Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

10/2010 Stóra Knarrarnes

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 10/2010, kæra vegna dráttar á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á spildu úr landi Stóra Knarrarness II í Vogum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. mars 2010, er barst nefndinni 3. s.m., framsendi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kæru P, Stóra Knarrarnesi, Vogum, dags. 10. febrúar 2010, þar sem kærður er dráttur á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á spildu úr landi Stóra Knarrarness II.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að lagt verði fyrir bæjarstjórn að taka fyrrgreint erindi kæranda til efnislegrar afgreiðslu. 

Málsatvik og rök:  Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga hinn 12. janúar 2009 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi til byggingar einbýlishúss á spildu úr landi Stóra Knarrarness II.  Var umsókninni hafnað með þeim rökum að ekki lægi fyrir deiliskipulag að svæðinu og að gera þyrfti deiliskipulag í samræmi við aðalskipulag og lög nr. 73/1997 áður en hægt yrði að veita leyfið.  Með tölvupósti, dags. 16. janúar s.á., fór kærandi m.a. fram á að mál hans yrði tekið upp að nýju og á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 10. febrúar s.á. var fyrri afgreiðsla málsins ítrekuð.  Enn óskaði kærandi eftir því með bréfi, dags. 8. mars 2009, að umsókn hans yrði á ný tekin fyrir og að fram færi grenndarkynning vegna fyrirhugaðrar byggingar.  Umsókn hans var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 17. s.m, og fyrri afgreiðsla nefndarinnar ítrekuð.  Jafnframt var á það bent að ákvæði 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 um grenndarkynningu, ætti ekki við um umsókn kæranda þar sem ekki væri um að ræða þegar byggt hverfi.

Hinn 21. apríl 2009 var á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar tekin fyrir tillaga kæranda að deiliskipulagi spildu úr landi Stóra Knarrarness II og því beint til landeigenda að óska formlega eftir samstarfi við sveitarfélagið um gerð tillögunnar.  Var og samþykkt að auglýsa tillöguna að teknu tilliti til ákveðinna atriða sem nánar voru tilgreind í bókun.  Í kjölfar þessa fór kærandi fram á með bréfi, dags. 28. apríl 2009, að tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis yrði auglýst og á fundi bæjarstjórnar hinn 30. s.m. var samþykkt að hefja samstarf við landeiganda um gerð og auglýsingu deiliskipulags að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, þ.á m. að samþykkt yrði tillaga að nýju Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga 2008-2028 og að deiliskipulagstillagan yrði auglýst samtímis á grundvelli hennar.  Nokkrum mánuðum síðar, eða hinn 15. október 2009, var málið tekið fyrir á fundi bæjarráðs, en þá lá þar fyrir bréf frá kæranda, dags. 1. s.m., þar sem gerðar voru athugasemdir við afgreiðslu málsins.   Bæjarráð lagði síðan til á fundi sínum hinn 5. nóvember s.á. að tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis yrði auglýst.  Að lokinni auglýsingu samþykkti bæjarstjórn skipulagstillöguna hinn 23. mars 2010.

Kærandi bendir á að hægt hefði verið að gefa út byggingarleyfi á grundvelli 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997 í ársbyrjun 2009.  Meðferð málsins hafi tekið 14 mánuði og sjái ekki þar fyrir endann á henni.  Telji kærandi að brotið hafi verið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga, s.s. andmælarétti, upplýsingaskyldu, jafnræðisreglu, rannsóknarreglu, málshraða og leiðbeiningarskyldu.  Hafi seinagangur  við meðferð málsins einnig haft í för með sér verulega aukinn kostnað fyrir kæranda.  Þá sé sveitarfélagið ekki að vinna með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi.   

Af hálfu Sveitarfélagsins Voga er vísað til þess að kærandi hafi sótt um leyfi fyrir byggingu íbúðarhúss á svæði sem skilgreint hafi verið sem frístundasvæði í þágildandi aðalskipulagi.  Í ljósi þess hafi verið nauðsynlegt að breyta landnotkun á viðkomandi reit í aðalskipulagi svo hægt væri að gera deiliskipulag að reitnum og veita byggingarleyfi í kjölfarið.  Hafi breyting þess efnis verið gerð í nýju Aðalskipulagi  Sveitarfélagsins Voga 2008-2028, sem hafi verið í vinnslu hjá sveitarfélaginu þegar erindi kæranda hafi borist.  Hafi tillaga að nýju aðalskipulagi endanlega verið samþykkt í bæjarstjórn hinn 26. nóvember 2009 og staðfest af umhverfisráðherra 23. febrúar 2010.  Í ljósi þessa sé því hafnað að afgreiðsla byggingarleyfis til handa kæranda hafi dregist úr hófi en alltaf hafi staðið til að veita umsótt leyfi í framhaldi af gildistöku auglýstra skipulagsáætlana.  Vandséð sé að kærandi hafi hagsmuna að gæta í máli þessu eins og atvikum sé háttað og sé því farið fram á að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.  Er í máli þessu kærður dráttur á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi  fyrir einbýlishúsi á spildu úr landi Stóra Knarrarness II í Vogum.  Þegar umsókn kæranda kom fyrst fram í desember 2008 var í gildi fyrir umrætt svæði Aðalskipulag Vatnsleysustrandarhrepps 1994-2014 og var þar ekki gert ráð fyrir að byggja mætti íbúðarhús á svæðinu, en það var skilgreint sem frístundasvæði.  Hefði af þessum sökum hvorki verið unnt að veita byggingarleyfi á umræddum stað fyrir íbúðarhúsi að undangenginni grenndarkynningu né með heimild Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæða þágildandi skipulags- og byggingarlaga, enda hefði það leyfi farið í bága við gildandi aðalskipulag.

Fyrir liggur að eftir að kæra barst í máli þessu tók gildi nýtt Aðalskipulag Sveitarfélagsins Voga 2008-2028, eftir staðfestingu ráðherra hinn 23. febrúar 2010.  Var þar m.a. breytt landnotkun fyrir umræddan reit þannig að þar væri unnt að reisa íbúðarhús og á grundvelli þess var samþykkt deiliskipulag íbúðarlóðar í landi Stóra Knarrarness II, sbr. auglýsingu þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 7. maí 2010.  Þá hefur verið upplýst að 16. júní 2010 var kæranda veitt byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á umræddu landi.  Hefur það ekki lengur þýðingu að lögum að úrskurða um drátt á afgreiðslu umsóknar kæranda um byggingarleyfi sem honum hefur þegar verið veitt og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. Þá var þess einnig vænst að mál þetta yrði afturkallað eftir að umrætt byggingarleyfi hafði verið veitt, en til þess hefur ekki komið.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

26/2012 Láland

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 23. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2012, kæra vegna framkvæmda fyrir framan lóðina nr. 14 við Láland í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. apríl 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Ó, Lálandi 14, Reykjavík, framkvæmdir fyrir framan lóðina nr. 14 við Láland. 

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að umdeildar framkvæmdir verði úrskurðaðar ólögmætar.  Þá krefst hann þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Með hliðsjón af því sem þegar liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. 

Málsatvik og rök:  Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 18. júní 2009 var samþykkt tillaga að nýju deiliskipulagi Fossvogsdals sem tók til legu á göngu- og hjólreiðastígum sem tengja saman Öskjuhlíð og Elliðaárdal.  Í skilmálum deiliskipu¬lagsins segir m.a. að meðfram göngustígnum sé gert ráð fyrir áningarstöðum annars vegar minni, þar sem verði bekkir og hins vegar stærri sem verði hannaðir m.t.t. aðstæðna á hverjum stað.  Staðsetning áningarstaðanna og afmörkun sé til skýringar og því ekki bindandi fyrir endanlega útfærslu.  Á skipulagsuppdrætti er sýndur áningarstaður af stærri gerð fyrir framan lóð kæranda að Lálandi 14.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 11. ágúst 2009.

Snemma á árinu 2012 virðist hafa verið ráðist í framkvæmdir við frágang áningarstaðar fyrir framan lóð kæranda.  Þar liggja tveir stígar, nokkurn veginn samsíða, og eru um það bil 5-6 metrar á milli þeirra þar sem umræddur áningarstaður er.  Hellulagt svæði er við stíg þann sem er nær lóð kæranda, en nokkur tæki eru á svæðinu milli stíganna, nokkru fjær lóðinni en hellulagða svæðið.

Kærandi vísar til þess að þegar hann hafi grennslast fyrir um umfang framkvæmda í Fossvogi hafi skýringarmynd að mannvirkjum sem staðsett hafi verið við enda fyrirhugaðs hjólreiðastígs ekki gefið til kynna að umfang þeirra yrði í raun það sem síðar hafi komið í ljós.  Á fundi með verkefnastjóra og deildarstjóra hjá Reykjavíkurborg hafi fyrst komið fram skýring á því hversu umfangsmikil framkvæmdin yrði.  Þá hafi framkvæmdum verið harðlega mótmælt með ítarlegum rökstuðningi.  Í kjölfarið hafi verkefnastjóri óskað eftir því að mótmæli og rök yrðu send í tölvupósti til formlegrar meðhöndlunar.  Hinn 23. mars 2012 hafi komið svar frá verkefnastjóra þar sem niðurstaða fundar með skipulagsyfirvöldum hafi verið sú að framkvæmd við áningarstað og hönnun samræmdist deiliskipulagi að öllu leyti. 

Kærandi telji að með framkvæmdunum sé augljóslega verið að rýra verðmæti eignarinnar að Lálandi 14 og valda honum verulegu tjóni.  Því sé kærð uppbygging á líkamsræktaraðstöðu með margvíslegum líkamsræktartækjum fyrir framan lóðina að Lálandi 14 þar sem einungis hafi verið gert ráð fyrir áningarstöð í samþykktu deiliskipulagi.  Einnig sé kært hversu nálægt áningarstöðin sé lóð kæranda, um 3 metrar, og valdi þannig eignartjóni.  Hvergi séu fordæmi fyrir áningarstöð svo nálægt einkalóð í Fossvogi. 

Reykjavíkurborg bendir á að ákveðið hafi verið að koma upp nokkrum æfingatækjum á umræddum áningarstað eins og víðar sé að finna á hliðstæðum áningarstöðum.  Það sé hins vegar ofmælt að um líkamsræktaraðstöðu sé að ræða.  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda verði kunnugt eða hafi mátt vera kunnugt um ákvörðun þá sem hann hyggist kæra.  Umrætt deiliskipulag hafi verið auglýst í ágúst 2009 og sé kærufrestur því löngu liðinn nú tæpum þremur árum síðar.  Að auki megi geta þess að ekkert byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir líkamsræktartækjum á umræddri áningarstöð enda, séu þau ekki byggingarleyfisskyld.  Í raun liggi því engin kæranleg ákvörðun fyrir í málinu og sé þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið vísa borgaryfirvöld til deiliskipulags fyrir Fossvogsdal, sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 11. ágúst 2009.  Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar er frá birtingu umræddrar auglýsingar og er hann löngu liðinn.  Kemur umrætt skipulag því ekki til endurskoðunar í málinu.
  
Ekki verður annað séð en að umdeildar framkvæmdir séu í samræmi við tilvitnað deiliskipulag.  Það liggur hins vegar fyrir að ekki hefur verið veitt leyfi fyrir framkvæmdunum samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010 og halda borgaryfirvöld því fram að ekki sé um leyfisskyldar framkvæmdir að ræða.  Því liggur ekki fyrir kæranleg ákvörðun í málinu og verður því af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.  Engin afstaða er hins vegar tekin í úrskurði þessum til þess hvort um leyfisskylda framkvæmd sé að ræða.  

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                    Hildigunnur Haraldsdóttir

12/2009 Kirkjuteigur

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 12/2009, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. október 2008 um breytt deiliskipulag Teigahverfis vegna lóðarinnar nr. 21 við Kirkjuteig í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. febrúar 2009, er barst nefndinni 16. s.m., kærir Leó E. Löve hrl., f.h. A, lóðarhafa að Hraunteigi 16, Reykjavík, samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. október 2008 um breytt deiliskipulag Teigahverfis vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig.  Auglýsing um gildistöku breytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2009. 

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúans í Reykjavík hinn 20. júní 2008 var lögð fram umsókn um deiliskipulagsbreytingu vegna lóðar nr. 21 við Kirkjuteig.  Í breytingunni var m.a. gert ráð fyrir að verslunar- og þjónustuhúsnæði yrði breytt í íbúðarhúsnæði með fjórum íbúðum.  Heimilt yrði að breyta núverandi byggingu þannig að hún yrði að hluta til þrjár hæðir.  Byggja mætti tveggja hæða viðbyggingu meðfram Gullteigi, en samkvæmt gildandi skipulagi væri gert ráð fyrir viðbyggingu með kjallara og einni hæð.  Þak yrði lágreist og nýta mætti það sem svalir að hluta.  Myndi þakið, og einstakir aðrir byggingarhlutar, fara að hluta út fyrir byggingarreit.  Skipulagsfulltrúi samþykkti að grenndarkynna framlagða tillögu og bárust athugasemdir, m.a. frá kæranda. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 8. október 2008.  Lögð voru fram drög að umsögn skipulagsstjóra, dags. 1. október s.á, þar sem mælt var með því að tillögunni yrði breytt þannig að byggingarreitur viðbyggingar yrði dreginn 40 cm til baka, að ráðgerð hámarkshæð núverandi húss yrði 9,5 m og að ráðgerð hámarkshæð viðbyggingar yrði minnkuð og færi ekki upp fyrir 6,7 m.  Skipulagsráð samþykkti deiliskipulagsbreytinguna með eftirfarandi bókun:  ,,Samþykkt með vísan til a-liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð, með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsstjóra.“ 

Með bréfi, dags. 9. janúar 2009, gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda, þar sem stofnunin teldi breytinguna svo umfangsmikla að hún félli undir 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Með bréfi skipulagsstjóra Reykjavíkurborgar til Skipulagstofnunar, dags. 16. janúar 2009, var því hafnað að breytingin teldist umfangsmikil þar sem umhverfisleg áhrif hennar næðu einungis til nánasta nágrennis lóðarinnar.  Væri hagsmuna næstu nágranna best gætt með málsmeðferð í samræmi við 2. mgr. 26. gr. nefndra laga. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hækkun og stækkun hússins að Kirkjuteigi 21 muni draga úr birtu að Hraunteigi 16.  Í umsögn skipulagsstjóra komi fram að athugaðir hafi verið skuggar fyrst og fremst við jafndægur og sólstöður og því hafi aðeins verið litið til bjartasta tíma ársins.  Sé þetta ófullnægjandi þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir muni skerða birtu við Hraunteig 16 allan ársins hring.  Á það skuli bent að birta sé mikilvægur þáttur í eðlilegu lífi og hafi áhrif á heilsu manna.  Skert birta sé því óæskileg á öllum árstímum og rýri gæði ásamt verðgildi húseignar kæranda.  Kassalaga ,,penthouse“ á Kirkjuteigi 21 muni auk þess skera sig úr og verða lýti á götumyndinni.  Viðbótarbygging niður með Gullteigi, sunnan Hraunteigs 16, muni stinga mjög í stúf við umhverfið og skapa ,,blokkarstíl“ á horni Gullteigs og Kirkjuteigs, sem sé algjörlega í ósamræmi við heildarmynd hverfisins.  Þá sé mótmælt þeirri aukningu á byggingarmagni að Kirkjuteigi 21 sem felist í tillögunni, en þar sé um að ræða aukningu um 16,5%  frá gildandi deiliskipulagi.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að hafnað verði kröfum kæranda og að ákvörðun skipulagsráðs verði staðfest. 

Deiliskipulagið sem hafi verið í gildi fyrir lóðina hafi almennt heimilað að nýtingarhlutfall fyrir lóðir sambýlishúsa með 2-5 íbúðum væri 0,5-0,8.  Á umræddri lóð hafi viðbyggingarreitur verið til staðar í deiliskipulaginu og hafi byggingarmagn innan hans, að viðbættu núverandi byggingarmagni, reiknast til nýtingarhlutfalls 0,85 og hafi það verið heimil nýting á lóðinni.  Götureiturinn sem húsið sé hluti af samanstandi af 15 húsum.  Við skoðun götureitsins hafi komið í ljós að íbúafjöldi hafi verið á bilinu 1-6 og að í flestum húsanna, eða 12 húsum, hafi verið 3-4 íbúðir.  Nýtingarhlutfall lóða á svæðinu hafi verið á bilinu 0,42-0,81.  Tillagan sem samþykkt hafi verið hafi gert ráð fyrir nýtingarhlutfallinu 0,99 fyrir lóðina Kirkjuteig 21.  Hafi hækkun á nýtingu um 0,14 þótt ásættanleg á hornlóð sem þessari, enda hafi gildandi deiliskipulag miðað að hærri nýtingu á henni en lóðunum umhverfis. 

Þegar horft sé á áhrif skuggavarps í þéttbýli sé fyrst og fremst skoðað hvernig skuggar falli á vor- og haustjafndægri, sem sé 20. mars og 22. september, og við sumarsólstöður, sem séu 20. júní.  Yfir vetrartímann, þegar fólk sé almennt ekki að njóta útivistar í görðum sínum, sé dagurinn það stuttur og sólin það lágt á lofti að áhrif skuggavarps séu ekki talin skipta jafn miklu máli varðandi umhverfisgæði.  Samkvæmt skýringarmyndum sem hafi verið unnar verði breyting á skuggavarpi á lóð Hraunteigs nr. 16 ekki merkjanleg við sumarsólstöður.  Þau séu hins vegar nokkur um miðjan daginn, á jafndægri að vori og hausti.  Sama gildi um Hraunteig 18 við sumarsólstöður en aukist þar nokkuð um eftirmiðdaginn.  Kirkjuteigur 23 verði ekki fyrir auknu skuggavarpi vegna breytingarinnar.  Skuggi sé í engu tilfelli að falla á húshliðar á þessum tímum.  Breyting hússins sé talin hafa óveruleg áhrif á skuggavarp á umræddum lóðum.  Engu að síður hafi tillögunni verið breytt til að draga úr þeim áhrifum sem til staðar hafi verið. 

Ekki sé fallist á að byggingin verði lýti á götumynd eða stingi í stúf við umhverfið.  Á húsunum við Kirkjuteig séu almennt rishæðir, sem gnæfi yfir Kirkjuteig 21, og við Gullteig standi frekar stór íbúðarhús.  Það sé mat Reykjavíkurborgar að eftir breytinguna muni Kirkjuteigur 21 falla mun betur inn í heildarmyndina en áður, jafnvel þótt viðbyggingin verði tveggja hæða. 

Það sé eðli borga að þær geti tekið breytingum og séu í stöðugri þróun.  Því verði eigendur húsa þar að gera ráð fyrir að óbreytt útsýni og sólarljós sé sjálfgefið í þéttri byggð og geti ávallt tekið breytingum í uppbyggingu hverfa og við þéttingu byggðar.  Það sé aftur á móti hlutverk skipulagsyfirvalda að tryggja hagsmuni allrar heildarinnar og að aldrei sé svo langt gengið á eignir borgaranna að um óþolandi skerðingu á gæðum eða verðrýrnun á eignum verði að ræða vegna framkvæmda á annarri eign. 

Bent skuli á ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 telji aðilar sig verða fyrir tjóni vegna tillögunnar. 

————————————

Lóðarhöfum Kirkjuteigs 21 var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í máli þessu en engar athugasemdir eða andmæli hafa borist frá þeim. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Teigahverfis, sem er frá árinu 2002, en umdeild breyting tekur einungis til lóðarinnar nr. 21 við Kirkjuteig.  Borgaryfirvöld kusu að fara með breytinguna eins og um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða og var hún því grenndarkynnt með vísan til undantekningarákvæðis 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en þau lög sem eiga við í málinu.  Við mat á því hvort um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi verður m.a. að líta til umfangs hennar, í þessu tilviki umfangs þeirrar byggingar sem breytingin lýtur að miðað við þær byggingar sem fyrir eru á umræddri lóð eða svæði, hvernig sú bygging falli að byggðamynstri og hver grenndaráhrif hennar séu.

Í gildandi deiliskipulagi Teigahverfis segir að viðmiðunarnýtingarhlutfall í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 gildi í hverfinu og sé viðmið fyrir sambýlishús með 2-5 íbúðir 0,5-0,8.  Nýtingarhlutfall margra lóða sé yfir þessu viðmiði og eigi það sérstaklega við um lóðir sem séu minni en skipulagið geri ekki ráð fyrir breytingum á þeim til lækkunar.  Nýtingarhlutfall hverfisins sé að meðaltali um 0,5.  Samkvæmt fasteignaskrá er stærð lóðarinnar nr. 21 við Kirkjuteig 857,2 m² og í gögnum málsins kemur fram að núverandi byggingarmagn sé samkvæmt uppmælingu 503,1 m².  Með breytingartillögunni er gert ráð fyrir að byggingarmagn í heild verði 850 m² og að húsið stækki því um 346,9 m².  Nýtingarhlutfall lóðarinnar verður með breytingunni 0,99, sem er 20% aukning frá gildandi skipulagi sem fyrir var yfir hámarki samkvæmt almennu viðmiði þess.  Nauðsyn þess að breyta verslunarhúsnæði í fjórar íbúðir er sögð vera ástæða breytingarinnar. 

Deiliskipulag sem tekið hefur gildi er bindandi fyrir stjórnvöld og borgara, sbr. 2. mgr. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Í skipulagðri byggð verða borgarar að geta treyst því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi nema að nauðsyn beri til.  Verður að gjalda varhug við því, m.a. með tilliti til fordæmisgildis, að ráðist sé í breytingar á deiliskipulagi eftir óskum einstakra lóðarhafa, enda getur það raskað hagsmunum annarra lóðarhafa og dregið úr þeirri festu er deiliskipulagi er ætlað að skapa.  Eiga þessi sjónarmið við þótt breyting á skipulagi hafi ekki veruleg grenndaráhrif. 

Þegar litið er til þess að með hinni umdeildu ákvörðun var notkun umræddrar lóðar breytt og hámarksnýtingarhlutfall aukið talsvert verður ekki fallist á að aðeins hafi verið um óverulega breytingu að ræða.  Er hvort tveggja, stærð húss og nýtingarhlutfall á lóðinni samkvæmt hinni kærðu tillögu, verulega meira en það sem almennt gerist í hverfinu.  Breytingin skerðir jafnframt grenndarhagsmuni kæranda þar sem einhver aukin skuggamyndun verður samfara stækkun hússins er stendur sunnan megin við lóð kæranda.  Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið heimilt að fara með málið eftir ákvæði 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Var undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar því ekki reistur á réttum lagagrundvelli og verður hún því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Fell er úr gildi ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. október 2008, um breytt deiliskipulag Teigahverfis er varðar lóðina nr. 21 við Kirkjuteig.

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

3/2012 Draupnisgata

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 23. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt. 

Fyrir var tekið mál nr. 3/2012, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 9. nóvember 2011 á erindi kæranda varðandi breytta notkun húsnæðis að Draupnisgötu 7n á Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. janúar 2012, sem barst nefndinni sama dag, kærir Í ehf. afgreiðslu skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 9. nóvember 2011 á erindi þess varðandi breytta notkun húsnæðis að Draupnisgötu 7n á Akureyri.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Með bréfi, dags. 27. október 2011, óskaði kærandi, sem rekur þjónustu við meðhöndlun og úrvinnslu úrgangs, eftir áliti skipulagsnefndar Akureyrarbæjar á breyttri notkun húsnæðis að Draupnisgötu 7n á Akureyri.  Mun tilefni erindisins hafa verið umsókn kæranda til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra um starfsleyfi fyrir rekstri hans í fyrrgreindu húsnæði.  Í húsnæðinu mun hafa verið fyrirhugað að umhlaða sorpi og endurvinnsluhráefnum í gáma til flutnings.  Skipulagsnefnd tók erindið fyrir á fundi hinn 9. nóvember 2011 og afgreiddi það með svofelldri bókun:  „Vísað er til 41. gr. 5. tl. A stafliðar með vísun í 27. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Í greininni kemur fram að breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi eru háðar samþykki allra eigenda hússins, ef þær hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum. Skipulagsnefnd telur að breytingar sem þessar á hagnýtingu séreignarinnar séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Skipulagsnefnd hafnar því erindinu þar sem einungis 8 eigendur séreignarhluta af 19 hafa samþykkt breytingu.“ 

Kærandi krafðist rökstuðnings fyrir bókun skipulagsnefndar í bréfi, dags. 24. nóvember 2011, og var því erindi svarað með bréfi bæjarlögmanns, dags. 14. desember s.á.  Skaut kærandi málinu síðan til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Kærandi vísar til þess að rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt, en um matskennda og íþyngjandi ákvörðun hafi verið að ræða.  Umrætt húsnæði hafi verið nýtt fyrir verktakastarfsemi og bifvélaverkstæði og veki því furðu að krafist sé samþykkis allra meðeigenda fyrir nýtingu séreignarhlutans undir sambærilega verktakastarfsemi.  Fyrir liggi að lyktarmengun verði í lágmarki og eigi staðhæfingar bæjarlögmanns í aðra átt ekki við rök að styðjast. 

Af hálfu Akureyrarbæjar er gerð krafa um að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að ógildingarkröfu kæranda verði hafnað.  Er á það bent að umdeild afgreiðsla skipulagsnefndar hafi falið í sér álit en ekki ákvörðun og hafi snúist um túlkun laga um fjöleignarhús, en úrskurðarnefndin skeri ekki úr um ágreining er varði þau lög.  Hvað efnishlið málsins varði hafi skipulagsnefnd byggt álit sitt á túlkun fjöleignarhúsalaga og að fyrirhuguð hagnýting kæranda á húsnæðinu að Draupnisgötu 7n gæti haft í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur séreignarhluta í húsinu en áður og þyrfti því að liggja fyrir samþykki allra eigenda fjöleignarhússins fyrir hinni breyttu notkun svo bæjaryfirvöldum væri heimilt að samþykkja hana. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð afgreiðsla skipulagsnefndar Akureyrarbæjar á erindi kæranda sem fól í sér beiðni um álit nefndarinnar á fyrirhugaðri breyttri notkun húsnæðis að Draupnisgötu 7n á Akureyri. 

Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem hér á við sættu kæru til úrskurðarnefndarinnar stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga og var sú regla í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds.  Breytt notkun fasteignar er háð byggingarleyfi sem byggingarfulltrúi tekur ákvörðun um, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Af framangreindum ástæðum felur hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar ekki í sér ákvörðun sem bindur enda á mál og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.  

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Hildigunnur Haraldsdóttir 

31/2011 Kúrland

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 2. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2011, kæra á samþykki byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. mars 2011 fyrir setlaug í bakgarði fasteignarinnar við Kúrland 27 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. maí 2011, er barst nefndinni 4. s.m., kærir Þórhallur H. Þorvaldsson hdl., fyrir hönd E og K, Kúrlandi 25, Reykjavík, samþykki byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. mars 2011 fyrir setlaug í bakgarði fasteignarinnar við Kúrland 27.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að hlutast til um að setlaugin verði fjarlægð.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að í maímánuði 2010 hugðist byggingarleyfishafi koma fyrir setlaug á trépalli í bakgarði raðhússins að Kúrlandi 27.  Með bréfi, dags. 7. desember 2010, synjaði byggingarfulltrúi um leyfi fyrir setlauginni með vísan til þess að ekki lægi fyrir samþykki sameiganda lóðar fyrir byggingu laugarinnar.  Synjun byggingarfulltrúa var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem felldi hana úr gildi þar sem rök að baki ákvörðuninni þóttu ekki haldbær.  Í kjölfar þess leitaði byggingarleyfishafi í annað sinn eftir samþykki fyrir nefndum framkvæmdum og var umsóknin samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 29. mars 2011.  Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að við meðferð umræddrar byggingarleyfisumsóknar um uppsetningu setlaugar hafi ekki verið gætt málsmeðferðarreglna III. kafla mannvirkjalaga nr. 160/2010, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem ekki hafi verið látin fara fram grenndarkynning til að nágrönnum gæfist kostur á að koma á framfæri athugasemdum.  Eigi sá annmarki að leiða til þess að fella beri umrætt byggingarleyfi úr gildi og að byggingaryfirvöld hlutist til um að heimilað mannvirki verði fjarlægt í samræmi við 55. gr. mannvirkjalaga.  Ráðist hafi verið í hinar umdeildu framkvæmdir án þess að áður hafi verið gefið út gilt byggingarleyfi fyrir þeim í samræmi við ákvæði laganna, sbr. og ákvæði skipulagslaga, en framkvæmdum hafi að mestu eða öllu leyti verið lokið áður en um þær hafi verið sótt.  Hafi byggingaryfirvöldum því borið að stöðva þá þegar framkvæmdir í samræmi við 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga.

Krafan um ógildingu byggingarleyfis sé byggð á sjónarmiðum nábýlisréttar.  Ljóst sé að umræddar framkvæmdir hafi í för með sér verulegt ónæði og jafnframt röskun og óþægindi fyrir kærendur.  Heimiluð setlaug sé staðsett nyrst á baklóð lóðarinnar við Kúrland 27 og sé því í beinni sjónlínu frá norðurgluggum fasteignar kærenda og í raun blasi hún við úr setustofu.  Staðsetning laugarinnar sé þannig óviðunandi enda verði með engu móti séð að fasteignareigendum verði gert að hafa slíkt mannvirki fyrir augum.  Staðsetningin hafi bæði sjón- og hljóðmengun í för með sér.  Þá sé staðsetning og notkun setlaugarinnar til þess fallin að særa blygðunarkennd kærenda og þeirra sem sæki þá heim og skerði í raun athafnafrelsi þeirra.  Kærendur eigi augljósra hagsmuna að gæta í þessu efni og við slíkt hagsmunamat verði m.a. að horfa til sjónarmiða um meðalhóf og þá sérstaklega að byggingarleyfishöfum hafi verið í lófa lagið að velja setlauginni annan stað á lóð sinni, t.d. undir húsvegg fasteignar þeirra. 

Hafa verði í huga að kærendur hafa búið í þrjá áratugi að Kúrlandi 25 og teljist því umræddar framkvæmdir veruleg breyting á nágrenni þeirra og útsýni.  Leggja beri þær kvaðir á fasteignareigendur að þeir hagi framkvæmdum með þeim hætti að þess sé gætt eftir fremsta megni að þær skerði ekki hagsmuni eða not þeirra fasteignareigenda sem fyrir séu.  Vísað sé til almennra sjónarmiða nábýlisréttar og til sjónarmiða 3. tl. 13. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, en umrætt raðhús teljist vera fjöleignarhús í skilningi laganna.  Í lögunum séu lagðar þær skyldur á eiganda fasteignar í fjöleignarhúsi að hann taki eðlilegt og sanngjarnt tillit til hagsmuna annarra eigenda við hagnýtingu séreignar sinnar, en einkaréttur eiganda í fjöleignarhúsi sé m.a. háður reglum nábýlisréttar, sbr. 12. gr. laganna. 

Loks sé bent á að umræddar framkvæmdir séu líklegar til að draga úr verðgildi fasteignar kærenda með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafar krefjast þess að kæru á veittu byggingarleyfi byggingarfulltrúa verði vísað frá nefndinni. 

Hafnað sé þeirri fullyrðingu kærenda að 44. gr. skipulagslaga eigi ekki við í málinu líkt og kærendur haldi fram enda sé í gildi deiliskipulag frá árinu 1968 fyrir raðhúsahverfi í Fossvogi, nánar tiltekið á því svæði þar sem umræddar raðhúsalóðir séu staðsettar.  Þá muni bygging setlaugar á sérgreindum lóðarhluta byggingarleyfishafa ekki hafa í för með sér verulegar breytingar á deiliskipulagi fyrir raðhúsahverfið í Fossvogi.  Skipulagsnefnd hafi því ekki verið skylt að láta fara fram grenndarkynningu. 

Fyrir liggi útgefið leyfi byggingarfulltrúans frá 29. mars 2011 fyrir byggingu setlaugarinnar.  Því sé hafnað að hægt sé að beita ákvæði 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga, líkt og kærendur byggi kröfu sína á, með þeim hætti að það taki til tilvika þar sem leyfi hafi þegar verið gefið út fyrir framkvæmd.  Ef ákvæðinu væri beitt á þann hátt myndi það leiða til að stöðva yrði umræddar framkvæmdir og fjarlægja laugina eingöngu í þeim tilgangi að geta hafið framkvæmdir að nýju.  Þá sé ljóst af orðalagi ákvæðisins að því sé ætlað að taka til mannvirkja í skilningi umræddra laga.  Í 3. gr. sé hugtakið mannvirki skilgreint og þrátt fyrir að ákvæðið feli ekki í sér tæmandi talningu sé ljóst að setlaug verði ekki skilgreind sem mannvirki en í ákvæðinu séu í dæmaskyni nefnd mannvirki á borð við hús, byggingar og skýli. 

Því sé hafnað að setlaugin hafi í för með sér sjón- og hljóðmengun eða særi blygðunarsemi kærenda.  Setlaugin sé staðsett á lóðarhluta á baklóð byggingarleyfishafa.  Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins og lóðarleigusamningi ásamt lóðarblaði sé ljóst að raðhúsi nr. 27 fylgi garður sem sé sérstakur lóðarhluti.  Kærendur geti því ekki tekið sér það vald að ákveða hvar setlaugin sé staðsett, þrátt fyrir að hún kunni að sjást úr einum glugga raðhússins nr. 25. 

Þá liggi loks fyrir að umrætt mál hafi áður hlotið lögmæta afgreiðslu byggingarfulltrúa, sem og úrskurðarnefndar, sem komist hafi að þeirri niðurstöðu að byggingarleyfishafa væri ekki skylt að afla samþykkis annarra rétthafa þeirrar sameiginlegu lóðar sem hér um ræði til framkvæmda á sérgreindum lóðarhluta þar sem setlaugin sé staðsett. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg byggir málsrök sín á því að með úrskurði hinn 4. mars 2011 hafi úrskurðarnefndin fellt úr gildi synjun byggingarfulltrúa frá 7. desember 2010 á umsókn um leyfi fyrir nefndum potti.  Hafi Reykjavíkurborg ekki séð sér annað fært í kjölfarið en að samþykkja leyfi fyrir umræddum potti.  Reykjavíkurborg muni af þeim sökum ekki láta málið frekar til sín taka fyrir úrskurðarnefndinni.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 21. nóvember 2011. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið felldi úrskurðarnefndin úr gildi synjun byggingarfulltrúa á umsókn um leyfi fyrir umdeildri setlaug þar sem rök byggingarfulltrúa fyrir synjuninni þóttu ekki haldbær.  Töldu borgaryfirvöld að í kjölfar þess úrskurðar væri þeim ekki annað fært en að veita leyfi fyrir setlauginni.  Gaf úrskurðurinn þó ekki tilefni til þeirrar ályktunar að byggingaryfirvöldum hefði verið skylt að veita leyfi fyrir setlauginni þótt hafnað hefði verið þeim rökum að veiting leyfisins væri háð samþykki eigenda húsanna nr. 23, 25 og 29 við Kúrland á grundvelli laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.  Þvert á móti bar borgaryfirvöldum að taka til athugunar réttarstöðu aðila miðað við þær forsendur að ekki væri um sameiginlega lóð að ræða. 

Byggingarleyfi þarf fyrir setlaugum, sbr. 69 gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem í gildi var er hin kærða ákvörðun var tekin og á við í þessu máli.  Við mat á því hvort veita ætti leyfi fyrir setlauginni bar að líta til staðsetningar hennar og þeirra áhrifa er hún kynni að hafa gagnvart lóð kærenda. 

Í 67. og 68 gr. tilvitnaðrar byggingarreglugerðar eru ákvæði um girðingar og gróður á lóðum og verður af þessum ákvæðum ráðið að lóðarhafar þurfi að vera sammála um girðingar og gróður á og við lóðamörk og að lóðarhafi eigi íhlutunarrétt um girðingar séu þær nær lóðamörkum en sem nemi hæð þeirra.  Setlaug sú sem um er deilt í málinu er á upphækkuðum palli sem nær að girðingu á lóðamörkum og er setlaugin staðsett alveg við girðinguna.  Þá verður að fallast á að setlaugin, á þeim stað sem henni var valinn, hafi veruleg grenndaráhrif gagnvart eign kærenda.  Er það mat úrskurðarnefndarinnar að með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem búi að baki ákvæða 67. og 68. gr. tilvitnaðrar byggingarreglugerðar og þeirra grenndaráhrifa, sem setlaugin hefur, hafi ekki verið rétt að veita leyfi fyrir henni á umræddum stað án samþykkis kærenda.  Styðst þessi niðurstaða einnig og við ákv. 4. mgr. gr. 4. 2. 2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, þar sem segir að við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skuli þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar. 

Með hliðsjón af framansögðu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi. 

Auk þess að krefjast ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar krefjast kærendur þess að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að hlutast til um að setlaugin verði fjarlægð í samræmi við fyrirmæli 55. gr. laga nr. 160/2010.  Er það ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að kveða á um beitingu slíkra þvingunarúrræða enda liggur ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun þar sem tekin hefur verið afstaða til slíkrar kröfu.  Verður þessari kröfu því vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavíkur frá 29. mars 2011, um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir setlaug í bakgarði fasteignarinnar nr. 27 við Kúrland.  Vísað er frá kröfu kærenda um að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að hlutast til um að setlaugin verði fjarlægð. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

6/2012 Réttindi byggingarstjóra

Með

Árið 2012, föstudaginn 13. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 6/2012, kæra á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 4. janúar 2012 um að synja umsókn um starfsleyfi byggingarstjóra vegna mannvirkja sem falla undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. febrúar 2012, er barst úrskurðarnefndinni hinn 8. s.m., kærir H húsasmíðameistari, Reykjavík, þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 4. janúar 2012 að hafna umsókn hans um útgáfu starfsleyfis byggingarstjóra vegna mannvirkja sem falla undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.  Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og er farið fram á að lagt verði fyrir Mannvirkjastofnun að veita hið umbeðna starfsleyfi. 

Málavextir:  Með umsókn til Mannvirkjastofnunar, dags. 21. nóvember 2011, sótti kærandi um starfsleyfi sem byggingarstjóri framkvæmda sem falla undir 1.-3. tl. 4. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.  Með bréfi Mannvirkjastofnunar, dags. 28. s.m., var kæranda tilkynnt að honum væri veitt starfsleyfi sem byggingarstjóri við mannvirkjagerð samkvæmt 1. mgr. 28. gr. greindra laga, með vísan til 6. tl. ákvæðis til bráðabirgða, og tók leyfið til þess að hafa umsjón með framkvæmdum sem falla undir 1. og 3. tl. 4. mgr. 27. gr. laganna.  Hins vegar var tekið fram að nefnt bráðabirgðaákvæði 6. tl. tæki ekki til þeirra mannavirkja sem féllu undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laganna, sem tekur til framkvæmda m.a. við vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir.  Var kæranda veittur frestur til að koma að athugasemdum og skila inn frekari gögnum, áður en ákvörðun um umsókn yrði tekin, sem hann og gerði með bréfi, dags. 19. desember s.á. 

Með bréfi, dags. 4. janúar 2012, synjaði Mannvirkjastofnun umsókn kæranda um starfsleyfi byggingarstjóra vegna mannvirkja, sem falla undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laga um mannvirki, þar sem ekki væru uppfyllt þau menntunarskilyrði sem áskilin væru fyrir veitingu leyfisins skv. 4. mgr. 28. gr. sömu laga.  Skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að starfi byggingarstjóra hafi á undanförnum árum í raun verið sinnt af aðalverktökum eða húsasmíðameisturum við mannvirkjagerð.  Hafi kærandi um áratuga skeið haft atvinnu af framkvæmdum sem falli undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sem aðalverktaki eða húsasmíðameistari og m.a. sem skráður byggingarstjóri.  Sé hin kærða ákvörðun afar íþyngjandi fyrir kæranda og skerði verulega atvinnuréttindi hans. 

Málsrök Mannvirkjastofnunar:  Stofnunin kveðst styðja hina kærðu synjun þeim rökum að umsækjandi um starfsleyfi byggingarstjóra vegna mannvirkja sem falli undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. mannvirkjalaga þurfi að uppfylla þau skilyrði sem fram komi í 28. gr. laganna.  Samkvæmt 4. mgr. greinds ákvæðis geti einungis verkfræðingar og tæknifræðingar, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum, öðlast starfsleyfi til að hafa umsjón með umræddum framkvæmdum.  Kærandi hafi ekki uppfyllt kröfur 28. gr. téðra laga um menntun. 

Ákvæði 6. tl. ákvæðis til bráðabrigða sömu laga taki ekki til starfa byggingarstjóra við mannvirkjagerð sem falli undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laganna.  Fái sú ályktun stuðning í athugasemdum í frumvarpi til fyrrgreindra laga við greindan 6. tl.  Þar komi fram að sanngjarnt sé að starfandi byggingarstjórar geti haldið áfram að vinna við sambærilega mannvirkjagerð og áður eftir gildistöku laganna, en að þau mannvirki sem talin séu upp í 2. tölul. 4. mgr. 27. gr. hafi almennt ekki verið háð byggingarleyfum.  Af þeim sökum hafi engir starfað sem byggingarstjórar við þá mannvirkjagerð í gildistíð eldri laga og þurfi hæfnisskilyrði 4. mgr. 28. gr. frumvarpsins því að vera uppfyllt í umræddu tilfelli. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er um það deilt hvort kærandi eigi rétt til að starfa sem byggingarstjóri við mannvirkjagerð sem fellur undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Tekur það ákvæði til vatnsaflsvirkjana, jarðvarmavirkjana og annarra orkuvera, olíuhreinsistöðva og vatnsstíflna sem falla undir 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. 

Samkvæmt 4. mgr. 28. gr. laga um mannvirki geta einungis verkfræðingar og tæknifræðingar, að vissum skilyrðum uppfylltum, öðlast starfsleyfi til að hafa umsjón með framkvæmdum við framangreind mannvirki.  Kærandi uppfyllir ekki þau menntunarskilyrði og kemur því einungis til álita hvort hann geti, með stoð í 6. tl. bráðabirgðaákvæðis mannvirkjalaga, átt rétt til að hafa umsjón með slíkum framkvæmdum. 

Í fyrrgreindum 6. tl. bráðabirgðaákvæðis laganna eru þeir, sem sannanlega hafa tekið að sér byggingarstjórn mannvirkja í gildistíð eldri laga, taldir uppfylla skilyrði 2. og 3. mgr. 28. gr. laga um mannvirki. Er þeim því heimilt að annast byggingarstjórn þeirra mannvirkja sem falla undir 1. og 3. tl. 4. mgr. 27. gr. laganna.  Í frumvarpi því sem varð að umræddum lögum um mannvirki kemur m.a. fram í athugasemdum við ákvæði 6. tl. ákvæðisins til bráðabirgða:  „Þau mannvirki sem talin eru upp í 2. tölul. 4. mgr. 27. gr. hafa almennt ekki verið háð byggingarleyfum og því hafa engir starfað sem byggingarstjórar við þá mannvirkjagerð í gildistíð eldri laga. Þess vegna nær [6. tl.] ákvæðis til bráðabirgða ekki til þeirra mannvirkja heldur þurfa allir sem taka að sér byggingarstjórn þeirra að uppfylla hæfnisskilyrði 4. mgr. 28. gr. frumvarpsins.“

Samkvæmt þessu verður að telja að í tilvitnuðu ákvæði 6. tl. bráðabirgðaákvæðis laga um mannvirki felist ekki heimild til að veita kæranda leyfi til að hafa umsjón með slíkum framkvæmdum sem tilgreindar eru í 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laganna.  Með vísan til þess sem að framan er rakið var Mannvirkjastofnun óheimilt að lögum að veita kæranda starfsleyfi til að starfa sem byggingarstjóri við þau mannvirki sem 2. tl. 4. mgr. 27. gr. mannvirkjalaga tekur til og stendur því hin kærða ákvörðun óhögguð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 4. janúar 2012 að synja umsókn kæranda um útgáfu starfsleyfis byggingarstjóra vegna mannvirkja sem falla undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. 

________________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________             _____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

82/2008 Aðalstræti

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 31. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 82/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. júlí 2008 um að synja umsókn um leyfi fyrir minni háttar breytingum á innra skipulagi kjallara, 1. og 2. hæðar vegna eignaskipta í atvinnu- og íbúðarhúsinu á lóðinni nr. 9 við Aðalstræti í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. ágúst 2008, er barst nefndinni sama dag, kæra L, H og M, f.h. hagsmunafélags Aðalstrætis 9, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. júlí 2008 að synja umsókn um leyfi fyrir breytingum á innra skipulagi húsnæðis við Aðalstræti 9 í Reykjavík.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi hinn 7. ágúst 2008. 

Gerir kærandi þá kröfu að synjun byggingarfulltrúans um veitingu byggingarleyfis verði hrundið og hún felld úr gildi.

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. júlí 2007 var lögð fram umsókn ,,… um samþykki fyrir minni háttar breytingum á innra skipulagi kjallara, 1. og 2. hæðar v/eignaskipta í atvinnu- og íbúðarhúsinu á lóðinni nr. 9 við Aðalstræti“.  Erindinu fylgdi fundargerð aðalfundar heildarhúsfélagsins, dags. 28. júní 2007.  Á fundinum var málinu frestað og vísað til athugasemda á umsóknarblaði. 

Hinn 14. ágúst 2007 var umsóknin aftur tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og þá lögð fram yfirlýsing húsfélagsins, dags. 26. júlí 2007, og mótmæli eigenda nokkurra eignarhluta, dags. 28. júní og 9. ágúst s.á.  Afgreiðslu málsins var frestað með eftirfarandi bókun:  ,,Vantar samþykki nokkurra eigenda sbr. bréf, dags. 28. júní 2007 og 9. ágúst s.á.  Leysa skal úr ágreiningi eigenda áður en málið verður tekið fyrir að nýju og er þar m.a. vísað til ákv. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.“ 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 29. júlí 2008 var málið tekið fyrir á ný og þá lagt fram álit kærunefndar fjöleignarhúsamála, mál nr. 1/2008, ásamt bréfi Jóns E. Jakobssonar lögmanns, dags. 6. júní 2008, og minnisblaði lögfræði- og stjórnsýslu, dags. 21. júlí 2008. 

Í umsögn lögfræði- og stjórnsýslu kemur fram að byggingarfulltrúa sé ekki heimilt að staðfesta umsóknina án samþykkis allra eigenda þar sem hún feli í sér breytingar á hlutfallstölu fasteignarinnar.  Niðurstaðan sé m.a. byggð á 2. mgr. 16. gr. laga um fjöleignarhús, þar sem fram komi að eignaskiptayfirlýsing sem feli í sér yfirfærslu eignarréttinda skuli vera undirrituð af öllum eigendum, og ákvæði 1. mgr. 41. gr. sömu laga, sem segi að til ákvarðana um breytingar á þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu og hlutfallstölu, sbr. 18. gr. laganna, þurfi samþykki allra eigenda. 

Byggingarfulltrúi synjaði umsókninni hinn 29. júlí 2008 með eftirfarandi bókun:  ,,Synjað.  Með vísan til rökstuðnings í umsögn lögfræði- og stjórnsýslu frá 21. júlí 2008.“ 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að umsögn lögfræði- og stjórnsýslu sé byggð á misskilningi og að hún sé í meginatriðum röng.  Sú niðurstaða umsagnarinnar, að byggingarfulltrúa sé ekki heimilt að staðfesta umsóknina án samþykkis allra eigenda þar sem hún feli í sér breytingu á hlutfallstölu fasteignarinnar, sé ekki studd neinum lögfræðilegum rökum.  Álitsgjafinn vísi m.a. í reglugerð nr. 910/2000 um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning hlutfallstalna o.fl. í fjöleignarhúsum varðandi niðurstöðuna en ekki til lagareglna, sem gangi framar ákvæðum 26., 27. og 28. gr. reglugerðar nr. 910/2000.  Ákvæði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús taki af öll tvímæli um að sérhver eigandi eigi rétt á því að hlutfallstölur sýni og endurspegli rétta eignaskiptingu í húsinu. 

Eignaskiptayfirlýsing hafi einvörðungu að geyma samantekt, skráningu og lýsingu á húsi og skiptingu þess í samræmi við þinglýstar heimildir.  Andmælendur hafi hvorki getað lagt fram óþinglýstar né þinglýstar eignarheimildir fyrir stærri eignarhlutum en fram komi í þinglýstum heimildum. 

Þá sé á það bent að raunteikningar og skráningartafla byggi á þinglýstum heimildum og raunverulegu rými og sé í samræmi við gildandi reglu, sem komi fram í 2. mgr. 16. gr. laga um fjöleignarhús.  Teikningarnar og skráningartaflan hafi verið samþykkt af miklum meirihluta eigenda á aðalfundi húsfélagsins hinn 28. júní 2007, eða með tæplega 75% greiddra atkvæða.  Mótatkvæði hafi verið tæplega 16% en 10% eigenda hafi ekki mætt á aðalfundinn.  Nægilegt sé að eignaskiptayfirlýsing sé undirrituð af stjórn húsfélagsins þegar eignarhlutar séu sex eða fleiri en ella af meirihluta eigenda, sé miðað við fjölda og hlutfallstölur.  Kærandi hafi uppfyllt bæði þessi skilyrði lagaákvæðisins að öllu leyti, bæði hvað varði samþykki stjórnar og samþykki meirihluta eigenda. 

Eigendur sem ekki sætti sig við niðurstöðu meirihlutans hafi heimild samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 16. gr. laga um fjöleignarhús til að vefengja slíka eignaskiptayfirlýsingu, sem þá færi eftir fyrirmælum 18. gr. sömu laga.  Lögin séu ófrávíkjanleg, sbr. 2. gr. laga um fjöleignarhús, nema annað sé tekið fram eða leiði af eðli máls.  Í ákvæði 2. mgr. 16. gr. laganna komi fram sú meginregla að eignaskiptayfirlýsing skuli undirrituð af öllum eigendum, en síðan komi undantekningin, sem falli undir ákvæði 2. gr. laganna ,,… nema annað sé tekið fram í þeim eða leiði af eðli máls“. 

Engin tilraun hafi verið gerð af hálfu minnihluta eigenda í húsinu til að vefengja nýja eignaskiptayfirlýsingu skv. 18. gr. laga um fjöleignarhús og verði því ekki annað séð en að byggingarfulltrúa hafi borið að samþykkja nýjar raunteikningar og skráningartöflu, sem hann hafi kosið að kalla nýtt byggingarleyfi. 

Álit kærunefndar fjöleignarhúsamála nr. 1/2008 hafi stutt þá niðurstöðu að veita bæri byggingarleyfi vegna nýrra aðaluppdrátta og skráningartöflu.  Kærandi taki undir það álit nefndarinnar að niðurstaðan eigi sér stoð í 2. mgr. 18. gr. laga um fjöleignarhús.  Meira að segja hafi nefndin kveðið svo sterkt að orði að hún hafi sagt að ,,… einfaldur eða aukinn meirihluti á húsfundi breytir því engu um þessa niðurstöðu sem leiðir af lögum og eðli máls“. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að hafnað verði kröfum kæranda og að synjun embættisafgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 29. júlí 2008 verði staðfest. 

Fram komi í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús að allir eigendur skuli eiga þess kost að vera með í ráðum um breytingar á þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu og hlutfallstölu.  Samþykki allra eigenda sé áskilið ef breytingar hafi í för með sér yfirfærslu á eignarrétti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um fjöleignarhús. 

Í máli þessu sé um að ræða breytingu á hlutfallstölu sem ekki ríki sátt um meðal eigenda fasteignarinnar.  Í gr. 12.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 segi að byggingarleyfisumsókn skuli fylgja samþykki meðeigenda, sbr. lög um fjöleignarhús.  Skýrt komi fram í tilvitnaðri 2. mgr. 16. gr. laganna að meginreglan sé að eignaskiptayfirlýsing sem feli í sér yfirfærslu eignaréttinda skuli undirrituð af öllum eigendum.  Undantekning frá þeirri reglu sé í síðari hluta ákvæðisins, þar sem fram komi að undirritun húsfélags eða meirihluta eigenda nægi hafi eignaskiptayfirlýsing einvörðungu að geyma samantekt, skráningu og lýsingu á húsi og skiptingu þess í samræmi við gildandi reglur þar að lútandi.  Slíka undantekningu beri í samræmi við almennar lögskýringarreglur að skýra þröngri skýringu og miðað við forsendur í máli þessu eigi hún ekki við.  Í 1. tl. A-liðar 41. gr. laga um fjöleignarhús komi skýrt fram að til ákvarðana um breytingar á þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu og hlutfallstölum, sbr. 18. gr. laganna, þurfi samþykki allra eigenda. 

Reykjavíkurborg telji að synjun byggingarfulltrúa sé nægilega vel rökstudd.  Í 1. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 910/2000 um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning hlutfallstalna o.fl. í fjöleignarhúsum komi fram að byggingarfulltrúi viðkomandi umdæmis skuli staðfesta allar eignaskiptayfirlýsingar og sé áritun hans þar að lútandi skilyrði þess að þeim verði þinglýst.  Í 1. mgr. 27. gr. nefndrar reglugerðar komi fram að áritun byggingarfulltrúa feli í sér staðfestingu á viðtöku eignaskiptayfirlýsingarinnar og að hún hafi verið yfirfarin og sé í samræmi við reglugerðina, lög um fjöleignarhús og fyrirliggjandi gögn hjá embættinu.  Í 1. mgr. 28. gr. reglugerðarinnar komi fram að afhenda skuli eignaskiptayfirlýsingu og skráningartöflu til byggingarfulltrúa í þremur samhljóða eintökum sem hann skuli öll árita um staðfestingu, sbr. 1. og 2. mgr. 26. gr. reglugerðarinnar.  Byggingarfulltrúa hafi því ekki verið heimilt að staðfesta umsóknina, án samþykkis allra eigenda, þar sem hún hafi falið í sér breytingu á hlutfallstölu fasteignarinnar. 

Andmæli Aðaleignar ehf. vegna eignarhluta félagsins:  Aðaleign ehf. bendir á að fyrir liggi gildur eignaskiptasamningur og sé annar slíkur samningur því óþarfur.  Jafnframt feli ný umsókn til byggingarfulltrúa í sér ósamþykktar og óheimilar eignayfirfærslur sem séu verulegar en ekki minni háttar. 

Ekki hafi verið nauðsynlegt að gera nýja eignaskiptayfirlýsingu.  Virðist ástæðan fyrir gerð hennar helst hafa verið sú að sumir eigendur hefðu þannig getað náð til sín, sér að kostnaðarlausu, hluta úr sameign eða séreign annarra með því að reisa veggi inni á annarra eign.  Við gerð nýrra teikninga hafi verið fylgt núverandi veggjagerð.  Hafi eignarhlutföll verið færð á milli samkvæmt því og hvorki skeytt um þinglesnar eignarheimildir né gildandi eignaskiptayfirlýsingu.  Í uppdráttum hafi falist eignayfirfærsla, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sbr. einnig 1. og 2. mgr. 18. gr. sömu laga.  Samkvæmt uppdráttum séu eignayfirfærslur í sumum tilvikum verulegar en ekki minni háttar, eins og haldið sé fram í umsókn til byggingarfulltrúa.  Því uppfylli breytingarnar til dæmis ekki skilyrði ákvæðis 2. mgr. 19. gr. laga um fjöleignarhús hvað sameign snerti. 

Auk þess hafi ekki legið fyrir samningar um ráðstöfun slíkra eignarhluta, hvorki í sameign né séreign.  Sem dæmi megi nefna að sameinaðir hafi verið eignarhlutarnir 0103, 0104 og 0105 í einn eignarhluta og hafi hann verið merktur 0102.  Jafnframt hafi sá eignarhluti stækkað á kostnað sameignar um rúmlega 23%, eða úr 108,6 m² í 133,7 m².  Annað dæmi sé yfirfærsla á 20,7 m² inn í rými 0205, en það rými sé nú skráð um 50 m².  Því sé um verulegar eignayfirfærslur að ræða, sem kalli á samþykki allra húseigenda.  

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun synjaði byggingarfulltrúinn í Reykjavík um samþykkt nýrra teikninga að fjöleignarhúsinu að Aðalstræti 9 sem sýna áttu einstaka séreignarhluta og sameign eigenda.  Var um svonefndar reyndarteikningar að ræða en byggingin var ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti.  Uppdráttunum fylgdi eignaskiptayfirlýsing í samræmi við þá.

Samþykkt teikninga að mannvirki felur í sér byggingarleyfi, sbr. 3. mgr. 43. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og samkvæmt 4. mgr. greinds ákvæðis er það skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis er snertir sameign að samþykki meðeigenda liggi fyrir.  Ef um fjöleignarhús er að ræða fer það eftir lögum um fjöleignarhús nr.  26/1994 hvað sé nægilegt samþykki í þessu sambandi.  Samkvæmt 18. gr. þeirra laga skulu allir eigendur eiga þess kost að vera með í ráðum um breytingar á þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu og hlutfallstölum og er samþykki allra eigenda, sem hagsmuna eiga að gæta, áskilið ef breytingarnar hafa í för með sér eignayfirfærslu eða kvaðir á eignarhluta.  Skulu þeir þá allir standa að slíkum breytingum og undirrita þau skjöl sem þarf.  Felist í breytingum aðeins leiðréttingar í samræmi við þinglýstar heimildir um húsið og einstaka eignarhluta og ákvörðun hlutfallstalna samkvæmt gildandi reglum er þó nægilegt að stjórn húsfélags láti gera slíkar breytingar og undirriti nauðsynleg skjöl í því skyni. 

Fyrir liggur að ágreiningur var með eigendum um afmörkun einstakra séreigarhluta gagnvart sameign og um túlkun eignarheimilda og að ekki gat því verið um leiðréttingar að ræða í samræmi við þinglýstar heimildir sem hefðu verið á forræði stjórnar húsfélagsins skv. 4. málslið 1. mgr. 18. gr. laga um fjöleignarhús.  Fólu umræddir uppdrættir og eignaskiptayfirlýsing í sér breyttar hlutfallstölur og þurftu því allir sameigendur fjöleignarhússins að standa að umsókn til byggingarfulltrúa um samþykkt þeirra, sbr. 2. málslið 1. mgr. 18. gr. tilvitnaðra laga sbr. og 2. mgr. 16. gr. og 1. tl. A-liðar 41. gr. laganna.  Var byggingarfulltrúa því rétt að hafna umsókn kæranda enda lá ekki fyrir samþykki allra sameigendanna, svo sem skylt var.  Verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. júlí 2008 að synja umsókn um leyfi fyrir breytingum á innra skipulagi kjallara, 1. og 2. hæðar vegna eignaskipta í atvinnu- og íbúðarhúsinu á lóðinni nr. 9 við Aðalstræti, Reykjavík. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

9/2010 Urðarstígsreitur

Með

Árið 2012, föstudaginn 20. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 9/2010, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 12. nóvember 2009 um deiliskipulag fyrir Urðarstígsreiti. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. mars 2010, er barst nefndinni næsta dag, kæra B og R, Urðarstíg 16, Reykjavík, ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 12. nóvember 2009 um að samþykkja deiliskipulag við Urðarstíg, nánar tiltekið staðgreinireita 1.186.0 og 1.186.4.

Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2010.

Gera kærendur þá kröfu að ofangreind ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Forsaga málsins er sú að í nóvember 2007 og á vordögum 2009 var hagsmunaaðilum annars vegar kynnt forsögn og hins vegar tillaga að deiliskipulagi við Urðarstíg fyrir staðgreinireit 1.186.0 sem afmarkast af Bergstaðastræti, Baldursgötu, Urðarstíg og Bragagötu og staðgreinireit 1.186.4 sem afmarkast af Bergstaðastræti, Bragagötu, Urðarstíg og Njarðargötu.  Komu fram athugasemdir við greindar tillögur, m.a. frá kærendum máls þessa.  Málið var eftir þetta til umfjöllunar hjá skipulagsyfirvöldum á nokkrum fundum og á fundi skipulagsráðs hinn 15. júlí 2009 var samþykkt að auglýsa breytta tillögu, dags. 13. júlí s.á., að deiliskipulagi umræddra reita.  Samþykkti borgarráð þá afgreiðslu á fundi hinn 6. ágúst s.á.  Var tillagan auglýst til kynningar frá 14. ágúst til og með 25. september 2009 og komu fram athugasemdir við tillöguna, m.a. frá kærendum.  Á fundi skipulagsráðs hinn 4. nóvember 2009 var tillagan lögð fram að nýju ásamt gögnum, þar á meðal umsögn skipulagsstjóra, dags. 2. nóvember 2009, þar sem lagt var til að tillagan yrði samþykkt með þeirri breytingu að bætt yrði inn á skipulagsuppdrátt byggingarreit fyrir sólstofu á lóðinni nr. 12 við Urðarstíg, en ósk þess efnis hafði komið fram á kynningartíma tillögunnar.  Kom fram í umsögninni að ósk lóðarhafa Urðarstígs 12 um „viðbyggingu að gafli Urðarstígs 14“ hefði einnig komið fram við kynningu gagnvart hagsmunaaðilum, en ákveðið hefði verið að auglýsa tillöguna óbreytta, þ.e. án viðbyggingar.  Þá var tekið fram að þar sem byggingarreiturinn lægi að lóðarmörkum við Urðarstíg 14, og hann hefði ekki verið á uppdrætti þeim er auglýstur hefði verið, væri gert ráð fyrir að samþykki lóðarhafa Urðarstígs 14 þyrfti að liggja fyrir áður en byggingarleyfi yrði afgreitt.  Afgreiddi skipulagsráð tillöguna með svofelldri bókun:  „Samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsstjóra.  Vísað til borgarráðs þegar uppdrættir hafa verið lagfærðir.“  Tilkynnti skipulagsstjóri borgarráði niðurstöðu skipulagsráðs með bréfi, dags. 5. nóvember 2009, og fylgdi bréfinu fyrrgreind umsögn skipulagsstjóra og athugasemdir er borist höfðu á kynningartíma.  Ákvæði um að heimilt væri að reisa einnar hæðar byggingu með svölum á þaki innan byggingarreits við lóðarmörk Urðarstígs nr. 14 var síðan fært inn á uppdrátt deiliskipulagsins.  Á fundi borgarráðs hinn 12. nóvember 2009 var bréf skipulagsstjóra lagt fram og bókað að tillagan væri samþykkt. 

Í kjölfar þessa var skipulagið sent Skipulagsstofnun til meðferðar sem með bréfi, dags. 10. desember 2009, gerði athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.  Var m.a. bent á að vegna þeirra breytinga á deiliskipulaginu er lutu að lóð Urðarstígs 12, og gerðar hefðu verið eftir að tillaga að deiliskipulagi hefði verið auglýst, þyrfti að auglýsa deiliskipulagið að nýju þar sem þessara breytinga yrði getið.  Að öðrum kosti taldi Skipulagsstofnun að geta þyrfti greindra breytinga og kærufrests í auglýsingu um niðurstöðu sveitarstjórnar auk þess sem æskilegt var talið að breytingarnar yrðu kynntar nágrönnum að Urðarstíg 14 með upplýsingum um kærufrest.  Með bréfi skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur til Skipulagsstofnunar, dags. 18. janúar 2010, var gerð grein fyrir afstöðu borgarinnar til fram kominna athugasemda stofnunarinnar.  Kom þar m.a. fram að breytinga á lóð Urðarstígs 12 og kærufrests yrði getið í auglýsingu um niðurstöðu sveitarstjórnar og að eigendum Urðarstígs 14 yrði einnig tilkynnt um kærufrest.  Þá var öðrum athugasemdum svarað og breytingar gerðar þar sem tilefni þótti til.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 5. febrúar 2010, voru framkomnar athugasemdir áréttaðar. 

Skutu kærendur áðurgreindri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan er rakið. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að lóð þeirra hafi verið skert með hinu kærða deiliskipulagi. Hún hafi verið 154 m² en verði 118,5 m² samkvæmt skipulaginu.  Gangstétt sé færð úr lóð kærenda til borgar og þá sé lóð þeirra minnkuð til að koma til móts við kröfur lóðarhafa Urðarstígs 16A.  Sé um gróft brot á jafnræðisreglu að ræða.  Hafi Reykjavíkurborg innheimt leigu fyrir lóð kærenda á grundvelli lóðarleigusamnings frá 1920 og sé því harðlega mótmælt að sá samningur sé fallinn úr gildi líkt og haldið hafi verið fram í umsögn skipulagsstjóra.  Ákvæði um eignarnám séu því í fullu gildi og beri Reykjavíkurborg að bæta kærendum þá skerðingu á lóðinni sem ákveðin hafi verið með samþykkt hins nýja deiliskipulags. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að fullkomlega hafi verið heimilt að gera ráð fyrir breytingu á mörkum lóðar kærenda, svo sem gert hafi verið.  Verið sé að færa lóðarmörk í átt að raunverulegu ástandi, auk þess sem talið hafi verið ósanngjarnt að lóðarhafar væru að greiða fasteignagjöld af landi sem í eðli sínu væri borgarland.  Með umræddum breytingum sé ekki verið að koma til móts við kröfur annarra lóðarhafa heldur sé verið að lagfæra skekkjur.  Einnig þyki eðlilegt að gangstétt við götuna sé utan lóða og hafi allar lóðir við Urðarstíg verið minnkaðar sem nemi gangstéttinni.  Þá sé bent á að lóðarleigusamningur um lóð kærenda hafi verið útrunninn og því hafi þurft að ganga frá nýjum samningi.  Ekki þurfi því að framkvæma eignarnám, enda séu 14 ár frá því að samningurinn hafi runnið út.  Telji kærendur sig eiga bótarétt verði að sækja þær bætur á grundvelli 33. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þá sé áréttað að í deiliskipulaginu felist aðeins tillaga að breyttum lóðamörkum og muni Reykjavíkurborg ekki framkvæma breytingar nema í samráði og sátt við alla lóðarhafa við gerð nýrra lóðarleigusamninga. 

Niðurstaða:  Eins og að framan greinir er í máli þessu deilt um gildi ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur um deiliskipulag við Urðarstíg, staðgreinireiti 1.186.0 og 1.186.4. 

Í 25. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, er við eiga í máli þessu, er fjallað um kynningu, samþykkt og gildistöku deiliskipulags.  Í 2. mgr. tilvitnaðs ákvæðis segir að ákveði sveitarstjórn að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik skv. 1. mgr.

Tillaga að deiliskipulagi Urðarstígsreita, þar sem m.a. var heimilað að stækka hús og hækka ris á lóðinni nr. 12 við Urðarstíg, var auglýst til kynningar frá 14. ágúst til og með 25. september 2009.  Á fundi skipulagsráðs hinn 4. nóvember s.á. var tillagan samþykkt með þeirri breytingu að bætt yrði við byggingarreit fyrir sólstofu á lóðinni nr. 12 við Urðarstíg.  Var hið umþrætta deiliskipulag samþykkt á fundi borgarráðs hinn 12. nóvember 2009, en þá hafði verið fært inn á skipulagsuppdráttinn ákvæði um að heimilað væri að reisa einnar hæðar byggingu, með svölum á þaki, innan byggingarreits við lóðarmörk Urðarstígs nr. 14.  Gengur sú breyting lengra en samþykkt skipulagsráðs frá 4. nóvember 2009.

Eins og að framan er rakið voru tvívegis gerðar breytingar á kynntri tillögu eftir að frestur til að koma að athugasemdum var liðinn.  Hvorki er tilgreint í skipulagsskilmálum fyrir umrædda lóð hvert nýtingarhlutfall hennar sé né er tiltekið byggingarmagn á lóðinni, líkt og áskilið er í gr. 5.4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Þó er ljóst að umrædd breyting víkur í grundvallaratriðum frá áformaðri nýtingu téðrar lóðar samkvæmt þeirri tillögu sem auglýst var til kynningar fyrir staðgreinireit 1.186.4 og er hún þess eðlis að vænta mátti að hún hefði töluverð grenndaráhrif.  Verður að telja að umrædd breyting hafi að efni og umfangi verið slík að skylt hafi verið að auglýsa tillöguna að nýju, sbr. 2. mgr. 25. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga.  Breytir engu um þá niðurstöðu annars vegar sú ætlan skipulagsyfirvalda að geta breytingarinnar og veita upplýsingar um kærufrest í auglýsingu um niðurstöðu sveitarstjórnar og hins vegar áform um sérstaka tilkynningu til lóðarhafa Urðarstígs 14 um hana.

Hin kærða ákvörðun hefur samkvæmt framansögðu ekki hlotið lögmæta málsmeðferð og er þannig haldin annmörkum sem leiða eiga til ógildingar.  Annmarkar þessir varða þó aðeins annan af tveimur staðgreinireitum sem ákvörðunin tekur til og þykir rétt, með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, að ógilda aðeins deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.186.4, en deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.186.0 skal standa óraskað.  Málsástæður kærenda, er varða breytta afmörkun lóðar, gildi lóðarleigusamninga, eignarnám og skaðabætur, eru einkaréttarlegs eðlis og koma ekki til álita við úrlausn málsins. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 12. nóvember 2009 um deiliskipulag fyrir Urðarstígsreiti að því er varðar staðgreinireit 1.186.4 en deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.186.0 skal standa óraskað. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________     ___________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

10/2012 Strandvegur

Með

Árið 2012, föstudaginn 13. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 10/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar frá 22. febrúar 2012 um að heimila stækkun lóðar og að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Strandvegi 102 í Vestmannaeyjum og ákvörðun byggingarfulltrúa frá 17. s.m. um að veita leyfi til könnunar jarðvegs í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. febrúar 2012, er barst nefndinni 21. sama mánaðar, kærir Arnar Þór Stefánsson hrl., f.h. V hf., Hafnargötu 2, Vestmannaeyjum, ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 17. febrúar 2012 um að heimila stækkun lóðar og að veita Í hf., Strandvegi 28, byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við frystihús félagsins að Strandvegi 102.  Þegar kæran barst úrskurðarnefndinni hafði málið ekki komið til afgreiðslu bæjarstjórnar, en upplýst hefur verið að hin kærða ákvörðun var tekin fyrir til umræðu og staðfestingar á fundi bæjarstjórnar 22. febrúar 2012 og samþykkt þar með fimm atkvæðum.  Þá hefur verið upplýst að framkvæmdir sem hófust á byggingarstað studdust við leyfi sem byggingarfulltrúi veitti með vísan til byggingarreglugerðar nr. 112/2012 hinn 17. s.m. til að kanna jarðveg í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir.  Hefur kærandi áréttað að kæra hans taki einnig til þessa leyfis.  Er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun Vestmannaeyjabæjar um að heimila stækkun lóðar og að veita leyfi fyrir viðbyggingunni. 

Af hálfu kæranda var þess einnig krafist að úrskurðarnefndin úrskurðaði að framkvæmdir að Strandvegi 102 yrðu stöðvaðar til bráðabirgða.  Féllst úrskurðarnefndin á þá kröfu með úrskurði uppkveðnum 24. febrúar 2012. 

Málsatvik:  Í lok desember 2011 óskaði lóðarhafi Strandvegar 102 eftir því að lóð hans yrði stækkuð til austurs og norðurs og að honum yrði veitt leyfi til að reisa þar viðbyggingu við fasteign þá er fyrir er á lóðinni.  Af málsgögnum verður ráðið að erindi þetta hafi átt sér talsverðan aðdraganda og var m.a. fjallað um hliðstætt erindi á fundi framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja 14. nóvember 2010.  Eftir skoðun á málinu var ákveðið á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 20. janúar 2012 að grenndarkynna erindið.  Gerði kærandi athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd með bréfi, dags. 16. febrúar 2012.  Málið var tekið fyrir í umhverfis- og skipulagsráði 17. s.m. þar sem erindið var samþykkt.  Bókaði nefndin að athugasemdir hefði komið fram við grenndarkynningu málsins frá einum aðila og var þeim svarað í bókuninni.  Var þar m.a. tekið fram að þörf væri á rammáætlun fyrir hafnarsvæðið og upplýst að starfshópur Vestmannaeyjabæjar myndi móta nýtingu hafnarsvæðis, greina umferðarflæði og gera tillögu að landnýtingu innan hafnarsvæðis í samráði við umsagnar- og hagsmunaaðila.  Síðan var eftirfarandi bókað um afgreiðslu málsins:  „Ráðið samþykkir erindið þar sem uppdrættir eru í samræmi við mannvirkjalög nr. 160/2010.  Leyfið er samþykkt með því skilyrði að umsækjandi greiði allan kostnað við breytingar á lagnakerfum HS veitna, sbr. bréf dags. 16. feb. 2012 og allan kostnað varðandi framkvæmdir og breytingar við gangstéttar, götu og annað sem til fellur við framkvæmd þessa.  Lóðarhafi skal skila inn skriflegri framkvæmdaáætlun til samþykktar hjá umhverfis- og framkvæmdasviði áður en framkvæmdir hefjast.  Ráðið leggur til við starfshóp um umferðarmál, að norðurhluti Garðavegar og Hafnargata verði skilgreind sem athafnasvæði.  Byggingarleyfisgjald kr. 85.911 skv. gjaldskrá nr. 117/2010.  Afgreiðsla þessi er skv. Mannvirkjalögum nr. 160/2010 og Skipulagslögum nr. 123/2010.“  Sama dag veitti byggingarfulltrúi leyfi til könnunar jarðvegs á staðnum. 

Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja 22. febrúar 2012 var tekin fyrir afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. s.m. í málinu og var eftirfarandi bókað um þann lið:  „Liður 2 liggur fyrir til umræðu og staðfestingar ….  Liður 2 var samþykktur með fimm atkvæðum. Páll Scheving Ingvarsson og Guðlaugur Friðþórsson véku af fundi.“ 

Málsrök kæranda:  Kærandi telur málsatvik öll bera með sér að mikill hraði og óvandvirkni hafi einkennt alla meðferð málsins af hálfu bæjarins og byggingaraðila.  Við blasi að leyfisveiting vegna umræddrar viðbyggingar hafi í reynd verið keyrð í gegn og hafi sveitarfélagið reynt eftir fremsta megni að stytta sér leið.  Þannig hafi bæjaryfirvöld kosið að grenndarkynna viðbygginguna í stað þess að gera deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Þá hafi fljótaskrift verið á meðferð málsins að öðru leyti.  Beri að fella úr gildi þá ákvörðun bæjarins að heimila stækkun lóðar og veita umdeilt byggingarleyfi og sé krafa kæranda um ógildingu studd eftirgreindum rökum. 

Í fyrsta lagi hafi ekki verið heimilt að afgreiða byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu einni saman, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Þess í stað hefði þurft að samþykkja deiliskipulag fyrir svæðið, að undangenginni þeirri málsmeðferð sem því fylgi, en ekkert deiliskipulag sé í gildi að svæðinu.  Það sé meginregla að byggingarleyfi megi aðeins gefa út að því tilskyldu að það eigi sér stoð í og samrýmist skipulagsáætlunum á viðkomandi svæði, þ.e. aðalskipulagi og deiliskipulagi, sbr. 1. tölul. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Frá þessu sé undantekning í 44. gr. skipulagslaga þar sem heimilað sé að gefa út byggingarleyfi, á svæði þar sem deiliskipulag hafi ekki verið samþykkt, að undangenginni grenndarkynningu einni saman.  Þetta sé undantekningarákvæði sem skýra beri þrengjandi lögskýringu.  Í ákvæðinu segi að grenndarkynningu megi beita, að framangreindum skilyrðum fullnægðum, ef framkvæmd sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi. 

Kærandi telji að þessi skilyrði séu ekki uppfyllt í máli þessu. Með hinni kærðu ákvörðun sé verið, með afdrifaríkum hætti, að breyta hluta af götu í lóð.  Lóðarmörkum sé því breytt og til komi viðbygging sem þrengi verulega umrædda götu, en hún sé aðalaðkomuleið að lóð kæranda.  Í þessu felist auðvitað breytt landnotkun og enn fremur breytt byggðamynstur.  Jafnframt aukist þéttleiki byggðar við þessa breytingu.  

Þá beri að horfa til þess að um sé að ræða hafnarsvæði þar sem mikil atvinnuumsvif séu.  Við þessar aðstæður geti enn síður átt við að veita byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu.  Annað gildi í íbúðarhverfum þar sem játa verði byggingaryfirvöldum meira svigrúm til slíkrar málsmeðferðar.  Þá sé starfshópur að hefja störf við að móta stefnu um landnýtingu hafnarsvæðisins og sé vandséð að það samræmist áformum bæjaryfirvalda að veita hið umdeilda leyfi án þess að huga fyrst að skipulagsmálum svæðisins. 

Í öðru lagi sé á því byggt að sú þrenging á Garðavegi, um 6,5 metra, sem leiði af stækkun lóðar og tilkomu umdeildrar viðbyggingar, fari í bága við þéttbýlisuppdrátt Aðalskipulags Vestmannaeyjabæjar 2002-2014.  Sé rýnt í hann komi í ljós að þar sé gert ráð fyrir beinum og breiðum Garðavegi í norður út frá Strandgötu, en ekki að þar sé þrenging af neinu tagi.  Þá séu færð inn á uppdráttinn lóðamörk og útlínur bygginga, og geri þær heldur ekki ráð fyrir viðbyggingu á þessum stað eða mjókkuðum vegi.  Eins og áður segi leiði af ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga að mannvirki verði að vera í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir.  Þar sem hér sé brotið gegn gildandi aðalskipulagsuppdrætti sé nefnd stækkun lóðar ólögmæt, svo og byggingarleyfi fyrir viðbyggingu. 

Í þriðja lagi sé á því byggt að frestur til andmæla vegna grenndarkynningar hafi verið of stuttur.  Frestur til andmæla hafi verði fjórar vikur frá dagsetningu kynningarbréfs, en bréfið hafi ekki verið póstlagt fyrr en fjórum dögum eftir dagsetningu þess.  Kærandi hafi því ekki fengið það ráðrúm til að gera athugasemdir sem skipulagslög geri ráð fyrir. 

Í fjórða lagi sé á það bent að samþykki umhverfis- og skipulagsráðs fyrir útgáfu byggingarleyfis hafi verið ólögmætt þar sem ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 2.-6. tölul. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga. 

Í fimmta lagi sé á því byggt að ekki verði annað séð en að Vestmannaeyjabær viðhafi það fyrirkomulag, sem bænum sé heimilt samkvæmt 2. mgr. 7. gr. mannvirkjalaga, að umsókn um byggingarleyfi skuli koma til meðferðar, úrlausnar og samþykkis hjá umhverfis- og skipulagsnefnd og bæjarstjórn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi.  Hins vegar liggi fyrir í málinu að útgáfa hins umdeilda byggingarleyfis hafi ekki komið inn á borð bæjarstjórnar áður en byggingarfulltrúi hafi gefið út byggingarleyfi og sé það því ólögmætt.  Ennfremur sé leyfið ólögmætt þar sem ekki hafi verið kallaðir til varamenn fyrir þá tvo nefndarmenn sem vikið hafi sæti við úrlausn málsins en þeir séu starfsmenn byggingarleyfishafa. 

Í sjötta lagi sé á því byggt af hálfu kæranda að stækkun umræddrar lóðar hafi verið ólögmæt nema til kæmi nýr lóðarleigusamningur eða viðbót við gildandi samning.  Þar sem samningnum hafi hvorki verið breytt né hann endurnýjaður sé stækkun lóðarinnar ólögmæt. 

Síðast en ekki síst sé á því byggt að reglur grenndar- og nábýlisréttar valdi því að stækkun lóðarinnar að Strandvegi 102 og tilkoma margumræddrar viðbyggingar sé ólögmæt.  Réttarreglur þessar sem séu ólögfestar kveði á um að nágranni verði að sætta sig við tiltekin óþægindi af nábýli við annan aðila, en um leið og óþægindin fari yfir ákveðin mörk séu þau orðin ólögmæt.  Sé stækkun lóðar og heimiluð viðbygging afar íþyngjandi fyrir kæranda og skerði möguleika hans til nýtingar eigin eignar í svo ríkum mæli að ekki verði við unað.  Beri samkvæmt öllu framansögðu að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi mótmælir öllum málsástæðum og lagarökum kæranda.  Því sé hafnað að málsmeðferð umhverfis- og skipulagsráðs vegna beiðni um stækkun lóðar við Strandveg 102 og útgáfu leyfis til viðbyggingar hafi verið áfátt að því er tekur til grenndarkynningar. 

Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 sé landið allt skipulagsskylt og skuli framkvæmdir vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Þó sé heimilt að víkja frá deiliskipulagsskyldu vegna stakra framkvæmda í þegar byggðum hverfum þar sem deiliskipulag sé ekki fyrir hendi ef fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.  Í stað deiliskipulagsgerðar sé þá hægt að beita svokallaðri grenndarkynningu, sbr. 44. gr. skipulagslaga. 

Mat á því hvort framkvæmdir séu í samræmi við aðalskipulag fari saman við túlkun á hugtakinu landnotkun.  Í 11. tölul. 2. gr. skipulagslaga komi fram sú skilgreining á hugtakinu landnotkun að þar sé um að ræða ráðstöfun lands til mismunandi nota, svo sem undir íbúðir, frístundahús, iðnað, verslun, útivist og landbúnað.  Samkvæmt Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2002-2014 sé svæði hafnarinnar þrískipt og lóðin að Strandvegi 102 skilgreind sem hafnarsvæði, eða nánar tiltekið á athafnasvæði hafnar (H-1).  Í greinargerð aðalskipulags, sbr. og gr. 4.8.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sé tekið fram að á hafnarsvæðum tengist landnotkun fyrst og fremst hafnsækinni starfsemi, s.s. útgerð, fiskvinnslu og starfsemi tengdri sjóflutningum og skipasmíði eða viðgerðum.  Enn fremur verði að túlka ákvæði aðalskipulags um landnotkun hafnarsvæða með hliðsjón af ákvæði 4.8.2 í skipulagsreglugerð, en þar komi fram að áhersla verði lögð á öfluga útgerð og fiskvinnslu og að aðstaða þessara greina í landi og í höfn verði eins og best geti orðið á hverjum tíma, auk þess sem lóðir fyrir þessa starfsemi verði tiltækar.  Í greinargerð með aðalskipulagi Vestmannaeyja sé tiltekið að stærð svæðis H-1 sé 14,7 ha, fullbyggt um 70.000 m2, og nýtingarhlutfallið sé 0,5.  Þá komi fram í grein 4.8.6 í greinargerð með aðalskipulaginu að svæði H-1 og H-2 séu að mestu byggð.  Ef litið sé til þess hvernig landnotkun fyrir umrætt svæði sé sett fram í aðalskipulagi verði ekki séð að hin kærða ákvörðun sé í ósamræmi við það sem þar komi fram, enda fyrirhugaðar framkvæmdir byggingarleyfishafa bæði í samræmi við staðfest aðalskipulag á svæðinu og falli að skilgreindri landnotkun þess. 

Í samræmi við 7. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 hafi umhverfis- og skipulagsráð, sem ígildi skipulags- og byggingarnefndar, fjallað um erindi byggingarleyfishafa á fundi 20. janúar 2012 og ákveðið að láta fara fram grenndarkynningu.  Grenndarkynningin hafi farið fram í samræmi við 44. gr. skipulagslaga og hafi erindið verið kynnt með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa 20. janúar 2012.  Að kynningu lokinni hafi erindið svo verið tekið til afgreiðslu á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 17. febrúar s.á. þar sem athugasemdum hafi verið svarað með rökstuðningi, erindið samþykkt og sent bæjarstjórn til afgreiðslu.  Fari því fjarri að um sé að ræða nokkra þá annmarka á framangreindri málsmeðferð að ógildingu varði. 

Umþrætt viðbygging muni fráleitt hafa áhrif á byggðamynstur hafnarsvæðisins.  Núverandi bygging sé fiskverkunarhús með vinnslusölum, geymslum, frystigeymslum, mótorhúsi og starfsmannaaðstöðu, en með breytingunni sé gert ráð fyrir viðbyggingu fyrir mótorhús og frystitækjarými.  Núverandi brúttóflötur fyrstu hæðar hússins sé 3.289,3 m2, en húsið sé á þremur hæðum.  Viðbyggingin verði á tveimur hæðum, 306,1 m2, að brúttófleti á fyrstu hæð og 62,5 m2, á annarri hæð.  Ekki liggi fyrir útreikningar á nýtingarhlutfalli lóðarinnar þar sem svæðið hafi ekki verið deiliskipulagt en viðbyggingin sé alls ekki veruleg og vandséð hvernig hún raski hagsmunum kæranda.  Horfa verði til þess að um sé að ræða atvinnulóð á hafnarsvæði en ekki sé um það að ræða að götumynd verði raskað, enda gert ráð fyrir að viðbyggingin verði hvorki hærri, stærri né umfangsmeiri en atvinnuhúsnæði í nágrenninu.  Þá falli fyrirhuguð viðbygging vel að núverandi byggingu, heildarmynd og yfirbragði svæðisins.  Myndi með útgáfu byggingarleyfis ekki á nokkurn hátt vera vikið frá byggðamynstri á svæðinu.  Skilyrðið um þéttleika byggðar geti ekki girt fyrir að heimiluð verði minni háttar viðbygging við fasteign byggingarleyfishafa þegar litið sé til þess að ekki sé í gildi formleg ákvörðun um nýtingarhlutfall á svæðinu og að umrædd fasteign sé ekki stærri en almennt gerist þar.  Byggingarleyfishafi telji að með hliðsjón af framansögðu og réttarframkvæmd í tíð eldri laga hafi skilyrði til grenndarkynningar verið uppfyllt.  Einungis sé um að ræða breytingu á einni atvinnulóð í tengslum við starfsemi sem þar fari fram.  Umfang fyrirhugaðrar viðbyggingar sé lítið enda nemi stærð hennar ekki nema rétt tæplega 10% af brúttófleti byggingarinnar og falli hún vel að byggðamynstri.  Ótvírætt sé að heimilt hefði verið að grenndarkynna erindið sem óverulega breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, hefði það verið fyrir hendi, og því hafi skilyrði grenndarkynningar verið uppfyllt. 

Því sé einnig mótmælt að brotið hafi verið gegn sjónarmiðum um jafnræði og réttmæti við afgreiðslu málsins, eða að það hafi verið afgreitt með óeðlilegum hraða, enda hafi verið sýnt fram á að svo hafi ekki verið.  Byggingarleyfishafi taki fram að hagsmunir nágrannaeigna séu ekki þeir einu sem líta beri til við skoðun á málinu heldur verði einnig að taka sanngjarnt tillit til réttmætra hagsmuna hans sem fasteignareiganda.  Verulegir hagsmunir séu fólgnir í því að hann geti hafist handa um framkvæmdir á lóð sinni án þess að þurfa að bíða eftir þeirri tímafreku og flóknu málsmeðferð sem fylgi því að gerð deiliskipulags ljúki.  Þeir hagsmunir njóti lögverndar. 

Þeirri athugasemd V hf. að viðbyggingin og þrenging götu fari í bága við aðalskipulagsuppdrátt sé alfarið hafnað.  Sérstaklega verði að líta til þess hvernig landnotkun sé sett fram í aðalskipulagi, en hin kærða ákvörðun sé í fullu samræmi við það sem þar komi fram.  Fyrirhuguð viðbygging, til stækkunar á frystihúsi félagsins, sé á skilgreindu hafnarsvæði samkvæmt aðalskipulagi og ótvírætt sé að hún falli vel að skilgreindri landnotkun.  Auk þessa sé umfjöllun í kæru í meginatriðum röng að því er varði þrengingu götunnar, enda sé ekki um að ræða þrengingu á vegi heldur sé lagt upp með breikkun akreina í erindi byggingarleyfishafa. 

Ein af málsástæðum sé sú að andmælafrestur vegna grenndarkynningar hafi verið of stuttur en því sé alfarið mótmælt.  Kæranda hafi gefist nægur tími til andmæla enda hafi hann komið að athugasemdum sínum innan frestsins.  Jafnvel þótt talið væri að frestur til athugasemda hafi verið örfáum dögum of stuttur, með hliðsjón af póststimpli kynningarinnar eða viðlíka, þá geti slíkt ekki eitt og sér valdið ógildingu ákvörðunarinnar þar sem kæranda hafi sannanlega gefist kostur á að kynna sér fyrirliggjandi gögn og tjá sig um málið.  Athugasemdir hans hafi komið fram og fengið umfjöllun áður en erindið hafi verið afgreitt. 

Staðhæfingum kæranda um að ekki hafi verið skilyrði til útgáfu byggingarleyfis sé alfarið vísað á bug, enda sé þar byggt á röngum forsendum.  Einnig sé hafnað þeirri órökstuddu málsástæðu kæranda að ekki sé búið að breyta lóðarleigusamningi, enda geti kærandi ekki átt lögvarða hagsmuni af aðkomu að slíkum samningi milli byggingarleyfishafa og Vestmannaeyjarbæjar.  Ógilding byggingarleyfis geti aldrei byggst á þeirri ástæðu að lóðarleigusamningi hafi ekki verið breytt. 

Andmæli kæranda, sem lúti að grenndar- og nábýlisrétti, byggi annars vegar á því að um sé að ræða þrengingu á götu og hins vegar að breytingin hafi áhrif á kröfu um brunavarnir.  Hvað varði þrengingu götu hafi verið sýnt fram á að slíkar fullyrðingar séu rangar og þvert á móti sé um að ræða breikkun akreina á Garðavegi, sem áfram verði tvístefnugata.  Þá liggi fyrir að gætt hafi verið að öllum sjónarmiðum er varði eldvarnir og liggi fyrir jákvæð umsögn slökkviliðsstjórans í Vestmannaeyjum, auk jákvæðrar umsagnar yfirlögregluþjóns hvað varði þætti er snúi að umferðaröryggi. 

Loks telji byggingarleyfishafi að ekki hafi á neinn hátt verið sýnt fram á að fyrirhuguð viðbygging raski lögvörðum hagsmunum kæranda, hvorki á grundvelli eignarréttar né að hún valdi einhverju því tjóni eða óhagræði sem leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Byggingarleyfishafi vísar til þess að í bráðabirgðaúrskurði um stöðvun framkvæmda, uppkveðnum 24. febrúar 2012, komi fram að óljóst sé að mati úrskurðarnefndarinnar um valdheimildir umhverfis- og skipulagsráðs, svo og hvort afgreiðsla bæjarstjórnar í kjölfar grenndarkynningar hafi verið fullnægjandi.  Af þessu tilefni sé því alfarið mótmælt að skort hafi á valdheimildir umhverfis- og skipulagsráðs til samþykktar á því erindi sem hér um ræði.  Heimildir séu í nýjum skipulagslögum og lögum um mannvirki til að ein og sama nefndin fari með byggingar- og skipulagsmál innan stjórnsýslu hvers sveitarfélags, líkt og verið hafi í hinum eldri. 

Í málinu liggi fyrir að sérstakar byggingar- og skipulagsnefndir hafa ekki verið settar á laggirnar í Vestmannaeyjum eftir gildistöku nýju laganna 1. janúar 2011, en með málefni er varði bæði skipulags- og byggingarmál bæjarins fari umhverfis- og skipulagsráð.  Sé þessi skipan í samræmi við Samþykkt um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 630/2004, með síðari breytingum, sem sett hafi verið skv. ákvæðum 10. og 25. gr. sveitastjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. nú 9. gr. laga nr. 138/2011.  Í samþykktinni sé fjallað um valdheimildir umhverfis- og skipulagsráðs og komi fram í 64. gr. að ráðið fari með málefni skipulags- og byggingarmála, sbr. lög nr. 73/1997.  Jafnframt komi fram í 2. mgr. sömu greinar að ráðið geri tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála sem það fái til meðferðar.  Samþykktin hafi verið staðfest af samgönguráðuneytinu þann 12. júlí 2004 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 30. s.m.  Sé því sú framkvæmd, að umhverfis- og skipulagsráð fari með málefni er varði bæði skipulags- og byggingarmál bæjarins, í samræmi við ákvæði eldri laga nr. 73/1997 um skipulags- og byggingarmál og nú 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 7. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010, þar sem gert sé ráð fyrir að byggingar- og skipulagsmál falli undir eina og sömu nefndina eða ráðið.  Séu því uppfyllt skilyrði mannvirkja- og skipulagslaga um störf byggingar- og skipulagsnefnda, sem staðfestar skuli af ráðherra, og um birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. 

Samkvæmt ákvæðum skipulags- og mannvirkjalaga, sbr. og eldri skipulags- og byggingar-lög, skuli sveitarstjórn afgreiða umsóknir um byggingarleyfi og sé heimilt skv. 7. gr. mannvirkjalaga og 6. gr. skipulagslaga að víkja frá ákvæðum laganna um meðferð umsókna um byggingarleyfi með sérstakri samþykkt sem staðfest skuli af ráðherra, sem fari með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála, sbr. 3. gr. skipulagslaga og 4. gr. mannvirkjalaga.  Fyrir liggi að staðfest og birt samþykkt nr. 630/2004 hafi verið og sé í gildi og séu því valdheimildir sveitastjórnar við afgreiðslu málsins ótvíræðar. 

Með gildistöku nýrra skipulagslaga nr. 123/2010 hafi orðið breytingar á meðferð grenndarkynningarmála.  Samkvæmt 44. gr. laganna komi það nú í hlut sveitarstjórnar að afgreiða mál að lokinni grenndarkynningu og í samræmi við það hafi bæjarstjórn samþykkt á fundi sínum 22. febrúar 2012 tillögu umhverfis- og skipulagsráðs um að samþykkja umsókn byggingarleyfishafa.  Hafi hin kærða afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs því verið byggð á ákvörðun sem tekin hafi verið með stoð í skipulagslögum nr. 123/2010. 

Um afgreiðslu bæjarstjórnar vísist enn fremur til 3. mgr. 64. gr. tilvitnaðrar samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar. 

Málsrök Vestmannaeyjabæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er mótmælt staðhæfingum kæranda um óvandaða málsmeðferð.  Þvert á móti hafi framkvæmd málsins verið fyllilega í samræmi við lög og reglur og hafi í alla staðið verið staðið rétt að grenndarkynningu og öðrum undirbúningi málsins. 

Aðkoma umhverfis- og skipulagsráðs hafi verið í samræmi við bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyja nr. 630/2004, með síðari breytingum, en í henni komi fram að ráðinu sé falin umfjöllun um málefni skipulags- og byggingarmála.  Þá komi þar fram að umhverfis- og skipulagsráð geri tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála sem það fái til meðferðar.  Grundvöllur umhverfis- og skipulagsráðs byggi á skipulagslögum nr. 123/2010, sbr. 6. gr. laganna.  Þar komi m.a. fram að slík nefnd fari með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna.  Umhverfis- og skipulagsráð hafi grundvallað afgreiðslu sína á framangreindum reglum og lagaákvæðum.  Um efnislega afgreiðslu sé vísað til 44. gr. skipulagslaga.  Þar komi skýrt fram að heimild sé til að gefa út byggingar- eða framkvæmdaleyfi án þess að deiliskipulag liggi fyrir, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.  Jafnframt komi þar fram að sveitarstjórn afgreiði slík mál og taki endanlega ákvörðun í slíku máli.  Í máli því sem hér sé til umfjöllunar hafi verið farið nákvæmlega eftir framangreindum reglum.  Umhverfis- og skipulagsráð hafi tekið málið til umfjöllunar og sent það síðan til endanlegrar afgreiðslu bæjarstjórnar, sem hafi samþykkt erindið formlega á fundi sínum 22. febrúar 2012 í samræmi við framangreind ákvæði skipulagslaga.  Það skuli þó tekið skýrt fram að formlegt byggingarleyfi hafi ekki enn verið gefið út, enda þurfi að liggja fyrir nauðsynleg gögn til þess, s.s. sérteikningar. 

Vestmannaeyjabær leggi áherslu á að afgreiðsla máls þessa geti vart talist íþyngjandi gagnvart kæranda.  Helsta röksemd hans sé að Garðavegurinn þrengist en í raun breikki umferðargatan.  Ekki verði séð að nein önnur efnisleg rök liggi að baki athugasemdum kæranda.  Málið hafi fengið eðlilega afgreiðslu í samræmi við lög og reglur. 

Af hálfu bæjaryfirvalda er málsástæðum kæranda að öðru leyti svarað lið fyrir lið.  Eru þau svör í aðalatriðum byggð á sömu eða svipuðum sjónarmiðum og fram eru komin af hálfu byggingarleyfishafa og þykir ekki ástæða til að endurtaka þau hér. 

———————–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur nefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem myndi heildstæða einingu.  Skal þess gætt að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélags þegar sótt er um byggingarleyfi, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Verður að skýra þessi ákvæði saman á þann veg að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga segi hins vegar að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu.  Verður að skilja ákvæði þetta svo að heimilt sé, við þær aðstæður sem þar greinir, að víkja frá lagaskilyrði 2. mgr. 37. gr. um deiliskipulag, enda þótt það sé hvergi berum orðum sagt í lögunum.  Í 2. mgr. 44. gr. er því síðan lýst hvernig staðið skuli að grenndarkynningu og kemur þar fram að sveitarstjórn afgreiði, að kynningarfresti liðnum, mál sem sæti slíkri meðferð. 

Samkvæmt samþykkt um skipan bæjarmálefna í Vestmannaeyjum fer umhverfis- og skipulagsráð með mál er heyra undir skipulagsnefndir samkvæmt 6. gr. skipulagslaga.  Var ráðið því til þess bært að taka ákvörðun um að grenndarkynna erindi byggingarleyfishafa, svo sem gert var.  Var málinu, að kynningartíma liðnum, vísað til bæjarstjórnar sem tók það til umræðu og afgreiðslu og má fallast á að meðferð málsins hafi að formi til verið í samræmi við fyrirmæli 44. gr. skipulagslaga um meðferð grenndarkynningar.  Er þá litið fram hjá þeim ágöllum sem voru á samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs hinn 17. febrúar 2012, þegar ráðið samþykkti leyfi með vísun í lög um mannvirki og ákvað byggingarleyfisgjald, en með því fór ráðið út fyrir valdmörk sín, enda hefur ekki verið sett samþykkt í Vestmannaeyjum um byggingarnefnd samkvæmt 7. gr. laga um mannvirki, er gilt gæti fyrir ráðið.

Fallast má á að kynningarfrestur vegna grenndarkynningar hafi verið skemmri en lög áskilja.  Hins vegar liggur fyrir að kærandi kom að athugasemdum innan þess frests sem veittur var og verður ekki séð að þessi ágalli á málsmeðferð hafi valdið réttarspjöllum.  Verður hann því ekki talinn eiga að leiða til ógildingar, einn og sér.

Í málinu er um það deilt hvort skilyrði hafi verið til að víkja frá meginreglu 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga um deiliskipulag og grenndarkynna þess í stað umsókn byggingarleyfishafa í málinu.  Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er það skilyrði sett fyrir því að farið sé með byggingarleyfisumsókn eftir ákvæðinu að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika þeirrar byggðar sem fyrir er á svæðinu.

Í erindi byggingarleyfishafa fólst ekki aðeins umsókn um byggingaleyfi heldur einnig um stækkun lóðar, en sú stækkun var forsenda byggingarleyfisins.  Tekur heimild 44. gr. skipulagslaga ekki til umsókna um úthlutun lóða eða ráðstöfunar lands til einkanota, enda en þar ekki um umsókn um byggingarleyfi að tefla.  Geta eigendur fasteigna í þegar byggðum hverfum ekki haft væntingar um að fá til ráðstöfunar land utan lóðarmarka nema að undangengnu deiliskipulagi, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga, þar sem segir að í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, o.s.frv.  Með hinni kærðu ákvörðun var þar að auki raskað götumynd og þar með byggðamynstri, en með breytingunni voru felld út bílastæði báðum megin götunnar og gangstéttir mjókkaðar.  Þótt áformað hafi verið að breikka akbrautina sjálfa lítillega var til frambúðar girt fyrir frekari breikkun hennar og þar með skertir möguleikar á að laga svæðið að hugsanlegum þörfum komandi tíma.

Úrskurðarnefndin telur enn fremur að skort hafi á að gætt væri rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við undirbúning málsins.  Þannig verður ekki séð að gætt hafi verið að því hvort fyrirhuguð framkvæmd rúmaðist innan nýtingarhlutfalls svæðisins, en samkvæmt aðalskipulagi gildir reitanýting á svæðinu og er nýtingarhlutfallið 0,5.  Hins vegar liggja hvorki fyrir útreikningar nýtingarhlutfalls né nauðsynlegar forsendur þeirra, svo sem um hlutfall byggingarlóða og annars lands, gatna, bílastæða og opinna svæða innan viðkomandi reits.  Jafnframt skorti á að gerð væri könnun á áhrifum hinnar umdeildu breytingar á umferð og bílastæðakröfu á svæðinu áður en hin kærða ákvörðun var tekin, en þessir þættir snerta m.a. lögvarða hagmuni kæranda. 

Samkvæmt framansögðu skorti lagaskilyrði fyrir þeirri málsmeðferð að grenndarkynna umsókn byggingarleyfishafa um stækkun lóðar og um byggingarleyfi.  Jafnframt skorti á að gætt væri rannsóknarreglu við undirbúning málsins.  Leiða þessir ágallar til þess að ógilda ber hina kærðu ákvörðun.  Miðað við þá niðurstöðu hefur ekki þýðingu að fjalla um gildi ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 17. febrúar 2012 um að veita leyfi til könnunar jarðvegs vegna fyrirhugaðra framkvæmda.  

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 22. febrúar 2012 um að heimila stækkun lóðar og um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Strandvegi 102.

 
_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson

18/2012 Langamýri

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 14. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2012, kæra á ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 6. mars 2012 um að veita byggingarleyfi til breytinga á innra skipulagi hússins nr. 14 við Löngumýri í Garðabæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:
 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. mars 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir S, f.h. íbúa að Löngumýri 2 til 12 og 16, þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 6. mars 2012 að veita byggingarleyfi til breytinga á innra skipulagi hússins að Löngumýri 14. 

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Þá krefjast þeir þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan beðið sé endanlegs úrskurðar í málinu.  Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Málsatvik og rök:  Hinn 3. janúar 2012 samþykkti byggingarfulltrúinn í Garðabæ umsókn eiganda hússins að Löngumýri 14 um leyfi til breytinga á innra skipulagi.  Andmæli komu fram af hálfu nágranna sem telja að með umræddum breytingum sé í raun verið að skipta eigninni að Löngumýri 14 upp í fleiri íbúðir.  Slíkt fái ekki staðist.  Þá hafi málsmeðferð verið áfátt þar sem ekki hafi farið fram grenndarkynning.

Af hálfu Garðabæjar er þess krafist að hafnað verði kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Umræddar framkvæmdir séu ekki sýnilegar kærendum og geti því á engan hátt raskað hagmunum þeirra.  Auk þess muni þeim vera lokið og þjóni stöðvun þeirra því engum tilgangi.
 
Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að kærunni verði vísað frá.  Ekki felist í hinni kærðu ákvörðun skipting fasteignar eins og kærendur haldi fram.  Leyfið varði breytingar á innra fyrirkomulagi sem í engu snerti hagsmuni nágranna.  Krafist sé stöðvunar framkvæmda en ekki geti komið til álita að fallast á slíka kröfu þar sem framkvæmdum samkvæmt hinu umdeilda leyfi sé lokið. 

Niðurstaða:  Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.  Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi.  Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls. 

Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingar á innra skipulagi húss.  Ekki þykir útilokað að kærendur eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og verður því ekki fallist á frávísunarkröfu byggingarleyfishafa eins og málið liggur nú fyrir.  Ekki er hins vegar líklegt að framkvæmdir samkvæmt leyfinu raski hagsmunum kærenda svo verulega að rétt sé að fallst á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda, enda eru þær alfarið á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa meðan ekki liggur fyrir endanlegur úrskurður í málinu.  Verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda því hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda við breytingar á innra skipulagi hússins að Löngumýri 14 í Garðabæ meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson