Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

62/2006 Eyrarstígur

Ár 2007, fimmtudaginn 8. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 62/2006, kæra á samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 26. júlí 2006 um byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. ágúst 2006, er barst nefndinni hinn 4. sama mánaðar, kæra H og G, eigendur hússins að Eyrarstíg 2, Reyðarfirði samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 26. júlí 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði.  Á fundi bæjarráðs hinn 1. ágúst 2006 var samþykkt nefndarinnar staðfest. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda.  Fyrir liggur að framkvæmdir við hina umdeildu bílgeymslu eru ekki hafnar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfuna um stöðvun framkvæmda heldur kveðinn upp efnisúrskurður í málinu. 

Málavextir:  Hinn 18. maí 2006 barst embætti byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar umsókn frá eiganda hússins nr. 4 við Eyrarveg á Reyðarfirði, m.a. um byggingu bílgeymslu á lóðinni.  Var samkvæmt umsókninni gert ráð fyrir að bílgeymslan yrði staðsett austan við húsið, um einn metra frá mörkum lóðarinnar að lóð nr. 2 við Eyrarveg, en á henni er bílgeymsla sem stendur fast að lóðarmörkum.  Ákvað byggingarfulltrúi að grenndarkynna beiðnina þar sem ekki væri til deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Á fundi umhverfismálaráðs hinn 12. júlí 2006 var umsóknin tekin fyrir ásamt athugasemdum kærenda og var afgreiðslu málsins frestað.  Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi ráðsins hinn 26. júlí s.á. og var eftirfarandi fært til bókar:  „Nefndin hefur skoðað málið vandlega og veitir byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4.  Uppfylla þarf skilyrði um brunavarnir vegna fjarlægðar á milli húsa.  Nefndin telur að framkvæmdin skerði útsýni að mjög litlu leyti.  Þar sem bílgeymsla á lóð nr. 2 er byggð mjög nálægt lóðarmörkum lítur ráðið svo á að um gagnkvæman rétt til byggingar bílgeymslu sé að ræða við lóðarmörk.“ 

Framangreindri samþykkt umhverfismálaráðs hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að verði af byggingu bílgeymslu í samræmi við hið kærða leyfi muni það hafa í för með sér birtu- og útsýnisskerðingu þar sem að nokkru yrði byggt fyrir glugga á húsi þeirra. 

Kærendur vísa til þess að hið kærða byggingarleyfi sé í andstöðu við ákvæði gr. 75.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, en samkvæmt ákvæðinu skuli lágmarks fjarlægð frá lóðamörkum vera þrír metrar.  Í því tilfelli er hér um ræði sé fjarlægðin aðeins einn metri og einn og hálfur metri sé á milli bílgeymslu á lóðinni nr. 2 við Eyrarstíg og þeirrar er um sé deilt í málinu.  Telji kærendur þetta fyrirkomulag í það minnsta varhugavert með tilliti til sambrunahættu. 

Kærendur gera athugasemd við undirbúning og málsmeðferð hins kærða leyfis og telja að gögn er notuð hafi verið við grenndarkynningu þess hafi ekki verið rétt.  Í þeim hafi m.a. verið vísað til gr. 12.5 í byggingarreglugerð í stað 2. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Málsrök Fjarðabyggðar:  Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ákvörðun umhverfismálaráðs byggi á því að bílskúr á lóð kærenda sé byggður aðeins um hálfan metra frá mörkum lóðanna að Eyrarstíg 2 og 4.  Bílastæði á lóðinni nr. 4 við Eyrarstíg hafi ávallt verið við mörk lóðanna og geti raunar ekki verið annars staðar.  Þegar veitt hafi verið heimild til byggingar bílskúrs á lóð kærenda hafi verið talið að um gagnkvæman byggingarrétt væri að ræða. 

Við ákvörðun um staðsetningu og stærð hinnar umdeildu bílgeymslu sé fullt tillit tekið til kærenda.  Þannig sé hún staðsett á mörkum lóðarinnar nr. 8 við Brekkugötu með samþykki eigenda þess húss ásamt því að hún sé höfð aðeins í 60 sentimetra fjarlægð frá íbúðarhúsi byggingarleyfishafa og sé hófleg að stærð. 

Varðandi birtuskerðingu sé bent á að þeir gluggar á húsi kærenda, er snúi að húsi byggingarleyfishafa og bygging bílgeymslunnar hafi áhrif á, séu á geymslu og þvottahúsi.  Eldhúsgluggi á húsi kærenda sé framan við fyrirhugaða bílgeymslu.  Því sé hafnað að kærendur verði fyrir útsýnisskerðingu enda þurfi að fella tré til að koma bílgeymslunni fyrir. 

Tekið sé fram að byggingarleyfið hafi verið veitt á þeim forsendum að brunakröfur verði í samræmi við ákvæði gr. 113.3, 113.4 og 113.6 í byggingarreglugerð. 

Grenndarkynningargögn hafi verið unnin af byggingarleyfishafa og megi rekja skekkju í þeim til loftmynda af svæðinu. 

Sjónarmið byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að hin umdeilda bílgeymsla muni uppfylla þær kröfur sem til hennar séu gerðar skv. 113 gr. í byggingarreglugerð og telji hann að ákvæði 75. gr. reglugerðarinnar eigi ekki við í þessu tilviki. 

Staðsetning bílgeymslunnar ákvarðist af því að hún hafi sem minnst grenndaráhrif og sé raunar eini mögulegi staðurinn sem hún geti verið á.  Þá sé bent á að eigendur hússins að Brekkugötu 8 hafi ekki sett fram neinar athugasemdir við byggingaráformin. 

Varðandi fullyrðingu kærenda þess efnis að þeir verði fyrir útsýnisskerðingu sé bent á að eina útsýnið sem þeir verði af sé bakgarður byggingarleyfishafa.  Gluggar á húsi kærenda er um ræði séu gegnt herbergisgluggum byggingarleyfishafa og vísi í vestur.  Skerðing verði ekki á sólarljósi fyrr en sólin sé komin norður fyrir vestur.  Þá sé degi farið að halla verulega, auk þess sem landfræðilegar aðstæður séu þess eðlis að sólargangur í vestri og norðan við vestur sé einungis yfir björtustu sumarmánuðina. 

Ekki sé réttmætt af hálfu kærenda að halda því fram að afstaða íbúðarhúss og bílgeymslu í þeirra eigu komi í veg fyrir byggingu hinnar umdeildu bílgeymslu.  Í hverfinu séu flest húsanna byggð á árunum 1960-1970 og við sum þeirra standi bílgeymslur við lóðamörk og séu sumar þeirra nær þeim en kærendur telji heimilt í kærumáli þessu. 

Að öðru leyti sé tekið undir sjónarmið þau er sett hafi verið fram af hálfu sveitarfélagsins. 

Niðurstaða:  Er hin kærða ákvörðun var tekin var í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 kveðið á um lágmarksfjarlægð frá lóðamörkum og minnsta bil milli húsa.  Þó var heimilt að víkja frá lágmarksfjarlægð frá lóðamörkum samkvæmt greininni í skipulagi eða með þinglýstum samningi lóðarhafa. 

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði og ekki liggur fyrir þinglýstur samningur lóðarhafa.  Var því ekki fullnægt skilyrðum til þess að heimila staðsetningu hinnar umdeildu bílgeymslu nær lóðamörkum en áskilið var í tilvitnuðu ákvæði svo sem gert var.  Því var hið umdeilda byggingarleyfi í andstöðu við gildandi ákvæði byggingarreglugerðar þegar leyfið var veitt og verður það af þeim sökum fellt úr gildi.  Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt nú hafi verið gerðar breytingar á umræddu reglugerðarákvæði til rýmkunar, enda verður hinu breytta ákvæði ekki beitt með afturvirkum hætti. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

 

Úrskurðarorð:

Samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 26. júlí 2006 um byggingarleyfi, sem staðfest var í bæjarráði hinn 1. ágúst 2006, fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði er felld úr gildi. 

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________                      _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                       Þorsteinn Þorsteinsson