Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

44/2014 Hafnarstétt Húsavík

Með

Árið 2014, föstudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2014, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings frá 12. febrúar 2014 um að kæranda verði gert að fjarlægja smáhýsi af þaki húss að Hafnarstétt 7 á Húsavík og ákvörðun nefndarinnar frá 19. mars s.á. að hafna endurnýjun stöðuleyfis fyrir öðrum húsum en miðasöluhúsi á vegum kæranda á sama stað.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. maí 2014, sem barst nefndinni 22. s.m., kærir Málflutningsstofa Reykjavíkur f.h. Gentle Giants-Hvalaferðir ehf. ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings frá 12. febrúar 2014 um að kæranda verði gert að fjarlægja smáhýsi af þaki húss að Hafnarstétt 7 á Húsavík og ákvörðun nefndarinnar frá 19. mars s.á. að hafna endurnýjun stöðuleyfis fyrir öðrum húsum en miðasöluhúsi á vegum kæranda á sama stað.

Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Þá er þess krafist að réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana um að fjarlægja skuli smáhýsi og hús á vegum kæranda á þaki Hafnarstéttar 7 verði frestað á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til nefndrar kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Norðurþingi hinn 6. og 30. júní 2014.

Málavextir: Kærandi hefur frá árinu 2003 rekið ferðaþjónustufyrirtæki á Húsavík og hefur m.a. rekið veitinga- og minjagripasölu á þaki húss að Hafnarstétt 7. Hefur starfsemin verið í tveimur smáhýsum í skjóli tímabundinna rekstrar- og stöðuleyfa frá 1. maí til 31. september ár hvert. Á árunum 2010 og 2011 voru gerðar breytingar á aðstöðunni á þaki nefnds húss. Fékk kærandi stöðuleyfi fyrir þriðja smáhýsinu og palli en jafnframt var reist tengibygging milli smáhýsanna sem fyrir voru. Var aðstaðan nýtt undir veitingarekstur. Á árinu 2012 óskaði kærandi eftir því að fá áframhaldandi stöðuleyfi fyrir þeim mannvirkjum er tengdust nefndum rekstri ásamt stöðuleyfi fyrir fyrrgreindri tengibyggingu og var stöðuleyfi veitt til loka október 2012. Hinn 18. september 2012 var samþykkt deiliskipulag fyrir svæði sem tekur m.a. til fasteignarinnar að Hafnarstétt 7 og tók það gildi 5. desember s.á.

Að beiðni kæranda var stöðuleyfi fyrir áðurgreindum mannvirkjum framlengt til loka október 2013 og hinn 11. febrúar 2014 sótti kærandi aftur um endurnýjun stöðuleyfis vegna umræddra mannvirkja. Skipulags- og byggingarnefnd ákvað hins vegar á fundi 12. s.m. að fela byggingarfulltrúa að hlutast til um að smáhýsi á þaki Hafnarstéttar 7 yrðu fjarlægð fyrir 1. júní 2014 þar sem stöðuleyfi þeirra væru útrunnin og þau væru ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Bæjarstjórn samþykkti þá afgreiðslu hinn 18. febrúar 2014. Umsókn kæranda var síðan tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 19. mars s.á. þar sem henni var hafnað að öðru leyti en því að stöðuleyfi var veitt fyrir húsi því sem notað var sem miðasöluhús. Jafnframt var ítrekað að önnur hús á þakinu samræmdust ekki gildandi deiliskipulagi og skyldu því víkja. Sú afgreiðsla var staðfest í bæjarstjórn 25. s.m. Með tölvupósti óskaði kærandi eftir heimild fyrir áframhaldandi starfsemi veitingastaðarins Pallsins í þeirri mynd er verið hefði undanfarin ár en nefndin ítrekaði höfnun sína um áframhaldandi stöðuleyfi á fundi 23. apríl 2014 með skírskotun til fyrri ákvörðunar í málinu. Staðfesti bæjarstjórn þá ákvörðun 29. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hin kærða ákvörðun sé reist á ólögmætum grundvelli þar sem stöðuleyfi sé undantekning frá gildandi deiliskipulagi. Það að höfnunin sé rökstudd með því að torgsöluhúsin samræmist ekki breyttu deiliskipulagi fari á skjön við eðli og tilgang stöðuleyfa. Þá séu þau rök haldlaus að torgsöluhúsin samræmist ekki skilyrðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012 enda sé ekki gerð krafa um að viðkomandi lausafjármunir uppfylli skilyrði byggingarreglugerðar um atvinnuhúsnæði skv. gr. 2.6.1. í reglugerðinni. Hafi byggingar- og skipulagsnefnd Norðurþings því byggt ákvörðun sína á ólögmætum skilyrðum sem ekki verði leidd af ákvæðum byggingareglugerðar. Í gildandi deiliskipulagi sé heimilað að bæta einni hæð við húsið að Hafnarstétt 7 og fari því tilvist umræddra lausafjármuna ekki í bága við skipulagið og hafi eðli og tilgangur torgsöluhúsanna ekki breyst með samtengingu þeirra.

Telji kærandi sig hafa átt réttmætar væntingar um veitingu áframhaldandi leyfis þar sem honum hafi upphaflega verið veitt ótímabundið stöðuleyfi fyrir torgsöluhúsunum á árinu 2004 og hafi það aldrei verið afturkallað. Auk þess hafi skipulags- og byggingarnefnd samþykkt rekstarleyfi tengd húsunum til ársins 2016.

Kæranda hafi ekki verið veittur kostur á að koma afstöðu sinni á framfæri, skila inn frekari gögnum eða kynna sér fyrirliggjandi gögn áður en hin kærða ákvörðun var tekin og ekki hafi farið fram viðhlítandi könnun á torgsöluhúsunum. Við ákvarðanatökuna hafi því hvorki verið gætt að andmælarétti kæranda né rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Að auki hafi rökstuðningur sveitarfélagins verið ómálefnalegur og óljóst hvaða gögn hafi legið til grundvallar eða vægi þeirra við ákvarðanatökuna. Þá hafi ekki verið gætt meðalhófs og jafnræðis þar sem samkeppnisaðilum kæranda hafi verið veitt stöðuleyfi fyrir sínum lausafjármunum og hefði mátt veita kæranda leyfi fyrir minni húsum í stað þess að synja honum alfarið um leyfi og kippa fótum undan rekstri hans.

Málsrök Norðurþings: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að umþrætt torgsöluhús ásamt tengibyggingu fullnægi ekki byggingarreglum auk þess sem engin heimild sé fyrir þeim í deiliskipulagi. Báðar ástæðurnar nægi til að kæranda verði gert að fjarlægja mannvirkin.

Deiliskipulag svæðisins frá árinu 2012 hafi verið unnið í samræmi við þær fyrirætlanir kæranda að flytja rekstur sinn að Hafnarstétt 5, en kærandi hafi keypt þá lóð af sveitarfélaginu með skuldbindingu um að ljúka við byggingu nýrra húsa undir rekstur sinn á lóðinni fyrir 31. maí 2011. Hafi því ekki verið gert ráð fyrir hinum umþrættu torgsöluhúsum á þaki Hafnarstéttar 7 við gerð fyrrgreinds skipulags sem ekki hafi sætt andmælum kæranda við kynningu og samþykkt þess. Í deiliskipulagi segi að byggingarmagn megi ekki fara fram yfir 45 m2 að flatarmáli og 3,5 m hæð. Kærandi sé nú þegar búinn að fá leyfi fyrir ríflega 45 m2 torgsöluhúsi sem framlengt hafi verið 19. mars 2014 og hafi sveitarfélagið því ekki heimild til frekari veitingu stöðuleyfa þar sem framangreint torgsöluhús fylli heimild deiliskipulagsins.

Tengibygging milli torgsöluhúsanna hafi verið byggð í leyfisleysi og uppfylli hún ekki undanþáguákvæði g-liðar gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar. Torgsöluhúsin ásamt tengibyggingu þeirra sé varanlega skeytt við húsið en að auki séu þau búin raf-, vatns- og fráveitulögnum. Af þeim sökum sé um byggingarleyfisskylda byggingu að ræða.

Kærandi hafi ekki fengið útgefið ótímabundið stöðuleyfi enda ekki gert ráð fyrir slíku leyfi í lögum eða reglugerðum og eldri undanþágur sem kunni að hafa verið veittar geti ekki vikið til hliðar ákvæðum deiliskipulags eftir gildistöku þess. Þá hljóti réttmætar væntingar kæranda að ráðast af gildandi deiliskipulagi. Hvað rekstrarleyfi til handa kæranda varði sé það mat sveitarfélagsins að það komi málinu ekki við enda gefið út fyrir gildistöku hins nýja deiliskipulags.

Málsmeðferð umdeildrar ákvörðunar hafi verið lögum samkvæmt. Fyrir liggi í gögnum málsins að kærandi hafi óskað eftir afgreiðslu þess samdægurs og hann hafi áður komið fram sínum sjónarmiðum. Öflun gagna hafi verið fullnægjandi og hafi m.a. verið farið á vettvang þegar veitt hafi verið stöðuleyfi árið 2012. Kæranda hafi verið veitt verulegt svigrúm til þess að fjarlægja lausafjármuni sína og ef eitthvað sé hafi hann notið tilhliðrunar umfram aðra aðila í veitingarekstri á sama svæði.

Niðurstaða: Í málinu liggur fyrir að hinar kærðu stjórnvaldsákvarðanir voru teknar 12. febrúar og 19. mars 2014. Verður að líta svo á að erindi kæranda, sem hann lagði fyrir skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings hinn 23. apríl s.á., sé beiðni um endurupptöku þeirra ákvarðana. Ekki liggur fyrir að kæranda hafi verðið leiðbeint um kæruleiðir og kærufrest vegna greindra ákvarðana svo sem bar að gera skv. 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verða umdeildar ákvarðanir skipulags- og byggingarnefndar frá 12. febrúar og 19. mars 2014 því teknar til efnislegrar meðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga þar sem afsakanlegt þykir í ljósi atvika að kæra hafi borist að liðnum þeim kærufresti sem tiltekinn er í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki og reglugerðum settum með stoð í þeim sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 59. gr. laganna, svo sem henni var breytt með 30. gr. laga nr. 131/2011. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana, en telur það falla utan valdheimilda sinna að taka nýja ákvörðun verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt.

Á þaki Hafnarstéttar 7 hefur verið starfrækt ferðaþjónusta á vegum kæranda og hefur sú starfsemi farið fram í þremur torgsöluhúsum, þ.e. miðasöluhúsi og tveimur tengdum torgsöluhúsum sem notuð hafa verið undir veitingarekstur. Einnig hefur kærandi verið með pall og veislutjald á sama svæði í tengslum við reksturinn. Hefur starfsemin verið rekin í skjóli stöðu- og rekstrarleyfa. Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirra ákvarðana að synja um endurnýjun stöðuleyfis fyrir tilteknum húsum/smáhýsum er tengjast rekstri kæranda sem og að honum verði gert að fjarlægja þau. Er deilt um gildi upphaflegra stöðuleyfa, hvort það samrýmist nýju deiliskipulagi að veita áframhaldandi stöðuleyfi og af hálfu sveitarfélagsins er því haldið fram að að tiltekin torgsöluhús séu byggingarleyfisskyld eftir breytingar sem áttu sér stað á árunum 2010 og 2011.

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að reisa mannvirki nema með fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Á því eru þó undantekningar sem nánar eru útlistaðar í gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þá er í gr. 2.6.1. reglugerðarinnar kveðið á um veitingu stöðuleyfis en þar segir að ef lausafjármunum sé ætlað að standa í lengri tíma en tvo mánuði utan svæða þar sem sérstaklega sé gert ráð fyrir geymslu slíkra lausafjármuna skuli sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda. Er slíkt leyfi gefið út að hámarki til 12 mánaða nema ákvæði skipulags mæli fyrir um annað. Loks er kveðið á um heimild leyfisveitanda til að fjarlægja lausafjármuni án stöðuleyfis í gr. 2.6.2. reglugerðarinnar.

Af gögnum málsins verður ráðið að misbrestur hefur verið á því hvort eða hvaða gildistími var tilgreindur í stöðuleyfum þeim er veitt hafa verið kæranda í gegnum tíðina. Upprunalegt stöðuleyfi virðist hafa verið veitt kæranda á árinu 2004 án þess að gildistími þess væri tiltekinn. Á þeim tíma giltu ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og var tekið fram í gr. 4.41 að stöðuleyfi gæti gilt mest eitt ár í senn. Ber gr. 2.6.1. í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 einnig með sér að slík leyfi séu tímabundin eins og áður er rakið. Er því ekki hægt að fallast á þau sjónarmið kæranda að upphaflega hafi ótímabundið stöðuleyfi verið gefið út enda standa nefnd reglugerðarákvæði því í vegi. Það voru því engin gild stöðuleyfi til staðar fyrir smáhýsum kæranda á þaki Hafnarstéttar 7 þegar þau komu til umfjöllunar hjá skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings 12. febrúar 2014. Var sú ákvörðun nefndarinnar að smáhýsin skyldu fjarlægð því byggð á réttum forsendum að þessu leyti.

Sveitarstjórn ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags og eru í því teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á, sbr. 1. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Enga nauðsyn krefur til þess að fjalla um stöðuleyfi í deiliskipulagi. Hins vegar verður að telja að sveitarfélagi sé það heimilt í skjóli valdheimilda sinna, og í ljósi orðalags framangreindra lagaákvæða, að takmarka veitingu stöðuleyfa á ákveðnum svæðum. Enda er beinlínis gert ráð fyrir því að ákvæði skipulags geti tekið til stöðuleyfa, sbr. orðalag gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð. Í gildi er deiliskipulag miðhafnarsvæðis Húsavíkur sem samþykkt var 18. september 2012 og tók gildi 5. desember s.á. Samkvæmt deiliskipulaginu er heimild fyrir veitingu stöðuleyfis fyrir tveimur torgsöluhúsum af tiltekinni stærð á þaki húsa að Hafnarstétt 7 og 11. Þá er veitt heimild fyrir hækkun núverandi húss á lóðinni Hafnarstétt 7 um eina hæð. Samþykkt deiliskipulag er bindandi skv. gr. 4.7.1. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Getur sveitarfélagið því ekki farið út fyrir þær heimildir sem þar er kveðið á um. Var sú ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings 12. febrúar 2014 að smáhýsin skyldu fjarlægð því einnig byggð á réttum forsendum að þessu leyti. Með sömu rökum verður að fallast á þau sjónarmið sveitarfélagsins að ekki sé heimilt að veita frekari stöðuleyfi en gert var með ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar 19. mars 2014 á þessu tiltekna svæði.

Þá verður hvorki séð af gögnum málsins að hinar kærðu ákvarðanir hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum né að atvik hafi breyst svo að skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku málsins væri fullnægt þegar erindi kæranda sama efnis var hafnað af skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings 23. apríl 2014.

Loks verður ekki annað séð en að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar hafi verið fylgt. Þannig átti kærandi kost á að skila inn athugasemdum er hið nýja deiliskipulag var í vinnslu og meðalhófs gætt gagnvart honum með veitingu stöðuleyfa. Þá liggur það fyrir í gögnum málsins að byggingar- og skipulagsnefnd hafi kannað aðstæður á vettvangi á árinu 2012 og öflun gagna því verið fullnægjandi sem og að jafnræðis hafi verið gætt með því að samkeppnisaðila kæranda hafi verið gert að fjarlægja miðasöluhús sem eins var ástatt um og smáhýsi kæranda.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er hafnað kröfu kæranda um ógildingu á hinum kærðu ákvörðunum og hefur þá ekki þýðingu að fjalla um mögulega byggingarleyfisskyldu svo sem haldið hefur verið fram af hálfu sveitarfélagsins.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings frá 12. febrúar 2014 um að kæranda verði gert að fjarlægja smáhýsi af þaki húss að Hafnarstétt 7 á Húsavík og ákvörðun nefndarinnar frá 19. mars s.á. að hafna endurnýjun stöðuleyfis fyrir öðrum húsum en miðasöluhúsi á vegum kæranda á sama stað.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

51/2013 Laugarnesvegur

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 14. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 51/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. maí 2013, sem móttekið var á skrifstofu nefndarinnar 27. s.m., kæra S og I, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. apríl 2013 um að synja umsókn um leyfi til að breyta áður samþykktum teikningum vegna hússins á lóð nr. 47 við Laugarnesveg, Reykjavík. 

Verður að skilja kröfugerð kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá Reykjavíkurborg 20. ágúst 2013 og 11. ágúst 2014.

Málsatvik og rök: Kærendur eru eigendur fasteignarinnar að Laugarnesvegi 47 og lögðu þau hinn 26. febrúar 2013 fram umsókn um byggingarleyfi til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar. Með umsókninni var óskað eftir að breyta áður samþykktum teikningum fyrir nefnda fasteign en greindar teikningar voru samþykktar af byggingarfulltrúa 23. október 2012. Hinar umsóttu breytingar fólu í sér að stækka húsið með því að bæta við kaldri geymslu undir anddyri, innrétta gufubað og sturtu í hluta bílageymslu, breyta glugga og hurð, setja vængjahurð á bílageymslu og breyta stiga í húsinu úr steyptum í timburstiga. Erindinu var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem skilaði neikvæðri umsögn 2. apríl 2013 þar sem breytingarnar samrýmdust ekki deiliskipulagi. Vísað var til þess að nýtingarhlutfall yrði meira en deiliskipulag gerði ráð fyrir og þess að það væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag að breyta hluta bílskúrs í gufubað. Var umsókn kærenda tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. s.m. og synjað með vísan til greindrar umsagnar. Tilkynning um synjun umsóknarinnar var send kærendum með bréfi, dags. 11. apríl 2013.

Kærendur vísa til þess að búið sé að gefa leyfi til þess að bæta einni hæð ofan á húsið og að með þeirri stækkun fari nýtingarhlutfall úr 0,43 í 0,64. Stækkun húss með kaldri geymslu undir útitröppum og anddyri myndi auka heildarnýtingu í 0,67. Umþrætt geymsla stækki ekki grunnflöt hússins á lóðinni heldur sé aðeins verið að fylla upp í rými. Breytingarnar séu óverulegar.

Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að í skilmálum deiliskipulagsins, fyrir það svæði sem umrædd fasteign er staðsett á, sé heimilt að byggja eina hæð ofan á einnar hæðar hús. Einnig komi fram í deiliskipulaginu að viðmiðunarnýtingarhlutfall á einbýlishúsum í hverfinu sé 0,2-0,4. Þó sé heimilt að víkja frá viðmiðunarnýtingar-hlutfalli vegna bílskúra, hækkana húsa, þakhækkana, kvista og viðbygginga sem auki brúttóflatarmál fasteignar. Byggingarfulltrúi hafi samþykkt umsókn um hækkun hússins við Laugarnesveg 47 um eina hæð hinn 23. október 2012 enda hafi slíkt verið í samræmi við gildandi deiliskipulag. Við það hafi nýtingarhlutfall aukist úr 0,43 í 0,64 og sé heildarnýtingarhlutfall því komið vel yfir það hlutfall sem gert sé ráð fyrir í deiliskipulagi. Ekki sé fallist á þau rök kærenda að verið sé að fylla upp í rými. Umrædd stækkun myndi auka brúttóflatarmál byggingarinnar en hins vegar sé ljóst að engin aukning myndi verða á nýtanlegu brúttóflatarmáli fasteignarinnar ef fyllt yrði upp í rýmið. Sé því litið svo á að lóðin sé nú þegar fullnýtt og að teknu tilliti til þróunar á svæðinu séu ekki forsendur fyrir því að leyfa hærra nýtingarhlutfall.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Umsókn kæranda var synjað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 9. apríl 2013 og tilkynnt kærendum með bréfi dags. 11. s.m. Kæra barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 27. maí s.á. eða rúmum einum og hálfum mánuði eftir að tilkynnt var um ákvörðun byggingarfulltrúa. Kæran er því of seint fram komin og verður henni vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

56/2014 Hnoðravellir

Með

Árið 2014, miðvikudaginn 20. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 56/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp, til bráðabirgða, svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júní 2014, sem barst nefndinni 30. s.m., kærir Gísli Kr. Björnsson hdl., f.h. umbjóðenda sinna sem allir eru eigendur tilgreindra fasteigna að Hnoðravöllum, Hafnarfirði, þá ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar frá 16. apríl 2014, að breyta deiliskipulagi Hnoðravalla 52, 54, 56 og 58.

Gera kærendur þá kröfu að breytingar deiliskipulagsins verði felldar úr gildi en einnig er gerð krafa um tímabundna stöðvun framkvæmda með vísan til 5. gr. l. nr. 130/2011. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda

Málsatvik og rök: Hinn 11. desember 2013 sótti lóðarhafi Hnoðravalla 52, 54, 56 og 58  um breytingu á deiliskipulagi til Hafnarfjarðarbæjar. Fólust umsóttar breytingar í því að sameina lóðir og fjölga raðhúsaíbúðum úr fjórum í sjö. Hinn 22. janúar 2014 skilaði lóðarhafi inn endanlegum uppdrætti og var hin kærða umsótta breyting á deiliskipulaginu grenndarkynnt í kjölfarið. Athugasemdir bárust frá kærendum og var fjallað um þær ásamt umsótta deiliskipulagsbreytingu á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 26. febrúar s.á. Var erindið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs 8. apríl s.á. og ákveðið að samþykkja deiliskipulagsbreytinguna. Samþykki bæjarstjórnar lá síðan fyrir 16. s.m. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní 2014.

Kærendur vísa til þess að þeir séu eigendur nærliggjandi lóða. Breytingin hafi í för með sér aukningu á umferðarálagi og að vandi muni skapast vegna bílastæða þar sem bílastæðahlutfall minnki við fjölgun íbúða. Enn fremur valdi annmarkar á teikningum því að ekki fáist séð hvort byggingarmagn sé minna eða meira, eða hvort byggingarreiturinn sé jafn stór, og áður. Rökstuðning vanti fyrir því að minnkun og fjölgun íbúða sé í samræmi við almenna þróun á byggingarmarkaði. Kærendur hafi fjárfest í fasteignum á þessu svæði á þeim forsendum að stefnt yrði að færri íbúum og stærri íverustöðum. Sé því um forsendubrest að ræða. Að auki hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar þar sem aðeins talsmanni lóðarhafa hafi verið gefið tækifæri á að koma fram sjónarmiðum á fundi skipulags- og byggingarráðs 8. apríl 2014.

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er vísað til þess að hæpið sé að tala um mikla umferðaraukningu. Gera megi ráð fyrir því að færri einstaklingar muni búa í minni íbúðum heldur en í þeim stærri. Samþykktur uppdráttur geri ráð fyrir tveimur bílastæðum fyrir hverja íbúð. Sé bent á að í uppdrætti sé aðeins greint frá þeim breytingum sem gerðar séu á gildandi skipulagi, eins og venja sé, annað haldist óbreytt. Megi sjá á texta uppdráttarins að byggingarreitur muni ekki stækka en færast fjær götu. Hvorki umfang byggingarinnar né hæð hússins muni aukast. Sé áréttað að fundir skipulags- og byggingarráðs séu lokaðir. Þá séu umsækjendur kallaðir á fund í undantekningartilvikum eingöngu ef afla þurfi frekari upplýsinga sem varði afgreiðslu málsins. Skipulags- og byggingarráð hafi fengið fulltrúa umsækjanda á sinn fund til að gera nánari grein fyrir fyrirætlunum sínum áður en endanleg afstaða hafi verið tekin til erindisins. Athugasemdir kærenda hafi hins vegar legið fyrir og engin ástæða verið til að kalla þá á fund vegna þeirra.

Lóðarhafi vísar til þess að málsmeðferð hafi verið í fullkomnu samræmi við ákvæði skipulagslaga. Ítarlega hafi verið farið yfir athugasemdir kærenda og komist að þeirri niðurstöðu að þær gæfu ekki tilefni til að synja erindi lóðarhafa. Bendi lóðarhafi á að uppdrætti hafi verið breytt og sé nú gert ráð fyrir fleiri bílastæðum en áður. Því standist rök kæranda um fækkun bílastæða ekki. Sé á það bent að kærendur geti ekki gert tilkall til þess að engar breytingar séu gerðar á nærliggjandi lóðum. Því sé hafnað að jafnræðisregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin. Umsókn lóðarhafa hafi verið til meðferðar og kærendum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við þá umsókn. Ekki sé gert ráð fyrir meiri aðkomu þeirra sem skili inn athugasemdum, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Séu engar forsendur til þess að fallast á kröfu kærenda um stöðvun réttaráhrifa. Lóðarhafi hafi mikla fjárhagslega hagsmuni af því að kröfunni verði hafnað enda sé búið að bjóða út verkið og opna fyrir tilboð.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimildir til nýtingar einstakra lóða. Vegast því á hagsmunir þeirra sem leiða rétt af ákvörðuninni og þeirra sem telja á lögvarinn rétt sinn hallað með henni. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna slíkra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr.  laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði sé ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og þess eðlis deiliskipulagsákvarðana er áður er lýst verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun er hafnað.

______________________________
Nanna Magnadóttir

129/2012 Svartsengi

Með

Árið 2014, mánudaginn 7. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Þóra Árnadóttir jarðeðlisfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 129/2012, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 23. nóvember 2012 um að fráveita affallsvatns frá orkuveri HS Orku í Svartsengi til sjávar skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. desember 2012, er barst nefndinni 14. s.m., kæra Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Sléttuhrauni 24, Hafnarfirði, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 23. nóvember 2012, um að lagning fráveitu frá niðurdælingarsvæði fyrir orkuverið í Svartsengi til sjávar skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum skv. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.

Með bréfi, dags. 27. desember 2012, er nefndinni barst hinn 28. s.m., kærir jafnframt Fuglaverndarfélag Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, áðurgreinda ákvörðun Skipulagsstofnunar. Þar sem hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verður greint kærumál, sem er nr. 133/2012, sameinað kærumáli þessu. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Skipulagsstofnun að ákveða að fyrirhuguð framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum framkvæmda.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Skipulagsstofnun hinn 14. febrúar 2013.

Málavextir: Hinn 24. júlí 2012 tilkynnti HS Orka hf. til Skipulagsstofnunar fyrirhugaða gerð lagnar fyrir fráveitu frá niðurdælingarsvæði fyrir orkuverið í Svartsengi og til sjávar skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og tl. 13. a. í 2. viðauka þeirra laga. Samkvæmt tilkynningunni felst framkvæmdin í því að leggja um hraun niðurgrafna fráveitulögn fyrir affallsvatn og þjónustuveg meðfram henni frá niðurdælingarsvæði orkuversins, vestan við fellið Þorbjörn, og 20 m út fyrir meðalstórstraumsfjöru í Arfadalsvík, vestan Grindavíkur, alls um 4,5 km leið. Tekið var fram að áætlað væri að alls myndi raskast um 15 m breitt belti á lagnaleiðinni en talið væri að framkvæmdin myndi ekki hafa umtalsverð neikvæð umhverfisáhrif í för með sér.

Skipulagsstofnun leitaði lögbundins álits Grindavíkurbæjar, Fornleifaverndar ríkisins, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar vegna framkvæmdarinnar með bréfum, dags. 25. júlí 2012. Stofnuninni bárust umsagnir og svör álitsgjafa í ágústmánuði s.á. Var það álit Grindavíkurbæjar, Fornleifaverndar ríkisins og Hafrannsóknastofnunar að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja og Umhverfisstofnun töldu framkvæmdina háða mati á umhverfisáhrifum en Orkustofnun tók ekki afstöðu til matsskyldu. Var framkvæmdaraðila gefinn kostur á að koma að upplýsingum og athugasemdum vegna umsagnanna og að þeim fengnum taldi Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum en Umhverfisstofnun ítrekaði í bréfi sínu, dags. 9. október s.á., að það væri álit stofnunarinnar að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum.

Lögbundin ákvörðun Skipulagsstofnunar um matið lá fyrir hinn 23. nóvember 2012. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli þeirra gagna sem lögð voru fram af hálfu framkvæmdaraðila við tilkynningu, auk umsagna og viðbragða framkvæmdaraðila við þeim, væri ekki líklegt að lagning fráveitu fyrir orkuverið í Svartsengi frá niðurdælingarsvæði og til sjávar hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir. 

Málsrök Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands: Af hálfu kærenda er bent á að framkvæmdin muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt skilgreiningu laga um mat á umhverfisáhrifum og valda óafturkræfum spjöllum á eldhrauni, auk þess sem lögnin muni fara um tvö svæði sem séu á náttúruminjaskrá. Af því leiði að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. og 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. 

Áhrif á jarðmyndanir og náttúruminjasvæði séu umtalsverð, óafturkræf og töluvert alvarlegri en framkvæmdaraðili haldi fram. Lýsing framkvæmdaraðila á fyrirhugaðri lagnaleið á landi, sem Skipulagsstofnun leggi til grundvallar í niðurstöðu sinni, sé bæði villandi og að hluta til röng. Framkvæmdaraðili geri eins mikið og unnt sé úr því raski í hrauninu sem þegar sé orðið og lítið úr þeim köflum hraunsins sem ósnortnir séu. Komist framkvæmdaraðili að því að alls liggi um 1500 m leiðarinnar um ,,lítt snortið og á köflum úfið hraun“ en að mati kærenda liggi nánast öll leiðin um lítt snortið eða ósnortið hraun. Hraunið sé eldhraun og njóti sem slíkt verndar skv. 37. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999 og sé hluti þess á náttúruminjaskrá, en sérstaklega beri að líta til þessara atriða við ákvörðun um matsskyldu skv. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Bent sé á að engin sérfræðiskýrsla um jarðmyndanir og verndargildi þeirra hafi verið lögð fram en telja verði að það hefði verið eðlilegt í ljósi þess að bæði framkvæmdaraðili og Skipulagsstofnun álíti að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar snúi einkum að raski á jarðmyndunum. Skipulagsstofnun hafi borið að kalla eftir slíkri skýrslu í ljósi þessa álits stofnunarinnar og þeirrar verndar sem hraun á svæði framkvæmdarinnar njóti skv. 37. gr. náttúruverndarlaga.

Samkvæmt 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum beri að skoða áhrif framkvæmdar í ljósi viðmiðana sem þar komi fram, einkum með tilliti til nokkurra þátta, þ.m.t. þess hverjar líkur séu á áhrifum, sbr. lið iii. í 3. lið viðaukans. Að mati kærenda gefi það auga leið að ef óvissa sé mikil ætti það að ýta undir að framkvæmd fari í mat á umhverfisáhrifum svo draga megi úr óvissunni með frekari upplýsingaöflun og rannsóknum. Í fyrirliggjandi máli séu fjölmargir óvissuþættir um umhverfisáhrif umræddrar framkvæmdar, þ.e. áhrif á lífríki í fjöru og sjó við útfall fráveitunnar og nærliggjandi svæði vegna efna í affallsvatni og hitastigs þess. Gögn skorti hins vegar til að fullyrða á nokkurn hátt um möguleg umhverfisáhrif affallsvatns á lífríki í Arfadalsvík. Varðandi áhrif framkvæmdarinnar á fuglalíf á svæðinu sé tekið fram að þar finnist m.a. sex fuglategundir á válista og að fyrir liggi of litlar upplýsingar um lífríki svæðisins og of mikil óvissa sé um áhrif affallsvatns á það svo hægt sé að fullyrða að áhrifin verði ekki veruleg. Þá sé erfitt að meta hvaða áhrif hitabreytingar vegna fráveitunnar og efni í affallsvökva muni hafa á lífríkið þar sem lífríki svæðisins hafi ekki verið rannsakað nægilega vel. Hafa beri í huga að þrátt fyrir að styrkur flestra efna í affallsvökvanum sé svipaður og í sjónum sé um gríðarlega mikið magn af vökva að ræða sem renni inn á svæðið daglega og geti safnast upp í lífríkinu. Þá hafi ekki verið getið hitastigsmunar við samanburð á útfalli Reykjanesvirkjunar og útfallsins í Arfadalsvík. Of mikil óvissa sé um áhrif framkvæmdarinnar á lífríki fjöru og sjávar í Arfadalsvík til að hægt sé að fullyrða að áhrifin séu ekki umtalsverð, líkt og Skipulagsstofnun geri í niðurstöðu sinni.

Tekið sé undir umsagnir Umhverfisstofnunar frá 31. ágúst og 9. október 2012. Stofnunin geri athugasemdir við þau vinnubrögð framkvæmdaraðila að setja umhverfisáhrifin fram sem einfalt flatarmál og telji að áhrifin verði mun umfangsmeiri og einskorðist ekki við lagnarstæðið. Að lokum geri stofnunin alvarlegar athugasemdir vegna óvissu sem ríki um áhrif framkvæmdarinnar á lífríki í fjöru og sjó og ítreki að Arfadalsvík sé á náttúruminjaskrá.  

Ljóst sé af 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og leiðbeiningum Skipulagsstofnunar þar um að andi laganna sé á þá leið að skoða skuli fleiri en einn kost framkvæmdar þó að það eigi ekki beint við fyrr en við gerð matsáætlunar og frummatsskýrslu. Ekki verði fallist á þau rök framkvæmdaraðila fyrir hinni völdu lagnaleið að fyrirhugað sé að samnýta leiðina fyrir virkjun í Eldvörpum, sem einnig sé í aðalskipulagi Grindavíkurbæjar, þar sem mikil óvissa sé um nýtingu þar. Fram komi í fyrirspurnarskýrslu framkvæmdaraðila að aðrar lagnaleiðir hefðu verið skoðaðar lítilsháttar en það hafi ekki talist fýsilegt að leggja lögn með Grindavíkurvegi, m.a. vegna hæðarbreytinga sem myndu kalla á dælingu, auk þess sem lagnaleið yrði lengri miðað við fyrirhugaða útrás í Arfadalsvík. Kærendur leggi áherslu á það að með því að lagnaleiðin fylgi vegi megi koma í veg fyrir spjöll á viðkvæmu og lítt snortnu hrauninu, sem verði fyrir óafturkræfum umhverfisáhrifum á þeirri leið sem framkvæmdaraðili kjósi að setja fram. Lengri og dýrari útfærsla framkvæmdarinnar eigi ekki að koma í veg fyrir að sá kostur sé settur fram. Þá hafi ekki verið kannað hverju það myndi breyta að hafa lögnina ofanjarðar. 

Samkvæmt 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum séu tilteknar framkvæmdir ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum og vísi kærendur til 18. liðar sem hljóði svo: ,,Leiðslur sem eru 1 km eða lengri og 50 sm í þvermál eða meira til flutnings á gasi eða vökvum sem eru eldfimir eða hættulegir umhverfi.“ Fyrirhuguð fráveitulögn sé um 4,5 km löng og 50 cm í þvermál og uppfylli hún því stærðarviðmið 18. liðar. Þar að auki sé affallsvökvinn hættulegur umhverfinu, þ.e. skaðlegur lífríki sökum hita og mögulegrar uppsöfnunar efna, sérstaklega arsens, í lífverum. Af því leiði að framkvæmdin eigi ávallt að lúta mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar sé byggð á því að framkvæmdin heyri undir lið 13.a. í 2. viðauka laganna en kærendur telji ljóst að hún falli undir 1. viðauka, líkt og áður segi. Verði að telja ljóst að framkvæmdin ein og sér sé nægilega stór og umfangsmikil til að uppfylla öll skilyrði 18. liðar 1. viðauka og eigi það að vega þungt sem rökstuðningur fyrir því að framkvæmdin lúti mati á umhverfisáhrifum. Ekki sé tekið tillit til þessa í greinargerð Skipulagsstofnunar. Þá komi Skipulagsstofnun með ákvörðun sinni í veg fyrir að markmið laga um mat á umhverfisáhrifum nái fram að ganga í tengslum við umrædda framkvæmd. Hafi stofnunin með ákvörðuninni gert óvirk þau mikilvægu tæki almennings til áhrifa á stórar framkvæmdir, sem geti haft mikil áhrif á íslenska náttúru og íslenskt samfélag, en það verði að teljast afar bagalegt í ljósi stærðar framkvæmdarinnar og aukins skilnings stjórnvalda á þátttöku fólks í ákvörðunarferlum sem lúti að umhverfismálum, sbr. innleiðingu Árósasamningsins.

Kærendur telji niðurstöðu Skipulagsstofnunar ekki standast nánari skoðun og með henni sé lítið gert með umsögn Umhverfisstofnunar hvað varði áhrif framkvæmdar á jarðminjar og óvissu vegna áhrifa á fjöru- og sjávarlíf. Varúðarregla umhverfisréttar feli í sér þá hugsun að ekki skuli skýla sér á bak við vísindalega óvissu til að forðast varúðarráðstafanir í þágu umhverfisins. Vísað sé til reglunnar í ýmsum alþjóðasamningum sem Ísland sé aðili að og á nokkrum sviðum íslensks umhverfisréttar sé byggt á reglunni. Skipulagsstofnun gangi þvert á megininntak varúðarreglunnar með ákvörðun sinni en minnka mætti vísindalega óvissu með því að fráveitan frá Svartsengi færi í umhverfismat.

Málsrök Fuglaverndarfélags Íslands: Félagið bendir á að Arfadalsvík sé afar lífríkt svæði á náttúruminjaskrá. Sú ályktun Skipulagsstofnunar, sem ákvörðunin sé byggð á, að líklega verði lítil áhrif af framkvæmdinni á lífríki, séu hreinar ágiskanir og ekki byggðar á neinum haldbærum rökum. Enn vanti lykilupplýsingar um lífríki svæðisins og sé umhverfismat nauðsynlegt áður en nokkrar framkvæmdir verði hafnar. Athuga þurfi hvort fuglategundir á svæðinu séu á válista og taka þurfi tillit til sérstöðu fuglalífs á fartíma og sérstöðu svæðisins sem vetrarbúsvæðis. Þá sé lagt til að annar staður verði fundinn fyrir fráveitu affallsvatnsins, t.d. vestan við svæðið sem sé á náttúruminjaskrá, þar sem sé mun brimasamara og minni hætta á mengun af völdum vatnsins.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Stofnunin bendir á greinargerð með frumvarpi til laga um náttúrvernd, sem lagt hafi verið fram á 141. löggjafarþingi 2012-2013, þar sem fram komi að verndargildi hrauna lækki við veðrun og eldhraun njóti ekki sérstakrar verndar ef þau séu að öllu leyti sandorpin eða hulin jarðvegi og gróðri og ekki sé lengur hægt að greina hvort um hraun sé að ræða. Sé þess getið að frumvarpið hafi tekið mið af umfangsmikilli vinnu fagaðila með þekkingu á náttúru landsins. Ljóst sé að verndargildi eldhrauna sé álitið mismunandi og minnki m.a. við veðrun og hversu hulin þau séu jarðvegi og gróðri eða sandi. Það hafi verið mat stofnunarinnar að apalhraun innan svæðis á náttúruminjaskrá, nyrst að fyrirhugaðri lagnaleið, hefði meira verndargildi en helluhraun á öðrum hluta hennar, sem að lengstum hluta séu þakin mosa og að einhverjum hluta sandorpin. Í 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum segi m.a. að meta eigi eiginleika hugsanlegra framkvæmda út frá umfangi þess svæðis sem verði fyrir umhverfisáhrifum. Stofnunin bendi á í ákvörðun sinni að fráveitulögn og þjónustuvegur með henni muni raska rúmlega 2 ha af lítt snortnu og úfnu hrauni á því svæði sem tilheyri svæði nr. 106 á náttúruminjaskrá, en með tilliti til stærðar svæðisins í heild sinni hefði hún ekki talið líklegt að umfang rasksins yrði umtalsvert mikið í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum. Auk þess myndi framkvæmdin ekki raska þeim sérstæðu jarðmyndunum sem tilgreindar séu sérstaklega í tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2009-2013. Vegna umfangs rasksins sé ekki líklegt að framkvæmdin hafi umtalsverð áhrif á hraunlandslag svæðisins sem landslagsheildar. Skipulagsstofnun beri að leita álits ýmissa aðila áður en hún taki ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar og leiti stofnunin undantekningarlítið umsagna Umhverfisstofnunar. Það sé hins vegar á ábyrgð Skipulagsstofnunar að taka ákvörðunina eftir að hafa vegið og metið sjónarmið álitsgjafa og sé bent á úrskurði umhverfisráðuneytisins þar sem m.a. sé fjallað um það að hvergi í lögum um mat á umhverfisáhrifum sé kveðið á um að þau álit sem Skipulagsstofnun afli séu bindandi. Því leiði efni umsagna ekki til afnáms á hinu skyldubundna mati stofnunarinnar þótt vafalaust geti þær haft meiri eða minni áhrif á niðurstöðu hennar um matsskyldu.

Hvað varði óvissu um áhrif framkvæmdar á lífríki fjöru og sjávar hafi framkvæmdaraðili lagt fram skýrslu Náttúrustofu Reykjaness um samantekt á upplýsingum um fuglalíf vestan Grindavíkur, með sérstöku tilliti til Arfadalsvíkur, þar sem fram komi að fuglafjöldi af flestum tegundum sé meiri vestan Grindavíkur en á öðrum svæðum á Reykjanesskaga og sérstaða svæðisins sé mest á fartímum og á veturna. Sex tegundir á válista Náttúrfræðistofnunar Íslands hafi fundist á svæðinu frá Fornuvík að Stað vestan Grindavíkur. Einnig hafi skýrsla Náttúrustofu Reykjaness og Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, sem fylgt hafi tilkynningu til Skipulagsstofnunar, gert grein fyrir kortlagningu fjörunnar við Arfadalsvík með tilliti til vistgerða. Þar komi fram að sjaldgæft sé að finna þangfjörur við suðurströnd landsins og þangfjaran í Arfadalsvík sé auðug af lífi og þar sé mikill lífmassi sem fyrst og fremst felist í massa þangs sem einkenni fjörurnar. Nánast engin dýr hafi fundist ofarlega í fjörunni en fjölbreytni og þéttleiki dýra hafi aukist eftir því sem neðar dró. Engra þeirra tegunda sé getið á válista samningsins um verndun Norðaustur Atlantshafsins sem Ísland sé aðili að. Þá hafi framkvæmdaraðili lagt fram spá um dreifingu affallsvökva í Arfadalsvík með tilliti til styrks arsens og hækkunar sjávarhita í víkinni og byggi straum- og efnisflutningalíkanið m.a. á nýjum gögnum Siglingastofnunar Íslands um dýpi þar. Forsendur fyrir spánni hafi verið 230, 300 og 550 kg/s rennsli, en samkvæmt gögnum málsins verði rennsli um útrás í víkinni að öllu jöfnu 100 til 150 kg/s með 40 µg/l styrk arsens og í undantekningartilfellum geti rennslið orðið tímabundið allt að 300 kg/s. Skipulagsstofnun telji að fyrirliggjandi grunnupplýsingar um lífríki Arfadalsvíkur og dreifispá hafi verið fullnægjandi til að meta möguleg neikvæð áhrif á lífríki í fjöru og sjó og hvort þau séu líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Svo hafi Hafrannsóknastofnun einnig talið, en helstu sérfræðiþekkingu varðandi efnafræði, lífríki og vistfræði sjávar við Ísland og hafstrauma við landið sé þar að finna. Sú stofnun hafi jafnframt bent á að brim og sterkur strandstraumur muni hjálpa til við að blanda og dreifa affallsvatninu til viðbótar hraðri þynningu og uppblöndun samkvæmt því, sem dreifilíkanið segi fyrir um. Skipulagsstofnun hafi einnig haft til hliðsjónar niðurstöður vöktunar á lífríki þar sem útfall frá Reykjanesvirkjun renni um fjöru til sjávar. Þar hafi affallið haft mikil áhrif þar sem það renni um fjöruna. Hins vegar dvíni áhrifin strax þaðan í frá og séu engin í 120 m fjarlægð. Bendi stofnunin í ákvörðun sinni á að affall frá orkuverinu Svartsengi verði í sjó neðan stórstraumfjöru þar sem virk blöndun og þynning taki strax við. Þó styrkur arsens sé hærri í affalli frá Svartsengi en frá Reykjanesvirkjun þá verði rennsli þaðan um 100 til 150 sekúndulítrar en sé um 4400 sekúndulítrar frá Reykjanesvirkjun. Hafi þekking á grunnþáttum lífríkis Arfadalsvíkur, spá um dreifingu mengunar, álit Hafrannsóknastofnunar og reynsla af áhrifum affalls frá Reykjanesvirkjun verið fullnægjandi til þess að spá fyrir um umhverfisáhrif hinnar umdeildu framkvæmdar og hvort líkur væru til þess að hún myndi hafa umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.  

Þegar um sé að ræða matsskylda framkvæmd skuli framkvæmdaraðili gera grein fyrir þeim kostum sem til greina komi og bera saman umhverfisáhrif þeirra en svo sé ekki þegar um ákvörðun um matsskyldu sé að ræða.

Skipulagsstofnun bendi á að í 18. tl. í 1. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum séu tilgreindar leiðslur sem séu 1 km eða lengri og 50 cm í þvermál eða meira til flutnings á gasi eða vökvum sem séu eldfimir eða hættulegir umhverfi. Hvergi sé að finna útskýringu á töluliðnum, hvorki í lagaskýringum né túlkun Evrópusambandsins á einstökum töluliðum. Þegar fjallað sé um hættuleg efni sé gjarnan vísað til efna sem falli undir reglugerð nr. 390/2009, um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum, eða reglugerð nr. 236/1990, um flokkun og merkingu eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda sem innihalda slík efni, en ljóst sé að affallsvatnið falli ekki þar undir. Einnig sé vert að skoða að í síðarnefndu reglugerðinni séu sum efni flokkuð sem hættuleg umhverfinu. Fyrrgreindur affallsvökvi, sem sé heitt vatn, falli ekki í þann flokk. Lög um mat á umhverfisáhrifum eigi sér rætur í tilskipun Evrópusambandsins nr. 85/337/EEC. Fyrirmynd áðurgreinds 18. tl. sé 16. tl. í tilskipuninni en Alþingi hafi notfært sér heimild til að lækka stærðarþröskulda og því miðað við minna þvermál og lengd í íslensku lögunum. Athygli veki hvernig farið sé með hugtakið „chemicals“ í íslensku lögunum. Augljóst sé að í tilskipuninni sé ekki átt við öll efni, því þar með hefði verið óþarft að tilgreina gas og olíu sérstaklega. Mögulegt sé að skoða hvernig hugtakið sé túlkað í 6. gr. tilskipunarinnar, þar sem tilgreind er efnaframleiðsla sem sé háð mati á umhverfisáhrifum. Þar sé hugtakið notað yfir framleiðslu á tilbúnum efnum af ýmsum toga og það sé því að mati stofnunarinnar langsótt að hugtakið „chemicals“ í tilskipuninni eigi við vatn þó það sé mjög heitt og innihaldi mikið af uppleystum efnum. Teljist frárennslisvatn frá jarðhitavirkjun því ekki hættulegt umhverfinu í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum eða reglugerða sem tilgreini slíkan flokk efna.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili telur ekki efnisleg rök fyrir kærunum. Unnið hafi verið að lausn fráveitumála í Svartsengi í nokkur ár í samræmi við kröfu í starfsleyfi og með hliðsjón af starfsemi Bláa Lónsins. Lausnir hafi verið mótaðar í samvinnu við Grindavíkurbæ sem hafi skipulagsvald á svæðinu. Fráveita til sjávar sé talin sú lausn sem leysi til frambúðar vanda með fráveitu affallvatns. Fráveitumál séu beintengd framleiðslu í orkuverinu í Svartsengi og þar með framleiðslu fyrir hitaveitu þéttbýlis á svæðinu þar sem aukin þörf sé á hitaveituvatni. Brýnt sé því að koma fráveitulögn í framkvæmd eins fljótt og hægt sé. Áréttað sé að útrásarstaður lagnar sé ekki í innsta hluta Arfadalsvíkur, þar sem fuglar spóki sig í tiltölulega kyrru flæðarmáli, heldur nokkuð utarlega í stórgrýttri smávík þar sem brims gæti mun meira og aðstæður fyrir fugla séu mun síðri en innst í víkinni þar sem sjór sé hvað kyrrastur.

Lögnin muni liggja um eldhraun sem njóti verndar en lagnaleiðin sé valin með það í huga að hún liggi eins og kostur er eftir þegar röskuðu landi og þar með talið hrauni. Fylgi lagnaleiðin vegslóða og girðingarstæði á um 1700 m kafla en á um 1500 m kafla um lítt snortið og á köflum úfið hraun. Lagnaleiðin liggi um svæði sem skilgreint sé sem iðnaðarsvæði í Aðalskipulagi Grindavíkur 2010-2030, en á hluta leiðarinnar sé skipulagi frestað. Sé lagnaleiðin í samræmi við stefnumörkun sveitarfélagsins. Framkvæmdaraðili meti það svo að lagnaleiðin sé í samræmi við viðmið 37. gr. náttúruverndarlaga, þar sem segi að eldhraun skuli njóta sérstakrar verndar og forðast skuli röskun þeirra eins og kostur sé. Frá niðurdælingarsvæðinu sé ekki kostur á lagnaleið sem valda myndi minna raski. Áhrif séu beint óafturkræft rask á hrauninu og nái til um 6 ha lands. Víða á og við lagnaleiðina megi sjá ummerki mannlegra athafna og því ekki hægt að lýsa svæðinu sem ósnortnu, en minnst séu ummerkin um miðbik lagnaleiðarinnar. Sé það mat framkvæmdaraðila að framkvæmdin muni hafa neikvæð áhrif á eldhraun en þess hafi verið gætt að lágmarka raskið eins og kostur sé í samræmi við 37. gr. náttúruverndarlaga.

Lagnaleiðin liggi að hluta um tvö svæði sem séu á náttúruminjaskrá. Á um 1800 m kafla liggi lagnaleiðin innan svæðisins Reykjanes, Eldvörp, Hafnaberg, sem sé um 113 km² að flatarmáli og á náttúruminjaskrá vegna sérstæðra jarðmyndana og fuglalífs við ströndina. Mat framkvæmdaraðila sé að framkvæmdin muni ekki valda verulegum neikvæðum áhrifum á svæðið. Ströndin vestan Grindavíkur sé á náttúruminjaskrá vegna fjölbreytts strandgróðurs og fjölskrúðugs fuglalífs en varanlegt rask verði mjög afmarkað innan svæðisins. Gangandi umferð verði eftir sem áður greið og lítil umsvif fylgi rekstri útrásarinnar. Verði því ekki fallist á að um umtalsvert rask verði að ræða eða neikvæð áhrif á fuglalíf.

Í greinargerð matsskyldufyrirspurnar sé því lýst að nokkur óvissa sé um áhrif affallsins á lífríki sjávar og fjöru og sé þess vegna gert ráð fyrir að sett verði af stað vöktun til að fylgjast með mögulegri uppsöfnun þungmálma í lífríki. Með því sé verið að taka á þessari óvissu um möguleg áhrif og sé undirbúningur slíkrar vöktunar í samráði við Hafrannsóknastofnun og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja. Þá verði að geta þess að komin sé nokkur reynsla af áhrifum af útrás Reykjanesvirkjunar þar sem affallsvökva sé veitt til sjávar. Hins vegar sé gengið lengra í frágangi affallslagnar frá Svartsengi þar sem útrásarop verði undir stórstraumsfjöruborði og neikvæðra áhrifa gæti síður í umhverfi útrásarstaðar.

Gerð hafi verið grein fyrir því að fráveitulögn frá niðurdælingarsvæði og til sjávar muni hafa neikvæð áhrif á hraun og landslag sem og á tvö svæði á náttúruminjaskrá. Það sé mat framkvæmdaraðila að umhverfisáhrifin geti ekki talist umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum og að mat á umhverfisáhrifum muni ekki veita frekari svör um möguleg umhverfisáhrif en þegar liggi fyrir.

Athugasemdir Grindavíkurbæjar: Bent er á að umrædd framkvæmd sé í samræmi við stefnu í greinargerð gildandi Aðalskipulags Grindavíkur 2010-2030. Jafnframt sé í undirbúningi breyting á aðalskipulagi þar sem gerð sé frekari grein fyrir legu fráveitulagnarinnar á sveitarfélagsuppdrætti og sé sú lega í samræmi við framkvæmdina eins og hún hafi verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar. 

Framkvæmdin sé mikilvæg og aðkallandi þar sem hún færi affallsmál Svartsengis og Bláa lónsins til betri vegar með varanlegri lausn. Sveitarfélagið hafi lagt á það áherslu að til framtíðar verði sá hluti affalls orkuversins sem ekki sé dælt niður í djúpkerfi leitt til sjávar. Að því leyti muni áhrif framkvæmdarinnar því verða jákvæð á svæðið í kringum Svartsengi og Bláa lónið.

Um sé að ræða afmarkað framkvæmdarsvæði innan stórra svæða á náttúruminjaskrá og séu áhrif framkvæmdarinnar á alla umhverfisþætti þekkt. Jafnframt sé gert ráð fyrir vöktun á áhrifum á lífríki til lengri tíma. Því sé ekki ástæða til þess að mati sveitarfélagsins að framkvæmdin sé háð mati á umhverfisáhrifum.   

——–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.
 
Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 30. júní 2014.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um hvort lagning um 4,5 km langrar fráveitulagnar, sem er 500 mm að þvermáli og leiða mun affallsvatn frá niðurdælingarsvæði orkuversins í Svartsengi til sjávar, ásamt þjónustuvegi, skuli háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, en í ákvörðun sinni frá 23. nóvember 2012 komst Skipulagsstofnun að því að svo væri ekki.

Samkvæmt 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, svo sem henni var breytt með 25. gr. laga nr. 131/2011, sæta ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sem falla undir 2. viðauka við lögin, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að ákveða að umrædd fyrirhuguð framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum, verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt.

Í 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er gerð grein fyrir markmiðum laganna. Eiga þau m.a. að tryggja að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Jafnframt er það meðal annarra markmiða laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Í 1. viðauka við lögin eru taldar framkvæmdir sem ávallt eru háðar mati á umhverfisáhrifum en í 2. viðauka eru taldar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Er þá metið í hverju tilviki, með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar, hvort þær skuli háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum. Eru þar á meðal taldar breytingar og viðbætur við framkvæmdir skv. 1. og 2. viðauka sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. tl. 13. a. Tilkynnti framkvæmdaraðili áform sín til Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum með vísan til framangreinds tl. 13. a.

Kærendur halda því m.a. fram að fyrirhuguð framkvæmd falli undir 18. tl. 1. viðauka og beri því fortakslaust að meta umhverfisáhrif hennar. Framkvæmdir sem þar eru taldar fela í sér „… leiðslur sem eru 1 km eða lengri og 50 sm í þvermál eða meira til flutnings á gasi eða vökvum sem eru eldfimir eða hættulegir umhverfi“. Óumdeilt er að lögn sú er hér um ræðir uppfyllir stærðarviðmið ákvæðisins. Þá getur affallsvatn það sem leitt verður með lögninni verið hættulegt umhverfi sínu sökum hita og mettunar. Ýmis þau efni er að finna í náttúrunni sem geta verið skaðleg umhverfi sínu án þess að fullyrt verði að þau falli undir nefnt ákvæði. Í því sambandi verður ekki fram hjá því litið að í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um mat á umhverfisáhrifum er tekið fram að ákvæðið sé efnislega samhljóða 16. tl. 1. viðauka tilskipunar Evrópusambandsins nr. 85/337/EEC, eins og henni var breytt með tilskipun nr. 97/11/EB, en ljóst er af hugtakanotkun tilskipunarinnar að tilgangurinn er fyrst og fremst sá að töluliðurinn taki til flutnings efna og efnablanda, sem notuð séu á sértækan efnafræðilegan átt eða búin séu til, t.d. í efnaferlum. Er það álit úrskurðarnefndarinnar að flutningur affallsvatns falli því ekki undir nefndan tölulið og vísar nefndin enn fremur til þess að ekki er að sjá að affallsvatn teljist hættulegt efni í skilningi íslenskrar löggjafar að öðru leyti, enda virðist það ekki að finna á opinberum listum yfir hættuleg efni, sbr. t.d. reglugerð nr. 236/1990, um flokkun og merkingu eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda sem innihalda slík efni, m.s.br. Var því réttilega staðið að hinni kærðu ákvörðun með því að líta á fyrirhugaða framkvæmd sem viðbót við þegar leyfða framkvæmd, sbr. tl. 13. a. í 2. viðauka laganna.

Hvað varðar athugasemdir kærenda þess efnis að skoða skuli fleiri en einn kost framkvæmdar, að teknu tilliti til anda laga um mat á umhverfisáhrifum, er á það bent að þegar um mat á umhverfisáhrifum er að ræða er tekið fram í 2. mgr. 9. gr. laganna að í frummatsskýrslu skuli ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Slíka skyldu er hins vegar ekki að finna í lögunum þegar um er að ræða framkvæmd sem ekki er háð mati á umhverfisáhrifum, en það var einmitt niðurstaða hinnar kærðu ákvörðunar. Ber og að athuga að framkvæmdaraðila hefur, m.a. í dómaframkvæmd, verið játað ákveðið forræði á því hvaða framkvæmdakostir uppfylli markmið framkvæmdar, að því gefnu að mat hans sé reist á hlutlægum og málefnalegum grunni. Liggur ekki fyrir annað en að svo sé, að teknu tilliti til þess að tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum fylgdu þær upplýsingar sem 10. gr. reglugerðar nr. 1123/2005, um mat á umhverfisáhrifum, áskilur að grein sé gerð fyrir. Þar er því lýst að ýmsar aðrar leiðir en affallslögn til sjávar hafi verið skoðaðar við förgun affallsvökvans. Hins vegar hafi ekki tekist að tryggja öryggi þeirrar förgunar og aðrar leiðir ekki gefið fyrirheit um árangur til lengri tíma. Þá er öðrum kostum um lagnaleið lýst stuttlega og ástæðum þess að þeir kostir þættu ekki fýsilegir, t.d. vegna þarfar á dælingu og lengri lagnaleiðar. Hvað varðar nefndar ástæður fyrir framkvæmd þeirri er um ræðir er því gerð ítarleg skil í hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar að ágreiningur sé til staðar á milli Orkustofnunar og framkvæmdaraðila um hvort nýting þess síðarnefnda á frumorku sé meiri en gert hafi verið ráð fyrir í umsókn um virkjunarleyfi. Aflaði Skipulagsstofnun því álits Orkustofnunar um það hvort þörf fyrir hina umdeildu framkvæmd væri alfarið að rekja til meintrar aukinnar upptöku jarðhitavökva umfram leyfi. Með hliðsjón af áliti Orkustofnunar taldi Skipulagsstofnun ljóst að a.m.k. 60% af fráveituvökvanum sem leiða ætti til sjávar væru til komin vegna annarra þátta en mögulegrar upptöku jarðhitavökva umfram leyfi. Verður ekki annað séð en að Skipulagsstofnun hafi með þessu rannsakað hvort að þörf væri á framkvæmdinni, hverjar ástæður lægju þar að baki og komist að rökstuddri niðurstöðu þar um.

Samkvæmt o. lið 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum eru umhverfisáhrif umtalsverð ef um er að ræða „Veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“ Við ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar sem tilgreind er í 2. viðauka ber Skipulagsstofnun að fara eftir viðmiðum í 3. viðauka við lögin, en þar eru taldir þeir þættir sem líta ber til. Er þar fyrst tiltekið að athuga þurfi eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til stærðar og umfangs hennar, sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum, nýtingar náttúruauðlinda, úrgangsmyndunar, mengunar, ónæðis og slysahættu, sbr. 1. tl. Þá ber og að líta til staðsetningar framkvæmdar og þar skal athuga hversu viðkvæm þau svæði eru sem líklegt er að framkvæmd hafi áhrif á, einkum með tilliti til landnotkunar, magns, gæða og getu til endurnýjunar náttúruauðlinda, verndarsvæða og álagsþols náttúrunnar, sbr. 2. tl. undir liðum i., ii., iii og iv. Vegna verndarsvæða er meðal annars vísað til friðlýstra náttúruminja og svæða sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd, svæða innan 100 m fjarlægðar frá fornleifum sem njóta verndar samkvæmt þjóðminjalögum, svæða sem njóta verndar samkvæmt samþykktum alþjóðlegra samninga sem Ísland er bundið af, og falli válistar hér undir, sem og hverfisverndarsvæða. Um álagsþol náttúrunnar er tekið fram að viðkvæmni svæðis skuli athuga með tilliti til m.a. strandsvæða, sérstæðra jarðmyndana, náttúruverndarsvæða, þar með talið svæða á náttúruminjaskrá, landslagsheilda, fuglabjarga og annarra kjörlenda dýra. Loks ber að líta til eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar í ljósi áðurnefndra viðmiðana, sbr. 3. tl., einkum með tilliti til umfangs, óafturkræfi og sammögnunar umhverfisáhrifa sem og hverjar líkur séu á þeim o.fl. Ljóst er að áðurgreindir þættir koma til álita í máli þessu, en eins og áður segir afmarkast athugun nefndarinnar við málsmeðferð og lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar.

Óumdeilt er að framkvæmdin mun hafa áhrif á jarðmyndanir, þ.m.t. eldhraun, sem njóta verndar samkvæmt 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999, og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Kemur og fram í hinni kærðu ákvörðun að Skipulagsstofnun telur að helstu áhrif framkvæmdarinnar verði einkum á jarðmyndanir og muni um 6 ha af hrauni verða raskað varanlega og óafturkræft. Fyrir liggur að hluti hraunsins, eða 2-2½ af 6 ha, er á náttúruminjaskrá, en skv. 68. gr. náttúruverndarlaga er á henni að finna friðlýstar náttúruminjar, náttúruminjar sem ástæða þykir til að friðlýsa samkvæmt náttúruverndaráætlun og aðrar náttúruminjar, þ.e. landsvæði, náttúrumyndanir og lífverur, búsvæði þeirra, vistgerðir og vistkerfi sem rétt þykir að vernda. Ekki verður séð að neinar ákvarðanir hafi verið teknar um friðlýsingu umrædds svæðis eða vernd umfram það sem hér er lýst, en í náttúruverndaráætlunum 2004-2008 og 2009-2013 var gerð tillaga um friðlýsingu þess. Í Aðalskipulagi Grindavíkur 2010-2030 kemur fram að Grindavíkurbær er víðlendasta sveitarfélagið á Suðurnesjum og nær það yfir um 445 km². Jafnframt kemur þar fram að mikil auðævi felist í stórbrotinni náttúru landsins og séu um 85% þess háð einhvers konar verndun vegna sérstöðu sinnar. Þá segir í aðalskipulaginu að fráveita frá Svartsengi og Eldvarpasvæði verði leidd í sjó vestan þéttbýlis í Grindavík og muni hún fara um svæði á náttúruminjaskrá. Fyrirhuguð lögn liggur frá niðurdælingarsvæði innan svæðis, sem í aðalskipulaginu er lýst sem iðnaðarsvæði vestan Grindavíkur og Svartsengis (233 ha). Liggur hún að mestu um það svæði sem og annað iðnaðarsvæði sem aðalskipulag staðsetur sunnan þess (100 ha). Þar í milli liggur 208 ha svæði sem merkt er „skipulagi frestað“. Þrátt fyrir að um óafturkræf umhverfisáhrif sé að ræða telur úrskurðarnefndin, með hliðsjón af stærð þess svæðis sem raskað er, ekki ástæðu til þess að hnekkja því mati Skipulagsstofnunar að áhrifin teljist ekki umtalsverð í skilningi o. liðar 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Áréttar úrskurðarnefndin í því sambandi að upplýst er um afleiðingar og umfang fyrirhugaðra framkvæmda á jarðmyndanir, en tilgangur mats á umhverfisáhrifum er einmitt m.a. að slíkt sé upplýst.

Í áliti Umhverfisstofnunar frá 31. ágúst 2012 kemur fram að stofnunin telji að líta beri til sammögnunaráhrifa framkvæmda á nærliggjandi svæðum og tekur Skipulagsstofnun fram í niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar að áform séu um frekari framkvæmdir til orkuvinnslu við Eldvörp og að fyrirhugaður þjónustuvegur vegna fráveitulagnarinnar verði síðar breikkaður og byggður upp til að þjóna betur umfangsmeiri starfsemi á svæðinu. Þá gerir Aðalskipulag Grindavíkur 2010-2030, sem lá fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar, ráð fyrir uppbyggingu iðnaðar á svæðinu. Af áðurgreindu er ljóst að Skipulagsstofnun hefur litið til mögulegra sammögnunaráhrifa og haft vitneskju um að búast megi við frekara raski á svæðinu en metið það svo að ekki væri um umtalsverða aukningu umhverfisáhrifa að ræða. Þrátt fyrir að framkvæmdin sé sú fyrsta í mögulegri röð framkvæmda telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til að endurskoða það mat stofnunarinnar, einkum með hliðsjón af því að fyrir lágu skipulagsáætlanir sveitarfélagsins og þar með mat þess á þeim mismunandi hagsmunum sem eiga rætur sínar að rekja til náttúruverndarsjónarmiða annars vegar og nýtingarsjónarmiða hins vegar. Er í því sambandi rétt að árétta að sveitarfélagið er einnig framkvæmdaleyfisveitandi og að mat skv. lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana fór fram vegna aðalskipulagsins.

Í máli þessu er og deilt um möguleg áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á lífríki fjöru og sjávar sem og fuglalíf á svæðinu. Er því haldið fram af hálfu kærenda að of mikil óvissa ríki um möguleg áhrif framkvæmdarinnar á þessa þætti til að láta megi hjá líða að gera mat á umhverfisáhrifum. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar lágu fyrir Skipulagsstofnun gögn framkvæmdaraðila, m.a. um lífríki fjöru og sjávar, samantekt um fuglalíf á svæðinu og spá um dreifingu arsens frá fyrirhugaðri útrás. Þá lágu fyrir lögbundnar umsagnir Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og Umhverfisstofnunar, eins og nánar er í lýst í málavöxtum. Taldi Umhverfisstofnun að meta skyldi umhverfisáhrif framkvæmdarinnar en niðurstaða heilbrigðiseftirlitsins og Hafrannsóknastofnunar var að svo skyldi ekki vera þrátt fyrir að gerðar væru ýmsar athugasemdir. Tekur Skipulagsstofnun og fram í hinni kærðu ákvörðun að tekið sé undir nánar greindar athugasemdir umsagnaraðila og að full ástæða sé til að gera ráðstafanir til að spilla lífríki eins lítið og mögulegt sé. Er þar jafnframt gerð grein fyrir nefndum álitum umsagnaraðila. Þá er rakið hverjar forsendur lágu að baki þeirri niðurstöðu stofnunarinnar að fyrirhuguð framkvæmd væri, þrátt fyrir þetta, ekki líkleg til þess að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á lífríki sjávar og fjöru við Arfadalsvík. Úrskurðarnefndin telur einsýnt af lestri gagnanna að einhver óvissa ríki um áhrif framkvæmdarinnar. Umsagnaraðilar þeir sem hér um ræðir hafa allir til að bera sérfræðiþekkingu á því sviði sem á reyndi en niðurstöður þeirra voru ekki á sama veg. Af því tilefni er rétt að taka fram að álits umsagnaraðila er almennt aflað sem hluta af rannsókn máls með það að markmiði að það sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðunarvaldið um það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum hvílir hins vegar hjá Skipulagsstofnun skv. 2. mgr. 4. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Með vísan til framangreinds verður ekki annað séð en að fyrir Skipulagsstofnun hafi legið þær upplýsingar um lífríki í fjöru og sjó sem nægjanlegar voru til að meta hvort framkvæmdin myndi hafa í för með sér „[v]eruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“ og teljast þannig umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi o. liðar 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.

Úrskurðarnefndin áréttar að framkvæmd sú er um ræðir er háð framkvæmdaleyfi og starfsleyfi og að aðstæður allar, sem og athugasemdir Skipulagsstofnunar og umsagnaraðila, geta gefið leyfisveitendum tilefni til að binda slík leyfi skilyrðum um vöktun, mótvægisaðgerðir og viðbragðsáætlanir skv. 4. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, sbr. 3. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2012, og skv. 15. gr. reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Svo sem að framan er rakið er enga þá annmarka að finna á hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar er raskað geta gildi hennar og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar Skipulagsstofnunar, dags. 23. nóvember 2012, um að lagning fráveitu frá niðurdælingarsvæði orkuversins í Svartsengi til sjávar skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum skv. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Geir Oddsson

____________________________              ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Þóra Árnadóttir

31/2014 Brautarholt

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 7. ágúst, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 31/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp, til bráðabirgða, svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. apríl 2014, sem barst nefndinni 16. s.m., kærir Hjörleifur B. Kvaran hrl., f.h. Húsfélags Ásholts 2-42 vegna eigenda 66 eignarhluta nefndrar fasteignar,, samþykkt borgarráðs frá 20. febrúar 2014 um breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 7 við Brautarholt. 

Gera kærendur þá kröfu að samþykkt borgarráðs verði felld úr gildi en einnig er farið fram á að yfirvofandi framkvæmdir á nefndri lóð verði stöðvaðar til bráðabirgða með vísan til 5. gr. laga nr. 130/2011. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.
Málsatvik og rök: Á árinu 1987 var samþykkt deiliskipulag fyrir reit sem markast af Laugavegi, Mjölnisholti, Brautarholti og Ásholti. Þar var skipulagssvæðinu skipt upp í tvo hluta, þ.e. nyrðri hluta sem tekur til lóðarinnar Ásholts 2-42 og syðri hluta sem er lóðin Brautarholt 7. Gert var ráð fyrir bæði íbúðum og atvinnustarfsemi á hvoru svæði fyrir sig. Uppbygging á nyrðri hluta svæðisins gekk eftir en ekki hefur átt sér stað uppbygging á syðri hlutanum. Hinn 20. febrúar 2014 samþykkti borgarráð nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Brautarholt 7, sem tók gildi 28. mars s.á. með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagið gerir ráð fyrir að á lóðinni megi reisa 100 íbúðir fyrir nemendur með þjónustustarfsemi á hluta jarðhæðar.

Skírskota kærendur til þess að deiliskipulag lóðarinnar hafi verið auglýst á grundvelli áðurgildandi aðalskipulags og uppfylli því ekki kröfur þess aðalskipulags um bílastæði, en skv. 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 beri að auglýsa aðalskipulagsbreytingu áður eða samhliða deiliskipulagsbreytingu. Hafi kærendur mátt gera ráð fyrir að uppbygging á reitnum yrði í samræmi við þær skipulagssamþykktir sem giltu þegar hús kærenda voru byggð en skv. eldri skipulags- og byggingarreglugerðum var kveðið um að lágmarksfjöldi bílastæða skyldi vera eitt á hverja íbúð. Ekki hafi verið farið eftir samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs þar sem lagt hafi verið til að raunhæf áætlun yrði gerð til að bregðast við bílastæðamálum á svæðinu. Með efni hins kærða deiliskipulags sé brotið gegn meðalhófs- og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Reykjavíkurborg bendir á að núverandi aðalskipulag hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 26. febrúar 2014 en deiliskipulag fyrir Brautarholt 7 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 1. apríl s.á. Deiliskipulagið sé í fullu samræmi við hið nýja aðalskipulag Reykjavíkurborgar og þurfti því ekki að endurauglýsa það eða auglýsa aðalskipulagið samhliða umræddu deiliskipulagi. Hvorki í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 né byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé gerð lágmarkskrafa um fjölda bílastæða á hverja íbúð.  Við skipulagsgerðina hafi verið litið til samþykktar umhverfis- og skipulagsráðs varðandi bílastæðamál á svæðinu en ennþá sé unnið að áætlun um þau mál vegna Brautarholts 7. Staðan verði metin þegar íbúum hafi fjölgað og gerðar ráðstafanir í ljósi reynslunnar. Málsmeðferð og efni hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við skipulagslög, reglugerðir og stjórnsýslulög, þ.á.m. meðalhófs- og jafnræðisreglu þeirra laga. Við ákvörðun um fjölda bílastæða hafi verið tekið mið af stefnu gildandi aðalskipuilags í þeim efnum og því að svæðið sé í nágrenni við samgögnumiðstöð. Hafi það verið ein af ástæðum þess að ákveðið hafi verið að staðsetja stúdentaíbúðir á þeim stað.

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því.  Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt.  Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda
Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar tiltekinnar lóðar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfi í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13. 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr.  laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði sé ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.
Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda sem kunna að verða heimilaðar á grundvelli hins kærða deiliskipulags.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun er hafnað.

______________________________
Ómar Stefánsson

38/2013 Múlavirkjun

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 14. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 38/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi, dags. 5. apríl 2013, sem Skipulagsstofnun framsendi 16. s.m. til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, kærir G, Fellasneið 14, Grundarfirði, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að framkvæmd Múlavirkjunar skuli ekki vera háð mati á umhverfisáhrifum. Með hliðsjón af gögnum málsins verður að skilja kröfugerð kæranda svo að kærð sé ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. mars 2013 að hækkun uppsetts afls Múlavirkjunar, í Eyja- og Miklaholtshreppi, úr 1,9 MW í 3,2 MW og á vatnsborði Baulárvallavatns, sem orðið hefur vegna reksturs virkjunarinnar og í samræmi við tillögu um nýtt vatnsborðsskilyrði í virkjunarleyfi, sé ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þá sé gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Árið 2004 var gefið út virkjanaleyfi vegna framkvæmda við Múlavirkjun  en með ákvörðun 7. nóvember 2003 hafði Skipulagsstofnun komist að þeirri niðurstöðu að virkjunin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hinn 19. desember 2012 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Múlavirkjun ehf., samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.b. og lið 13 a í 2. viðauka laganna, um hækkun uppsetts afls Múlavirkjunar. Hinn 1. mars 2013 komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að nefnd hækkun uppsetts afls Múlavirkjunar í Eyja- og Miklaholtshreppi úr 1,9 MW í 3,2 MW og á vatnsborði Baulárvallavatns, sem orðið hefði vegna reksturs virkjunarinnar og í samræmi við tillögu um nýtt vatnsborðsskilyrði í virkjunarleyfi, væri ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og væri þar af leiðandi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærandi telur að með því að byggja umfangsmeiri virkjun en upphaflega stóð til hafi verið brotið gegn lögum um skipulags- og byggingarmál sem og lögum um mat á umhverfisáhrifum. Af þessum sökum sé hætt við því að virkjunin valdi tjóni á lífríki Straumfjarðarár sem og Baulárvallavatns. Hafi vatnsborð Baulárvallavatns hækkað umtalsvert og ekkert náttúrulegt rennsli sé nú í Straumfjarðará á milli vatnsins og lónsins við stífluna. Silungur sem hrygnt hafi í þessu straumvatni muni búa við breyttar aðstæður í framtíðinni vegna þessa. 

———-

Með bréfi, dags. 3. júní 2014, var athygli kæranda vakin á því að þeir einir gætu kært til úrskurðarnefndarinnar sem hefðu lögvarinna hagsmuna að gæta, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis-  og auðlindamála og var kæranda gefinn kostur á að koma skýringum þar um til nefndarinnar. Var frestur veittur til 1. júlí 2014 en engar athugasemdir hafa borist frá kæranda.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Eins og málið liggur fyrir úrskurðarnefndinni er ekki ljóst með hvaða hætti hækkun uppsetts afls Múlavirkjunar, og eftir atvikum áhrif hennar á lífríki, snerti lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að skapi honum aðild að kærumáli vegna hinnar kærðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar. Þá eiga undantekningartilvik nefndrar lagagreinar ekki við í málinu. Er því ekki sýnt fram á kæruaðild í málinu og verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

13/2012 Flugskýli Reykjavíkurflugvöllur

Með

Árið 2014, mánudaginn 30. júní kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 13/2012, kæra á ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur um álagningu fráveitugjalds á flugskýli, fastanúmer 202-9664, á Reykjavíkurflugvelli. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. febrúar 2012, er barst nefndinni 29. s.m., kærir Flugvélaverkstæðið ehf., þá ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur að leggja fráveitugjald á flugskýli, fastanúmer 202-9664, á Reykjavíkurflugvelli. 

Kærandi gerir þá kröfu að álagning fráveitugjalds verði felld niður og að honum verði endurgreitt það gjald sem hann hafi greitt á undanförnum árum.

Gögn málsins bárust frá Orkuveitu Reykjavíkur 11. september 2012 og viðbótargögn 6. og 10. júlí 2013.

Málsatvik: Með bréfi Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 16. janúar 2012, var kæranda tilkynnt um álagningu vatns- og fráveitugjalda 2012 vegna nefnds flugskýlis að fjárhæð 96.421 króna. Sama dag seldi kærandi flugskýlið samkvæmt kaupsamningi þar um og var eignin afhent 30. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að umrætt flugskýli sé tengt rotþró sem sé í eigu kæranda og sjái hann alfarið um rotþróna. Muni aldrei koma til þess að skýlið verði tengt heimæðum í eigu Orkuveitunnar.  Þá sé bent á að í skýlinu sé aðeins salerni og handlaug.

Málsrök Orkuveitu Reykjavíkur: Orkuveita Reykjavíkur telur að synja beri kröfu kæranda. Sé skírskotað til þess að fráveitulögn liggi við nefnt flugskýli. Samkvæmt 9. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitu, skuli það sveitarfélag hafa einkarétt til að reka fráveitu þar sem skylt sé samkvæmt tilvitnaðri grein að koma á fót og reka fráveitu, þ.e. í þéttbýli, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna.

Kveðið sé á um í 14. gr. sömu laga að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Sé eigendum húseigna þar sem fráveita liggi skylt á sinn kostnað að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi, sbr. 2. mgr. 12. gr. laganna, en skv. 1. mgr. 11. gr. sömu laga eigi eigandi eða rétthafi lóðar við götu, gönguleið eða opið svæði þar sem fráveitulögn liggi rétt á að fá tengingu við fráveitukerfi.

Telja verði að þar sem fráveitukerfi sé fyrir hendi og eigi síðar en þegar lóð hafi verið tengd og lóðarhafi/fasteignareigandi eigi rétt á að tengjast kerfinu, sé heimilt að innheimta fráveitugjald, burtséð frá því hvort viðkomandi lóðarhafi/fasteignareigandi hafi tengst fráveitukerfi eða ekki. Sé bent á að skv. 2. mgr. 15. gr. nefndra laga skuli við ákvörðun gjaldskrár miða við að fráveitugjald, ásamt öðrum tekjum fráveitu, standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði og fleiru. Sé fráveitugjaldi því ætlað að standa undir hlutdeild í heildarkostnaði af uppbyggingu og rekstri fráveitu á viðkomandi svæði. Geti einstakir fasteignaeigendur ekki komist hjá þátttöku í þeim kostnaði með því að tengjast ekki fráveitu, heldur beri þeim að greiða álögð fráveitugjöld, sérstaklega þar sem einkaréttur sé til staðar skv. 2. mgr., sbr. 9. mgr., 4. gr. laga nr. 9/2009.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa lýtur að álagningu fráveitugjalds vegna flugskýlis. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. Skal skv. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Úrskurðarnefndinni barst kæra í máli þessu 29. febrúar 2012 og var því kærufrestur vegna álagningar fráveitugjalds fyrri ára liðinn þegar kæra barst nefndinni. Afsakanlegt verður að telja að kæra í máli þessu vegna álagningar fráveitugjalds ársins 2012 hafi borist að liðnum kærufresti og er þá til þess að líta að kæranda var ekki gerð grein fyrir kæruheimildum og kærufrestum við birtingu hinnar kærðu ákvörðunar. Verður málið því tekið til efnismeðferðar vegna álagningar fráveitugjalds ársins 2012, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. 

Heimilt er samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags. Í athugasemdum við frumvarp til téðra laga kemur fram að lagt sé til í 1. mgr. 14. gr. laganna að heimilt verði að innheimta fráveitugjald af öllum húseignum sem tengist fráveitu sveitarfélags eða geti tengst því en að ekki sé gert ráð fyrir að hús, þar sem engu vatni sé veitt inn og ekkert frárennsli sé frá, greiði fráveitugjald. Í nefndaráliti umhverfisnefndar um frumvarpið kom fram að ábending hefði borist um að orðalag 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins væri of víðtækt. Var tekið undir þau sjónarmið og lögð til sú orðalagsbreyting að heimildin næði til fasteigna sem væru tengdar eða myndu tengjast fráveitu og var ákvæðið í núverandi mynd svo samþykkt.

Með vísan til orðalags greinds ákvæðis, og til þeirra breytinga sem gerðar voru á frumvarpsdrögum og miðuðu að því að þrengja þær heimildir sem væru til gjaldtöku, verður að líta svo á að heimild til álagningar fráveitugjalds sé bundin því skilyrði að fasteign sé tengd eða að verulegar líkur séu fyrir því að hún muni tengjast fráveitu viðkomandi sveitarfélags. Óumdeilt er að umrædd eign er einungis tengd við rotþró en ekki fráveitukerfi sveitarfélagsins. Hefur hvorki verið sýnt fram á  að rennsli frá eigninni vegna t.d. ofanvatns sé veitt í fráveituna né að verulegar líkur séu á að hún muni tengjast henni. Þá liggur fyrir að gert var ráð fyrir því í þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 að umrætt flugskýli stæði ekki lengur en til ársins 2016 og myndi þá víkja fyrir annarri byggð, en samkvæmt núgildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 mun svo verða í síðasta lagi á árinu 2022. Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefndin að fallast verði á kröfu kæranda um að felld verði úr gildi álagning fráveitugjalds ársins 2012 á flugskýli á Reykjavíkurflugvelli með fastanúmer 202-9664.

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi álagning fráveitugjalds ársins 2012 vegna flugskýlis á Reykjavíkurflugvelli, fastanúmer 202-9664, að fjárhæð 96.421 króna samkvæmt álagningarseðli, dags. 16. janúar 2012.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

7/2014 Lindargata

Með

Árið 2014, mánudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. október 2013 um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötureits vegna lóðanna Lindargötu 28, 30 og 32.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. febrúar 2014, er barst nefndinni 4. s.m., kærir Ingvar Sveinbjörnsson hrl., f.h. Þ og R, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. október 2013 að breyta deiliskipulagi Skúlagötureits vegna lóðanna Lindargötu 28, 30 og 32.

Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Þá er gerð krafa um að fyrirhugaðar framkvæmdir á fyrrgreindum lóðum verði stöðvaðar til bráðabirgða með vísan til 5. gr. laga nr. 130/2011. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök: Hinn 21. júní 2013 tók skipulagsfulltrúi Reykjavíkur fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis, staðgreinireita 1.152.410-1.152.412, vegna lóðanna nr. 28, 30 og 32 við Lindargötu. Var farið fram á að nefndar lóðir yrðu sameinaðar, sex bílastæði á jarðhæð húsa samkvæmt gildandi skipulagi yrðu felld niður og byggingarreitir dýpkaðir inn í lóðir, ásamt breytingum á byggingum á suðurhluta lóðarinnar Lindargötu 32. Var málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem samþykkti á fundi sínum hinn 26. júní s.á. að auglýsa umsótta skipulagsbreytingu og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 4. júlí 2013. Athugasemdir bárust við tillöguna, m.a. frá kærendum. Hin auglýsta tillaga var síðan samþykkt á fundi ráðsins 9. október 2013, með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 27. september s.á. Borgarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 17. s.m. og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 4. mars 2014.

Kærendur vísa til þess að fasteignir þeirra liggi að lóðunum Lindargötu 28-32. Á skýringaruppdráttum skipulagsins sé ekki gerð grein fyrir fasteigninni að Veghúsastíg 9a með nægjanlegum hætti. Sé lýsing skipulagsverksins ekki í samræmi við gr. 5.2.3. í gildandi skipulagsreglugerð og ekki hafi verið haft samráð við kærendur í samræmi við gr. 5.2.1. nefndrar reglugerðar. Þá verði að telja óheimilt, með hliðsjón af gr. 5.3.1. í reglugerðinni, að breyta einstökum reitum deiliskipulags án tillits til heildarhagsmuna. Með hinni kærðu ákvörðun sé farið á svig við tilgang skipulags og sé vísað til ógildingarúrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 105/2005, en flest þau rök sem þar sé byggt á eigi við í máli þessu. Skírskotun til almenningssamgangna og nálægðar við miðbæ séu ekki viðhlítandi rök fyrir því að slakað sé á kröfum um bílastæði við frekari uppbyggingu. Einnig megi draga í efa að fullnægt sé kröfum um greiðar aðkomuleiðir slökkviliðs. Hin kærða ákvörðun þrengi að kostum kærenda til frekari uppbyggingar á lóðum þeirra og geri fasteign annars kærenda í raun nær verðlausa. Heimiluðum byggingum fylgi skuggavarp og þá einkum gagnvart Lindargötu 34a.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er skírskotað til þess að farið hafi verið eftir ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar. Eldra skipulag svæðisins frá árinu 2004 hafi gert ráð fyrir að eldri hús á umræddum lóðum myndu víkja og í þeirra stað mætti byggja þriggja hæða hús með risi og kjallara. Við skipulagsbreytingu sé ekki gerð grein fyrir byggingum utan þess svæðis sem breytingin taki til og skv. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð sé samráð við skipulagsgerð bundið við þá aðila sem skipulagið nái til en aðrir eigi þess kost að koma á framfæri athugasemdum við kynningu þess. Tilvitnun kærenda í gr. 5.2.3. í skipulagsreglugerð eigi ekki við um framsetningu deiliskipulagstillögu heldur lýsingu á deiliskipulagstillögu fyrir auglýsingu sem hér eigi ekki við. Deiliskipulagsbreyting geti eftir atvikum tekið til afmarkaðra reita eða lóða og sé afmörkun svæðis þess sem skipulagsbreytingin taki til ekki andstæð lögum. Ekki séu gerðar kröfur í skipulagsreglugerð um fjölda bílastæða og hafa verði í huga staðsetningu umrædds svæðis við miðborg og þá stefnu að auka veg almenningssamgangna og stuðla að því með skipulagi að menn gangi eða hjóli milli staða. Forsendur úrskurðar sem kærendur vísi til eigi ekki við í máli þessu og bent sé á að við veitingu byggingarleyfa séu uppdrættir yfirfarnir af slökkviliði höfuðborgarsvæðisins með tilliti til brunavarna. Ekkert bendi til að hin kærða ákvörðun leiði til verðrýrnunar á fasteignum kærenda. Þvert á móti megi færa rök fyrir því að uppbygging óbyggðra lóða á svæðinu geti aukið verðmæti fasteignanna með styrkingu heildarmyndar götunnar. Tekið sé fram í skilmálum skipulagsbreytingarinnar að aðkoma að bakhúsi og garði sé tryggð og þak bakhússins megi ekki fara upp fyrir vegghæðir aðliggjandi húsa. Eigi því fullyrðingar kærenda um ótrygga aðkomu að bakhúsi og að þrengt sé að möguleikum til uppbyggingar á lóðum þeirra ekki við rök að styðjast. Komið hafi verið til móts við athugasemdir kærenda með því að byggingarreitur verði að lágmarki í fjögurra metra fjarlægð frá lóðinni að Lindargötu 34 og ekki megi byggja svalir á þeirri hlið er snúi að nefndri lóð vegna mögulega aukins skuggavarps.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hennar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því.

Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimildir til nýtingar einstakra lóða. Vegast því á hagsmunir þeirra einstaklinga sem leiða rétt af ákvörðuninni og þeirra nágranna sem telja á lögvarinn rétt sinn hallað með henni. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa á byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að ekki er að jafnaði tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, og einnig með hliðsjón af öðru því sem að framan hefur verið rakið, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. október 2013, um að breyta deiliskipulagi Skúlagötureits vegna lóðanna Lindargötu 28, 30 og 32, er hafnað.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

35/2013 Einholt – Þverholt

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 24. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 35/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með símbréfi, dags. 7. apríl 2013, er barst nefndinni 8. s.m., kærir Þ þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 24. janúar 2013 um að samþykkja breytingar á deiliskipulagi fyrir Einholt-Þverholt í Reykjavík. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. mars 2013

Með bréfi, dags. 8. apríl 2013, er barst nefndinni samdægurs, kærir B sömu deiliskipulagsákvörðun. Þar sem hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verður síðara kærumálið sem er nr. 36/2013 sameinað kærumáli þessu.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Deiliskipulag fyrir reit 1.244.3, Einholt-Þverholt, var samþykkt í borgarráði Reykjavíkurborgar 24. janúar 2013 og felur það í sér skipulagssvæði sem afmarkast af Einholti, Háteigsvegi, Þverholti og Stórholti. Felur deiliskipulagið í sér í sér uppbyggingu allt að 250 íbúða, með heimild fyrir 177 bílastæðum í bílakjallara, á suðurhluta reitsins.

Kærendur gera athugasemd við að fjöldi bílastæða sé of lág miðað við fjölda íbúða. Bent sé á að Reykjavíkurborg hafi svarað fyrirspurnum kærenda vegna málsins á þann veg að stefnt væri að því að minnka hlutdeild einkabifreiða í Reykjavík en kærendur telji þau rök ekki haldbær. Nýtingarhlutfall á lóðum sé yfir þeim viðmiðum sem gerðar séu og hafi, að þeirra sögn, ekki verið reiknað með hlutfalli bílakjallara. Hámarks nýtingarhlutfall á lóð skuli vera 2,5 skv. lýsingu, en á uppdráttum sé gert ráð fyrir að nýtingarhlutfall verði 3,15 á reit E og 2,78 á reit F. Þá gerir annar kærenda í málinu athugasemd þess efnis að hann dragi í efa skuggvarpsupplýsingar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun um deiliskipulagsbreytingu fyrir Einholt-Þverholt í Reykjavík sem var samþykkt í borgarráði Reykjavíkurborgar hinn 24. janúar 2013 og síðan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. mars s.á.

Leitt hefur verið í ljós að deiliskipulagið er ekki lengur í gildi. Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti nýtt deiliskipulag fyrir Einholt-Þverholt hinn 14. nóvember 2013 sem var síðan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. janúar 2014. Hefur hin kærða ákvörðun að framangreindum ástæðum ekki lengur réttarverkan að lögum og eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir

41/2013 Bakkavegur

Með

Árið 2014, mánudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 1. febrúar 2013 um að samþykkja leyfi til að reisa fimm kvisti og fjölga herbergjum í þakrými um fjögur í húsinu nr. 17 við Bakkaveg í Reykjanesbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. apríl 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra vegna, ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 1. febrúar 2013 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa fimm kvisti á þak og innrétta fjögur herbergi í þakrými í húsinu að Bakkavegi 17 í Reykjanesbæ. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. janúar 2014, sem barst sama dag, kæra sömu aðilar jafnframt ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 23. janúar 2014 um að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta bílskúr að Bakkavegi 17 í eitt lagnaherbergi og eitt gistiherbergi og setja tvo glugga í stað bílskúrshurðar. Jafnframt að færa móttöku og stækka anddyri og að breyta herbergi við núverandi anddyri í setustofu.

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málin séu til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þá er gerð krafa um að notkun gistirýmis í þeim hluta hússins sem ekki hafi fengið samþykki byggingarfulltrúa verði stöðvuð. Verður síðara kærumálið, sem er númer 6/2014, sameinað máli nr. 41/2013 enda standa hagsmunir kærenda því ekki í vegi. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 14. og 21. maí 2013, og 19. mars, 2. apríl og 24. júní 2014. Þá liggja fyrir í málinu gögn, er borist höfðu 15. febrúar 2013, vegna kæru til nefndarinnar frá sömu aðilum sem síðar var afturkölluð.

Málavextir: Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár voru árið 1999 reist einbýlishús og bílskúr á lóðinni nr. 17 við Bakkaveg. Liggur umrædd lóð fremst við austurenda lokaðrar götu og eru þar fjögur önnur hús. Árið 2010 samþykkti Reykjanesbær, að lokinni grenndarkynningu, stækkun umræddrar lóðar sem og byggingarreits á lóðinni. Í nóvember það ár sóttu lóðarhafar að Bakkavegi 17 um leyfi til að reisa 294,6 m² viðbyggingu undir atvinnustarfsemi við hús sitt og hinn 25. s.m. samþykkti byggingarfulltrúi leyfi til að reisa nýtt gistiheimili á umræddri lóð. Kærði lóðarhafi að Bakkavegi 20 þá afgreiðslu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Hinn 10. maí 2011 gerðu kærendur, Reykjanesbær og lóðarhafar að Bakkavegi 17 með sér samkomulag vegna hins útgefna leyfis fyrir gistiheimili er fól m.a. í sér að gerðar yrðu nánar tilgreindar ráðstafanir til að draga úr umferð í götunni vegna þessara breytinga. Þá var tekið fram að kæra vegna málsins yrði afturkölluð. Í júní 2011 samþykkti byggingarfulltrúi leyfi fyrir tveimur herbergjum á millipalli í þakrými og stiga upp í herbergin. Með umsókn, dags. 25. nóvember 2011, fór lóðarhafi Bakkavegar 17 fram á stækkun viðbyggingar um 172,4 m², þannig að stærð hennar yrði eftir breytinguna 467,0 m². Var á fundi samráðsnefndar byggingarfulltrúa hinn 29. s.m. samþykkt að grenndarkynna umsóknina. Fram kemur í fundargerð nefndarinnar að sótt sé um leyfi til að breyta innra skipulagi á heimagistingu að Bakkavegi 17. Um sé að ræða breytingu á þaki þar sem settir séu fimm kvistir og fjórum herbergjum bætt við í risi. Komu kærendur á framfæri athugasemdum við grenndarkynningu og á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 15. febrúar 2012 var framkvæmdastjóra falið að skoða málið frekar með tilliti til áhrifa á næsta nágrenni. Var samþykkt að málið yrði tekið aftur upp á haustmánuðum. Í framhaldi af því var settur upp umferðargreinir ofan Bakkavegar í um mánaðartíma um sumarið svo og í vikutíma í september s.á. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 21. nóvember 2012 og fært til bókar að tekið væri vel í erindið en að nauðsynlegt væri að skoða breytingar á skipulagi áður en endanleg afgreiðsla færi fram. Jafnframt var framkvæmdastjóra sviðsins falið að skoða hvort atriði þau er tiltekin hefðu verið í samkomulagi frá maí 2011 við íbúa götunnar hefðu ekki verið uppfyllt.

Umsóknin var tekin fyrir á ný á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 9. janúar 2013. Lágu fyrir fundinum gögn vegna áðurnefndrar umferðarmælingar og minnisblað frá verkfræðistofu um skipulag svæðisins. Samþykkti umhverfis- og skipulagsráð umsótta breytingu en bókaði jafnframt að frekari framkvæmdir yrðu ekki leyfðar án undangenginna skipulagsbreytinga. Fundargerð ráðsins var tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar hinn 15. janúar s.á. og samþykkt. Hinn 1. febrúar 2013 samþykkti byggingarfulltrúi téða umsókn og var byggingarleyfi gefið út 5. s.m. Skutu kærendur ákvörðun umhverfis- og skipulagslagsráðs til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með bréfi, dags. 5. febrúar 2013. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 15. febrúar s.á. var samþykkt að fella úr gildi fyrrgreint byggingarleyfi og grenndarkynna málið að nýju og var sú afgreiðsla samþykkt á fundi bæjarstjórnar 19. s.m. Umsóknin var kynnt nágrönnum með bréfi, dags. 27. febrúar 2013, og veittur frestur til 2. apríl s.á. til að gera athugasemdir. Var tekið fram við kynningu að um væri að ræða endurtekningu á grenndarkynningu í ljósi þeirra athugasemda sem fram hefðu komið við meðferð málsins og þar sem borist hefðu viðbótargögn um umfang starfseminnar, þ.e. greining á umferð og minnisblað verkfræðistofu um skipulag svæðisins, sem og upplýsingar um sorphirðu og skipulag ferða flugrútu. Einnig var tilgreint að þegar hefðu verið settir kvistir á þak viðbyggingar en að framkvæmdir hefðu verið stöðvaðar þar til bæjarstjórn tæki málið til endanlegrar afgreiðslu. Kærendur afturkölluðu kæru sína til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 5. mars 2013. Með bréfi, dags, 31. s.m., komu kærendur á framfæri athugasemdum sínum við kynntar framkvæmdir og töldu m.a. að í gögnum er fylgdu grenndarkynningu væru settar fram ýmsar rangfærslur.

Erindið var tekið fyrir á ný á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 10. apríl 2013 og samþykkt. Þá var jafnframt fært til bókar að tryggja yrði, með samráði við alla íbúa Bakkavegar, að ónæði yrði sem minnst við þessar breytingar. Einnig skyldi stuðlað að því að umferð stórra ökutækja yrði í lágmarki upp Bakkaveginn, t.d. með merkingum, og einnig væri möguleiki á að gatan yrði gerð að vistgötu. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu á fundi hinn 16. s.m. Hinn 17. apríl 2013 gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi að nýju á grundvelli fyrri ákvörðunar hinn 1. febrúar 2013 um samþykki byggingarleyfisumsóknar vegna Bakkavegar 17, matshluta 02.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 23. janúar 2014 var lögð fram umsókn um breytingar á bílskúr Bakkavegar 17. Var um að ræða að bílskúr yrði innréttaður sem lagnaherbergi og eitt gistiherbergi og bílskúrshurð tekin burt og tveir gluggar settir í staðinn. Þá var óskað heimildar til að færa móttöku, að anddyri yrði stækkað og að einu herbergi í núverandi anddyri yrði breytt í setustofu. Var umsóknin afgreidd með eftirfarandi bókun: „Einu herbergi er bætt við og öðru breytt í setustofu þannig er engin aukning á gistiherbergjum. Að mati byggingarfulltrúa er þetta minniháttar breyting sem hefur engin áhrif á nánasta umhverfi. Samþykkt“. Fundargerð byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 12. febrúar 2014 og samþykkti bæjarstjórn þá fundargerð á fundi hinn 18. s.m.

Hafa kærendur kært ofangreindar afgreiðslur byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að þegar viðbygging að Bakkavegi 17 hafi verið grenndarkynnt hafi ekki komið fram að til stæði að starfrækja þar gistiheimili. Hafi starfsmaður Reykjanesbæjar staðfest skriflega að slíkt stæði ekki til, þrátt fyrir teikningar er sýnt hafi annað, en þær teikningar hafi ekki fylgt með grenndarkynningu. Vegna þessa hafi málið tafist úr hófi og að lokum hafi aðilar málsins gert með sér samkomulag, enda ljóst að of seint væri að stöðva framkvæmdirnar án þess að götumyndin hlyti af því verulegan skaða. Hafi íbúar götunnar aldrei fallist á að reist yrði gistiheimili að Bakkavegi 17, enda hafi það aldrei verið grenndarkynnt.

Við grenndarkynningu hafi kærendur bent á að um talsvert umfangsmikinn rekstur væri að ræða sem samkvæmt aðalskipulagi væri á íbúðarsvæði. Yrði með breytingunni 36% aukning á gistirýmum í húsinu. Með heimilaðri stækkun muni umferð í götunni enn aukast, m.a. vegna hópferðabifreiða, vöruflutninga og aukinnar sorphirðu, sem hafi verulegt ónæði í för með sér fyrir íbúa götunnar og skerði umferðaröryggi í götunni. Verulegur skortur sé á bílastæðum við húsið. Einnig sé ónæði frá gangandi ferðamönnum. 

Kærendur hafi jafnframt bent á að ýmsar rangfærslur væru í þeim gögnum er fylgt hefðu grenndarkynningu, svo sem upplýsingar um sorphirðu og fólksflutninga. Umferðarmæling hafi sýnt fram á aukningu umferðar stórra bíla um götuna en ábendingum kærenda um það hafi verið hafnað á þeim forsendum að eigandi gistiheimilisins segði það ekki vandamál. Ekkert samráð hafi verið haft við íbúa götunnar vegna mælinganna eða tekið tillit til athugasemda þeirra um umferð. Ekki sé ljóst hvernig taka eigi upplýsta ákvörðun á grundvelli mælinganna en ekki hafi legið fyrir mælingar um umferðarþunga áður en starfsemi hafi hafist í gistiheimilinu.

Í minnisblaði frá verkfræðistofu er liggi fyrir í málinu hafi m.a. verið talið að umrætt gistiheimili væri í samræmi við byggðamynstur og að fjölbreytt íbúðarbyggð væri á svæðinu. Bendi kærendur á að gistiheimilið sé langtum stærsta húsið í hverfinu. Rangt sé að lóðin sé mjög stór og nýtingarhlutfall því ekki umfram það sem sé á öðrum lóðum. Viðbyggingin standi út fyrir merktan byggingarreit lóðarinnar og séu allar hliðar hússins nærri lóðarmörkum. Vísi kærendur til skipulagsreglugerðar um íbúðarsvæði en þar segi að þar skuli fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði og sé vikið frá þeirri meginreglu sé það vegna starfsemi sem eðlileg sé til þjónustu við íbúa hverfisins. Svo sé alls ekki í máli þessu.

Ekki hafi verið staðið við samkomulag er aðilar hafi gert árið 2011. Málið hafi ekki verið rannsakað á fullnægjandi hátt eða gætt að jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Hafi kærendur ekki fengið réttláta málsmeðferð hjá umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar. Settar hafi verið fram rangfærslur, látið hjá líða að svara erindum kærenda eða þeim svarað með órökstuddum hætti og skort hafi á samráð. Framkvæmd grenndarkynningar hafi verið andstæð lögum, teikningar ekki verið í samræmi við núverandi útlit hússins og ósamræmi verið milli texta grenndarkynningar og teikninga. Með réttu hafi átt að rífa umrædda kvisti þegar byggingarleyfið hafi verið afturkallað og hefja málið frá grunni.

Þá sé bent á vegna breytinga á bílskúr að kærendur hafi á árinu 2013 kvartað við umhverfis- og skipulagsráð yfir framkvæmdum í bílskúrnum. Hafi svo virst sem bæta ætti við gistirými þar en kærendur hafi margsinnis bent á að þau væru því algerlega mótfallin. Hafi því verið svarað að svo stæði ekki til en síðar hafi verið haldinn fundur með aðilum málsins þar sem komið hefði fram að rangt hefði verið með farið og að ætlunin væri að breyta bílskúrnum í geymslu, en því hefðu kærendur alfarið hafnað.

Málsrök Reykjanesbæjar: Sveitarfélagið bendir á að hinar kærðu ákvarðanir byggi á afgreiðslu tveggja stjórnsýslustiga. Byggi umsýsla og afgreiðsla erinda vegna Bakkavegar 17 á hlutleysi og bestu vitund, með tilliti til þeirra gagna sem fram hafa komið í málinu og þeirrar reynslu sem nú sé komin á starfsemina frá því að hún hafi hafist á vordögum 2012. Hafi umhverfis- og skipulagsráð fjallað um og tekið tillit til framkominna athugasemda, en málinu hafi verið frestað á árinu 2012 til nánari eftirgrennslunar og til að fá reynslu af starfseminni. Ljóst sé að tafir á framkvæmdum vegna vinnslu málsins hafi komið eigendum gistiheimilisins illa. Ekki verði séð að neitt hafi komið fram sem kalli á endurskoðun eða upptöku málsins eða afturköllun á útgefnu byggingarleyfi 17. apríl 2013. Þá sé bent á að á öllum teikningum sem kærendur hafi fengið til umfjöllunar sé notkun mannvirkisins skilgreind sem gistiheimili, líkt og í samkomulagi frá árinu 2011.

Vegna framkvæmda við bílskúr sé tekið fram að um minniháttar framkvæmd sé að ræða sem feli ekki í sér aukin umsvif í starfsemi Hótel Bergs. Breytingin feli eingöngu í sér tilfærslu rýma og breytingu á notkun þeirra en ekki fjölgun gistirýma og aukin umsvif. Færist bílastæði sem verið hafi framan við svonefnda bílgeymslu á stæðið vestan við húsið og þannig fjær nágrönnum og skapi því síður ónæði.

Málsrök byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafi tekur fram að í málsrökum kærenda séu settar fram fjölmargar rangfærslur. Bent sé á að reynt hafi verið að breyta tilhögun sorphirðu en samkomulag við Gámafélagið sé þannig að reynt sé að haga losun hjá byggingarleyfishafa miðað við dagatal sorphirðu annarra húsa í götunni. Þá hafi verið samið um að ekki yrðu notaðir eins stórir bílar við sorphirðu. Hafi í athugasemdum nágranna verið notast við almennt dagatal fyrir sorphirðu fyrirtækja og ekki tekið tillit til sérsamnings við losunaraðila.

Samkomulag hafi verið gert við fyrirtækið Kynnisferðir um að taka tillit til annarra íbúa götunnar og að rúturnar yrðu stöðvaðar niður við smábátahöfn. Þá hafi bílstjórum þeirra verið gert að aka ekki upp götuna en mistök geti orðið, einkum þegar byggingarleyfishafar séu ekki meðvitaðir um að von sé á rútu. Rútuferðir um götuna séu mjög sjaldgæfar. Í flestum tilfellum séu vörur sóttar og sé sá háttur hafður á af tillitssemi við nágranna. Flutningabílar frá Mjólkursamsölunni komi u.þ.b. tvisvar í mánuði og frá Vífilfelli einu sinni í mánuði.

Umferðarmælingar árið 2012 hafi verið framkvæmdar á háannatíma til að fá rétta mynd af því hvernig umferðin væri þá. Umferð um götuna sé hins vegar lítil. Tvö bílastæði séu fyrir framan viðbygginguna og stundum sé of mörgum bílum lagt þar.
Því sé mótmælt að mikil umferðahljóð eða ónæði frá gangandi vegfarendum séu vegna reksturs gistiheimilisins en einnig sé þarna gata og vinsæl gönguleið. Hafi umferð minnkað vegna þeirra lagfæringa sem gerðar hafi verið í kjölfar samkomulags sem gert hafi verið milli aðila málsins.

Þá sé tekið fram að fjölskylda lóðarhafa sé stór og ekki sé óalgengt að 5-7 bifreiðar séu á Bakkaveginum á vegum fjölskyldunnar. Loks sé bent á að lóðin að Bakkavegi 20 sé ógirt og því ekkert sem komi í veg fyrir að fólk geti gengið upp að húsinu. Varla sé að sakast við lóðarhafa Bakkavegar 17 vegna þessa.

Athugasemdir kærenda við málsrökum Reykjanesbæjar: Því er mótmælt að málið hafi fengið hlutlausa umfjöllun. Hafi kærendur verið leyndir sannleikanum þar til of seint hafi verið að snúa ferlinu við án fjárhagslegs skaða fyrir eigendur Bakkavegar 17. Þá sé vísað til þess að kærendur hafi ítrekað bent á óleyfisframkvæmdir í öðrum hlutum hússins. Sé gistireksturinn nú í einnig í þeim hluta hússins sem ætlað sé sem íbúðarhúsnæði. Aldrei hafi verið sótt um leyfi fyrir því, það ekki kynnt fyrir íbúum og því staðfastlega neitað af bænum, en á fundi sem kærendur hafi átt nýlega með lóðarhafa Bakkavegar 17 og starfsmanni umhverfis- og skipulagssviðs hafi verið staðfest að íbúðarhlutinn sé nú notaður sem gistiheimili. Lítið hafi verið gert úr athugasemdum kærenda og þær taldar snúast aðallega um umferð. Þá hafi ákvörðunin ekki verið rökstudd með fullnægjandi hætti þrátt fyrir fjölmargar athugasemdir kærenda. Hvorki umhverfis- og skipulagsráð né bæjarráð hafi veitt formlegt leyfi fyrir notkun Bakkavegar 17 sem gistiheimili og því telji kærendur allan slíkan rekstur í húsinu ólöglegan.

——

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar á tveimur ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ. Annars vegar um að veita leyfi til að reisa fimm kvisti og innrétta fjögur herbergi í þakrými viðbyggingar hússins að Bakkavegi 17 og hins vegar um að heimila m.a. breytta notkun og breytt útlit bílskúrs á lóðinni.

Í gildi er Aðalskipulag Reykjanesbæjar 2008-2024 og er lóðin að Bakkavegi 17 á íbúðar-svæði, nánar tiltekið á svonefndu þéttingarsvæði fyrir Grófina-Berg. Við töku hinna kærðu ákvarðana var ekki í gildi deiliskipulag fyrir það svæði.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem myndi heildstæða einingu. Skal þess gætt að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélags þegar sótt er um byggingarleyfi, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga segir hins vegar að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd, sem sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi, skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu. Verður að skilja ákvæði þetta svo að heimilt sé, við þær aðstæður sem þar greinir, að víkja frá lagaskilyrði 2. mgr. 37. gr. um deiliskipulag, enda þótt það sé hvergi berum orðum sagt í lögunum.

Bakkavegur er nokkur hundruð metra löng botngata. Byggt er við austurenda götunnar og er lóðin að Bakkavegi 17 þar fremst. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár var reist einbýlishús með bílskúr á lóðinni árið 1999, alls 267,9 m². Að auki er skráð á lóðinni 312,8 m² gistihús. Einnig standa innar í götunni fjögur íbúðarhús og eru kærendur búsettir í þremur þeirra. Á svæðinu er einnig byggt við hluta Bergvegar sem liggur í um 150 m fjarlægð norðan við Bakkaveg. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá eru þar 16 íbúðarhúsalóðir, 14 þeirra eru byggðar einbýlishúsum, ein er óbyggð og ein byggð tvíbýlis-húsi. Þá er þar að finna eina iðnaðar- og athafnalóð sem byggð er einbýlishúsi. Smábátahöfn liggur sunnan byggðarinnar við Bakkaveg og er þar að finna safnhús, kaffihús og ferða-þjónustu.

Líkt og rakið hefur verið var árið 2010 heimilað að reisa viðbyggingu við húsið að Bakkavegi 17 fyrir nýtt gistiheimili, alls 294,6 m². Samþykkt var fjölgun gistirýma um tvö í júní 2011 og í ágúst sama ár gaf Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja út starfsleyfi fyrir heimagistingu með allt að 16 rúmum að Bakkavegi 17. Fram kemur á samþykktum teikningum byggingarfulltrúa, dags. 4. febrúar 2013, að um sé að ræða gistirými með alls 15 herbergjum við einbýlishúsið að Bakkavegi 17 og að sótt sé um leyfi til að fjölga herbergjum í þakrými um fjögur og reisa kvisti. Samkvæmt skráningartöflu, samþykktri af byggingarfulltrúa sama dag, er flatarmál gistirýmis hússins 458 m². Við stækkunina fer nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,44 í 0,55, miðað við upplýsingar úr fasteignaskrá og skráningartöflu hins samþykkta byggingarleyfis. Nýtingarhlutfall annarra lóða við Bakkaveg er hæst 0,39 miðað við upplýsingar úr fasteignaskrá. Nýtt starfsleyfi til að „starfrækja Hótel Berg“ var gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja hinn 6. maí 2013.

Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er íbúðarbyggð skilgreint sem svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu, eftir því sem nánar sé kveðið á um í stefnu skipulagsins, sbr. a.-lið gr. 6.2. Samkvæmt gr. 5.3.2.8. í reglugerðinni skal gæta þess að atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð valdi sem minnstum óþægindum vegna bílaumferðar, hávaða, ljósanotkunar eða annars ónæðis. Rekstur gisti-heimila hefur verið talinn rúmast innan heimilda nefndra reglugerðarákvæða, með þeim takmörkunum sem þar eru greind, en ætla má að með auknu umfangi umræddrar starfsemi fylgi aukin umferð, umgangur og hávaði, sem og aukið álag á bílastæði í götunni.

Þegar litið er til umfangs umrædds gistirekstrar, staðhátta eins og þeim er áður lýst, þess að gert er ráð fyrir því í Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024 að byggingu hverfisins Bergsins verði lokið með einnar til tveggja hæða sérbýlishúsum á um fimmtán lóðum, sem og til þess að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Bakkavegi 17 er farið að skera sig töluvert úr því sem gerist á næstu lóðum og er orðið um 40% umfram það sem hæst er annars staðar, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið skilyrði til þess að fara með umsókn um byggingarleyfi eftir undanþáguákvæði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Þá telur úrskurðarnefndin að eins og á stóð hafi ekki verið heimild til að beita ákvæði 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga og falla frá grenndarkynningu við veitingu leyfis fyrir breyttri notkun bílskúrs. Slík breyting getur snert hagsmuni annarra en umsækjanda leyfis, enda í raun um að ræða fækkun bílastæða á lóð. Af gögnum málsins verður og ráðið að fyrir lá afstaða kærenda um að breytingar á bílskúr gætu varðað hagsmuni þeirra.

Samkvæmt framansögðu skorti lagaskilyrði fyrir þeirri málsmeðferð að grenndarkynna umsókn byggingarleyfishafa um gerð fimm kvista og fjölgun herbergja um fjögur í þakrými,

sem og fyrir þeirri málsmeðferð að grenndarkynna ekki breytingar á bílskúr. Leiða þessir ágallar til þess að ógilda ber hinar kærðu ákvarðanir.

Vegna kröfu kærenda er lýtur að stöðvun notkunar á gistirými, er ekki hafi hlotið samþykki byggingarfulltrúa, skal á það bent að hún er háð eftirliti byggingarfulltrúa og fellur utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjaness frá 1. febrúar 2013 um að samþykkja leyfi til að reisa fimm kvisti og fjölga herbergjum í þakrými um fjögur í húsinu nr. 17 við Bakkaveg í Reykjanesbæ.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjaness frá 23. janúar 2014 um að heimila breytingar á notkun og útliti bílskúrs að Bakkavegi 17.

 

____________________________
Nanna Magnadóttir

 

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson