Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

31/2003 Laugavegur

Ár 2006, fimmtudaginn 11. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 31/2003, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 9. apríl 2003 um deiliskipulag staðgreinireits 1.174.2, er tekur til svæðis innan Laugavegar, Barónstígs, Grettisgötu og Vitastígs. 
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. maí 2003, er barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kæra H, Laugavegi 76b og G, Laugavegi 76a samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 9. apríl 2003 um deiliskipulag staðgreinireits 1.174.2, er tekur til hluta Laugavegar, Barónstígs, Grettisgötu og Vitastígs. 

Skilja verður kröfugerð kærenda á þann veg að þeir krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi eða henni breytt.  Þá er einnig krafist skaðabóta.  

Málsatvik:  Skipulags- og byggingarnefnd ákvað á fundi hinn 5. júní 2002 að auglýsa til kynningar tillögu að deiliskipulagi staðgreinireits 1.174.2, er tekur til svæðis innan Laugavegar, Barónstígs, Grettisgötu og Vitastígs.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 12. júlí 2002 til 23. ágúst s.á. með athugasemdafresti til 15. ágúst s.á.  Athugasemdir bárust m.a. frá kærendum.  Tillagan var fyrst lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 4. desember 2002 ásamt athugasemdum sem bárust.  Í kjölfarið funduðu arkitekt og lögfræðingur skipulagsfulltrúa með eigendum Grettisgötu 59 vegna málsins og voru minnispunktar frá þeim fundi lagðir fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 13. desember s.á.  Á þeim fundi var málinu frestað.  Tillagan var enn á ný lögð fyrir nefndina hinn 28. mars 2003, 2. apríl s.á. og 9. apríl s.á. og var hún þá samþykkt með 4 atkvæðum.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum hinn 11. apríl 2003.  Málið var sent til athugunar Skipulagsstofnunar og með bréfi, dags. 19. maí 2003, tilkynnti Skipulagsstofnun að hún gerði ekki athugasemdir við að auglýsing um gildistöku skipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Var auglýsing um gildistökuna birt hinn 1. ágúst 2003.

Hið kærða deiliskipulag gerir m.a. ráð fyrir kvöð um gönguleið um lóð nr. 59 við Grettisgötu að húsunum nr. 74a og 74b við Laugaveg.  Eigandi fasteignarinnar að Grettisgötu 59 kærði ákvörðun borgaryfirvalda um umferðarkvöð deiliskipulagsins til úrskurðarnefndarinnar.  Í kjölfarið hófust samningaumleitanir við eigandann og lauk málinu þannig að honum voru greiddar bætur fyrir kvöðina.  Eigandinn afturkallaði kæruna í kjölfarið.

Á gömlu en ódagsettu lóðablaði sem liggur fyrir í málinu er gönguréttur sýndur um lóð Grettisgötu 59 frá Grettisgötu að lóðunum nr. 76a og 76b við Laugaveg.  Er skjali þessu ekki þinglýst. 

Kærendur hafa skotið framangreindri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur setja fram athugasemdir við þá ákvörðun skipulagsyfirvalda að ekki skuli hafa verið sett kvöð um akstursrétt um lóðina nr. 59 við Grettisgötu að húsunum nr. 76a og 76b við Laugaveg.

Allt frá fyrri hluta síðustu aldar hafi verið gert ráð fyrir því að aðkoma að húsunum nr. 76a og 76b við Laugaveg væri bæði frá Laugavegi og Grettisgötu.  Allt frá fyrstu heimildum sé gert ráð fyrir stíg sem sé hið minnsta fjórar álnir að breidd og hafi kvöð þessa efnis verið í gildi í áratugi.  Líklega hafi upphaflega verið gert ráð fyrir gangandi umferð þó ljóst sé að þarna hafi verið umferð bíla í marga áratugi.  Virðist sem skipulags– og byggingarnefnd horfi til þess að árið 1993 hafi verið lögð fram umsókn til skipulagsyfirvalda um rif á skúrum sem hafi staðið á lóðinni nr. 76a við Laugaveg.  Í umsókninni segi:  „Þessi ósk kemur til vegna möguleika á innkeyrslu frá Grettisgötu og inn á lóð nr. 74a við Laugaveg.“  Þetta hafi ekki sjálfstæða merkingu því þegar þessir skúrar hafi verið í notkun hafi alltaf verið ekið að þeim frá Grettisgötu og hafi svo verið um áratuga skeið.  Skúrar þessir hafi verið í eigu þeirra er hafi rekið Kjötbúðina Borg við Laugaveg og öll aðföng verslunarinnar hafi komið um portið milli Grettisgötu 57 og 59.  Því hafi verið ekið um lóðina nr. 59 við Grettisgötu í áratugi og skipti engu hvort unnt hafi verið að aka að húsinu nr. 76a eða ekki.   Aðalatriðið sé það að alltaf hafi verið ekið um Grettisgötu 59 til að komast að Laugavegi 76b og skúrunum sem tengst hafi Laugavegi 76a.  Í framhaldi af því að sótt hafi verið um heimild til niðurrifs skúranna árið 1993 hafi byggingarnefnd samþykkt beiðni um gerð bílastæða á lóðum húsanna nr. 59 við Grettisgötu og 76a við Laugaveg.  Velta kærendur því upp hvaða merkingu það hafi að heimila gerð bílastæða á lóð sem ekki hafi aðkomu. 

Kærendur benda einnig á að þegar núverandi eigandi fasteignarinnar að Grettisgötu 59 hafi fest kaup á eigninni hafi honum verið fullljóst að aksturskvöð væri um lóðina. 

Rök fyrir aksturskvöð um lóðina að Grettisgötu 59 að húsunum að Laugavegi 76a og 76b telja kærendur vera þau helst að tryggja verði aðkomu sjúkra- og slökkviliðs.  Í kjölfar bruna við Laugaveg hafi því verið lýst yfir að gera yrði átak í að tryggja öryggi og aðkomu að bakhúsum á svæðinu.  Það sé því órökrétt að skipulags- og byggingarnefnd ætli að stuðla að því að þessi hús verði inni lokuð og að engin greið aðkoma verði tryggð að þeim. 

Verði ekki talið forsvaranlegt að setja þessa kvöð á lóðina nr. 59 við Grettisgötu sé mögulegt að úrskurðarnefndin sjái til þess að umferðarréttur verði um lóð milli Laugavegar 76 og 78 og hann gerður þannig að hægt verði að aka að eignum kærenda.  Þetta sé þó langsóttari leið og verri að mati kærenda.

Að endingu taka kærendur fram að verði ekki orðið við kröfum þeirra muni þeir hafa upp kröfur um bætur og/eða uppkaup á fasteignum þeirra, sbr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem hin kærða ákvörðun hafi í för með sér að eignir þeirra rýrni verulega í verði og nýtingarmöguleikar þeirra skerðist verulega.    

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að ótvíræður gönguréttur sé að lóðunum nr. 76, 76a og 76b við Laugaveg, sbr. afsöl, dags. 31. mars 1930 og 7. mars 1944, og merkjastefnublöð lóðarskrárritara.  Á lóðablaði lóðarskrárritara komi fram að kvöð sé á Grettisgötu 59 um göngurétt að lóð Laugavegar 76b og áfram yfir þá lóð og tengist gönguréttinum um lóðir Laugavegar 76 og Laugavegar 76a.  Þannig sé óheftur gangréttur um allar lóðirnar milli Grettisgötu og Laugavegar.  Þá sé bent á að skipulagsyfirvöld geri ekki við það athugasemd þó aðilar komi sér saman um akstursrétt.

Í ofangreindum heimildum sé talað um „umferðarrétt“.  Kvaðir sem þesssar hafi gjarnan verið settar á lóðir, m.a. vegna sorphirðu, aðfanga og flutninga, og hafi stígarnir oft verið nefndir öskustígar.

Þrátt fyrir að þrjú bílastæði séu sýnd á samþykktri teikningu af Laugavegi 76 frá árinu 1994, þá hafi sú teikning ekkert gildi gagnvart Grettisgötu 59, þar sem sótt hafi verið um breytingar vegna Laugavegar 76a.

Þrátt fyrir að ekið hafi verið í gegnum lóðina Grettisgötu 59 um áratugaskeið, líkt og kærendur haldi fram, þá sé það rangt hjá þeim að um „aksturskvöð“ sé að ræða á lóðinni. Slík kvöð hafi aldrei verið á lóðinni og verði eigandi Grettisgötu 59 þar af leiðandi ekki bundinn við óheftan akstur um lóð sína.

Því verði ekki talið, með vísan til fyrirliggjandi gagna, að í umferðarrétti lóðarhafa Laugavegar 76a og Laugavegar 76b felist heimild til aksturs bifreiða yfir lóð Grettisgötu 59 til að leggja þar bifreiðum í bílastæði.  Breyti engu þótt telja megi að gert hafi verið ráð fyrir því á sínum tíma að hægt yrði að koma bifreið inn á lóðina ef þurfa þætti, t.d. vegna flutninga eða vegna viðhalds, enda eina aðkoman að baklóðinni.

Í ljósi þessa sé niðurstaðan sú að samþykki lóðarhafa Grettisgötu 59 þurfi fyrir setningu kvaðar um akstursrétt í gegnum lóð hans.

Mótmælt sé sem órökstuddri fullyrðingu kærenda um að breytingin muni leiða til lækkunar á verði fasteigna þeirra.  Jafnframt sé tekið fram að þrátt fyrir að komist væri að þeirri niðurstöðu að breyting á skipulagi hefði í för með sér bótaskylt tjón leiði það eitt sér ekki til ógildingar skipulagsins, sbr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 9. apríl 2003 um deiliskipulag staðgreinireits 1.174.2, er tekur til hluta Grettisgötu, Vitastígs, Laugavegar og Barónstígs.  Kærendur eru eigendur fasteignanna að Laugavegi 76a og 76b. 

Eins og að framan er rakið byggir málatilbúnaður kærenda á því að hin kærða skipulagsákvörðun borgaryfirvalda feli í sér að gengið sé gegn rétti þeirra um heimild til aksturs bifreiða um lóðina nr. 59 við Grettisgötu.     

Af gögnum þeim er lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina í máli þessu má ráða að á lóðinni nr. 59 við Grettisgötu hafi, áður en hin kærða ákvörðun tók gildi, ekki verið fyrir hendi þinglýst kvöð um aðkomu að lóðunum nr. 76a og 76b við Laugaveg, hvorki fyrir gangandi vegfarendur né akandi.  Hins vegar liggur fyrir ódagsettur og óstaðfestur uppdráttur þar sem fram kemur að gönguréttur sé um lóðina.  Sýnist óumdeilt að umferð hefur verið um lóðina að Grettisgötu 59, bæði akandi og gangandi að fasteignum kærenda. 

Samkvæmt framansögðu liggur ekki fyrir með ótvíræðum hætti að umferðarréttur hafi verið til staðar um lóðina að Grettisgötu 59.  Hið kærða skipulag tryggir kærendum vissan umferðarrétt að fasteignum þeirra.  Er það því mat úrskurðarnefndarinnar að hin kærða skipulagsákvörðun raski ekki hagsmunum kærenda og verður því kröfu þeirra um ógildingu hafnað. 

Ekki verður heldur tekið undir sjónarmið kærenda þess efnis að hugsanleg verðrýrnun á eignum þeirra vegna skipulagsbreytingarinnar eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Slík verðrýrnun gæti aftur á móti leitt til þess að þeir öðlist rétt til skaðabóta samkvæmt ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en um þann bótarétt fjallar úrskurðarnefndin ekki.
 
Framsetningu hins kærða deiliskipulags er þannig háttað að á uppdrætti þess segir að nánari markmið og forsendur deiliskipulagsins komi fram í heftinu „Miðborgarsvæði Reykjavíkur.  Greinargerð og deiliskipulagsskilmálar fyrir staðgreinireit 1.174.2“.  Á uppdrætti deiliskipulagsins er í engu getið um landnotkun en það er gert í fyrrgreindu hefti, nánar tiltekið í 1. kafla greinargerðar/skilmálum þess.  Kemur þar fram að innan svæðisins sé heimil sú notkun sem samræmist reglum þar um samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 með síðari breytingum.  Áfram segir síðan:  „Í því sambandi er rétt að minna á að sérstakar takmarkanir gilda um starfsemi á nokkrum götuhliðum jarðhæða innan miðborgarinnar (sjá kort nr. 2 hér að neðan yfir skilgreind götusvæði og reglur um útreikning götusvæða, fskj. 2).  Reglur um málsmeðferð vegna þessa eru fylgiskjal með skilmálum þessum (sjá fskj. nr. 1).“  Kort nr. 2, sem vitnað er til hér að ofan, ber heitið „Skilgreind götusvæði“ og kemur þar fram að svæðinu austan Ægisgötu og vestan Snorrabrautar er skipt í miðborgarkjarna, aðalverslunarsvæði og hliðarverslunarsvæði.  Kort þetta er án mælikvarða og í svart/hvítu. 

Í gr. 5.4.2 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 segir að á skipulagsuppdrætti deiliskipulags skuli setja fram þá stefnu sem kynnt sé og í skipulagsgreinargerð fyrir skipulagssvæðið og bundin í þeim skipulagsskilmálum sem þar eru settir fram.  Þá skuli skipulagsskilmálar deiliskipulags, eftir því sem svæðið gefi tilefni til, koma fram á skipulagsuppdrætti og kveða m.a. á um landnotkun, lóðastærðir, umferðarsvæði og byggingarreiti.  Ennfremur segir að skipulagsskilmálar skuli einnig kveða á um önnur atriði en ofangreind eftir aðstæðum hverju sinni, s.s. þrengri skilgreiningu landnotkunar á einstökum reitum, lóðum, byggingum eða byggingarhlutum.  

Telja verður að framsetning deiliskipulagsuppdráttar hinnar kærðu ákvörðunar hvað landnotkun varðar sé ekki að fullu í samræmi við fyrrgreint ákvæði skipulagsreglugerðar, og efnisinnihald þeirra skjala sem vitnað er til og eiga að ákvarða landnotkun svæðisins er um sumt ruglingslegt og óskýrt.  Þegar litið er til þess að á umræddu skipulagssvæði er fyrir gróin byggð með mótaða landnotkun og að einstakir fasteignareigendur leiða rétt af hinu kærða skipulagi þykir ekki alveg nægjanleg ástæða til að ógilda deiliskipulagið þrátt fyrir framangreinda ágalla á framsetningu og skýrleika þess. 

Það athugist að á hinum samþykkta skipulagsuppdrætti segir að um sé að ræða breytingu á deiliskipulagi og hið sama kemur einnig fram í auglýsingu um gildistöku þess í Stjórnartíðindum, þrátt fyrir að ekkert eldra deiliskipulag af svæðinu liggi fyrir. 

Að öllu framanrituðu virtu verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. 

Krafa kærenda um að þeim verði heimilað að aka bifreiðum milli húsanna að Laugavegi 76 og 78 að húsum felur í sér kröfu um að úrskurðarnefndin breyti hinu kærða deiliskipulagi.  Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er úrskurðarnefndinni falið vald til að meta lögmæti kærðra ákvarðana en ekki að breyta þeim.  Það vald er falið sveitarstjórnum.  Er kröfu þessari því vísað frá úrskurðarnefndinni.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar ásamt tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 9. apríl 2003 um að samþykkja deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.174.2 er tekur til svæðis innan hluta Laugavegar, Vitastígs, Grettisgötu og Barónstígs. 

Kröfu kærenda um breytingu á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                          Geirharður Þorsteinsson