Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2007 Suðurströnd

Með

 

 

Ár 2007, fimmtudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar  Seltjarnarness frá 11. janúar 2007 um að heimila byggingarfulltrúa að gefa út takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu vegna byggingarleyfisumsóknar fyrir heilsuræktarstöð við Suðurströnd, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. janúar 2007, er barst nefndinni hinn 31. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h.  H, Steinavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 11. janúar 2007 að heimila byggingarfulltrúa að gefa út takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu vegna byggingarleyfisumsóknar fyrir heilsuræktarstöð við Suðurströnd, Seltjarnarnesi.  Bæjarstjórn staðfesti greinda ákvörðun hinn 17. janúar 2007.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá setti og kærandi fram kröfu um stöðvun framkvæmda þar til niðurstaða lægi fyrir í kærumálinu en með úrskurði úrskurðarnefndarinnar hinn 15. febrúar 2007 var þeirri kröfu hafnað.  

Málsatvik og rök:  Hinn 25. júní 2005 voru haldnar almennar kosningar um skipulag og landnotkun á Hrólfsskálamel og Suðurströnd á Seltjarnarnesi og hlaut svokölluð S-tillaga, sem gerði ráð fyrir gervigrasvelli við Suðurströnd og íbúðarbyggð við Hrólfsskálamel, meirihluta atkvæða bæjarbúa.  Fyrirfram hafði verið gert ráð fyrir að niðurstaða kosninganna væri bindandi gagnvart bæjaryfirvöldum.  Var síðan unnið að gerð deiliskipulagstillagna fyrir umrædd svæði sem öðluðust gildi hinn 16. október 2006 og 4. janúar 2007.  Kærandi máls þessa kærði einnig þær ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurðum uppkveðnum fyrr í dag vísaði málunum frá nefndinni.    

Hinn 11. janúar 2007 samþykkti skipulags- og mannvirkjanefnd að veitt yrði leyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar við íþróttamiðstöð við Suðurströnd.   

Byggir kærandi kröfu sína á því að hin kærða framkvæmd eigi stoð í deiliskipulagi sem sé ólögmætt.  Skipulagið stangist á við niðurstöður bindandi kosninga í sveitarfélaginu og sé auk þess haldið ýmsum öðrum annmörkum sem tíundaðir séu í kærum kæranda vegna umræddra deiliskipulagsákvarðana.  Ljóst sé að kærandi hafi hagsmuna að gæta í máli þessu enda búi hann í næsta nágrenni við umrætt svæði.

Seltjarnarnesbær krefst frávísunar málsins en ella að kröfu kæranda verði hafnað.  Vísa beri málinu frá  þar sem kærandi eigi ekki einstaklegra lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi hina kærðu ákvörðun enda hafi hann í engu gert grein fyrir hagsmunum sínum af því að fá hina kærðu ákvörðun úr gilda fellda eða hvaða efnislegu sjónarmið búi að baki kærunni.  Þá hafi kærandi ekki gert athugasemdir við deiliskipulag það sem ákvörðunin styðjist við og teljist því hafa samþykkt það skipulag.  Deiliskipulagið sé þar að auki í samræmi við þá tillögu, sem samþykkt hafi verið í kosningum í bæjarfélaginu sem grunnur að landnotkun umrædds svæðis við deiliskipulagningu þess, en tillögur þær sem kosið hafi verið um séu ekki ígildi skipulagstillagna.  Tillögurnar hafi ekki tekið til framkvæmda þeirra sem deilt sé um í máli þessu.  Deiliskipulag það sem hin kærða framkvæmd styðjist við hafi fengið lögmæta meðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og einungis hafi verið heimilaðar jarðvegsframkvæmdir og færsla lagna sem séu afturtækar framkvæmdir. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar skipulags- og mannvirkjanefndar  Seltjarnarness frá 11. janúar 2007 um að heimila byggingarfulltrúa að gefa út takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu vegna byggingarleyfisumsóknar fyrir viðbyggingu við íþróttamiðstöð við Suðurströnd, Seltjarnarnesi. 

Fyrir liggur að með ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 8. febrúar 2007, sem staðfest var í bæjarstjórn hinn 14. s.m., var byggingarleyfi veitt fyrir viðbyggingu við Íþróttamiðstöðina á Suðurströnd og hefur þeirri ákvörðun einnig verið skotið til úrskurðarnefndarinnar.  Eru með því leyfi heimilaðar sömu framkvæmdir og í leyfi því sem kæra í máli þessu tekur til, auk allra frekari framkvæmda við umrædda byggingu.  Eru engir hagsmunir því tengdir að fjalla frekar um leyfi það sem kært er í máli þessu eftir að endanlegt byggingarleyfi hefur komið í þess stað og verður máli þessu því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________ 
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________         ____________________________
           Ásgeir Magnússon                                         Geirharður Þorsteinsson       

 

6/2007 Suðurströnd

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 6/2007, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 13. desember 2006 um deiliskipulag á Suðurströnd, skóla- og íþróttasvæði.   

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. janúar 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. H, Steinavör 6, Seltjarnarnesi, samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 13. desember 2006 um deiliskipulag á Suðurströnd, skóla- og íþróttasvæði.   

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Málavextir:  Í júní árið 2005 voru haldnar almennar kosningar um skipulag og landnotkun á Hrólfsskálamel og Suðurströnd á Seltjarnarnesi og hlaut svokölluð S-tillaga, sem gerir m.a. ráð fyrir að áfram verði íþróttavöllur við Suðurströnd og m.a. íbúðarbyggð á Hrólfsskálamel, meirihluta atkvæða bæjarbúa en gert hafði verið ráð fyrir að niðurstaða kosninganna væri bindandi gagnvart bæjaryfirvöldum.  Í kjölfar niðurstöðu atkvæða-greiðslunnar var unnið nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið sem samþykkt var í bæjarstjórn og staðfest af ráðherra í maí 2006.  Auglýsing um gildistöku þess birtist í B- deild Stjórnartíðinda hinn 5. október s.á.  Þá var og unnið deiliskipulag af svæðum þeim er um ræðir og á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 21. september 2006 var samþykkt að vísa tillögu að deiliskipulagi Suðurstrandar, skóla- og íþróttamannvirkja, til bæjarstjórnar, sem á fundi hinn 25. s.m., ákvað að auglýsa tillöguna.  Var deilskipulagstillagan auglýst hinn 27. september 2006 og bárust tvær athugasemdir, önnur frá foreldraráði Gunnskóla Seltjarnarness og hin frá íbúum að Melabraut 21.  Hinn 13. desember 2006 samþykkti bæjarstjórn deiliskipulag Suðurstrandar, skóla- og íþróttasvæðis, og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda hinn 4. janúar 2007. 

Hið kærða deiliskipulag tekur til svæðis fyrir þjónustustofnanir bæjarfélagsins, svo sem grunnskóla, íþróttamiðstöðvar og íþróttasvæðis.  Samkvæmt skipulaginu er heimilt að reisa á svæðinu 3.400 fermetra nýbyggingar ofanjarðar og allt að 2.000 fermetra bílageymslur, að hluta neðanjarðar.  Nýbyggingar þær sem eru heimilaðar eru m.a. viðbygging íþróttamiðstöðvar og stækkun þjónustuaðstöðu á jarðhæð íbúða eldri borgara.  Á íþróttasvæðinu er gert ráð fyrir gervigrasvelli auk æfingavallar og hlaupabrautar.  Þá er heimilt að reisa yfirbyggða áhorfendastúku fyrir um 300 áhorfendur.  Gert er ráð fyrir flóðlýsingu við völlinn og allt að sex 22 metra háum möstrum.  

Framangreindri samþykkt bæjarstjórnar hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því haldið fram að hið kærða deiliskipulag víki í nokkrum grundvallaratriðum frá niðurstöðu kosninga þeirra er haldnar hafi verið á Seltjarnarnesi um skipulag Suðurstrandar og íbúðarbyggð á Hrólfsskálamel. 

Á skipulagsuppdrætti sé gert ráð fyrir byggingu, merktri H1, vestan við sundlaug, sem ekki hafi verið gerð grein fyrir eða sýnd á umræddu svæði á þeirri tillögu sem íbúar hafi kosið um.  Hið sama gildi um byggingar merktar Þ1 og ÍÞ sem og byggingu S1, þ.e. búningsklefa ásamt stúku.  Í greinargerð með tillögu S, þeirri er hlotið hafi meirihluta atkvæða, hafi komið fram með skýrum hætti að ekki hafi verið gert ráð fyrir nýbyggingum á Suðurströnd.  Gert hafi verið ráð fyrir gervigrasvelli, bættri aðkomu við vesturenda sundlaugarinnar, fjölgun bílastæða og hjárein til móts við núverandi innakstur að sundlaug og heilsugæslu.  Ekki hafi verið kveðið á um búningsklefa við völl eða stúku.  Hið kærða deiliskipulag sé því ekki í samræmi við þá tillögu sem íbúar hafi samþykkt, þrátt fyrir að ljóst sé af gögnum málsins að hún hafi tekið yfir sama svæði og skilgreint sé í hinu kærða deiliskipulagi.

Í hinu kærða deiliskipulagi sé gert ráð fyrir æfingavelli (fótboltavelli), austan gervigrasvallar, sem ekki hafi verið sýndur á tillögunni sem íbúar hafi kosið um og samþykkt.  Komi hann í stað bílastæða, sem tillagan hafi gert ráð fyrir.

Fram komi í deiliskipulaginu að á íþróttasvæðinu sé gert ráð fyrir flóðlýsingu og að umhverfis íþróttasvæðið sé heimilt að reisa gegnsæja girðingu allt að 5,5 metra háa við enda vallar en 4 metra á langhliðum.  Samkvæmt hinni bindandi tillögu hafi verið ráðgert að umhverfis gervigrasvöllinn yrði 2-3 metra há girðing en á afmörkuðum svæðum við enda vallar yrði hún allt að 5,5 metra há.

Kosið hafi verið um tiltekið heildarbyggingarmagn, sem deiliskipulagið brjóti gegn.  Fyrir liggi að á atkvæðaseðli hafi verið skýrt tekið fram að tillaga S, sem samþykkt hafi verið, hafi miðað við að heildarbyggingarmagn yrði 12.400 fermetrar á Hrólfsskálamel þar af 1.000 fermetrar vegna stækkunar íþróttamiðstöðvar.  Óumdeilt sé að í deiliskipulagi Hrólfsskálamels hafi 1.000 fermetrar ekki verið teknir frá vegna stækkunar íþróttamiðstöðvarinnar.  Ennfremur sé óumdeilt að heildarbyggingarmagn hafi átt að vera 12.400 fermetrar á Hrólfsskálamel að frádregnum 1.000 fermetrum vegna stækkunar íþróttamiðstöðvar. 

Í deiliskipulagi Suðurstrandar sé ekki einungis gert ráð fyrir auknu byggingarmagni heldur sé þar einnig mælt fyrir um stækkun íþróttamiðstöðvarinnar, sem samþykkt tillaga hafi ekki gert ráð fyrir.  Samkvæmt hinu kærða skipulagi sé gert ráð fyrir að þar megi reisa nýbyggingar allt að 3.400 fermetra ofanjarðar en auk þess allt að 2.000 fermetra bílageymslur, að hluta til neðanjarðar.  Heildarbyggingarmagn sé því 5.400 fermetrar.  Byggingarnar séu nánar skilgreindar svo að um sé að ræða stækkun íþróttamiðstöðvar, annars vegar til vesturs og suðurs í tengslum við sundlaug og hins vegar til austurs í tengslum við fimleikaaðstöðu.  Þá sé gert ráð fyrir að reisa megi bílageymslu sunnan íþróttamiðstöðvar.  Einnig sé gert ráð fyrir stækkun þjónustuaðstöðu á jarðhæð íbúða aldraðra við Skólabraut og að reisa megi stúku með búningsaðstöðu í tengslum við gervigrasvöll við Suðurströnd.

Byggingarmagn samkvæmt hinu kærða skipulagi sé ekki í samræmi við bindandi niðurstöður kosninga um skipulag Hrólfsskálamels og Suðurstrandar.  Þá sé í skipulagi Suðurstrandar gert ráð fyrir stækkun íþróttamiðstöðvar, sem hafi samkvæmt framangreindu átt að vera ráðgerð á Hrólfsskálamel.  Ennfremur séu þar fyrirhugaðar byggingar, sem hin samþykkta tillaga hafi ekki gert ekki ráð fyrir, s.s. bílageymsla, bygging við Skólabraut og stúka með búningsaðstöðu við gervigrasvöll auk þess sem girðing við völlinn sé of há.

Í kærumáli kæranda vegna deiliskipulags Hrólfsskálamels hafi því verið haldið fram af hálfu bæjaryfirvalda að ekki hafi verið gert ráð fyrir stækkun íþróttamiðstöðvar í því deiliskipulagi þar sem það taki ekki til svæðisins sem íþróttamiðstöðin standi á og því sé gert ráð fyrir þessari stækkun í skipulagi Suðurstrandar, þ.e. 1.000 fermetra  byggingarmagni.  Hér sé um rangfærslu að ræða en þó tekið fram ex tuto að ef úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu, af einhverjum ástæðum, að í skipulagi Hrólfsskálamels hafi ekki átt að skilgreina stækkun íþróttamiðstöðvar þá sé engu að síður ljóst að ætíð hafi verið gert ráð fyrir einungis 1.000 fermetra byggingarmagni fyrir íþróttamiðstöð.  Skipulag Suðurstrandar ráðgeri aftur á móti heildarbyggingarmagn 5.400  fermetra. 

Bent sé á að kærandi eigi augljósa hagsmuni af meðferð kærumáls þessa fyrir úrskurðarnefndinni.  Hann sé búsettur að Steinavör 6, Seltjarnarnesi eða í næsta nágrenni við hið skipulagða svæði.  Afgreiðsla skipulagsins sem og fyrirhugaðar framkvæmdir á grundvelli þess geti því augljóslega snert hagsmuni hans, enda teljist hann „nágranni“ í skilningi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hann hafi því lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu og verði því að viðurkenna honum kæruaðild. 

Á því sé byggt að kosning um skipulag Hrólfsskálamels og Suðurstrandar, sem haldin hafi verið hinn 25. júní 2005, hafi verið bindandi fyrir sveitarstjórn með vísan til 5. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Því sé bæjarstjórn skylt að haga tillögugerð um deiliskipulag Suðurstrandar í samræmi við tillögu S sem samþykkt hafi verið þannig að sú tillaga fengi lögmæta málsmerðferð í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þessu verði ekki almennt breytt nema með nýrri kosningu.

Kærandi hafi kært deiliskipulag Hrólfsskálamels og framkvæmdir við íþróttavöll.  Þegar kærumál þessi séu skoðuð í samhengi við deiliskipulag Suðurstrandar og málsmeðferð bæjarstjórnar sé ljóst að vinna hefði þurft heildstætt skipulag fyrir svæðið í samræmi við niðurstöðu hinnar bindandi kosningar í stað þess að gera skipulag fyrir einstaka reiti innan svæðisins.

Hið kærða deiliskipulag taki yfir svæði, sem merkt sé á aðalskipulagi sem íþróttasvæði og svæði fyrir þjónustustofnanir.  Hrólfsskálamelur sé merktur að hluta á miðsvæði.  Í fyrsta kafla skipulagsreglugerðar segi um skipulagssvæði: „Deiliskipulag nær til einstakra svæða eða reita innan aðalskipulags og skal jafnan ná til svæða sem mynda heildstæða einingu. Í þéttbýli skal deiliskipulag að jafnaði ekki taka yfir minna svæði en götureit.“ Svokölluð Suðurströnd og fyrirhuguð íbúðabyggð á Hrólfsskálamel myndi tvímælalaust „heildstæða einingu“, sbr. einnig fyrirkomulag við kosningu um skipulag þessara svæða, og hefði deiliskipulag því a.m.k. átt að ná til þess alls.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:  Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er krafist frávísunar málsins og á því byggt að kærandi eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta. Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þeir einir „..geta skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.“  Í því máli sem hér um ræði verði ekki séð í hverju hinir einstaklegu lögákveðnu hagsmunir kæranda séu fólgnir.  Hafi kærandi ekki gert grein fyrir því hvaða efnislegu sjónarmið eða hagsmunir búi að baki kærunni eða hverjir raunverulegir hagsmunir hans séu.  Það hljóti að teljast frumskilyrði þess að slík kæra sé tekin til meðferðar hjá nefndinni.  

Í öðru lagi byggi frávísunarkrafa bæjarins á því að kærandi hafi ekki gert athugasemdir við deiliskipulagstillöguna á auglýsingartíma og með því hafi hann samþykkt tillöguna, sbr. áskilnað þar um í auglýsingum Seltjarnarnesbæjar um skipulagið.  Réttur kæranda hafi fallið niður fyrir tómlæti hans um að gera athugasemdir við deiliskipulagstillöguna á kynningartíma hennar.

Verði ekki fallist á kröfu um frávísun málsins í heild telji Seltjarnarnesbær að vísa beri frá þeirri málsástæðu kæranda að deiliskipulagið sé ekki í samræmi við niðurstöðu bindandi kosningar um tillögur sem nota hafi átt „… sem grunn að deiliskipulagi Hrólfsskálamels og Suðurstrandar“ eins og segi í upplýsingabæklingi um tillögurnar. Byggt sé á því að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sé ekki til þess bær að fjalla um það hvort deiliskipulag sé í samræmi við þá kosningu eða geti a.m.k. ekki ógilt deiliskipulag á þeirri forsendu.  Í 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga sé ákvarðað valdsvið nefndarinnar.  Samkvæmt því sé ljóst að úrskurðarnefndinni hafi ekki verið falið að úrskurða um brot gegn ákvæðum sveitarstjórnarlaga heldur fari félagsmálaráðuneytið með úrskurðarvald um slík mál samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Úrskurðarnefndin sé því ekki til þess bær að fjalla um þessa málsástæðu kæranda og beri að vísa henni frá.

Verði ekki fallist á þá frávísunarkröfu Seltjarnarnesbæjar sé á því byggt að deiliskipulagið sé í samræmi við niðurstöður almennra kosninga um skipulag svæðisins.  Kosið hafi verið á milli tveggja tillagna sem kallaðar hafi verið S og H.  Umræddar tillögur sýni í grófum dráttum drög að skipulagi svæðisins norðan Suðurstrandar, frá grænu svæði vestan sundlaugar að Nesvegi.  Sé í tillögunum einkum fjallað um tvo hluta svæðisins þ.e. þann hluta sem sé vestastur og kallaður sé Suðurströnd, þar sem íþróttavöllurinn sé í dag, og þann hluta sem sé austastur og kallaður sé Hrólfsskálamelur. Í tillögum sem kosið hafi verið um sé ekki gerð grein fyrir skipulagi svæðisins þar sem íþróttamiðstöðin standi.  Þá séu mörk milli svokallaðs Hrólfsskálamels og Suðurstrandar ekki skilgreind.  Í bæklingi sem sendur hafi verið í hvert hús í aðdraganda kosninganna segi:  „Bæjarstjórn Seltjarnarness ákvað á fundi sínum þann 25. maí sl. að efna til almennrar atkvæðagreiðslu meðal bæjarbúa um tvær tillögur sem grunn að deiliskipulagi Hrólfsskálamels og Suðurstrandar.“  Í umræddum kosningum hafi því verið kosið í meginatriðum um hvort íþróttavöllurinn ætti að vera áfram á Suðurströnd eða flytjast á Hrólfsskálamel og hvort byggja ætti á Suðurströnd eða á Hrólfsskálamel.  Kosningarnar hafi því snúist fyrst og fremst um það hvernig landnotkun þessara svæða skyldi háttað í grófum dráttum.  Líta verði svo á að kosið hafi verið um megin fyrirkomulag byggðar en nánari útfærsla yrði ákveðin í deiliskipulagi.  Umræddar tillögur hafi því verið, eins og ítrekað sé tekið fram í gögnum, grunnur fyrir gerð lögformlegs deiliskipulags fyrir svæðin.  Ekki hafi verið kosið um fullfrágengnar deiliskipulagstillögur, enda hafi tillögurnar ekki uppfyllt skilyrði slíkra tillagna.  Því hafi verið ljóst að eftir kosningarnar þyrfti að vinna lögformlegar deiliskipulagstillögur, þar sem nánar yrði gerð grein fyrir útfærslu tillagnanna, sem auglýstar yrðu og kynntar á lögformlegan hátt.

Hið kærða deiliskipulag hafi verið unnið á þessum forsendum enda sé það í öllum meginatriðum í samræmi við tillögu S sem meirihluti bæjarbúa hafi samþykkt í kosningunum.  Í þessu sambandi sé bent á að allir bæjarbúar virðist þessu sammála enda hafi enginn gert athugasemdir við deiliskipulagið á þeim forsendum að það samræmdist ekki niðurstöðu kosninganna auk þess sem aðeins tvær athugasemdir hafi borist við kynningu deiliskipulagsins.  Minnt sé á að kærandi hafi ekki gert athugasemd á auglýsingartíma deiliskipulagstillögunnar. 

Vakin sé athygli á því að eftir kosningar um tillögu S og H hafi verið lokið vinnu við gerð aðalskipulags bæjarins.  Við gerð þess hafi alfarið verið tekið mið af niðurstöðu kosninganna  og niðurstaða þeirra fest í sessi sem stefnumörkun bæjaryfirvalda til 2024.  Í greinargerð aðalskipulagsins sé fjallað um uppbyggingu svæðisins á nokkrum stöðum.  Í kafla 3.2 sé fjallað um opin svæði til sérstakra nota, þ.m.t. íþróttasvæðið á Suðurströnd.  Þar segi m.a.:  „Stefnt er að því að lokið verði við frágang á opnum svæðum í bæjarfélaginu á skipulagstímabilinu.  Útfærsla einstakra svæða skal unnin í deiliskipulagi.“  Í kafla 4.4 um svæði fyrir þjónustustofnanir segir m.a. í almennum stefnumarkmiðum í málaflokknum:  „Lögð er áhersla á kraftmikið íþrótta- og tómstundastarf, þar sem aðstaða er til fyrirmyndar.“  Um íþróttasvæði þjónustusvæðisins, þ.e. lóð íþróttamiðstöðvarinnar segi:  „Markmið Seltjarnarnesbæjar er að stuðla að kraftmiklu íþrótta- og tómstundastarfi með því að bjóða upp á góða aðstöðu til iðkunar. Á skipulagstímabilinu verður lögð áhersla á endurbætur á þeirri aðstöðu sem fyrir er og fjölbreytt framboð. Í því augnamiði er m.a. stefnt að viðbyggingu við núverandi íþróttamiðstöð ásamt endurgerð núverandi íþróttavallar. Sjá einnig kafla 3.2 um stefnu um íþróttavöll við Suðurströnd.“  Í umhverfismati aðalskipulagsins sé áréttað að umfang og eðli framkvæmda á útivistarsvæðum sé háð útfærslu í deiliskipulagi.  Jafnframt sé tekið fram að aðalskipulagið kveði á um viðbyggingu við íþróttamiðstöð og endurgerð íþróttavallar en framkvæmd og áhrif séu háð frekari útfærslu í deiliskipulagi.  Í forsenduskýrslu sé jafnframt greint frá uppbyggingu íþróttavallarins og að fyrirhugaðar séu viðbyggingar við íþróttahúsið.
 
Í samræmi við niðurstöður kosninganna sé því kveðið á um það í Aðalskipulagi Seltjarnarness 2006-2024 að íþróttasvæðið á Suðurströnd verði endurgert og að byggt verði við íþróttamiðstöðina.  Jafnframt sé kveðið á um að nánari útfærsla endurbóta og uppbyggingar verði ákveðin í deiliskipulagi.  Deiliskipulagið sé því í fullkomnu samræmi við niðurstöðu íbúakosningar um svæðið og stefnumörkun aðalskipulags enda sé kveðið á um það í aðalskipulaginu og í gögnum um íbúakosninguna að nánari útfærsla skipulagsins verði ákveðin í deiliskipulagi.

Öll sjónarmiðum kæranda um að annmarkar séu að þessu leyti á deiliskipulaginu eða að það samræmist ekki niðurstöðu íbúakosningarinnar séu því röng.  Ljóst hafi verið og  ákveðið fyrir kosninguna að útfæra þyrfti tillöguna í deiliskipulagi auk þess sem kosningarnar hafi ekki tekið til lóðar íþróttamiðstöðvarinnar eða annarra hluta svæðisins fyrir þjónustustofnanir sem deiliskipulagið taki til. 

Þrátt fyrir að Seltjarnarnesbær hafi og hyggist, hér eftir sem hingað til, fylgja niðurstöðu kosninganna um tillögu S og H til hlítar sé bent á að umræddar kosningar hafi farið fram á síðasta kjörtímabili.  Ný sveitarstjórn hafi verið kjörin síðan.  Formlega hafi því hin bindandi áhrif kosningarinnar fallið niður í lagalegum skilningi.  Það hafi þá þýðingu að jafnvel þó úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að deiliskipulagið samræmist ekki niðurstöðu kosninganna væri skipulagið ekki ólögmætt.

Athugasemdum kæranda um afmörkun deiliskipulagssvæðisins sé mótmælt enda afmarkist það að mestu leyti af landnotkunarreit gildandi aðalskipulags bæjarins, þ.e. stofnanasvæði, þó íþróttasvæðið sé tekið með á þeim augljósu forsendum að starfsemi þar tengist beint þeirri íþrótta- og þjónustustarfsemi sem sé á stofnanasvæðinu. Svæðið myndi landfræðilega heild og heildstæða einingu og nái yfir öll helstu skóla-, íþrótta- og tómstundamannvirki bæjarins.  Landnotkun Hrólfsskálamels sé hins vegar allt miðsvæði með allt aðrar skipulagsforsendur en það deiliskipulagssvæði sem hér sé til skoðunar. 

Jafnframt sé vísað til þess að skipulagsferli deiliskipulags Suðurstrandar hafi alfarið verið í samræmi við gildandi aðalskipulag bæjarins og ákvæði skipulags- og byggingarlaga.

Mótrök kæranda við málsrökum Seltjarnarnesbæjar:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann eigi augljósa lögvarða hagsmuni af meðferð þessa máls, enda teljist hann „nágranni“ í skilningi skipulags- og byggingarlaga.  Úrskurðarnefndin sé bær til að fjalla um kærumál þetta, enda gangi kæruheimild skipulags- og byggingarlaga framar almennri kæruheimild 103. gr. sveitarstjórnarlaga.  Þá byggi hann á því að bæjarstjórn hafi verið skylt að haga tillögugerð um deiliskipulag Suðurstrandar í samræmi við tillögu S sem samþykkt hafi verið í kosningum hinn 25. júní 2005 þannig að sú tillaga gæti fengið lögmæta málsmeðferð í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 5. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga.  Að lokum sé á því byggt að ljóst sé miðað við gögn málsins og málsmeðferð bæjarstjórnar að vinna hefði þurft heildstætt skipulag fyrir svæðið í samræmi við niðurstöður hinnar bindandi kosningar samkvæmt fyrsta kafla skipulagsreglugerðar í stað þess að gera skipulag fyrir einstaka reiti innan svæðisins.

Niðurstaða:  Í máli þessu liggur fyrir að undanfari hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar var sá að unnin var tillaga að deiliskipulagi Suðurstrandar, skóla- og íþróttamannvirkja.  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 21. september 2006 var samþykkt að vísa tillögunni til bæjarstjórnar sem ákvað hinn 25. s.m. að auglýsa hana.  Var deilskipulagstillagan auglýst hinn 27. september 2006 og bárust tvær athugasemdir, önnur frá foreldraráði Gunnskóla Seltjarnarness og hin frá íbúum að Melabraut 21.  Í auglýsingunni segir eftirfarandi:  „Þeir sem ekki gera athugasemdir innan tilskilins frests, teljast samþykkja tillöguna.“  Hinn 13. desember 2006 samþykkti bæjarstjórn hið kærða deiliskipulag.

Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að þegar sveitarstjórn hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt á sama hátt og kveðið er á um varðandi auglýsingu aðalskipulags í 1. og 2. mgr. 18. gr.  Þar segir m.a. að í auglýsingu skuli hverjum þeim aðila sem telji sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skuli vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar.  Taka skuli fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi geri athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni. 

Því er haldið fram af hálfu Seltjarnarnesbæjar að vísa beri kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi hafi ekki komið á framfæri við bæjaryfirvöld athugasemdum sínum þegar tillaga að deiliskipulagi Suðurstrandar var auglýst.  Hefur kærandi ekki tjáð sig sérstaklega um þessa málsástæðu. 

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en kærandi máls þessa hafi fyrst með kæru til úrskurðarnefndarinnar komið á framfæri athugasemdum sínum vegna hins kærða deiliskipulags þó honum, líkt og öðrum íbúum í bæjarfélaginu, hafi gefist kostur á að tjá sig um tillöguna á kynningartíma hennar. 

Fyrrnefnd ákvæði skipulags- og byggingarlaga verða ekki skilin öðruvísi en svo að þeir sem ekki koma á framfæri athugasemdum sínum vegna auglýsingar á tillögu að deiliskipulagi teljist vera samþykkir henni.  Úrskurðarnefndin er bundin af þessum lagaákvæðum og verða þau því lögð til grundvallar í málinu.  Eins og atvikum er háttað í máli þessu verður ekki fallist á að kærandi, sem að lögum telst hafa verið samþykkur umdeildri skipulagstillögu, hafi síðar getað haft uppi í kærumáli kröfu um ógildingu skipulagsákvörðunar sem samþykkt hefur verið á grundvelli tillögunnar án breytinga er varðað geta hagsmuni hans.  Verður kærandi því ekki talinn eiga kæruaðild í málinu og ber því að vísa því frá úrskurðarnefndinni.  
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

                                          ____________________________________
                                                                    Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
         Ásgeir Magnússon                                                                   Geirharður Þorsteinsson 

 

 

 

 

 

90/2006 Hrólfsskálamelur

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 90/2006, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 11. september 2006 um deiliskipulag Hrólfsskálamels.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. nóvember 2006, er barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kærir H, Steinavör 6, Seltjarnarnesi, samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 11. september 2006 um deiliskipulag Hrólfsskálamels á Seltjarnarnesi. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Málavextir og málsrök:  Í júní árið 2005 voru haldnar almennar kosningar um skipulag og landnotkun á Hrólfsskálamel og Suðurströnd á Seltjarnarnesi og hlaut svokölluð S-tillaga, sem gerir m.a. ráð fyrir íbúðarbyggð við Hrólfsskálamel, meirihluta atkvæða bæjarbúa en gert hafði verið ráð fyrir að niðurstaða kosninganna væri bindandi gagnvart bæjaryfirvöldum.  Í kjölfar niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar var unnið nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið sem samþykkt var í bæjarstjórn og staðfest af ráðherra í maí 2006.  Auglýsing um gildistöku þess birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. október s.á.  Þá var og unnið deiliskipulag af svæðum þeim er um ræðir og á fundi hinn 11. september 2006 samþykkti bæjarstjórn deiliskipulag Hrólfsskálamels og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. október s.á.      

Framangreindri samþykkt bæjarstjórnar hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að kosningar þær er farið hafi fram í júní árið 2005 hafi verið bindandi fyrir skipulagsyfirvöld á Seltjarnarnesi, skv. 5. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Því hafi verið óheimilt, með deiliskipulagsákvörðun, að víkja frá niðurstöðu kosninganna svo sem gert hafi verið.  Telji kærandi að í hinu kærða deiliskipulagi séu ekki teknir frá 1.000 fermetrar vegna stækkunar íþróttamiðstöðvar auk þess sem byggingarmagn á svæðinu sé umfram heimildir.    

Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er krafist frávísunar málsins. Í fyrsta lagi með vísan til þess að  kæran eigi ekki undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála þar sem kærandi byggi eingöngu á að deiliskipulagið sé ekki í samræmi við niðurstöðu bindandi kosninga og að brotið hafi verið gegn 5. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Úrskurðarnefndinni hafi ekki verið falið að úrskurða um brot á ákvæðum sveitarstjórnarlaga heldur fari félagsmálaráðuneytið með úrskurðarvald um slík mál.  

Í öðru lagi byggi frávísunarkrafa á því að kærandi eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta varðandi deiliskipulag Hrólfsskálamels enda vísi hann ekki til þeirra í kærunni.  Ekki verði séð að skipulagið hafi grenndaráhrif gagnvart kæranda umfram aðra bæjarbúa á Seltjarnarnesi almennt.

Verði kröfu um frávísun hafnað sé á því byggt að hið kærða deiliskipulag samræmist niðurstöðu kosninganna enda hafi ekki verið kosið um deiliskipulagstillögur heldur grunn þeirra sem síðan yrðu unnar og auglýstar til kynningar með lögformlegum hætti.  Það hafi verið gert með hinni kærðu ákvörðun.  

Því sé haldið fram að hið kærða deiliskipulag sé að öllu leyti í samræmi við tillögu S sem samþykkt hafi verið af meirihluta bæjarbúa í almennri kosningu.  Hámarksbyggingarmagn ofanjarðar sé 11.400 fermetrar eins og tillaga S hafi gert ráð  fyrir að teknu tilliti til 1.000 fermetra byggingarmagns fyrir íþróttamiðstöð.  Byggingarmagn neðanjarðar hafi ekki verið fastákveðið.

Kærandi mótmælir kröfum Seltjarnarnesbæjar um frávísun málsins og bendir á að kæruheimild í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, vegna ákvarðana sveitarstjórna um skipulagsmál, gangi framar almennri kæruheimild 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og því sé félagsmálaráðuneytið ekki bært til að kveða upp úrskurð í kærumáli þessu.  Kærandi búi að Steinavör 6 eða í næsta nágrenni við hið skipulagða svæði.  Afgreiðsla skipulagsins sem og fyrirhugaðrar framkvæmdir á grundvelli þess geti því augljóslega snert hagsmuni hans.  

Niðurstaða:  Kærandi máls þessa er búsettur að Steinavör á Seltjarnarnesi.  Frá húsi hans og að hinum svokallaða Hrólfsskálamel, eða svæði því er um er deilt í máli þessu, eru a.m.k. 300 metrar.  Steinavör er lokuð gata, hús kæranda er í botni hennar og stendur neðan götu.  Norðan Steinavarar er Suðurstönd, sem er ein af aðalgötum bæjarfélagsins, en frá Suðurströnd er m.a. gert ráð fyrir aðkomu að húsum þeim er heimilt verður að reisa á reitnum. 

Úrskurðarnefndin telur að kærandi eigi ekki einstaklegra eða verulegra hagsmuna að gæta hvað varðar uppbyggingu á Hrólfsskálamel.  Telur nefndin ljóst að deiliskipulagið skerði ekki útsýni eða hafi í för með sér svo verulegar breytingar á umferð eða áhrif á umhverfi kæranda að það geti snert lögvarða hagsmuni hans þegar miðað er við staðsetningu hús hans og afstöðu þess til bygginga þeirra er heimilaðar eru samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi.  Þar sem kærandi telst samkvæmt framansögðu ekki eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________         _______________________________
    Ásgeir Magnússon                                       Geirharður Þorsteinsson 

31/2007 Fróðaþing

Með

Ár 2007, föstudaginn 18. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 31/2007, kæra á samþykki bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. nóvember 2006 fyrir breytingu á deiliskipulagi er fól í sér færslu bílastæða og breytta aðkomu vegna lóðarinnar að Fróðaþingi 20, Kópavogi.  Þá er kærð sú ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 4. apríl 2007 að veita byggingarleyfi í samræmi við breytt deiliskipulag vegna nefndrar lóðar. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. apríl 2007, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir S, lóðarhafi Fróðaþings 40, Kópavogi, samþykki bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. nóvember 2006 fyrir breytingu á deiliskipulagi er fól í sér færslu bílastæða og breytta aðkomu vegna lóðarinnar að Fróðaþingi 20, Kópavogi er tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 26. mars 2007.  Þá er kærð sú ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 4. apríl 2007, er bæjarstjórn staðfesti hinn 10. sama mánaðar, að veita byggingarleyfi í samræmi við breytt deiliskipulag vegna nefndrar lóðar. 

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni.  Úrskurðarnefndinni hafa borist gögn vegna fyrra kærumáls um sama efni og fyrir liggja andmæli byggingarleyfishafa við málatilbúnað kæranda.  Í ljósi þessa þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. 

Málavextir:  Hinn 28. nóvember 2006 samþykkti bæjarstjórn Kópavogs breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina að Fróðaþingi 20 að undangenginni umsókn lóðarhafa þar um.  Fól breytingin í sér færslu bílastæða og að aðkoma að lóð skyldi vera frá götu norðan við fyrirhugað hús á lóðinni í stað þess að vera að vestanverðu.  Var breytingartillagan grenndarkynnt sem óveruleg breyting á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Byggingarfulltrúi veitti byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á nefndri lóð í samræmi við fyrrnefnda breytingartillögu hinn 11. desember 2006, en bæjarstjórn staðfesti byggingarleyfið hinn 9. janúar 2007. 

Kærandi máls þessa kærði þessar ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar og krafðist stöðvunar framkvæmda.  Úrskurðarnefndin vísaði kæru vegna deiliskipulagsbreytingarinnar frá í úrskurði uppkveðnum hinn 8. mars sl. þar sem skipulagsbreytingin hafði þá ekki öðlast gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda.  Í sama úrskurði var fallist á kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan kæra vegna hins kærða byggingarleyfis væri óútkljáð.  Felldi byggingarfulltrúi það byggingarleyfi úr gildi hinn 22. mars 2007 og staðfesti bæjarstjórn þá ákvörðun hinn 10. apríl sama ár og afturkallaði kærandi kæru sína vegna þess leyfis í kjölfar þess. 

Fyrrgreind deiliskipulagsbreyting öðlaðist síðan gildi eins og fyrr er að vikið og var byggingarleyfi samþykkt að nýju fyrir lóðina að Fróðaþingi 20.  Hefur kærandi nú skotið þessum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar. 

Málsrök kæranda:  Kærandi gerir athugasemdir við málsmeðferð og efni hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. 

Vafi sé í huga kæranda um hvort ákvörðun bæjarskipulags um grenndarkynningu hafi verið í samræmi við lög og ekki hafi verið færð fram rök fyrir breytingunni.  Áttundi liður deiliskipulagsskilmála, er bæjaryfirvöld vitni til, geti ekki heimilað svo veigamikla breytingu á stöðu húss og aðkomu að lóð er hér um ræði.  Hin kærða ákvörðun fari á skjön við synjun sambærilegs erindis lóðarhafa að Fróðaþingi 22, en sömu sjónarmið eigi við í báðum tilvikum.  Grenndarkynning hafi ekki náð til allra hagsmunaaðila og kynningargögn hafi verið villandi þar sem sýnd hafi verið breytt aðkoma að lóðinni að Fróðaþingi 22 þrátt fyrir synjun um þá breytingu. 

Umdeild breyting og byggingarleyfi raski grenndarhagsmunum kæranda með því að aðkoma að Fróðaþingi 20 sé færð að götu er liggi við suðurlóð kæranda þar sem engin aðkoma að lóðum sé fyrir.  Breytingin hafi því í för með sér aukna umferð og annað ónæði sem raski lögvörðum hagsmunum kæranda auk þess sem snúningur umdeilds húss um 90 gráður eyðileggi fyrirhugaða götumynd. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er krafist frávísunar málsins og kröfum kæranda andmælt. 

Samkvæmt 8. lið skilmála umrædds deiliskipulags komi skýrt fram að á teikningu séu sýnd dæmi um staðsetningu bílastæða og aðkomu að bílgeymslum en hönnuðum sé heimilt að gera tillögu að annarri staðsetningu.  Kæranda sem lóðarhafa hafi því átt að vera fullkunnugt um þessa skilmála og að staðsetning bílastæða og aðkoma að bílgeymslum kynni að verða útfærð nánar.  Að baki umdeildri útfærslu búi öryggissjónarmið með tilliti til umferðar.  Mun meiri umferð verði vestan við Fróðaþing 20 en norðan við lóðina þar sem nú sé fyrirhugað að aðkoma að lóð verði.  Ekki fái staðist að réttur byggingarleyfishafa samkvæmt lögmætri ákvörðun eigi að víkja fyrir lítt skilgreindum grenndarhagsmunum kæranda.  Í lokamálslið 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga segi að ákvörðun sveitarstjórnar skuli standa við þessar aðstæður en að bótaréttur kunni að skapast þeim til handa sem verði fyrir hagsmunaröskun vegna skipulagsbreytingarinnar.

Vakin sé athygli á að sambærileg færsla á aðkomu að lóð og hér sé til umfjöllunar hafi verið grenndarkynnt vegna Fróðaþings 17 og hafi sú breyting gengið eftir án athugasemda.

Á það er bent að tafir vegna kærumála varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir að Fróðaþingi 20 hafi valdið byggingarleyfishafa ómældum óþægindum og tjóni.  Framkvæmdir séu nú orðnar níu mánuðum á eftir áætlun en fjölskylda byggingaleyfishafa eigi að afhenda kaupanda fyrri íbúð sína í byrjun ágúst nk.  Sé því brýnt að mál þetta fái skjóta málsmeðferð hjá úrskurðarnefndinni.
 
Af hálfu Kópavogsbæjar hafa ekki borist athugasemdir eða sjónarmið í tilefni af kærumáli þessu. 

Álit Skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin leitaði álits Skipulagsstofnunar á því hvort umþrætt byggingarleyfi hefði getað átt stoð í skipulagi svæðisins án þeirrar breytingar sem á því var gerð og kærð er í málinu.  Í bréfi stofnunarinnar, dags. 18. maí 2007, kemur fram það álit að byggingarleyfið hefði ekki samrýmst skipulaginu óbreyttu.

Niðurstaða:  Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur í sér að bílastæði og aðkoma að Fróðaþingi 20 eru færð að götu sem liggur við suðurlóð kæranda sem liggur skáhallt gegnt fyrrgreindri lóð.  Breytingin getur snert grenndarhagsmuni kæranda, svo sem vegna aukinnar umferðar og ónæðis nær lóð kæranda en ella hefði orðið að óbreyttu.  Verður kærumáli þessu því ekki vísað frá sökum aðildarskorts kæranda. 

Umdeild skipulagsbreyting var gerð á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem óveruleg deiliskipulagsbreyting.  Telja verður að heimilt hafi verið að fara þá leið í ljósi þess að breytingin varðaði bílastæði og aðkomu að aðeins einni lóð og að í sérskilmálum gildandi deiliskipulags er heimild fyrir því að sækja um breytingar á staðsetningu bílastæða og aðkomu að bílgeymslum.  Skipulagstillagan var grenndarkynnt fyrir nágrönnum og framkomnum athugasemdum svarað af hálfu bæjaryfirvalda.  Þótt kynningargögnum hafi verið áfátt í því að færsla aðkomu og bílastæða við Fróðaþing 22 hafi verið sýnd auk breytinga á lóðinni að Fróðaþingi 20 þykir málsmeðferð skipulagstillögunnar að þessu leyti ekki haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði. 

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Vatnsenda – Þings frá árinu 2005.  Við deiliskipulagningu nýbyggingarsvæða, eins og hér um ræðir, er m.a. tekin ákvörðun um landnotkun, tilhögun byggðar, húsagerðir og innbyrðis afstöðu húsa.  Er deiliskipulag sem tekið hefur gildi bindandi fyrir stjórnvöld og borgara, sbr. 2. mgr. greinar 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Við úthlutun lóða á slíkum svæðum liggur þegar fyrir í deiliskipulagi hvaða heimildir eru fyrir hendi til nýtingar einstakra lóða og geta lóðarhafar ekki vænst þess að fyrra bragði að skipulagi verði breytt varðandi nýtingu og fyrirkomulag bygginga á einstökum lóðum.  Verða borgarar að geta treyst því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi nema að veigamiklar ástæður eða skipulagsrök mæli með því.  Verður að gjalda varhug við því, m.a. með tilliti til fordæmisgildis, að ráðist sé í breytingar á nýlegu deiliskipulagi eftir óskum einstakra lóðarhafa, enda geta slíkar breytingar raskað hagsmunum annarra lóðarhafa og dregið úr þeirri festu er deiliskipulagi er ætlað að skapa.  Eiga þessi sjónarmið við þótt breyting á skipulagi hafi ekki mikil grenndaráhrif. 

Skipulagsyfirvöld Kópavogsbæjar hafa ekki bent á nauðsyn umdeildrar skipulagsbreytingar eða fært fram málefnaleg rök fyrir henni en af fyrirliggjandi upplýsingum verður ráðið að sambærilegri umsókn vegna lóðarinnar að Fróðaþingi 22 hafi verið hafnað af sömu yfirvöldum. 

Með vísan til framangreindra sjónarmiða verður fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. 

Að þessari niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi ekki stoð í gildandi skipulagi svo sem áskilið er í 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga og verður það því fellt úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Samþykki bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. nóvember 2006 fyrir breytingu á deiliskipulagi er fól í sér færslu bílastæða og breytta aðkomu vegna Fróðaþings 20, Kópavogi er fellt úr gildi. 

Jafnframt er felld úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 4. apríl 2007, er bæjarstjórn staðfesti hinn 10. sama mánaðar, um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Fróðaþingi 20 í Kópavogi. 

 

 

                                               ___________________________
                                                                Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________                  ____________________________
           Þorsteinn Þorsteinsson                                        Geirharður Þorsteinsson

20/2006 Suðurströnd

Með

Ár 2007, föstudaginn 18. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 20/2006, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 7. október 2005 um að heimila framkvæmdir við gerð gervigrasvallar við Suðurströnd, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. mars 2006, er barst úrskurðarnefndinni hinn 8. sama mánaðar, kærir H, Steinavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 7. október 2005 að heimila framkvæmdir við gerð gervigrasvallar við Suðurströnd, Seltjarnarnesi.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá setti kærandi og fram kröfu um stöðvun framkvæmda sem var synjað með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum hinn 6. apríl 2006.  

Málsatvik:  Forsaga málsins er sú að hinn 25. júní 2005 voru haldnar almennar kosningar um skipulag og landnotkun á Hrólfsskálamel og Suðurströnd á Seltjarnarnesi og hlaut svokölluð S-tillaga, sem gerir m.a. ráð fyrir að áfram verði íþróttavöllur við Suðurströnd, meirihluta atkvæða bæjarbúa en gert hafði verið ráð fyrir að niðurstaða kosninganna væri bindandi gagnvart bæjaryfirvöldum.  Í samræmi við þá niðurstöðu samþykkti bæjarstjórn hinn 21. september 2005 að gerður yrði gervigrasvöllur við Suðurströnd. Óskaði bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar eftir því við skipulags- og mannvirkjanefnd með bréfi, dags. 6. október 2005, að nefndin gæfi út framkvæmdarleyfi vegna byggingar vallarins.  Tekið var fram að sótt væri um leyfi til að skipta um jarðveg undir knattspyrnuvellinum og ganga frá yfirborði hans með gervigrasi og upphitunarkerfi.  Samþykkti nefndin beiðnina 7. október s.á. og í kjölfar þess var verkið boðið út og framkvæmdir síðan hafnar.  Kærandi skaut ákvörðun um áðurnefnda framkvæmd til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er skírskotað til þess að umdeildar framkvæmdir séu ekki í samræmi við gildandi skipulag.  Ekki sé um að ræða endurbætur á velli sem fyrir sé heldur sé um mun víðtækari framkvæmdir að ræða án þess að hönnun veigamikilla þátta verksins liggi fyrir og verið sé að ganga á loforð sem íbúum hafi verið gefin við kynningu og kosningu um byggingarkosti á svæðinu. 

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:  Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er þess krafist að ógildingarkröfu kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að henni verði hafnað.  Frávísunarkrafan byggi á því að umrædd framkvæmd sé ekki kæranleg til nefndarinnar enda liggi ekki fyrir kæranleg ákvörðun.  Framkvæmdin sé ekki leyfisskyld, enda eingöngu um að ræða breytingu á hæð og yfirborði íþróttavallar sem fyrir hafi verið á svæðinu.  Þá hafi kærufrestur vegna framkvæmdanna verið liðinn þegar kæran hafi borist nefndinni en framkvæmdir hafi hafist í byrjun desember 2005.  Loks sé á því byggt að kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu.

Ekkert í gögnum málsins bendi til þess að við framkvæmdina hafi verið brotið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga eða annarra laga.  Framkvæmdirnar, sem feli í sér breytingar á knattspyrnuvellinum með þeim hætti að yfirborð hans sé lækkað um 1,5 metra og skipt um yfirborðsefni, séu hvorki byggingarleyfis- né framkvæmdaleyfisskyldar.  Íþróttavöllurinn hafi verið á umræddum stað um áratugaskeið og neikvæð grenndaráhrif vegna lækkunar hans vallarins og breytinga á yfirborðsefni séu engin.  Viðurkennt sé að íbúar í þéttbýli verði almennt að gera ráð fyrir slíkum breytingum og sætta sig við þær.  Bæjaryfirvöld telji reyndar að breytingarnar hljóti, breyti þær einhverju, að hafa jákvæð áhrif í grenndarréttarlegu tilliti þar sem völlurinn sé lækkaður í landi um 1,5 metra.

Þá samræmist framkvæmdin ótvírætt Aðalskipulagi Seltjarnarness 1981 – 2001.  Samkvæmt því skipulagi sé umrætt svæði skilgreint sem „opið svæði, leikvellir.“  Með hliðsjón af framsetningu skipulagsins og ákvæðum skipulagslaga nr. 19/1964, sem í gildi hafi verið þegar umrætt aðalskipulag hafi verið samþykkt, falli starfsemi íþróttavalla undir þá landnotkun.  Fullyrðingu kæranda um að framkvæmdin sé ekki í samræmi við skipulag sé því mótmælt sem rangri og órökstuddri.

Bæjaryfirvöld vilji einnig minna á að framkvæmdin byggi á niðurstöðu sem fengin hafi verið eftir mikla kynningu og samráð við bæjarbúa.  Því samráði hafi lokið með almennum kosningum þar sem meirihluti bæjarbúa hafi samþykkt að íþróttavöllurinn skyldi áfram staðsettur á þessum stað.

Að lokum sé bent á að gert sé ráð fyrir að jarðvegsmanir í kringum völlinn verði að mestu færðar í fyrra horf en nauðsynlegt hafi reynst að taka ofan af þeim og opna þær tímabundið vegna framkvæmdarinnar. 

Andsvör kæranda við málsrökum Seltjarnarnesbæjar:  Af hálfu kæranda er frávísunarkröfum Seltjarnarnesbæjar mótmælt.  Ljóst sé að kærð sé ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 7. október 2005 um að heimila framkvæmdir við gerð gervigrasvallar við Suðurströnd.  Ákvörðun þessa megi finna í fundargerð fundarins. 

Mótmælt sé fullyrðingum Seltjarnarnesbæjar þess efnis að eingöngu sé um að ræða breytingu á hæð og yfirborði íþróttavallarins.  Við samanburð á teikningu af vellinum frá árinu 1981 og teikningu þeirri sem unnið sé eftir komi í ljós að fótboltavellinum sé hliðrað að Suðurstönd og hlaupabraut um völlinn felld niður.  Við þetta færist völlurinn töluvert nær götunni.  Í kosningunum hinn 25. maí 2005 hafi þeim rökum verið teflt fram fyrir staðsetningu vallarins við Suðurströnd að með því væri hann fjær götu og í hvarfi. 

Þá sé því mótmælt að kærufrestur hafi verið liðinn er kæra hafi verið sett fram í málinu.  Eftir kosningarnar hinn 25. maí 2005 hafi átt sér stað nokkur umræða um lagfæringar á vellinum og um það hafi verið rætt að sem minnst breyting yrði fyrir íbúana.  Hafi kærandi m.a. átt samtal við bæjastjóra þar sem rætt hafi verið um lækkun vallarins og óbreyttar manir umhverfis hann.  Því yrði völlurinn í einhvers konar skál þannig að skjól fengist og hann yrði enn frekar í hvarfi.  

Þegar framkvæmdir hafi byrjað hafi jarðvegur verið grafinn út og fyllt með nýjum þannig að skál hafi myndast en brekkan sunnan við völlinn hafi haldist.  Engin ástæða hafi verið til annars en að ætla að framkvæmdin væri í samræmi við munnlegar kynningar bæjarstjórans. 

Vikunni áður en kæra hafi verið sett fram í málinu hafi verið grafið úr möninni sunnan vallarins.  Hafi kærandi þá sett sig strax í samband við bæjarstjórann og í kjölfarið hafi framkvæmdir verið stöðvaðar.  Nokkrum dögum síðar hafi framkvæmdir hafist að nýju og hafi skýring bæjarstjórans verið sú að tímabundið yrði mönin lækkuð vegna jarðvegsskipta og yrði hún byggð upp að nýju.  Í ljósi þessara atvika sé kröfu bæjarins um frávísun mótmælt.  Kæranda hafi ekki mátt vera ljóst fyrr en um viku áður en kæran hafi verið sett fram að hreyft yrði við brekkunni sunnan vallarins enda hafi engar teikningar um breytta mön verið settar fram fyrr en þá. 

Mótmælt sé kröfu Seltjarnarnesbæjar um frávísun sökum aðildarskorts.  Lækkun fótboltavallarins og flutningur hans nær Suðurströndinni leiði til þess að hann sé ekki eins í hvarfi frá húseign kæranda og áður hafi verið.  Áður hafi hann lítið orðið var við fótboltaleiki á vellinum en nú óttist hann að ónæði frá honum aukist vegna hávaða og lýsingar.  Þetta sé fleirum ljóst en kæranda einum því í endurgerðri tillögu að möninni sunnan vallarins komi eftirfarandi fram:  „Gróðurmössun meiri til að loka frekari innsýn inn á völlinn og draga út vindáhrifum.“  Gróður sé því aukinn en alls óvíst sé að hann verði farinn að veita nauðsynlega hlíf fyrr en að áratug liðnum eða jafnvel nái ekki að þrífast vegna vindálags.    

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 30. mars 2006.

Niðurstaða:  Þegar hin kærða ákvörðun var tekin var í gildi Aðalskipulag Seltjarnarness 1981-2001.  Samkvæmt því skipulagi var svæði það við Suðurströnd er hinn umdeildi fótboltavöllur stendur á skilgreint sem opið svæði – leikvellir og hefur íþróttavöllur verið þar til margra ára. 

Í máli þessu er aðeins kærð ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar um að heimila framkvæmdir við völlinn.  Í umsókn varðandi framkvæmdina var tekið fram að sótt væri um leyfi til að skipta um jarðveg undir knattspyrnuvellinum og ganga frá yfirborði hans með gervigrasi og upphitunarkerfi. 

Þegar litið er inntaks framkvæmdaleyfisins og afstöðu vallarins gagnvart húsi kæranda að Steinavör 6 verður ekki séð að framkvæmdir samkvæmt hinni kærðu ákvörðun hafi haft þau áhrif á umhverfi kæranda að hann eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda henni sem eru skilyrði aðildar kærumáls fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson 

_____________________________    __________________________  
      Ásgeir Magnússon                                   Geirharður Þorsteinsson

 

106/2005 Laufásvegur

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 10. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 106/2005, kæra á synjun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 23. nóvember 2005 á beiðni um að hluti fyrstu hæðar hússins að Laufásvegi 19 verði skráður sem hluti íbúðar 01-03 í húsinu að Laufásvegi 17, Reykjavík

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. desember 2005, er barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærir H, f.h. Byggís ehf., eiganda íbúðar á fyrstu hæð hússins nr. 17 við Laufásveg, merkt 01-03, synjun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 23. nóvember 2005 á beiðni um að hluti neðri hæðar hússins að Laufásvegi 19 verði skráður sem hluti íbúðar 01-03 í húsinu að Laufásvegi 17, Reykjavík.  Núverandi eigandi íbúðarinnar, Óskar Þórmundsson, hefur tekið við kæruaðild málsins.  

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Málavextir:  Húsið að Laufásvegi 17, sem var byggt árið 1956, er sambyggt húsinu að Laufásvegi 19, en það hús var byggt á árinu 1933.  Á fundi byggingarnefndar hinn 23. ágúst 1973 voru lóðirnar að Laufásvegi 15 og 17 sameinaðar lóðinni nr. 19 og var sameiginleg lóð hússins nr. 17-19 alls 1.222 m².  Á sama fundi voru samþykktar teikningar að viðbyggingu við fyrstu hæð hússins, er áður tilheyrði lóðinni nr. 17.  Fól samþykktin í sér heimild til að byggja við húsið bæði götumegin og bakatil.  Viðbyggingin bakatil stóð að hluta á lóð þeirri er áður var skráð nr. 19 og sýna samþykktar teikningar að rýmið er eitt og hið sama, með opi á milli.  Á árinu 1995 var samþykkt beiðni um að skipta upp lóðinni nr. 17-19 við Laufásveg en með skiptingunni var dregin lína þvert í gegnum framangreinda viðbyggingu.  Stóð því annar hluti hennar á lóðinni nr. 17 við Laufásveg en hinn á lóðinni nr. 19.  Á árinu 2004 var samþykkt beiðni þáverandi eiganda fyrstu hæðar hússins nr. 17 um að breyta húsnæðinu úr atvinnuhúsnæði í þrjár íbúðir.  Sýna samþykktar teikningar að rými það er stendur á lóðinni nr. 19 er skilið frá íbúð 01-03 með brunaþolnum vegg.             

Í júní 2005 barst embætti byggingarfulltrúa umsókn frá eiganda fyrstu hæðar hússins nr. 17 við Laufásveg um að skrá hluta fyrstu hæðar hússins nr. 19 sem hluta íbúðar 01-03 í húsinu nr. 17.  Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi hinn 21. s.m. og var málinu frestað.
  
Með bréfi, dags. 29. ágúst 2005, fór Guðfinna Thordarson arkitekt ARK hússins ehf., f.h, kæranda í máli þessu, fram á það við skipulagsráð að ráðið tæki til efnislegrar meðferðar umsókn um skráningu hluta hússins nr. 19 við Laufásveg, nánar tiltekið matshluta 04, sem hluta íbúðar 01-03 í húsinu að Laufásvegi 17.  Var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 23. nóvember 2005 þar sem lögð var fram umsögn lögfræði- og stjórnsýslu, dags. 15. nóvember 2005, ásamt bréfi Magnúsar B. Brynjólfssonar hdl., dags. 27. október 2005, f.h. eigenda hluta hússins nr. 19 við Laufásveg, þar sem umsókninni var mótmælt.  Í umsögn lögfræði- og stjórnsýslu segir m.a. eftirfarandi:  „Erindi ARKhússins ehf. lýtur efnislega að því að skipulagsyfirvöld samþykki að hluti einnar lóðar sé eignatengdur annarri lóð. Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum er óheimilt að samþykkja að byggt sé yfir lóðamörk með þeim hætti að húsrými eins húss sé nýtt eða tilheyri öðru húsi. Eru ákvæði um lágmarksfjarlægðir í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Ljóst er að eigendum Laufásvegar 17 og Laufásvegar 19 greinir verulega á um eignarhaldið að rými því sem um ræðir í máli þessu. Það er ekki á valdi skipulags- og byggingaryfirvalda að skera úr um eignarétt milli aðila. Slíkt er aðeins á valdi dómstóla. Í ljósi ofangreinds er lagt til að byggingarfulltrúi synji byggingarleyfisumsókn Byggis ehf. Einnig er lagt til með vísan í ofangreint að skipulagsráð hafni erindi ARKhússins ehf.“  Skipulagsráð synjaði erindinu með eftirfarandi bókun:  „Synjað með vísan til umsagnar lögfræði- og stjórnsýslu.“  Borgarráð samþykkti afgreiðsluna á fundi sínum hinn 24. nóvember 2005.  

Framangreindri samþykkt skipulagsráðs hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því haldið fram að við skiptingu lóðarinnar nr. 17–19 við Laufásveg á árinu 1995 hafi verið gerð þau mistök að hluti fyrstu hæðar hússins að Laufásvegi 17 hafi orðið eftir á lóðinni nr. 19.  Húshluti þessi hafi allt frá byggingu hans, árið 1973, tilheyrt húsinu nr. 17 við Laufásveg.  Þegar skipting lóðarinnar hafi verið samþykkt af borgaryfirvöldum hafi verið notast við mæliblað sem hafi verið í ósamræmi við samþykktar teikningar og húsaskipan lóðarinnar.  Lóðaskiptingin hafi verið þvert á húseignina nr. 17 og umræddur húshluti því orðið eftir á lóðinni nr. 19 en áfram tilheyrt húsi nr. 17.   

Kærandi hafi keypt neðstu hæð hússins að Laufásvegi 17 í þeim tilgangi að breyta henni í íbúðir sem byggingaryfirvöld hafi samþykkt, þó með því skilyrði að sá hluti fyrstu hæðar hússins er standi á lóðinni nr. 19 yrði undanskilinn.  Á samþykktri teikningu hússins nr. 17, sem sé frá árinu 2004, og í skráningartöflu, er fylgt hafi þeirri byggingarleyfisumsókn, sé umræddur húshluti ekki með.  Í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið að Laufásvegi 17 segi:  „Sá hluti 1. hæðar hússins, sem áður tilheyrði nr. 17, en er á lóð nr. 19 eftir lóðarskiptingu, tilheyrir nú lóð nr. 19.“  Húshlutinn sé því hvergi skráður, hvorki á lóð nr. 17 né nr. 19.  Eigandi íbúðar nr. 01-03 í húsinu nr. 17 sé þinglýstur eigandi hins umdeilda húshluta. 

Af hálfu borgaryfirvalda hafi á fyrri stigum máls þessa verið vísað til þess að ekki sé til neinn matshluti nr. 04 í húsinu nr. 19 við Laufásveg hjá Fasteignamati ríkisins.  Í umsókn kæranda til byggingaryfirvalda hafi verið sótt um að samþykkt yrði að umræddur húshluti yrði skráður sem nýr matshluti (04) á lóðinni nr. 19 sem yrði eignatengdur íbúð 01-03 í húsinu nr. 17.  Það sé því í hæsta máta eðlilegt að enginn matshluti sé skráður hjá Fasteignamati ríkisins. 

Borgaryfirvöld hafi einnig vísað til þess að samþykki meðeigenda skorti sem sé sérkennilegt þar sem breytingin sé engin og eingöngu nauðsynleg vegna mistaka við skiptingu lóðarinnar árið 1995.  Við skiptingu lóðarinnar hafi ekki þurft samþykki meðeigenda og aðrir eigendur en umsækjandi hafi ekki vitað af skiptingunni fyrr en mörgum árum síðar.  Ný lög um fjöleignarhús hafi gengið í gildi hinn 1. janúar 1995 og því ætti það sama að gilda um þessar ákvarðanir ef jafnræðisreglu væri fylgt.  Íbúar að Laufásvegi 19 séu brenndir af samskiptum sínum við byggingaryfirvöld varðandi sorpmál o.fl. og ólíklegt að samþykki þeirra fáist, enda hafi hingað til ekki þurft samþykki þeirra fyrir breytingum á baklóð og við lóðamörk húss nr. 21 við Laufásveg.

Skráður eigandi fyrstu hæðarinnar að Laufásvegi 19 og fyrrum eigandi fyrstu hæðarinnar að Laufásvegi 17 reyni nú að búa til ágreining um eignarhald húshlutans.  Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. febrúar 2004 í máli nr. A-356/2003, ásamt þinglýstri yfirlýsingu Sparisjóðs vélstjóra, sýni að eignaréttur kæranda á húshlutanum sé ótvíræður.  

Einkennilegt sé að byggingaryfirvöld synji umsókn kæranda með þeim rökum að óheimilt sé að byggja yfir lóðamörk með þeim hætti að húsrými eins húss sé nýtt frá öðru húsi eða tilheyri því.  Byggingaryfirvöld hafi ekki átt í erfiðleikum með að samþykkja tengingu matshluta 02 og 03 á lóðinni nr. 19 við Laufásveg við húsið nr. 21 með samþykkt byggingarnefndar hinn 11. maí 1995 og aftur þegar nýr tengigangur hafi verið reistur árið 2002.  Það sé því brot á jafnræðisreglu að meina kæranda, eiganda á hinum enda lóðarinnar, að gera slíkt hið sama, sérstaklega þar sem hann sé neyddur til þess vegna mistaka byggingaryfirvalda.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að skipting lóðarinnar nr. 17-19 við Laufásveg, er samþykkt hafi verið árið 1995, hafi verið gerð að beiðni þáverandi eiganda.  Við samþykkt beiðninnar hafi byggingaryfirvöld ekki gert sér ljóst að opið væri á milli húsanna á u.þ.b. 2,5 m breiðu bili á fyrstu hæð í norðurhlið enda hafi eigandi lóðarinnar ekki upplýst um það.  Skiptingin hefði ekki verið samþykkt ef upplýsingar varðandi þetta efni hefðu legið fyrir.  Ekki hafi verið um samþykki meðeigenda að ræða þar sem einn og sami aðilinn hafi átt lóðina.  Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum hússins nr. 17 við Laufásveg, dags. 16. mars 2004, komi glögglega fram að umræddur húshluti sé lokaður af með steinvegg og tilheyri húsi nr. 19.  Hinn 27. júlí 2005 hafi byggingarfulltrúi skoðað íbúð 01-03 að Laufásvegi 17 og hafi þá komið í ljós að opið hafi verið á milli íbúðarinnar og umrædds rýmis að Laufásvegi 19, enda verið að ljúka innréttingu þess sem hluta íbúðar 01-03.  Hafi byggingarfulltrúi gert kröfu til þess að lokað yrði þar á milli.  Ekki sé vitað til þess að orðið hafi verið við þessum fyrirmælum, enda hafi lokaúttekt ekki farið fram. 

Í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu vegna hússins að Laufásvegi 17 segi um skiptingu þess:  „Sá hluti 1. hæðar hússins sem áður tilheyrði nr. 17, en er á lóð nr. 19 eftir lóðaskiptingu, tilheyrir nú lóð nr. 19.“  Því sé ljóst að umdeildur húshluti sé á lóð nr. 19 og eigi að vera aðskilinn frá Laufásvegi 17 með brunaþolnum skilrúmum, sbr. samþykktan aðaluppdrátt frá 16. mars 2004.

Hvað varði eignarhald kæranda á hinu umdeilda rými þá hafi hann ekki sýnt fram á eignarhald sitt með óyggjandi hætti.  Ekki sé til skráningartafla vegna húseignarinnar Laufásvegur 19 og því verði ekki ráðið af aðaluppdráttum þess húss hverjum húshlutinn tilheyri, enda sé ágreiningur uppi um eignarhaldið, sbr. andmælabréf eiganda hluta hússins nr. 19 við Laufásveg.  Það sé ekki á valdsviði skipulagsráðs Reykjavíkur að úrskurða um eignarhald, það sé verkefni dómstóla.

Með vísan til gr. 77.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 sé óheimilt að skipta húseign í sjálfstæðar fasteignir nema hver hluti um sig fullnægi ákvæðum byggingarreglugerðar og annarra samþykkta og reglugerða.  Skilyrt sé að eignaskiptayfirlýsing liggi fyrir áður en heimilt sé að þinglýsa gögnum um slíka skiptingu.  Hvorki hafi verið lögð fram eignaskiptayfirlýsing vegna Laufásvegar 19, þar sem fram komi hver sé eignarhluti kæranda, né heldur hafi kærandi sýnt fram á að fasteignin geti staðið sjálfstæð.  Engin gögn hafi verið lögð fram sem sýni hólfun eignarinnar frá öðrum hlutum Laufásvegar 19 eða grein gerð fyrir aðkomu að eigninni.  Vitað sé að sendiráð Bandaríkjanna hafi meinað eigendum Laufásvegar 19 umferð um lóð sína.

Þá sé á það bent að kærandi hafi enn ekki tilkynnt byggingarfulltrúa að gengið hafi verið frá brunahólfandi vegg milli íbúðar 01-03 á Laufásvegi 17 og hins umdeilda rýmis í húsi nr. 19.

Hvað varði vísan kæranda til þess að byggingaryfirvöld hafi áður samþykkt eignatengingu matshluta 02 og 03 á lóðinni Laufásvegur 19 við húsið nr. 21 með samþykkt, dags. 11. maí 1995, og aftur þegar nýr tengigangur hafi verið reistur árið 2002, sé á það bent að aðstæður séu þar með allt öðrum hætti.  Um sé að ræða lóð erlends sendiráðs sem njóti úrlendisréttar.  Að auki séu alls staðar eldvarnarhurðir á milli bygginga á lóðamörkum.  Þær framkvæmdir séu allar afturkræfar, en um slíkt yrði ekki að ræða yrði fallist á kröfu kæranda í málinu, t.d. ef húsið nr. 19 við Laufásveg yrði rifið.
 
Það sé mat Reykjavíkurborgar að samkvæmt skipulags- og byggingarlögum sé óheimilt að samþykkja að byggt sé yfir lóðamörk með þeim hætti að húsrými eins húss sé á annarri lóð.  Ákvæði um lágmarksfjarlægðir séu í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Ljóst sé að kæranda, sem sé þinglýstur eigandi íbúðar 01-03 á Laufásvegi 17, og eiganda þess hluta 1. hæðar á Laufásvegi 19, sem liggi að hinu umdeilda rými, greini verulega á um eignarhald þess.  Það sé ekki á valdi skipulags- og byggingaryfirvalda að skera úr um eignarrétt milli aðila, slíkt sé aðeins á valdi dómstóla.

Athugasemdir kæranda við greinargerð byggingaryfirvalda:  Af hálfu kæranda er ítrekað að hann sé þinglýstur eigandi hins umdeilda rýmis og því mótmælt að byggingaryfirvöldum hafi á árinu 1995 verið ókunnugt um að opið væri á milli húsanna nr. 17 og 19 við Laufásveg.  Byggingarnefnd hafi samþykkt á fundi hinn 23. ágúst 1973 teikningar sem sýni að um tveggja metra op sé á milli hússins nr. 17 og húshlutans sem nú sé á lóðinni nr. 19. 

Því sé mótmælt að ekki hafi þurft samþykki meðeiganda fyrir lóðarskiptingunni á árinu 1995 þar sem einn og sami aðilinn hafi átt lóðina.  Sé það í hæsta máta einkennileg staðhæfing þar sem í húsunum að Laufásvegi 17 og 19 séu a.m.k. sjö eigendur íbúða sem hafi verið algjörlega óviðkomandi umsækjanda um lóðarskiptinguna og hafi þeir ekki vitað af henni fyrr en nokkrum árum seinna.  Engin deila væri í gangi í dag hefðu byggingaryfirvöld ekki skipt lóðinni.  Dregin hafi verið lína þvert yfir viðbyggingu sem sé við hús nr. 17 og þar með hafi hluti viðbyggingarinnar lent inni á lóð nr. 19.

Þegar hafist hafi verið handa við að breyta neðri hæðum hússins nr. 17 við Laufásveg í íbúðir hafi byggingarfulltrúi gert kröfu um að brunaveggur yrði á hinum nýju lóðamörkum húsanna og því sýni samþykktar byggingarnefndarteikningar þar steyptan vegg.  Á þeim tíma hafi ekki verið vitað hvað gert yrði við húshlutann á lóð nr. 19 og alveg eins hafi komið til greina að selja hann eigendum í húsinu nr. 19 en af því hafi ekki orðið heldur hafi hann verið seldur núverandi eiganda íbúðar nr. 01-03 við Laufásveg 17.

Kæranda gruni að hentugra sé fyrir byggingaryfirvöld að hinn umdeildi húshluti tilheyri eigendum hússins nr. 19 og í því sambandi vísi hann til deilna íbúa Laufásvegar 19 og sendiráðs Bandaríkjanna að Laufásvegi 21, en eftir lóðarskiptinguna árið 1995 hafi baklóðin að Laufásvegi 19 verið seld sendiráðinu og hafi afsalinu verið þinglýst þó svo að engin formleg skipting lóðarinnar nr. 19 hafi farið fram.  Kæranda sé tjáð að hið umdeilda rými sé kjörið undir ruslatunnur hússins nr. 19.  Það skýri hugsanlega afstöðu byggingarfulltrúa. 

Byggingarfulltrúi haldi því fram að deilur séu um eignarhald hins umdeilda rýmis og vísi í bréf Magnúsar B. Brynjólfssonar hdl., dags. 27. október 2005, til skipulags- og byggingarsviðs.  Byggingarfulltrúa hafi verið gerð grein fyrir úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. febrúar 2004 í máli A-356/2003 sem sýni með ótvíræðum hætti eignarhald kæranda á þessu rými (geymsla).  Með úrskurði héraðsdóms hafi eigandi hluta hússins að Laufásvegi 19 verið borinn út úr fasteigninni að Laufásvegi 17 með beinni aðfarargerð. 

Að auki megi benda á að á fundi byggingarnefndar hinn 7. maí 2002 hafi verið tekin fyrir umsókn eigenda hússins að Laufásvegi 19 um að fá samþykktar reyndarteikningar af húsinu ásamt breytingum.  Erindinu hafi verið frestað en með umsókninni hafi fylgt allar teikningar og skráningartafla ásamt samþykki allra meðeigenda.  Engar athugasemdir hafi verið gerðar við skráningartöfluna og sé umræddan húshluta þar hvergi að finna, sem á teikningum er ýmist sagður bakhús eða viðbygging húss nr. 17.  Erindið sé enn óafgreitt, að því er virðist af óviðráðanlegum ástæðum. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um synjun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar á beiðni um að u.þ.b. 20 m² rými á fyrstu hæð hússins að Laufásvegi 19 verði skráð sem hluti íbúðar nr. 01-03 í húsinu að Laufásvegi 17, Reykjavík. 

Í umsókn kæranda felst að farið er fram á breytingu á byggingarleyfi hússins þannig að umrædd íbúð verði stækkuð sem nemur stærð rýmisins sem deilt er um í máli þessu.  Telur úrskurðarnefndin að beiðni varðandi framangreint verði ekki afgreidd af byggingaryfirvöldum nema umsækjandi leggi fram nauðsynleg gögn, s.s. breyttar byggingarnefndarteikningar, annað hvort af sjálfsdáðum eða í kjölfar leiðbeiningar yfirvalda.     

Þrátt fyrir framangreint var beiðni kæranda tekin til afgreiðslu og henni synjað.  Var synjunin studd þeim rökum í fyrsta lagi að samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sé óheimilt að samþykkja að byggt sé yfir lóðamörk með þeim hætti að húsrými eins húss sé nýtt frá öðru húsi eða tilheyri því og að ákvæði um lágmarksfjarlægðir sé að finna í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Á framgreind rök verður ekki fallist.  Í skipulags- og byggingarlögum er ekki að finna ákvæði í þessa veru og 75. gr. byggingarreglugerðar á fyrst og fremst við um aðskilin hús en ekki þau sem sambyggð eru líkt og hér hagar til. 

Þá er og hin kærða ákvörðun studd þeim rökum að kæranda og eiganda hluta hússins að Laufásvegi 19 greini á um eignarhald hins umdeilda rýmis og að það sé ekki á valdi skipulags- og byggingaryfirvalda að skera úr um eignarrétt milli aðila.  Á framangreind rök verður heldur ekki fallist.  Í þinglýstu afsali, dags. 26. október 2005, þar sem kærandi máls þessa afsalar íbúð 01-03 að Laufásvegi 17 til núverandi eiganda hennar, segir m.a. eftirfarandi:  „2 herbergja íbúð á jarðhæð í húsinu nr. 17 við Laufásveg og geymsla skv. þinglýstri yfirlýsingu í húsinu nr. 19 við Laufásveg í Reykjavík með öllu því sem fylgir og fylgja ber þ.m.t. hlutdeild í sameign hússins og lóðarréttindum.“  Núverandi eigandi íbúðar 01-03 að Laufásvegi 17 er því þinglýsur eigandi rýmis þess sem deilt er um í máli þessu og hefur hinni þinglýstu heimild ekki verið hnekkt.  Bar því að leggja hana til grundvallar við úrlausn málsins.   

Samkvæmt framansögðu var hin kærða ákvörðun ekki studd haldbærum rökum svo sem áskilið er, sbr. 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Að auki skorti á að gætt væri leiðbeiningarskyldu 7. gr. og rannsóknarreglu 10 gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins.  Var undirbúningi og gerð hinnar kærðu ákvörðunar þannig áfátt í svo veigamiklum atriðum að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tímafrekrar gagnaöflunar.

Úrskurðarorð:

Synjun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 23. nóvember 2005, á umsókn um að hluti hússins að Laufásvegi 19 verði skráður sem hluti hússins að Laufásvegi 17, Reykjavík, er felld úr gildi. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_______________________________      _____________________________
             Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson       

40/2005 Skólavörðustígur

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 18. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 40/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að heimila byggingu vinnustofu á lóðinni nr. 25 við Skólavörðustíg. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. maí 2005, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Othar Örn Petersen hrl., f.h. S, Íragerði 14, Stokkseyri, eiganda að hluta hússins að Skólavörðustíg 25A, Reykjavík ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. apríl 2005 um að heimila byggingu vinnustofu á lóðinni nr. 25 við Skólavörðustíg.  Á fundi borgarráðs hinn 14. s.m. var afgreiðsla byggingarfulltrúa staðfest. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 5. apríl 2005 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja vinnustofu úr steinsteypu og timbri (matshluti 04) á lóðinni nr. 25 við Skólavörðustíg.  Var samþykktin staðfest á fundi borgarráðs hinn 14. s.m. 

Er hin kærða ákvörðun var tekin var kærandi máls þessa eigandi hluta hússins nr. 25A við Skólavörðustíg og setti fram kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála vegna ofangreindrar samþykktar byggingarfulltrúa. 

Kærandi teflir fram fjölmörgum rökum fyrir kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, m.a. þeim að hin fyrirhugaða skúrbygging muni hafa í för með sér aukna umferð inn á lóð kæranda og takmarka þar með eðlilega nýtingu hennar. 

Með kaupsamningi, dags. 1. ágúst 2006, seldi kærandi eignarhlut sinn í húsinu að Skólavörðustíg 25A og fór afhending hins selda fram samdægurs og skyldi afsal til kaupanda gefið út eigi síðar en hinn 15. sama mánaðar samkvæmt ákvæðum þess samnings.  Hefur úrskurðarnefndin leitað afstöðu kaupanda til kærumáls þessa en hann hefur ekki látið málið til sín taka. 

Niðurstaða:  Kærandi byggir málskot sitt vegna hins umdeilda byggingarleyfis á atvikum er tengjast rétti hans sem eiganda að eignarhluta í húsinu að Skólavörðustíg 25A.  Fyrir liggur kaupsamningur þar sem kærandi afsalar eignarhluta sínum í umræddu húsi til þriðja aðila og urðu eigendaskiptin hinn 1. ágúst 2006.  Kaupandi hefur ekki látið málið til sín taka þrátt fyrir að leitað hafi verið afstöðu hans til þess. 

Samkvæmt framansögðu á kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um ágreiningsefni máls þessa.  Jafnframt liggur fyrir að núverandi eigandi tekur ekki við aðild málsins.  Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

___________________________      _____________________________
Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson

16/2007 Dettifossvegur

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 26. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 16/2007, kæra Skútustaðahrepps á þeirri niðurstöðu Skipulagsstofnunar að synja um meðmæli með veitingu framkvæmdaleyfis fyrir lagningu 1. áfanga Dettifossvegar samkvæmt veglínu B.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. febrúar 2007, er barst nefndinni í símbréfi 26. sama mánaðar, kærir Dýrleif Kristjánsdóttir hdl., fyrir hönd Skútustaðahrepps, þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að synja um meðmæli samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með veitingu framkvæmdaleyfis fyrir lagningu 1. áfanga Dettifossvegar samkvæmt veglínu B.  Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 24. janúar 2007.  Um kæruheimild vísast til lokamálsliðar tilvitnaðs 3. tl. til bráðbirgða.

Málsatvik:  Að undanförnu hefur verið unnið að undirbúningi lagningar nýs svonefnds Dettifossvegar, vestan Jökulsár á Fjöllum, um Skútustaðahrepp og Norðurþing.  Í matsskýrslu Vegagerðarinnar, dagsettri í júní 2006, eru metin umhverfisáhrif  framkvæmdarinnar og er þar gerð grein fyrir mismunandi kostum um legu vegarins frá hringveginum og norður undir Dettifoss.  Er þar í meginatriðum um tvo kosti að ræða, veglínu A sem liggur nærri núverandi vegslóða og veglínu B sem tengist hringveginum nokkru austar og liggur nær Jökulsá uns komið er norður undir Dettifoss, en þar falla veglínur þessar saman.  Hinn 27. júlí 2006 veitti Skipulagsstofnun álit sitt á grundvelli 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 með síðari breytingum.  Lagðist stofnunin gegn því að vegurinn yrði lagður eftir veglínu B en féllst á framkvæmdina að öðru leyti með skilyrðum sem getið er í álitinu.  Í álitinu kom fram að ekki þyrfti að breyta Svæðisskipulagi miðhálendis Íslands 2015 en syðsti hluti fyrirhugaðs vegar liggur innan marka þess.  Jafnframt var tekið fram að Aðalskipulag Skútustaðahrepps 1996 – 2015 næði ekki yfir fyrirhugað framkvæmdasvæði og þyrfti sveitarstjórn að sækja um meðmæli Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 áður en unnt væri að veita framkvæmdaleyfi.    

Með bréfi, dags. 13. desember 2006, sótti Vegagerðin um framkvæmdaleyfi vegna lagningar Dettifossvegar, 1. áfanga samkvæmt veglínu merkt B.  Í samræmi við 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 óskaði Skútustaðahreppur með erindi, dags. 5. janúar 2007, eftir meðmælum Skipulagsstofnunar með lagningu vegarins í samræmi við umsókn Vegagerðarinnar.  Með bréfi, dags. 24. janúar 2007, synjaði Skipulagsstofnun um meðmæli með vísan til niðurstöðu sinnar varðandi veglínu B í áliti sínu um mat á umhverfisáhrifum.  Á grundvelli sérstakrar kæruheimildar í tilvísuðum tölulið ákvæðis til bráðabráðabirgða skaut kærandi niðurstöðu Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 23. febrúar 2007, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu Skútustaðahrepps er því í fyrsta lagi haldið fram að synjun Skipulagsstofnunar sé byggð á ómálefnalegum forsendum sem eigi sér ekki stoð í lögum og sé þannig ekki í málefnalegum tengslum við lagagrundvöll og þau markmið sem liggi að baki ákvæði 3. töluliðar ákvæðis til bráðabirgða við skipulags- og byggingarlög um lögbundna bindandi álitsumleitan sveitarstjórnar Skútustaðahrepps til Skipulagsstofnunar til undirbúnings töku stjórnvaldsákvörðunar.  Synjunin sé því haldin verulegum efnisannmarka og ólögmæt.  Þegar af þeirri ástæðu eigi að fallast á kröfu kæranda.

Verði ekki á þetta fallist sé í öðru lagi á því byggt að verulegir annmarkar séu á málsmeðferð Skipulagsstofnunar, vegna erindis Skútustaðahrepps þar sem óskað sé meðmæla, þar eð álitsgjafi hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína, og leiði þetta til þess að verulegir efnisannmarkar séu á niðurstöðu Skipulagsstofnunar um synjun meðmæla.

Í þriðja lagi sé byggt á því að verulegir efnisannmarkar séu á áliti Skipulagsstofnunar varðandi mat á umhverfisáhrifum Dettifossvegar, en til niðurstöðu þess álits sé vísað í synjun stofnunarinnar um meðmæli.  Vegna þessara efnisannmarka verði álitið ekki lagt til grundvallar þegar metið sé hvort mæla eigi með umræddri framkvæmd.  Annmarkarnir séu þó ekki þess eðlis að álitið verði ekki lagt til grundvallar við veitingu framkvæmdaleyfis.

Ofangreindir annmarkar leiði hver fyrir sig til þess að synjun Skipulagsstofnunar um meðmæli sé ólögmæt og úrskurðarnefndinni beri að endurskoða niðurstöðuna og mæla með veitingu framkvæmdaleyfisins í samræmi við erindi Skútustaðahrepps.

Af hálfu kæranda eru færð fram ítarleg rök fyrir þeim sjónarmiðum sem liggja að baki framangreindum málsástæðum.  Er þar m.a. áréttað að allar forsendur séu til þess, með hliðsjón af stöðu skipulagsmála í Skútustaðahreppi, að mæla með umræddri framkvæmd.  Samkvæmt matsskýrslu vegna Dettifossvegar, á bls. 18, sé staða skipulagsmála í Skútustaðahreppi með eftirfarandi hætti: 

„Þar er í gildi aðalskipulag 1996-2015, 1. endurskoðun aðalskipulags Reykjahlíðar 1986-2006. Aðalskipulagið afmarkast af hreppamörkum í norðri og vestri, Jörundi og Búrfelli í austri og Suðurárbotnum í suðri. Það nær því ekki yfir það landsvæði sem veglínan liggur um. Svæðisskipulag miðhálendisins 2015, staðfest 1999, er hinsvegar í gildi á framkvæmdasvæðinu og afmarkast af Eilífi í norðri. Sunnan þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum fellur fyrirhugað framkvæmdasvæði innan náttúruverndarsvæðis í svæðisskipulaginu (Kafli 6.2.1). Í greinargerð með skipulaginu segir: „Hólmatungnavegur (F862), Skútustaðahreppi. Liggur frá Hringveginum að Dettifossi að vestan, alls 22 km. Gert er ráð fyrir að vegurinn geti færst austur að Jökulsá á Fjöllum þar sem eru að mestu aurar og ógróið land.““

Staða skipulagsmála á framkvæmdasvæðinu sé því sú að í gildi sé Svæðisskipulag miðhálendis Íslands 2015 en hvorki aðalskipulag né deiliskipulag.  Samkvæmt orðalagi 3. tl. bráðbirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. samtenginguna „eða“, sé nægjanlegt að ein tegund skipulagsáætlunar liggi fyrir, t.d. eins og í þessu tilviki svæðisskipulag.  Kærandi hafi þó talið, og miðað þá m.a. við framkvæmd úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sbr. t.d. mál nr. 12/1999, að í ákvæðinu fælist ekki bara formkrafa heldur einnig efniskrafa, þ.e. að þar sem ekki væru fyrir hendi bindandi fyrirmæli um staðsetningu vegarins í svæðisskipulagi því sem í gildi sé, væru fyrir hendi skilyrði til að beita umræddum tölulið ákvæðis til bráðabirgða og þá nauðsynlegt að óska meðmæla Skipulagsstofnunar.  Hin fyrirhugaða framkvæmd sé hins vegar með engum hætti í andstöðu við skipulag og því allar forsendur til, og jafnframt skylt, að mæla með henni frá þeim sjónarhóli.

Ítrekað skuli að einu sjónarmiðin sem Skipulagsstofnun sé heimilt að leggja til grundvallar hinu lögbundna bindandi áliti sínu samkvæmt 3. tl. umrædds bráðabirgðaákvæðis séu sjónarmið tengd skipulagi svæðisins.  Synjun stofnunarinnar sé því byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum og þar af leiðandi ólögmæt.

Ýmsum frekari rökum er teflt fram af hálfu kæranda sem ekki þykir ástæða til að rekja frekar í úrskurði þessum en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Málsrök Skipulagsstofnunar:  Af hálfu Skipulagsstofnunar er tekið fram að Svæðisskipulag miðhálendis Íslands 2015 hafi verið staðfest af umhverfisráðherra hinn 10. maí 1999 með fyrirvara um niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum.  Niðurstaða í mati á umhverfisáhrifum hafi legið fyrir með áliti Skipulagsstofnunar 27. júlí 2006.  Þar komi fram að svæðið meðfram Jökulsá á Fjöllum, frá Dettifossi að hringvegi, hafi mikið verndargildi þar sem þar sé að finna ummerki um stærstu hlaup sem orðið hafi á jörðinni eftir síðasta jökulskeið og að lagning Dettifossvegar samkvæmt veglínu B myndi hafa varanleg og óafturtæk áhrif á jarðmyndanir, landslag og ásýnd svæðisins.  Hafi Skipulagsstofnun engan veginn talið sér fært að mæla með framkvæmd sem stofnunin hefði áður í áliti sínu talið hafa veruleg neikvæð og óafturtæk áhrif og sem í Svæðisskipulagi miðhálendis Íslands 2015 sé með fyrirvara um niðurstöður mats á umhverfisáhrifum.  Það væri að mati Skipulagsstofnunar ekki málefnaleg niðurstaða.

Ábending Skipulagsstofnunar um að Skútustaðahreppur hafi ekki tekið afstöðu til álits stofnunarinnar hafi engin áhrif haft á þá niðurstöðu að mæla ekki með veitingu framkvæmdaleyfis.  Sú rökstudda afstaða þurfi hins vegar að liggja fyrir við ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis.

Loks sé því hafnað að nokkuð sé við það að athuga að Skipulagsstofnun láti í áliti sínu í ljós álit á því hvort umhverfisáhrif tiltekinna kosta séu ásættanleg eða óásættanleg.  Þetta hafi Skipulagsstofnun gert í álitsgerðum sínum og styðjist þar m.a. við 1. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum.

Frekari rök koma fram í umsögn Skipulagsstofnunar sem ekki verða rakin hér.  Þá hefur kærandi andmælt sjónarmiðum stofnunarinnar.  Hefur úrskurðarnefndin haft til hliðsjónar við úrlausn málsins öll þau sjónarmið sem aðilar hafa sett fram í málinu.

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir.  Verður að skilja ákvæði þetta svo að fyrirhuguð framkvæmd þurfi að eiga sér viðhlítandi stoð í samþykktu skipulagi, staðfestu af ráðherra eftir því sem við á.  Ekki er í ákvæðinu gerður greinarmunur á einstökum skipulagsstigum og ræðst það því af öðrum atvikum hverjar kröfur eru gerðar um skipulag í hverju tilviki fyrir sig.  Verður ráðið af orðalagi 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, eins og ákvæðinu var breytt með lögum nr. 170/2000, að framkvæmdaleyfi geti átt stoð í svæðisskipulagi jafnt sem aðalskipulagi eða deiliskipulagi, en með nefndri breytingu var svæðisskipulagi bætt inn í ákvæðið.  Benda lögskýringargögn til þess að tilgangur þeirrar breytingar hafi verið sá að gera sveitarfélögum kleift að hagnýta sér svæðisskipulag sem sett hefði verið á svæðum þar sem enn væri ólokið gerð aðalskipulags einstakra sveitarfélaga.  Kom fram í greinargerð að þetta ætti einkum við á miðhálendinu, en einnig víða í dreifbýlum sveitarfélögum þar sem umfangsmikil vinna hefði verið lögð í gerð svæðisskipulags.

Ekki er um það deilt að fyrirhuguð framkvæmd við 1. áfanga Dettifossvegar fellur innan marka Svæðisskipulags miðhálendis Íslands 2015.  Í grein 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er fjallað um samgöngur í skipulagsáætlunum.  Kemur þar fram að í svæðisskipulagi skuli gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum samgöngumannvirkjum, s.s. þjóðvegum, flugvöllum og höfnum, svo og helstu umferðaræðum og tengingum við þær.  Í samræmi við tilvitnað ákvæði er í Svæðisskipulagi miðhálendis Íslands 2015 gerð grein fyrir vegum og slóðum á skipulagssvæðinu.  Er m.a. sýnd á skipulagsuppdrætti lega núverandi vegslóða frá hringveginum niður með Jökulsá á Fjöllum að vestanverðu að Dettifossi og áfram norður í Kelduhverfi.  Þá segir svo í greinargerð skipulagsins:  „Hólmatungnavegur (F862), Skútustaðahreppi. Liggur frá hringveginum að Dettifossi að vestan, alls 22 km.  Gert er ráð fyrir að vegurinn geti færst austur að Jökulsá á Fjöllum þar sem eru að mestu aurar og ógróið land.“

Úrskurðarnefndin telur að í framangreindu ákvæði felist fullnægjandi heimild í skipulagslegu tilliti fyrir umræddum vegi þrátt fyrir að hvorki sé gerð grein fyrir helgunarsvæði hans né legu á skipulagsuppdrætti, enda þykir mælikvarði uppdráttarins, sem er 1:350.000, ekki gefa tilefni til þess, sbr. lokamálslið greinar 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Er þá einnig litið til þess að um er að ræða svæði þar sem ekki er að vænta umtalsverðrar mannvirkjagerðar er áhrif gæti haft á legu vegarins.  Verður að telja fullnægjandi, eins og hér stendur á, að hún ráðist af hönnunarforsendum og vegtæknilegum atriðum sem ítarlega er gerð grein fyrir í matsskýrslu og fylgiskjölum hennar.

Af hálfu Skipulagsstofnunar hefur verið á það bent að Svæðisskipulag miðhálendis Íslands 2015 hafi verið staðfest árið 1999 af ráðherra með fyrirvara um niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda sem féllu undir þágildandi lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993 m.s.br.  Vísaði fyrirvari þessi til þess að á þeim tíma þegar skipulagið var staðfest kvað Skipulagsstofnun upp bindandi úrskurði um mat á umhverfisáhrifum og sættu þeir kæru til umhverfisráðherra.  Var það á færi þessara stjórnvalda að hafna einstökum framkvæmdum vegna neikvæðra umhverfisáhrifa og því eðlilegt að hafa um þetta fyrirvara við staðfestingu skipulagákvarðana.

Með lögum nr. 74/2005 var horfið frá þessu fyrirkomulagi.  Lætur Skipulagsstofnun, eftir gildistöku þeirra laga, í té lögbundið álit um mat á umhverfisáhrifum sem ekki er bindandi fyrir sveitarstjórn við ákvörðun um framkvæmdaleyfi, en skylt er að taka rökstudda afstöðu til álitsins við leyfisveitinguna.  Verður að skýra nefndan fyrirvara við staðfestingu ráðherra með hliðsjón af þessum lagabreytingum á þann veg að áskilið sé að gætt hafi verið gildandi laga um mat á umhverfisáhrifum.  Hefur Skipulagsstofnun látið í té álit sitt um mat á umhverfisáhrifum í máli því sem hér er til meðferðar og stendur umræddur fyrirvari ekki í vegi fyrir því að stuðst verði við Svæðisskipulag miðhálendis Íslands 2015 við ákvörðun um framkvæmdaleyfi það sem um var sótt.

Miðað við framanritað er fyrir hendi skipulag sem felur í sér fullnægjandi heimild til útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir margnefndum vegi.  Getur 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 því ekki átt við í málinu og var sveitarstjórn ekki skylt að leita meðmæla Skipulagsstofnunar með veitingu leyfisins.  Þykir af þessum sökum ekki hafa þýðingu að skera úr um lögmæti synjunar Skipulagsstofnunar um meðmælin, enda voru þau óþörf.  Verður ekki heldur séð að kærandi eigi neina lögvarða hagsmuni því tengda að fá efnisúrlausn í málinu og verður kærumáli þessi því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Vegna vísunar kæranda til úrskurðar í máli nr. 12/1999 tekur úrskurðarnefndin fram að í því máli var hvorki fyrir hendi staðfest aðalskipulag né samþykkt deiliskipulag og að á þeim tíma er það mál var til úrlausnar skorti heimild þá sem síðar var lögfest með lögum nr. 170/2000 fyrir því að svæðisskipulag gæti verið grundvöllur framkvæmdaleyfis.  Var það mál því ekki sambærilegt máli því sem hér er til úrlausnar og hefur það ekkert fordæmisgildi í málinu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________     _________________________________
  Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson

14/2005 Blesugróf

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 18. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 14/2005, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar um deiliskipulag Blesugrófar. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. febrúar 2005, er barst nefndinni samdægurs, kærir B, Stjörnugróf 29, Reykjavík samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 15. desember 2004 um deiliskipulag Blesugrófar.  Á fundi borgarráðs hinn 6. janúar 2005 var afgreiðsla nefndarinnar staðfest. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 28. júlí 2004 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Blesugrófar sem áður hafði verið kynnt hagsmunaaðilum á svæðinu.  Var tillagan auglýst frá 18. ágúst 2004 til 29. september s.á. og bárust skipulagsyfirvöldum borgarinnar athugasemdir við tillöguna, þar á meðal frá kæranda.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 15. desember 2004 var hin auglýsta tillaga samþykkt og hlaut hún staðfestingu borgarráðs hinn 6. janúar 2005.  Auglýsing um gildistöku samþykktarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. júní 2005.  Með hinni kærðu deiliskipulagssamþykkt var fellt úr gildi deiliskipulag Blesugrófar frá 29. ágúst 1961. 

Markmið hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar var m.a. að móta stefnu við framtíðaruppbyggingu hverfisins og styrkja heildarmynd þess. 

Athugasemdir kæranda á undirbúningsstigi hinnar kærðu ákvörðunar lutu að samþykktum teikningum húss hans að Stjörnugróf 29, lóðarmörkum og byggingarreit innan lóðarinnar, gegnumakstri innan hverfisins og girðingum á lóðarmörkum. 

Niðurstaða:  Í kæru kæranda til úrskurðarnefndarinnar var í engu gerð grein fyrir rökum fyrir kröfu um ógildingu heldur voru þau boðuð síðar.  Engin rök hafa þó borist nefndinni.  Í gögnum málsins kemur fram að borgaryfirvöld hafa, eftir að kæra var sett fram, komið til móts við athugasemdir kæranda sem hann hafði gert á undirbúningsstigi hinnar kærðu ákvörðunar.  Af þessum ástæðum verður ekki séð að kærandi eigi nú lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kæruefni máls þessa og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

___________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson

32/2005 Túngata

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 18. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 32/2005, kæra á synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 9. mars 2005 á umsókn um að breyta notkun hússins að Túngötu 34, Reykjavík í gistiheimili með sex íbúðareiningum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. apríl 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir Björn Líndal hdl., fyrir hönd Lýsingar hf. Suðurlandsbraut 22, Reykjavík, synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 9. mars 2005 á umsókn um að breyta notkun hússins að Túngötu 34, Reykjavík í gistiheimili með sex íbúðareiningum.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Hinn 24. ágúst 2004 sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun hússins að Túngötu 34 í Reykjavík úr heimagistingu í gistiheimili.  Fasteignin er á svæði sem hefur ekki verið deiliskipulagt.  Vísaði byggingarfulltrúi erindinu til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Málið kom til kasta skipulagsráðs sem samþykkti að grenndarkynna umsókn kæranda á fundi sínum hinn 19. janúar 2005.  Við grenndarkynninguna komu fram andmæli íbúa við fyrirhuguðum rekstri er snérust einkum um aukið ónæði, bílastæðavandamál og sorphirðu.  Skipulagsráð afgreiddi erindið hinn 9. mars 2005 með svofelldri bókun:  „Umsókn um breytta notkun synjað.  Ákvæði Aðalskipulags Reykjavíkur útilokar ekki að veitt verði leyfi til rekstrar gistiheimila á íbúðarsvæðum að uppfylltum þeim skilyrðum að starfsemin valdi ekki óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óeðlilega mikillar umferðar.  Með vísan til athugasemda íbúa er ekki talið að þeim skilyrðum sé fullnægt.“ 

Kærandi bendir á að fyrirhugaður gistiheimilisrekstur hafi ekki önnur eða meiri áhrif á umhverfið en sambærilegur rekstur í íbúðarhverfum sem hafi verið heimilaður.  Skipulagsráð hafi ekki gætt samræmis eða jafnræðis við hina kærðu ákvörðun og sé það brot á 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þá sé með hinni kærðu ákvörðun vegið að stjórnarskárvörðum atvinnuréttindum kæranda.  Auk þess hafi málsmeðferð verið ábótavant þar sem kæranda hafi ekki verið kynntar framkomnar athugasemdir og gefinn kostur á að tjá sig um þær.  Sé þetta brot á andmælareglu stjórnsýslulaga. 

Niðurstaða:  Samkvæmt þinglýstu afsali, dags. 18. nóvember 2005, varð Íslenska prinsessan ehf. eigandi fasteignarinnar að Túngötu 34 í Reykjavík og sama dag seldi það fyrirtæki DB ehf. fasteignina.  Samkvæmt þinglýstum kaupsamningi, dags. 29. desember 2006, seldi síðan DB ehf. umrædda fasteign til einkahlutafélagsins Abios ehf.

Þar sem kærandi er ekki lengur tengdur greindri fasteign sem eigandi eða afnotahafi verður hann ekki talinn eiga lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi gildi hinnar kærðu ákvörðunar.  Núverandi eiganda hefur verið tilkynnt um kærumálið og honum gefinn kostur á að láta málið til sín taka innan tiltekins frests en hann hefur látið það hjá líða.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulaga sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________        _________________________________
Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson