Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

48/2008 Kiðjaberg

Árið 2012, miðvikudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 48/2008, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 8. maí 2008 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundasvæðis í landi Kiðjabergs. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. júlí 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Ívar Pálsson hrl., f.h. Þ og Þ, Glaðheimum 14, Reykjavík, eigenda sumarhúss á lóð nr. 111 (áður 120) í landi Kiðjabergs í Grímsnesi, þá ákvörðun hreppsnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 8. maí 2008 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundasvæðis í landi Kiðjabergs.  Auglýsing um gildistöku breytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 23. júní 2008.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik:  Mál þetta á sér nokkra forsögu en deilur hafa verið um deiliskipulags ákvarðanir sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps er varða frístundasvæði í landi Kiðjabergs, en upphaflegt deiliskipulag svæðisins er frá árinu 1990.  Hinn 23. ágúst 2006 öðlaðist gildi breyting á umræddu deiliskipulagi er varðaði stærð og legu sumarhúsalóða á svæðinu og hinn 9. október 2006 tók gildi deiliskipulagsbreyting er laut að stærð og hæð sumarhúsa þar.  Voru breytingar þessar kærðar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem með úrskurði uppkveðnum 4. júlí 2007 vísaði frá kæru á fyrri skipulagsbreytingunni en felldi þá síðari úr gildi.  Þá voru einnig felld úr gildi leyfi til bygginga tveggja sumarhúsa á skipulagssvæðinu. 

Hinn 24. september 2007 öðlaðist enn á ný gildi breyting á deiliskipulagi svæðisins er varðaði stærð, hæð og útlit sumarhúsa þar.  Var breytingin kærð til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði uppkveðnum hinn 8. janúar 2008 felldi hana úr gildi.  Þá voru jafnframt felld úr gildi leyfi til bygginga fyrrgreindra sumarhúsa.  Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu 30. janúar 2008 var lögð fram að nýju tillaga að breytingu á skilmálum deiliskipulags í landi Kiðjabergs, orlofs- og sumarhúsasvæðis Meistarafélags húsasmiða.  Í fundargerðinni kom m.a. fram eftirfarandi:  „Í tillögunni felst að gerð er breyting á skilmálum er varða stærð og útlit húsa, h. lið í greinargerð deiliskipulagsins.  Gert er ráð fyrir að heimilt verði að reisa allt að 350 m2 frístundahús að grunnfleti og 40 m2 aukahús á hverri lóð, þó þannig að nýtingarhlutfall verði ekki hærra en 0,03.  Einnig verða breytingar er varða hæðir húsa, mænishæð og þakhalla.  Sambærileg breyting á skilmálum svæðisins var samþykkt í sveitarstjórn 6. september 2007 og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 24. september 2007.  Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála felldi breytinguna síðan úr gildi að kröfu lóðarhafa á lóð nr. 111 í landi Kiðjabergs með úrskurði þann 8. janúar 2008 með vísan til þess að formlegri afgreiðslu sveitarstjórnar hefði verið ábótavant.  Af hálfu greindra lóðarhafa hafa athugasemdir fyrst og fremst beinst að sumarhúsabyggingum á lóðum nr. 109 og 112.  Ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga stendur ekki í vegi umræddrar breytingar á skilmálum svæðisins.  Er því tillagan lögð fram að nýju.  Samþykkt að auglýsa tillöguna skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.“ 

Fundargerð skipulagsnefndar var samþykkt í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps 7. febrúar 2008.  Var tillagan auglýst til kynningar í Lögbirtingablaðinu hinn 21. s.m.  Auglýsingin birtist einnig í Glugganum, 24 stundum og á heimasíðu skipulagsfulltrúa.  Kærendur gerðu athugasemdir við tillöguna með bréfum, dags. 2. og 3. apríl sama ár.  Hinn 23. apríl 2008 var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar þar sem eftirfarandi var bókað:  „Tillagan var í kynningu frá 21. febrúar til 20. mars 2008 með athugasemdafresti til 3. apríl 2008.  Þrjú athugasemdarbréf bárust á kynningartíma.  Fyrir liggur umsögn skipulagsfulltrúa um innkomnar athugasemdir.  Samþykkt skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga og er umsögn skipulagsfulltrúa samþykkt.“ 
Hinn 8. maí 2008 var fundargerð skipulagsnefndar samþykkt í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps.  Með bréfum, dags. 29. maí 2008, var málið sent Skipulagsstofnun og umsögn skipulagsfulltrúa send þeim aðilum sem gert höfðu athugasemdir.  Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 11. júní 2008, kom fram að stofnuninni væri kunnugt um að byggingar sem væru ekki í samræmi við gildandi deiliskipulagsskilmála hefðu verið reistar á svæðinu og með vísan til 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga gerði stofnunin athugasemd við að auglýsing um gildistöku skipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. 
Kærendur höfðuðu mál fyrir Héraðsdómi Suðurlands, með stefnu þingfestri 4. júní 2008, þar sem þess var krafist að felld yrði úr gildi samþykkt um breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs, er öðlast hafði gildi 23. ágúst 2006 og tók til lóðarstærða.  Jafnframt var þess krafist að hús á lóðum nr. 109 og 112 yrðu fjarlægð.  Lauk meðferð málsins með dómi Hæstaréttar 9. desember 2010 þar sem öllum kröfum kærenda var hafnað. 
Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé ólögmæt með vísan til þess að samkvæmt 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé óheimilt „… að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.“ 

Margar byggingar hafi verið reistar og framkvæmdir átt sér stað á svæðinu í ósamræmi við gildandi skilmála.  Sambærilegir skilmálar hafi áður verið samþykktir en felldir úr gildi með úrskurði nefndarinnar frá 4. júlí 2007.  Sveitarstjórn hafi aftur samþykkt skilmálana hinn 6. september 2007, en þeir hafi enn verið felldir úr gildi með úrskurði nefndarinnar frá 8. janúar 2008.  Þá hafi kærendur þrisvar kært byggingarleyfi fyrir sumarhúsum á lóðunum nr. 109 og 112, sem haldið sé fram að byggð hafi verið eftir umræddum skilmálum.  Með úrskurði nefndarinnar frá 4. júlí 2007 hafi byggingarleyfi þessara húsa verið felld úr gildi þar sem leyfi þeirra hafi byggt á skilmálum sem þá hafi verið samþykktir á ólögmætan hátt.  Byggingarleyfi fyrir framangreindum húsum hafi aftur verið gefin út 25. september 2007.  Með úrskurði nefndarinnar 8. janúar 2008 hafi byggingarleyfi húsanna enn á ný verið felld úr gildi af sömu ástæðum.  Byggingarleyfi fyrir báðum þessum húsum hafi verið samþykkt löngu áður en umræddir skilmálar hafi verið samþykktir.  Hafi sveitarfélagið fyrst þurft að hlutast til um að hinar ólögmætu byggingar yrðu fjarlægðar áður en skipulaginu hafi verið breytt.  Þar sem það hafi ekki verið gert sé breytingin í beinni andstöðu við umrætt lagaákvæði, sem sett hafi verið til að koma í veg fyrir háttsemi af þessum toga.  Tilgangur samþykktar skilmálanna virðist því hafa verið sá að koma sér hjá bótaskyldu gagnvart eigendum allra þeirra húsa sem reist hafi verið í trássi við skipulag, þ.m.t. á lóðunum nr. 109 og 112. 

Kærendur telji deiliskipulagsbreytinguna ólögmæta þar sem ólögmætt sé að breyta tiltölulega nýlegu deiliskipulagi, eins og hér um ræði, enda verði eigendur fasteigna að geta treyst því að því umhverfi og þeim réttindum sem þeim séu sköpuð með skipulagsáætlunum sé ekki breytt nema fyrir því liggi sterk málefnaleg og lögmæt sjónarmið.  Með breytingu sem þessari sé raskað öllum þeim væntingum sem kærendur hafi haft er þau sóttu um og fengu lóð á svæðinu og hófu þar uppbyggingu. 

Þá sé því haldið fram að hin kærða breyting á skilmálum sé andstæð reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og stjórnsýsluréttar um samræmi og jafnræði borgaranna.  Með því að breyta skilmálum eftir á sitji lóðarhafar ekki við sama borð. 

Þegar kærendur hafi keypt lóð á Kambasvæðinu í landi Kiðjabergs hafi verið heimilt að byggja þar 60 m² hús.  Útivistarsvæði hafi verið mikil í nágrenni lóðar þeirra og flestar lóðir á svæðinu hafi verið um 0,5-0,7 ha og 50 m breiðar.  Hafi væntingar kærenda við lóðarkaupin verið í samræmi við þágildandi skipulag.  Nú hafi lóðir í kring um lóð kærenda verið stækkaðar allt upp í 1,55 ha og útivistarsvæði tekið undir nýjar lóðir.  Hin kærða breyting muni því skerða mjög friðhelgi og grenndarrétt kærenda.  Hærri og stærri hús kalli á meiri yfirsýn yfir lóð þeirra, og gera megi ráð fyrir fleira fólki í hverju húsi og aukinni umferð.  Hægt verði að reisa 350 m² hús að grunnfleti, þriggja hæða, með flötu þaki, 6 m að hæð frá gólfi að mæni og kjallara þar undir, eða samtals 1050 m², auk 40 m² geymslu eða gestahúss.  Að auki hafi þegar verið leyfðar tengibyggingar á milli aðalhúss og aukahúss sem ekki séu taldar með í stærðartölu.  Í nýju skipulagi séu lóðir norðan við lóð kærenda aðeins 65 m á breidd, þrátt fyrir mikla stækkun, en stækkunin sé öll á lengdina og séu þær því óvenju langar og mjóar, eða 160 og 200 m langar.  Byggingarreitir efst á lóðarmörkum séu stækkaðir og séu jafn nálægt lóðarmörkum og fyrr.  Lóðir sunnan við lóð kærenda séu 34-50 m breiðar og tvær lóðir liggi samsíða þeirra lóð.  Þéttleiki byggðar á svæðinu umhverfis lóð kærenda verði því mjög mikill þótt byggingarmagn hverrar lóðar sé takmarkað við 3% af stærð hennar. 

Ekki séu fordæmi fyrir að leyfð sé bygging svo stórra húsa á svæði skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu, hvorki í þegar byggðum sumarhúsahverfum né nýjum.  Sumarhús kærenda verði komið inn í ígildi stóreinbýlishúsasvæðis og megi þeir eiga von á fastri búsetu fólks þar.  Það sé þvert ofan í væntingar kærenda um friðsæla sumarhúsabyggð eins og upphaflegt skipulag hafi gert ráð fyrir.  Með breytingunni séu leyfð flöt þök sem samræmist engan veginn þeirri byggð sem fyrir sé og opni möguleika á viðverurými á háum þökum húsa með óhindruðu útsýni yfir á næstu lóðir.  Þá séu leyfðir geymslukjallarar undir hús og þegar hafi verið reist hús sem sé orðið þriggja hæða.  Sé það byggt við brekkurætur og auki það yfirsýn yfir útivistarsvæði þar sem síður verði næði til útivistar.  Ákvæði um ákveðinn lit og efni á þökum og veggjum sé fellt úr gildi.  Því sé nú allt leyfilegt sem skapi ósamræmi og raski heildrænni sýn svæðisins.  Á lóðum nr. 109 og 112 séu t.d. komin hús með glerveggi og álveggi.  Glerveggir skapi ekki aðeins óhefta yfirsýn heldur sé gífurlegt endurvarp af sólargeislum og einnig sé mikil birtumengun að kvöldlagi frá ljósum innandyra.  Álveggir skapi sömuleiðis endurvarp ljóss. 

Þá mótmæli kærendur því harðlega að jafn róttæk tillaga að breyttum skilmálum deiliskipulags hafi ekki verið kynnt lóðarhöfum áður en hún hafi verið auglýst til kynningar.  Auglýsing í staðarblöðum á Suðurlandi nái ekki til sumarhúsaeigenda á höfuðborgarsvæðinu. 

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu sveitarfélagsins er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að ákvörðun sveitarstjórnar verði staðfest. 

Aðalkrafa um frávísun sé byggð á því að kærufrestur samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi verið liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 24. júlí 2008.  Þá eigi kærendur ekki einstaklega og lögvarða hagsmuni af ógildingu skilmálanna, sbr. tilvitnað lagaákvæði, sökum þess að dómsmál, höfðað af kærendum á hendur sveitarfélaginu, byggi á sömu málsástæðum og fram komi í kæru, þ.e. fyrst og fremst 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þá eigi kærendur ekki lögvarða hagsmuni af ógildingu skilmála fyrir allt það svæði sem viðkomandi breyting taki til.  Bæði aðal- og deiliskipulag sé í gildi á umræddu svæði en ágreiningur afmarkist nú við skilmálana sem slíka, þ.e. stærðir tveggja húsa.  Þrátt fyrir það sé ekki að finna rökstuðning fyrir því með hvaða hætti húsin, sem nú séu fullbúin, hafi áhrif á hagsmuni kærenda. 

Þeirri málsástæðu kærenda að fjarlægja þurfi byggingarnar á grundvelli 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga áður en hægt sé að samþykkja nýja deiliskipulagsskilmála fyrir svæðið sé harðlega mótmælt.  Byggingarnar séu í samræmi við skipulag, þ.e. aðalskipulag og deiliskipulag frá 7. desember 2005 sem hafi tekið gildi 23. ágúst 2006. 

Benda megi á að framkvæmdir við hús á lóð nr. 112 hafi hafist eftir að breytingar á skilmálum deiliskipulagsins hafi tekið gildi haustið 2006.  Frá þeim tíma og allt til 4. júlí 2007 hafi framkvæmdirnar verið í samræmi við byggingarleyfi og gildandi deiliskipulag.  Húsin sem hafi risið á lóðum nr. 109 og 112 séu í góðu samræmi við hús sem hafi verið leyfð á öðrum svæðum innan sveitarfélagsins.  Það geti ekki talist skynsamlegt að rífa húsin til þess eins að leyfa uppbyggingu þeirra þegar nýir skipulagsskilmálar hafi tekið gildi. 

Skipulagið í Kiðjabergi sé eitt elsta deiliskipulag frístundabyggðar í sveitarfélaginu.  Á þeim tíma þegar upphaflegt deiliskipulag hafi verið unnið hafi ekki verið heimilt að byggja stærri frístundahús en 60 m² samkvæmt lagafyrirmælum og hafi skipulagið miðast við þá stærð.  Í dag sé ekki kveðið á um hámarksstærð frístundahúsa í lögum og sé litið til þróunar síðustu ára þá hafi frístundahús smám saman verið að stækka í samræmi við kröfur húsbyggjenda.  Ekki sé talið óeðlilegt að þessi þróun nái einnig til byggðarinnar í Kiðjabergi. 

Þá séu skilmálar eðlilegir í samræmi við fordæmi.  Leyfilegt byggingarmagn á hverri lóð megi samkvæmt deiliskipulagsskilmálunum ekki vera meira en 3%.  Þetta þýði t.d. að á lóð sem sé 0,5 ha megi byggingarmagn ekki fara upp fyrir 150 m².  Gildi það fyrir allt svæðið.  Sé það í góðu samræmi við þróun annarra svæða í Grímsnes- og Grafningshreppi, sem og nágrannasveitarfélögum.  Því til stuðnings sé bent á nýlegar breytingar á skilmálum eldri frístundabyggðar í landi Norðurkots (200 m²) og Ormsstaða (150 m²).  Á mörgum svæðum sé nú miðað við nýtingarhlutfallið 0,03 eins og í landi Kiðjabergs. 

Sveitarfélagið telji að ekki hafi verið gengið gegn 4. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1997 þar sem í ákvæðinu sé ekki gerður áskilnaður um að byggingar séu fjarlægðar í öllum tilvikum.  Í ljósi þess að framangreint ákvæði sé undantekningarregla verði að beita þröngri lögskýringu við túlkun þess.  Þröng skýring leiði til þess að nægjanlegt sé að starfsemi sé hætt og ljóst sé að engin starfsemi hafi verið á umræddum lóðum eða framkvæmdir í gangi á meðan hin kærða breyting á skilmálum hafi verið til meðferðar. 

Túlkun kærenda á framangreindu ákvæði fari gegn sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga skv. 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, þar sem segi að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveði.  Í 2. mgr. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga sé sveitarstjórnum, með gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana, falið skipulagsvald á landinu öllu.  Í þessu felist að efnislegar ákvarðanir sveitarstjórna sæti ekki endurskoðun dómstóla svo framarlega sem réttum málsmeðferðarreglum hafi verið fylgt.  Fyrir liggi að öllum málsmeðferðarreglum hafi verið fylgt og hvorki úrskurðarnefndin né dómstólar hafi vald til að endurskoða þá ákvörðun sveitarfélagsins að auglýsa umrædda deiliskipulagsbreytingu. 

Skipulags- og byggingarnefnd sé ekki skylt að lögum að láta fjarlægja sumarhús á greindum lóðum eða öðrum lóðum á svæðinu áður en gerð sé breyting á deiliskipulaginu, þrátt fyrir að byggingarleyfi hafi verið afturkölluð vegna einhverra formgalla við afgreiðslu á breytingu skilmála.  Ekki sé hægt að túlka ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga með þeim hætti.  Í tilvitnaðri 56. gr. laganna sé ekki með skýrum hætti kveðið á um hvernig með skuli fara þegar mannvirki sé reist á grundvelli byggingarleyfis sem síðar sé ógilt eða afturkallað.  Engin fyrirmæli séu í skipulags- og byggingarlögum sem skyldi byggingarnefnd til að taka ákvörðun um að fjarlægja mannvirki sem þegar hafi verið reist á grundvelli byggingarleyfis.  Þá verði að skoða ákvæði 4. mgr. 56. gr. í samhengi við önnur þvingunarúrræði greinarinnar.  Ákvæði 2., 3. og 4. mgr. 56. gr. eigi fyrst og fremst við um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir samkvæmt 4. kafla skipulags- og byggingarlaga og taki fyrst og fremst til framkvæmda sem hafnar séu án þess að fengin hafi verið tilskilin leyfi.  Ákvæði 4. mgr. 56. gr. eigi því ekki við í því tilviki er bygging hafi verið reist á grundvelli gilds byggingarleyfis, sem talið hafi verið í samræmi við skipulag á þeim tíma sem það hafi verið veitt.  Ákvæðinu sé fyrst og fremst ætlað að taka á þeim tilvikum þegar framkvæmt sé án allra tilskilinna leyfa.  Slík túlkun sé í samræmi við forsögu ákvæðisins og tilgang þess. 

Einnig sé vert að hafa í huga að þegar mannvirki hafi verið reist á grundvelli byggingarleyfis komi til önnur sjónarmið, m.a. um eyðileggingu verðmæta, sem geti staðið því í vegi að unnt sé að rífa eða fjarlægja viðkomandi eign.  Einnig verði að líta til skipulagssjónarmiða og hagsmuna eiganda viðkomandi eignar, en niðurrif eignar hans væri augljóslega verulega íþyngjandi fyrir hann.  Þá verði að gæta meðalhófs og jafnræðisreglu við töku slíkra ákvarðana.  Beitt hafi verið málefnalegu mati við afgreiðsluna og á þeim hagsmunum sem í húfi hafi verið, sem verði ekki hnekkt af úrskurðarnefndinni eða dómstólum. 

Sveitarfélagið hafni röksemdum kærenda byggðum á 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga enda sé ómöguleiki fyrir hendi.  Fyrir liggi að á lóðunum tveimur standi fullbúnar fasteignir.  Við þessar aðstæður sé fráleitt að rífa eða fjarlægja slíkar fasteignir einungis vegna ágreinings um skilmála.  Þetta úrræði sé einnig ótækt og ekki hægt að beita því þar sem eignarréttindi viðkomandi eigenda njóti verndar samkvæmt stjórnarskrá.  Telja verði að hagsmunir kærenda séu nægilega tryggðir með ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga geti þeir sýnt fram á tjón vegna bygginganna á lóðum nr. 109 og 112.  Í nýju frumvarpi til skipulagslaga sé ekki að finna ákvæði sambærilegt 4. mgr. 56. gr. og sýni það afstöðu löggjafans til þessa.  Þá sé ekki hægt að ógilda deiliskipulag fyrir allt það svæði sem deiliskipulag Kiðjabergs nái yfir, þ.e. svæði A-háls, B-holt og C-kambar, þegar ágreiningsefni kærenda lúti einungis að skilmálum fyrir stærð húsa á tveimur lóðum á svæði C.  Í ljósi alls framangreinds sé ekki hægt að fallast á túlkun kærenda á 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga vegna breytinga á deiliskipulagsskilmálum. 

———–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur nefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í málinu er deilt um gildi ákvörðunar sveitarstjórnar frá 8. maí 2008 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundasvæðis í landi Kiðjabergs er varðar stærð, hæð og útlit húsa. 

Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er krafist frávísunar málsins með þeim rökum að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 24. júlí 2008.  Frestur til að kæra ákvarðanir til nefndarinnar sem sættu opinberri birtingu var einn mánuður frá birtingu samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem giltu á þeim tíma er hér um ræðir.  Auglýsing um gildistöku breytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 23. júní 2008, en samkvæmt 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 telst sá dagur ekki með í frestinum. Var upphafsdagur kærufrests því 24. júní 2008 og var fresturinn þar af leiðandi ekki liðinn er kæran var árituð um móttöku hinn 24. júlí s.á. 

Frávísunarkrafan er einnig á því byggð að kærendur hafi höfðað dómsmál á hendur sveitarfélaginu og byggi í því máli á sömu málsástæðum og í kærumáli þessu.  Kröfur kærenda í dómsmálinu snéru að deiliskipulagsbreytingu er öðlaðist gildi hinn 23. ágúst 2006 og varðaði stærðir lóða.  Er þar um aðra ákvörðun að ræða en þá sem kærð er í máli þessu og verður ekki fallist á að nefnd málshöfðun hafi staðið því í vegi að kærendur bæru hina kærðu ákvörðun undir úrskurðarnefndina, þrátt fyrir að þeim kunni að hafa verið unnt að koma ágreining um hana að í dómsmálinu.  Verður því ekki fallist á að vísa beri málinu frá. 

Af hálfu kærenda er á því byggt að óheimilt hafi verið að gera hina umdeildu skipulagsbreytingu þar sem þágildandi ákvæði 4. mgr. 56. gr. tilvitnaðra skipulags- og byggingarlaga hafi staðið því í vegi, en þar kemur fram að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 80/2010, var komist að þeirri niðurstöðu að ekki samræmdist tilgangi tilvitnaðs ákvæðis 4. mgr. 56. gr. að skýra það svo að það tæki til tilvika eins og þeirra sem um ræddi í málinu, en framkvæmdir þær sem um væri að ræða hefðu hafist á grundvelli nýsamþykkts skipulags sem ekki hefði öðlast gildi.  Byggingarleyfi fyrir sumarhúsum þeim er hér um ræðir voru endurnýjuð hinn 25. september 2007, eftir að breytt deiliskipulag með rýmkuðum skilmálum hafði öðlast gildi, og studdust framkvæmdir við þau eftir það ótvírætt við formlega gilt deiliskipulag fram til 8. janúar 2008, er úrskurðanefndin felldi umrædda deiliskipulagsbreytingu úr gildi.  Mun húsið á lóð nr. 112 þá hafa verið fullbyggt en leyfi fyrir húsinu á lóð nr. 109 hafa verið endurnýjað með samþykkt sveitarstjórnar 11. júlí 2008.  Verður samkvæmt framansögðu ekki fallist á að ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi átt að koma í veg fyrir að heimilt væri að samþykkja hina kærðu ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi frístundasvæðis í landi Kiðjabergs og verður því ekki fallist á að ógilda beri hana af þeim sökum.

Þá halda kærendur því fram að breytingin á skilmálunum skerði grenndarrétt þeirra og að með henni hafi jafnræðisregla stjórnsýslulaga verið brotin.  Á þetta verður ekki fallist.  Með hinni kærðu ákvörðun var horfið frá ákvæðum um útlit húsa og úreltri viðmiðun um stærð þeirra, en með ákvæði skilmálanna um nýtingarhlutfall og ákvæði gr. 4.11.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um lámarksfjarlægð frá lóðarmörkum er tryggt að ekki sé um of gengið gegn grenndarhagsmunum lóðarhafa á svæðinu.  Breytingin er almenn og getur því komið öllum lóðarhöfum að notum, þar á meðal kærendum.  Verður því ekki fallist á að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu eða grenndarhagsmunum kærenda. 

Sá galli er á hinni kærðu ákvörðun að ekki er í skilmálum getið um leyfilegan fjölda hæða í húsum heldur segir þar aðeins að möguleiki sé á að byggja geymslukjallara undir húsi þar sem aðstæður í landi gefi tilefni til.  Getur þessi ágalli leitt til vafa um túlkun skilmálanna en ekki þykja efni til að ógilda hina kærðu ákvörðun af þessum sökum. 

Samkvæmt framansögðu eru ekki á hinni kærðu ákvörðun slíkir annmarkar að ógildingu varði og verður kröfu kærenda þar um því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar hreppsnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 8. maí 2008 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundasvæðis í landi Kiðjabergs. 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________           _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson