Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

36/2006 Ólafsvík

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2006, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Snæfellsbæjar frá 11. maí 2006 um byggingarleyfi fyrir fyrstu hæð viðbyggingar við húsið að Ólafsbraut 20 í Ólafsvík, Snæfellsbæ.  

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. maí 2006, er barst nefndinni hinn 17. sama mánaðar, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. S og S, eigenda hússins að Grundarbraut 1, Ólafsvík samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Snæfellsbæjar frá 11. maí 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir fyrstu hæð viðbyggingar við húsið að Ólafsbraut 20 í Ólafsvík, Snæfellsbæ.  Á fundi bæjarstjórnar Snæfellsbæjar hinn 16. maí 2006 var afgreiðsla nefndarinnar staðfest.  

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda.  Fyrir liggur að framkvæmdir við hina umdeildu viðbyggingu eru ekki hafnar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfuna um stöðvun framkvæmda heldur kveðinn upp efnisúrskurður í kærumálinu.  

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 11. maí 2006 var tekin til afgreiðslu beiðni um heimild til að byggja fyrstu hæð viðbyggingar hótelsins að Ólafsbraut 20.  Var eftirfarandi fært til bókar:  „Undir jökli ehf. sækir um byggingarleyfi fyrir 1. hæðinni að viðbyggingu að Ólafsbraut 20 … Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir erindið.“  Var afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 16. maí 2006.

Framangreindri samþykkt skipulags- og byggingarnefndar hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur krefjast þess að byggingarleyfið verði fellt úr gildi þar sem þeir telji að deiliskipulag það sem byggingarleyfið grundvallast á sé ólögmætt.  Kærendur hafi kært deiliskipulagið til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 1. desember 2005, þar sem þess hafi verið krafist að skipulagið yrði fellt úr gildi. 

Með vísan til rannsóknarskyldu úrskurðarnefndarinnar er þess krafist að úrskurðarnefndin athugi af sjálfsdáðum lögmæti byggingarleyfisins, m.a. hvað varði fjarlægð byggingarinnar frá lóðarmörkum kærenda.

Málsrök Snæfellsbæjar:  Af hálfu Snæfellsbæjar er kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis mótmælt og vísað til þess að það byggi á lögformlegu deiliskipulagi er hlotið hafi málsmeðferð í samræmi við skipulags- og byggingarlög.

Byggingarleyfishafa var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. janúar 2007, veitt færi á að tjá sig um ógildingarkröfu kærenda og var frestur til þess veittur til 25. s.á.  Hefur byggingarleyfishafi ekki komið á framfæri til nefndarinnar sjónarmiðum sínum í þessum efnum.  

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er krafa kærenda um ógildingu hins umdeilda byggingarleyfis studd þeim rökum að leyfið eigi stoð í deiliskipulagi sem þau telji ólögmætt og hafi kært til úrskurðarnefndarinnar til ógildingar.  Úrskurðarnefndin hefur með úrskurði fyrr í dag hafnað kröfu kærenda um ógildingu umrædds deiliskipulags og verður byggingarleyfið því ekki fellt úr gildi af þeim sökum. 

Af hálfu kærenda er því og haldið fram að hið kærða byggingarleyfi sé ólögmætt þar sem fjarlægð milli húsa, þ.e. Ólafsbrautar 20-22 og Grundarbrautar 1, sé ekki í samræmi við þágildandi ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um fjarlægð frá lóðarmörkum og bil milli húsa.  Samkvæmt ákvæðinu var heimilt að ákveða í skipulagi að víkja frá lágmarkskröfum um fjarlægð húss frá lóðarmörkum ásamt því að undanþágu var að finna um minnsta bil á milli húsa sem þó gat ekki verið minna en sex metrar þegar um nýjar byggingar var að ræða. 

Samkvæmt þeim gögnum er lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina er minnsta fjarlægð frá húsi kærenda að fyrirhugaðri viðbyggingu, frá horni til horns, um fjórir metrar, en byggingarnar standast ekki á.  Var þannig að mati úrskurðarnefndarinnar ekki fullnægt skilyrðum reglugerðarinnar um bil milli húsa við útgáfu hins umdeilda leyfis þegar litið er til nálægðar fyrirhugaðrar byggingar við hús kærenda og verður byggingarleyfið af þeim sökum fellt úr gildi.  Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt nú hafi verið gerðar breytingar á umræddu ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðarinnar til rýmkunar, enda verður hinu breytta ákvæði ekki beitt með afturvirkum hætti.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Snæfellsbæjar frá 11. maí 2006 um að veita byggingarleyfi til byggingar fyrstu hæðar viðbyggingar við húsið að Ólafsbraut 20-22 í Ólafsvík, Snæfellsbæ er felld úr gildi.  

 

                                     ____________________________________
                                                                    Hjalti Steinþórsson

 

  _______________________________                     _____________________________
             Ásgeir Magnússon                                                           Þorsteinn Þorsteinsson    

101/2005 Ólafsvík

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 101/2005, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá 8. september 2005 um deiliskipulag fyrir miðbæ Ólafsvíkur, Snæfellsbæ.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
 

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. desember 2005, er barst nefndinni hinn 5. sama mánaðar, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. S og S, eigenda hússins að Grundarbraut 1, Ólafsvík, samþykkt bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá 8. september 2005 um deiliskipulag fyrir miðbæ Ólafsvíkur, Snæfellsbæ. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Málavextir:  Hinn 12. maí 2005 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Snæfellsbæjar að auglýsa deiliskipulagstillögu fyrir miðbæ Ólafsvíkur og var fundargerðin staðfest á fundi bæjarstjórnar sama dag.  Áður, eða hinn 2. mars 2005, hafði verið samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu aðalskipulagi Ólafsvíkur er m.a. tók til sama svæðis og áðurnefnd tillaga að deiliskipulagi miðbæjarins.  Tók deiliskipulagstillagan m.a. til lóðarinnar að Ólafsbraut 20-22 þar sem heimiluð var viðbygging við hótel það er á lóðinni stendur.  Er hús kærenda næsta hús við umrætt hótel.  Var tillagan auglýst til kynningar í Lögbirtingablaðinu hinn 18. maí 2005 með athugasemdafresti til 15. júní s.á.  Að frestinum loknum var tillagan tekin fyrir á ný í skipulags- og byggingarnefnd hinn 18. ágúst 2006 en afgreiðslu málsins frestað.  Hinn 8. september s.á. var tillagan enn tekin fyrir í skipulags- og byggingarnefnd og þá samþykkt með svohljóðandi bókun:  „Fyrsta umræða:  Breyting á Aðalskipulagi fyrir miðbæ Ólafsvíkur og nágrennis hefur nú verið samþykkt af ráðherra og birt í Stjórnartíðindum.  Því leggur byggingarfulltrúi til að nefndin samþykki að ganga frá deiliskipulagi fyrir svæðið sem auglýst var frá 18. maí til 29. júní 2005, tvær athugasemdir bárust við deiliskipulaginu.  Fyrri athugasemdin er frá Ívari Pálssyni hdl., fyrir hönd Sigurðar Jónssonar og Sigrúnar Sævarsdóttur.  Seinni athugasemdin er frá Jenný Guðmundsdóttur, Aðalsteinu Sumarliðadóttur og Ragnheiði Víglundsdóttur.  Voru athugasemdirnar kynntar. Önnur umræða.  Þessu erindi var frestað á síðast fundi skipulags- og byggingarnefndar BN. 152.  Erindið er breyting á Aðalskipulagi fyrir miðbæ Ólafsvíkur og nágrennis.  Skipulags- og byggingarnefnd hefur nú yfirfarið öll gögn í málinu betur í samvinnu við hönnuð og lögfræðing bæjarins með tilliti til þeirra athugasemda sem bárust við skipulaginu og tekið þá ákvörðun að minnka byggingarreit til samræmis við innlagðar byggingarnefndarteikningar af Ólafsbraut 20, og einnig voru  lóðarmörk á Grundarbraut 1 færð inn í samræmi við lóðarleigusamning.  Því leggur byggingarfulltrúi til að nefndin samþykki nýtt deiliskipulag fyrir Ólafsvík og nágrenni og að athugasemdunum verði svarað.  Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir að klára skipulagið og svara þeim er gerðu athugasemdir eins um hefur verið rætt.“  Var fundargerð skipulags- og byggingarnefndar staðfest á fundi bæjarstjórnar sama dag. 

Í bréfi Skipulagsstofnunar til Snæfellsbæjar, dags. 29. september 2005, gerði stofnunin athugasemdir við afmörkun umrædds deiliskipulagssvæðis og benti á að æskilegast hefði verið að heildarstefna væri mörkuð í deiliskipulagi fyrir miðbæ Ólafsvíkur eða svæðin tekin í heild hvert fyrir sig.  Óskaði stofnunin eftir lagfærðum gögnum þar sem m.a. væri gerð fullnægjandi grein fyrir lóðum og reitum innan skipulagsins.  Með bréfi, dags. 21. október 2005, sendi Snæfellsbær Skipulagsstofnun lagfæringar og með bréfi, dags. 2. nóvember 2005, tilkynnti Skipulagsstofnun Snæfellsbæ að stofnunin gerði ekki athugasemd við að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Var auglýsingin birt hinn 21. nóvember 2005.

Framangreindri samþykkt skipulags- og  byggingarnefndar hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að málsmeðferð hins kærða  deiliskipulags hafi verið andstæð 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Ástæðan sé sú að hinn 2. mars 2005 hafi verið samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd að auglýsa til kynningar tillögu að breytingu á aðalskipulagi fyrir Ólafsvík, sem m.a. hafi varðað það svæði sem hið kærða deiliskipulag hafi tekið til.  Hinn 20. apríl 2005 hafi auglýsing um tillögu að breyttu aðalskipulagi birst í Lögbirtingablaðinu og hafi athugasemdafrestur verið til 1. júní s.á.  Hinn 8. júní 2005 hafi aðalskipulagsbreytingin verið samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd og samdægurs í bæjarstjórn.  Umhverfisráðherra hafi hinn 27. júlí 2005 staðfest breytinguna og auglýsing um gildistöku hennar hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. ágúst 2005.  Ferill hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi aftur á móti verið með þeim hætti að hinn 12. maí 2005, eða áður en fyrrgreind aðalskipulagsbreyting hafi verið staðfest af ráðherra, hafi skipulags- og byggingarnefnd samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillöguna og hafi bæjarstjórn samdægurs samþykkt fundargerð nefndarinnar.  Að loknum athugasemdafresti eða hinn 8. september 2005 hafi skipulags- og byggingarnefnd samþykkt að ljúka deiliskipulaginu og svara athugasemdum er borist höfðu og hafi bæjarstjórn samdægurs samþykkt fundargerð nefndarinnar.  Auglýsing um gildistöku í B-deild Stjórnartíðinda hafi birst hinn 21. nóvember 2005.  Úrskurðarnefndin hafi í sambærilegum tilvikum talið að framangreind málsmeðferð bryti gegn ákvæði 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga og því beri að fella hina kærðu deiliskipulagsbreytingu úr gildi.

Kærendur telji að afgreiðsla deiliskipulagsins hafi ekki verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga.  Eina umsögnin sem liggi fyrir um athugasemdir kærenda um tillögu deiliskipulagsins sé umsögn sem unnin hafi verið af lögmanni Snæfellsbæjar.  Hún sé dagsett hinn 9. september 2005, þ.e. degi síðar en tillagan hafi verið afgreidd í skipulags- og byggingarnefnd og í bæjarstjórn Snæfellsbæjar.  Augljóst sé því að umsögnin hafi hvorki verið lögð fyrir skipulags- og byggingarnefnd né fyrir bæjarstjórn við afgreiðslu málsins eins og gert sé ráð fyrir í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga og grein 6.3.3 í skipulagsreglugerð enda ekki fært til bókar að svo hafi verið.  Því sé haldið fram að ekki liggi fyrir svör sveitarstjórnar við athugasemdum kærenda eins og lögskylt sé samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga.  Þá hljóti slík málsmeðferð einnig að brjóta gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Auk framangreinds telji kærendur, þrátt fyrir að umsögn lögmanns Snæfellsbæjar sé allítarleg, að nokkrum athugasemdum þeirra hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti.

Með vísan til 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, 49. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. og d-lið 21. gr. sömu laga, telji kærendur að afgreiðsla bæjarstjórnar á skipulagstillögunni hafi ekki verið í samræmi við lög.  Bæjarstjórnin hafi ekki fjallað sérstaklega um afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar varðandi deiliskipulagið heldur hafi hún aðeins staðfest fundargerðir nefndarinnar þegar skipulagstillagan hafi verið afgreidd.  Slíka umfjöllun telji kærendur ekki í samræmi við framangreind lagaákvæði.  Í því sambandi verði að hafa í huga að afgreiðslur skipulags- og byggingarnefndar séu bara tillögur til sveitarstjórnar um afgreiðslu mála.

Kærendur telji að byggingarreitur viðbyggingar að Ólafsbraut 20-22 samkvæmt deiliskipulaginu sé ólögmætur.  Ákvæðum um fjarlægð frá lóðarmörkum og fjarlægð milli húsa, sem fram komi í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sé ekki fullnægt í deiliskipulaginu.  Samkvæmt 4. mgr. greinar 3.1.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 beri við gerð deiliskipulags að taka tillit til 75. gr. byggingarreglugerðar. Deiliskipulagssamþykktin sé því hvað þetta varði ólögmæt.  Rökin fyrir fjarlægðarkröfum byggingarreglugerðar séu ekki eingöngu eldvarnar- og öryggissjónarmið heldur einnig sjónarmið af eignarréttarlegum og grenndarréttarlegum toga.  Þannig megi ljóst vera að þriggja hæða bygging við lóðarmörk kærenda rýri notagildi lóðar þeirra og breyti umhverfi hússins og lóðar verulega.  Slík uppbygging á lóðinni nr. 20-22 við Ólafsbraut muni líklega koma í veg fyrir frekari uppbyggingu kærenda á lóð þeirra og/eða takmarka not hennar verulega.  Þetta sé auðvitað sérstaklega slæmt m.t.t. þess að skipulagið taki ekki til lóðar kærenda í eiginlegum skilningi þar sem ekkert sé fjallað um hana í skipulaginu.  Kærendur séu því í algjörri óvissu um hver sé skipulagsleg staða lóðar þeirra. 

Kærendur telji deiliskipulagið ekki samræmast ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og skipulagsreglugerðar hvað varði framsetningu og innihald.  Vísað sé í þessu sambandi t.d. til 2. og 9. gr. skipulags- og byggingarlaga og greina 3.1.1 og 3.1.4 í skipulagsreglugerð.

Samkvæmt skilgreiningu 2. gr. skipulags- og byggingarlaga sé skipulagsáætlun áætlun þar sem gerð sé grein fyrir markmiðum viðkomandi stjórnvalda og ákvörðunum um framtíðarnotkun lands, fyrirkomulagi byggðar og forsendum þeirra ákvarðana.  Ekkert slíkt sé sett fram í deiliskipulaginu.  Þá virðist tillagan ekki byggð á neinni stefnumörkun eða heildarsýn.  Í 9. gr. skipulags- og byggingarlaga sé fjallað nánar um skipulagsáætlanir og í gr. 3.1.1 skipulagsreglugerðar sé gerð grein fyrir forsendum og stefnumörkun skipulagsáætlana.  Í grein 3.1.4 skipulagsreglugerð sé ítarlegar fjallað um innihald deiliskipulagsáætlana og í 5. kafla reglugerðar sé fjallað frekar um framsetningu skipulagsáætlana.  Augljóst sé af tilvitnuðum laga- og reglugerðarákvæðum að framsetning deiliskipulagsins uppfylli engan veginn þær kröfur sem gerðar séu til slíkra áætlana.  Kærendur bendi á að afmörkun skipulagssvæðisins sé ekki í samræmi við 1. mgr. greinar 3.1.4 í skipulagsreglugerð.  Samkvæmt henni skuli deiliskipulag að jafnaði ná til reita eða svæða sem myndi heildstæða einingu.  Tilviljanakennd afmörkun hins kærða deiliskipulags samræmist framangreindu ákvæði ekki.  Með skipulaginu sé því ekki tekið heildstætt á skipulagi svæðisins eða einstökum þáttum þess.  Týndar séu út einstaka lóðir þar sem þrýst hafi verið á um uppbyggingu og byggingarskilmálar settir um þær.  Engin heildarstefnumörkun sé sett fram hvað varði umferð, verndun, nýtingarhlutfall eða nokkuð annað eins og skylt sé og eðlilegt að gera í deiliskipulagi.  Kærendur telji að með skipulagi sem þessu sé verið að fara á svig við skipulagsskyldu samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og leiði það til réttaróvissu.  Bent sé á að á svæðinu séu lóðir sem ekki séu settir neinir skilmálar.  Deiliskipulaginu svipi því frekar til byggingarleyfisumsókna fyrir einstakar lóðir en skipulagsáætlunar.  Telji kærendur því að sömu sjónarmið og fram komi í dómi Hæstaréttar frá 20. september 2001 í málinu nr. 114/2001, áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2556/1998 og úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 2. desember 2003 í máli nr. 17/2003, varðandi byggingarleyfi í þegar byggðum en ódeiliskipulögðum hverfum, eigi að leiða til ógildingar skipulagsins.  Einnig sé bent á sjónarmið og rök úrskurðarnefndarinnar um afmörkun skipulagssvæða sem fram komi í úrskurði nefndarinnar frá 21. desember 2000. 

Engin húsakönnun hafi verið unnin af svæðinu eins og skylt sé samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.  Kærendur telji það hafa verulega þýðingu enda hús þeirra næstelsta hús bæjarins og eitt af mjög fáum gömlum húsum sem eftir séu í bænum.  Í samræmi við að engin húsakönnun liggi fyrir sé engin stefnumörkun sett fram í skipulaginu um verndun húss þeirra eða annarra húsa.

Að lokum óski kærendur eftir því að úrskurðarnefndin skoði sérstaklega hvort framsetning deiliskipulagsins varðandi hús þeirra hafi verið skýr og í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga.  Jafnframt hvort Snæfellsbæ hafi verið heimilt að gera þær breytingar á deiliskipulagstillögunni sem gerðar hafi verið eftir samþykkt hennar í sveitarstjórn, m.a. vegna athugasemda Skipulagsstofnunar, og hafi varðað m.a. lóð þeirra.  

Málsrök Snæfellsbæjar:  Af hálfu Snæfellsbæjar er mótmælt sem rangri þeirri fullyrðingu kærenda að bréf lögmanns sveitarfélagsins til lögmanns kærenda, dags. 9. september 2005, hafi hvorki verið lagt fyrir skipulags- og byggingarnefnd né bæjarstjórn við afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar.  Hið rétta sé að drög að bréfi lögmanns sveitarfélagins hafi legið fyrir báðum þessum aðilum þegar deiliskipulagstillagan hafi verið afgreidd hinn 8. september 2005.  Vísist til bréfs skipulags- og byggingarfulltrúa til lögmanns kærenda, dags. 21. október 2005, en þar segi í lok fyrri málsgreinar:  „… var þá búið að útbúa drög að svörum við innsendum athugasemdum.“

Hvað varði fjarlægð frá lóðarmörkum sé bent að í 2. mgr. gr. 3.1.4 skipulagsreglugerðar segi að heimilt sé að skilgreina landnotkun þrengra í deiliskipulagi en gert sé í aðalskipulagi. Fjarlægðarkröfum byggingareglugerðarinnar sé fyrst og fremst ætlað að mæta kröfum um eldvarnir og annan öryggisbúnað bygginga, sbr. 7. kafla reglugerðarinnar.  Svo sem 75. gr. og 138. gr. reglugerðarinnar beri með sér sé hér ekki um að ræða fastbundin hönnunarfyrirmæli eða forsendur, sem ekki megi hnika, gefi aðstæður tilefni til slíks, enda sé tryggt að gerðar séu um leið ráðstafanir til að minnka eða eyða að fullu þeirri sambrunahættu sem minni fjarlægð milli húsa en að framan greini myndi ella leiða til.  Vísist í þessum efnum til greina 75.5 og 75.6.  Vakin sé athygli á því að brunatæknileg hönnun hafi farið fram á fyrirhugaðri viðbyggingu hótelsins miðað við að minnsta fjarlægð milli húsanna verði fjórir metrar.  Brunamálastofnun hafi fallist á þessa brunatæknilegu hönnun. 

Varðandi afmörkun skipulagssvæðisins sé bent á að hið kærða deiliskipulag nái yfir allstórt svæði í miðbæ Ólafsvíkur, nánar tiltekið frá Hjarðartúni suður um hluta Mýrarholts og Grundarbrautar og suðaustur um stóran hluta Ólafsbrautar.  Áður hafi verið deiliskipulagt hafnarsvæði við Ólafsbraut.  Fullyrðing kærenda þess efnis að deiliskipulagið myndi ekki heildstæða einingu í skilningi 1. mgr. gr. 3.1.4 skipulagsreglugerðar sé því röng.  Svo sem fram komi í sjálfu deiliskipulaginu sé lögð áhersla á deiliskipulag áður óbyggðra lóða á svæðinu og lóða sem fyrirhugaðar séu framkvæmdir á.

Harðlega sé mótmælt fullyrðingu kærenda þess efnis að með deiliskipulaginu sé farið á svig við skipulagsskyldu samkvæmt skipulags- og byggingarlögum sem skapi réttaróvissu hjá þeim er fasteignir eigi á svæðinu.  Hið kærða skipulag hafi að sjálfsögðu verið sett fram í því skyni að gera réttarstöðu fasteignaeigenda á svæðinu skýrari og aðgengilegri.

Fullyrðingu kærenda, þess efnis að við gerð og mótun skipulagstillögunar hafi hvorki verið farið að ákvæðum skipulags- og byggingarlaga né reglugerðar um samráð og samvinnu við íbúa, sbr. 4. mgr. 9. gr. laganna og gr. 3.2 í skipulagsreglugerð, sé mótmælt.  Boðað hafi verið til sérstaks samráðsfundar um deiliskipulagstillögurnar sem hafi verið auglýstur og þeim sem ekki hafi átt heima á staðnum en hafi átt fasteignir á svæðinu hafi verið sent bréf og þeim boðið að koma til skrafs og ráðagerða um þau skipulagsdrög sem legið hafi fyrir.  Þetta hafi að flestra mati verið góður fundur þar sem margt hafi borið á góma.

Hvað varði sérstaka húsakönnun þá sé bent á að í deiliskipulagsskilmálum komi fram að haft hafi verið samráð við Húsfriðunarnefnd og sé húsið að Grundarbraut 1 eina húsið sem talið sé að hafi varðveislugildi innan svæðisins.  Ekki sé gert ráð fyrir neinum breytingum á lóðinni að Grundarbraut 1 samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi. 

Mótmælt sé þeim viðhorfum kærenda að ekki hafi verið tekið á öllum athugasemdum þeirra ásamt því að annmarkar hafi verið á samþykki bæjarstjórnar þegar hún hafi samþykkti tillögur skipulags- og byggingarnefndar um deiliskipulagið.  Á því sé byggt að afgreiðsla bæjarstjórnarinnar hafi verið fullnægjandi og hafi verið stuðst við hefð þegar gengið hafi verið til atkvæðagreiðslu um fundargerðir nefnda. 

Þá sé því mótmælt að úrskurður úrskurðarnefndarinnar frá 13. mars 2003, sbr. mál nr. 13/2002, hafi fordæmisgildi í kærumáli þessu.  Hér sé ekki verið að fjalla um breytingar á landnotkun frá því sem áður hafi verið ákveðið.  Sama gildi um fordæmi tilvitnaðs hæstaréttardóms og úrskurðum úrskurðarnefndarinnar sem kærandi tefli fram kröfu sinni til stuðning. 

Lóðarhafa lóðarinnar að Ólafsbraut 20-22 var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. janúar 2007, veitt færi á að tjá sig um ógildingarkröfu kærenda og var frestur til þess veittur til 25. s.m.  Hefur lóðarhafi ekki komið á framfæri til nefndarinnar sjónarmiðum sínum í þessum efnum. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags fyrir miðbæ Ólafsvíkur sem samþykkt var bæjarstjórn Snæfellsbæjar hinn 8. september 2005 og öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 21. nóvember s.á. 

Af hálfu kærenda er því haldið fram að gerð og undirbúningur hins kærða deiliskipulags hafi ekki verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Auglýsing um tillögu að breyttu aðalskipulagi Ólafsvíkur birtist í Lögbirtingarblaðinu hinn 20. apríl 2005 og fól hún m.a. í sér breytingu á því svæði er hið kærða deiliskipulag tekur til.  Var tillaga að breyttu aðalskipulagi samþykkt í bæjarstjórn hinn 8. júní 2005 og birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. ágúst s.á.  Tillaga að deiliskipulagi fyrir miðbæ Ólafsvíkur, sem var í samræmi við áðurnefnda tillögu að breyttu aðalskipulagi, var auglýst í Lögbirtingarblaðinu hinn 18. maí 2005 og samþykkt í bæjarstjórn hinn 8. september s.á.  Auglýsing um gildistöku hins kærða deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 21. nóvember 2005.  Á uppdrætti þess er yfirlitsuppdráttur að tillögu að auglýstri breytingu á aðalskipulagi Snæfellsbæjar, Ólafsvík en ekki er þar greint frá því að um ósamþykkta tillögu sé að ræða.  

Í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að deiliskipulag skuli gert á grundvelli aðalskipulags en þó geti sveitarstjórn auglýst tillögu að deiliskipulagi samhliða auglýsingu á tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.  Eins og að framan er lýst var tillaga að hinu kærða deiliskipulagi auglýst eftir að tillaga að breyttu aðalskipulagi hafði verið auglýst og voru tillögurnar að hluta til auglýstar á sama tíma.  Þá var hin kærða ákvörðun tekin eftir að nauðsynleg aðalskipulagsbreyting hafði tekið gildi og voru samþykktirnar því í réttri tímaröð.  Verður ekki fallist á, eins og atvikum er hér háttað, að við meðferð deiliskipulagstillögunnar hafi verið vikið svo verulega frá tilvitnuðu lagaákvæði að ógildingu varði þótt nokkurrar ónákvæmni hafi gætt við kynningu hennar.

Í málinu liggur fyrir bréf lögmanns Snæfellsbæjar til lögmanns kærenda, dags. 9. september 2005.  Í bréfinu er athugasemdum kærenda vegna auglýsingar á deiliskipulagi miðbæjar Ólafsvíkur svarað.  Hvorki er þess getið í bókun skipulags- og byggingarnefndar né í bókun bæjarstjórnar, varðandi hina kærðu ákvörðun, að fjallað hafi verið sérstaklega um svör bæjaryfirvalda vegna framkominna athugasemda kærenda.  Í 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga segir að sveitarstjórn skuli senda þeim er athugasemdir hafi gert við tillögu deiliskipulags umsögn sína um þær.  Ótvírætt er að fyrrnefnt bréf lögmanns Snæfellsbæjar var ritað í tilefni af athugasemdum kærenda og fól í sér svör við þeim.  Þykir sá annmarki, að ekki hafi verið fært til bókar á fundum að fjallað hafi verið sérstaklega um svör við athugasemdum kærenda, ekki eiga að leiða til þess að ógilda beri deiliskipulagið.  Ekki verður heldur fallist á ógildingu deiliskipulagsins sökum þess að afgreiðslu þess í bæjarstjórn hafi verið áfátt enda var á fundi bæjastjórnar bókað að fundargerð skipulags- og byggingarnefndar væri samþykkt samhljóða og verður ekki fallist á að samþykktin hafi verið í andstöðu við ákvæði 49. gr. og d-lið 21. gr. sveitarstjórnarlaga líkt og kærendur halda fram.

Af hálfu kærenda er því haldið fram að hið kærða deiliskipulag sé að minnsta kosti ólögmætt hvað varði staðsetningu byggingarreits viðbyggingar hússins að Ólafsbraut 20-22 innan lóðarinnar þar sem bil milli hans og húss kærenda að Grundarbraut 1 sé andstætt þágildandi ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi er byggingarreitur hússins nr. 20-22 við Ólafsbraut stækkaður í áttina að húsi kærenda og er stysta fjarlægð þar á milli um fjórir metrar, horn í horn, en hús kærenda og byggingarreiturinn standast ekki á.  Þótt þessi byggingarreitur fyrir viðbyggingu á lóðinni nr. 20-22 við Ólafsbraut sé sýndur í hinu umdeilda skipulagi verður við hagnýtingu hans að gæta ákvæða byggingarreglugerðar um brunahönnun og annað er máli skiptir.  Að þessu athuguðu þykir afmörkun umrædds byggingarreits ekki eiga að leiða til ógildar hinnar kærðu ákvörðunar.

Hið kærða deiliskipulag er sett fram á uppdrætti í mælikvarðanum 1:1000 ásamt greinargerð og skilmálum og nær deiliskipulagið yfir fjóra reiti sem ekki eru samliggjandi.  Á uppdrættinum er einnig loftmynd af Ólafsvík í mælikvarðanum 1:2000 og er þar nánari grein gerð fyrir mörkum deiliskipulagssvæðisins.  Þá er og á uppdrættinum sýnd tillaga að breyttu aðalskipulagi Snæfellsbæjar, Ólafsvík.  Í greinargerð deiliskipulagsuppdráttarins segir að haft hafi verið samráð við Húsafriðunarnefnd og sé talið að eina húsið á skipulagsreitnum er hafi varðveislugildi sé hús kærenda að Grundarbraut 1.  Verður ekki fallist á það með kærendum að framangreind framsetning sé í andstöðu við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. 

Eins og að framan er rakið óskaði Skipulagsstofnun eftir því að nánar tilgreindar lagfæringar yrðu gerðar á deiliskipulagstillögunni.  Verður ekki séð að tilefni hafi verið til þess af hálfu bæjaryfirvalda að auglýsa hana að nýju svo breytta, enda verður ekki talið að um grundvallarbreytingu hafi verið að ræða, sbr. 2. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.    

Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hins kærða deiliskipulags.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu samþykktar bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá 8. september 2005 um deiliskipulag miðbæjar í Ólafsvík.       

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________               _______________________________
                       Ásgeir Magnússon                                                      Þorsteinn Þorsteinsson 

 

 

 

 

 

 

 

 

20/2007 Heiðmörk

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 20/2007, kæra Náttúruverndarsamtaka Íslands á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 7. mars 2007 um að veita framkvæmdaleyfi til lagningar vatnsveitu frá Vatnsendakrikum um Heiðmörk innan lögsögu Reykjavíkurborgar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. mars 2007, sem barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 7. mars 2007 að veita framkvæmdaleyfi til lagningar vatnsveitu frá Vatnsendakrikum um Heiðmörk innan lögsögu Reykjavíkurborgar.

Kröfur kæranda og helstu málsrök:  Kærandi krefst þess að umrædd ákvörðun verði felld úr gildi.  Að auki er þess krafist að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda leyfi verði stöðvaðar þar til úrskurðarnefndin hafi kveðið upp úrskurð sinn í málinu.  Er til þess vísað af hálfu kæranda að fram hafi komið að framkvæmd sú sem leyfið taki til sé háð breytingu á aðalskipulagi sem ekki hafi enn verið gerð.  Fleiri rök eru færð fram í kærunni sem ekki verða rakin hér.

Úrskurðarnefndin hefur af sjálfsdáðum tekið til athugunar hvort kærandi uppfylli skilyrði til aðildar að kærumáli þessu og var honum gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum um það álitaefni.  Hefur nefndinni borist bréf kæranda, dags. 18. mars 2007, þar sem vísað er til 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefndina og telur kærandi að í tilvitnuðu ákvæði sé að finna fullnægjandi kæruheimild fyrir samtök sem hafi það m.a. að markmiði að vera málsvari umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða.  Orðalag reglugerðarákvæðisins sé heldur rýmra en orðalag 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en það girði þó ekki fyrir aðild kæranda að málinu. 

Ekki verði séð að neitt sé því til fyrirstöðu að tryggja með þessum hætti almenningi, og samtökum hans, rúman rétt til kæruaðildar enda sé það bæði í samræmi við almenna lagaþróun og skuldbindingar íslenska ríkisins á alþjóðavettvangi.  Vísar kærandi til þess að umhverfisráðherra hafi á árinu 1998 undirritað fyrir hönd íslenska ríkisins svonefndan Árósasamning, sem feli meðal annars í sér að almenningi og frjálsum félagasamtökum skuli tryggður réttur til þátttöku í ákvarðanatöku og aðgengi að réttarúrræðum við stjórnvaldsákvarðanir er varði umhverfið.  Það sé eðlilegt að réttur almennings og samtaka hans til kæruaðildar sé ekki túlkaður þrengra en stjórnvöld hafi ætlað og sé það skoðun Náttúruverndarsamtaka Íslands að þau eigi lögum samkvæmt fullan rétt til aðildar að stjórnsýslukæru þeirri sem hér um ræði.

Kröfur og sjónarmið Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að máli þessu verið vísað frá.  Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna áskilja borgaryfirvöld sér rétt til að koma að rökstuðningi og gögnum um efni málsins.

Frávísunarkrafan er byggð á þeim forsendum að Náttúruverndarsamtök Íslands eigi ekki kæruaðild að málinu þar sem þau hafi engra lögvarinna hagsmuna að gæta, sbr. 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Framkvæmd sú sem hið kærða leyfi taki til falli ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum og eigi því umhverfis- og náttúruverndarsamtök enga aðild að málinu.

Niðurstaða:  Náttúruverndarsamtök Íslands eru umhverfisverndarsamtök sem hafa það m.a. að markmiði að vera málsvari umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða.  Hvergi er í lögum að finna heimild fyrir því að samtök sem þessi eigi aðild að kærumálum á sviði skipulags- og byggingarmála án þess að eiga jafnframt þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni sem að stjórnsýslurétti eru taldir skilyrði aðildar að kæru til æðra stjórnvalds.  Hefur kærandi ekki sýnt fram á að hann eigi neinna þeirra hagsmuna að gæta er verið gætu grundvöllur aðildar hans að máli þessu samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins.  Þá verður ekki heldur fallist á að aðild kæranda geti átt stoð í 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefndina, en telja verður ákvæði þetta úrelt eftir þær breytingar sem gerðar voru á 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með lögum nr. 74/2005, er tóku gildi hinn 1. október 2005.  Er eftir nefnda breytingu skýrt kveðið á um það í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Eru engin efni til að skýra ákvæði reglugerðar nr. 621/1997 með þeim hætti að leiða eigi til rýmri kæruheimilda en lög standa til.

Sú undantekning er gerð frá framangreindri meginreglu 8. gr. laganna að sé um að ræða ákvarðanir vegna framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum eigi umhverfisverndar- og hagsmunasamtök, sem varnarþing eigi á Íslandi, jafnframt kærurétt, enda séu félagsmenn 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lúti að.  Þessi undantekningarregla á hins vegar ekki við í málinu enda liggur fyrir niðurstaða Skipulagsstofnunar frá 23. júní 2003 um að umrædd framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum og hefur þeirri niðurstöðu ekki verið hnekkt.

Loks verður ekki fallist á að aðild kæranda geti átt sér stoð í Árósasamningnum sem kærandi hefur vísað til.  Hefur samningur þessi ekki hlotið fullgildingu og ekki hafa verið gerðar neinar þær breytingar á íslenskum lögum er miða að því að innleiða ákvæði hans að því leyti sem hér skiptir máli.

Samkvæmt því sem að framan er rakið telst kærandi ekki eiga aðild að kærumáli um lögmæti hins umdeilda framkvæmdaleyfis og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________                        ____________________________
          Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson
                                                                            

 

26/2005 Hraunbær

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 15. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 26/2005, kæra á synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2005 um breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina að Hraunbæ 123 er fæli í sér að reisa þar loftnetsmastur. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. mars 2005, er barst nefndinni hinn 23. sama mánaðar, kærir Bandalag íslenskra skáta, Hraunbæ 123, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2005 að synja um breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina að Hraunbæ 123 er fæli í sér að reisa þar loftnetsmastur.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun. 

Málsatvik og rök:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 17. desember 2004 var tekin fyrir umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi er fæli í sér heimild til þess að reisa 15 metra loftnetsmastur í suð-austur horni lóðarinnar að Hraunbæ 123 í Reykjavík.  Var mastrið ætlað fyrir starfsemi fjarskiptaáhugamanna á vegum skátahreyfingarinnar.  Var ákveðið að grenndarkynna umsótta breytingu. 

Við grenndarkynningu komu fram andmæli gegn fyrirhuguðu mastri sem andmælendur töldu m.a. að ylli sjónmengun og útsýnisskerðingu og ætti það ekki heima í íbúðarbyggð. 

Málið var afgreitt á fundi skipulagsráðs hinn 9. febrúar 2005 með því að ráðið synjaði umsókn kæranda með vísan til andmæla íbúa.  Tilkynning um þessi málalok var send fulltrúa kæranda með bréfi, dags. 10. febrúar 2005. 

Kærandi fer fram á að honum verði veittur framlengdur kærufrestur í málinu.  Kærandi sé sjálfboðaliðasamtök og hafi mánaðar kærufrestur ekki reynst nægur til þess að taka afstöðu til málsins en kærandi telji að andmæli íbúa við grenndarkynningu byggi á misskilningi.  Hafi því ekki verið efni til að synja umdeildri umsókn kæranda. 

Niðurstaða:  Fyrir liggur að fulltrúa kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 10. febrúar 2005, en kæra til úrskurðarnefndarinnar er póststimplað hinn 21. mars 2005 og barst nefndinni hinn 23. sama mánaðar.  Liggur því ekki annað fyrir en kæran hafi borist að liðnum eins mánaðar kærufresti, eins og þá var kveðið á um í 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Úrskurðarnefndin hefur ekki að lögum heimild til þess að framlengja kærufrest að honum loknum og ekki þykja þau skilyrði fyrir hendi að unnt sé að taka kæruna til efnismeðferðar að loknum kærufresti á grundvelli 1. eða 2. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________             _________________________________
            Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

81/2005 Blesugróf

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 15. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2005, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur um breytt deiliskipulag fyrir Blesugróf.  

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. október 2005, er barst nefndinni hinn 27. sama mánaðar, kærir stjórn samtaka íbúa í Blesugróf samþykkt skipulagsráðs frá 26. september 2005 um breytt deiliskipulag Blesugrófar.  Á fundi borgarráðs hinn 29. sama mánaðar var afgreiðsla nefndarinnar staðfest. 

Við rannsókn úrskurðarnefndarinnar á málinu kom í ljós að kærandi er ekki lögaðili með skráða kennitölu.  Einn af stjórnarmönnum, Á, Bleikargróf 5, setti hins vegar fram kæru í eigin nafni og verður kæran því tekin til meðferðar hvað hann varðar.    

Málavextir:  Á fundi skipulagsfulltrúa hinn 24. júní 2005 var lögð fram umsókn félagsmálaráðuneytis f.h. Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík um lóð undir sambýli fyrir fatlaða og var fært til bókar að ekki væri gerð athugasemd við að unnin yrði tillaga að breyttu deiliskipulagi Blesugrófar vegna erindisins er síðar yrði grenndarkynnt.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 12. ágúst 2005 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Blesugrófar er m.a. fól í sér sameiningu lóðanna nr. 6 og 8 við Bleikargróf undir sambýli.  Var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum og stóð kynningin yfir frá 17. ágúst 2005 til 4. september s.á.  Athugasemdir bárust frá 14 aðilum, þ.á m. kæranda.  

Á fundi skipulagsráðs hinn 28. september 2005 var málið tekið fyrir á ný og lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa ásamt framkomnum athugasemdum og var tillagan samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Samþykkt, sbr. 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.“

Skipulagsstofnun tilkynnti í bréfi sínu, dags. 11. nóvember 2005, að hún gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt þar hinn 21. desember 2005.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að í hverfinu séu nú þegar tvö sambýli og tvö vinnuheimili fyrir fatlaða við Bjarkarás og Lækjarás.  Þessi starfsemi hafi verið í hverfinu í áratugi í góðu jafnvægi við umhverfi sitt og ekki skorið sig úr því litla byggðarlagi sem Blesugrófin sé.  Það sé álit kæranda að það raski fyrrgreindu jafnvægi að taka tvær lóðir í hverfinu undir starfsemi af þessu tagi. 

Bent sé á að Blesugrófarhverfi samanstandi af götunum Blesugróf, þar sem íbúar séu 125, Jöldugróf, þar sem íbúar séu 67, og Bleikargróf, þar sem íbúar séu 28, eða samtals 220.  Samkvæmt upplýsingum frá Svæðisskrifstofu fatlaðra séu 35 sambýli starfandi í borginni.  Íbúafjöldi Reykjavíkur sé um 113.000 og ef sama hlutfall sambýla væri um alla borg og nú sé í Blesugrófarhverfi væru sambýli fyrir fatlaða 1.035 í stað 35.  Með hinu kærða deiliskipulagi sé ætlunin að auka þetta hlutfall um helming. 

Yfirvöld verði að leitast við að gæta meðalhófs og hafa yfirsýn yfir viðfangsefni sín.  Að mati kæranda hafi það ekki tekist í þessu máli. 

Á fyrri stigum málsins hafi verið gerðar athugasemdir við að á sambýlum væri yfirleitt veitt þjónusta allan sólarhringinn og því mætti búast við aukinni umferð, ekki síst stærri bíla er þjónusti fatlaða.  Þá væri og um að ræða vinnustað sem fylgdi aukin umferð á öllum tímum sólarhringsins.  Bleikargróf, sem sé þröng og fámenn gata, myndi ekki bera þá miklu umferð sem komi til með að fylgja sambýli.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur sé landnotkun á reitnum skilgreind sem íbúðarsvæði þar sem gert sé ráð fyrir íbúðabyggð, þ.e. hefðbundnu íbúðarhúsnæði og annars konar íbúðum s.s. íbúðum fyrir stúdenta, dvalaríbúðum aldraðra, sambýlum fyrir fatlaða, heimili fyrir unglinga og börn og öðru íbúðarrými, ásamt tilheyrandi nærþjónustu.

Um sé að ræða deiliskipulagsbreytingu sem heimili nýtingu lóðar undir sambýli.  Hugtakið sambýli vísi til þess að um sé að ræða heimili fyrir fólk með þroskahömlun.  Slíkt heimili sé ekki opinber stofnun.  Mikilvægt sé að átta sig á því að um sé að ræða heimili eins og hvert annað í hverfinu, nema að því leyti að heimilisfólk þurfi aðstoð, eins til tveggja starfsmanna, til þess að geta búið í eigin íbúð vegna fötlunar sinnar.  Því sé hafnað að jafnræðisreglur séu brotnar á kæranda í máli þessu, enda hvergi í lögum eða reglugerðum kveðið á um að sambýlum fyrir fatlaða skuli dreift á grundvelli einhvers konar jafnræðissjónarmiða, enda um að ræða heimili venjulegs fólks.  Ekki séu þannig til sérstök viðmið um hlutfall íbúða fyrir fatlaða einstaklinga í hverfahlutum.  Í Blesugróf séu góð skilyrði til búsetu fyrir alla, stutt í útivistarsvæði og staðsetningin sé miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu.  Lítið sé um auðar lóðir í grónum borgarhlutum og því kjörið að nýta þessar lóðir undir sambýli.  Samkvæmt umsögn skipulagsfulltrúa geri deiliskipulagsbreytingin ráð fyrir sambýli fyrir fatlaða einstaklinga þar sem fjöldi íbúa verði um fimm til sex auk tveggja starfsmanna á tveimur til þremur vöktum á sólarhring.  Að auki njóti íbúar heimilisins ferðþjónustu fatlaðra til að komast leiða sinna.  Búast megi við að starfsmenn komi akandi til vinnu sinnar, þ.e. einn til tveir starfsmenn komi á morgnana og fari seinni partinn og þá komi aðrir í þeirra stað.  Við einbýlishús megi oft reikna með tveimur til þremur bílum á fjölskyldu.  Ekki sé gert ráð fyrir fleiri en fjórum bílastæðum samkvæmt breytingunni sem sé sami fjöldi og hafi verið samkvæmt eldra skipulagi.  Ekki verði því séð að meiri umferðarþungi fylgi sambýli fatlaðra en öðrum heimilum.

Jafnframt sé tekið fram að sambærileg heimili séu víða í borginni og í öllum tilfellum hafi slíkt fyrirkomulag gefið góða raun og hafi ríkt mikil og góð sátt við nágranna.

Minnt sé á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar.  Almennt verði menn að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.  Talið sé að þær breytingar á deiliskipulagi sem hér séu til umfjöllunar séu ekki þess eðlis að þær valdi óhóflegri skerðingu á hagsmunum kæranda þannig að ógildingu deiliskipulagsins varði.

Einnig sé á því byggt að löggjafinn hafi ákveðið að skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélögunum.  Það hafi verið ákvörðun borgaryfirvalda að heimila umræddar deiliskipulagsbreytingar fyrir Blesugróf og hafi kærandi ekki bent á neina annmarka á ákvörðuninni sem geti valdið ógildingu deiliskipulagsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulagsbreytingar fyrir Blesugróf er m.a. fól í sér heimild til að sameina einbýlishúsalóðirnar nr. 6 og 8 við Bleikargróf og nýta undir sambýli. 

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 eru lóðirnar að Bleikargróf 6 og 8 felldar undir landnotkunarflokkinn íbúðarsvæði og fellur því hin kærða ákvörðun að landnotkun aðalskipulags.    

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag og kusu borgaryfirvöld á undirbúningsstigi ákvörðunarinnar að neyta undanþáguheimildar 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi.  Verður að telja að það hafi verið heimilt eins og þarna stóð á, enda verður ekki talið að byggðarmynstur eða yfirbragð byggðarinnar breytist til mikilla muna við breytinguna. 
  
Kærandi heldur því fram að með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé með ólögmætum hætti gengið gegn grenndarhagsmunum hans sökum þess að í hverfinu séu nú þegar tvö sambýli og tvö vinnuheimili fyrir fatlaða.  Þessi starfsemi hafi verið í hverfinu í áratugi í góðu jafnvægi við umhverfi sitt.  Með hinni kærðu ákvörðun sé aftur á móti raskað jafnvægi hverfisins og meðalhófs ekki gætt.  Úrskurðarnefndin fellst ekki á þessi sjónarmið.  Verður ekki séð að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi í för með sér grenndaráhrif, svo sem aukna umferð eða ónæði, er leiða eigi til þess að fallist verði á kröfur kæranda um ógildingu ákvörðunarinnar. 

Samkvæmt framansögðu verður að telja að lagaskilyrðum hafi verið fullnægt og að málefnaleg rök hafi legið til grundvallar hinni kærðu ákvörðun og verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu samþykktar skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 28. september 2005 um breytt deiliskipulag Blesugrófar.       

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson 

 

 

13/2007 Fróðaþing

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 8. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 13/2007, kæra á samþykki bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. desember 2006 fyrir breytingu á deiliskipulagi er fól í sér breytta stöðu húss, færslu bílastæða og breytta aðkomu vegna lóðarinnar að Fróðaþingi 20, Kópavogi.  Þá er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 11. desember 2006 að veita byggingarleyfi í samræmi við breytt deiliskipulag vegna nefndrar lóðar. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. febrúar 2007, er barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærir S, lóðarhafi Fróðaþings 40, Kópavogi, samþykki bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. desember 2006 fyrir breytingu á deiliskipulagi er fól í sér breytta stöðu húss, færslu bílastæða og breytta aðkomu vegna lóðarinnar að Fróðaþingi 20, Kópavogi.  Þá er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 11. desember 2006 að veita byggingarleyfi  fyrir einbýlishúsi á nefndri lóð.  Bæjarstjórn staðfesti ákvörðun byggingarfulltrúa hinn 9. janúar 2007. 

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni.  Úrskurðarnefndinni hafa borist andmæli byggingarleyfishafa og hefur nefndin aflað sér nokkurra upplýsinga varðandi málið.  Þrátt fyrir að umbeðin gögn er málið varða hafa ekki borist frá bæjaryfirvöldum þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að taka til úrskurðar skipulagsþátt kærunnar og bráðabirgðakröfu um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi. 

Málavextir:  Hinn 12. desember 2006 samþykkti bæjarstjórn Kópavogs breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina að Fróðaþingi 20, að undangenginni umsókn lóðarhafa þar um.  Mun breytingin hafa falið í sér breytta stöðu fyrirhugaðs húss á lóð, færslu bílastæða og að aðkoma að lóð skyldi vera frá annarri götu en upphaflega var gert ráð fyrir.  Var breytingartillagan grenndarkynnt sem óveruleg breyting á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Byggingarfulltrúi veitti byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á nefndri lóð í samræmi við fyrrnefnda breytingartillögu hinn 11. desember 2006 er bæjarstjórn staðfesti hinn 9. janúar 2007. 

Málsrök kæranda:  Kærandi gerir athugasemdir við málsmeðferð og efni hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. 

Vafi sé í huga kæranda um hvort ákvörðun bæjarskipulags um grenndarkynningu hafi verið í samræmi við lög og ekki hafi verið færð fram rök fyrir breytingunni.  Áttundi liður deiliskipulagsskilmála, er bæjaryfirvöld vitni til, geti ekki heimilað svo veigamikla breytingu á stöðu húss og aðkomu að lóð er hér um ræði.  Hin kærða ákvörðun fari á skjön við synjun sambærilegs erindis lóðarhafa að Fróðaþingi 22, en eigi sömu sjónarmið eigi við í báðum tilvikum.  Grenndarkynning hafi ekki náð til allra hagsmunaaðila og kynningargögn hafi verið villandi þar sem sýnd hafi verið breytt aðkoma að lóðinni að Fróðaþingi 22 þrátt fyrir synjun um þá breytingu. 

Umdeild breyting og byggingarleyfi raski grenndarhagsmunum kæranda með því að aðkoma að Fróðaþingi 20 sé færð að götu er liggi við suðurlóð kæranda þar sem engin aðkoma sé fyrir að lóðum.  Breytingin hafi því í för með sér aukna umferð og annað ónæði sem raski lögvörðum hagsmunum kæranda auk þess sem snúningur umdeilds húss um 90 gráður eyðileggi fyrirhugaða götumynd. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er krafist frávísunar málsins og að stöðvunarkröfu kæranda verði hafnað.  Byggingarleyfishafi krefst jafnframt kærumálskostnaðar. 

Hið kærða byggingarleyfi styðjist við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og staðfest deiliskipulag sem breytt hafi verið með grenndarkynningu.  Ákvörðunin, sem sé stjórnvaldsákvörðun, hafi verið tilkynnt byggingarleyfishafa með opinberri birtingu hinn 15. desember 2006 og sé bindandi frá þeim tíma, sbr. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Kæra í máli þessu hafi því borist að liðnum kærufresti og beri af þeim sökum að vísa málinu frá.  Bent sé á að þeim sem hafi tjáð sig við grenndarkynningu skuli tilkynnt um lyktir máls og ekki sé kunnugt um að misbrestur hafi orðið í því efni. 

Samkvæmt 8. lið skilmála umrædds deiliskipulags komi skýrt fram að á teikningu séu sýnd dæmi um staðsetningu bílastæða og aðkomu að bílgeymslum en hönnuðum sé heimilt að gera tillögu að annarri staðsetningu.  Kæranda, sem lóðarhafa, hafi því átt að vera fullkunnugt um þessa skilmála og að staðsetning bílastæða og aðkoma að bílgeymslum kynni að verða útfærð nánar. 

Framkvæmdir séu hafnar að Fróðaþingi 20 á grundvelli lögmæts byggingarleyfis og hafi byggingarleyfishafi tekist á hendur miklar fjárskuldbindingar í því sambandi og hafi nú þegar selt íbúðarhús sitt.  Ekki fái staðist að réttur byggingarleyfishafa samkvæmt lögmætri ákvörðun eigi að víkja fyrir lítt skilgreindum grenndarhagsmunum.  Í lokamálslið 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga segi að ákvörðun sveitarstjórnar skuli standa við þessar aðstæður en að bótaréttur kunni að skapast þeim til handa sem verði fyrir hagsmunaröskun vegna skipulagsbreytingarinnar. 

Ekki eigi hér að skipta máli hvort útfærsla á deiliskipulagi lóðarinnar að Fróðaþingi 20 hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda, enda sé nefnt ákvæði 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga undantekningarákvæði frá 1. og 3. mgr. greinarinnar.  Þá verði jafnframt að skýra 2. mgr. 26. gr. laganna til samræmis við stjórnarskrárvarinn sjálfsforræðisrétt sveitarfélaga og á þann veg að Skipulagsstofnun hafi ekki endurskoðunarvald um óverulegar breytingar á deiliskipulagi. 

Krafa um kærumálskostnað sé sett fram í ljósi þess að byggingarleyfishafi hafi verið knúinn til að bregðast við kæru sem sé sett fram að ósekju.  Tafir á byggingarframkvæmdum hafi þegar valdið byggingarleyfishafa tjóni og augljóst að frekari tafir auki þann skaða.  Þótt ekki sé í lögum heimild fyrir kærumálskostnaði í málum fyrir úrskurðarnefndinni geti hún sem sjálfstætt stjórnvald ákvarðað greiðslu kostnaðar á málefnalegum forsendum.  Ennfremur sé minnt á að í 8. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga segi að kostnaður vegna úrskurðarnefndar greiðist úr ríkissjóði. 

Niðurstaða:  Hin kærða deiliskipulagsbreyting var gerð á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem óveruleg breyting á gildandi deiliskipulagi. 

Samkvæmt 26. gr. skipulags- og byggingarlaga er meginreglan sú að breytingar á deiliskipulagi sæti sömu málsmeðferð og nýtt deiliskipulag samkvæmt 25. gr. laganna.  Í því felst m.a. að auglýsa skal tillöguna í Lögbirtingarblaði og með öðrum áberandi hætti og skal mönnum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum innan ákveðins frests í samræmi við 1. og 2. mgr. 18. gr. laganna.  Í 2. mgr. 26. gr. er sú undantekning gerð, þegar um óverulega deiliskipulagsbreytingu er að ræða, að falla má frá auglýsingu en tillagan í stað þess grenndarkynnt samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Skal skipulagsbreytingin send Skipulagsstofnun ásamt yfirlýsingu um að sveitarstjórn taki að sér að bæta það tjón er einstakir aðilar kunni að verða fyrir við breytinguna.  Í 3. mgr. 26. gr. er síðan kveðið á um að birta skuli auglýsingu um breytt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda.

Fyrir liggur að hin samþykkta deiliskipulagsbreyting var ekki send Skipulagsstofnun til yfirferðar ásamt fyrrnefndri yfirlýsingu sveitarstjórnar og að auglýsing um gildistöku hennar hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Telur úrskurðarnefndin ótvírætt að birta þurfi gildistökuauglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda vegna deiliskipulagsbreytingar sem farið er með samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Tekin eru af öll tvímæli um þetta atriði í 3. mgr. ákvæðisins, sem væri augljóslega óþarft ætti það aðeins við um breytingar samkvæmt 1. mgr. 26. gr., enda er þar vísað til málsmeðferðar nýs skipulags sem sætir slíkri auglýsingu samkvæmt 25. gr. laganna.  Úrskurðarnefndin byggði á þessari lagatúlkun í úrskurði sínum uppkveðnum hinn 2. nóvember 2006 í máli nr. 54/2006 þar sem fallist var á kröfu Kópavogsbæjar um frávísun með þeim rökum að umþrætt deiliskipulagsbreyting í því máli, sem farið hafði verið með samkvæmt fyrrnefndri 2. mgr. 26. gr., hefði hvorki verið send Skipulagsstofnun né auglýsing um gildistöku hennar verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Samkvæmt framansögðu er málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum ekki lokið og hefur hún ekki tekið gildi.  Ber því að vísa kæru vegna deiliskipulagsbreytingarinnar frá með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Byggingarleyfishafi hefur í máli þessu gert kröfu um kærumálskostnað.  Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar eru markaðar í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga en þar er ekki að finna heimild fyrir úrskurðarnefndina til að úrskurða um kærumálskostnað á hendur málsaðilum.  Verður ekki fallist á að unnt sé að úrskurða um slíkan kostnað án beinnar lagastoðar og styðst sú ályktun við lögmætisreglu íslensks stjórnarfars- og stjórnskipunarréttar, en hún felur m.a. í sér að hver sú athöfn stjórnvalda sem leggur skyldur á herðar einstaklingum verði að eiga sér ótvíræða lagastoð.  Verður kröfu byggingarleyfishafa um kærumálskostnað af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Áhöld eru uppi í málinu m.a. um það hvort umþrætt byggingarleyfi hafi verið í samræmi við gildandi deiliskipulag er það var veitt.  Með vísan til þess, og með hliðsjón af því að úrskurðarnefndinni hafa enn ekki borist umbeðin gögn er málið varða frá Kópavogsbæ, þykir rétt að verða við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. 

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kæranda um ógildingu á samþykki bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. desember 2006 fyrir breytingu á deiliskipulagi er fól í sér breytta stöðu húss, færslu bílastæða og breytta aðkomu vegna lóðarinnar að Fróðaþingi 20, Kópavogi.

Kröfu byggingarleyfishafa um kærumálskostnað er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Framkvæmdir samkvæmt byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni að Fróðaþingi 20, Kópavogi, er byggingarfulltrúi Kópavogs veitti hinn 11. desember 2006 og bæjarstjórn Kópavogs staðfesti hinn 9. janúar 2007, skulu stöðvaðar þar til endanlegur úrskurður gengur í máli þessu varðandi nefnt byggingarleyfi. 

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________                  ____________________________
           Þorsteinn Þorsteinsson                                        Geirharður Þorsteinsson

62/2006 Eyrarstígur

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 8. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 62/2006, kæra á samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 26. júlí 2006 um byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. ágúst 2006, er barst nefndinni hinn 4. sama mánaðar, kæra H og G, eigendur hússins að Eyrarstíg 2, Reyðarfirði samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 26. júlí 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði.  Á fundi bæjarráðs hinn 1. ágúst 2006 var samþykkt nefndarinnar staðfest. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda.  Fyrir liggur að framkvæmdir við hina umdeildu bílgeymslu eru ekki hafnar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfuna um stöðvun framkvæmda heldur kveðinn upp efnisúrskurður í málinu. 

Málavextir:  Hinn 18. maí 2006 barst embætti byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar umsókn frá eiganda hússins nr. 4 við Eyrarveg á Reyðarfirði, m.a. um byggingu bílgeymslu á lóðinni.  Var samkvæmt umsókninni gert ráð fyrir að bílgeymslan yrði staðsett austan við húsið, um einn metra frá mörkum lóðarinnar að lóð nr. 2 við Eyrarveg, en á henni er bílgeymsla sem stendur fast að lóðarmörkum.  Ákvað byggingarfulltrúi að grenndarkynna beiðnina þar sem ekki væri til deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Á fundi umhverfismálaráðs hinn 12. júlí 2006 var umsóknin tekin fyrir ásamt athugasemdum kærenda og var afgreiðslu málsins frestað.  Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi ráðsins hinn 26. júlí s.á. og var eftirfarandi fært til bókar:  „Nefndin hefur skoðað málið vandlega og veitir byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4.  Uppfylla þarf skilyrði um brunavarnir vegna fjarlægðar á milli húsa.  Nefndin telur að framkvæmdin skerði útsýni að mjög litlu leyti.  Þar sem bílgeymsla á lóð nr. 2 er byggð mjög nálægt lóðarmörkum lítur ráðið svo á að um gagnkvæman rétt til byggingar bílgeymslu sé að ræða við lóðarmörk.“ 

Framangreindri samþykkt umhverfismálaráðs hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að verði af byggingu bílgeymslu í samræmi við hið kærða leyfi muni það hafa í för með sér birtu- og útsýnisskerðingu þar sem að nokkru yrði byggt fyrir glugga á húsi þeirra. 

Kærendur vísa til þess að hið kærða byggingarleyfi sé í andstöðu við ákvæði gr. 75.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, en samkvæmt ákvæðinu skuli lágmarks fjarlægð frá lóðamörkum vera þrír metrar.  Í því tilfelli er hér um ræði sé fjarlægðin aðeins einn metri og einn og hálfur metri sé á milli bílgeymslu á lóðinni nr. 2 við Eyrarstíg og þeirrar er um sé deilt í málinu.  Telji kærendur þetta fyrirkomulag í það minnsta varhugavert með tilliti til sambrunahættu. 

Kærendur gera athugasemd við undirbúning og málsmeðferð hins kærða leyfis og telja að gögn er notuð hafi verið við grenndarkynningu þess hafi ekki verið rétt.  Í þeim hafi m.a. verið vísað til gr. 12.5 í byggingarreglugerð í stað 2. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Málsrök Fjarðabyggðar:  Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ákvörðun umhverfismálaráðs byggi á því að bílskúr á lóð kærenda sé byggður aðeins um hálfan metra frá mörkum lóðanna að Eyrarstíg 2 og 4.  Bílastæði á lóðinni nr. 4 við Eyrarstíg hafi ávallt verið við mörk lóðanna og geti raunar ekki verið annars staðar.  Þegar veitt hafi verið heimild til byggingar bílskúrs á lóð kærenda hafi verið talið að um gagnkvæman byggingarrétt væri að ræða. 

Við ákvörðun um staðsetningu og stærð hinnar umdeildu bílgeymslu sé fullt tillit tekið til kærenda.  Þannig sé hún staðsett á mörkum lóðarinnar nr. 8 við Brekkugötu með samþykki eigenda þess húss ásamt því að hún sé höfð aðeins í 60 sentimetra fjarlægð frá íbúðarhúsi byggingarleyfishafa og sé hófleg að stærð. 

Varðandi birtuskerðingu sé bent á að þeir gluggar á húsi kærenda, er snúi að húsi byggingarleyfishafa og bygging bílgeymslunnar hafi áhrif á, séu á geymslu og þvottahúsi.  Eldhúsgluggi á húsi kærenda sé framan við fyrirhugaða bílgeymslu.  Því sé hafnað að kærendur verði fyrir útsýnisskerðingu enda þurfi að fella tré til að koma bílgeymslunni fyrir. 

Tekið sé fram að byggingarleyfið hafi verið veitt á þeim forsendum að brunakröfur verði í samræmi við ákvæði gr. 113.3, 113.4 og 113.6 í byggingarreglugerð. 

Grenndarkynningargögn hafi verið unnin af byggingarleyfishafa og megi rekja skekkju í þeim til loftmynda af svæðinu. 

Sjónarmið byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að hin umdeilda bílgeymsla muni uppfylla þær kröfur sem til hennar séu gerðar skv. 113 gr. í byggingarreglugerð og telji hann að ákvæði 75. gr. reglugerðarinnar eigi ekki við í þessu tilviki. 

Staðsetning bílgeymslunnar ákvarðist af því að hún hafi sem minnst grenndaráhrif og sé raunar eini mögulegi staðurinn sem hún geti verið á.  Þá sé bent á að eigendur hússins að Brekkugötu 8 hafi ekki sett fram neinar athugasemdir við byggingaráformin. 

Varðandi fullyrðingu kærenda þess efnis að þeir verði fyrir útsýnisskerðingu sé bent á að eina útsýnið sem þeir verði af sé bakgarður byggingarleyfishafa.  Gluggar á húsi kærenda er um ræði séu gegnt herbergisgluggum byggingarleyfishafa og vísi í vestur.  Skerðing verði ekki á sólarljósi fyrr en sólin sé komin norður fyrir vestur.  Þá sé degi farið að halla verulega, auk þess sem landfræðilegar aðstæður séu þess eðlis að sólargangur í vestri og norðan við vestur sé einungis yfir björtustu sumarmánuðina. 

Ekki sé réttmætt af hálfu kærenda að halda því fram að afstaða íbúðarhúss og bílgeymslu í þeirra eigu komi í veg fyrir byggingu hinnar umdeildu bílgeymslu.  Í hverfinu séu flest húsanna byggð á árunum 1960-1970 og við sum þeirra standi bílgeymslur við lóðamörk og séu sumar þeirra nær þeim en kærendur telji heimilt í kærumáli þessu. 

Að öðru leyti sé tekið undir sjónarmið þau er sett hafi verið fram af hálfu sveitarfélagsins. 

Niðurstaða:  Er hin kærða ákvörðun var tekin var í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 kveðið á um lágmarksfjarlægð frá lóðamörkum og minnsta bil milli húsa.  Þó var heimilt að víkja frá lágmarksfjarlægð frá lóðamörkum samkvæmt greininni í skipulagi eða með þinglýstum samningi lóðarhafa. 

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði og ekki liggur fyrir þinglýstur samningur lóðarhafa.  Var því ekki fullnægt skilyrðum til þess að heimila staðsetningu hinnar umdeildu bílgeymslu nær lóðamörkum en áskilið var í tilvitnuðu ákvæði svo sem gert var.  Því var hið umdeilda byggingarleyfi í andstöðu við gildandi ákvæði byggingarreglugerðar þegar leyfið var veitt og verður það af þeim sökum fellt úr gildi.  Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt nú hafi verið gerðar breytingar á umræddu reglugerðarákvæði til rýmkunar, enda verður hinu breytta ákvæði ekki beitt með afturvirkum hætti. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

 

Úrskurðarorð:

Samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 26. júlí 2006 um byggingarleyfi, sem staðfest var í bæjarráði hinn 1. ágúst 2006, fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði er felld úr gildi. 

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________                      _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                       Þorsteinn Þorsteinsson

25/2005 Norðurbakki

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 22. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 25/2005, kæra vegna byggingarframkvæmda samkvæmt deiliskipulagi fyrir Norðurbakka, Hafnarfirði, sem samþykkt var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 8. febrúar 2005.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. mars 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir S, f.h. Hansen ehf., Vesturgötu 4, Hafnarfirði, byggingarframkvæmdir samkvæmt deiliskipulagi fyrir Norðurbakka í Hafnarfirði sem samþykkt var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 8. febrúar 2005.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á greindri deiliskipulagsákvörðun.

Málavextir:  Hinn 26. janúar 2005 birtist í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing um gildistöku á breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015.  Fólst breytingin í því að meginhluta hafnarsvæðis á Norðurbakka var breytt í íbúðarsvæði en svæði næst miðbæ var breytt í blandað íbúðar- og miðsvæði.  Bryggja og hafnarkantur í suðurjaðri svæðisins voru áfram skilgreind sem hafnarsvæði.  Miðsvæði norðan Vesturgötu og vestan Merkurgötu var breytt í íbúðarsvæði en miðsvæði sunnan Vesturgötu og vestan Fjarðargötu var breytt í blandað íbúðar- og miðsvæði.  Samhliða þeirri breytingu var unnið að deiliskipulagi fyrir Norðurbakka þar sem m.a. var gert ráð fyrir fjölbýlishúsum á lóðunum að Vesturgötu 1 og 3 sem liggja sunnan Vesturgötu á móts við fasteign kæranda sem nýtt er undir veitingarekstur.  Á kynningartíma deilskipulagstillögunnar komu fram athugasemdir, þar á meðal frá kæranda.  Bæjarstjórn samþykkti deiliskipulagstillöguna hinn 8. febrúar 2005 og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. maí 2005.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur fyrirhugaða íbúðarbyggð á svæðinu fara of nærri fasteign hans að Vesturgötu 4, þar sem fram fari veitingastarfsemi.  Íbúðarhúsnæði og vínveitingastarfsemi eigi illa saman og hætta sé á hagsmunaárekstrum.  Þá séu öll bílastæði við veitingarstað kæranda lögð af.

Fyrirhugaðar breytingar hafi ekki verið grenndarkynntar og kærandi ekki átt þess kost að koma sjónarmiðum sínum að þótt hann eigi beinna hagsmuna að gæta og athugasemdum hans við fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu hafi ekki verið svarað af Hafnarfjarðarbæ.  Málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi því verið ábótavant samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og andmælaréttar kæranda ekki gætt samkvæmt. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar hafa ekki borist athugasemdir eða sjónarmið vegna kærumáls þessa en af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að bæjaryfirvöld telji að breytt landnotkun og íbúðarbyggð sú sem hið kærða deiliskipulag geri ráð fyrir gangi ekki gegn hagsmunum kæranda.  Samkvæmt skipulaginu verði t.d. heimilt að hafa þjónustustarfsemi á fyrstu hæðum bygginga í næsta nágrenni við kæranda.  Skipulaginu sé ætlað að þétta byggð í miðbæ Hafnarfjarðar og koma til móts við óskir fólks sem vilji búa nálægt þjónustu og miðbæjarlífi.

Niðurstaða:  Hin kærða skipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga sem almenn skipulagsbreyting og kom því ekki til grenndarkynningar samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins, sem kemur í stað almennrar auglýsingar þegar um óverulega breytingu á skipulagi er að ræða.  Kærandi kom á framfæri athugasemdum við deiliskipulagstillöguna í bréfi til skipulagsyfirvalda bæjarins, dags. 6. desember 2004, og var athugasemdum hans svarað eftir að kæra hans í máli þessu barst en fyrir gildistöku skipulagsins.  Verður málsmeðferð deiliskipulagsins því ekki talin haldin ágöllum að þessu leyti.

Eins og fram er komið tók gildi breyting á aðalskipulagi Hafnarfjarðar í janúar 2005 þar sem gert var ráð fyrir íbúðarbyggð á svonefndum Norðurbakka, m.a. gegnt fasteign kæranda við Vesturgötu í Hafnarfirði.  Sætir sú ákvörðun ekki endurskoðun hjá úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem aðalskipulagsbreytingin var staðfest af ráðherra.  Hið kærða deiliskipulag gerir ráð fyrir íbúðarbyggð á umræddu svæði í samræmi við núgildandi aðalskipulag Hafnarfjarðar og getur sú staðreynd ekki haft áhrif á gildi deiliskipulagsins.  Þá verður ekki séð af gögnum um fyrra skipulag svæðisins að bílastæði hafi fylgt fasteign kæranda að Vesturgötu 4 sem af séu lögð með hinni kærðu ákvörðun.

Að öllu þessu virtu verður ekki talið að hið kærða deiliskipulag raski hagsmunum kæranda með þeim hætti að ógildingu varði eða að aðrir þeir annmarkar séu fyrir hendi sem leitt gætu til slíkrar niðurstöðu.  Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 8. febrúar 2005 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Norðurbakka í Hafnarfirði.

 

     ___________________________         
Hjalti Steinþórsson

 

              ________________________               _________________________ 
                      Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson                               

     

 

95/2006 Laugaból

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 22. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 95/2006, kæra á bókun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps frá 7. desember 2006 um minningarskjöld á steini að Laugabóli í Súðavíkurhreppi. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 12. desember 2006, er barst stofnuninni hinn 13. sama mánaðar, kærir V, Holtagötu 11, Súðavík, bókun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps frá 7. desember 2006 um minningarskjöld á steini að Laugabóli í Súðavíkurhreppi.  Með bréfi, dags. 18. desember 2006, var kæran framsend úrskurðarnefndinni.  

Skilja verður kröfugerð kæranda á þann veg að gerð sé krafa um að hin kærða bókun  verði felld úr gildi.  

Málsatvik og rök:  Kærandi máls þessa ritaði bréf til byggingarnefndar Súðavíkurhrepps, dags. 22. september 2006, í kjölfar þess að eigandi jarðarinnar Laugabóls í Súðavíkurhreppi hafði sett upp minningarskjöld um látna niðja sína á stein einn er þar stendur.  Á minningarskildi þessum eru myndir og nöfn fjögurra látinna barna og barnabarna eigandans, þar á meðal af syni kæranda er lést á árinu 2001.  Í fyrrnefndu bréfi kæranda til byggingarnefndar var óskað eftir því að nefndin léti fjarlægja af steininum nafn og mynd af syni hennar enda hafi hún, sem nánasti aðstandandi, aldrei veitt samþykki sitt fyrir uppsetningu skjaldarins á steininn.  Byggingarnefnd tók erindi kæranda fyrir á fundi hinn 7. desember 2006 þar sem eftirfarandi var fært til bókar:  „Byggingarnefnd telur að þau ákvæði byggingarreglugerðarinnar sem bréfritari vísar til eigi frekar við um auglýsingaspjöld heldur en minningarsteina o.þ.h.  Byggingarnefnd telur sig ekki geta hlutast til um uppsetningu eða fyrirkomulag minningarspjalda sem einstaklingar setja upp á einkalóðum sínum.  Það er og álit nefndarinnar að það eigi ekki það sama við og ef minningarsteinninn væri á vegum opinberra aðila utan einkalóðar.“  Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 8. desember 2006, var greint frá þeirri niðurstöðu byggingarnefndar að minningarsteinar á einkalóðum féllu ekki undir reglugerð nr. 441/1998 og væru nefndinni því óviðkomandi.   

Framangreindri bókun byggingarnefndar hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kveði upp úrskurð í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Í 5. mgr. sömu greinar er áréttað að almennt taki úrskurðarvald nefndarinnar til stjórnvaldsákvarðana þótt frá því sé vikið í einstökum tilvikum sem greind eru í lögunum.  Uppsetning minningarskjaldar á stein á einkalóð getur hvorki talist vera mannvirki eða bygging né meiri háttar framkvæmd í skilningi skipulags- og byggingarlaga og því ekki háð leyfi byggingaryfirvalda eða sveitarstjórnar.  Þar sem hin kærða bókun verður ekki talin stjórnvaldsákvörðun er sæti endurskoðun úrskurðarnefndarinnar  verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.  

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                     Þorsteinn Þorsteinsson 

 

 

 

 

 

 

8/2007 Suðurströnd

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 15. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar  Seltjarnarness frá 11. janúar 2007 um að heimila byggingarfulltrúa bæjarins að gefa út takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu vegna byggingarleyfisumsóknar fyrir heilsuræktarstöð við Suðurströnd, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. janúar 2007, er barst nefndinni hinn 31. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h.  H, Steinavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 11. janúar 2007 að heimila byggingarfulltrúa bæjarins að gefa út takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu vegna byggingarleyfisumsóknar fyrir heilsuræktarstöð við Suðurströnd, Seltjarnarnesi.  Bæjarstjórn Seltjarnarness staðfesti greinda ákvörðun hinn 17. janúar 2007.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinni kærðu ákvörðun þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar.

Málsatvik og rök:  Hinn 25. júní 2005 voru haldnar almennar kosningar um skipulag og landnotkun á Hrólfsskálamel og Suðurströnd á Seltjarnarnesi og hlaut svokölluð S-tillaga, sem gerði ráð fyrir gervigrasvelli við Suðurströnd og íbúðarbyggð við Hrólfsskálamel, meirihluta atkvæða bæjarbúa.  Fyrirfram hafði verið gert ráð fyrir að niðurstaða kosninganna væri bindandi gagnvart bæjaryfirvöldum.  Var síðan unnið að gerð deiliskipulagstillagna fyrir íbúðarbyggð á Hrólfsskálamel og íþróttamannvirki á Suðurströnd sem öðluðust gildi hinn 16. október 2006 og 4. janúar 2007 og hefur kærandi í máli þessu kært þær skipulagsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar.  Eins og fyrr greinir samþykkti skipulags- og mannvirkjanefnd bæjarins að veitt yrði leyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum vegna fyrirhugaðrar heilsuræktarstöðvar skv. deiliskipulagi Suðurstrandar og munu framkvæmdir vera nýlega hafnar. 

Byggir kærandi kröfu sína um stöðvun framkvæmda á því að þær byggi á deiliskipulagi sem sé ólögmætt.  Skipulagið stangist á við niðurstöður bindandi kosninga í sveitarfélaginu og sé auk þess haldið ýmsum öðrum annmörkum sem tíundaðir séu í kærum kæranda vegna umræddra deiliskipulagsákvarðana.  Brýnt sé að stöðva framkvæmdir þar sem úrskurður um ógildi umrædds skipulags yrði ella haldlaus og framhald framkvæmda gæti haft áhrif á lyktir málsins auk þess sem  minni líkur yrðu á að tillit yrði tekið til sjónarmiða og hagsmuna kæranda.  Ljóst sé að kærandi hafi hagsmuna að gæta í máli þessu enda búi hann í næsta nágrenni við umrætt svæði.

Seltjarnarnesbær krefst frávísunar málsins en ella að stöðvunarkröfu verði hafnað. Vísa beri málinu frá  þar sem kærandi eigi ekki einstaklegra lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi hina kærðu ákvörðun og hafi ekki gert athugasemdir við deiliskipulag það sem ákvörðunin styðjist við og teljist því hafa samþykkt það skipulag.  Úrskurðarnefndin sé ekki til þess bær að fjalla um þá málsástæðu kæranda að með skipulaginu hafi verið farið gegn bindandi kosningu samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga enda eigi slíkur ágreiningur undir félagsmálaráðuneytið.  Úrskurðarnefndin geti eingöngu fjallað um hvort málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar og efni sé í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga.  Þessi málsástæða geti því ekki snert gildi hinnar kærðu ákvörðunar.  Skipulagið sé þar að auki í samræmi við þá tillögu, sem samþykkt hafi verið í kosningum í bæjarfélaginu sem grunnur að landnotkun umrædds svæðis við deiliskipulagningu þess, en tillögur þær sem kosið hafi verið um séu ekki ígildi skipulagstillagna.  Tillögurnar hafi ekki tekið til framkvæmda þeirra sem deilt sé um í máli þessu.  Deiliskipulag það sem hin kærða framkvæmd styðjist við hafi fengið lögmæta meðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og einungis hafi verið heimilaðar jarðvegsframkvæmdir og færsla lagna sem séu afturtækar framkvæmdir.  Ekki séu því efni til að stöðva umdeildar framkvæmdir en heimildir til slíkra þvingunarúrræða beri að túlka þröngt.

Niðurstaða:  Ekki verður fallist á að vísa frá kröfu kæranda um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda, en tekin verður afstaða til frávísunar málsins í endanlegum úrskurði, enda hefur úrskurðarnefndinni ekki gefist tóm til að meta og taka afstöðu til  atriða er haft geta þýðingu í því efni.

Hin kærða ákvörðun felur aðeins í sér heimild til jarðvegsframkvæmda og færslu á lögnum og er því viðurhlutalítið að færa hluti í fyrra horf beri nauðsyn til.  Af þeim sökum  þykir ekki nauðsyn knýja á um að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, um stöðvun framkvæmda við jarðvinnu og færslu lagna sem skipulags- og mannvirkjanefnd Seltjarnarness heimilaði hinn 11. janúar 2007, er hafnað.

 

 

_________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________    ____________________________
           Ásgeir Magnússon                                Geirharður Þorsteinsson