvæmt ákvæðinu í tilteknu tilviki.  Eiga einstakir borgarar eða lögaðilar ekki aðild að ákvörðun um beitingu þessara viðurlaga og er skipulags- og byggingarnefnd ekki skylt að verða við kröfu um beitingu viðurlaga jafnvel þótt slík krafa sé sett fram af aðila, sem tengist máli á þann hátt sem um er að ræða í hinu kærða tilviki.  Var skipulags- og byggingarnefnd ekki skylt að verða við kröfu kæranda og verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar sem og dráttar vegna gagnaöflunar.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 10. júlí 2002 um að hafna kröfu kæranda um að taka til afgreiðslu kæru á hendur Þormóði Sveinssyni arkitekt. 
 

________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________         _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                    Ingibjörg Ingvadóttir

26/2004 Miðbraut

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 29. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2004, kæra tveggja íbúa að Miðbraut 27, Seltjarnarnesi á samþykkt skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 4. mars 2004 um útgáfu byggingarleyfis til byggingar bílskúrs á lóðinni nr. 25a við Miðbraut á Seltjarnarnesi. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 23. apríl 2004, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni sama dag, kæra H og S, Miðbraut 27, Seltjarnarnesi, samþykkt skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 4. mars 2004 um útgáfu byggingarleyfis til byggingar bílskúrs á lóðinni nr. 25a við Miðbraut á Seltjarnarnesi.  Hin kærða ákvörðun var afgreidd á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar hinn 10. mars 2004. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar hinn 6. nóvember 2003 var tekin til afgreiðslu umsókn eiganda hússins að Miðbraut 25a um byggingu bílskúrs á lóðinni og var samþykkt að senda umsóknina í grenndarkynningu.  Kærendur settu fram athugasemdir og mótmæltu fyrirhuguðum framkvæmdum með bréfi, dags. 19. desember 2003.  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 4. mars 2004 var umsóknin samþykkt með því skilyrði að heildarhæð bílskúrsins færi ekki yfir hæð aðliggjandi bílskúrs við Vallarbraut 16.  Var kærendum tilkynnt um þessa ákvörðun með bréfi, dags. 3. apríl 2004. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að skipulags- og mannvirkjanefnd hafi verið óheimilt að samþykkja umrædda umsókn.  Á samþykktum teikningum sé ekki gert ráð fyrir bílskúr á þeim stað sem hið kærða byggingarleyfi heimili, þ.e. í norðurhorni lóðarinnar. 

Þá sé samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi umræddur bílskúr einn metra frá lóðarmörkum byggingarleyfishafa og kærenda.  Í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sé kveðið á um fjarlægð frá lóðarmörkum og bil milli húsa og settar fram ákveðnar lágmarksfjarlægðir frá húsvegg að mörkum nærliggjandi lóðar.  Er á því byggt af hálfu kærenda að a.m.k. hefðu þurft að vera þrír metrar frá vegg fyrirhugaðrar bílskúrsbyggingar að lóðarmörkum þeirra.  Í gr. 75.4 segi að heimilt sé að fjarlægðirnar séu minni enda sé þá slíkt ákveðið í deiliskipulagi eða með þinglýstum samningi milli lóðarhafa.  Í máli því sem hér sé til meðferðar sé hvorugt til staðar og því hafi skipulags- og byggingaryfirvöldum verið óheimilt að samþykkja umrætt byggingarleyfi og beri því að fella það úr gildi. 

Þá er því haldið fram af hálfu kærenda að fyrirhuguð bygging komi til með að varpa skugga á lóð kærenda.  Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 3. apríl 2004, komi fram að með þessu fyrirkomulagi bílskúrsins sem samþykkt hafi verið sé „…dregið mjög úr skuggavarpi“.  Með þessum orðum sé beinlínis viðurkennt að byggingin muni varpa skugga á lóð kærenda án þess að kærendur fái rönd við reist.  Því sé alfarið mótmælt að skipulags- og mannvirkjanefnd hafi haft heimild til þess að veita samþykki sitt fyrir framkvæmdum sem muni valda kærendum skuggavarpi.  Verönd kærenda snúi að fyrirhuguðum bílskúr.  Hafi kærendur nýverið endurbyggt sólpall á móti suðvestri og muni fyrirhuguð bygging varpa skugga á suðvesturhluta lóðarinnar og m.a. valda tjóni af þeim sökum á trjágróðri.  Með ákvörðuninni sé verið að skerða hagsmuni kærenda.  Þá muni innkeyrsla að fyrirhuguðum bílskúr valda kærendum ónæði þar sem staðsetning hans sé innst á lóðinni og snúi aðalgluggar húss þeirra að henni. 

Bygging bílskúrs samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi hefði það í för með sér að á lóðinni verði byggingar er liggi að öllum þremur mörkum lóðarinnar, sem ekki séu dæmi um í þessu hverfi.  Þá sé nú þegar tvöfaldur bílskúr á Miðbraut 25a sem sé 50 m² og sé verið að gefa leyfi til að byggja þriðja bílskúrinn sem sé 42 m².  Heildarflatarmál bílskúra á lóðinni verði 92 m².

Sjónarmið Seltjarnarnesbæjar:  Í bréfi byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar til kærenda, dags. 3. apríl 2004, eru sjónarmið bæjarins rakin.  Þar kemur m.a. fram að nýtingarhlutfall lóðarinnar Miðbraut 25a með væntanlegum bílskúr sé 0,37 og telji skipulags- og mannvirkjanefnd að bygging bílskúrsins verði ekki í andstöðu við svipmót hverfisins. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun var samþykkt á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar hinn 4. mars 2004 og afgreidd á fundi bæjarstjórnar hinn 10. sama mánaðar.  Var kærendum tilkynnt um þessa ákvörðun með bréfi, dags. 3. apríl 2004, og barst kæran úrskurðarnefndinni hinn 23. apríl 2004.  All löngu áður en kæran barst, eða hinn 12. mars 2003, hafði annar kærenda símsamband við starfsmann úrskurðarnefndarinnar vegna afgreiðslu bæjaryfirvalda á hinni kærðu ákvörðun og sendi í kjölfarið í tölvupósti „Samantekt frá eigendum að Miðbraut 27, Seltjarnarnesi“ þar sem nöfn og netföng beggja kærenda eru tilgreind.  Er þar að finna útdrætti úr fundargerðum nefnda Seltjarnarnesbæjar vegna framkvæmda á lóð byggingarleyfishafans allar götur frá árinu 1996 ásamt hinni kærðu samþykkt.  Þá sendi og sami kærandi símbréf til skrifstofu úrskurðarnefndarinnar hinn 15. mars 2003 til upplýsinga um aðstæður á umræddri lóð. 

Í 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að hverjum þeim er telji rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar eða sveitarstjórnar sé heimilt innan mánaðar frá því að honum er kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar. 

Eins og að framan er rakið var kærendum orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun hinn 12. mars 2004, en eins og áður segir barst kæran ekki úrskurðarnefndinni fyrr en hinn 23. apríl 2004.  Var kærufrestur samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga þá liðinn.  Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber, þegar svo stendur á, að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar.

Eins og atvikum er háttað í máli þessu eru engar þær ástæður fyrir hendi er réttlæta að kæran verði tekin til efnismeðferðar og ber því að vísa henni frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfum kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 4. mars 2004, um að veita byggingarleyfi til að byggja bílskúr á lóðinni nr. 25a við Miðbraut á Seltjarnarnesi, er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir

71/2002 Þúfukot

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 29. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 71/2002, kæra eiganda jarðarinnar Þúfukots, Kjósarhreppi vegna framkvæmdar hreppsnefndar Kjósarhrepps við lagningu vegar í landi jarðarinnar Þúfukots.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. desember 2002, framsendir Skipulagsstofnun kæru Þuríðar I. Jónsdóttur hdl., f.h. Ó, eiganda jarðarinnar Þúfukots í Kjósarhreppi vegna framkvæmdar hreppsnefndar við lagningu vegar í landi jarðarinnar Þúfukots. 

Kærandi krefst þess að vegurinn verði lagður í samræmi við staðfest skipulag svæðisins. 

Málavextir:  Með bréfi, dags. 31. maí 2002, gerir lögmaður kæranda máls þessa athugasemdir við vegarlagningu sveitarstjórnar á landareign hans.  Kvað hann kæranda aldrei hafa veitt samþykki sitt fyrir framkvæmdunum og að um þær hafi ekki verið samið.  Í bréfi oddvita hreppsnefndar, dags. 19. júní 2002, til lögmanns kæranda kemur fram að hreppsnefnd telji sig vera í fullum rétti vegna framkvæmdarinnar.  Með bréfi lögmanns kæranda til Kjósarhrepps, dags. 28. júní 2002, var óskað svara við því hvers vegna vegstæðið væri ekki í samræmi við staðfest skipulag svæðisins. 

Frekari bréfaskriftir áttu sér stað milli aðila vegna málsins en sættir tókust ekki og var málinu af þeim sökum vísað til úrskurðarnefndarinnar eins og að ofan greinir. 

Málsástæður kæranda:  Kærandi heldur því fram að framkvæmdir sveitarstjórnar á landi hans séu í ósamræmi við staðfest skipulag svæðisins.  Allar götur frá því í maí árið 2002 hafi kærandi reynt að ná samkomulagi við sveitarstjórn um vegstæðið en án árangurs.  Því kæri hann málið til úrskurðarnefndarinnar og krefjist þess að vegurinn verði gerður í samræmi við staðfest skipulag svæðisins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um framkvæmdir við gerð vegar í landi jarðarinnar Þúfukots í Kjósarhreppi.  Fyrir liggur að framkvæmdir við gerð vegarins voru hafnar í maí árið 2002.  Kæran er dagsett hinn 23. desember 2002 og barst hún úrskurðarnefndinni með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 27. desember 2002. 

Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna er einungis einn mánuður samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 frá því að kæranda er kunnugt um hina kærðu ákvörðun. 

Eins og áður segir voru hinar umdeildu framkvæmdir hafnar í maí árið 2002 en þá leitaði kærandi upplýsinga um verkið hjá hreppsnefnd Kjósarhrepps.  Allt að einu setti hann ekki fram kæru í málinu fyrr en a.m.k. um hálfu ári eftir að framkvæmdir hófust.  Verður við það að miða að kærufrestur hafi byrjað að líða hinn 31. maí 2002, eða þann dag er kærandi sett fram skriflega fyrirspurn vegna framkvæmdarinnar. 

Með hliðsjón af framansögðu barst kæra í máli þessu að liðnum kærufresti og ber því samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

________________________________
Ásgeir Magnússon

 

____________________________            ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Ingibjörg Ingvadóttir

45/2003 Heiðargerði

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 29. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2003, kæra G, Heiðargerði 76, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 7. maí 2003 um að samþykkja uppdrátt og greinargerð að deiliskipulagi „Heiðargerðisreits“.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 28. júlí 2003, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 8. ágúst s. á, kærir Óskar Sigurðsson hdl., f.h. G, Heiðargerði 76, Reykjavík, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 7. maí 2003 um að samþykkja uppdrátt og greinargerð að deiliskipulagi „Heiðargerðisreits“.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 18. júlí 2003 að undangenginni afgreiðslu Skipulagsstofnunar og staðfestingu borgarráðs.

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 13. mars 2002 voru lögð fram drög að forsögn að deiliskipulagi „Heiðargerðisreits“, sem afmarkast af helgunarsvæði við Miklubraut til norðurs, Grensásvegi til austurs, Brekkugerði og lóð Hvassaleitisskóla til suðurs og lóðum við Stóragerði til vesturs.  Var samþykkt á fundinum að unnin yrði tillaga að deiliskipulagi fyrir umrætt svæði á grundvelli framlagðrar forsagnar.  Var íbúum og hagsmunaaðilum á svæðinu greint frá þessum áformum með samhljóða bréfum, dags. 3. apríl 2002, og þeim boðið að koma að ábendingum og hugmyndum um gerð skipulagstillögunnar.

Með bréfi til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 15. september 2002, komu eigendur Heiðargerðis 76, Eggert Guðmundsson og Guðmundur Ó. Eggertsson, kærandi í máli þessu, á framfæri athugasemdum um að þeir teldu að hvorki væri unnið að skipulagsgerðinni á réttum forsendum né í samræmi við fyrirliggjandi forsögn, þar sem ekki hefði verið tekið tillit til þess að húseignin að Heiðargerði 76 væri tvíbýlishús og ætti nýtingarhlutfall lóðarinnar að ráðast af því.  Er í bréfinu vísað til fundar húseigenda með tilgreindum starfsmönnum Borgarskipulags hinn 12. september 2002.

Með bréfum, dags. 20. nóvember 2002, var hagmunaaðilum gefinn kostur á að tjá sig um tillögu að deiliskipulagi svæðisins og fylgdi bréfunum smækkaður uppdráttur að svæðinu ásamt greinargerð skipulagshöfunda.  Athugasemdir og ábendingar bárust frá nokkrum aðilum, þar á meðal frá kæranda, þar sem hann átaldi m.a. að ekki skyldi vera ákvarðað sérstaklega nýtingarhlutfall fyrir sambýlishús á svæðinu, sem væru allmörg, þar á meðal hús hans, sem verið hefði tvíbýlishús allt frá árinu 1954.  Jafnframt taldi kærandi skipulagsuppdráttinn rangan hvað Heiðargerði 76 varðaði.  Munu einhverjar lagfæringar hafa verið gerðar á skipulagstillögunni í tilefni af framkomnum athugasemdum en ekki var fallist á að endurskoða tillöguna varðandi nýtingarhlutfall eignar kæranda.

Hinn 28. febrúar 2003 var birt auglýsing um skipulagstillöguna og frestur veittur til 11. apríl 2003 til að koma að athugasemdum við hana.  Tvær athugasemdir bárust við tillöguna, þar af önnur frá kæranda, sem ítrekaði sjónarmið sín í málinu og lagði hann fram gögn máli sínu til stuðnings.

Að kynningartíma liðnum var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. maí 2003 og lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. maí 2003, um framkomnar athugasemdir.  Var nefndin ekki einhuga í málinu en skipulagstillagan var þó samþykkt á fundinum með þeim breytingum sem lagðar voru til í umsögn skipulagsfulltrúa.  Skipulagstillagan var staðfest í borgarráði 16. júní 2003 og hlaut lögboðna afgreiðslu Skipulagsstofnunar.  Var auglýsing um gildistöku tillögunnar birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 18. júlí 2003.

Kærandi vildi ekki una hinni kærðu ákvörðun og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 28. júlí 2003, svo sem að framan greinir.

Rétt þykir að taka hér fram að kærandi fékk á árinu 2000 leyfi byggingaryfirvalda til að reisa viðbyggingu við þakhæð hússins að Heiðargerði 76.  Kærðu nágrannar þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem felldi umrætt byggingarleyfi úr gildi með þeim rökum að byggingarleyfið samræmdist ekki ákvæðum aðalskipulags um nýtingarhlutfall og var því hafnað að miða ætti við nýtingarhlutfall sambýlishúsa við úrlausn málsins, þrátt fyrir að tvær samþykktar íbúðir væru að Heiðargerði 76. 

Kærandi leitaði til dómstóla og krafðist ógildingar á niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.  Féllst héraðsdómur á kröfur hans en með dómi Hæstaréttar hinn 20. september 2001 var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um ógildingu byggingarleyfisins staðfest.  Var í dómi Hæstaréttar til þess vísað að kærandi hefði áður fengið leyfi til að bæta við hús sitt og eftir þá viðbót hefði nýting lóðar hans verið komin verulega fram yfir það sem almennt hefði verið ákveðið fyrir aðliggjandi byggð.  Með hinu umdeilda byggingarleyfi hefði nýting kæranda á lóðinni aukist enn frekar, til óhagræðis a.m.k. fyrir næstu nágranna, sem taldir voru hafa mátt treysta því að ekki yrði ráðist í frekari stækkun húss kæranda án þess að unnið yrði deiliskipulag þar sem tekið yrði tillit til byggðamynsturs svæðisins.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og byggir kærandi kröfu sína einkum á því að a) ekki sé getið um nýtingarhlutfall tvíbýlishúsa/sambýlishúsa í deiliskipulagstillögunni, b) að skort hafi á kynningu greinargerðar skipulagsfulltrúa og að auglýsa hafi þurft tillöguna að nýju og c) að ósamræmi sé milli greinargerðar og deiliskipulagsuppdráttar.

a)  Nýtingarhlutfall tvíbýlishúsa/sambýlishúsa ekki skilgreint.

Kærandi tekur fram að í greinargerð skipulagshöfundar, lið 2.1, komi fram að tvær íbúðir séu í 11 húsum, sem skipulagið taki til, og einnig sé vitað að þrjár íbúðir séu að minnsta kosti í tveimur húsum við Heiðargerði.

Heiðargerði 76 hafi verið tvíbýlishús frá 15. júní 1954 en þá hafi byggingarnefnd Reykjavíkur samþykkt teikningar af íbúð í risi.  Vísar kærandi einnig í greinargerð Hjörleifs B. Kvaran, fyrrverandi borgarlögmanns, dags. 9. janúar 2001.  Með þessari samþykkt byggingarnefndar hafi Heiðargerði 76 orðið að tvíbýli og hafi verið það síðan.  Þá megi einnig minna á að með bréfi, dags. 17. september 1955, til Eggerts Grímssonar lóðarhafa að Heiðargerði 76 hafi bæjarráð tilkynnt að það hefði samþykkt að kærandi yrði einnig aðili að lóðarsamningi að Heiðargerði 76.  Þá hafi eignaskiptayfirlýsing milli Eggerts og kæranda, dags. 8. júlí 1956, staðfest af Byggingarsamvinnufélagi Reykjavíkur, verið samþykkt sama dag.  Yfirlýsing þessi hafi verið staðfest af borgarstjóranum í Reykjavík 8. ágúst 1956 og þinglýst 14. ágúst 1956.  Heiðargerði 76 sé því samþykkt tvíbýlishús.

Fasteign kæranda sé sambýlishús og hafi verið út frá því gengið í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 1996-2016, þar sem viðmiðunarnýtingarhlutfall slíkra húsa hafi verið skilgreint 0,5-0,8.  Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, sem staðfest hafi verið 20. desember 2002, sé ekki getið um nýtingarhlutfall lóða, enda eigi slíkt að útfærast í deiliskipulagi.  Í bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 3. apríl 2002, hafi hins vegar komið fram að þágildandi aðalskipulag og skipulagsáætlanir yrðu lagðar til grundvallar við deiliskipulagsvinnuna.

Bent sé á að Heiðargerði 76 hafi þegar verið orðið tvíbýlishús/sambýlishús þegar almenn ákvæði um nýtingarhlutfall hafi verið tekin upp í aðalskipulagsáætlun Reykjavíkurborgar og því verði við gerð deiliskipulags fyrir viðkomandi svæði að skilgreina nýtingarhlutfall slíkra húsa, sbr. gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Vegna umfjöllunar í greinargerð skipulagsfulltrúa, dags. 5. maí 2003, telur kærandi nauðsynlegt að taka skýrt fram að þetta mál lúti ekki að því hvort byggingarleyfi verði veitt fyrir framkvæmdum hans að Heiðargerði 76, sem dómur Hæstaréttar frá 20. september 2001 lúti að.  Þetta mál lúti að skilgreiningu nýtingarhlutfalls fyrir tvíbýlishús/sambýlishús í deiliskipulagi í samræmi við skilyrði laga.  Það hvort veitt verði leyfi fyrir framkvæmdinni sé einfaldlega annað mál.  Þá sé það ekki brot á jafnræðisreglum, enda þótt nýtingarhlutfallið sé skilgreint í deiliskipulagi fyrir slík hús.  Það sé lagaleg skylda skipulags- og byggingarnefndar að skilgreina nýtingarhlutfall tvíbýlishúsa/sambýlishúsa í deiliskipulagi og það teljist ekki brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þó að nefndin sinni þeirri skyldu sinni. 

Þá telur kærandi framsetningu í skipulagsgreinargerð á nýtingarhlutfalli fyrir Heiðargerði 3-65 nokkuð villandi, þar sem kvaðir séu á öllum lóðum um akbraut og lagnaleiðir.  Raunnýtingarhlutfall lóðanna sé því mun hærra en fram komi í greinargerðinni, þar sem þeir hlutar þeirra sem teknir séu undir götur nýtist ekki til aukningar byggingarmagns og ættu því að dragast frá við útreikning nýtingarhlutfalls til að fá réttan samanburð við nýtingu lóða á sléttum tölum Heiðargerðis og í Hvammsgerði.

b)  Breyting á greinargerð, skortur á kynningu – auglýsing að nýju.

Í öðru lagi byggir kærandi á því að greinargerð skipulagsfulltrúa, dags. 5. maí 2003, og þá umfjöllun sem þar komi fram, hafi borið að leggja fram til kynningar fyrir íbúa og hagsmunaaðila en ekki einungis fyrir byggingar- og skipulagsnefnd, eins og gert hafi verið.  Í greinargerð skipulagsfulltrúa sé, að mati kæranda, gerð veruleg breyting á skipulagsgreinargerðinni sem og auglýstum uppdrætti, t.d. mælt fyrir um nýtingarhlutfall lóða með öðrum hætti en kynnt hafi verið.  Það hefði því verið rétt að auglýsa tillöguna ásamt skipulagsgreinargerð að nýju, með innfærðum breytingum skipulagsfulltrúa, eða a.m.k. gefa þeim aðilum, sem gert höfðu athugasemdir um þau atriði sem breytingarnar lutu að, sem og öðrum hagsmunaaðilum, kost á að tjá sig um hina breyttu tillögu áður en hún var tekin til afgreiðslu hjá skipulags- og byggingarnefnd.

Bendir kærandi á að í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997 sé gert ráð fyrir að auglýsa beri skipulagstillögu á nýjan leik, sé henni breytt í grundvallaratriðum, en ekki sé skýrt í lagatextanum eða lögskýringargögnum hvað felist í þessu hugtaki. 

Við umfjöllun um hvort um verulega breytingu sé að ræða eða ekki megi hafa til hliðsjónar túlkun á 2. mgr. 26. gr. sömu laga.  Við setningu skipulags- og byggingarlaga hafi komið fram hjá umhverfisnefnd að skýra bæri hugtakið óveruleg breyting á deiliskipulagi í greindu ákvæði laganna þröngt.  Í nefndaráliti sínu hafi nefndin sagt að breytingar þær sem hún legði til að gerðar yrðu með 25. gr. væru í samræmi við breytingar á sams konar greinum um svæðisskipulag og aðalskipulag og miðuðu þær að því að auðvelda aðkomu íbúa sveitarfélagsins að skipulaginu, með hertum kröfum um auglýsingar og kynningu.

Þegar þess sé gætt að skipulags- og byggingarlög byggi á þeirri meginreglu að gefa skuli þeim sem kunni að eiga hagsmuna að gæta kost á að gera athugasemdir við efni skipulagstillagna áður en þær séu endanlega afgreiddar verði að telja að heimild til að gera breytingar frá áður auglýstri deiliskipulagstillögu eða skipulagsgreinargerð, án þess að slík breyting sé auglýst, sé undantekningarregla sem skýra verði þröngt.  Skyldan til að auglýsa breytta tillögu og greinargerð sé því mjög brýn samkvæmt lögum, einkum og sér í lagi í þessu máli, þar sem umrætt hverfi, sem skipulagið taki til, þarfnist sérstaks aðhalds við umfjöllun um skipulag, byggingar og nýtingarhlutfall.

c)  Ósamræmi milli uppdráttar og greinargerðar.

Í þriðja lagi byggir kærandi á því að í ljósi greinargerðar skipulagsfulltrúa sé ósamræmi milli uppdráttar annars vegar og skipulagsgreinargerðar hins vegar. 

Deiliskipulag sé stjórnvaldsákvörðun sem birta skuli annars vegar með skriflegri greinargerð og hins vegar á uppdrætti.  Þess þurfi að gæta að samræmi sé í efni þessara tveggja skjala.  Þau atriði sem koma eigi fram í skipulagi og bindi  stjórnvöld, eigendur og notendur fasteigna, þurfi að koma fram í greinargerðinni og á uppdrættinum.  Miðað við þær breytingar sem skipulagsfulltrúi hafi lagt til í greinargerð sinni og samþykktar hafi verið af hálfu skipulags- og byggingarnefndar sé ljóst að ekki sé samræmi milli þessara tveggja skjala, þ.e. uppdráttar og skipulagsgreinargerðar að því er varði nýtingarhlutfall og skilgreiningu þess.

Málsrök Reykjavíkurborgar:   Hinn 9. júlí 2004 barst úrskurðarnefndinni greinargerð Reykjavíkurborgar í málinu ásamt fylgiskjölum.  Er þess þar krafist að hin kærða ákvörðun verið staðfest.

Um málsástæður kæranda um nýtingarhlutfall er einkum vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 5. maí 2003.  Er þar gerð grein fyrir því að nýtingarhlutfall á lóð kæranda hafi áður komið ítrekað til umfjöllunar í tengslum við leyfi til viðbyggingar sem honum hafi verið veitt hinn 6. júní 2000, en síðar hafi verið fellt úr gildi.  Við meðferð málsins hjá Reykjavíkurborg hafi Borgarskipulag lagst gegn því að umsóknin yrði samþykkt þar sem meðalnýtingarhlutfall í viðkomandi „botnlanga“ væri um 0,4 en á lóðinni nr. 76 væri það 0,71 fyrir umsóttar breytingar en 0,77 eftir þær.  Þá hafi breytingin ekki verið talin í samræmi við byggðamynstur svæðisins auk þess sem hún hefði í för með sér skuggamyndun á aðliggjandi lóðum.  Embættið hafi því talið að með veitingu byggingarleyfisins væri verið að víkja enn frekar frá yfirbragði og nýtingarhlutfalli á nærliggjandi lóðum en þegar væri orðið.  Hafi umsóknum kæranda um aukið byggingarmagn tvívegis áður verið hafnað á þessum forsendum.

Þessar forsendur hafi ekki breyst að mati embættisins.  Ef heimilað hefði verið í deiliskipulagi að hækka nýtingarhlutfall lóðar kæranda hefði, með tilliti til jafnræðissjónarmiða, orðið að láta sama gilda um aðrar lóðir sem svipað hafi verið ástatt um.  Það hefði hins vegar verið grundvallarbreyting á skipulagi svæðisins. Í þessu sambandi breyti engu þótt lóðinni hafi á sínum tíma verið úthlutað til tveggja aðila eða hvort samþykktar hafi verið tvær íbúðir í húsinu, enda hafi ekki falist í þeim ákvörðunum loforð um hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar.  Megi ráða þetta af úrskurði úrskurðarnefndarinnnar frá 10. nóvember 2000, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar.

Ekki sé ágreiningur um að tvær íbúðir hafi verið samþykktar í húsinu, sem og í fleiri húsum á reitnum.  Borgaryfirvöld telji hins vegar að það eigi ekki að leiða til hækkunar nýtingarhlutfalls þeirra húsa sem svo sé ástatt um og því hafi ekki verið ástæða til að tilgreina það sérstaklega í deiliskipulaginu hvaða hús séu sambýlishús.  Bent sé á að í núgildandi aðalskipulagi sé ekki gerður sá greinarmunur á nýtingarhlutfalli einbýlishúsa og sambýlishúsa sem gerður hafi verið í eldra aðalskipulagi.

Rétt sé að hafa í huga að nýtingarhlutfall í Heiðargerði verði nokkru hærra samkvæmt deiliskipulaginu en það sem miðað hafi verið við í eldri hverfum og verði þéttleiki töluverður.  Í deiliskipulaginu sé verið að leggja línur til framtíðar, taka tillit til byggðarmynsturs og leyfa ákveðna uppbyggingu.  Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur segi ekki fyrir um viðmiðunarnýtingarhlutfall en nýtingarhlutfall deiliskipulagsins sé byggt á faglegu og málefnalegu mati á þeim þéttleika sem þyki hæfa á reitnum. 

Reykjavíkurborg mótmælir því að kynna hafi þurft umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir fyrir hagsmunaaðilum áður en skipulagstillagan yrði afgreidd.  Engin fyrirmæli séu um slíkt í skipulags- og byggingarlögum.  Að auki hafi breytingar þær sem lagt hafi verið til í umsögninni að gerðar yrðu á deiliskipulagstillögunni verið smávægilegar og augljóst m.t.t. ákvæða skipulags- og byggingarlaga að ekki hafi þurft að auglýsa tillöguna á ný.

Talsmaður Reykjavíkurborgar kveðst ekki átta sig fyllilega á þriðju málsástæðu kæranda um að misræmi sé milli uppdráttar og greinargerðar deiliskipulagsins.  Af hálfu borgaryfirvalda sé fullyrt að framsetning deiliskipulagsins sé í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og að samræmi sé milli uppdráttar og greinargerðar.  Þá liggi fyrir í gögnum málsins að deiliskipulagið hafi hlotið meðferð í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari röksemdir fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Verða þær ekki raktar hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins.
 
Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið krefst kærandi ógildingar á ákvörðun borgaryfirvalda um deiliskipulag fyrir „Heiðargerðisreit“.  Teflir kærandi aðallega fram þremur málsástæðum til stuðnings kröfu sinni um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Í fyrsta lagi heldur kærandi því fram að það hafi verið lagaleg skylda skipulags- og byggingarnefndar að skilgreina sérstaklega nýtingarhlutfall tvíbýlishúsa/sambýlishúsa í deiliskipulaginu.  Þessa hafi ekki verið gætt og eigi það að leiða til ógildingar.  Þá sé ekki unnt að fallast á að það hefði talist brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þótt nefndin hefði sinnt þessari skyldu sinni.

Málsástæða þessi virðist reist á þeirri forsendu að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016, sem í gildi var þegar undirbúningur var hafinn að gerð hins umdeilda skipulags, hafi verið mælt fyrir um hærra gildi fyrir sambýlishús en einbýlishús.  Var kveðið svo á um í greinargerð aðalskipulagsins að hafa skyldi þargreinda töflu um nýtingu eftir húsagerðum til viðmiðunar og var þar miðað við að nýtingarhlutfall einbýlishúsa væri 0,2 – 0,4 en sambýlishúsa (2-5 íbúðir) 0,5 – 0,8.

Eins og tafla þessi var sett fram var augljóst að henni var ætlað að vera til viðmiðunar við ákvörðun um nýtingarhlutfall í íbúðarhverfum víðast hvar í borginni.  Verður að telja, með hliðsjón af ákvæði 3.1.4 í skipulagsregugerð nr. 400/1998, að heimilt hefði verið að ákveða í deiliskipulagi fast gildi fyrir nýtingarhlutfall, að því tilskyldu að það væri innan tilgreindra marka aðalskipulags.  Samræmdist það því ákvæðum Aðalskipulags  Reykjavíkur 1996 – 2016 að gera tillögu um að nýtingarhlutfall fyrir hús kæranda yrði 0,5 svo sem gert var, jafnvel þótt fallist hefði verið á að skilgreina hefði átt húsið sem sambýlishús.  Þá var jafnframt heimilt að leggja til hærra nýtingarhlutfall fyrir einbýlishús en viðmiðunartaflan gerði ráð fyrir, enda var í aðalskipulaginu ótvíræð heimild til þess að víkja í deiliskipulagi frá ákvæðum aðalskipulags um nýtingarhlutfall til hækkunar.  Við gerð hinnar umdeildu skipulagstillögu var nýtingarhlutfall m.a. látið ráðast af  því hvort kjallari væri undir húsum en í aðalatriðum virðist hafa verið stefnt að því að sem mest jafnræði ríkti um nýtingu lóða á svæðinu.

Þegar lokið var vinnu við gerð hinnar umdeildu deiliskipulagstillögu hafði nýtt aðalskipulag Reykjavíkur tekið gildi.  Með hliðsjón af 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 bar borgaryfirvöldum að tryggja að skipulagstillagan samræmdist hinu nýja aðalskipulagi, sem tekið hafði gildi þegar tillagan var auglýst til kynningar hinn 28. febrúar 2003.  Voru þá ekki lengur í gildi áðurgreind ákvæði eldra aðalskipulags um nýtingarhlutfall til viðmiðunar fyrir einstakar húsagerðir.  Verður með hliðsjón af þessu að telja að skipulagsyfirvöldum hafi verið heimilt að ákveða nákvæmlega það nýtingarhlutfall sem talið var hæfilegt með hliðsjón af markmiðum skipulagsforsagnar og almennri stefnu nýs aðalskipulags Reykjavíkur um þéttleika byggðar.  Verður ekki annað ráðið en að málefnalegar ástæður hafi legið að baki ákvörðun borgaryfirvalda um nýtingarhlutfall í hinu umdeilda deiliskipulagi og að ákvarðanir skipulagsins fullnægi lagaskilyrðum.  Verður því ekki fallist á að ógilda beri hina kærðu ákvörðun vegna annmarka á ákvæðum hennar um nýtingarhlutfall.

Í öðru lagi heldur kærandi því fram að kynna hefði átt hagsmunaaðilum umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir og að skylt hafi verið að auglýsa tillöguna að nýju vegna þeirra breytinga sem á henni voru gerðar eftir kynningu hennar.

Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga er kveðið á um málsmeðferð eftir að sveitarstjórn hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi.  Kemur þar fram að  taka skuli afstöðu til þess hvort breyta skuli skipulagstillögu vegna framkominna athugasemda, en af ákvæðinu verður ráðið að umsögn skipulagsnefndar skuli koma til umfjöllunar í sveitarstjórn.  Er ekki kveðið á um að sú umsögn skuli kynnt hagsmunaaðilum sérstaklega en senda skal þeim sem athugasemdir gerðu umsögn sveitarstjórnar um þær eftir að hún hefur afgreitt tillöguna.  Verður ekki fallist á að borgaryfirvöldum hafi borið að kynna hagsmunaaðilum umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir svo sem kærandi heldur fram, enda er slík málmeðferð ekki áskilin að lögum.  Verður ekki heldur fallist á að skipulagstillögunni hafi verið breytt í svo veigamiklum atriðum að skylt hafi verið að auglýsa hana að nýju, enda var tillögunni ekki breytt í grundvallaratriðum, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997.

Loks heldur kærandi því fram að ósamræmi sé milli skipulagsuppdráttar og greinargerðar er ógildingu varði. 

Úrskurðarnefndin fellst ekki á að um slíkt misræmi sé að ræða.  Greinargerð hins umdeilda skipulags er ekki færð inn á uppdráttinn og er það fyrirkomulag í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, gr. 5.1.1.  Afgreiddi Skipulagsstofnun uppdrátt og greinargerð skipulagsins með ábendingu um að betur þyrfti að gera grein fyrir aðkomu að tilgreindum húsum og var farið að þeim tilmælum.  Verður ekki annað séð en að með þeirri lagfæringu hafi skipulagsgögnunum verið komið í lögmætan búning.

Engar aðrar ástæður hafa komið fram er leiða ættu til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfu kæranda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á staðfestri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 7. maí 2003 um að samþykkja uppdrátt og greinargerð að deiliskipulagi „Heiðargerðisreits“.

________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir