Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

81/2005 Blesugróf

Ár 2007, fimmtudaginn 15. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2005, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur um breytt deiliskipulag fyrir Blesugróf.  

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. október 2005, er barst nefndinni hinn 27. sama mánaðar, kærir stjórn samtaka íbúa í Blesugróf samþykkt skipulagsráðs frá 26. september 2005 um breytt deiliskipulag Blesugrófar.  Á fundi borgarráðs hinn 29. sama mánaðar var afgreiðsla nefndarinnar staðfest. 

Við rannsókn úrskurðarnefndarinnar á málinu kom í ljós að kærandi er ekki lögaðili með skráða kennitölu.  Einn af stjórnarmönnum, Á, Bleikargróf 5, setti hins vegar fram kæru í eigin nafni og verður kæran því tekin til meðferðar hvað hann varðar.    

Málavextir:  Á fundi skipulagsfulltrúa hinn 24. júní 2005 var lögð fram umsókn félagsmálaráðuneytis f.h. Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík um lóð undir sambýli fyrir fatlaða og var fært til bókar að ekki væri gerð athugasemd við að unnin yrði tillaga að breyttu deiliskipulagi Blesugrófar vegna erindisins er síðar yrði grenndarkynnt.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 12. ágúst 2005 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Blesugrófar er m.a. fól í sér sameiningu lóðanna nr. 6 og 8 við Bleikargróf undir sambýli.  Var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum og stóð kynningin yfir frá 17. ágúst 2005 til 4. september s.á.  Athugasemdir bárust frá 14 aðilum, þ.á m. kæranda.  

Á fundi skipulagsráðs hinn 28. september 2005 var málið tekið fyrir á ný og lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa ásamt framkomnum athugasemdum og var tillagan samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Samþykkt, sbr. 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.“

Skipulagsstofnun tilkynnti í bréfi sínu, dags. 11. nóvember 2005, að hún gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt þar hinn 21. desember 2005.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að í hverfinu séu nú þegar tvö sambýli og tvö vinnuheimili fyrir fatlaða við Bjarkarás og Lækjarás.  Þessi starfsemi hafi verið í hverfinu í áratugi í góðu jafnvægi við umhverfi sitt og ekki skorið sig úr því litla byggðarlagi sem Blesugrófin sé.  Það sé álit kæranda að það raski fyrrgreindu jafnvægi að taka tvær lóðir í hverfinu undir starfsemi af þessu tagi. 

Bent sé á að Blesugrófarhverfi samanstandi af götunum Blesugróf, þar sem íbúar séu 125, Jöldugróf, þar sem íbúar séu 67, og Bleikargróf, þar sem íbúar séu 28, eða samtals 220.  Samkvæmt upplýsingum frá Svæðisskrifstofu fatlaðra séu 35 sambýli starfandi í borginni.  Íbúafjöldi Reykjavíkur sé um 113.000 og ef sama hlutfall sambýla væri um alla borg og nú sé í Blesugrófarhverfi væru sambýli fyrir fatlaða 1.035 í stað 35.  Með hinu kærða deiliskipulagi sé ætlunin að auka þetta hlutfall um helming. 

Yfirvöld verði að leitast við að gæta meðalhófs og hafa yfirsýn yfir viðfangsefni sín.  Að mati kæranda hafi það ekki tekist í þessu máli. 

Á fyrri stigum málsins hafi verið gerðar athugasemdir við að á sambýlum væri yfirleitt veitt þjónusta allan sólarhringinn og því mætti búast við aukinni umferð, ekki síst stærri bíla er þjónusti fatlaða.  Þá væri og um að ræða vinnustað sem fylgdi aukin umferð á öllum tímum sólarhringsins.  Bleikargróf, sem sé þröng og fámenn gata, myndi ekki bera þá miklu umferð sem komi til með að fylgja sambýli.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur sé landnotkun á reitnum skilgreind sem íbúðarsvæði þar sem gert sé ráð fyrir íbúðabyggð, þ.e. hefðbundnu íbúðarhúsnæði og annars konar íbúðum s.s. íbúðum fyrir stúdenta, dvalaríbúðum aldraðra, sambýlum fyrir fatlaða, heimili fyrir unglinga og börn og öðru íbúðarrými, ásamt tilheyrandi nærþjónustu.

Um sé að ræða deiliskipulagsbreytingu sem heimili nýtingu lóðar undir sambýli.  Hugtakið sambýli vísi til þess að um sé að ræða heimili fyrir fólk með þroskahömlun.  Slíkt heimili sé ekki opinber stofnun.  Mikilvægt sé að átta sig á því að um sé að ræða heimili eins og hvert annað í hverfinu, nema að því leyti að heimilisfólk þurfi aðstoð, eins til tveggja starfsmanna, til þess að geta búið í eigin íbúð vegna fötlunar sinnar.  Því sé hafnað að jafnræðisreglur séu brotnar á kæranda í máli þessu, enda hvergi í lögum eða reglugerðum kveðið á um að sambýlum fyrir fatlaða skuli dreift á grundvelli einhvers konar jafnræðissjónarmiða, enda um að ræða heimili venjulegs fólks.  Ekki séu þannig til sérstök viðmið um hlutfall íbúða fyrir fatlaða einstaklinga í hverfahlutum.  Í Blesugróf séu góð skilyrði til búsetu fyrir alla, stutt í útivistarsvæði og staðsetningin sé miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu.  Lítið sé um auðar lóðir í grónum borgarhlutum og því kjörið að nýta þessar lóðir undir sambýli.  Samkvæmt umsögn skipulagsfulltrúa geri deiliskipulagsbreytingin ráð fyrir sambýli fyrir fatlaða einstaklinga þar sem fjöldi íbúa verði um fimm til sex auk tveggja starfsmanna á tveimur til þremur vöktum á sólarhring.  Að auki njóti íbúar heimilisins ferðþjónustu fatlaðra til að komast leiða sinna.  Búast megi við að starfsmenn komi akandi til vinnu sinnar, þ.e. einn til tveir starfsmenn komi á morgnana og fari seinni partinn og þá komi aðrir í þeirra stað.  Við einbýlishús megi oft reikna með tveimur til þremur bílum á fjölskyldu.  Ekki sé gert ráð fyrir fleiri en fjórum bílastæðum samkvæmt breytingunni sem sé sami fjöldi og hafi verið samkvæmt eldra skipulagi.  Ekki verði því séð að meiri umferðarþungi fylgi sambýli fatlaðra en öðrum heimilum.

Jafnframt sé tekið fram að sambærileg heimili séu víða í borginni og í öllum tilfellum hafi slíkt fyrirkomulag gefið góða raun og hafi ríkt mikil og góð sátt við nágranna.

Minnt sé á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar.  Almennt verði menn að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.  Talið sé að þær breytingar á deiliskipulagi sem hér séu til umfjöllunar séu ekki þess eðlis að þær valdi óhóflegri skerðingu á hagsmunum kæranda þannig að ógildingu deiliskipulagsins varði.

Einnig sé á því byggt að löggjafinn hafi ákveðið að skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélögunum.  Það hafi verið ákvörðun borgaryfirvalda að heimila umræddar deiliskipulagsbreytingar fyrir Blesugróf og hafi kærandi ekki bent á neina annmarka á ákvörðuninni sem geti valdið ógildingu deiliskipulagsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulagsbreytingar fyrir Blesugróf er m.a. fól í sér heimild til að sameina einbýlishúsalóðirnar nr. 6 og 8 við Bleikargróf og nýta undir sambýli. 

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 eru lóðirnar að Bleikargróf 6 og 8 felldar undir landnotkunarflokkinn íbúðarsvæði og fellur því hin kærða ákvörðun að landnotkun aðalskipulags.    

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag og kusu borgaryfirvöld á undirbúningsstigi ákvörðunarinnar að neyta undanþáguheimildar 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi.  Verður að telja að það hafi verið heimilt eins og þarna stóð á, enda verður ekki talið að byggðarmynstur eða yfirbragð byggðarinnar breytist til mikilla muna við breytinguna. 
  
Kærandi heldur því fram að með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé með ólögmætum hætti gengið gegn grenndarhagsmunum hans sökum þess að í hverfinu séu nú þegar tvö sambýli og tvö vinnuheimili fyrir fatlaða.  Þessi starfsemi hafi verið í hverfinu í áratugi í góðu jafnvægi við umhverfi sitt.  Með hinni kærðu ákvörðun sé aftur á móti raskað jafnvægi hverfisins og meðalhófs ekki gætt.  Úrskurðarnefndin fellst ekki á þessi sjónarmið.  Verður ekki séð að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi í för með sér grenndaráhrif, svo sem aukna umferð eða ónæði, er leiða eigi til þess að fallist verði á kröfur kæranda um ógildingu ákvörðunarinnar. 

Samkvæmt framansögðu verður að telja að lagaskilyrðum hafi verið fullnægt og að málefnaleg rök hafi legið til grundvallar hinni kærðu ákvörðun og verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu samþykktar skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 28. september 2005 um breytt deiliskipulag Blesugrófar.       

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson