Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

28/2006 Strandgata

Ár 2006, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Sigurður Erlingsson verkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 28/2006, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá  14. desember 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir nýju húsi að Strandgötu 39, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. apríl 2006, er barst nefndinni sama dag, kæra F, R og A, eigendur húsnæðis að Mjósundi 1 og Strandgötu 37 og 37b,  þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 14. desember 2005 að veita byggingarleyfi fyrir nýju húsi að Strandgötu 39 í Hafnarfirði.  Bæjarstjórn Hafnarfjarðar staðfesti þá ákvörðun hinn 10. janúar 2006. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar.  Jafnframt krefjast þeir að skemmdir sem orðið hafi á fasteignum þeirra verði bættar.

Málsatvik:  Hinn 29. september 2005 sótti lóðarhafi að Strandgötu 39 í Hafnarfirði um leyfi til að byggja fjöleignarhús undir atvinnustarfsemi á nefndri lóð og var byggingarleyfi samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 14. desember 2005.  Hinn 8. mars 2006 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi umsókn lóðarhafa um niðurrif húss þess sem fyrir var á lóðinni að Strandgötu 39. 

Til stuðnings kröfum sínum hafa kærendur bent á að umdeilt byggingarleyfi brjóti í bága við gildandi deiliskipulag og muni fyrirhuguð nýbygging rísa að hluta inni á lóð Mjósunds 1 og svalir komi til með að snúa að lóðum nr. 37 og 37b við Strandgötu og skerða þar með nýtingarmöguleika þeirra lóða og rýra verðgildi fasteigna kærenda.  Framkvæmdir á lóðinni að Strandgötu 39, sem kærendum hafi ekki verið gert aðvart um, hafi valdið þeim verulegu tjóni.  Það stór sjái á lóðinni að Mjósundi 1 og steyptur jarðvegsburðarveggur milli lóðanna að Mjósundi 1 og Strandgötu 37b hafi hrunið ásamt loftnetsstaur og tengingum sem á honum voru.  Grindverk Mjósunds 1 við lóðarmörk Strandgötu 41 sé meira og minna brotið auk þess sem þvottasnúrur hafi verið rifnar niður og rabarbaragarður í horni lóðarinnar sé á bak og burt.  Lóðin að Strandgötu 37b sé stórskemmd og steyptur bílskúrsveggur að Strandgötu 37 hruninn að hluta ásamt steyptum skjólvegg við verönd og sprungur hafi myndast í veggjum  íbúða. 

Af hálfu bæjaryfirvalda í Hafnarfirði hefur verið upplýst að samkomulag hafi náðst við lóðarhafa að Strandgötu 39 um að leiðrétta teikningar í samræmi við nýtt mæliblað og umdeilt byggingarleyfi verði afturkallað.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að hið kærða leyfi fyrir nýbyggingu að Strandgötu 39 var afturkallað á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar hinn 26. apríl 2006 með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og var sú ákvörðun staðfest í bæjarstjórn hinn 16. maí sl.

Eins og málum er komið verður ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar eða til kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda enda hefur ákvörðunin ekki lengur réttarverkan að lögum.  Þá verður ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um bætur vegna umdeildra framkvæmda en slík álitaefni falla utan verksviðs úrskurðarnefndarinnar.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________  
     Hjalti Steinþórsson         

 

 ____________________________         ______________________________
  Ásgeir Magnússon                                       Sigurður Erlingsson