Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

13/2007 Fróðaþing

Ár 2007, fimmtudaginn 8. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 13/2007, kæra á samþykki bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. desember 2006 fyrir breytingu á deiliskipulagi er fól í sér breytta stöðu húss, færslu bílastæða og breytta aðkomu vegna lóðarinnar að Fróðaþingi 20, Kópavogi.  Þá er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 11. desember 2006 að veita byggingarleyfi í samræmi við breytt deiliskipulag vegna nefndrar lóðar. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. febrúar 2007, er barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærir S, lóðarhafi Fróðaþings 40, Kópavogi, samþykki bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. desember 2006 fyrir breytingu á deiliskipulagi er fól í sér breytta stöðu húss, færslu bílastæða og breytta aðkomu vegna lóðarinnar að Fróðaþingi 20, Kópavogi.  Þá er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 11. desember 2006 að veita byggingarleyfi  fyrir einbýlishúsi á nefndri lóð.  Bæjarstjórn staðfesti ákvörðun byggingarfulltrúa hinn 9. janúar 2007. 

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni.  Úrskurðarnefndinni hafa borist andmæli byggingarleyfishafa og hefur nefndin aflað sér nokkurra upplýsinga varðandi málið.  Þrátt fyrir að umbeðin gögn er málið varða hafa ekki borist frá bæjaryfirvöldum þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að taka til úrskurðar skipulagsþátt kærunnar og bráðabirgðakröfu um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi. 

Málavextir:  Hinn 12. desember 2006 samþykkti bæjarstjórn Kópavogs breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina að Fróðaþingi 20, að undangenginni umsókn lóðarhafa þar um.  Mun breytingin hafa falið í sér breytta stöðu fyrirhugaðs húss á lóð, færslu bílastæða og að aðkoma að lóð skyldi vera frá annarri götu en upphaflega var gert ráð fyrir.  Var breytingartillagan grenndarkynnt sem óveruleg breyting á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Byggingarfulltrúi veitti byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á nefndri lóð í samræmi við fyrrnefnda breytingartillögu hinn 11. desember 2006 er bæjarstjórn staðfesti hinn 9. janúar 2007. 

Málsrök kæranda:  Kærandi gerir athugasemdir við málsmeðferð og efni hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. 

Vafi sé í huga kæranda um hvort ákvörðun bæjarskipulags um grenndarkynningu hafi verið í samræmi við lög og ekki hafi verið færð fram rök fyrir breytingunni.  Áttundi liður deiliskipulagsskilmála, er bæjaryfirvöld vitni til, geti ekki heimilað svo veigamikla breytingu á stöðu húss og aðkomu að lóð er hér um ræði.  Hin kærða ákvörðun fari á skjön við synjun sambærilegs erindis lóðarhafa að Fróðaþingi 22, en eigi sömu sjónarmið eigi við í báðum tilvikum.  Grenndarkynning hafi ekki náð til allra hagsmunaaðila og kynningargögn hafi verið villandi þar sem sýnd hafi verið breytt aðkoma að lóðinni að Fróðaþingi 22 þrátt fyrir synjun um þá breytingu. 

Umdeild breyting og byggingarleyfi raski grenndarhagsmunum kæranda með því að aðkoma að Fróðaþingi 20 sé færð að götu er liggi við suðurlóð kæranda þar sem engin aðkoma sé fyrir að lóðum.  Breytingin hafi því í för með sér aukna umferð og annað ónæði sem raski lögvörðum hagsmunum kæranda auk þess sem snúningur umdeilds húss um 90 gráður eyðileggi fyrirhugaða götumynd. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er krafist frávísunar málsins og að stöðvunarkröfu kæranda verði hafnað.  Byggingarleyfishafi krefst jafnframt kærumálskostnaðar. 

Hið kærða byggingarleyfi styðjist við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og staðfest deiliskipulag sem breytt hafi verið með grenndarkynningu.  Ákvörðunin, sem sé stjórnvaldsákvörðun, hafi verið tilkynnt byggingarleyfishafa með opinberri birtingu hinn 15. desember 2006 og sé bindandi frá þeim tíma, sbr. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Kæra í máli þessu hafi því borist að liðnum kærufresti og beri af þeim sökum að vísa málinu frá.  Bent sé á að þeim sem hafi tjáð sig við grenndarkynningu skuli tilkynnt um lyktir máls og ekki sé kunnugt um að misbrestur hafi orðið í því efni. 

Samkvæmt 8. lið skilmála umrædds deiliskipulags komi skýrt fram að á teikningu séu sýnd dæmi um staðsetningu bílastæða og aðkomu að bílgeymslum en hönnuðum sé heimilt að gera tillögu að annarri staðsetningu.  Kæranda, sem lóðarhafa, hafi því átt að vera fullkunnugt um þessa skilmála og að staðsetning bílastæða og aðkoma að bílgeymslum kynni að verða útfærð nánar. 

Framkvæmdir séu hafnar að Fróðaþingi 20 á grundvelli lögmæts byggingarleyfis og hafi byggingarleyfishafi tekist á hendur miklar fjárskuldbindingar í því sambandi og hafi nú þegar selt íbúðarhús sitt.  Ekki fái staðist að réttur byggingarleyfishafa samkvæmt lögmætri ákvörðun eigi að víkja fyrir lítt skilgreindum grenndarhagsmunum.  Í lokamálslið 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga segi að ákvörðun sveitarstjórnar skuli standa við þessar aðstæður en að bótaréttur kunni að skapast þeim til handa sem verði fyrir hagsmunaröskun vegna skipulagsbreytingarinnar. 

Ekki eigi hér að skipta máli hvort útfærsla á deiliskipulagi lóðarinnar að Fróðaþingi 20 hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda, enda sé nefnt ákvæði 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga undantekningarákvæði frá 1. og 3. mgr. greinarinnar.  Þá verði jafnframt að skýra 2. mgr. 26. gr. laganna til samræmis við stjórnarskrárvarinn sjálfsforræðisrétt sveitarfélaga og á þann veg að Skipulagsstofnun hafi ekki endurskoðunarvald um óverulegar breytingar á deiliskipulagi. 

Krafa um kærumálskostnað sé sett fram í ljósi þess að byggingarleyfishafi hafi verið knúinn til að bregðast við kæru sem sé sett fram að ósekju.  Tafir á byggingarframkvæmdum hafi þegar valdið byggingarleyfishafa tjóni og augljóst að frekari tafir auki þann skaða.  Þótt ekki sé í lögum heimild fyrir kærumálskostnaði í málum fyrir úrskurðarnefndinni geti hún sem sjálfstætt stjórnvald ákvarðað greiðslu kostnaðar á málefnalegum forsendum.  Ennfremur sé minnt á að í 8. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga segi að kostnaður vegna úrskurðarnefndar greiðist úr ríkissjóði. 

Niðurstaða:  Hin kærða deiliskipulagsbreyting var gerð á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem óveruleg breyting á gildandi deiliskipulagi. 

Samkvæmt 26. gr. skipulags- og byggingarlaga er meginreglan sú að breytingar á deiliskipulagi sæti sömu málsmeðferð og nýtt deiliskipulag samkvæmt 25. gr. laganna.  Í því felst m.a. að auglýsa skal tillöguna í Lögbirtingarblaði og með öðrum áberandi hætti og skal mönnum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum innan ákveðins frests í samræmi við 1. og 2. mgr. 18. gr. laganna.  Í 2. mgr. 26. gr. er sú undantekning gerð, þegar um óverulega deiliskipulagsbreytingu er að ræða, að falla má frá auglýsingu en tillagan í stað þess grenndarkynnt samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Skal skipulagsbreytingin send Skipulagsstofnun ásamt yfirlýsingu um að sveitarstjórn taki að sér að bæta það tjón er einstakir aðilar kunni að verða fyrir við breytinguna.  Í 3. mgr. 26. gr. er síðan kveðið á um að birta skuli auglýsingu um breytt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda.

Fyrir liggur að hin samþykkta deiliskipulagsbreyting var ekki send Skipulagsstofnun til yfirferðar ásamt fyrrnefndri yfirlýsingu sveitarstjórnar og að auglýsing um gildistöku hennar hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Telur úrskurðarnefndin ótvírætt að birta þurfi gildistökuauglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda vegna deiliskipulagsbreytingar sem farið er með samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Tekin eru af öll tvímæli um þetta atriði í 3. mgr. ákvæðisins, sem væri augljóslega óþarft ætti það aðeins við um breytingar samkvæmt 1. mgr. 26. gr., enda er þar vísað til málsmeðferðar nýs skipulags sem sætir slíkri auglýsingu samkvæmt 25. gr. laganna.  Úrskurðarnefndin byggði á þessari lagatúlkun í úrskurði sínum uppkveðnum hinn 2. nóvember 2006 í máli nr. 54/2006 þar sem fallist var á kröfu Kópavogsbæjar um frávísun með þeim rökum að umþrætt deiliskipulagsbreyting í því máli, sem farið hafði verið með samkvæmt fyrrnefndri 2. mgr. 26. gr., hefði hvorki verið send Skipulagsstofnun né auglýsing um gildistöku hennar verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Samkvæmt framansögðu er málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum ekki lokið og hefur hún ekki tekið gildi.  Ber því að vísa kæru vegna deiliskipulagsbreytingarinnar frá með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Byggingarleyfishafi hefur í máli þessu gert kröfu um kærumálskostnað.  Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar eru markaðar í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga en þar er ekki að finna heimild fyrir úrskurðarnefndina til að úrskurða um kærumálskostnað á hendur málsaðilum.  Verður ekki fallist á að unnt sé að úrskurða um slíkan kostnað án beinnar lagastoðar og styðst sú ályktun við lögmætisreglu íslensks stjórnarfars- og stjórnskipunarréttar, en hún felur m.a. í sér að hver sú athöfn stjórnvalda sem leggur skyldur á herðar einstaklingum verði að eiga sér ótvíræða lagastoð.  Verður kröfu byggingarleyfishafa um kærumálskostnað af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Áhöld eru uppi í málinu m.a. um það hvort umþrætt byggingarleyfi hafi verið í samræmi við gildandi deiliskipulag er það var veitt.  Með vísan til þess, og með hliðsjón af því að úrskurðarnefndinni hafa enn ekki borist umbeðin gögn er málið varða frá Kópavogsbæ, þykir rétt að verða við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. 

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kæranda um ógildingu á samþykki bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. desember 2006 fyrir breytingu á deiliskipulagi er fól í sér breytta stöðu húss, færslu bílastæða og breytta aðkomu vegna lóðarinnar að Fróðaþingi 20, Kópavogi.

Kröfu byggingarleyfishafa um kærumálskostnað er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Framkvæmdir samkvæmt byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni að Fróðaþingi 20, Kópavogi, er byggingarfulltrúi Kópavogs veitti hinn 11. desember 2006 og bæjarstjórn Kópavogs staðfesti hinn 9. janúar 2007, skulu stöðvaðar þar til endanlegur úrskurður gengur í máli þessu varðandi nefnt byggingarleyfi. 

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________                  ____________________________
           Þorsteinn Þorsteinsson                                        Geirharður Þorsteinsson