Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

51/2003 Eddufell

Ár 2006, miðvikudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 51/2003, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá  30. júlí 2003 um að fresta afgreiðslu umsóknar um leyfi fyrir veitingastað með ballskákborðum á efri hæð hússins nr. 8 við Eddufell.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. ágúst 2003, er barst nefndinni sama dag, kærir Sævar Guðlaugsson f.h. R ehf., Byggðarenda 4, Reykjavík eiganda húsnæðis að Eddufelli 8, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 30. júlí 2003 að fresta afgreiðslu umsóknar kæranda um leyfi fyrir veitingastað með ballskákborðum á efri hæð hússins að Eddufelli 8. Ákvörðunin var staðfest í borgarráði hinn 12. ágúst 2003.  Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt leyfi til umbeðinna breytinga.

Málsatvik:  Hinn 7. maí 2002 var á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir fyrirspurn um hvort leyft yrði að opna veitingastað ásamt sportbar með billjardborðum á fyrstu hæð í húsinu nr. 8 á lóðinni nr. 2-8 við Eddufell og var tekið jákvætt í erindið.  Formleg umsókn um greindar breytingar var síðan til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar 30. júlí 2003 en afgreiðslu hennar frestað með með vísan til 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem deiliskipulagsvinna stæði yfir fyrir umrætt svæði.  Kærandi sætti sig ekki við þessa ákvörðun og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar.

Bendir kærandi á að umrætt húsnæði standi autt og ekki hafi verið unnt að leigja það að óbreyttu.  Frestun á jákvæðri afgreiðslu umsóknar hans valdi honum því fjárhagslegu tjóni.

Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kærenda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar um frestun á afgreiðslu málsins verði staðfest.  Heimilt hafi verið að fresta afgreiðslu málsins skv. 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Frestunin hafi byggst á því að verið var að vinna deiliskipulagstillögu vegna Fellagarða, en lóðin Eddufell 8 sé á því svæði.  Sú deiliskipulagsbreyting hafi verið samþykkt í skipulagsráði 22. júní 2005 og staðfest í borgarráði 30. júní s.á að undangenginni aðalskipulagsbreytingu.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 21. júlí 2005.  Í hinu nýja deiliskipulagi sé heimilt að breyta húsinu Eddufelli 8 í íbúðarhús með bílageymslu fyrir 14 bíla í kjallara og heimilað að byggja tvær íbúðarhæðir ofan á húsið.  Deiliskipulagsbreyting þessi hafi ekki verið kærð.  Kærandi í máli þessu hafi hins vegar gert bótakröfu á hendur Reykjavíkurborg sem byggi á fyrrgreindu ákvæði 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga og af því verði ráðið að kærandi hafi talið heimilt að afgreiðslu málsins væri frestað á grundvelli greinds ákvæðis.  Kærandi hafi því enga lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort skipulags- og byggingarnefnd hafi verið heimilt að fresta afgreiðslu málsins.  Frávísunarkrafa Reykjavíkurborgar varðandi þá kröfu kæranda að úrskurðarnefndin heimili umræddar breytingar sé á því byggð að umfjöllun um slíka kröfu sé utan valdsviðs nefndarinnar.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að fresta afgreiðslu umsóknar kæranda um breytta notkun húsnæðis að Eddufelli 8, en slík frestun er heimiluð í 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 í allt að tvö ár, m.a. ef breytingar á deiliskipulagi standa yfir.  Verði fasteignareigandi fyrir tjóni í slíkum tilfellum á hann rétt til bóta.

Fyrir liggur að breyting á  deiliskipulagi umrædds svæðis tók gildi hinn 21. júlí 2005 og er þar gert ráð fyrir að greint húsnæði sé nýtt til íbúðar.  Kærandi hefur ekki kært þá deiliskipulagsákvörðun en hefur farið fram á bætur á grundvelli fyrrgreindrar 6. mgr 43. gr.  Að þessum atvikum virtum þykir kærandi ekki lengur hafa hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
                          Hjalti Steinþórsson                                 

 

 

_____________________________             ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir