Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

52/2009 Brálundur

Ár 2009, miðvikudaginn 18. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 52/2009, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 5. maí 2009 um að samþykkja deiliskipulag Brálundar. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. júlí 2009, er barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kærir Ólafur Kjartansson hdl., f.h. H og M, til heimilis að Brálundi 2, Akureyri, þá ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 5. maí 2009 að samþykkja deiliskipulag Brálundar.  Öðlaðist samþykktin gildi hinn 10. júní 2009 við birtingu auglýsingar þar að lútandi í B-deild Stjórnartíðinda. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Til vara er þess krafist að felldur verði úr gildi sá hluti skipulagsins er lýtur að tengingu Brálundar við Miðhúsabraut. 

Málavextir:  Árið 2007 réðst Akureyrarbær í útboð á gerð Miðhúsabrautar.  Samkvæmt útboðsgögnum var hluti af verkinu tenging Miðhúsabrautar við Skógarlund um Brálund, en um nýja vegtengingu var að ræða.  Er framkvæmdir stóðu yfir kom í ljós að þær voru ekki í samræmi við deiliskipulag og voru framkvæmdir stöðvaðar af bæjaryfirvöldum.  Í svari skipulagsstjóra vegna fyrirspurnar um framkvæmdina, dags. 16. október 2007, sagði að fyrir mistök hafi tengingin verið með í auglýstu útboði vegna Miðhúsabrautar.  Sagði ennfremur:  „Gert er ráð fyrir að deiliskipulagsvinna við fyrrgreindan íbúðarreit á milli Eikarlaundar og Miðhúsabrautar fari af stað í vetur og mun deiliskipulagssvæðið einnig taka á fyrrgreindri götutenginu sem auglýst verður með hefðbundnum hætti...“

Með auglýsingu, dags 25. febrúar 2009, auglýsti bæjarstjórn, með vísan til 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, tillögu að deiliskipulagi Brálundar, svæðis er afmarkast af Miðhúsabraut að sunnan og lóðum við Eikarlund að norðan, göngustíg frá Eikarlundi að vestan og Brálundi að austan.  Fól tillagan í sér að við nýja húsagötu, Daggarlund, yrði komið fyrir 16 einbýlishúsalóðum ásamt því að Lundarhverfi tengdist um Brálund við Miðhúsabraut.  Frestur til að skila athugasemdum var til 8. apríl og bárust bæjaryfirvöldum athugasemdir kærenda.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 29. apríl var athugasemdum kærenda svarað og lagt til við bæjarstjórn að tillagan yrði samþykkt.  Á fundi bæjarstjórnar hinn 5. maí var tillagan samþykkt.  Birtist auglýsing um gildistöku samþykktarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní 2009. 

Skutu kærendur framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er byggt á því að framkvæmdir við tengingu Brálundar og Miðhúsabrautar séu langt komnar.  Veturinn 2007/2008 hafi verið boðnar út framkvæmdir við Miðhúsabraut og í útboðslýsingu hafi verið var gert ráð fyrir tengingu við Skógarlund í gegnum Brálund.  Í framhaldi af útboðinu hafi framkvæmdir hafist.  Eftir ábendingar kærenda um að áðurnefnd tenging um Brálund samræmdist ekki skipulagi hafi þeim hluta framkvæmdanna verið frestað.  Hafi skýringar bæjaryfirvalda verið að sá hluti framkvæmdanna hafi verið boðinn út fyrir mistök.  Eins og staðfest sé af skipulagsstjóra, sbr. bréf hans til kærenda, dags 16. október 2007, hafi framkvæmdir þá verið hafnar.  Megi í raun segja að þeim sé að mestu lokið.  Þær framkvæmdir hafi ekki verið fjarlægðar.  Umrædd tenging sé ekki á gildandi skipulagi.  Samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé óheimilt að „… breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.“  Þar sem framkvæmdir við tengiveginn séu þegar hafnar, sem auk þess séu í andstöðu við gildandi deiliskipulag, sé óheimilt að samþykkja breytt deiliskipulag sem feli hina ólögmætu framkvæmd í sér.  Beri því strax á þessari forsendu að fella skipulagið úr gildi. 

Við setningu laga nr. 73/1997 hafi við meðferð málsins á Alþingi verið gerð breytingartillaga af hálfu umhverfisnefndar sem síðar hafi orðið að 4. mgr. 56. gr. laganna.  Í nefndaráliti sem mælt hafi fyrir breytingunni segi:  „Hins vegar er mælt fyrir um að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging eða byggingarhluti hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Telur nefndin nauðsynlegt að slíkt ákvæði sé sett í lög þar sem dæmin sýna að skipulagi hefur oft verið breytt eftir að mannvirki hefur verið reist og eru slík vinnubrögð óviðunandi og fara gegn anda frumvarps þessa.“  Mjög skýrt sé kveðið á um það í nefndarálitinu að framkvæmdir sem séu í andstöðu við skipulag fari gegn anda frumvarpsins og séu ólíðandi.  Einbeittur vilji skipulagsyfirvalda til að breyta skipulagi til samræmis við orðna framkvæmd haggi ekki þeim skýra ásetningi löggjafans að koma í veg fyrir slíkt verklag.  Í þessu tilviki sé um að ræða nákvæmlega þá málsmeðferð sem ákvæðinu sé ætlað að koma í veg fyrir.  Beri að fella skipulagið úr gildi þar sem að málsmeðferð skipulagstillögunnar samrýmist ekki 56. gr. skipulags og byggingarlaga. 

Verði ekki fallist á ofangreint sé á því byggt að skipulagsyfirvöldum hafi borið að taka tillit til þess að Brálundur sé í dag íbúðargata og að við götuna sé starfrækt dagvistun fyrir börn.  Meginhlutverk slíkra gatna sé að skapa aðkomu að húsum og þjónustu við þá götu.  Ef framkomnar hugmyndir verði að veruleika sé fyrirséð að hin aukna umferð, sem fylgja muni breytingunni, skapi hættu og óþægindi fyrir þá sem fái þjónustu þar. 

Samkvæmt gildandi aðalskipulagi bæjarins sé fyrirhuguð tenging Lundarhverfis við Miðhúsabraut um Dalsbraut.  Sú tenging muni nýtast íbúum hverfisins og tengja það við verslun á gatnamótum Kjarnagötu og Miðhúsabrautar.  Sú tenging sé ekki gegnum íbúðargötur.  Veigamikil rök verði að koma fram til að beina umferð um Brálund frekar en um fyrirhugaða Dalsbraut.  Minnt sé á skyldu bæjarins til að hlíta eigin skipulagi og vinna í samræmi við það.  Skipulagsyfirvöld hafi ekki fært nein rök fyrir því að gera frekar tengingu um Brálund en láta Dalsbraut bíða.  Sé á því byggt að málaefnaleg sjónarmið hafi ekki ráðið ferðinni og að ekki hafi verið færð fram nægjanleg rök fyrir því að velja frekar þá leið sem farin sé samkvæmt hinu umþrætta deiliskipulagi. 

Þá sé á því byggt að skipulagsyfirvöld hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Samkvæmt deiliskipulaginu verði Brálundur notaður til tengingar Lundarhverfis við Miðhúsabraut.  Ekki hafi farið fram rannsóknir af hálfu skipulagsyfirvalda á því hvaða áhrif framkomnar hugmyndir hafi á umferð um götuna.  Engar rannsóknir liggi fyrir um umferð um Brálund, umferðarþunga eða annað sem kunni að skipta máli.  Sé að mati kærenda nauðsynlegt að slík rannsókn fari fram áður en deiliskipulagstillaga verði að veruleika.  Af hálfu skipulagsyfirvalda hafi því verið heitið að slík rannsókn færi fram en hvergi sé að finna niðurstöðu þeirra athugana. 

Þá sé ekki gerð grein fyrir áhrifum skipulagsins verði það að veruleika.  Í greinargerð sé ekki að finna neina greiningu á hugsanlegum umferðarþunga eða áhrifum aukinnar umferðar á starfsemi við Brálund eða íbúa á svæðinu.  Skipulagsyfirvöld hafi því ekki séð til þess við undirbúning skipulagsins að nægar upplýsingar lægju fyrir.  Sé því málsmeðferð við undirbúning deiliskipulagsins ekki í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 10. gr.  Sé ágalli þessi slíkur að fella beri skipulagið úr gildi. 

Ennfremur sé á því byggt að við undirbúning skipulagsins hafi skipulagsyfirvöld ekki leitað nægjanlega eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa og annarra þeirra sem hagsmuna eigi að gæta um mörkun stefnu og skipulagsmarkmið í samræmi við ákvæði 4. mgr. 9. gr., sbr. 6. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Sérstaklega sé bent á að skipulagsyfirvöld hafi ekki haft samráð við hverfisráð Lundarhverfis.  Þá hafi kærendur ítrekað komið á framfæri athugasemdum til skipulagsyfirvalda, einkum vegna hinna ólögmætu framkvæmda við tengingu Brálundar við Miðhúsabraut.  Hafi athugasemdum þessum verið komið á framfæri í bréfum til skipulagsyfirvalda og á fundum með kjörnum fulltrúum bæjarins.  Sé á því byggt að skipulagsyfirvöld hafi hvorki leitað nægjanlega eftir samstarfi við íbúa og hagsmunaaðila né tekið nægjanlegt tillit til sjónarmiða sem þeim hafi borist.  Sé þessi ágalli á málsmeðferð skipulagsyfirvalda með þeim hætti að fella beri skipulagið úr gildi. 

Á því sé byggt að skipulagsyfirvöld hafi í raun komist að niðurstöðu um tilhögun skipulagsins áður en ferlið hafi hafist.  Eins og fram komi í tölvupósti, skipulagsstjóra bæjarins, dags. 8. október 2007, hafi þá þegar verið ráðgert að gera deildiskipulag með tengingu við Skógarlund um Brálund.  Þrátt fyrir ábendingar íbúa, sem sannanlega hafi verið mótteknar af skipulagsyfirvöldum hafi, verið haldið áfram með framkvæmdirnar.  Framkvæmdavilji bæjaryfirvalda hafi verið einbeittur og vísvitandi verið farið á svig við gildandi lög og skipulag.  Sé af þessu ljóst að ekki hafi neitt raunverulegt samráð verið haft við íbúa.  Þá liggi ekki fyrir könnun á afleiðingum tillögunnar eða öðrum þáttum sem kunni að skipta máli þar sem skipulagsyfirvöld hafi verið að bregðast við mistökum við útboð Miðhúsabrautar.  Virðist sem stjórnvöld hafi þegar fyrir auglýsingu skipulags verið búin að ákveða niðurstöðu deiliskipulagsferlisins.  Sé það ekki trúverðug stjórnsýsla að nánast ljúka framkvæmdum og auglýsa síðan deildiskipulag í samræmi við þær framkvæmdir og halda því fram að raunverulegt samráð hafi átt sér stað. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Af hálfu Akureyrarbæjar er vísað til þess að umrædd vegtenging, á milli Skógarlundar og Miðhúsabrautar, hafi verið á aðalskipulagi Akureyrarbæjar frá árinu 1974.  Þá hafi vegslóði verið á sama stað í tugi ára sem hafi verið ekið um að hesthúsum og fjárhúsum í bæjarlandinu.  Vegtengingin sjáist ekki lengur á núverandi aðalskipulagi þar sem lög kveði ekki lengur á um að þar þurfi að sýna aðrar götur en stofn- og tengibrautir. 

Þegar unnið hafi verið við lagningu Miðhúsabrautar hafi vegslóðinn verið nýttur af verktaka til aðfanga við hina nýju vegagerð.  Vegslóðinn hafi verið endurbættur svo hægt hafi verið að nýta hann undir nauðsynlega umferð þungra ökutækja við byggingu tengibrautarinnar.  Það hafi verið gert til þess að halda umhverfisraski sem minnstu á öðrum svæðum þar sem hluti Brálundar hafi þá þegar verið til staðar.

Því sé mótmælt að ekki hafi verið haft fullt samráð við hagsmunaaðila um gerð deiliskipulagstillögunnar.  Hverfisnefnd Lunda- og Gerðahverfis hafi verið sent erindi, dags. 20. febrúar 2009, þar sem tilkynnt hafi verið um fyrirhugaða auglýsingu deiliskipulagstillögunnar.  Frestur til að gera athugasemdir hafi verið til 8. apríl 2009, en engar athugasemdir hafi borist frá hverfisnefndinni.  Þá hafi engar athugasemdir komið frá eigendum Brálundar 1, þar sem rekin sé dagvistun fyrir börn.  Akureyrarbær telji að fullt samráð hafi verið haft um framlagðar hugmyndir sem hafi verið auglýstar samkvæmt skipulagslögum ásamt því að tillagan hafi verið rædd og útskýrð á hverfafundi um skipulagsmál sem haldinn hafi verið 5. mars 2009 í Brekkuskóla. 

Fram komi í kærunni að Akureyrarbær hafi viðurkennt að framkvæmdir hafi verið hafnar við tengingu án heimildar.  Hvergi sé minnst á slíkt í bréfi skipulagsstjóra, en einungis sé sagt að fyrir mistök hafi fyrrgreindur leggur verið í útboðsgögnum þegar Miðhúsabraut hafi verið boðin út, en umræddri vegtengingu hafi verið kippt út þegar þau mistök hafi uppgötvast og allar framkvæmdir stöðvaðar. 

Þá sé því mótmælt að framkvæmdavilji bæjarins hafi verið einbeittur og að vísvitandi hafi verið farið á svig við lög og reglur.  Eins og áður hafi komið fram hafi þau mistök verið gerð við útboð fyrir Miðhúsabraut að umrædd vegtenging hafi verið inni í útboðsgögnum og hafi framkvæmdir við tenginguna verið stöðvaðar um leið og það hafi orðið ljóst, eða í október 2007. 

Þá sé því mótmælt að rannsóknarskyldu hafi ekki verið fullnægt við deiliskipulagningu umrædds reits.  Samhliða gerð deiliskipulagstillögunnar hafi verkfræðistofan Línuhönnun unnið hljóðskýrslu um Miðhúsabraut og Brálund, dags. 3. apríl 2008, og minnisblað um umferðarmál, dags. 12. maí 2008.  Þar komi m.a. fram að umferð um Brálund yrði lítil, eða 1000-2000 bílar á sólarhring.  Þá sé í kafla 2.4 í greinargerð deiliskipulagsins tekið á áhrifum á umhverfi og samfélag. 

Kærendur vísi til þess að hætta geti stafað af vegtengingunni.  Í deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir að Brálundartengingin við Miðhúsabraut verði skilgreind sem 30 km gata með hraðahindrunum.  Með þeirri tilhögun ætti ekki að skapast hætta vegna aðkomu að húsum við götuna. 

Lagning Miðhúsabrautar hafi hafist árið 2007 og hafi framkvæmdum við hana lokið á árinu 2008.  Með tilkomu hennar hafi álag minnkað mikið á Þingvallastræti en þó vanti tengingar við hana til þess að dreifa álagi enn frekar af Skógarlundi og Mýrarvegi.  Með tilkomu nýrrar verslunar við gatnamót Kjarnagötu og Miðhúsabrautar ætti aðgengi að versluninni að dreifast á fleiri tengingar með tilkomu Brálundartengingar við Miðhúsabraut sem annars færi um Mýrarveg.  Með þessu sé verið að dreifa umferð um svæðið og um leið freista þess að ná sem mestri nýtingu á Miðhúsabraut. 

Skipulagsrök fyrir vegtengingunni séu því hugsuð út frá almannaheill þar sem hún skapi minni hættu og meira hagræði fyrir fleiri íbúa, þó að íbúar við þau tvö hús sem séu við Brálund geti átt von á meiri umferð um götuna en nú sé, með vísan til skammtímaspár.  Benda megi á að eina tengingin við golfvöllinn á Jaðri hafi verið um Brálund.  Henni hafi  nú verið lokað og sé vegtenging á golfvöllinn nú um Naustahverfi.  Umferð um tengingu við golfvöllinn um Brálund hafi verið mjög mikil á köflum þannig að raunaukning umferðar um Brálund ætti að verða enn minni en fram komi í skýrslunni. 

Byggt sé á því að 56. gr. skipulags- og byggingarlaga eigi ekki við í málinu þar sem hið kærða deiliskipulag sé nýtt deiliskipulag, en ekki breyting á áður gerðu skipulagi eins og ákvæðið geri ráð fyrir og segi berum orðum.  Þetta eigi sér stoð í orðalagi 1. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga þar sem segir:  „Ef framkvæmd, sem fellur undir 27. gr. eða undir IV. kafla laga þessara, er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, hún byggð á annan hátt en leyfi stendur til eða ef bygging er tekin til annarra nota en sveitarstjórn hefur heimilað getur skipulagsfulltrúi/byggingarfulltrúi stöðvað slíkar framkvæmdir tafarlaust. Sé um framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd að ræða leitar skipulagsfulltrúi staðfestingar sveitarstjórnar. Sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða leitar byggingarfulltrúi staðfestingar byggingarnefndar svo fljótt sem við verður komið.“ 

Með vísan til 1. mgr. 56. gr. laganna sé byggt á því að ákvæði 4. mgr. 56. gr. eigi aðeins við um framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd og/eða mannvirki sem þurfi byggingarleyfi fyrir.  Hvorugt skilyrðið eigi því við um umrædda vegtengingu. 

Í 27. gr. laganna sé fjallað um nauðsyn þess að afla framkvæmdaleyfis hjá sveitarstjórn vegna meiriháttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum.  Ljóst sé að vegtengingin sem hafi verið á aðalskipulagi frá 1974 og vegslóðinn, sem nýttur hafi verið í tugi ára, teljist ekki til meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess.  Þá sé í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 sérstaklega tiltekið í viðauka I að aðeins stofnbrautir í þéttbýli séu háðar mati á umhverfisáhrifum og í viðauka II sé tiltekið að meta skuli hvort tengibrautir séu háðar slíku mati, en ákvæðið eigi ekki við um safngötur og íbúðargötur eins og umrædd vegtenging teljist vera. 

Þá sé ekki um byggingarleyfisskylda starfsemi að ræða en í 36. gr. skipulags- og byggingarlaga segi að ákvæði IV. kafla sem fjalli um mannvirki taki til hvers konar bygginga ofan jarðar og neðan.  Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laganna séu götur m.a. undanþegnar byggingarleyfi. 

Þar sem 4. mgr. 56. gr. kveði aðeins á um að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt, sé ljóst að ákvæðið eigi ekki við um vegtengingu á milli Brálundar og Miðhúsabrautar.  Því sé ekki hægt að byggja á því að fjarlægja hefði þurft þær framkvæmdir sem þegar hafi verið gerðar áður en hið nýja deiliskipulag hafi litið dagsins ljós. 

Verði talið að umrætt ákvæði 56. gr. skipulags- og byggingarlaga eigi við sé því við að bæta að í tæmandi talningu í 4. mgr. 56. gr. séu talin upp nokkur skilyrði, en eitt af þeim sé að starfsemi sé hætt.  Umræddri starfsemi hafi verið hætt um leið og ljóst hafi verið að athugasemd hafi verið gerð við framkvæmdina. 

Þess fyrir utan megi velta fyrir sér hvort umrædd vegtenging hafi þurft að fara í deiliskipulag og hvort ekki hafi verið nægjanlegt að hanna og byggja hana í samræmi við vegslóðann og hið gamla aðalskipulag.  Ljóst sé að ef ekki hefði verið farið í deiliskipulagningu á Daggarlundi kveði skipulagslög ekki á um það sérstaklega að deiliskipuleggja þurfi vegtengingar á milli tveggja gatna sem þegar séu til í skipulagi.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um gildi ákvörðunar bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 5. maí 2009 um deiliskipulag Brálundar á Akureyri.  Svæðið afmarkast af Miðhúsabraut að sunnan og lóðum við Eikarlund að norðan, göngustíg frá Eikarlundi að vestan og Brálundi að austan.  Felur tillagan í sér að gerð verði ný húsagata, Daggarlundur, með 16 einbýlishúsalóðum ásamt því að Brálundur tengist Miðhúsabraut. 

Í 2. mgr. gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segir að í aðalskipulagi skuli gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum samgöngumannvirkjum, s.s. þjóðvegum og höfnum, svo og helstu umferðaræðum og tengingum við þær og í 5. mgr. sömu greinar segir að á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulags skuli gera grein fyrir stofnbrautum og tengibrautum.  Verður að skilja ákvæði þessi svo að ekki nægi að sýna á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulags stofn- og tengibrautir heldur þurfi einnig að sýna tengingar við þær.  Í gildandi Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 er hvorki gerð grein fyrir tengingu Brálundar við Miðhúsabraut á uppdrætti né í greinargerð, en Miðhúsabraut er sýnd sem tengibraut á uppdrætti aðalskipulagsins. 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði og reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Í 9. gr. sömu laga segir og að svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi. 

Svo sem að framan er rakið er ekki í gildandi aðalskipulagi Akureyrar heimild fyrir þeirri tenginu Brálundar við Miðhúsabraut sem ákveðin er í hinu kærða deiliskipulagi.  Samræmist deiliskipulagið að því leyti ekki aðalskipulagi svo sem áskilið er að lögum.  Verður því fallist á kröfu kærenda um ógildingu, en með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður hin kærða ákvörðun þó aðeins felld úr gildi að því er varðar umdeilda tengingu Brálundar við Miðhúsabraut.  Er sú niðurstaða í samræmi við varakröfu kærenda en að öðru leyti skal hið kærða deiliskipulag standa óraskað, enda verður ekki séð að deiliskipulagið að öðru leyti sé haldið neinum þeim annmörkum er leiða eigi til ógildingar þess í heild sinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 5. maí 2009 er felld úr gildi að því er varðar tengingu Brálundar við Miðhúsabraut.  Að öðru leyti skal hin kærða ákvörðun standa óröskuð. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson