Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

35/2012 Fiskislóð

Árið 2012, þriðjudaginn 17. júlí, var með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011 tekið fyrir af Hjalta Steinþórssyni, formanni úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, mál nr. 35/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2008 um samþykkja umsókn um leyfi til að byggja flóttastiga, skyggni yfir inngang, milligólf yfir anddyri og afgreiðslu 1. hæðar og til að innrétta með geymslueiningum og tilheyrandi millipöllum og stigum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. apríl 2012, er barst nefndinni 27. sama mánaðar, kæra H, f.h. HF Fasteigna ehf., og J, f.h. G1 ehf., þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja byggingaráform að Fiskislóð 11-13 í Reykjavík. 

Af hálfu kærenda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði tekin til efnislegrar meðferðar og úr því skorið hvort hinar viðbættu millihæðir séu leyfilegar. 

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 18. nóvember 2008 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja flóttastiga, skyggni yfir inngang, milligólf yfir anddyri og afgreiðslu 1. hæðar og til að innrétta atvinnuhús á lóðinni nr. 11-13 við Fiskislóð með geymslueiningum og tilheyrandi millipöllum og stigum, nýsamþykkt BN035034, dags. 12. desember 2006.  Umsóknin var samþykkt með skilyrði um þinglýsingu yfirlýsingar þess efnis að samþykktin gilti fyrir núverandi notkun hússins sem geymsluhúsnæðis.  Yrði henni breytt bæri að sækja um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun sem yrði innan marka ákvæða deiliskipulags um nýtingarhlutfall. 

Af hálfu kærenda er því haldið fram að um brot á byggingarreglugerð nr. 441/1998 hafi verið að ræða þegar byggingarfulltrúi hafi samþykkt að bæta við tveimur millihæðum að Fiskislóð 11-13.  Sú byggingaráætlun þýði að heildarfermetrar hússins séu komnir yfir tvöfalt leyfilegt hámark samkvæmt deiliskipulagi.  Þá virðist sem byggingarfulltrúi hafi réttlætt framkvæmdina með því að um geymsluhúsnæði væri að ræða en ekki  aðra gerð af húsnæði.  Þrátt fyrir að hafa verið hluthafar í fasteignafélaginu sem þá hafi átt húsið hafi upplýsingum um þessar framkvæmdir verið haldið frá kærendum af framkvæmdastjóra og stjórnarformanni FF 11-13, sem jafnframt hafi verið leigutaki hússins.  Eftir að kærendur hafi komist að umræddum framkvæmdum hafi þeir leitað til byggingarfulltrúans í Reykjavík.  Hafi þeir óskað eftir að fá úr því skorið hvort umræddar viðbætur hafi verið samþykktar eða ekki og hafi svarbréf þess efnis borist hinn 14. apríl 2012. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kærenda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 teljist kærufrestur vera einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti verða kunnugt, um að ákvörðun þá sem kæra á.  Liðin séu u.þ.b. þrjú og hálft ár frá samþykkt byggingarfulltrúa í málinu.  Frestur til að kæra áðurgreinda ákvörðun byggingarfulltrúa í máli þessu hafi því verið löngu liðinn þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni.  Verði ekki fallist á að 5. mgr. 52. gr. eigi við í tilviki þessu sé á því byggt að skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli bera fram stjórnsýslukæru innan þriggja mánaða frá því að aðila máls hafi verið tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun.  Í 28. gr. stjórnsýslulaga sé svo allur vafi tekinn af um að vísa beri kærunni frá, en samkvæmt ákvæðinu sé óheimilt að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin. 

Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni annars vegar vegna þess að kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni og hins vegar vegna þess að kæran sé of seint fram komin. 

Kærendur, eða félög þeirra, hafi verið hluthafar í Fasteignafélaginu Fiskislóð 11-13 ehf. frá hausti 2007 og fram til 25. febrúar 2010 en hafi ekki verið hluthafar  í félaginu síðan.  Þá hafi kærendur setið í stjórn Fasteignafélagsins Fiskislóð 11-13 ehf. frá 15. nóvember 2007 og fram til 25. febrúar 2010 en hafi ekki setið í stjórn félagsins síðan.  Kærendur hafi því ekki lögvarinna hagsmuna að gæta. 

Niðurstaða:  Samkvæmt  5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem gilti á þeim tíma sem hér um ræðir, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. 

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík var tekin á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 18. nóvember 2008 og var fasteignafélaginu FISK 11-13 ehf. tilkynnt um ákvörðunina með bréfi sama dag.  Verður að telja, með hliðsjón af málsgögnum  og tengslum kærenda við byggingarleyfishafa, að þeim hafi mátt vera kunnugt um  hina kærðu ákvörðun fljótlega eftir að fasteignafélaginu var tilkynnt um hana.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn  27. apríl 2012 og var kærufrestur þá löngu liðinn.  Þá voru ekki lengur skilyrði til að víkja frá lögboðnum kærufresti.  Ber því að vísa máli þessu frá. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson