Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

42/2012 Eyrarbraut

Árið 2012, miðvikudaginn 1. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.  

Fyrir var tekið mál nr. 42/2012, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 13. mars 2012 um að veita stöðuleyfi til sex mánaða til að reisa á lóðinni að Eyrarbraut 37 á Stokkseyri sumarhús til flutnings. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. maí 2012, er barst nefndinni 11. sama mánaðar, kærir A, Eyrarbraut 10, Stokkseyri, þá samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 13. mars 2012 að veita stöðuleyfi til að reisa á lóðinni að Eyrarbraut 37 á Stokkseyri sumarhús til flutnings. 

Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Jafnframt fer kærandi fram á stöðvun framkvæmda og að húsið verði fjarlægt.  Málið er nú nægilega upplýst til að taka megi það til endanlegs úrskurðar og kemur krafa kæranda um stöðvun framkvæmda því ekki til sérstakrar úrlausnar. 

Málavextir:  Samkvæmt gildandi skipulagi er lóðin Eyrarbraut 37 skilgreind sem iðnaðar- og athafnalóð.  Leyfishafi sótti um stöðuleyfi til að reisa sumarhús til flutnings á lóðinni og samþykkti skipulags- og byggingarnefnd þá umsókn hinn 13. mars 2012 og veitti umsækjanda stöðuleyfi til sex mánaða.  Hófst hann eftir það handa við byggingu húss á lóðinni en kærandi skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 5. maí 2012, svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því haldið fram að hann hafi orðið fyrir verulegu ónæði vegna framkvæmdanna, sem hafi hafist í apríl 2012, s.s. vegna hávaða.  Kærandi fari fram á að upplýst verði hvort ekki hafi þurft byggingarleyfi fyrir umræddu sumarhúsi samhliða stöðuleyfinu, hvort ekki hafi þurft framkvæmdaleyfi og eftirlit skipulags- og byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélaga til að reisa heilu húsin, þó þau séu ætluð til flutnings, hvaða aðili taki út mannvirki af þessu tagi á byggingarstigi, hvort ekki hafi þurft að leggja fyrir skipulags- og byggingarnefndir teikningar þó mannvirkin séu ætluð til flutnings, hvort ekki hafi þurft að grenndarkynna framkvæmdina og loks hvort ekki hafi þurft að auglýsa hana sérstaklega.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar:  Af hálfu sveitarfélagsins er gerð krafa um að málinu verði vísað frá nefndinni, en til vara að kröfum kæranda verði hafnað.  Sveitarfélagið telji kæruna of seint fram komna, en skv. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 sé kærufrestur einn mánuður.  Kæran hafi verið móttekin af nefndinni 11. maí 2012, eða tæpum tveimur mánuðum eftir að stöðuleyfið hafi verið veitt og framkvæmdir við byggingu hússins hafist. 

Þá byggi sveitarfélagið frávísunarkröfu sína á því að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.  Þrátt fyrir að kærandi sé íbúi við Eyrarbraut sé ljóst að milli lóðar kæranda og Eyrarbrautar 37 liggi ein helsta umferðargatan á Stokkseyri, auk þess sem hús kæranda sé staðsett við botnlanga inn af Eyrarbraut 12. 

Fallist nefndin ekki á að vísa kærunni frá geri sveitarfélagið kröfu um að nefndin hafni málatilbúnaði kæranda þannig að umdeilt stöðuleyfi haldi gildi sínu að fullu.  Byggi sveitarfélagið þessa kröfu sína á því að öll skilyrði hafi verið uppfyllt til útgáfu leyfisins skv. kafla 2.6 í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. 9. tl. 1. mgr. 60. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Stöðuleyfi hafi verið veitt á grundvelli b-liðar gr. 2.6.1 þar sem fyrir hafi legið fullnægjandi upplýsingar til útgáfu þess og hafi sveitarfélagið ekki orðið vart við að forsendur hafi brostið fyrir veitingu leyfisins.  Rétt sé að fram komi að lóðin að Eyrarbraut 37 sé skilgreind sem athafnasvæði bæði í aðal- og deiliskipulagi og sé rekið trésmíðaverkstæði í núverandi húsnæði á lóðinni.  Megi því búast við að íbúar í nærliggjandi hverfi verði fyrir ónæði frá atvinnustarfsemi umfram það sem væri ef um hreina íbúðarhúsabyggð væri að ræða. 

Málsrök leyfishafa:  Handhafi hins kærða stöðuleyfis mótmælir málatilbúnaði og kröfum kæranda og krefst þess að þeim verði hafnað.  Um sé að ræða tímabundna framkvæmd og hafi tilskilinna leyfa verið aflað.  Ekki hafi stafað meira ónæði af framkvæmdunum en búast megi við að stafi frá starfsemi á skilgreindu athafnasvæði. 

Niðurstaða:  Ekki verður með vissu ráðið af málsgögnum hvenær kæranda mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun og verður að telja að kæra í máli þessu hafi komið fram innan kærufrests.  Þá verður ekki fallist á framkvæmdir samkvæmt leyfinu geti ekki snert hagsmuni kæranda.  Verður því ekki fallist á að vísa beri málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Samkvæmt b-lið 1. mgr. gr. 2.6.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skal sækja um stöðuleyfi fyrir frístundahúsum í smíðum sem ætluð eru til flutnings.  Af ákvæðinu leiðir að ekki er áskilið byggingarleyfi fyrir slíkum húsum á smíðastað, en byggingarleyfi þarf hins vegar fyrir þeim á þeirri lóð sem þeim er ætlað að standa á til frambúðar.  Hið kærða stöðuleyfi á sér stoð í tilvitnuðu ákvæði í byggingarreglugerð og er í samræmi við gildandi reglur um byggingu húsa til flutnings.  Þá á vinna við smíði hússins sér stað á skilgreindu athafnasvæði samkvæmt skipulagi.  Verður ekki fallist á að kærandi verði fyrir meira ónæði af smíði hússins en búast má við frá starfsemi á slíku svæði og verður því ekki fallist á kröfur hans um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 13. mars 2012 um að veita stöðuleyfi til sex mánaða til að reisa á lóðinni að Eyrarbraut 37 á Stokkseyri sumarhús til flutnings. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson