Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

24/2009 Flatahraun

Ár 2009, fimmtudaginn 3. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 24/2009, kæra á synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 24. mars 2009 á beiðni um breytta skráningu fasteignarinnar að Flatahrauni 29 í Hafnarfirði og bókun skipulags- og byggingarráðs frá 7. júlí 2009 um rýmingu íbúðar í húsinu. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. apríl 2009, er barst nefndinni 15. s.m., kæra G og S, Flatahrauni 29, Hafnarfirði, synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 24. mars 2009 á beiðni um breytta skráningu fasteignarinnar að Flatahrauni 29 í Hafnarfirði.  Hinn 13. júlí 2009 lögðu kærendur fram hjá úrskurðarnefndinni bréf Hafnarfjarðarbæjar með bókun skipulags- og byggingarráðs frá 7. júlí 2009 um rýmingu íbúðar í húsinu og óskuðu úrlausnar nefndarinnar. 

Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar á framangreindum afgreiðslum. 

Málavextir:  Kærendur eru eigendur eignarhluta nr. 207-4792 og 207-4793 í fasteigninni að Flatahrauni 29 í Hafnarfirði.  Á fundi skipulags- og byggingarráðs 24. mars 2009 var lagt fram bréf þeirra, dags. 10. febrúar 2009, og bréf Gústafs Þórs Tryggvasonar hrl., dags. 28. febrúar 2008.  Í bréfi kærenda sagði m.a. eftirfarandi:  „Erindi:  Röng álagning fasteignagjalda ársins 2009 v/207-4792 og 207-4793.  Í bréfi Hafnarfjarðarbæjar (hjálagt) ódagsett undirritað af bæjarlögmanni er þetta staðfest.  Oftekin fasteignagjöld v/207-4792 v/áranna 2004 til og með 2008 er endurgreitt.  Oftekin fasteignagjöld v/207-4793 v/áranna 2004 til og með 2006 er endurgreitt.  Krafa okkar hjóna er! 1.  Skráning fasteignar okkar skal vera rétt.  2. Álagning fasteignagjalda skal vera rétt.  3. Greiðsluseðlar skulu vera réttir.  4. Endurgreiða skal oftekin fasteignagjöld v/207-4793 vegna áranna 2007 og 2008.  5. Greiða skal vexti af ofteknum fasteignagjöldum 2004 til og með 2008 vegna 207-4792 og 207-4793.“  Þá sagði m.a. í fyrrnefndu bréfi lögmanns kærenda að þess væri óskað að skráning vegna eignarhluta þeirra yrði leiðrétt til samræmis við raunveruleg not.  Á fundinum var eftirfarandi fært til bókar:  „Lagt fram bréf, dags. 24. febrúar sl.(sic), frá Gylfa Sveinssyni og Sigríði Önnu Þorgrímsdóttur vegna fasteignarinnar nr. 29 við Flatahraun.  Lagt fram bréf Gústafs Þórs Tryggvasonar hrl., dags. 28.02.2008, þar sem farið er fram á að skráningu hússins verði breytt til samræmis við raunverulega notkun.  Lóðin er á athafnasvæði skv. Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025.  Beiðni um breytingu á skráningu hússins úr iðnaðarhúsnæði í íbúðarsvæði er synjað með tilvísun í 2. mgr. gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð, skilgreining athafnasvæða.  Þar segir m.a. að almennt skuli ekki gera ráð fyrir íbúðum á athafnasvæðum.“  Var fundargerð skipulags- og byggingarráðs lögð fram til kynningar á fundi bæjarstjórnar 31. mars 2009. 

Í bréfi embættis byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 30. mars 2009, var þeim greint frá því að framangreind afgreiðsla væri kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og væri kærufrestur einn mánuður. 

Með bréfi Hafnarfjarðarbæjar til kærenda, dags. 27. apríl 2009 var þeim tilkynnt eftirfarandi:  „Efni:  Flatahraun 29, ólögleg búseta.  Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 22. apríl sl. var eftirfarandi mál:  Fram hefur komið að ólögleg búseta er í húsinu.  Umsókn um húsvarðaríbúð var synjað af skipulags- og byggingarráð 23.09.2003 og bæjarráði 21.10.2004.  Skipulags- og byggingarráð synjaði breyttri skráningu 24.03.2009 með tilvísun í 2. mgr. gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð.  Skipulags- og byggingarfulltrúi bendir á að ekki er samþykkt íbúð í húsinu, sem er á athafnasvæði.  Íbúðin er því ólögleg og ber að rýma hana án tafar.  Verði það ekki gert innan fjögurra vikna mun skipulags- og byggingarfulltrúi gera tillögu til skipulags- og byggingarráðs um beitingu dagsekta í samræmi við VI. kafla skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.“ 

Þá var kærendum sent bréf Hafnarfjarðarbæjar, dags. 2. júlí 2009, þar sem þeim var tilkynnt eftirfarandi:  „Efni:  Flatahraun 29, ólögleg búseta.  Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 1. júlí sl. var eftirfarandi mál:  Fram hefur komið að ólögleg búseta er í húsinu.  Umsókn um húsvarðaríbúð var synjað af skipulags- og byggingarráði 23.09.2003 og bæjarráði 21.10.2004.  Skipulags- og byggingarráð synjaði breyttri skráningu 24.03.2009 með tilvísun í 2. mgr. gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð.  Skipulags- og byggingarfulltrúi benti eiganda 22.04.2009 á að ekki er samþykkt íbúð í húsinu, sem er á athafnasvæði.  Íbúðin væri því ólögleg og bæri að rýma hana án tafar.  Yrði það ekki gert innan fjögurra vikna mundi skipulags- og byggingarfulltrúi gera tillögu til skipulags- og byggingarráðs um beitingu dagsekta í samræmi við VI. kafla skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Skipulags- og byggingarfulltrúi vísar erindinu til skipulags- og byggingarráðs með eftirfarandi tillögu:  „Skipulags- og byggingarráð bendir á að ekki er samþykkt íbúð í húsinu, sem er á athafnasvæði.  Íbúðin er því ólögleg og ber að rýma hana án tafar.  Verði það ekki gert innan fjögurra vikna mun skipulags- og byggingarráð gera tillögu til bæjarstjórnar um beitingu dagsekta í samræmi við VI. kafla skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.““

Á fundi skipulags- og byggingarráðs 7.  júlí 2009 var framangreint staðfest og tilkynnt kærendum með bréfi, dags. 8. s.m.  Á fundi bæjarráðs 9. júlí s.á. var fundargerðin lögð fram til kynningar. 

Með bréfi fostöðumanns úrskurðarnefndarinnar til Hafnarfjarðarbæjar, dags. 3. september 2009, var óskað upplýsinga um hvort kærendur hafi í skrám á vegum bæjarins, svo sem íbúaskrám og kjörskrám, verið taldir til heimilis að Flatahrauni 29 og hafi svo verið frá hvaða tíma.  Með bréfi Hafnarfjarðarbæjar, dags. 3. október s.á., var greint frá því að annar kærenda hafi verið skráður til heimilis að Flatahrauni 29 frá 8. júní 1993 og hinn frá 14. maí 1999.  Bæði hafi þau verið á kjörskrá vegna Alþingiskosninga 2007 með heimili að Flatahrauni 29. 

Framangreindum afgreiðslum skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar svo sem að ofan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að þau séu bæði skráð til heimilis í íbúðum sínum og hafi verið skráð þar lengst þeirra er búið hafi í hverfinu.  Það hafi þau ásamt börnum sínum gert með samþykki bæjaryfirvalda.  Í engu hafi þau því brotið gegn ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. 

Þá bendi kærendur á að í hinni kærðu synjun frá 24. mars 2009 sé vísað til 2. mgr. gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð en þó sé ekki tekið tillit til þess að í ákvæðinu komi fram að unnt sé að gera ráð fyrir íbúðum á athafnasvæðum svo sem fyrir húsverði. 

Kærendur hafi átt í deilum við bæjaryfirvöld í meira en 10 ár og hafi fengið hluta fasteignagjalda vegna beggja íbúðanna endurgreiddan. 

Samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 skuli eignir vera rétt skráðar í samræmi við notkun og eigi álagning fasteignagjalda að taka mið af því.  Það sé hlutverk Fasteignaskrár Íslands að kveða upp fullnaðarúrskurði í deilumálum sem þessu á stjórnsýslustigi. 

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er vísað til þess að mál þetta eigi sér nokkurn aðdraganda.  Árið 2004 hafi kærendum verið synjað um beiðni um skráningu rýmis í þeirra eigu sem húsvarðaríbúð með vísan til samþykktar bæjarstjórnar frá 1989 og laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. 

Með bréfi kærenda til bæjarstjóra, dags. 10. febrúar 2009, hafi þau m.a. farið fram á að skráning fasteignar þeirra skuli vera rétt.  Virðist það bréf ritað í framhaldi af því að bæjarlögmaður hafði fallist á að endurgreiða fasteignagjöld fjögur ár aftur í tímann vegna þess að nýting húsnæðis var ekki í samræmi við skráningu.  Hafi sú niðurstaða bæjarlögmanns verið byggð á dómi Hæstaréttar frá 5. október 2006, mál nr. 85/2006. 

Húsnæði það sem hér um ræði sé á ódeiliskipulögðu svæði og athafnasvæði samkvæmt aðalskipulagi. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er annars vegar deilt um synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 24. mars 2009 á beiðni um breytta skráningu hluta fasteignarinnar að Flatahrauni 29 í Hafnarfirði og hins vegar um bókun skipulags- og byggingarráðs frá 7. júlí 2009 um rýmingu íbúðar í húsinu. 

Í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna segir að ef óskað sé eftir að breyta fyrirliggjandi upplýsingum um fasteign skuli eigandi sækja um breytingu á skráningarupplýsingum um fasteign í fasteignaskrá hjá viðkomandi sveitarfélagi.  Í 19. gr. sömu laga segir jafnframt að viðkomandi sveitarstjórn sé ábyrg fyrir því að Fasteignaskrá Íslands berist upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim, svo og um öll mannvirki, sem gerð séu í umdæmum sveitarfélaganna hvers um sig, og um breytingar á þeim og eyðingu þeirra.  Skuli sveitarstjórn að jafnaði fela byggingarfulltrúa upplýsingagjöf um fyrrgreind atriði.  Verður að telja að á grundvelli þessara heimilda hafi kærendum verið rétt að snúa sér til bæjaryfirvalda með erindi um breytta skráningu eignarhluta sinna í Flatahrauni 29 svo sem þau gerðu.  Jafnframt verður að telja að þeim hafi verið heimilt að bera afgreiðslu bæjaryfirvalda undir úrskurðarnefndina þegar litið er til gr. 9.6 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og ákvæðis 29. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um skyldu sveitarstjórna til að halda landeignaskrár. 

Hin kærða synjun er studd þeim rökum að það samræmist ekki 2. mgr. gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að fallast á erindi kærenda, en eign þeirra sé á skilgreindu athafnasvæði þar sem almennt skuli ekki gera ráð fyrir íbúðum. 

Úrskurðarnefndin telur að tilgreind rök skipulags- og byggingaráðs séu ekki haldbær enda segir í tilvitnuðu ákvæði að á athafnasvæðum sé unnt að gera ráð fyrir íbúðum tengdri starfsemi fyrirtækja, s.s. fyrir húsverði.  Verður því ekki talið að fullnægt hafi verið skilyrði 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga um rökstuðning og verður hin kærða synjun því felld úr gildi.  Er þá ekki tekin afstaða til þess hvort unnt hefði verið að fallast á erindi kærenda án undangengins byggingarleyfis og samþykkis meðeigenda. 

Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er það á valdsviði sveitarstjórnar að ákveða dagsektir til að knýja fram fyrirmæli byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar.  Í máli þessu liggur aðeins fyrir tillaga skipulags- og byggingarráðs til bæjarstjórnar um að beita dagsektum að ákveðnum tíma liðnum.  Hins vegar liggur ekki fyrir að bæjarstjórn hafi tekið ákvörðun um dagsektir í málinu og breytir þar engu um þótt fundgerð ráðsins, þar sem umrædd tillaga er gerð, hafi verið lögð fram til kynningar á fundi bæjarstjórnar.  Var tillaga skipulags- og byggingarráðs ekki lokaákvörðun í málinu og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður þeim þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og byggingarráðs frá 24. mars 2009 varðandi beiðni um breytta skráningu fasteignarinnar að Flatahrauni 29 í Hafnarfirði er felld úr gildi. 

Kæru á bókun skipulags- og byggingarráðs frá 7. júlí 2009 um rýmingu íbúðar í húsinu að Flatahrauni 29 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________     _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                           Aðalheiður Jóhannsdóttir