Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2007 Suðurströnd

Ár 2007, fimmtudaginn 15. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar  Seltjarnarness frá 11. janúar 2007 um að heimila byggingarfulltrúa bæjarins að gefa út takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu vegna byggingarleyfisumsóknar fyrir heilsuræktarstöð við Suðurströnd, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. janúar 2007, er barst nefndinni hinn 31. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h.  H, Steinavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 11. janúar 2007 að heimila byggingarfulltrúa bæjarins að gefa út takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu vegna byggingarleyfisumsóknar fyrir heilsuræktarstöð við Suðurströnd, Seltjarnarnesi.  Bæjarstjórn Seltjarnarness staðfesti greinda ákvörðun hinn 17. janúar 2007.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinni kærðu ákvörðun þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar.

Málsatvik og rök:  Hinn 25. júní 2005 voru haldnar almennar kosningar um skipulag og landnotkun á Hrólfsskálamel og Suðurströnd á Seltjarnarnesi og hlaut svokölluð S-tillaga, sem gerði ráð fyrir gervigrasvelli við Suðurströnd og íbúðarbyggð við Hrólfsskálamel, meirihluta atkvæða bæjarbúa.  Fyrirfram hafði verið gert ráð fyrir að niðurstaða kosninganna væri bindandi gagnvart bæjaryfirvöldum.  Var síðan unnið að gerð deiliskipulagstillagna fyrir íbúðarbyggð á Hrólfsskálamel og íþróttamannvirki á Suðurströnd sem öðluðust gildi hinn 16. október 2006 og 4. janúar 2007 og hefur kærandi í máli þessu kært þær skipulagsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar.  Eins og fyrr greinir samþykkti skipulags- og mannvirkjanefnd bæjarins að veitt yrði leyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum vegna fyrirhugaðrar heilsuræktarstöðvar skv. deiliskipulagi Suðurstrandar og munu framkvæmdir vera nýlega hafnar. 

Byggir kærandi kröfu sína um stöðvun framkvæmda á því að þær byggi á deiliskipulagi sem sé ólögmætt.  Skipulagið stangist á við niðurstöður bindandi kosninga í sveitarfélaginu og sé auk þess haldið ýmsum öðrum annmörkum sem tíundaðir séu í kærum kæranda vegna umræddra deiliskipulagsákvarðana.  Brýnt sé að stöðva framkvæmdir þar sem úrskurður um ógildi umrædds skipulags yrði ella haldlaus og framhald framkvæmda gæti haft áhrif á lyktir málsins auk þess sem  minni líkur yrðu á að tillit yrði tekið til sjónarmiða og hagsmuna kæranda.  Ljóst sé að kærandi hafi hagsmuna að gæta í máli þessu enda búi hann í næsta nágrenni við umrætt svæði.

Seltjarnarnesbær krefst frávísunar málsins en ella að stöðvunarkröfu verði hafnað. Vísa beri málinu frá  þar sem kærandi eigi ekki einstaklegra lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi hina kærðu ákvörðun og hafi ekki gert athugasemdir við deiliskipulag það sem ákvörðunin styðjist við og teljist því hafa samþykkt það skipulag.  Úrskurðarnefndin sé ekki til þess bær að fjalla um þá málsástæðu kæranda að með skipulaginu hafi verið farið gegn bindandi kosningu samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga enda eigi slíkur ágreiningur undir félagsmálaráðuneytið.  Úrskurðarnefndin geti eingöngu fjallað um hvort málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar og efni sé í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga.  Þessi málsástæða geti því ekki snert gildi hinnar kærðu ákvörðunar.  Skipulagið sé þar að auki í samræmi við þá tillögu, sem samþykkt hafi verið í kosningum í bæjarfélaginu sem grunnur að landnotkun umrædds svæðis við deiliskipulagningu þess, en tillögur þær sem kosið hafi verið um séu ekki ígildi skipulagstillagna.  Tillögurnar hafi ekki tekið til framkvæmda þeirra sem deilt sé um í máli þessu.  Deiliskipulag það sem hin kærða framkvæmd styðjist við hafi fengið lögmæta meðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og einungis hafi verið heimilaðar jarðvegsframkvæmdir og færsla lagna sem séu afturtækar framkvæmdir.  Ekki séu því efni til að stöðva umdeildar framkvæmdir en heimildir til slíkra þvingunarúrræða beri að túlka þröngt.

Niðurstaða:  Ekki verður fallist á að vísa frá kröfu kæranda um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda, en tekin verður afstaða til frávísunar málsins í endanlegum úrskurði, enda hefur úrskurðarnefndinni ekki gefist tóm til að meta og taka afstöðu til  atriða er haft geta þýðingu í því efni.

Hin kærða ákvörðun felur aðeins í sér heimild til jarðvegsframkvæmda og færslu á lögnum og er því viðurhlutalítið að færa hluti í fyrra horf beri nauðsyn til.  Af þeim sökum  þykir ekki nauðsyn knýja á um að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, um stöðvun framkvæmda við jarðvinnu og færslu lagna sem skipulags- og mannvirkjanefnd Seltjarnarness heimilaði hinn 11. janúar 2007, er hafnað.

 

 

_________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________    ____________________________
           Ásgeir Magnússon                                Geirharður Þorsteinsson