Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

38/2004 Akranes

Ár 2006, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Sigurður Erlingsson verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2004, kæra á breyttu deiliskipulagi miðbæjarreits á Akranesi frá 11. maí 2004.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er barst nefndinni hinn 29. júní 2004, kæra R og J, bæði til heimilis að Dalbraut 21, Akranesi þá ákvörðun bæjarstjórnar Akraness frá 11. maí 2004 að breyta deiliskipulagi miðbæjarreits á Akranesi. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og málsrök aðila:  Á fundi bæjarstjórnar Akraness hinn 11. maí 2004 voru samþykktar breytingar á deiliskipulagi svokallaðs miðbæjarreits á Akranesi. Fól hin breytta skipulagsákvörðun m.a. í sér að á svæðinu, þar sem áður hafði eingöngu verið gert ráð fyrir verslun og þjónustu, var nú einnig gert ráð fyrir íbúðarbyggð.  Var þannig gert ráð fyrir samtals fjórum lóðum, tveimur fyrir 10 hæða íbúðarhús, lóð fyrir verslunarmiðstöð og lóð verslunarinnar Skagavers. 

Tillaga að breyttu deiliskipulagi var auglýst frá 28. janúar 2004 til 28. febrúar 2004 og var frestur til að skila athugasemdum til 12. mars sama ár.  Margar athugasemdir komu fram vegna tillögunnar, m.a. frá kærendum.  Á fundi bæjarstjórnar Akraness hinn 11. maí 2004 voru breytingar á deiliskipulaginu samþykktar og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. júlí 2004. 

Á fundi bæjarstjórnar Akraness hinn 12. apríl 2005 var á ný samþykkt breyting á deiliskipulagi miðbæjarreits sem fól í sér breytta staðsetningu beggja  íbúðarhúsanna sem fyrirhugað var að reisa á reitnum, auk breytinga á fyrirkomulagi bílastæða og bílageymslu.  Þá var og gerð breyting á byggingarreit verslunarmiðstöðvarinnar hvað varðar lögun hans og staðsetningu.  Birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 12. maí 2005.  Hefur þeirri deiliskipulagsákvörðun bæjaryfirvalda á Akranesi ekki verið skotið til úrskurðarnefndarinnar.

Eins og að framan greinir gera kærendur þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.  Vísa þau m.a. til þess að breytingin geri ráð fyrir mannvirkjum sem séu í engu samræmi við umhverfi sitt, bæjaryfirvöld hafi ekki tekið afstöðu til mótmæla sem sett hafi verið fram þegar tillaga að breytingunni hafi verið auglýst ásamt því að óupplýst sé um skuggavarp bygginga þeirra er rísa muni á svæðinu. 

Af hálfu Akraness er þess krafist að kærunni verði vísað frá sökum þess að hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun hafi verið breytt.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið liggur fyrir að bæjarstjórn Akraness hefur með samþykkt sinni hinn 12. apríl 2005 breytt hinni kærðu ákvörðun í grundvallaratriðum og hefur af þeim sökum ekki lengur þýðingu að fjalla um lögmæti hennar.  Eiga kærendur hér eftir ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá efnisúrlausn í kærumáli þessu svo sem áskilið er í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessi er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

   _____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

____________________________                               ___________________________  
         Ásgeir Magnússon                                                         Sigurður Erlingsson