Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

64/2007 Laufásvegur

Ár 2008, fimmtudaginn 6. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 64/2007, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 6. júní 2007 um að synja umsókn um deiliskipulagsbreytingu er fól í sér heimild til að reisa sólstofu á þaki bílskúrs við vesturhlið hússins að Laufásvegi 74. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. júlí 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir E, Laufásvegi 74 í Reykjavík ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 6. júní 2007 um að synja umsókn hans um deiliskipulagsbreytingu er fól í sér heimild til að reisa sólstofu á þaki bílskúrs við vesturhlið hússins að Laufásvegi 74.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Hús kæranda að Laufásvegi 74 stendur suðaustanvert við Laufásveg 72, sem er gestabústaður embættis forseta Íslands.  Embættið hlaut fasteignina í arf til greindra nota í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar.  Í erfðaskrá var tekið fram að fasteignin skyldi notuð sem höfuðborgarsetur forseta Íslands eða sem aðsetur erlendra gesta ríkisstjórnarinnar svo sem þjóðhöfðingja.  Í gildi er deiliskipulag fyrir svonefndan Smáragötureit frá árinu 2005 er tekur til umrædds svæðis. 

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 16. mars 2007 var lögð fram beiðni kæranda, dags. 13. mars s.á., um breytingu á fyrrnefndu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 74 við Laufásveg þar sem heimilað yrði að byggja sólstofu á þaki bílgeymslu við vesturhlið hússins.  Skipulagsfulltrúi samþykkti að grenndarkynna tillöguna. 

Athugasemdir bárust frá forsætisráðuneytinu og embætti forseta Íslands, dags. 20. apríl 2007, þar sem deiliskipulagstillögunni var mótmælt.  Voru andmælin studd þeim rökum að glerbygging á þaki bílskúrs að Laufásvegi 74 hefði í för með sér umtalsverðar breytingar á friðhelgi hússins að Laufásvegi 72 og þeirra gesta er þar kæmu, þar sem bein sjónlína yrði frá glerhýsinu í vistarverur gestahússins að Laufásvegi 72.  Byggingin yrði í um tveggja metra fjarlægð frá lóðarmörkum Laufásvegar 72 og grenndaráhrif því mikil.  Öðru máli gegndi ef um væri að ræða byggingu með föstum veggjum og gluggum til suðurs.  Tillagan fari í raun gegn nýlegum skipulagsskilmálum Smáragötureits þar sem gert sé ráð fyrir að ekki sé heimilt að nota þök bílskúra til útivistar nema sérstaklega sé kveðið á um það.  Þá var skírskotað til öryggishagsmuna vegna hlutverks gestabústaðarins við móttöku og dvöl erlendra tignargesta.  Öryggiskröfur vegna slíkra gesta hafi aukist og í umsögn ríkislögreglustjóra um öryggismál gestabústaðar forsetaembættisins, dags. 18. apríl 2007, sé lagst gegn umræddum byggingaráformum. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 6. júní 2007 og erindinu synjað með vísan til umsagnar lögfræði og stjórnsýslu skipulags- og byggingarsviðs, dags. 5. júní 2007.  Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum hinn 7. júní 2007 og hefur kærandi skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að óþolandi sé að ekki sé hægt að laga gamalgróið íbúðarhverfi að nútíma lifnaðarháttum vegna óskiljanlegra og órökstuddra öryggiskrafna.  Eigi fyrrgreindir öryggishagsmunir við rök að styðjast sé starfsemin að Laufásvegi 72 á röngum stað og beri að víkja fyrir eðlilegum hagsmunum fasteignareigenda í íbúðarhverfinu. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld fara fram á að kröfum kæranda í máli þessu verði hafnað. 

Skipulagsráði hafi verið heimilt að afgreiða erindi kæranda með þeim hætti sem gert hafi verið.  Fyrir liggi að hin kærða umsókn hafi fengið meðferð í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Breytingartillaga deiliskipulagsins hafi verið kynnt hagsmunaaðilum á svæðinu í samræmi við ákvæði laga. 

Við grenndarkynningu hafi komið fram athugasemdir frá forsætisráðuneytinu og embætti forseta Íslands er hafi lotið að öryggismálum vegna Laufásvegar 72 er gegni mikilvægu hlutverki við móttöku gesta íslenska ríkisins þar sem uppfylla þurfi strangar kröfur um öryggi og öryggisumbúnað.  Hin kærða synjun skipulagsráðs hafi tekið mið af greindum athugasemdum er hafi stafað frá þeim aðilum sem lögum samkvæmt beri ábyrgð á öryggismálum og hafi sérþekkingu á þeim öryggiskröfum sem fylgja þurfi vegna hlutverks gestahúss forsetaembættisins.  Það hafi þó verið ítrekað að ekki hafi verið gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið, enda hafi synjunin einungis byggst á því faglega mati ríkislögreglustjóra sem legið hafi frammi í málinu.  Hafi ákvörðunin því verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum en ekki verði séð að kærandi hafi átt lögvarinn rétt til þess að borgaryfirvöld breyttu gildandi deiliskipulagi í samræmi við ósk hans. 

Niðurstaða:  Hin kærða synjun á beiðni kæranda um breytingu á deiliskipulagi Smáragötureits, er tekur m.a. til lóðanna að Laufásvegi 72 og 74, var reist á fyrirliggjandi umsögn lögfræði og stjórnsýslu skipulags- og byggingarsviðs frá 5. júní 2007 þar sem framkominna athugasemda forsetaembættisins og forsætisráðuneytisins var getið.  Í umsögninni segir m.a: 

„Með vísan til eðlis athugasemdanna og þess að þær stafa frá þeim aðilum sem lögum samkvæmt bera ábyrgð á og hafa sérþekkingu á þeim öryggiskröfum sem gera þarf við notkun fasteignar sem gegnir hlutverki sem gestahús forsetaembættisins, er ekki mælt með því að skipulagsráð samþykki umsótta breytingu.  Það skal þó ítrekað að afstaða skipulagsstjóra Reykjavíkurborgar gagnvart hinum umsóttu breytingum hefur ekki breyst og þykir ekki ástæða til að gera neinar skipulagslegar athugasemdir við erindið, enda mun synjunin einungis byggjast á því faglega mati Ríkislögreglustjóra sem liggur frammi í málinu.“ 

Í 4. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 kemur fram að í greinargerð deiliskipulags sé forsendum þess lýst og einstök atriði skýrð svo og skipulags- og byggingarskilmálar sem kveða nánar á um skipulagskvaðir og önnur atriði sem skylt sé að hlíta samkvæmt skipulaginu.  Nánar er kveðið á um framsetningu og efni deiliskipulags í gr. 5.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 og er tekið fram í lokamálslið gr. 5.4.1 að skipulagsskilmálar deiliskipulags feli í sér bindandi útfærslu stefnu og ákvæða aðalskipulags fyrir viðkomandi skipulagssvæði sem í umfjölluðu tilviki er íbúðarsvæði. 

Af fyrirliggjandi gögnum um gildandi deiliskipulag umrædds svæðis verður ekki séð að deiliskipulagið leggi á sérstakar kvaðir með tilliti til öryggishagsmuna tengdum dvöl opinberra gesta að Laufásvegi 72 eða taki sérstaklega mið af þeim hagsmunum með öðrum hætti.  Öryggishagsmunir þeir sem teflt er fram sem einu rökunum fyrir hinni kærðu ákvörðun, eiga samkvæmt framansögðu ekki stoð í gildandi deiliskipulagi svæðisins, en slíkir sértækir hagsmunir vegna notkunar fasteignar á íbúðarsvæði geta einir og sér ekki talist viðhlítandi stoð fyrir ákvörðun um nýtingu granneigna, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 21. febrúar sl. í máli nr. 62/2007.  Þykir hinni kærðu ákvörðun því svo áfátt að ekki verði hjá því komist að ógilda hana. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 6. júní 2007, er borgarráð staðfesti hinn 7. júní sama ár, á umsókn um deiliskipulagsbreytingu er fól í sér heimild til að reisa sólstofu á þaki bílskúrs við vesturhlið hússins að Laufásvegi 74, Reykjavík. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________       ______________________________
  Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson