Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

66/2006 Álfhólsvegur

Ár 2008, þriðjudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2006, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 28. nóvember 2006 um að ekki hafi verið sýnt fram á að útgáfa byggingarleyfis fyrir bílskúr á lóðinni að Álfhólsvegi 61 hafi verið haldin annmörkum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. desember 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir K, íbúðareigandi að Löngubrekku 5, þá afgreiðslu byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 28. nóvember 2006 að ekki hafi verið sýnt fram á að útgáfa byggingarleyfis fyrir bílskúr á lóðinni að Álfhólsvegi 61 hafi verið haldin annmörkum.

Kærandi krefst þess jafnframt að byggingarleyfi fyrir umræddum bílskúr verði úrskurðað ólöglegt og að þar af leiðandi beri að fjarlægja hann.

Málavextir:  Á lóðinni að Álfhólsvegi 61 í Kópavogi stendur einbýlishús og bílskúr og liggur lóð kæranda að þeirri lóð.

Hinn 20. júní 2006 var erindi kæranda, um stækkun bílskúrs á lóð hans, hafnað með þeim rökum að ljóst teldist að þinglýst samþykki lóðarhafa að Álfhólsvegi 61 um byggingu bílskúrs að lóðamörkum fengist ekki.  Í kjölfarið gerðist það að kærandi óskaði skýringa á því í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 3. júlí 2006, hvers vegna veitt hefði verið leyfi fyrir byggingu bílskúrs að Álfhólsvegi 61 árið 1998, um 30 cm frá mörkum lóðar kæranda, án þinglýsts samþykkis hans og án undangenginnar grenndarkynningar.  Ítrekaði kærandi fyrirspurn sína í tölvupósti, dags. 8. ágúst s.á.

Í svarbréfi Kópavogsbæjar, dags. 24. október 2006, var beiðni kæranda um rökstuðning hafnað þar sem frestur til að óska eftir rökstuðningi ákvörðunar væri liðinn samkvæmt 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en ákvæðið kvæði á um að beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun skyldi bera fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt ákvörðun.  Andmælti kærandi því með bréfi, dags. 15. nóvember s.á., að honum hefði verið tilkynnt um ákvörðunina.  Með bréfinu krafðist kærandi þess jafnframt að umþrætt bílskúrsbygging yrði fjarlægð eða færð minnst þrjá metra frá lóðamörkum og lækkuð til samræmis við aðrar næstu bílskúrsbyggingar við Álfhólsveg.

Í svari embættis byggingarfulltrúa, dags. 28. nóvember 2006, var vísað til yfirlýsingar sem undirrituð hefði verið af hálfu kæranda hinn 24. júní 1998.  Þar hafi komið fram að kæranda hefðu verið kynntar teikningar að umræddum bílskúr og að engar athugasemdir hefðu verið gerðar.  Þá sagði svo:  „Í ljósi þess að ekki hefur verið sýnt fram á að ákvörðun um útgáfu framangreinds byggingarleyfis hafi verið haldin annmörkum er kröfu yðar um niðurrif hafnað.“  Jafnframt var leiðbeint um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar.

Hefur kærandi skotið fyrrgreindri synjun, dags. 28. nóvember 2006, til úrskurðarnefndarinnar eins og áður greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur að þegar byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir byggingu umrædds bílskúrs hafi hvorki skipulags- né byggingarnefnd fjallað um umsókn og engin grenndarkynning farið fram líkt og kveðið sé á um í gr. 12.5 byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Þá hafi kæranda verið synjað um byggingarleyfi á grundvelli þess að skort hafi þinglýst samþykki lóðarhafa nágrannalóðar en ekki hafi þurft samskonar þinglýst samþykki við útgáfu hins kærða byggingarleyfis og því hafi jafnræðis ekki verið gætt.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Kópavogsbær krefst þess aðallega að kröfum kæranda verði vísað frá.  Kærufrestur sé samkvæmt 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt um þá samþykkt sem hann kæri.  Byggingarleyfi hafi verið gefið út í ágúst 1998 og kæra því allt of seint fram komin.

Til vara sé þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað þar sem ákvörðun sveitarstjórnar um veitingu byggingarleyfis hafi verið lögmæt.  Jafnframt sé bent á að í gögnum málsins liggi fyrir undirskrift kæranda við grenndarkynningu þar sem hann samþykki að bílskúrinn verði reistur.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð sú niðurstaða byggingarfulltrúa frá 28. nóvember 2006 að ekki hafi verið sýnt fram á að útgáfa byggingarleyfis fyrir bílskúr á lóðinni að Álfhólsvegi 61 hafi verið haldin annmörkum og þar af leiði að synja beri kröfu kæranda um að bílskúrinn verði fjarlægður eða færður frá lóðamörkum og lækkaður. 

Þá krefst kærandi þess jafnframt fyrir úrskurðarnefndinni að byggingarleyfi fyrir umræddum bílskúr verði úrskurðað ólöglegt og að þar af leiðandi beri að fjarlægja hann.

Hin kærða afstaða byggingarfulltrúa frá 28. nóvember 2006 kemur fram í bréfi til kæranda og er svar við erindi sem skilja verður svo að krafist hafi verið íhlutunar byggingaryfirvalda og beitingar þvingunarúrræða.  Hefði afgreiðsla slíks erindis þurft að koma til kasta bæjarstjórnar og verður svar byggingarfulltrúa ekki talið fela í sér ákvörðun sem bindi enda á meðferð máls.  Sætir hin umdeilda afgreiðsla byggingarfulltrúa því ekki kæru, skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður þessum lið kærunnar því vísað frá.

Byggingarleyfi vegna bílskúrs að Álfhólsvegi 61 mun hafa verið gefið út á árinu 1998.  Var kærufrestur vegna ákvörðunar bæjaryfirvalda um byggingarleyfið því löngu liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni hinn 27. desember 2007, en fresturinn er einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Voru því  ekki lengur skilyrði til þess að bera lögmæti leyfisins undir úrskurðarnefndina, er kæra í máli þessu barst nefndinni hinn 27. desember 2006, enda verður ekki fallist á að síðbúið erindi kæranda til bæjaryfirvalda geti markað upphaf nýs kærufrests varðandi leyfisveitinguna.  Ber því einnig skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa þessum þætti kærumálsins frá úrskurðarnefndinni.

Með vísan til þess er að framan greinir er málinu vísað í heild frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________         
 Hjalti Steinþórsson        

 

____________________________        ____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson