Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

62/2012 Friðarstaðir

Árið 2012, þriðjudaginn 17. júlí, var með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011 tekið fyrir af Hjalta Steinþórssyni, formanni úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, mál nr. 62/2012, kæra á erindi skipulags- og byggingarfulltrúa Hveragerðisbæjar dags. 21. maí 2012 varðandi úrbætur á mannvirkjum á jörðinni Friðarstöðum í Hveragerði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júní 2012, er barst nefndinni 15. s.m., kærir D, Friðarstöðum í Hveragerði, erindi skipulags- og byggingarfulltrúa Hveragerðisbæjar, dags. 21. maí 2012, varðandi úrbætur á mannvirkjum að Friðarstöðum í Hveragerði.

Málsatvik og rök:  Hinn 21. maí 2012 ritaði skipulags- og byggingarfulltrúi Hveragerðisbæjar bréf til kæranda þar sem skorað var á hann að koma ástandi mannvirkja á jörðinni Friðarstöðum í viðunandi horf.  Kom þar fram að ásigkomulagi og viðhaldi mannvirkja væri verulega ábótavant svo að hætta stafi af.  Var í bréfinu tekið fram að afhendi eða póstleggi ábúandi ekki aðgerðaráætlun fyrir 20. júní og hefji ekki tafarlaust framkvæmdir við úrbætur,  verði beitt sektum til að knýja á um aðgerðir, sbr. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.  Þar kom og fram að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laga um mannvirki séu kæranlegar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. 

Kærandi vísar til þess að efni bréfs skipulags- og byggingarfulltrúa sé svo almennt orðað að erfitt sé að átta sig á því nákvæmlega hvað við sé átt og verulegum vafa sé undirorpið að um kæranlega stjórnvaldsákvörðun sé að ræða.  Þó megi af bréfinu ráða að  annars vegar sé verið að fjalla um hús sem skemmst hafi í suðurlandsskjálftanum árið 2008 sem ekki sé búið að meta af hálfu Viðlagatryggingu Íslands og  hins vegar gróðurhús sem ekki hafi fengist heimild hjá bæjaryfirvöldum til að breyta í hesthús.  Ekki eigi við rök að styðjast að hætta stafi af ásigkomulagi mannvirkja á jörðinni sem sé afgirt.  Stafi mál þetta að stærstum hluta af því að staðið hafi verið í vegi fyrir eðlilegri uppbyggingu á jörðinni af hálfu bæjaryfirvalda.  Ef gera eigi við hús eða rífa áður en uppgjöri við Viðlagatryggingu Íslands sé lokið sé verið að spilla sönnunargögnum.  Þá bendi kærandi á að honum hafi í tvígang verið synjað af hálfu Hveragerðisbæjar með ólögmætum hætti um að gera úrbætur á húsakosti á jörðinni.

Af hálfu Hveragerðisbæjar er á það bent að flest öll mannvirki á jörðinni séu í niðurníðslu.  Af gróðurhúsum stafi t.d. mikil slysahætta en í því séu flestar rúður brotnar og glerbrot liggi út um allt.  Umhirðu jarðarinnar hafi til margra ára verið ábótavant eins og áskoranir allt frá árinu 2000 beri með sér ásamt bréfi Matvælastofnunar frá 15. maí 2009 varðandi aðbúnað og umhirðu dýra á Friðarstöðum.  Bæjaryfirvöld hafi á árinu 2011 samþykkt að endurskoða deiliskipulag  jarðarinnar í samráði við ábúendur en þeir hafi ekki sýnt áhuga eða vilja til að taka þátt í því samstarfi.  Fullyrðingar kæranda um að verið sé að krefjast þess að sönnunargögnum í máli hans og Viðlagatryggingar Íslands verði spillt séu órökstuddar.  Matsmenn Viðlagatryggingar Íslands hafi nú þegar skoðað og lagt mat á mannvirkin en ekki hafi þó verið samið um upphæð tjónabóta að sögn kæranda.  Að mati bæjaryfirvalda sé ekkert sem standi í vegi fyrir því að hreinsunar- og endurbótastarf geti hafist.  Ef um einhver álita mál sé að ræða verði þau skoðuð og fullt tillit tekið til þeirra.  Ekki sé hægt að una við hættuástand og vanhirðu mannvirkja í mörg ár á meðan langvinnar deilur um tjónabætur standi yfir. 

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 segir að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar, eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé.  Í 2. mgr. 56. gr. sömu laga er mælt fyrir um að Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúa sé heimilt að leggja á dagsektir til þess að knýja menn til þeirra aðgerða.  Samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga eru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.  Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt. 

Tilefni máls þessa er bréf byggingarfulltrúa til kæranda með áskorun um úrbætur vegna mannvirkja á jörð kæranda innan tiltekins frests.  Segir þar jafnramt að verði kærandi ekki við áskoruninni innan frestsins megi hann búast við að gripið verði til aðgerða skv. 56. gr. mannvirkjalaga til þess að knýja fram úrbætur.  Í bréfinu er bent á leiðbeiningarskyldu sveitarfélagsins gagnvart kæranda og andmælarétt hans skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993.
 
Á skortir að í bréfinu komi fram með skýrum hætti til hvaða úrbóta kærandi skuli grípa.  Þá verður ekki talið að bréfið feli í sér lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur aðeins tilkynningu um að til álita komi að beita þvingunarúrræðum 56. gr. mannvirkjalaga verði kærandi ekki við áskorun byggingarfulltrúa um úrbætur.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson