Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

82/2005 Vesturgata

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 17. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 82/2005, kæra eiganda fasteignarinnar að Vesturgötu 4, Hafnarfirði á ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 19. október 2005 um að veita leyfi til niðurrifs bensínstöðvar ásamt tilheyrandi mannvirkjum á lóðinni að Vesturgötu 1, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. október 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir S, eigandi fasteignarinnar að Vesturgötu 4, Hafnarfirði þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 19. október 2005 að veita leyfi til niðurrifs bensínstöðvar ásamt tilheyrandi mannvirkjum á lóðinni að Vesturgötu 1, Hafnarfirði.  Bæjarstjórn staðfesti nefnda ákvörðun hinn 8. nóvember 2005.  Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og heimilaðar framkvæmdir verði stöðvaðar þar til efnisniðurstaða liggi fyrir í málinu.

Byggingarleyfishafa og bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði var gefinn kostur á að tjá sig um framkomna stöðvunarkröfu og hafa úrskurðarnefndinni borist athugasemdir af þeirra hálfu.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að tekin verði endanleg afstaða til þess og er því ekki tilefni til að fjalla um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.

Málavextir:  Hinn 26. janúar 2005 birtist í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing um gildistöku á breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015.  Fólst breytingin í því að meginhluta hafnarsvæðis á Norðurbakka í Hafnarfirði var breytt í íbúðarsvæði en svæði næst miðbæ var breytt í blandað íbúðar- og miðsvæði.  Bryggja og hafnarkantur í suðurjaðri svæðisins voru áfram skilgreind sem hafnarsvæði.  Miðsvæði norðan Vesturgötu og vestan Merkurgötu var breytt í íbúðarsvæði en miðsvæði sunnan Vesturgötu og vestan Fjarðargötu var breytt í blandað íbúðar- og miðsvæði.  Samkvæmt auglýsingunni hlaut aðalskipulagsbreytingin samþykki bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og afgreiðslu Skipulagsstofnunar.  Umhverfisráðherra staðfesti breytinguna hinn 24. janúar 2005.  Lóðin að Vesturgötu 1 er á því svæði sem aðalskipulagsbreytingin tekur til.

Hinn 8. febrúar 2005 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar nýtt deiliskipulag fyrir Norðurbakka er fól í sér breytingu á landnotkun úr hafnarsvæði í íbúðarsvæði með þjónustu- og stofnanalóð og tiltók með hvaða hætti uppbyggingu svæðisins skyldi háttað.  Tók skipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. maí 2005.

Á kynningartíma deiliskipulagsins gerði kærandi athugasemdir við fyrirhugaða íbúðarbyggð á svæðinu og taldi hana fara of nærri fasteign hans þar sem fram færi veitingastarfsemi sem færi alls ekki saman við fyrirhugaðar íbúðarblokkir í næsta nágrenni.

Með bréfi, dags. 21. mars 2005, skaut kærandi ákvörðun um fyrirhugaðar framkvæmdir til úrskurðarnefndarinnar og krafðist þess að allar framkvæmdir yrðu stöðvaðar og öll byggingarleyfi felld úr gildi.  Voru sömu sjónarmið tíunduð til stuðnings kröfunni og sett höfðu verið fram af kæranda við kynningu deiliskipulagsins, en til viðbótar bent á að öll bílastæði við veitingastað hans ættu að víkja samkvæmt skipulaginu.  Taldi hann jafnframt ýmsa ágalla hafa verið á málsmeðferð skipulagstillögunnar.  Er sú kæra til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Framkvæmdir hafa staðið yfir við niðurrif mannvirkja á skipulagssvæðinu sem fyrirhugað er að byggja upp í samræmi við breytt skipulag og er í máli þessu tekist á um lögmæti byggingarleyfis er heimilar niðurrif bensínstöðvar og tilheyrandi mannvirkja á lóðinni að Vesturgötu 1 svo sem að framan greinir.

Málsrök aðila:  Kærandi bendir á að umdeild framkvæmd hafi ekki verið grenndarkynnt og hann ekki átt þess kost að koma sjónarmiðum sínum að þótt hann eigi beinna hagsmuna að gæta og athugasemdum hans við fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu hafi ekki verið svarað af Hafnarfjarðarbæ.  Við ákvarðanatöku um framkvæmdir á skipulagssvæðinu hafi því verið farið gegn ýmsum ákvæðum stjórnsýslulaga.  Þá skírskotar kærandi til þess að hann telji nýsett deiliskipulag á svæðinu ógilt og sé kæra hans vegna skipulagsins til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Reynist skipulagið ólögmætt sé brostin forsenda fyrir hinu kærða byggingarleyfi.

Byggingarleyfishafi mótmælir kröfu kæranda og bendir á að umdeildar framkvæmdir við niðurrif séu í skjóli gilds byggingarleyfis.  Aðdragandi þess og útgáfa sé ekki á ábyrgð eða verksviði hans og verði framkvæmdir stöðvaðar áskilji byggingarleyfishafi sér rétt til skaðabóta.

Hafnarfjarðarbær bendir á að hið kærða byggingarleyfi eigi stoð í gildandi aðal- og deiliskipulagi svæðisins sem ekki hafi verið hnekkt.  Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hafi samþykkt niðurrif umræddra mannvirkja fyrir sitt leyti og séu ekki rök til þess að fallast á kröfu kæranda í máli þessu.

Niðurstaða:  Umþrætt byggingarleyfi heimilar niðurrif bensínstöðvar og mannvirkja er henni tengjast á lóðinni að Vesturgötu 1 í Hafnarfirði sem byggingarleyfishafi hefur átt og rekið fram til þessa.

Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geta þeir einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. 

Aðild þriðja aðila að kæru vegna veitts byggingarleyfis getur einkum komið til vegna einstaklegra grenndarhagsmuna og/eða fjárhagslegra hagsmuna.  Mannvirkjagerð getur raskað hagsmunum nágranna, svo sem vegna skuggavarps, skerts útsýnis, umferðar o.fl. og getur rýrt verðgildi grannaeigna.  Hins vegar hlýtur það að heyra til undantekninga að niðurrif mannvirkis raski hagsmunum nágranna með þeim hætti að þeir teljist eiga kæruaðild að þeirri stjórnsýsluákvörðun.

Ekki liggur fyrir að niðurrif fyrrgreindrar bensínstöðvar snerti einstaklega og lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að hann eigi aðild að kæru vegna hins umþrætta byggingarleyfis og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
 Hjalti Steinþórsson

 
_____________________________                  ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon

76/2005 Hamrahlíð

Með

Ár 2005, föstudaginn 4. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússson héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2005, kæra fjögurra íbúa og eigenda fasteigna við Stigahlíð í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. október 2005 um að veita leyfi til þess að byggja tveggja hæða steinsteypta viðbyggingu við austurhlið Menntaskólans við Hamrahlíð fyrir íþróttir ásamt ellefu kennslustofum og bókasafni.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. október 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir Hróbjartur Jónatansson hrl., f.h. Ó, Stigahlíð 50, Ó og Þ, Stigahlíð 56 og H, Stigahlíð 60, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita leyfi til þess að byggja tveggja hæða steinsteypta viðbyggingu við austurhlið Menntaskólans við Hamrahlíð fyrir íþróttir ásamt ellefu kennslustofum og bókasafni.  Krefjast kærendur þess í kærunni að framkvæmdir verði stöðvaðar en jafnframt hefur lögmaður þeirra áréttað í bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. október 2005, að einnig sé gerð krafa um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Málsatvik og rök:  Málsatvik og málsrök aðila verða hér aðeins rakin stuttlega og að því marki sem nauðsynlegt þykir við úrlausn til bráðabirgða um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  

Mál þetta á sér þann aðdraganda að í ársbyrjun 2005 var auglýst tillaga að deiliskipulagi lóðar Menntaskólans við Hamrahlíð.  Bárust fjölmargar athugasemdir við tillöguna þar á meðal frá kærendum.  Var m.a. bent á að við sölu lóða við Stigahlíð hefði kaupendum verið kynnt deiliskipulag skólalóðarinnar, þar sem gert hefði verið ráð fyrir byggingum sunnan við núverandi skólahús.  Í ljósi þessara athugasemda munu borgaryfirvöld hafa látið fara yfir skipulagsmál lóðarinnar og kemur fram í umsögn borgaryfirvalda í máli þessu að þá hafi fundist nýrra deiliskipulag, frá árinu 1990, sem gert hafi ráð fyrir viðbyggingum austan við skólahúsið.  Í ljósi þessara nýju upplýsinga var ákveðið að auglýsa tillögu að breytingu á eldra deiliskipulagi.  Bárust enn athugasemdir frá nágrönnum.  Einhverjar breytingar munu hafa verið gerðar á tillögunni með hliðsjón af athugasemdum þeirra og var m.a. dregið úr skuggavarpi yfir á grannlóðir.  Var tillagan þannig breytt samþykkt í skipulagsráði og var sú ákvörðun staðfest á fundi borgarráðs Reykjavíkur 7. júlí 2005.  Birtist auglýsing um gildistöku hins breytta deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda þann 29. ágúst 2005.  Skutu kærendur ákvörðun borgaryfirvalda um skipulagið til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 10. ágúst 2005, og er það mál til meðferðar hjá nefndinni. 

Hinn 22. september 2005 veitti byggingarfulltrúinn í Reykjavík takmarkað byggingarleyfi til að vinna jarðvinnu á lóðinni nr. 10 við Hamrahlíð og skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 29. september 2005.  Hefur úrskurðarnefndin, með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag, vísað því máli frá með þeim rökum að ekki hafi verið um fullnaðarákvörðun að ræða er sætt gæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Byggingarleyfi það sem um er deilt í máli þessu var sem fyrr greinir gefið út af byggingarfulltrúanum í Reykjavík hinn 11. október 2005 og staðfest í borgarráði 13. sama mánaðar.  Telja kærendur að útgáfa téðs byggingarleyfis fari alfarið í bága við þá stöðu sem nú sé uppi vegna ágreinings um lögmæti deiliskipulags þess sem Reykjavíkurborg sé að reyna að knýja fram í mikilli óþökk kærenda, sem keypt hafi eignalóðir af borginni árið 1984 og goldið fyrir hátt verð á þeim forsendum að þágildandi skipulag myndi standa óbreytt.  Augljóst sé að fái byggingarleyfishafinn að hefja framkvæmdir samkvæmt áformum hins ólögmæta deiliskipulags á meðan ágreiningurinn sé til meðferðar í úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála muni það leiða til þess að hann knýji fram niðurstöðu sér í hag á þeim grundvelli að ekki verði hróflað við framkvæmdum sem þegar hafi risið á lóðinni.  Slík aðstaða sé algerlega óviðunandi og gangi gegn meginreglum stjórnsýslulaga, sem og skipulags- og byggingarlaga, enda við það miðað að ekki verði ráðist í byggingarframkvæmdir nema ótvíræður lagagrunnur sé til staðar fyrir þeim.  Svo sé hins vegar ekki, enda telji kærendur að ógilda beri skipulagsákvörðun þá sem byggingarleyfið styðjist við, þar sem henni sé stórlega áfátt bæði að formi og efni og gangi í berhögg við lögvarin eignarréttindi kærenda.  Bíði það mál úrlausnar hjá úrskurðarnefndinni.

Af hálfu kærenda sé lögð á það áhersla að fasteignaréttindi þeirra grundvallist ekki á hefðbundnum leigulóðarréttindum, heldur sé um að ræða eignarlóðir sem geri réttarstöðu þeirra aðra en ella, sem m.a. lúti að þeim skuldbindingum sem Reykjavíkurborg hafi tekist á hendur gagnvart kærendum í samningum um kaupin á téðum lóðum.  Að öðru leyti sé vísað til sjónarmiða í máli kærenda um skipulagsákvörðun borgarinnar, sem sé undanfari máls þessa.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er mótmælt kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Telja borgaryfirvöld að ekki hafi verið sýnt fram á að form eða efnisgallar hafi verið á skipulagsákvörðun þeirri sem fyrirhugaðar framkvæmdir að Hamrahlíð 10 styðjist við og hafi hið kærða byggingarleyfi verið veitt í samræmi við skipulag og umsókn um byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni.  Endanlegum frágangi leyfa samkvæmt 44. gr. skipulags- og byggingarlaga sé og lokið.

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda mótmælt og vísað til þess að framkvæmdir eigi sér stoð í leyfi þar til bærs stjórnvalds.

Niðurstaða:  Sú meginregla gildir að stjórnsýslurétti að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en í 2. mgr. tilvitnaðrar lagagreinar er kveðið á um að æðra stjórnvaldi sé þó heimilt að fresta réttaráhrifum ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæli með því.  Sérregla er í 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem segir að kærandi geti krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi.

Skýra verður ákvæði 6. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 um stöðvun framkvæmda þröngt með vísan til þess að í ákvæðinu felst undantekning frá meginreglu og með hliðsjón af því að með stöðvun framkvæmda er gripið inn í rétt leyfishafa samkvæmt stjórnvaldsleyfi sem ekki hefur verið hnekkt.  Verður almennt að beita umræddu réttarúrræði af varfærni.  Kemur helst til álita að beita því þegar sýnt þykir að frekari framkvæmdir muni raska réttarstöðu aðila kærumálsins. 

Í máli því sem hér um ræðir eru framkvæmdir við fyrri áfanga samkvæmt umdeildu skipulagi nýlega hafnar og tiltölulega skammt á veg komnar.  Á hinn bóginn er meðferð kærumálsins langt komið og er úrskurðar um gildi hinnar umdeildu skipulagsákvörðunar að vænta áður en langt um líður.  Þykja ekki, eins og atvikum er hér háttað, efni til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sem hafnar eru að Hamrahlíð 10 í Reykjavík.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á lóð Menntaskólans í Hamrahlíð að Hamrahlíð 10 í Reykjavík.

 

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________                      _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                 Ásgeir Magnússon

 

6/2002 Langholtsvegur

Með

Ár 2005, föstudaginn 4. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 6/2002, kæra 12 íbúa við Sigluvog í Reykjavík á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 5. febrúar 2002 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi og aðalskipulagi vegna Langholtsvegar 109-115, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. mars 2002, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kæra M, Sigluvogi 6, G, Sigluvogi 8, M, M og H, Sigluvogi 10, J, V og E, Sigluvogi 12, G, Sigluvogi 14 og R, H og J, Sigluvogi 16, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 5. febrúar 2002 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi og aðalskipulagi vegna Langholtsvegar 109-115, Reykjavík.

Gera kærendur þær kröfur að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en ella breytt til samræmis við framkomnar athugasemdir og að framkvæmdir verði stöðvaðar þar til efnisniðurstaða liggi fyrir í málinu.

Málsatvik og rök:  Hinn 10. janúar 2001 barst Borgarskipulagi fyrirspurn um hvort breyta mætti notkun lóðarinnar að Langholtsvegi 115 í íbúðarbyggð en fyrir var á lóðinni skrifstofu- og þjónustustarfsemi.  Var fyrirspurninni svarað á þá leið að ekki væri lagst gegn því að breyta notkun lóðarinnar úr athafnasvæði í íbúðasvæði með nýtingarhlutfalli allt að 0,7.  Eftir að tillögur frá fyrirspyrjanda höfðu borist um uppbyggingu svæðisins samþykkti skipulags- og byggingarnefnd að unnin yrði skipulagstillaga með hliðsjón af framlögðum tillögum.

Hinn 22. ágúst 2001 var hagsmunaaðilum sent bréf þar sem tilkynnt var að skipulags- og byggingarnefnd hefði samþykkt að hefja vinnu að deiliskipulagi svæðisins og var þeim gefinn kostur á að koma á framfæri ábendingum eða athugasemdum, sem nýst gætu við mótun skipulagsins.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar, 24. október 2001, var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir umræddan skipulagsreit og breytingu á aðalskipulagi í samræmi við hana og samþykkti borgarráð erindið á fundi sínum hinn 30. október það ár.

Með bréfi, dags. 2. nóvember 2001, var óskað eftir heimild Skipulagsstofnunar til auglýsingar á tillögunni í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga nr. 73/1997 vegna fyrirhugaðrar aðalskipulagsbreytingar og gerði stofnunin ekki athugasemd við að tillagan yrði auglýst til kynningar.

Tillaga að breyttu deiliskipulagi svæðisins var í auglýsingu frá 21. nóvember til 19. desember 2001 með athugasemdafresti til 4. janúar 2002.  Sex athugasemdabréf bárust frá nágrönnum og voru þau kynnt fyrir skipulags- og byggingarnefnd á fundi hinn 18. janúar 2002 auk þess sem skuggavarp vegna fyrirhugaðra mannvirkja var kynnt.  Umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdirnar var síðan lögð fram á fundi nefndarinnar hinn 30. janúar 2002 og var auglýst tillaga að deiliskipulagi og breyting á aðalskipulagi samþykkt með þeim breytingum sem lagðar voru til í umsögninni og fram koma á uppfærðum deiliskipulagsuppdrætti.  Borgarráð samþykkti afgreiðsluna á fundi sínum hinn 5. febrúar 2002. Þeim sem gert höfðu athugasemdir var tilkynnt um afgreiðsluna og leiðbeint um kærurétt með bréfi, dags. 7. febrúar 2002.  Hinn 20. febrúar s.á. staðfesti umhverfisráðherra nefnda breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur.  Aðalskipulagsbreytingin öðlaðist síðan gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. mars 2002.

Skipulagsstofnun tilkynnti síðan í bréfi, dags. 12. mars 2002, að stofnunin gerði ekki athugasemd við að auglýsing um gildistöku deiliskipulags yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda en auglýsing þess efnis var þó ekki birt í Stjórnartíðindum.

Kærendur skutu síðan aðal- og deiliskipulagsbreytingunni til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir.

Með bréfi, dags. 14. febrúar 2004, lagði forstöðumaður lögfræði og stjórnsýslu Skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar það til við skipulags- og byggingarnefnd að nefndin afturkallaði samþykki sitt á deiliskipulagstillögunni frá 30. janúar 2002 og samþykkti hana að nýju með vísan til 2. tl. 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Var lagt til að þeim sem hefðu andmælt tillögunni á sínum tíma yrði tilkynnt um afturköllun fyrri ákvörðunar og um hina nýju samþykkt og þeim leiðbeint um kærufrest að nýju. Tilgreind ástæða þessarar málsmeðferðar var sú að líklegt þótti að úrskurðarnefndin felldi deilskipulagið úr gildi í ljósi úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 13/2002, dags. 13. mars 2003, en þar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að þótt heimilt væri að auglýsa samhliða breytingu á aðal- og deiliskipulagi mætti ekki samþykkja deiliskipulag sem fengið hefði slíka meðferð fyrr enn að umhverfisráðherra hefði staðfest aðalskipulagsbreytinguna.  Skipulags- og byggingarnefnd afturkallaði samþykkt sína um deiliskipulagið frá 30. janúar 2002 og samþykkti deiliskipulagstillöguna að nýju á fundi sínum hinn 18. febrúar 2004. Borgarráð samþykkti þá afgreiðslu á fundi sínum hinn 25. febrúar 2004.  Ekki verður séð að skipulagsákvörðunin hafi eftir þetta fengið lögboðna afgreiðslu Skipulagsstofnunar eða verði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Úrskurðarnefndinni bárust loks gögn og umsögn borgaryfirvalda í hendur hinn 28. september 2005.

Kærendur styðja kröfur sínar þeim rökum að málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar hafi verið áfátt.  Framkomnum athugasemdum við kynningu tillögunnar hafi lítt eða ekki verið svarað, nýtingarhlutfalls lóðarinnar að Drekavogi 4 sé ekki getið í skipulaginu, skipulagssvæðið fari inn á lóð að Sigluvogi 10, uppdráttur beri ekki með sér hvenær skipulagstillagan hafi verið til kynningar og ekkert liggi fyrir um hvenær skipulagið hafi verið auglýst í Stjórnartíðindum.  Þá er á því byggt að fyrirhugaðar byggingar verði stærri og nýtingarhlutfall hærra en fyrir sé í hverfinu og muni byggingarnar valda skuggavarpi, skerða útsýni og með því rýra verðgildi nágrannafasteigna.

Borgaryfirvöld hafa krafist þess að fyrirliggjandi kæru á breytingu á deiliskipulagi og aðalskipulagi verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Krafa um frávísun sé studd þeim rökum að hin kærða skipulagsákvörðun hafi verið felld úr gildi og séu því ekki forsendur til þess að úrskurðarnefndin felli hana einnig úr gildi.  Vekja beri athygli á, að þrátt fyrir að skipulags- og byggingarnefnd hafi samþykkt tillöguna að nýju hinn 18. febrúar 2004 og borgarráð 24. febrúar s.á., hafi deiliskipulagið aldrei hlotið gildi þar sem það hafi aldrei verið sent Skipulagsstofnun til skoðunar auk þess sem gildistaka þess hafi ekki verið auglýst.  Beri því að líta á fyrrgreindar samþykktir Reykjavíkurborgar sem markleysu að lögum og vísa fyrrnefndum kærum frá með vísan til ofangreinds.

Niðurstaða:  Hin kærða aðalskipulagsbreyting fól í sér að landnotkun lóðarinnar að Langholtsvegi 115 var breytt úr athafnasvæði í íbúðarsvæði en með umdeildri deiliskipulagstillögu var heimiluð stækkun húsa og nýbyggingar.  Var lóðinni að Langholtsvegi 115 skipt upp og meginhluti hennar gerður að lóð við Drekavog.

Í 19. grein laga nr. 73/1997 segir að aðalskipulag, eða breyting á því, sé háð staðfestingu ráðherra og taki gildi þegar staðfestingin hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Af þessu leiðir að það er á valdsviði ráðherra að taka stjórnvaldsákvörðun um staðfestingu aðalskipulags, eða breytingar á því, en í þeirri ákvörðun felst að ráðherra tekur afstöðu til lögmætis aðalskipulagsins eða breytingarinnar, bæði hvað varðar form og efni.

Ákvörðun ráðherra um staðfestingu aðalskipulags, eða breytingu á því, er lokaákvörðun æðra stjórnvalds og verður hún, að mati úrskurðarnefndar, einungis borin undir dómstóla en ekki skotið til hliðsetts stjórnvalds.  Því brestur úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála vald til þess að taka slíkar ákvarðanir ráðherra til endurskoðunar.  Verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar um breytingu á aðalskipulagi því vísað frá nefndinni.

Fyrir liggur að umþrætt deiliskipulagstillaga, er borgarráð Reykjavíkur samþykkti hinn 5. febrúar 2002, öðlaðist ekki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við lokamálsgrein 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hin kærða ákvörðun borgarráðs um deiliskipulagsbreytinguna fól því ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, og styðst sú ályktun ennfremur við 2. mgr. 27. gr. laganna sem kveður á um að upphaf kærufrests sé við opinbera birtingu ákvörðunar, þar sem slík birting er lögmælt.  Verður þeim þætti málsins er varðar umþrætta breytingu á deiliskipulagi því einnig vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist úr hömlu. Valda því miklar annir og málafjöldi hjá úrskurðarnefndinni og óhæfilegur dráttur borgaryfirvalda á því að nefndin fengi í hendur umbeðin málsgögn, þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni
 

 

___________________________
 Hjalti Steinþórsson

 

 
_____________________________                  ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon

 

78/2005 Háteigsvegur

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 27. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2005 um að veita leyfi fyrir byggingu einnar hæðar með þremur íbúðum og rishæðar með þremur íbúðum ásamt hanabjálka ofan á húsið að Háteigsvegi 3 í Reykjavík ásamt breytingu á notkun annarrar hæðar úr atvinnuhúsnæði í þrjár íbúðir, auk leyfis fyrir byggingu svala á austur- og norðurhlið hússins.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. október 2005, er barst nefndinni hinn 17. sama mánaðar, kæra P og M, íbúar að Rauðarárstíg 41 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2005 að veita leyfi fyrir byggingu einnar hæðar með þremur íbúðum og rishæðar með þremur íbúðum ásamt hanabjálka ofan á húsið að Háteigsvegi 3 í Reykjavík ásamt breytingu á notkun annarrar hæðar úr atvinnuhúsnæði í þrjár íbúðir auk leyfis fyrir byggingu svala á austur- og norðurhlið hússins.  Ákvörðunin var staðfest í borgarráði hinn 22. september 2005.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda við stækkun hússins þar til efnisniðurstaða liggi fyrir í málinu.

Umsögn Reykjavíkurborgar vegna kærumáls þessa barst úrskurðarnefndinni hinn 24. október sl. ásamt gögnum, en kærunni fylgdi jafnframt fjöldi fylgiskjala.  Þykir málið enn ekki nægjanlega upplýst til þess að unnt sé að taka það til efnisúrskurðar en framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi eru þegar hafnar. Verður hér því einungis tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda og málið reifað samkvæmt því.

Málsatvik og rök:  Íbúð kærenda er í fjölbýlishúsi að Rauðarárstíg 41 sem stendur á bak við og norðan megin við húsið að Háteigsvegi 3, sem er tveggja hæða, en ekki liggur fyrir deiliskipulag er tekur til umræddra lóða.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. mars 2005 var tekin fyrir fyrirspurn um hvort leyft yrði að byggja tvær hæðir og ris auk hanabjálka ofan á húsið á lóðinni nr. 3 við Háteigsveg og var erindinu vísað til skipulagsfulltrúa.  Skipulagsfulltrúi afgreiddi fyrirspurnina hinn 12. apríl 2005 á þann veg að ekki væri lagst gegn hækkun hússins um eina hæð og ris.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 5. júlí 2005 var byggingarleyfisumsókn, sem sniðin var að fyrrgreindri afstöðu skipulagsfulltrúa, tekin fyrir þar sem  jafnframt var sótt um leyfi til að breyta atvinnuhúsnæði á annarri hæð hússins í þrjár íbúðir og koma fyrir þremur íbúðum á þriðju hæð og þremur á fjórðu hæð og gerð svala á austur- og norðurhlið og að steina húsið að utan með ljósri steiningu.  Var málinu vísað til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Samþykkti skipulagsfulltrúi, á fundi sínum hinn 8. júlí 2005, að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Þverholti 30 og 32, Rauðarárstíg 41 og Háteigsvegi 1, 2, 4, 6 og 8.

Grenndarkynning stóð yfir frá 14. júlí til 11. ágúst 2005 og komu fram athugasemdir frá nágrönnum að Þverholti 30 og 32, Rauðarárstíg 41 og Háteigsvegi 4 þar sem kynntri umsókn var mótmælt.
 
Erindið var á næstu vikum til umfjöllunar hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum Reykjavíkur þar sem sjónum var einkum beint að fyrirhugaðri hækkun hússins og bílastæðamálum og urðu lyktir málsins þær að skipulagsráð samþykkti umsóknina fyrir sitt leyti hinn 14. september 2005 samkvæmt breyttum teikningum, dags. 8. september 2005, þar sem mænishæð hússins hafði verið lækkuð um 1,5 metra.  Var málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa sem samþykkti umsóknina á fundi sínum hinn 20. september 2005 og staðfesti borgarráð þá ákvörðun hinn 22. sama mánaðar.

Kærendur bera fyrir sig að hækkun umrædds húss sé óhófleg og muni hindra birtuflæði og valda því að suðurhlið húss þeirra verði í stöðugum skugga.  Muni breytingin skerða nýtingarmöguleika og rýra verðgildi eigna þeirra.  Fjölgun bílastæða norðan við Háteigsveg 3 og aukin umferð allan sólarhringinn sem fylgi níu íbúðum muni valda auknum hávaða milli húsanna en til þessa hafi umferð vegna starfsemi að Háteigsvegi 3 aðeins verið að degi til.  Þá muni tvöfaldt fyrirkomulag á sorphirðu fyrir íbúðir annars vegar og atvinnuhúsnæði hins vegar auka á ónæðið.  Þá skilji kærendur það svo að lóðamörk að Háteigsvegi 1 og 3 verði að einhverju leyti opin og verði unnt að aka milli húsanna og muni ónæði gagnvart kærendum margfaldast.

Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur kröfu um stöðvun framkvæmda verið mótmælt.  Ítarleg grenndarkynning hafi átt sér stað á fyrirhuguðum framkvæmdum.  Umbeðin hækkun hússins að Háteigsvegi 3 sé í samræmi við næsta umhverfi og götumyndir Þverholts og Háteigsvegar og umferð muni ekki aukast að neinu ráði. Komið hafi verið til móts við framkomin andmæli á kynningartíma umsóknarinnar með því að  mænishæð umrædds húss hafi verið lækkuð um 1,5 metra frá kynntri tillögu og létt hafi verið á þaki austur- og vesturhliða, þannig að skuggavarps muni ekki gæta á neðri hæðum húss kærenda um miðjan dag á jafndægrum.  Grenndaráhrif heimilaðra framkvæmda séu ekki meiri en almennt megi búast við á miðborgarsvæði (sic), en geti kærendur sannað að svo sé yrði þeim bættur skaðinn skv. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Kærendur hafi ekki bent á nein rök fyrir ógildingu umrædds byggingarleyfis en miklir hagsmunir séu í húfi fyrir leyfishafa að geta haldið áfram framkvæmdum.  Séu því ekki efni til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að tjá sig um stöðvunarkröfu kærenda en úrskurðarnefndinni hafa ekki borist andmæli hans við þeirri kröfu.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að umdeild hækkun hússins að Háteigsvegi 3 getur haft  töluverð grenndaráhrif gagnvart húsi kærenda í ljósi þess að húsin standa nálægt hvort öðru og húsið að Háteigsvegi 3 sunnanvert við hús kærenda.  Fyrirliggjandi gögn málsins eru nokkuð misvísandi um hvort lögmæltum kröfum um fjölda bílastæða sé fullnægt og ítarlegri gagna er þörf varðandi skuggavarp.  Þá eru áhöld um hvort heimiluð stækkun og notkunarbreyting sé þess eðlis að heimilt hafi verið að beita undanþáguheimild 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um grenndarkynningu í stað deiliskipulagsgerðar í samræmi við  meginreglu 2. mgr. ákvæðisins.  Nefnd atriði þurfa nánari skoðunar við en þau geta haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Í ljósi þessa þykir rétt að verða við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda við stækkun hússins að Háteigsvegi 3 þar til efnisúrskurðar liggur fyrir í málinu en ekki þykja efni  til að stöðva framkvæmdir innanhúss sem heimilaðar hafa verið með hinu kærða byggingarleyfi, enda eru þær alfarið á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir við stækkun hússins að Háteigsvegi 3 í Reykjavík, samkvæmt byggingarleyfi sem veitt var af byggingarfulltrúanum í Reykjavík hinn 20. september 2005 og staðfest af borgarráði hinn 22. sama mánaðar, skulu stöðvaðar þar til efnisúrskurður gengur í kærumáli þessu.

 

___________________________
 Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________             ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                    Ásgeir Magnússon

69/2005 Vesturgata

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 27. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 69/2005, kæra eiganda fasteignarinnar að Vesturgötu 4, Hafnarfirði á ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 5. september 2005 um að veita svonefnt graftrarleyfi vegna lóðarinnar að Vesturgötu 5, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. september 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir S, eigandi fasteignarinnar að Vesturgötu 4, Hafnarfirði þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 5. september 2005 að veita svonefnt graftrarleyfi vegna lóðarinnar að Vesturgötu 5 þar í bæ.  Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og heimilaðar framkvæmdir verði stöðvaðar þar til efnisniðurstaða liggi fyrir í málinu.

Málavextir:  Hinn 26. janúar 2005 birtist í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing um gildistöku á breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015.  Fólst breytingin í því að meginhluta hafnarsvæðis á Norðurbakka var breytt í íbúðarsvæði en svæði næst miðbæ var breytt í blandað íbúðar- og miðsvæði.  Bryggja og hafnarkantur í suðurjaðri svæðisins voru áfram skilgreind sem hafnarsvæði.  Miðsvæði norðan Vesturgötu og vestan Merkurgötu var breytt í íbúðarsvæði en miðsvæði sunnan Vesturgötu og vestan Fjarðargötu var breytt í blandað íbúðar- og miðsvæði.  Samkvæmt auglýsingunni hlaut aðalskipulagsbreytingin samþykki bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og staðfestingu Skipulagsstofnunar.  Umhverfisráðherra staðfesti breytinguna hinn 24. janúar 2005.  Lóðin að Vesturgötu 5 er á því svæði sem aðalskipulagsbreytingin tekur til.

Hinn 8. febrúar 2005 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar nýtt deiliskipulag fyrir Norðurbakka í Hafnarfirði er fól í sér breytingu á landnotkun úr hafnarsvæði í íbúðarsvæði með þjónustu- og stofnanalóð og tiltók með hvaða hætti uppbyggingu svæðisins skyldi háttað.  Tók skipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. maí 2005.

Á kynningartíma deiliskipulagsins gerði kærandi athugasemdir við fyrirhugaða íbúðarbyggð á svæðinu og taldi hana fara of nærri fasteign hans þar sem fram færi veitingastarfsemi sem færi alls ekki saman við fyrirhugaðar íbúðarblokkir í næsta nágrenni.

Með bréfi, dags. 21. mars 2005, skaut kærandi ákvörðun um fyrirhugaðar framkvæmdir til úrskurðarnefndarinnar og krafðist þess að allar framkvæmdir yrðu stöðvaðar og öll byggingarleyfi felld úr gildi.  Voru sömu sjónarmið tíunduð til stuðnings kröfunni og sett höfðu verið fram af kæranda við kynningu deiliskipulagsins, en til viðbótar bent á að öll bílastæði við veitingastað kæranda ættu að víkja samkvæmt skipulaginu.  Taldi hann jafnframt ýmsa ágalla hafa verið á málsmeðferð skipulagstillögunnar.  Er sú kæra til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi, dags. 10. maí 2005, kærði síðan kærandi veitt byggingarleyfi fyrir niðurrifi tiltekinna húsa á Norðurbakka en kröfu um ógildingu þess var hrundið með úrskurði úrskurðarnefndarinnar hinn 23. júní sl., þar sem leyfið var talið eiga stoð í gildandi aðalskipulagi bæjarins eftir breytingu þá sem fyrr var nefnd. 

Hinn 5. september 2005 samþykkti byggingarfulltrúinn í Hafnarfirði umsókn lóðarhafa að Vesturgötu 5 um svonefnt graftrarleyfi en í texta þess kemur eftirfarandi fram:  „Byggingarstjóri getur sótt um graftrarleyfi á lóð, án greiðslu gatnagerðargjalds enda liggi fyrir tillöguteikningar sem uppfylla deiliskipulag samþ. af bæjarstjórn.  Slík framkvæmd fellur bótalaust til bæjarins verði hætt við framkvæmdir.  Ef ófyrirséðar tafir verða á framhaldi verksins, er byggingarstjóra skylt að fylla í holuna að nýju eða verja hana á annan hátt óski byggingarfulltrúi þess.  Frekari framkvæmdir eru háðar útgáfu byggingarleyfis og greiðslu gatnagerðargjalds.“

Hefur kærandi nú kært fyrrgreint leyfi til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan er rakið.

Málsrök aðila:  Kærandi bendir á að umdeild framkvæmd hafi ekki verið grenndarkynnt og hann ekki átt þess kost að koma sjónarmiðum sínum að þótt hann eigi beinna hagsmuna að gæta og athugasemdum hans við fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu hafi ekki verið svarað af Hafnarfjarðarbæ.  Byggir kærandi kröfu sína á því að við hina kærðu ákvörðun hafi ekki verið gætt ákvæða 10., 13., 14. eða 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ekkert byggingarleyfi eða samþykktur byggingarreitur liggi fyrir er heimili umdeildar framkvæmdir og sé hin kærða ákvörðun því brot á 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en ekki sé hér um að ræða könnun á jarðvegi samkvæmt 44. gr. nefndra laga.

Hafnarfjarðarbæ og leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru og gefinn kostur á að tjá sig og jafnframt var óskað eftir gögnum er málið varðar frá bæjaryfirvöldum.  Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar og leyfishafa hafa ekki borist athugasemdir vegna kærumáls þessa en nefndinni hefur borist umsóknareyðublað leyfishafa áritað um samþykki byggingarfulltrúa.

Niðurstaða:  Hið kærða leyfi fól í sér heimild til jarðvegsframkvæmda á lóðinni að Vesturgötu 5, Hafnarfirði og mun þeim framkvæmdum nú vera lokið.

Samkvæmt 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er m.a. óheimilt að grafa grunn nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar, en samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laganna getur byggingarfulltrúi veitt lóðarhafa heimild til að kanna jarðveg á byggingarlóð án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út.  Ekki er að finna í nefndum lögum frekari heimildir til framkvæmda samkvæmt 4. kafla laganna um mannvirki nema að fengnu byggingarleyfi skv. 43. gr.

Telja verður framkvæmdir þær sem unnar hafa verið í skjóli hins svonefnda graftrarleyfis vera þess eðlis að til þeirra hefði þurft byggingarleyfi samkvæmt 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, enda ótvírætt um að ræða viðameiri framkvæmd en jarðvegskönnun. 

Ekki liggur fyrir að umdeilt leyfi byggingarfulltrúa hafi hlotið staðfestingu bæjarstjórnar, skv. 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. 3. mgr. 39. gr. nefndra laga.  Er hin kærða ákvörðun því ekki lokaákvörðun  í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og getur af þeim sökum ekki sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
 Hjalti Steinþórsson

 

 
_____________________________                  ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                         Ásgeir Magnússon

 

56/2005 Urriðaholt

Með

Ár 2005, miðvikudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Sesselja Jónsdóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2005, kæra stjórnar Landverndar, f.h. félagsins, á ákvörðun Garðabæjar um breytingu á aðalskipulagi og staðfestingu umhverfisráðherra á því breytta skipulagi frá júní 2005 og á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar um deiliskipulag við Urriðaholt frá 4. maí 2005. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júlí 2005, sem barst nefndinni 28. sama mánaðar kærir stjórn Landverndar, f.h. félagsins, ákvörðun Garðabæjar um breytingu á aðalskipulagi og staðfestingu umhverfisráðherra á því breytta skipulagi frá júní 2005 og ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar um deiliskipulag við Urriðaholt frá 4. maí 2005. 

Kröfur kæranda og helstu málsrök:  Kærandi krefst þess að umræddar ákvarðanir verði felldar úr gildi þar sem ekki hafi verið farið að ákvæðum náttúruverndarlaga.  Er til þess vísað af hálfu kæranda að svæði það sem hinar kærðu ákvarðanir taki til hafi verndargildi og að ekki hafi verið gætt ákvæða náttúruverndarlaga við meðferð málsins.  Leita hefði þurft hentugri staðar fyrir þá starfsemi sem fyrirhuguð sé á svæðinu.  Ef ekki hefði verið hægt að finna starfseminni annan hentugri stað hefði að lágmarki þurft að leitast við að draga úr áhrifum mannvirkja á svæðinu og minnka umfang þeirra, t.d. með bílastæðakjallara í stað þess að leggja víðfeðmt svæði undir bílastæði.  Loks hefði þurft að ganga úr skugga um, með fullnægjandi rannsóknum, að mannvirkjagerð á svæðinu hefði ekki skaðleg áhrif á lífríkið í Urriðavatni.  Fleiri rök eru færð fram í kærunni sem ekki verða rakin hér.

Kröfur og sjónarmið Garðabæjar:  Af hálfu Garðabæjar hefur þess verið krafist að kröfum kæranda verði hafnað.  Telja bæjaryfirvöld að rétt hafi verið staðið að undirbúningi og gerð hinna kærðu ákvarðana og að sanngjarnt tillit hafi verið tekið til sjónarmiða kæranda.

Gagnaöflun:  Úrskurðarnefndin hefur af sjálfsdáðum aflað gagna um lokaafgreiðslur hinna kærðu ákvarðana og auglýsinga um gildistöku þeirra.  Liggur fyrir að á fundi bæjarstjórnar hinn 4. maí 2005 var einungis samþykkt tillaga að breyttu aðalskipulagi umrædds svæðis en ekki fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagi eins og ranghermt er í kærunni.  Birtist auglýsing um staðfestingu ráðherra á hinni kærðu ákvörðun um breytingu á aðalskipulagi í B-deild Stjórnartíðinda hinn 23. júní 2005.  Lokaákvörðun um samþykkt hinnar umdeildu deiliskipulagstillögu var tekin í bæjarráði Garðabæjar í umboði bæjarstjórnar hinn 28. júní 2005 og birtist auglýsing um gildistöku þeirrar ákvörðunar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. júlí 2005.  Hafði sú ákvörðun því ekki öðlast gildi er kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni.

Reifun álitaefna um formhlið máls:  Úrskurðarnefndin tók jafnframt af sjálfsdáðum til athugunar álitaefni um valdbærni nefndarinnar um þann hluta kærunnar er lýtur að breytingu aðalskipulags og um hugsanlegan aðildarskort kæranda í málinu.  Ritaði nefndin, hinn 1. september 2005, samhljóða bréf til kæranda og bæjaryfirvalda í Garðabæ, þar sem aðilum var gefinn kostur á að tjá sig um þessi sjónarmið, sem að dómi nefndarinnar voru talin geta leitt til frávísunar málsins.  Var í bréfinu rakið að nefndin hefði tekið þá afstöðu í fyrri málum, þar sem kærðar hefðu verið ákvarðanir um aðalskipulag eða breytingar á aðalskipulagi, að vísa málunum frá með þeim rökum að úrskurðarnefndin væri ekki til þess bær að endurskoða ákvarðanir sem sættu staðfestingu ráðherra.  Var jafnframt á það bent að vandséð væri að Landvernd ætti í málinu þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni sem að dómi nefndarinnar væru skilyrði aðildar að stjórnsýslukæru á því svið sem hér væri um að ræða.  Hafa báðir aðilar skilað sérstakri greinargerð um þessi álitaefni og tefla þar fram eftirgreindum sjónarmiðum og rökum.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé það skilgreint hlutverk úrskurðarnefndarinnar að kveða upp úrskurð í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál.  Ekkert komi fram í lögunum sem takmarki valdsvið nefndarinnar varðandi mál sem hlotið hafi staðfestingu ráðherra.  Svo virðist sem staðfesting ráðherra sé hreint formsatriði og að málið hafi ekki fengið neina efnislega afgreiðslu við staðfestinguna.  Þar að auki sé komin upp ný rökstudd málsástæða sem taka þurfi til skoðunar.  Þessar upplýsingar gjörbreyti öllum málatilbúnaði þar sem þær snúi að lögmæti aðalskipulagstillögunnar og þar með að lögmæti staðfestingar hennar.  

Þá er því hafnað að kærandi geti ekki átt aðild að málinu.  Landvernd séu landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök sem starfað hafi síðan árið 1969.  Eitt megin hlutverk samtakanna sé að fylgjast með og taka þátt í ákvörðunum stjórnvalda er varði náttúruvernd. Samtökin samanstandi af 42 félögum og fyrirtækjum (lögaðilum) og liðlega 300 einstaklingum. Nokkrir einstaklingar sem eigi aðild að samtökunum búi í Garðabæ.

Málsrök Garðabæjar:  Af hálfu Garðabæjar er tekið undir þau sjónarmið að vald úrskurðarnefndarinnar takmarkist við ákvarðanir lægra settra stjórnvalda en geti ekki átt við ákvarðanir ráðherra, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2906/2000. Kröfu Landverndar um að hnekkt verði staðfestingu ráðherra á breyttu aðalskipulagi í Garðabæ beri samkvæmt því að vísa frá nefndinni.

Að því er varði frávísun kæru Landverndar að öðru leyti er, sé bent á að hvorki verði ráðið af lögum um náttúruvernd nr. 44/1999 né öðrum lögum að Landvernd hafi almenna aðild að ákvörðunum á sviði skipulags- og byggingarmála.  Þá liggi ekki fyrir að Landvernd hafi sértækra lögvarinna hagsmuna að gæta sem réttlætt gæti aðild að kæru með þeim hætti sem hér greini, enda ekki á því byggt í kærunni. Um þetta megi til hliðsjónar m.a. vísa til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 171/2004.

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið hefur úrskuðarnefndin í fyrri málum komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun ráðherra um staðfestingu aðalskipulags eða breytingu á því sé lokaákvörðun æðra stjórnvalds og verði hún einungis borin undir dómstóla en ekki skotið til hliðsetts stjórnvalds.  Því bresti úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála vald til þess að taka þessar ákvarðanir ráðherra til endurskoðunar svo og þá ákvörðun sveitarstjórnar, sem staðfestingin taki til.  Verður ekki fallist á þá skoðun kæranda í máli þessu að staðfesting ráðherra sé aðeins formsatriði heldur verður að telja að staðfestingin feli í sér lögmætisathugun á hverri þeirri ákvörðun sem til staðfestingar kemur.  Þá verður ekki á það fallist að nýjar málsástæður kæranda eigi að leiða til þess að hin kærða ákvörðun um breytt aðalskipulag komi til endurskoðunar í úrskurðarnefndinni, en slíkar ástæður kynnu hins vegar að leiða til þess að skilyrði sköpuðust til þess að beiðast endurupptöku máls samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Landvernd eru landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök sem m.a. hafa það hlutverk að fylgjast með og taka þátt í ákvörðunum stjórnvalda er varða náttúruvernd.  Hvergi er í lögum að finna heimild fyrir því að samtök þessi eigi aðild að kærumálum á sviði skipulags- og byggingarmála án þess að eiga jafnframt þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni sem að stjórnsýslurétti eru taldir skilyrði aðildar að kæru til æðra stjórnvalds.  Verður ekki fallist á að samtökin eigi slíkra hagsmuna að gæta þótt þau hafi gert athugasemdir við hinar umdeildu skipulagstillögur á kynningarstigi.  Þá verður ekki heldur séð að það skipti máli þótt finna megi félaga í samtökunum búsetta í Garðabæ, enda var kæran ekki sett fram í umboði þeirra.  Breytir síðar til komin yfirlýsing eins þeirra engu þar um.  Hefur kærandi ekki sýnt fram á að hann eigi neinna þeirra hagsmuna að gæta er verið gætu grundvöllur aðildar hans að máli þessu. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður málinu í heild sinni vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________                      _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                   Sesselja Jónsdóttir

 

59/2004 Lyngheiði

Með

Ár 2005, miðvikudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Sesselja Jónsdóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2004, kæra eigenda fasteignarinnar að Lyngheiði 21, Kópavogi, á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. september 2004, um að hafna beiðni kærenda um breytingu á deiliskipulagi, er fæli í sér heimild til starfrækslu hárgreiðslustofu í hluta bílskúrs kærenda á lóðinni nr. 21-23 við Lyngheiði.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. október 2004, er barst nefndinni hinn 28. sama mánaðar, kærir Sveinn Guðmundsson hdl., f.h. R og B, eigenda fasteignarinnar að Lyngheiði 21, Kópavogi þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. september 2004, um að synja beiðni kærenda um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Lyngheiði 21-23, er fæli í sér heimild til reksturs hárgreiðslustofu í hluta bílskúrs kærenda á nefndri lóð.  Skilja verður málskot kærenda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en jafnframt er þess krafist að lagt verði fyrir bæjaryfirvöld að framkvæma umbeðna skipulagsbreytingu.

Málavextir:  Á lóðinni að Lyngheiði 21-23 er parhús og eiga kærendur hús nr. 21.  Umræddu húsi mun hafa verið breytt úr félagsheimili í parhús á árinu 1996, en á árinu 1999 tók gildi deiliskipulag fyrir umrædda lóð þar sem hún var stækkuð og byggingarreitir markaðir fyrir bílskúra.  Fasteign kæranda fylgir tvöfaldur bílskúr á suðvesturhluta lóðarinnar en bílskúr fasteignarinnar að Lyngheiði 23 stendur á norðausturhluta hennar.  Aðkoma að fasteign kærenda að Lyngheiði 21 er frá Lyngheiði en fasteignin að Lyngheiði 23 hefur aðkomu frá Tunguheiði.  Lóðin er í sameiginleg.

Á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 7. maí 2003 var tekin fyrir umsókn kærenda um leyfi fyrir rekstri hárgreiðslustofu í hluta bílskúrs að Lyngheiði 21.  Í umsókninni var tekið fram að um óverulega starfsemi yrði að ræða, tveir til þrír viðskiptavinir á dag, með einum starfsmanni, og ætti sú starfsemi ekki að hafa óþægindi í för með sér fyrir nágranna.  Var erindinu vísað til skipulagsnefndar bæjarins.

Skipulagsnefnd tók málið fyrir á fundi hinn 3. júní 2003 og hafnaði umsókninni.  Málið var lagt fyrir nefndina að nýju hinn 1. júlí s.á. og var þá samþykkt að grenndarkynna erindið skv. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í bókun fundarins kom fram að samþykki meðeiganda að lóð skorti.  Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi nefndarinnar hinn 5. ágúst og því hafnað með vísan til framkominna athugasemda er borist höfðu, þ.á.m. frá eigendum Lyngheiðar 23.  Lutu framkomnar athugasemdir einkum að því að umsóttri starfsemi fylgdi óþægindi gagnvart nágrönnum vegna ónæðis, aukinnar bílaumferðar og bílastæðavandamála auk fordæmisgildis slíkrar ákvörðunar varðandi notkun annarra bílskúra við íbúðargötuna.

Lögmaður kærenda ítrekaði beiðni kærenda til bæjaryfirvalda með bréfi, dags. 31. október 2003, og af því tilefni var málið enn á dagskrá skipulagsnefndar hinn 2. desember s.á. og þar óskað eftir umsögn bæjarlögmanns um málið.  Nefndin synjaði síðan erindi kærenda hinn 6. janúar 2004, að fenginni fyrrgreindri umsögn bæjarlögmanns, með vísan til bókunar nefndarinnar um málið frá 5. ágúst 2003.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var tekin fyrir á fundum bæjarráðs hinn 8. janúar og 19. febrúar 2004 þar sem þær málalyktir urðu að afgreiðslu skipulagsnefndar var hafnað þar sem umbeðin starfsemi var ekki talin hafa í för með sér mikið ónæði eða umferð umfram það sem eðlilegt mætti teljast í íbúðarhverfi.  Var lagt fyrir skipulagsnefnd að láta vinna tillögu að breyttu skipulagi fyrir umrædda lóð og var svo gert.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 6. apríl var svo samþykkt tilaga að breyttu deiliskipulagi fyrir lóðina að Lyngheiði 21-23 þar sem gert var ráð fyrir heimild til reksturs hárgreiðslustofu í hluta bílskúrs kærenda og ákveðið að auglýsa tillöguna almennri auglýsingu skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Var tillögunni vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar og samþykkti bæjarstjórn auglýsingu tillögunnar á fundi sínum hinn 13. apríl 2004.

Hinn 15. júní 2004 var deiliskipulagstillagan tekin fyrir hjá skipulagsnefnd að lokinni auglýsingu en athugasemdir höfðu borist frá eigendumsex nærliggjandi fasteigna sem voru mjög á sömu lund og við grenndarkynningu tillögunnar árið áður.  Ákvað nefndin að fresta afgreiðslu málsins og leita umsagnar lögmanns tæknideildar en lagðist síðan gegn skipulagsbreytingunni með vísan til fyrri afgreiðslna nefndarinnar og framkominna athugasemda á fundi sínum hinn 6. júlí 2004, þar sem fyrir lá umsögn lögmanns tæknideildar.

Skipulagstillagan var til umræðu á fundum bæjarráðs hinn 16. og 29. júlí 2004 en málinu loks vísað til bæjarstjórnar á fundi ráðsins hinn 17. september s.á.  Bæjarstjórn tók málið fyrir á fundi hinn 28. september 2004 og hafnaði þar margnefndri skipulagstillögu sem kærendur hafa nú skotið til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að umdeilt erindi þeirra hafi falið í sér ósk um leyfi fyrir óverulegri starfsemi sem ætti ekki að íþyngja nágrönnum og því engin efnisleg rök fyrir hinni kærðu ákvörðun.  Þá hafi málsmeðferð að mörgu leyti verið áfátt.

Samkvæmt fjöleignarhúsalögum sé ótvírætt að eiganda séreignar sé heimilt að nýta eign sína svo fremi að ekki gangi gegn hagsmunum annarra.  Engar takmarkanir séu í lögum eða óskráðum grenndarreglum í þessu efni.  Umþrætt starfsemi sé takmörkuð þar sem aðeins annar kærenda sinni starfseminni hluta úr degi og aðeins suma daga vikunnar.  Af dómaframkvæmd og úrskurðum megi ráða að starfsemi af þeim toga er hér um ræði verði talin samrýmast þeim rétti sem felist í hagnýtingu eignarréttar. 

Á bæjarstjórnarfundi þeim sem tekið hafi hina kærðu ákvörðun hafi aðallega setið varamenn sem greinilega hafi ekki kynnt sér málið til hlítar en andstæðingar beiðni  kærenda hafi lagt sig fram um að reifa stjónarmið sín gagnvart sveitarstjórnarmönnum.  Á nefndum fundi bæjarstjórnar hafi aðeins einn aðili mælt gegn fyrirliggjandi skipulagstillögu en hann sé í kunningsskap við föður annars íbúa að Lyngheiði 23, sem hvað harðast andmæltu erindi kærenda.  Benda megi og á að annar talsmaður gegn skipulagstillögunni í bæjarstjórn sé fyrrum bekkjarbróðir beggja íbúa fyrrgreinds húss í grunn- og framhaldsskóla.  Að mati kærenda hefðu nefndir aðilar af þeim sökum átt að víkja sæti við ákvarðanatöku þótt lög heimti það ekki.

Furðu veki að hin breytta afstaða bæjaryfirvalda til málsins, sem hafi áður samþykkt umrædda skipulagstillögu, en breytt þeirri ákvörðun án sýnilegra raka.  Virðist niðurstaða málsins fyrst og fremst hafa verið af pólitískum toga en umsögn lögmanns tæknideildar hafi styrkt málatilbúnað kærenda.

Telja kærendur að með hinni kærðu afgreiðslu hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins þar sem fyrir liggi að víða í Kópavogi sé sambærileg starfsemi og hér um ræði í húsnæði sem tilheyri íbúðarbyggð.

Umdeild stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin án þess að málið hafi verið nægjanlega undirbúið eða nauðsynlegra gagna aflað um málsatvik.  Á umdeildum fundi bæjarstjórnar hafi ekki legið fyrir viðhlítandi gögn eða nægileg kynning farið fram á andstæðum sjónarmiðum fyrir ákvarðanatöku og fundinn hafi að mestu setið varamenn eins og fyrr segi.  Eins og atvikum sé háttað megi halda því fram að málsmeðferðin hafi falið í sér brot á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Við ákvarðanatöku verði stjórnvöld að gæta hófs í meðferð valds.  Verði þau að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra einstaklinga sem valdbeiting beinist að, ekki síður en til þeirra markmiða sem stefnt sé að með ákvörðun.  Telja kærendur að í máli þessu hafi ekki verið vegin og metin þau andstæðu sjónarmið sem uppi hafi verið og meðalhófs því ekki verið gætt.

Með vísan til alls þessa beri að fallast á kröfur kærenda í máli þessu.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Um rök fyrir hinni kærðu ákvörðun vísa bæjaryfirvöld til fundargerða er málið varða og til þeirra athugasemda er bárust við grenndarkynningu og auglýsingu umdeildrar deiliskipulagstillögu.

Vísað er til þess að sameigendur kærenda að lóðarréttindum að Lyngheiði 21-23 hafi eindregið lagst gegn skipulagstillögunni og ekki samþykkt hana fyrir sitt leyti.  Þá hafi fjöldi athugasemda borist frá næstu nágrönnum, sem hafi vísað til óásættanlegs ónæðis og umferðar ef umþrætt starfsemi yrði leyfð, en um væri að ræða rótgróið íbúðarhverfi.  Yrði umrædd starfsemi leyfð með umræddri deiliskipulagsbreytingu skapaði það fordæmi sem erfitt yrði að líta framhjá hygðust aðrir við götuna hefja atvinnustarfsemi í bílskúrum sínum.  Skipulagsnefnd kveðst hafa byggt afstöðu sína á mati á fyrirhugaðri starfsemi með hliðsjón af aðstæðum og skipulagi á svæðinu og þeim óþægindum er af umræddri atvinnustarfsemi gæti hlotist í íbúðarhverfi.

Fjöldi gagna liggur fyrir í málinu þar sem kærendur og andmælendur nefndrar deiliskipulagstillögu reifa frekar sjónarmið sín sem ekki verða tíunduð nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af þeim sjónarmiðum við úrlausn í máli þessu.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér synjun skipulagsyfirvalda í Kópavogi á beiðni um breytingu á gildandi deiliskipulagi lóðarinnar að Lyngheiði 21-23, á þann veg að notkun hluta bílskúrs á lóðinni yrði breytt í hárgreiðslustofu.  Hafa kærendur krafist ógildingar á þeirri ákvörðun og að skipulagsyfirvöldum verði gert að breyta skipulaginu í samræmi við framkomna ósk kærenda.

Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 6. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fara sveitarstjórnir og skipulagsnefndir í hverju sveitarfélagi með skipulagsmál og skv. 1. mgr. 23. gr. laganna ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags.  Úrskurðarnefndin hefur úrskurðarvald um gildi kærðra ákvarðana sveitarstjórnar á umræddu sviði en hefur ekki það hlutverk að taka nýjar ákvarðanir í skipulags- og byggingarmálum, þar sem henni er ekki falið ákvörðunarvald á þeim vettvangi.   Af þessum sökum kemur krafa kærenda, um að lagt verði fyrir sveitarstjórn Kópavogs að breyta deiliskipulagi með tilteknum hætti, ekki til álita í kærumáli þessu.

Langur aðdragandi var að hinni kærðu ákvörðun.  Á árinu 2003 var tillaga að breyttu deiliskipulagi í samræmi við beiðni kærenda grenndarkynnt og á árinu 2004 var hún kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Fyrir liggur að tillagan hafi verið rædd á fjölmörgum fundum skipulagsnefndar, bæjarráðs og bæjarstjórnar og umsagna leitað. Verður í ljósi þessa ekki fallist á að undirbúningi málsins og rannsókn hafi verið ábótavant og ekkert bendir til að einstakir aðilar í sveitarstjórn hafi verið vanhæfir til afgreiðslu málsins samkvæmt hæfisreglum sveitarstjórnarlaga nr.  45/1998.

Í deiliskipulagi felst ákvörðun sveitarstjórna um landnotkun og yfirbragð skipulagssvæða sem vænta má að standi til framtíðar, enda eru borgarar og sveitarstjórnir bundnar af þeim skv. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Eigendur fasteigna á skipulögðu svæði eiga að geta gengið að því vísu að byggð og landnotkun verði að fyrra bragði í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Almennt verður að ætla að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi sem byggt hefur verið eftir og mótað hefur skipulagsreit til fulls, nema almannahagsmunir eða skipulagsleg rök búi þar að baki.

Hin kærða ákvörðun studdist við þau rök að umsótt breyting væri til þess fallin að valda ónæði og röskun í grónu íbúðarhverfi.  Jafnframt var litið til fordæmisgildis en andmæli nágranna höfðu borist við kynningu og auglýsingu tillögunnar.  Verður því að telja að málefnaleg rök standi að baki ákvörðun sveitarstjórnar og í henni felst það mat skipulagsyfirvalda að ekki væri tilefni til breytinga á skipulagi við umrædda íbúðargötu.  Ekki er kunnugt um að sveitarstjórn hafi heimilað öðrum atvinnustarfsemi á svæði því  sem hér er til umfjöllunar og eru þar af leiðandi ekki efni til að fallast á þá málsástæðu kærenda að jafnræðis hafi ekki verið gætt við umdeilda ákvörðun.

Að öllu þessu virtu verða ekki þeir annmarkar taldir á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda, um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. september 2004, að synja beiðni kærenda um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Lyngheiði 21-23, er hafnað.

 

 

___________________________
 Ásgeir Magnússon

 

 
_____________________________                  ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Sesselja Jónsdóttir

 

57/2005 Holtsgata

Með

Ár 2005, föstudaginn 16. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru, Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2005, kæra á ákvörðun Skipulagsráðs Reykjavíkur frá 29. júní 2005 um að veita leyfi til að sameina lóðirnar nr. 1 og 3 við Holtsgötu og nr. 32A við Bræðraborgarstíg í eina lóð og byggja fjölbýlishús úr steinsteypu með 13 íbúðum og bílageymslu í kjallara fyrir 13 bíla á hinni sameinuðu lóð.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. júlí 2005, sem barst nefndinni sama dag, kærir Þorsteinn Einarsson hrl., f.h. H, Holtsgötu 5, Reykjavík, ákvörðun Skipulagsráðs Reykjavíkur frá 29. júní 2005 um að veita leyfi til að sameina lóðirnar nr. 1 og 3 við Holtsgötu og nr. 32A við Bræðraborgarstíg í eina lóð og byggja fjölbýlishús úr steinsteypu með 13 íbúðum og bílageymslu í kjallara fyrir 13 bíla á hinni sameinuðu lóð.  Ákvörðunin var staðfest í borgarráði hinn 30. júní 2005.

Krefjast kærendur ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda til framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.  Hefur Reykjavíkurborg gert grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu með ítarlegri greinargerð, dags. 8. ágúst 2005, en jafnframt hafa andmæli borist frá byggingarleyfishafa.  Þá hefur úrskurðarnefndin af sjálfsdáðum aflað gagna um afgreiðslu Skipulagsstofnunar á skipulagstillögu byggingarsvæðisins og umsagnar Brunamálastofnunar um eldvarnir milli nýbyggingar og húss kæranda.  Rannsókn málsins er þó ekki að fullu lokið og á úrskurðarnefndin m.a. eftir að kynna sér aðstæður á vettvangi.  Er málið af þeim sökum ekki enn tækt til efnisúrlausnar. 

Fyrir liggur að Byggingarfulltrúinn í Reykjavík veitti hinn 5. ágúst 2005 takmarkað byggingarleyfi til að vinna jarðvinnu og girða af vinnusvæði að Holtsgötu 1.  Hefur frá þeim tíma verið unnið í grunni nýbyggingar á grundvelli þess leyfis.  Nú nýlega hefur byggingarleyfi hins vegar verið veitt fyrir nýbyggingu á lóðinni og þykir ekki rétt að draga lengur að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.  Því er málið nú tekið til úrskurðar um það efni.

Málsatvik:  Atvikum verður aðeins lýst stuttlega í bráðabirgðaúrskurði þessum. Eins og að framan greinir er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar Skipulagsráðs frá 29. júní 2005 um sameiningu lóða og um byggingar að Holtsgötu 1 í Reykjavík.  Áður höfðu skipulagsyfirvöld samþykkt deiliskipulag fyrir svonefndan Holtsgötureit, þar sem umræddar framkvæmdir eru hafnar, en á þeim reit stendur jafnframt hús kæranda.  Skaut kærandi ákvörðun borgaryfirvalda um deiliskipulag reitsins til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 17. mars 2005, og er það mál til meðferðar fyrir nefndinni.  Hafði kærandi gert athugasemdir við skipulagstillöguna og meðferð málsins hjá borgaryfirvöldum.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að málsmeðferð Reykjavíkurborgar við gerð deiliskipulags fyrir Holtsgötureit hafi verið ólögmæt.  Jafnframt brjóti skipulagið gegn ákvæðum 72. gr. stjórnarskár um vernd eignarréttar.  Almannahagsmunir hafi ekki krafist þess að breytt yrði frá upphaflegri tillögu en í henni hafi verið gert ráð fyrir að aflað yrði samþykkis kæranda fyrir byggingu á lóðinni nr. 3 við Holtsgötu.  Þá leiði af skipulaginu að kærandi þurfi að þola skuggavarp og skerðingu á útsýni langt umfram það sem búast hafi mátt við.  Þá hafi ekki verið gætt jafnræðis þegar ákvörðun hafi verið tekin um nýtingarhlutfall einstakra lóða á svæðinu og hafi nýtingarhlutfall fyrir lóð kæranda verið ákvarðað til muna lægra en lóðin beri og sé það þar að auki stórum mun lægra en á nærliggjandi lóðum.  Muni kærandi verða fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni af framangreindum sökum.  Nauðsynlegt sé að stöðva framkvæmdir við uppbyggingu á reitnum meðan úrskurðarnefndin fjalli um fyrirliggjandi kæru vegna skipulags svæðisins.

Málsrök borgaryfirvalda:  Reykjavíkurborg krefst þess að hafnað verði kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.  Af hálfu borgarinnar er því alfarið hafnað að nokkuð hafi verið við málsmeðferð borgaryfirvalda að athuga við gerð deiliskipulags fyrir Holtsgötureit.  Efnislega sé deiliskipulagið í samræmi við stefnu borgaryfirvalda, sem m.a. komi fram í aðalskipulagi.  Skuggavarpi hafi verið haldið í lágmarki og fjarlægð nýbyggingar á lóð nr. 3 við Holtsgötu hafi verið ákvörðuð þrír metrar frá mörkum lóðar kæranda.  Hugsanlegar skemmdir á húsi kæranda af völdum framkvæmda séu á ábyrgð framkvæmdaaðila og verði því ekki séð að skipulagið, eða framkvæmdir samkvæmt því, geti haft í för með sér slík óþægindi eða fjarhagstjón fyrir kæranda að varðað geti ógildingu skipulagsins.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kæranda mótmælt.  Er á það bent að komið hafi verið til móts við athugasemdir kæranda, m.a. með því að færa aðkomu að bílageymslu frá Holtsgötu yfir á Bræðraborgarstíg.  Athugasemdir kæranda um nýtingarhlutfall hefðu þurft að koma fram á meðan enn hafi verið unnið að gerð skipulagsins en þær hafi ekki komi fram fyrr en síðar.

Aðilar hafa fært fram frekari röksemdir fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Verða þær ekki raktar frekar í bráðbirgðaúrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið hafa málsaðilar reifað sjónarmið sín í málinu en auk þess hefur úrskurðarnefndin af sjálfsdáðum aflað nokkurra nýrra gagna.  Verður ekki ráðið af málsgögnum sem nú liggja fyrir að á hinni kærðu ákvörðun eða undanfarandi skipulagsgerð séu slíkir annmarkar að líklegt sé að koma þurfi til ógildingar ákvarðana þeirra sem liggja til grundvallar þeim framkvæmdum sem hafnar eru að Holtsgötu 1.  Framkvæmdirnar eru þar að auki að mestu bundnar við jarðvinnu í grunni.  Þykja ekki efni til að verða við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda eins og atvikum er nú háttað og með hliðsjón af því að þess er að vænta að meðferð málsins verði lokið af hálfu úrskurðarnefndarinnar áður en langt um líður.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að framkvæmdir að Holtsgötu 1 í Reykjavík verði stöðvaðar meðan úrskurðarnefndin hefur til meðferðar mál kæranda um gildi skipulags Holtsgötureits og byggingarleyfis fyrir nýbyggingu að Holtsgötu 1.

 

_____________________________
Ásgeir Magnússon

 

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

 

47/2005 Austurvegur

Með

Ár 2005, föstudaginn 16. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2005, kæra eiganda fasteignarinnar að Austurvegi 18-20, Seyðisfirði, á synjun bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 26. maí 2005 á umsókn kæranda um að nýta hluta greindrar fasteignar undir hjólbarðaþjónustu.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. júní 2005, er barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kærir G, eigandi fasteignarinnar að Austurvegi 18-20, Seyðisfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 26. maí 2005 að synja umsókn kæranda um að nýta hluta greindrar fasteignar undir hjólbarðaþjónustu.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Málavextir:  Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Seyðisfjarðarkaupstaðar stendur fasteignin að Austurvegi 18-20 á svæði sem ætlað er undir verslun og þjónustu en húsnæðið mun áður hafa verið nýtt undir verslun, bakarí og krá.  Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.  Húsið er tveggja hæða, 485 fermetrar að flatarmáli og stendur á 1.276 fermetra lóð.

Með bréfi til byggingarfulltrúa Seyðisfjarðarkaupstaðar, dags. 11. október 2004, leitaði kærandi eftir afstöðu umhverfismálaráðs kaupstaðarins til þeirrar fyrirætlunar hans að flytja dekkjaþjónustu, er hann rak, í hluta neðri hæðar húsnæðisins að Austurvegi 18-20.  Erindið var tekið fyrir á fundi ráðsins hinn 18. október 2004 og var þar óskað eftir nánari útfærslu og teikningum af fyrirhuguðum breytingum svo unnt væri að grenndarkynna erindið.  Umhverfismálaráð samþykkti síðan hinn 10. janúar 2005 að grenndarkynna umsókn kæranda og bera málið undir viðkomandi umsagnaraðila en þá höfðu umbeðnar teikningar borist.

Að lokinni grenndarkynningu var málið á dagskrá fundar umhverfismálaráðs hinn 28. febrúar 2005 þar sem fram kom að athugasemdir hefðu borist frá íbúum fjögurra nærliggjandi fasteigna.  Var afgreiðslu málsins frestað þar sem enn lá ekki fyrir umsögn heilbrigðiseftirlits Austurlands og beðið var eftir breyttum teikningum frá arkitekt kæranda.  Var byggingarfulltrúa falið að leita álits Skipulagsstofnunar á rekstri hjólbarðaverkstæðis á umræddum stað.

Umhverfisráð samþykkti síðan fyrir sitt leyti hinn 9. mars 2005 að hluti hússins að Austurvegi 18-20 yrði nýttur undir dekkjaverkstæði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um sjón- og hljóðmengun og um almennan þrifnað. Var heimiluð starfsemi talin rúmast innan gildandi skipulags svæðisins.  Nágrannar þeir, sem gert höfðu athugasemdir við grenndarkynningu erindis kæranda, kærðu þessa afgreiðslu umhverfisráðs til úrskurðarnefndarinnar.  Töldu þeir ákvörðunina fara í bága við gildandi aðalskipulag bæjarins og skírskotuðu jafnframt til framkominna athugasemda við grenndarkynningu málsins er lutu að því að slíkri starfsemi, í næsta nágrenni íbúðarbyggðar, fylgdi óviðunandi ónæði.

Heilbrigðiseftirlit Austurlands sendi bæjaryfirvöldum umsögn sína um rekstur hjólbarðaverkstæðisins í bréfi, dags. 29. mars 2005, þar sem fram kom að ekkert væri því til fyrirstöðu að gefið yrði út starfsleyfi fyrir dekkjaverkstæði á umsóttum stað svo framarlega sem skipulagsyfirvöld heimiluðu notkun hússins til starfseminnar.

Málið var loks til lykta leitt á fundi bæjarstjórnar Seyðisfjarðar hinn 26. maí 2005 þar sem umsókn kæranda um nýtingu hluta hússins að Austurvegi 18-20 undir hjólbarðaþjónustu var synjað af meirihluta bæjarstjórnar.

Kærandi skaut þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan er vikið en fyrrnefnd kæra á afgreiðslu umhverfisráðs um sama efni var dregin til baka að fenginni ákvörðun bæjarstjórnar.

Málsrök kæranda:  Kærandi skírskotar til afstöðu umhverfisráðs bæjarins um að skipulag væri ekki því í vegi að rekin væri dekkjaþjónusta í hluta hússins að Austurvegi 18-20.  Ráðist hafi verið í töluverðan kostnað við framkvæmdir en kærandi hafi ekki getað starfrækt hjólbarðaþjónustu sína frá því í október 2004 vegna deilumáls þessa og af þeim sökum komi til álita bótaskylda bæjaryfirvalda.  Kærandi lýsir sig jafnframt ósáttan við hina kærðu ákvörðun í ljósi þess að umsókn hans, sem synjað hafi verið, hafi einnig lotið að breytingum á umræddu húsi vegna verslunarrýmis og íbúðar.

Málsrök Seyðisfjarðarkaupstaðar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er á það bent að hin kærða ákvörðun hafi einungis snúist um rekstur dekkjaverkstæðis á umdeildum stað og rökstuðningur fyrir afstöðu meirihluta bæjarstjórnar komi fram í fundargerð þess fundar þar sem ákvörðunin hafi verið tekin.

Umrætt svæði sé skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði í skipulagi og ekki verði séð af orðalagi gr. 4.5.1 og gr. 4.3.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, þar sem slík svæði séu skilgreind, að heimilt sé að hafa umdeilda starfsemi á umbeðnum stað.  Fái sú ályktun stuðning í orðalagi gr. 4.6.1 í nefndri reglugerð þar sem finna megi skilgreiningu á athafnasvæðum í skipulagi.  Á þeim svæðum sé fyrst og fremst gert ráð fyrir atvinnustarfsemi þar sem lítil hætta sé á mengun, svo sem léttum iðnaði, vörugeymslum og hreinlegum verkstæðum en dekkjaverkstæði hljóti að falla undir síðastgreint hugtak.  Hafi því ekki verið annað fært en að hafna erindi kæranda að þessu leyti.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun var á því byggð að óheimilt væri að starfrækja hjólbarðaþjónustu eða dekkjaverkstæði á svæðum sem ætluð væru fyrir verslun og þjónustustarfsemi í skipulagi.

Í 4. kafla skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 eru landnotkunarflokkar í skipulagi skilgreindir.  Ákvæði kaflans eru mjög almennt orðuð og víða er að finna heimildir fyrir annarri starfsemi en skilgreind landnotkun skipulagssvæðis felur í sér.  Þannig er í gr. 4.5.1, sem fjallar um verslunar- og þjónustusvæði, gert ráð fyrir íbúðum á þeim svæðum þar sem aðstæður leyfa og í gr. 4.2.1 um íbúðarsvæði er heimiluð þjónustustarfsemi við íbúa viðkomandi hverfis, s.s. verslanir, hreinlegur iðnaður, handiðnaðarfyrirtæki, þjónustustarfsemi eða önnur starfsemi sem ætlað sé að valdi ekki óþægindum vegna lyktar, hávaða, óþrifnaðar eða óeðlilega mikillar umferðar.  Af þessu leiðir að við túlkun þessara ákvæða verður fyrst og fremst að hafa í huga hvort sambýli mismunandi starfsemi sé til þess fallið að valda árekstrum eða sérstökum óþægindum.

Ekki verður talið að hjólbarðaþjónusta af þeirri gerð sem kærandi hyggst starfrækja hafi í för með sér meiri truflun eða óþægindi fyrir nágranna en búast má við að stafi frá annarri þjónustustarfemi af ýmsu tagi.  Eru þess og dæmi að hjólbarðaþjónusta hafi verið heimiluð á svæðum sem í skipulagi eru ætluð undir verslunar- og þjónustustarfsemi að því er virðist án sýnlegra vandkvæða.  Þykir orðalag skipulagsreglugerðar um skilgreiningu verslunar- og þjónustusvæða ekki heldur gefa tilefni til þeirrar þröngu túlkunar  sem lögð var til grundvallar við ákvörðun bæjarstjórnar í málinu.  Verður því að telja að starfræksla hjólbarðaþjónustu að Austurvegi 18-20 sé í samræmi við gildandi aðalskipulag Seyðisfjarðar.

Almennt eiga fasteignaeigendur rétt á því að nýta fasteignir sínar í samræmi við gildandi skipulag og verða aðrir sem kunna að eiga hagsmuna að gæta að sæta því.  Þessara sjónarmiða var ekki gætt við ákvörðun bæjarstjórnar í málinu og er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hún hafi ekki verið reist á réttum forsendum.  Verður hún því felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 26. maí 2005, um að synja umsókn kæranda um nýtingu hluta fasteignarinnar að Austurvegi 18-20, Seyðisfirði, undir hjólbarðaþjónustu, er felld úr gildi.

 

 

____________________________
Ásgeir Magnússon

 

________________________                    ________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Ingibjörg Ingvadóttir

64/2005 Tjarnarbraut

Með

Ár 2005, föstudaginn 16. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2005, kæra eiganda bakhúss að Tjarnarbraut 29, Hafnarfirði á synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 29. mars 2005, sem staðfest var í bæjarráði Hafnarfjarðar hinn 21. júlí 2005, á umsókn kæranda um viðbyggingu og breytingu á notkun greinds bakhúss úr iðnaðarhúsnæði í íbúðarhúsnæði.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. ágúst 2005, er barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kærir J, eigandi um 60 fermetra bakhúss að Tjarnarbraut 29, Hafnarfirði, þá afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 29. mars 2005 að synja umsókn kæranda um að reisa um fjögurra fermetra anddyri við umrætt bakhús og að breyta notkun þess úr iðnaðarhúsnæði í íbúð.  Bæjarráð Hafnarfjarðar staðfesti þá afgreiðslu hinn 21. júlí 2005 í umboði bæjarstjórnar.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Húsið að Tjarnarbraut 29 er þriggja íbúða hús og á lóðinni er tæplega 60 fermetra bakhús sem mun hafa verið byggt á árinu 1958 sem geymsluskúr.  Lóðin er 401 fermetri að flatarmáli.  Bakhúsið er sérstakur eignarhluti samkvæmt fasteignamatsskrá og hefur verið nýtt undir prentsmiðju um áratuga skeið.

Kærandi, sem á íbúð í húsinu að Tjarnarbraut 29, mun hafa keypt umrætt bakhús árið 2000 er starfsemi, sem þar var fyrir, var hætt.  Hinn 13. maí 2003 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar fyrirspurn kæranda um hvort heimilað yrði að breyta notkun bakhússins úr iðnaðarhúsi í íbúð.  Erindinu fylgdi uppdráttur og samþykki meðeiganda að lóð.  Var erindinu vísað til bæjarskipulags þar sem um var að ræða fyrirspurn um breytta notkun húsnæðisins.

Erindi kæranda var tekið fyrir á fundum skipulags- og byggingarráðs hinn 20. maí og 3. júní 2003 og sú ákvörðun tekin að fela bæjarskipulagi að grenndarkynna erindið þegar byggingarleyfisumsókn lægi fyrir, með því fororði að húsnæðið uppfyllti skilyrði byggingarreglugerðar um íbúðir.

Erindi kæranda var síðan grenndarkynnt með bréfi, dags. 24. september 2003, í kjölfar framlagningar aðaluppdráttar vegna breyttrar notkunar og gerð anddyris við umrætt bakhús, dags. 6. september s.á., og bárust athugasemdir frá tveimur nágrönnum kæranda þar sem kynntri breytingu notkunar var mótmælt.

Erindið var loks tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 4. nóvember 2003 og það afgreitt með svofelldri bókun:  „Tekin fyrir að nýju fyrirspurn Jóhanns Tryggva Jónssonar dags. 13.05.03 um að breyta iðnaðarhúsnæði mhl. 02 í íbúð.  Erindið var í grenndarkynningu og athugasemdir bárust.  Á grundvelli athugasemda og fyrirliggjandi gagna frá 1957 um að leyfi hafi verið veitt fyrir geymsluskúr telur skipulags- og byggingarráð ekki rétt að heimila breytingu yfir í íbúðarhús og eðlilegra sé að nýta húsið sem geymslu eða bílskúr og synjar erindinu eins og það liggur fyrir.”

Kærandi í máli þessu kærði þessa afstöðu skipulags- og byggingarráðs til úrskurðarnefndarinnar sem vísað kærunni frá með úrskurði, uppkveðnum hinn 23. nóvember 2004, þar sem umdeild bókun skipulags- og byggingarráðs í því máli fól í sér afstöðu til fyrirspurnar en ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í kjölfar úrskurðarins samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi og skipulags- og byggingarráð að grenndarkynna byggingarleyfisumsókn kæranda, um að reisa 3,3 fermetra anddyri við suðurhlið bakhússins að Tjarnarbraut 29 og um breytta notkun hússins í íbúð.  Lauk grenndarkynningunni hinn 11. mars 2005 og bárust athugasemdir við fyrirhugaða breytingu frá nágrönnum sem gert höfðu athugasemdir við fyrri grenndarkynningu á árinu 2003. 

Athugasemdirnar lutu að því að húsið að Tjarnarbraut 29 hafi á sínum tíma verið tveggja íbúða hús, en grafið hafi verið frá geymslukjallara hússins og honum breytt í íbúð.  Hafi umrætt bakhús verið reist sem geymsluskúr sem síðar hafi verið samþykktur sem iðnaðarhúsnæði.  Austurhluti umræddrar lóðar nái upp undir glugga bakhússins og suðurgluggar njóti lítillar sólar en húsið hafi ekki leyfi til iðnaðarstarfsemi í dag.  Fjöldi bílastæða fyrir umrætt hús sé ónógur og bil milli húsa sé ekki í samræmi við 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og standist bakhúsið engan veginn reglur um einbýlishús.

Skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar tók málið til afgreiðslu hinn 29. mars 2005 og hafnaði umræddu byggingarleyfi með vísan til framkominna athugasemda og fyrirliggjandi gagna frá árinu 1957 um að umrætt bakhús hafi verið samþykkt sem geymsluskúr.  Kærandi skaut þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði kærunni frá hinn 14. júlí sl., þar sem á skorti að sveitarstjórn hefði staðfest umrædda afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Bæjarráð Hafnarfjarðar tók umdeilda afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs fyrir á fundi hinn 21. júlí 2005 og staðfesti afgreiðslu ráðsins í umboði bæjarstjórnar með sömu rökum og sú ákvörðun hafði byggst á.  Kærandi hefur nú skotið þessari afgreiðslu bæjarráðs til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að bakhúsið að Tjarnarbraut 29 sé þinglýst sem iðnaðarhúsnæði og skráð sem sérstök fasteign. 

Kærandi bendir á að framkomnar athugasemdir um ónóg bílastæði, lóðarskort bakhússins og áhrif á götumynd, sem fram hafi komið við fyrri grenndarkynningu, eigi ekki við rök að styðjast. 

Við endurbætur á Tjarnarbraut á árinu 2001 hafi gleymst að gera ráð fyrir stæðum fyrir íbúðarhúsið að Tjarnarbraut 29, sem sé þriggja íbúða hús.  Vegna athugasemda íbúa hússins hafi skipulagi götunnar verið breytt og komið fyrir þremur bílastæðum framan við húsið.  Fyrir sé aðkeyrsla að bakhúsi lóðarinnar sem yrði bílastæði fyrir bakhúsið ef breytt yrði í íbúð.  Bendir kærandi á að eignaskiptasamningur vegna fasteignarinnar að Tjarnarbraut 29 frá árinu 1985 beri með sér að bakhúsið eigi 14,65% hlut í heildarlóð að Tjarnarbraut 29.  Umrædd bygging sé bakhús og hefði umsótt breyting ekki áhrif á götumynd Tjarnarbrautar.

Loks lýsir kærandi sig ósáttan við þá forsendu fyrir afgreiðslu erindis hans að leyfi fyrir umræddu húsi frá árinu 1957 hafi miðað við nýtingu þess sem geymsluskúrs.  Ljóst sé að um sé að ræða skráð iðnaðarhúsnæði sem hafi verið notað sem slíkt í áratugi.  Telja verði að bakhúsið henti betur til íbúðarnota en til iðnaðarstarfsemi, enda standi húsið inni á íbúðarlóð.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Í fyrirliggjandi bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar í fyrra máli um sama efni, er sent var kæranda í tilefni af bréfi hans, dags. 27. nóvember 2003, kemur fram það álit að umdeilt húsnæði, sem leyfi hafi verið veitt fyrir sem geymsluskúr á árinu 1957, henti ekki til íbúðar og aðeins verði fyrir hendi þrjú bílastæði fyrir þær fjórar íbúðir sem á lóðinni yrðu.  Nýting lóðarinnar fyrir fjórar íbúðir samræmist ekki heildarskipulagi götunnar en bent hafi verið á hentugri nýtingu húsnæðisins svo sem undir bílskúr.

Í minnispunktum starfsmanns umhverfis- og tæknisviðs Hafnarfjarðar frá 17. mars 2005, þar sem fjallað er um framkomnar athugasemdir við grenndarkynningu umdeildrar byggingarleyfisumsóknar, er tekið undir framkomnar athugasemdir hvað varðar nálægð milli húsa og brunavarnir og talið að ekki væri fullnægt kröfum um bílastæði.  Fyrirhuguð íbúð nyti lítillar birtu þar sem hluti bakhússins væri niðurgrafinn og vegna skuggavarps frá íbúðarhúsi því sem fyrir væri á lóðinni.  Þá skírskota bæjaryfirvöld til þess að húsin að Tjarnarbraut 21-27 séu einbýlis- eða tvíbýlishús og að umrætt bakhús hafi aðeins tvær gluggahliðar og sé hátt barð fyrir framan aðra þeirra.  Ef fyrirhuguð viðbygging yrði reist við skúrinn yrði fjarlægð milli húsa á lóðinni um 2,2 metrar.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin og starfsmenn hennar kynntu sér óformlega staðhætti á vettvangi hinn 23. júní 2005.

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun var hafnað umsókn kæranda um byggingu um fjögurra fermetra anddyris við um 60 fermetra bakhús að Tjarnarbraut 29 og breytingu á notkun hússins í íbúð.

Umrætt bakhús stendur lágt og er að hluta til niðurgrafið og er aðeins suðurhlið hússins ofan lóðaryfirborðs.  Við austurhlið hússins er brekka í lóðinni sem fer lækkandi til suðurs í átt að íbúðarhúsi því er á lóðinni stendur.  Ber yfirborð lóðarinnar að austanverðu við glugga hússins á þeirri hlið en vesturhlið hússins er sambyggð bílskúr á næstu lóð og hefur húsið því enga glugga til vesturs.  Austurhluti bakhússins er í um fjögurra metra fjarlægð frá umræddu íbúðarhúsi, en ef umsótt viðbygging væri reist, yrði skemmsta fjarlægð milli húsanna um 2,2 metrar.  Fyrir liggur að upphaflega var heimilað að nýta húsið sem geymsluskúr en ekki liggja fyrir gögn um það hvort bæjaryfirvöld hafi síðar veitt leyfi fyrir breyttri notkun hússins til iðnaðarstarfsemi.  Skráning hússins sem iðnaðarhúsnæði í fasteignamatsskrá ræður ekki úrslitum í því efni.  Með samþykkt íbúðar í kjallara umrædds húss er það orðið þríbýlishús en húsin að Tjarnarbraut 21-27 (oddatölur), sem mynda götulínu með greindu húsi, eru einbýlis- og tvíbýlishús.

Þegar hafðir eru í huga ofangreindir staðhættir verður að telja umrætt bakhús illa fallið til íbúðar.  Útsýni og birta munu verða af skornum skammti sökum þess hve húsið liggur lágt í lóð og vegna skuggavarps frá íbúðarhúsinu að Tjarnarbraut 29 svo að færi í bága við markmið gr. 92.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Þá liggur fyrir að viðbygging nær íbúðarhúsinu en nú er bryti gegn ákvæðum um lágmarksfjarlægð milli húsa skv. gr. 75.3 og gr. 75.4, auk þess ef heimila ætti breytta notkun bakhússins í íbúð yrði að vera eldvarnarveggur milli húsanna skv. gr. 75.6 í nefndri reglugerð.  Þá myndi fjölgun um eina íbúð á umræddri lóð víkja enn frekar en orðið er frá þeirri nýtingu lóða sem ríkjandi er við götuna.

Að þessu virtu og með hliðsjón af fordæmisgildi slíkrar leyfisveitingar, er hér um ræðir, verður ekki fallist á ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 29. mars 2005, sem staðfest var í bæjarráði Hafnarfjarðar hinn 21. júlí 2005, að synja umsókn kæranda um að reisa um fjögurra fermetra anddyri við bakhús að Tjarnarbraut 29, Hafnarfirði og að breyta notkun þess í íbúð.

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir