Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

58/2012 Útey II

Árið 2012, miðvikudaginn 1. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 58/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 25. apríl 2012 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fjarskiptamannvirkjum á lóð í landi Úteyjar II í Bláskógabyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júní 2012, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kæra S og M, eigendur lóða nr. 2 og 4 í landi Úteyjar I, Bláskógabyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 25. apríl 2012 að samþykkja leyfi til byggingar fjarskiptahúss og masturs á lóð í landi Úteyjar II í Bláskógabyggð. 

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð sú krafa að framkvæmdir samkvæmt byggingarleyfinu verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þar sem málið þykir nægjanlega upplýst verður það nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því krafan um stöðvun framkvæmda ekki tekin til umfjöllunar. 

Málavextir:  Í október 2011 tók gildi deiliskipulag fyrir 15 m² lóð í landi Úteyjar II, en samkvæmt skipulaginu er gert ráð fyrir fjarskiptahúsi og fjarskiptamastri á lóðinni.  Skipulagsákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og stóðu kærendur að því kærumáli.  Hinn 25. apríl 2012 var tekin fyrir á fundi byggingarfulltrúa umsókn um byggingarleyfi fyrir umræddum mannvirkjum á nefndri lóð og hún samþykkt. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að ekki hafi verið úrskurðað um lögmæti hins kærða deiliskipulags.  Hafi þegar verið steyptur grunnur á lóðinni og sé hann of nálægt vegi skv. gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sem kveði á um fjarlægð mannvirkja frá þjóðvegum. 

Málsrök Bláskógabyggðar:  Sveitarfélagið vísar til þess að hið umdeilda byggingarleyfi sé í samræmi við samþykkt deiliskipulag sem öðlast hafi gildi í október 2011.  Þá sé á það bent að umhverfisráðuneytið hafi í máli þessu veitt undanþágu frá gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.
 
Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi kveður rannsóknir hafa leitt í ljós að engin hætta stafi af farsímaloftnetum enda sé sendistyrkur þeirra mjög lítill.  Þá sé byggð og ívera fólks alla jafna mun nær þessum loftnetum en hér sé raunin.  Reynt hafi verið að koma til móts við lóðareigendur á svæðinu með því að lækka fyrirhugað mastur, breyta hönnun þess og öðrum búnaði til að það félli betur inn í umhverfið.  Sé mastrið mjög fyrirferðarlítið, samanborið við önnur slík möstur hérlendis, og sjónræn áhrif þess með minnsta móti. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun var samþykkt umsókn um leyfi til byggingar fjarskiptahúss og fjarskiptamasturs á lóð í landi Úteyjar II.  Fyrr í dag kvað úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurð um gildi deiliskipulags þess sem hið kærða byggingarleyfi styðst við og var skipulagið fellt úr gildi.  Hefur hið kærða byggingarleyfi því ekki lengur fullnægjandi stoð í gildu deiliskipulagi og verður leyfið því fellt úr gildi. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 25. apríl 2012 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fjarskiptahúsi og fjarskiptamastri á 15 m² lóð í landi Úteyjar II í Bláskógabyggð. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                       Þorsteinn Þorsteinsson