Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

88/2013 Lambastaðahverfi

Með
Árið 2014, föstudaginn 5. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 88/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. ágúst 2013, er barst nefndinni 30. s.m., kæra JP Lögmenn f.h. S og G, Nesvegi 105, Seltjarnarnesi þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi, með kröfu um ógildingu hennar.

Gögn í máli þessu bárust frá Seltjarnarnesbæ 24. janúar 2014.

Málavextir: Vinna við gerð deiliskipulags Lambastaðahverfis hófst á árinu 2008. Hinn 28. apríl 2010 samþykkti bæjarstjórn Seltjarnarness deiliskipulag fyrir hverfið og í nóvember s.á. voru samþykktar breytingar á skipulaginu. Auglýsing um gildistöku þess var þó ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda og í desember 2010 var samþykkt í bæjarstjórn að auglýsa að nýju tillögu að deiliskipulagi umrædds svæðis. Hinn 22. júní 2011 samþykkti bæjarstjórn nefnt skipulag og tók það gildi í október s.á. Var skipulagið kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er vísaði málinu frá hinn 25. október 2012 með vísan til þágildandi 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem kvað á um ógildi skipulagsákvarðana væri auglýsing um gildistöku ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda innan lögboðins frests.

Í kjölfar þess var ákveðið af hálfu sveitarfélagsins að hefja skipulagsferlið að nýju. Var skipulagslýsing vegna svonefndrar endurauglýsingar deiliskipulags Lambastaðahverfis kynnt, m.a. á íbúafundi hinn 10. janúar 2013, og veittur nokkurra daga frestur til að koma að athugasemdum. Í nefndri lýsingu var tekið fram að gert væri ráð fyrir að nýtt deiliskipulag Lambastaðahverfis yrði í samræmi við deiliskipulagstillögu Lambastaðahverfis sem samþykkt var í bæjarstjórn 22. júní 2011, að öðru leyti en því að skipulag fyrir lóðina að Skerjabraut 1-3 yrði í samræmi við tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina, dags. 17. júlí 2012. Þá myndi við gildistöku skipulagsins falla úr gildi deiliskipulag lóðarinnar Skerjabrautar 1-3 sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn árið 2007 og skipulags- og byggingarskilmálar fyrir Hamarsgötu 2, 4 og 6 frá árinu 1973.

Tillaga að deiliskipulagi Lambastaðahverfis var kynnt á íbúafundi hinn 14. febrúar 2013 og á fundi bæjarstjórnar hinn 27. s.m. var samþykkt að auglýsa hana til kynningar og var frestur til athugasemda til 26. apríl 2013. Á þeim tíma bárust 13 bréf og umsagnir með athugasemdum, þ. á m. frá kærendum. Bæjarstjórn tók málið fyrir hinn 12. júní 2013 að undangenginni umfjöllun skipulags- og mannvirkjanefndar 4. s.m. og afgreiddi málið með svofelldri bókun: „Bæjarstjórn samþykkir samhljóða smávægilega breytingu á deiliskipulagstillögum og tillögur um svör frá skipulags- og mannvirkjanefnd vegna deiliskipulags Lambastaðahverfis. Skipulagsstjóra falið að senda svörin til íbúa og afrit ásamt deiliskipulagstillögu með smávægilegri breytingu til umsagnar Skipulagsstofnunar.“ Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins og öðlaðist það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 1. ágúst 2013.

Tekur deiliskipulagið til íbúðarsvæðis sem afmarkast af Nesvegi til norðausturs, bæjarmörkum að Reykjavík til austurs og sjó til suðvesturs, og af Skerjabraut til norðvesturs. Í skipulaginu eru byggingarreitir markaðir og tekin afstaða til nýtingarhlutfalls einstakra lóða, auk heimildar til að reisa smáhýsi utan byggingarreita og bátaskýli á sjávarlóðum sem tengjast sjóvarnargörðum utan byggingarreita.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þeir hafi haft aðkomu að fasteign sinni eftir stíg frá Nesvegi sem liggi á milli lóðanna að Nesvegi 107 og 109 að vestanverðu og lóðanna nr. 101, 103 og 105 að austanverðu við sömu götu. Eigi þeir umferðarrétt um greindan stíg að fasteign sinni og beri að tilgreina hann og virða í deiliskipulagi. Í hinu kærða skipulagi sé einungis merkt kvöð við þessa aðkomu, án nánari tilgreiningar. Sé þetta eina aðkoman að fasteigninni innan sveitarfélagsins og beri að gera skýra grein fyrir henni í deiliskipulagi, þannig að hún sé tryggð. Sveitarfélaginu sé skylt að tryggja aðkomu að fasteignum innan sinna sveitarfélagsmarka sem og því svæði sem skipulagstillagan taki til. Ekki dugi að vísa til aðkomu að eignunum frá Sörlaskjóli, enda sé hún í öðru sveitarfélagi. Vísi kærendur til þinglýstra skjala máli sínu til stuðnings og almennra reglna um hefð en leiða megi efni og umfang téðs umferðarréttar af fyrirliggjandi þinglýstum gögnum og heimildum. Ekki sé einungis unnt að horfa á orðalag þeirra heldur verði einnig að byggja á markmiði og forsendum aðila.

Veiting byggingarleyfis fyrir Nesveg 107 árið 2007 hafi verið í andstöðu við ákvæði þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og þá skyldu sveitarfélagsins að gera deiliskipulag. Þá hafi ekki verið gætt ákvæða 4. mgr. 43. gr. laganna um samþykki meðeigenda vegna sameiginlegar „kvaðar á lóð“. Nýtingarhlutfall lóðarinnar hafi vart náð 0,3 en sé nú allt að 0,5. Það sé tilgreint 0,4 í deiliskipulagi en röng lóðarstærð liggi þeim útreikningi til grundvallar. Tilgreint hús sé í engu samræmi við aðliggjandi byggð og a.m.k. 22% of stórt miðað við forsendur í samþykktu deiliskipulagi, séu teikningar réttar. Sé hinu kærða deiliskipulagi ætlað að staðfesta framkvæmd sem hafi verið í algerri andstöðu við ákvæði þágildandi skipulags- og byggingarlaga og ekki sé unnt að samþykkja það fyrr en hin ólöglega bygging hafi verið fjarlægð, sbr. 4. mgr. 56. gr. fyrrgreindra laga.

Þá sé ljóst að ekki sé hægt að samþykkja hið umdeilda deiliskipulag samkvæmt gildandi skipulagslögum nr. 123/2010. Hugmyndir um fjölgun íbúa á svæðinu séu ekki í samræmi við markmið aðalskipulags. Lóðin að Nesvegi 107 sé ekki í samræmi við skilgreint nýtingarhlutfall á svæðinu, húsið sé of stórt og mannvirki utan lóðarmarka. Ekki sé tekið á því að aðalteikningar Nesvegar 107, sem sveitarfélagið beri ábyrgð á, séu leiðréttar og samræmdar væntanlegu aðal- og deiliskipulagi. Geti sveitarfélagið í þessu sambandi ekki vísað til þess að ekki hafi verið látið reyna á gildi byggingarleyfis fyrir dómi áður en hið umdeilda deiliskipulag hafi verið samþykkt. Við meðferð og afgreiðslu deiliskipulagsins hafi borið að gera grein fyrir umræddu mannvirki eins og það sé í raun og veru og fara yfir athugasemdir kæranda. Það hafi ekki verið gert. Felist í því brot gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, sem eitt og sér leiði til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Einnig sé gerð athugasemd vegna heimilda deiliskipulagsins um að reisa megi bátaskýli á sjávarlóðum. Slík áform séu í andstöðu við náttúruverndaráætlun 2004-2008, þar sem lagt sé til að friða svæðið sem nái yfir fjöru og land neðan byggðar á skipulagssvæðinu. Bátaskýlin muni skerða útsýni og hefta aðgengi að fjörunni. Verið sé að ganga á rétt nágranna með því að auka nýtingarhlutfall á lóð Nesvegar 107. Enginn málsettur byggingarreitur sé skilgreindur fyrir bátaskýli á umræddri lóð og af því leiði að ekki sé unnt að veita byggingarleyfi síðar. Sé um slíkan annmarka að ræða að til ógildingar leiði. Þá séu verulegir annmarkar á tillögunni og skilmálateikningu vegnar lóðarinnar Nesvegar 117-119 og 119a.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að öllum kröfum kærenda um ógildingu hins kærða deiliskipulags verði hafnað.

Sveitarfélagið tekur fram að deildar meiningar séu uppi um umferðarrétt um umræddan stíg, en eigandi Nesvegar 107 hafi haldið því fram að hann eigi einn rétt til umferðar um stíginn. Þinglesin gögn um eignarhald og réttindi á nefndum stíg séu ekki skýr og ekki liggi fyrir gögn í málinu sem staðfesti hefðarrétt kærenda. Gert sé ráð fyrir stígnum í deiliskipulagi. Takmarki deiliskipulagið ekki á nokkurn hátt möguleika kæranda nýta hann. Deiliskipulagið breyti engu um beinan eða óbeinan eignarrétt að nefndum stíg heldur eigi sá ágreiningur undir dómstóla. Um eignarlóðir sé að ræða. Þegar samþykkt hafi verið leyfi fyrir húsunum nr. 103-105 við Nesveg þá hafi sveitarfélagið sérstaklega tekið fram að eigandi lóðarinnar bæri ábyrgð á heimkeyrsluréttindum. Þá sé rangt að sú skylda hvíli á sveitarfélaginu að tryggja aðkomu að umræddum lóðum „innan sveitarfélagsins“ en aðkoma sé tryggð frá Sörlaskjóli. Yrði það afstaða úrskurðarnefndarinnar að sveitarfélaginu bæri að kveða á um umrædda kvöð gæti slíkt þó ekki leitt til ógildingar skipulagsins í heild.

Vegna skírskotunar til byggingar hússins að Nesvegi 107 sé tekið fram að húsið hafi aldrei verið í andstöðu við deiliskipulag. Það hafi verið reist á grundvelli grenndarkynningar í þegar byggðu en ódeiliskipulögðu hverfi. Því eigi hugleiðingar um að óheimilt sé að breyta skipulagi vegna framkvæmda sem byggðar hafi verið í óleyfi ekki við. Enginn nágranni hafi gert athugasemdir eða kært téð byggingarleyfi. Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé 0,439. Samkvæmt deiliskipulagi sé hámarksnýtingarhlutfall 0,4. Heimilt sé að auka byggingarmagn á lóð umfram nýtingarhlutfall um þann hluta mannvirkis sem sé neðanjarðar, en í húsinu sé stór kjallari. Nýtingarhlutfall ofanjarðar sé ekki hærra en 0,4 og byggingin því ekki stærri en skipulagið leyfi. Væri litið svo á að húsið væri stærra en skipulagið leyfi hefði það þó ekki áhrif á gildi þess. Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 sé ekki gert ráð fyrir að fjarlægja þurfi mannvirki sem reist hafi verið í andstöðu við skipulag áður en nýtt skipulag sé samþykkt. Vegna fullyrðinga um að samþykki meðeigenda hefði þurft áður en byggingarleyfi hefði verið samþykkt sé vísað til þess er áður greini um nefnda kvöð en einnig sé bent á að engin breyting hafi orðið við byggingu hins nýja húss þar sem áður hafi staðið hús á lóðinni með aðkomu um greinda kvöð.

Bent sé á að í kafla 4.2. í greinargerð aðalskipulags Seltjarnarness sé gert ráð fyrir því að fjölga íbúðum á Seltjarnarnesi í þegar byggðum hverfum. Í deiliskipulaginu sé gerð grein fyrir núverandi húsi nr. 107 við Nesveg. Gert sé ráð fyrir að það hús verði til framtíðar og byggingarreitur skilgreindur því til samræmis. Sé því mótmælt að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga eða stjórnsýsluréttar við meðferð málsins enda hafi mikið samráð og samvinna verið við gerð deiliskipulagsins. Leitast hafi verið við að upplýsa þau mál sem bent hafi verið á og athugasemdum svarað á skilmerkilegan hátt.

Loks mótmæli sveitarfélagið staðhæfingu kærenda um að heimiluð bátaskýli á sjávarlóðum á svæðinu séu í andstöðu við náttúruverndaráætlun. Grenndaráhrif skýlanna verði óveruleg, enda hámarkshæð þeirra 1,8 m miðað við meðal lóðarhæð og lágmarksfjarlægð þeirra frá lóðarmörkum 3 m. Hæð þeirra sé því ekki meiri en skjólveggja og girðinga sem heimilt sé að reisa innan lóðar án sérstaks leyfis. Muni umrædd bátaskýli ekki breyta neinu um aðgengi að fjörunni. Heimild til byggingar bátaskýla sé háð því að nýtingarhlutfall lóðar hafi ekki áður verið fullnýtt. Þá sé því hafnað að annmarkar séu á skilmálateikningum fyrir lóðina nr. 117-119 við Nesveg.

——

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 2. september 2014.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags Lambastaðahverfis er samþykkt var í bæjarstjórn Seltjarnarness 12. júní 2013 og tók gildi 1. ágúst s.á. Hið kærða deiliskipulag tekur til landsvæðis sem á gildandi aðalskipulagsuppdrætti er auðkennt sem íbúðarsvæði, sem nær til núverandi íbúðarbyggðar, og opin svæði til sérstakra nota sem nær til fjörunnar og umhverfis. Seltjarnarnesfjörur eru, samkvæmt aðalskipulagi, á náttúruminjaskrá og öll suður- og vesturströnd Seltjarnarness norður að byggð við Bygggarða er og á náttúruverndaráætlun 2004-2008. Þá er í greinargerð aðalskipulags m.a. tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir grundvallarbreytingum á yfirbragði eldri hverfa en að þétting byggðar sé talin jákvæð þar sem henta þyki. 

Lýsing á skipulagsverkefni Lambastaðahverfis var kynnt á almennum fundi sem og tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis. Tillagan var auglýst til kynningar og afstaða tekin til athugasemda er bárust við tillöguna og þeim svarað. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að formi til í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Í hinu umdeilda deiliskipulagi er sett kvöð um umferð um stíg er liggur á milli húsa nr. 101, 105, 107 og 109 við Nesveg. Í deiliskipulagi skal gera grein fyrir því samgöngukerfi sem fyrir er og skal setja kvaðir um umferðarrétt þegar það á við, sbr. a-lið gr. 5.3.2.5. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Þá skal í deiliskipulagi samkvæmt gr. 5.3.2.2. reglugerðarinnar tryggja aðkomu að hliðum stakstæðra mannvirkja sem standa við lóðarmörk og að baklóðum sambyggðra húsa með kvöðum eða öðrum hætti. Afmarka skal lóðir á sama hátt fyrir önnur mannvirki eftir atvikum. Áhöld eru um eignarhald að téðum stíg. Ágreiningur þess efnis á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina, heldur dómstóla, enda sker ákvörðun um deiliskipulag hvorki úr um eignarhald á landi né landamerki. Breytir merking umræddrar kvaðar því engu um réttarstöðu kæranda. Þá tryggir hún, en takmarkar ekki, umferðarrétt hans um nefndan stíg. Loks verður ekki ráðið af lögum og reglugerðum að gerð sé krafa um að aðkoma að lóðum innan umdeilds skipulagsreits sé innan sveitarfélagsmarka heldur einungis að hún sé tryggð.

Fyrir liggur að Seltjarnarnesbær mun árið 2007 hafa veitt leyfi fyrir byggingu húss að Nesvegi 107 er kærendur telja í andstöðu við deiliskipulag. Sætir umdeilt leyfi ekki lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar og hefur því byggingarleyfi ekki verið hnekkt. Samkvæmt 4. mgr. 56. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem kærendur vísa til, var óheimilt að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefði verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti hefði verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sambærilegt ákvæði er hvorki að finna í núgildandi skipulagslögum nr. 123/2010 né í núgildandi mannvirkjalögum nr. 160/2010, sem í gildi voru við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Þá er rétt að benda á að í almennum skilmálum hins umdeilda deiliskipulags er kveðið á um heimild til að auka byggingarmagn á lóð um þann hluta mannvirkis sem komið er fyrir neðanjarðar og nýttur er fyrir m.a. bílageymslur og geymslur.

Sýna skal byggingarreiti á skipulagsuppdrætti deiliskipulags, skv. c-lið gr. 5.5.3. í skipulagsreglugerð. Þar sem lóðir eru stórar og nýtingarhlutfall lágt er þó heimilt að staðsetja mannvirki með tákni og setja nánari skilmála í greinargerð um stærð þess eða taka afstöðu til lóðarmarka. Jafnframt er heimilt að sleppa byggingarreitum fyrir minniháttar mannvirki og viðbyggingar ef skilmálar eru að öðru leyti skýrðir með fullnægjandi hætti í greinargerð. Heimilt er samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi að reisa allt að 30 m² bátaskýli utan byggingarreita á sjávarlóðum sem tengjast sjóvarnargörðum, að fengnu leyfi skipulags- og mannvirkjanefndar og samþykki Samgöngustofu (áður Siglingastofnunar). Byggja má bátaskýlin á 7 m belti næst lóðarmörkum og má vegg- og mænishæð vera allt að 1,8 m yfir meðalhæð lóðar þar sem skýlið rís. Skal leita eftir skriflegu samþykki nágranna ef fjarlægð frá lóðarmörkum grannlóðar er minni en 3 m. Verður af framangreindu ráðið að deiliskipulagið fullnægi áskilnaði áðurgreinds ákvæðis.

Í náttúruverndaráætlunum 2004-2008 og 2009-2013 er lagt til að fjara og grunnsævi við Álftanes og Skerjafjörð verði vernduð og er svæðið m.a. innan marka Seltjarnarness. Samkvæmt 38. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999 skal, þegar hætta er á röskun náttúruminja vegna framkvæmda, tilkynna Umhverfisstofnun þar um, leita umsagnar, og eftir atvikum leyfis hennar. Þá skal samkvæmt 33. gr. laganna leita umsagnar Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda við gerð svæðis- og aðalskipulagsáætlana og ef slík umsögn liggur ekki fyrir skal leita umsagnar sömu aðila áður en framkvæmda- og byggingaleyfi er veitt þar sem jarðmyndanir og vistkerfi sem talin eru upp í 37. gr. laganna gætu raskast. Verður ekki séð að nefnd lagaákvæði standi því í vegi að veita með deiliskipulagi heimildir til nánar tilgreindra framkvæmda á svæðum á náttúruminjaskrá svo sem hér er gert, enda eigi deiliskipulagið stoð í aðalskipulagi og frekari leyfisveitingar þurfi til áður en til framkvæmda kemur. Þá verður ekki séð að skýlin, verði þau reist, hindri aðgengi almennings að strandlengjunni svo sem gert er ráð fyrir í aðalskipulagi Seltjarnarness.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir og þar sem að ekki verður talið að aðrir þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun sem geti raskað gildi hennar er kröfu um ógildingu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:


Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

89/2013 Lambastaðahverfi

Með
Árið 2014, föstudaginn 5. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. ágúst 2013, er barst nefndinni sama dag kærir Kristján B. Thorlacius, hrl. f.h. S, þinglýsts eiganda Nesvegar 115, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi. Gerð er krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en til vara er þess krafist að deiliskipulagið verði fellt úr gildi að því er varðar lóðina nr. 115 við Nesveg.

Gögn í máli þessu bárust frá Seltjarnarnesbæ 24. janúar 2014.

Málavextir: Vinna við gerð deiliskipulags Lambastaðahverfis hófst á árinu 2008. Hinn 28. apríl 2010 samþykkti bæjarstjórn Seltjarnarness deiliskipulag fyrir hverfið og í nóvember s.á. voru samþykktar breytingar á skipulaginu. Auglýsing um gildistöku þess var þó ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda og í desember 2010 var samþykkt í bæjarstjórn að auglýsa að nýju tillögu að deiliskipulagi umrædds svæðis. Hinn 22. júní 2011 samþykkti bæjarstjórn nefnt skipulag og tók það gildi í október s.á. Var skipulagið kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er vísaði málinu frá hinn 25. október 2012 með vísan til þágildandi 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem kvað á um ógildi skipulagsákvarðana væri auglýsing um gildistöku ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda innan lögboðins frests.

Í kjölfar þess var ákveðið af hálfu sveitarfélagsins að hefja skipulagsferlið að nýju. Var skipulagslýsing vegna svonefndrar endurauglýsingar deiliskipulags Lambastaðahverfis kynnt, m.a. á íbúafundi hinn 10. janúar 2013, og veittur nokkurra daga frestur til að koma að athugasemdum. Í nefndri lýsingu var tekið fram að gert væri ráð fyrir að nýtt deiliskipulag Lambastaðahverfis yrði í samræmi við deiliskipulagstillögu Lambastaðahverfis sem samþykkt var í bæjarstjórn 22. júní 2011, að öðru leyti en því að skipulag fyrir lóðina að Skerjabraut 1-3 yrði í samræmi við tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina, dags. 17. júlí 2012. Þá myndi við gildistöku skipulagsins falla úr gildi deiliskipulag lóðarinnar Skerjabrautar 1-3 sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn árið 2007 og skipulags- og byggingarskilmálar fyrir Hamarsgötu 2, 4 og 6 frá árinu 1973.

Tillaga að deiliskipulagi Lambastaðahverfis var kynnt á íbúafundi hinn 14. febrúar 2013 og á fundi bæjarstjórnar hinn 27. s.m. var samþykkt að auglýsa hana til kynningar og var frestur til athugasemda til 26. apríl 2013. Á þeim tíma bárust 13 bréf og umsagnir með athugasemdum, þ. á m. frá kæranda. Bæjarstjórn tók málið fyrir hinn 12. júní 2013 að undangenginni umfjöllun skipulags- og mannvirkjanefndar 4. s.m. og afgreiddi málið með svofelldri bókun: „Bæjarstjórn samþykkir samhljóða smávægilega breytingu á deiliskipulagstillögum og tillögur um svör frá skipulags- og mannvirkjanefnd vegna deiliskipulags Lambastaðahverfis. Skipulagsstjóra falið að senda svörin til íbúa og afrit ásamt deiliskipulagstillögu með smávægilegri breytingu til umsagnar Skipulagsstofnunar.“ Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins og öðlaðist það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 1. ágúst 2013.

Tekur deiliskipulagið til íbúðarsvæðis sem afmarkast af Nesvegi til norðausturs, bæjarmörkum að Reykjavík til austurs, fjöru til suðvesturs og af Skerjabraut til norðvesturs. Í skipulaginu eru byggingarreitir markaðir og tekin afstaða til nýtingarhlutfalls einstakra lóða auk heimildar til að reisa smáhýsi utan byggingarreita og bátaskýli á sjávarlóðum sem tengjast sjóvarnargörðum utan byggingarreita.

Málsrök kæranda: Kærandi mótmælir hinni kærðu ákvörðun á þeirri forsendu að byggingarheimildir á lóð hans að Nesvegi 115 hafi verið skertar frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í deiliskipulagi Lambastaðahverfis sem bæjarstjórn hafi samþykkt 28. apríl 2010. Hafi Seltjarnarnesbær við meðferð málsins brotið gegn mörgum helstu reglum stjórnsýsluréttar auk brota gegn almennum ákvæðum stjórnsýsluréttar um trygga málsmeðferð og vandaða stjórnsýsluhætti.

Þegar bæjaryfirvöld hafi heimilað uppbyggingu lóðarinnar að Nesvegi 107 á árinu 2007 hafi kæranda verið tjáð að í ljósi jafnræðissjónarmiða yrðu veittar sambærilegar heimildir til byggingar húss á lóð hans við Nesveg. Í trausti þeirrar yfirlýsingar hafi verið gerðar teikningar að húsi á lóðinni. Í tillögu að deiliskipulagi Lambastaðahverfis er kynnt hafi verið í september 2009 hafi komið fram að í stað þess húss, sem nú stæði á lóðinni, mætti reisa allt að tveggja hæða hús. Hafi borist athugasemdir við tillöguna og í svari bæjaryfirvalda við þeim hafi m.a. eftirfarandi komið fram: „Nýjar húsbyggingar við Nesveg 115 og 119a munu fela í sér breytingar sem óhjákvæmilegar eru þegar byggt er á ónýttum lóðum eða hús frá fyrri tíð endurnýjuð. Þar sem um er að ræða sjávarlóðir getur ekki farið hjá því að útsýni úr fjarlægari húsum til sjávar raskist. Sérstaða hverfisins í heild breytist ekki.“ Þá hafi verið vísað til þess að skilmálum nýbygginga væri hagað þannig að komið væri til móts við hagsmuni nágranna og þeir verndaðir eftir bestu föngum. Bæjarstjórn hafi staðfest umrætt deiliskipulag 28. apríl 2010. Hafi kæranda verið tilkynnt skriflega um þá ákvörðun og staðfest heimild til byggingar húss á tveimur hæðum á lóðinni.

Skipulagið hafi verið tekið til endurskoðunar, m.a. hvað varðaði lóð kæranda að Nesvegi 115. Kærandi hafi ítrekað óskað þess að fá upplýsingar um málið og að fá að koma að andmælum, en án árangurs, og 10. nóvember 2010 hafi sveitarstjórn samþykkt breytingar á nefndu skipulagi þar sem byggingarheimildir á lóð kæranda hafi verið verulega skertar. Hafi nú mátt reisa á lóðinni hús á einni hæð með niðurgröfnum kjallara og byggingarreitur lóðarinnar minnkaður verulega. Það hafi fyrst verið í kjölfar skriflegrar fyrirspurnar kæranda að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi í tölvupósti frá 26. nóvember s.á. upplýst hann um samþykktar breytingar á deiliskipulaginu. Kærandi hafi í kjölfar þessa gert skriflegar athugasemdir við málsmeðferð Seltjarnarnesbæjar og krafist þess að málið yrði tekið til endurskoðunar og dregnar til baka fyrrgreindar breytingar en því erindi hafi ekki verið svarað. Í desember 2010 hafi Skipulagsstofnun lagt fyrir sveitarfélagið að auglýsa tillöguna að nýju þar sem þær breytingar sem gerðar hefðu verið teldust svo verulegar að ekki væri heimilt að samþykkja deiliskipulagið án þess að auglýsa það að nýju. Við þá endurkynningu hafi kærandi komið að andmælum sem ekki hafi verið fallist á en þó hafi byggingarreitur umræddrar lóðar verið stækkaður. Deiliskipulagið hafi verið staðfest í bæjarstjórn 22. júní 2011 og hafi kærandi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er vísað hafi málinu frá. Við kynningu hins kærða deiliskipulags hafi andmæli kæranda verið ítrekuð en þá þegar hafi verið lagt í mikinn kostnað vegna vinnu arkitekts við útfærslu hugmyndar að húsi á umræddri lóð. Ekkert hafi hins vegar orðið úr vilyrðum formanns skipulags- og mannvirkjanefndar bæjarins um breytingar og hafi hin auglýsta tillaga verið samþykkt algerlega óbreytt varðandi lóð kæranda.

Ítrekað hafi verið brotið gegn rétti kæranda við aðdraganda og málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar auk þess sem lög og reglur um samráð hafi ekki verið virtar. Málsmeðferð við fyrrgreindar breytingar sé ekki í samræmi við gr. 3.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 en sambærilegt ákvæði sé í núgildandi reglugerð nr. 90/2013. Sú framganga bæjarins að tilkynna kæranda ekki fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi sem búið hafi verið að samþykkja og vörðuðu lóð hans og sinna í engu óskum um upplýsingar feli í sér brot gegn 14. og 15. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi kæranda ekki verið gefið færi á að koma að athugasemdum eða kynna aðstæður á lóðinni sem sé brot gegn 13. gr. stjórnsýslulaga um andmælarétt og sé ekki í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Umdeild breyting frá áður ráðgerðum byggingarheimildum á lóð kæranda hafi byggst á athugasemdum sem fram hafi komið að loknum athugasemdafresti sem ekki geti verið grundvöllur slíkrar ákvörðunar en sömu athugasemdir hafi ekki þótt gefa tilefni til breytinga af hálfu bæjarstjórnar á fyrri stigum. Ekkert hafi breyst sem réttlæti breytinguna og Skipulagsstofnun hafi engar athugasemdir gert við yfirferð málsins á sínum tíma.

Gildandi deiliskipulag sé bindandi fyrir stjórnvöld og borgara sbr. 2. mgr. gr. 6.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 og verði málefnaleg sjónarmið að búa að baki breytingu á deiliskipulagi. Kærandi hafi haft réttmætar væntingar til að fá að byggja á lóðinni að Nesvegi 115 tveggja hæða hús í samræmi við fyrri samþykkt bæjarfélagsins á deiliskipulagi fyrir umrætt svæði sem hafi falið í sér ívilnandi stjórnvaldsákvörðun gagnvart kæranda sem honum hafi verið tilkynnt um, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga.

Sé hið kærða deiliskipulag ekki stutt skipulagslegum rökum eða lögmætum sjónarmiðum. Með því sé farið gegn lagamarkmiði um réttaröryggi einstaklinga sem sett hafi verið fram í 1. gr. laga nr. 73/1997 og 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi öll meðferð málsins verið sérlega óvönduð og virðist helst lituð af geðþóttaákvörðunum þeirra sem stýri skipulagsmálum á Seltjarnarnesi.

Óeðlilegt sé að einn lóðareigandi í hverfinu, þ.e. að Nesvegi 107, hafi nýlega fengið að byggja nýtt hús á tveimur hæðum við sjávarsíðuna að því er virðist án skilmála líkt og nýbygging á lóð kæranda þurfi að uppfylla. Með hinni kærðu ákvörðun sé því farið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar enda liggi ekki fyrir veigamiklar málefnalegar ástæður sem réttlætt geti slíka mismunun gagnvart lóðarhöfum við viðkomandi götu. Virðist sem kærandi eigi að gjalda þess að lóðarhafar að Nesvegi 107 og 111-113 hafi fengið svo rúmar byggingarheimildir sem raun beri vitni.

Af tuttugu húsum sem byggð séu á sjávarlóðum í Lambastaðahverfi séu sex þeirra tveggja hæða. Þau rök að einungis sé heimilað einnar hæðar hús á lóð kæranda til að varðveita fallega sjávarsýn hverfisins séu hvorki haldbær né málefnaleg þegar jafnræðisreglan sé höfð í huga. Ennfremur sé óeðlilegt að þessi rök eigi einungis við um eitt af hverfum bæjarins því hæðir húsa á sjávarlóðum almennt á Seltjarnarnesi séu oft tvær, t.d. við Sæbraut, en einnig sé stór hluti húsa við Sæbraut á 1½ hæð og séu tvær hæðir á þeirri hlið er snúi að sjó. Einnig standi mörg þeirra húsa sem séu einnar hæðar og á sjávarlóð hátt í landi en lóð kæranda standi mjög lágt miðað við margar nærliggjandi lóðir. Þá sé kæranda sem lóðarhafa mismunað þar sem honum séu sett mjög þröng skilyrði um þakform og skuggavarp sem aðrir lóðarhafar við sjávarsíðuna hafi ekki verið bundnir af. Auk þess séu alvarlegir efnislegir annmarkar á hinu kærða deiliskipulagi vegna þröngra skipulagsskilmála sem hindri að hús það sem kærandi hafi látið teikna fyrir lóðina í samræmi við fyrirheit bæjarins á sínum tíma verði reist. Því fylgi fjártjón fyrir kæranda sem uppfylli skilyrði 25. gr. stjórnsýslulaga um afturköllun stjórnvaldsákvörðunar.

Hin þröngu skilyrði skipulagsins sem gildi fyrir lóðina að Nesvegi 115 geri ókleift að reisa hús sem uppfylli nútímakröfur um stærð, gerð og staðsetningu. Leyfileg hæð húss samkvæmt fyrra skipulagi hafi verið 7,5 m frá lóðarhæð en sé nú 8 m frá sjávarmáli. Af teikningum tillögunnar megi sjá að nýtt hús megi varla hækka neitt umfram það hús sem í dag standi á lóðinni og sé gert ráð fyrir að hæð nýbyggingar geti orðið u.þ.b. 15 cm hærri en núverandi hús. Ómögulegt sé að teikna hús fyrir lóðina, á einni hæð með kjallara, sem rúmist innan þessara hæðarmarka. Heimild fyrir kjallara undir húsinu sé markleysa vegna sjávarfalla á svæðinu en áætlað sé að sjávarstaða muni hækka á komandi árum. Samkvæmt 11. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 skuli ekki leyfa kjallara í húsum á svæðum sem skilgreind séu sem hættusvæði vegna sjávarflóða eða landbrots og ákvæði gr. 6.7.4. og 10.3.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 takmarki mjög heimildir til að byggja íbúðir í kjallara. Þá yrðu framkvæmdir við byggingu kjallara svo umfangsmiklar og dýrar að enginn ávinningur yrði af þeim þegar höfð sé hliðsjón af matsgerð dómkvaddra matsmanna í þessu efni sem kærandi hafi aflað.

Stækkun byggingarreits á lóð kæranda hafi ekki þýðingu með hliðsjón af aðstæðum en útilokað sé að reisa hús innan þeirra takmarka sem settar séu með staðsetningu byggingarreitsins innan lóðarinnar. Reglur í gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um staðsetningu húsa og kröfur um lágmarksfjarlægð feli í sér að kærandi geti ekki nýtt sér þá hluta byggingarreitsins sem núverandi hús standi á, næst lóðum á Nesvegi 107 og 111-113. Skúrar á lóðinni að Nesvegi 111-113 takmarki einnig mjög staðsetningu hússins. Útilokað sé að nýta heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar miðað við núverandi stærð og staðsetningu byggingarreitsins. Heimild til að byggja hús á tveimur hæðum á þessari lóð skerði ekki réttindi annarra íbúa svæðisins svo neinu nemi að mati kæranda.

Auk þess hafi einn nefndarmanna skipulags- og mannvirkjanefndar verið vanhæfur við meðferð málsins með vísan til 19. gr. sveitarstjórnarlaga og almennra hæfisreglna stjórnsýslunnar en nefndarmaðurinn búi á skipulagssvæðinu og hafi komið að málsmeðferð og ákvarðanatöku vegna deiliskipulagsins. Hafi sá nefndarmaður haft efnislega áhrif á ákvörðun nefndarinnar þar sem hann hafi lagt fram sérstaka bókun á fundi hennar á árinu 2010 þar sem umdeildum breytingum hafi verið fagnað. Sá hafi einnig lagt fram sérstaka bókun á fundi hinn 6. júní 2013, en fundargerðir funda nr. 187 og 188 staðfesti að hann hafi setið fundina.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að kröfu kæranda um ógildingu hins kærða deiliskipulags, í heild eða að hluta, verði hafnað. Engir form- eða efnisannmarkar hafi verið á undirbúningi og málsmeðferð skipulagsins.

Ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 hafi verið fylgt í alla staði. Fundir hafi verið haldnir með kæranda og gengið á vettvang og að auki hafi lögmanni kæranda verið tilkynnt bréflega að nýtt skipulagsferli væri að hefjast. Fullyrðing um brot á upplýsingarétti sé með öllu órökstudd en kærandi hafi fengið afrit af öllum gögnum sem hann hafi óskað eftir vegna málsins. Athugasemdir kæranda og málsástæður lúti að meðferð málsins á fyrri stigum. Því sé mótmælt að ágallar hafi verið á meðferð fyrri skipulagstillagna umrædds svæðis en jafnvel þótt svo væri talið gæti það ekki haft áhrif á gildi þess skipulags sem kærumál þetta snúist um.

Þótt einn nefndarmanna í skipulags- og mannvirkjanefnd bæjarins eigi fasteign á umræddu skipulagssvæði valdi það ekki vanhæfi nefndarmannsins sem hafi verið áheyrnarfulltrúi í nefndinni við meðferð umrædds máls og ekki komið að afgreiðslu þess. Afgreiðslur vegna fyrri skipulagsmeðferðar hafi enga þýðingu hér. Fasteign kæranda hafi engin grenndaráhrif gagnvart fasteign umrædds aðila sökum fjarlægðar milli fasteigna þeirra og nefndin sé aðeins ráðgefandi við skipulagsákvörðun sem bæjarstjórn taki.

Tillaga að deiliskipulagi, sem skipulags- og mannvirkjanefnd hafi samþykkt að senda í auglýsingu á árinu 2009, hafi gert ráð fyrir að hús á lóðunum nr. 115 og 119a við Nesveg yrðu á einni hæð en tillagan hafi svo verið auglýst með breytingum á byggingarreitum og hæð umræddra húsa. Þegar ákveðið hafi verið að auglýsa tillöguna árið 2011 hafi hún verið í því formi sem gert hafi verið ráð fyrir árið 2009 fyrir varðandi hæð húsanna á greindum lóðum og þau lækkuð til að koma til móts við athugasemdir hagsmunaaðila á svæðinu. Hafi sú breyting einnig fallið að markmiðum forsagnar skipulagsins og deiliskipulagstillögunnar um varðveislu útsýnis til sjávar, en 2/3 hluti húsa á sjávarlóðum á svæðinu séu á einni hæð. Einnig hafi breytingin verið í samræmi við það leiðarljós að eigendum lóða í hverfinu væri gert mögulegt að endurnýja og bæta fasteignir sínar í sátt við umhverfið. Hafi málefnaleg og lögmæt sjónarmið legið til grundvallar breytingunni sem byggð hafi verið á faglegu mati þeirra ráðgjafa sem unnið hafi skipulagið.

Kærandi hafi komið að sjónarmiðum sínum við meðferð skipulagstillögunnar og notið lögmæts andmælaréttar. Á engan hátt hafi verið gengið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, skipulagsreglugerðar eða stjórnsýslulaga um kynningu og samráð. Engu breyti þótt athugasemdir hafi borist eftir að athugasemdafrestur hafi verið liðinn enda athugasemdirnar ekki frumástæða breytingarinnar og enga þýðingu hafi í þessu sambandi að Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemd við fyrri skipulagstillögu þar sem gert hafi verið ráð fyrir tveggja hæða húsi á lóð kæranda. Fyrri skipulagstillögur fyrir umrætt svæði séu ekki til umfjöllunar í máli þessu. Mál þetta snúist um skipulagsferli sem hafi alfarið hafist að nýju eftir úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála um deiliskipulag Lambastaðahverfis. Haldnir hafi verið nokkrir fundir með kæranda og leitast við að finna lausn sem kærandi gæti sætt sig við, m.a. unnin tillaga að breytingu. Samkomulag hafi hins vegar ekki náðst með aðilum.Öll sjónarmið kæranda um skort á samráði, andmælarétti eða broti á rannsóknarreglu eigi því ekki við rök að styðjast.

Leyfi hafi verið veitt fyrir því að reisa tveggja hæða hús á lóðinni að Nesvegi 107 áður en vinna við gerð deiliskipulags hafi byrjað, en það hafi ekki þótt til eftirbreytni á svæði þar sem flest hús á sjávarlóðum séu á einni hæð. Nauðsynlegt hafi verið að skipuleggja svæðið til að taka á því með heildstæðum hætti en fyrrnefnt leyfi bindi hins vegar ekki skipulagsyfirvöld við gerð heildarskipulags af svæðinu. Samþykkt tillaga taki fremur mið af byggðarmynstri svæðisins og málefnaleg sjónarmið búi að baki þeirri ákvörðun sem taki mið af hagsmunum heildarinnar fremur en rétthöfum lóða nr. 115 og 119a við Nesveg. Kærandi hafi ekki mátt vænta þess eða haft vilyrði fyrir því að fá að byggja tveggja hæða hús á lóð sinni. Geti hann ekki byggt væntingar á tillögu að skipulagi þar sem málsmeðferð þess hafi ekki verið lokið. Því sé mótmælt að svör við athugasemdum vegna fyrri auglýsingar skipulags hafi bundið hendur sveitarfélagsins við seinni afgreiðslu málsins. Breyti engu þótt kærandi hafi þegar látið hanna tillögu að húsbyggingu á lóðinni enda hafi hann gert það áður en skipulagsvinnan hafi farið af stað á eigin ábyrgð og áhættu.

Því sé jafnframt mótmælt að samþykki skipulagsins árið 2010 hafi falið í sér stjórnvaldsákvörðun til handa kæranda sem ekki verði afturkölluð nema skilyrði 25. gr. stjórnsýslulaga séu uppfyllt. Deiliskipulag sé ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga heldur almennar reglur um mótun byggðar á tilteknu svæði. Tillaga að skipulagi bindi ekki hendur sveitarfélags fyrr en skipulag hafi öðlast gildi en það eigi ekki við um skipulagstillögu þá sem kærandi vísi til. Að auki sé sveitarfélögum heimilt að breyta skipulagi sem öðlast hafi gildi. Reglur stjórnsýslulaga eigi ekki við hvað þetta varði.

Misskilnings gæti hjá kæranda um að hann geti ekki nýtt sér reitinn sem núverandi hús standi á eða að nærliggjandi hús takmarki möguleika hans til byggingar innan byggingarreits. Heimilt sé að ákveða í skipulagi hver fjarlægð megi vera frá lóðarmörkum og öðrum mannvirkjum og gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð takmarki þetta ekki enda sé hægt að tryggja brunavarnir við hönnun hússins. Aðstaðan að þessu leyti sé ekki verri en hvað varði núverandi hús. Þá hafi eigandi Nesvegar 115 á sínum tíma samþykkt byggingu bílskúra fast að lóðarmörkum. Þótt kærandi geti ekki byggt það hús sem hann hafi haft í hyggju, geti það ekki snert gildi hins kærða deiliskipulags. Sveitarfélagið hafi hins vegar á fyrri stigum leitast við að koma til móts við sjónarmið kæranda, m.a. hvað varði stækkun byggingarreits, en ekki hafi náðst samkomulag um stækkun hússins.

Umrætt deiliskipulag auki nýtingarmöguleika kæranda á lóð hans með stækkun byggingarreits og möguleika á gerð kjallara undir húsi. Þrátt fyrir að sjávarflóð hafi orðið á umræddu svæði sé það ekki skilgreint sem „hættusvæði vegna sjávarflóða“ í deiliskipulagi eða aðalskipulagi enda séu kjallarar í mörgum húsum á svæðinu. Samkvæmt almennum skilmálum skipulagsins þurfi að gera grein fyrir vörnum gegn sjávarflóðum á aðaluppdráttum húsa og séruppdráttum.

Komist úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að Seltjarnarnesbær hafi brotið á rétti kæranda við meðferð málsins með þeim hætti að áhrif gæti haft á gildi hinnar kærðu ákvörðunar sé tekið undir varakröfu kæranda um að eingöngu sá hluti skipulagsins sem varði lóð kæranda verði felldur úr gildi.

Andmæli kæranda við umsögn sveitarfélagsins: Kærandi áréttar fyrri sjónarmið sín þess efnis að engin lögmæt ástæða hafi búið að baki breytingum á áformuðum byggingarheimildum á lóð hans og að hann hafi ekkert tækifæri fengið til að andmæla þegar sveitarfélagið hafi ákveðið að afturkalla fyrri ákvörðun sína. Þá séu ítrekaðar málefnalegar athugasemdir kæranda við verklag sveitarfélagsins í málinu. Byggt hafi verið á ógrunduðum hugmyndum sveitarfélagsins um afstöðu íbúa sveitarfélagsins og tímafrestir til athugasemda við umdeilda skipulagstillögu hafi ekki verið virtir.

Kæranda hafi aldrei gefist tækifæri til að leggja fram útfærða hugmynd að því húsi sem hann hafi getað hugsað sér sem hluta af þeirri málamiðlun sem reynt hafi verið að ná í tímaþröng. Hann hafi orðið fyrir kostnaði vegna vinnu arkitekts sem síðan hafi ekki verið hægt að nýta. Þá sé ljóst að formaður skipulags- og byggingarnefndar hafi aldrei lagt fram þær hugmyndir að tveggja hæða húsi sem ræddar hafi verið á fundum. Ekki hafi verið horft til hagsmuna kæranda er heimilað hafi verið að reisa tveggja hæða hús á lóðinni að Nesvegi 107 og athugasemdum kæranda vegna þess húss hafi aldrei verið svarað formlega af Seltjarnarnesbæ. Því sé hafnað að Seltjarnarnesbær geti látið svo ómálefnalegt og breytilegt mat á hagsmunum borgaranna stýra heimildum um nýtingu lóðarréttinda hjá sveitarfélaginu. Þá sé því mótmælt að fyrri afgreiðsla skipulags- og mannvirkjanefndar og bæjarstjórnar hafi enga þýðingu í málinu enda hafi kæranda verið tilkynnt sérstaklega um samþykkt þeirra með bréfi, dags. 30. apríl 2010. Slík tilkynning hafi óhjákvæmilega lögfylgjur í samræmi við ákvæði 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Lóðin að Nesvegi 115 sé lægsti punktur á stóru svæði. Umrædd lóð sé umtalsvert lægri en lóðin að Nesvegi 107 og því glapræði að ætla sér að byggja hús með kjallara á þessum stað, en slíkur kjallari yrði væntanlega með gólfkóta innan við hálfum metra yfir núllpunkti í mælingarkerfi Reykjavíkurborgar. Framkoma bæjarins og málsmeðferð hafi valdið kæranda kostnaði sem nemi milljónum.

——

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 2. september 2014.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags Lambastaðahverfis er samþykkt var í bæjarstjórn Seltjarnarness 12. júní 2013 og tók gildi 1. ágúst s.á. Fram að gildistöku skipulagsins var lóð kæranda á ódeiliskipulögðu svæði. Fyrri skipulagstillögur og samþykktir bæjarstjórnar varðandi umrætt svæði sæta ekki lögmætisathugun í máli þessu. Þá verður ekki tekin afstaða til þess hvort þær tillögur og samþykktir hafi skapað kæranda réttindi með skuldbindandi hætti enda ekki í hlutverki úrskurðarnefndarinnar að lögum að leysa úr slíkum réttarágreiningi.

Lýsing á skipulagsverkefni Lambastaðahverfis var kynnt á almennum fundi sem og tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis. Tillagan var auglýst til kynningar og afstaða tekin til athugasemda er bárust og þeim svarað. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 bera sveitarstjórnir ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags. Bæjarstjórn Seltjarnarness tók hina kærðu ákvörðun og er því ekki um að ræða vanhæfi við töku ákvörðunar samkvæmt vanhæfisreglum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 þótt íbúi á skipulagssvæðinu hafi komið að undirbúningi og meðferð málsins á fyrri stigum. Kærandi átti þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum á kynningarfundi og við lögboðna kynningu skipulagstillögunnar og var þeim athugasemdum svarað. Þá áttu sér stað samskipti milli kæranda og skipulagsyfirvalda í því skyni að ná ásættanlegri lausn varðandi nýtingarheimildir á lóð kæranda. Var andmælaréttar hans því gætt við meðferð málsins og ekki verður séð að rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar hafi ekki verið gætt en fyrir liggur að aðdragandi hinnar kærðu ákvörðunar var all nokkur. Samkvæmt framangreindu var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að formi til í samræmi við ákvæði laga.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvaldið, sbr. fyrrgreind ákvæði skipulagslaga, og er það tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Við töku skipulagsákvarðana ber þó m.a. að hafa í huga markmið þau sem tíunduð eru í a- til c- lið 1. gr. skipulagslaga um að við þróun byggðar sé tekið mið af efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum landsmanna, að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri hagnýtingu lands og landgæða og tryggja að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Þegar litið er til staðsetningu lóða og aðstæðna á skipulagssvæðinu verður að telja þau sjónarmið sveitarfélagsins málefnaleg að reyna að varðveita útsýni sem flestra á svæðinu til sjávar enda var með því stefnt að því að hafa hag sem flestra að leiðarljósi. Að sama skapi liggur fyrir, eins og áður er lýst, að reynt var að finna lausn varðandi lóð kæranda og verður því ekki annað séð en að sveitarfélagið hafi gætt meðalhófs við beitingu skipulagsvalds síns.

Í hinu kærða deiliskipulagi er hámarkshæð húss að Nesvegi 115 tilgreind og byggingarreitur á uppdrætti ákvarðar staðsetningu þess. Verður ekki annað séð, hvað sem líður umdeildum skilyrðum um hönnun þaks og staðsetningu húss m.t.t útsýnis og skuggavarps, að kærandi eigi rétt á að reisa hús innan hæðarmarka skipulagsins og innan markaðs byggingarreits að teknu tilliti til reglna um eldvarnir sem á reynir við veitingu byggingarleyfis, sbr. 1. mgr. gr. 9.7.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þá liggur fyrir að hann getur nýtt sér heimild til að byggja kjallara þó að því geti fylgt aukinn kostnaður vegna þeirra náttúrulegu aðstæðna sem til staðar eru.

Fyrir liggur að Seltjarnarnesbær mun árið 2007 hafa veitt leyfi fyrir byggingu húss að Nesvegi 107 og telur kærandi m.a. að honum sé mismunað miðað við þær heimildir sem þar hafi verið veittar. Umrætt leyfi sætir ekki lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar en það var veitt þegar svæði það sem hið umdeilda deiliskipulag tekur til var ódeiliskipulagt og verður ekki talið að það leyfi hafi skapað fordæmi sem bæjarstjórn hafi verið bundin af við umdeilda skipulagsgerð. Þá verður hvorki séð með hliðsjón af aðstæðum og staðháttum að kæranda hafi verið mismunað við ákvörðun byggingarheimilda á sjávarlóðum á skipulagssvæðinu né að hægt sé að bera saman byggingarheimildir lóðar kæranda við Nesveg 111 og 113 sem staðsett er norðan við lóð kæranda fjær sjó.

Með vísan til alls þess er að framan greinir og þar sem ekki verður talið að aðrir þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun sem geti raskað gildi hennar, er kröfu kæranda um ógildingu hafnað.

Verði hins vegar leitt í ljós að umdeild skipulagsákvörðun valdi kæranda fjártjóni kann það að leiða til bótaréttar skv. 51. gr. skipulagslaga, en úrlausn um það álitaefni er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson

49/2013 Vesturhús

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 2. september kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. maí 2013 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir áður gerðri stækkun undir bílageymslu við hús nr. 2 við Vesturhús í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. maí 2013, er barst nefndinni hinn 21. s.m., kærir S, Vesturhúsum 2, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. maí 2013 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir áður gerðri stækkun undir bílageymslu að Vesturhúsum 2 í Reykjavík. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg hinn 22. ágúst 2013.

Málavextir: Fasteignin að Vesturhúsum 2 er einbýlishús á tveimur hæðum með bílskúr. Í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er eignin skráð sem einbýlishús með tvær íbúðir, en íbúðirnar og bílskúrinn eru með sama fastanúmer. Neðri hæð fasteignarinnar er 73,8 m2, efri hæðin er 130,2 m2 og bílskúrinn er 50,4 m2. Þá er óskráð 50,4 m2 rými undir bílskúrnum.

Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 23. apríl 2013 var tekin fyrir umsókn kæranda um byggingarleyfi þar sem sótt var um „… að fá rými undir bílageymslu samþykkt, áður gerðu. Þetta er geymsla.“ Afgreiðslu málsins var frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Erindið var síðan tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. apríl s.á. og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 3. maí s.á. var ákveðið að vísa málinu til umsagnar verkefnastjóra. Skipulagsfulltrúi tók síðan málið fyrir á embættisafgreiðslufundi 10. s.m. og lá þá fyrir umsögn hans, dagsett sama dag. Þar kom fram að umsóknin samræmdist ekki deiliskipulagi þar sem heildarflatarmál umrædds húss færi fram úr leyfilegu heildarflatarmáli samkvæmt skipulagi og var afstaða skipulagsfulltrúa til umsóknarinnar neikvæð með vísan til þess. Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. maí 2013 var umsókn kæranda synjað með eftirfarandi bókun: „Synjað. Með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 10. maí 2013.“ Framangreind ákvörðun var staðfest í borgarráði hinn 30. maí s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi staðið í þeirri trú við kaupin á fasteigninni að Vesturhúsum 2 að í húsinu væru tvær séríbúðir og unnt væri að selja aðra íbúðina ef á þyrfti að halda. Við undirbúning eignaskiptayfirlýsingar hafi verið leitað til arkitekts til að gera nauðsynlega uppdrætti í því skyni að fá umdeilt rými undir bílskúrnum samþykkt sem geymslurými, en það hafi verið óskráð frá byggingu fasteignarinnar. Kæranda hafi verið tjáð í kjölfar hinnar kæruðu ákvörðunar að tvær sjálfstæðar íbúðir yrðu ekki samþykktar í húsinu enda yrði farið út fyrir heimildir deiliskipulags um stærð minni íbúðarinnar ef fallist yrði á umbeðna stækkun. Vísar kærandi til þess að ýmis dæmi séu um að heimilaðar hafi verið tvær íbúðir sem sjálfstæðar fasteignir í húsum við Vesturhús, sambærilegar að stærð og vera myndi í húsi kæranda ef fallist yrði á umrædda umsókn hans og flatarmál hússins yrði ekki meira en flatarmál fjölda annarra húsa við götuna. Í því ljósi verði að telja að hvorki sé unnt að synja um skráningu tveggja íbúða í húsi kæranda við Vesturhús né um skráningu fyrrgreinds rýmis undir bílskúr.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að í gildi hafi verið deiliskipulag fyrir umrætt hverfi í Grafarvogi sem samþykkt hafi verið í borgarráði 10. september 1991. Þar falli umrædd fasteign í húsflokk E9, en þau hús geti í mesta lagi verið 270 m² að flatarmáli samkvæmt skilmálum skipulagsins. Skrá megi aukaíbúð í húsunum að hámarki 50 m² og teljist sú íbúð með í heildarflatarmáli fasteignarinnar, sbr. 3. mgr. gr. 1.1.25. deiliskipulagsins. Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sé fasteignin Vesturhús 2 skráð sem 254,4 m² að stærð. Ef fallist væri á þá málaleitan að stækka rými fasteignarinnar um 50,4 m² yrði heildarflatarmálið 304,8 m², sem færi í bága við skipulagið. Af þeim sökum hafi ekki verið unnt að samþykkja umsókn kæranda. Rétt sé í þessu sambandi að benda á að umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hafi um nokkurt skeið unnið að breytingum á deiliskipulagi hverfisins og hafi því ekki þótt efni til að ráðast í skipulagsbreytingu varðandi lóð kæranda sérstaklega. Þau tilvik sem kærandi nefni um að heimilaðar hafi verið stærri aukaíbúðir en 50 m² séu frá gildistíð eldri skipulagslaga nr. 19/1964, en lagaumhverfi á þessu sviði sé nú gjörbreytt í núgildandi skipulagslögum nr. 123/2010. Af þeirri ástæðu geti kærandi ekki vænst þess að fá sambærilega afgreiðslu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 14. maí 2013 á byggingarleyfisumsókn kæranda um að rými sem nú þegar er til staðar undir bílskúr hússins að Vesturhúsum 2 verði samþykkt sem geymslurými. Umsókn kæranda lýtur ekki að því að aukaíbúð í húsinu verði samþykkt sem sérstök fasteign og í hinni kærðu ákvörðun er ekki tekin afstaða til þess. Í kærumáli þessu kemur það atriði því ekki til skoðunar.

Samkvæmt 3. mgr. gr. 1.1.25. deiliskipulagsins, Grafarvogur III Húsahverfi C hluti, sem samþykkt var í borgarráði 10. september 1991 og á við um umrædda fasteign kæranda, kemur fram að hús sem eru í flokki E9 mega að hámarki vera 270 m² að stærð. Fasteignin við Vesturhús 2 er skráð 254,4 m² samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, en yrði við skráningu fyrrgreinds rýmis 304,8 m² eða 34,8 m² umfram það sem heimilað var samkvæmt greindu deiliskipulagi. Samþykki umsóknar kæranda hefði því farið gegn skilmálum skipulagsins. Í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það gert að skilyrði fyrir samþykki og útgáfu byggingarleyfa að efni þeirra sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Með hliðsjón af því var borgaryfirvöldum rétt að synja umsókn kæranda að óbreyttu skipulagi. Þótt dæmi kunni að vera um að skilmálar skipulags um hámarksflatarmál húsa á svæðinu hafi ekki verið virt geta slík tilvik ekki skapað fordæmi fyrir frávikum frá skilmálum skipulags við veitingu byggingarleyfa.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Rétt þykir að taka fram að breyting á deiliskipulagi, Grafarvogur III Húsahverfi C hluti, vegna húsgerðanna E8, E9 og útbygginga, var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur hinn 11. september 2013. Breytingin felur í sér að heimilt hámarksbyggingarmagn er aukið hvað varðar nefndar húsgerðir. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, hinn 29. október 2013.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. maí 2013 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir áður gerðri stækkun undir bílageymslu við hús nr. 2 við Vesturhús í Reykjavík.

______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                            ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                                Þorsteinn Þorsteinsson

87/2013 Lambastaðahverfi

Með

Árið 2014, föstudaginn 5. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 87/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. ágúst 2013, er barst nefndinni 30. s.m., kæra J og K, Tjarnarbóli 14, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi. Gerð er krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og að á lóðinni nr. 1 við Skerjabraut verði einungis heimiluð bygging þriggja hæða húss. Með bréfi, dags. 26. mars 2014, mótteknu sama dag, krefjast sömu aðilar þess að framkvæmdir á lóðinni að Skerjabraut 1-3 verði stöðvaðar með vísan til 5. gr. laga nr. 130/2011. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkæru kærenda.

Gögn í  máli þessu bárust frá Seltjarnarnesbæ 24. janúar 2014.

Málavextir: Vinna við gerð deiliskipulags Lambastaðahverfis hófst á árinu 2008. Hinn 28. apríl 2010 samþykkti bæjarstjórn Seltjarnarness deiliskipulag fyrir hverfið og í nóvember s.á. voru samþykktar breytingar á skipulaginu. Auglýsing um gildistöku þess var þó ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda og í desember 2010 var samþykkt í bæjarstjórn að auglýsa að nýju tillögu að deiliskipulagi umrædds svæðis. Hinn 22. júní 2011 samþykkti bæjarstjórn nefnt skipulag og tók það gildi í október s.á. Var skipulagið kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er vísaði málinu frá hinn 25. október 2012 með vísan til þágildandi 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem kvað á um ógildi skipulagsákvarðana væri auglýsing um gildistöku ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda innan lögboðins frests.

Í kjölfar þess var ákveðið af hálfu sveitarfélagsins að hefja skipulagsferlið að nýju. Var skipulagslýsing vegna svonefndrar endurauglýsingar deiliskipulags Lambastaðahverfis kynnt, m.a. á íbúafundi hinn 10. janúar 2013, og veittur nokkurra daga frestur til að koma að athugasemdum. Í nefndri lýsingu var tekið fram að gert væri ráð fyrir að nýtt deiliskipulag Lambastaðahverfis yrði í samræmi við deiliskipulagstillögu Lambastaðahverfis sem samþykkt var í bæjarstjórn 22. júní 2011, að öðru leyti en því að skipulag fyrir lóðina að Skerjabraut 1-3 yrði í samræmi við tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina, dags. 17. júlí 2012. Þá myndi við gildistöku skipulagsins falla úr gildi deiliskipulag lóðarinnar Skerjabrautar 1-3 sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn árið 2007 og skipulags- og byggingarskilmálar fyrir Hamarsgötu 2, 4 og 6 frá árinu 1973.

Tillaga að deiliskipulagi Lambastaðahverfis var kynnt á íbúafundi hinn 14. febrúar 2013 og á fundi bæjarstjórnar hinn 27. s.m. var samþykkt að auglýsa hana til kynningar og var frestur til athugasemda til 26. apríl 2013. Á þeim tíma bárust 13 bréf og umsagnir með athugasemdum, þ. á m. frá kærendum. Bæjarstjórn tók málið fyrir hinn 12. júní 2013 að undangenginni umfjöllun skipulags- og mannvirkjanefndar 4. s.m. og afgreiddi málið með svofelldri bókun: „Bæjarstjórn samþykkir samhljóða smávægilega breytingu á deiliskipulagstillögum og tillögur um svör frá skipulags- og mannvirkjanefnd vegna deiliskipulags Lambastaðahverfis. Skipulagsstjóra falið að senda svörin til íbúa og afrit ásamt deiliskipulagstillögu með smávægilegri breytingu til umsagnar Skipulagsstofnunar.“ Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins og öðlaðist það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 1. ágúst 2013.

Málsrök kærenda: Kærendur andmæla heimild til byggingar fjögurra hæða húss á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut og telja að með því sé brotið á grenndarrétti þeirra. Húsið muni, vegna nálægðar við fasteign kærenda, skerða útsýni þeirra, hafa áhrif á lífsgæði kærenda og rýra verðmæti fasteignar þeirra. Geri skipulagið ráð fyrir að á milli húsanna að Tjarnarbóli 14 og Skerjabraut 1 verði aðeins 11 m og að veggir þeirra verði samhliða. Samrýmist húsið ekki byggðamynstri á svæðinu en þær fjögurra hæða blokkir sem þar séu fyrir liggi ekki samhliða og skerði útsýni íbúa lítið.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að öllum kröfum kærenda um ógildingu hins kærða deiliskipulags, í heild eða að hluta, verði hafnað. Bent sé á að árið 2007 hafi verið samþykkt í bæjarstjórn deiliskipulag er heimilaði að reisa á lóðinni að Skerjabraut 1-3 fjölbýlishús á allt að fjórum hæðum með meira byggingarmagni og nær húsi kærenda en núverandi deiliskipulag geri ráð fyrir. Séu grenndaráhrif hins nýja deiliskipulags því minni en fyrra skipulags og rýri síst verðmæti íbúðar kærenda miðað við fyrra skipulag sem hafi verið í gildi þegar kærendur hafi keypt íbúð sína á árinu 2011. Þá séu grenndaráhrifin á almennan mælikvarða ekki meiri en íbúar í þéttbýli þurfi almennt að sætta sig við en þeir megi búast við breytingum í samræmi við þróun byggðar og aðstæður allar. Slíkar almennar takmarkanir, sem breytingar á skipulagi hafi í för með sér, s.s. eins og skerðing á útsýni, verði íbúar í þéttbýli að þola bótalaust og sé í því sambandi vísað til dóms Hæstaréttar Íslands frá 1. mars 2012, í máli nr. 478 frá 2011, einkum rökstuðnings héraðsdóms.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 2. september 2014.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags Lambastaðahverfis er samþykkt var í bæjarstjórn Seltjarnarness 12. júní 2013 og tók gildi 1. ágúst s.á. Tekur deiliskipulagið til íbúðarsvæðis sem afmarkast af Nesvegi til norðausturs, bæjarmörkum að Reykjavík til austurs og sjó til suðvesturs, og af Skerjabraut til norðvesturs. Í skipulaginu eru byggingarreitir markaðir og tekin afstaða til nýtingarhlutfalls einstakra lóða.

Kæruheimild er að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, svo sem henni var breytt með 20. gr. laga nr. 131/2011. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að taka nýja ákvörðun verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt.

Lýsing á skipulagsverkefni Lambastaðahverfis var kynnt á almennum fundi sem og tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis. Tillagan var auglýst til kynningar og afstaða tekin til athugasemda er bárust við tillöguna og þeim svarað. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að formi til í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Hið umdeilda deiliskipulag tekur til svæðis þar sem er mótuð byggð sem risið hefur á löngum tíma. Er í greinargerð Aðalskipulags Seltjarnarness 2006-2024 m.a. tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir grundvallarbreytingum á yfirbragði eldri hverfa en að þétting byggðar sé talin jákvæð þar sem henta þyki. Á lóðunum við Tjarnarból nr. 2, 4, 6 og 8 sem og 10 og 12 eru fjölbýlishús á 3½-5 hæðum. Kærendur eru eins og fyrr greinir búsettir í fjölbýlishúsinu að Tjarnarbóli 14 sem er á fjórum hæðum og snýr gafl hússins að lóðinni að Skerjabraut 1-3 sem er hornlóð. Með deiliskipulagi fyrir lóðina er tók gildi 2007 var veitt heimild til niðurrifs þáverandi bygginga Skerjabrautar 1 og 3 og var lóðin óbyggð um nokkurt skeið frá því að sú heimild var nýtt. Jafnframt var veitt heimild í deiliskipulaginu frá 2007 til að reisa á lóðinni eitt fjölbýlishús, allt að fjögurra hæða, með nýtingarhlutfalli allt að 1,27. Með hinni umdeildu skipulagsákvörðun er nú heimilað að reisa á umræddri lóð tvö fjölbýlishús, annars vegar tveggja til þriggja hæða hús með kjallara og hins vegar fjögurra hæða hús með inndreginni efstu hæð og kjallara. Hærra húsið er í beinu framhaldi af fjölbýlishúsunum við Tjarnarból en það lægra er við Skerjabrautina þar sem byggð fer lækkandi niður að sjó. Er nýtingarhlutfall lóðar með kjallara 1,05 en án kjallara 0,95. Er ekki annað að sjá en að deiliskipulag sé í samræmi við aðalskipulag. Ráða má af framangreindu, sem og af staðsetningu byggingarreita, að hinar kærðu breytingar munu fela í sér óveruleg ef nokkur aukin grenndaráhrif gagnvart kærendum, m.a. hvað varðar útsýni, frá því sem verið hefði að óbreyttu deiliskipulagi. Þá er ekki til að dreifa ákvæðum í lögum eða reglugerðum sem kveða á um lágmarks fjarlægð milli húsa, en í gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er aðeins tekið fram að bil á milli bygginga skuli vera nægjanlega mikið svo ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út á milli þeirra.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki talið að þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði. Verði hins vegar sýnt fram á að umdeild skipulagsákvörðun valdi kærendum fjártjóni kann það að leiða til bótaréttar skv. 51. gr. skipulagslaga, en úrlausn um álitaefni þar að lútandi er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Þorsteinn Þorsteinsson

37/2014 Fisfélag Hólmsheiði

Með

Árið 2014, mánudaginn 1. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 37/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp, til bráðabirgða, svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. apríl 2014, sem barst nefndinni 30. s.m., kæra eigendur landspildna nr. 113435, 113426, 113410, 113422 og 113443 í Reynisvatnslandi, samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 19. mars 2014 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Hólmsheiði.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en einnig er gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða með vísan til 5. gr. l. nr. 130/2011.

Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök: Hinn 19. mars 2014 var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar lögð fram umsókn Fisfélags Reykjavíkur, dags. 13. mars 2014, vegna breytinga á deiliskipulagi Hólmsheiðar. Í breytingunni fólst að skilgreina tvær lóðir innan svæðis A og falla frá byggingareit á svæði C. Samkvæmt uppdrætti færðist heimild til að reisa hús undir félagsaðstöðu á svæði C yfir á svæði A. Umsóknin var samþykkt og jafnframt var bókað að samþykkt væri að falla frá grenndarkynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðaði ekki hagsmuni annarra en umsækjanda. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. apríl 2014.

Kærendur skírskota til þess að Reykjavíkurborg sé fullkunnugt um baráttu landeigenda frístundalóða í Reynisvatnslandi gegn öllum áformum um skipulagningu flugvallar og aðra aðstöðu í landi jarðarinnar. Hafi sú barátta staðið allt frá árinu 2006 þegar tillaga um afmörkun svæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur hafi fyrst verið kynnt. Telji kærendur að brotið hafi verið gegn skipulagslögum, skipulagsreglugerð og stjórnsýslulögum þegar samþykkt var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 19. mars 2014 að falla frá grenndarkynningu, enda skerði flugvöllur og aðstaða Fisfélagsins rétt allra þeirra sem eigi lönd og lóðir á þessu svæði.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er skírskotað til þess að breytingin varði ekki hagsmuni annarra en Fisfélagsins og því hafi Reykjavíkurborg verið heimilt að samþykkja umsóknina með þeim hætti sem gert var. Hin umþrætta breyting hafi engin áhrif á grenndarhagsmuni kærenda og eigi því kærendur enga lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kæruefnið sbr. 3. mgr. 4. gr. l. nr. 130/2011. Af þeim sökum beri að vísa málinu frá.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalda frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða vegamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimildir til nýtingar tiltekins svæðis. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfi í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna slíkra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr.  laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun er hafnað.

______________________________
Nanna Magnadóttir

127/2012 Bergstaðastræti

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 127/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. október 2012 um að veita leyfi fyrir uppsetningu svala á suðvesturhlið 1., 2. og 3. hæðar fjölbýlishússins á lóð nr. 56 við Bergstaðastræti í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. nóvember 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Ásgeir Þór Árnason hrl., f.h. Þ, Bergstaðastræti 54, í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. október 2012 að veita leyfi fyrir uppsetningu svala á suðvesturhlið 1., 2. og 3. hæðar fjölbýlishússins á lóð nr. 56 við Bergstaðastræti í Reykjavík.

Gerir kærandi þá kröfu að nefnd ákvörðun og útgáfa byggingarleyfis verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun yfirvofandi framkvæmda. Með úrskurði, upp kveðnum 24. maí 2013, hafnaði úrskurðarnefndin kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kæranda að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg hinn 14. maí 2013.

Málavextir: Húsin að Bergstaðastræti 54 og 56 eru sambyggð og mynda vinkil en standa hvort á sinni lóð. Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. júlí 2005 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að setja svalir á suðvesturhlið 1., 2. og 3. hæðar ásamt samþykki fyrir „áður gerðri stækkun íbúðar 2. hæðar um hluta af 3. hæð og fyrir stiga á milli 2. og 3. hæðar“ fjölbýlishússins á lóð nr. 56 við Bergstaðastræti. Ódagsett samþykki meðeigenda að Bergstaðastræti 56 fylgdi erindinu ásamt samþykki hluta eigenda að Bergstaðastræti 54. Leyfisumsóknin var grenndarkynnt fyrir íbúum Bergstaðastrætis 53, 54, 55 og íbúum að Laufásvegi 49-51 og bárust nokkrar athugasemdir við áformaðar framkvæmdir. Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir í skipulagsráði sem gerði ekki athugasemdir við að byggingarleyfi yrði veitt þegar teikningar hefðu verið lagfærðar og breytingar gerðar í samræmi við athugasemdir á umsóknareyðublaði og umsögn skipulagsstjóra.

Málið var til umfjöllunar á fundum byggingarfulltrúa á árunum 2005, 2006 og 2011, en á afgreiðslufundi hans 28. ágúst 2012 var erindinu vísað að nýju til skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 31. ágúst s.á. var samþykkt að grenndarkynna tillöguna m.a. fyrir kæranda. Í kjölfar grenndarkynningarinnar var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 24. október s.á. þar sem fyrir lágu fram komnar athugasemdir, m.a. frá kæranda, og umsögn skipulagsstjóra, dags. 11. s.m. Skipulagsráð bókaði að ekki væru gerðar athugasemdir við erindið og vísaði því til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa, sem samþykkti byggingaráformin á fundi sínum hinn 30. október 2012. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 1. nóvember s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að með tilkomu svala þeirra sem hin kærða ákvörðun heimili verði friðhelgi einkalífs og heimilis hans raskað með óásættanlegum hætti og verðmæti fasteignar hans skert. Svalirnar muni skerða útsýni úr stofu kæranda mót suðri og bein sjónlína verði frá þeim í vistarverur hans. Á skorti að lögboðið samþykki eigenda húseignanna að Bergstaðastræti 54 og 56 hafi legið fyrir, sbr. 2. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Þá eigi umdeildar framkvæmdir sér ekki stoð í skipulagi og hafi reglna nábýlis- og grenndarréttar ekki verið gætt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er skírskotað til þess að meðferð umdeildrar byggingarleyfisumsóknar hafi verið í samræmi við lög og reglur. Ekkert deiliskipulag sé til fyrir umrædda lóð og hafi umsóknin því verið grenndarkynnt í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Við meðferð málsins hafi verið komið til móts við athugasemdir kæranda með því að stytta fyrirhugaðar svalir miðað við upprunaleg áform. Húsin á lóðunum nr. 54 og 56 standi hvort á sinni lóð og séu ekki eitt fjöleignarhús í skilningi fjöleignarhúsalaga. Eigi reglur þeirra laga um samþykki meðeigenda því ekki við í máli þessu. Rétt sé að taka fram að svipaðar svalir og hér um ræði séu á hússins nr. 54 við Bergstaðastræti og því megi ætla að flest þau rök sem kærandi tefli fram gegn umþrættum svölum eigi við um þær svalir. Jafnræðis að þessu leyti hafi verið gætt við umdeilda leyfisveitingu.

Málsrök leyfishafa: Byggingarleyfishafi andmælir kröfum kæranda og bendir á að um sé að ræða þéttbýlasta svæði borgarinnar og sé nánd milli fasteigna því mikil. Kæranda ætti að vera þetta ljóst og taka verði mið af þessum aðstæðum við mat á grenndarsjónarmiðum. Ekki sé fallist á að umdeildar svalir muni rýra verðgildi fasteignar kæranda heldur megi færa rök fyrir því að endurbætur á húsinu að Bergstaðastræti 56 muni virka á hinn veginn. Umdeildar svalir hafi m.a. þann tilgang að uppfylla kröfur um flóttaleiðir vegna bruna og verið sé að færa gamalt hús að nútímakröfum.

———

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Úrskurðarnefndarinnar hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi.

Niðurstaða: Í málinu er einungis deilt um leyfi fyrir svölum á húsinu að Bergstaðastræti 56 en ekki um þær breytingar innanhúss sem í hinu kærða byggingarleyfi felast.

Á svæðinu er ekki í gildi deiliskipulag og var hið kærða byggingarleyfi veitt að undangenginni grenndarkynningu svo sem heimilt er í þegar byggðum hverfum þar sem ekki er í gildi deiliskipulag, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Húsin að Bergstaðastræti 54 og 56 eru sambyggð og voru þau upprunalega ein húseign samkvæmt aðaluppdrætti frá 30. desember 1927. Húseigninni var síðar skipt í Bergstaðastræti 54 og 56 og samkvæmt aðaluppdrætti fyrir Bergstaðastræti 56 frá 12. maí 1959 var útliti hússins er breytt með því bæta við kvisti. Frá þeim tíma hafa útlitsbreytingar átt sér stað nokkrum sinnum á báðum húseignum án þess að gögn sýni að það hafi sérstaklega verið talið varða sameiginlegt útlit og heildarsvip húseignanna. Þó er áréttað af byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar í byggingarleyfi frá 5. apríl 2011 vegna stækkunar kvists á húsinu að Bergstaðastræti 54 að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Af framangreindu má ætla að húseignirnar að Bergstaðastræti 54 og 56 hafi frá 1959, hið minnsta, viðhaldið sjálfstæðu útliti og heildarsvip, þrátt fyrir að útveggir þess á norðurhlið mætist. Þá liggur fyrir að húsin standa hvort á sinni lóð og að eignaskiptayfirlýsingar hafi verið gerðar fyrir sín hvora húseignina, en fjöleignarhúsalög nr. 26/1994 gera ráð fyrir því að eignaskiptayfirlýsing sé gerð fyrir öll fjöleignarhús og að atbeina allra eða meirihluta eigenda þurfi til þess gernings, sbr. 16. gr. laganna. Með vísan til þessa lítur úrskurðarnefndin svo á að Bergstaðastræti 54 og 56 séu tvö sjálfstæð hús í skilningi áðurnefndra fjöleignarhúsalaga og eigi 30. gr. laganna sem áskilur samþykki meðeigenda því ekki við um hið kærða byggingarleyfi. Ennfremur er það álit úrskurðarnefndarinnar í ljósi alls framangreinds að ákvæði 2. mgr. 3. gr. fjöleignarhúsalaga, þess efnis að ákvæði laganna gildi eftir því sem við geti átt um þau atriði og málefni sem sameiginleg séu á milli tveggja eða fleiri sjálfstæðra húsa, s.s. útlit og heildarsvip ef því sé að skipta, eigi ekki við. Hafði kærandi því ekki íhlutunarrétt vegna hinnar umdeildu breytingar á grundvelli fjöleignarhúsalaga.

Ljóst er að kærandi hefur grenndarhagsmuna að gæta í málinu. Bakhliðar Bergstaðastrætis 54 og 56 liggja í vinkil til suðvesturs. Með vísan til legu og staðsetningar húsanna, stærð og gerð fyrirhugaðra svala, sem og staðsetningar nærliggjandi húsa, telur úrskurðarnefndin hins vegar að útsýnis- og birtuskerðing verði óveruleg. Hvað varðar friðhelgi einkalífs kæranda bendir úrskurðarnefndin á að staðsetning glugga í báðum byggingum er slík að sjónlína er nú þegar á milli vistarvera. Þá verður að líta til þess að nú þegar eru til staðar svalir á húsinu að Bergstaðastræti 54 þar sem kærandi býr. Tekur úrskurðarnefndin því undir þau jafnræðissjónarmið sem fram hafa komið af hálfu Reykjavíkurborgar. Loks má eðli máls samkvæmt gera ráð fyrir því að eitthvert almennt ónæði hljótist af því að búa í þéttbýli og er sú skerðing á friðhelgi einkalífs kæranda sem hann hefur haldið fram ekki umfram það sem búast má við. Verður því ekki fallist á að fyrirhuguð framkvæmd feli í sér slík grenndaráhrif að raski gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 30. október 2012 um að veita leyfi fyrir uppsetningu svala á suðvesturhlið 1., 2. og 3. hæðar fjölbýlishússins á lóð nr. 56 við Bergstaðastræti í Reykjavík. 

__________________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson

78/2014 Garðastræti

Með

Árið 2014, föstudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2014, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 27. maí 2014, um að veita leyfi til að hækka um eina hæð og ris með tveimur kvistum á götuhlið og svölum á gafli, byggja svalir á bakhlið og fjölga íbúðum úr tveimur í sex í húsi á lóð nr. 21 við Garðastræti í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. júlí 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir P, Garðastræti 16, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 27. maí 2014 um að veita leyfi til að hækka um eina hæð og ris með tveimur kvistum á götuhlið og svölum á gafli, byggja svalir á bakhlið og fjölga íbúðum úr tveimur í sex í húsi á lóð nr. 21 við Garðastræti, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og þess jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunar¬kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 28. júlí 2014.

Málavextir: Hinn 27. nóvember 2013 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð breytingu á deiliskipulagi Grjótaþorps vegna lóðarinnar við Garðastræti 21. Var breytingartillagan auglýst 23. desember 2013 í fjölmiðlum og á vef Reykjavíkurborgar og var veittur frestur til að skila inn athugasemdum til 7. febrúar 2014. Engar athugasemdir bárust. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. mars 2014. Hinn 10. júlí gaf byggingarfulltrúinn í Reykjavík út byggingarleyfi til Festa ehf. Var veitt leyfi til að hækka um eina hæð og ris með tveimur kvistum á götuhlið og svölum á gafli, byggja svalir á bakhlið og fjölga íbúðum úr tveimur í sex í húsi á lóð nr. 21 við Garðastræti.

Málsrök kæranda: Telur kærandi að framangreindar framkvæmdir eigi eftir að rýra virði fasteignar sinnar. Nýbyggingin muni skerða útsýni verulega, en útsýni og staðsetning fasteignarinnar hafi verið helstu ástæður kæranda fyrir kaupum á henni. Þá sé fyrirsjáanlegt að atvinnustarfsemi í húsinu, s.s. rekstur gistiheimilis, sé mjög á skjön við umgjörð hverfisins. Engin grenndar¬kynning hafi verið gerð vegna framkvæmdanna og hafi enginn íbúa í nágrenninu fengið tilkynningu um fyrirhugaðar framkvæmdir aðra en þá sem birt hafi verið á vef Reykjavíkur¬borgar 23. desember 2013.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er skírskotað til þess að hið kærða byggingarleyfi sé í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag. Vísað sé til 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að kæra fresti ekki réttaráhrifum. Þá sé ljóst að kjósi byggingarleyfishafi að halda framkvæmdum áfram, áður en efnisúrskurður liggur fyrir, geri hann það á eigin ábyrgð.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að byggingarleyfið sé gefið út í samræmi við gildandi deiliskipulag. Því sé mótmælt að hinar kærðu endurbætur eigi eftir að rýra virði fasteignar kæranda, þær stuðli frekar að fegrun götumyndar Garðastrætisins, til hagsbóta fyrir eigendur fasteigna við götuna. Ljóst sé að ekki sé hægt að tryggja öllum óhindrað útsýni í þéttbýli og sú skerðing sem kærandi verði að þola á útsýni frá íbúð sinni sé ekki meiri en fólk sem býr í þéttbýli þurfi almennt að þola. Ekki sé fyrirhugað að breyta notkun hússins líkt og ranglega sé haldið fram í kæru um að reka eigi gistiheimili þar. Sé áréttað að stöðvun framkvæmda við mannvirkið sé alvarlegt inngrip í umráða- og hagnýtingarrétt leyfishafa sem eiganda fasteignarinnar og myndi hafa í för með sér verulegt óhagræði og aukinn kostnað fyrir hann.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar byggingarleyfis vegna breytinga á húsi á lóð nr. 21 við Garðastræti þar sem breytingarnar hafi í för með sér neikvæð grenndaráhrif og rýri virði fasteignar kæranda. Hið umþrætta byggingarleyfi styðst við deiliskipulag Grjótaþorps með þeim breytingum sem tóku gildi 28. mars 2014. Hefur úrskurðarnefndinni ekki borist kæra vegna þeirrar deiliskipulagsbreytingar og er kærufrestur vegna hennar liðinn. Kemur deiliskipulagsbreytingin og möguleg áhrif hennar á grenndarhagsmuni kæranda því ekki til álita hér.

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það eitt skilyrða fyrir útgáfu byggingar¬leyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Samkvæmt áðurnefndu deiliskipulagi er gert ráð fyrir hækkun hússins að Garðastræti 21 um eina hæð svo það verði alls þrjá hæðir frá götu svo og hækkun rishæðarinnar. Einnig er gert ráð fyrir að ris verði með kvistum að götu og valma til suðurs og svölum. Húsið verði áfram íbúðarhús. Sé miðað við að varðveita stíleinkenni hússins, í múrverki, gluggum og kvistum, og stuðla þannig að því að halda heildarsvipmóti götunnar. Með hinu umdeilda byggingarleyfi er heimiluð hækkun um eina hæð og ris með tveimur kvistum á götuhlið og svölum á gafli. Þá er heimiluð bygging svala á bakhlið og fjölgun íbúða úr tveimur í sex. Af framangreindum lýsingum og með hliðsjón af samþykktum teikningum er ljóst að hið kærða byggingarleyfi samræmist gildandi deiliskipulagi sem ekki sætir endurskoðun og verður ekki ráðið af gögnum málsins að byggingarleyfið raski hagsmunum kæranda að öðru leyti. Í ljósi þess og þar sem ekki liggur fyrir að neinir þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð við útgáfu hins kærða byggingarleyfis að ógildingu varði er kröfu kæranda um ógildingu þess hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 27. maí 2014 um að veita leyfi til að hækka um eina hæð og ris með tveimur kvistum á götuhlið og svölum á gafli, byggja svalir á bakhlið og fjölga íbúðum úr tveimur í sex í húsi á lóð nr. 21 við Garðastræti í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Þorsteinn Þorsteinsson

106/2013 Austurtún

Með

Árið 2014, mánudaginn 1. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 106/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. október 2013, sem barst nefndinni 1. nóvember s.á., kæra H og S Austurtúni 18, Garðabæ, afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins Álftaness frá 16. ágúst 2007 á byggingarleyfi fyrir parhúsi að Austurtúni 18 og 20, Álftanesi. Bæjarráð samþykkti veitingu byggingarleyfisins hinn 30. s.m. Skilja verður málskot kærenda svo að að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Umsögn Garðabæjar í málinu ásamt fylgigagni bárust úrskurðarnefninni hinn 16. janúar 2014.

Málsatvik og rök: Umsókn um byggingarleyfi fyrir steinsteyptu parhúsi á einni hæð að Austurtúni 18 og 20 var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Álftaness 16. ágúst 2007. Lágu þar fyrir uppdrættir arkiteks að húsinu, dags. 15. ágúst 2007. Samþykkti nefndin að leggja til við bæjarstjórn að umsóknin yrði samþykkt, enda væri hún í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Kærendur festu kaup á húsinu að Austurtúni 18 á árinu 2011 og munu hafa flutt í húsið í byrjun árs 2012.

Kærendur skírskota til þess að skömmu eftir að fyrrgreint hús hafi verið tekið í notkun hafi borið á því að hljóðbærni í húsinu hafi verið með óeðlilegum hætti. Upplýsinga hafi verið aflað um hönnun hússins sem leitt hafi í ljós að hönnun þess væri ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, a.m.k. hvað varði hljóðvist. Venjuhelgað sé að parhús séu sérsteypt og aðskilin með einangrun á milli. Kærendur þekki til hljóðvistar milli íbúða í fjölbýlishúsum og hafi talið að hljóðvist í sérbýli yrði á annan veg en sú hafi ekki orðið raunin. Telja verði ljóst að hönnun hússins, bygging þess og frágangur sé ekki í samræmi við reglugerðarákvæði. Leitað hafi verið skýringa og tillagna um úrlausnir hjá embætti byggingarfulltrúa, hönnuði, umsjónaraðila tæknilegrar útfærslu og byggingarstjóra án þess að formleg svör hafi fengist. Af þeim sökum sé umdeilt byggingarleyfi kært til úrskurðarnefndarinnar í þeim tilgangi að fá fram ábyrgð þeirra sem ábyrgir séu fyrir hönnun hússins, veitingu byggingarleyfis og byggingu þess.

Af hálfu Garðabæjar er gerð sú krafa að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Umrætt byggingarleyfi hafi verið samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd og staðfest af bæjarráði Álftaness í ágústmánuði árið 2007. Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar skv. þágildandi skipulags- og byggingarlögum hafi verið einn mánuður og skv. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnsýslukæru ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun sé tilkynnt. Samkvæmt því sé kæra í máli þessu of seint fram komin. Kærendur hafi eignast umrætt húsnæði með kaupsamningi, dags. 14. desember 2011, eða löngu eftir að byggingarleyfi hússins hafi verið samþykkt og gefið út. Kæruefni máls þessa snúist um meintan ágalla á fasteigninni sem sé óviðkomandi afgreiðslu hins kærða byggingarleyfis. Kæruefnið heyri af þeim sökum ekki undir úrskurðarnefndina sem einnig leiði til frávísunar málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru til ársloka 2010, var frestur til að kæra stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga einn mánuður frá því að kæranda var, eða mátti vera, kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Sambærilegt ákvæði um kærufrest er nú að finna í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Fyrir liggur að kærendur festu kaup á fasteigninni að Austurtúni 18 í lok árs 2011 og fluttu í húsnæðið í byrjun árs 2012. Þá þegar mátti þeim vera ljóst að byggingarleyfi fyrir húsinu hafi verið samþykkt og gefið út enda húsið þá fullbyggt. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 1. nóvember 2013 eða hart nær tveimur árum eftir að kærendur festu kaup á eigninni og fluttu inn. Var hinn lögboðni kærufrestur löngu liðinn samkvæmt fyrrgreindum lagaákvæðum og ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

47/2014 Torfunefsbryggja

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 21. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 47/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júní 2014, sem barst nefndinni 5. s.m., kærir N, Álfabyggð, Akureyri, þá ákvörðun Akureyrarkaupstaðar frá 6. maí 2014 að samþykkja deiliskipulag fyrir miðbæ Akureyrar. Deiliskipulagið var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 22. júlí s.á.

Verður að skilja kæruna svo að krafist sé ógildingar á þeim hluta hins kærða deiliskipulags sem við kemur því svæði sem Torfunefsbryggja er staðsett á.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá Akureyrarbæ 23. og 30. júní 2014.

Málsatvik og rök: Kærandi er íbúi á Akureyri. Hinn 18. febrúar 2014 samþykkti bæjarstjórn Akureyrarbæjar að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir miðbæ Akureyrar. Samkvæmt deiliskipulagstillögunni var gert er ráð fyrir þremur austur-vestur ásum sem myndu liggja þvert á helstu umferðaræðar til að styrkja leiðir á milli miðbæjarins og Torfunefsbryggju. Koma átti fyrir nýjum safnstæðum á vegum Akureyrarbæjar á fyllingu við Torfunef, fyllingu austan Hofs, við Ráðhús, Hólabraut og Smáragötu. Að auki átti að samtvinna miðbæinn betur við hafnarsvæðið með byggingum fyrir almenning og skapa umgjörð um líf á svæðinu. Var miðað við að efla höfnina og Pollinn sem útivistarsvæði t.d. með lægi fyrir skemmtiferðaskip, aðstöðu fyrir smábáta, skútur og aðra skemmtibáta sem og brottfararstað fyrir skoðunarferðir á sjó. Að lokum var gert ráð fyrir nýjum byggingum á svæði Torfunefs til að skapa umgjörð endurbættrar hafnar.

Frestur til að skila inn athugasemdum var frá 21. febrúar til 6. apríl 2014. Alls bárust 22 athugasemdir, þ.á m. frá kæranda þar sem hann gerði athugasemd við þau áform bæjarins að afmá og eyða sögulegum menningarminjum Torfunefsbryggju. Var athugasemd kæranda svarað með bréfi skipulagsstjóra dags. 8. maí s.á. þess efnis að deiliskipulagstillagan gerði ekki ráð fyrir að afmá og eyða Torfunefsbryggju heldur væri þvert á móti gert ráð fyrir að hún yrði endurbyggð og lengd. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi vegna greinds svars og var hann veittur með bréfi skipulagsstjóra, dags. 3. júní s.á, þar sem nánari grein var gerð fyrir deiliskipulagstillögunni hvað varðaði Torfunefsbryggju. Var áréttað að ekki væri um endanlega útfærslu á svæðinu að ræða og að fullt samráð yrði haft við Hafnasamlag Norðurlands og Minjastofnun Íslands í samræmi við minjalög þar sem elsti hluti bryggjunnar væri eldri en 100 ára.

Deiliskipulagstillagan var samþykkt af bæjarstjórn Akureyrarbæjar 6. maí 2014 og tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 22. júlí s.á.

Kærandi telur að áformað sé að taka bryggjusvæðið undir bílastæði auk þess sem gera eigi langan viðlegukant fyrir skemmtiferðaskip. Hafi það í för með sér að gera þurfi háa mannhelda girðingu til að uppfylla alþjóðareglur um hafnaröryggi. Sé ekki hægt að fallast á að um endurgerð mannvirkis, sem teljist til fornminja, sé að ræða. Virðist sem fara eigi á svig við almennan vilja bæjarbúa um að haldið verði í bryggjuna og sé einnig farið gegn landslögum þar sem bryggjan sé orðin meira en 100 ára og njóti því verndar skv. lögum um menningarminjar. Framkvæmdirnar muni því hafa í för með sér varanlega eyðileggingu á mannvirki sem hafi mikið sögulegt og menningarlegt gildi. Hljóti að þurfa að fara fram ítarleg úttekt og skráning á minjunum.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að samkvæmt deiliskipulagstillögunni, nú samþykktu deiliskipulagi, sé gert ráð fyrir uppfyllingu á milli dælustöðva og bryggju til að hægt sé að koma fyrir bílastæðum og byggingarreitum fyrir aðstöðuhús sem muni tengjast ferðamannaiðnaði. Ekki sé gert ráð fyrir skemmtiferðaskipum við Torfunefsbryggju heldur minni bátum s.s. fyrir hvalaskoðun og útsýnissjóferðir. Þá sé áréttað að ekki sé um endanlega útfærslu á svæðinu að ræða. Framkvæmdarleyfi mun byggja á frekari hönnunargögnum sem unnin verði í fullu samráði við Hafnasamlag Norðurlands og Minjastofnun Íslands. Þótt gert sé ráð fyrir breytingum samkvæmt deiliskipulagi á umhverfi við Torfunefsbryggju muni staða og útlit bryggjunnar halda sér. Þá muni lenging bryggjunnar ekki hafa áhrif á eldri hluta Torfunefsbryggju. Sá skortur sem kærandi nefni varðandi samráð við opinberar stofnanir hafi farið fram í skipulagsferlinu og muni einnig fara fram m.a. við Minjastofnun Íslands áður en framkvæmdir hefjist.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Í kæru vísar kærandi til almenns vilja bæjarbúa sem og hættu á að menningararfleifð og sögu Akureyrar verði raskað og spillt. Eins og málið liggur fyrir úrskurðarnefndinni er hins vegar ekki ljóst með hvaða hætti hin kærða deiliskipulagsákvörðun, hvað Torfunefsbryggju varðar, snertir lögvarða hagsmuni kæranda þannig að skapi honum kæruaðild. Þá eiga undantekningartilvik nefndrar lagagreinar ekki við í málinu. Þar sem ekki þykir sýnt fram á kæruaðild í málinu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

54/2013 Glammastaðir

Með

Árið 2014, föstudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2013, kæra á drætti á afgreiðslu Hvalfjarðarsveitar á umsókn Glammastaða ehf., dags. 18. mars 2013, um skiptingu á landi Glammastaða í Hvalfjarðarsveit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til innanríkisráðuneytisins, dags. 11. júní 2013, er framsent var 12. s.m. til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem móttekið var 14. s.m., kæra Glammastaðir ehf., Rauðarárstíg 1, Reykjavík, drátt á afgreiðslu Hvalfjarðarsveitar á umsókn félagsins frá 18. mars 2013 um skiptingu á landi Glammastaða í Hvalfjarðarsveit.

Þess er krafist að lagt verði fyrir sveitarfélagið að taka nú þegar áðurgreinda umsókn til efnislegrar afgreiðslu.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Hvalfjarðarsveit 15. júlí 2013, og viðbótargögn 23. desember s.á. og 23. ágúst 2014.

Málavextir: Hinn 19. febrúar 2013 var tekið fyrir í umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar erindi kæranda þar sem sótt var um skiptingu lands úr jörðinni Glammastaðir. Hinn 18. mars s.á. var ný umsókn lögð fram af hálfu kæranda til Hvalfjarðarsveitar og var fyrra erindi kæranda afturkallað með bréfi, dags. 4. apríl s.á. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar, dags. 17. apríl 2013, var Félagi landeigenda í Glammastaðalandi gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum vegna umsóknar kæranda og lýsti lögmaður félagsins sjónarmiðum þess í bréfi, dags. 14. maí s.á. Á fundi umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar hinn 5. júlí s.á. var lagt til að fresta afgreiðslu á umsókn kæranda þar til fyrir lægi samþykki eigenda aðliggjandi lands. Er því lýst í minnisblaði sveitarfélagsins, dags. 26. ágúst s.á., að á fundi með skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins 21. s.m. hafi eigandi jarðar aðliggjandi Glammastöðum lýst ákveðnum áhyggjum varðandi uppdrátt landspildu Glammastaða 2 og var niðurstaða fundarins skráð hvað varðar hnitpunkta, línur á milli hnitpunkta og texta uppdráttarins. Hinn 30. september 2013 átti kærandi fund með skipulagsfulltrúa og sveitarstjóra Hvalfjarðarsveitar og mun kærandi hafa gert grein fyrir því að hann ætlaði ekki að afla samþykkis umræddra aðila og óskaði þess jafnframt að málið yrði aftur tekið fyrir í umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd. Skipulagsfulltrúi sendi kæranda bréf, dags. 2. október 2013, þar sem því er lýst að sveitarfélagið ætli að koma til móts við kæranda og óska eftir samþykki eigenda aðliggjandi lands fyrir stofnun fasteignarinnar Glammastaða 2 í fasteignaskrá. Skipulagsfulltrúi ítrekaði við kæranda með bréfi, dags. 28. október s.á., að sveitarfélagið ætlaði að óska eftir samþykki eigenda aðliggjandi lands og var þess óskað að kærandi myndi senda lagfærðan uppdrátt svo hægt yrði að afla greinds samþykkis.

Málsrök kæranda: Kærandi gerir athugasemd við málshraða Hvalfjarðarsveitar við afgreiðslu á umsókn hans. Hafi óútskýrður dráttur verið á málinu af hálfu sveitarfélagsins og telji kærandi að sveitarfélagið hafi á ólögmætan hátt dregið að afgreiða erindið með tilvísanir í ótengd atriði. Máli sínu til stuðnings bendi kærandi á athugasemdir skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins við uppdrætti, en uppdráttum hafi verið breytt allt að sex sinnum að ósk fulltrúans. Þá hafi aðkoma Félags landeigenda í Glammastaðalandi og fulltrúa greindra nágrannajarða ekki verið þörf og málsástæður þeirra að auki verið tilhæfulausar. Almennar útskýringar á drætti á afgreiðslu Hvalfjarðarsveitar séu haldlausar.

Málsrök Hvalfjarðarsveitar: Af hálfu Hvalfjarðarsveitar er tekið fram að mál kæranda hafi tafist í upphafi vegna nýs erindis frá kæranda sem orðið hafi til þess að fyrra erindi var afturkallað og nýtt mál tekið til meðferðar. Eftir að leitað hafi verið eftir sjónarmiðum Félags landeigenda í Glammastaðalandi hafi málið verið tekið fyrir á fundi umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar Hvalfjarðarsveitar hinn 21. maí 2013. Í lok maímánaðar 2013 hafi skipulags- og byggingarfulltrúi Hvalfjarðarsveitar hætt störfum og mannabreytingar sem í kjölfarið hafi fylgt með tímabundnum ráðningum og ráðningu nýs byggingarfulltrúa tafið málið. Þá hafi sveitarfélaginu ekki borist gögn þau er beðið var um með bréfi til kæranda, dags. 28. október 2013.

Niðurstaða: Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Kæran í máli þessu lýtur að drætti á afgreiðslu Hvalfjarðarsveitar á umsókn Glammastaða ehf. um skiptingu á landi Glammastaða í Hvalfjarðarsveit, sbr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Er málinu því réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar.

Þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 14. júní 2013 voru um þrír mánuðir liðnir frá því að umsókn kæranda barst Hvalfjarðarsveit. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að síðan þá hafi sveitarfélagið unnið að málinu þrátt fyrir tafir vegna mannabreytinga. Fyrir liggur að hinn 5. júlí 2013 hafi umhverfis-, skipulags og náttúruverndarnefnd lagt til að fresta afgreiðslu á umsókn kæranda þar til fyrir lægi samþykki eigenda aðliggjandi lands, að því hafi verið unnið og kærandi upplýstur þar um á fundi 30. september s.á. og með bréfi, dags. 2. október s.á. Var kæranda send beiðni um frekari gögn með bréfi, dags. 28. s.m.

Að mati úrskurðarnefndarinnar eru viðhlítandi skýringar á þeim drætti sem orðinn var á afgreiðslu umsóknar kæranda þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Frá þeim tíma og til loka október s.á. var málið í vinnslu og kærandi upplýstur þar um á fundum og í bréfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Með bréfi, dags. 28. október 2013, óskaði skipulagsfulltrúi eftir lagfærðum uppdrætti frá kæranda og lítur úrskurðarnefndin svo á að með því hafi sveitarfélagið leitast við að uppfylla skyldur sínar samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga áður en ákvörðun yrði tekin í málinu. Verður að telja að kærandi hafi, með því að verða ekki við þeirri beiðni, að hluta til verið valdur að þeim töfum sem urðu á afgreiðslu málsins í framhaldinu.

Hins vegar leiðir það af málshraðareglunni að sveitarfélaginu ber að sjá til þess að máli sé eðlilega fram haldið og felst í því m.a. að gefa ekki lengri fresti en til þarf. Kæranda var ekki gefinn frestur til að skila umbeðnu gagni og liggur ekki fyrir að sveitarfélagið hafi ítrekað þá beiðni sína. Þá liggur fyrir að á fundi með fulltrúum sveitarfélagsins lýsti kærandi því yfir að hann myndi ekki afla samþykkis eigenda aðliggjandi lands og óskaði þess jafnframt að málið yrði tekið fyrir aftur af umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd. Verður að telja að í ljósi framangreinds hafi sveitarfélaginu verið skylt að gera reka að því með virkum hætti að ljúka gagnaöflun, eftir atvikum með því að leiðbeina kæranda um möguleg réttaráhrif þess að umbeðin gögn yrðu ekki látin í té fyrir tiltekinn tíma, og komast að því loknu að niðurstöðu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Verður ekki hjá því komist að telja að nú, tæpum tíu mánuðum frá því að kærandi var beðinn um gögn, sé dráttur á afgreiðslu málsins orðinn óhæfilegur, enda hefur ekkert gerst í málinu frá þeim tíma samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu. Er því lagt fyrir umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að taka umsókn kæranda til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að taka umsókn kæranda frá 18. mars 2013 um skiptingu á landi Glammastaða í Hvalfjarðarsveit til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Þorsteinn Þorsteinsson