Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

21/2006 Brákarbraut

Ár 2009, fimmtudaginn 10. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 21/2006, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 15. febrúar 2006 um breytt deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi. 

Í málinu er nú til kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. mars 2006, er barst nefndinni samdægurs, kærir Pétur Kristinsson hdl., f.h. I, Brákarbraut 11, Borgarnesi, ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 15. febrúar 2006 um breytt deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi, sbr. auglýsingu sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 20. febrúar 2006. 

Af hálfu kæranda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Kærumál þetta á sér nokkurn aðdraganda og hafa kærur vegna deiliskipulags í gamla miðbænum í Borgarnesi áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar, en 4. ágúst 2004 var auglýst tillaga að deiliskipulagi gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Lá tillagan frammi til kynningar á bæjarskrifstofum Borgarbyggðar til 2. september 2004, en frestur til athugasemda var til 16. sama mánaðar.  Athugasemdir bárust við tillöguna, m.a. frá kæranda, en á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar hinn 5. október 2004 var gerð svofelld bókun:  „Erindi frá bæjarráði þar sem óskað er umsagnar nefndarinnar um framkomnar athugasemdir við deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Nefndin telur að þrátt fyrir innsendar athugasemdir sé ekki þörf á breytingum á deiliskipulaginu.“  Skipulagstillagan mun síðan hafa verið samþykkt í bæjarstjórn 14. október 2004 en síðar, eða 11. nóvember 2004, samþykkti bæjarstjórn þó svör við framkomnum athugasemdum þar sem fallist var á minni háttar breytingar í tilefni af þeim.  Þrátt fyrir að umhverfis- og skipulagsnefnd hafi ekki talið þörf á að breyta skipulaginu voru gerðar nokkrar breytingar á því og kom fram í bréfi bæjarstjóra til kæranda, dags. 19. nóvember 2004, að tekið hafi verið undir ábendingu hans um mörk skipulagssvæðis og að eðlilegt sé að geta í skipulaginu um umferðarrétt um lóðina Brákarbraut 13 að lóð kæranda.  Þá kom fram í bréfinu að hugmyndir séu uppi um tengibyggingu milli Brákarbrautar 13 og 15 sem meðal annars eigi að þjóna starfsemi Egilsstofu og því ekki óeðlilegt að gert sé ráð fyrir byggingarreit vegna þess, auk lýsingar á þeirri starfsemi sem þar sé fyrirhuguð. 

Með bréfi bæjarverkfræðings Borgarbyggðar, dags. 30. nóvember 2004, var umrætt deiliskipulag sent Skipulagsstofnun til yfirferðar.  Gerði stofnunin með bréfi, dags. 20. desember 2004, verulegar athugasemdir við skipulagið, bæði um form og efni.  Voru þessar athugasemdir teknar til athugunar og báru málsgögn það með sér að breytingar hefðu verið gerðar bæði á uppdrætti skipulagsins og greinargerð, án þess þó að sveitarstjórn fjallaði um þær breytingar.  Var skipulagið, svo breytt, sent að nýju til Skipulagsstofnunar til yfirferðar með bréfi, dags. 2. mars 2005.  Með bréfi, dags. 10. mars 2005, lýsti Skipulagsstofnun þeirri afstöðu sinni að ekki væru gerðar athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda, en benti þó á að gera þyrfti smávægilegar lagfæringar á skipulagsgögnunum.  Auglýsing um gildistöku skipulagsins var síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 31. mars 2005.  Skaut kærandi ákvörðun sveitarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 29. apríl 2005.  Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum 24. janúar 2006, var kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu skipulagsákvörðunar hafnað að öðru leyti en því að felld var úr gildi heimild fyrir tengi- og viðbyggingu að Brákarbraut 13 og 15. 

Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 10. janúar 2006 var ákveðið að grenndarkynna tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulagi gamla miðbæjarins er fól í sér stækkaðan byggingarreit lóðanna nr. 13 og 15 við Brákarbraut fyrir viðbyggingu og tengibyggingu á milli húsa á lóðunum.  Kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum vegna þessa.  Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 13. febrúar s.á. voru athugasemdir kæranda lagðar fram og tillagan samþykkt.  Á fundi bæjarstjórnar 15. s.m. var tillagan samþykkt og athugasemdum kæranda svarað með bréfi bæjarstjóra, dags. 16. febrúar 2006. 

Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. febrúar 2006. 

Kærandi skaut framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að með bréfi, dags. 12. janúar 2006, hafi Borgarbyggð sent kæranda bréf þar sem fram komi að umhverfis- og skipulagsnefnd hafi ákveðið á fundi 10. janúar að grenndarkynna óverulega breytingu á fyrirliggjandi deiliskipulagi.  Af fundargerð nefndarinnar verði ekki annað ráðið en að byggingarstjóri umræddrar tengi- og viðbyggingar hafi tekið þátt í ákvörðuninni.  Þá liggi einnig fyrir að grenndarkynningin hafi ekki náð til lóðarhafa Brákarbrautar 4, 5, 8, 15 og 16, en þær lóðir séu í næsta nágrenni. 

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun sé m.a. heimiluð tengi- og viðbygging við og á milli húsanna að Brákarbraut 13 og 15 og með henni sé heimiluð stækkun á veitinga- og skemmtistað.  Það hafi þó ekki komið fram í grenndarkynningunni.  Auk þess sé gert ráð fyrir gangandi og akandi umferð að lóðinni Brákarbraut 11A um lóð kæranda að Brákarbraut 11.  

Krafa kæranda um ógildingu hinnar kærðu samþykktar sé rökstudd með því að um sé að ræða breytingu á gildandi skipulagi og hana beri því að auglýsa sbr. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Grenndarkynning sé aðeins heimil í undantekningartilvikum og þegar um óverulegar breytingar á skipulagi sé að ræða.  Hér sé um að ræða breytingu er varði viðbyggingu við elstu hús bæjarins, sem standi í miðbæ Borgarness, séu í opinberri eigu og hafi sögulegt gildi.  Breytingin geti því ekki talist óveruleg og því beri að auglýsa hana eins og lög geri ráð fyrir.  Það hafi ekki verið gert og því sé skipulagsbreytingin ógild. 

Verði ekki fallist á að breytinguna hafi þurft að auglýsa sé á það bent að grenndarkynningin hafi hafist áður en úrskurður um ógildingu skipulagsins hafi verið uppkveðinn, byggingarstjóri tengi- og viðbyggingarinnar hafi tekið þátt í ákvörðun um grenndarkynningu og hún ekki tekið til allra lóðarhafa í nágrenninu.  Því hafi ekki verið rétt staðið að grenndarkynningunni og hana beri að endurtaka. 

Verði ekki fallist á að endurtaka þurfi grenndarkynninguna sé á því byggt að við meðferð Borgarbyggðar á athugasemdum kæranda hafi ekki verið gætt meðalhófs og ekkert tillit tekið til sjónarmiða hans.  Húsin sem skipulagsbreytingin taki til standi í næsta nágrenni við íbúðarbyggð og séu ekki nema ca. 30 metrar að húsi kæranda.  Hafi hann því beina og lögvarða hagsmuni af því að ekki sé á svæðinu rekinn skemmtistaður, bæði vegna ónæðis af skemmtanahaldinu sjálfu og þeirri umferð sem því fylgi.  Í svari Borgarbyggðar komi fram að frekar verði lögð áhersla á veitingarekstur í húsinu en beint skemmtanahald.  Í þessu ljósi verði ekki séð að neitt sé því til fyrirstöðu að í skipulagskilmálum verði kveðið á um að opnunartími verði takmarkaður á kvöldin með hliðsjón af því að húsin séu í nágrenni við íbúðarbyggð.  Þá sé það sjálfsögð krafa að gert sé ráð fyrir nægum bílastæðum vegna fyrirhugaðrar starfsemi þannig að komið verði í veg fyrir ónæði og átroðning á nærliggjandi lóðum.  Við gerð skipulags verði eins og í annarri stjórnsýslu að gæta meðalhófs, en í því felist m.a. að  taka verði tillit til allra eins og kostur sé en ekki bara til sumra. 

Kærandi hafi gert athugasemd við akandi og gangandi umferð við Brákarbraut 11a, en samkvæmt hinni kærðu samþykkt sé gert ráð fyrir gangstíg og aðkomu að þeirri lóð um lóð kæranda að Brákarbraut 11.  Ljóst sé að aðkomuna megi leysa án þess að lóð kæranda sé skert.  Svar Borgarbyggðar felist í því að umhverfis- og skipulagsnefnd  fallist á að hlutast til um að talað verði við lóðarhafa en skipulagið engu að síður samþykkt og auglýst.  Hér sé ekki gætt meðalhófs og lóð kæranda skert að óþörfu. 

Um lagarök vísist að öðru leyti til skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Borgarbyggðar:  Af hálfu Borgarbyggðar er vísað til þess að umhverfis- og skipulagsnefnd hafi metið það svo að hin kærða samþykkt sé óveruleg breyting á deiliskipulagi og því hafi verið nægilegt að grenndarkynna tillögu að henni, sbr. 2. mgr. 26. mgr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Fyrir hafi legið umsögn Húsafriðunarnefndar, dags. 10. maí 2005, þar sem fram komi að viðkomandi bygging „… sé í sátt við gömlu húsin og styður þá starfsemi sem kemur til með að vera þar, en starfsemi sé grunnforsenda þess að hægt sé að varðveita húsin.“ 

Sveitarstjórn hafi samþykkt á fundi sínum 12. janúar 2006 fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar frá 10. s.m.  Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998 fari sveitarstjórn með endanlegt ákvörðunarvald og starfi nefndir í umboði hennar.  Því hljóti endanlegt ákvörðunarvald að vera í höndum sveitarstjórnar auk þess sem í 6. gr. skipulags- og byggingarlaga komi fram að skipulagsnefndir fari með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórnar.  Meint vanhæfi nefndarmanns í umhverfis- og skipulagsnefnd komi því ekki til álita. 

Áður en deiliskipulag gamla miðbæjarins hafi tekið gildi hafi verið rekinn skemmtistaður að Brákarbraut 13 með ákveðinn opnunartíma.  Eftir að Landnámssetur hafi tekið til starfa í húsunum að Brákarbraut 13 og 15 hafi húsin fyrst og fremst verið nýtt undir sýningarhald, verslun, veitingastarfsemi og leiksýningar.  Alla jafna sé engin starfsemi í húsunum eftir miðnætti. 

Loks sé mótmælt þeirri fullyrðingu kæranda að gert sé ráð fyrir göngustíg og aðkomu að húsinu að Brákarbraut 11A.  Borgarbyggð hafi eignast húsið og hafi verið ákveðið að rífa það.  Ekki standi til að svo komnu að byggja að nýju á lóðinni. 

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki veriða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Úrskurðarnefndin hefur með óformlegum hætti kynnt sér aðstæður á vettvangi.  

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 15. febrúar 2006 um breytt deiliskipulag gamla miðbæjarins í Borgarnesi er fól í sér stækkaðan byggingarreit lóðanna nr. 13 og 15 við Brákarbraut fyrir viðbyggingu og tengibyggingu á milli húsanna.  Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag frá árinu 2005. 

Af hálfu kæranda er því haldið fram að hin kærða samþykkt sé þess eðlis að skipulagsyfirvöldum hafi verið óheimilt að fara með hana sem óverulega breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, heldur hafi borið að auglýsa hana svo sem um nýtt deiliskipulag væri að ræða, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna. 

Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins frá 2005 er lóðin nr. 13 við Brákarbraut 956 m² að stærð og stendur þar tvílyft hús á háum kjallara, byggt árið 1907.  Nýtingarhlutfall lóðar er 0,3.  Samkvæmt deiliskipulaginu er lóðin nr. 15 við Brákarbraut 300 m² að stærð og er þar einlyft hús með háu risi og kjallara, byggt árið 1887.  Nýtingarhlutfall lóðar er 0,6.  Með hinni kærðu samþykkt er veitt heimild til að byggja einlyfta tengi- og viðbyggingu, á milli og aftan við húsin á lóðunum Brákarbraut 13 og 15, sem mun tilheyra lóðinni nr. 13.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun hin umdeilda bygging, sem heimiluð er með hinni kærðu samþykkt, hvorki varpa skugga á lóð kæranda né hafa áhrif á útsýni úr húsi hans.  Hún raskar ekki götumynd til muna og fellur vel að húsum sem fyrir eru á svæðinu.  Með hliðsjón af því verður hin umrædda breyting talin óveruleg og var skipulagsyfirvöldum því heimilt, eins og þarna stóð á, að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi.  Er því kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað, enda verður ekki fallist á að með henni hafi verið brotið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga eða stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Ekki þykir ástæða til að fjalla sérstaklega um göngustíg og aðkomu að lóðinni nr. 11A við Brákarbraut, enda var engin ákvörðun tekin þar að lútandi með hinni kærðu ákvörðun.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni og vegna sáttaumleitana málsaðila.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 15. febrúar 2006 um breytt deiliskipulag gamla miðbæjarins Borgarnesi. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________              ____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson