Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

41/2014 Skráningargjald

Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 41/2014, kæra vegna gjalds til að standa undir kostnaði vegna skráninga og reksturs skráningarkerfis fyrir framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. maí 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir D, innheimtu skráningar- og árgjalda skráningarkerfis framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 18. júní 2014.

Málsatvik og rök: Kæranda barst bréf Umhverfisstofnunar, dags. 10. júní 2013, sem lýsti breyttu fyrirkomulagi við tollafgreiðslu raf- og rafeindatækja frá 1. september s.á. Var með bréfinu tilkynnt að stofnunin stæði fyrir kynningarfundi um þetta efni 24. júní s.á. Jafnframt var upplýst um möguleika til skráningar og nota á skilakerfum sem og kostnað því tengdu.

Samkvæmt kæru stóð kærandi fyrir innflutningi á vörum í nóvember 2013, greiddi gjald vegna þess í gegnum skilakerfi og árgjald samkvæmt reikningi í febrúar 2014.

Kærandi vísar til bréfs Umhverfisstofnunar frá 10. júní 2013 þar sem útskýrt sé hvernig nýtt skilakerfi fyrir raftæki eigi að virka. Ef aðili þurfi eða vilji flytja inn vörur í atvinnuskyni með ákveðna tollflokka þá sé einfaldlega ekki heimilt að gera það án þess að vera aðili að kerfinu. Í bréfinu komi skýrt fram að ódýrara sé að skrá sig hjá skilakerfi en hjá Umhverfisstofnun, kr. 6.000 fyrir skráningu og kr. 3.000 í árgjald fyrir einstakling hjá Umhverfisstofnun en kr. 2.000 í skráningargjald og kr. 1.000 í árgjald sjái skilakerfi um skráningu. Ekkert komi fram um að skilakerfin séu með ólíka verðskrá. Hafi kærandi þurft að skrá sig hjá skilakerfi vegna innflutnings vara í nóvember 2013. Við það hafi hann þurft að greiða kr. 5.000 í skráningargjald og seinna kr. 2.000 í árgjald. Þegar hann hafi kvartað yfir þessu við Umhverfisstofnun hafi hann fengið þau svör að stofnunin beri ekki ábyrgð á því hvort þessi fyrirtæki innheimti umsýslugjald. Umhverfisstofnun eigi að biðjast afsökunar á þessari framkvæmd og endurgreiða það sem oftekið hafi verið.

Umhverfisstofnun bendir á að hvorki liggi fyrir hvaða aðili sé að kæra framkvæmd eða ákvörðun stofnunarinnar né hvort um sé að ræða kæru á sérstakri stjórnvaldsákvörðun eða lagaframkvæmd sem sé röng. Þá séu lögvarðir hagsmunir kæranda óljósir. Í bréfi Umhverfisstofnunar um breytt fyrirkomulag við tollafgreiðslu raf- og rafeindatækja, dags. 10. júní 2013, sé útskýrð skylda viðkomandi aðila til aðildar að skilakerfi. Jafnframt verði þeir aðilar að vera skráðir í skráningarkerfi innflytjenda og framleiðenda. Byggi þessar kröfur á ákvæðum VII. kafla laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og reglugerðar nr. 1104/2008, um raf- og rafeindatækjaúrgang. Í bréfinu bendi stofnunin á þau tvö skilakerfi sem séu starfandi í dag. Í 19. gr. þáverandi gjaldskrár Umhverfisstofnunar, nr. 446/2012, segi að Umhverfisstofnun innheimti gjald til að standa undir kostnaði vegna skráninga og reksturs skráningarkerfis fyrir framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja skv. 36. gr. laga nr. 55/2003. Gjaldið sé tvíþætt, annars vegar skráningargjald, kr. 6.000, og hinsvegar árgjald, kr. 3.000. Sjái skilakerfi um skráninguna lækki skráningargjaldið til stofnunarinnar í kr. 2.000 og árgjaldið í kr. 1.000. Ástæðan fyrir lægra gjaldi fyrir skilakerfi sé sú að umsýsla sé mun minni þegar stofnunin innheimti gjöldin hjá einum aðila í stað allt að 20 til 80 aðila í hverjum mánuði. Augljóst sé að kærandi hafi ekki kynnt sér reglurnar nægilega vel. Skilakerfin séu sjálfstætt starfandi og stofnunin taki ekki ábyrgð á mögulegu umsýslugjaldi þeirra fyrir veitta þjónustu.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála, skal kæra til nefndarinnar vera skrifleg og undirrituð. Þar skal koma fram hver er kærandi, hvaða ákvörðun er kærð, kröfur kæranda og rök fyrir kæru.

Kæra í máli þessu barst með tölvupósti og er undirrituð með nafni kæranda, en engu kenninafni. Frekari upplýsingar um kæranda er ekki að finna í kærunni, t.d. hvert heimilisfang hans er eða kennitala. Við ítrekaðar tilraunir úrskurðarnefndarinnar til að hafa samband við kæranda á tölvupóstfang hans bárust tilkynningar til baka um að enginn móttakandi væri með nefnt tölvupóstfang. Ekki er um fleiri leiðir að ræða til að hafa upp á kæranda. Ljóst er því að ekki liggja fyrir nægilegar upplýsingar til að staðreyna hver kærandi er.

Eftir því sem næst verður komist er kært í máli þessu vegna framkvæmdar á reglum í þágildandi gjaldskrá nr. 446/2012 og núgildandi gjaldskrá nr. 1281/2013 fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar. Er og kvartað yfir leiðbeiningum stofnunarinnar vegna nefndra reglna. Um er að ræða innheimtu á gjaldi til að standa undir kostnaði vegna skráninga og reksturs skráningarkerfis fyrir framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja, sbr. 36. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Virðist umkvörtunarefni kæranda helst það að hann hafi þurft að greiða hærra gjald vegna skráningar í skilakerfi til rekstraraðila kerfisins en þá upphæð sem komið hafi fram í bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 10. júní 2013. Er illskiljanlegt hvort og þá hvaða ákvörðun liggur til grundvallar kærunni.

Með hliðsjón af framangreindu fullnægir kæra málsins ekki áskilnaði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Nanna Magnadóttir