Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

7/2008 Vesturberg

Ár 2008, þriðjudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 7/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. september 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og breytingu dæluhúss Hitaveitu Reykjavíkur á lóðinni að Vesturbergi 195 í Reykjavík í þriggja íbúða raðhús. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. janúar 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Tryggvi Þórhallsson hdl., f.h. G, Vesturbergi 199, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. september 2007 að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og breytingu á dæluhúsi Hitaveitu Reykjavíkur, á lóðinni að Vesturbergi 195 í Reykjavík, í þriggja íbúða raðhús.  Borgarráð staðfesti þessa afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 20. september 2007. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og verður sú krafa nú tekin til úrskurðar. 

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að kærandi fékk á árinu 1990 leyfi til að byggja yfir svalir hússins að Vesturbergi 199 með gluggum til suðurs í átt að dæluhúsi Hitaveitu Reykjavíkur að Vesturbergi 195.  Í yfirlýsingu sem gerð var af því tilefni, dags. 19. janúar 1990, segir m.a:  „Engar athugasemdir eru gerðar af hálfu Hitaveitunnar við fyrirhugaðar framkvæmdir, enda ekki fyrirhuguð viðbygging við dælustöðina.“  Þar sagði enn fremur að Hitaveitan samþykkti að yfirlýsingunni yrði þinglýst sem kvöð á lóð Hitaveitunnar.  Síðar var dælustöðin aflögð og fasteignin seld. 

Hinn 21. október 2003 samþykkti borgarráð Reykjavíkur breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Vesturbergi 195, sem fól m.a. í sér heimild til viðbyggingar við hús það sem stendur á lóðinni.  Var deiliskipulagsbreytingin kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem felldi skipulagsbreytinguna úr gildi með úrskurði uppkveðnum 30. ágúst 2006, m.a. með þeim rökum að bil milli heimilaðrar viðbyggingar og hússins að Vesturbergi 199, uppfyllti ekki skilyrði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þar um. 

Ný tillaga að deiliskipulagsbreytingu varðandi lóðina að Vesturbergi 195 var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 6. október 2006 og málinu vísað til skipulagsráðs, sem samþykkti að auglýsa tillöguna til kynningar á fundi sínum hinn 11. október og vísaði málinu til borgarráðs. 

Að lokinni auglýsingu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 10. janúar 2007 þar sem fyrir lágu framkomnar athugasemdir, m.a. frá kæranda, ásamt umsögn framkvæmdasviðs, dags. 22. desember 2006, og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. janúar 2007.  Var deiliskipulagstillagan samþykkt með svofelldri bókun:  „Auglýst tillaga samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa og Framkvæmdasviðs.  Vísað til borgarráðs.“  Borgarráð staðfesti þessa afgreiðslu hinn 18. janúar 2007. 

Hin samþykkta tillaga fól í sér heimild til að byggja þriggja íbúða raðhús á þremur hæðum að Vesturbergi 195, byggingarreitur var stækkaður og byggingarmagn aukið úr 213,5 fermetrum í 465 fermetra.  Leyft var að grafa frá bakhlið húss til þess að skapa möguleika á gluggum á bakhlið og göflum kjallara.  Við breytinguna fór nýtingarhlutfall lóðarinnar í 0,6. 

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 30. mars 2007 var lagt fram bréf Skipulagsstofnunar, dags. 15. mars 2007, þar sem fram kom að stofnunin gæti ekki tekið afstöðu til gildistökuauglýsingar fyrrgreindrar skipulagstillögu fyrr en fjallað hefði verið um allar athugasemdir sem borist hefðu á auglýsingatímanum.  Var lagður fram viðauki við greinargerð skipulagsfulltrúa um athugasemdir og svör, dags. 27. mars 2007, og sá viðauki samþykktur.  Skipulagsstofnun tilkynnti síðan að ekki væri gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagstillögunnar í B-deild Stjórnartíðinda.  Birtist auglýsing þar um hinn 9. maí 2007.  Skaut kærandi ákvörðuninni um deiliskipulagsbreytinguna til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 8. júní 2007. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. september 2007 var síðan samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við dælustöðina að Vesturbergi 195 og að breyta henni í þriggja íbúða raðhús.  Hefur kærandi nú skotið veitingu þessa byggingarleyfis til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er skírskotað til röksemda sem sett séu fram í kæru hans á deiliskipulagsbreytingu vegna lóðarinnar að Vesturbergi 195 sem sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

Þá sé byggt á því að útgáfa hins kærða byggingarleyfis standist ekki gagnvart þeirri meginreglu skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest deiliskipulag, sbr. 2. mgr. 43. gr. laganna.  Kærandi telji ekki heimilt að veita byggingarleyfi sem stoð eigi í deiliskipulagsbreytingu sem sé til efnismeðferðar hjá þar til bæru stjórnvaldi.  Þessi staðreynd renni jafnframt stoðum undir kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda enda gætu byggingarframkvæmdir á grundvelli umdeilds byggingarleyfis raskað réttarstöðu málsaðila og haft áhrif á afdrif mála.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfum kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað. 

Í gildi sé deiliskipulag fyrir Breiðholt III, er taki til Vesturbergs 195.  Sú staðreynd að breyting á deiliskipulagi skuli vera til efnismeðferðar hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála komi ekki í veg fyrir útgáfu byggingarleyfis með stoð í þeirri breytingu, enda hafi henni ekki verið hnekkt. 

Kærandi hafi ekki gert efnislegar athugasemdir við byggingarleyfið þrátt fyrir kröfu um ógildingu þess og ekki séu fyrir hendi ágallar á málsmeðferð.  Séu því ekki rök fyrir ógildingarkröfu kæranda eða kröfu hans um stöðvun framkvæmda

Niðurstaða:  Hið kærða byggingarleyfi var veitt á grundvelli deiliskipulagsbreytingar þeirrar er borgarráð samþykkti hinn 18. apríl 2007, er kærandi máls þessa skaut til úrskurðarnefndarinnar hinn 8. júní 2007. 

Fyrr í dag var kveðinn upp úrskurður í því kærumáli þar sem kröfu kæranda um ógildingu skipulagsbreytingarinnar var hafnað. 

Þrátt fyrir þá niðurstöðu eru áhöld um að umdeilt byggingarleyfi uppfylli skilmála skipulagsins og ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um brunavarnir.  Telur úrskurðarnefndin þörf á að kalla eftir frekari gögnum um það efni.  Með hliðsjón af því, og þar sem útgáfa byggingarleyfis skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er yfirvofandi, þykir rétt að verða við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda þar til mál þetta er til lykta leitt hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir á lóðinni að Vestubergi 195 í Reykjavík skulu stöðvaðar þar til endanlegur úrskurður liggur fyrir í máli þessu.

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________            ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson