Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

60/2005 Garðastræti

Ár 2006, miðvikudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 60/2005, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 6. júlí 2005 um breytingu á deiliskipulagi vegna sendiráðslóðar að Garðastræti 33 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. júlí 2005, er barst nefndinni hinn 5. ágúst s.á., kæra I, G, R, T, M, R og G, íbúar að Túngötu 3 í Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 6. júlí 2005 að breyta deiliskipulagi vegna lóðar sendiráðs Rússneska sambandsríkisins að Garðastræti 33, Reykjavík, sem fól í sér heimild til byggingarframkvæmda á lóð sendiráðsins.  Borgarráð staðfesti ákvörðunina hinn 7. júlí 2005 og var auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 22. júlí s.á.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur 22. desember 2004 var lögð fram tillaga skipulagsfulltrúa að breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 33 við Garðastræti og var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Túngötu 3 og 5 og Suðurgötu 4, 6, 8 og 8A.  Við grenndarkynninguna komu fram athugasemdir vegna fyrirhugaðra byggingaráforma, m.a. frá kærendum.  Skipulagsráð hafnaði skipulagstillögunni á fundi sínum hinn 2. febrúar 2005 með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa og fól honum ásamt byggingarfulltrúa að funda með lóðarhafa til að leita annarra lausna með liðsinni utanríkisráðuneytis.  Ný skipulagstillaga var síðan lögð fram og samþykkti skipulagsráð hinn 25. maí 2005 að grenndarkynna hana fyrir hagsmunaaðilum og var tillögunni andmælt af hálfu kærenda.  Á fundi skipulagsráðs hinn 6. júlí 2005 var málið tekið fyrir á ný og deiliskipulagsbreytingin samþykkt.

Kærendur mótmæla stærð, staðsetningu og fyrirhugaðri notkun nýbyggingar sem heimiluð sé með hinni kærðu ákvörðun.  Kærendur telja að brotinn sé réttur á þeim með undirlægjuhætti við erlent ríki.  Benda þeir á að framkvæmdir haldi áfram á umræddri lóð þrátt fyrir að byggingarleyfi hafi ekki enn verið veitt.  Spurning vakni um hvort farið verði að íslenskum byggingarreglugerðum og ekki sé vitað til að útlitsteikning liggi fyrir af byggingunni.  Óviðunandi sé að reist verði sprengjuhelt pósthús við lóðarmörk þeirra og sendiráðslóðarinnar.  Heimiluð bygging muni leggja garð kærenda í rúst og eyðileggja nýtingu hans.  Útsýni muni skerðast úr garðinum og verðmæti fasteignar þeirra rýrna.  Bent sé á að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Garðastræti 33 verði 0,91 eftir umdeilda breytingu og sé það í ósamræmi við sambærilegar lóðir við Garðastræti.  Nýbygging rússneska sendiráðsins, 400 fermetrar að stærð, sé inni í miðjum garði upp í lóðamörkum þess og Túngötu 3 en þar hafi ekki ekki verið gert ráð fyrir nýbyggingum í deiliskipulagi svæðisins sem staðfest hafi verið af umhverfisráðuneytinu 30. júní 1993. 

Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til reglna úrlendisréttarins.  Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, sem handhafi framkvæmdavalds, hafi ekki lögsögu um rétt og skyldur sendiráða, en óumdeilt sé að hin umdeilda breyting á deiliskipulagi sé alfarið innan marka lóðar sendiráðs Rússneska sambandsríkisins.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland sé aðili að, sbr. 1. gr. l. nr. 16/1971, njóti sendiráðssvæðið friðhelgi.  Samkvæmt 41. gr. umrædds samnings sé það hins vegar skylda allra þeirra, sem njóti forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi.  Ágreiningur varðandi umdeildar framkvæmdir verði því aðeins til lykta leiddur á sviði þjóðarréttarins. 

Niðurstaða:  Hið umdeilda deiliskipulag varðar lóðina að Garðastræti 33 þar sem sendiráð Rússneska sambandsríkisins er til húsa.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem öðlast hefur lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, nýtur sendiráðssvæðið friðhelgi en í því felst að svæðið er utan dóms- og framkvæmdavaldslögsögu íslenska ríkisins.  Samkvæmt 41. gr. er það hins vegar skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi.  Í samræmi við þessa skyldu var hlutast til um að breyting yrði gerð á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 33 við Garðastræti og var fallist á það af borgaryfirvöldum.  Er það sú stjórnvaldsákvörðun sem kærð var til úrskurðarnefndarinnar í máli þessu. 

Af 22. og 31. gr. áðurgreinds þjóðréttarsamnings, hefur úrskurðarnefndin ekki, sem handhafi stórnsýsluvalds, lögsögu um rétt eða skyldur sendiráðs Rússneska sambandsríkisins í máli þessu og yrði úrskurði er varðaði sendiráðssvæðið ekki framfylgt að íslenskum lögum.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
                          Hjalti Steinþórsson                                 

 

____________________________         ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Aðalheiður Jóhannsdóttir