Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2008 Helguvík

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 53/2008, kæra á ákvörðunum sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi, dags. 27. júlí 2008, er barst úrskurðarnefndinni hinn 30. sama mánaðar, kærir T, Bleikjukvísl 1, Reykjavík, þær ákvarðanir sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi.  Síðar, eða með bréfi, dags. 6. ágúst 2008, er barst úrskurðarnefndinni hinn 11. ágúst 2008, kærir E, Skógarbraut 926, Reykjanesbæ, sömu ákvarðanir.  Með bréfi, dags. 11. ágúst 2008, sem póstlagt var sama dag, en barst úrskurðarnefndinni hinn 21. sama mánaðar, kærir G, Garðabraut 78, Garði einnig sömu ákvarðanir.  Með hliðsjón af málatilbúnaði kærenda verður ekki séð að neitt standi því í vegi að kærumálin verði sameinuð og verða síðari tvö kærumálin, sem eru nr. 75/2008 og 81/2008, því sameinuð hinu elsta, en það er nr. 53/2008. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar.  Þykir málið nú vera tækt til lokaúrskurðar og verður því ekki fjallað sérstaklega um þá kröfu kærenda. 

Málavextir og málsrök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Garðs hinn 2. júlí 2008 var lagt til við sveitarstjórn að samþykkt yrði umsókn Norðuráls Helguvíkur sf. um byggingu álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi.  Var tillaga nefndarinnar staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 3. sama mánaðar.  Þá var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar hinn 2. júlí 2008 samþykkt tillaga sama efnis og hún samþykkt í bæjarráði Reykjanesbæjar hinn 3. sama mánaðar. 

Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að áhrif byggingar álvers í Helguvík verði mikil í samfélaginu á Suðurnesjum.  Álverið muni hafa neikvæð áhrif á annan rekstur, svo sem ferðamennsku, heilsustarfsemi.  Það mengi og spilli náttúru og heilsu fólks. 

Þá telji kærendur að með hinu kærða leyfi sé brotið gegn réttindum þeirra sem þegna í réttarríki með brotum á grundvallargildum, ákvæðum stjórnarskrár og alþjóðlegum skuldbindingum. 

Af hálfu Reykjanesbæjar og Garðs er þess krafist að kærunum verði vísað frá sökum þess að kærendur eigi ekki einstaklegra eða lögvarinna hagsmuna að gæta og eigi því ekki aðild að málinu, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geta þeir einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Sé um að ræða ákvarðanir vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum eiga umhverfisverndar- og hagsmunasamtök, sem varnarþing eiga á Íslandi, jafnframt sama rétt enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.  Er aðild slíkra samtaka, eðli máls samkvæmt, ekki bundin því skilyrði að þau eigi lögvarinna hagmuna að gæta. 

Kærendur máls þessa eru einstaklingar og eru þeir búsettir í talsverðri fjarlægð frá þeim stað þar sem hin umdeildu mannvirki eiga að rísa.  Hafa þeir í kærum sínum vísað til sjónarmiða er fremur lúta að almannahagmunum en einkahagsmunum og hefur enginn þeirra sýnt fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir raski neinum einstaklingsbundnum rétti.  Verða þeir því ekki taldir eiga þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í máli þessu sem eru skilyrði aðildar kærumáls fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________         _________________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

68/2008 Helguvík

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 68/2008, kæra Náttúruverndarsamtaka Íslands á ákvörðunum sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. ágúst 2008, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands þær ákvarðanir sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

Krefjast samtökin ógildingar leyfanna.  Til bráðabirgða er þess og krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar þar til málið hafi verið til lykta leitt, sbr. 6. mgr. 8. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. einnig 29. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður stöðvunarkrafan nú tekin til úrskurðar. 

Málavextir og málsrök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Garðs hinn 2. júlí 2008 var lagt til við sveitarstjórn að samþykkt yrði umsókn Norðuráls Helguvíkur sf. um byggingu álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi.  Var tillaga nefndarinnar staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 3. sama mánaðar.  Þá var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar hinn 2. júlí 2008 samþykkt tillaga sama efnis og hún samþykkt í bæjarráði Reykjanesbæjar hinn 3. sama mánaðar. 

Kærandi kveður forsögu málsins vera þá að Náttúruverndarsamtök Íslands hafi kært byggingarleyfi sem sveitarstjórnir Garðs og Reykjanesbæjar hafi gefið út hinn 12. mars 2008.  Eftir að sveitarstjórnirnar hafi áttað sig á að gallar hafi verið á þeim leyfisveitingum hafi leyfið verið afturkallað hinn 2. júlí 2008 og nýtt leyfi gefið út daginn eftir.  Þar með sé ljóst að framkvæmdir sem hafnar hafi verið á grundvelli hins áður kærða leyfis hafi verið ólöglegar.  Því sé ástæða til að undirstrika bráðabirgðakröfu samtakanna um að framkvæmdir verði stöðvaðar án tafar þar til málið hafi verið til lykta leitt. 

Kærandi vísar einkum til þess að í áliti Skipulagsstofnunar um álver í Helguvík séu gerðir þrír fyrirvarar sem leyfisveitendum sé gert að horfa til við útgáfu leyfa.  Fyrirvarar Skipulagsstofnunar varði óvissu varðandi orkuöflun, orkuflutninga og losunarheimildir fyrir gróðurhúsalofttegundir.

Útgáfa framkvæmdaleyfisins (byggingarleyfis) uppfylli ekki 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, en þar komi fram að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar, en þess hafi ekki verið gætt. 

Af hálfu sveitarfélaga þeirra sem gáfu út hið kærða byggingarleyfi er á því byggt að það sé meginregla stjórnsýsluréttar, sem m.a. komi fram í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993,  að kæra fresti ekki réttarhrifum ákvörðunar.  Með hliðsjón af þeirri meginreglu telji sveitarfélögin að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála verði að túlka heimildir sínar til að stöðva framkvæmdir þröngt og beita þeim af mikilli varfærni. 

Í því tilviki sem hér um ræði sé ljóst að umfangsmikil undirbúningsvinna og jarðvegsframkvæmdir eigi eftir að fara fram áður en hafist verði handa við byggingu varanlegra mannvirkja á svæðinu.  Sveitarfélögin fái því ekki séð að hagsmunum kæranda sé nein hætta búin þótt framkvæmdir verði ekki stöðvaðar þar til efnisúrskurður verði lagður á málið. 

Þá sé á það bent að kærandi hafi ekki fært fram nein efnisleg rök fyrir því að hvaða leyti framkvæmdir á grundvelli leyfisins raski lögmætum hagsmunum hans eða á hvaða forsendum öðrum rétt sé að stöðva framkvæmdir.  Ljóst sé hins vegar að verði framkvæmdirnar stöðvaðar, þó ekki væri nema um stuttan tíma, muni það leiða til verulegs tjóns fyrir framkvæmdaraðila. 

Byggingarleyfishafi mótmælir kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.  Bendir hann á að útgáfa hins kærða leyfis sé í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag og að framkvæmdir sem nú standi yfir á umræddri lóð séu einungis jarðvegsframkvæmdir þar sem fram fari undirbúningur með stöllun og jöfnun lóðar.  Ekki sé um að ræða neinar varanlegar eða óafturkræfar framkvæmdir meðan málið verði til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Beri því að hafna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. 

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin frekar í bráðabirgðaúrskurði þessum.

Niðurstaða:  Náttúruverndarsamtök Íslands eru frjáls félagasamtök áhugafólks um náttúruvernd og fullnægja þau skilyrðum 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um aðild að kærum fyrir úrskurðarnefndinni vegna ákvarðana um framkvæmdir sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum.  Verður kærumál samtakanna því tekið til efnislegrar meðferðar. 

Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga getur kærandi krafist þess að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan mál er til meðferðar fyrir nefndinni.  Er ákvæðinu ætlað að gera nefndinni kleift að tryggja að réttarstöðu aðila verði ekki breytt til muna meðan mál er þar til meðferðar án þess að afstaða hafi verið tekin til efnis máls. 

Í máli þessu liggur fyrir að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi eru fyrst og fremst jarðvegsframkvæmdir og að svo muni verða enn um sinn.  Er ekki fyrirsjáanlegt að varanlegar og óafturtækar framkvæmdir muni eiga sér stað meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Yfirstandandi framkvæmdir eru, að dómi úrskurðarnefndarinnar, ekki til þess fallnar að raska réttarstöðu aðila með þeim hætti að haft geti áhrif á efnisúrlausn málsins og verður kröfu kæranda því hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda sem hafnar eru á lóð Norðuráls í Helguvík. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________              _________________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

45/2008 Hvammur

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 45/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 3. júní 2008 um að veita stöðuleyfi til eins árs fyrir tveimur færanlegum kennslustofum við leikskólann Hvamm í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, kæra G, Staðarhvammi 3, H og S, Staðarhvammi 5, G og H, Staðarhvammi 7, A og M, Staðarhvammi 9, S, Staðarhvammi 11, J og J, Staðarhvammi 17, H og G, Staðarhvammi 19 og Þ, K og H, Staðarhvammi 21, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 3. júní 2008 að veita stöðuleyfi til eins árs fyrir tveimur færanlegum kennslustofum við leikskólann Hvamm í Hafnarfirði.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, gerðu 10 af ofangreindum kærendum þá kröfu að úrskurðarnefndin stöðvaði umdeildar framkvæmdir til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði hinn 6. ágúst sl. 

Málavextir:  Á fundi framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar 2. maí 2008 var tekið fyrir erindi vegna færanlegra húsa við leikskólann Hvamm við Jófríðarstaðatún í Hafnarfirði samkvæmt fyrirliggjandi uppdrætti.  Lagði ráðið fyrir að óskað yrði eftir samþykki skipulags- og byggingarráðs bæjarins fyrir stöðuleyfi vegna húsanna og umferðar- og bílastæðamál á svæðinu yrðu skoðuð sérstaklega. 

Haldinn var kynningarfundur með íbúum 14. maí 2008 og málið síðan tekið fyrir í skipulags- og byggingarráði hinn 20. sama mánaðar.  Féllst ráðið ekki á fyrirhugaða staðsetningu húsanna þar sem þau yrðu innan hverfisverndaðs svæðis, en fallist var á staðsetningu þeirra norðar og austar á svæðinu utan hverfisverndaða svæðisins.  Nýr uppdráttur, dags. 29. maí 2008, var lagður fyrir skipulags- og byggingarráð 3. júní sem samþykkti umbeðið stöðuleyfi til eins árs en að þeim tíma liðnum skyldu mannvirkin fjarlægð og svæðið fært í fyrra horf.  Munu framkvæmdir hafa hafist hinn 8. júlí 2008. 

Í kjölfar þess barst bæjaryfirvöldum bréf frá Fornleifavernd ríkisins þar sem gerð var athugasemd við að raskað hafi verið fornleifum þegar umræddum bráðabirgðakennslustofum hafi verið komið fyrir.  Um væri að ræða traðir milli bæjarstæðis Jófríðarstaðabæjarins og tófta af útihúsum á Lambhúsahæð.  Var gerð krafa um stöðvun framkvæmda þar til rannsókn á málinu væri lokið. 

Fyrrgreint stöðuleyfi var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarráðs bæjarins hinn 22. júlí 2008 og var þar m.a. gerð eftirfarandi bókun: 

„Skipulags- og byggingarráð ítrekar bókun sína frá 03.06.2008 að stöðuleyfi er aðeins veitt til eins árs, og að þeim tíma liðnum skulu mannvirkin fjarlægð og gengið frá svæðinu í sama ástandi og nú er.  Skipulags- og byggingarráð samþykkir að fela skipulags- og byggingarsviði og framkvæmdasviði að kynna fyrir íbúum minnisblað Línuhönnunar dags. 14.07.2008 um úrbætur umferðarmála í Staðarhvammi.  Skipulags- og byggingarráð felur skipulags- og byggingarsviði að ljúka máli varðandi fornleifar í samráði við Byggðasafn og Fornleifavernd ríkisins.  Þar til því máli er lokið og niðurstaða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála varðandi stöðvun framkvæmda liggur fyrir, leggur skipulags- og byggingarráð til að öllum framkvæmdum við færanlegar kennslustofur við leikskólann verði frestað.“ 

Skutu kærendur leyfi bæjaryfirvalda fyrir umdeildum framkvæmdum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að þeir hafi mótmælt umdeildri stækkun leikskólans.  Aðkoma að leikskólanum sé erfið og um íbúðargötu þeirra, en búast megi við aukinni umferð, m.a. stærri bíla, vegna stækkunarinnar.  Umdeildar framkvæmdir, sem séu utan lóðar leikskólans, geti ekki stuðst við stöðuleyfi samkvæmt gr. 71.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 þar sem um sé að ræða færanlegar kennslustofur en ekki gáma.  Til framkvæmdanna þurfi byggingarleyfi sem ekki liggi fyrir.  Samkvæmt byggingarreglugerð hefði átt að grenndarkynna hina breyttu tillögu að stækkun umrædds húsnæðis og breyta skipulagi með formlegum hætti með tilliti til staðsetningar húsanna sem brjóti í bága við gildandi deiliskipulag svæðisins. 

Andmæli Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er bent á að þegar sé búið að koma fyrir umdeildum kennslustofum og búið sé að innrita 40 börn og ráða 10 starfsmenn vegna hins nýja bráðabirgðahúsnæðis, sem áætlað sé að verði tekið í notkun innan tíðar.  Leitast hafi verið við að koma til móts við íbúa á svæðinu hvað varði umferð er vænta megi að fylgi starfsemi þeirri sem fara muni fram í bráðabirgðakennslustofunum.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 2. september 2008. 

Niðurstaða:  Ákvæði 71. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 kveður á um leyfisskyldu fyrir staðsetningu hjólhýsa, gáma, báta, torgsöluhúsa og þess háttar lausafjármuna utan skipulagðra svæða til þeirra nota.  Er slíkt stöðuleyfi tímabundið, almennt að hámarki til eins árs.  Hvers konar byggingar, ofan jarðar og neðan, eru hins vegar háðar byggingarleyfi nema þær séu sérstaklega undanþegnar slíku leyfi, sbr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 1. mgr. 43. gr. laganna.

Verður að fallast á það með kærendum að staðsetning kennslustofa, þótt til bráðabirgða sé, verði ekki heimiluð með stöðuleyfi samkvæmt 71. gr. byggingarreglugerðar.  Umfang og eðli kennslustofa með fjölda barna og starfsmanna  verður engan veginn lagt að jöfnu við hjólhýsi, gáma eða torgsöluhús.  Ber og textaskýring 36. gr. skipulags- og byggingarlaga að sama brunni þar sem hvers konar byggingar eru látnar falla undir ákvæði mannvirkjakafla laganna sem m.a. kveður á um byggingarleyfisskyldu. 

Að þessu virtu þykir hið kærða stöðuleyfi ekki viðhlítandi heimild fyrir staðsetningu umdeildra kennslustofa og verður því ekki hjá því komist að fella hið kærða leyfi úr gildi.  

Úrskurðarorð: 

Fellt er úr gildi leyfi fyrir staðsetningu og framkvæmdum við færanlegar kennslustofur við leikskólann Hvamm í Hafnarfirði, sem samþykkt var í skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðarbæjar hinn 3. júní 2008. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                          ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                    Ásgeir Magnússon

80/2008 Norðurberg

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómar og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 80/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 20. maí 2008 um að veita stöðuleyfi til eins árs fyrir tveimur færanlegum kennslustofum við leikskólann Norðurberg í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. ágúst 2008, er barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kæra A og L, Norðurvangi 15, auk níu annarra íbúa við Norðurvang og Heiðvang í Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 20. maí 2008 um að veita stöðuleyfi til eins árs fyrir tveimur færanlegum kennslustofum við leikskólann Norðurberg í Hafnarfirði.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Kærendur hafa jafnframt farið fram á að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði með bráðabirgðaúrskurði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir:  Með bréfi til bæjaryfirvalda í Hafnarfirði, dags. 3. mars 2008, var þess óskað af stjórnendateymi leikskólans Norðurbergs að fá tvær lausar kennslustofur með tengibyggingu og staðsetja vestan megin við leikskólann á opnu leiksvæði.  Fór málið til framkvæmdaráðs bæjarins sem sendi það til skipulags- og byggingarfulltrúa.  Fól hann á afgreiðslufundi 7. maí 2008 skipulags- og byggingarsviði, í samráði við framkvæmdasvið, að skoða málið, einkum m.t.t. aðkomu, bílastæða og umferðar.  Var málinu svo vísað til skipulags- og byggingarráðs.

Boðað var til kynningarfundar um fyrirhugaðar framkvæmdir með íbúum í nágrenni leikskólans hinn 14. maí 2008 og komu þar fram nokkrar fyrirspurnir og athugasemdir.  Stöðuleyfi fyrir fyrrgreindum skólastofum var síðan samþykkt á fundi skipulags- og byggingarráðs þann 20. maí 2008.  Fundur með íbúum var síðan haldinn 13. ágúst s.á. þar sem nýjar tillögur um umferðarmál í tengslum við umræddar framkvæmdir voru kynntar en þær höfðu verið samþykktar á fundi skipulags- og byggingarráðs 12. ágúst 2008.  Hafa kærendur nú skotið umdeildri leyfisveitingu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á það bent að bráðabrigðastækkun leikskólans Norðurbergs í Hafnarfirði verði á grænu svæði utan lóðarmarka leikskólans sjálfs.  Þeir muni verða fyrir skerðingu og óþægindum, m.a. vegna aukins umferðarþunga, bílastæðavanda og hávaða frá hinum nýju skólastofum er verði í nágrenni fasteigna sumra kærenda.  Kynning framkvæmdanna hafi ekki náð til allra þeirra sem málið varðar og ekki hafi legið fyrir upplýsingar um umferðaraukningu eða önnur áhrif af stækkuninni hefði í för með sér og litlu betri upplýsingar hafi legið fyrir á fundi með íbúum hinn 13. ágúst 2008, en þar hafi komið fram að veitt hafi verið stöðuleyfi fyrir stækkun leikskólans. 

Umdeilt stöðuleyfi sé byggt á ákvæði gr. 71.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 en það eigi við um gáma.  Að öðru leyti eigi ákvæðið við um hjólhýsi, báta, torgsöluhús og þess háttar.  Ljóst sé að hér sé um undantekningarákvæði að ræða sem beri að túlka þröngt.  Eðlismunur en ekki stigsmunur sé á gámum og skólastofum sem séu tengdar raflögnum, skolplögnum og öllum tilheyrandi búnaði sem fylgi venjulegum skólastofum.  Þá sé ljóst að fyrirhugaðar kennslustofur verði festar og njörvaðar niður eins og hver önnur fasteign.  Í öllu falli sé svo ólík notkun og eðli á skólastofum annars vegar og bátum, torgsöluhúsum, hjólhýsum og gámum hins vegar, að þessu verði ekki jafnað saman og myndi umdeild framkvæmd skapa slæmt fordæmi. 

Umræddar kennslustofur hljóti að teljast byggingarleyfisskildar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og lúti þeim reglum sem um slík leyfi gildi.  Slíku sé ekki til að dreifa og beri því að fella úr gildi stöðuleyfið fyrir umdeildum framkvæmdum en slíkt leyfi geti ekki verið lögmæt stoð fyrir framkvæmdunum. 

Andmæli Hafnarfjarðarbæjar:  Bæjaryfirvöld gera þá kröfu að kærumáli þessu verði vísað frá en ella að kröfu kærenda verði hafnað. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu þeirrar ákvörðunar. 

Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á fundi 20. maí 2008 og hafi fundargerð er hafi falið í sér ákvörðunina verið opinberlega birt á vefsvæði Hafnarfjarðarbæjar eins og aðrar fundargerðir.  Kærendum hefði mátt vera ljóst eftir kynningarfundinn hinn 14. maí 2008 að stutt væri í ákvörðun og hefði því átt að fylgjast með framhaldi málsins stæði vilji þeirra til þess.  Geti kærendur því ekki borið fyrir sig að þeim hafi ekki verið kunnugt um ákvörðun skipulags- og byggingarráðs frá 20. maí.  Liðið hafi næstum þrír mánuðir frá því hin kærða ákvörðun hafi verið tekin uns hún hafi verið kærð.  Hafi  kærufresturinn þá verið liðinn og beri því að vísa henni frá þegar af þeirri ástæðu. 

Varðandi efnishlið málsins sé vísað til þess að samkvæmt 7. gr. laga nr. 78/1994 um leikskóla skuli bygging og rekstur þeirra vera í umsjá sveitarstjórna.  Sé sveitarfélögum jafnframt skylt að hafa forustu um að tryggja börnum dvöl í góðum leikskóla.  Samkvæmt 8. gr. sömu laga skuli sveitarfélög ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti meta þörf fyrir leikskólarými.  Á grundvelli þess mats verði gerð áætlun til þriggja ára í senn um uppbyggingu leikskóla í viðkomandi sveitarfélagi og skuli við gerð hennar höfð hliðsjón af heildarhagsmunum sveitarfélagsins.  Þörf fyrir leikskólarými hafi aukist verulega á undanförnum árum með hraðri uppbyggingu íbúðahverfa og verði bæjaryfirvöld að bregðast við aukinni þörf að þessu leyti hverju sinni. 

Í stað þess að byggja strax varanlegt húsnæði við leikskóla sé reynt að finna þá lausn sem minnstri röskun valdi í hverju tilfelli.  Farin hafi verið sú leið að veita stöðuleyfi til eins árs í samræmi við ákvæði gr. 71.2 byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Í því tilfelli sem hér um ræði hafi stöðuleyfi verið veitt til að setja færanlegar kennslustofur niður á svæði sem samkvæmt aðalskipulagi sé fyrir þjónustustofnanir.  Í því felist að íbúar í nágrenninu megi reikna með auknu leikskólarými samkvæmt skipulagi á svæðinu.  Líkur séu á að ekki verði þörf á að stækka umræddan leikskóla til langframa þar sem aðrar lausnir gætu komið til með byggingu nýs leikskóla annars staðar.  Með þessum bráðabirgðaframkvæmdum sé hvorki hróflað við trjágróðri né leiksvæði barna sem þarna sé.  Umferð muni aukast en umferðarmannvirki á svæðinu afkasti þeirri aukningu og umferðaröryggi verði ekki skert svo nokkru nemi. 

Búið sé að fylla greind leikskólapláss og ráða fólk til vinnu.  Verið sé að þjóna almannahagsmunum með hinum færanlegu kennslustofum og verði tafir á að taka þær í notkun hafi það í för með sér mun meira rask og skerðingu á þjónustu fyrir fjölda fólks en óþægindi þau sem kærendur telji sig verða fyrir. 

Hafnarfjarðarbær hafi áður beitt þeirri aðferð að gefa út stöðuleyfi og enginn úrskurður liggi fyrir um að slíkt sé ólöglegt.  Unnt sé að fallast á að deila megi um hvort stöðuleyfi sé rétta aðferðin við að setja niður færanlegar skólastofur.  Að sama skapi megi einnig deila um hvort gefa þurfi út byggingarleyfi fyrir slíkum skólastofum er vart verði skilgreindar sem fasteignir, enda ekki varanlega festar við landið.  Þeim sé heldur ekki ætlað að standa lengi á þeim stað þar sem þær séu settar niður. 

Lögskýringu kærenda á reglugerðarákvæðinu um stöðuleyfi sé hafnað og á það bent að í ákvæði gr. 4.41 í byggingarreglugerð sé eingöngu fjallað um hjólhýsi, gáma og báta en í fyrirsögn 71. gr. reglugerðarinnar sé:  „Hjólhýsi, gámar, bátar, torgsöluhús og þessháttar.“  Það sé m.ö.o. búið að útvíkka gildissvið ákvæðisins og koma í veg fyrir að skýra beri það þröngt líkt og kærendur telji. 

Eðli máls samkvæmt beri einnig að líta til þess að stöðuleyfi sé markaður skammur tími eða eitt ár hið lengsta og beri þá að endurskoða stöðuna.  Í því ágreiningsefni sem hér sé um fjallað sé það einmitt meginatriðið.  Meiningin sé ekki að þessi staða verði uppi lengur en þörf sé á.  Eins og áður hafi verið nefnt séu líkur á að ekki þurfi að koma til aukinna framkvæmda við fyrrgreindan leikskóla vegna annarra lausna.  Væri því þjóðfélagslega óhagkvæmt að fara út í slíkar framkvæmdir á þessum tíma og skammtímalausn betri. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 2. september 2008. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur einn mánuður frá því að aðila varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra skal.  Sæti ákvörðun opinberri birtingu telst upphaf kærufrests frá birtingu ákvörðunar. 

Leyfisveiting sú sem hér er til umfjöllunar sætir ekki opinberri birtingu samkvæmt skipulags- og byggingarlögum eða lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað nr. 15/2005.  Verður upphaf kærufrests því miðað við það hvenær kærendum varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um hina kærðu ákvörðun.  Kærendur halda því fram að þeim hafi ekki verið kunnugt um útgáfu stöðuleyfisins fyrr en þeim var tilkynnt um það á fundi með íbúum hinn 13. ágúst 2008 og liggur ekkert fyrir í málinu sem hnekkir þeirri fullyrðingu.  Verður við það miðað að kærendum hafi ekki verið kunnugt um hvenær leyfisveitingin hafi átt sér stað fyrr en á því tímamarki, enda höfðu framkvæmdir þá ekki hafist, en ekki verður fallist á að birting fundargerðar með bókun um ákvarðanatökuna á veraldarvefnum hafi sömu þýðingu og lögformleg opinber birting.  Telst kæran af þeim sökum hafa borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests.  Verður frávísunarkröfu Hafnarfjarðarbæjar því ekki tekin til greina. 

Ákvæði 71. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 kveður á um leyfisskyldu fyrir staðsetningu hjólhýsa, gáma, báta, torgsöluhúsa og þess háttar lausafjármuna utan skipulagðra svæða til þeirra nota.  Er slíkt stöðuleyfi tímabundið, almennt að hámarki til eins árs.  Hvers konar byggingar, ofan jarðar og neðan, eru hins vegar háðar byggingarleyfi nema þær séu sérstaklega undanþegnar slíku leyfi, sbr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga og 1. mgr. 43. gr. laganna.

Verður að fallast á það með kærendum að staðsetning kennslustofa, þótt til bráðabirgða sé, verði ekki heimiluð með stöðuleyfi samkvæmt 71. gr. byggingarreglugerðar.  Umfang og eðli kennslustofa með fjölda barna og starfsmanna verður engan veginn lagt að jöfnu við hjólhýsi, gáma eða torgsöluhús.  Ber og textaskýring 36. gr. skipulags- og byggingarlaga að sama brunni þar sem hvers konar byggingar eru látnar falla undir ákvæði mannvirkjakafla laganna sem m.a. kveður á um byggingarleyfisskyldu. 

Að þessu virtu þykir hið kærða stöðuleyfi ekki viðhlítandi heimild fyrir staðsetningu umdeildra kennslustofa og verður því ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðum úr gildi.   

Úrskurðarorð: 

Fellt er úr gildi leyfi fyrir staðsetningu og framkvæmdum við færanlegar kennslustofur við leikskólann Norðurberg í Hafnarfirði sem samþykkt var í skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðarbæjar hinn 20. maí 2008. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                          ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                   Ásgeir Magnússon

88/2006 Holtsgata

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 88/2006, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 4. október 2006 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Holtsgötureits vegna lóðarinnar að Holtsgötu 7b. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. nóvember 2006, er barst nefndinni samdægurs, kærir Þorsteinn Einarsson hrl., f.h. L ehf., Holtsgötu 7b, Reykjavík, þá samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 4. október 2006 að synja um breytingu á deiliskipulagi svokallaðs Holtsgötusreits vegna lóðarinnar að Holtsgötu 7b. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá er þess krafist að ákvörðun skipulagsráðs verði breytt á þá leið að umsókn kæranda verið tekin til greina og til vara að skipulagsráði verði gert að taka umsóknina til lögmætrar afgreiðslu að nýju. 

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundum skipulagsstjóra 19. maí 2006 og 1. september sama ár var lögð fram, af hálfu lóðarhafa, tillaga að breyttu deiliskipulagi Holtsgötureits, frá árinu 2005.  Var fært til bókar að kynna ætti formanni skipulagsráðs tillöguna.  Fól hún í sér að byggt yrði við núverandi hús á lóðinni, þar sem rekinn hefur verið leikskóli, og því breytt í íbúðir.  Með stækkuninni yrðu íbúðir á lóðinni samtals fimm.  Skipulagsráð tók tillöguna fyrir á fundi sínum 6. september 2006 þar sem samþykkt var að kynna hana fyrir hagsmunaaðilum á reitnum og í næsta nágrenni hans. 

Að lokinni kynningu, er stóð yfir frá 14. til 28. september 2006, var tillagan tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 29. september 2006.  Var þar fjallað um athugasemdir er borist höfðu vegna kynningarinnar þar sem m.a. var lýst andstöðu við frekari þéttingu byggðar á svæðinu og athugasemdir gerðar við það að til stæði að breyta nýlega samþykktu deiliskipulagi.  Var bókað á fundinum að kynna ætti málið formanni skipulagsráðs.  Á fundi skipulagsráðs 4. október 2006 var tillögunni synjaði með vísan til þeirra athugasemda sem borist hefðu. 

Hefur kærandi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að synjun skipulagsráðs á tillögu um breytingu á deiliskipulagi Holtsgötureits vegna lóðarinnar nr. 7b við Holtsgötu hafi verið í andstöðu við ákvæði stjórnarskrár, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og reglugerða samkvæmt þeim lögum.  Málefnaleg rök styðji ekki hina kærðu ákvörðun.  Ekki verði séð að skipulagsráð hafi tekið efnislega afstöðu til athugasemda sem fram hafi komið í kjölfar kynningar.  Kærandi telji m.a. framkomnar athugasemdirnar þess eðlis að ekki hafi borið að taka tillit til þeirra við afgreiðslu málsins.  Málefnaleg rök standi ekki til synjunar á umsókn kæranda sem sé í samræmi við skipulagsskilmála og yfirlýsta stefnu borgaryfirvalda um þéttingu byggðar. 

Hafa beri í huga meginreglu eignarréttarins sem byggi m.a. á 72. gr. stjórnarskrárinnar en samkvæmt henni hafi menn ákveðinn rétt til hagnýtingar á eigin eignum.  Takmörkun á þeim rétti beri að byggja á málefnalegum sjónarmiðum auk þess sem takmarkanirnar beri að skýra þröngt. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er því mótmælt að synjun skipulagsráðs hafi verið í andstöðu við ákvæði stjórnarskrár, stjórnsýslulaga, skipulags- og byggingarlaga og reglugerða samkvæmt þeim lögum.  Sé sú fullyrðing með öllu órökstudd.  Ljóst sé að meðferð breytingartillögunnar hafi verið að öllu leyti í samræmi við skipulags- og byggingarlög.  Bent sé á að skipulagsráð hafi samþykkt að kynna hagsmunaaðilum tillöguna en ekki hafi verið um lögformlega grenndarkynningu að ræða.  Þær athugasemdir sem fram hafi komið hafi verið kynntar skipulagsráði er tekið hafi afstöðu til þeirra og synjað tillögunni með vísan til þeirra.  Sú fullyrðing að skipulagsráð hafi ekki tekið efnislega afstöðu til tillögu kæranda sé með öllu röng.  Skipulagsráð hafi þekkt vel til Holtsgötureits vegna umtalsverðrar vinnu og mikilla samskipta við íbúa við gerð deiliskipulags svæðisins nokkru áður.  Í ljósi þeirrar vinnu og athugasemda nágranna í kjölfar kynningar meðal hagsmunaaðila hafi erindi kæranda verið synjað.  Samkvæmt gildandi deiliskipulagsskilmálum fyrir Holtsgötu 7b sé lóðin fullbyggð.  Tilvísun kæranda til þess að umsóknin sé í samræmi við skipulagsskilmála fái því ekki staðist.  Vissulega sé það yfirlýst stefna Reykjavíkurborgar að þétta byggð og telji borgin umrætt deiliskipulag í samræmi við þá stefnu þrátt fyrir að ekki sé gert ráð fyrir auknu byggingarmagni á lóð kæranda. 

Sú málsástæða að hin kærða synjun brjóti í bága við stjórnarskrá, og þá einkum 72. gr. hennar, sé háð þeim annmörkum að vera bæði óljós og órökstudd og því sé vísað á bug að umrædd synjun hafi falið í sér takmörkun á eignarrétti lóðarhafa.  Deiliskipulag Holtsgötureits hafi verið samþykkt í borgarráði hinn 17. febrúar 2005.  Samþykkt þess hafi kærandi kært til úrskurðarnefndarinnar, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 22/2005, frá 28. september 2006.  Hafi kærandi talið nýtingarhlutfall lóðar sinnar of lágt miðað við nærliggjandi lóðir og að jafnræðis hafi ekki verið gætt við setningu skipulagsins hvað nýtingarhlutfall lóðarinnar varði.  Fram hafi komið í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að uppbygging svæðisins sé svokölluð randbyggð og að lóðin við Holtsgötu 7b sé mjög stór baklóð sem ekki falli að randbyggð.  Leiði það til þess að nýtingarhlutfall lóðarinnar sé lægra en t.d. lóðanna nr. 1 og 3 við Holtsgötu og skýrist það af fyrrgreindum ástæðum.  Einnig segi í úrskurðinum að þegar hafðar séu í huga þær aðstæður á skipulagssvæðinu sem framar greini í úrskurðinum sé ekki hægt að fallast á að lóðarhöfum hafi verið mismunað við ákvörðun um byggingarrétt á einstökum lóðum.  Það sé ljóst, sbr. nefndan úrskurð, að hin kærða synjun feli ekki í sér skerðingu eignarréttar eins og hann sé verndaður af stjórnarskrá nr. 33/1944. 

Auk þess sé vakin athygli á því að síðari liðir kæru eigi ekki undir úrskurðarnefndina en nefndin geti einungis fellt ákvarðanir skipulagsráðs úr gildi eða staðfest þær og eigi því krafan ekki undir nefndina, sbr. almennar reglur íslensks stjórnsýsluréttar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulagsráðs að synja beiðni um breytt deiliskipulag Holtsgötureits.  Fól beiðnin í sér að deiliskipulagi svæðisins yrði breytt þannig að heimilað yrði að byggja við núverandi hús á lóðinni nr. 7b við Holtsgötu, þar sem rekinn hefur verið leikskóli, og því breytt í íbúðir.  Með stækkuninni yrðu íbúðir á lóðinni samtals fimm.  Skipulagsráð ákvað að kynna beiðnina þeim er hagsmuna áttu að gæta á svæðinu en synjaði henni síðar með vísan til athugasemda er bárust. 

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir Holtsgötureit, samþykkt í borgarráði hinn 17. febrúar 2005.  Samkvæmt því er lóðin að Holtsgötu 7b 1.107 fermetrar að stærð, húsið á lóðinni 420,7 fermetrar og nýtingarhlutfall 0,38.  Er sérstaklega tekið fram að lóðin sé fullbyggð. 

Á svæðinu er svokölluð randbyggð, en lóðin að Holtsgötu 7b er stór baklóð og falla mannvirki á henni ekki að randbyggðinni.  Leiðir þetta til þess að nýtingarhlutfall hennar er lægra en annarra lóða á reitnum. 

Almennt geta einstakir lóðarhafar ekki vænst þess að skipulagi verði breytt varðandi nýtingu og fyrirkomulag bygginga á svæði sem nýlega hefur verið deiliskipulagt.  Verða borgarar að geta treyst því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi nema veigamiklar ástæður eða skipulagsrök mæli með því.  Verður því að gjalda varhug við því, m.a. með tilliti til fordæmis, að ráðist sé í breytingar á nýlegu deiliskipulagi eftir óskum einstakra lóðarhafa og var skipulagsráði því rétt að hafna erindi kæranda.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða verður ekki fallist á kröfur kæranda í máli þessu. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 4. október 2006 um breytingu á deiliskipulagi Holtsgötusreits vegna lóðarinnar að Holtsgötu 7b. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________                      ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                          Þorsteinn Þorsteinsson

57/2008 Sparkvöllur

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2008, kæra vegna framkvæmda á vegum Reykjavíkurborgar á svæði milli Bauganess, Bauganestanga og Skildinganess í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 31. sama mánaðar, kærir I, Skildinganesi 37 í Reykjavík framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar á svæði milli Bauganess, Bauganestanga og Skildinganess.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að hinar kærðu framkvæmdir verði úrskurðaðar ólögmætar. 

Með bréfi, mótteknu 6. ágúst 2008, kærir P, Skildinganesi 37, sömu framkvæmd.  Með hliðsjón  af málatilbúnaði kærenda verður ekki séð að neitt standa því í vegi að kærumálin verði sameinuð og verður seinna kærumálið, sem er nr. 71/2008, því sameinað hinu fyrra.  Kærendur hafa í kærum sínum gert kröfu um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda en þar sem málið telst nú nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfunnar. 

Málsatvik og rök:  Hinn 13. júlí 2004 tók gildi breyting á deiliskipulagi, er tekur m.a. til umrædds svæðis, þar sem það var skilgreint sem útivistar- og leiksvæði.  Hinn 3. júlí 2008 hófust framkvæmdir á svæðinu að tilhlutan umhverfis- og samgöngusviðs í umboði umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar.  Fól framkvæmdin í sér að hluti svæðisins var sléttaður og útbúinn þar boltavöllur. 

Kærendur vísa til þess að við deiliskipulagsbreytinguna á árinu 2004 hafi komið fram að ekki yrði ráðist í frekari framkvæmdir og skipulagningu þess nema að undangenginni kynningu og samráði við íbúa en það hafi ekki verið gert.  Með framkvæmdinni hafi ósnortinn valllendismói verið eyðilagður.  Boltavöllur á umræddu svæði muni valda þeim er næst búi ónæði og óþægindum og hafi það komið í ljós á þeim stutta tíma sem leiksvæðið hafi verið nýtt til boltaleikja.  Jafnframt blasi við að boltavöllurinn, sem sé nánast í bakgarði húsa þeirra er næst standi, muni rýra verðgildi þeirra og jafnvel hindra sölu íbúða.  Íbúar hafi ekki mátt búast við umdeildum framkvæmdum miðað við gildandi deiliskipulag og engin ákvörðun virðist hafa verið tekin um þær af þar til bærum yfirvöldum.  Bent sé á að í um 200 metra fjarlægð sé sparkvöllur með mörkum. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að staðfest verði að umræddar framkvæmdir rúmist innan gildandi deiliskipulags fyrir Skildinganes.  Þar sé umrætt svæði skilgreint sem útivistar- og leiksvæði sem þarfnist úrbóta.  Umdeild framkvæmd feli í sér sléttun grassvæðis til leikja sem hafi til þessa verið notað sem sparksvæði.  Í miðju svæðisins sé gert ráð fyrir grasflöt en svæðið umhverfis verði ósnortið.  Ráðgert sé að setja niður stólpa sem gætu verið „óformleg“ mörk.  Svæðið muni nýtast yngri börnum í nágrenninu  fyrir boltaleiki og aðra hópleiki.  Beiðni um sparkvöll hafi komið til umhverfis- og samgöngusviðs frá formanni íbúasamtaka hverfisins og hafi því verið haldið fram að fullur stuðningur væri við málið meðal íbúa.  Tillaga um gerð sparksvæðis hafi því farið inn á framkvæmdaáætlun umhverfis- og samgönguráðs fyrir árið 2008 og hafi hún verið kynnt á samráðsfundi borgarstjóra með íbúum í vesturbæ síðastliðið vor.  Ekki hafi þurft að grenndarkynna framkvæmdirnar enda hafi þær verið í samræmi við skipulag.  Nánari útfærsla á slíkum svæðum sé á hendi umhverfis- og samgönguráðs. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er það í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds.  Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt eða skyldu aðila í skjóli stjórnsýsluvalds.  Aðeins þær stjórnvaldsákvarðanir sem binda endi á meðferð máls sæta kæru til æðra stjórnvalds. 

Ekki liggur fyrir í máli þessu að önnur stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin varðandi umdeildar framkvæmdir eða útfærslu þeirra en fyrir liggur í áðurgreindri deiliskipulagsbreytingu er tók gildi hinn 13. júlí 2004. 

Þar sem kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna þeirrar ákvörðunar er löngu liðinn og engin ný stjórnvaldsákvörðun hefur verið tekin á grundvelli skipulags- og byggingarlaga um skipulag eða útfærslu umdeilds svæðis af þar til bærum stjórnvöldum, verður lögmæti umræddra framkvæmda ekki borið undir úrskurðarnefndina.  Verður kærumáli þessu því vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

________________________________                  ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                           Þorsteinn Þorsteinsson

3/2006 Hesthúsahverfi

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 3/2006, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagins Árborgar frá 14. desember 2005 um breytt deiliskipulag á svæði hestamanna á Selfossi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. janúar 2006, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kæra G, Grenigrund 46, H, Grenigrund 21 og I, Furugrund 34, Selfossi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagins Árborgar frá 14. desember 2005 að breyta deiliskipulagi á svæði hestamanna á Selfossi.  Gera kærendur, sem kveðast eiga hesthús á umræddu svæði, þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 16. ágúst 2005 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi á svæði hestamanna á Selfossi.  Fól tillagan m.a. í sér sameiningu nokkurra lóða á svæðinu og áform um að stærri lóðir yrðu nýttar undir atvinnuhestamennsku.  Var tillagan auglýst til kynningar hinn 7. september 2005 og var frestur til að koma að athugasemdum til 19. október sama ár.  Bárust athugasemdir við skipulagstillöguna, m.a. frá kærendum.  Að loknum fyrrgreindum fresti tók skipulags- og byggingarnefnd hana fyrir hinn 8. nóvember 2005 og lagði til við bæjarstjórn að tillagan yrði samþykkt sem og bæjarstjórn gerði á fundi sínum hinn 14. desember 2005.  Birtist auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar hinn 18. apríl 2006. 

Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar á því að rökstuðningi hennar sé ábótavant, rannsóknarskyldu hafi ekki verið sinnt og að samþykktin brjóti gegn meginreglum stjórnsýslulaga.  Ekki hafi verið tekin sjálfstæð afstaða til framkominna athugasemda við tillöguna heldur hafi lögmönnum sveitarfélagsins verið falið það verk.  Þá felist í hinni kærðu samþykkt sameining lóða, í þeim tilgangi að koma þar fyrir reiðhöll, sem hafi í för með sér mun meiri umferð og átroðning á svæðinu sem og breytta landnotkun frá gildandi skipulagi. 

Niðurstaða:  Á fundi bæjarstjórnar Árborgar hinn 9. apríl 2008 var samþykkt tillaga að breyttu deiliskipulagi á svæði hestamanna á Selfossi er fól í sér breytingu á hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.  Birtist auglýsing um gildistöku samþykktar þessarar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. júní 2008.  Hefur þeirri samþykkt ekki verið skotið til úrskurðarnefndarinnar. 

Þar sem nýtt og breytt deiliskipulag gildir nú um skipulagssvæði það, er hin kærða ákvörðun tók til, eiga kærendur ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar enda hefur hún ekki lengur neina þýðingu að lögum.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

____________________________                          ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                         Þorsteinn Þorsteinsson

72/2008 Traðarkotssund

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2008, kæra vegna framkvæmda á lóðinni nr. 6 við Traðarkotssund í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. ágúst 2008, er barst nefndinni samdægurs, kærir H, Laugavegi 5 í Reykjavík, framkvæmdir á lóðinni nr. 6 við Traðarkotssund í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar.  Þykir málið nú vera tækt til lokaúrskurðar og verður því ekki fjallað sérstaklega um þá kröfu kæranda. 

Málavextir og málsrök:  Lóðin Taðarkotssund 6 er óbyggð sem nýtt hefur verið sem bílastæði.  Fyrir skömmu hófust framkvæmdir á lóðinni sem að sögn borgaryfirvalda  miðuðu að fegrun hennar til bráðabirgða.   

Af hálfu kæranda er vísað til þess að umræddar framkvæmdir séu í andstöðu við gildandi deiliskipulag svæðisins en samkvæmt því eigi að byggja hús á lóðinni.  Þá hafi kynning á framkvæmdunum verið öll hin undarlegasta, einhver arkitekt segist hafa farið til hagsmunaaðila á svæðinu, en hann hafi aldrei komið að máli við kæranda.  Farið sé fram á stöðvun framkvæmda og að formleg grenndarkynning fari fram.   

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem umrædd framkvæmd sé hvorki byggingarleyfisskyld né kalli á breytingu á deiliskipulagi.   

Bent sé á að í vor og sumar hafi borgaryfirvöld unnið að fegrun miðborgarinnar, þ.á m. lóðarinnar að Traðarkotssundi 6, sem sé í eigu einkaaðila en ekki Reykjavíkurborgar.    Ákveðið hafi verið í samráði við eigendur að fegra lóðina til bráðabirgða þar sem ástand hennar hafi verið bágborið.  Samkvæmt skipulagi sé heimilt að byggja á lóðinni 660 fermetra hús en lóðarhöfum sé í sjálfsvald sett hvort þeir nýti þá heimild eða ekki.  Fram að þessu hafi bílum verið ólöglega lagt á lóðinni en ekki sé gert ráð fyrir að þar séu bílastæði.  

Ólögformleg hagsmunaaðilakynning hafi farið fram áður en framkvæmdir hafi hafist.  Kynningarbæklingur hafi verið borinn út til nágranna og harmi Reykjavíkurborg að sá bæklingur hafi ekki borist kæranda.  Hin umdeilda framkvæmd miði einungis að fegrun svæðisins og sé hvorki byggingarleyfisskyld né kalli á breytingu á deiliskipulagi og því ekki nauðsynlegt að fram fari hefðbundin grenndarkynning eins og kærandi fari fram á.

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er það í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds.  Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt eða skyldu aðila í skjóli stjórnsýsluvalds.  Aðeins þær stjórnvaldsákvarðanir sem binda endi á meðferð máls sæta kæru til æðra stjórnvalds. 

Í máli þessu eru kærðar framkvæmdir á lóðinni nr. 6 við Traðarkotssund í Reykjavík.  Ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun borgaryfirvalda er byggir á skipulags- og byggingarlögum vegna hinna umdeildu framkvæmda og geti sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar og eru af þeim sökum ekki efni til að taka afstöðu til lögmætis hinna umdeildu framkvæmda.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

____________________________                   ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

12/2006 Langabrekka

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2006, kæra á samþykkt skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 17. janúar 2006 um að veita leyfi fyrir byggingu stoðveggjar á lóðinni nr. 5 að Löngubrekku í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. febrúar 2006, er barst nefndinni næsta dag, kæra E og J, Álfhólsvegi 61, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 17. janúar 2006 að veita leyfi fyrir byggingu stoðveggjar á lóðinni nr. 5 við Löngubrekku.  Liggur lóð kærenda að umræddri lóð. 

Krefjast kærendur þess að ofangreind afgreiðsla skipulagsnefndar verði ógilt. 

Málavextir:  Á lóðinni nr. 5 við Löngubrekku stendur tvíbýlishús og bílskúr.  Í bréfi byggingarfulltrúa til lóðarhafa að Löngubrekku 5, dags. 20. júlí 2005, sagði m.a. svo:  „3. mars 2005 var samþykkt í byggingarnefnd stækkun á bílskúr að Löngubrekku 5…..Við skoðun á staðnum sést að undirstöður eru ekki í samræmi við samþykktar teikningar.  Undirstöður hafa verið steyptar um 2,5 m lengra til suðurs að lóðarmörkum húss nr. 61 við Álfhólsveg og um einn metra fram með eldri bílskúr.“  Fyrirskipaði byggingarfulltrúi stöðvun allra frekari framkvæmda á lóðinni og lagði fyrir lóðarhafa að fjarlægja þær undirstöður sem steyptar hefðu verið umfram það sem samþykktar teikningar segðu til um. 

Lóðarhafi Löngubrekku 5 færði fram skýringar vegna framkvæmda á lóð sinni með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 26. júlí s.á., og taldi m.a. ekki allskostar rétt að undirstöður viðbyggingar væru ekki í samræmi við samþykktar teikningar.  Benti hann jafnframt á að hann hefði ákveðið að steypa vegg um 0,5 metra frá lóðarmörkum til að halda við jarðveg á lóðamörkum.  Var tekið fram að veggurinn væri ekki í beinu framhaldi af vegg væntanlegrar bílskúrsbyggingar heldur töluvert innar. 

Málið var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 3. ágúst 2005 sem staðfesti stöðvun framkvæmda og tók undir kröfu byggingarfulltrúa um að fjarlægja skyldi þá þegar, eða eigi síðar en 12. ágúst s.á., þær undirstöður og þá botnplötu að viðbyggingu bílskúrs, sem steyptar hefðu verið í óleyfi, ella yrði það sem væri umfram samþykktar teikningar fjarlægt án frekari fyrirvara. 

Í kjölfarið fór lóðarhafi Löngubrekku 5 fram á það í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 8. ágúst s.á., að ákvörðunin yrði endurskoðuð.  Tók hann jafnframt fram að „undirstöður og botnplata“ væru í raun veggur, sem steyptur hefði verið til að styðja við jarðveg frá lóðunum að Löngubrekku 3 og lóð kærenda, og stétt sem væri á milli veggjarins og væntanlegrar bílskúrsviðbyggingar og greinilega aðgreind frá þeirri byggingu þó þau tengdust henni á tveimur stöðum til að fá viðspyrnu.  Veggurinn væri jafnhár fyrrgreindum lóðum, staðsettur 2,5 metra frá væntanlegri bílskúrsbyggingu og 0,5 metra frá lóðamörkum tilgreindra lóða.  Var einnig á það bent að mörg dæmi væru um að sambærilegir veggir hefðu verið reistir í Kópavogi án sérstaks leyfis bæjaryfirvalda.  Þá var á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 17. ágúst 2005 lögð fram umsókn lóðarhafa að Löngubrekku 5 þar sem sótt var um leyfi til að byggja við bílskúr, gera stoðvegg og stétt í austurhorni lóðarinnar og óskaði nefndin eftir umsögn lögmanns framkvæmda- og tæknisviðs um málið. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 7. september 2005 var ofangreind umsókn tekin fyrir og eftirfarandi bókað:  „Byggingarnefnd hefur þegar afgreitt umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr dags. 3. mars 2005.  Byggingarnefnd felur byggingarfulltrúa að ljúka afgreiðslu málsins er varðar stækkun á viðbyggingu bílskúrs.  Umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi fyrir gerð stoðveggjar og stéttar í austurhorni lóðar er vísað til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu.“ 

Hinn 20. september 2005 var umsókn um gerð stoðveggjar lögð fram á fundi skipulagsnefndar og samþykkt að senda málið í kynningu til lóðarhafa Löngubrekku 3 og 7 og Álfhólsvegar 59, 61 og 63.  Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar hinn 15. nóvember 2005, ásamt athugasemdum er borist höfðu frá kærendum máls þessa.  Var málinu frestað og skipulagsstjóra falið að gera umsögn um framkomnar athugasemdir.  Erindið var tekið fyrir enn á ný í skipulagsnefnd hinn 17. janúar 2006 og það samþykkt ásamt umsögn bæjarskipulags og málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs.  Á fundi bæjarráðs hinn 19. janúar 2006 var svohljóðandi bókað: „Langabrekka 5.  Stoðveggur.  Samþykkt.“ 

Hafa kærendur skotið áðurnefndri ákvörðun skipulagsnefndar til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur gera athugasemdir við ýmis atriði er varða meðferð málsins.  Sérstaklega sé kærð sú niðurstaða skipulagsstjóra og skipulagsnefndar að taka ekki til greina þá athugasemd er kærendur hafi sett fram við grenndarkynningu að um væri að ræða botnplötu og undirstöður en ekki stoðvegg líkt og sagt sé að sótt hafi verið um.  Skipulagsnefnd hafi ekki fært fram nein rök fyrir þeirri niðurstöðu sinni nema með vísan til gagna umsækjanda, en þörf hafi verið á rökstuðningi í ljósi mats byggingarfulltrúa og byggingarnefndar Kópavogs sem hafi krafist þess að undirstöður og botnplötur yrðu fjarlægðar.  Hafi verulega verið hallað á rétt kærenda með því að afgreiða málið með þessum hætti.  Sé gerð sú krafa að erindið verði afgreitt sem umsókn um undirstöður og botnplötu eða að lágmarki vísað frá á þeirri forsendu að þau mannvirki sem sótt hafi verið um leyfi fyrir séu ekki í samræmi við það sem hafi verið framkvæmt. 

Því sé mótmælt að hægt sé að leyfa framkvæmdir á forsendum nafngiftar sem stangist á við almenna skynsemi, mat sérfróðra aðila, þ.e. byggingarfulltrúa, og ásetning umsækjanda.  Gera verði þá lágmarkskröfu að heiti mannvirkja sé í samræmi við hönnun, framkvæmd og fyrirhugaða nýtingu þeirra og ekki sé unnt að rangnefna mannvirki og fá þau þannig samþykkt.  Þá sé bent á að skipulagsyfirvöld hafi ekki með faglegum hætti skorið úr því ósamræmi sem sé á milli nafngiftar hönnuðar, ásetnings umsækjanda og mats byggingarfulltrúa. 

Vakin sé athygli á að lóðarhafi Löngubrekku 5 hafi lagt fram viðbótargögn eða skýringar að lokinni grenndarkynningu.  Það sé óeðlileg stjórnsýsla að hægt sé að leggja fram viðbótargögn að lokinni grenndarkynningu og hefði átt að gefa kærendum færi á að bregðast við þeim.  Þá sé á það bent að við grenndarkynningu hafi ekkert komið fram um að verið væri að breyta deiliskipulagi svo sem haldið hafi verið fram að lokinni kynningu, en ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir umrædda lóð.  Sé mikilvægt, m.a. með vísan til gr. 7.5.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, að þessi skilningur, þ.e. að ekki hafi verið gerð breyting á deiliskipulagi, verði staðfestur. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Bæjaryfirvöld krefjast þess aðallega að kröfum kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfum þeirra verði hafnað. 

Byggingarnefnd hafi vísað umsókn lóðarhafa að Löngubrekku 5 til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu sem hafi fallist á að grenndarkynna málið í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skuli byggingarnefnd taka mál til afgreiðslu að lokinni grenndarkynningu og þegar umfjöllun skipulagsnefndar liggi fyrir.  Enn hafi byggingarnefnd ekki afgreitt umsókn lóðarhafa þar sem fullnægjandi hönnunargögn hafi ekki verið lögð fram af hans hálfu.  Hin kærða umfjöllun skipulagsnefndar feli ekki í sér endanlega stjórnvaldsákvörðun og bókun bæjarráðs þar sem umfjöllun og tillaga skipulagsnefndar sé samþykkt hafi enga þýðingu að lögum þar sem umfjöllun skipulagsnefndar skuli vísað til byggingarnefndar til afgreiðslu skv. fyrrgreindu ákvæði. 

Þau mistök hafi átt sér stað að í 4. kafla umsagnar bæjarskipulags vegna framkominna athugasemda hafi ranglega verið vísað til þess að málsmeðferð væri samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997, en rétt sé að um hafi verið að ræða málsmeðferð skv. 7. mgr. 43. gr. sömu laga.  Hafi öll málsmeðferð við afgreiðslu málsins borið þess merki að vera byggð á grundvelli 7. mgr. 43. gr. laganna. 

Varakrafa bæjarins sé á því byggð að umfjöllun skipulagsnefndar við grenndarkynningu hafi verið í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Þá sé bent á að heiti framkvæmda séu í samræmi við umsókn lóðarhafa að Löngubrekku 5, dags. 9. ágúst 2005. 

Í kæru komi fram að á rétt kærenda sé hallað með vísan til fjarlægðar húsa frá lóðarmörkum skv. 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Tekið skuli fram að umræddur stoðveggur teljist ekki húsveggur en falli fremur undir skilgreiningu girðinga.  Því beri að líta til 67. gr. byggingarreglugerðar fremur en 75. gr. sömu reglugerðar.  Sé á það bent að í umfjöllun skipulagsnefndar sé ekki kveðið á um að fjarlægð stoðveggjar frá lóðarmörkum brjóti í bága við tilvitnaða 67. gr. byggingarreglugerðar. 

Andmæli lóðarhafa Löngubrekku 5:  Lóðarhafi bendir á að í kæru sé hvergi tekið fram á hvern hátt umræddur stoðveggur valdi kærendum ama eða óþægindum.  Kærendum hafi fyrirfram verið gert ljóst að til stæði að byggja stoðvegg á umræddum stað og hafi þá engar athugasemdir verið gerðar.  Eftir að búið hafi verið að reisa vegginn hafi kærendur viljað að hann yrði fjarlægður án nokkurs rökstuðnings annars en að um sökkul sé að ræða en ekki stoðvegg.  Megi eins kalla vegginn húsvegg í hálfri hæð. 

Andmæli kærenda við greinargerð Kópavogsbæjar:  Kærendur mótmæla kröfu bæjaryfirvalda um að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Bent sé á að í bréfi bæjarskipulags Kópavogs til kærenda, þar sem tilkynnt hafi verið um samþykkt skipulagsnefndar frá 17. janúar 2006 á erindi lóðarhafa Löngubrekku 5, sé vakin athygli á ákvæðum laga um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar.  Jafnframt sé því andmælt að ákvörðun skipulagsnefndar og staðfesting bæjarskipulags sé ekki endanleg stjórnsýsluákvörðun og í því sambandi bent á 6. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þar segi m.a. að skipulagsnefndir fari með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna, en engu orði sé minnst á að ákvarðanir skipulagsnefndar skuli hljóta samþykki byggingarnefnda. 

Sé litið til ákvæða 7. mgr. 43. gr. tilvitnaðra laga standi þar aðeins að byggingarnefnd skuli bíða eftir niðurstöðu skipulagsnefndar og grenndarkynningu áður en hún taki málið til afgreiðslu.  Ekki sé hægt að lesa úr ákvæðinu að ákvörðun skipulagsnefndar skuli vísa til byggingarnefndar til staðfestingar. 

—–

Færð hafa verið fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlag nr. 73/1997 fjalla byggingarnefndir um byggingarleyfisumsóknir sem berast og álykta um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Það var því ekki á færi skipulagsnefndar að taka umsókn lóðarhafa að Löngubrekku 5 um byggingarleyfi til meðferðar svo sem hún þó gerði.  Fór nefndin þannig út fyrir valdmörk sín er hún samþykkti umsóknina og vísaði málinu til afgreiðslu bæjarráðs.  Ber þegar af þessari ástæðu að ógilda hina kærðu ákvörðun skipulagsnefndar og staðfestingu bæjarráðs á henni hinn 19. janúar 2006.  Gildir einu þótt það hefði verið í verkahring skipulagsnefndar að annast grenndarkynningu í tilefni af umræddri umsókn enda bar nefndinni þá, að kynningu lokinni, að vísa málinu til afgreiðslu byggingarnefndar, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, í stað þess að ljúka málinu með fullnaðarafgreiðslu svo sem raunin varð. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 17. janúar 2006, sem staðfest var í bæjarráði 19. janúar 2006, um að veita leyfi fyrir byggingu stoðveggjar á lóðinni nr. 5 að Löngubrekku í Kópavogi, er felld úr gildi.

 

 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon

45/2008 Hvammur

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 6. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 45/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 3. júní 2008 um að veita stöðuleyfi til eins árs fyrir tveimur færanlegum kennslustofum við leikskólann Hvamm í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:
 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, kæra G, Staðarhvammi 3, H og S, Staðarhvammi 5, G og H, Staðarhvammi 7, A og M, Staðarhvammi 9, S, Staðarhvammi 11, J og J, Staðarhvammi 17, H og G, Staðarhvammi 19 og Þ, K og H, Staðarhvammi 21, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 3. júní 2008 að veita stöðuleyfi til eins árs fyrir tveimur færanlegum kennslustofum við leikskólann Hvamm í Hafnarfirði.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, gera 10 af ofangreindum kærendum þá kröfu að úrskurðarnefndin stöðvi umdeildar framkvæmdir til bráðabirgða á meðan málið sé til meðferðar hjá nefndinni.  Verður stöðvunarkrafan nú tekin til úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Á fundi framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar 2. maí 2008 var tekið fyrir erindi vegna færanlegra húsa við leikskólann Hvamm við Jófríðarstaðatún í Hafnarfirði samkvæmt fyrirliggjandi uppdrætti.  Lagði ráðið fyrir að óskað yrði eftir samþykki skipulags- og byggingarráðs bæjarins fyrir stöðuleyfi vegna húsanna og umferðar- og bílastæðamál á svæðinu yrðu skoðuð sérstaklega. 

Haldinn var kynningarfundur með íbúum 14. maí 2008 og málið síðan tekið fyrir í skipulags- og byggingarráði 20. sama mánaðar.  Féllst ráðið ekki á fyrirhugaða staðsetningu húsanna, þar sem þau yrðu innan hverfisverndaðs svæðis, en fallist var á staðsetningu þeirra norðar og austar, utan hverfisverndaða svæðisins.  Nýr uppdráttur, dags. 29. maí 2008, var lagður fyrir skipulags- og byggingarráð 3. júní sem samþykkti umbeðið stöðuleyfi til eins árs en að þeim tíma liðnum skyldu mannvirkin fjarlægð og svæðið fært í fyrra horf.  Munu framkvæmdir hafa hafist hinn 8. júlí 2008. 

Í kjölfar þess barst bæjaryfirvöldum bréf frá Fornleifavernd ríkisins, þar sem gerð var athugasemd við að raskað hefði verið fornleifum þegar umræddum bráðabirgðakennslustofum hefði verið komið fyrir.  Um væri að ræða traðir milli bæjarstæðis Jófríðarstaðabæjarins og tófta af útihúsum á Lambhúsahæð.  Var gerð krafa um stöðvun framkvæmda þar til rannsókn á málinu væri lokið. 

Fyrrgreint stöðuleyfi var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarráðs bæjarins hinn 22. júlí sl. og var þar m.a. gerð eftirfarandi bókun: 

„Skipulags- og byggingarráð ítrekar bókun sína frá 03.06.2008 að stöðuleyfi er aðeins veitt til eins árs, og að þeim tíma liðnum skulu mannvirkin fjarlægð og gengið frá svæðinu í sama ástandi og nú er.  Skipulags- og byggingarráð samþykkir að fela skipulags- og byggingarsviði og framkvæmdasviði að kynna fyrir íbúum minnisblað Línuhönnunar dags. 14.07.2008 um úrbætur umferðarmála í Staðarhvammi.  Skipulags- og byggingarráð felur skipulags- og byggingarsviði að ljúka máli varðandi fornleifar í samráði við Byggðasafn og Fornleifavernd ríkisins.  Þar til því máli er lokið og niðurstaða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála varðandi stöðvun framkvæmda liggur fyrir, leggur skipulags- og byggingarráð til að öllum framkvæmdum við færanlegar kennslustofur við leikskólann verði frestað.“

Kærendur benda á að þeir hafi mótmælt umdeildri stækkun leikskólans.  Aðkoma að leikskólanum sé erfið og um íbúðargötu þeirra, en búast megi við aukinni umferð, m.a. stærri bíla, vegna stækkunarinnar.  Umdeildar framkvæmdir, sem séu utan lóðar leikskólans, geti ekki stuðst við stöðuleyfi samkvæmt gr. 71.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, þar sem um sé að ræða færanlegar kennslustofur en ekki gáma.  Til framkvæmdanna þurfi byggingarleyfi sem ekki liggi fyrir.  Samkvæmt byggingarreglugerð hefði átt að grenndarkynna hina breyttu tillögu að stækkun umrædds húsnæðis og breyta lóðaskipulagi með formlegum hætti með tilliti til staðsetningar húsanna.  Umdeildar framkvæmdir brjóti í bága við gildandi deiliskipulag svæðisins og beri því að stöðva þær nú þegar. 

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er bent á að umræddar framkvæmdir, sem séu á vegum framkvæmdasviðs Hafnarfjarðar, hafi verið á lokastigi um það leyti er stöðvunarkrafa barst úrskurðarnefndinni.  Húsin séu risin og verið sé að ljúka vinnu utanhúss.  Aðeins sé eftir að tengja skolplögn og rafmagn við húsin og vinna innanhúss.  Búið sé að innrita 40 börn og ráða 10 starfsmenn vegna hins nýja bráðabirgðahúsnæðis, sem áætlað sé að verði tekið í notkun um eða eftir miðjan ágúst nk. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur kærandi krafist þess að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan mál er fyrir nefndinni.  Er ákvæðinu ætlað að gera nefndinni kleift að tryggja að réttarstöðu aðila verði ekki breytt til muna meðan mál er þar til meðferðar án þess að afstaða hafi verið tekin til efnisatriða. 

Fyrir liggur að bráðabirgðahúsnæði það sem um er deilt í máli þessu er risið og frágangi þess að ljúka.  Verður ekki séð að stöðvun framkvæmda hafi hér eftir neina sérstaka þýðingu með tilliti til hagsmuna kærenda, enda verða allar framkvæmdir við umrædda byggingu að teljast unnar á ábyrgð og áhættu leyfishafa meðan kærumál um lögmæti heimilaðra framkvæmda er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða stöðuleyfi.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                          ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir