Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

152/2007 Heiðaþing

Ár 2009, fimmtudaginn 3. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 152/2007, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 7. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðanna að Heiðaþingi 2 og 4 í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. nóvember 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðjón Ólafur Jónsson hrl., f.h. Ö og S, Heiðaþingi 6, Kópavogi ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 7. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðanna að Heiðaþingi 2 og 4 í Kópavogi, sem fól m.a. í sér að parhús á lóðunum mættu vera tveggja hæða í stað einnar.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á árinu 2005 tók gildi deiliskipulag fyrir suðursvæði Vatnsenda er tekur m.a. til umræddra lóða við Heiðaþing í Kópavogi.  Samkvæmt deiliskipulagsskilmálum skyldu fyrirhuguð hús á lóðunum vera einnar hæðar parhús með innbyggðum bílageymslum, en heimilt var að hafa kjallara fyrir geymslur undir húsunum að hluta. 

Á fundi skipulagsnefndar hinn 6. júní 2006 var lagt fram erindi þáverandi lóðarhafa Heiðaþings 2-4 þar sem farið var fram á frávik frá gildandi skipulagi að því leyti að heimilað yrði að nýta kjallararými sem íbúðarherbergi og að svalir næðu út fyrir byggingarreit.  Var samþykkt að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum Heiðaþings 6 og 8 og Gulaþings 1 og 3. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 8. ágúst 2006 þar sem lá fyrir umsögn bæjarskipulags um fram komnar athugasemdir frá lóðarhöfum Heiðaþings 6 og 8 varðandi skuggavarp og frágang á lóðamörkum.  Skipulagsnefnd fjallaði um erindið á fundi 22. ágúst 2006 ásamt tillögum um útfærslu og frágang á lóðamörkum vegna athugasemda kærenda.  Var skipulagsstjóra falið að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum og í kjölfarið gáfu lóðarhafar Heiðaþings 2 og 4 út yfirlýsingu þar sem samþykkt var að reistur yrði skjólveggur á lóðamörkum Heiðaþings 4 og 6 og því lýst yfir að lóðarhafar Heiðaþings 4 myndu setja upp stoðvegg á lóð sinni. 

Skipulagsnefnd samþykkti síðan tillögu um útfærslu deiliskipulags varðandi Heiðaþing 2 og 4 og vísaði málinu til bæjarráðs sem samþykkti tillöguna á fundi hinn 7. september 2006.  Skutu kærendur í máli þessu þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði málinu frá hinn 20. september 2007 þar sem á skorti að auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar hefði verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Umrædd deiliskipulagsbreyting tók síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 12. október 2007 og skutu kærendur ákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Byggja kærendur á því að hin kærða ákvörðun sé haldin form- og efnisannmörkum.  Ekki sé um óverulega skipulagsbreytingu að ræða, sem unnt sé að framkvæma með grenndarkynningu, auk þess sem kynningunni hafi verið ábótavant.  Skipulagsbreytingin feli í sér brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og byggingarframkvæmdir á lóðunum hafi verið hafnar áður en umdeild skipulagsbreyting hafi öðlast gildi.  Misræmi sé milli uppdráttar og greinargerðar skipulagsbreytingarinnar auk þess sem engin efnisleg rök séu fyrir breytingunni en hún raski grenndarhagsmunum kærenda. 

Hinn 2. maí 2008 birtist í B-deild Stjórnartíðinda svohljóðandi:  „Auglýsing um afgreiðslu bæjarráðs Kópavogs á auglýstri tillögu að deiliskipulagi Vatnsendi – Þing,  Heiðaþing 2-4, breytt deiliskipulag.  Í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, með síðari breytingum, hefur bæjarráð Kópavogsbæjar samþykkt þann 17. apríl 2008 að afturkalla á grundvelli 2. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina Heiðaþing 2-4.“ 

Ekki hafa borist athugasemdir eða umsögn Kópavogsbæjar vegna kærumálsins en í kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni, nr. 16/2009, sem snýst um byggingarleyfi fyrir parhúsum að Heiðaþingi 2-4, kemur sú afstaða bæjaryfirvalda fram að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið afturkölluð með áðurnefndri auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. 

Niðurstaða:  Skipulagsnefnd Kópavogs samþykkti á fundi sínum hinn 15. apríl 2008 að afturkalla hina kærðu deiliskipulagsbreytingu er tók til Heiðaþings 2-4.  Fundargerð skipulagsnefndar frá þeim fundi var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs hinn 17. apríl sama ár þar sem afstaða var tekin til tiltekinna liða hennar.  Þar er þó ekki að finna bókun í fundargerð ráðsins um afstöðu þess til afturköllunar umdeildrar deiliskipulagsbreytingar.  Hins vegar var fyrrgreind fundargerð skipulagsnefndar á dagskrá fundar bæjarstjórnar hinn 22. apríl 2008 og þar bókað:  „Fundargerðin afgreidd án umræðu.“  Auglýsing um afturköllun deiliskipulagsbreytingar vegna Heiðaþings 2-4 birtist svo í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. maí 2008 eins og áður greinir. 

Samkvæmt 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 tekur sveitarstjórn ákvarðanir um deiliskipulag.  Þeir annmarkar eru á málsmeðferð umræddrar afturköllunar, að ekki kom fram í bókunum viljaafstaða bæjarráðs eða bæjarstjórnar til hennar og ekki er tilgreint með ótvíræðum hætti í auglýsingu til hvaða skipulagsbreytingar afturköllunin tekur.  Með hliðsjón af því að ekki liggur fyrir að önnur deiliskipulagsbreyting hafi verið gerð er snerti umræddar lóðar en sú sem kærð er í máli þessu og sú afstaða bæjaryfirvalda liggur fyrir að afturköllunin eigi við um hina kærðu ákvörðun verður lagt til grundvallar í máli þessu að Kópavogsbær hafi með skuldbindandi hætti fallið frá hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.  Þykja kærendur því ekki lengur hafa hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________       ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                               Aðalheiður Jóhannsdóttir